Hoppa yfir valmynd

Verklagsreglur úrskurðarnefndar um upplýsingamál


1. gr.

Verkefni úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er sjálfstæð og óháð úrskurðarnefnd. Hún fjallar um mál sem til hennar er beint á grundvelli kæruheimildar í  3. mgr. 17. og 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig fjallar nefndin um beiðnir um frestun réttaráhrifa skv. 16. gr. upplýsingalaga og endurupptöku máls. Um störf nefndarinnar gilda ákvæði upplýsingalaga, stjórnsýslulaga og almennar grundvallarreglur sem gilda um starfsemi stjórnvalda.

2. gr.

Kærur

Sá sem synjað hefur verið um aðgang að upplýsingum eða verið neitað um afrit af gagni samkvæmt lögunum getur verið aðili að kærumáli til úrskurðarnefndarinnar. Sama gildir hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar. Kæra skal vera skrifleg og fram komin innan 30 daga frá því að aðila barst tilkynning um synjun stjórnvalds, sbr. 16. gr. upplýsingalaga. Rafræn kæra er jafngild bréflegri.

Heimilisfang nefndarinnar er í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, 101 Reykjavík. Heimilt er að senda kærur til nefndarinnar og fylgigögn einungis rafrænt á vefpóstfangið [email protected]. Einnig er unnt að senda kæru til nefndarinnar með því að fylla út rafrænt eyðublað á vef Stjórnarráðsins.

3. gr.

Verkaskipting

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er ábyrg fyrir meðferð kærumála og úrskurðum nefndarinnar. Úrskurðarnefndin tekur ákvörðun um það hverju sinni hvort leita skuli aðstoðar eða ráðgjafar sérfróðra aðila skv. 2. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Formaður úrskurðarnefndarinnar hefur umboð hennar til að skipuleggja meðferð mála milli funda, þ.m.t. til að taka ákvarðanir um rannsókn þeirra og gagnaöflun. Formaður hefur einnig umboð nefndarinnar til að skipuleggja undirbúning úrskurða til framlagningar fyrir nefndina til afgreiðslu.

Ritari úrskurðarnefndarinnar sér um framkvæmd verkefna samkvæmt 2. mgr., eftir fyrirmælum og að höfðu samráði við formann, og veitir þeim sem til nefndarinnar leita viðeigandi leiðbeiningar um störf hennar og annað sem tilheyrir daglegum störfum stjórnvaldsins. Ritari úrskurðarnefndarinnar undirritar bréf í þessu skyni í umboði formanns. Ritari úrskurðarnefndarinnar skal jafnframt semja drög að úrskurðum nefndarinnar.

4. gr.

Málsmeðferð og viðmið um málshraða

Ritari úrskurðarnefndarinnar skal þegar í stað kynna sér efni innkominna erinda og taka afstöðu til viðbragða við þeim. Hann skal jafnframt, eftir atvikum að höfðu samráði við formann, sjá um að nauðsynleg bréf af því tilefni séu rituð og send svo fljótt sem verða má.

Málsmeðferð skal vera formleg eftir því sem kostur er. Heimilt er að málsmeðferð fari einungis fram rafrænt en veita skal kost á því að gögn verði send með bréfpósti.

Í því skyni að tryggja skilvirka og skjóta meðferð mála skal áhersla lögð á eftirtalda þætti:

  1. Að strax sé skoðað hvort kæra er tæk til efnismeðferðar.
  2. Að leitt sé í ljós svo fljótt sem auðið er hvort ástæða er til að afla afstöðu einkaaðila sem upplýsingar varða og ekki er jafnframt aðili máls til kæruefnis.
  3. Að strax sé kannað hvort skýringar sem hinn kærði lætur úrskurðarnefndinni í té séu fullnægjandi, þar á meðal hvort öll nauðsynleg gögn hafi verið afhent nefndinni.
  4. Að ávallt þegar úrskurðarnefndin óskar svars við erindi þá sé viðtakanda settur frestur til svars og þeim fresti fylgt eftir af festu og með formlegum erindum
  5. Að úrskurður sé birtur kæranda og þeim sem kæra beinist að svo fljótt sem verða má en að jafnaði innan 150 daga frá móttöku hennar.

5. gr.

Viðmið um sérstaka tímafresti

Skjalavörður skal skrá fram komna kæru í málaskrá eigi síðar en næsta virka dag eftir að hún berst. Um leið og kæra er skráð skal ritara nefndarinnar tilkynnt um hana.

Ritari skal kynna sér efni innkominna erinda eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að þau berast nefndinni.

Ritari skal hafa ritað og sent, fyrir hönd formanns, viðeigandi bréf vegna innkominna erinda að jafnaði ekki síðar en fjórum virkum dögum eftir að þau hafa borist nefndinni.

Viðtakendum erinda frá úrskurðarnefndinni skal veittur hæfilegur frestur til að svara erindinu.

6. gr.

Mála- og skjalaskrár

Kærur skulu skráðar í málaskrá úrskurðarnefndarinnar. Þar skulu jafnframt vistuð öll gögn sem henni tengjast. Skjalavörður forsætisráðuneytisins sér um skjalavörslu fyrir hönd úrskurðarnefndarinnar. Komi upp vafi um það hvað skal skráð í málaskrá skal leita fyrirmæla formanns úrskurðarnefndarinnar um það atriði.


Samþykkt á fundi úrskurðarnefndar um upplýsingamál
13. desember 2019

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum