Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er starfrækt á grundvelli V. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012 til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem skipað er til hliðar við hið almenna stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Valdsvið nefndarinnar nær til allrar stjórnsýslu hins opinbera án tillits til á hvaða stjórnsýslustigi ákvörðun er tekin. Aðili þarf því ekki að tæma aðrar kæruleiðir innan stjórnsýslunnar áður en til hennar er leitað. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir og verður ekki skotið annað innan stjórnsýslunnar. Þeir hafa því jafnframt fordæmisgildi fyrir önnur stjórnvöld og stuðla þannig að auknu samræmi í framkvæmd upplýsingalaganna. Sjá nánar um kæruheimild og verklagsreglur nefndarinnar

Skipan úrskurðarnefndar

Samkvæmt 21. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skipar forsætisráðherra þrjá menn í úrskurðarnefnd um upplýsingamál til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Tveir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar en hinn varaformaður. Nefndarmenn mega ekki vera fastráðnir starfsmenn í Stjórnarráði Íslands. Sjá skipan úrskurðarnefndar.

Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og óháð öðrum stjórnvöldum. Nefndin nýtur þó ritara og skrifstofuþjónustu úr forsætisráðuneytinu og má beina kærum til nefndarinnar þangað á netfangið [email protected]. Einnig er unnt að senda kæru til nefndarinnar með því að fylla út rafrænt eyðublað á vef Stjórnarráðsins, mínar síður (sjá leiðbeiningar um notkun á mínum síðum).

Ritari úrskurðarnefndarinnar er Egill Pétursson, netfang: [email protected].

Hér fyrir neðan eru allir úrskurðir nefndarinnar. Á annari síðu er hægt að nota fullkomnari leit sem tekur t.d. tillit til beyginga orða og þar er einnig hægt að leita innan ákveðins árs.

Áskriftir
NúmerÚrdrátturEfni
763/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Kærandi kærði ákvörðun Háskóla Íslands um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum í tengslum við umsókn um starf lektors í heimspeki. Þar sem kærandi var meðal umsækjenda um starfið tók úrskurðarnefndin fram að um upplýsingarétt hans færi skv. stjórnsýslulögum. Var kæru því vísað frá úrskurðarnefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 763/2018 í máli ÚNU 18080006. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 22. ágúst 2018, kærði A synjun Háskóla Íslands á beiðni um aðgang að tilteknum upplýsingum í tengslum við umsókn hennar um starf lektors í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.<br /> <br /> Atvik málsins eru þau að þann 1. mars 2018 var starf lektors í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands auglýst laust til umsóknar. Kærandi var meðal umsækjenda um starfið. Með bréfi, dags. 29. júní 2018, var kæranda tilkynnt að B yrði boðið starfið. Með tölvupósti, dags. 17. júlí 2018, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðstöfun starfsins. Sá rökstuðningur barst kæranda með tölvupósti, dags. 8. ágúst 2018. Með tölvupósti, dags. 13. ágúst 2018, óskaði kærandi því næst eftir frekari gögnum, m.a. í tengslum við mat á umsókn kæranda í ráðningarferlinu. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst 2018, var kæranda afhentur hluti þeirra gagna sem óskað hafði verið eftir. Að öðru leyti var beiðninni synjað þar sem um vinnuskjöl væri að ræða og næði réttur til aðgangs þar með ekki til þeirra, sbr. nánar tilgreind ákvæði upplýsingalaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að lokum var kæranda bent á að ákvörðun um synjun væri í þessu tilviki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi óski eftir útprenti valnefndar af kennslukönnunum, gögnum sem kærandi sendi inn með umsókn sinni og upplýsingar um hvernig þau voru nýtt, auk annarra gagna sem notuð voru við lokaákvörðun um ráðningu í starfið.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Fyrir liggur í máli þessu að kærandi var meðal umsækjenda um starf lektors í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga. Um aðgang hans að upplýsingum sem tengjast því stjórnsýslumáli fer því skv. 15.-19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir enn fremur að ákvarðanir um aðgang að gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga verða ekki kærðar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál heldur ber að beita sérstakri kæruheimild í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. A-538/2014. Því fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og verður að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A á hendur Háskóla Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> varaformaður<br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

762/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Starfsmaður fjölmiðils kærði ákvörðun Endurmenntunar Háskóla Íslands um synjun beiðni um upplýsingar um rekstrarkostnað og tap frá árinu 2011. Hin kærða ákvörðun byggðist á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings og því ber að skýra það þröngri lögskýringu. Því næst fór nefndin í gegnum skilyrði beitingar ákvæðisins og komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunir Endurmenntunar af því að umbeðnar upplýsingar færu leynt vægju ekki þyngra en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að þeim. Var því lagt fyrir Endurmenntun að veita kæranda aðgang að upplýsingunum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð 762/2018 í máli ÚNU 18020008. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 19. febrúar 2018, kærði A synjun Endurmenntunar Háskóla Íslands á beiðni um aðgang að upplýsingum um annars vegar áætlaðan rekstrarkostnað Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011 og hins vegar rekstrarhagnað eða rekstrartap Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011. <br /> <br /> Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir tilteknum upplýsingum um Endurmenntun Háskóla Íslands með tölvupósti, dags. 27. nóvember 2017. Beiðninni var svarað með tölvupósti, dags. 4. desember 2017. Þann 6. desember 2017 óskaði kærandi svo eftir formlegu svari frá Endurmenntun um annars vegar áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar á hverju ári frá árinu 2011 og hins vegar rekstrarhagnað eða rekstrartap hennar á hverju ári frá árinu 2011.<br /> <br /> Eftir nokkur bréfaskipti við Endurmenntun var beiðni kæranda synjað með tölvupósti, dags. 22. janúar 2018, með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Fram kom að það sé mat stofnunarinnar að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að aðgangur að upplýsingunum sé takmarkaður, þar sem um sé að ræða upplýsingar um viðskipti stofnunar í eigu ríkis sem sé í samkeppni við aðra, sbr. orðalag ákvæðisins. Endurmenntun sé fræðslu-, þróunar- og þjónustustofnun sem starfrækt sé af Háskóla Íslands, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. og 23. gr. a laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Stofnunin starfi á markaði fræðslu og endurmenntunar í samkeppni við aðra fræðsluaðila. Það sé mat stofnunarinnar að afhending upplýsinganna geti skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu hennar, enda sé um að ræða upplýsingar sem samkeppnisaðilar stofnunarinnar þurfi ekki að birta og myndi hagnýting samkeppnisaðila á þeim gera stofnuninni ókleift að starfa á jöfnum grundvelli. Ákvæði 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga hafi einmitt verið sett til þess að koma í veg fyrir að aðilum á borð við Endurmenntun, sem keppi á markaði við einkaaðila, sé skylt að veita slíkar upplýsingar um stöðu sína, sbr. athugasemdir í greinargerð með frumvarpi laganna. Meginsjónarmiðið að baki ákvæðinu sé að opinberir aðilar geti staðið jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum. Í þessu sambandi sé sérstaklega tekið fram að markmið laganna sé m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum sé varið. Endurmenntun sé hins vegar alfarið rekin fyrir sjálfsaflafé, þ.e. njóti engra opinberra fjárframlaga, og þar með séu ekki fyrir hendi neinir hagsmunir almennings af því að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinbers fjár. <br /> <br /> Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að Endurmenntun sé fræðslu-, þróunar- og þjónustustofnun starfrækt af Háskóla Íslands, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. og 23. gr. a laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Fyrir liggi að hún nýti sér m.a. starfsfólk Háskóla Íslands í sinni starfsemi. Þrátt fyrir að Endurmenntun haldi því fram að algjör aðskilnaður sé í rekstri Endurmenntunar og Háskóla Íslands, og að Endurmenntun starfi í samkeppnisumhverfi, þá birti Endurmenntun ekki sérstaklega ársreikning um starfsemi sína. Það hafi stofnunin ekki gert frá árinu 2011, en hafi hins vegar gert það fram að því. Síðan sú breyting hafi verið gerð hafi ekki verið fjárhagslegur aðskilnaður milli Endurmenntunar og Háskóla Íslands, sem sannarlega sé á fjárlögum, heldur séu einu aðgengilegu upplýsingar um rekstur Endurmenntunar að finna í ársreikningum Háskóla Íslands. Þess utan sé heimild til reksturs Endurmenntunar fengin úr lögum um opinbera háskóla. Það leiki enginn vafi á því að Háskóli Íslands fái rekstrarfé úr ríkissjóði.<br /> <br /> Fram kemur í kærunni að miklir samkeppnislegir hagsmunir standi til þess að upplýsingar um rekstur Endurmenntunar verði gerðar opinberar. Aðilar sem keppi við þjónustustofnunina á samkeppnismarkaði eigi sannarlega rétt á að þær séu gerðar opinberar. Það eigi almenningur allur einnig, þar sem réttur hans til að vita hvernig farið sé með almannafé sé ríkari en réttur þeirra sem reka þjónustustofnanir til að halda þeim upplýsingum leyndum. Þá sé einkennilegt, í ljósi þess að Endurmenntun segist ekki vera stofnun sem rekin sé í hagnaðarskyni, að hún beri fyrir sig framangreind rök fyrir því að veita ekki rekstrarupplýsingar. Þess utan sé fjarstæðukennt að halda því fram að ríkir almannahagsmunir standi til þess að halda upplýsingum um starfsemi þjónustustofnunar í eigu ríkisins frá almenningi. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, var Endurmenntun Háskóla Íslands kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Endurmenntunar Háskóla Íslands, dags. 5. mars 2018, er meðal annars vísað til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögunum. Með ákvæðinu hafi löggjafinn ákveðið að stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins sé heimilt að reka starfsemi í samkeppni við einkaaðila á markaði. Almennt sé forsenda slíkrar samkeppni rekstrarlegur aðskilnaður milli viðkomandi stofnunar og ríkisins. Hugsunin sé einfaldlega sú að aðilar á markaði skuli standa jafnfætis í þessum efnum. Hin hliðin á þessum peningi sé svo að stofnanir eða fyrirtæki í eigu ríkisins, sem sé rekstrarlega aðskilin hinu opinbera, þurfi ekki að láta af hendi upplýsingar að því leyti sem þau séu í samkeppni við aðra, sbr. 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, enda væri þá ekki jafnræði með þeim og einkaaðilum. Því fái ekki staðist að stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins, sem keppi við einkaaðila á rekstrarlegum jafnræðisgrundvelli, sé gert að láta af hendi viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar, sem samkeppnisaðilar geti kynnt sér, án þess að hin sama skylda hvíli á herðum viðkomandi samkeppnisaðila. Auðsætt sé að 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga sé ætlað að koma í veg fyrir slíka samkeppnisröskun. Að því er varði Endurmenntun sérstaklega sæki stofnunin heimild sína til rekstrar m.a. í 23. gr. a og 24. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Í lögskýringargögnum með þeim lögum sé ótvírætt gert ráð fyrir tilvist stofnunarinnar og að hún starfi á samkeppnismarkaði.<br /> <br /> Þá er bent á að í ákvæði f.-liðar 2. mgr. 24. gr. laganna komi fram að háskóla sé heimilt að afla sér tekna til viðbótar við framlög skv. 1. mgr. (þ.e. fjárveiting á fjárlögum) með gjöldum fyrir fræðslu fyrir almenning en vísað er til athugasemda greinargerðar með frumvarpi til breytingalaga um opinbera háskóla nr. 50/2010. Sá bókhaldslegi aðskilnaður sem löggjafinn hafi gert ráð fyrir sé algjör í tilviki Endurmenntunar og Háskóla Íslands. Stofnunin þiggi engin framlög frá Háskóla Íslands en engu breyti í þessum efnum þótt kærandi hafi ranglega ýjað að því að Endurmenntun nýti starfsfólk Háskóla Íslands eða beri brigður á að ekki sé fjárhagslegur aðskilnaður á milli Háskóla Íslands, sem sé á fjárlögum líkt og aðrir háskólar, og Endurmenntunar. <br /> <br /> Í umsögninni kemur einnig fram að Endurmenntun hafni þeim rökum kæranda að miklir samkeppnislegir hagsmunir standi til þess að upplýsingar um rekstur Endurmenntunar verði gerðar opinberar. Hinir samkeppnislegu hagsmunir séu þvert á móti þeir að Endurmenntun láti ekki umbeðnar upplýsingar af hendi, eins og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga geri ráð fyrir og áréttað sé í lögskýringargögnum. Þá sé ekki um að ræða meðferð á almannafé. Uppruni rekstrarfjár sé nákvæmlega hinn sami og hjá öðrum samkeppnisaðilum, þ.e. af viðskiptum á samkeppnismarkaði. Auk þess er áréttað að engu máli skipti að Endurmenntun sé ekki rekin í hagnaðarskyni því ákvæði 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga geri engan lagalegan greinarmun að þessu leyti. <br /> <br /> Að lokum kemur fram að það að veita almenningi aðgang að upplýsingunum kunni að raska jafnræði á samkeppnismarkaði. Hagsmunum Endurmenntunar, sem sé stofnun í eigu Háskóla<br /> Íslands, væri stefnt í hættu. Slík ákvörðun myndi ekki þjóna hagsmunum almennings. Þá fái fullyrðing kæranda um að stofnunin hafi birt upplýsingar um rekstrarniðurstöðu fram til ársins 2011 ekki staðist. <br /> <br /> Umsögn Endurmenntunar Háskóla Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. mars 2018, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að upplýsingum annars vegar um áætlaðan rekstrarkostnað Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011 og hins vegar um rekstrarhagnað eða rekstrartap Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011. <br /> <br /> Ákvörðun Endurmenntunar Háskóla Íslands um synjun beiðninnar er byggð á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi: <br /> <br /> <span class="blockqoude">Markmiðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýsinga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona háttar til. Meginsjónarmiðið að baki þessu ákvæði er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr. Athuga verður þó í þessu sambandi að í sumum tilvikum eru fyrir hendi skýrar reglur um skyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar í tengslum við viðskipti, sbr. lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða. Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.</span><br /> <br /> Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að til að stjórnvöld geti byggt takmörkun á upplýsingarétti á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa upplýsingarnar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi þarf sú afstaða, að samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og upplýsingarétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga, að hafa verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats. Um þetta má m.a. vísa til úrskurðar í máli nr. A-492/2013, auk úrskurða í málum nr. A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011, sem kveðnir voru upp í gildistíð eldri upplýsingalaga. Ljóst er að starfsemi Endurmenntunar Háskóla Íslands er í samkeppni við aðra aðila á sviði endur- og símenntunar háskólamenntaðs fólks og almennings hér á landi. Jafnframt er óumdeilt að umbeðnar upplýsingar í máli þessu tengjast þeirri starfsemi. Fyrstnefndu tvö skilyrði beitingar 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga eru því uppfyllt um umbeðin gögn.<br /> <br /> Við mat á því hvort þriðja skilyrðinu sé fullnægt lítur úrskurðarnefnd um upplýsingamál til þess að Endurmenntun Háskóla Íslands er fræðslu-, þróunar- og þjónustustofnun starfrækt af Háskóla Íslands og aðildarfélögum, og lýtur yfirstjórn háskólaráðs samkvæmt 1. gr. reglna um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands nr. 844/2001. Stofnunin sækir heimild sína til rekstrar meðal annars til 23. gr. a og 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Í athugasemdum við hina síðarnefndu lagagrein í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/2010, sem breyttu lögum um opinbera háskóla, kemur fram að með hliðsjón af almennum samkeppnisreglum kunni að vera skylt að halda þeim þáttum í starfsemi opinberra háskóla sem varða fræðslu til almennings og endurmenntun aðskildum í bókhaldi frá kjarnastarfsemi skólanna, sem fjármögnuð sé með framlagi úr ríkissjóði skv. 1. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla og styrkjum úr rannsóknarsjóðum. Af slíkum reglum leiði almennt að halda beri kostnaði af þeim þáttum í starfsemi ríkisaðila sem eru í samkeppni við einkaaðila aðskildum í bókhaldi frá lögbundinni kjarnastarfsemi sem skilgreina megi sem almannaþjónustu. Af hálfu Endurmenntunar hefur komið fram að sá bókhaldslegi aðskilnaður sem gert er ráð fyrir í framangreindum athugasemdum sé algjör í tilviki stofnunarinnar og Háskóla Íslands og að hún þiggi engin framlög frá skólanum.<br /> <br /> Jafnvel þótt stofnun í eigu ríkis, sem er í samkeppni við aðra, njóti ekki opinberra fjárframlaga getur það sjónarmið eitt og sér ekki leitt til þess að henni sé heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum með fortakslausum hætti á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Ljóst þarf að vera að samkeppnishagsmunir stofnunarinnar séu það verulegir í hverju tilviki að réttlætanlegt þyki að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Í þessu sambandi skal á það bent að markmið upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laganna, er ekki aðeins að tryggja gegnsæi við ráðstöfun opinberra hagsmuna heldur einnig að tryggja gegnsæi við stjórnsýslu almennt. Í athugasemdum við 4. tölul. 10. gr. í frumvarpi er varð að upplýsingalögum er annað markmiða laganna ítrekað, þ.e. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Sjónarmiðið um hvort verið sé að ráðstafa opinberum hagsmunum hefur því vægi þegar metið er hvort 4. tölul. 10. gr. geti átt við. Hins vegar þarf einnig að meta hvort mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að aðgangur að umbeðnum gögnum verði takmarkaður.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd hefur farið yfir umbeðin gögn í málinu, sem líkt og áður hefur komið fram, samanstanda af upplýsingum annars vegar um rekstrarkostnað og hins vegar rekstrarhagnað eða rekstrartap hennar á hverju ári. Endurmenntun Háskóla Íslands hefur ekki rökstutt sérstaklega á hvaða samkeppnishagsmuni reyni í málinu eða hvernig viðkomandi upplýsingar geti orðið stofnuninni til tjóns, verði þær gerðar opinberar. Þrátt fyrir að ekki sé loku fyrir það skotið að það verði Endurmenntun til nokkurs óhagræðis, verði umbeðnar upplýsingar afhentar, verður ekki talið að samkeppnishagsmunir stofnunarinnar af því að halda upplýsingunum leyndum séu svo ríkir, einkum með hliðsjón af hagsmunum almennings af því að aðgangur verði veittur, að þeir réttlæti undanþágu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda og annarra aðila sem bundnir eru af ákvæðum upplýsingalaga. Það er því afstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði fyrir því að synja um afhendingu þessara upplýsinga með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Því er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Endurmenntun Háskóla Íslands sé skylt að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum, þ.e. upplýsingum um annars vegar áætlaðan rekstrarkostnað Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011 og hins vegar rekstrarhagnað eða rekstrartap Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Endurmenntun Háskóla Íslands ber veita kæranda, A, aðgang að þeim gögnum sem fyrir liggja um annars vegar áætlaðan rekstrarkostnað Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011 og hins vegar rekstrarhagnað eða rekstrartap Endurmenntunar Háskóla Íslands á hverju ári frá árinu 2011.<br /> <br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> varaformaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

761/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Blaðamaður kærði meðferð embættis ríkissaksóknara á beiðni um upplýsingar um símhlustun. Af hálfu embættisins hafði komið fram að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi, heldur þyrfti að safna þeim saman úr fyrirliggjandi gögnum, og jafnframt féllu þær utan gildissviðs upplýsingalaga skv. 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst á að beiðni kæranda tæki að öllu leyti til upplýsinga úr málum sem varði rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð sakamála. Því yrði upplýsingaréttur kæranda ekki byggður á upplýsingalögum skv. 1. mgr. 4. gr. þeirra og kæru vísað frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 761/2018 í máli ÚNU 18060003. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p>Með erindi, dags. 7. júní 2018, kærði A, blaðamaður Stundarinnar, ákvörðun embættis ríkissaksóknara um synjun beiðni um aðgang að gögnum er varða símhlustun. <br /> <br /> Í gagnabeiðni kæranda var óskað eftir svörum við spurningum í sex tölusettum liðum, svohljóðandi:</p> <ol> <li>Hversu oft hefur verið beðið um heimild til hlerunar frá ársbyrjun 2014, flokkað eftir tegundum brota sem til rannsóknar voru?</li> <li>Hversu oft á framangreindu tímabili hefur heimild verið veitt til símahlustunar á grundvelli laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, sundurgreint eftir þeim tegundum brota sem til rannsóknar voru, dómstólum sem veittu heimildina og lagaákvæðum sem vísað var til við rökstuðning beiðni?</li> <li>Hversu oft hefur verið synjað um heimild til hlerunar, sundurgreint eftir tegundum brota sem til rannsóknar voru og dómstólum?</li> <li>Hversu lengi stóð hlerun yfir í hverju tilviki, sundurgreint eftir tegundum brota sem til rannsóknar voru og dómstólum?</li> <li>Í hversu mörgum tilvikum þar sem hlerun var beitt var sá sem var hleraður ekki ákærður eða sýknaður ef ákært var, sundurliðað eftir brotategundum og dómstólum?</li> <li>Í ljósi breytinga sem voru gerðar á sakamálalögunum sem tóku gildi í upphafi árs 2017 og fólu í sér að kvaddur skyldi lögmaður til að gæta hagsmuna þess sem hleraður er, sbr. 2. mgr. 84. gr., hversu oft hefur, að kröfu ákæruvaldsins uppfylltri, lögmaðurinn kært úrskurð dómarans til æðra dóms?</li> </ol> <p>Fram kemur að dómsmálaráðherra hafi svarað sams konar fyrirspurn varðandi tímabilið 2008-2013 á Alþingi árið 2014.<br /> <br /> Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. maí 2018, segir að embætti ríkissaksóknara hafi ekki á takteinum þær upplýsingar sem óskað sé eftir og leggja yrði í nokkra vinnu til að taka upplýsingarnar saman. Vegna annarra verkefna verði það ekki gert og fyrirspurninni verði því ekki svarað efnislega. Í kæru krefst kærandi þess að embættið veiti upplýsingarnar. Hin kærða ákvörðun sé röng þar sem embættið fari með eftirlit með símhlustunum skv. XI. kafla laga um meðferð sakamála. Í 3. málsl. 3. mgr. 85. gr. laganna segi að ríkissaksóknari skuli árlega gefa út skýrslu um framkvæmd eftirlits með símhlustunum og beitingu aðgerða skv. 80.-82. gr. Í ljósi þess geti 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga ekki átt við enda þurfi ekki að útbúa ný gögn til að svara fyrirspurninni. Loks eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð embættis ríkissaksóknara. Ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd og ekki gefnar leiðbeiningar um rétt til kæru.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 12. júní 2018, var embætti ríkissaksóknara kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæra beinist að.<br /> <br /> Í umsögn embættis ríkissaksóknara, dags 14. ágúst 2018, kemur í fyrsta lagi fram að hin kærða ákvörðun hafi ekki falið í sér synjun á beiðni um aðgang að gögnum. Skýrt komi fram að umbeðin gögn séu ekki til. Beiðni kæranda feli því í sér ósk um vinnslu upplýsinga upp úr öðrum fyrirliggjandi gögnum, þ.e. tölfræðivinnslu. Vísað er til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem fram kemur að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiði af 3. mgr. 5. gr. Þessu til viðbótar gildi upplýsingalög ekki um rannsókn sakamála eða saksókn, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Öll gögn sem umbeðin tölfræðivinnsla byggi á séu gögn sakamála sem aflað hafi verið í tengslum við rannsóknir slíkra mála með heimildum í lögum um meðferð sakamála. Þau séu því undanþegin aðgangi almennings. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 20. júní 2018, var kæranda kynnt umsögn embættis ríkissaksóknara og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki barst svar við bréfinu.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara. <br /> <br /> Ríkissaksóknari hefur vísað til þess að beiðni kæranda beinist ekki að fyrirliggjandi gögnum í skilningi 1. og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, heldur sé farið fram á að safnað sé saman upplýsingum úr öðrum fyrirliggjandi gögnum. Það sé embættinu hins vegar ekki skylt á grundvelli 3. málsl. ákvæðisins þar sem fram kemur að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. ákvæðisins. Um þessi rök er það að segja að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum ber þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt væri að vinna upp úr öðrum gögnum dugar því jafnan ekki að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber að taka afstöðu til þess hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna, svo hann geti sjálfur tekið þær saman, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 738/2018. Taka ber fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga í efa þá fullyrðingu embættis ríkissaksóknara að tölfræði um beitingu úrræðanna sé ekki fyrirliggjandi hjá embættinu.<br /> <br /> Eins og hér háttar til verður að hafa hliðsjón af gildissviði upplýsingalaga skv. I. kafla laganna. Skv. 1. mgr. 4. gr. gilda lögin ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er síðan varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að rannsókn sakamála og saksókn séu undanskilin gildissviði upplýsingalaga og að um aðgang að slíkum gögnum fari eftir sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Þá kemur jafnframt fram í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins að ákvæði 1. mgr. 4. gr. feli í sér að öll gögn mála á þessu sviði séu í heild sinni undanþegin upplýsingarétti. Þar sem beiðni kæranda tekur að öllu leyti til upplýsinga úr málum sem varða rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður réttur hans til aðgangs ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga skv. 1. mgr. 4. gr. þeirra. <br /> <br /> Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru kæranda, A, blaðamanns, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

760/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Deilt var um ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun beiðni fréttamanns um aðgang að minnisblaði vegna umkvartana þriggja barnaverndarnefnda varðandi samskipti við Barnaverndarstofu. Ákvörðunin byggðist á því að um vinnugagn væri að ræða og að þar væri að finna upplýsingar um starfssamband fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu við ráðuneytið. Úrskurðarnefndin féllst á með ráðuneytinu að minnisblaðið uppfyllti skilyrði vinnugagnahugtaks 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en taldi að þar kæmu fram upplýsingar um atvik máls sem ekki væri að finna annars staðar, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna. Lagt var fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu að frátöldum hluta þess.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 760/2018 í máli ÚNU 18050015. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 17. maí 2018, kærði A, fréttamaður RÚV, ákvörðun velferðarráðuneytis um synjun beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Með beiðni kæranda, dags. 28. apríl 2018, óskaði kærandi eftir aðgangi að minnisblaði með niðurstöðu rannsóknar ráðuneytisins á störfum forstjóra Barnaverndarstofu vegna kvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu, sem afhent var ráðherra áður en lúkning málsins var tilkynnt opinberlega. Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. maí 2018, var beiðninni synjað á grundvelli þess að minnisblaðið fæli ekki í sér endanlega niðurstöðu ráðuneytisins, heldur væri um að ræða vinnugagn, tekið saman fyrir ráðherra til að byggja niðurstöðu sína á. Vísað er til 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í þessu samhengi. <br /> <br /> Þá er vísað til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sem stendur að mati ráðuneytisins í vegi fyrir því að ráðuneytinu sé heimilt að afhenda minnisblaðið. Fjallað sé um starfssamband ráðherra og forstjóra Barnaverndarstofu þar sem m.a. séu reifaðar ávirðingar á hendur honum og starfsfólki undir hans stjórn og umfjöllun ráðuneytisins þar að lútandi. <br /> <br /> Loks vill ráðuneytið geta þess að ein þeirra umkvartana sem var til umfjöllunar hjá ráðuneytinu hafi varðað tiltekið mál einstaklings á sviði barnaverndar. Ráðuneytið hafi tekið það til sérstakrar skoðunar og ritað hafi verið sérstakt minnisblað í ljósi þess að þar séu rakin viðkvæm persónuleg málefni sem óheimilt sé að veita almenningi aðgang að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir áliti úrskurðarnefndar um upplýsingamál á ákvörðun velferðarráðuneytis með vísan til 20. gr. upplýsingalaga.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 31. maí 2018, var velferðarráðuneyti kynnt kæran og veittur frestur til að senda úrskurðarnefnd um upplýsingamál umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Með erindi, dags. 14. júní 2018, upplýsti ráðuneytið að það teldi ekki þörf á frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni en fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Afrit af hinu umbeðna minnisblaði fylgdi erindinu.<br /> <h2>Niðurstaða<br /> 1.</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að minnisblaði velferðarráðuneytisins er tengist umkvörtunum barnaverndarnefnda í garð forstjóra Barnaverndarstofu. Um upplýsingarétt kæranda fer samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt ákvæðinu er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.<br /> <h2>2.</h2> Af hálfu ráðuneytisins hefur í fyrsta lagi komið fram að 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að ráðuneytinu sé heimilt að veita kæranda aðgang að hinu umbeðna gagni, þar sem fjallað sé um starfssamband ráðherra og fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu. Þar séu reifaðar ávirðingar á hendur honum og starfsfólki undir hans stjórn og umfjöllun ráðuneytisins þar að lútandi. Um þetta er í fyrsta lagi að segja að Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun, enda þótt hún heyri undir yfirstjórn ráðherra og ráðherra skipi forstjóra hennar. Forstjóri Barnaverndarstofu er því ekki starfsmaður ráðherra eða ráðuneytisins þannig að starfssamband teljist vera þeirra á milli í þeim skilningi sem rætt er um í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið tekur þó til forstjóra sem starfsmanns Barnaverndarstofu og þeirra sem þar starfa. <br /> <br /> Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til skv. 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé að veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.</span><br /> <br /> Við úrlausn þessa máls reynir á það hvort þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þær varði að öðru leyti starfssamband starfsmannsins og Barnaverndarstofu. Þegar tekin er afstaða til þessa atriðis verður að hafa í huga að ákvæði 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra það þröngt.<br /> <br /> Við mat á því hvort hið umbeðna minnisblað teljist varða starfssamband þeirra sem þar er fjallað um að öðru leyti verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem lýst er í lögskýringargögnum með ákvæði 7. gr. og rakin eru hér að framan. Af þeim sjónarmiðum verður ráðið að ákvæðinu sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Telja verður ljóst að með þeirri skírskotun sé átt við ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 711/2017.<br /> <br /> Þegar lagt er mat á hvers konar ákvarðanir falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga er meðal annars litið til þess hvort ákvörðun sé beint út á við að borgurunum eða inn á við að starfsemi stjórnsýslunnar. Ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslunnar teljast yfirleitt ekki til slíkra ákvarðana. Þær geta hins vegar verið það í ákveðnum tilvikum, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, en þar eru í dæmaskyni nefndar ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra. Í fyrrnefndum athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er svo vísað til IV. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hvað varðar sambærileg dæmi um ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslu sem teljast ákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. <br /> <br /> Í ljósi framangreinds verður að telja að hið umbeðna minnisblað lúti ekki að starfssambandi fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu við stofnunina að öðru leyti í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, þar sem þar eru ekki upplýsingar um ákvörðun í máli sem hann varðar í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <h2>3.</h2> Þá hefur komið fram af hálfu ráðuneytisins að minnisblað þess teljist til vinnugagna í skilningi 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna, og endanleg niðurstaða þess í málunum hafi birst í bréfi til barnaverndarnefndanna sem um ræðir. <br /> <br /> Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Til þess að skjal teljist vinnugagn þarf því almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt ákvæðinu. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn í reynd, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að minnisblað ráðuneytisins uppfylli síðastnefndu skilyrðin tvö. Í þessu sambandi skal tekið fram að það leiðir ekki eitt og sér til þess að minnisblaðið missi stöðu sína sem vinnugagn að það hafi verið afhent aðilum sem framkvæmdu úttekt á málsmeðferð og efnislegri athugun ráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefndanna, með vísan til 3. tölul. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í skilyrðinu um að gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd felst að það hafi orðið til við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta tiltekins máls. Takmörkun 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings er enda studd þeim rökum að gögn sem verða til við slíkt ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Af þessu leiðir að gagn getur ekki talist vinnugagn ef það hefur í raun að geyma endanlega ákvörðun eða niðurstöðu um afgreiðslu máls. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir hið umbeðna gagn í ljósi framangreindra sjónarmiða. Í minnisblaði skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018, er farið yfir kvartanir barnaverndarnefndanna þriggja, kröfu einnar þeirra um setningu staðgengils, kvartanir vegna framgöngu Barnaverndarstofu og viðbrögð stofnunarinnar, kröfu Barnaverndarstofu um að fram fari mat á hæfi skrifstofustjóra á skrifstofunni, fund ráðuneytisins með framkvæmdastjóra barnaverndar Reykjavíkur og kvörtun yfir ummælum forstjóra Barnaverndarstofu í fjölmiðlum. Þá er farið yfir hlutverk og ábyrgð ráðuneytisins í málinu og möguleg viðbrögð við kvörtununum. Gerðar eru tillögur til úrbóta til lengri og skemmri tíma og farið í stuttu máli yfir athugun ráðuneytisins á málinu sem tengdist barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar. Að lokum kemur fram að ljóst sé að ásakanirnar séu alvarlegar og þarfnist málið sérstakrar skoðunar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að hvergi í minnisblaðinu eru teknar endanlegar ákvarðanir um viðbrögð ráðuneytisins í málinu. Atvik þess eru reifuð og á stöku stað settar fram hugmyndir um hugsanleg viðbrögð. Að mati nefndarinnar uppfyllir minnisblaðið því skilyrði þess að teljast undirbúningsgagn í reynd. <br /> <br /> Á hinn bóginn ber að líta til þess að í bréfum ráðuneytisins til barnaverndarnefndanna þriggja, sem send voru eftir gerð minnisblaðsins, er ekki vikið að ávirðingum þeirra í garð forstjórans fyrrverandi og mati ráðuneytisins á efni þeirra. Eins og hér háttar til er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að minnisblaðið hafi því að geyma umfangsmiklar upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að með þessu orðalagi sé einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum sé ekki að finna annars staðar, en kunni að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu séu einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þessi lýsing á að öllu leyti við um efni minnisblaðs skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018. Enda þó minnisblaðið uppfylli öll formleg skilyrði þess að teljast til vinnugagns er um svo umfangsmiklar upplýsingar um atvik málsins að ræða, sem ekki koma fram í þeim bréfum er ráðuneytið kveður fela í sér endanlega niðurstöðu málsins, að ekki þykir rétt að takmarka aðgang almennings að því. Í ljósi allra atvika málsins að öðru leyti þykir almenningur eiga af því ríka hagsmuni að kynna sér þær upplýsingar sem þar koma fram. Bar því velferðarráðuneytinu að veita kæranda aðgang að því á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að frátöldum þeim hluta minnisblaðsins sem ber yfirskriftina: „Tillögur að úrbótum til lengri og skemmri tíma“. Þar er að finna umfjöllun sem fellur að öllu leyti undir vinnugagnahugtakið eins og það er afmarkað í upplýsingalögum.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Velferðarráðuneytinu ber að veita kæranda, A, fréttamanni, aðgang að minnisblaði skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018, að frátöldum þeim hluta minnisblaðsins sem ber yfirskriftina: „Tillögur að úrbótum til lengri og skemmri tíma“.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

759/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Kærendur óskuðu eftir því að utanríkisráðuneytið veitti þeim aðgang að öllum gögnum borgaraþjónustumáls. Ráðuneytið synjaði beiðninni að hluta á þeim grundvelli að annars vegar væri um að ræða upplýsingar um viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar að heimilt væri að takmarka aðgang kærenda að upplýsingum um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að um upplýsingarétt kærenda færi eftir 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fallist var á röksemdir ráðuneytisins varðandi hluta umbeðinna gagna en um önnur vísaði nefndin til þess að ekki væri um viðkvæma einkahagsmuni að ræða eða mikilvægir almannahagsmunir stæðu ekki til beitingar 2. tölul. 10. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr., upplýsingalaga. Var því lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kærendum aðgang að hluta skjalanna en hin kærða ákvörðun staðfest að öðru leyti.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 759/2018 í máli ÚNU 18040006. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 10. apríl 2018, kærðu A og B ákvörðun utanríkisráðuneytis, dags. 9. apríl 2018, um synjun beiðni um afrit allra gagna sem ráðuneytið hafði sent frá sér í tengslum við mál C og öll önnur gögn sem málið varðar. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærendur byggi upplýsingarétt sinn á meginreglu 5. gr. upplýsingalaga og benda á að undantekningar frá henni beri að skýra þröngt. Kærendur telja synjun á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga ekki standast þar sem engir mikilvægir almannahagsmunir hindri utanríkisráðuneytið í að veita umbeðnar upplýsingar. Vel sé hægt að veita þær án þess að gefa upp nöfn og netföng. Þá standist heldur ekki synjun á grundvelli öryggishagsmuna einstaklinga. Í samskiptum kærenda við ráðuneytið hafi komið skýrt fram að ekki sé beðið um nöfn eða aðrar upplýsingar um einkahagi heimildarmanna. Tilgangur kærenda sé að skoða hvernig ráðuneytið hafi unnið málið en ekki til að angra heimildarmenn.<br /> <br /> Af hálfu kærenda kemur fram að hver dagur skipti máli og það geti ráðið úrslitum um lausn málsins að haft sé samband við rétta aðila og málið rannsakað af kostgæfni. Ákvörðun um synjun beiðninnar sé ekki til þess fallin að auka traust almennings á stjórnsýslunni. Um óvenjulegar aðstæður sé að ræða þar sem umbeðnar upplýsingar geti haft verulega þýðingu. Í því ljósi vænti kærendur þess að málið verði sett í forgang hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 12. apríl 2018, var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og veittur frestur til að senda úrskurðarnefndinni umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Umsögn ráðuneytisins barst með bréfi, dags. 3. maí 2018, eftir að frestur hafði verið framlengdur um eina viku. Þar kemur fram að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971 skuli hún veita ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum. Á þeim grundvelli hafi verið leitað til utanríkisþjónustunnar um liðsinni vegna máls C þann 7. mars 2018. Það sé mat utanríkisráðuneytisins að hluti gagna málsins teljist undanþeginn aðgangi á grundvelli 9. og 10. gr. upplýsingalaga. Annars vegar séu gögn undanþegin skv. 2. tölul. 10. gr. þar sem þau lúti að samstarfi og samskiptum við erlend ríki eða fjölþjóðastofnanir og hins vegar gögn undanþegin skv. 9. gr. upplýsingalaga þar sem þau varði einkahagsmuni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Umsögninni fylgdi listi yfir gögn málsins, alls 102 tölusett skjöl, og er vísað til skjalanna í sömu röð í rökstuðningi ráðuneytisins.<br /> <br /> Tekið er fram að hugtakið „gagn“ í skilningi 5. gr. upplýsingalaga nái aðeins til gagna sem til eru og fyrirliggjandi á þeim tímapunkti sem beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á sama tíma. Engu að síður hafi ráðuneytið veitt kærendum aðgang að hluta gagna sem urðu til eftir 13. mars, þ.e. þess dags sem beiðnin var sett fram. Ráðuneytið telji sér heimilt að synja um aðgang að gögnum sem urðu til eftir þetta tímamark á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga (skjöl nr. 93-96). Þá er tekið fram að kærendum hafi verið veittur aðgangur að svokallaðri tímalínu (skjal nr. 99) sem gert hafi verið við upphaf borgaraþjónustumálsins þann 7. mars sl. Skjalið hafi verið uppfært nær daglega síðan og bætt hafi verið inn á það upplýsingum til að gefa skýrari mynd af samskiptum í málinu. <br /> <br /> Utanríkisráðuneytið tekur fram að hluti umbeðinna gagna snúi að upplýsingum sem aðilar á svæðinu létu því í té (skjöl nr. 1, 2, 5-9, 10, 13, 15, 18, 26-28, 33, 34, 37, 38, 40, 59-61, 63, 64, 66, 69, 97 og 100). Þeir séu staddir á átakasvæði með óljósum átakalínum þar sem raunveruleg hætta sé á að aðgangur að upplýsingum um þá geti stofnað þeim í hættu. Sérstök ástæða sé til að gæta að þessu við upplýsingagjöf um málið. Þetta eigi sérstaklega við um einstaklinga sem koma fyrir í tilteknum skjölum (skjöl nr. 5, 6, 7, 9, 10, 13, 15, 18, 26, 27, 28, 37, 38 og 66). Þegar stjórnarfar ríkja sé óstöðugt sé meiri hætta á að þeir sem fari með stjórnina telji slíka aðila starfa gegn hagsmunum sínum með afgerandi afleiðingum. Ráðuneytið telji því fulla ástæðu til að undanþiggja þessar upplýsingar aðgangi með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, ýmist að hluta eða í heild.<br /> <br /> Þá vísar utanríkisráðuneytið til þess að hluti umbeðinna gagna lúti að samskiptum íslenskra stjórnvalda við önnur ríki og alþjóðastofnanir, einkum Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) (skjöl nr. 10, 14, 17, 20, 21, 23, 30, 31, 33, 34, 36, 39, 42-46, 48-51, 53-57, 59, 60, 62, 65, 67, 70-77, 79-84, 86, 90 og 101). Alþjóðaráðið sé sjálfstæð stofnun sem einbeiti sér að hjálparstarfi á stríðssvæðum og útbreiðslu á þekkingu um Genfarsamningana. Starfsmenn ráðsins heimsæki stríðsfanga og fangelsi þar sem grunur leiki á að mannréttindabrot séu framin. Þá starfræki það einnig leitarþjónustu sem sameini fjölskyldur og ættingja sem hafa orðið viðskila vegna átaka. Nöfn fólks séu skráð í gagnabanka og svo sé unnið að því að leita uppi fjölskyldumeðlimi. Það sé mjög áríðandi fyrir starf Alþjóðaráðsins á vettvangi að ekki leiki vafi á hlutleysi samtakanna. Rauði kross Íslands hafi haft milligöngu um aðkomu Alþjóðaráðsins varðandi leit að C og sé tengiliður ráðsins við fjölskyldu hans. Rauði kross Íslands sé ekki í beinu samstarfi við íslensk stjórnvöld. Því telur ráðuneytið að skjöl er lúta að samskiptum við Alþjóðaráðið séu undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga (skjöl nr. 14, 20, 21, 42 og 53). Þá eigi sjónarmið um að upplýsingagjöf geti stofnað einstaklingum í hættu einnig við um starfsmenn ráðsins. <br /> <br /> Utanríkisráðuneytið víkur að tilgangi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga og mikilvægi ákvæðisins fyrir starfsemi utanríkisþjónustunnar. Ótakmörkuð upplýsingagjöf um samskipti við önnur ríki sé til þess fallin að valda skaða sem myndi hamla því að utanríkisþjónustan geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Vegna ummæla í greinargerð í frumvarpi til upplýsingalaga um að beiðni verði ekki synjað af þessum ástæðum nema hætta sé á tjóni tekur ráðuneytið fram að eins og hér stendur á yrði tjónið af upplýsingagjöfinni það að erlend ríki og fjölþjóðastofnanir myndu ekki treysta Íslandi fyrir viðkvæmum upplýsingum. Utanríkisþjónustan gæti því ekki reitt sig á upplýsingaöflun í gegnum þær leiðir í framtíðinni. Þá er minnt á að upplýsingabeiðni kærenda tengist flóknu máli frá alþjóðapólitísku sjónarmiði sem hafi tenginu við átakasvæði með óljósum átakalínum. Íslensk stjórnvöld hafi orðið að reiða sig á aðstoð annarra ríkja við upplýsingaöflun, enda sé ekkert íslenskt sendiráð í þessum heimshluta. Málið sé einnig flókið fyrir þau grann- og vinaríki sem látið hafi í té aðstoð. Það myndi bæði skaða samskipti Íslands við þessi ríki ef upplýsingar um þau yrðu afhentar og vera til ógagns fyrir aðstoð utanríkisþjónustunnar í máli C. Þessir hagsmunir séu mjög ríkir og hafi úrskurðarnefndin staðfest í úrskurðum sínum, t.d. nr. A-326/2009, að það eitt að gera opinberar upplýsingar í samskiptum við erlend ríki eða fjölþjóðastofnanir nægi til að draga úr trausti í samskiptum, óháð því hversu viðkvæmar upplýsingar sem fram koma í skjalinu eru í reynd. Eðli þessa máls og samskiptanna sé þannig að um þau verði að ríkja trúnaður, ella sé hætta á því að upplýsingaleiðirnar verði ekki aðgengilegar í framtíðinni, hvorki hvorki er varði þetta tiltekna mál né önnur sambærileg sem upp kunna að koma. Af orðalagi ákvæðis 10. gr. upplýsingalaga sé enn fremur ljóst að ekki einungis bein samskipti falli undir ákvæðið heldur einnig gögn þar sem um slík samskipti sé fjallað. Úrskurðarnefndin hafi staðfest þann skilning í fyrri úrskurðum sínum, sbr. t.d. úrskurð nr. A-342/2010.<br /> <br /> Umsögn utanríkisráðuneytis var kynnt kærendum með tölvupósti, dags. 15. maí 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdirnar bárust þann 23. maí 2018. Þar kemur í upphafi fram að kærendur geri athugasemd við vinnubrögð úrskurðarnefndarinnar hvað varðar viðbótarfrest sem utanríkisráðuneytinu var veittur til að skila umsögn um kæruna. Þá er minnt á að 5. gr. upplýsingalaga sé meginregla og undantekningar frá henni skuli skýra þröngt. Jafnframt kveði 3. tölul. 1. gr. upplýsingaga á um möguleika almennings og fjölmiðla til að veita stjórnsýslunni aðhald og 5. tölul. ákvæðisins á um það markmið að styrkja traust almennings á stjórnsýslunni. Kærendur segjast hafa ástæðu til að ætla að utanríkisráðuneytið hafi ekki gripið til þeirra ráða sem líklegust séu til að skila árangri í málinu. Ef það sé hins vegar rangt metið myndi það auka tiltrú kærenda og almennings á stjórnsýslunni að fá staðfestingu á því að ráðuneytið haldi vel á slíkum málum. Það sé því bersýnilega í samræmi við markmið laganna að veita kærendum eins rúman aðgang að gögnum og lögin leyfa.<br /> <br /> Varðandi rök utanríkisráðuneytisins sem snúa að 9. gr. upplýsingalaga taka kærendur fram, að þau hafi ekki farið fram á neinar persónuupplýsingar eða önnur gögn sem varða einkahagsmuni einstaklinga. Ef slík gögn sé að finna í fórum ráðuneytisins væri því í lófa lagið að afmá nöfn, netföng og aðrar slíkar upplýsingar. Kærendur skilja og fallast á þau rök að persónuupplýsingar um aðila á átakasvæðum sem hafa veitt upplýsingar geti stefnt þeim í voða væru þær gerðar opinberar. Kærendur ætlist ekki til þess að fá slíkar upplýsingar. Þeim nægi að fá upplýsingar á borð við „heimildarmaður innan tyrkneska hersins sem staddur var í Afrín í febrúarmánuði“, „heimildarmaður sem hefur tengsl við mannréttindasamtök sem eru starfandi á svæðinu“, „fjölmiðlamaður sem fylgst hefur náið með átökum í Afrín“ og þar fram eftir götum. Slíkar upplýsingar stofni engum í hættu en varpi ljósi á það hvernig málið hafi verið unnið.<br /> <br /> Um tilvísun ráðuneytisins til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga ítreka kærendur að þessa undantekningu frá upplýsingarétti almennings beri að skýra þröngt. Kærendur segja rök ráðuneytisins fyrir þeirri hugmynd, að það stofni almannahagsmunum í hættu að veita upplýsingar um samskipti sín við Alþjóðaráð Rauða krossins, fráleit. Hvorki C né kærendur séu slíkir pólitískir áhrifavaldar að aðkoma Rauða krossins eða annarra mannaúðarsamtaka að máli hans sé til þess fallin að vekja vafa um hlutleysi samtakanna. Ef það sé hins vegar mat úrskurðarnefndarinnar að líkur séu á að almenningur álíti að með samskiptum sínum við stjórnvöld sé ráðið að lýsa yfir stuðningi við anarkisma, sjálfstjórnarbaráttu Kúrda, mannréttindi vegalausra, andspyrnu við glæpi Íslamska ríkisins gegn meintum villutrúarmönnum eða annað sem skýri för C til Sýrlands væri ráðuneytinu hægast að afmá upplýsingar um Alþjóðaráðið og setja þess í stað upplýsingar á borð við „hjálparstofnun“, „mannúðarsamtök“ eða annað í þá veru. Kærendur fallist hins vegar á að starfsmenn ráðsins eigi að njóta nafnleyndar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Kærendur taka fram að þau hafi ekki farið fram á ótakmarkaða upplýsingagjöf um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir heldur aðeins þær upplýsingar sem heimilt sé að veita. Ef ákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga yrði túlkað jafn rúmt og ráðuneytið telur eðlilegt, væri það nánast undanþegið upplýsingalögum. Hefði það verið ætlun löggjafans væri það tekið fram í lögum. Þá sé það mat ráðuneytisins að hætta sé á tjóni vegna upplýsingagjafar engum rökum stutt. Persónulegar vangaveltur starfsmanna ráðuneytisins um að ótilgreind ríki eða stofnanir myndu ekki treysta því ef það sinnti upplýsingaskyldu sinni samkvæmt lögum geti ekki haft þýðingu í málinu. Þá andmæla kærendur túlkun ráðuneytisins á úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-326/2009 og A-342/2010. Ekki sé um sambærileg mál að ræða. Loks er bent á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál sé ekki fulltrúi utanríkisráðuneytisins og beri að leggja til grundvallar meginreglu um upplýsingarétt almennings en ekki óskir stjórnvalda um að leynd skuli hvíla yfir vinnulagi þeirra. Nefndinni beri að leggja sjálfstætt mat á það hvort upplýsingar um samskipti við ríki og alþjóðastofnanir séu til þess fallnar að skaða traust ríkja til íslenskra stjórnvalda. Slík athugun þurfi að byggjast á rökum og staðreyndum en ekki hugboðum starfsmanna ráðuneytisins um viðbrögð stjórnvalda í öðrum löndum við framkvæmd upplýsingalaga á Íslandi.<br /> <br /> Með símtali, dags. 18. september 2018, aflaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál frekari skýringa á efni hluta umbeðinna gagna hjá starfsmanni utanríkisráðuneytisins. Þá fór nefndin þess á leit að utanríkisráðuneytið afhenti nefndinni fylgiskjöl nokkurra umbeðinna gagna og var orðið við þeirri beiðni með erindi, dags. 27. september 2018.<br /> <h2>Niðurstaða<br /> 1.</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kærenda til aðgangs að öllum gögnum sem urðu til við meðferð utanríkisráðuneytisins á máli C á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands fram að þeim tímapunkti sem beiðnin barst ráðuneytinu. Utanríkisráðuneytið afgreiddi beiðnina á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga og veitti kærendum aðgang að hluta umbeðinna gagna. Ráðuneytið synjaði kærendum hins vegar um aðgang að öðrum gögnum málsins, ýmist með vísan til 9. gr. eða 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að hún lítur svo á að um upplýsingarétt kærenda fari samkvæmt III. kafla upplýsingalaga þar sem fjallað er um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Áréttað er að til þess að upplýsingaréttur kaflans eigi við er vísað til þess að upplýsingar varði viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Með vísan til fjölskyldutengsla kærenda við C og þeirrar staðreyndar að kærendur vinna að sjálfstæðri upplýsingaöflun um afdrif hans þykja uppfyllt skilyrði þess að rýmri upplýsingaréttur III. kafla upplýsingalaga eigi við. Er þar einnig litið til þess að af gögnum málsins verður ráðið að kærendur óski m.a. aðgangs að umbeðnum gögnum í þeim tilgangi að kanna hvernig ráðuneytið hefði staðið að meðferð málsins til að geta hagað sínum eigin aðgerðum með skilvirkum hætti. <br /> <h2>2.</h2> Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að heimilt sé að takmarka þennan aðgang ef umbeðin gögn hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir beiðanda. Um er að ræða sambærilega reglu og utanríkisráðuneytið hefur byggt á varðandi synjun beiðni kærenda um hluta umbeðinna gagna (skjöl nr. 1, 2, 5-9, 10, 13, 15, 18, 26-28, 33, 34, 37, 38, 40, 59-61, 63, 64, 66, 69, 97 og 100).<br /> <br /> Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að um sé að ræða upplýsingar frá einstaklingum á átakasvæðum sem gæti verið bráð hætta búin ef upplýsingar um þá kæmust í rangar hendur. Því sé um að ræða upplýsingar um einkahagsmuni þeirra sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr., upplýsingalaga en þetta eigi sérstaklega við um einstaklinga sem koma fyrir í tilteknum skjölum (skjöl nr. 5, 6, 7, 9, 10, 13, 15, 18, 26, 27, 28, 33, 34, 37, 38 og 66). Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. <br /> <br /> Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur m.a. fram að algengt sé að gögn hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila. Þegar fram komi beiðni um aðgang að slíkum gögnum sé þannig líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Tekið er fram að kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. frumvarpsins. Aðgangur að gögnum verði aðeins takmarkaður ef talin sé hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verði því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verði að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þennan hluta umbeðinna gagna með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Umtalsverður hluti þeirra felur í sér samskipti um málið við starfsfólk ræðisskrifstofa í Tyrklandi og Sýrlandi. Jafnvel þótt það sé í eðli sínu ekki viðkvæmt að slík samskipti fari fram eða hvaða einstaklingar gegni þessum störfum þykir hér verða að líta til þess að í þessum ríkjum ríkir afar ótryggt stjórnmálaástand. Minnstu grunsemdir, rökstuddar eður ei, um að tilteknir borgarar ríkjanna vinni að hagsmunum andstæðinga stjórnvalda geta vakið viðbrögð á borð við varðhald, fangelsisdóma og aðrar neikvæðar afleiðingar fyrir viðkomandi einstaklinga. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga þeir einstaklingar sem hér um ræðir því tvímælalaust hagsmuni af því að nöfn þeirra verði ekki sett í samhengi við málið, er varðar fyrst og fremst afdrif íslensks ríkisborgara sem tók þátt í sjálfsstjórnarbaráttu Kúrda við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Þegar þessir hagsmunir eru skoðaðir með hliðsjón af hagsmunum kærenda af því að fá aðgang að samskiptunum þykja hinir fyrrnefndu vega þyngra með hliðsjón af 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga hvað þann hluta gagnanna varðar sem tekur til þessara starfsmanna, þ.e. skjöl nr. 5, 6, 7, 9, 10, 13, 15, 18, 26, 27, 28, 33, 34, 37, 38, 40 og 66. Þeir hlutar skjala nr. 1 og 8 sem voru afmáðir við afhendingu þeirra til kærenda fjalla um hugsanlega upplýsingamiðlun blaðamanns sem staddur var á átakasvæðunum og verður sú ákvörðun staðfest með vísan til hagsmuna hans af því að stjórnvöld setji nafn hans ekki í samband við málið af sömu ástæðum. Þá þykja sambærileg sjónarmið eiga við um einstakling sem kemur fyrir í skjölum nr. 59 og 64 þótt gögn málsins beri með sér að hann hafi ekki verið staddur í heimalandi sínu þegar beiðni kærenda um aðgang að gögnum barst utanríkisráðuneytinu. Skjöl nr. 61, 63 og 69 lúta að samskiptum við íslenskan ríkisborgara sem er búsettur í Tyrklandi og hafði samband við íslensk stjórnvöld vegna málsins. Þykja hagsmunir viðkomandi af því að samskiptin fari leynt vega þyngra en hagsmunir kærenda af aðgangi eins og hér stendur á. Loks er skjal nr. 100 tímalína með nöfnum og yfirliti um samskipti við alla framangreinda einstaklinga sem eðlilegt er að fari leynt á grundvelli sömu sjónarmiða.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið hins vegar ekki við um skjöl nr. 2 og 97 þar sem aðeins er um að ræða slóðir á vefi sem opnir eru almenningi. Sama á við um skjal nr. 60 en það kemur til frekari skoðunar hér á eftir um röksemdir ráðuneytisins sem lúta að 10. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Vegna þeirra röksemda kærenda að unnt sé að skipta út upplýsingum um viðkomandi einstakling fyrir almennari upplýsingar um stöðu hans eða staðsetningu tekur úrskurðarnefndin fram að upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum tekur almennt eingöngu til gagna sem eru fyrirliggjandi í vörslum aðila sem heyra undir lögin. Ekki er skylt að búa til ný skjöl eða breyta fyrirliggjandi skjölum í tilefni af beiðni um aðgang að þeim. Úrskurðarnefndin getur því ekki lagt fyrir ráðuneytið að framkvæma aðgerðir sem miða að því að tryggja einstaklingum sem fyrir koma í umbeðnum gögnum nafnleynd áður en þau yrðu afhent kærendum. Þá væri með því heldur ekki unnt að útiloka að aðrir áttuðu sig á því um hvern væri að ræða, e.t.v. með sömu afleiðingum og hinni kærðu ákvörðun var ætlað að koma í veg fyrir.<br /> <br /> Með vísan til framangreinds verður lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kærendum aðgang að fylgiskjölum nr. 2 og 97 með umsögn þess, dags. 3. maí 2018. Hins vegar verður staðfest ákvörðun utanríkisráðuneytisins um synjun beiðni kærenda um aðgang að skjölum nr. 5, 6, 7, 9, 10, 13, 15, 18, 26, 27, 28, 33, 34, 37, 38, 40, 59, 61, 63, 64, 66, 69 og 100 í sama lista og þess hluta skjala nr. 1 og 8 sem afmáður var skv. hinni kærðu ákvörðun.<br /> <h2>3.</h2> Af 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga leiðir að upplýsingaréttur aðila gildir ekki um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara skv. 10. gr. laganna, þ. á m. 2. tölul. sem utanríkisráðuneytið byggir á varðandi ákvörðun sína um synjun hluta umbeðinna gagna (skjöl nr. 14, 17, 20, 21, 23, 30, 31, 33, 34, 36, 39, 42-46, 48-51, 53-57, 59, 60, 62, 65, 67, 70-77, 79-84, 86, 90 og 101). Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að um sé að ræða samskipti þess við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir, einkum Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) (skjöl nr. 14, 20, 21, 42 og 53). <br /> <br /> Í 10. gr. upplýsingalaga er kveðið á um undanþágur frá upplýsingarétti almennings vegna mikilvægra almannahagsmuna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 140/2012 kemur fram að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Tekið er fram að þessir hagsmunir séu tæmandi taldir, en hver töluliður sæti sjálfstæðri skýringu með tilliti til eðlis þeirra upplýsinga sem um ræðir.<br /> <br /> Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga er ákvæði 2. tölul. 10. gr. skýrt á þann hátt að það eigi við um samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Tekið er fram að þeir hagsmunir sem hér sé verið að vernda séu tvenns konar. Annars vegar sé verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu Íslendinga. Hins vegar sé verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í samskiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.<br /> <br /> Þá er tekið fram:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða er ljóst að varfærni er eðlileg við skýringu á ákvæðinu.</span><br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að til að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi sé rétt að undanþiggja samskipti sem fari fram á þeim vettvangi frá aðgangi almennings á meðan samskiptin standa yfir. Þannig megi m.a. tryggja að samskipti geti farið fram frjálst og óhindrað. Við matið er litið til eðlis þessara samskipta og hvort líta megi á þau sem ófullgerð vinnugögn eða endanlega afgreiðslu, sbr. t.d. fyrri úrskurð nefndarinnar nr. 701/2017. <br /> <br /> Þá er að mati úrskurðarnefndarinnar jafnframt rétt að líta til þess hvort samskiptin snúi að viðkvæmum málefnum, samskiptaleiðum sem hætta er á að lokist ef upplýsingar sem þaðan berast rata á almannavitorð, eða öðrum atriðum sem þykja raunverulega geta leitt til þess að traust erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana á íslenskum stjórnvöldum glatist. Af hálfu kærenda hefur meðal annars komið fram að koma megi í veg fyrir að slíkir hagsmunir fari forgörðum með því að skipta út nafni viðkomandi stofnunar, ríkis eða starfsmanna þeirra fyrir almennari lýsingu. Um þetta gilda sömu sjónarmið og áður voru reifuð varðandi nöfn einstaklinga og lúta að því að úrskurðarnefndin hefur ekki valdheimildir til að gera utanríkisráðuneytinu skylt að framkvæma breytingar á umbeðnum gögnum áður en þau yrðu afhent kærendum. Þá myndu slíkar breytingar ekki koma í veg fyrir að þessar stofnanir eða ríki yrðu vör við að upplýsingar sem frá þeim kæmu hefðu ratað á almannavitorð og gæti það því haft sömu afleiðingar og hinni kærðu ákvörðun var ætlað að koma í veg fyrir.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umbeðin gögn með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Um samskipti við Alþjóðaráð Rauða krossins (skjöl nr. 14, 20, 21, 42 og 53) tekur úrskurðarnefndin fram að ekki sé um að ræða bein samskipti við erlenda starfsmenn ráðsins um málið heldur við millilið þess, starfsmann Rauða krossins á Íslandi. Efni samskiptanna er enn fremur með þeim hætti að engin hætta verður talin á tjóni af því að kærendum verði veittur aðgangur að þeim, þar sem þar koma ekki fram nokkrar viðbótarupplýsingar um atvik málsins. Verður því ekki talið að ríkir almannahagsmunir komi í veg fyrir aðgang kærenda að samskiptunum með hliðsjón af 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., og ber utanríkisráðuneytinu að veita þeim aðgang á grundvelli meginreglu 1. mgr. 14. gr. laganna.<br /> <br /> Sá hluti umbeðinna gagna sem hefur að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki er að mati úrskurðarnefndarinnar almennt af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða samskipti við stjórnvöld í Tyrklandi um afdrif C, þar með talin tölvuskeyti til starfsmanna sendiráða og ríkisstjórnar landsins og símtöl við þarlenda embættismenn (skjöl nr. 30, 43, 45, 50, 51, 60, 62, 65, 67 og 79). Undir þessa lýsingu falla einnig samskipti annarra ríkja, þ.e. Bretlands og Frakklands, við tyrknesk og sýrlensk stjórnvöld og frásagnir af þeim (skjöl nr. 56, 57, 74, 86 og 89). Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál var utanríkisráðuneytinu heimilt að beita takmörkunarheimild 2. tölul. 10. gr., sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., upplýsingalaga um þessi samskipti, þar sem í öllum tilvikum er um að ræða samskiptaleiðir sem hætta er á að lokist til framtíðar ef þriðja aðila yrði veittur aðgangur að þeim. Þá þykir jafnframt rétt að heimila utanríkisráðuneytinu að synja um aðgang að skjölum nr. 48, 49 og 101, þar sem þau hafa fyrst og fremst að geyma yfirlit um samskiptin.<br /> <br /> Hins vegar lýtur hluti þeirra skjala sem hafa að geyma upplýsingar um samskipti við erlend ríki að samráði íslenskra stjórnvalda við önnur Norðurlönd, þ.e. norsk, sænsk, dönsk og finnsk stjórnvöld. Þessi hluti fjallar fyrst og fremst almennt um lög, reglur eða viðmið sem gilda á hinum Norðurlöndunum varðandi borgaraþjónustu við ríkisborgara sem taka þátt í vopnuðum átökum erlendis (skjöl nr. 31, 36, 39, 44, 46, 54, 55, 70, 71, 72, 73, 80 og 84). Skoðun nefndarinnar hefur leitt í ljós að ekki sé minnst á einstök mál nema í takmörkuðum mæli og þá aðeins þegar atvik þeirra séu að öllu leyti um garð gengin. Nefndin telur enga hættu á tjóni eða vantrausti í samskiptum ríkjanna þótt kærendum verði veittur aðgangur að þessum skjölum, að undanskildum kafla 2.1 í fylgiskjali skjals nr. 46, en norsk stjórnvöld gáfu skýrlega til kynna að um trúnaðarmál væri að ræða varðandi þennan afmarkaða hluta skjalsins. Af þessu má draga þá ályktun að það sem eftir stendur teljist ekki til trúnaðarupplýsinga. Verður ákvörðun utanríkisráðuneytis um synjun beiðni kæranda um aðgang að þessum hluta fylgiskjalsins staðfest með vísan til 2. tölul. 10. gr., sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., upplýsingalaga. Þá telur úrskurðarnefndin einnig rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun varðandi skjöl nr. 82 og 83, en fram kemur að bresk stjórnvöld hafi farið fram á að trúnaðar yrði gætt um þau. Enda þótt það atriði geti ekki ráðið því eitt og sér hvort 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga eigi við lítur nefndin til þess að um sé að ræða mun ítarlegri samantekt um breska ríkisborgara í þessum heimshluta en í tilviki Norðurlandanna, þ. á m. með tilvísunum til nafngreindra einstaklinga. <br /> <br /> Sömu sjónarmið og rakin voru almennt um skjöl sem tengjast Norðurlöndunum gilda um skjöl nr. 17 (frönsk stjórnvöld), 23 (bandarísk), 75 og 76 (þýsk, eftirfylgni eftir fund sem greint var frá opinberlega). Þá lúta skjöl nr. 77 og 81 strangt til tekið ekki að samskiptum ríkja í skilningi 2. tölul. 10. gr., sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., upplýsingalaga og ekki verður talið að 3. mgr. 14. gr. komi í veg fyrir aðgang kærenda að hinu síðarnefnda.<br /> <br /> Með vísan til framangreinds verður lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kærendum aðgang að fylgiskjölum nr. 2, 14, 17, 20, 21, 23, 31, 36, 39, 42, 44, 46, 53, 54, 55, 70, 71, 72, 73, 75, 76, 77, 80, 81 og 84 við umsögn ráðuneytisins, dags. 3. maí 2018. Hins vegar verður staðfest ákvörðun utanríkisráðuneytisins um synjun beiðni kærenda um aðgang að skjölum nr. 30, 43, 45, kafla 2.1 í fylgiskjali skjals nr. 46, 48, 49, 50, 51, 60, 62, 65, 67 og 79 56, 57, 74, 82, 83, 86, 89 og 101.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Utanríkisráðuneytinu ber að veita kærendum, A og B, aðgang að fylgiskjölum nr. 2, 14, 17, 20, 21, 23, 31, 36, 39, 42, 44, 46 að frátöldum kafla 2.1 í fylgiskjali, 53, 54, 55, 70, 71, 72, 73, 75, 76, 77, 80, 81, 84 og 97 við umsögn ráðuneytisins, dags. 3. maí 2018.<br /> <br /> Ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðni kærenda um aðgang að fylgiskjölum við umsögn ráðuneytisins nr. 1 (að hluta), 5, 6, 7, 8 (að hluta), 9, 10, 13, 15, 18, 26, 27, 28, 30, 33, 34, 37, 38, 40, 43, 45, kafla 2.1 í fylgiskjali skjals nr. 46, 48, 49, 50, 51, 56, 57, 59, 60, 61, 62, 63, 64, 65, 66, 67, 69, 74, 79, 82, 83, 86, 89, 100 og 101 í sama lista er staðfest.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

758/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Deilt var um ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun beiðni blaðamanns um aðgang að tveimur minnisblöðum vegna umkvartana þriggja barnaverndarnefnda varðandi samskipti við Barnaverndarstofu. Ákvörðunin byggðist á því að um vinnugögn væri að ræða og að þar væri að finna upplýsingar um starfssamband fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu við ráðuneytið. Úrskurðarnefndin féllst á með ráðuneytinu að minnisblöðin uppfylltu skilyrði vinnugagnahugtaks 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en taldi að í öðru þeirra kæmu fram upplýsingar um atvik máls sem ekki væri að finna annars staðar, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna. Lagt var fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim hluta annars minnisblaðsins en hin kærða ákvörðun var að öðru leyti staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 758/2018 í máli ÚNU 18030014. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 27. mars 2018, kærði A, blaðamaður Stundarinnar, ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að þann 27. febrúar 2018 hafi kærandi sent ráðuneytinu beiðni um aðgang að niðurstöðum þess varðandi samskipti á sviði barnaverndarnefnda. Ef ráðuneytið teldi persónuupplýsingar og trúnaðarmál vera að finna í niðurstöðunum var óskað eftir því að fá skjalið afhent með persónugreinanlegum upplýsingum afmáðum eftir því sem ráðuneytið teldi nauðsynlegt, sbr. 3. mgr. 5. gr upplýsingalaga.<br /> <br /> Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 16. mars 2018, kemur fram að í bréfum velferðarráðuneytisins til þriggja barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðu vegna umkvartana þeirra varðandi samskipti við Barnaverndarstofu. Bréfin séu hin formlega niðurstaða málsins. Í hinu umbeðna minnisblaði, sem tekið hafi verið saman af sérfræðingum ráðuneytisins, sé fjallað um hvort efni standi til þess af hálfu ráðuneytisins að bregðast við umkvörtununum og með hvaða hætti. Minnisblaðið sé vinnugagn ráðuneytisins til að byggja formlegu niðurstöðuna á. Þar sé komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi átt sér stað brot í starfi. Vísað er til þess að minnisblaðið teljist til vinnugagna, sbr. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þá hafi ein þeirra umkvartana sem var til umfjöllunar hjá ráðuneytinu varðað tiltekið mál einstaklings á sviði barnaverndar. Ráðuneytið hafi tekið það til sérstakrar skoðunar og ritað hafi verið sérstakt minnisblað í ljósi þess að þar séu rakin viðkvæm persónuleg málefni. Niðurstaða málsins hafi einnig verið að ekki hafi verið um að ræða brot í starfi. Þar sem um sé að ræða viðkvæm gögn um einkamálefni einstaklinga sé óheimilt að veita aðgang að því á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ranga. Í fyrsta lagi geti bréfin sem ráðuneytið sendi barnaverndarnefndunum og Barnaverndarstofu ekki með góðu móti talist niðurstaða stjórnvalds í kvörtunarmáli, enda sé þar ekki að finna neina reifun á umkvörtunum og málsatvikum, andmæli eða rökstuðning af neinu tagi. Því megi draga þá ályktun að hin raunverulega niðurstaða málsins komi fyrir í minnisblöðum ráðuneytisins og að þau hafi því ekki verið undirbúningsgögn í reynd.<br /> <br /> Þá kveði 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga á um að stjórnvöld skuli afhenda vinnugögn þegar eftir þeim sé óskað ef þar komi fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar um atvik máls sem ekki komi annars staðar fram. Þá vilji kærandi velta því upp að standist synjun ráðuneytisins hljóti stjórnvöld að geta afgreitt nær hvaða mál sem er í formi vinnugagna eða óformlegra minnisblaða og vikið sér þannig hjá því að rækja upplýsingaskyldu sína gagnvart almenningi.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 5. apríl 2018, og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn velferðarráðuneytisins, dags. 13. apríl 2018, eru að mestu leyti endurtekin rök fyrir synjun beiðni kæranda sem komu fram í hinni kærðu ákvörðun. Þó kemur fram að ráðuneytið hafi metið það svo að ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að ráðuneytinu sé heimilt að afhenda kæranda umbeðin gögn. Í minnisblöðunum sé fjallað um starfssamband ráðherra og forstjóra Barnaverndarstofu, en þar séu m.a. reifaðar ávirðingar á hendur honum og starfsfólki undir hans stjórn og umfjöllun ráðuneytisins þar að lútandi. Hafi það því verið mat ráðuneytisins að umbeðnar upplýsingar væru undanþegnar upplýsingarétti almennings.<br /> <br /> Umsögn velferðarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 23. apríl 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.<br /> <h2>Niðurstaða<br /> 1.</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að minnisblöðum velferðarráðuneytisins er tengjast umkvörtunum barnaverndarnefnda í garð forstjóra Barnaverndarstofu. Um upplýsingarétt kæranda fer samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt ákvæðinu er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.<br /> <h2>2.</h2> Af hálfu ráðuneytisins hefur í fyrsta lagi komið fram að 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að ráðuneytinu sé heimilt að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum, þar sem fjallað sé um starfssamband ráðherra og fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu. Þar séu reifaðar ávirðingar á hendur honum og starfsfólki undir hans stjórn og umfjöllun ráðuneytisins þar að lútandi. Um þetta er í fyrsta lagi að segja að Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun, enda þó hún heyri undir yfirstjórn ráðherra og ráðherra skipi forstjóra hennar. Forstjóri Barnaverndarstofu er því ekki starfsmaður ráðherra eða ráðuneytisins þannig að starfssamband teljist vera þeirra á milli í þeim skilningi sem rætt er um í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið tekur þó til forstjóra sem starfsmanns Barnaverndarstofu og þeirra sem þar starfa. <br /> <br /> Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til skv. 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.</span><br /> <br /> Við úrlausn þessa máls reynir á það hvort þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þær varði að öðru leyti starfssamband starfsmannsins og Barnaverndarstofu. Þegar tekin er afstaða til þessa atriðis verður að hafa í huga að ákvæði 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra það þröngt.<br /> <br /> Við mat á því hvort umbeðin gögn teljist varða starfssamband þeirra sem þar er fjallað um að öðru leyti verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem lýst er í lögskýringargögnum með ákvæði 7. gr. og rakin eru hér að framan. Af þeim sjónarmiðum verður ráðið að ákvæðinu sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Telja verður ljóst að með þeirri skírskotun sé átt við ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 711/2017.<br /> <br /> Þegar lagt er mat á hvers konar ákvarðanir falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga er meðal annars litið til þess hvort ákvörðun sé beint út á við að borgurunum eða inn á við að starfsemi stjórnsýslunnar. Ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslunnar teljast yfirleitt ekki til slíkra ákvarðana. Þær geta hins vegar verið það í ákveðnum tilvikum, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, en þar eru í dæmaskyni nefndar ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra. Í fyrrnefndum athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er svo vísað til IV. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hvað varðar sambærileg dæmi um ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslu sem teljast ákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. <br /> <br /> Í ljósi framangreinds verður að telja að hin umbeðnu minnisblöð lúti ekki að starfssambandi fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu við stofnunina að öðru leyti í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, þar sem þar eru ekki upplýsingar um ákvörðun í máli sem hann varðar í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <h2>3.</h2> Þá hefur komið fram af hálfu ráðuneytisins að umbeðin gögn teljist til vinnugagna í skilningi 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna, og endanleg niðurstaða þess í málunum hafi birst í bréfum til barnaverndarnefndanna sem um ræðir. <br /> <br /> Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Til þess að skjal teljist vinnugagn þarf því almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt ákvæðinu. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn í reynd, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að umbeðin minnisblöð uppfylli síðastnefndu skilyrðin tvö. Í þessu sambandi skal tekið fram að það leiðir ekki eitt og sér til þess að minnisblöðin missi stöðu sína sem vinnugögn að þau hafi verið afhent aðilum sem framkvæmdu úttekt á málsmeðferð og efnislegri athugun ráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefndanna, með vísan til 3. tölul. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í skilyrðinu um að gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd felst að það hafi orðið til við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta tiltekins máls. Takmörkun 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings er enda studd þeim rökum að gögn sem verða til við slíkt ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Af þessu leiðir að gagn getur ekki talist vinnugagn ef það hefur í raun að geyma endanlega ákvörðun eða niðurstöðu um afgreiðslu máls. Kæra kæranda er reist á því að þetta eigi við um minnisblöð velferðarráðuneytisins, enda sé ekki að finna neina reifun á umkvörtunum og málsatvikum, andmæli eða rökstuðning af neinu tagi í bréfum ráðuneytisins til barnaverndarnefndanna þriggja, sem það kveður fela í sér endanlega niðurstöðu málsins.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir minnisblöðin í ljósi framangreindra sjónarmiða. Í minnisblaði skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018, er farið yfir kvartanir barnaverndarnefndanna þriggja, kröfu einnar þeirra um setningu staðgengils, kvartanir vegna framgöngu Barnaverndarstofu og viðbrögð stofnunarinnar, kröfu Barnaverndarstofu um að fram fari mat á hæfi skrifstofustjóra á skrifstofunni, fund ráðuneytisins með framkvæmdastjóra barnaverndar Reykjavíkur og kvörtun yfir ummælum forstjóra Barnaverndarstofu í fjölmiðlum. Þá er farið yfir hlutverk og ábyrgð ráðuneytisins í málinu og möguleg viðbrögð við kvörtununum. Gerðar eru tillögur til úrbóta til lengri og skemmri tíma og farið í stuttu máli yfir athugun ráðuneytisins á málinu sem tengdist barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar. Að lokum kemur fram að ljóst sé að ásakanirnar séu alvarlegar og þarfnist málið sérstakrar skoðunar við. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að hvergi í minnisblaðinu eru teknar endanlegar ákvarðanir um viðbrögð ráðuneytisins í málinu. Atvik þess eru reifuð og á stöku stað settar fram hugmyndir um hugsanleg viðbrögð. Að mati nefndarinnar uppfyllir minnisblaðið því skilyrði þess að teljast undirbúningsgagn í reynd. <br /> <br /> Á hinn bóginn ber að líta til þess að í bréfum ráðuneytisins til barnaverndarnefndanna þriggja, sem send voru eftir gerð minnisblaðsins, er ekki vikið að ávirðingum þeirra í garð forstjórans fyrrverandi og mati ráðuneytisins á efni þeirra. Eins og hér háttar til er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að minnisblaðið hafi því að geyma umfangsmiklar upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að með þessu orðalagi sé einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum sé ekki að finna annars staðar, en kunni að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu séu einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þessi lýsing á að öllu leyti við um efni minnisblaðs skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018. Enda þó minnisblaðið uppfylli öll formleg skilyrði þess að teljast til vinnugagns er um svo umfangsmiklar upplýsingar um atvik málsins að ræða, sem ekki koma fram í þeim bréfum er ráðuneytið kveður fela í sér endanlega niðurstöðu málsins, að ekki þykir rétt að takmarka aðgang almennings að því. Í ljósi allra atvika málsins að öðru leyti þykir almenningur eiga af því ríka hagsmuni að kynna sér þær upplýsingar sem þar koma fram. Bar því velferðarráðuneytinu að veita kæranda aðgang að því á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, að frátöldum þeim hluta minnisblaðsins sem ber yfirskriftina: „Tillögur að úrbótum til lengri og skemmri tíma“. Þar er að finna umfjöllun sem fellur að öllu leyti undir vinnugagnahugtakið eins og það er afmarkað í upplýsingalögum.<br /> <br /> Sömu sjónarmið eiga ekki að öllu leyti við um minnisblað velferðarráðuneytisins til ráðherra, dags. 6. febrúar 2018. Þar er fjallað um ábendingu um óeðlileg afskipti forstjóra Barnaverndarstofu af barnaverndarmáli í Hafnarfirði. Í kjölfarið var Barnaverndarstofu tilkynnt um niðurstöðu athugunarinnar með bréfi, dags. 27. febrúar 2018, og barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar einnig með bréfi sama dag. Eins og hér háttar til verður að telja að minnisblaðið hafi ekki að geyma umfangsmiklar upplýsingar um málsatvik sem ekki koma fram í endanlegri niðurstöðu málsins. Verður því að telja að velferðarráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að því á þeim grundvelli að um vinnugagn hafi verið að ræða í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sér þó ástæðu til að benda á að upplýsingar um efni minnisblaðsins, þ.m.t. bein tilvitnun í stóran hluta þess, hefur birst opinberlega í niðurstöðu óháðrar úttektar á málsmeðferð og efnislegri athugun ráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefndanna þriggja vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar, dags. 6. júní 2018. Úttektin er birt á vef Stjórnarráðsins. Með hliðsjón af niðurstöðu nefndarinnar er ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort 9. gr. upplýsingalaga komi í veg fyrir aðgang kæranda að minnisblaðinu.<br /> <br /> Það athugast að við töku hinnar kærðu ákvörðunar tók velferðarráðuneytið ekki afstöðu til þess hvort kæranda skyldi veittur aukinn aðgangur að umbeðnum gögnum, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, svo sem skylt er skv. 2. mgr. ákvæðisins. Enda þótt fallist sé á það með ráðuneytinu að heimilt hafi verið að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblaðinu, dags. 6. febrúar 2018, kann því jafnframt að hafa verið heimilt að veita honum aðgang að því á grundvelli sjónarmiða um aukinn aðgang og markmiða upplýsingaréttar almennings, sbr. 1. gr. upplýsingalaga. Því er beint til ráðuneytisins að taka afstöðu til þessa atriðis við meðferð beiðna um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögunum í framtíðinni.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Velferðarráðuneytinu ber að veita kæranda, A, blaðamanni, aðgang að minnisblaði skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018 að frátöldum þeim hluta minnisblaðsins sem ber yfirskriftina: „Tillögur að úrbótum til lengri og skemmri tíma“.<br /> <br /> Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

757/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Kærð var ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja beiðni um upplýsingar um kostnað stofnunarinnar vegna þátttöku starfsmanns á ráðstefnum erlendis á tilteknu tímabili. Ákvörðunin byggðist á því að upplýsingarnar vörðuðu starfssamband starfsmannsins og Vegagerðarinnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, og að um persónuupplýsingar væri að ræða sem 9. gr. laganna kæmi í veg fyrir að yrðu afhentar óviðkomandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á þetta og lagði fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 757/2018 í máli ÚNU 18030013. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 26. mars 2018, kærði Stapi ehf. synjun Vegagerðarinnar á beiðni um aðgang að upplýsingum um kostnað stofnunarinnar af þátttöku starfsmanns hennar á ráðstefnum erlendis á tilteknu tímabili.<br /> <br /> Með bréfi til Vegagerðarinnar, dags. 21. mars 2018, óskaði kærandi eftir aðgangi að upplýsingum um kostnað Vegagerðarinnar af þátttöku A, strandverkfræðings á siglingasviði stofnunarinnar, á ráðstefnu í Liverpool á Englandi árið 2017. Enn fremur óskaði kærandi eftir sambærilegum kostnaðarupplýsingum í tengslum við þátttöku sama starfsmanns á ráðstefnum erlendis frá árinu 2013 fram til dagsins í dag. Til stuðnings beiðni sinnar vísaði kærandi m.a. til meginreglu um upplýsingarétt almennings sem fram kemur í 5. gr. upplýsingalaga og nánar tilgreindra úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Vegagerðin synjaði beiðni kæranda með tölvupósti, dags. 23. mars 2018, með vísan til 7. gr. upplýsingalaga um takmörkun á rétti almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna. Þar kæmi fram að réttur almennings til aðgangs að slíkum gögnum næði ekki til gagna í málum sem vörðuðu umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Þar sem umbeðnar upplýsingar tengdust starfssambandi starfsmanns og Vegagerðarinnar synjaði stofnunin kæranda því um aðgang að þeim.<br /> <br /> Í tölvupóstinum var svo tekið fram að hjá Vegagerðinni væru engar utanlandsferðir farnar nema þær hlytu umfjöllun hjá utanfararnefnd stofnunarinnar, sem jafnframt gæfi leyfi til ferðarinnar. Að auki þyrfti vegamálastjóri að samþykkja slíka ferð. Að lokum var svo nefnt að kostnaður við slíkar ferðir væri í föstum skorðum; greitt væri fargjald, dagpeningar samkvæmt útreikningi ferðakostnaðarnefndar ríkisins og svo ráðstefnugjald í þeim tilvikum sem þess gerðist þörf.<br /> <br /> Í kæru sinni til úrskurðarnefndar gerði kærandi athugasemd við að Vegagerðin rökstyddi ekki efnislega að ferðakostnaður stofnunarinnar vegna ráðstefnuþátttöku starfsmanna erlendis skyldi fara leynt. Honum þætti gagnrýnivert að opinber aðili synjaði um aðgang að slíkum upplýsingum og kæmi þannig í veg fyrir eðlilegt gagnsæi opinberrar starfsemi.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 5. apríl 2018, var kæran kynnt Vegagerðinni og stofnuninni veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um kæruna og frekari rökstuðningi. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.<br /> <br /> Umsögn Vegagerðarinnar er dagsett 17. apríl 2018. Í henni kemur fram að stofnunin hafi synjað um aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem fram kemur að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfi hjá aðilum sem lögin taki til nái ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.<br /> <br /> Því næst er tiltekið að almennt sé viðurkennt að tilteknir hagsmunir stjórnvalda og starfsmanna sem lúta meðal annars að því að varðveita traust og trúnað í starfssambandinu geti leitt til þess að réttmætt sé að takmarka þann upplýsingarétt almennings sem fram kemur í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. sömu laga taki réttur almennings ekki til gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr. laganna. Samkvæmt athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum komi fram að með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti sé átt við gögn mála þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búi þar að baki að rétt sé að veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem hætta væri á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu teldi Vegagerðin að ákvörðun um að heimila starfsmanni að sækja ráðstefnu og greiða kostnað vegna hennar væri ákvörðun um réttindi starfsmannsins, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Undanþágur frá undantekningarreglu 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, sem fram kæmu í 2. mgr. sömu greinar, ættu ekki við í málinu. Var það enn fremur nefnt sérstaklega að kostnaður við ráðstefnuþátttöku gæti ekki talist til „fastra launakjara starfsmanns“ í skilningi 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Því næst kom fram að við ákvörðun Vegagerðarinnar að synja um aðgang að umbeðnum gögnum hefði verið litið til þess að um væri að ræða kostnað sem rekja mætti beint til ákveðins starfsmanns stofnunarinnar. Um væri að ræða persónuupplýsingar sem kynnu að falla undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 23. apríl 2018, gaf úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda kost á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar. Þær bárust með bréfi, dags. 4. maí 2018. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður aðila og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um kostnað Vegagerðarinnar af þátttöku starfsmanns stofnunarinnar á ráðstefnum erlendis á tilteknu tímabili. Synjun Vegagerðarinnar á beiðni kæranda um aðgang að gögnunum byggist aðallega á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga en einnig á 9. gr. sömu laga.<br /> <br /> Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til skv. 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:<br /> <br /> <span class="pull-quote">Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.</span><br /> <br /> Við úrlausn þessa máls reynir á það hvort þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þær varði að öðru leyti starfssamband umrædds starfsmanns og Vegagerðarinnar. Þegar tekin er afstaða til þessa atriðis verður að hafa í huga að ákvæði 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra það þröngt.<br /> <br /> Við mat á því hvort umbeðin gögn teljist varða starfssamband þeirra sem þar er fjallað um að öðru leyti verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem lýst er í lögskýringargögnum með ákvæði 7. gr. og rakin eru hér að framan. Af þeim sjónarmiðum verður ráðið að ákvæðinu sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Telja verður ljóst að með þeirri skírskotun sé átt við ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 711/2017.<br /> <br /> Þegar lagt er mat á hvers konar ákvarðanir falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga er meðal annars litið til þess hvort ákvörðun sé beint út á við að borgurunum eða inn á við að starfsemi stjórnsýslunnar. Ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslunnar teljast yfirleitt ekki til slíkra ákvarðana. Þær geta hins vegar verið það í ákveðnum tilvikum, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, en þar eru í dæmaskyni nefndar ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra. Í fyrrnefndum athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er svo vísað til IV. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hvað varðar sambærileg dæmi um ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslu sem teljast ákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. <br /> <br /> Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að ákvörðun um að taka þátt í kostnaði við ráðstefnuþátttöku starfsmanns hjá stjórnvaldi teljist varða svo mikilvæg réttindi hans að slík ákvörðun geti talist ákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af þeirri ástæðu geta gögn í slíku máli ekki heldur talist varða „starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti byggð á því að umbeðin gögn innihaldi persónuupplýsingar, sem kunni að falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur undir höndum þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir í málinu. Um er að ræða yfirlit um kostnað sem Vegagerðin greiddi fyrir ráðstefnuþátttöku tiltekins starfsmanns á ákveðnu tímabili. Að mati nefndarinnar er í gögnunum ekki að finna upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Er hér litið til þess að um er að ræða upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna og umbeðin gögn hafa hvorki að geyma neinar upplýsingar sem nefndar eru í dæmaskyni í tilvitnuðum athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, né upplýsingar sambærilegar þeim viðkvæmu upplýsingum sem þar eru nefndar.<br /> <br /> Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að veita beri kæranda aðgang að upplýsingum um kostnað stofnunarinnar af ráðstefnuþátttöku A erlendis frá árinu 2013 fram til dagsins í dag, þar með talið upplýsingum vegna ráðstefnu í Liverpool á Englandi árið 2017.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Vegagerðinni ber að veita kæranda, Stapa ehf., aðgang að upplýsingum um kostnað stofnunarinnar af þátttöku A í ráðstefnum erlendis frá árinu 2013 fram til dagsins í dag, þar með talið upplýsingum vegna ráðstefnu í Liverpool á Englandi árið 2017.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

756/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Kærandi óskaði eftir aðgangi að gögnum frá Tryggingastofnun um son kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun kom m.a. fram að barnsmóðir kæranda væri aðili að málum hjá stofnuninni sem varði barnið en ekki kærandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Tryggingastofnun hefði borið að meta hvort kærandi ætti rétt á aðgangi að upplýsingunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og lagði fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 756/2018 í máli ÚNU 18030004. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 11. mars 2018, kærði A synjun Tryggingastofnunar á beiðni um aðgang að gögnum. Með tölvupósti, dags. 11. janúar 2018, óskaði kærandi eftir því að allar upplýsingar um son kæranda væru aðgengilegar á svokölluðum „mínum síðum“ kæranda. Einnig óskaði kærandi eftir því að fá allan póst er varðaði son hans, svo kærandi yrði upplýstur um öll samskipti varðandi son sinn. Þann 1. febrúar 2018 svaraði Tryggingastofnun því að barnsmóðir kæranda væri viðskiptavinur Tryggingastofnunar og rétthafi greiðslna vegna sonar hennar og kæranda frá stofnuninni en ekki kærandi. Stofnuninni væri á grundvelli persónuverndarsjónarmiða ekki heimilt að veita kæranda óheftan aðgang að samskiptum stofnunarinnar og barnsmóður kæranda vegna greiðslna frá stofnuninni, þó að þau vörðuðu son kæranda. Fram kemur að Tryggingastofnun sé heimilt að veita kæranda afrit af ákvörðunum sem Tryggingastofnun hafi þegar tekið varðandi son hans, eins og umönnunarmötum og umönnunarkorti. Tryggingastofnun muni birta afrit af þeim á „mínum síðum“ kæranda. Ekki verði þó um sjálfkrafa birtingu að ræða heldur þurfi kærandi að óska eftir afriti af þeim hverju sinni. <br /> <br /> Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. febrúar 2018, var kæranda synjað um aðgang að gögnum sem varða son hans hjá stofnuninni. Í bréfinu kemur m.a. fram að við afhendingu gagna sem verði til við úrlausn stjórnsýslumála beri að horfa til þess hver sé aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 15.-17. gr. þeirra laga. Jafnframt er á það bent að umönnunargreiðslur séu greiddar til þess foreldris sem sé með skráð lögheimili barnsins hjá sér og sé það móðir barnsins sem sé aðili málsins hjá stofnuninni en ekki kærandi. Að öðru leyti fari um aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum skv. upplýsingalögum nr. 140/2012 og um meðferð persónuupplýsinga skv. lögum nr. 77/2000. Með vísan til þessa sé Tryggingastofnun ekki heimilt að veita kæranda óheftan aðgang að gögnum sem varði son kæranda hjá stofnuninni og sé beiðni kæranda því synjað. <br /> <br /> Í kæru kemur m.a. fram að sonur kæranda hafi haft umönnunarkort frá árinu 2015 og hafi móðir hans fengið bætur vegna fötlunar hans. Kærandi hafi þó ekki vitað af því, þrátt fyrir að hann hafi sótt um kortið ásamt móðurinni. Fram kemur að kærandi og barnsmóðir hans séu með sameiginlega forsjá og jafna umgengni. Ekkert mæli gegn því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar kæranda enda snúist þær um son hans en ekki móður barnsins. Vísað er til þess að í barnalögum nr. 76/2003 séu engin ákvæði um að upplýsingar til forsjárforeldris eigi með einhverju móti að vera takmarkaðar. Þá kemur m.a. fram að umönnunarkortið skipti miklu máli en það gefi drengnum ásamt einum fylgdarmanni m.a. ókeypis í sund. Kærandi telji að miðað við synjun Tryggingastofnunar virðist sonur kæranda aðeins vera fatlaður hjá móður, sem fái allan stuðning, en heilbrigður hjá föður sem fái engar upplýsingar, engan stuðning og sé ekki talinn vera aðili að málefnum sem varði greiningu og fötlun barnsins. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 13. mars 2017, var kæran kynnt Tryggingastofnun og veittur kostur á að koma á framfæri og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Tryggingastofnunar, dags. 11. apríl 2018, kemur m.a. fram að stofnuninni sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Umönnunargreiðslur séu greiddar til þess foreldris sem sé með skráð lögheimili barnsins hjá sér enda litið svo á að það annist framfærslu barnsins. Barnsmóðir kæranda sé rétthafi umönnunargreiðslna með syni kæranda enda hafi barnið lögheimili hjá henni. Hún sé því viðskiptavinur Tryggingastofnunar og aðili máls hjá stofnuninni er varði umönnunargreiðslur með barni hennar. Eingöngu sé hægt að veita þeim sem teljist aðili máls aðgang að gögnum er málið varði. Ekki sé hægt að líta á kæranda sem aðila máls barnsmóður sinnar hjá stofnuninni þrátt fyrir að málið varði son hans og þau deili forsjá barnsins. Stofnuninni sé því ekki heimilt að veita kæranda óheftan aðgang að þeim gögnum og samskiptum sem eigi sér stað á milli stofnunarinnar og barnsmóður hans vegna greiðslna hennar frá stofnuninni með syni hans.<br /> <br /> Fram kemur að Tryggingastofnun hafi ákveðið að veita kæranda, sem forsjáraðila barnsins, afrit af umönnunarmötum sem gerð hafi verið vegna sonar hans og einnig afrit af umönnunarkorti sem veiti afslátt af læknisþjónustu fyrir son kæranda ásamt tilboðum eða afsláttum á fleiri stöðum, eins og t.d. í sund. Kærandi geti því notið þeirra afsláttarkjara sem umönnunarkortið veiti til jafns við móður barnsins. Tryggingastofnun telur sig hafa heimild til að veita kæranda, sem forsjáraðila barnsins, þessar upplýsingar og gögn en ekki sé hægt að verða við því að birta gögnin sjálfkrafa í framtíðinni heldur verði kærandi að óska eftir afriti af þeim hverju sinni. Tryggingastofnun geti ekki tryggt að ekki birtist einnig gögn sem varði persónulega hagi og einkamálefni barnsmóður hans og geti því ekki birt þessi gögn sjálfkrafa.<br /> <br /> Þá segir í umsögninni að Tryggingastofnun telji sig hafa veitt kæranda aðgang að þeim gögnum sem stofnuninni sé heimilt að veita er varði son hans og rétt til umönnunargreiðslna með honum. Önnur gögn, sem snúi að þessum rétti barnsmóður kæranda til umönnunargreiðslna, eins og umsókn og bréfaskipti stofnunarinnar við hana vegna málsins, varði einnig hana sjálfa og hennar persónulegu hagi og því hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að veita kæranda aðgang að þeim með vísan til persónuverndarréttar. Þá séu læknisfræðileg gögn um barnið, eins og læknisvottorð sem berist Tryggingastofnun frá læknum barnsins til að meta rétt á greiðslum frá stofnuninni, viðkvæm gögn í skilningi persónuverndarréttar. Um sé að ræða gögn frá þriðja aðila og sé Tryggingastofnun ekki vörsluaðili þeirra gagna og hafi því ekki heimild til að afhenda þau gögn. <br /> <br /> Umsögninni fylgdi ekki afrit þeirra gagna sem kæranda var synjað um. <br /> <br /> Umsögn Tryggingastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 23. apríl 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. <br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 7. maí 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi ekki verið upplýstur um mat Tryggingastofnunar á fötlun sonar hans. Hann sé einungis að fara fram á að vera upplýstur um réttindi sonar hans. Kærandi sé ekki að óska eftir gögnum um aðila sem sé honum ótengdur. Þá sé markmiðið með umönnunargreiðslum það að aðstoða foreldra ef andleg og líkamleg hömlum barns hefur með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Eðli málsins samkvæmt sé þessi kostnaður ekki síðri hjá því foreldri sem barn hefur ekki lögheimili hjá. <br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður aðila og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. <br /> <br /> <h3>Niðurstaða<br /> 1.</h3> Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að gögnum í vörslum Tryggingastofnunar. Í gagnabeiðni sinni, dags. 11. janúar 2018, óskaði kærandi eftir því að allar upplýsingar um son kæranda yrðu gerðar aðgengilegar á svokölluðum „mínum síðum“ kæranda. Einnig óskaði kærandi eftir því að hann fengi allan póst er varði samskipti um son sinn. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Það er því ekki á valdsviði úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skera úr um hvort Tryggingastofnun sé skylt að birta jafnóðum upplýsingar á sérstöku vefsvæði eða veita kæranda aðgang að gögnum sem ekki voru orðin til þegar gagnabeiðni kæranda barst. Í ljósi þessa verður litið svo á að kærandi hafi í gagnabeiðninni óskað eftir öllum fyrirliggjandi gögnum í vörslum Tryggingastofnunar er varði son hans.<br /> <h3>2.</h3> Í umsögn Tryggingastofnunar, dags. 11. apríl 2018, kemur fram að kæranda hafi verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem stofnunin hafi talið heimilt að veita aðgang að. Stofnunin hafi aftur á móti synjað kæranda um aðgang að gögnum þar sem hann sé ekki aðili að stjórnsýslumáli er varði rétt barnsmóður hans til umönnunargreiðslna með syni þeirra. Þá varði önnur gögn, sem snúi að rétti barnsmóður kæranda til umönnunargreiðslna, eins og umsókn og bréfaskipti stofnunarinnar við hana vegna málsins, einkamálefni móður. Auk þess séu læknisfræðileg gögn um barnið viðkvæm gögn í skilningi persónuréttar. Um sé að ræða gögn frá þriðja aðila og hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að afhenda þau gögn. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær til allra gagna sem fyrirliggjandi eru hjá aðila sem fellur undir lögin samkvæmt 2. og 3. gr. laganna, nema takmarkanir séu á því gerðar með lögum. Ekki skiptir því máli hvort gögnin hafi „borist frá þriðja aðila“. Þá kemur fram í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Aðili stjórnsýslumáls getur því ekki óskað eftir upplýsingum í málinu á grundvelli upplýsingalaga heldur gildir þá ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um aðganginn. Þeir sem ekki eru aðilar að stjórnsýslumáli geta hins vegar óskað eftir gögnum sem tilheyra slíku máli á grundvelli upplýsingalaga. Tryggingastofnun var því skylt að meta þau gögn sem fallið gátu undir gagnabeiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga, þ. á m. hvort réttur kæranda til þeirra yrði felldur undir 1. mgr. 5. gr. laganna um upplýsingarétt almennings eða 1. mgr. 14. gr. laganna um upplýsingarétt aðila sjálfs. <br /> <br /> Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga 140/2012 segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, áður 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum. Augljóst er að kærandi hefur hagsmuni af því umfram almenning að fá upplýsingar sem varða barn hans með beinum hætti, svo sem læknisfræðileg gögn sem og upplýsingar um barnið sem fram koma í samskiptum barnsmóður hans og Tryggingastofnunar. Er því ekki vafi á um að Tryggingastofnun hafi borið að meta rétt kæranda til aðgangs að slíkum gögnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr., með þeim takmörkunum sem greinir í lögum. <br /> <br /> Samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er Tryggingastofnun heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna. Þá er stofnuninni heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma. Eins og ákvæðið er orðað verður ekki ráðið að réttur þessi sé bundinn við lögheimilisforeldri. Í ljósi þeirrar fullyrðingar kæranda að hann og barnsmóðir hans deili forræði og að umgengni barnsins við þau sé jöfn er því er ekki útilokað að kærandi geti átt rétt til bóta á grundvelli ákvæðisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur að sjálfsögðu ekki ákvörðun um slíkt heldur takmarkast umfjöllun nefndarinnar við upplýsingarétt kæranda. Nefndin telur hins vegar, í ljósi hugsanlegrar réttarstöðu kæranda sem forræðis- og umgengnisforeldris barnsins að ekki sé fyrirfram útilokað að hann geti, á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga, átt rétt til upplýsinga um samskipti barnsmóður og Tryggingastofnunar varðandi umsókn um umönnunarbætur. Ekki er að sjá að Tryggingastofnun hafi metið hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að upplýsingunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga eða hvort um rétt hans fari eftir 1. mgr. 5. gr. laganna. <br /> <h3>3.</h3> Upplýsingaréttur aðila máls á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga lýtur m.a. takmörkunum á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. <br /> <br /> Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur m.a. fram að algengt sé að gögn hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila. Þegar fram komi beiðni um aðgang að slíkum gögnum sé þannig líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Tekið er fram að kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. frumvarpsins. Í athugasemdunum segir jafnframt um 3. mgr. 14. gr. að regla ákvæðisins byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir séu. Oft verði því að leita álits þess sem eigi andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar séu þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.<br /> <br /> Samkvæmt þessu bar Tryggingastofnun að meta hvort hagsmunir kæranda til aðgangs að gögnunum vægju þyngra en hagsmunir annarra sem koma fyrir í gögnunum af því að þau fari leynt. Við það mat bar Tryggingastofnun m.a. að taka mið af 3. mgr. 5. gr. þar sem segir að ef ákvæði 6.-10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Ljóst er að þetta skyldubundna mat, sem kveðið er á um í upplýsingalögum, fór ekki fram. Þá verður ekki séð að Tryggingastofnun hafi leitað eftir afstöðu barnsmóður kæranda til þess að kæranda verði veittur aðgangur að þeim gögnum sem varða hana, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. <br /> <h3>4.</h3> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Eins og fram hefur komið er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að málsmeðferð Tryggingastofnunar við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki samrýmst ákvæðum upplýsingalaga og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er það því mat nefndarinnar að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Tryggingastofnun að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 9. nóvember 2017, um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir Tryggingastofnun að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

755/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Óskað var eftir álitsgerðar nefndar heilbrigðisráðherra um hæfni umsækjenda um embætti landlæknis. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti að ráðuneytinu hefði verið heimilt að synja beiðninni á grundvelli 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 755/2018 í máli ÚNU 18030003.<br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 6. mars 2018, kærði A, blaðamaður, synjun velferðarráðuneytisins á beiðni um aðgang að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra til að meta hæfni umsækjenda um embætti landlæknis. <br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 2. mars. 2018, óskaði B, blaðamaður, eftir því við velferðarráðuneytið að sér yrðu sendar niðurstöður hæfnisnefndar um umsækjendur um stöðu landlæknis. Í beiðninni vísaði hann til þess að komið hefði fram í tilkynningu frá ráðuneytinu að tveir umsækjendur hefðu verið metnir hæfastir, þeirra á meðal Alma Möller. Óskaði B eftir því að fá upplýsingar um hver hinn umsækjandinn væri. A tók við málinu af B og ýtti á eftir viðbrögðum ráðuneytisins í símtali við aðstoðarmann heilbrigðisráðherra þann 5. mars. <br /> <br /> Beiðninni var svarað með tölvupósti, dags. 5. mars 2018. Þar vísaði ráðuneytið til fyrri samskipta og benti því næst á að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé skylt að veita almenningi upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur sé liðinn. Velferðarráðuneytið hafi birt upplýsingar þessa efnis í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins þann 8. janúar 2018 um nöfn og starfsheiti þeirra sex sem sóttu um embætti landlæknis. Hins vegar taki réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssamband að öðru leyti. Meðal gagna í slíkum málum séu umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar sé rakið í skýringum við ákvæði 7. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012. Því sé velferðarráðuneytinu hvorki unnt að verða við beiðni kæranda um aðgang að niðurstöðu hæfnisnefndar um umsækjendur um embætti landlæknis né veita upplýsingar um hvaða umsækjanda hæfnisnefndin hafi metið jafnhæfan umsækjandanum sem ákveðið var að skipa í embættið.<br /> <br /> Eins og áður segir kærði kærandi framangreinda synjun velferðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 6. mars 2018. Í kærunni eru samskipti blaðamannanna við ráðuneytið stuttlega rakin og meðal annars tekið fram að upphaflega hafi B fengið jákvæð viðbrögð við beiðninni sem svo hafi verið hafnað.<br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 9. mars 2018, var kæran kynnt velferðarráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana.<br /> <br /> Í umsögn velferðarráðuneytisins, dags. 13. mars. 2018, segir m.a. að í athugasemdum við 6. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012 sé fjallað um tilteknar undantekningar frá rétti almennings til aðgangs að gögnum. Þá segir að í ljósi athugasemda við 4. tölul. 4. gr. sem fylgdu með frumvarpi því sem varð að eldri upplýsingalögum og athugasemda við 7. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga telji ráðuneytið að því sé hvorki heimilt að veita aðgang að niðurstöðum hæfnisnefndar sem mat umsækjendur um embætti landlæknis né upplýsingar um það hvernig þeir röðuðust samkvæmt mati nefndarinnar.<br /> <br /> Fram kemur að velferðarráðuneytið hafi oft fengið óskir frá umsækjendum um embætti eða störf sem auglýst eru á þess vegum, um að nöfn þeirra verði ekki birt, þrátt fyrir að ákvæði upplýsingalaga um birtingu séu skýr hvað þetta varði. Meðal annars í því ljósi telji ráðuneytið að það kunni að vera viðkvæmt af hálfu umsækjenda um embætti eða störf ef birtar séu opinberlega upplýsingar um það hvernig þeir raðast innbyrðis eftir hæfni samkvæmt mati hæfnisnefndar. Það hafi komið til tals að veita upplýsingarnar að því gefnu að viðkomandi gæfi samþykki sitt. Hins vegar hafi verið horfið frá því þar sem upplýsingarnar feli óhjákvæmilega í sér ákveðnar upplýsingar um mat hæfnisnefndarinnar á hinum umsækjendunum fjórum.<br /> <br /> Auk þess kemur fram að við mat á því hvort orðið sé við beiðnum fjölmiðla eða almennings um aðgang að gögnum byggi ráðuneytið jafnan nálgun sína á því hvort heimilt sé að veita umbeðin gögn. Vinnureglan sé sú að veita aðgang að gögnum ef það sé heimilt, þótt það sé ekki endilega skylt samkvæmt lögum. Í umsögninni kemur fram að velferðarráðuneytið telji mikilvægt að fá úr því skorið hvaða gögnum því sé heimilt að veita aðgang að í málum sem þessum, hvort sem niðurstaða úrskurðarnefndarinnar feli í sér staðfestingu á ákvörðun ráðuneytisins í þessu máli eða felli hana úr gildi að hluta eða öllu leyti. <br /> <br /> Umsögn velferðarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. mars 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu reynir á rétt almennings til aðgangs að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra þar sem lagt er mat á hæfni umsækjenda um embætti landlæknis, skv. 2. gr. laga nr. 41/2007 um embætti landlæknis, sbr. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Álitsgerðin var undirrituð 15. febrúar 2018 og skipaði ráðherra Ölmu Dagbjörtu Möller í embættið þann 1. apríl 2018. Embætti landlæknis og velferðarráðuneytið heyra bæði undir upplýsingalög, sbr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.<br /> <br /> Í tilefni af því sem segir í kæru, að upphaflega hafi verið tekið vel í beiðni starfsbróður kæranda um umrædda álitsgerð, tekur úrskurðarnefndin fram að af gögnum málsins verði ráðið að ekki hafi verið tekin ákvörðun í málinu fyrr en með tölvupóstinum 5. mars 2018. Úrskurðarnefndin gengur þannig út frá því að kæranda hafi ekki verið birt ákvörðun í málinu, sbr. 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fyrr en með því bréfi.<br /> <br /> Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir, að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfi hjá aðilum sem falli undir lögin taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum greinargerðar þeirri er fylgdi frumvarpi því er varð að gildandi upplýsingalögum segir m.a. um 1. mgr. 7. gr.:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu [...] að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur [...]</span><br /> <br /> Í 2. mgr. 7. gr. laganna eru gerðar nokkrar undantekningar á framangreindri takmörkun á upplýsingarétti og m.a. kveðið á um að veita skuli upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn. Í máli þessu liggur fyrir að velferðarráðuneytið hefur þegar veitt þær upplýsingar.<br /> <br /> Engum vafa er undirorpið að álitsgerð hæfnisnefndar heilbrigðisráðherra frá 15. febrúar 2018 fellur undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, enda felur álitsgerðin í sér umsögn um umsækjendur. Telst hún því undanþegin upplýsingarétti almennings. Verður synjun velferðarráðuneytisins á beiðni kæranda því staðfest.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun á beiðni kæranda, A, um aðgang að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra til að meta hæfni umsækjenda um embætti landlæknis, dags. 15. febrúar 2008, er staðfest.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

754/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Landssamband smábátaeigenda kærði synjun Hagstofu Íslands á beiðni um upplýsingar um kennitölur tiltekinna fyrirtækja. Hagstofan sagði upplýsingarnar undanþegnar upplýsingarétti almennings samkvæmt lögum um stofnunina og opinbera hagskýrslugerð. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að um sérstakt þagnarskylduákvæði væri að ræða og jafnframt að umbeðnar upplýsingar féllu undir ákvæðið. Var synjun Hagstofunnar á beiðni kæranda því staðfest.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 754/2018 í máli ÚNU 18020014. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 23. febrúar 2018, kærði Landssamband smábátaeigenda synjun Hagstofu Íslands, dags. 23. janúar 2018, á beiðni um aðgang að upplýsingum um kennitölur tiltekinna fyrirtækja, sem Hagstofan byggði tölfræðivinnslu um rekstur helstu greina sjávarútvegs á fyrir árið 2015.<br /> <br /> Atvik málsins eru þau að með bréfi, dags. 22. janúar 2018, óskaði kærandi eftir aðgangi að kennitölum allra fyrirtækja sem Hagstofan byggði áðurnefnda tölfræðivinnslu á og vörðuðu annars vegar báta minni en 10 brúttólestir og hins vegar báta á stærðarbilinu 10-200 brúttólestir. Hagstofa Íslands svaraði beiðninni með bréfi, dags. 23. janúar 2018, þar sem fram kom að kærandi vísaði líklega til tölfræðivinnslu í tengslum við útgáfu ritsins Hagur veiða og vinnslu og talnaefnis sem birt væri á vef Hagstofunnar undir fyrirsögninni Afkoma sjávarútvegs. Hagstofan taldi að ekki væri hægt að verða við beiðni kæranda og synjaði um aðgang að gögnunum á þeim grundvelli að samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007 ríkti trúnaður um allar upplýsingar sem Hagstofan safnaði til hagskýrslugerðar og snertu tiltekna einstaklinga eða lögaðila. Með afhendingu slíkra gagna væri brotið gegn ákvæðum þeirra laga.<br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 26. febrúar 2018, var Hagstofu Íslands kynnt kæran og veittur frestur til að senda úrskurðarnefndinni umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.<br /> <br /> Umsögn Hagstofu Íslands barst þann 13. mars 2018. Þar var fyrst tekið fram að Hagstofan taki árlega saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs. Við gerð tölfræðinnar sé byggt á skattframtölum rekstraraðila en þar að auki afli Hagstofan ítarlegri upplýsinga beint frá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Að því búnu var vísað til 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007 en þar stendur í 1. mgr.:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Þagnarskylda ríkir um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar teljast trúnaðargögn og skulu þær einvörðungu notaðar til hagskýrslugerðar. Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum. Sama gildir um upplýsingar um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar og upplýsingar sem verða til við samtengingu skráa skv. 9. gr. Þegar um stjórnsýsluupplýsingar er að ræða er Hagstofunni þó heimilt að veita hlutaðeigandi stjórnvaldi upplýsingar úr gögnum sem það hefur áður tekið þátt í að safna eða látið henni í té.</span><br /> <br /> Í umsögn Hagstofu kom einnig fram að samkvæmt 11. gr. laganna væri starfsfólki Hagstofu Íslands skylt, að viðlagðri refsiábyrgð, að halda trúnað og gæta fyllstu þagmælsku um öll trúnaðargögn sem unnið sé með á stofnuninni. Af þessu öllu mætti ráða að sú grunnregla gildi að hafi Hagstofan safnað upplýsingum til hagskýrslugerðar, og þær snerti einstaklinga eða lögaðila, gildi þagnarskylda. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd gaf kæranda færi á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar með bréfi, dags. 16. mars 2018. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.<br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar Hagstofu Íslands á aðgangi kæranda að kennitölum tiltekinna fyrirtækja, sem Hagstofan byggði tölfræðivinnslu um rekstur helstu greina sjávarútvegs á fyrir árið 2015. Réttur kæranda til aðgangs að umræddum upplýsingum byggir á meginreglu um upplýsingarétt almennings sem kemur fram í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hagstofa Íslands byggir ákvörðunina aðallega á 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, þar sem kveðið er á um þagnarskyldu er varðar allar þær upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila.<br /> <br /> Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr.“ Í síðari málslið 3. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá því ákvæði verður litið svo á, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga, að sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og þýdd ákvæðum upplýsingalaga“ eins og segir í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012. <br /> <br /> Í 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð stendur: „Þagnarskylda ríkir um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar teljast trúnaðargögn og skulu þær einvörðungu notaðar til hagskýrslugerðar. Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum. Sama gildir um upplýsingar um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar og upplýsingar sem verða til við samtengingu skráa skv. 9. gr. Þegar um stjórnsýsluupplýsingar er að ræða er Hagstofunni þó heimilt að veita hlutaðeigandi stjórnvaldi upplýsingar úr gögnum sem það hefur áður tekið þátt í að safna eða látið henni í té.“<br /> <br /> Það er mat úrskurðarnefndar að 1. mgr. 10. gr. laganna feli í sér reglu um sérstaka þagnarskyldu en ekki almenna. Sé litið til orðalags í 1. mgr. 10. gr. er varðar annars vegar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila og hins vegar upplýsingar um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar, er ljóst að ákvæðinu er ætlað að vernda sömu hagsmuni og nefndir eru í 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt þessu verður 1. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð skýrð til samræmis við 9. gr. upplýsingalaga að því leyti sem ekki eru í þeim tilgreindar með beinum og skýrum hætti þær upplýsingar sem gæta ber trúnaðar um.<br /> <br /> Í 2. mgr. 1. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð er að finna skilgreiningu á opinberri hagskýrslugerð. Með henni er átt við starfsemi Hagstofunnar og annarra bærra ríkisstofnana sem lýtur að söfnun gagna til tölfræðilegrar úrvinnslu um landshagi Íslands og þjóðfélagsleg málefni, úrvinnslu gagnanna og miðlun tölfræðilegra upplýsinga til almennings, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda á grundvelli laga og í samræmi við fyrirmæli sett samkvæmt lögum þessum. Líkt og fram hefur komið tekur Hagstofa Íslands árlega saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs. Við gerð þeirrar tölfræði er byggt á skattframtölum rekstraraðila en þar að auki aflar Hagstofan ítarlegri upplýsinga beint frá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þessi skilgreining á hagskýrslugerð er víðtæk og að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fellur söfnun kennitalna fyrirtækja, sem hluti af tölfræðivinnslu um rekstur helstu greina sjávarútvegs, augljóslega undir hana.<br /> <br /> Í 1. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð kemur eins og áður segir skýrt fram að upplýsingarnar sem nefndar eru í því ákvæði lúti ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum. Þessum málslið var bætt inn í ákvæðið með breytingalögum nr. 104/2013. Þar sem það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kennitölur fyrirtækja sem deilt er um í máli þessu tilheyri hagskýrslugerð, auk þess sem orðalag ákvæðisins er skýrt og afdráttarlaust hvað aðgang samkvæmt upplýsingalögum varðar, er ljóst að kærandi á ekki rétt til aðgangs að þeim. Samkvæmt framangreindu verður hin kærða ákvörðun Hagstofu Íslands um synjun beiðni kæranda staðfest.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Ákvörðun Hagstofu Íslands um að synja beiðni kæranda, Landssambandi smábátaeigenda, um aðgang að kennitölum tiltekinna fyrirtækja, er staðfest.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp;Friðgeir Björnsson

753/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Félagasamtök óskuðu eftir upplýsingum um tekjur Isavia ohf. af gjaldskyldum bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í synjun Isavia var vísað til þess að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi auk þess sem þau væru undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga þar sem þau lytu að fjárhags- og viðskiptahagsmunum félagsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki unnt að ráða að tekin hefði verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig og óljóst hvaða gögn Isavia segði ekki fyrirliggjandi og hvaða gögn teldust undanþegin upplýsingarétti kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar skorti verulega á að tekin hefði verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Isavia að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 753/2018 í máli ÚNU 18020004.<br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 8. febrúar 2018, kærðu félagasamtökin Samgöngufélagið töf á afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni um aðgang að gögnum. Með bréfi, dags. 21. apríl 2017, óskaði Samgöngufélagið eftir því við Isavia að upplýst yrði um tekjur sem Isavia hafi af gjaldskyldum bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Í beiðninni er tekið fram að óskað sé eftir því að upplýst verði um tekjur af afnotum þessara bílastæða síðastliðin þrjú almanaksár og jafnframt að sem nákvæmast verði upplýst hvernig þessum tekjum hafi verið varið. Auk þess óskist upplýst hver fjöldi gjaldskyldra bílastæða sé nú og breytingar á fjölda þeirra síðastliðin þrjú almanaksár. Enn fremur er spurt hver hafi tekið ákvörðun um þessa gjaldtöku á sínum tíma, í hvað formi ákvörðunin hafi verið og einnig hverju það sæti að gjaldtaka sé ekki viðhöfð á bílastæðum við aðra flugvelli í umráðum Isavia og tekjur sem við það fengjust nýttar t.d. til að leggja bílastæðin slitlagi þar sem þess væri þörf. Gagnabeiðnin var ítrekuð með tölvupósti, dags. 28. nóvember 2017. <br /> <br /> Kæran var kynnt Isavia með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, og veittur frestur til afgreiðslu beiðninnar. Isavia svaraði kæranda með bréfi, dags. 21. febrúar 2018. Þar segir að Isavia veiti ekki upplýsingar um skiptingu tekna félagsins umfram það sem komi í ársreikningi og ársskýrslu félagsins sem aðgengileg sé á heimasíðu þess. Beiðninni sé því hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 enda um mikilvæga viðskiptahagsmuni að ræða. Þá sé áréttað að upplýsingalög veiti einungis rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum, að öðrum skilyrðum uppfylltum, en veiti ekki rétt til þess að gögn séu útbúin eða spurningum svarað. <br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 22. febrúar 2018, kærði Samgöngufélagið synjun Isavia á gagnabeiðninni. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 26. febrúar 2018, var kæran kynnt Isavia og veittur kostur á að koma á framfæri og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Isavia, dags. 26. mars 2018, segir m.a. að í beiðni kæranda frá 21. apríl 2017 sé óskað eftir upplýsingum um ýmislegt er varði gjaldtöku á bílastæðum á Keflavíkurflugvelli og víðar, ákvarðanatöku þar um og ráðstöfun tekna. Ekki sé óskað eftir aðgangi að tilteknum fyrirliggjandi gögnum heldur upplýsingum og útskýringum um mál er varði fjárhagsleg málefni Isavia. Upplýsingaréttur almennings á grundvelli upplýsingalaga nái einungis til fyrirliggjandi gagna en feli ekki í sér rétt til að gögn séu sérstaklega tekin saman eða útbúin. Þar að auki falli upplýsingar úr bókhaldi undir mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni, sbr. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Þess vegna hafi beiðni kæranda verið hafnað. Tekið er fram að þar sem upplýsingabeiðnin taki ekki til fyrirliggjandi gagna hjá kærða sé ekki um nein gögn að ræða til að afhenda úrskurðarnefndinni í trúnaði.<br /> <br /> Umsögn Isavia var kynnt kæranda með bréfi, dags. 9. apríl 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 24. apríl 2018, kemur m.a. fram að öðru verði vart trúað en að upplýsingar um árlegar tekjur Isavia ohf. af bílastæðagjöldum séu tiltækar og fyrirliggjandi í gögnum, sem félagið varðveiti, annað hvort í sérstökum skjölum á pappír og eða á rafrænu formi. Ekki ætti því að þurfa að ráðast í sérstaka vinnu til að taka þessar upplýsingar saman eða útbúa. Sé einkennilegt að þær komi ekki fram í ársreikningum félagsins. Ef upplýsingarnar séu ekki tiltækar hljóti það að vekja spurningar um stjórnun og fjárreiður Isavia og kalla á sérstakar skýringar. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í málinu er deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um upplýsingar um tekjur Isavia af bílastæðum við Keflavíkurflugvöll. <br /> <br /> Í hinni kærðu ákvörðun og í umsögn félagsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi auk þess sem þau séu undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Af svörum félagsins má þó ekki ráða að tekin hafi verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig. Þannig liggur ekki ljóst fyrir af svörum félagsins hvaða gögn með upplýsingum, sem fallið geta undir gagnabeiðni kæranda, eru fyrirliggjandi og eru að mati félagsins undanþegnar upplýsingarétti kæranda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og hvaða gögn eru ekki fyrirliggjandi. <br /> <br /> Þá er vísað til þess í umsögn Isavia til úrskurðarnefndarinnar að gagnabeiðni kæranda lúti að fjárhags- og viðskiptahagsmunum félagsins en ljóst er að sú fullyrðing á síður við um beiðni kæranda um upplýsingar um fjölda gjaldskyldra bílastæða og breytingar á fjölda þeirra síðastliðin þrjú almanaksár, hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtöku á bílastæðum á sínum tíma og í hvaða formi hún hafi verið. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skortir verulega á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Isavia ohf. að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar. Við þá afgreiðslu ber félaginu að að fjalla um hvern og einn lið upplýsingabeiðninnar, taka afstöðu til þess hvaða gögn, ef nokkur, heyra undir viðkomandi lið og heimfæra álitaefnið undir viðeigandi ákvæði upplýsingalaga.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Beiðni Samgöngufélagsins, dags. 21. apríl 2017, er vísað til Isavia ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

752/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Óskað var eftir aðgangi að upplýsingum í vörslum forsætisráðuneytisins er varða gerð gjaldeyrisskiptasamnings milli Kína og Íslands í júní 2010. Af hálfu forsætisráðuneytisins kom fram að kærandi hefði fengið aðgang að gögnum samkvæmt beiðninni en önnur væru ekki í vörslum ráðuneytisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu forsætisráðuneytisins og var kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 752/2018 í máli ÚNU 18010007.<br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, mótteknu 25. janúar 2018, kærði A synjun forsætisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum. Þann 22. júní 2017 óskaði kærandi eftir aðgangi að eftirfarandi gögnum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993: <ol> <li>Öllum bréfum og tölvupóstum sem varða gjaldeyrisskiptasamning milli Kína og Íslands sem gerður var í júní árið 2010, og gengu milli forsætisráðuneytisins, annarra íslenskra stjórnvalda og kínverska stjórnvalda, áður en gjaldeyrisskiptasamningurinn var gerður.</li> <li>Öllum gögnum sem varða beiðnir um lán frá Kína eða gjaldeyrisskiptasamninga við sama ríki á árunum 2008-2010, þar á meðal beiðnir sem svarað var neitandi. Fram kemur í beiðninni að nafngreindur aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi upphaflega haft þessi mál á sínu borði og verið í samskiptum við kæranda vegna lánabeiðna til Kína. Meðal umbeðinna gagna séu gögn sem tengjast för aðstoðarmannsins til Kína árið 2008.</li> <li>Öllum gögnum þar sem getið sé um kæranda.</li> </ol> Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ítrekað erindið þann 5. júlí 2017. Þann 6. júlí 2017 svaraði forsætisráðuneytið kæranda með tölvupósti þar sem fram kom að gerð gjaldeyrisskiptasamningsins hafi verið á hendi Seðlabanka Íslands og ábyrgð á gagnavörslu vegna málsins þar með. Tekið er fram að ef kærandi óski upplýsinga frá Seðlabankanum verði hann að beina sérstakri upplýsingabeiðni til bankans. Sama gildi ef kærandi vilji óska gagna frá öðrum stjórnvöldum vegna málsins. Hvað forsætisráðuneytið varði hafi ráðuneytið látið framkvæma leit í málaskrá ráðuneytisins og engin gögn hafi fundist sem varða málið. Boðist var til að endurtaka leit í ágúst að loknum sumarleyfum ef óskað væri. <br /> <br /> Kærandi svaraði því með tölvupósti samdægurs að hann viti af hlutverki Seðlabankans við gerð samningsins en hann hafi áhuga á aðkomu forsætisráðuneytisins, sérstaklega aðstoðarmanns ráðherra, að málinu. Erfitt sé að trúa því að ekki sé til afrit gjaldeyrisskiptasamningsins í ráðuneytinu sem hafði efnahagsmál á sinni könnu á þessum tíma. Þá hljóti að vera til ýmis gögn um för aðstoðarmannsins til Kína í ágúst 2008 í ráðuneytinu. Þá liggi fyrir að Kínverjar hafi áður neitað umleitunum um gjaldeyrisskipti eða lán og ættu gögn um það jafnframt að finnast í ráðuneytinu. Ef gögnin séu ekki í málaskrá hljóti þau að vera í tölvupósti forsætisráðherra og aðstoðarmanns hans. <br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 26. september 2017, fór kærandi þess á leit að hann yrði látinn vita af því hvort frekari leit leiði umbeðin gögn í ljós. Þann 4. janúar 2018 tjáði ráðuneytið kæranda að ný leit hefði verið framkvæmd en niðurstaðan væri sú sama, þ.e. engin gögn er varði málið sem upplýsingabeiðnin beinist að finnist í málaskrá forsætisráðuneytisins. Í tölvupóstinum kemur fram að afhentir séu tveir tölvupóstar frá kæranda en ráðuneytið geti látið taka saman tölvupósta um málið sem borist hafi ráðuneytinu frá kæranda ef þess væri óskað. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að þótt ráðuneytið fullyrði að umbeðin gögn finnist ekki í málaskrá verði að telja að ríkari skyldur hvíli á stjórnvöldum til að framkvæma leit að upplýsingum í kjölfar upplýsingabeiðni á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Sú skylda feli m.a. í sér að leitað skuli í tölvupóstum starfsmanna þegar líkur séu á að upplýsingar séu þar að finna. Forsætisráðuneytið hafi farið með yfirstjórn efnahagsmála langt fram á árið 2009 og verði því að telja með nokkrum ólíkindum ef þar væru hvorki að finna gögn um einn mikilvægasta gjaldeyrisskiptasamning sem gerður hafi verið í kjölfar bankahrunsins né nokkur samskipti við kínversk stjórnvöld og Seðlabanka Íslands. Þess sé því krafist að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fari fram á það, með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, að ráðuneytið upplýsi um hvort leitað hafi verið í tölvupóstum starfsmanna og þáverandi ráðherra. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 30. janúar 2018, var kæran kynnt forsætisráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna.<br /> <br /> Í umsögn forsætisráðuneytisins, dags. 16. febrúar 2018, segir m.a. að í tilefni af kærunni hafi ráðuneytið enn á ný látið framkvæma leit í málaskrá sinni. Niðurstaðan sé sú sama og áður, engin gögn er varði gerð gjaldeyrisskiptasamningsins hafi fundist.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, var umsögn ráðuneytisins kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 12. mars 2018, kemur m.a. fram að ráðuneytið hafi ekki svarað því hvort framkvæmd hafi verið leit í tölvupóstum tilgreindra embættismanna, en kærandi hafi haldið því fram að þar kunni gögnin að vera að finna. Auk þess hafi ráðuneytið ekki neitað því að nafngreindur aðstoðarmaður ráðherra hafi farið til Kína til slíkra þreifinga á árinu 2008. Er þess krafist að úrskurðarnefndin beini því til ráðuneytisins að framkvæma ítarlegri leit áður en tekin er afstaða til krafna kæranda. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í málinu er deilt um afgreiðslu forsætisráðuneytisins á beiðni kæranda um öll gögn er varða gjaldeyrisskiptasamning Íslands og Kína sem gerður var í júní árið 2010, sbr. fyrsta lið gagnabeiðninnar, öll gögn sem varða beiðnir um lán frá Kína eða gjaldeyrisskiptasamninga við sama ríki á árunum 2008-2010, þ. á m. þau sem varða ferð tiltekins aðstoðarmanns ráðherra til Kína árið 2009, sbr. annan lið beiðninnar og öll gögn þar sem getið er um kæranda, sbr. þriðja lið beiðninnar. <br /> <br /> Í tölvupósti forsætisráðuneytisins til kæranda, dags. 4. janúar 2018, kemur fram að ráðuneytið hafi afhent kæranda afrit af tveimur tölvupóstum sem kærandi hafi sent ráðuneytinu og var kærandi upplýstur um að fleiri slíkir tölvupóstar væru fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Var boðist til þess að taka saman alla tölvupósta sem farið höfðu á milli kæranda og ráðuneytisins ef kærandi óskaði þess. Í ljósi þessa verður að líta svo á að forsætisráðuneytið hafi svarað beiðni kæranda að þessu leyti og að ekki liggi fyrir synjun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012. Verður því að vísa kæru frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðandi þriðja lið beiðni kæranda. <br /> <br /> Hvað varðar fyrstu tvo liði gagnabeiðni kæranda fullyrðir forsætisráðuneytið að engin skjöl hafi fundist við leit í málaskrá þess en í gögnum málsins kemur fram að leitin hafi verið framkvæmd alls þrisvar sinnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að álykta öðruvísi en svo að ráðuneytið hafi látið framkvæma fullnægjandi leit að gögnum sem fallið geta undir beiðni kæranda. Þá hefur nefndin ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu forsætisráðuneytisins að ekki séu gögn í vörslum þess sem heyra undir gagnabeiðni kæranda samkvæmt fyrstu tveimur liðum hennar. <br /> <br /> Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort forsætisráðuneytið eða einstakir starfsmenn þess hafi sinnt skyldum sínum um skráningu mála og varðveislu gagna, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og 40. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinna þessum skyldum með fullnægjandi hætti, einkum Þjóðskjalasafns Íslands, dómstóla og umboðsmanns Alþingis.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Kæru A, dags. 25. janúar 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; Friðgeir Björnsson<br /> <br />

751/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að reikningum sem gefnir voru út í tilefni af árshátíð Reykjanesbæjar árið 2017. Synjun bæjarins byggðist á því að um einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga og lögaðila væri að ræða en úrskurðarnefndin féllst ekki á það. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að veita kæranda aðgang að reikningunum en þó þannig að bankaupplýsingar einstaklinga yrðu afmáðar.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 751/2018 í máli ÚNU 18010002. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 10. janúar 2018, kærði A synjun Reykjanesbæjar á beiðni hans um aðgang að rafrænum endurritum greiddra reikninga vegna árshátíðar Reykjanesbæjar árið 2017.<br /> <br /> Kærandi lagði fram beiðni til Reykjanesbæjar, dags. 22. nóvember 2017, um aðgang að reikningunum. Í ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 11. desember 2017, var beiðni hans synjað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á, og að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.<br /> <br /> Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kom fram að kærandi féllist ekki á röksemdir Reykjanesbæjar, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að gögnin innihéldu upplýsingar sem réttlættu synjun á beiðni hans; þar að auki mættu þeir sem ættu í viðskiptum við sveitarfélagið vera við því búnir að mæta samkeppni og átta sig á að upplýsingalög giltu um starfsemi hins opinbera.<br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 22. janúar 2018, gaf úrskurðarnefndin Reykjanesbæ kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Frestur var veittur til 6. febrúar 2018. Jafnframt óskaði nefndin eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. Umsögnin barst með bréfi, dags. 5. febrúar 2018. Afrit gagnanna barst úrskurðarnefndinni þann 1. mars 2018. Meðal gagnanna voru reikningar sem gefnir höfðu verið út af einstaklingum og lögaðilum vegna útseldrar þjónustu í tengslum við árshátíð sveitarfélagsins.<br /> <br /> Í umsögn Reykjanesbæjar var synjun beiðni um aðgang að gögnunum rökstudd með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Vísað var til athugasemda við lagagreinina í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, um að við mat stjórnvalds á því hvort upplýsingar sem gögn hefðu að geyma væru þess eðlis að rétt væri að undanþiggja þær aðgangi almennings yrði að taka mið af því hvort upplýsingarnar væru samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær ættu ekkert erindi við allan þorra manna.<br /> <br /> Því næst kom fram að þar sem sumir reikninganna væru útgefnir af einstaklingum en ekki lögaðilum, ættu ummæli úr 9. gr. um fjárhagsmálefni einstaklinga við í málinu, þ.e. að almennt væri óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggðist á sérstakri lagaheimild. Í tengslum við reikninga lögaðila kæmi fram í athugasemdunum að óheimilt væri að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Þar að auki lægi samþykki viðkomandi einstaklinga og lögaðila fyrir því að reikningar þeirra yrðu afhentir ekki fyrir.<br /> <br /> Að endingu stóð í umsögninni: „Vakin er athygli á því að framangreindir aðilar kunna að hafa mikla hagsmuni af því að umræddir reikningar verði ekki afhentir, með vísan til þess að nú styttist í að árshátíð kærða vegna ársins 2018 verði haldin. Það myndi setja aðra aðila í samkeppnisrekstri á svæðinu í óeðlilega stöðu ef fyrir liggja allar upplýsingar um verð og önnur kjör.“<br /> <br /> Kæranda var gefinn kostur með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar Reykjanesbæjar. Frestur var veittur til 28. febrúar 2018. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.<br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að rafrænum endurritum greiddra reikninga vegna árshátíðar Reykjanesbæjar árið 2017. Reikningarnir voru gefnir út ýmist af einstaklingum eða lögaðilum vegna sölu á þjónustu í tengslum við árshátíðina. Reykjanesbær hefur synjað kæranda um aðgang að reikningunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Í 9. gr. segir:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.</span><br /> <br /> Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.</span><br /> <br /> Að því er varðar takmörkun upplýsingalaga á aðgangi að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila segir í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.<br /> </span> <br /> Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.</span><br /> <br /> Eins og sjá má á framangreindu er 9. gr. upplýsingalaga ætlað að standa vörð um mikilvæga og viðkvæma viðskipta- og einkahagsmuni. Að því er varðar fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila er sérstök áhersla lögð á rétt almennings til upplýsingar um ráðstöfun opinberra fjármuna.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur undir höndum þá reikninga sem beiðni kæranda lýtur að. Líkt og þegar hefur verið nefnt eru þeir útgefnir bæði af einstaklingum og lögaðilum í tilefni af vinnu listamanna á árshátíð Reykjanesbæjar, sem er opinber aðili. Reikningarnir geyma allir upplýsingar af svipuðu tagi, þ.e. lýsingu á þjónustunni sem veitt var auk upphæðar sem Reykjanesbær var krafinn um. Að mati úrskurðarnefndarinnar er í reikningunum hvorki að finna upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, né einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Er hér litið til þess að ekki er um neinar þær upplýsingar að ræða sem nefndar eru í dæmaskyni í tilvitnuðum athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, né upplýsingar sambærilegar þeim viðkvæmu upplýsingum sem þar eru nefndar. Úrskurðarnefndin tekur fram að þótt þar sé vísað til upplýsinga „um fjármál einstaklinga“ verður ekki talið að einstakur reikningur listamanns fyrir skemmtun á árshátíð gefi slíka innsýn í fjármál viðkomandi að að rétt sé að takmarka aðgang að honum og víkja þannig til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna. Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Úrskurðarnefndin hefur þó lagt til grundvallar að sanngjarnt sé og eðlilegt að bankaupplýsingar einstaklinga, sem finna má á sumum reikninganna, fari leynt, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 661/2016 og 666/2016.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Reykjanesbæ ber að veita kæranda, A, aðgang að reikningum vegna árshátíðar bæjarins árið 2017, en áður skal afmá úr þeim bankaupplýsingar einstaklinga.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; Friðgeir Björnsson<br />

750/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Kærandi óskaði eftir aðgangi að upplýsingum í vörslum Vestmannaeyjabæjar sem vörðuðu hann sjálfan. Í svari bæjarins kom fram að ekkert mál væri skráð á kæranda en önnur mál varði hann ekki sérstaklega með þeim hætti að hann ætti rétt til aðgangs að upplýsingum um þau. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að verulega hefði skort á að beiðnin hefði verið tekin til fullnægjandi málsmeðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga og lagði fyrir sveitarfélagið að taka hana til nýrrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 750/2018 í máli ÚNU 17120002. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 8. desember 2017, kærði Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður, f.h. A, synjun fjölskylduráðs Vestmannaeyja á beiðni um aðgang að gögnum. Með tölvupósti, dags. 3. október 2017, óskaði kærandi eftir afriti allra þeirra gagna sem fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyjabæjar kynni að hafa undir höndum í tengslum við mál kæranda og sem berast myndu vegna þess. Þann 4. október 2017 svaraði Vestmannaeyjabær því að kærandi gæti hvorki talist aðili að barnaverndarmáli hjá fjölskylduráði Vestmannaeyjabæjar, þar sem hann hefði hvorki verið búsettur í Vestmannaeyjum á barnsaldri né væri hann skráður forráðamaður barns í Vestmannaeyjum. Kærandi svaraði þann 6. október 2017. Í svarbréfinu kemur fram að kærandi óski ekki eftir upplýsingum um hvort kærandi sé aðili máls. Óskað sé eftir afriti af öllum gögnum í vörslu barnaverndarnefndar sem varði kæranda. Þá taki beiðnin jafnframt til aðgangs að gögnum sem muni berast og varði hann. Kærandi óski t.d. eftir „afriti af samskiptum barnaverndarnefndarinnar við stjórnvöld, innlend sem erlend, þar með talið samskipti við yfirvöld í Bretlandi, eða aðra aðila, hér á landi eða erlendis“. <br /> <br /> Þann 10. nóvember 2017 svaraði Vestmannaeyjabær því til að ekkert mál væri skráð á kæranda. Fjölskylduráð bæjarins hefði enga heimild til að gefa upplýsingar um mál sem skráð væru á aðra aðila. Samdægurs ítrekaði kærandi beiðnina og vísaði m.a. til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Með tölvupósti, dags. 11. október 2017, svaraði Vestmannaeyjabær því að fara þyrfti yfir gögn allra barnaverndarmálamála þar sem nafn kæranda kunni að birtast og hvaða gögn væri unnt að afhenda. Fyrirsjáanlegt væri að afmá þyrfti allar persónulegar upplýsingar í langflestum ef ekki öllum tilvikum og því mætti búast við að gögnin yrðu ákaflega sundurleit við lestur þeirra. Kærandi yrði látinn vita þegar nefndin hefði komist að niðurstöðu. <br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 17. október 2017, sendi kærandi Vestmannaeyjabæ umboð vegna aðgangs sambýliskonu kæranda og börnum hennar að gögnum er varði þau. Fram kemur í tölvupóstinum að þau hafi gefið leyfi fyrir því að ekki þurfi að afmá viðkvæmar upplýsingar um þau úr gögnum sem varði kæranda. <br /> <br /> Vestmannaeyjabær synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 9. nóvember 2017. Í ákvörðuninni segir m.a. að ekkert mál hafi verið stofnað hjá nefndinni vegna kæranda. Nafn kæranda megi þó finna í skjölum er varði mál einstaklinga, ýmist tengdum eða ótengdum beiðanda. Sveitarfélagið taldi málin ekki varða beiðanda sérstaklega með þeim hætti að hann ætti rétt til aðgangs að upplýsingum um þau. <br /> <br /> Í kæru kemur m.a. fram að þess sé aðallega krafist að úrskurðarnefnd um upplýsingamála leggi fyrir Vestmannaeyjabæ að afhenda kæranda afrit af öllum gögnum sem varði hann og sveitarfélagið hafi undir höndum. Til vara sé þess krafist að lagt verði fyrir Vestmannaeyjabæ að afhenda kæranda afrit af öllum gögnum vegna máls C og B, þannig að nafn kæranda sé ekki svert. Þá kemur fram að kærandi og náin vinkona kæranda, B, telji líklegt að málin lúti að henni eða börnum hennar og því hafi hún og dóttir hennar, C, gefið umboð til þess að afla afrita gagna í málum þeirra.<br /> <br /> Kærandi byggir rétt sinn til aðgangs að gögnunum á óskráðum reglum um aðgang að gögnum sem eru í vörslu stjórnvalda og varða beiðanda sérstaklega, ákvæðum stjórnsýslulaga, einkum 15. gr. og ákvæðum laga um persónuvernd nr. 77/2000. Þá er byggt á ákvæði 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 1. mgr. 5. gr. laganna. Að lokum er byggt á 1. mgr. 18. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 um upplýsingarétt hins skráða. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 12. desember 2017, var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 2. janúar 2018, kemur fram að kærandi hafi óskað eftir afriti af öllum gögnum sem fjölskylduráðið hafi undir höndum í tengslum við mál kæranda og muni berast vegna þess. Í beiðninni hafi verið vísað sérstaklega til allra gagna í tengslum við mál kæranda en ekki til allra gagna varðandi hann. Ákvörðun bæjarins hafi aðallega byggst á því að ekkert mál hafi verið stofnað vegna kæranda og hann því ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga. Þó hafi einnig verið litið til þess að jafnvel þótt nafn kæranda komi fram í málum annarra einstaklinga varði það kæranda ekki sérstaklega þannig að hann eigi að mati nefndarinnar, rétt til afhendingar á þeim upplýsingum. Sveitarfélagið telji þó aðalkröfu kæranda vera í besta falli óskýra. <br /> <br /> Þá gerir Vestmannaeyjabær athugasemdir við varakröfu kæranda en sú krafa hafi ekki verið gerð í upphaflegri beiðni og því liggi ekki fyrir ákvörðun vegna hennar. Ekki hafi mátt skilja tölvupóst frá lögfræðingi á lögmannsstofu, sem fari með mál kæranda, með þeim hætti að sett hafi verið fram beiðni fyrir hönd annarra en kæranda. Þar sem slík beiðni hafi ekki verið lögð fyrir Vestmannaeyjabæ með formlegum hætti taki sveitarfélagið ekki efnislega afstöðu til varakröfunnar. <br /> <br /> Í umsögninni segir einnig að það sé mat Vestmannaeyjabæjar að kærandi teljist ekki aðili máls í skilningi barnaverndarlaga nr. 80/2002. Nafn hans komi fram í skjölum nefndarinnar vegna mála annarra og þá þannig að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni, hvað þá ríka hagsmuni, af því að fá aðgang að þeim upplýsingum. Þá hafi barnaverndarnefnd einnig borist ábendingar varðandi kæranda frá nafnlausum tilkynnendum og telji nefndin ekki rétt að veita upplýsingar um þær, m.a. með vísan til 19. gr. barnaverndarlaga. Ítrekað er að efni þessara upplýsinga hafi ekki verið talið þess eðlis að rétt væri að stofna mál vegna þeirra. Þá kemur fram í umsögninni að ákvæði 5. og 14. gr. upplýsingalaga verði ekki skilin með þeim hætti að hægt sé að óska eftir öllum gögnum stjórnvalds þar sem nafn viðkomandi komi fram. Nefndin telur að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir hans séu slíkir að það réttlæti afhendingu allra gagna barnaverndarnefndar Vestmannaeyja eða fjölskylduráðs þar sem nafn kæranda komi fram. <br /> <br /> Umsögn Vestmannaeyjabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. janúar 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 19. janúar 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi ríkar ástæður til þess að ætla að viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi hann hafi verið sendar að tilefnislausu og án hans vitneskju frá barnaverndaryfirvöldum í Vestmannaeyjum til barnaverndaryfirvalda í [...]. Þær aðgerðir hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir kæranda. Kærandi telji að sending upplýsinganna hafi falið í sér alvarlega og tilefnislausa takmörkun á friðhelgi einkalífs hans, sem njóti verndar skv. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Kærandi óski eftir því að fá afhent gögn sem varði hann persónulega og sveitarfélagið kunni að hafa undir höndum.<br /> <br /> Kærunni fylgdi lögmannsumboð frá B og C þar sem veitt er fullt og ótakmarkað umboð til að gæta réttar þeirra í tengslum við eftirfarandi: „Öflun og móttaka allra gagna, eða afrita gagna, frá barnaverndarnefnd Vestmannaeyja sem varða undirritaða“. Fram kemur að í umboðinu felist heimild til hvers konar ráðstafana sem lögmennirnir telji nauðsynlegar, þ. á m. til að höfða dómsmál ef þörf krefur og taka við og semja um greiðslur. Þá felist einnig í umboðinu heimild til að kalla eftir öllum gögnum sem þeir telji að máli geti skipt vegna þessa. <br /> <br /> Í málinu liggur fyrir að fulltrúi lögmanns kæranda óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 18. október 2017, að B yrði veittur aðgangur að gögnum í málum barna sinna og C í eigin máli. <br /> <h3>Niðurstaða<br /> 1.</h3> Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að gögnum frá fjölskylduráði Vestmannaeyjabæjar sem varða kæranda sjálfan. Í beiðni sinni til Vestmannaeyjabæjar óskaði kærandi einnig eftir aðgangi að gögnum sem „muni berast og varði hann“. Í tilefni af þessu tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að réttur til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Það er því ekki á valdsviði úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skera úr um hvort Vestmannaeyjabæ sé skylt að afhenda kæranda gögn sem muni berast bænum í framtíðinni og ekki voru fyrirliggjandi þegar gagnabeiðni kæranda barst. Með vísan til framangreinds lýtur úrskurður þessi aðeins að beiðni kæranda um að fá afhent gögn frá fjölskylduráði Vestmannaeyjabæjar sem fyrir liggja og varða hann.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin veitir því athygli að nokkurs ruglings gætir í afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á þeim lagaákvæðum sem við eiga í málinu og um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að réttur til upplýsinga samkvæmt þeim virkjist. Af þessum sökum telur nefndin rétt að rekja stuttlega nokkur meginatriði, svo sem um lagaskil milli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsingalaga nr. 140/2012 og um þýðingu þess að beiðandi hafi eða hafi ekki hagsmuni af því að fá að kynna sér þau gögn sem hann óskar eftir hjá stjórnvöldum.<br /> <br /> Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að hjá fjölskylduráði Vestmannaeyjabæjar er fyrirliggjandi nokkur fjöldi gagna sem varðar kæranda að meira eða minna leyti. Hvað sem því líður er það afstaða Vestmannaeyjabæjar að kærandi sé ekki aðili neins máls hjá bænum í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þetta er þýðingarmikið þar sem réttur aðila máls til gagna í eigin stjórnsýslumáli er afar ríkur og fer um þann rétt samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga. Þá skiptir þetta einnig grundvallarmáli þar sem synjun stjórnvalds á beiðni aðila máls til gagna er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en nefndin fjallar aðeins um synjun á afhendingu gagna á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Þar sem kærandi er ekki aðili þeirra mála sem gögnin tilheyra tekur við að skoða hvort hann eigi rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Sá sem óskar eftir gögnum hjá stjórnvöldum á grundvelli þeirra laga getur gert það án þess að sýna fram á nokkra hagsmuni eða tengsl við umbeðin gögn. Þannig fjallar 5. gr. upplýsingalaga um rétt „almennings“ til gagna hjá stjórnvöldum. Þegar af þessari ástæðu stenst ekki sú afgreiðsla stjórnvalds að synja kæranda um aðgang að gögnum á þeirri forsendu einni að hann hafi ekki sýnt fram á ríka hagsmuni af því að fá að kynna sér þau. Þegar beiðni berst um afhendingu á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga þarf stjórnvald með öðrum orðum að taka málið til afgreiðslu á grundvelli þeirra laga óháð því hvort viðkomandi eigi nokkurra hagsmuna að gæta af því að fá að kynna sér gögnin eða ekki.<br /> <br /> Í sumum tilfellum óska borgararnir eftir gögnum sem fjalla um þá sjálfa, enda þótt þeir séu ekki með aðilastöðu samkvæmt stjórnsýslulögum. Í 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallað um þessi tilfelli. Í ákvæðinu þannig að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, áður 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, svo sem þegar gögnin nafngreina viðkomandi, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.<br /> <br /> Ástæða þess að miklu skiptir að stjórnvöld geri greinarmun á því hvort upplýsingabeiðni styðjist við 5. gr. upplýsingalaga eða 1. mgr. 14. gr. laganna er sú að réttur borgarans til gagna á grundvelli 1. mgr. 14. gr. er enn ríkari en réttur almennings til gagna á grundvelli 5. gr. Hvað sem því líður er upplýsingarétturinn í hvorugu tilfellinu takmarkalaus. <br /> <br /> Þegar beiðni er reist á 5. gr. upplýsingalaga þarf stjórnvald að taka til skoðunar hvort einhverjar takmarkanir á upplýsingaréttinum eigi við, einkum í 6.-10. gr. laganna. Upplýsingaréttur aðila máls á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga lýtur hins vegar einkum takmörkunum á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. <br /> <br /> Þegar stjórnvaldi berst beiðni um upplýsingar þarf það samkvæmt framangreindu að kanna á hvaða lagagrundvelli beiðnin er reist. Stjórnvald þarf jafnframt að afmarka skýrlega þau gögn sem heyra undir beiðni viðkomandi. Því næst þarf að leysa úr álitaefnum um rétt til aðgangs að hverju og einu gagni á grundvelli viðeigandi lagaákvæða. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga skal ákvörðun um að synja skriflegri beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða hluta, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í ákvörðun skal koma fram afstaða stjórnvalds til aukins aðgangs, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, og leiðbeiningar um rétt til kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá segir í 3. mgr. 19. gr. að um málsmeðferð fari að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.<br /> <h3>2.</h3> Í málinu liggur fyrir beiðni kæranda um þau gögn fjölskylduráðs Vestmannaeyja sem varða hann sjálfan með einum eða öðrum hætti. Jafnframt liggur fyrir að starfsmaður lögmannsstofu sem fór með mál kæranda tilkynnti með tölvupósti, dags. 17. október 2017, að B og C hefðu veitt samþykki sitt fyrir því að upplýsingar um þær yrðu ekki afmáðar úr gögnum sem varði kæranda. Sé þetta rétt, sem óþarft er að draga í efa, kann það að skipta miklu máli enda gera bæði 9. gr. upplýsingalaga sem og 3. mgr. 14. gr. laganna að tekið sé mið af hagsmunum og afstöðu þeirra annarra aðila sem umbeðin gögn kunna að varða. Hafi einstaklingar sem gögnin varða lýst því yfir að þeir geri ekki athugasemd við að gögnin séu afhent þriðja aðila geta stjórnvöld almennt ekki synjað um aðgang að gögnunum með vísan til hagsmuna þessara einstaklinga.<br /> <br /> Synjun Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda byggir á nokkrum sjónarmiðum. Í fyrsta lagi er vísað til þess að ekkert mál hafi verið stofnað hjá fjölskyldunefnd bæjarins vegna kæranda. Þessi ástæða fyrir synjun bæjarins stenst ekki. Eins og áður segir gera upplýsingalög ekki þá kröfu að þau gögn sem beiðandi óskar eftir tilheyri máli viðkomandi í stjórnsýslunni. Í öðru lagi vísar bærinn til þess að gögnin varði kæranda ekki sérstaklega með þeim hætti að hann eigi rétt til aðgangs að þeim. Þessi afstaða bæjarins stenst heldur ekki. Eins og vikið var að hér að framan þurfa borgararnir ekki að sýna nein tengsl við gögn eða eiga nokkra hagsmuni af því að fá gögn afhent til þess að geta borið fyrir sig 5. gr. upplýsingalaga. Þá verður ekki annað séð en að bærinn hafi undir höndum gögn þar sem fjallað er um kæranda og því miklar líkur á að um beiðni hans fari, allavega að einhverju leyti, eftir 14. gr. upplýsingalaga. Í þriðja lagi kemur fram af hálfu bæjarins að aðalkrafa kæranda sé óskýr. Um þetta er það að segja að þegar stjórnvald áttar sig ekki á því eftir hvaða gögnum borgarinn óskar eftir er því rétt, á grundvelli 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að veita málsaðila leiðbeiningar og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar. Í greininni segir að eftir atvikum beri stjórnvaldi að afhenda aðila lista yfir mál sem ætla má að beiðni hans geti beinst að í þeim tilgangi að hann geti tilgreint það mál þar sem sem hann óskar eftir aðgangi að gögnum. Hvað sem þessu líður liggur fyrir að Vestmannaeyjabær hefur nú þegar borið kennsl á ýmis gögn sem bærinn telur að falli undir beiðni kæranda. Sú afstaða bæjarins að beiðnin hafi verið óskýr gat því ekki orðið grundvöllur að synjun hennar.<br /> <br /> Með vísan til alls framangreinds skortir á að Vestmannaeyjabær hafi tekið beiðni kæranda til fullnægjandi málsmeðferðar og afgreiðslu á grundvelli 14. gr. og eftir atvikum 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.<br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Hin kærða ákvörðun er haldin annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Vestmannaeyjabæ að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar. Við þá meðferð þarf Vestmannaeyjabær að afmarka þau gögn sem heyra undir beiðni kæranda með skýrum hætti og fjalla um þau á grundvelli ákvæða upplýsingalaga sem gera meðal annars ráð fyrir því að vegnir séu saman hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent og hagsmunir þeirra annarra aðila sem gögnin fjalla um, sbr. eftir atvikum 9. gr. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 9. nóvember 2017, um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp;Friðgeir Björnsson

749/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Kærandi óskaði upplýsinga um það hvort skólastjóri grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar hefði sætt áminningu í starfi. Synjun Reykjavíkurborgar byggðist á því að upplýsingarnar vörðuðu málefni starfsmanna í skilningi 7. gr. upplýsingalaga. Þá teldist skólastjóri ekki til æðstu stjórnenda sveitarfélagsins í skilningi 3. mgr. 7. gr. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál rakti ákvæði 7. gr. upplýsingalaga og athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Þar sem skýr ummæli í athugasemdunum þóttu leiða til þess að skólastjóri í grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar teldist ekki til æðstu stjórnenda í skilningi ákvæðisins var hin kærða ákvörðun staðfest.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 749/2018 í máli ÚNU 17110009. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags 30. nóvember 2017, kærði A synjun Reykjavíkurborgar á beiðni um aðgang að gögnum. Með tölvupósti, dags. 1. nóvember 2017, óskaði kærandi eftir upplýsingum í samræmi við 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga um hvort skólastjóri [...] hefði sætt áminningu í starfi eða ekki. Kæranda var synjað um upplýsingarnar samdægurs með þeim rökum að upplýsingarnar vörðuðu málefni einstakra starfsmanna. <br /> <br /> Í kæru kemur m.a. fram að óskað sé eftir því að skýrt svar komi um það hvort áminning á hendur skólastjóra [...] hafi farið fram eða ekki og ef hún hafi farið fram þá sé óskað eftir afriti af henni. Vísað er til 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 550/2014 þar sem safnstjóri taldist vera æðsti stjórnandi. Fram kemur að ekki verði annað séð en að skólastjóri teljist vera æðsti stjórnandi í skilningi 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Auk þess kemur fram að kærandi sé foreldri barns í [...] og að hafa beri sérstaklega í huga ákvæði 1. mgr. 18. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 um rétt foreldra til upplýsinga um skólastarf og skólagöngu barna sinna. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 6. desember 2017, var kæran kynnt Reykjavíkurborg og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 20. desember 2017, segir m.a. að það sé mat skóla- og frístundasviðs að ekki sé heimilt að veita kæranda upplýsingar um framgang starfsmannsins í starfi eða starfssamband skóla- og frístundasviðs við skólastjóra [...] að öðru leyti. Vísað er til þess að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2014 taki réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Þá sé það mat skóla- og frístundasviðs að réttur til upplýsinganna verði ekki byggður á 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem skólastjórar grunnskóla Reykjavíkurborgar teljist ekki til æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar. Sú niðurstaða styðjist einkum við skýringar í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum og jafnframt við skýringar við ákvæði 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem og fyrirkomulag Reykjavíkurborgar á ráðningum skólastjóra grunnskóla. <br /> <br /> Þá er vísað til þess að samkvæmt 73. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköpum borgarstjórnar nr. 715/2013 ráði borgarráð starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg og veiti þeim lausn frá störfum. Í 10. gr. samþykktar fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar komi fram að borgarráð ráði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að fenginni tillögu borgarstjóra, til fimm ára í senn. Sviðsstjóri ráði skólastjóra leik- og grunnskóla og í aðrar stjórnunarstöður á skóla- og frístundasviði. Í viðauka 2.6 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, komi fram í b.-lið 2. gr. að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sé heimilt að afgreiða ráðningu skólastjóra grunnskóla, sbr. 11. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Með vísan til þess að sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs ráði skólastjóra en ekki borgarráð verði að telja að starf skólastjóra teljist ekki æðsta stjórnunarstaða hjá Reykjavíkurborg í skilningi 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Því sé er óheimilt að upplýsa almenning um réttarsamband skóla- og frístundasviðs við skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkurborgar og því rétt að synja beiðni um upplýsingar um hvort skólastjóri [...] hafi hlotið áminningu. <br /> <br /> Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. janúar 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, 15. janúar 2018, er m.a. vísað í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 550/2014 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að safnstjóri í Vestmannaeyjabæ teldist vera æðsti stjórnandi í skilningi 4. tölul. 7. gr. upplýsingalaga. Kærandi telji engan mun vera á stjórnskipunarlegri stöðu safnstjóra í Vestmannaeyjabæ og skólastjóra í grunnskóla í Reykjavíkurborg en athugasemdunum fylgdi samanburður á þessum tveimur stöðum. Fram kemur að samkvæmt skipuritum sveitarfélaganna séu millistjórnendur milli safnstjóra/skólastjóra og borgar/bæjarstjóra. Þá er m.a. vísað til 7. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem fram kemur að skólastjóri beri ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn og geri tillögur til sveitarstjórnar um fyrirkomulag stjórnunar í grunnskóla. Skýr stjórnunarleg ábyrgð komi því fram í lögum um grunnskóla gagnvart sveitarstjórn. Auk þess komi fram með skýrum hætti í frumvarpi til upplýsingalaga að almennt skuli miðað við 56. gr. sveitarstjórnalaga og það því alls ekki algilt. Ætti þá að koma til skoðunar stjórnunarleg ábyrgð, t.d. skv. grunnskólalögum. Kærandi líti svo á að horfa þurfi til upplýsingaréttar almennings en ekki ráðningarforsendna sem ákvarðaðar eru af viðkomandi sveitarstjórnum. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að upplýsingum um það hvort skólastjóri í grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar hafi hlotið áminningu í starfi. Leyst er úr málinu á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, með þeim takmörkunum sem greinir í 6-10. gr. laganna. <br /> <br /> Í 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um rétt til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna. Í 1. mgr. greinarinnar segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem upplýsingalög taka til skv. 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. greinarinnar eru taldar upp upplýsingar um opinbera starfsmenn sem skylt er að veita þrátt fyrir 1. mgr. Í 3. mgr. segir að heimilt sé að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.<br /> <br /> Í athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 segir m.a. eftirfarandi. <br /> <br /> „Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum. Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að heimild til að veita aðgang að upplýsingum í slíkum málum taki einvörðungu til æðstu stjórnenda.“<br /> <br /> Í málinu reynir því á hvort skólastjóri í grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar teljist til æðstu stjórnenda í skilningi 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í athugasemdum við 7. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 segir um afmörkun á því hvaða starfsmenn teljast vera æðstu stjórnendur sveitarfélags: <br /> <br /> „Hvað varðar æðstu stjórnendur sveitarfélags þykir almennt mega hafa hliðsjón af fyrirmælum VI. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012, er fjallar um framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn sveitarfélaga. Er þá átt við framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, eða oddvita þar sem ekki er starfandi framkvæmdastjóri, og þá starfsmenn sem sveitarstjórn ræður í helstu stjórnunarstöður, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 56. sveitarstjórnarlaga.“<br /> <br /> Í 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að sveitarstjórn ráði starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi. Um ráðningu annarra starfsmanna annist framkvæmdastjóri, enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum. <br /> <br /> Í athugasemdum við 56. gr. í frumvarpi því er varð að sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 segir: <br /> <br /> „Sveitarstjórnin ræður starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og veitir þeim lausn frá störfum. Hér er aðeins um að ræða þá starfsmenn sveitarfélagsins sem raðast í æðstu stöður stjórnkerfisins og almennt mundi í hverju sveitarfélagi aðeins vera um að ræða framkvæmdastjórana og svo eftir atvikum fáa aðra lykilstjórnendur. Það er hins vegar misjafnt eftir stærð og stjórnskipulagi sveitarfélaganna hvaða aðilar teljast til æðstu stjórnenda. Í allra minnstu sveitarfélögunum gæti þannig verið að í þann flokk félli framkvæmdastjórinn og skólastjóri grunnskóla, en ekki aðrir. Í flestum sveitarfélögum mundi þó skólastjóri grunnskóla ekki falla í flokk æðstu stjórnenda.“<br /> <br /> Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla segir að um ráðningu skólastjóra og starfsfólks grunnskóla fari eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á.<br /> <br /> Í 10. gr. samþykktar fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarstjórn 20. september 2011 með breytingum samþykktum í borgarstjórn 2. desember 2014 og 19. maí 2015, segir að borgarráð ráði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að fenginni tillögu borgarstjóra, til fimm ára í senn. Sviðsstjóri ráði skólastjóra leik- og grunnskóla og í aðrar stjórnunarstöður á skóla- og frístundasviði. <br /> <br /> Eins og fram kemur í athugasemdum við 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er við afmörkun á því hvaða aðilar teljist til æðstu stjórnenda við það miðað að ráðning þeirra sé í höndum sveitarstjórnar. Tekið er fram að það sé misjafnt eftir stærð og stjórnskipulagi sveitarfélaga hvaða aðilar raðist í æðstu stöður stjórnkerfisins. Sérstaklega er tekið fram að í flestum sveitarfélögum myndi skólastjóri grunnskóla ekki falla í flokk æðstu stjórnenda, en svo geti hins vegar verið í allra minnstu sveitarfélögunum. Í ljósi þessa og athugasemda við 56. gr. í frumvarpi því er varð að sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 verður því að álykta sem svo að sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs sé á meðal æðstu stjórnanda hjá Reykjavíkurborg en ekki skólastjóri leik- og grunnskóla. Þar af leiðandi veitir 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga ekki heimild til þess að veita upplýsingar um það hvort skólastjóri í grunnskóla hjá Reykjavíkurborg hafi hlotið áminningu í starfi. Þvert á móti er sveitarfélaginu óheimilt að upplýsa almenning um það hvort skólastjóri í grunnskóla hjá Reykjavíkurborg hafi hlotið áminningu í starfi, eins og tekið er fram í athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012. Var því Reykjavíkurborg rétt að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um hvort skólastjóri [...] hafi sætt áminningu í starfi. <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Staðfest er synjun Reykjavíkurborgar, dags. 1. nóvember 2017, á beiðni kæranda um upplýsingar um hvort skólastjóri [...] hafi sætt áminningu í starfi. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp;Friðgeir Björnsson<br />

748/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Kærandi óskaði aðgangs að yfirliti um greiðslur Reykjanesbæjar til tiltekinna aðila. Af hálfu bæjarins kom fram að slíkt yfirlit væri ekki fyrirliggjandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á að ekki væri skylt að taka saman slíkt yfirlit á grundvelli upplýsingalaga. Kæru var því vísað frá úrskurðarnefndinni.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 748/2018 í máli ÚNU 17110002.<br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 1. nóvember 2017, kærði A synjun Reykjanesbæjar, dags. 22. september 2017, á beiðni um aðgang að yfirliti greiðslna til Víkurfrétta, B og C á árunum 2010-2017. Í synjun Reykjanesbæjar kom fram að sundurliðað yfirlit greiðslna væri ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að þann 7. júlí 2017 hafi kærandi óskað eftir því að fá afhent sundurliðað yfirlit greiðslna til Víkurfrétta, B og C. Beiðninni hafi verið synjað þann 22. september 2017 á þeim grundvelli að slík skjöl lægju ekki fyrir hjá Reykjanesbæ. Samdægurs hafi kærandi sent Reykjanesbæ fyrirspurn um það hvort hægt væri að kalla fram viðskiptamann í bókhaldskerfi bæjarins og prenta út yfirlit. Spurningin hafi verið ítrekuð þann 25. september 2017, 28. september 2017, 29. september 2017 og 5. október 2017. Kærandi hafi loks fengið það svar að ekki væri vitað hvort hægt væri að leita eftir viðskiptamanni í bókhaldskerfi og enn fremur að gögnin væru ekki til. Kærandi segist ekki fallast á þá fullyrðingu Reykjanesbæjar að yfirlit um viðskiptamann sé ekki að finna í bókhaldskerfi bæjarins en í 6. gr. laga nr. 145/1995 segi að í fjárhagsbókhaldi eða sérstöku viðskiptamannabókhaldi, sem tengist fjárhagsbókhaldinu, skuli hafa reikninga yfir viðskipti við hvern viðskiptamann, önnur en þau þar sem hönd selur hendi. Þó sé heimilt að sameina óveruleg viðskipti á einn eða fáa reikninga. Að því gefnu að Reykjanesbær vinni eftir lögum og reglugerðum megi því telja víst að gögnin séu fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Kærandi sé ekki að biðja um tölulegar samantektir eða að ný skjöl séu útbúin heldur aðeins að fyrirliggjandi gögn séu kölluð fram og flutt út úr kerfinu. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, var kæran kynnt Reykjanesbæ og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Reykjanesbæjar, dags. 30. nóvember 2017, er vísað til þess að gögnin séu ekki fyrirliggjandi en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé stjórnvöldum óskylt að útbúa ný gögn að beiðni almennings. Þá hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál ítrekað staðfest, m.a. í úrskurði nr. A-181/2004 og A-424/2012, að í því felist að stjórnvaldi sé óskylt að taka saman gögn úr bókhaldi.<br /> <br /> Umsögn Reykjanesbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 5. desember 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust þann 10. desember 2017. Þar vísar kærandi m.a. til þess að í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-181/2004 og A-424/2012 hafi verið óskað eftir samantektum, jafnvel umfangsmiklum, um ákveðin mál og aðila. Kærandi geri sér grein fyrir því að slík upplýsingagjöf feli í sér sköpun nýrra gagna, en ekki sé verið að fara fram á neitt slíkt. Aðeins sé óskað eftir gögnum sem þegar séu fyrirliggjandi í skilningi laga og hægt sé að kalla fram auðveldlega úr bókhaldskerfi bæjarins með sama hætti og hægt sé að kalla fram ritvinnsluskjöl, tölvupósta og önnur tölvutæk skjöl þegar þeirra sé óskað. Með yfirliti eigi kærandi t.a.m. við lista sem kallaður sé fram úr bókhaldskerfi bæjarins með því að afmarka viðskiptamann og tímabil og biðja um flutning í töflureikni eða útprentun. Einnig geti verið um að ræða lista sem tekinn sé sem skjáskot af útlistun viðskiptamanns í bókhaldsforriti. Kærandi tekur fram að reynist það einfaldari lausn fyrir Reykjanesbæ að kalla fram endurrit hvers reiknings frá tímabilinu sé það kæranda að meinalausu. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Mál þetta lýtur að synjun Reykjanesbæjar á beiðni kæranda um yfirlit úr bókhaldskerfi til tiltekinna aðila á afmörkuðu tímabili. Beiðninni var synjað á þeim grundvelli að yfirlitið væri ekki fyrirliggjandi en vísað var til þess að sveitarfélaginu sé ekki skylt að undirbúa nýtt skjal fyrir kæranda. <br /> <br /> Af 1. mgr. 5. gr. upplýsinglaga nr. 140/2012 leiðir að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. en málsgreinin tekur til þeirrar skyldu að veita aðgang að öðrum hlutum gagns ef takmarkanir 6.-10. gr. eiga aðeins við um hluta gagns. Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.<br /> <br /> Í málinu liggur fyrir að skjalið sem kærandi óskar eftir er ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu heldur þarf að búa það sérstaklega til svo unnt sé að afgreiða gagnabeiðni kæranda. Hér ræður ekki úrslitum þótt unnt sé að búa skjalið til með tiltölulega einfaldri aðgerð, t.d. með því að kalla fram slíkt yfirlit úr bókhaldskerfi. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að sveitarfélaginu er heimilt að afgreiða gagnabeiðni kæranda með því að búa til skjal með slíku yfirliti, sbr. 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, enda standi aðrar lagareglur ekki í vegi fyrir því, þar á meðal ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd. <br /> <br /> Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá Reykjanesbæ í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda við umsögn Reykjanesbæjar tekur kærandi fram að ef það reynist einfaldara fyrir Reykjanesbæ að kalla fram endurrit hvers reiknings frá tilteknu tímabili sé það kæranda að meinalausu. Er hér um að ræða nýja gagnabeiðni sem kærandi þarf að beina til sveitarfélagsins. <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Kæru A, dags. 1. nóvember 2017, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp;Friðgeir Björnsson<br />

747/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í vörslum Matvælastofnunar um eftirlit stofnunarinnar með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Kærandi hafði fengið aðgang að hluta umbeðinna gagna en um tilteknar upplýsingar í svonefndum landbótaáætlunum kom fram í hinni kærðu ákvörðun að um einkamálefni viðkomandi bónda væri að ræða. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti rétt á áætlununm án útstrikana. Þá lagði nefndin fyrir Matvælastofnun að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar varðandi hluta gagnanna þar sem ekki hafði verið tekin fullnægjandi afstaða til upplýsingaréttar kæranda.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 747/2018 í máli ÚNU 17080003. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 24. ágúst 2017, kærði A ákvörðun Matvælastofnunar („MAST“) um synjun á beiðni um aðgang að upplýsingum um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Með beiðni, þann 18. maí 2017, var farið fram á aðgang að tilteknum gögnum er varða greiðslur og landnýtingu í tengslum við búvörusamning. Kærandi afmarkaði beiðni sína frekar með bréfi, dags. 30. júní 2017, en ákvörðun MAST barst kæranda með bréfi, dags. 28. júlí 2017.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að MAST hafi orðið við beiðni um yfirlit um fjölda sauðfjárbúa, stærð þeirra og sveitarfélög. Hins vegar hafi MAST ekki orðið við beiðni um nöfn búanna. Upplýsingar um heildargreiðslur samkvæmt búvörusamningi fyrir árin 2015 og 2016 hafi ekki verið sendar og sagt að þær væru ekki aðgengilegar. Þá hafi kærandi óskað upplýsinga um hvort bú uppfylltu landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt en stofnunin hafi ekki afhent slíkan lista. MAST hafi hafnað beiðni um afrit af landbótaáætlunum á grundvelli einkahagsmuna framleiðendanna nema máð væru út nöfn búanna og fjölda fjár á þeim. <br /> <br /> Kærandi er ósammála forsendum MAST fyrir ákvörðuninni. Að baki beiðninni búi hagsmunir sem njóti lagaverndar samkvæmt lögum nr. 23/2006. Lagaskylda hvíli á MAST til að afla umbeðinna gagna, sbr. reglugerð nr. 1160/2013. Kærandi hafnar því að þau séu ekki aðgengileg en ef svo myndi reynast væri MAST skylt að benda á þann aðila sem hefði þær. Ekki geti verið um viðkvæma framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni framleiðenda sauðfjár að ræða, enda sé ekki um samkeppnissvið að ræða auk þess sem málið varði skilyrði þess að fá álagsgreiðslur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Meðal skilyrðanna séu mikilvægir þættir er varði umhverfið; beitarþol, ástand landsins, landnýtingu og landbætur. Kærandi vísar til tilskipunar 2003/4/EB og segir engar undantekningarheimildir hennar eiga við um umbeðnar upplýsingar.<br /> <br /> Loks bendir kærandi á að MAST hafi ekki haft lagaheimild til að krefja hann upplýsinga um tilgang beiðninnar eða sýna fram á hagsmuni sína af aðgangi að gögnunum. Einungis hefði verið unnt að krefjast þannig rökstuðnings ef um væri að ræða rannsóknargögn skv. 33. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. MAST virðist hafa beint málsmeðferðinni í heild í þann farveg er VIII. kafli laganna fjallar um. Ekki hafi hins vegar verið tilefni til að leggja þann skilning í beiðnina að hún varðaði gögn sem undanþegin væru almennum upplýsingarétti. Kærandi óskar hins vegar eftir því að úrskurðarnefndin fjalli um hvort lögmætt hafi verið að hafna því að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum sem rannsakanda í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012, að því leyti sem þau kynnu að vera undanþegin almennum upplýsingarétti.<br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Kæran var kynnt MAST með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Umsögn stofnunarinnar barst þann 20. september 2017. Þar kemur fram að kærandi hafi óskað aðgangs að tilteknum gögnum varðandi framkvæmd búvörusamninga og gæðastýringar í sauðfjárrækt þann 18. maí 2017. Óskin hafi byggst á VIII. kafla upplýsingalaga og kæranda hafi því verið bent á að samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna skyldi upplýst í hvaða tilgangi væri óskað eftir slíkum aðgangi. Kærandi hafi ekki svarað en þess í stað sent nýtt erindi, dags. 30. júní 2017, þar sem óskað hafi verið eftir sama aðgangi án þess að um rannsóknir væri að ræða. Kærandi hafi jafnframt tekið fram að hann liti svo á að hann væri aðili máls í ljósi stjórnsýslulaga. Í hinni kærðu ákvörðun hafnaði MAST því að kærandi teldist aðili máls. Beiðnin hafi því verið afgreidd á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga en höfð hliðsjón af lögum um upplýsingarétt um umhverfismál.<br /> <br /> MAST víkur næst að beiðni kæranda sem var í fimm liðum. Varðandi fyrsta liðinn segir MAST að þar sem kærandi hafi sagst ætla að kanna aðgengi að gögnunum hjá Byggðastofnun hafi stofnunin litið svo á að kærandi hafi hætt við að krefja hana um þau. Þó hafi verið ákveðið að senda kæranda skýrslu Byggðastofnunar um dreifingu sauðfjár og fjölda sauðfjár eftir sveitarfélögum samkvæmt haustskýrslum bænda árin 2015 og 2016. MAST telur rétt að geta þess að stofnunin hafi fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda fjár, flokkaðar eftir nöfnum búa, sbr. IV. kafla laga nr. 38/2014 um búfjárhald. MAST og Hagstofu Íslands sé heimilt að nota upplýsingarnar og öðrum opinberum aðilum og leiðbeiningarmiðstöð skv. 1. gr. laga nr. 70/1998 sé heimilt að nota þær að fengnu leyfi MAST. <br /> <br /> Um annan liðinn kemur fram að kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um heildargreiðslur til búa, hvers fyrir sig, samkvæmt búvörusamningi fyrir sauðfjárrækt árið 2015 eða 2016, eftir því hvað væri aðgengilegast. Kærandi hafi verið upplýstur um að þessar upplýsingar væru ekki aðgengilegar þar sem flokka þyrfti og forrita hverja greiðslutegund fyrir sig eftir búsnúmerum til að geta orðið við beiðninni. Ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn þegar beiðni bærist um aðgang að ákveðnum gögnum. Stofnunin hafi hins vegar sent upplýsingar úr nýrri ársskýrslu um heildargreiðslur til allra búa vegna framleiðslu í gæðastýringu auk upplýsinga um greiðslumark og beingreiðslur.<br /> <br /> Undir þriðja lið beiðni kæranda var óskað eftir upplýsingum um hvort framleiðsla stæðist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar fyrir fjárflestu búin. MAST kveðst hafa afhent lista yfir fjölda búa sem uppfylltu ákvæðið, flokkuð eftir sveitarfélögum. Öll bú í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu standist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar.<br /> <br /> MAST afgreiddi fjórða lið beiðninnar, um aðgang að landbótaáætlunum fyrir umrædd bú, þannig að þær voru afhentar með útstrikunum þar sem strikað var yfir nafn og kennitölu framleiðanda og einnig upplýsingar um fjölda fjár á einstökum búum. Tekið var fram að takmörkunin byggðist á 9. gr. upplýsingalaga, en í umsögn MAST kemur fram að sum bú séu rekin á persónulegri kennitölu bóndans. Að áliti MAST sé stofnuninni ekki heimilt að upplýsa um fjölda fjár á einstökum lögbýlum þar sem um sé að ræða einkamálefni hlutaðeigandi bónda sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari og teljist sömuleiðis varða mikilvæga fjárhagsmuni ef stofnað hafi verið félag um búreksturinn. Við nánari yfirferð sé það hins vegar skoðun MAST að kærandi eigi rétt á aðild að nöfnum aðilanna en ekki kennitölum þeirra eða fjölda fjár. Úrskurðarnefndin hafi áður kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt að veita aðgang að upplýsingum um úthlutun fjár úr opinberum sjóðum í formi styrkja eða óafturkræfra framlaga. Stofnunin telur að þótt kærandi eigi rétt á upplýsingum um grundvöll styrkjanna nái sá réttur ekki til upplýsinga um búfjáreign framleiðenda. Þeir séu skyldaðir til að veita MAST upplýsingar um búfjáreign sína á hverju hausti. Þær upplýsingar tengist grundvelli beingreiðslna með þeim hætti að til þess að fá óskertar beingreiðslur þurfi framleiðandi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Grundvöllur gæðastýringarálags skv. reglugerð nr. 1160/2013 sé að framleiðendur uppfylli skyldur sínar samkvæmt III. og IV. kafla reglugerðarinnar og álag sé greitt á innlögn framleiðenda í sláturhús. Sauðfjáreign þurfi því ekki að haldast í hendur við greiðslumark. Upplýsingar um eignir einstaklinga og fyrirtækja, þ.m.t. búfjáreign, verði ekki veittar á grundvelli upplýsingalaga nema annað komi til, svo sem að þær tengist með beinum hætti úthlutun fjár úr opinberum sjóðum. <br /> <br /> Um fimmta lið beiðni kæranda kemur fram að kærandi hafi óskað eftir aðgangi að landbótaáætlunum varðandi afrétti og sameiginlega haga þar sem margir bæir reki fé á sameiginlegt haglendi. Stofnunin hafi svarað því á sama veg og fjórða lið.<br /> <br /> Umsögn MAST var kynnt kæranda með bréfi, dags. 21. september 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Þær bárust með bréfi, dags. 23. september 2017. Þar hafnar kærandi því að MAST hafi verið óskylt að veita honum aðgang að gögnum þrátt fyrir að hann hafi sagst myndu biðja Byggðastofnun um þau, enda sé stjórnvaldi skylt að veita upplýsingar án skilyrða og leiðbeina ólöglærðum. Kærandi hafnar því jafnframt að ekki liggi fyrir hjá MAST eða öðrum aðila í skilningi laga nr. 23/2006 upplýsingar um heildargreiðslur til hvers bús, enda sé það skylda MAST að halda utan um greiðslurnar. Kærandi bendir á að honum hafi ekki verið veittar upplýsingar um hvert þeirra fjárflestu búa sem uppfylltu skilyrði gæðastýringar, þrátt fyrir það sem segi í andmælum MAST. Fjöldi búa í hverju sveitarfélagi svari ekki fyrirspurninni.<br /> <br /> Kærandi mótmælir því að fjöldi fjár á búi og nafn bús geti talist til einkamálefna með hliðsjón af því að um sé að ræða úthlutun skattfjár almennings. Ekki sé farið fram á kennitölur. Þá telur kærandi réttmætt af MAST að afhenda upplýsingar um afnot af afréttum og sameiginlegum högum. Loks ítrekar kærandi þau sjónarmið sem reifuð eru í kæru.<br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. Þá hefur meðferð málsins dregist óhæfilega vegna anna í störfum nefndarinnar. <br /> <h3>Niðurstaða<br /> 1.</h3> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í vörslum MAST og lúta að eftirliti stofnunarinnar með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu, nánar tiltekið: <ol> <li>Nöfnum og staðsetningu allra býla eða framleiðslueininga í sauðfjárframleiðslu sem hljóta greiðslur samkvæmt búvörusamningum, sundurliðað eftir ærgildum.</li> <li>Upplýsingum um heildargreiðslur til hvers bús fyrir sig samkvæmt búvörusamningi fyrir sauðfjárrækt fyrir árið 2015 eða 2016.</li> <li>Upplýsingum um hvort framleiðslan standist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar árið 2015 eða 2016.</li> <li>Landbótaáætlunum fyrir búin vegna gæðastýringar.</li> <li>Landbótaáætlunum sem varða afrétti og sameiginlega haga þar sem margir bæir reka á sameiginlegt haglendi.</li> </ol> Kærandi hefur fengið aðgang að gögnum sem tengjast beiðninni en um önnur hefur komið fram af hálfu MAST að þau séu ýmist ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni eða fjalli um einkahagsmuni eigenda viðkomandi fjárbúa. <br /> <br /> Kærandi hefur vísað til þess að umbeðin gögn teljist til upplýsinga um umhverfismál og fari því um rétt hans til aðgangs að þeim samkvæmt ákvæðum laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006. Í 3. gr. laganna segir að með upplýsingum um umhverfismál sé átt við hvers kyns upplýsingar í rituðu, sjónrænu, heyranlegu, rafrænu eða einhverju efnislegu formi um: <ol> <li>ástand afmarkaðra þátta umhverfisins, svo sem andrúmslofts og lofthjúps, vatns, jarðvegs, lands, landslags og náttúruminja, þ.m.t. votlendis og strand- og hafsvæða, líffræðilegrar fjölbreytni og þátta hennar, þ.m.t. erfðabreyttra lífvera, og samspil milli þessara þátta,</li> <li>þætti á borð við efni, orku, hávaða, geislun eða úrgang, þ.m.t. geislavirkan úrgang og losun hvers kyns efna og þátta út í umhverfið sem hafa áhrif á eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti í umhverfinu sem um getur í 1. tölul.,</li> <li>ráðstafanir í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga á sviði umhverfismála sem hafa eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í 1. og 2. tölul., auk kostnaðar- og ábatagreiningar eða annars konar hagkvæmnigreiningar sem notuð er í tengslum við ákvarðanir um slíkar ráðstafanir,</li> <li>ástandið að því er varðar heilbrigði manna og öryggi, þ.m.t. mengun í fæðukeðjunni, lífsskilyrði fólks, menningarminjar og mannvirki að svo miklu leyti sem þau verða eða líklegt er að þau verði fyrir áhrifum vegna ástands þeirra umhverfisþátta sem um getur í 1. tölul. eða vegna þeirra atriða sem um getur í 2. tölul.</li> </ol> Að mati úrskurðarnefndarinnar falla upplýsingar um landbótaáætlanir og nýtingu beitarlands augljóslega undir 1.-3. tl. ákvæðisins og eiga lög nr. 23/2006 því við um síðustu þrjá liði beiðni kæranda. Sama verður ekki sagt um fyrstu tvo liðina, en þeir lúta fyrst og fremst að greiðslum úr ríkissjóði til fjárbúa. Um rétt kæranda til aðgangs að slíkum upplýsingum fer eftir upplýsingalögum nr. 140/2012 og hefur kærandi sérstaklega tekið fram að beiðnin sé sett fram á grundvelli upplýsingaréttar almennings, sbr. 5. gr. laganna, en ekki ákvæða laganna um aðgang að gögnum í rannsóknarskyni, sbr. VIII. kafla laganna. Verður fjallað um rétt kæranda til aðgangs að gögnum undir hverjum lið beiðninnar hér á eftir.<br /> <h3>2.</h3> Af hálfu MAST hefur komið fram að stofnunin hafi litið svo á að þar sem kærandi hafi sagst ætla að kanna aðgengi að gögnum undir fyrsta lið beiðnarinnar hjá Byggðastofnun hafi hann hætt við að óska aðgangs að þeim hjá MAST. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að kærandi hafi fallið frá beiðni sinni að þessu leyti. Upplýsingaréttur almennings er ekki takmarkaður við að leita upplýsinga hjá einu stjórnvaldi í einu og getur beiðandi haft réttmætar ástæður fyrir því að bera saman upplýsingar í vörslum tveggja eða fleiri opinberra aðila. <br /> <br /> Stjórnvöldum sem hafa til meðferðar beiðni um aðgang að upplýsingum ber að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Þar sem þessi hluti beiðni kæranda hefur ekki fengið þá efnislegu meðferð sem upplýsingalög áskilja verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir MAST að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h3>3.</h3> MAST hefur vísað til þess að upplýsingar undir öðrum lið beiðni kæranda séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Til að geta orðið við beiðninni þurfi að „flokka og forrita“ hverja greiðslutegund fyrir sig eftir búsnúmerum til að geta orðið við beiðninni, en upplýsingar um heildargreiðslur til hvers bús fyrir sig séu ekki aðgengilegar.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að MAST hafi yfir upplýsingum að ráða um greiðslur til hvers bús, sundurliðuðum eftir tegund greiðslnanna, en hafi ekki tekið þær saman í heildargreiðslur sem hvert bú fær. MAST hefur bent á að stofnuninni sé ekki skylt að taka saman upplýsingar í vörslum sínum eða búa til ný skjöl úr þeim en hins vegar virðist stofnunin ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að upplýsingum um þær einstöku greiðslur sem mynda heildartölurnar. Það getur ekki komið í veg fyrir rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um greiðslur úr opinberum sjóðum að aðili sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga hafi ekki lagt þær sérstaklega saman. Við meðferð beiðni kæranda bar MAST að bera kennsl á öll gögn í vörslum stofnunarinnar sem svarað geta þeim spurningum sem kærandi setti fram og taka svo afstöðu til réttar hans til aðgangs að þeim. Þar sem stofnunin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim upplýsingum um greiðslur til sauðfjárbúa sem eru í vörslum stofnunarinnar, eftir atvikum aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir MAST að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h3>4.</h3> Undir þriðja lið beiðni kæranda var óskað eftir upplýsingum um það hvort framleiðslan hefði staðist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar sauðfjárframleiðslu. Af hálfu MAST hefur komið fram að öll búin hafi staðist þennan þátt gæðastýringarinnar en hins vegar afhenti stofnunin honum einungis upplýsingar um fjölda búa eftir sveitarfélögum. Enda þótt upphafleg beiðni kæranda hafi ekki verið að öllu leyti skýr um það hvaða upplýsingum hann sóttist eftir verður að líta til þess að MAST veitti honum tækifæri til að afmarka beiðnina nánar með bréfi, dags. 7. júní 2017. Í svari kæranda, dags. 30. júní 2017, segir skýrlega að spurningin lúti að því hvort tiltekin bú hafi staðist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar, þ.e. fjárflestu búin. <br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er ljóst að beiðni kæranda laut ekki eingöngu að fjölda þeirra búa sem stóðust þennan þátt gæðastýringar, heldur verður að skilja hana sem svo að óskað hafi verið nánari tilgreiningar á búunum. Af hálfu MAST hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi rétt á nöfnum þeirra búa sem stóðust ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar sauðfjárframleiðslu og verður því einnig að leggja fyrir stofnunina að taka þennan hluta beiðninnar til nýrrar meðferðar.<br /> <h3>5.</h3> Fjórði og fimmti liður beiðni kæranda taka til landbótaáætlanna sem eigendur einstakra búa hafa sent MAST vegna gæðastýringar sauðfjárframleiðslu, sbr. 2. mgr. 41. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Stofnunin afhenti kæranda afrit af áætlununum en afmáðar höfðu verið upplýsingar um nöfn búanna, kennitölur þeirra og fjölda fjár á búunum. Í umsögn MAST segir að við nánari skoðun hafi verið ákveðið að veita kæranda aðgang að nöfnum búanna og af hálfu kæranda hefur komið fram að hann sækist ekki eftir aðgangi að kennitölum þeirra. <br /> <br /> Eftir stendur því að taka afstöðu til réttar hans til aðgangs að upplýsingum um fjölda fjár á hverju búi, en synjun stofnunarinnar um það atriði byggðist á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni viðkomandi bónda sem sanngjarnt og eðlilegt væri að leynt færu, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir orðrétt:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.</span><br /> <br /> Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.</span><br /> <br /> Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:<br /> <br /> <span class="blockqoude">Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.</span><br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað landbótaáætlanirnar með hliðsjón af þessum sjónarmiðum andspænis hagsmunum almennings af því að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um aðbúnað dýra og áhrif dýrahalds á umhverfið, sbr. 1. gr. upplýsingalaga og 1. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Í landbótaáætlunum er fjallað um sauðfjárhald búa og einstakra bænda með almennum hætti og beit dýranna í samhengi við gróðurfar og annað ástand lands, meðal annars með tilliti til þess hvort frekari landgræðslu sé þörf. Enda þótt upplýsingar um fjölda fjár á einstökum búum veiti nokkra vísbendingu um fjárhag búanna eða eigenda þeirra er ekki unnt að fallast á það með MAST að um sé að ræða atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu þeirra. Hér skiptir máli að ekki er beinlínis um samkeppnisrekstur að ræða þar sem mælt er fyrir um greiðslur til sauðfjárframleiðenda í sérstökum búvörusamningi. Þá er ekki að finna í áætlunum annars konar viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni manna, t.d. um meint brot gegn lögum um velferð dýra, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 691/2017. Er því að mati nefndarinnar engin hætta á því að búin eða bændurnir verði fyrir tjóni þótt almenningi verði veittur aðgangur að upplýsingum um fjölda fjár sem þeir halda. <br /> <br /> Með hliðsjón af framangreindu verða hagsmunir kæranda af aðgangi að upplýsingum um fjölda dýra í hinum umbeðnu landbótaáætlunum taldir vega þyngra en hagsmunir þeirra sauðfjárframleiðenda sem koma fyrir í hinum áætlunum af því að upplýsingarnar fari leynt. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir MAST að veita kæranda aðgang að landbótaáætlununum án útstrikana.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Matvælastofnun ber að veita kæranda, A, aðgang að landbótaáætlunum sauðfjárbænda, sem kærandi hefur þegar fengið afhentar, án útstrikana.<br /> <br /> Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti felld úr gildi og lagt fyrir Matvælastofnun að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar hvað varðar: <ol> <li>Nöfn og staðsetningu allra býla eða framleiðslueininga í sauðfjárframleiðslu sem hljóta greiðslur samkvæmt búvörusamningum, sundurliðað eftir ærgildum.</li> <li>Upplýsingar um heildargreiðslur til hvers bús fyrir sig samkvæmt búvörusamningi fyrir sauðfjárrækt fyrir árið 2015 eða 2016.</li> <li>Upplýsingar um það hvort framleiðslan standist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar árið 2015 eða 2016.</li> </ol> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson<br />

746/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018

Starfsmaður fjölmiðils kærði synjun kjararáðs á beiðni um aðgang að fundargerðum þess á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skýrt af lokamálsl. 1. gr. laga um kjararáð nr. 130/2016 að kjararáð væri einn þeirra aðila sem falla undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt upplýsingalögum skipti ekki máli hvenær gögn hefðu orðið til og því hefði það ekki þýðingu þótt fundargerðirnar fjölluðu um mál eldri lög um kjararáð giltu um. Var það mat nefndarinnar að kjararáði hafi borið að afmarka beiðni kæranda við gögn í vörslum sínum, sbr. 5. og 15. gr. upplýsingalaga og taka afstöðu til réttar hans til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þar sem kjararáð mat ekki rétt kæranda til aðgangs var málsmeðferð ráðsins ekki talin samrýmast ákvæðum upplýsingalaga, þ. á m. 1. mgr. 19. gr. laganna og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin var þannig talin haldin efnislegum annmörkum sem voru að mati nefndarinnar svo verulegir að hún var felld úr gildi og lagt fyrir kjararáð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2> <br /> Hinn 27. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 746/2018 í máli ÚNU 18030010. <br /> <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> <br /> Með erindi, dags. 15. mars 2018, kærði A, blaðamaður á B, ákvörðun kjararáðs um að synja beiðni hans um aðgang að fundargerðum ráðsins frá 1. janúar 2013. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kjararáð hafi hafnað beiðninni á þeim grundvelli að hún taki til gagna sem varði mál sem urðu til í tíð eldri laga um kjararáð nr. 47/2006 og samkvæmt þeim hafi kjararáð ekki heyrt undir framkvæmdavaldið. Þar með hafi stjórnsýslulög og upplýsingalög ekki gilt um störf ráðsins. Kærandi er ósammála þeirri niðurstöðu og vísar því til stuðnings til lokamálsliðar 1. gr. núgildandi laga um kjararáð nr. 130/2016. Þar segir að kjararáð skuli fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á og ákvæðum upplýsingalaga. Því hefði ráðinu að minnsta kosti borið að veita aðgang að fundargerðum funda sem áttu sér stað eftir það tímamark þegar lögin tóku gildi, þ.e. 1. júlí 2017. Í öðru lagi fellst kærandi ekki á að kjararáð sé ekki stjórnvald. Ágreiningslaust sé að kjararáð sé rekið fyrir opinbert fé og hafi haft fjárlagalið merktan sér á tímabilinu sem um ræðir. Þá hafi ráðinu verið komið á fót með lögum. Lög nr. 47/2006 beri það með sér að um stjórnvald sé að ræða og lögskýringargögn styðji þá niðurstöðu. <br /> <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> <br /> Með bréfi, dags. 16. mars 2018, var kjararáði kynnt kæran og óskað eftir því að ráðið sendi umsögn um hana. Veittur var frestur til 5. apríl 2018. Þá var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests afhent afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að með vísan til 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Kjararáð óskaði margsinnis eftir framlengingu frestsins og barst umsögn ráðsins þann 11. júní 2018. Þar kemur fram að kjararáð krefjist þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem hún falli utan gildissviðs upplýsingalaga og valdsviðs nefndarinnar. <br /> <br /> Kjararáð segist ekki starfa sérstaklega á vegum framkvæmdavaldsins heldur allra þriggja þátta ríkisvaldsins. Ráðinu sé ætlað að vera sjálfstætt í störfum sínum, ekki síst gagnvart framkvæmdavaldinu. Þetta sjáist glöggt af ákvæðum laga um kjararáð um skipan þess og eðli verkefna. Meginverkefni ráðsins sé að ákveða laun og starfskjör fyrir tiltekin störf en ekki nafngreinda einstaklinga. Störfin njóti sérstöðu ýmist vegna eðlis þeirra eða samkvæmt stjórnarskránni, t.d. störf dómara, enda ekki talið æskilegt að handhafi framkvæmdavaldsins fjalli um launakjör þeirra. Kjararáð sé því ekki stjórnsýslunefnd á vegum framkvæmdavaldsins sem tekur ákvarðanir um rétt eða skyldu manna og ákvarðanir og úrskurðir ráðsins séu ekki stjórnvaldsákvarðanir. Jafnvel þótt litið væri svo á að starfsemi kjararáðs teldist í eðli sínu vera stjórnsýsla að einhverju leyti sé að minnsta kosti ljóst að hún sé ekki sérstaklega á vegum framkvæmdavaldsins. Af ákvæðum laga um kjararáð og lögskýringargögnum verði ekki dregin önnur ályktun en sú að ráðið teljist ekki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í þeirri merkingu sem byggt sé á í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Gildissvið upplýsingalaga nái eingöngu til stjórnsýslu sem sé sérstaklega á vegum framkvæmdavaldsins en hvorki til stjórnsýslu löggjafar- né dómsvalds. Þessu til stuðnings vísar kjararáð til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-381/2011 og álits umboðsmanns Aþingis í máli nr. 7064/2012 um lands- og yfirkjörstjórnir. <br /> <br /> Í umsögn kjararáðs er vikið að eldri lögum um ráðið nr. 47/2006 og núgildandi lögum nr. 130/2016. Ráðið kveðst ekki hafa tekið mál til meðferðar samkvæmt nýju lögunum en þau hafi ekki breytt stöðu og eðli þess. Lögin beri með sér að kjararáð skuli vera sjálfstætt, sbr. athugasemdir við 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 47/2006. Þá sé kveðið á um það í lögunum að kjararáð velji sér sjálft formann og varaformann auk þess sem ákvörðunum og úrskurðum þess verði ekki skotið annað en til dómstóla. <br /> <br /> Kjararáð segir ákvarðanir sínar beinast að tilteknum störfum en ekki nafngreindum einstaklingum. Ákvörðunin byggi á ytri hlutlægum þáttum sem varði starfið sjálft en ekki einstaklingsbundnum atriðum er snerti þann einstakling sem gegnir því. Sérstakar málsmeðferðarreglur séu tilgreindar í lögum um ráðið og kveðið á um að ráðið skuli birta úrskurði sína og ástæður fyrir þeim opinberlega. Slík ákvæði hefðu verið með öllu óþörf ef stjórnsýslulög hefðu gilt um ráðið. Þá stæðist það ekki kröfur um sjálfstæði dómsvaldsins að fela framkvæmdavaldinu ákvörðunarvald um laun og starfskjör dómara, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2006 í máli nr. E-1939/2006. Þá er bent á ummæli í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 130/2016 um sérstöðu embættismannanna, ríkissáttasemjara, ríkissaksóknara, umboðsmanns Alþingis og saksóknara. <br /> <br /> Í umsögninni kemur fram að breytingar sem gerðar voru á 1. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 130/2016 taki af allan vafa um stöðu og eðli kjararáðs. Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingatillögu á ákvæðinu við aðra umræðu segi að lagt sé til að tekið verði fram að kjararáð sé stjórnsýslunefnd sem ákveði laun og starfskjör þeirra sem taldir eru upp. Hins vegar hafi verið horfið frá þeirri ætlan að skilgreina ráðið sem stjórnsýslunefnd. Þá hefði ákvæði um að ráðið skuli fylgja stjórnsýslulögum eftir því sem við á og ákvæðum upplýsingalaga verið óþarft ef þessi lög hefðu frá upphafi gilt um störf þess. Hins vegar hafi ráðið leitast við í störfum sínum í tíð eldri laga að horfa til ákvæða stjórnsýslu- og upplýsingalaga eftir því sem við hafi átt. Því hafi kjararáð ekki gert athugasemdir við að umboðsmaður Alþingis hafi fjallað um störf þess, enda geti ábendingar hans verið til leiðsagnar. <br /> <br /> Kjararáð ítrekar að það hafi enn ekki tekið mál til meðferðar á grundvelli nýrra laga um ráðið nr. 130/2016. Beiðni kæranda lúti því að starfi kjararáðs samkvæmt eldri lögum nr. 47/2006, en upplýsingalögin gildi ekki um störf ráðsins á því tímabili sem beiðnin nær til. Þá gildi upplýsingalög heldur ekki um mál sem kjararáð skal ljúka samkvæmt eldri lögum, sbr. bráðabirgðaákvæði með nýju lögunum. Í öllu falli sé ljóst að upplýsingalög gætu eingöngu gilt um málsmeðferð samkvæmt eldri lögum frá 1. júlí 2017 þegar lög nr. 130/2016 tóku gildi. Í því sambandi yrði að líta til 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. <br /> <br /> Kjararáð telur ekki tilefni til að verða við ósk úrskurðarnefndar um upplýsingamál um afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Synjun ráðsins hafi ekki byggst á efnislegu mati á gögnunum líkt og upplýsingalög geri ráð fyrir. Af því leiði að úrskurðarnefndin geti ekki endurskoðað mat kjararáðs á þeim. <br /> <br /> Umsögn kjararáðs var kynnt kæranda með erindi, dags. 11. júní 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust þann 13. júní 2018 og þar færir kærandi rök fyrir því að kjararáð sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Bent er á að kjararáð heyri stjórnskipulega undir fjármála- og efnahagsráðuneytið samkvæmt gildandi forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Sjálfstæði kjararáðs birtist í því að það velji sér formann og að úrskurðum þess verði ekki skotið til annarra stjórnvalda. Þetta sé áréttað í greinargerð með frumvarpi til eldri laga um kjararáð nr. 47/2006, þar sem m.a. komi fram að ákvarðanir og úrskurðir ráðsins séu endanleg á stjórnsýslustigi. Þá segi í athugasemdum við 4. mgr. 10. gr. að ráðið fari með endanlegt úrskurðarvald á stjórnsýslustigi. Kærandi bendir einnig á ummæli í umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarpið. <br /> <br /> Í athugasemdum kæranda segir að þegar sjálfstæðum stjórnsýslunefndum sé komið á fót hafi tvær leiðir aðallega verið farnar. Annars vegar sú leið að tilgreina sérstaklega í lögum að hún sé sjálfstæð. Hin leiðin sé að kveða á um að úrskurðir hennar séu fullnaðarúrskurðir sem ekki verði bornir undir önnur stjórnvöld. Síðari hátturinn hafi verið hafður á í lögum nr. 47/2006. Yfirleitt þjóni sjálfstæðar stjórnsýslunefndir því hlutverki að vera úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi en það sé þó ekki algilt. Sem dæmi um nefndir sem hafa endanlegt úrskurðarvald á fyrsta stigi nefnir kærandi mannanafnanefnd og óbyggðanefnd. Þar sem ekki sé kveðið á um það með afgerandi hætti í lögunum eða greinargerð með þeim að kjararáð skuli vera einhvers konar lögbundinn gerðardómur hnígi rök í þá átt að ráðið sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd. <br /> <br /> Kærandi rekur ákvæði 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997. Umboðsmaður hafi tekið mál sem varði ráðið til skoðunar og hefði svo ekki verið ef ráðið væri ekki stjórnvald. Ekki sé að finna heimild í lögum um umboðsmann fyrir aðra til að færa sig undir starfssvið umboðsmanns með samþykki sínu. Þá séu ákvarðanir kjararáðs stjórnvaldsákvarðanir sem séu teknar einhliða, með skriflegum hætti og kveði með endanlegum hætti á um laun þess sem við á í hverju tilviki fyrir sig. Að baki hverju embætti standi ávallt einhver einstaklingur eða aðili. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1939/2006 geti ekki haft fordæmisgildi þar sem þær ákvarðanir voru teknar undir lögum nr. 120/1992. Því fyrirkomulagi hafi verið breytt með lögum nr. 47/2006. <br /> <br /> Kærandi telur ekki unnt að fallast á þá ályktun í umsögn kjararáðs að þarfleysa hefði verið að kveða á um að stjórnsýslu- og upplýsingalög giltu um ráðið í lögum nr. 130/2016 ef svo hefði verið í tíð fyrri laga. Í fyrsta lagi sé texta oft bætt við lög til að árétta gildandi réttarástand, til að mynda með lögfestingu nokkurra grundvallarreglna stjórnsýsluréttar með stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í öðru lagi megi deila um það hvort staða kjararáðs hafi breyst við gildistöku nýju laganna. Tilvísun kjararáðs til nefndar um dómarastörf dugi ekki þar sem tekið sé af skarið um að sú nefnd skuli ekki teljast stjórnvald. Ef ætlun löggjafans hefði verið að skipa kjararáði utan framkvæmdarvaldsins hefði verið lítið mál að gera það með skýrum hætti í texta laga nr. 47/2006 eða greinargerð með frumvarpinu. <br /> <br /> Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur af hálfu málsaðila. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. <br /> <br /> <h3>Niðurstaða</h3> <br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að fundargerðum kjararáðs á tímabilinu frá 1. janúar 2013 og þar til beiðni kæranda barst kjararáði. Af hálfu kjararáðs hefur komið fram að upplýsingalög nr. 140/2012 gildi ekki um störf ráðsins á tímabilinu sem beiðnin varðar þar sem um þau hafi farið eftir eldri lögum um kjararáð nr. 47/2006. Kjararáð sé ekki stjórnsýslunefnd á vegum framkvæmdavaldsins og því geti upplýsingalög ekki gilt um störf þess nema frá því að ný lög um kjararáð nr. 130/2016 tóku gildi. Af þessum sökum hafi ekki farið fram efnislegt mat á umbeðnum gögnum í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. <br /> <br /> Í lokamálsl. 1. gr. laga um kjararáð nr. 130/2016 segir að í störfum sínum skuli kjararáð fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir því sem við á, sem og ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að skilja ákvæðið sem svo að kjararáð sé einn þeirra aðila sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. I. kafla laganna. Í þeim fyrirmælum laga að kjararáð skuli fylgja upplýsingalögum nr. 140/2012 felst ótvírætt að almenningur á rétt til aðgangs að gögnum í vörslum ráðsins í samræmi við ákvæði II. kafla laganna. Af 5. gr. leiðir að þegar þess er óskað er aðila, sem skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögunum, skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með tilteknum takmörkunum. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. <br /> <br /> Eins og réttur almennings til aðgangs að gögnum er afmarkaður í upplýsingalögum er fyrst og fremst gerður áskilnaður um að þau séu fyrirliggjandi hjá aðila sem fellur undir gildissvið laganna, þ.e. að þau séu í vörslum hans. Að meginstefnu skiptir engu máli hvenær umbeðin gögn urðu til eða hvenær þau bárust viðkomandi aðila sem skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögunum, sbr. 2. mgr. 35. gr. upplýsingalaga. Af framangreindu leiðir að eftir gildistöku laga nr. 130/2016 leikur enginn vafi á því að öll gögn í vörslum kjararáðs eru undirorpin ákvæðum upplýsingalaga og geta röksemdir ráðsins um meinta stjórnskipulega stöðu þess, hvort sem er fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 130/2016, engu breytt í því sambandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ef ætlun löggjafans við setningu laga nr. 130/2016 hefði verið að upplýsingaréttur almennings næði eingöngu til þeirra gagna sem yrðu til eða kæmust í vörslur kjararáðs eftir gildistöku laganna hefði verið eðlilegt að taka það skýrt fram, enda hafði þá verið í gildi ákvæði sambærilegt 2. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2016 allt frá gildistöku eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 þann 1. janúar 1997. Ekkert í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 130/2016 færir stoð undir þá ályktun kjararáðs að upplýsingalögum hafi einungis verið ætlað að taka til gagna í málum sem tekin yrðu til meðferðar samkvæmt nýju lögunum. <br /> <br /> Af framangreindum ákvæðum laga leiðir enn fremur að kjararáði bar að afmarka beiðni kæranda við gögn í vörslum sínum, sbr. 5. og 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar hans til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt kæranda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Málsmeðferð kjararáðs við töku hinnar kærðu ákvörðunar samrýmdist því ekki ákvæðum upplýsingalaga, þ. á m. 1. mgr. 19. gr. laganna og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir kjararáð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar. <br /> <br /> Það athugast að þann 11. júní 2018 samþykkti Alþingi lög um brottfall laga um kjararáð nr. 130/2016. Samkvæmt lögunum falla lög nr. 130/2016 úr gildi þann 1. júlí 2018. Þetta getur þó ekki hnikað framangreindri niðurstöðu nefndarinnar, enda umrædd lög enn í gildi og kjararáði mögulegt að fjalla um beiðni kæranda áður en störfum þess lýkur að fullu. Eftir það tímamark verður að ætla að um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum fari eftir lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 5. mgr. 15. gr. laganna.<br /> <br /> <br /> <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> <br /> Beiðni kæranda, A, um aðgang að fundargerðum kjararáðs frá 1. janúar 2013 er vísað til kjararáðs til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson <br /> formaður <br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

745/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018

Deilt var um rétt kæranda annars vegar til aðgangs að öllum úrskurðum sem dómsmálaráðuneytið hefur kveðið upp í umgengnismálum á grundvelli barnalaga nr. 76/2006 og hins vegar til aðgangs að úrskurðum sem lúta að deilumálum þar sem um er að ræða breytingu á umgengni sem ákveðin hefur verið með sátt fyrir dómi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á það með dómsmálaráðuneytinu að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að öllum úrskurðum ráðuneytisins með vísan til 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. upplýsingalaga þar sem meðferð hennar var talin taka svo mikinn tíma eða krefjast svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Hins vegar taldi nefndin ekki sýnt fram á að beiðni kæranda um úrskurði þar sem um er að ræða breytingu á umgengni yrði felld undir ákvæðið. Var því lagt fyrir ráðuneytið að taka þann hluta beiðninnar til nýrrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2> <br /> Hinn 27. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 745/2018 í máli ÚNU 17090006. <br /> <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> <br /> Með erindi, dags. 26. september 2017, kærði A&nbsp;synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að eldri úrskurðum ráðuneytisins sem kveðnir höfðu verið upp á grundvelli barnalaga nr. 76/2003. <br /> <br /> Með tölvupósti til dómsmálaráðuneytisins, dags. 10. september 2017, óskaði kærandi eftir aðgangi að upplýsingum í þremur töluliðum. Í fyrsta lagi eftir öllum úrskurðum ráðuneytisins í umgengnismálum á grundvelli núgildandi barnalaga nr. 76/2003. Í öðru lagi eftir aðgangi að öllum úrskurðum sýslumanna í umgengnismálum á grundvelli núgildandi barnalaga. Í þriðja lagi óskaði hann eftir öllum úrskurðum ráðuneytisins og sýslumanna þar sem óskað hefði verið eftir að dómsátt yrði rofin og úrskurðað að nýju á grundvelli barnalaga. <br /> <br /> Fram kom að kærandi setti beiðnina fram í tilefni af því að fyrir lægi beiðni barnsmóður hans um að rjúfa dómsátt sem gerð hefði verið ári áður og að úrskurðað yrði um að umgengni hans og barnsins yrði verulega skert. Jafnframt var óskað eftir leiðbeiningum ráðuneytisins ef beiðnin væri ekki réttilega fram sett. Ennfremur gerði kærandi athugasemdir við að ráðuneytið hefði ekki birt umrædda úrskurði opinberlega þrátt fyrir að hafa lýst yfir áformum þess efnis í fyrra bréfi til hans árið 2015. Að lokum óskaði kærandi eftir skjótri afgreiðslu málsins. <br /> <br /> Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti, dags. 13. september 2017. <br /> <br /> Dómsmálaráðuneytið svaraði kæranda með bréfi, dags. 20. september 2017. Þar er vísað til fyrri afgreiðslu ráðuneytisins á sambærilegri beiðni frá 29. mars 2016. Ítrekað er að ráðuneytið hafi ekki undir höndum aðra úrskurði sýslumanna á sviði barnalaga en þá sem kærðir hafi verið til ráðuneytisins. Ráðuneytinu sé því ekki unnt að verða við beiðni um afhendingu þeirra úrskurða sýslumanna sem ekki hafi verið kærðir til ráðuneytisins. Þá segir að í öllum úrskurðum ráðuneytisins er varði kærur í umgengnismálum á grundvelli barnalaga séu upplýsingar um persónulega hagi aðila og því óumdeilanlega um einkahagsmuni að ræða sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Er beiðni kæranda því hafnað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í svari ráðuneytisins til kæranda er því næst tekið fram að ef hreinsa ætti úr öllum úrskurðunum persónugreinanlegar upplýsingar, þá tæki slík meðferð langan tíma og krefðist mikillar vinnu, jafnvel þótt slíkt væri takmarkað við úrskurði ráðuneytisins í málum þar sem óskað hefði verið eftir að dómsátt yrði rofin. Beiðninni sé því jafnframt hafnað á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Að lokum er tekið fram í svari ráðuneytisins að vilji hafi staðið til þess af hálfu ráðuneytisins að birta úrskurði í umgengnis- og sifjamálum almennt að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Því miður hafi ekki reynst unnt að hrinda vinnu við skoðun á því verkefni í framkvæmd í ráðuneytinu enda sé um mjög umfangsmikið verkefni að ræða og ráðuneytið hafi ekki haft yfir að ráða þeim mannafla sem nauðsynlegur sé til verksins. <br /> <br /> Kærandi kærði framangreinda niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 26. september 2017. Í upphafi kærunnar segir að óskað sé eftir því að dómsmálaráðuneytinu verði gert að veita kæranda aðgang að úrskurðum ráðuneytisins í umgengnismálum sem kveðnir hafi verið upp á grundvelli laga nr. 76/2003. Þessu til viðbótar sé óskað eftir því að ráðuneytið veiti aðgang að öllum úrskurðum sem það hafi kveðið upp á grundvelli núgildandi barnalaga þar sem óskað hafi verið eftir að dómsátt sé rofin. Kærandi tekur fram að ekki sé gerð krafa um að fá afhentar persónugreinanlegar upplýsingar. <br /> <br /> Þá tekur kærandi fram að fallið sé frá beiðni um afhendingu úrskurða sem kveðnir hafi verið upp af sýslumönnum en ekki kærðir til ráðuneytisins, þar sem ráðuneytið hafi þá ekki undir höndum. <br /> <br /> Kærandi vísar til þess að mál hans og sonar síns sé til meðferðar hjá stjórnvöldum og að brotið sé á réttindum þeirra með því að neita um aðgang að umræddum upplýsingum. Vísað er til grundvallarsjónarmiða að baki setningu upplýsingalaga og mikilvægi þess að stjórnvöldum sé veitt aðhald varðandi það hvernig staðið sé að úrskurðum í umgengnismálum. Jafnframt vísar kærandi til sjónarmiða sem fram komu í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til breytinga á barnalögum þar sem fram komi hvatning til stjórnvalda til þess að leita leiða til að gera úrskurði sýslumanna og ráðuneytis aðgengilega. <br /> <br /> Í kærunni segir að hafa beri í huga að úrskurðir stjórnvalda í umgengnismálum séu ekki kæranlegir til dómstóla og því ekkert aðhald með úrskurðarframkvæmd ráðuneytisins. Þá er vísað til þess að úrskurðir kærunefndar barnaverndarmála, á grundvelli barnaverndarlaga, séu birtir opinberlega með ópersónugreinanlegum hætti. Einfalt sé fyrir ráðuneytið að birta úrskurði á grundvelli barnalaga með sama hætti. Að lokum er óskað eftir flýtimeðferð málsins. <br /> <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> <br /> Með bréfi, dags. 26. september 2017, var kæran kynnt dómsmálaráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Umsögn dómsmálaráðuneytisins er dagsett 12. október 2017. Þar eru áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í synjun ráðuneytisins, einkum að úrskurðirnir varði umgengni við börn og að þar sé að finna upplýsingar sem teljist einkamálefni sem eðlilegt og sanngjarnt sé að leynt skuli fara. Því þyrfti að hreinsa úr úrskurðunum nöfn, kennitölur, heimilisföng, staðhætti og aðrar viðkvæmar upplýsingar, s.s. heilsufars- og fjárhagsupplýsingar áður en þeir yrðu afhentir óviðkomandi eða birtir almenningi. <br /> <br /> Í umsögninni er áréttað að á grundvelli athugasemda í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að barnalögum hafi ráðuneytið haft til skoðunar hvernig best yrði staðið að því að afmá viðkvæmar upplýsingar úr úrskurðunum svo unnt væri að birta þá almenningi. Þeirri vinnu sé hins vegar ekki lokið. <br /> <br /> Í umsögninni kemur fram að þeir úrskurðir sem beiðni kærandi taki til séu um eitt hundrað talsins og að mikil vinna yrði að yfirfara þá með tilliti til viðkvæmra einkahagsmuna. Ef einangra ætti vinnuna við úrskurði þar sem um sé að ræða breytingu á umgengni sem ákveðin hefði verið með sátt fyrir dómi, þyrfti að skoða alla úrskurðina til að komast að því á hvaða grundvelli umgengni var ákveðin í upphafi. <br /> <br /> Með vísan til framangreinds sé það afstaða ráðuneytisins að ekki sé unnt að afhenda þá úrskurði sem óskað hafi verið eftir og beiðninni því synjað með vísan til 9. gr. og 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Umsögn ráðuneytisins fylgdu til upplýsinga tíu úrskurðir í umgengnismálum sem valdir voru af handahófi. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti kæranda umsögn dómsmálaráðuneytisins með bréfi, dags. 23. október 2017, og gaf honum kost á að koma á framfæri athugasemdum. Með tölvupósti sama dag ítrekaði kærandi fyrri sjónarmið. <br /> <br /> <h3>Niðurstaða</h3> <br /> <h3>1.</h3> <br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að öllum úrskurðum sem ráðuneyti dómsmála hefur kveðið upp í umgengnismálum á grundvelli barnalaga nr. 76/2003. Þá er sérstaklega óskað eftir þeim úrskurðum er lúta að deilumálum þar sem um er að ræða breytingu á umgengni sem ákveðin hefur verið með sátt fyrir dómi. Hér að neðan verður fyrst vikið að almennu beiðninni um aðgang að heildarúrskurðarframkvæmd ráðuneytisins. <br /> <br /> Beiðni kæranda er reist á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem segir m.a. að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greini í 6. – 10. gr. Sama gildi þegar óskað sé aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. <br /> <br /> Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir m.a. að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. <br /> <br /> Fyrir liggur að dómsmálaráðuneytið hefur hina umbeðnu úrskurði undir höndum. Úrskurðirnir lúta að ákvörðun um umgengni foreldra við börnin sín á grundvelli barnalaga nr. 76/2003. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur engum vafa undirorpið að úrskurðirnir lúti að einkamálefnum þeirra einstaklinga sem um ræðir hverju sinni og að um sé að ræða einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Ráðuneytinu væri því óheimilt að afhenda úrskurðina án þess að fella úr þeim atriði er varða einkamálefni þau sem lýst er að framan. <br /> <br /> Það álitaefni sem liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðar því það hvort dómsmálaráðuneytinu sé skylt að fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar úr úrskurðunum og afhenda þá svo kæranda. <br /> <br /> Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd margsinnis kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig. <br /> <br /> Í þessu máli reynir hins vegar jafnframt á ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. þar sem segir að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Eins og áður segir telur ráðuneytið skilyrði þessa undantekningarákvæðis uppfyllt. <br /> <br /> Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að til þess að skilyrðum ákvæðisins í 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. sé fullnægt þurfi umfang upplýsingabeiðni eða fjöldi þeirra frá einum og sama aðilanum að vera slíkur að vinna stjórnvalds eða annarra lögaðila sem lögin taka til við afgreiðslu hennar mundi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum. <br /> <br /> Í máli þessu er um það að ræða að kærandi óskar eftir að fá afhent eintak af öllum úrskurðum dómsmálaráðuneytisins í tilteknum málaflokki. Fyrir liggur að í öllum úrskurðunum er að finna viðkvæmar upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Til þess að unnt yrði að verða við beiðni kæranda yrði því að yfirfara alla úrskurðina gaumgæfilega og fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar. Úrskurðarnefndin tekur fram að í því sambandi væri ekki nægjanlegt að fjarlægja aðeins þær upplýsingar sem með beinum hætti gæfu til kynna um hvaða einstaklinga er að ræða, heldur einnig aðrar þær upplýsingar sem í samhengi við önnur atriði – hvort sem er í úrskurðunum sjálfum eða eftir atvikum í annarri opinberri umfjöllun – hefðu sömu áhrif og sviptu aðila málanna þannig þeirri friðhelgi sem lög gera ráð fyrir. <br /> <br /> Samkvæmt upplýsingum dómsmálaráðuneytisins eru umbeðnir úrskurðir um eitt hundrað talsins. Miðað við þau sýnishorn sem ráðuneytið hefur sent nefndinni má ætla að heildarblaðsíðnafjöldi úrskurðanna sé á annað þúsund. Með vísan til þeirrar vinnu sem ráðast verður í áður en úrskurður um umgengni á grundvelli barnalaga er afhentur almenningi – sem ræðst ekki síst af eðli málaflokksins – telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fallast verði á það með dómsmálaráðuneytinu að beiðni kæranda um afhendingu allra úrskurða sem ráðuneytið hefur kveðið upp í málaflokknum sé svo umfangsmikil að beita megi undantekningarreglu 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og að ekki sé hægt að krefjast þess af ráðuneytinu að það verði við henni. Er synjun ráðuneytisins á þessum hluta beiðninnar því staðfest. <br /> <br /> Í máli þessu hafa bæði kærandi og ráðuneytið vísað til sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 61/2012, sem breyttu núgildandi barnalögum nr. 76/2003. Í athugasemdunum segir að „hvetja [megi] einnig til þess að ráðuneytið leiti leiða til að gera úrskurði sýslumanna og ráðuneytisins aðgengilega fyrir almenningi með einhverjum hætti. Æskilegt [sé] að foreldrar geti kynnt sér þá túlkun og þróun réttarins sem úrskurðir [beri] með sér. Við birtingu [verði] þó að sjálfsögðu að gæta þess að afmá öll þau atriði sem eðlilegt [sé] að leynt fari með tilliti til einkahagsmuna.“ <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er tilvitnaður texti ekki til marks um þá afstöðu löggjafans að almenningur eigi lögvarða kröfu til að fá í hendur alla úrskurði ráðuneytisins á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, heldur feli hann í sér þá hvatningu að leitast verði við að úrskurðirnir verði birtir með einhverjum hætti á grundvelli almennra réttaröryggissjónarmiða. Úrskurðarvald nefndarinnar tekur ekki til þess hvort stjórnvöld hafi brugðist með fullnægjandi hætti við þeirri hvatningu, heldur einvörðungu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að úrskurðarframkvæmdinni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Umrædd sjónarmið í athugasemdunum fá því ekki breytt niðurstöðu nefndarinnar. <br /> <br /> <h3>2.</h3> <br /> Í beiðni sinni til dómsmálaráðuneytisins, og síðar í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, tiltekur kærandi jafnframt sérstaklega þá úrskurði er lúta að deilumálum þar sem um er að ræða breytingu á umgengni sem ákveðin hefur verið með sátt fyrir dómi. Af skýringum dómsmálaráðuneytisins verður ráðið að ekki liggi fyrir nákvæmur fjöldi þessara úrskurða en að þeir séu aðeins hluti allra þeirra úrskurða sem kveðnir hafi verið upp á grundvelli barnalaga og falli undir hina almennu beiðni kæranda sem fjallað hefur verið um hér að framan. Í umsögn dómsmálaráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar kemur jafnframt fram að ef einangra ætti afgreiðslu þess við þessa tilteknu úrskurði þyrfti að skoða alla úrskurðina. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin fellst á að það útheimtir vissulega allnokkra vinnu af hálfu ráðuneytisins að skoða alla úrskurði sína á málefnasviðinu, sem eins og áður segir eru um hundrað talsins, með það fyrir augum að finna út hverjir þeirra lúta að málum þar sem óskað hefur verið eftir að dómsátt sé rofin. Umfangi þeirrar vinnu verður hins vegar að mati nefndarinnar alls ekki jafnað við að gaumgæfa alla úrskurði ráðuneytisins og fjarlægja úr þeim persónugreinanlegar upplýsingar, og getur ekki fallið undir undantekningarreglu 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Það hvort ráðuneytinu beri skylda til þess að hreinsa þessa tilteknu úrskurði af persónugreinanlegum upplýsingum og afhenda kæranda hlýtur að ráðast af fjölda þeirra, þ.e. umfangi þeirrar vinnu sem ráðuneytið þyrfti að ráðast í við afhendingu þeirra. Fjöldi úrskurðanna liggur hins vegar ekki fyrir eins og áður segir. Það er því niðurstaða nefndarinnar að ráðuneytinu beri að taka þennan þátt í beiðni kæranda til nýrrar meðferðar, þ.e. aðgreina úrskurði þar sem um er að ræða breytingu á umgengni sem ákveðin hefur verið með sátt fyrir dómi, og taka í kjölfarið afstöðu til þess hvort ráðuneytinu sé fært að fjarlægja persónugreinanlegar upplýsingar úr þeim og afhenda eða hvort fjöldi þeirra sé slíkur að beiðnin falli eftir sem áður undir undantekningarákvæði 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Er þessum hluta kærunnar því vísað til nýrrar afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins. <br /> <br /> Meðferð máls þessa hefur tafist vegna anna hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin biðst velvirðingar á þeirri töf og leggur um leið áherslu á að hinni nýju meðferð verði hraðað eins og kostur er hjá dómsmálaráðuneytinu. <br /> <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> <br /> Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dags. 20. september 2017, um að synja beiðni kæranda um afhendingu allra úrskurða ráðuneytisins í umgengnismálum á grundvelli núgildandi barnalaga. <br /> <br /> Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dags. 20. september 2017, um að synja beiðni kæranda um afhendingu úrskurða ráðuneytisins á grundvelli barnalaga þar sem óskað er eftir því að dómsátt sé rofin, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar hjá ráðuneytinu. <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson <br /> formaður <br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson <br /> <br /> <br />

744/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018

Í málinu var deilt um rétt kæranda til aðgangs að rafrænni stjórnendahandbók Akureyrarbæjar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það að stjórnendahandbókin hefði að geyma vinnugögn í skilningi 5. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga, þar sem gögnin voru ekki talin hafa orðið til við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta tiltekins máls. Hins vegar var fallist á að Akureyrarbæ hafi með vísan til 9. gr. upplýsingalaga verið heimilt að synja kæranda um aðgang að tilteknum undirsíðum um bókhaldskerfi og mannauðskerfi sveitarfélagsins vegna viðskiptahagsmuna seljanda kerfisins.

<h2>Úrskurður</h2> <br /> Hinn 27. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 744/2018 í máli ÚNU 17060003. <br /> <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> <br /> Með erindi, dags. 12. júní 2017, kærði A synjun Akureyrarbæjar á beiðni um aðgang að stjórnendahandbók sveitarfélagsins. Kærandi óskaði eftir aðgangi að handbókinni með beiðni, dags. 5. apríl 2017, og var beiðnin ítrekuð með bréfum, dags. 27. apríl, 13. maí, 19. maí og 26. maí 2017. Með bréfi, dags. 31. maí 2017, var beiðninni synjað með vísan til 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem þau séu vinnugögn, sbr. 8. gr. laganna. Aðgangur að stjórnendahandbókinni sé takmarkaður við stjórnendur og næstráðendur hjá Akureyrarbæ. Í stjórnendahandbókinni sé að finna vinnugögn af ýmsu tagi, s.s. drög, dæmi, form, gátlista og leiðbeiningar um hvernig skuli vinna einstök mál sem stjórnendur hafi til eigin nota við undirbúning ákvörðunar og afgreiðslu mála. Um sé að ræða vinnugögn stjórnenda til notkunar í daglegum störfum sínum. Auk þessa sé í stjórnendahandbók efni sem þegar sé aðgengilegt á vef Akureyrarbæjar. <br /> <br /> Kærandi fór þess á leit við Akureyrarbæ með bréfi, dags. 31. maí 2017, að afstaða sveitarfélagsins til erindis kæranda yrði endurskoðuð. Þar hafnar kærandi því að gögnin séu vinnugögn heldur segi þau til um stefnu Akureyrarbæjar í starfsmannamálum. Þá séu gögnin ekki viðkvæm, snerti ekki hagsmuni einstaklinga og birting þeirra myndi ekki skaða hagsmuni sveitarfélagsins. Þá telur kærandi að í gögnunum komi fram upplýsingar um vinnureglur og stjórnsýsluframkvæmd í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Kæranda var svarað samdægurs um að afstaða sveitarfélagsins væri óbreytt. <br /> <br /> Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál segist kærandi ekki geta fallist á að gögnin séu vinnugögn. Gögnin séu leiðbeiningar til stjórnenda um hvernig eigi að taka á málum við hinar ýmsu aðstæður. Þau séu liður í starfsmannastefnu bæjarins, þ.e. hvað yfirmenn eiga að gera þegar ákveðnar aðstæður koma upp og því sé um að ræða vinnureglur og gögn um stjórnsýsluframkvæmd, sbr. 8. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> <br /> Með bréfi, dags. 12. júní 2017, var kæran kynnt Akureyrarbæ og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Akureyrarbæjar, dags. 13. júlí 2017, segir að stjórnendahandbókin sé aðgangsstýrður gagnagrunnur á heimasíðu Akureyrarbæjar á vegum stjórnsýslusviðs bæjarins. Gagnagrunnurinn sé eingöngu opinn fyrir stjórnendur (sviðsstjóra) og næstráðendur (forstöðumenn). Gagnagrunnurinn sé stjórnendum til aðstoðar í almennum stjórnunarstörfum. Þar sé að finna stefnur, samþykktir, verklagsreglur, leiðbeinandi skjöl, gátlista og eyðublöð og ýmis fleiri skjöl sem hinn almenni starfsmaður noti ekki í störfum sínum, s.s. vegna mannauðsmála, launamála og launavinnslu, fjárhags- og bókhaldsmála, innkaupa auk hugbúnaðar. Samtals séu 445 skjöl í stjórnendahandbókinni, fyrir utan forsíðu með fréttum og fræðsludagatali fyrir stjórnendur en hvert skjal geti verið fleiri en ein blaðsíða. Umfang skjala í gagnagrunninum sé því mjög mikið. Þá sé þar að finna gögn sem undanþegin séu upplýsingarétti svo sem vörukaupa- og þjónustusamningar, sem ekki sé unnt að veita aðgang að með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja. <br /> <br /> Akureyrarbær tiltekur þrjár ástæður fyrir því að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að handbókinni. Í fyrsta lagi sé handbókin rafrænn gagnagrunnur en ekki tiltekið gagn. Beiðni kæranda lúti því ekki að öllum gögnum tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Í 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga sé upplýsingarétturinn afmarkaður og feli ákvæðið í sér að beiðni verði að lúta að tilteknum gögnum eða öllum gögnum tiltekins máls. Upplýsingarétturinn geti hins vegar ekki tekið til aðgangs að skrám eða gagnagrunnum í heild sinni, þar sem það sé skilyrði að gagn sé til. Stjórnvald þurfi ekki að útbúa ný gögn samkvæmt upplýsingalögum. <br /> <br /> Í öðru lagi beri að synja um aðgang að stjórnendahandbókinni með vísan til þess að í gagnagrunni stjórnendahandbókar sé að finna vinnuskjöl skv. 8. gr. upplýsingalaga og upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja skv. 9. gr. laganna. Akureyrarbær byggir á því að líta verði til þess hvort skjöl gegni svipuðu hlutverki og vinnuskjöl í eiginlegum stjórnsýslumálum þegar skorið sé úr því hvort skjöl teljist vinnuskjöl í skilningi upplýsingalaga. Í gagnagrunninum sé að finna fjölda skjala sem öll séu rituð af starfsmönnum bæjarins, öll rituð til eigin afnota fyrir stjórnendur og mörg þeirra nýtt til undirbúnings ákvörðunar. Sviðsstjóri stjórnsýslusviðs hafi farið yfir skjöl gagnagrunnsins og talið 50 skjöl, sem Akureyrarbær telur að uppfylli skilyrði um að teljast vinnugögn. Skjölin séu flest þess efnis að þau séu notuð við stofnun ráðningarsambands, á starfsferli starfsmanns, s.s. vegna réttinda starfsmanns, eða til að bregðast við vegna frávika á starfstíma og vegna starfsloka. Þá séu í gagnagrunninum samningar við söluaðila á grundvelli útboðs og flýtilykill á rammasamninga Ríkiskaupa sem óheimilt sé að veita almenningi aðgang að en upplýsingarnar varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila skv. 9. gr. upplýsingalaga. Í gagnagrunninum sé einnig að finna leiðbeiningar sem varði SAP bókhaldskerfi og SAP mannauðskerfi sem séu aðgangsstýrðar að beiðni seljanda kerfisins, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækisins. Akureyrarbær segir að þar sem um gagnagrunn sé að ræða, og handbókin ekki til í bókarformi, sé ekki hægt að takmarka aðgang að tilteknum skjölum sem 8. og 9. gr. eigi við um, verði kæranda veittur rafrænn aðgangur að gagnagrunninum, með notendanafni og lykilorði. Því beri að synja kæranda um aðgang að gagnagrunninum. <br /> <br /> Í þriðja lagi beri að synja kæranda um aðgang með vísan til 1. tl. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga þar sem segir að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef meðferð hennar taki svo mikinn tíma eða krefjist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Kærandi hafi farið fram á að fá gögnin afhent rafrænt. Ekki sé hægt að afhenda kæranda notandanafn og lykilorð þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði aðgangs. Ef koma ætti til afhendingar þyrfti annað hvort að prenta út öll skjöl gagnagrunnsins eða búa til pdf.-skjal fyrir hvert skjal og senda kæranda rafrænt. Gera megi ráð fyrir því að blaðsíðufjöldi sem óskað er aðgangs að geti verið á milli 3.000-5.000. Ef afhenda eigi skjöl gagnagrunnsins rafrænt þurfi að búa til a.m.k. 445 pdf.-skjöl., en þá séu fréttir á forsíðu og fræðsludagatal ekki talin með. Á grundvelli umfangs beiðni kæranda sé henni því synjað með vísan til 1. tl. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. <br /> <br /> Að lokum segir í umsögninni að ef úrskurðarnefnd um upplýsingamál telji kæranda eiga rétt til aðgangs að gagnagrunninum geri sveitarfélagið þá kröfu að kæranda verði veittur tímabundinn rafrænn aðgangur í klukkustund í fundarherbergi Akureyrarbæjar, undir leiðsögn starfsmanns stjórnsýslusviðs, með þeim takmörkunum sem greinir í 8. og 9. gr. upplýsingalaga. Vísað er til 18. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði sem þau eru varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Með umsögn Akureyrarbæjar fylgdi aðgangs- og lykilorð svo úrskurðarnefndin gæti kynnt sér efni handbókarinnar. <br /> <br /> Umsögn Akureyrarbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 14. ágúst, kemur m.a. fram að kærandi telji rök Akureyrarbæjar um að synja beri um aðgang að gögnunum þar sem um sé að ræða gagnagrunn, vera hættuleg. Sveitarfélagið geti þá búið til hina ýmsu gagnagrunna og neitað almenningi aðgangi að gögnum í þeim. Þá kemur fram að stjórnendahandbókin hafi að geyma upplýsingar um stefnu bæjarins í starfsmannamálum, hvernig taka eigi stjórnvaldsákvarðanir sem og leiðbeiningar fyrir stjórnendur um réttindi starfsmanna. Það séu þessi gögn, auk annarra gagna sem snerti starfsmannastefnu bæjarins, sem kærandi hafi áhuga á. Kærandi óski ekki eftir aðgangi að bókhaldsgögnum bæjarins, bókhaldskerfum eða samningum sem bærinn telur að þurfi að fara leynt. Þá bendir kærandi á að sum gögn sem bærinn hafi synjað um aðgang að séu aðgengileg á internetinu. <br /> <br /> Kærandi segist gefa lítið fyrir þau rök bæjarins að það útheimti mikla vinnu að afrita gögnin og afhenda honum og bendir á að samkvæmt umsögn sveitarfélagsins hafi sviðsstjóri stjórnsýslusviðs þegar farið yfir grunninn. Ekki ætti að taka langan tíma að færa skjölin á USB-lykil og afhenda. Hvað form skjalanna varði geti kærandi tekið við þeim í formi skjala á sniðunum doc, pdf, odt, o.s.frv., og því sé óþarfi að umbreyta sniði þeirra. Kærandi hafnar því einnig að honum verði veittur tímabundinn aðgangur að gögnunum enda sé ljóst að það taki lengri tíma en klukkustund að lesa stjórnendahandbókina. Til málamynda segist kærandi óska eftir aðgangi að gögnum undir flipunum stoðþjónusta, launavinnsla og mannauðsstjórnun í stjórnunarhandbókinni. Óskað sé eftir aðgangi að gögnum sem ekki snerti einkahagsmuni einstaklinga, séu ekki viðkvæm og skaði ekki hagsmuni sveitarfélagsins. Einnig sé óskað eftir aðgangi að skjölum sem er að finna undir liðnum fjárhagsáætlanir. <br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 22. maí 2018, fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við Akureyrarbæ að bærinn tilgreindi nákvæmlega hvaða skjöl í stjórnendahandbókinni hann teldi falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Í svari bæjarins, dags. 8. júní 2018, kom í fyrsta lagi fram að ekki væri lengur flýtilykill á rammasamninga Ríkiskaupa eða samninga við söluaðila á grundvelli útboðs í handbókinni. Hins vegar væru mjög víða leiðbeiningar sem varði SAP bókhalds-, launa- og mannauðskerfið sem seljandi kerfisins hafi farið fram á að væru aðgangsstýrðar. Þá bendi Akureyrarbær á að öryggisins vegna sé nauðsynlegt að aðrir en stjórnendur hafi ekki aðgang að þessum leiðbeiningum. Tekið er sem dæmi að með leiðbeiningunum geti utanaðkomandi aðili gert breytingar í launakerfi sveitarfélagsins. <br /> <br /> Svarinu fylgdi afrit af bréfi Origo hf., seljanda SAP-kerfisins, þar sem afstöðu félagsins til aðgangs kæranda var lýst. Þar segir að félaginu sé mikilvægt að aðgengi að hugverki þess sé stýrt samkvæmt samningum og hefðum. Þetta eigi bæði við um aðgengi að kerfunum sjálfum, sértækum leiðbeiningum og frumkóða kerfanna. Félagið hafi fjárfest í gerð leiðbeininga sem séu reglulega uppfærðar og gefi því rétta mynd af eiginleikum kerfanna. <br /> <br /> Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna anna í störfum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. <br /> <br /> <h3>Niðurstaða</h3> <br /> <h3>1.</h3> <br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að stjórnendahandbók Akureyrarbæjar, sem vistuð er á rafrænu formi. <br /> <br /> Af hálfu bæjarins hefur m.a. komið fram að upplýsingaréttur kæranda geti ekki tekið til handbókarinnar á grundvelli 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, þar sem um gagnagrunn sé að ræða en ekki tiltekið gagn. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að í gildistíð eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 var upplýsingaréttur almennings ekki talinn ná til gagnagrunna þar sem þeir tilheyrðu ekki tilteknu máli, en lögin höfðu ekki að geyma þá reglu sem nú er í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Svo stjórnvaldi verði gert skylt að afhenda upplýsingar úr gagnagrunnum eða skrám þurfa þær nú aðeins að vera fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, hvort sem þær tilheyra tilteknu máli eða ekki, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 706/2017. <br /> <br /> Akureyrarbær hefur fullt forræði á því efni sem skráð er í rafrænni stjórnendahandbók bæjarins. Tilteknir starfsmenn bæjarins geta nálgast handbókina hvenær sem er. Þannig er ekki um það að ræða að umbeðin gögn séu geymd í gagnagrunni sem utanaðkomandi aðili hefur forræði yfir eða stýrir aðgangi að, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar nr. 668/2017 frá 30. janúar 2017. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður því að leggja til grundvallar að stjórnendahandbókin teljist til fyrirliggjandi gagna í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt framangreindu var óheimilt að synja kæranda um aðgang að stjórnendahandbókinni á þeirri forsendu að hún teljist hluti af einhvers konar gagnagrunni sem upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum nái ekki til. <br /> <br /> <h3>2.</h3> <br /> Sveitarfélagið hefur einnig vísað til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Í þessu sambandi nefnir Akureyrarbær að gera megi ráð fyrir því að blaðsíðufjöldi sem óskað er aðgangs að geti verið á milli 3.000-5.000. Ekki sé hægt að veita kæranda aðgang að handbókinni þar sem hann „uppfylli ekki skilyrði aðgangs“. Ef afhenda eigi skjöl gagnagrunnsins rafrænt þurfi að búa til a.m.k. 445 pdf.-skjöl. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að ákvæði 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga getur aðeins átt við í ýtrustu undantekningartilvikum, sbr. skýringar við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Þar segir jafnframt að beiting hennar krefjist þess að umfang upplýsingabeiðni sé slíkt að vinna stjórnvalds við afgreiðslu hennar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum þess til að sinna öðrum hlutverkum sínum. Þá leiðir af 1. mgr. 18. gr. laganna að eftir því sem við verður komið skal veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði sem þau eru varðveitt á. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur Akureyrarbær ekki fært fram haldbærar skýringar á því hvers vegna ekki sé unnt að veita kæranda aðgang að handbókinni rafrænt, eftir atvikum með aðgangsstýringu, en í gögnum málsins kemur fram að sveitarfélagið noti slíka stýringu til að stjórna því hvaða notendur hafa aðgang að einstökum hlutum handbókarinnar. Þá verður að ætla að sveitarfélaginu sé að minnsta kosti fært að afrita texta handbókarinnar og afhenda kæranda á rafrænu formi, til að mynda á minnislykli, eða prenta hann út. Því gerist að mati nefndarinnar ekki þörf til að umbreyta henni í pdf.-skjöl, en úrskurðarnefndin tekur fram að Akureyrarbær hefur heldur ekki gert tilraun til að sýna fram á að vinnan við það myndi leiða til umtalsverðar skerðingar á möguleikum sveitarfélagsins til að sinna öðrum hlutverkum sínum. Þá hefur úrskurðarnefndin hliðsjón af því að ef kostnaður hlýst af afhendingu handbókarinnar gera upplýsingalög ráð fyrir því að kærandi geti þurft að bera hluta hans. Verður því ekki fallist á að ákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga réttlæti synjun Akureyrarbæjar á beiðni kæranda. <br /> <br /> <h3>3.</h3> <br /> Þá hefur Akureyrarbær borið fyrir sig að stjórnendahandbók sveitarfélagsins hafi að geyma vinnugögn í skilningi 5. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. Að mati bæjarins eru 50 skjöl háð þessari takmörkun og flest þess efnis að þau séu nýtt við stofnun ráðningarsambands, á starfsferli starfsmanns, svo sem vegna réttinda hans eða til að bregðast við vegna frávika á starfstíma eða starfsloka. Þannig séu skjölin „drög, dæmi, form, gátlistar og leiðbeiningar“. <br /> <br /> Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Til þess að skjal teljist vinnugagn þarf því almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt ákvæðinu. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn í reynd, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að stjórnendahandbók Akureyrarbæjar uppfylli síðastnefndu skilyrðin tvö. <br /> <br /> Á hinn bóginn felst í skilyrðinu um að gagn sé undirbúningsgagn í reynd að það hafi orðið til við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta tiltekins máls, enda er takmörkun 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings studd þeim rökum að gögn sem verða til við slíkt ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Ákvæðið getur hins vegar ekki takmarkað rétt almennings til aðgangs að skjölum og sniðmátum sem eru útbúin almennt til notkunar við meðferð ótiltekinna mála af ákveðnum tegundum, enda er ekki um sömu hagsmuni að tefla í þeim tilvikum. Þetta sést til að mynda á því að sérstaklega er mælt fyrir um skyldu til að veita aðgang að vinnugögnum sem hafa að geyma lýsingu á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds og þess lögskýringarsjónarmiðs að skýra beri takmarkanir á upplýsingarétti almennings þröngt, með hliðsjón af meginreglu laganna um rétt til aðgangs, er ekki fallist á það með Akureyrarbæ að stjórnendahandbók bæjarins hafi að geyma vinnugögn í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. <br /> <br /> <h3>4.</h3> <br /> Loks koma til skoðunar röksemdir Akureyrarbæjar sem lúta að því að stjórnendahandbókin hafi að geyma upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Í umsögn bæjarins kom fram að handbókin hefði að geyma samninga við söluaðila á grundvelli útboðs og flýtilykil á rammasamninga Ríkiskaupa en undir meðferð málsins upplýsti bærinn að þessar upplýsingar væru ekki lengur hluti af handbókinni. Eftir stendur að skera úr um það hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að leiðbeiningum sem varða SAP bókhaldskerfi og SAP mannauðskerfi með hliðsjón af mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum fyrirtækisins, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í 9. gr. upplýsingalaga kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á og að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum varðandi mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum við 9. gr., í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, kemur eftirfarandi m.a. fram: <br /> <br /> <span class="blockqoude">„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“ </span> <br /> <br /> Þá kemur fram að ákvæðið feli í sér matskennda reglu um það hvenær rétt sé að halda upplýsingum leyndum. Við það mat beri að skoða hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að þær geti valdið því tiltekna fyrirtæki sem um ræði tjóni verði þær opinberar. Matið á hagsmunum fyrirtækjanna er því í miklum mæli tilviksbundið og niðurstaðan hverju sinni getur ráðist af þeim röksemdum sem viðkomandi fyrirtæki tefla fram. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þær undirsíður stjórnendahandbókarinnar og gögn sem Akureyrarbær hefur vísað sérstaklega á í þessu sambandi. Að mati nefndarinnar yrði hagsmunum bæjarins og Origo hf. almennt ekki teflt í tvísýnu þótt kæranda yrði veittur aðgangur að leiðbeiningum til stjórnenda sveitarfélagsins um hvernig nota skuli bókhalds- og mannauðskerfi sem notast er við. Er þar einnig höfð hliðsjón af hagsmunum almennings af því að geta kynnt sér hvernig stjórnsýsla sveitarfélagsins starfar, sbr. markmið upplýsingalaga í 1. gr. þeirra. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er hins vegar ekki útilokað að samkeppnisaðilar Origo hf. geti hagnýtt sér einhverjar upplýsingar um kerfin sem fyrirtækið býður til sölu af hluta þeirra skjala sem Akureyrarbær hefur tilgreint. Þá dregur nefndin ekki í efa að utanaðkomandi aðilar geti í einhverjum tilvikum nýtt upplýsingarnar til að gera breytingar í launakerfi sveitarfélagsins. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og þess lögskýringarsjónarmiðs að skýra beri takmarkanir frá upplýsingarétti almennings þröngt verður hins vegar að gera strangar kröfur til þess að skjal beri með sér að slík hætta sé raunverulega til staðar. <br /> <br /> Að virtu heildarmati á efni stjórnendahandbókarinnar verður fallist á það með Akureyrarbæ að heimilt sé að takmarka aðgang kæranda að hluta hennar, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en lagt er fyrir sveitarfélagið að veita kæranda aðgang að því sem eftir stendur á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þess ber að geta að upplýsingalög hafa ekki að geyma heimild til að takmarka aðgang beiðanda við tiltekinn stað eða tiltekinn tíma. Því eru engar forsendur til að verða við kröfum bæjarins um að kæranda verði veittur slíkur takmarkaður aðgangur að stjórnendahandbókinni. <br /> <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> <br /> Akureyrarbæ er skylt að veita kæranda, A, aðgang að stjórnendahandbók Akureyrarbæjar. Þó er Akureyrarbæ heimilt að takmarka aðgang að eftirfarandi gögnum: <br /> <br /> • Leiðbeiningum um samþykktarkerfi reikninga, dags. 1. mars 2013, undir síðunni „SAP bókhaldskerfi“ <br /> • Skjalinu „Skýrslur í SAP“, undir síðunni „SAP bókhaldskerfi“ <br /> • Skjölunum „Fjárhagsáætlanagerð, leiðbeiningar“, „Fjárhagsáætlanagerð, innsláttur“ og „Fjárhagsáætlanagerð, skýrsla“ undir síðunni „SAP bókhaldskerfi“ <br /> • Skjalinu „Ráðningarkerfi SAP – Leiðbeiningar fyrir stjórnendur“, undir síðunni „SAP mannauðskerfi“ <br /> • Skjalinu „Námskeiðskerfi SAP – Leiðbeiningar fyrir stjórnendur“, undir síðunni „SAP mannauðskerfi“ <br /> • Skjalinu „Námskeiðskerfi SAP – Skýrslur“, undir síðunni „SAP mannauðskerfi“ <br /> • Skjalinu „SAP: Skrifborð stjórnandans“, undir síðunni „SAP mannauðskerfi“ <br /> • Skjalinu „Launaáætlun í Listasmiðjunni“ <br /> • Handbókinni „Áætlanagerð í SAP fyrir notendur“ <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson <br /> formaður <br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

743/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018

Kærð var ákvörðun Landsnets hf. um að synja Orku náttúrunnar ohf. um upplýsingar varðandi kerfisframlag. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um kerfisframlag í samningi Landsnets og Landsvirkjunar féllu undir 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 89/2004 þar sem kveðið er á um sérstaka kæruheimild til Orkustofnunar og úrskurðarnefndar raforkumála vegna synjunar á afhendingu upplýsinga er nauðsynlegar eru við mat á því hvort flutningsfyrirtæki fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfis og tryggi jafnræði við flutning raforku, sbr. einnig 1. mgr. 30. gr. laganna. Var því kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

<h2>Úrskurður</h2> <br /> Hinn 27. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 743/2018 í máli ÚNU 16110004. <br /> <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> <br /> Með erindi til Landsnets hf., dags. 18. desember 2012, óskaði Orkuveita Reykjavíkur, móðurfélag Orku náttúrunnar ohf., eftir upplýsingum um útreikning og greiðslur á kerfisframlagi nýrra viðskiptavina flutningskerfisins. Í beiðninni segir að óskað sé eftir „öllum upplýsingum og forsendum (réttarheimildum, tilmælum, reglum, verklagsreglum, fyrirmælum, leiðbeiningum) um útreikning og greiðslur á kerfisframlagi nýrra viðskiptavina flutningskerfisins. Einnig var óskað eftir „upplýsingum um hvort kerfisframlags hafi verið krafist eða óskað vegna tenginga við flutningskerfið, hver staða þeirra mála er og loks samninga um kerfisframlag ef einhverjir eru“. <br /> <br /> Með erindi, dags. 11. nóvember 2016, kærði Orka náttúrunnar töf á afgreiðslu Landsnets á beiðninni. Í kæru kemur m.a. fram að í upphafi árs 2014 hafi kærandi tekið við starfsemi virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og verkefnum sem þeim tengjast, m.a. sem lúta að tengingum virkjana fyrirtækisins við flutningskerfið í landinu og þar af leiðandi afgreiðslu mála er tengjast kerfisframlagi. <br /> <br /> Með erindi, dags. 14. nóvember 2016, var kæran kynnt Landsneti og veittur frestur til afgreiðslu erindisins. Í svari Landsnets, dags 28. nóvember 2016, kemur m.a. fram að Landsnet telji rétt kæranda til aðgangs að upplýsingunum hvorki reistan á upplýsingalögum né lögum nr. 23/3006. Vísað er til þess að samkvæmt 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sé Landsneti skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar séu við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Þá sé í 8. mgr. sömu greinar kveðið á um að Landsnet skuli gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar er varði viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Í 5. mgr. 9. gr. sé jafnframt kveðið á um að rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita upplýsingar skeri Orkustofnun úr og úrskurður Orkustofnunar sæti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála. Með erindum, dags. 4. janúar 2017 og 9. nóvember 2017, ítrekaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál beiðni um afhendingu afrita af gögnum sem kæran laut að. Þau bárust þann 16. nóvember 2017. <br /> <br /> Kærandi kærði ákvörðun Landsnets með erindi, dags. 19. febrúar 2018. Þar kemur fram að kærandi reisi rétt sinn til aðgangs að upplýsingum um kerfisframlag Landsnets á lögum um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006, upplýsingalögum og raforkulögum nr. 65/2003. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að Landsneti sé skylt á grundvelli laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 og upplýsingalaga að afhenda upplýsingar um kerfisframlag með vísan til 5. gr. laganna. Landsnet sé hlutafélag sem starfi á grundvelli laga nr. 75/2004, en hlutverk þess sé einkum að annast flutning raforku og kerfisstjórnum skv. ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 2. gr. laganna, auk þess sem félaginu sé heimilt að reka raforkumarkað. Þá sé félagið í eigu opinberra aðila. Landsnet falli því undir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006. Þessu til stuðnings er vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-486/2013 og nr. 638/2016. Auk þess taki upplýsingalög til Landsnets samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. <br /> <br /> Kærandi telur upplýsingar um kerfisframlag, þ.e. hlutdeild viðskiptavinar í fjárfestingu vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutnings- eða dreifikerfi, vera upplýsingar um umhverfismál í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga 23/2006. Bent er á að kveðið sé á um kerfisframlag í samningum um tengingar aðila við flutningskerfi, t.d. í samningi Landsvirkjunar og Landsnets um tengingu Fljótsdalslínu 3 og 4 og samningi Landsnets við PCC Bakka Silicon hf. Þá feli ákvarðanataka um kerfisframlag í sér ráðstöfun í tengslum við löggjöf og/eða samning, nánar tiltekið að tekin sé afstaða til ráðstöfunar fjármuna á grundvelli ákvæða raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 10. mgr. 12. gr. a. laganna. Kærandi kveðst því óska eftir upplýsingum um ráðstöfun fjármuna í tengslum við löggjöf eða samning sem hafi eða sé líkleg til að hafa áhrif á umhverfið, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 23/2006. Engu máli skipti hvenær upplýsingarnar hafi orðið til eða hvenær þær hafi borist Landsneti, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 23/2006. <br /> <br /> Í kæru eru gerðar athugasemdir við að Landsnet beri fyrir sig trúnaðarskyldur. Réttur almennings til upplýsinga á grundvelli laga nr. 23/2006 takmarkist af 6. gr. laganna, en þar undir falli t.d. upplýsingar fjárhagslegs eðlis og sem varði viðskiptahagsmuni fyrirtækja, sbr. einnig 8. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 og 9. gr. upplýsingalaga. Til þess að þessar takmarkanir geti átt við verði að liggja fyrir að upplýsingarnar varði veigamikla framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni og að birting þeirra geti valdið aðila óréttmætu tjóni. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vísað til þess hvers kyns hagsmunir muni skerðast ef upplýsingarnar verði gerðar aðgengilegar. Kærandi telur hagsmuni af því að aðgangur verði veittur vega þyngra en hagsmunir Landsnets og viðsemjenda af því að upplýsingarnar lúti trúnaði. Þær varði lögbundið hlutverk Landsnets sem beri að lögum að gæta jafnræðis við rækslu þess hlutverks, þ.m.t. við mat á kerfisframlagi. Fallist nefndin á það með Landsneti að trúnaðarupplýsingar sé að finna í umbeðnum gögnum beri að veita aðgang að hluta þeirra, sbr. 9. gr. laga nr. 23/2006 og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012. <br /> <br /> Kærandi bendir á að þrátt fyrir skyldu skv. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga til að afla afstöðu eiganda einkahagsmuna beri Landsneti að leggja sjálfstætt mat þar á. Þá skipti ákvæði samnings sem kveði á um trúnaðarskyldu engu máli enda geti samningur ekki vikið skýrum ákvæðum laga um rétt til aðgangs að upplýsingum. Það eigi ekki að vera trúnaðarmál Landsnets og eins viðskiptavinar fyrirtækisins hvort og þá hvernig Landsnet uppfylli lögboðnar skyldur sínar. <br /> <br /> Kærandi telur Landsneti einnig vera skylt að veita aðgang að upplýsingunum á grundvelli upplýsingalaga. Landsnet hafi borið fyrir sig 3. mgr. 35. gr. laganna en af greininni leiði að upplýsingalög taki aðeins til gagna og upplýsinga í vörslu lögaðila sem orðið hafi til eftir gildistöku laganna. Það tímamark eigi hins vegar ekki við þegar viðkomandi aðila hafi verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun en þá sé rétturinn til aðgangs að gögnum ekki tengdur gildistöku laganna. Kærandi segir ákvörðunartöku um kerfisframlag vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi bendir einnig á að upplýsingar um kerfisframlag hafi áður verið gerðar aðgengilegar almenningi, sbr. upplýsingar um kerfisframlag í tengslum við samkomulag Landsnets og PCC Bakka Silicon hf. í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 638/2016. Sömu upplýsingar hafi einnig veittar Eftirlitsstofnun EFTA, sbr. ákvörðun stofnunarinnar nr. 206/15/COL í máli nr. 77190. Kærandi telur það ótæka niðurstöðu að í sumum tilvikum verði talið heimilt að afhenda upplýsingar um kerfisframlag en ekki í öðrum. <h3>Málsmeðferð</h3> <p> <br /> Með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, var kæran kynnt Landsneti og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn Landsnets, dags. 9. mars 2018, segir m.a. að greiðsla kerfisframlags vegna Kárahnjúkavirkjunar sé byggð á samningi Landsnets og Landsvirkjunar um flutning rafmagns til álvers Alcoa-Fjarðaáls sf. frá 14. desember 2007. Í 33. gr. samningsins sé kveðið á um að efni hans, hvort sem er í heild eða að hluta, eða viðskiptalegar upplýsingar sem lagðar hafi verið fram í samræmi við ákvæði hans, skuli vera trúnaðarmál og að aðilum hans sé óheimilt að upplýsa um þær án þess að fá skriflegt samþykki gagnaðila. Landsnet hafi leitað afstöðu Landsvirkjunar til beiðni kæranda og hafi Landsvirkjun alfarið lagst gegn aðgangi þar sem kærandi væri samkeppnisaðili félagsins. Vegna þessarar afstöðu Landsvirkjunar og 8. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 hafi Landsnet talið sér óheimilt að veita kæranda aðgang að upplýsingunum. <br /> <br /> Landsnet hafnar því að upplýsingalög gildi um þær upplýsingar og gögn sem byggja á samningi félagsins og Landsvirkjunar frá 14. desember 2007. Af 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 14/2012 leiði að lögin gildi aðeins um gögn og upplýsingar í vörslum lögaðila sem urðu til eftir gildistöku laganna þann 1. janúar 2013. Landsnet hafnar því að samningur félagsins og Landsvirkjunar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun, heldur sé um að ræða samning milli tveggja aðila um ákveðin einkaréttarleg viðskipti þeirra á milli. <br /> <br /> Í umsögninni kemur einnig fram að telji úrskurðarnefndin kæranda eiga rétt til gagnanna á grundvelli upplýsingalaga sé Landsneti óheimilt að greina frá þeim upplýsingum sem byggja á samningi Landsnets og Landsvirkjunar á grundvelli 9. gr. laganna. Ekki sé hægt að jafna aðstæðum í máli úrskurðanefndarinnar nr. 638/2016 við aðstæður í þessu máli. Þar hafi Landvernd óskað aðgangs að upplýsingum vegna áhrifa jarðstrengs á umhverfið og annarra tæknilegra upplýsinga tengda mannvirkjum vegna flutnings raforku frá Kröflu að Bakka. Í málinu sem hér sé til umfjöllunar sé óskað eftir aðgangi að upplýsingum um fjárhæðir sem tengist samningi Landsnets og Landsvirkjunar og lúti að mikilvægum fjárhags- og viðskiptahagsmunum Landsvirkjunar. <br /> <br /> Landsnet telur kæranda ekki eiga rétt til upplýsinganna á grundvelli 3. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Þá sé jafnframt til þess að líta að um kerfisframlag gildi raforkulög nr. 65/2003 þar sem sérstaklega sé fjallað um rétt til upplýsinga. Kærandi verði að að styðjast við þá heimild. Ef upplýsingarnar verði taldar falla undir lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál sé engu að síður óheimilt að veita upplýsingarnar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. þeirra laga. <br /> <br /> Umsögn Landsnets var kynnt kæranda með bréfi, dags. 12. mars 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags 27. mars 2018, segir m.a. að með beiðninni hafi kærandi viljað staðreyna að lögbundið jafnræði gildi milli aðila við meðferð mála þegar tekin sé ákvörðun um kerfisframlag. Landsnet hafi ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda heildstætt heldur látið duga að taka eingöngu afstöðu til beiðninnar hvað Landsvirkjun varði. Þetta hafi Landsnet gert þrátt fyrir að upplýsingabeiðni kæranda hafi verið víðtækari. Að auki hafi Landsnet ekki veitt kæranda aðgang að upplýsingum um kerfisframlag sem fjallað hafi verið um í samkomulagi Landsnets og PCC Bakka Silicon hf., þrátt fyrir að Landvernd og ESA hafi fengið aðgang að þeim samningi. Auk þess er tekið fram að samningsbundinn trúnaður gangi ekki framar lögbundnum rétti til upplýsinga. <br /> <br /> Í athugasemdunum kemur einnig fram að með kerfisframlagi sé tekin ákvörðun sem hafi áhrif á fjárhagslega hagsmuni þess sem ákvörðunin beinist að og einnig annarra sem tengdir eru flutningskerfinu og beri hugsanlega kostnað af þeirri tengingu. Tenging nýrra aðila við kerfið geti því haft veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra sem fyrir eru. Því sé eðlilegt að þeir geti með góðu móti glöggvað sig á forsendum sem Landsnet byggi á. <br /> <br /> Þá segir í athugasemdum kæranda að þagnarskylduákvæði 8. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2006 sé almenns eðlis og takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Ákvæðið geti því ekki veitt Landsneti ríkari rétt til að takmarka aðgang að upplýsingum en leiði af 9. gr. upplýsingalaga. Landsnet hafi ekki tilgreint að hvaða leyti Landsvirkjun verði fyrir tjóni ef aðgangur verði veittur að upplýsingunum. Landsnet hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir viðsemjenda sinna eigi að vega þyngra við takmörkun á afhendingu upplýsinga en annarra aðila sem aðild eigi að þeim hagsmunum sem ráðstafað sé með kerfisframlaginu. Óumdeilt sé að ákvörðun Landsnets um kerfisframlag sé tekin í skjóli einkaréttar fyrirtækisins á rekstri flutningskerfisins. Þá beri að hafa í huga að samningur Landsnets og Landsvirkjunar sé frá árinu 2007 og því séu yfirgnæfandi líkur á að hagsmunirnir sem Landsnet vísi til séu ekki virkir lengur. <br /> <br /> Kærandi segir að orðalag 12. gr. a raforkulaga gefi ekki til kynna að samið sé um kerfisframlag á einkaréttarlegum grundvelli. Landsneti beri að tryggja gagnsæi, enda skuli fyrirtækið setja sérstakan netmála um kerfisframlag. Það leiði af orðalagi 12. gr. a að Landsneti beri að taka einhliða ákvörðun um kerfisframlag og að hún beinist að nýrri virkjun eða stórnotanda. Í þessu tilliti teljist Landsnet vera stjórnvald. <br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. Þá hefur meðferð málsins dregist óhæfilega af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna mistaka við málsmeðferð og anna í störfum nefndarinnar. Beðist er velvirðingar á þessum drætti. </p> <p></p> <h3>Niðurstaða</h3> <p> </p> <h3>1.</h3> <p> <br /> Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem lúta að greiðslu kerfisframlags. Landsnet heldur því m.a. fram að málið heyri ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem kveðið sé á um sérstaka kæruheimild til Orkustofnunar og úrskurðarnefndar raforkumála í 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu flutningsfyrirtækisins til upplýsingagjafar og segir þar orðrétt: <br /> <br /> <span class="blockqoude">„Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.“ </span><br /> <br /> Við gildistöku raforkulaga var ákvæði um upplýsingaskyldu flutningsfyrirtækisins í 5. tölul. 4. mgr. 9. gr. sem kvað á um skyldur flutningsfyrirtækisins við kerfisstjórnun. Í ákvæðinu sagði að í slíkri kerfisstjórn fælist m.a. að: „Veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum og til að tryggja jafnræði í viðskiptum með raforku.“ Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til raforkulaga nr. 65/2003 segir eftirfarandi: <br /> <span class="blockqoude"><br /> „Mikilvægt er að veittar verði góðar og ítarlegar upplýsingar um viðskipti með raforku. Almennar opinberar upplýsingar um raforkumarkaðinn stuðla að jafnræði í viðskiptum og virkni raforkumarkaðarins. Kaupendur og seljendur raforku geta þá tekið upplýstar ákvarðanir og óskað skýringa á mismunandi verði raforku milli tengipunkta, þ.e. afhendingarstaða. Eftirlitsaðilar þurfa einnig greinargóðar upplýsingar um raforkuviðskipti. Slík upplýsingaskylda veitir aðhald og dregur úr þörf á beinu eftirliti.“ </span><br /> <br /> Með 5. gr. laga nr. 89/2004 var 9. gr. raforkulaga breytt og ákvæðið um upplýsingaskyldu fært í nýja málsgrein sem varð að 5. mgr. 9. gr. laganna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir m.a. eftirfarandi: <br /> <br /> <span class="blockqoude">„Þá er lagt til að upplýsingaskylda flutningsfyrirtækisins sé skýrð. Kveðið verði á um að flutningsfyrirtækinu sé skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Ákvæðinu er ætlað að tryggja gagnsæi og jafnan aðgang að flutningskerfinu, sem er forsenda þess að eðlileg samkeppni á raforkumarkaði komist á. Við skýringu þessa ákvæðis er rétt að hafa í huga að flutningsfyrirtækinu ber að gæta trúnaðar gagnvart viðskiptavinum sínum. Í því felst að gætt sé trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og annað sem eðlilegt er að leynt fari. Þær upplýsingar sem hægt er að krefja flutningsfyrirtækið um eru upplýsingar er varða fyrirtækið sjálft og starfrækslu þess.“ </span><br /> <br /> Ákvæði um úrskurðarnefnd raforkumála er að finna í 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í 1. mgr. segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli laganna og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna sæti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála. <br /> <br /> Í 9. gr. raforkulaga er kveðið á um helstu skyldur flutningsfyrirtækis. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skal flutningsfyrirtækið byggja flutningskerfið upp og hefur eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki. Í 1.-6. tölul. 2. mgr. 9. gr. er nánar kveðið á um hvað felist í rekstri flutningskerfisins en samkvæmt 1. tölul. felst í því m.a. að tengja alla þá sem eftir því sækjast við flutningskerfið, enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því og greiði tengigjald samkvæmt ákvæðum gjaldskrár, sbr. ákvæði 12. gr. a. Í 4. mgr. 9. gr. eru tekin dæmi í 5. töluliðum um hvað felist í kerfisstjórnun flutningsfyrirtækisins. Í 6. mgr. 9. gr. segir að flutningsfyrirtækið skuli í samráði við raforkufyrirtæki setja reglur um kerfisstjórnunina sem ráðherra staðfestir. Í reglunum skuli m.a. kveðið nánar á um þau atriði sem tilgreind séu í 1.-4. tölul. 4. mgr. <br /> <br /> Í 12. gr. a er kveðið á um heimildir Landsnets til gjaldtöku. Segir þar í 1. mgr. að flutningsfyrirtækið skuli setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 12. gr, og skuli hún gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skulu virkjanir sem tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins samkvæmt því sem nánar greinir í ákvæðinu. Samkvæmt 8. mgr. 12. gr. a, skal flutningsfyrirtækið einnig setja gjaldskrá fyrir kerfisþjónustu og töp í flutningskerfinu sem tekur mið af kostnaði ásamt hæfilegri þóknun. Samkvæmt 10. mgr. 12. gr. a. skal krefjast greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum kostnaði annarra notenda kerfisins. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins. Samkvæmt 11. mgr. skal setja nánari ákvæði um gjaldskrá í reglugerð auk þeirra atriða sem ákvæðið kveður á um. Á grundvelli reglugerðarheimildarinnar setti ráðherra reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005. <br /> <br /> Í ákvæðum 16. gr. a.-c. reglugerðar nr. 1040/2005, sbr. reglugerð nr. 841/2016, er kveðið nánar á um kerfisframlag, aðferðafræði, forsendur og viðmið við útreikning þess. Segir þar í 3. mgr. 3. gr. að nánar skuli kveðið á um skilyrði vegna útreiknings kerfisframlags, samanber 16. gr. a, 16. gr. b og 16 gr. c, í reglum (netmála) sem flutningsfyrirtækið setji og ráðherra staðfesti, sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. <br /> <br /> </p> <h3>2.</h3> <p> <br /> Í gagnabeiðni kæranda, dags. 18. desember 2012, var óskað eftir „öllum upplýsingum og forsendum (réttarheimildum, tilmælum, reglum, verklagsreglum, fyrirmælum, leiðbeiningum) um útreikning og greiðslur á kerfisframlagi nýrra viðskiptavina flutningskerfisins. Einnig var óskað eftir „upplýsingum um hvort kerfisframlags hafi verið krafist eða óskað vegna tenginga við flutningskerfið, hver staða þeirra mála er og loks samninga um kerfisframlag ef einhverjir eru“. Landsnet afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af samningi Landsnets og Landsvirkjunar, dags. 14. desember 2007, um flutning rafmagns til álvers Alcoa-Fjarðaráls, bréf Landsnets, dags. 7. febrúar 2014, um uppgjör vegna kerfisframlags og svarbréf Landsvirkjunar, dags. 10 febrúar 2014. Landsnet virðist ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á öðrum gögnum er falla undir gagnabeiðnina. <br /> <br /> Landsnet var stofnað á grundvelli laga nr. 75/2004 til að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að ganga út frá því að með lögunum séu Landsneti falin stjórnsýsluverkefni sem snúa að flutningskerfi raforku og sé félagið því stjórnvald í lagalegum skilningi hvað þessi verkefni áhrærir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 854/2014. <br /> <br /> Af ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003 og reglugerðar nr. 1040/2005, með síðari breytingum, leiðir að það er lögbundin skylda flutningsfyrirtækis að tengja nýjar virkjanir og stórnotendur við flutningskerfið og innheimta fyrir það kerfisframlag ef tengingin veldur auknum kostnaði annarra notenda kerfisins eða greiða notandanum kerfisframlag ef tengingin leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins. Ákvörðun um kerfisframlag lýtur því með beinum hætti að rekstri flutningskerfisins. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að upplýsingar um greiðslu kerfisframlags séu upplýsingar sem lúta að lögboðnum skyldum flutningsfyrirtækis við rekstur flutningskerfisins. Þá sé jafnframt um að ræða upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort Landsnet sinni þeirri skyldu að tryggja jafnræði við flutning raforku. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að líta svo á þær upplýsingar sem afhentar voru nefndinni og sem lúta að kerfisframlagi, séu upplýsingar af þeim toga sem falli undir 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þá telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að eins og upplýsingabeiðni kæranda er orðuð verði að telja að önnur gögn sem fallið geti undir beiðnina séu einnig þess eðlis að ákvæði 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 taki til þeirra. <br /> <br /> Það er enn fremur mat úrskurðarnefndarinnar að raforkulög beri að skoða í þessu samhengi sem sérlög gagnvart almennum ákvæðum upplýsingalaga og laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt almennings. Af því leiðir að ákvörðun flutningsfyrirtækis um að synja um aðgang að upplýsingum sem felldar verða undir 5. mgr. 9. gr. raforkulaga er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem lögin mæla fyrir um sérstaka kæruleið í þessum tilvikum, sbr. einnig 1. mgr. 30. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> <br /> </p> <h3>Úrskurðarorð:</h3> <p> <br /> Kæru Orku náttúrunnar, dags. 19. febrúar 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson <br /> formaður <br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir </p> <p> Friðgeir Björnsson </p>

742/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018

Starfsmaður fjölmiðils kærði ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um að synja beiðni um aðgang að styrktarsamningi hljómsveitarinnar við sjóðsstýringarfyrirtækið GAMMA. Af hálfu Sinfóníuhljómsveitarinnar kom fram að GAMMA liti á samninginn sem upplýsingar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins sem eðlilegt og sanngjarnt væri að færi leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd féllst ekki á þetta með hliðsjón af því að um ráðstöfun opinberra hagsmuna væri að ræða og lagði fyrir hljómsveitina að veita kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 742/2018 í máli ÚNU 17120004. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 21. desember 2017, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um styrktarsamning hljómsveitarinnar við sjóðsstýringarfyrirtækið GAMMA. Í kæru kemur fram að framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar hafi hafnað beiðninni á þeirri forsendu að efni samningsins sé trúnaðarmál á milli aðila. Kærandi telur hins vegar afar mikilvægt að fjárhagsleg tengsl einkaaðila við ríkisreknar stofnanir, einnig menningarstofnanir, séu uppi á borðum. Sérstakar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að leynd eigi að ríkja um þessi tengsl.<br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 21. desember 2017, var Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, dags. 3. janúar 2018, kemur í upphafi fram að styrktaraðili hljómsveitarinnar, GAMMA, hafi birt á vef sínum frétt um styrkinn sem hljómsveitin nýtur samkvæmt umbeðnum samningi. Engin leynd hafi því hvílt yfir efni samningsins hvað það varðar. Fyrirtækið hafi viljað líta svo á að með afhendingu samningsins yrði veittur aðgangur að upplýsingum um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins, sem eðlilegt og sanngjarnt sé að fari leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar sem fyrirtækið hafi ekki viljað ljá samþykki sitt fyrir afhendingu samningsins telji Sinfóníuhljómsveit Íslands sér óheimilt að afhenda hann með vísan til ákvæðisins, þar sem áskilið sé samþykki þess er eigi í hlut.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 4. janúar 2018, var kæranda kynnt umsögn kærða og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, sem bárust þann 15. janúar 2018, kemur fram að hann telji erfitt að sjá hvernig upplýsingar sem fram kunni að koma í umbeðnum samningi geti falið í sér viðkvæmar og mikilvægar fjárhags- eða viðskiptaupplýsingar um GAMMA. Framkvæmdastjóri Sinfóníunnar hafi vísað til þess að upphæðir samningsins séu opinberar, líkt og þær séu aðalatriðið og annað aukaatriði. Frekari efnisatriði samningsins kunni að vera áhugaverð í opinberri umræðu. Þá minnir kærandi á að vega þurfi hagsmuni viðkomandi einkaaðila gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Vandséð sé hvernig trúnaðarhagsmunir einkafyrirtækisins sem hér um ræði geti vegið þyngra en hagsmunir almennings af því að fá upplýsingar um viðskiptasamband þess við ríkisstofnun.<br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að upplýsingum um styrktarsamning Sinfóníuhljómsveitar Íslands og GAMMA Capital Management hf. Sinfóníuhljómsveitin hefur afmarkað beiðni kæranda við afrit af samningnum, en synjun beiðninnar byggist á því að hann hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir orðrétt:<br /> <br /> <span class="blockqoude">„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“</span><br /> <br /> Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> <span class="blockqoude">„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“</span><br /> <br /> Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:<br /> <br /> <span class="blockqoude">„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“</span><br /> <br /> Í rökstuðningi sínum fyrir hinni kærðu ákvörðun hefur Sinfónuhljómsveit Íslands fyrst og fremst vísað til þess að GAMMA Capital Management hf. hafi litið svo á að samningurinn hafi að geyma upplýsingar sem falli undir ákvæðið og hafi þar af leiðandi ekki veitt samþykki sitt fyrir afhendingu hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þessi röksemd getur ekki ein og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að gögn falli undir 9. gr. upplýsingalaga, enda er það ekki í höndum þeirra einkaaðila sem um ræðir að meta hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt. Að fenginni afstöðu fyrirtækisins bar Sinfóníuhljómsveit Íslands að framkvæma sjálfstætt mat á því hvort efni samningsins væri þess eðlis að rétt væri að undanskilja hann upplýsingarétti almennings. Við matið bar enn fremur að hafa hliðsjón af framanröktum sjónarmiðum um ráðstöfun opinberra hagsmuna. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit samningsins, sem er fjórar blaðsíður að lengd og hefur að geyma 11 tölusett samningsákvæði. Yfirskrift samningsins er: „Samstarfs- og kynningarsamningur“ og í 1. gr. segir að með honum verði GAMMA bakhjarl Sinfóníuhljómsveitar Íslands til fjögurra ára, eða út starfsárið 2019-20. Með samningnum skuldbindur fyrirtækið sig til að greiða tiltekna fjárhæð árlega sem skuli vera verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Í staðinn skulu firmamerki fyrirtækisins og auglýsingar þess birt með tilteknum hætti í kynningarefni hljómsveitarinnar, fyrirtækið fær miða á tónleika hennar og rétt til að fá hljóðfæraleikara hljómsveitarinnar til tónleikahalds. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er augljóst að samningurinn felur í sér verulega ráðstöfun opinberra hagsmuna, þar sem einkaaðila er með samningnum gert kleift að hagnýta sér ýmsa þætti í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem er ríkisstofnun og starfar á grundvelli laga, sbr. lög nr. 36/1982. <br /> <br /> Þegar einkaaðilar velja að styrkja opinbera aðila og áskilja sér með samningi endurgjald fyrir styrkinn verða þeir almennt að sæta því að upplýsingaréttur almennings taki til slíkra samningsákvæða með hliðsjón af þeim veigamiklu hagsmunum almennings að geta kynnt sér hvernig staðið er að samningsgerðinni og fá upplýsingar um endurgjaldið. Mikið þarf því til að koma svo fallist verði á að hagsmunir GAMMA af því að samningurinn fari leynt vegi þyngra en hagsmunir almennings af aðgangi að honum. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur samningurinn ekki að geyma neinar þær upplýsingar sem talist geta varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins nægjanlega til að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um synjun beiðni kæranda því felld úr gildi og lagt fyrir hljómsveitina að veita kæranda aðgang að honum í heild sinni.<br /> <br /> Úrskurðarorð:<br /> Sinfóníuhljómsveit Íslands ber að veita kæranda, A, aðgang að samstarfs- og kynningarsamningi hljómsveitarinnar og GAMMA Capital Management hf., dags. 7. september 2016.<br /> <br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> varaformaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

741/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018

Kærandi kærði afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á nokkrum fjölda beiðna um aðgang að upplýsingum. Kærurnar lutu að því að beiðnunum hefði ekki verið svarað að liðnum 9-17 dögum frá dagsetningu þeirra og leit úrskurðarnefndin svo á að um væri að ræða kærur vegna óhóflegra tafa á meðferð þeirra, sbr. 17. gr. upplýsingalaga og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af mati á efni beiðnanna og fjölda beiðna sem kærandi hefur beint til sveitarfélagsins komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri um óhóflega töf á meðferð beiðnanna að ræða. Var kærunum því vísað frá úrskurðarnefndinni í einu lagi.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 741/2018 í málum ÚNU 18030005, ÚNU 18030006, ÚNU 18030009, ÚNU 18040005, ÚNU 18040012, ÚNU 18040013, ÚNU 18040014, ÚNU 18050001, ÚNU 18050002, ÚNU 18050006, ÚNU 18050007, ÚNU 18050008, ÚNU 18050010, ÚNU 18050011, ÚNU 18050013, ÚNU 18050014 og ÚNU 18050020. <br /> <h3>Kærur, málsatvik og málsmeðferð</h3> Kærandi, A, hefur kært afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á nokkrum fjölda beiðna um aðgang að upplýsingum. Kærurnar lúta að því að beiðnunum hafi ekki verið svarað og verður að líta svo á að kærandi telji að bærinn hafi ekki fylgt sjónarmiðum um málshraða við afgreiðslu þeirra, sbr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um er að ræða eftirfarandi mál:<br /> <br /> <span></span><span></span> <table border="0" cellspacing="0" cellpadding="0" style="border: none;"> <tbody> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; border-top: none; border-right: none; border-left: none; border-bottom-style: solid; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><strong><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Málsnr. ÚNU</span></strong></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; border-top: none; border-right: none; border-left: none; border-bottom-style: solid; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><strong><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Kæruefni</span></strong></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; border-top: none; border-right: none; border-left: none; border-bottom-style: solid; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><strong><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Dagar frá dags. beiðni til kæru</span></strong></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; border: none; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18030005</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; border: none; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Tilboð í endurbætur á loftræstikerfi í Safnahúsi</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; border: none; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">9</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18030006</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Starfsmannastefna Vestmannaeyjabæjar</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">9</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18030009</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">11</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18040005</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Samkomulag um eflingu eldvarna</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">9</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18040012</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">12</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18040013</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">11</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18040014</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">12</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050001</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">10</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050002</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">10</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050006</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">10</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050007</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Fundargerð bæjarstjórnarfundar</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">11</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050008</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">11</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050010</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Samningur um rekstur Herjólfs</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">14</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050011</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">12</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050013</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Ársreikningur bæjarsjóðs</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">14</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050014</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Umsækjendur um auglýst starf</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">17</span></p> </td> </tr> <tr> <td valign="top" style="width: 104.65pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">18050020</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 262.25pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Málstefna Vestmannaeyjabæjar</span></p> </td> <td valign="top" style="width: 97.5pt; padding: 0cm 5.4pt; text-align: left;"> <p style="text-align: center;"><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">9</span></p> </td> </tr> </tbody> </table> <br /> <br /> Með erindi, dags. 16. maí 2018, var óskað eftir upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ um meðferð upplýsingabeiðna frá kæranda. Svar barst þann 17. maí 2018.<br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt það hvort meðferð Vestmannaeyjabæjar á beiðnum kæranda um aðgang að gögnum samrýmist málshraðareglu stjórnsýslu- og upplýsingaréttar. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um það hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða megi. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga leiðir að heimilt er að kæra óhæfilegan drátt á meðferð beiðni um aðgang að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæði 17. gr. í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að mikilsvert sé að beiðnir um aðgang að gögnum á grundvelli laganna verði ávallt afgreiddar fljótt og án ástæðulausra tafa. Þá er vikið að sjö daga reglu 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. og tekið fram að reynslan sýni að fleiri en ein ástæða geti valdið því að farið sé fram yfir þau tímamörk. Í fyrsta lagi kunni að vera flókið að leysa úr máli, í öðru lagi geti verið rétt að leita álits þess sem mál snertir en í þriðja lagi kunni önnur verkefni að hafa forgang þannig að úrlausn um beiðni verði að bíða.<br /> <br /> Við mat á því hvort Vestmannaeyjabær hefur afgreitt beiðnir kæranda í samræmi við málshraðareglu upplýsinga- og stjórnsýsluréttar verður að mati úrskurðarnefndarinnar í fyrsta lagi að líta til efnis beiðnanna. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera tiltölulega einfaldar og skýrt afmarkaðar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla hverrar beiðni gefi ekki tilefni til umfangsmikillar málsmeðferðar og Vestmannaeyjabæ ætti hæglega að vera unnt að afgreiða hverja þeirra innan sjö daga. Á hinn bóginn verður að hafa hliðsjón af því að kærandi hefur á sama tímabili beint miklum fjölda beiðna um aðgang að gögnum til bæjarins. Samkvæmt upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ sendi kærandi alls 70 beiðnir um aðgang að gögnum á tímabilinu sem um ræðir, eða frá 1. mars 2018 til og með 17. maí 2018. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál getur kærandi við þessar aðstæður búist við því að afgreiðslutími hverrar beiðni verði lengri en ella, ekki síst þegar tekið er tillit til annarra verkefna sem sveitarfélögum eru falin með lögum. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að sveitarfélög beri almennt ábyrgð á því að haga starfsmannahaldi sínu með þeim hætti að unnt sé að afgreiða mál sem þeim berast innan eðlilegra tímamarka verður ekki með sanngirni ætlast til þess að Vestmannaeyjabær ráði starfsfólk, eftir atvikum tímabundið, til að bregðast við slíkum fjölda erinda frá einum og sama aðilanum. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að talsverður hluti beiðnanna snúi að gögnum sem almenningi eru þegar aðgengileg á vef sveitarfélagsins. Ágreiningur aðila snýr því fremur að því hvort sveitarfélaginu kunni að vera skylt að aðstoða kæranda við að nálgast gögnin á grundvelli annarra laga, til að mynda laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, en beinlínis að rétti hans til aðgangs að þeim samkvæmt upplýsingalögum, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 674/2017. <br /> <br /> Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið tilefni til að kæra meðferð beiðnanna sem hér um ræðir til nefndarinnar að liðnum 9-17 dögum frá því að þær voru póstlagðar til sveitarfélagsins. Þar sem ekki var um óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðnanna að ræða í ljósi aðstæðna, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, verður kærum kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> Það athugast að Vestmannaeyjabær hefur ekki farið eftir þeirri reglu 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga að skýra kæranda frá ástæðum tafa á meðferð beiðnanna umfram sjö daga og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Því er beint til sveitarfélagsins að fylgja ákvæðinu við meðferð beiðna kæranda í framtíðinni. <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Kærum kæranda í málum ÚNU 18030005, ÚNU 18030006, ÚNU 18030009, ÚNU 18040005, ÚNU 18040012, ÚNU 18040013, ÚNU 18040014, ÚNU 18050001, ÚNU 18050002, ÚNU 18050006, ÚNU 18050007, ÚNU 18050008, ÚNU 18050010, ÚNU 18050011, ÚNU 18050013, ÚNU 18050014 og ÚNU 18050020 er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp;Friðgeir Björnsson

740/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018

Farið var fram á endurupptöku máls sem lyktaði með uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 740/2018 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun beiðni um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns var staðfest með vísan til þess að það væri vinnugagn skv. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í beiðni um endurupptöku var vísað til þess að í úrskurði nefndarinnar væri sérstaklega tekið fram að fyrirmælum 11. gr. laganna um aukinn aðgang hefði ekki verið fylgt við meðferð beiðninnar. Úrskurðarnefndin tók fram að þetta brot á málsmeðferðarreglu 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga hefði ekki verið talið fela í sér nægjanlega verulegan annmarka til að réttlæta ógildingu ákvörðunar borgarinnar. Beiðni um endurupptöku málsins var því hafnað.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 740/2018 í máli ÚNU 18040004. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 10. apríl 2018, fór A þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál endurskoðaði úrskurð sinn nr. 734/2018 í máli ÚNU 17080002 sem kveðinn var upp þann 6. apríl 2018. Verður beiðni kæranda skilin á þann veg að hann óski endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.<br /> <br /> Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar var fjallað um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja kæranda um aðgang að minnisblaði frá borgarlögmanni um tiltekna fasteign. Komist var að þeirri niðurstöðu að borginni hafi verið heimilt að synja beiðninni með vísan til þess að minnisblaðið væri vinnugagn skv. 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga nr. 140/2012.<br /> <br /> Í beiðni kæranda er vikið að niðurlagi úrskurðarins þar sem því var beint til Reykjavíkurborgar að gæta að því að taka afstöðu til réttar beiðanda til aukins aðgangs í framtíðinni, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Kærandi segir þetta ekki verða skilið öðruvísi en að úrskurðarnefndin hafi metið það svo að Reykjavíkurborg hafi brotið upplýsingalög með ákvörðun sinni. Þrátt fyrir að lög hafi verið brotin við töku ákvörðunarinnar sé hún engu að síður staðfest í úrskurðarorði. <br /> <h3>Niðurstaða<br /> 1.</h3> Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo: <br /> <br /> „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: <br /> <br /> 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br /> 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“<br /> <h3>2.</h3> Í 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga er að finna þá málsmeðferðarreglu að taka skuli sérstaka og rökstudda afstöðu til réttar beiðanda til aukins aðgangs að umbeðnum gögnum. Eins og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 734/2018 liggur fyrir að Reykjavíkurborg fór ekki eftir þessari reglu við töku ákvörðunar um beiðni kæranda um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns. Beiðni kæranda er reist á því að þessi annmarki á hinni kærðu ákvörðun eigi að leiða til þess að hún teljist ógildanleg.<br /> <br /> Í stjórnsýslurétti er almennt gengið út frá því að það sé ekki sjálfgefið að ákvörðun teljist ógild enda þó málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar. Til þess að svo sé verður brotið að fela í sér annmarka á meðferð málsins og annmarkinn verður enn fremur að teljast verulegur. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í framkvæmd litið svo á að sá annmarki, að taka ekki sérstaka, rökstudda afstöðu til réttar beiðanda til aukins aðgangs, feli ekki í sér verulegan annmarka í þessum skilningi. Úrskurðarnefndin telur almennt fært að líta svo á að þegar ekki er vikið sérstaklega að auknum aðgangi í ákvörðun felist í því að kærði hafi ákveðið að veita beiðanda ekki slíkan aðgang. Með þessu er ekki dregið úr mikilvægi þess að fylgja ákvæðinu við meðferð beiðna um aðgang að upplýsingum, enda var skyldan sérstaklega áréttuð í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Eins og atvikum málsins er háttað telur nefndin hins vegar ekki hafa verið til staðar ástæður til frekari aðgerða af hálfu nefndarinnar en þeirrar að finna að málsmeðferð Reykjavíkurborgar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekki séu skilyrði til endurupptöku máls sem lauk með úrskurði nr. 734/2018, sem kveðinn var upp þann 6. apríl 2018. Jafnframt er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að afturkalla úrskurðinn að frumkvæði nefndarinnar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Beiðni A um endurupptöku máls sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 734/2018 í máli nr. ÚNU 17080002 frá 6. apríl 2018 er hafnað.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; Friðgeir Björnsson

739/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018

Samtök umgengnisforeldra kærðu meðferð Þjóðskrár Íslands á beiðni þeirra um aðgang að nöfnum og kennitölum umgengnisforeldra á Íslandi. Af hálfu Þjóðskrár kom m.a. fram að stofnunin hefði ekki tekið upplýsingarnar saman og ef til þess kæmi þyrfti að framkvæma vinnslur þar sem keyrðar væru saman fleiri en ein skrá og margar samkeyrslur þar innan. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagði til grundvallar að Þjóðskrá hefði ekki í vörslum sínum skrá yfir umbeðnar upplýsingar, þó ljóst væri að stofnuninni væri með ýmsum aðgerðum kleift að sækja yfirlit úr skrám sínum um umgengnisforeldra. Fallist var á með Þjóðskrá að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og kæru kæranda vísað frá.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 739/2018 í máli ÚNU 17090009. <br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 27. september 2017, framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru A, f.h. samtaka umgengnisforeldra, á ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 12. september 2017 um að synja beiðni um aðgang að nöfnum og kennitölum umgengnisforeldra á Íslandi.<br /> <br /> Í kæru, dags. 13. september 2017, kemur fram að frá því að samtök umgengnisforeldra (áður samtök meðlagsgreiðenda) voru stofnuð hafi það verið baráttumál þeirra að fá umgengnisforeldra skráða í Þjóðskrá Íslands með þeim hætti að þeir verði rannsóknarhæfur þjóðfélagshópur. Í kjölfar fundar kæranda með Þjóðskrá og frekari samskipta, sem eru ítarlega rakin í kærunni, fór kærandi þess á leit með tölvupósti, dags. 30. ágúst 2017, að fá aðgang að upplýsingum um umgengisforeldra, þ.e. kennitölur þeirra. Í svari starfsmanns Þjóðskrár, dags. 1. september 2017, kemur m.a. fram að stjórnsýslusviði stofnunarinnar hafi verið falið að taka afstöðu til beiðninnar.<br /> <br /> Í hinni kærðu ákvörðun, sem var tilkynnt kæranda með tölvupósti, dags. 12. september 2017, kemur fram að venslaskrá innihaldi upplýsingar um einstaklinga sem skráðir eru í þjóðskrá og foreldra þeirra samkvæmt gögnum sem Þjóðskrá berist á grundvelli laga. Í tilviki barna séu jafnframt skráð vensl við forsjármenn og í tilviki sameiginlegrar forsjár séu skráð vensl við lögheimilisforeldri auk þess sem börn séu vensluð við fósturforeldra. Þjóðskrá berist hins vegar ekki upplýsingar um umgengnisrétt foreldra. Í tilkynningu nr. S7873 til Persónuverndar um vinnslu persónuupplýsinga hafi sérstaklega verið tilgreint að upplýsingum úr skránni yrði ekki miðlað nema fyrir liggi útgefnar reglur eða reglugerð um miðlun þeirra. Þá segir að úrtakið sem óskað sé eftir innihaldi sömu upplýsingar og komi fram á fæðingarvottorðum. Beiðninni sé hafnað þar sem Þjóðskrá telji sig ekki hafa heimild til að afhenda eins víðtækar og viðkvæmar upplýsingar og óskað sé eftir. Loks kemur fram leiðbeining um kæruheimild til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins innan þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.<br /> <br /> Í kæru til ráðuneytisins er vikið að hugtakinu umgengnisforeldri og því haldið fram að Þjóðskrá leggi rangan skilning í hugtakið. Þá hafi stofnunin virt að vettugi rannsóknarskyldu sína, leiðbeiningarskyldu og samræmingarreglu jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, þar sem upplýsingar um einstæða foreldra séu aðgengilegar stofnunum, einkaaðilum, fræðimönnum og hagsmunaaðilum. Einnig gæti misræmis í ákvörðuninni í ljósi þess að kærandi hafi áður keypt nöfn og kennitölur einstæðra karlmanna á tilteknum aldri á tilteknu búsetusvæði. Farið er fram á að ráðherra ógildi ákvörðunina og vísi henni til nýrrar meðferðar eða breyti henni efnislega þannig að Þjóðskrá verði gert skylt að afhenda kæranda umbeðnar upplýsingar.<br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið tilkynnti kæranda um framsendingu kærunnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 27. september 2017. Þar segir m.a. að ráðuneytið líti svo á að erindi kæranda til Þjóðskrár feli í sér beiðni um afhendingu gagna. Um efnið fari eftir upplýsingalögum og í því ljósi telji ráðuneytið rétt að framsenda erindi kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 3. október 2017, var Þjóðskrá Íslands tilkynnt að úrskurðarnefndin hefði tekið kæruna til meðferðar. Veittur var frestur til að koma á framfæri umsögn um hana og jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Þjóðskrár, dags. 2. nóvember 2017, segir að eitt af meginhlutverkum Þjóðskrár Íslands sé að annast almannaskráningu, útgáfu vottorða og skilríkja, sbr. 1. gr. laga nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna veiti Þjóðskrá upplýsingar um aðsetur manna og önnur atriði samkvæmt skrám sínum og gögnum eftir reglum sem ráðherra setur. Þjóðskráin sjálf, þ.e. almannaskráning, byggi á upplýsingum sem stofnuninni berist úr ýmsum áttum, bæði frá einstaklingum og opinberum aðilum. Á 143. löggjafarþingi 2013-2014 hafi Alþingi samþykkt þingsályktun um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra. Hugtakið sé hins vegar hvorki skilgreint í þingsályktuninni né í lögum. Það sé ekki hlutverk Þjóðskrár Íslands að móttaka eða skrá umgengnissamninga sem foreldrar barns hafa gert. Þjóðskrá hafi ekki undir höndum upplýsingar um hvort foreldrar hafi gert með sér samning um umgengni. <br /> <br /> Í umsögninni er rakið að Þjóðskrá hafi byrjað að skrá tengsl barna og foreldra í lok árs 2015 og birting upplýsinga úr skránni hafi hafist í apríl 2016 á Mínum síðum á Ísland.is. Í júní sama ár hafi Þjóðskrá sent tilkynningu um vinnslu persónuupplýsinga til Persónuverndar þar sem tilkynnt hafi verið um skráningu vensla, venslaskrá, sem innihaldi upplýsingar um einstaklinga sem skráðir eru í þjóðskrá og hverjir séu foreldrar þeirra samkvæmt lögum. Í tilkynningunni komi fram að upplýsingunum verði ekki miðlað áfram nema fyrir liggi útgefnar reglur eða reglugerð um miðlunina. Þá er vikið að hugtakinu „persónuupplýsingar“ í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 77/2000 og færð rök fyrir því að miðlun upplýsinga um vensl foreldra og barna falli undir gildissvið laganna. <br /> <br /> Þjóðskrá víkur næst að ákvæðum upplýsingalaga og bendir á að stjórnvöldum sé hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli laganna. Stofnunin haldi ekki sérstaka skrá yfir umgengnisforeldra. Þrátt fyrir að Þjóðskrá skrái ýmsar upplýsingar um vensl á milli foreldra og barna þeirra verði þeim upplýsingum ekki miðlað til þriðja aðila að óbreyttu. Til þess að svo geti orðið þurfi að koma til lagaheimildir og reglur um miðlun upplýsinganna. Þá hljóti upplýsingar um tengsl á milli barna og foreldra, þ.e. hvaða börn tiltekinn einstaklingur eigi, hljóti að teljast einkahagsmunir þess sem á í hlut. <br /> <br /> Í umsögn Þjóðskrár segir því næst að ef til þess kæmi að stofnunin tæki saman upplýsingar um umgengnisforeldra samkvæmt beiðni kæranda þyrfti að framkvæma flóknar vinnslur þar sem keyra þyrfti saman fleiri en eina skrá og margar samkeyrslur þar innan. Í fyrsta lagi þyrfti að keyra út sérstaka töflu yfir þá einstaklinga sem eiga börn. Í öðru lagi þyrfti að samkeyra þann lista við lögheimilishúsakóða foreldris og því næst við lögheimilishúsakóða hvers barns fyrir sig. Í þessari keyrslu gætu einnig verið ýmsar breytur sem gætu haft áhrif á niðurstöðuna, svo sem þegar börn séu í fóstri, hafi lögheimili hjá öðrum vandamönnum, o.s.frv. <br /> <br /> Umsögn Þjóðskrár Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Þær bárust með tölvupósti sama dag. Þar kemur fram að kærandi vilji árétta að hugtakið umgengnisforeldri sé lagalegt hugtak sem sé skýrlega útskýrt í barnalögum. Það sé ekki hlutverk beiðanda um upplýsingar að útskýra fyrir stjórnvaldi hvað felist í lagalegum hugtökum. Þá tekur kærandi fram að umgengnissamningar séu ekki skilyrði fyrir réttarstöðu umgengnisforeldra. Aðeins brot umgengnisforeldra hafi slíka samninga. Þá kveðst kærandi hafa keypt úrtak nafna og kennitalna einstæðra karlmanna, auk þess sem félagasamtökum sé heimilt að sækja upplýsingar um lögheimilisforeldra, ekki síst einstæða. Jafnræðisregla stjórnsýslulaga kveði á um að meðhöndla eigi sambærileg mál með sambærilegum hætti. Það sé því brot á jafnræðisreglu að heimila aðgang einkaaðila að upplýsingum um lögheimilisforeldra en hafna beiðnum um aðgang að upplýsingum um umgengnisforeldra. Þetta brjóti jafnframt gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. <br /> <br /> Kærandi tekur fram að beiðnin hafi einungis náð til þeirra upplýsinga sem séu til reiðu hjá Þjóðskrá. Stofnunin hafi lofað kæranda að upplýsingarnar verði allar aðgengilegar innan skamms og að vinnunni sé að mestu lokið. Loks kveður kærandi upplýsingar um kennitölur og nöfn umgengnisforeldra vera forsendur þess að hægt verði að gera tölfræðikannanir á þjóðfélagshópnum, sem búi við sérstök kjör og sérstaka réttarstöðu, sem sífellt meiri samstaða sé um að sé ranglát. Mikilvægt sé t.d. að gera kannanir á fjölda umgengnisforeldra sem hafa sætt umgengnistálmunum til að vita umfang vandans. Þá hafi löggjafinn samþykkt íþyngjandi lög um umgengnisforeldra hvað varðar meðlagsgreiðslur, stöðu gagnvart velferðarkerfinu og rétt til umgengni, án þess að hafa haldgóðar rannsóknir til að byggja samningu laganna á.<br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands um nöfn og kennitölur umgengnisforeldra. Kærandi er félagasamtök sem hafa það að markmiði að standa vörð um réttindi umgengnisforeldra og barna þeirra. Af hálfu Þjóðskrár hefur meðal annars komið fram að stofnunin haldi ekki sérstaka skrá yfir umgengnisforeldra og að hugtakið sé ekki skilgreint með fastákveðnum hætti í lögum. Ef taka ætti saman upplýsingar um umgengnisforeldra eins og kærandi hefur skilgreint hugtakið í beiðni sinni þurfi að framkvæma samkeyrslu nokkurra skráa.<br /> <br /> Þessar röksemdir Þjóðskrá lúta að því að umbeðnar upplýsingar séu ekki „fyrirliggjandi“ í skilningi 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Af þessari afmörkun á upplýsingarétti almennings leiðir að almenningur á rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda. Í athugasemdum við fyrrnefnda ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. <br /> <br /> Af gögnum málsins telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ljóst að Þjóðskrá Íslands hafi ekki í vörslum sínum skrá yfir umgengnisforeldra, eins og kærandi hefur sjálfur afmarkað hugtakið í samskiptum sínum við stofnunina. Fullyrðingar kæranda um hið gagnstæða eiga ekki stoð í öðrum gögnum málsins en kæru og athugasemdum hans við umsögn Þjóðskrár. Í samskiptum kæranda og starfsmanna Þjóðskrár kemur hins vegar að mati úrskurðarnefndarinnar skýrt fram að litið hafi verið svo á að um einhvers konar sérvinnslu á gögnum úr þjóðskrá yrði að ræða, sbr. til hliðsjónar V. kafla gjaldskrár Þjóðskrár Íslands nr. 120/2016.<br /> <br /> Hins vegar er að mati úrskurðarnefndarinnar ljóst að Þjóðskrá Íslands sé með ýmsum aðgerðum kleift að sækja yfirlit úr skrám sínum um þá sem eru í þeirri stöðu sem beiðni kæranda tekur til. Aðgerðirnar þyrfti jafnframt að yfirfara með hliðsjón af því hvort raunverulega sé um umgengnisforeldra að ræða í hverju tilviki, en ekki dugir í þessu skyni að vinna yfirlit um einstaklinga sem eiga börn sem ekki eiga lögheimili hjá þeim, þar sem hugsanlegt er að um fóstur sé að ræða eða aðrar sambærilegar aðstæður. Í ljósi framangreinds verður að fallast á það með Þjóðskrá Íslands að til að bregðast við beiðni kæranda þyrfti stofnunin að ráðast í umtalsverða vinnu sem er að umfangi verulega umfram þá aðgerð að veita honum aðgang að fyrirliggjandi gögnum í skilningi upplýsingalaga. Í þessu samhengi geta tilvísanir kæranda til þess að hann og aðrir hafi nálgast upplýsingar um aðra samfélagshópa úr vörslum Þjóðskrár engu breytt, enda er í þeim tilvikum annað hvort um að ræða upplýsingar sem eru sannarlega fyrirliggjandi eða fengnar með sérvinnslum úr Þjóðskrá. Það fellur hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál að úrskurða um það hvort Þjóðskrá sé heimilt eða skylt að vinna slíkar sérvinnslur á grundvelli laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá Þjóðskrá Íslands í skilningi upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Því liggur ekki fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr 20. gr. upplýsingalaga og verður því ekki hjá því komist að vísa kæru frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Að fenginni þessari niðurstöðu er að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál óþarft að taka afstöðu til annarra málsástæðna aðila, þar á meðal hvort umbeðnar upplýsingar falli að hluta eða öllu leyti undir takmörkun 9. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings. Í tilefni af þeim röksemdum Þjóðskrár að upplýsingarnar falli undir gildissvið laga um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga nr. 77/2000, og að upplýsingunum verði því ekki miðlað til þriðja aðila nema til komi lagaheimildir eða aðrar reglur um miðlunina, tekur úrskurðarnefndin þó fram að lögin takmarka ekki rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000. Upplýsingalög fela því í sér lagaheimild til miðlun persónuupplýsinga að nánari skilyrðum uppfylltum. Í ljósi niðurstöðu málsins að öðru leyti telur nefndin hins vegar ekki tilefni til að ógilda hina kærðu ákvörðun af þessari ástæðu.<br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Kæru A, f.h. samtaka umgengnisforeldra, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; Friðgeir Björnsson<br /> <br /> <br /> <br />

738/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018

Kærð var ákvörðun Landspítala um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um lækna sem framkvæmdu ákveðnar aðgerðir á sjúkrahúsinu. Landspítali vísaði til þess að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, þrátt fyrir að þær væru til staðar í ýmsum skjölum og gögnum í vörslum spítalans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á þetta og vísaði beiðni kæranda til nýrrar meðferðar hjá Landspítala.

<h2>Úrskurður</h2> Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 738/2018 í máli ÚNU 17070004.<br /> <h3>Kæra og málsatvik</h3> Með erindi, dags. 19. júlí 2017, kærði A synjun Landspítala á beiðni um aðgang að upplýsingum um lækna sem framkvæmt hefðu ákveðnar aðgerðir á sjúkrahúsinu. Í kæru kemur fram að kærandi hafi óskað eftir því með bréfi, dags. 24. maí 2017, að Landspítalinn veitti upplýsingar um skurðaðgerðir vegna offitu á árunum 2006-2016. Meðal annars hafi verið beðið um upplýsingar um lækna sem framkvæmdu aðgerðirnar og hvort þeir væru fast- eða lausráðnir. Kærandi kærði töf á afgreiðslu beiðnanna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem hann taldi óhóflega, en í kjölfarið fékk hann aðgang að hluta umbeðinna gagna. Þó hafi hann ekki fengið afhentar upplýsingar um læknana með vísan til 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þann 14. júlí 2017 ítrekaði kærandi beiðni um upplýsingar um nöfn læknanna og hvort þeir hefðu verið fastráðnir. Í beiðninni kemur fram að það sé Landspítala gagnlaust að bera fyrir sig 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem kærandi beiðist ekki aðgangs að upplýsingum sem taldar eru upp í ákvæðinu. Upplýsingar um nöfn lækna sem hafa framkvæmt aðgerðir geti ekki fallið undir starfssamband. Því til stuðnings vísar kærandi til athugasemda um 7. gr. upplýsingalaga í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga. Kærandi fer því fram á að Landspítali veiti honum aðgang að upplýsingum um nöfn og starfssvið lækna sem komu að magahjáveitu- og magaermisaðgerðum á árunum 2006-2016 og föst launakjör þeirra, sundurliðuð fyrir sama tímabil, með vísan til 2. og 3. tl. 2. mgr. 7. gr., sbr. 5. mgr. sömu greinar. Í kæru kemur fram að beiðninni hafi verið synjað þann 18. júlí 2017 en ódagsettur tölvupóstur með ákvörðun Landspítala fylgir kæru. <br /> <h3>Málsmeðferð</h3> Með bréfi, dags. 21. júlí 2017, var kæran kynnt Landspítala og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn spítalans, dags. 14. ágúst 2017, kemur fram að þann 24. maí 2017 hafi kærandi óskað eftir upplýsingum í fjórum liðum um tilteknar aðgerðir á tilteknu tímabili. Í svari Landspítala, dags. 14. júlí 2017, hafi kæranda verið bent á að þó svo að þessar upplýsingar væru til staðar í skrám og skjölum spítalans, þá væri ekki um að ræða fyrirliggjandi gögn í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012 og að til þess að svara erindinu væri nauðsynlegt að útbúa ný skjöl, umfram þá skyldu sem leiddi af 3. mgr. 5. gr. laganna. Því hvíldi ekki skylda á Landspítala að veita upplýsingarnar. Til þess að sýna góðan vilja hafi erindinu engu að síður verið svarað að hluta en veittar hafi verið upplýsingar um þrjá af fjórum liðum fyrirspurnar kæranda. Því hafi hins vegar verið hafnað að veita upplýsingar um lækna sem framkvæmdu aðgerðirnar og hvernig starfssambandi þeirra hafi verið háttað á tímabilinu. Landspítali hafi litið svo á að fyrirspurn kæranda varðaði starfssamband viðkomandi lækna við spítalann og skiptingu verkefna á milli starfsmanna. Því séu upplýsingarnar undanþegnar upplýsingaskyldu.<br /> <br /> Í umsögninni er tekið fram að í erindi kæranda, dags. 14. júlí 2017, hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um nöfn læknanna og föst launakjör þeirra. Landspítali hafi litið svo á að um sömu fyrirspurn væri að ræða og áður hafi verið hafnað með tilliti til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 140/2012 og að sú viðbót að óska jafnframt eftir upplýsingum um föst launakjör viðkomandi lækna gæti engu breytt um fyrri afstöðu spítalans. Varðandi upphaflega beiðni kæranda ítrekar Landspítali að kærandi hafi ekki átt rétt á upplýsingunum sem hann óskaði eftir en þær hafi ekki verið fyrirliggjandi. Þó svo að upplýsingarnar hafi verið til staðar í ýmsum skjölum og gögnum hafi þær ekki legið fyrir á því formi sem kærandi óskaði eftir. Til þess að svara fyrirspurninni hefði því verið nauðsynlegt að útbúa nýtt skjal þar sem upplýsingarnar væru dregnar saman. Vísað er til úrskurðar nefndarinnar nr. 459/2012 þar sem ríkisstofnun hafi verið talið óskylt að vinna upplýsingar úr bókhaldi sínu til að svara fyrirspurn. Þrátt fyrir þessa stöðu hafi Landspítali ákveðið að taka saman hluta af upplýsingunum sem farið var fram á. Spítalinn hafi hins vegar verið í fullum rétti til að taka ekki saman upplýsingar um nöfn lækna sem komu að aðgerðunum og að fjalla ekki á annan hátt um starfssamband þeirra við spítalann. Til frekari áréttingar á því hvers vegna þær upplýsingar voru ekki veittar hafi kæranda verið bent á að samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga taki réttur almennings til upplýsinga um starfsmenn opinberra aðila ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.<br /> <br /> Umsögn Landspítala var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. ágúst 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 21. ágúst 2017, kemur m.a. fram að ljóst sé að upplýsingarnar hafi verið fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Þá ítrekar kærandi sjónarmið sín um að hann eigi rétt til gagnanna á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 19. febrúar 2018, fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við Landspítala að nefndinni yrðu afhent afrit umbeðinna gagna. Í bréfi spítalans til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. febrúar 2018, kemur m.a. fram að til að svara erindi kæranda væri nauðsynlegt að taka upplýsingarnar sérstaklega saman og að ekki væru forsendur til að vinna þær upplýsingar í tengslum við kæruna. Væri því ekki unnt að verða við erindi úrskurðarnefndarinnar. <br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. <br /> <h3>Niðurstaða</h3> Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að upplýsingum um nöfn og starfssvið lækna sem komu að magahjáveitu- og magaermisaðgerðum á Landspítala á árunum 2006-2016 og föst launakjör þeirra, sundurliðuð fyrir sama tímabil. Í umsögn spítalans, dags. 14. ágúst 2017, kemur fram að upplýsingarnar sem kærandi óskar eftir séu ekki fyrirliggjandi og til þess að svara erindinu þurfi að taka saman upplýsingar sem sé að finna í ýmsum skjölum. Þessi afstaða er ítrekuð í svarbréfi spítalans til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 28. febrúar 2017. <br /> <br /> Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að skylt sé ef þess er óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna en það á við þegar gögn eru afhent að hluta ef takmarkanir eiga við um aðra hluta þeirra. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga. <br /> <br /> Eins og hér háttar til hefur komið fram af hálfu Landspítala að upplýsingarnar sem kærandi beiddist aðgangs að séu til staðar í ýmsum skjölum og gögnum í vörslum spítalans. Hins vegar séu þær ekki til staðar „á því formi“ sem kærandi óskar eftir. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekki ljóst hvað átt er við með þessari fullyrðingu, en í beiðni kæranda var ekki vísað til þess að hann óskaði aðgangs að upplýsingunum á neinu sérstöku formi. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að þegar stjórnvöldum berst beiðni um aðgang að upplýsingum ber þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Þessum fyrirmælum hefur Landspítali ekki fylgt við afgreiðslu á beiðni kæranda, heldur gefið sér þær forsendur að kærandi óski þess að unnið verði með gögnin sem innihalda umbeðnar upplýsingar með einhverjum hætti áður en aðgangur að þeim yrði veittur. Þess í stað bar spítalanum að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að öllum gögnum sem innihalda þær upplýsingar sem beiðni hans nær til og eftir atvikum til aðgangs að hluta gagnanna. Í þessu felst að kanna þau skjöl og gögn sem spítalinn kveður innihalda upplýsingar um nöfn og starfssvið lækna sem komu að magahjáveitu- og magaermisaðgerðum á Landspítala á árunum 2006-2016 og föst launakjör þeirra, sundurliðuð fyrir sama tímabil, og taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.<br /> <br /> Í þessu sambandi skal þess getið að úrskurður úrskurðarnefndarinnar nr. A-459/2012, sem Landspítali vísaði til í umsögn sinni um kæruna, hefur ekki fordæmisgildi hvað þetta varðar þar sem hann féll í tíð eldri upplýsingalaga nr. 50/1996. Samkvæmt þeim lögum náði upplýsingaréttur almennings einungis til fyrirliggjandi gagna sem vörðuðu „tiltekið mál“. Þannig var ekki hægt að biðja um aðgang að öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili og réði það úrslitum í málinu. Samkvæmt gildandi upplýsingalögum gildir engin slík takmörkun og er nú nægjanlegt að upplýsingarnar liggi fyrir í gögnum í vörslum aðila sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga til að þær teljist fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. laganna.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist málsmeðferð Landspítala við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæðum 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Landspítala að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar. <br /> <br /> Í tilefni af þeim röksemdum Landspítala sem lúta að því að upplýsingaréttur almennings nái ekki til upplýsinga um málefni starfsmanna í skilningi 7. gr. upplýsingalaga er athygli spítalans vakin á því að orðalagið „starfssambandið að öðru leyti“ í 1. mgr. ákvæðisins er skýrt nánar í athugasemdum við ákvæðið. Þannig er ekki um það að ræða að allar upplýsingar sem lúta að starfsmönnum séu sjálfkrafa undanskildar upplýsingarétti almennings, heldur kemur fram í athugasemdunum að með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti sé átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að fullyrða um það hvort umbeðin gögn uppfylla þennan áskilnað þar sem Landspítali hefur ekki orðið við beiðni nefndarinnar um afrit af umbeðnum gögnum, andstætt fyrirmælum 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Í ljósi niðurstöðu málsins að öðru leyti þótti hins vegar ekki ástæða til að ítreka beiðnina frekar en gert var.<br /> <br /> Meðferð máls þessa hefur tafist vegna anna í störfum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin biðst velvirðingar á þeirri töf og beinir því til Landspítala að nýrri meðferð málsins, þar sem tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða, verði hraðað eins og kostur er.<br /> <br /> <h3>Úrskurðarorð:</h3> Ákvörðun Landspítala um að synja A um aðgang að upplýsingum um nöfn og starfssvið lækna sem komu að magahjáveitu- og magaermisaðgerðum á Landspítala á árunum 2006-2016 og föst launakjör þeirra, sundurliðuð fyrir sama tímabil, er felld úr gildi og lagt fyrir Landspítala að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigurveig Jónsdóttir&nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp; &nbsp;Friðgeir Björnsson

737/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Ríkisútvarpið kærði ákvörðun Samgöngustofu um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um hergagnaflutninga á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að umbeðnar upplýsingar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum um Samgöngustofu og staðfesti hina kærðu ákvörðun.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 737/2018 í máli ÚNU 17110001.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 1. nóvember 2017, kærði fréttastofa Ríkisútvarpsins ohf. ákvörðun Samgöngustofu um að synja beiðni félagsins um aðgang að upplýsingum um hergagnaflutninga á tímabilinu frá árinu 2011. Í beiðni kæranda, dags. 22. september 2017, var óskað eftir yfirlitum yfir flugferðir þar sem sótt var um heimild fyrir slíka flutninga, upplýsingum um flugfélögin sem um ræðir og upphafs- og áfangastað flugferðanna og dagsetningar þeirra. Eftir nokkur samskipti kæranda og Samgöngustofu var tekin ákvörðun, dags. 16. október 2017, um synjun beiðninnar.</p><p>Í hinni kærðu ákvörðun segir að Samgöngustofa hafi veitt þær upplýsingar að frá miðju ári 2013 hafi Air Atlanta verið veittar heimildir til flutnings hergagna í nokkur skipti. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem á í hlut. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá er vísað til 8. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012, en í 2. mgr. ákvæðisins segir að með gögn og aðrar upplýsingar sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum skuli fara sem trúnaðarmál. Sama gildi um gögn sem rekstrarleyfishafar afhenda stofnuninni og varða rekstrarleyfi þeirra. Þá segir í 19. gr. laganna að starfsmenn Samgöngustofu séu bundnir þagnarskyldu.</p><p>Samgöngustofa óskaði afstöðu Air Atlanta til veitingar upplýsinga um upphafs- og áfangastað hverrar ferðar. Félagið lagðist gegn því að þær yrðu veittar þar sem um væri að ræða mikilvæga viðskiptahagsmuni félagsins. Upplýsingarnar geti verið hernaðarlega mikilvægar fyrir viðskiptavini félagsins, eiganda farms eða móttakanda hans. Afhending upplýsinga vegna lagaskyldu megi ekki verða til þess að þær rati til almennings.</p><p>Í kæru kemur fram að kærandi sé fjölmiðill og starfi á grundvelli laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og sérlaga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Við úrlausn málsins þurfi að gæta að markmiðum upplýsingalaga og hlutverki fjölmiðla í því samhengi.</p><p>Af hálfu kæranda kemur fram að ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 sé almennt þagnarskylduákvæði og takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Um þetta er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 626/2016. Því verði að meta hvort umbeðin gögn hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Ekki verði séð að umbeðnar upplýsingar uppfylli áskilnað ákvæðisins, enda hafi kærandi eingöngu óskað upplýsinga um hvaða flugfélög væri að ræða, hvaða flugferðir, dagsetningar þeirra og upphafs- og áfangastaði.</p><p>Um 2. mgr. 8. gr. laga nr. 119/2012 segir kærandi að einnig sé um að ræða almennt ákvæði um þagnarskyldu þar sem ákvæðið tilgreini ekki með nákvæmum hætti þær upplýsingar sem gæta beri trúnaðar um. Ef komist verði að þeirri niðurstöðu að um sérstakt þagnarskylduákvæði sé að ræða verði það ekki skýrt öðruvísi en í fyrirliggjandi samhengi, en í lögskýringargögnum komi fram að ákvæðið sé sambærilegt eldra ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands. Ekki verði séð að ákvæðið hafi aðra og sérstaka merkingu umfram þá reglu sem nú gefi að líta í 19. gr. laga nr. 119/2012. Önnur niðurstaða gæti falið í sér að 19. gr. laga nr. 119/2012 væri orðin tóm, þar sem allar upplýsingar væru undanþegnar aðgangi á grundvelli 2. mgr. 8. gr., sbr. orðalagið: „sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum“.</p><p>Til vara er þess krafist að kæranda verði veittur aðgangur að hluta umbeðinna gagna þannig að afmáður verði sá hluti sem heimilt telst að takmarka aðgang að, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, var Samgöngustofu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.</p><p>Í umsögn Samgöngustofu, dags. 1. desember 2017, er aðallega vísað til rökstuðnings sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun. Bent er á að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um það hvaða flugrekendur hefðu sótt um og fengið heimildir til hergagnaflutninga á því tímabili sem beiðni kæranda tekur til. Ákvörðunin hafi því varðað yfirlit um flugferðir, upphafs- og áfangastað þeirra auk dagsetninga.</p><p>Í umsögninni eru að öðru leyti endurtekin þau sjónarmið sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun en til viðbótar kemur fram það mat Samgöngustofu að 2. mgr. 8. gr. laga nr. 119/2012 feli í sér sérstakt þagnarskylduákvæði er lúti að verkefnum stofnunarinnar tengdum loftferðum.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda, sem er fjölmiðill, að upplýsingum í vörslum Samgöngustofu um hergagnaflutninga frá árinu 2011, nánar tiltekið um:</p><p><ol><li>Yfirlit um flugferðir þar sem heimild var veitt til hergagnaflutninga<br></li><li>Flugfélögin sem um ræðir<br></li><li>Upphafs- og áfangastaður flugferða<br></li><li>Dagsetningar flugferða<br></li></ol></p><p>Samgöngustofa hefur afmarkað beiðnina við bréf frá flugfélögum á tímabilinu þar sem óskað er heimildar fyrir hergagnaflutningum. Þar er ekki að finna upplýsingar um það hvort eða hvenær hver beiðni var samþykkt af hálfu Samgöngustofu. </p><p>Af hálfu Samgöngustofu hefur komið fram að kærandi hafi þegar fengið upplýsingar um það hvaða flugfélag um ræðir, þ.e. Air Atlanta. Af þessu tilefni er athygli stofnunarinnar vakin á því að fleiri flugfélög koma fyrir í þeim gögnum sem úrskurðarnefndin fékk afhent á grundvelli 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.</p><p>Ákvörðun Samgöngustofu um synjun beiðni kæranda byggist á því að stofnuninni sé óheimilt að veita aðgang að umbeðnum gögnum annars vegar á grundvelli 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 en hins vegar með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir orðrétt:</p><blockquote><p>Með gögn og aðrar upplýsingar, sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál. Það sama gildir um gögn sem rekstrarleyfishafar afhenda stofnuninni og varða rekstrarleyfi þeirra.</p></blockquote><p>Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 segir:</p><blockquote><p>Starfsmenn Samgöngustofu&nbsp;eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um rekstur eða viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga þegar þeir starfa á vegum Samgöngustofu].&nbsp;Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.</p></blockquote><p>Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 626/2016 var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið feli í sér sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðar viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila. Að því leyti sem ákvæðið tilgreinir ekki með nákvæmum hætti þær upplýsingar sem beri að gæta trúnaðar um felur það hins vegar í sér almenna reglu um þagnarskyldu sem takmarkar ekki rétt til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum eins og fram kemur í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Í þeim tilvikum verður þó að hafa hliðsjón af 2. málsl. 9. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sambærileg sjónarmið gilda um beitingu 2. mgr. 8. gr. laganna, sem felur að mati úrskurðarnefndarinnar í sér sérstakt þagnarskylduákvæði um gögn sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi, sbr. 1. mgr. ákvæðisins.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að, sem eru eins og áður segir bréf frá flugrekendum þar sem óskað er heimildar Samgöngustofu fyrir hergagnaflutningum. Í hverri beiðni er að finna upplýsingar um gerð loftfars, flugdag, brottfarar- og áfangastað, brottfarar- og lendingartíma og einkennisstafi viðkomandi flugvalla. Þá er jafnan að finna upplýsingar um fyrirhugaðan farm og bæði sendanda hans og viðtakanda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leikur enginn vafi á því að um er að ræða upplýsingar sem falla undir þagnarskylduákvæði 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 og lúta bæði að rekstri og viðskiptum viðkomandi flugrekenda og eftirliti Samgöngustofu með starfsemi þeirra.</p><p>Þótt fallist sé á það með kæranda að hann gegni sem fjölmiðill mikilvægu hlutverki til að veita stjórnvöldum aðhald, og þurfi þar af leiðandi að eiga ríka möguleika til að miðla upplýsingum um opinber málefni, sbr. 1. gr. upplýsingalaga, er ekki unnt að líta framhjá því að umbeðnar upplýsingar eru undirorpnar sérstökum þagnarskylduákvæðum sem takmarka upplýsingarétt almennings umfram fyrirmæli upplýsingalaga, sbr. gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun um synjun beiðni kæranda um aðgang að þeim.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu, dags. 16. október 2017, um synjun beiðni fréttastofu Ríkisútvarpsins ohf. um aðgang að gögnum um hergagnaflutninga frá árinu 2011.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

733/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Ríkisútvarpið ohf. kærði ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að gögnum í máli sem varðaði aðbúnað og meðferð dýra á tilteknu býli. Úrskurðarnefndin tók fram að með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga þyrfti að vega hagsmuni þeirra einstaklinga sem gögnin varða gegn hagsmunum almennings af því að þau yrðu birt opinberlega. Komist var að þeirri niðurstöðu að fyrrnefndu hagsmunirnir vægju þyngra á metunum og ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðninnar staðfest.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 733/2018 í máli ÚNU 17080001.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 10. ágúst 2017, kærði Ríkisútvarpið ohf. synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum í máli ráðuneytisins nr. ANR15090145. Með beiðni kæranda, dags. 8. maí 2017, var óskað eftir gögnum sem voru grundvöllur að tilteknum úrskurði viðskiptaráðuneytisins í máli einstaklinga sem nafngreindir voru í beiðninni. Í ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðninnar, dags. 11. júlí 2017, er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 691/2017 en í rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar segði m.a. að ljóst væri að beiðandi hefði vitneskju um hverjir aðilar málsins væru og umbeðin gögn tilheyrðu. Ráðuneytið teldi hagsmuni aðila málsins af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni færu leynt vega þyngra en almennir hagsmunir sem felist í aðgangi fjölmiðla að gögnum um aðbúnað dýra. Því væri staðfest ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á aðgangi að gögnunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Í kæru kemur m.a. fram að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki að finna efnislega umfjöllun um málið. Einungis sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál og komist að þeirri niðurstöðu að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið geti ekki veitt kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Hvorki fengist séð að farið hafi fram mat á viðkomandi upplýsingum og hvort um sé að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 9. gr. laga nr. 140/2012, né mat á því hvort hagsmunir aðila viðkomandi máls af því að viðkomandi upplýsingar færu leynt vegi þyngra en aðgangur kæranda, fjölmiðils, að upplýsingum um meðferð og aðbúnað dýra. Þá liggi ekkert fyrir um að viðkvæmar persónuupplýsingar sé að finna í gögnum málsins. Enn fremur hafi ekki átt sér stað samræður á milli kæranda og ráðuneytisins um hugsanlegar leiðir til að afmá viðkvæmar upplýsingar.</p><p>Kærandi telur upplýsingar um aðbúnað og meðferð dýra ekki falla undir þá vernd sem einstaklingar geti átt rétt á samkvæmt 9. gr. laga nr. 140/2012. Kærandi leiti ekki eftir upplýsingum um fjárhagslega eða félagslega stöðu, eða persónu þeirra aðila sem mál ráðuneytisins fjalli um. Kærandi telur hins vegar nauðsynlegt að fá upplýsingar um málsmeðferð í viðkomandi máli og aðgerðir eftirlitsaðila, svo sem héraðsdýralæknis og Matvælastofnunar, sem og kvartanir sem leiddu til málsins. Það sé kæranda hins vegar nauðsynlegt að fá aðgang að öllum málsgögnum, þó svo að viðkvæmar upplýsingar séu afmáðar, svo hægt sé að fara yfir og meta hvort eftirlitsaðilar hafi starfað í samræmi við skyldur sínar og þá hagsmuni sem þeim sé falið að vernda. Kærandi sé fjölmiðill sem gegni veigamiklu samfélagslegu hlutverki gagnvart bæði almenningi, í formi upplýsingamiðlunar, og hinu opinbera í formi eftirlits og aðhalds.</p><p>Kærandi telur að ef fallist yrði á rökstuðning ráðuneytisins fái eftirlitsaðilar verkfæri sem þeir geti beitt til þess að synja um aðgang að upplýsingum ef eitthvað varðandi málsmeðferð eða gögnum málsins kemur viðkomandi stofnun illa. Af þeim sökum verði að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau meti hvert tilvik fyrir sig og reyni eftir fremsta megni að veita upplýsingar er varði almannahag. Ekki fáist séð að ráðuneytið hafi tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að afmá viðkvæmar upplýsingar úr gögnunum.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 15. ágúst 2017, var kæran kynnt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30. ágúst 2017, kemur fram að þann 23. október 2015, hafi ráðuneytið kveðið upp úrskurð í máli ANR15090145, þar sem ákvörðun Matvælastofnunar um fyrirhugaða vörslusviptingu nautgripa á tilteknu lögbýli var staðfest. Matvælastofnun hafði gert ýmsar athugasemdir við aðbúnað búfjár á bænum og veitt umráðamönnum dýranna fresti til úrbóta en ekki hafi verið bætt úr. Að lokum tilkynnti Matvælastofnun um fyrirhugaða vörslusviptingu gripa á búinu á grundvelli l. mgr. 37. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, þar sem aðbúnaður þeirra væri óviðunandi með tilliti til laganna. Málið varðaði því grun um refsiverða háttsemi, sbr. 45. gr. laga um velferð dýra. Við birtingu úrskurðarins hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafi átt sér stað þau mistök að nöfn og kennitölur málsaðila og nafn bæjarins voru birt en rétt hefði verið að fjarlægja persónugreinanlegar upplýsingar. Úrskurðurinn hafi verið óbreyttur á úrskurðavef stjórnarráðsins með þessum upplýsingum þegar beiðni kæranda um aðgang að gögnum barst ráðuneytinu.</p><p>Í umsögninni er vísað til þess að í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 691/2017 hafi úrskurðarnefndin staðfest að óheimilt sé að veita upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Nefndin hafi tekið það sérstaklega fram að fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki og að vega þurfi hagsmuni þeirra af því að fá aðgang að gögnum á móti hagsmunum aðilanna af því að þær fari leynt. Úrskurðarnefndin hafi talið ljóst að kærandi hefði vitneskju um hverjir teldust aðilar málanna og umbeðin gögn tilheyrðu. Því hafi nefndin talið hagsmuni aðila málsins, af því að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra færu leynt, vega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af aðgangi að gögnunum.</p><p>Í umsögninni er tekið fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi farið vel yfir málsgögnin áður en ákvörðun var tekin um að synja beiðni kæranda. Niðurstaðan hafi verið sú að þar sem nöfn og kennitölur aðilanna, ásamt nafni lögbýlisins, voru aðgengileg almenningi í lengri tíma myndi engu breyta þótt persónugreinanlegar upplýsingar væru afmáðar úr gögnum ráðuneytisins. Ekki sé loku fyrir það skotið að kærandi hafi þær undir höndum og því séu gögnin persónurekjanleg. Ráðuneytið hafi því metið það svo að hagsmunir málsaðila af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni þeirra fari leynt vegi þyngra en almennir hagsmunir fjölmiðla af því að fá aðgang að gögnum um aðbúnað dýra og synjað kæranda um aðgang að gögnunum.</p><p>Umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 1. september 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 20. september 2017, gerir kærandi athugasemd við að stjórnvöld ákveði að mælikvarði þess að gögn innihaldi upplýsingar um grun eða ákæru vegna refsiverðrar háttsemi sé að hugsanlega gætu aðgerðir viðkomandi eftirlitsstofnunar leitt til kæru til lögreglu og rannsóknar sem svo geti leitt til ákæru. Að mati kæranda er einungis hægt að tala um grun um refsiverða háttsemi, í skilningi upplýsingalaga og í tengslum við mat á því hvort um viðkvæmar persónuupplýsingar sé að ræða, ef háttsemin varði lögreglurannsókn og ákæru. Að öðrum kosti sé ekki hægt að tala um grun um refsiverða háttsemi sem geti varðað refsiábyrgð. Matvælastofnun fari ekki með lögregluvald og varði brot einungis refsiábyrgð að undangenginni kæru stofnunarinnnar til lögreglu, sbr. 6. mgr. 45. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013. Í því máli sem beiðni kæranda snýr að hafi aldrei komið fram hvort Matvælastofnun hafi kært þá háttsemi sem um ræðir til lögreglu eða ekki. Kærandi telur að verði fallist á að grunur um refsiverða háttsemi sé til staðar ef Matvælastofnun sé með mál til meðferðar muni allar eftirlitsstofnanir geta synjað um aðgang að upplýsingum þar sem nær alltaf geti hugsanlega verið um að ræða upplýsingar um grun um refsiverða háttsemi. Ef það liggi hins vegar fyrir að hegðunin leiði einungis til stjórnvaldsákvörðunar, en ekki kæru til lögreglu, varði háttsemin ekki refsiábyrgð og því geti slíkur grunur ekki verið til staðar.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í málinu er deilt um rétt kæranda, sem er fjölmiðill, til aðgangs að gögnum í vörslum Matvælastofnunar um aðbúnað dýra á tilteknu lögbýli. Synjun stofnunarinnar á beiðni kæranda byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.</p></blockquote><p>Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:</p><blockquote><p>Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.</p></blockquote><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögn í máli ANR15090145. Gögnin eru einkum eftirlitsskýrslur, bréf og önnur samskipti er snúa að eftirliti starfsmanna Matvælastofnunar með dýrahaldi á tilteknu lögbýli á grundvelli laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Í tilvikum þar sem umráðamenn dýra gerast brotlegir við lögin hvílir ábyrgðin hjá þeim persónulega, þar með talin hugsanleg refsiábyrgð, sbr. 45. gr. laganna. Af framangreindu leiðir m.a. að einstakir starfsmenn fyrirtækja og eigendur lögbýla sem eru með dýrahald geti talist brotlegir í störfum sínum. Því er fallist á að um takmarkanir á rétti kæranda til aðgangs að gögnum fari samkvæmt 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að það sé engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar eru m.a. nefndar til sögunnar upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað, sbr. b.-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Brot gegn lögum um velferð dýra nr. 55/2013 geta varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári, sbr. 45. gr. laganna.</p><p>Í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 23. október 2015, þar sem staðfest var ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu nautgripa, í málinu sem umbeðin gögn tilheyra, er vísað til 29. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013 og reglugerðar nr. 1065/2014 um velferð nautgripa. Samkvæmt g.-lið 1. mgr. 45. gr. þeirra laga varðar refsiábyrgð vanræksla á skyldum til að tryggja dýrum aðbúnað skv. 29. gr. eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli hennar. Því liggur fyrir að ákvörðun var tekin um vörslusviptingu með vísan til háttsemi sem er refsiverð samkvæmt lögum nr. 55/2013. Samkvæmt framangreindu er ljóst að upplýsingar sem finna má í umbeðnum gögnum varða einkamálefni einstaklinga í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Við mat á því hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að upplýsingar af þessu tagi fari leynt á grundvelli ákvæðisins hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál haft hliðsjón af því að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að upplýstri umræðu í samfélaginu, þar á meðal um málefni er varða dýrahald. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 676/2017 var til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að fjölmiðill ætti rétt til aðgangs að upplýsingum um mál sem Matvælastofnun hafði til meðferðar vegna meintra brota á lögum nr. 55/2013, þó þannig að afmáðar væru upplýsingar sem gæfu til kynna hverjir aðilar málsins fyrir stofnuninni væru. Í málinu sem hér er til meðferðar, líkt og í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 691/2017, er hins vegar ljóst að kærandi hefur vitneskju um hverjir teljast aðilar málsins sem umbeðin gögn tilheyra. Þegar vegnir eru saman hagsmunir aðila málsins af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni þeirra fari leynt á móti þeim almennu hagsmunum sem felast í því að fjölmiðlar fái aðgang að gögnum um aðbúnað dýra, þykja hinir fyrrgreindu vega þyngra eins og hér háttar til. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á synjun beiðni kæranda.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Staðfest er ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 11. júlí 2017, um synjun beiðni kæranda um aðgang að gögnum í máli nr. ANR15090145. </p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

732/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Deilt var um synjun Orkustofnunar á beiðni Ungra umhverfissinna um aðgang að gögnum sem tengjast olíuleit á Drekasvæðinu. Stofnunin afmarkaði beiðnina við gögn um olíuleit tveggja fyrirtækja en vísaði til þess að upplýsingarnar væru undanþegnar upplýsingarétti almenning samkvæmt 26. gr. a laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis. Úrskurðarnefndin túlkaði ákvæðið þannig að Orkustofnun væri heimilt að synja um aðgang að upplýsingum sem leyfishafar rannsóknar- og vinnsluleyfis afla og láta Orkustofnun í té á gildistíma leyfisins. Ákvörðun stofnunarinnar var því staðfest varðandi tiltekið fyrirtæki. Um annað fyrirtæki taldi nefndin að 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál, kæmi í veg fyrir aðgang almennings, en í því tilviki var leyfið ekki lengur í gildi. 

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 732/2018 í máli ÚNU 17050012.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 31. maí 2017, kærðu félagasamtökin Ungir umhverfissinnar synjun Orkustofnunar, dags. 19. maí 2017, á beiðni um aðgang að gögnum sem tengjast olíuleit á Drekasvæðinu. Með tölvupósti, dags. 18. maí 2017, fór kærandi þess á leit við Orkustofnun að honum yrði veittur aðgangur að gögnum úr olíuleit á Drekasvæðinu á vegum CNOOC International o.fl. sé þeim til að dreifa og þá sérstaklega gögnum úr tvívíðum mælingum sem hafi farið fram síðustu ár. Þann 19. maí 2017 svaraði Orkustofnun kæranda því til að samkvæmt 26. gr. a laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis væru upplýsingar í vörslum Orkustofnunar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum á gildistíma leitarleyfis eða rannsóknar­ og vinnsluleyfis. Orkustofnun gæti því ekki orðið við erindinu. Með tölvupósti sama dag óskaði kærandi eftir sömu gögnum fyrir leyfi Ithaca Petroleum &amp; co., með vísan til þess að leit þess fyrirtækis væri lokið. Samdægurs svaraði Orkustofnun því að gögnin væru lokuð, a.m.k. næstu 5 árin.</p><p>Í kæru kemur m.a. fram að óskað sé eftir gögnunum með vísan í lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006, en ljóst sé að kolefnisleit- og vinnsla séu umhverfismál í ljósi loftslagsbreytinga, rasks á hafsbotni sem fylgi borunum (þ.m.t. tilraunaborunum) og hljóðmengunar við endurvarpsmælingar. Beiðninni hafi verið synjað með vísan til 26. gr. a laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis, nr. 13/2001 en ekki hafi verið vísað til laga nr. 23/2006. Einnig hafi kærandi óskað eftir sams konar gögnum frá Ithaca Petroleum en það leitarleyfi sé ekki lengur í gildi eftir ákvörðun leyfishafa um að hætta leit sinni í janúar 2017. Beiðninni hafi verið hafnað án frekari rökstuðnings þrátt fyrir að í fyrri synjuninni hafi verið tekið fram að upplýsingarnar væru einungis undanþegnar aðgangi almennings á gildistíma leitarleyfis.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 2. júní 2017, var kæran kynnt Orkustofnun og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Orkustofnunar, dags. 8. júní 2017, kemur fram að þar sem gögn um leyfisveitingar séu aðgengilegar almenningi á vef Orkustofnunar geri stofnunin ráð fyrir að einkum sé átt við gögn um tvívíðar mælingar sem farið hafi fram síðustu ár, eins og fram komi í kæru.</p><p>Í umsögninni vísar Orkustofnun til þess að &nbsp;samkvæmt 2. tl. 2. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 gildi lögin einvörðungu um upplýsingar í vörslum lögaðila sem hafi verið falið opinbert hlutverk eða veiti almenningi opinbera þjónustu hvað varðar umhverfi á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld og lögaðila sem gegni opinberu hlutverki eða veiti opinbera þjónustu sem varði umhverfið og lúti stjórn þeirra stjórnvalda. Hvorki CNOOC International né Ithaca Petroleum/Seabird Exploration séu slíkir lögaðilar og því veiti lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 kæranda ekki aðgang að gögnum sem þessir aðilar afli, vegna mögulegra viðskiptatækifæra og hagsmuna sinna, samkvæmt útboði til leitar-, rannsóknar og eftir atvikum vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu. Breyti þar engu að hlutverk Orkustofnunar skv. 1. mgr. 25. gr. kolvetnislaga nr. 13/2001 sé að safna öllum upplýsingum um landgrunnið sem verði til við starfsemi samkvæmt lögunum. Þagnarskylda Orkustofnunar sé ótvíræð, sbr. 26. gr. a. laganna. Auk þess sé heimilt að kveða nánar á um þagnarskyldu í leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis, sbr. 7. mgr. 26. gr. a, eins og gert hafi verið í leitarleyfi Seabird Exploration vegna mælinga fyrir Ithaca Petroleum til 10 ára frá árslokum þess árs sem mælingar voru gerðar. Nálgast megi leyfið á vef Orkustofnunar. Þagnarskylda gildi því enn um gögn Ithaca Petroleum. Leyfi CNOOC sé enn í gildi og því ríki þagnarskylda um þau gögn. Samkvæmt þessu beri að hafna kröfum kæranda í málinu með vísan til annars vegar 2. mgr. 2. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 og hins vegar 26. gr. a kolvetnislaga.</p><p>Hvað varði afhendingu gagnanna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál bendir Orkustofnun á að CNOOC hafi safnað þeim samkvæmt skilmálum sérleyfis til rannsókna og vinnslu kolvetnis haustið 2015, þ.e. 2700 km af tvívíðum endurkastsgögnum. Um sé að ræða afar umfangsmikil sérhæfð gögn sem einungis sé hægt að skoða með þar til gerðum hugbúnaði. Seabird Exploration hafi safnað 1004 km af tvívíðum endurkastsmælingum skv. leitarleyfi og samkomulagi við sérleyfishafann Ithaca Petroleum sumarið 2016. Með vísan til þessa dragi Orkustofnun í efa möguleika úrskurðarnefndarinnar til að kynna sér afrit af gögnunum. Hins vegar geti það gagnast nefndinni að fá aðstoð Orkustofnunar við að kynna sér gögnin og vinnslu þeirra hjá ÍSOR telji nefndin það nauðsynlegt.</p><p>Umsögn Orkustofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 12. júní 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir Ungra umhverfissinna bárust þann 19. júní 2017. Þar kemur m.a. fram að ekki sé óskað eftir gögnunum beint frá CNOOC International og Ithaca Petroleum/Seabird Exploration heldur frá Orkustofnun sem falli undir 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006. Stofnunin hafi það opinbera hlutverk að safna umbeðnum gögnum, sbr. 25. gr. laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis nr. 13/2001. Skipti þá ekki máli hvort stofnunin sjái sjálf um mælingar eða afli gagnanna frá einkaaðila líkt og í þessu tilfelli enda eigi lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 m.a. við um upplýsingar sem aflað er í tilefni af opinberu hlutverki, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.&nbsp;</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér eðli og efni umbeðinna gagna.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Í málinu er deilt um aðgang kæranda að upplýsingum um tvívíðar endurkastsmælingar á landgrunni Drekasvæðisins sem aflað var annars vegar af fyrirtækinu Seabird Exploration fyrir Ithaca Petroleum og hins vegar af fyrirtækinu CNOOC International. Um er að ræða upplýsingar um ástand landgrunnsins og teljast þær því vera upplýsingar um umhverfismál, sbr. 1. tl. 3. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006. Gögnin eru í vörslum Orkustofnunar á grundvelli laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis nr. 13/2001, sbr. einkum 25. gr. laganna. Ekki leikur vafi á því að stofnunin er stjórnvald sem fellur undir gildissvið laga nr. 23/2006, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006. Fer því um aðgang kæranda að gögnum í vörslum stofnunarinnar eftir lögum um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006.</p><p>Í ákvæði 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006 kemur fram að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum á grundvelli laganna nái ekki til gagna sem undanþegin eru aðgangi skv. 4.-6. gr. upplýsingalaga. Af athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga nr. 23/2006 má ráða að átt sé við upplýsingar sem undanþegnar voru upplýsingarétti á grundvelli eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 en ákvæði 6. gr. laga nr. 23/2006 hefur ekki verið breytt í því skyni að vísa til undanþáguákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012. Hins vegar verður að líta svo á að ákvæðið taki til þeirra upplýsinga sem nú eru undanskildar upplýsingarétti skv. 6.-10. gr. laga nr. 140/2012. Því koma undantekningarákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 til skoðunar við mat á rétti kæranda til aðgangs að upplýsingunum.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Í fyrsta lagi óskaði kærandi eftir aðgangi að tvívíðum endurkastsmælingum sem aflað var af félaginu CNOOC International. Synjun Orkustofnunar byggði á því að rannsóknar- og vinnsluleyfi félagsins væri enn í gildi og gögnin því undirorpin þagnarskyldu með vísan til 1. mgr. 26. gr. a laga nr. nr. 13/2001.</p><p>Í ákvæði 1. mgr. 26. gr. a kolvetnislaga nr. 13/2001 segir að upplýsingar, sem varðveittar eru af Orkustofnum samkvæmt lögunum, skuli vera undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum á gildistíma leitarleyfis eða rannsóknar- og vinnsluleyfis. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er um að ræða sérstakt ákvæði um þagnarskyldu, sem takmarkar rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006, sbr. gagnályktun frá 2. mgr. 4. gr. laganna. Í ákvæði 1. mgr. 26. gr. a laga nr. 13/2001 er hins vegar aðeins vísað til þess að upplýsingar skuli undanþegnar aðgangi samkvæmt upplýsingalögum en ekki er sérstaklega vísað til laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Þó kom ákvæðið inn í lög nr. 13/2001 með breytingalögum nr. 48/2007 og var því leitt í lög eftir gildistöku laga nr. 23/2006. Álitaefnið sem hér þarf að taka afstöðu til er hvort hugtakið „upplýsingalög“ verði skýrt þröngri lögskýringu þannig að það taki einungis til gildandi upplýsingalaga nr. 140/2012, eða hvort með því sé almennt átt við lagaákvæði sem tryggja almenningi rétt til aðgangs að upplýsingum í vörslum stjórnvalda, þar með talin lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er síðari túlkunarkosturinn nærtækari, enda eru upplýsingar sem Orkustofnun varðveitir samkvæmt lögum nr. 13/2001 fyrirsjáanlega að stórum hluta upplýsingar um umhverfismál í skilningi laga nr. 23/2006. Við úrlausn málsins lítur nefndin þó einnig til þess að þeir hagsmunir sem 1. mgr. 26. gr. a laga nr. 13/2001 er ætlað að vernda, þ.e. viðskiptahagsmunir leyfishafa, njóta einnig verndar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006.</p><p>Með hliðsjón af framansögðu verður að túlka undantekningarákvæði 1. mgr. 26. gr. a laga nr. 13/2001 svo að Orkustofnun sé heimilt að synja um aðgang að upplýsingum um umhverfismál í skilningi laga nr. 23/2006 sem leyfishafar rannsóknarleyfis hafa aflað og látið Orkustofnun í té á gildistíma leitarleyfis eða rannsóknar- og vinnsluleyfis. Þar sem rannsóknar- og vinnsluleyfi CNOOC International var enn í gildi þegar kæranda var synjað um aðgang að upplýsingunum verður því fallist á að Orkustofnun hafi á þeim tíma verið heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim vísan til þagnarskylduákvæðis 1. mgr. 26. gr. a laga nr. 13/2001, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Í öðru lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tvívíðum endurkastsmælingum sem Seabird Exploration aflaði á rannsóknar- og vinnslusvæði leyfishafans Ithaca Petroleum. Orkustofnun vísar til þess að upplýsingarnar lúti þagnarskyldu á grundvelli trúnaðarákvæðis í leitarleyfi Seabird Exploration þar sem kveðið sé á um að upplýsingarnar séu undanþegnar aðgangi almennings í 10 ár frá árslokum þess árs sem mælingar voru gerðar. Vísað er til heimildar 7. mgr. 26. gr. a nr. 13/2001 til að kveða nánar á um þagnarskyldu í leitarleyfi. Leitarleyfi Seabird Exploration, dags. 20. maí 2016, er aðgengilegt á vef Orkustofnunar. Þar kemur fram í 8. gr. að upplýsingar sem aflað er á grundvelli leitarleyfisins skuli lúta trúnaði í 10 ár frá lokum þess árs sem upplýsinganna var aflað.</p><p>Í 7. mgr. 26. gr. a laga nr. 13/2001 segir að heimilt sé að kveða nánar á um þagnarskyldu í leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Líta verður svo á að með ákvæðinu sé Orkustofnun heimilað að kveða nánar á um framkvæmd þagnarskyldunnar innan ramma laga nr. 23/2006. Þannig sé Orkustofnun t.a.m. heimilt að semja við rannsóknarleyfishafa um heimildir til rýmri aðgangs að og notkunar á rannsóknargögnum, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Af orðalagi ákvæðisins verður hins vegar ekki ráðið að með því sé veitt heimild til að undanþiggja upplýsingar frá upplýsingarétti almennings í lengri tíma en kveðið er á um í 1. mgr. greinarinnar. Af ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. lög nr. 23/2006, leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema fyrir því sé skýr lagastoð. Stjórnvald getur því ekki vikið frá ákvæðum um upplýsingarétt almennings með því að heita þeim trúnaði sem látið hefur af hendi upplýsingar. Samkvæmt þessu skorti Orkustofnun því heimild til að kveða á um lengri þagnarskyldu en lög nr. 13/2001 heimila, en sú heimild miðast við gildistíma leitarleyfis eða rannsóknar og vinnsluleyfis skv. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 13/2001. Því verður að meta hvort undantekningarákvæði 6.-10. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006, komi í veg fyrir að kærandi eigi rétt til aðgangs að upplýsingunum á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2001 um upplýsingarétt almennings um umhverfismál.</p><p>Í 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í fylgibréfi með leitarleyfi fyrir Seabird Exploration, dags. 20 maí 2016, kemur fram að fyrirtækið fái leyfi til að leita að kolvetnum á því svæði sem rannsóknar- og vinnsluleyfi nr. 2013/2012 nái til en Ithaca Petrolum sé handhafi þess leyfis. Samkomulag hafi orðið á milli Seabird Exploration og Ithaca Petroleum um að fyrrnefnda fyrirtækið tæki að sér að uppfylla skyldur leyfis nr. 2013/2012 fyrir hönd Ithaca Petroleum.</p><p>Á fundi Orkustofnunar og starfsmanna úrskurðarnefndar um upplýsingamál hinn 14. febrúar 2018 kom fram að Seabird Exploration sé leitarfyrirtæki sem taki að sér leit fyrir vinnslufyrirtæki eins og Ithaca Petroleum. Samningar hafi tekist milli fyrirtækjanna um að upplýsingarnar lúti leynd í 10 ár frá því þeirra var aflað, enda um að ræða mjög verðmætar upplýsingar og miklir viðskiptahagsmunir fólgnir í því að þær fari leynt. Algengt sé að leitarfyrirtæki semji um slíkan trúnað við vinnslufyrirtæki og því hafi Orkustofnun samþykkt trúnaðarskylduna og kveðið á um hana í leitarleyfinu. Þar sem upplýsingarnar séu mjög verðmætar liggi fyrir að félagið verði fyrir tjóni ef upplýsingarnar verði gerðar opinberar.</p><p>Eins og atvikum málsins er háttað telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál nægilega leiddar líkur að því að Seabird International geti orðið fyrir verulegu tjóni ef upplýsingarnar verða gerðar opinberar áður en trúnaðarskyldu samkvæmt leitarleyfi lýkur, þar sem fyrirtækið væri með því svipt möguleikum sínum til að skapa arð af þeirri fjárfestingu sem fyrirtækið hefur lagt í þær rannsóknir sem fyrr er lýst. Því er fallist á það með Orkustofnun að upplýsingarnar varði eins og hér stendur á mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Orkustofnunar um synjun beiðni Ungra umhverfisverndarsinna um tvívíðar endurkastsmælingar sem aflað var af Seabird International.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Staðfest er synjun Orkustofnunar, dags. 19. maí 2017, á beiðni kæranda um aðgang að tvívíðum endurkastsmælingum sem aflað var af CNOOC International og Seabird Exploration fyrir hönd Ithaca Petroleum ehf. </p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;<br></p>

735/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Kærð var ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um mannshvörf. Ákvörðunin byggðist fyrst og fremst á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að af gögnum málsins mætti ráða að þessi röksemd gæti ekki átt við um öll gögnin sem kærandi krafðist aðgangs að. Embættið hefði því ekki gert grein fyrir því hvort unnt væri að veita kæranda aðgang að þeim að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 735/2018 í máli ÚNU 17090004.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 22. september 2017, kærði A ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra, dags. 7. september 2017, um synjun beiðni hans um aðgang að skrá um horfna menn. Í kæru kemur fram að kærandi sýni því fullan skilning að vissar upplýsingar skuli fara leynt í samræmi við 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en beiðni hans lúti einungis að öðrum upplýsingum sem í skránni sé að finna. Kærandi óskar fyrst og fremst eftir að fá aðgang að nöfnum fólks í skránni, allt frá 1930 eða svo langt aftur sem hún nær, ásamt fæðingardögum og árum og loks tímasetningum þeirra atburða þegar fólkið hvarf. Þá tekur beiðni kæranda einnig til annarra upplýsinga úr skránni, sem ekki geti talist viðkvæmar persónuupplýsingar. Kærandi hafnar því að beiðni hans sé ekki nægilega afmörkuð, eins og fram kemur í ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra, og telur jafnframt að embættið hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sem kveðið er á um í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 26. september 2017 var kæran kynnt embætti ríkislögreglustjóra og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði afhent afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að í trúnaði. Í umsögn embættis ríkislögreglustjóra, dags. 11. október 2017, kemur fram að upplýsingar um horfna menn sé að finna í vörslum ríkislögreglustjóra á þremur stöðum. Í fyrsta lagi séu elstu gögnin úr ýmsum áttum og í pappírsformi í möppum á skjalasafni embættisins. Í öðru lagi sé notaður PlassData hugbúnaðargrunnur til að halda utan um skráningu týndra einstaklinga. Í hann séu færðar læknisfræðilegar og persónubundnar upplýsingar, upplýsingar um aðstandendur og aðrar upplýsingar sem lögreglan aflar við rannsóknir. Í þriðja lagi séu upplýsingar færðar í LÖKE-kerfi um málsmeðferð lögreglu og sönnunargögn þegar einstaklingur hverfur og sönnunargögn. PlassData-grunnurinn sé enn í vinnslu og tilgangur hans sé að bera kennsl á lík eða líkamshluta þegar þau finnast og séu hluti af lögreglurannsókn.</p><p>Þá segir í umsögninni að gögnin hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og séu í mörgum tilvikum hluti af opnum lögreglurannsóknum, auk þess sem þar séu réttarmeinafræðilegar upplýsingar og sönnunargögn. Eðli málsins samkvæmt eigi þessar upplýsingar ekki erindi við almenning, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá sé óheimilt að miðla slíkum upplýsingum til annarra en þeirra sem getið sé um í reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu nr. 322/2001. Þá segir í umsögninni að embættið hafi enn sem komið er ekki heildstæða skrá um efnið. Mikil vinna sé því framundan að færa þessar upplýsingar inn í PlassData gagnagrunninn. Hjá embættinu sé hins vegar til ópersónugreinanleg tölfræði um mannshvörf sem sjálfsagt sé að afhenda en eftir því hafi ekki verið leitað.</p><p>Umsögn embættis ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með erindi, dags. 19. október 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust þann 22. október 2017. Þar kemur fram að beiðnin snúi ekki að viðkvæmum persónuupplýsingum og þá hafi kærandi hvorki óskað eftir því að fá afhentar upplýsingar úr LÖKE eða PlassData í heilu lagi né heilar möppur úr skjalasafni. Þær upplýsingar um horfna menn, sem kærandi óski eftir að fá afhentar, séu eftirfarandi:</p><p><ol><li>Fullt nafn.<br></li><li>Fæðingardagur og ár.<br></li><li>Fæðingarstaður (ef tilgreindur er).<br></li><li>Tímasetning mannshvarfsins (dagur, mánuður og ár).<br></li><li>Staðsetning (hvaðan maðurinn hvarf eða hvar síðast sást til hans).</li></ol></p><p>Af hálfu kæranda kemur fram að þessar upplýsingar hafi í flestum eða öllum tilvikum þegar birst opinberlega í dagblöðum og geti af þeim sökum ekki átt að fara leynt. Þær séu hins vegar ekki aðgengilegar á einum stað nema hjá embætti Ríkislögreglustjóra.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum hjá embætti ríkislögreglustjóra um horfna menn á Íslandi. Ríkislögreglustjóri hefur vísað til þess að embættið hafi enn sem komið er ekki heildstæða skrá um þetta efni en upplýsingarnar liggi fyrir á þremur stöðum. Af ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að almenningur á rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda. Gagn telst vera fyrirliggjandi ef það er til þegar beiðni um það kemur fram. Stjórnvöldum er hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli ákvæðisins.</p><p>Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að beiðni kæranda sé ekki afmörkuð við tiltekin gögn eða tiltekið mál, en í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga segir að vísa megi beiðni frá ef ekki er talið mögulegt að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ekki er unnt að fallast á það með ríkislögreglustjóra að ákvæðið eigi við enda liggur fyrir að embættinu var unnt að afmarka beiðni kæranda við þrjár skrár í vörslum þess.</p><p>Hin kærða ákvörðun var jafnframt studd við það að umbeðin gögn hefðu að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, sem væri óheimilt að veita almenningi aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þá væri stór hluti gagnanna hluti af rannsóknum sakamála en upplýsingalög gilda ekki um slík mál samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að draga þessar fullyrðingar embættis ríkislögreglustjóra í efa, en ljóst má vera að hluti þeirra gagna sem kærandi óskar aðgangs að er undirorpinn þessum takmörkunum á upplýsingarétti almennings. Hins vegar er bent á að af gögnum málsins megi ráða að sömu sjónarmið eigi ekki við um alla hluta umbeðinna gagna. Þannig kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að umbeðin gögn „innihaldi“ viðkvæmar persónuupplýsingar og að „stór hluti“ tilheyri rannsóknum sakamála. Þá segir berum orðum í umsögn embættisins að til sé ópersónuleg tölfræði um mannshvörf sem sjálfsagt sé að afhenda en eftir því hafi ekki verið leitað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að í beiðni kæranda um aðgang að gögnum er óskað eftir lista yfir mannshvörf en ekki er tekið fram að einungis sé óskað eftir persónugreinanlegum upplýsingum.</p><p>Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er aðilum sem falla undir gildissvið laganna skylt að veita aðgang að þeim hlutum umbeðinna gagna sem ekki eru háðir takmörkunum samkvæmt 6.-10. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur ríkislögreglustjóri ekki tekið nægilega skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um mannshvörf embættinu er fært að afhenda kæranda og hverjar ekki. Ljóst liggur fyrir að í vörslum embættisins eru gögn um efnið sem hvorki teljast til gagna sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, né til upplýsinga um einkamálefni sem óheimilt er að veita aðgang að skv. 9. gr. laganna. Þá hefur embættið ekki gert grein fyrir því hvort því kunni að vera unnt að veita kæranda aðgang að upplýsingum úr gagnagrunnum sínum þannig að afmáðar séu slíkar upplýsingar á grundvelli 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist meðferð ríkislögreglustjóra við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæði 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðni kæranda til nýrrar og lögmætrar meðferðar.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra, dags. 7. september 2017, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að gögnum um mannshvörf er felld úr gildi og lagt fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

736/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Deilt var um ákvörðun Ríkisúvarpsins um að synja um aðgang að upplýsingum um samkomulag félagsins um greiðslu bóta við einstakling sem hafði höfðað meiðyrðamál í tilefni af fréttaflutningi þess. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingaréttur almennings næði til skjalsins að undanskildum litlum hluta sem hún taldi fela í sér upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 736/2018 í máli ÚNU 17090007.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 25. september 2017, kærði A, blaðamaður Fréttablaðsins, synjun Ríkisútvarpsins ohf. (hér eftir RÚV) á beiðni um aðgang að sátt í máli RÚV og B. Með tölvupósti, dags. 25. september 2017, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá RÚV varðandi það hvað sátt RÚV og B vegna stefnu hans á hendur fréttamönnum RÚV fól í sér, þar með talið hve háa greiðslu RÚV þurfti að greiða vegna málsins. Beiðninni var synjað samdægurs með vísan til þess að sáttin væri trúnaðarmál og að RÚV myndi ekki tjá sig frekar um efni hennar en það sem kæmi fram í tilkynningu lögmanns B.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 26. september 2017, var kæran kynnt RÚV og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Með tölvupósti, dags. 27. september 2017, svaraði RÚV því að félagið teldi sig þegar búið að veita kæranda upplýsingar. Meðfylgjandi var tölvupóstur RÚV til kæranda, dags. 25. september, þar sem fram kemur að lögmaður B&nbsp;hafi heimilað RÚV að upplýsa um þá fjárhæð sem félagið ætti að greiða vegna málsins. Um sé að ræða málskostnað og miskabætur, samtals að fjárhæð 2,5 milljónir króna. Með tölvupósti, dags. 27. september 2017, fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við RÚV að félagið upplýsti hvort það teldi kæranda eiga rétt til aðgangs að afriti af samkomulaginu, sbr. 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Umsögn RÚV barst þann 25. október 2017. Í umsögninni kemur fram að samkomulag hafi verið gert utan réttar um lyktir einkamáls sem B höfðaði á hendur RÚV og nánar tilgreindum fréttamönnum. Málið hverfist því um það hvort upplýsingalög nr. 140/2012 standi því í vegi að RÚV geti leyst úr ágreiningi fyrir dómstólum í almennu einkamáli með sátt, í þessu tilviki utan réttar, þannig að slík sátt sé bundin trúnaði, og svo sem algengt sé þegar lyktir dómsmála séu annars vegar. RÚV bendir á að aðilar dómsmála telji það oft þjóna hagsmunum sínum að leiða erfið og viðkvæm mál til lykta með samkomlagi sín á milli, sem feli í sér endanleg málalok og jafnframt þannig að þau séu bundin trúnaði. Ef ekki sé hægt að tryggja slíkan trúnað geti það, a.m.k. í einhverjum tilvikum, staðið slíkum málalyktum í vegi. Í þessu samhengi sé jafnframt þess að gæta, að þótt rekstur dómsmála fari alla jafna fram fyrir opnum tjöldum, í samræmi við meginreglu um opinbera málsmeðferð, þá séu hömlur á aðgangi almennings að gögnum dómsmáls. Um slíkan aðgang fari í grunninn eftir 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en ekki upplýsingalögum. Þá hafi þegar verið upplýst um fjárhæð miskabóta og málskostnaðar sem samkomulagið fól í sér, ásamt því að lögmaður stefnanda sendi frá sér stutta fréttatilkynningu þar sem málalokum var lýst í samræmi við samkomulagið.</p><p>RÚV telur áhöld vera um hvort samkomulagið falli undir gildissvið upplýsingalaga, hvað þá þegar búið er að upplýsa um fjárhæðir. Sé þá haft í huga að lögin taki ekki til dómsmála almennt og ekki að sjá að það eitt að samkomulag sé gert utan réttar breyti neinu í&nbsp; því samhengi. Reyni því á lagaskil laga nr. 140/2012 annars vegar og laga nr. 91/1991 hins vegar, og málið að því leytinu til jafnvel fordæmisgefandi. Þá er tekið fram að RÚV telji eðlilegt að hinum aðila samkomulagsins sé gefinn kostur á að tjá sig um beiðnina, þ.m.t. hvort hann sé samþykkur því að aðgangur sé veittur að því í ljósi 9. gr. laga nr. 140/2012. Hafi því afrit af erindinu verið sent lögmanni stefnanda.</p><p>Umsögn RÚV var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. október 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Kærandi svaraði samdægurs. Í athugasemdum kæranda kemur m.a. fram að kæran byggi á því grundvallarsjónarmiði að fjölmiðlar gæti gagnsæis í sínum fréttaflutningi. Þetta eigi ekki síst við um ríkisrekinn fjölmiðil en tilveruréttur slíks reksturs hljóti að vera sá að þar séu fagleg sjónarmið höfð í fyrirrúmi. Málið snúi með beinum hætti að almannahagsmunum. Það geti ekki verið samningsatriði hvort fréttaflutningur sé réttur eða rangur. Ef frétt er röng eða vafasöm í einhverjum atriðum eigi almenningur rétt á því að vita það. Þá eigi fjölmiðill engan annan kost en að draga fréttina til baka eða leiðrétta hana og biðjast velvirðingar. Ef fréttastofa sjái ekkert athugavert við vinnubrögð sín, úrvinnslu og frétt hljóti hún að standa við hana. Fyrirspurnin um eðli samkomulagsins snúi að þessu. Engu skipti þó fengist hafi upplýsingar um fjárhæð miskabóta sem RÚV greiddi. Slík atriði geti ekki verið afstæð og samningsatriði milli lögmanna og þeirra sem reka fréttastofuna. Þetta snúi beinlínis að trúverðugleika fréttastofu allra landsmanna.</p><p>Með erindi, dags. 6. mars 2018, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu B til þess að aðgangur verði veittur að samkomulaginu. Engin svör bárust.&nbsp;</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um ákvörðun RÚV um að synja beiðni kæranda, sem er blaðamaður, um aðgang að samkomulagi sem félagið gerði við B í kjölfar meiðyrðamáls sem hann höfðaði gegn félaginu.</p><p>Ákvörðun RÚV er aðallega reist á því að sáttin falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 heldur lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 14. gr. þeirra laga. Í 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallað um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarasamningnum. Segir þar m.a. í 2. mgr. að upplýsingalög gildi ekki um þinglýsingu, aðfarargerðir, kyrrsetningu, löggeymslu, lögbann, nauðungarsölu, greiðslustöðvun, nauðasamninga, gjaldþrotaskipti, skipti á dánarbúum eða önnur opinber skipti, né heldur um rannsókn sakamáls eða saksókn.&nbsp;Hvergi kemur þar fram að málsskjöl í einkamáli í vörslum þeirra sem falla undir upplýsingalög séu undanþegin upplýsingalögum. Í 1. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mælt fyrir um rétt þeirra, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, til aðgangs að staðfestu eftirriti af málsskjölum og upplýsingum úr þingbók eða dómabók. Ákvæðið veitir því rétt til aðgangs að málsskjölum í einkamáli óháð því hvort aðili málsins fellur undir gildissvið upplýsingalaga. Standa því engin rök til þess að telja málsskjöl í einkamáli í vörslum aðila sem falla undir upplýsingalög nr. 140/2012 vera undanþegin gildissviði laganna. Verður því leyst úr aðgangi kæranda að sáttinni á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum er greinir í 6.–10. gr. laganna.</p><p>Í málinu kemur til skoðunar hvort 9. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að aðgangur verði veittur að samkomulaginu en samkvæmt 1. málsl. ákvæðisins er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. &nbsp;Í athugasemdum við ákvæði 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir að vega og meta þurfi umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verði að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.&nbsp;</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni skjalsins sem ber heitið „samkomulag“ og er dagsett 22. september 2017. Í samkomulaginu fellst RÚV á að greiða tiltekna upphæð í miskabætur og lögmannskostnað gegn því að felldar verði niður kröfur á hendur félaginu. Í 4. tl. samkomulagsins er tiltekið að það skuli teljast trúnaðarmál. Í því samhengi bendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að það leiðir af ákvæðum upplýsingalaga að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli laga. Þeir sem falla undir upplýsingalög geta ekki vikið frá ákvæðum upplýsingalaga með því slíkum samningsákvæðum.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd litið til markmiða upplýsingalaga um aðhald að opinberum aðilum og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna við skýringar á undantekningarákvæðum laganna.&nbsp;Í samkomulagi RÚV og B felst ráðstöfun á opinberu fé sem almenningur á ríkan rétt til að kynna sér. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekkert koma fram í texta samkomulagsins sem getur talist til einkamálefna einstaklinga sem komið geti í veg fyrir rétt almennings til aðgangs að henni. Er þar meðal annars horft til þess að greinargóðar upplýsingar um efni samkomulagsins hafa birst opinberlega, þ. á m. af hálfu RÚV. Þetta gildir þó ekki um lítinn hluta samkomulagsins, þar sem vikið er að hugsanlegum ráðstöfunum B í framtíðinni. Um þennan hluta þykja hagsmunir hans af því að upplýsingar fari leynt vega þyngra en takmarkaðir hagsmunir almennings af því að aðgangur að þeim verði veittur. Verður því lagt fyrir RÚV að veita kæranda aðgang að samkomulaginu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Ríkisútvarpinu ohf. er skylt að veita kæranda, A, aðgang að samkomulagi félagsins og B, dags. 22. september 2017. Áður ber að afmá síðustu fjórar línurnar í 3. tölul. samkomulagsins.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

734/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Deilt var um ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns sem varðaði Hverfisgötu 41. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir efni minnisblaðsins og komst að þeirri niðurstöðu að það uppfyllti skilyrði upplýsingalaga til að teljast vinnugagn. Ákvörðun borgarinnar var því staðfest.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 734/2018 í máli ÚNU17080002.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 15. ágúst 2017, kærði A ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja honum um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns, dags. 20. maí 2015, sem varðar Hverfisgötu 41. Ákvörðun sveitarfélagsins, dags. 18. júlí 2017, byggðist á því að minnisblaðið væri vinnugagn, sbr. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 16. ágúst 2017, var Reykjavíkurborg kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn borgarinnar barst með bréfi, dags. 30. ágúst 2017, ásamt afriti af minnisblaði borgarlögmanns, dags. 20. maí 2015.</p><p>Í umsögninni kemur fram að borgarlögmaður hafi ritað minnisblaðið fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og það væri einungis ætlað til eigin nota. Í minnisblaðinu komi fram sjónarmið borgarlögmanns varðandi hugsanlegar heimildir í skipulagslöggjöf til að fella niður lóðaheimildir í gildandi deiliskipulagi. Minnisblaðið hafi ekki verið lagt fyrir fund umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar og hafi hvorki að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu tiltekins máls né upplýsingar um staðreyndir sem ekki verði aflað annars staðar. Því sé ljóst að gagnið sé undanþegið upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þá segir að ljóst sé að túlkun borgarlögmanns á skipulagslöggjöf og heimildum í deiliskipulagi geti ekki talist mikilvæg staðreynd máls, enda byggi sú túlkun á lögum og upplýsingum sem aðgengilegar séu öllum.</p><p>Þá hafnar borgin því að minnisblaðið hafi verið afhent öðrum í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga með tölvupósti lögfræðings umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar til formanns og nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 eigi kjörnir fulltrúar rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geti til umfjöllunar í sveitarstjórn. Þeim beri að gæta trúnaðar um það sem þeir verði áskynja í starfi sínu og leynt eigi að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Jafnframt hafi minnisblaðið ekki að geyma upplýsingar um atvik máls sem ekki komi fram annars staðar eða tillögu að ákvörðun í tilteknu máli. Með vísan til framangreinds og fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar, m.a. nr. 353/2011, telur Reykjavíkurborg að úrskurðarnefndinni beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.</p><p>Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. september 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 4. september 2017. Þar kemur fram að kærandi telji að líkur séu á því að minnisblað borgarlögmanns sé til þess fallið að varpa ljósi á ráðstöfun verulegra fjármuna en Reykjavíkurborg hafi ákveðið að greiða 63.000.000 kr. fyrir byggingarrétt á hinu friðaða húsi á Hverfisgötu 41. Þá segir að þar sem nefndarmanni í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar hafi verið afhent minnisblaðið hafi það verið afhent öðrum í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, þar sem 1. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 nái einungis til sveitarstjórnarmanna en ekki nefndarmanna eða nefndarfulltrúa.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns, dags. 20. maí 2015, varðandi Hverfisgötu 41. Kærandi byggir beiðni sína á upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðinu lýtur meðal annars þeirri takmörkun að heimilt er að undanskilja vinnugögn samkvæmt 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. Til þess að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt 1. mgr. 8. gr. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Skoðun úrskurðarnefndarinnar hefur leitt í ljós að minnisblað borgarlögmanns uppfyllir þessi skilyrði eftir orðanna hljóðan í 1. mgr. 8. gr., en á móti kemur að afhending þess til nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar getur ekki talist afhending til annarra, þar sem um er að ræða miðlun innan eins og sama stjórnvaldsins.</p><p>Enda þótt fallist verði á með Reykjavíkurborg að minnisblað borgarlögmanns uppfylli efnisleg skilyrði þess að teljast vinnugagn þarf að kanna hvort önnur rök standi til að veita almennan aðgang að því.&nbsp; Samkvæmt ákvæði 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga ber stjórnvöldum að veita aðgang að vinnugögnum í vissum tilvikum. Þar segir orðrétt:</p><blockquote><p>Þrátt fyrir 5. tölul. 6. gr. ber að afhenda vinnugögn ef:</p><p><ol><li>þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls,<br></li><li>þar koma fram upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr.,<br></li><li>þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram,<br></li><li>þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.<br></li></ol></p></blockquote><p>Í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi upplýsingalögum segir meðal annars í sérstökum athugasemdum við 8. gr.:</p><blockquote><p>Í 3. tölul. málsgreinarinnar kemur fram að veita skuli aðgang að vinnuskjali ef í því koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma fram annars staðar. Með þessu orðalagi er einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum.</p></blockquote><p>Á vef Reykjavíkurborgar er að finna fundargerð fundar í borgarráði, dags. 8. nóvember 2016, þar sem meðal annars var tekið fyrir mál varðandi Hverfisgötu 41. Þar var óskað eftir því að ráðið samþykkti samning um kaup á byggingarrétti á lóðinni. Þar sem tillagan varðaði breytingu á fjárhagsáætlun borgarinnar var henni vísað til samþykktar í borgarstjórn, sbr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga. nr. 138/2011. Tillagan var samþykkt á fundi borgarstjórnar, dags. 15. nóvember 2016.</p><p>Meðal gagna málsins er tölvupóstur lögfræðings umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 8. júní 2015, þar sem meðal annars kemur fram að ekki sé hægt að fella niður gildandi heimildir er varði deiliskipulag að Hverfisgötu 41 bótalaust. Er þar vísað til niðurstöðu borgarlögmanns í minnisblaðinu sem kærandi krefst aðgangs að. Í minnisblaðinu er ekki að finna umfjöllun um önnur efnisatriði málsins en hugsanlega bótaskyldu og koma upplýsingarnar sem það hefur að geyma því annars staðar fram í skilningi 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Í ljósi þess að ekki var farin sú leið að láta reyna á bótaskyldu borgarinnar eru þau almennu sjónarmið sem rakin eru í minnisblaðinu að mati úrskurðarnefndarinnar ekki ómissandi til skýringar á ákvarðanatöku í málinu, sbr. athugasemdir við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga. Samkvæmt framangreindu var Reykjavíkurborg heimilt að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblaðinu á þeirri forsendu að um vinnugagn væri að ræða í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga.</p><p>Það athugast að við töku hinnar kærðu ákvörðunar tók Reykjavíkurborg ekki afstöðu til þess hvort kæranda skyldi veittur aukinn aðgangur að umbeðnum gögnum, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, svo sem skylt er skv. 2. mgr. ákvæðisins. Enda þótt fallist sé á það með Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblaðinu leikur enginn vafi á því að borginni var jafnframt heimilt að veita honum aðgang að því á grundvelli sjónarmiða um aukinn aðgang og markmið upplýsingaréttar almennings, sbr. 1. gr. upplýsingalaga. Því er beint til Reykjavíkurborgar að taka afstöðu til þessa atriðis við meðferð beiðna um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögunum í framtíðinni.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Staðfest er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. júlí 2017, um að synja A um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns varðandi Hverfisgötu 41, dags. 20. maí 2015,.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;<br></p>

727/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018

Kærð var synjun Lindarhvols ehf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum um söluferli félagsins á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf. Kærandi kvaðst hafa tekið þátt í söluferlinu og byggði beiðni sína á III. kafla upplýsingalaga. Lindarhvoll ehf. veitti kæranda aðgang að hluta en um önnur gögn var ýmist vísað til þess að þau væru vinnugögn, hefðu að geyma upplýsingar um einkamálefni sem leynt skyldu fara eða fælu í sér bréfaskipti við sérfróða aðila í tengslum við dómsmál. Úrskurðarnefndin fór yfir umbeðin gögn með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti sem þátttakandi í söluferlinu ríkan rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að þeim.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 15. mars 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 727/2018 í máli ÚNU 16120006.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 3. janúar 2017, kærði A hrl., f.h. Frigusar II ehf., synjun Lindarhvols ehf., á beiðni, dags. 24. nóvember 2016, um aðgang að fyrirliggjandi gögnum varðandi sölu Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf. Vísað var til 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um rétt kæranda til aðgangs. Sérstaklega var óskað eftir eftirfarandi gögnum:</p><p><ol><li>Fundargerðum Lindarhvols ehf. þar sem fjallað er um sölu á eignarhluta í Klakka ehf. og tengdum kröfum.<br></li><li>Öllum bréfum og öðrum gögnum sem lágu fyrir á stjórnarfundum og lúta að málinu.<br></li><li>Öllum tölvupóstum, minnisblöðum og öðrum gögnum sem varða málið og sem send voru milli ráðgjafa Lindarhvols ehf., þ.m.t. samskipti við starfsmenn Íslaga hf. og stjórnar Lindarhvols ehf.<br></li><li>Afritum af tilboðum sem bárust í söluhlutinn og samantekt sem kynnt var stjórn, hafi málið verið lagt þannig fyrir stjórnina.&nbsp;<br></li><li>Skráðum samskiptum allra tilboðsgjafa við Lindarhvol ehf.<br></li></ol></p><p>Með erindi, dags. 20. desember 2016, kærði kærandi drátt á meðferð beiðninnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með kæru fylgdi staðfesting Kviku banka hf., dags. 23. nóvember 2016, þar sem fram kom að bankinn hefði lagt fram tilboð fyrir hönd kæranda í eignarhluta í Klakka ehf. og tengda nauðasamningskröfu sem Lindarhvoll ehf. auglýsti til sölu.</p><p>Kæra kæranda var kynnt kærða með bréfi, dags. 2. janúar 2017, og veittur frestur til afgreiðslu beiðninnar. Svör Lindarhvols ehf. bárust þann 16. janúar 2017. Þar kemur fram að kæranda hafi verið svarað þann 20. desember 2016. Fram kemur m.a. að kærandi hafi fengið aðgang að hluta gagnanna á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en kærandi hafi ekki verið meðal þeirra aðila sem gerðu tilboð í söluferlinu og eigi því ekki rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Félagið hafi hvorki skilað inn tilboði í eigin nafni né hafi annar aðili skilað inn tilboði fyrir hönd félagsins. Þá kemur fram að kæranda hafi verið synjað um aðgang að gögnum í 1.-3. tölul. gagnabeiðninnar þar sem þau falli undir undanþágu 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Þá hafi kæranda verið synjað um aðgang að gögnum í 4. og 5. tölul. gagnabeiðninnar þar sem þau falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Kærandi hafi fengið afhent öll þau gögn sem ekki lytu fyrrgreindum takmörkunum. Bent er á að mælt sé fyrir um þagnarskyldu stjórnarmanna Lindarhvols ehf., starfsmanna og ráðgjafa við framkvæmd starfa sinna í 4. málsl. 4. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001, sbr. lög nr. 24/2016. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 24/2016 komi fram að þar sem félagið hafi með höndum upplýsingar sem varða viðskipta- og einkamálefni sé mælt fyrir um þagnarskyldu þessara aðila. Því liggi fyrir tilgreining á þeim upplýsingum sem löggjafinn hafi talið að trúnaður skuli ríkja um í starfsemi Lindarhvols ehf. Með hliðsjón af því telji Lindarhvoll ehf. að samskipti við tilboðsgjafa og gögn og upplýsingar um tilboð hvers og eins falli undir 9. gr. upplýsingalaga og hafi þá verið litið til þess að upplýsingar um fjárhæðir tilboða og hæstbjóðanda hafi þegar verið veittar og birtar opinberlega.</p><p>Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með erindi, dags. 3. janúar 2017. Kærandi krefst þess að honum verði veittur aðgangur að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Upplýsingarnar varði opið söluferli á nauðungarsamningskröfu og hlutafé í Klakka ehf. en kærandi hafi verið meðal tilboðsgjafa. Vísað er til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi skýrt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga þannig að þátttakendur í opinberum útboðum eigi rétt til aðgangs að útboðsgögnum sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga. Þá hafi úrskurðarnefndin talið 14. gr. upplýsingalaga eiga við þegar um sé að ræða annars konar ráðstafanir á opinberum eignum og gæðum, svo sem þegar lögaðili í opinberri eigu óskar eftir tilboðum í leigurými og þegar um sé að ræða innkaup stjórnvalds samkvæmt rammasamningum. Kærandi telur sömu sjónarmið eiga við varðandi sölu Lindarhvols ehf. á eignum ríkisins. Tilboðsgjafar í eignarhlutinn hafi ríka hagsmuni af því að geta tryggt að rétt hafi verið staðið að ferlinu og að jafnræðis og hlutlægni hafi sannanlega verið gætt. Kærandi eigi því rétt til allra þeirra gagna sem ekki lúti takmörkun á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.</p><p>Í kæru er vísað til 4. mgr. ákvæðis III. til bráðabirgða við lög nr. 24/2016 þar sem fram kemur að Lindarhvoll ehf. skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni við umsýslu, fullnustu og sölu þeirra verðmæta sem félagið fer með. Kærandi hafi gert margvíslegar athugasemdir við söluferlið. Ómögulegt sé fyrir kæranda og aðra tilboðsgjafa að tryggja að jafnræðis og hlutlægni hafi verið gætt við söluna án þess að fá nánari upplýsingar en kærði vill veita. Þá ríki ekki gagnsæi í söluferlinu ef aðrir tilboðsgjafar fái ekki aðgang að innsendum tilboðum til að geta staðfest að hæsta boði hafi í raun verið tekið.</p><p>Kærandi gerir athugasemdir við að Lindarhvoll ehf. hafi synjað honum um upplýsingar með vísan til 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Ljóst sé að hluti umbeðinna gagna geti ekki talist vinnugögn en það eigi m.a. við um gögn er heyri undir 1., 4. og 5. tölul. gagnabeiðninnar og hluta af þeim upplýsingum sem óskað hafi verið eftir í 2. og 3. tölul. gagnabeiðninnar. Þetta eigi m.a. við um fundargerðir, bréf og tölvupóstsamskipti við tilboðsgjafa og aðra utanaðkomandi aðila og tilboð tilboðsgjafa. Í synjuninni sé auk þess ekki rökstutt hvaða fyrirliggjandi gögn séu vinnugögn og hver ekki.&nbsp;</p><p>Þá telur kærandi Lindarhvoli ehf. ekki stætt á að synja um aðgang að upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Kærandi áréttar að til þess að undanþágan eigi við verði að liggja fyrir að í umbeðnum gögnum séu að finna upplýsingar sem varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Kærandi telur ólíklegt að öll þau gögn sem kærandi óskaði eftir feli í sér svo mikilvægar viðskiptaupplýsingar um tilboðsgjafa að þau geti lotið leynd á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Að auki telur kærandi að hann eigi rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Réttur hans til upplýsinga lúti því takmörkun á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laganna og verði rétturinn því aðeins takmarkaður ef fjárhags- og viðskiptahagsmunir þriðja aðila eru sannanlega ríkari en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að gögnunum. Kærandi hafi augljósa hagsmuni af því að vita hvort réttum reglum hafi verið fylgt við söluferlið.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 20. janúar 2017, var kæran kynnt Lindarhvoli ehf. og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.</p><p>Í umsögn Lindarhvols ehf., dags. 30. janúar 2017, kemur fram að með ákvæði til bráðabirgða III við lög um Seðlabanka Íslands sé kveðið á um móttöku og ráðstöfun svokallaðra stöðugleikaeigna. Skipan á ráðstöfun þessara eigna fari ekki fram með sama hætti og þegar hefðbundnar ríkiseignir séu seldar heldur eftir því sérstaka fyrirkomulagi á sviði einkaréttar sem kveðið væri á um í bráðabirgðaákvæðinu. Ríkisendurskoðun sé falið í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að hafa sérstakt eftirlit með framkvæmd samnings ráðherra við félagið auk þess sem efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis sé ársfjórðungslega gerð grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna. Tekið er fram að ákvæði upplýsingalaga taki til starfsemi Lindarhvols ehf. á grundvelli 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Í starfsemi félagsins og þar með við allan undirbúning og meðferð mála fram að samningagerð væri farið eftir fyrirmælum bráðabirgðaákvæðis III laga um Seðlabanka Íslands og að ákvæði stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar séu lagðar til grundvallar eftir því sem við eigi hverju sinni.</p><p>Ítrekað er að kærandi hafi ekki verið á meðal þeirra aðila sem gerðu tilboð í kaup á nauðsamningskröfu Klakka ehf. Annar aðili hafi heldur ekki gert tilboð í nafni félagsins. Kvika banki hf. hafi vissulega skilað inn tilboði en í engu hafi þess verið getið að það væri fyrir hönd ónafngreinds viðskiptavinar. Því væri ekki mögulegt að líta svo á að kærandi sé aðili í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.</p><p>Kærði segir önnur gögn en þau sem þegar eru aðgengileg kæranda vera vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga og þar með undanþegin upplýsingarétti kæranda með vísan til 5. tölul. 6. gr. laganna. Þá falli samskipti kærða við lögmann félagsins undir takmörkun 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga. Sérstaklega er vísað til þess að í kjölfar loka tilboðsfrests hafi verið tilefni til að kanna stöðu kærða í tengslum við möguleika á málshöfðun. Fyrir liggur að Kvika banki hf. skilaði öðru tilboði eftir að tímafrestir runnu út og gerði þegar í kjölfarið ýmsar athugasemdir við framkvæmd söluferlisins. Um þetta atriði er m.a. vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í málinu A-515/2013.</p><p>Þá hafi kæranda verið synjað um aðgang að upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga en ákvæðið eigi við um gögn sem falli undir töluliði 4 og 5 í gagnabeiðninni. Vísað er til þagnarskylduákvæðis í 4. málsl. 4. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sbr. lög nr. 24/2015. Tekið er fram að þær upplýsingar sem almennt verði að telja skipta mestu um ráðstöfun á þeim hagsmunum sem hér um ræðir, þ.e. fjárhæðir þeirra þriggja gildu tilboða sem bárust í kröfuna og upplýsingar um þann aðila sem átti hæsta tilboðið, hafi þegar verið gerðar opinberar.</p><p>Umsögn Lindarhvols ehf. var kynnt kæranda með bréfi, dags. 31. janúar 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 3. febrúar 2017, kemur fram að Kvika banki hf. hafi staðfest að bankinn hafi lagt tilboðið fram fyrir hönd kæranda. Kærandi væri því aðili í skilningi 14. gr. upplýsingalaga þar sem hann ætti einstakra hagsmuna að gæta af afhendingu gagnanna umfram almenning. Hvað varðar synjun Lindarhvols ehf. á beiðni um aðgang að gögnum undir 1.-3. tölul. gagnabeiðninnar bendir kærandi á að samskipti við starfsmenn Íslaga hf. geti almennt ekki talist til vinnugagna í þessum skilningi enda sé um að ræða gögn sem hafi verið afhent öðrum. Þá sé óljóst hvort B hrl., sem sá um söluferlið fyrir Lindarhvol ehf., sé starfsmaður félagsins eða hvort hann hafi sinnt störfum fyrir félagið sem verktaki. Eigi hið síðarnefnda við geti þau gögn sem hann útbjó fyrir Lindarhvol ehf. ekki talist til vinnugagna, sbr. athugasemdir við 8. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, þar sem fram komi að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna í skilningi 8. gr. laganna. Vakin er athygli á því að í 3. tölul. gagnabeiðni sé sérstaklega beðið um tölvupósta, minnisblöð og önnur gögn sem send voru milli ráðgjafa Lindarhvols ehf. og félagsins.</p><p>Kærandi telur ljóst af orðalagi ákvæðis 4. málsl. 4. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög nr. 36/2001 að um sé að ræða almenna reglu um þagnarskyldu sem takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum sbr. 3. mgr. 4. gr. þeirra laga. Söluferlinu sé lokið og því vandséð hvernig aðgangur að upplýsingum í tilboðum geti valdið tilboðsgjöfum tjóni. Þá efast kærandi um að öll skráð samskipti tilboðsgjafa við Lindarhvol ehf., sbr. 5. tölul. gagnabeiðni, geymi upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni tilboðsgjafa. Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál meti hvort þau gögn sem heyri undir 4. og 5. tölul. í gagnabeiðni og sem lúta að samskiptum tilboðsgjafa við kærða, þ. á m. afrit af tilboðum, geymi í raun slíkar upplýsingar.</p><p>Hvað varðar upplýsingar undir 3. og 4. tölul. í gagnabeiðni leggur kærandi sérstaka áherslu á að fá aðgang að upplýsingum sem staðfesta hvenær tilboð bárust kærða, bæði dagsetningu og nákvæma tímasetningu. Slíkar upplýsingar geti engan veginn talist til mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna viðkomandi tilboðsgjafa og enn síður til vinnugagna. Þessar upplýsingar séu augljóslega fyrirliggjandi. Tekið er fram að nægjanlegt sé að fá afrit af tölvupóstum þar sem fram komi dagsetning og tímasetning eða þá póststimpill umslaga ef tilboð bárust ekki með tölvupóstum. Kærandi telur sig eiga rétt til þessara upplýsinga bæði á grundvelli 14. gr. og 5. gr. upplýsingalaga. Hafi þessar upplýsingar ekki borist úrskurðarnefnd um upplýsingamál fer kærandi fram á að nefndin kalli sérstaklega eftir þeim. Að lokum tekur kærandi fram að hann geti framvísað formlegu umboði frá Kviku banka ehf. til að afla upplýsinganna fyrir hönd bankans ef þess sé óskað.</p><p>Kærandi sendi frekari athugasemdir með bréfi, dags. 10. febrúar 2017. Þar kemur m.a. fram að kærandi krefjist aðgangs að öllum tilboðsgögnum að undanskildum þeim upplýsingum sem sannanlega séu til þess fallnar að valda tilboðsgjöfum tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Kærandi telur ljóst að fyrirvarar í tilboðum geti enga þýðingu haft fyrir tilboðsgjafa eftir að tilboði er tekið og kaupsamningur kemst á. Það eigi ekki síst við um þá fyrirvara sem kunni að vera í tilboðum tilboðsgjafa sem hafi ekki fengið tilboð sín samþykkt. Auk þess sér kærandi engin skynsamleg rök fyrir því að halda fyrirvörum í tilboðum hæstbjóðanda leyndum enda geti þeir haft áhrif á efni tilboðsins. Þá tekur kærandi fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi staðfest í bréfi til umboðsmanns Alþingis, dags. 31. janúar 2017, að allar stöðugleikaeignir sem Lindarhvoli hafi verið falin úrvinnsla á væru færðar ríkissjóði til eignar í ríkisreikningi, óháð því hvort þær væru í söluferli. Því sé ekki vafi á því að upplýsingabeiðni kæranda lúti að ráðstöfun á ríkiseignum.</p><p>Með bréfum, dags. 6. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þeirra sem gerðu tilboð í söluhlutinn til þess að kæranda verði veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Með erindi, dags. 6. mars 2017, lagðist Ásaflöt ehf. gegn því að kærandi fengi aðgang að tilboðum þess og að upplýst verði um þátttöku félagsins í ferlinu. Ásaflöt ehf. telur umbeðnar upplýsingar og gögn falla undir þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sbr. ákvæði til bráðabirgða III og 1. mgr. 35. gr. laganna en bæði ákvæðin feli í sér reglu um sérstaka þagnarskyldu. Þá telur félagið upplýsingarnar einnig undanþegnar upplýsingarétti á grundvelli 9. gr. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Auk þess er vísað til þess að Lindarhvoll ehf. hafi heitið trúnaði við söluferlið en hann taki m.a. til þess að ekki verði veittar upplýsingar um aðra þátttakendur í ferlinu en þann sem gengið var til samninga við. Augljóst sé að upplýsingar um nöfn þátttakenda í ferlinu teljist viðkvæmar en það leiði m.a. af þeim fjárhagslegu skilyrðum sem sett hafi verið, þ.e. að kaupverð skyldi greitt í reiðufé við afhendingu. Að auki megi ráða í viðskiptaáætlanir og fjárhagslega stöðu félagsins verði veittur aðgangur að upplýsingunum. Félagið bendir á að kærandi geti ekki haft nokkra hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum er varði það enda fyrirséð að kærandi muni ekki öðlast frekari innsýn í þau sjónarmið sem Lindarhvoll ehf. beitti þegar hæsta boði var tekið.</p><p>Í bréfi BLM fjárfestinga ehf., dags. 1. mars 2017, leggst félagið gegn því að kæranda verði veittur aðgangur að tilboði þess sem og öðrum gögnum í tengslum við sölu Lindarhvols ehf. M.a. er vísað til þess að upplýsingarnar falli undir þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sbr. ákvæði til bráðabirgða III og 1. mgr. laganna. Ljóst sé að 4. mgr. ákvæðis bráðabirgða III í lögum nr. 36/2001 feli í sér sérstaka þagnarskyldureglu. Þá hafi Lindarhvoll ehf. heitið fullum trúnaði við söluferlið en gert hafi verið ráð fyrir trúnaðaryfirlýsingum. Auk þess varði umbeðnar upplýsingar mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins og séu því undanþegnar upplýsingarétti almennings samkvæmt 9. gr. laganna. Kærandi hafi ekki verið meðal tilboðsgjafa og eigi því ekkert tilkall að lögum til slíkra upplýsinga.</p><p>Með bréfi, dags. 13. febrúar 2017, samþykkti Kvika banki ehf. að kærandi fengi aðgang að gögnum varðandi tilboð bankans í eignahluti bankans og tengda nauðasamningskröfu.</p><p>Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem tengjast sölu Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf. Lindarhvoll ehf. er félag sem stjórnvöld settu á fót til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum ríkissjóðs, mótteknum samkvæmt III ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.</p><p>Kærandi er einkahlutafélag sem kveðst hafa tekið þátt í söluferlinu og telur sig því eiga ríkari rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum samkvæmt III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Þessi túlkun nefndarinnar á ákvæðinu á sér stoð í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 120/2014. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í opinberum innkaupum teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að gögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í innkaupaferlinu, sem verða til áður en gengið er til samninga við tiltekinn bjóðanda.&nbsp;Sömu sjónarmið eiga við um þá sem taka þátt í opinberum söluferlum.</p><p>Ágreiningur er á milli aðila málsins um hvort kærandi hafi raunverulega tekið þátt í söluferlinu, en hann kveður Kviku banka hf. hafa sent tilboð fyrir sína hönd. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ríkari réttur aðila til aðgangs að upplýsingum um hann sjálfan, skv. III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012, verður almennt ekki framseldur öðrum. Þegar vafi leikur á því hvort sá sem beiðist upplýsinga á þessum grundvelli uppfylli skilyrði til þess verður að skera úr um það eftir almennum reglum um sönnun í stjórnsýslumálum. Eins og atvikum málsins er háttað er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kærandi hafi sýnt nægjanlega fram á að tilboð Kviku banka hf. í eignarhluta í Klakka ehf. og tengda nauðasamningskröfu hafi verið sett fram fyrir hönd kæranda, enda er staðfesting bankans á því á meðal gagna málsins. Verður því lagt til grundvallar að tilboð Kviku banka hf. hefði bundið kæranda, ef það hefði verið samþykkt, og kærandi njóti því réttar til aðgangs að gögnum um söluferlið samkvæmt III. kafla upplýsingalaga.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Með ákvæði III til bráðabirgða í lögum um Seðlabanka Íslands nr. 38/2001 var lagt til að bankinn stofnaði félag til að annast umsýslu, fullnusta og sölu verðmæta sem ekki voru laust fé eða eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum. Lindarhvoll ehf. var stofnað þann 15. apríl 2016 í þessu skyni. Samkvæmt ákvæðinu eru stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu félagsins bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.&nbsp;&nbsp; Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er hér um almennt þagnarskylduákvæði að ræða, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Er þá litið til þess að ekki eru þar sérgreindar upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja um. Ekki verður því talið að ákvæðið takmarki rétt kæranda til aðgangs að gögnum umfram það sem upplýsingalög leyfa.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Með beiðni kæranda var óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum í vörslum Lindarhvols ehf. sem varða sölu Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf., einkum:</p><p><ol><li>Fundargerðum Lindarhvols ehf. þar sem fjallað er um sölu á eignarhluta í Klakka ehf. og tengdum kröfum.<br></li><li>Öllum bréfum og öðrum gögnum sem lágu fyrir á stjórnarfundum og lúta að málinu.<br></li><li>Öllum tölvupóstum, minnisblöðum og öðrum gögnum sem varða málið og sem send voru milli ráðgjafa Lindarhvols ehf., þ.m.t. samskipti við starfsmenn Íslaga hf. og stjórnar Lindarhvols ehf.<br></li><li>Afritum af tilboðum sem bárust í söluhlutinn og samantekt sem kynnt var stjórn, hafi málið verið lagt þannig fyrir stjórnina.&nbsp;<br></li><li>Skráðum samskiptum allra tilboðsgjafa við Lindarhvol ehf.<br></li></ol></p><p>&nbsp;</p><p>Lindarhvoll ehf. hefur afmarkað beiðni kæranda við tiltekin gögn í vörslum félagsins. Um er að ræða eftirfarandi gögn:</p><p><ol><li>Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 20. október 2016.<br></li><li>Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., 18. október 2016.<br></li><li>Tölvupóstar B hrl. til stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 15. október 2016 og 16. október 2016.<br></li><li>Drög að minnisblaði B hrl., dags. 19. október 2016, sem lágu fyrir á stjórnarfundi Lindarhvols ehf., dags. 20. október 2016.<br></li><li>Afrit af þeim þremur tilboðum sem bárust innan tilboðsfrests.<br></li><li>Afrit af staðfestingum Lindarhvols ehf. á móttöku þeirra tilboða sem bárust innan tilboðsfrests.<br></li><li>Afrit af svarbréfum Lindarhvols ehf. til þeirra þriggja tilboðsgjafa sem skiluðu tilboðum innan tilboðsfrests.<br></li><li>Afrit af gögnum um samskipti við tilboðsgjafana þrjá.<br></li><li>Kaupsamningur um kaup á nauðasamningskröfum í Klakka ehf., dags. 1. nóvember 2016.</li></ol></p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að ætla að í vörslum Lindarhvols ehf. séu fleiri gögn sem falla undir gagnabeiðni kæranda. Félagið hefur afhent úrskurðarnefndinni afrit af þeim og verður farið yfir þau og rétt kæranda til aðgangs að þeim hér á eftir.</p><h3><b>4.</b></h3><p>Fyrst koma til skoðunar fundargerðir 10. og 11. fundar stjórnar Lindarhvols, dags. 18. og 20. október 2016. Af hálfu Lindarhvols ehf. hefur komið fram að kærandi hafi fengið aðgang að þeim hluta fundargerðar 11. fundar stjórnarinnar sem falli undir beiðni hans. Af efni fundargerðarinnar verður ráðið að átt sé við umræður undir 2. tölulið hennar. Undir 1. og 3. tölulið er ekki að finna aðrar umræður en um næsta stjórnarfund félagsins. Þá er ekkert í fundargerðinni sem úrskurðarnefndin telur að falli utan upplýsingaréttar kæranda samkvæmt 2. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að fundargerðinni í heild sinni á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins.</p><p>Í fundargerð stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 18. október 2016, er rætt um söluferli Klakka ehf. undir 3. tölulið ásamt tveimur öðrum. Af hálfu Lindarhvols ehf. hefur komið fram að félagið telji efni fundargerðarinnar til vinnugagna í skilningi 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin hefur áður tekið fram að fundargerðir kunni að teljast til vinnugagna, en þó eingöngu þegar þær&nbsp;(1) þær eru ritaðar af starfsmanni viðkomandi aðila (2) þær eru ekki afhentar öðrum heldur einvörðungu til eigin afnota fyrir starfsmenn og (3) þær eru notaðar með sama hætti og vinnuskjöl eru almennt notuð við meðferð mála.&nbsp;Í síðastnefnda skilyrðinu felst að fundargerðirnar séu undirbúningsgögn í reynd. Að þessu er vikið í athugasemdum við ákvæði 8. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum:</p><blockquote><p>Stjórnvöldum er að lögum falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Þá getur verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geyma lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þarf að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skal stefnt. Þegar stjórnvöld standa frammi fyrir slíkum verkefnum verða þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiðir að það tekur einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunna ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram koma nýjar upplýsingar. Gögn sem til verða í slíku ferli þurfa ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt.</p></blockquote><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fellur umfjöllun undir 3. tölulið fundargerðar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 18. október 2016, ekki að þessari lýsingu á undirbúningsgögnum. Þar er ekki að finna umfjöllun um ólík sjónarmið sem vega þarf og meta eða gagnstæðar röksemdir sem taka þurfi tillit til við töku ákvörðunar. Þess í stað er farið yfir stöðu söluferlisins, framlögð tilboð og tekin ákvörðun um að síðara tilboð Kviku banka hf. hafi borist eftir lok tilboðsfrests. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber umfjöllunin þess heldur merki að teknar hafi verið endanlegar ákvarðanir um afgreiðslu máls, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, sbr. 5. tölul. 6. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr., en að um sé að ræða raunverulegt undirbúningsgagn. Í þessu sambandi hefur úrskurðarnefndin hliðsjón af því að takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum ber að skýra þröngt. Verður því lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að þeim hluta fundargerðarinnar sem fellur undir beiðni hans, auk almennrar umfjöllunar í henni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.</p><h3><b>5.</b></h3><p>Lindarhvoll ehf. hefur borið fyrir sig að tölvupóstar frá B hrl., dags. 15. og 16. október 2016, teljist til vinnugagna í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Sama gildir um minnisblað, dags. 19. október 2016, sem lá fyrir á fundi stjórnar félagsins þann 20. október 2016.</p><p>Í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga er tekið fram að vinnugögn séu gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í skýringum við ákvæðið er tekið fram að gagnið skuli ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og megi ekki hafa verið afhent öðrum. Í skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna í skilningi ákvæðisins. Af gögnum málsins telur úrskurðarnefndin ljóst að B hrl. sé utanaðkomandi sérfræðingur í þessum skilningi gagnvart Lindarhvoli ehf. Til að mynda eru tölvupóstarnir sendir af netfangi hans hjá lögmannsstofu og minnisblaðið ritað á bréfsefni hennar. Þá hefst minnisblaðið á orðunum: „Lindarhvoll ehf. hefur falið undirrituðum lögmanni...“. Loks er litið til þess að af hálfu Lindarhvols ehf. hefur komið fram að félagið telji 3. tölul. 6. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr., upplýsingalaga nr. 140/2012 eiga við um minnisblaðið, en þar er fjallað um bréfaskipti aðila sem falla undir upplýsingalög við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál sé höfðað. Samkvæmt framangreindu er ekki uppfyllt það skilyrði vinnugagna um tölvupóstana og minnisblaðið að þau séu rituð eða útbúin til eigin nota, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Eru því ekki skilyrði til að synja kæranda um aðgang að þeim á þessum grundvelli. Lindarhvoll ehf. hefur ekki vísað til annarra takmarkana upplýsingalaga á aðgangi kæranda að tölvupóstunum og hefur skoðun úrskurðarnefndarinnar ekki leitt slíkar takmarkanir í ljós. Ber því að veita kæranda aðgang að þeim á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.</p><p>Eins og áður segir hefur Lindarhvoll ehf. einnig synjað kæranda um aðgang að minnisblaðinu á grundvelli 3. tölul. 6. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr., upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að þessi takmörkun á upplýsingarétti almennings á samkvæmt orðalagi ákvæðisins einungis við þegar gagna er aflað til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort dómsmál skuli höfðað, sbr. athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga. Undanþágan tekur ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt, sbr. athugasemdir við ákvæðið í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga. Þar sem minnisblaðið ber ekki með sér að vera unnið í tengslum við rekstur dómsmáls verður heldur ekki fallist á það með Lindarhvoli ehf. að heimilt hafi verið að takmarka rétt kæranda til aðgangs að því á þessum grundvelli. Verður því lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu.</p><h3><b>6.</b></h3><p>Þá koma til skoðunar tilboð í söluhlutinn sem bárust Lindarhvoli ehf. innan tilboðsfrests og móttökustaðfestingum. Um er að ræða þrjú tilboð sem öll bárust föstudaginn 14. október 2016. Synjun Lindarhvols á beiðni kæranda um aðgang að þeim byggðist á 9. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.&nbsp;Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir m.a.:</p><blockquote><p>Algengt er á hinn bóginn að [...] gögn hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila. Þegar fram kemur beiðni um aðgang að slíkum gögnum er þannig líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felst í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir eru að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. frumvarpsins.&nbsp;</p><p>Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.</p></blockquote><p>&nbsp;Í athugasemdunum kemur einnig fram að þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti það haft mikið vægi að miklir hagsmunir standi til þess að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Að því leyti sem slíkar upplýsingar kunna að hafa áhrif á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem semja við opinbera aðila um slíkar ráðstafanir eða taka þátt í útboðum vegna slíkra ráðstafana hefur úrskurðarnefndin miðað við að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Eins og áður segir gilda sömu sjónarmið um opinber söluferli.</p><p>Í ljósi þessa hafði kærandi hagsmuni af því að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum til að geta borið sig saman við aðra þátttakendur til að átta sig á því hvernig staðið var að ákvörðun um söluna. Þótt kærandi eigi mesta hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum um þann aðila sem varð hlutskarpastur kann hann einnig að hafa gagn af því að sjá gögn annarra umsækjenda, til að öðlast frekari innsýn í þau skilyrði sem Lindarhvoll ehf. beitti við val á milli þeirra. Ekki er unnt að fallast á að upplýsingar um að tiltekinn lögaðili hafi tekið þátt í opinberu söluferli teljist til upplýsinga um einkamálefni hans í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga í ljósi framangreindra sjónarmiða. Því var Lindarhvoli ehf. ekki stætt á því að heita þátttakendum í söluferlinu trúnaði um þátttökuna. Félagið er bundið af ákvæðum upplýsingalaga og frá þeim verður ekki vikið með yfirlýsingum af þessu tagi.</p><p>Samkvæmt framangreindu þarf að vega hagsmuni kæranda af aðgangi að tilboðunum og móttökustaðfestingunum gegn hagsmunum bjóðenda af því að efni þeirra fari leynt. Við matið hefur úrskurðarnefndin m.a. hliðsjón af afstöðu þeirra, sem aflað var við meðferð málsins á grundvelli 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.</p><p>Boð Ásaflatar ehf. var sent með tölvupósti þann 14. október 2016. Tilboðið er tvær blaðsíður að lengd og á íslensku. Af hálfu félagsins hefur komið fram að ráða megi í viðskiptaáætlanir og fjárhagslega stöðu félagsins ef kæranda verði veittur aðgangur að tilboðinu. Skoðun úrskurðarnefndarinnar á skjalinu gefur ekki tilefni til að fallast á þetta. Engar upplýsingar eru um aðrar fyrirætlanir félagsins en að eignast hluti í Klakka og tilheyrandi nauðasamningskröfu. Þá telur úrskurðarnefndin upplýsingar um fyrirvara við tilboðið ekki vera þess eðlis að þær teljist til einkamálefna félagsins, þannig að leynd yfir þeim gangi framar hagsmunum kæranda af því að kynna sér upplýsingar um söluferlið. Ber Lindarhvoli ehf. því að veita kæranda aðgang að tilboði Ásaflatar ehf. á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Sama gildir um staðfestingu Lindarhvols ehf. á mótttöku tilboðsins, enda verður ekki séð að nokkur rök standi til þess að synja kæranda um aðgang að henni.</p><p>Sömu sjónarmið gilda að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál um tilboð BLM fjárfestinga ehf. Tilboðinu fylgja staðlaðir samningsskilmálar sem eru nokkuð umfangsmiklir en ekki verður séð að þeir hafi að geyma nokkur viðskiptaleyndarmál eða aðrar upplýsingar sem leynt eiga að fara á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Að minnsta kosti er að mati nefndarinnar ljóst að hagsmunir kæranda af því að geta lagt mat á það hvernig staðið var að vali tilboða vega eins og hér stendur á þyngra en hagsmunir BLM fjárfestinga ehf. af því að upplýsingarnar fari leynt.</p><p>Loks er tilboð kæranda sjálfs á meðal umbeðinna gagna. Enda þótt ætla verði að kærandi hafi í fórum sínum afrit af því getur hann engu að síður átt hagsmuni af því að staðreyna að Lindarhvoll ehf. hafi það í vörslum sínum og sama efnis. Jafnframt er ljóst að engar takmarkanir á upplýsingarétti kæranda eiga við um tilboðið. Verður því lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að því og afritum af mótttökustaðfestingu á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.</p><h3><b>7.</b></h3><p>Næst verður skorið úr um rétt kæranda til aðgangs að afritum af svörum Lindarhvols ehf. til tilboðsgjafanna þriggja og öðrum samskiptum. Almennt verður að telja að kærandi geti átt af því hagsmuni að kynna sér hvernig samskiptum Lindarhvols ehf. við aðra tilboðsgjafa var háttað, enda geta slíkar upplýsingar veitt mikilvægar vísbendingar um það hvernig staðið var að söluferlinu. Hins vegar ber að staðfesta synjun Lindarhvols ehf. að því leyti sem í samskiptunum koma fyrir upplýsingar sem félaginu var heimilt að undanskilja á grundvelli 3. mgr. 14. gr., sbr. 9. gr., upplýsingalaga.</p><p>Með tölvupóstum, dags. 20. október 2016, tilkynnti Lindarhvoll ehf. tilboðsgjöfum að þrjú tilboð hefðu borist og að gengið verði að einu þeirra. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin voru að framan um tilboðin sjálf er það mat úrskurðarnefndarinnar að Lindarhvoli ehf. hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um aðgang að tilkynningunum. Úrskurðarnefndin fór yfir önnur samskipti Lindarhvols ehf. við tilboðsgjafa með hliðsjón af sömu sjónarmiðum og telur hagsmuni kæranda af aðgangi að þeim í öllum tilvikum vega þyngra en hagsmunir annarra tilboðsgjafa af því að þau fari leynt. Í því sambandi er meðal annars litið til þess að stærstur hluti samskiptanna er á milli Lindarhvols ehf. og Kviku banka, sem hefur samþykkt að kærandi fái aðgang að upplýsingum úr söluferlinu sem bankann varða. Þá er að mati nefndarinnar ekki að finna upplýsingar í samskiptunum um einkamálefni annarra tilboðsgjafa sem leynt eiga að fara á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því Lindarhvoli ehf. að veita kæranda aðgang að samskiptunum á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.</p><h3><b>8.</b></h3><p>Loks kemur til skoðunar endanlegur kaupsamningur um kaup á nauðasamningskröfum í Klakka ehf., dags. 1. nóvember 2016. Samningurinn er niðurstaða söluferilsins sem kærandi tók þátt í og hefur kærandi af því mikla hagsmuni að kynna sér hvernig staðið var að samningsgerðinni. Þá felur samningurinn í sér upplýsingar um umtalsverða ráðstöfun opinberra hagsmuna og eru heimildir stjórnvalda til að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum þröngar. Skoðun úrskurðarnefndarinnar hefur ekki leitt í ljós að í samningnum komi fram viðkvæmar upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni kaupanda eða annarra lögaðila í skilningi 3. mgr. 14. gr., sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Verður því lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að samningnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laganna. Þetta á við þrátt fyrir ákvæði samningsins um gagnkvæman trúnað, enda geta opinberir aðilar ekki vikið frá fyrirmælum upplýsingalaga með samningum.</p><p>&nbsp;</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Lindarhvoli ehf. ber að veita kæranda, Frigusi II ehf., aðgang að eftirfarandi gögnum:</p><p><ol><li>Fundargerðum funda stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 18. og 20. október 2016.<br></li><li>Tölvupóstum B hrl. til stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 15. október 2016 og 16. október 2016.<br></li><li>Drögum að minnisblaði B hrl., dags. 19. október 2016, sem lágu fyrir á stjórnarfundi Lindarhvols ehf., dags. 20. október 2016.<br></li><li>Afritum af þeim þremur tilboðum sem bárust innan tilboðsfrests.<br></li><li>Staðfestingum Lindarhvols ehf. á móttöku þeirra tilboða sem bárust innan tilboðsfrests, dags. 14. október 2016.<br></li><li>Afritum af svörum Lindarhvols ehf. til þeirra þriggja tilboðsgjafa sem skiluðu tilboðum innan tilboðsfrests, dags. 20. október 2016.<br></li><li>Afritum af gögnum um samskipti við tilboðsgjafana þrjá, nánar tiltekið:<br>a.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Ásaflatar ehf., dags. 3. október 2016.<br>b.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Fjeldsted og Blöndal lögmannsstofu, f.h. BLM fjárfestinga ehf., dags. 3.-7. október 2016.<br>c.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Kviku banka ehf., dags. 10.-14. október 2016.<br>d.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Kviku banka ehf., dags. 17. október 2016.<br>e.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Kviku banka ehf., dags. 18. október 2016, ásamt fylgiskjali.<br>f.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Kviku banka ehf., dags. 14.-20. október 2016.<br>g.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Fjeldsted og Blöndal lögmannsstofu, f.h. BLM fjárfestinga ehf., dags. 20.-21. október 2016.<br>h.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Tölvupóstsamskiptum Lindarhvols ehf. og Kviku banka ehf., dags. 7.-9. nóvember 2016.</li><li>&nbsp;Kaupsamningi um kaup á nauðasamningskröfum í Klakka ehf., dags. 1. nóvember 2016.<br></li></ol></p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;<br></p>

729/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018

Deilt var um rétt foreldris til aðgangs að samræmdum könnunarprófum og úrlausnum barns í vörslum Menntamálastofnunar. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að hún teldi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að gögnum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf eiga við um umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin rakti ákvæði laga og reglna um próf í grunnskólum og komst að þeirri niðurstöðu að engin þeirra kæmi í veg fyrir aðgang kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Menntamálastofnun að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 15. mars 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 729/2018 í máli ÚNU 17070001.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 29. júní 2017, kærði A þá ákvörðun Menntamálastofnunar að synja honum um aðgang að samræmdum könnunarprófum sem lögð voru fyrir í stærðfræði og íslensku í september 2016. Í kæru fer kærandi jafnframt fram á aðgang að svörum dóttur sinnar og fyrirgjöf fyrir hverja spurningu í prófunum. Kærandi fór fram á aðgang að gögnunum með bréfum, dags. 18. maí 2017 og 12. júní 2017. Menntamálastofnun tók afstöðu til beiðninnar með bréfi, dags. 13. júní 2017, þar sem kæranda var synjað um aðgang að gögnunum. Í bréfinu kemur fram að stofnunin birti ekki prófspurningar samræmdra könnunarprófa.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 6. júlí 2017, var Menntamálastofnun kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Jafnframt var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn Menntamálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. ágúst 2017, ásamt afritum af samræmdum könnunarprófum og fylgiskjali er varðar úrlausnir dóttur kæranda.</p><p>Í umsögninni kemur fram að stofnunin hafi í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið lokað fyrir aðgang að samræmdum prófum frá og með haustönn 2016. Að baki þeirri ákvörðun liggi tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafi stofnunin unnið að innleiðingu rafrænna samræmdra könnunarprófa undanfarið ár og séu einstaklingsmiðuð próf endanlegt markmið þeirrar vinnu. Einungis sé mögulegt að leggja slík próf fyrir á rafrænu formi þar sem prófkerfið þurfi að geta fylgt getu nemandans eftir sjálfvirkt með því að leggja fyrir hann spurningu við hæfi. Þannig velji prófkerfið hærra hlutfall erfiðra prófspurninga fyrir nemendur sem sýni fram á góða hæfni en hærra hlutfall auðveldra prófspurninga fyrir nemendur þar sem hæfnina skorti. Í slíku umhverfi fari niðurstaðan eftir því hve þungum prófspurningum nemandi svari rétt en ekki hve mörgum hann svari rétt. Einstaklingsmiðuð próf byggi á mjög stórum banka af prófspurningum og hann sé í raun svo stór að ekki sé raunhæft að semja ný atriði fyrir hverja próflögn. Fjölbreytni þurfi að vera í því á hvaða hæfni prófspurningar reyni og um leið ákveðinn fjöldi prófspurninga sem reyni á sömu hæfni og séu svipaðar að þyngd. Í prófaumhverfi sem þessu séu prófatriði alla jafna notuð í nokkur ár og gerð opinber þegar notkun sé hætt. Til þess að unnt sé að ná markmiðinu um einstaklingsmiðuð próf sé nauðsynlegt að prófspurningarnar komi ekki fyrir augu almennings á þeim tíma sem þær séu í notkun.</p><p>Annar tilgangur með því að loka fyrir aðgang að prófspurningum sé að gefa stofnuninni kost á að gefa mynd af breytingum og framvindu námsárangurs íslenskra barna í samræmi við hlutverk stofnunarinnar, sbr. ákvæði b. og c.-liðar 1. mgr. 5. gr. laga um Menntamálastofnun nr. 91/2015. Á undanförnum árum hafi prófin einungis gefið upplýsingar um hvernig einstök sveitarfélög, landshlutar eða skólar standi í samanburði við aðra. Ekki séu til &nbsp;upplýsingar um það hvort nemendur eins árs standi sig betur eða verr en nemendur fyrri ára. Til þess að geta útbúið niðurstöður sem gefi mynd af breytingum yfir tíma verði að vera unnt að nota prófspurningar frá fyrra ári til að útbúa tengingu og stilla saman niðurstöður beggja ára.</p><p>Jafnframt kemur fram í umsögninni að fjallað sé nánar um framkvæmd prófanna í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017. Stofnunin vísar til 2. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar í þessu sambandi.</p><p>Stofnunin telur að mikilvægir almannahagsmunir liggi að baki því að birta ekki prófspurningar úr samræmdum könnunarprófum enda sé allt íslenska grunnskólakerfið undir. Þá sé ljóst að fyrirhugað sé að leggja prófspurningarnar fyrir aftur en þær prófspurningar sem stofnunin endurnýti ekki séu gerðar opinberar. Með vísan til þessa telur stofnunin því að uppfyllt séu skilyrði 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga og því sé stofnuninni heimilt að synja um aðgang að prófspurningunum.</p><p>Umsögn Menntamálastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 12. september 2017. Þar tekur kærandi fram að þau próf sem hann óski eftir aðgangi að séu samræmd könnunarpróf en ekki einstaklingsmiðuð próf. Þá ítrekar kærandi beiðni sína um fullan aðgang að samræmdum prófum sem Menntamálastofnun lagði fyrir í stærðfræði og íslensku í september 2016 sem og fullan aðgang að svörum dóttur sinnar og fyrirgjöf fyrir hverja spurningu á prófunum.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang að samræmdum könnunarprófum sem lögð voru fyrir í september 2016 sem og að úrlausnum dóttur kæranda á umræddum prófum ásamt fyrirgjöf fyrir hverja spurningu.</p><p>Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvörðun um einkunnagjöf þegar um er að ræða einkunnir sem reiknast til lokaprófs, er ákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 21. gr. sömu laga. Í 39. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla er fjallað um samræmd könnunarpróf. Af ákvæði 39. gr. og ákvæðum reglugerðarinnar má ráða að samræmt könnunarpróf er ekki lokapróf í grunnskóla, heldur er um að ræða, eins og heiti prófsins gefur til kynna, próf sem lagt er fyrir í þeim tilgangi að kanna stöðu nemandans. Fer því um aðgang kæranda að prófunum eftir upplýsingalögum nr. 140/2012.</p><p>Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um skyldu þeirra sem heyra undir lögin að veita aðila aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan, sé þess óskað. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ í 1. mgr. ákvæðisins sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Ákvæðið hefur því verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur auðsýnt að upplýsingar um prófúrlausnir barns í grunnskóla varði foreldri með þeim hætti að það hafi sérstaka hagsmuni umfram almenning af því að fá aðgang að úrlausnunum.</p><p>Í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 segir að ákvæði 1. mgr. greinarinnar gildi ekki um gögn sem hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara skv. 10. gr. laganna. Menntamálastofnun styður synjun á beiðni kæranda við 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, væru þau á almannavitorði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en próf er þreytt. Þá er tekið fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að veita skuli aðgang að gögnum þegar ráðstöfunum og prófum sé að fullu lokið nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd lagt til grundvallar við skýringu á 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að sé prófi lokið og ekki fyrirhugað að leggja sama próf aftur í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd beri að veita aðgang að því á grundvelli meginreglu 5. gr. upplýsingalaga. Vísast um þetta m.a. til úrskurða nefndarinnar nr. 710/2017 og 662/2016. Af hálfu Menntamálastofnunar hefur komið fram að verði stofnuninni gert að afhenda prófspurningarnar verði ekki hægt að koma á einstaklingsmiðuðum samræmdum prófspurningum og þá muni stofnunin ekki geta gefið mynd af breytingum og framvindu námsárangurs íslenskra barna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki unnt að fallast á með stofnuninni að aðgangur almennings að samræmdu prófi, sem lagt var fyrir mikinn fjölda grunnskólabarna, geti haft þessi áhrif. Þá geta þessi sjónarmið í öllu falli ekki leitt til þess að vikið sé frá meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að samræmdu könnunarprófin verði ekki lögð fyrir í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd ár hvert og því geti þau samkvæmt orðanna hljóðan ekki talist fyrirhuguð í skilningi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Verður því ekki fallist á að 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, komi í veg fyrir rétt kæranda til aðgangs að gögnunum. Því verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að prófúrlausnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem gerðar eru í lögum.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Í synjun Menntamálastofnunar er einnig vísað til 2. mgr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla.</p><p>Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, sem sett var með stoð í 4. mgr. 39. gr. laga um grunnskóla segir:</p><blockquote><p>Menntamálastofnun skal birta opinberlega dæmi um prófatriði úr öllum námsgreinum og námsþáttum ásamt lýsingu á þeirri hæfni sem metin er. Þá skal Menntamálastofnun gera prófúrlausnir aðgengilegar fyrir skóla svo hægt sé að skoða svör nemenda. Skólinn afhendir foreldrum prófúrlausnir ef eftir því er óskað.</p></blockquote><p>Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir svo:</p><blockquote><p>Menntamálastofnun er ekki skylt að birta prófatriði samræmdra könnunarprófa hverju sinni enda séu þau endurnýtt við að þróa prófabanka fyrir einstaklingsmiðuð samræmd könnunarpróf.</p></blockquote><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál felur ákvæði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 í sér að Menntamálastofnun sé ekki skylt að birta að eigin frumkvæði prófatriði samræmdra könnunarprófa sé fyrirhugað að endurnýta prófatriðin við að þróa prófabanka. Hér verður hins vegar að hafa sérstaklega í huga að reglugerðarákvæðið getur ekki vikið til hliðar upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum og&nbsp; leysir því ekki Menntamálastofnun undan þeirri skyldu sem lögin leggja henni á herðar. Því verður ekki fallist á það með Menntamálastofnun að 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 standi í vegi fyrir aðgangi kæranda að prófspurningunum.</p><p>Í 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir:</p><blockquote><p>Nemendur og foreldrar þeirra eiga rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þeir eiga jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Slík endurskoðun telst ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga.</p></blockquote><p>Í 2. mgr. 3. gr. laga um grunnskóla segir að foreldrar gæti hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri en foreldri samkvæmt lögunum teljist þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir svo að foreldrar beri ábyrgð á námi barna sinna og beri þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Þá segir m.a. í 3. mgr. 18. gr. laganna að foreldrar skuli fylgjast með og styðja við skólagöngu barna sinna og námsframvindu. Til þess að foreldrar geti rækt hlutverk sitt samkvæmt framangreindum ákvæðum er ljóst að þeir verða að geta aflað sér upplýsinga um námsframvindu barna sinna.</p><p>Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla er skýrt tekið fram að skóli afhendi foreldrum prófúrlausnir á samræmdum könnunarprófum sé eftir því óskað.</p><p>Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefnd &nbsp;um upplýsingamál ekki vafa á því að það foreldri sem fer með forsjá barns eigi rétt á aðgangi að prófúrlausn barns síns. Sama á almennt við enda þótt foreldri fari ekki með forsjá barns en í 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns til aðgangs að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn.&nbsp;Í athugasemdum um ákvæðið í greinargerð til laga nr. 76/2003 segir að það hafi verið tekið upp í barnalög með lögum nr. 23/1995 og sé skýrt í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 23/1995 segir m.a. um 3. gr. frumvarpsins um upplýsingarétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns, að foreldrið hafi réttmætt tilkall til að fylgjast með barni, heilsuhögum þess, þroskaferli, skólagöngu, uppeldi, félagslegri stöðu og þátttöku þess í félagsstarfi o.s.frv. Lögfesting á slíkum aðgangi foreldris að upplýsingum um hagi barns ætti m.a. að bæta hlut forsjárlausa foreldrisins sem verði þó að hafa aðgát er það neytir þessa réttar síns og sýna nærgætni. Þá er tekið fram að ákvæði 3. gr. hafi ekki síst gildi fyrir foreldri sem ekki geti notið hins venjubundna umgengnisréttar, t.d. vegna fjarlægðar frá barni, og geti ekki með þeim hætti kynnt sér hagi barns almennt með umgengni við það. Þá segir að verði 3. gr. frumvarpsins verði lögtekin sé þar með mótuð sú almenna regla sem sé þó ekki undantekningarlaus að það foreldri sem ekki nýtur forsjár eigi yfirleitt aðgang að persónuupplýsingum varðandi barnið til jafns við forsjárforeldrið. Enn fremur er tekið fram að ákvæði 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins um heimild til að synja um upplýsingar sé sniðið að 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en t.d. væri óheimilt að veita mjög viðkvæmar upplýsingar sem gætu verið skaðlegar fyrir barnið, t.d. spillt sambandi þess og foreldris.&nbsp;</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fela upplýsingar um prófúrlausnir barns í samræmdum könnunarprófum í grunnskóla ekki í sér viðkvæmar upplýsingar sem skaðað geti barnið verði forsjárlausu foreldri veittur aðgangur að úrlausnunum. Nefndin telur því ekki skipta máli við mat á því hvort foreldri eigi rétt til aðgangs að prófúrlausn barns í grunnskóla hvort foreldrið hafi forsjá þess eða ekki. Að sama skapi telur nefndin takmörkunarákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti aðila að upplýsingum ekki eiga við um rétt kæranda um aðgang að gögnunum. Loks verður ekki séð að Menntamálastofnun hafi synjað beiðni kæranda um aðgang að gögnum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lýst er í 3. mgr. 52. gr. barnalaga þannig að unnt sé að bera þá ákvörðun undir sýslumann samkvæmt 4. mgr. 52. gr. sömu laga. Synjun Menntamálastofnunnar er því réttilega borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>Samkvæmt framangreindu verður því ekki fallist á það með Menntamálastofnun að heimilt sé að synja kæranda um aðgang að gögnunum.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Menntamálastofnun ber að veita kæranda, A, aðgang að samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir í september 2016 og úrlausnum barns hans á prófunum.</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;<br></p>

730/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018

Deilt var um rétt foreldris til aðgangs að samræmdum könnunarprófum og úrlausnum barns í vörslum Menntamálastofnunar. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að hún teldi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að gögnum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf eiga við um umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin rakti ákvæði laga og reglna um próf í grunnskólum og komst að þeirri niðurstöðu að engin þeirra kæmi í veg fyrir aðgang kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Menntamálastofnun að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.

<h3><b>Úrskurður</b></h3><p>Hinn 15. mars 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 730/2018 í máli ÚNU 17110005.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 9. nóvember 2017, kærði A synjun Menntamálastofnunar á beiðni um afrit af samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði sem sonur hans þreytti 28. og 29. september 2017. Í synjun Menntamálastofnunar, dags. 9. nóvember 2017, segir að með vísan til 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga sé stofnuninni ekki heimilt að afhenda þau prófatriði sem nemandinn tók,. Þá kemur fram í synjun Menntamálastofnunar að kærandi eigi að geta fengið aðgang að svörum sonar síns í grunnskólanum hans. Þar eigi hann jafnframt að geta fengið upplýsingar um hvaða prófatriðum sonur hans hafi svarað rétt og rangt og ennfremur fái hann þar yfirlit yfir öll prófatriði og sýnispróf.</p><p><b>Málsmeðferð</b></p><p>Með bréfi, dags. 17. nóvember 2017, var Menntamálastofnun kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Jafnframt var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn Menntamálastofnunar barst með bréfi, dags. 1. desember 2017. Í umsögninni er vísað til rökstuðnings stofnunarinnar í umsögn við kæru í máli ÚNU 17070001, dags. 24. ágúst 2017, en hann eigi við í þessu máli.</p><p>Umsögn Menntamálastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 5. desember 2017 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 18. desember 2017, segir að nokkuð ljóst sé að rök stofnunarinnar standist ekki, t.d. með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 710/2017. Þá segir að ekki sé fyrirhugað að leggja prófið fyrir aftur og að aukin vinna eða óþægindi fyrir stofnunina geti ekki vikið burt meginreglu 5. gr. upplýsingalaga.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang úrlausnum sonar kæranda í samræmdum könnunarprófum sem lögð voru fyrir í september 2016 sem og að úrlausnum sonar kæranda á prófunum.</p><p>Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvörðun um einkunnagjöf þegar um er að ræða einkunnir sem reiknast til lokaprófs, er ákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 21. gr. sömu laga. Í 39. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla er fjallað um samræmd könnunarpróf. Af ákvæði 39. gr. og ákvæðum reglugerðarinnar má ráða að samræmt könnunarpróf sé ekki lokapróf í grunnskóla, heldur sé um að ræða, eins og heiti prófsins gefur til kynna, próf sem lagt er fyrir í þeim tilgangi að kanna stöðu nemandans. Fer því um aðgang kæranda að prófunum eftir upplýsingalögum nr. 140/2012.</p><p>Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um skyldu þeirra sem heyra undir lögin að veita aðila aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan, sé þess óskað. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ í 1. mgr. ákvæðisins sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Ákvæðið hefur því verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur auðsýnt að upplýsingar um prófúrlausnir barns í grunnskóla varði foreldri með þeim hætti að það hafi sérstaka hagsmuni umfram almenning af því að fá aðgang að úrlausnunum.</p><p>Í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 segir að ákvæði 1. mgr. greinarinnar gildi ekki um gögn sem hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eigi að fara skv. 10. gr. laganna. Menntamálastofnun styður synjun á beiðni kæranda við 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera, ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, væru þau á almannavitorði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en próf er þreytt. Þá er tekið fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að veita skuli aðgang að gögnum þegar ráðstöfunum og prófum sé að fullu lokið, nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd lagt til grundvallar við skýringu á 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að sé prófi lokið og ekki fyrirhugað að leggja sama próf fyrir aftur í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd, beri að veita aðgang að því á grundvelli meginreglu 5. gr. upplýsingalaga. Vísast um þetta m.a. til úrskurða nefndarinnar nr. 710/2017 og 662/2016. Af hálfu Menntamálastofnunar hefur komið fram að verði stofnuninni gert að afhenda prófspurningarnar verði ekki hægt að koma á einstaklingsmiðuðum samræmdum prófspurningum og þá muni stofnunin ekki geta gefið mynd af breytingum og framvindu námsárangurs íslenskra barna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki unnt að fallast á með stofnuninni að aðgangur almennings að samræmdu prófi, sem lagt var fyrir mikinn fjölda grunnskólabarna, geti haft þessi áhrif. Þá geta þessi sjónarmið í öllu falli ekki leitt til þess að vikið sé frá meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að samræmdu könnunarprófin verði ekki lögð fyrir í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd ár hvert og því geti þau samkvæmt orðanna hljóðan ekki talist fyrirhuguð í skilningi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Verður því ekki fallist á að 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, komi í veg fyrir rétt kæranda til aðgangs að gögnunum. Því verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að prófúrlausnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem gerðar eru í lögum.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Í synjun Menntamálastofnunar er einnig vísað til 2. mgr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla.</p><p>Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, sem sett var með stoð í 4. mgr. 39. gr. laga um grunnskóla segir:</p><blockquote><p>Menntamálastofnun skal birta opinberlega dæmi um prófatriði úr öllum námsgreinum og námsþáttum ásamt lýsingu á þeirri hæfni sem metin er. Þá skal Menntamálastofnun gera prófúrlausnir aðgengilegar fyrir skóla svo hægt sé að skoða svör nemenda. Skólinn afhendir foreldrum prófúrlausnir ef eftir því er óskað.</p></blockquote><p>Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir svo:</p><blockquote><p>Menntamálastofnun er ekki skylt að birta prófatriði samræmdra könnunarprófa hverju sinni enda séu þau endurnýtt við að þróa prófabanka fyrir einstaklingsmiðuð samræmd könnunarpróf.</p></blockquote><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál felur ákvæði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 í sér að Menntamálastofnun sé ekki skylt að birta að eigin frumkvæði prófatriði samræmdra könnunarprófa sé fyrirhugað að endurnýta prófatriðin við að þróa prófabanka. Hér verður hins vegar að hafa sérstaklega í huga að reglugerðarákvæðið getur ekki vikið til hliðar upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum og&nbsp; leysir því ekki Menntamálastofnun undan þeirri skyldu sem lögin leggja henni á herðar. Því verður ekki fallist á það með Menntamálastofnun að 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 standi í vegi fyrir aðgangi kæranda að prófspurningunum.</p><p>Í 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir:</p><blockquote><p>Nemendur og foreldrar þeirra eiga rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þeir eiga jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Slík endurskoðun telst ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga.</p></blockquote><p>Í 2. mgr. 3. gr. laga um grunnskóla segir að foreldrar gæti hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri en foreldri samkvæmt lögunum teljist þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir svo að foreldrar beri ábyrgð á námi barna sinna og beri þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Þá segir m.a. í 3. mgr. 18. gr. laganna að foreldrar skuli fylgjast með og styðja við skólagöngu barna sinna og námsframvindu. Til þess að foreldrar geti rækt hlutverk sitt samkvæmt framangreindum ákvæðum er ljóst að þeir verða að geta aflað sér upplýsinga um námsframvindu barna sinna.</p><p>Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla er skýrt tekið fram að skóli afhendi foreldrum prófúrlausnir á samræmdum könnunarprófum sé eftir því óskað.</p><p>Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki vafa á því að það foreldri sem fer með forsjá barns eigi rétt á aðgangi að prófúrlausn barns síns. Sama á almennt við enda þótt foreldri fari ekki með forsjá barns en í 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns til aðgangs að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn.&nbsp;Í athugasemdum um ákvæðið í greinargerð til laga nr. 76/2003 segir að það hafi verið tekið upp í barnalög með lögum nr. 23/1995 og sé skýrt í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 23/1995 segir m.a. um 3. gr. frumvarpsins um upplýsingarétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns, að foreldrið hafi réttmætt tilkall til að fylgjast með barni, heilsuhögum þess, þroskaferli, skólagöngu, uppeldi, félagslegri stöðu og þátttöku þess í félagsstarfi o.s.frv. Lögfesting á slíkum aðgangi foreldris að upp&nbsp;lýsingum um hagi barns ætti m.a. að bæta hlut forsjárlausa foreldrisins sem verði þó að hafa aðgát er það neytir þessa réttar síns og sýna nærgætni. Þá er tekið fram að ákvæði 3. gr. hafi ekki síst gildi fyrir foreldri sem ekki geti notið hins venjubundna umgengnisréttar, t.d. vegna fjarlægðar frá barni, og geti ekki með þeim hætti kynnt sér hagi barns almennt með umgengni við það. Þá segir að verði 3. gr. frumvarpsins lögtekin sé þar með mótuð sú almenna regla sem sé þó ekki undantekningarlaus að það foreldri sem ekki nýtur forsjár eigi yfirleitt aðgang að persónuupplýsingum varðandi barnið til jafns við forsjárforeldrið. Enn fremur er tekið fram að ákvæði 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins um heimild til að synja um upplýsingar sé sniðið að 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en t.d. væri óheimilt að veita mjög viðkvæmar upplýsingar sem gætu verið skaðlegar fyrir barnið, t.d. spillt sambandi þess og foreldris.&nbsp;</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fela upplýsingar um prófúrlausnir barns í samræmdum könnunarprófum í grunnskóla ekki í sér viðkvæmar upplýsingar sem skaðað geti barnið verði forsjárlausu foreldri veittur aðgangur að úrlausnunum. Nefndin telur því ekki skipta máli við mat á því hvort foreldri eigi rétt til aðgangs að prófúrlausn barns í grunnskóla hvort foreldrið hafi forsjá þess eða ekki. Að sama skapi telur nefndin takmörkunarákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti aðila að upplýsingum ekki eiga við um rétt kæranda um aðgang að gögnunum. Loks verður ekki séð að Menntamálastofnun hafi synjað beiðni kæranda um aðgang að gögnum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lýst er í 3. mgr. 52. gr. barnalaga þannig að unnt sé að bera þá ákvörðun undir sýslumann samkvæmt 4. mgr. 52. gr. sömu laga. Synjun Menntamálastofnunnar er því réttilega borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>Samkvæmt framangreindu verður því ekki fallist á það með Menntamálastofnun að heimilt sé að synja kæranda um aðgang að gögnunum.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Menntamálastofnun ber að veita kæranda, A, aðgang að samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir í september 2017 og úrlausnum barns hans á prófunum.</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

731/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018

Deilt var um rétt foreldris til aðgangs að samræmdum könnunarprófum og úrlausnum barns í vörslum Menntamálastofnunar. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að hún teldi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að gögnum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf eiga við um umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin rakti ákvæði laga og reglna um próf í grunnskólum og komst að þeirri niðurstöðu að engin þeirra kæmi í veg fyrir aðgang kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Menntamálastofnun að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 15. mars 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 731/2018 í máli ÚNU 17110008.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 27. nóvember 2017, kærði A þá ákvörðun Menntamálastofnunar að synja henni um aðgang að úrlausnum sonar síns á samræmdum könnunarprófum sem hann þreytti í september 2017. Kærandi fór fram á aðgang að gögnunum með bréfum, dags. 7. og 8. nóvember 2017. Í synjun Menntamálastofnunar, dags. 8. nóvember 2017 segir að stofnunin afhendi ekki niðurstöður prófanna með vísan til 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 6. desember 2017, var Menntamálastofnun kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Jafnframt var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn Menntamálastofnunar barst með bréfi, dags. 13. desember 2017. Í umsögninni er vísað til rökstuðnings stofnunarinnar í umsögn við kæru í máli ÚNU 17070001, dags. 24. ágúst 2017, en hann eigi við í þessu máli.</p><p>Umsögn Menntamálastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. desember 2017 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang að úrlausnum sonar kæranda á samræmdum könnunarprófum sem þreytt voru í september 2017.</p><p>Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvörðun um einkunnagjöf, þegar um er að ræða einkunnir sem reiknast til lokaprófs, er ákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 21. gr. sömu laga. Í 39. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla er fjallað um samræmd könnunarpróf. Af ákvæði 39. gr. og ákvæðum reglugerðarinnar má ráða að samræmt könnunarpróf er ekki lokapróf í grunnskóla, heldur er um að ræða, eins og heiti prófsins gefur til kynna, próf sem lagt er fyrir í þeim tilgangi að kanna stöðu nemandans. Fer því um aðgang kæranda að prófunum eftir upplýsingalögum nr. 140/2012.</p><p>Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um skyldu þeirra sem heyra undir lögin að veita aðila aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan, sé þess óskað. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ í 1. mgr. ákvæðisins sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Ákvæðið hefur því verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur auðsýnt að upplýsingar um prófúrlausnir barns í grunnskóla varði foreldri með þeim hætti að það hafi sérstaka hagsmuni umfram almenning af því að fá aðgang að úrlausnunum.</p><p>Í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 segir að ákvæði 1. mgr. greinarinnar gildi ekki um gögn sem hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara skv. 10. gr. laganna. Menntamálastofnun styður synjun á beiðni kæranda við 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum, þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera, ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, væru þau á almannavitorði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en próf er þreytt. Þá er tekið fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að veita skuli aðgang að gögnum þegar ráðstöfunum og prófum sé að fullu lokið nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd lagt til grundvallar við skýringu á 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að sé prófi lokið og ekki fyrirhugað að leggja sama próf fyrir aftur í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd beri að veita aðgang að því á grundvelli meginreglu 5. gr. upplýsingalaga. Vísast um þetta m.a. til úrskurða nefndarinnar nr. 710/2017 og 662/2016. Af hálfu Menntamálastofnunar hefur komið fram að verði stofnuninni gert að afhenda prófspurningarnar verði ekki hægt að koma á einstaklingsmiðuðum samræmdum prófspurningum og þá muni stofnunin ekki geta gefið mynd af breytingum og framvindu námsárangurs íslenskra barna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki unnt að fallast á það með stofnuninni að aðgangur almennings að samræmdu prófi, sem lagt var fyrir mikinn fjölda grunnskólabarna, geti haft þessi áhrif. Þá geta þessi sjónarmið í öllu falli ekki leitt til þess að vikið sé frá meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að samræmdu könnunarprófin verði ekki lögð fyrir í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd ár hvert og því geti þau samkvæmt orðanna hljóðan ekki talist fyrirhuguð í skilningi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Verður því ekki fallist á að 2. tölul. 2. mgr. 14. gr., sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, komi í veg fyrir rétt kæranda til aðgangs að gögnunum. Því verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að prófúrlausnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem gerðar eru í lögum.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Í synjun Menntamálastofnunar er einnig vísað til 2. mgr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla.</p><p>Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, sem sett var með stoð í 4. mgr. 39. gr. laga um grunnskóla, segir:</p><blockquote><p>Menntamálastofnun skal birta opinberlega dæmi um prófatriði úr öllum námsgreinum og námsþáttum ásamt lýsingu á þeirri hæfni sem metin er. Þá skal Menntamálastofnun gera prófúrlausnir aðgengilegar fyrir skóla svo hægt sé að skoða svör nemenda. Skólinn afhendir foreldrum prófúrlausnir ef eftir því er óskað.</p></blockquote><p>Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir svo:</p><blockquote><p>Menntamálastofnun er ekki skylt að birta prófatriði samræmdra könnunarprófa hverju sinni enda séu þau endurnýtt við að þróa prófabanka fyrir einstaklingsmiðuð samræmd könnunarpróf.</p></blockquote><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál felur ákvæði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 í sér að Menntamálastofnun sé ekki skylt að birta að eigin frumkvæði prófatriði samræmdra könnunarprófa sé fyrirhugað að endurnýta prófatriðin við að þróa prófabanka. Hér verður hins vegar að hafa sérstaklega í huga að reglugerðarákvæðið getur ekki vikið til hliðar upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum og&nbsp; leysir því ekki Menntamálastofnun undan þeirri skyldu sem lögin leggja henni á herðar. Því verður ekki fallist á það með Menntamálastofnun að 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 173/2017 standi í vegi fyrir aðgangi kæranda að prófspurningunum.</p><p>Í 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir:</p><blockquote><p>Nemendur og foreldrar þeirra eiga rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þeir eiga jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Slík endurskoðun telst ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga.</p></blockquote><p>Í 2. mgr. 3. gr. laga um grunnskóla segir að foreldrar gæti hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri en foreldri samkvæmt lögunum teljist þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir svo að foreldrar beri ábyrgð á námi barna sinna og beri þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Þá segir m.a. í 3. mgr. 18. gr. laganna að foreldrar skuli fylgjast með og styðja við skólagöngu barna sinna og námsframvindu. Til þess að foreldrar geti rækt hlutverk sitt samkvæmt framangreindum ákvæðum er ljóst að þeir verða að geta aflað sér upplýsinga um námsframvindu barna sinna.</p><p>Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. nr. 173/2017 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla er skýrt tekið fram að skóli afhendi foreldrum prófúrlausnir á samræmdum könnunarprófum sé eftir því óskað.</p><p>Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki vafa á því að það foreldri sem fer með forsjá barns eigi rétt á aðgangi að prófúrlausn barns síns. Sama á almennt við enda þótt foreldri fari ekki með forsjá barns en í 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns til aðgangs að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn.&nbsp;Í athugasemdum um ákvæðið í greinargerð til laga nr. 76/2003 segir að það hafi verið tekið upp í barnalög með lögum nr. 23/1995 og sé skýrt í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 23/1995 segir m.a. um 3. gr. frumvarpsins um upplýsingarétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns, að foreldrið hafi réttmætt tilkall til að fylgjast með barni, heilsuhögum þess, þroskaferli, skólagöngu, uppeldi, félagslegri stöðu og þátttöku þess í félagsstarfi o.s.frv. Lögfesting á slíkum aðgangi foreldris að upplýsingum um hagi barns ætti m.a. að bæta hlut forsjárlausa foreldrisins sem verði þó að hafa aðgát er það neytir þessa réttar síns og sýna nærgætni. Þá er tekið fram að ákvæði 3. gr. hafi ekki síst gildi fyrir foreldri sem ekki geti notið hins venjubundna umgengnisréttar, t.d. vegna fjarlægðar frá barni, og geti ekki með þeim hætti kynnt sér hagi barns almennt með umgengni við það. Þá segir að verði 3. gr. frumvarpsins lögtekin sé þar með mótuð sú almenna regla, sem sé þó ekki undantekningarlaus, að það foreldri sem ekki nýtur forsjár eigi yfirleitt aðgang að persónuupplýsingum varðandi barnið til jafns við forsjárforeldrið. Ennfremur er tekið fram að ákvæði 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins um heimild til að synja um upplýsingar sé sniðið að 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en t.d. væri óheimilt að veita mjög viðkvæmar upplýsingar sem gætu verið skaðlegar fyrir barnið, t.d. spillt sambandi þess og foreldris.&nbsp;</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fela upplýsingar um prófúrlausnir barns í samræmdum könnunarprófum í grunnskóla ekki í sér viðkvæmar upplýsingar sem skaðað geti barnið verði forsjárlausu foreldri veittur aðgangur að úrlausnunum. Nefndin telur því ekki skipta máli við mat á því hvort foreldri eigi rétt til aðgangs að prófúrlausn barns í grunnskóla hvort foreldrið hafi forsjá þess eða ekki. Að sama skapi telur nefndin takmörkunarákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti aðila að upplýsingum ekki eiga við um rétt kæranda um aðgang að gögnunum. Loks verður ekki séð að Menntamálastofnun hafi synjað beiðni kæranda um aðgang að gögnum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lýst er í 3. mgr. 52. gr. barnalaga þannig að unnt sé að bera þá ákvörðun undir sýslumann samkvæmt 4. mgr. 52. gr. sömu laga. Synjun Menntamálastofnunnar er því réttilega borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>Samkvæmt framangreindu verður því ekki fallist á það með Menntamálastofnun að heimilt sé að synja kæranda um aðgang að gögnunum.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Menntamálastofnun ber að veita kæranda, A, aðgang að samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir í september 2017 og úrlausnum barns hennar á prófunum.</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;<br></p>

728/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018

Kærð var ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis um að synja beiðni um aðgang að gögnum um athugasemdir sem gerðar höfðu verið við söluferli Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum Klakka ehf. Synjunin byggðist á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni einstaklinga og fyrirtækja. Úrskurðarnefndin tók fram að kærandi hefði sem þátttakandi í söluferlinu veigamikla hagsmuni af því að kynna sér upplýsingar um það. Hins vegar bæri að vega hagsmuni kæranda gegn hagsmunum þeirra aðila sem getið er í gögnunum af því að þau fari leynt. Það var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir kæranda vægju þyngra á metunum og var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að veita honum aðgang að umbeðnum gögnum.

<h3><b>Úrskurður</b></h3><p>Hinn 15. mars 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 728/2018 í máli ÚNU 17050002.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 9. maí 2017, kærði A hrl., f.h. Frigusar II ehf., ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að gögnum um söluferli Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum Klakka ehf.</p><p>Í kæru kemur fram að þann 15. febrúar 2017 hafi kærandi óskað eftir afriti af öllum samskiptum ráðuneytisins við Lindarhvol ehf. og Íslög ehf. í tengslum við söluferlið. Með bréfi, dags. 11. apríl 2017, var kæranda veittur aðgangur að umbeðnum gögnum að hluta en afmáðar höfðu verið upplýsingar úr þeim. Í bréfinu segir að þær varði einkalífsrétt og friðhelgi einstaklinga annars vegar og viðskipta- og fjárhagsmálefni lögaðila og einstaklinga hins vegar. Sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Kærandi krefst þess að honum verði veittur aðgangur að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Upplýsingarnar varði opið söluferli á nauðungarsamningskröfu og hlutafé í Klakka ehf. en kærandi hafi verið meðal tilboðsgjafa. Gögnin varði því kæranda í skilningi ákvæðisins og ráðuneytinu hafi verið skylt að meta hvort hagsmunir kæranda af aðgangi að umbeðnum gögnum vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem þau varða. Kærandi leggur sérstaka áherslu á að honum verði veittur aðgangur að bréfi Lindarhvols ehf. til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 17. nóvember 2016.</p><p>Þá telur kærandi að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi verið óheimilt að halda því leyndu hverjir buðu í hlutinn. Almenningur eigi rétt á því að vita hverjir geri tilboð í ríkiseigur auk þess sem kærandi hafi sérstakra hagsmuna að gæta. Enga þýðingu geti haft fyrir aðra tilboðsgjafa að upplýst verði um nöfn þeirra, enda sé ferlinu lokið og tilkynnt hafi verið um hæstbjóðanda. Kærandi telur mikilvægt að haft sé í huga að í 4. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða í lögum nr. 36/2001 sé sérstaklega tekið fram að við umsýslu, fullnustu og sölu verðmæta skuli Lindarhvoll ehf. leggja áherslu á gagnsæi. Í ljósi þessa telur kærandi að ríkir hagsmunir þurfi að standa til þess að upplýsingar í tengslum við söluna lúti leynd.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 11. maí 2017, var fjármála- og efnahagsráðuneyti kynnt kæran og veittur frestur til að senda úrskurðarnefndinni umsögn og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.</p><p>Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 14. júní 2017, segir að ekki sé sérstök þörf á því að flokka upplýsingar sem afmáðar voru úr umbeðnum gögnum eftir því hvort þær voru taldar varða einkamálefni einstaklinga (ærumeiðandi ummæli og aðdróttanir) eða fyrirtækja (aðkoma einstakra lögaðila, verðmæti eigna og verklag við tilboðsgerð). Æruvernd njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Ef ráðuneytið hefði ekki afmáð fullyrðingar í gögnunum sem vega að æru nafngreinda einstaklinga, þar á meðal dylgjur sem kunni að skerða aflahæfi þeirra, væri ráðuneytið mögulega að bera út ærumeiðingar í skilningi 234. gr. almennra hegningarlaga. Ráðuneytið telur að afhending upplýsinga um tilboðsgjafa, aðkomu þeirra og innra verklag og innri málefni lögaðila geti haft skaðleg áhrif á fyrirliggjandi og ný samningssambönd og viðskipti þessara félaga.</p><p>Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur fram að við afgreiðslu beiðninnar hafi það ekki tekið sérstaka afstöðu til þess hvort sú fullyrðing kæranda, að hann hafi tekið þátt í söluferlinu, standist. Þetta atriði hafi ekki haft áhrif á afgreiðslu beiðninnar þar sem upplýsingar um Kviku banka hafi ekki verið afmáðar úr gögnunum áður en kæranda var veittur aðgangur að þeim. Einu atriðin sem afmáð hafi verið hafi geymt upplýsingar sem ráðuneytið taldi sig óheimilt að veita aðgang að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis var kynnt kæranda með bréfi, dags. 21. júní 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 27. júní 2017, segir að dómstólar hafi játað mönnum rúmt tjáningarfrelsi um opinberar stofnanir og starfsemi þeirra. Starfsemi Lindarhvols ehf. varði málefni sem eigi fullt erindi til almennings. Starfsemin kunni enn fremur að kalla yfir sig harða gagnrýni og vera umdeild. Starfsmenn félagins verði því að sæta því að um störf þeirra sé fjallað þannig að unnt sé að veita starfseminni eðlilegt aðhald og nægjanlegt eftirlit. Því þurfi mikið til að koma svo að fjármála- og efnahagsráðuneytinu verði talið heimilt að synja um aðgang að gögnunum á grundvelli sjónarmiða um æruvernd.</p><p>Kærandi telur það ekki standast að upplýsingar um tilboðsgjafa séu viðskiptaleyndarmál og gangi þvert gegn því sem lagt hafi verið upp með þegar Lindarhvoll ehf. var stofnað. Samkvæmt vef félagsins muni sala og ráðstöfun eigna eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt sé gagnsæis og jafnræðis bjóðenda. Kærandi hafi hins vegar haldið því fram að málsmeðferð félagsins í tengslum við söluna á hlutum í Klakka ehf. hafi á engan hátt verið í samræmi við lög nr. 24/2016, stjórnsýslulög og meginreglur stjórnsýsluréttar, stofnskjöl og innri reglur Lindarhvols ehf. og samning félagsins við ráðherra. Ákveðnar líkur séu á að trúnaðarupplýsingar hafi lekið í söluferlinu. Við sölumeðferðir Lindarhvols ehf. hafi þess yfirleitt verið gætt að salan væri í faglegri umsjón Ríkiskaupa eða leyfisskyldrar fjármálastofnunar. Í tilviki Klakka ehf. hafi hins vegar verið ákveðið að fela lögfræðilegum ráðgjafa Lindarhvols ehf. og stjórnarmanni í Klakka ehf. að sjá um söluna. Engin rök hafi verið færð fram fyrir því hvers vegna sú leið var farin. Kærandi kveður það meðal annars vera rök fyrir því að gagnsæis sé gætt við sölu ríkiseigna að komið sé í veg fyrir spillingu eða grunsemdir um spillingu.</p><p>Varðandi tilvísanir ráðuneytisins til upplýsinga um verklag og innri málefni lögaðila tekur kærandi fram að hann fari ekki fram á að fá afhentar mikilvægar fjárhags- og viðskiptaupplýsingar um lögaðila sem tóku þátt í tilboðunum heldur aðeins efni tilboðanna svo unnt sé að tryggja að réttum leikreglum hafi verið fylgt.</p><p>Loks telur kærandi skilning fjármála- og efnahagsráðuneytisins á efni 14. gr. upplýsingalaga ekki vera í samræmi við úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Þar hafi verið lagt til grundvallar að þátttakendur í opinberum útboðum eigi rétt til aðgangs að tilboðum annarra þátttakanda á grundvelli ákvæðisins þar sem þeir eigi einstaka hagsmuni umfram aðra af því að kynna sér á hvaða forsendum tilboðum var tekið. Kærandi telur sömu sjónarmið eiga við um opinber söluferli á ríkiseignum.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem tengjast sölu Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf. Lindarhvoll ehf. er félag sem stjórnvöld settu á fót til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum ríkissjóðs, mótteknum samkvæmt lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.</p><p>Kærandi er einkahlutafélag sem kveðst hafa tekið þátt í söluferlinu og telur sig því eiga ríkari rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum samkvæmt III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Þessi túlkun nefndarinnar á ákvæðinu á sér stoð í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 120/2014. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í opinberum innkaupum teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að gögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í innkaupaferlinu, sem verða til áður en gengið er til samninga við tiltekinn bjóðanda.&nbsp;Sömu sjónarmið eiga við um þá sem taka þátt í opinberum söluferlum.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ríkari réttur aðila til aðgangs að upplýsingum um hann sjálfan, skv. III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012, verður almennt ekki framseldur öðrum. Þegar vafi leikur á því hvort sá sem beiðist upplýsinga á þessum grundvelli uppfyllir skilyrði til þess verður að skera úr um það eftir almennum reglum um sönnun í stjórnsýslumálum. Eins og atvikum málsins er háttað er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kærandi hafi sýnt nægjanlega fram á að tilboð Kviku banka hf. í eignarhluta í Klakka ehf. og tengda nauðasamningskröfu hafi verið sett fram fyrir hönd kæranda, enda er staðfesting bankans á því á meðal gagna málsins. Verður því lagt til grundvallar að tilboð Kviku banka hf. hefði bundið kæranda, ef það hefði verið samþykkt, og kærandi njóti því réttar til aðgangs að gögnum um söluferlið samkvæmt III. kafla upplýsingalaga.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Með beiðni kæranda var óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum í vörslum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem varða sölu Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf.:</p><p><ol><li>Öllum bréfum, tölvupóstum og öðrum samskiptum ráðuneytisins við Lindarhvol ehf. og Íslög ehf. sem varða söluferli á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf.<br></li><li>Sérstaklega var óskað eftir bréfum eða tölvupóstum frá ráðherra og skrifstofustjóra ráðuneytisins, B, til Lindarhvols ehf. eða Íslaga ehf. sem varða söluferlið.<br></li></ol></p><p>Ráðuneytið hefur afmarkað beiðnina við samskipti þess við Lindarhvol ehf. í tilefni af nafnlausu erindi sem gögn málsins bera með sér að hafi borist Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið framsendi erindið til fjármála- og efnahagsráðuneytisins með bréfi, dags. 20. október 2016 og óskaði ráðuneytið í kjölfarið eftir afstöðu Lindarhvols ehf. til efnis þess. Í bréfi, dags. 17. nóvember 2016, var gerð grein fyrir söluferlinu og tekin afstaða til atriða sem fram komu í nafnlausa erindinu.</p><p>Synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að framangreindum gögnum byggðist á 9. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.&nbsp;Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir m.a.:</p><blockquote><p>Algengt er á hinn bóginn að [...] gögn hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila. Þegar fram kemur beiðni um aðgang að slíkum gögnum er þannig líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felst í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir eru að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. frumvarpsins.&nbsp;</p><p>Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.</p></blockquote><p>&nbsp;Í athugasemdunum kemur einnig fram að þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti það haft mikið vægi að miklir hagsmunir standi til þess að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Að því leyti sem slíkar upplýsingar kunna að hafa áhrif á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem semja við opinbera aðila um slíkar ráðstafanir eða taka þátt í útboðum vegna slíkra ráðstafana hefur úrskurðarnefndin miðað við að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Eins og áður segir gilda sömu sjónarmið um opinber söluferli.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi hefur veigamikla hagsmuni af því að kynna sér upplýsingar um söluferlið sem hann tók þátt í, þar á meðal athugasemdir sem gerðar hafa verið við söluferlið og viðbrögð Lindarhvols ehf. við þeim. Hins vegar ber skv. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga að vega hagsmuni kæranda gegn hagsmunum þeirra aðila sem getið er í umbeðnum gögnum af því að þau fari leynt.</p><p>Hin kærða ákvörðun byggir eins og áður segir á því að í gögnunum sé annars vegar að finna upplýsingar um einkamálefni einstaklinga og hins vegar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Um síðarnefndu hagsmunina telur fjármála- og efnahagsráðuneytið að afhending upplýsinga um tilboðsgjafa, aðkomu þeirra og innra verklag og innri málefni lögaðila geti haft skaðleg áhrif á fyrirliggjandi og ný samningssambönd og viðskipti þessara félaga. Fyrst og fremst er um að ræða staðhæfingar í hinu nafnlausa erindi um að atvik söluferlisins hafi verið með tilteknum hætti og athugasemdir Lindarhvols ehf. við staðhæfingarnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að jafnvel þótt einhverjar upplýsingar um starfsemi tiltekinna lögaðila sé að finna í umbeðnum gögnum telur hún ekki sýnt fram á að þær séu þess eðlis að það geti valdið þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Í það minnsta vega hagsmunir kæranda af því að kynna sér athugasemdir við söluferlið þyngra en hugsanlegir hagsmunir lögaðilanna af slíkri leynd. Sérstaklega skal tekið fram að ekki er unnt að fallast á að upplýsingar um að tiltekinn lögaðili hafi tekið þátt í opinberu söluferli teljist til upplýsinga um einkamálefni hans í skilingi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga í ljósi þess að um er að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna.</p><p>Hvað einkamálefni einstaklinga varðar hefur komið fram af hálfu ráðuneytisins að í umbeðnum gögnum sé að finna&nbsp; ærumeiðandi ummæli og aðdróttanir í garð nafngreindra einstaklinga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki unnt að fallast á þetta með ráðuneytinu. Um er að ræða athugasemdir við söluferlið og staðhæfingar um að meðferð trúnaðargagna hafi ekki verið sem skyldi. Enginn einstaklingur er nafngreindur í tengslum við síðarnefndu staðhæfingarnar. Þá verður ekki ráðið af efni nafnlausa erindisins að nokkur einstaklingur sé borinn sökum um refsiverða háttsemi heldur vakin athygli á atriðum sem bréfritari virðist telja vert að Fjármálaeftirlitið taki til nánari athugunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar vega hagsmunir þeirra einstaklinga sem nafngreindir eru í umbeðnum gögnum eins og hér stendur á ekki þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að upplýsingum um athugasemdir sem gerðar hafa verið við söluferlið og viðbrögð stjórnvalda við þeim.</p><p>Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að í umbeðnum gögnum sé ekki að finna upplýsingar um einkamálefni í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga sem vikið geta til hliðar rétti kæranda til aðgangs að þeim samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Verður því lagt fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytinu að veita kæranda aðgang að þeim án útstrikana.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Fjármála- og efnahagsráðuneytinu ber að veita kæranda, Frigusi II ehf., aðgang að eftirfarandi gögnum án útstrikana:</p><p><ol><li>Bréfi Fjármálaeftirlitsins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 20. október 2016, ásamt fylgiskjölum.<br></li><li>Bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins til Lindarhvols ehf., dags. 1. nóvember 2016.<br></li><li>&nbsp;Bréfi Lindarhvols ehf. til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 17. nóvember 2016.<br></li></ol></p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;<br></p>

722/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í vörslum Úrvinnslusjóðs um félagsmenn RR-skila, en kærandi kvaðst hafa í hyggju að krefja þá um endurgreiðslu kostnaðar. Upplýsingarnar var að finna í töflureiknisskjali sem hafði að geyma rúmlega 93.000 færslur. Úrskurðarnefndin taldi ekki unnt við þessar aðstæður að útiloka að það geti skaðað samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem skjalið fjallað um að veita aðgang að því. Þá hefði skjalið ekki að geyma upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Var því fallist á það með Úrvinnslusjóði að skjalið hefði að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðilanna og synjun beiðni kæranda staðfest. Beiðninni var hins vegar vísað til nýrrar meðferðar hvað varðar aðgang að félagatali RR-skila, þar sem Úrvinnslusjóður hafði ekki afgreitt hana að því leyti.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 722/2018 í máli ÚNU 17050009.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 18. maí 2017, kærði A, f.h. Samskila ehf., synjun Úrvinnslusjóðs, dags. 21. apríl 2017, á beiðni um aðgang að gögnum. Þann 17. febrúar 2017 óskaði kærandi eftir því að Umhverfisstofnun veitti aðgang að fyrirliggjandi gögnum um eftirfarandi atriði:</p><p><ol><li>Upplýsingar um hvað hver félagsmaður í RR-skilum flutti inn/framleiddi af raftækjum á árunum 2009, 2012, 2013 og 2014.<br></li><li>Lista yfir alla aðila sem voru félagar í RR-skilum á fyrrgreindum árum.<br></li></ol></p><p>Umhverfisstofnun áframsendi beiðnina til Úrvinnslusjóðs, sem synjaði kæranda um aðgang að gögnunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í kærunni kemur fram að félagsmenn RR-skila hafi ákveðið á fundi 29. maí 2015 að slíta félaginu og úthluta hreinni eign félagsins til 62 félagsmanna. Hæstiréttur hafi dæmt í máli nr. 812/2015 að vegna þessa hafi félagið ekki aðildarhæfi. Þá kemur fram að kærandi hafi í hyggju að krefja aðildarfyrirtæki RR-skila um greiðslu kostnaðar vegna umframkostnaðar kæranda vegna söfnunar hans á raftækjum og muni þá krefja hvert og eitt fyrirtæki sem voru aðilar að RR-skilum um greiðslu kostnaðar við umframsöfnun kæranda í réttu hlutfalli við innflutning/framleiðslu þess aðila á hverju ári á tímabilinu.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 19. maí 2017, var kæran kynnt Úrvinnslusjóði og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Úrvinnslusjóðs, dags. 31. maí 2017, kemur fram að sjóðurinn telji sig ekki eiga hagsmuna að gæta varðandi það hvort aðgangur skuli veittur. Áður en ákvörðun um synjun var tekin hafi þótt rétt að gefa þeim 200 aðilum sem stærstan hlut eiga að máli kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Umsagnir þeirra sem létu sig málið varða hafi almennt verið neikvæðar. Fram kemur að helstu röksemdir þeirra séu raktar í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. apríl 2017. Þar kemur fram að umsagnaraðilarnir beri því við að upplýsingar um innflutning einstakra aðila, magn viðskipta og kaup á búnaði séu viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem ekki megi láta af hendi samkvæmt fyrirmælum 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er því einnig borið við að miðlun umbeðinna upplýsinga kunni að brjóta í bága við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.</p><p>Umsögn Úrvinnslusjóðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. júní 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum hjá Úrvinnslusjóði um það hverjir hafi átt aðild að RR-skilum á árunum 2009, 2012, 2013 og 2014 og hvað hver félagsmaður flutti inn eða framleiddi af raftækjum á tímabilinu. Af hálfu Úrvinnslusjóðs hefur beiðnin verið afmörkuð við skjal&nbsp; á töflureiknisformi þar sem magn raftækja er skráð eftir tollskrárnúmerum raftækjanna og kennitölum félagsmanna.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Fyrst verður fjallað um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um það hvað hver félagsmaður í RR-skilum hafi flutt inn/framleitt af raftækjum á tímabilinu. Synjun Úrvinnslusjóðs á beiðni kæranda byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.</p></blockquote><p>Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:</p><blockquote><p>Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.</p></blockquote><p>Þá er enn fremur tiltekið í athugasemdunum:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptarleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.</p></blockquote><p>Eins og áður segir er umbeðnar upplýsingar að finna í töflureiknisskjali sem úrskurðarnefndin hefur fengið afhent frá Úrvinnslusjóði. Upplýsingar um raftæki eru sundurliðaðar eftir ári, tollskrárnúmeri, kennitölu lögaðilans sem um ræðir og magni eða fjölda raftækja. Alls hefur skjalið að geyma rúmlega 93.000 færslur fyrir tímabilið sem kærandi tiltekur í beiðni sinni. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekki hægt að útiloka við þessar aðstæður að það geti skaðað samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni lögaðilanna að veita aðgang að svo umfangsmiklum upplýsingum um innflutning og framleiðslu þeirra á raftækjum á tímabilinu. Þá gerir framsetning og umfang skjalsins það að verkum að nánast ómögulegt er að skilja þær upplýsingar sem óhætt er að veita kæranda aðgang að frá þeim sem kunna að valda raski á samkeppnishagsmunum. Loks er litið til þess að upplýsingarnar varða ekki ráðstöfun opinberra hagsmuna, heldur hefur Úrvinnslusjóður þær undir höndum á grundvelli eftirlitshlutverks síns samkvæmt lögum nr. 55/2003. Samkvæmt framangreindu verður fallist á það með Úrvinnslusjóði að skjalið hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ber því að staðfesta ákvörðun sjóðsins um synjun á beiðni kæranda um aðgang að skjalinu.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Beiðni kæranda lýtur einnig að því að fá upplýsingar um það hverjir hafi átt aðild að RR-skilum á tímabilinu. Hvorki í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. apríl 2017 né í umsögn sjóðsins um kæru kæranda, dags. 31. maí 2107, er sérstaklega vikið að þessum hluta beiðninnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal ákvörðun um að synja beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða hluta, sem borin hefur verið fram skriflega, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Þar sem hluti beiðni kæranda hefur ekki fengið þá efnislegu meðferð sem upplýsingalög áskilja verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Úrvinnslusjóð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Beiðni Samskila ehf. um aðgang að félagatali RR-skila fyrir árin 2009, 2011, 2012 og 2013 er vísað til Úrvinnslusjóðs til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.</p><p>Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p><br></p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

724/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Siðmennt kærði ákvörðun Þjóðskrár Íslands um synjun beiðni félagsins um aðgang að netföngum allra skráðra félagsmanna sinna. Ákvörðun Þjóðskrár byggði á því að um væri að ræða persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að í þeim lögum væri sérstaklega tekið fram að þau takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 724/2018 í máli ÚNU 17060009.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 23. febrúar 2017, kærði A f.h. Siðmenntar ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 4. nóvember 2016, um að synja beiðni félagsins um aðgang að gögnum. Beiðni kæranda lýtur að því að fá upplýsingar um netföng allra skráðra félagsmanna sinna.</p><p>Með bréfi, dags. 27. júní 2017, áframsendi innanríkisráðuneytið erindið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið líti svo á að synjun Þjóðskrár feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg sé til ráðuneytisins á grundvelli laganna. Þá kemur fram að ekki verði byggt á kæruheimild 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekkert stjórnsýslumáli sé í gangi sem kærandi sé aðili að. Vísar ráðuneytið til þess að samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé heimilt að bera synjun um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og í því ljósi telji ráðuneytið rétt að áframsenda erindi kæranda þangað.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 5. júlí 2017, var kæran kynnt Þjóðskrá Íslands og óskaði úrskurðarnefnd um uppýsingamál jafnframt eftir afriti af ákvörðun stjórnvaldsins í málinu. Með bréfi dags. 17. júlí 2017 var Þjóðskrá Íslands veittur frestur til að koma á framfæri frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.</p><p>Í umsögn Þjóðskrár Íslands, dags. 24. ágúst 2017, er tekið fram að miðlun upplýsinga um netföng falli undir gildissvið laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Þá segir að það sé mat stofnunarinnar að ekki sé unnt að miðla netföngum án þess að sérstakt samþykki komi til og kærandi geti hæglega óskað sjálfur eftir þessum upplýsingum frá félagsmönnum sínum.</p><p>Með bréfi, dags. 30. ágúst 2017, var kæranda sent afrit af umsögn Þjóðskrár Íslands og veittur kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í bréfi, dags. 14. september 2017, kemur fram að kærandi telji röksemdir Þjóðskrár Íslands ekki standast skoðun. Tekur hann fram að enginn sé sjálfkrafa skráður í félagið heldur þurfi að óska eftir skráningu sérstaklega. Sé því ljóst að með því að gefa upp nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang við skráningu sé viðkomandi aðili þar með að veita heimild til Þjóðskrár Íslands um að koma þeim upplýsingum áfram til félagsins, að aðildar sé óskað og að hlutfall skatttekna renni til félagsins. Þá ítrekar kærandi þá kröfu sína að Þjóðskrá Íslands verði gert að afhenda upplýsingar um netföng félagsmanna sinna.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er lífsskoðunarfélag, sbr. lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999, til aðgangs að upplýsingum um netföng félagsmanna sinna í vörslum Þjóðskrár Íslands.</p><p>Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal ákvörðun um að synja skriflegri beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða hluta, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í ákvörðun skal koma fram afstaða stjórnvalds til aukins aðgangs, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, og leiðbeiningar um rétt til kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá segir í 3. mgr. 19. gr. að um málsmeðferð fari að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.</p><p>Ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu stjórnsýsluréttar um stjórnsýslukæru en þar segir í 1. mgr. að aðila máls sé „heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju“. Þá er í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sérregla um kærur vegna synjunar upplýsingabeiðna en þar kemur fram að heimilt sé að bera þær synjanir „undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn“.</p><p>Af framangreindum ákvæðum laga leiðir að stjórnvöldum sem hafa til meðferðar beiðni um aðgang að upplýsingum ber að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.</p><p>Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.</p><p>Synjun Þjóðskrár á beiðni kæranda byggðist á því að í afhendingu umbeðinna upplýsinga fælist miðlun persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að í 2. mgr. 44. gr. laganna er sérstaklega tekið fram að þau takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Ákvörðun Þjóðskrár um að synja beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum getur því ekki átt stoð í ákvæðum laganna, enda þótt þau geti komið til skoðunar við túlkun ákvæða upplýsingalaga. Þetta gildir, þótt ekki hafi verið vísað til ákvæða upplýsingalaga til stuðnings beiðni kæranda, enda er það hlutverk stjórnvalda að afgreiða beiðnir um aðgang að gögnum í vörslum sínum á réttum lagagrundvelli.</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist málsmeðferð Þjóðskrár Íslands við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæði 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Þjóðskrá að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 4. nóvember 2016, um að synja beiðni kæranda, Siðmenntar, félags siðrænna húmanista, um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

726/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 9. febrúar kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 726/2018 í máli ÚNU 18010001.</p><h3><b>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</b></h3><p>Með erindi, dags. 2. janúar 2018, kærði A afgreiðslu skrifstofu Alþingis á beiðni hans um aðgang að gögnum. Beiðni kæranda snýr að tilteknum upplýsingum um akstursgjöld til alþingismanna.</p><p>Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita skrifstofu Alþingis kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja það frekar sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir meðal annars að undir ákvæðið falli einvörðungu þeir aðilar sem falið er að fara með stjórnsýslu og teljast til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Undir ákvæðið falli ekki aðrir opinberir aðilar, t.d. dómstólar og stofnanir Alþingis. Eðlilegt kunni þó að vera að þessir aðilar hagi störfum sínum þannig að þeir fylgi sambærilegum reglum og fram koma í upplýsingalögum.</p><p>Að framansögðu er ljóst að starfsemi Alþingis og stofnana þess fellur utan gildissviðs upplýsingalaga. Það á við þótt Alþingi virðist í einhverjum mæli horfa til laganna þegar því berast beiðnir um afhendingu gagna. Þar sem ekki er unnt að óska aðgangs að gögnum hjá Alþingi á grundvelli laganna er heldur ekki unnt að kæra synjun Alþingis um afhendingu tiltekinna gagna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. þeirra.&nbsp;Með vísan til framangreinds ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Kæru A, dags. 2. janúar 2018, vegna afgreiðslu skrifstofu Alþingis á beiðni um aðgang að gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;<br></p>

723/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Kærð var meðferð Umhverfisstofnunar á beiðni um aðgang að gögnum um samning við Landsnet um eftirlit vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröfulínu 4. Af hálfu Umhverfisstofnunar kom fram að kæranda hefði verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem vörðuðu málið í vörslum stofnunarinnar. Þar sem réttur til aðgangs að gögnum nær eingöngu til fyrirliggjandi gagna var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 723/2018 í máli ÚNU 17050010.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 22. maí 2017, kærði A, f.h. Landverndar, synjun Umhverfisstofnunar, dags. 8. maí 2017, á beiðni um aðgang að gögnum í vörslum stofnunarinnar. Þann 11. apríl 2017 fór kærandi þess á leit við stofnunina að veittur yrði aðgangur að gögnum um samning Landsnets og Umhverfisstofnunar um sérstakt eftirlit stofnunarinnar vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Óskað var eftir afriti samningsins sjálfs auk allra gagna um framkvæmd eftirlitsins, annarra gagna málsins og lista yfir málsgögn. Með tölvupósti, dags. 19. apríl 2017, var kæranda veittur aðgangur að samningnum auk þess sem veittar voru upplýsingar um framkvæmd eftirlits með framkvæmdunum. Með tölvupósti, dags. 26. apríl 2017, ítrekaði kærandi beiðni sína um öll gögn málsins en ekki hafi borist listi úr málaskrá, gögn um samskipti við verkkaupa og verktaka á hans vegum svo sem tölvupóstssamskipti, skrá um símtöl eða önnur skráning vegna fyrirhugaðra eftirlitsferða. Slík gögn hljóti að vera fyrirliggjandi. Þá megi ætla að ráðleggingar til verkkaupa séu með einhverjum hætti skráðar. Einnig megi ætla að einhvers konar vinnustundabókhald liggi fyrir auk útgefinna reikninga. Samdægurs fékk kærandi sendan reikning vegna eftirlits sem Umhverfisstofnun sendi Landsneti. Með tölvupósti, dags. 5. maí 2017, ítrekaði kærandi gagnabeiðni sína. Með tölvupósti, dags. 8. maí 2017, svaraði Umhverfisstofnun kæranda því að ekki væri um fleiri gögn að ræða.</p><p>Í kæru er tekið fram að kærð sé synjun Umhverfisstofnunar um aðgang að lista yfir málsgögn og öllum gögnum máls vegna eftirlitssamnings stofnunarinnar við Landsnet frá 18. maí 2016 vegna Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 sem ekki hafi verið afhent kæranda. Nánar tiltekið sé beðið um alla tölvupósta, munnleg og skrifleg samskipti við samningsaðila Umhverfisstofnunar, Landsnet og aðra aðila er málinu tengjast, þar með talið eftirlitsaðila Landsnets og verktaka Landsnets, auk annarra gagna um aðdraganda samningsins og framkvæmd hans á gildistíma hans.</p><p>Kærandi segist líta svo á að Umhverfisstofnun hafi synjað um afhendingu annarra gagna sem málinu tengjast en ekki sé unnt að fallast á að engin frekari gögn séu til. Það leiði af eðli máls að frekari gögn hljóti að finnast í einhverju formi, annað hvort hjá kæranda sjálfum eða hjá öðrum aðilum. Þannig hafi því í raun verið hafnað að afhenda kæranda m.a. málaskrá, tölvupósta, munnleg og skrifleg samskipti við leyfishafa, Landsnet og aðra aðila er málinu tengjast, auk annarra gagna sem tengjast málinu.</p><p>Kærandi byggir á því að öll gögn sem óskað var aðgangs að heyri undir lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál, sbr. 3. tl. 3. gr. laganna og að afhenda beri bæði gögn sem séu í fórum kærða sjálfs og annarra, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Kærandi telur að gögn málsins geti ekki verið undanþegin upplýsingarétti með vísan til ákvæða laga nr. 140/2012. Undanþága um vinnugögn geti ekki átt við heldur beri kærði skýlaus skylda bæði til að halda gögnum til haga og afhenda þau þegar um umhverfismál sé að ræða. Enga heimild sé að finna í lögum nr. 23/2006 til að afhenda ekki málaskrá og önnur gögn. Kærði hafi ekki skýrt af hverju kærandi hafi ekki fengið afhenta útprentun úr málaskrá eða önnur gögn. Því hafi aðeins verið haldið fram að gögnin væru ekki til. Kærða beri að halda skrá um mál og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg en um kærða gildi reglur IV. kafla laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hvað varði skráningu, skjalastjórn og skjalavörslu. Þá gildi 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um kærða.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 24. maí 2017, var kæran kynnt Umhverfisstofnun og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.</p><p>Umsögn Umhverfisstofnunar er dagsett 13. júní 2017. Þar segir m.a. að Umhverfisstofnun hafi upplýst kæranda um að ákveðið hafi verið að víkja frá ákvæði samnings Umhverfisstofnunar og Landsnets um að skila skuli skýrslu eftir hverja eftirlitsferð. Einnig hafi verið gerð grein fyrir því að Umhverfisstofnun ráðgerði að nota svipuð vinnubrögð og við frágang við Kárahnjúkavirkjun, þ.e. að við lok jarðvinnu yrðu teknar saman ábendingar um hvað mætti betur fara. Að frágangi loknum muni fara fram umhverfisúttekt á vegum Landsnets þar sem unnt verði að koma á framfæri frekari ábendingum um frágang. Því liggi ekki fyrir eftirlitsskýrslur.</p><p>Tekið er fram að beiðni kæranda um lista yfir málsgögn hafi ekki verið gefinn gaumur en úr því hafi verið bætt. Ekki hafi verið stofnað mál í málaskrá stofnunarinnar um framkvæmd samningsins en hins vegar hafi verið stofnað mál um samningsgerðina og hafi öll gögn þess máls verið send kæranda. Umhverfisstofnun hafi sent kæranda þau skilaboð með tölvupósti, dags. 9. júní 2017, að skilningur stofnunarinnar á beiðni um skrá yfir símtöl væri að um væri að ræða yfirlit yfir símtöl úr síma sérfræðings til Landsnets. Ekki hafi borist athugasemdir við þennan skilning. Slíkt yfirlit sé ekki fyrirliggjandi hjá Umhverfisstofnun, sbr. 5. gr. laga nr. 23/2006. Þá kemur fram að Landvernd hafi þann 12. júní 2017 fengið senda verkskýrslu fyrir verkefnið sem keyrð hafi verið úr verkbókhaldskerfi Fjársýslu ríkisins. Auk þess hafi verið gerð grein fyrir framkvæmd eftirlitsins á fundi með Landvernd. Stofnunin telur því að veittar hafi verið munnlegar upplýsingar um eftirlitið. Þá upplýsir stofnunin að fundist hafi tvö tölvuskeyti sem varði samninginn og þau send kæranda þann 7. júní 2017. Haft hafi verið samband við byggingafulltrúa Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og byggingafulltrúa Norðurþings til að kanna hvort einhver gögn væru þar að finna. Byggingafulltrúi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafi sagt samskipti einkum hafa verið í formi samtala fyrir utan punkta frá fundi, dags. 30. júní 2016. Ekki væru fyrirliggjandi gögn um framkvæmd eftirlitsins hjá Norðurþingi skv. upplýsingum byggingafulltrúa. Umhverfisstofnun geri ekki ráð fyrir að ítarlegri gögn finnist hjá öðrum. Tölvuskeyti, þar sem óskað hafi verið afstöðu viðkomandi sveitarfélaga til samningsins, hafi verið send kæranda þann 7. og 8. júní 2017. Þá hafi kærandi fengið senda aðra tölvupósta en þá sem tilheyrðu máli um undirbúning samningsins ásamt yfirliti úr málaskrá.</p><p>Umsögn Umhverfisstofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júní 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.</p><p>Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í málinu er deilt um afgreiðslu Umhverfisstofnunar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Í umsögn Umhverfisstofnunnar er því borið við að kæranda hafi verið afhent gögn eftir að kæra barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál og að engin frekari gögn séu fyrirliggjandi. </p><p>Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur til þeirra gagna sem fyrirliggjandi eru þegar beiðni um aðgang berst, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 og 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 23/2006 og 20. gr. laga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Umhverfisstofnunar að ekki séu önnur gögn í vörslum hennar sem heyra undir gagnabeiðni kæranda en þau sem þegar hafa verið afhent. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Nefndin tekur fram að með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort Umhverfisstofnun hafi sinnt skyldum sínum um skráningu mála og vistun gagna, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Það kemur eftir atvikum í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinni þessum skyldum með fullnægjandi hætti, einkum æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Kæru A, f.h. Landverndar, dags. 22. maí 2017, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. </p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

721/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Kærð var töf sveitarfélags á afgreiðslu beiðni kæranda um aðgang að gögnum um landamerkjadeilu. Í svari kærða kom m.a. fram að engin formleg gögn væru til, enda hefði sveitarfélaginu aðeins borist afrit af gögnum dómsmáls sem eigandi lóðanna. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kom fram að þessari aðstöðu verði ekki jafnað til þess að engin gögn liggi fyrir um deiluna. Var því lagt fyrir sveitarfélagið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 721/2018 í máli ÚNU 17020008.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 20. febrúar 2017, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um afhendingu gagna er varða landamerkjadeilu húseigenda í Vestmannaeyjum. Í kærunni segir að beiðni kæranda, dags. 9. febrúar 2017, hafi ekki verið svarað af hálfu sveitarfélagsins.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 10. mars 2017, óskaði ritari úrskurðarnefndar um upplýsingamál eftir upplýsingum um stöðu málsins hjá sveitarfélaginu. Í svari sveitarfélagsins, dags. 14. mars 2017, kemur fram að sveitarfélagið sé ekki aðili að málinu að svo stöddu heldur sé það einungis að gæta sinna hagsmuna í málinu. Málið sé til meðferðar hjá dómstólum og því geti sveitarfélagið ekki látið af hendi tölvupósta sem farið hafi á milli lögfræðings og starfsmanna, enda ekki um opinber gögn að ræða.</p><p>Með bréfi, dags. 18. mars 2017, beindi ritari úrskurðarnefndarinnar þeirri fyrirspurn til sveitarfélagsins hvort kæranda hefði verið tilkynnt um þá aðstöðu í málinu sem sveitarfélagið teldi koma í veg fyrir aðgang hans að gögnunum. Í svari sveitarfélagsins, dags. 20. mars 2017, kemur fram að það hafi ekki verið ítarlega kynnt fyrir kæranda hvaða gögn liggi fyrir, enda séu engin formleg gögn til. Sveitarfélagið hafi fengið tölvupósta og afrit af bréfum milli deiluaðila þar sem það sé eigandi lóðanna. Við þær aðstæður eigi sveitarfélagið ekki hlut að málaferlunum heldur sé það einungis að fylgjast með og muni gæta hagsmuna sinna ef á þurfi að halda.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Mál þetta varðar afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum hjá sveitarfélaginu er varða deilur húseigenda í Vestmannaeyjum. Í svari sveitarfélagsins til kæranda, dags. 2. febrúar 2017, kemur fram að engin gögn liggi fyrir varðandi beiðni kæranda. Af skýringum þess fyrir úrskurðarnefndinni verður hins vegar ráðið að sveitarfélagið hafi gögn um málið undir höndum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að upplýsingalög nr. 140/2012 taka til allra fyrirliggjandi gagna hjá aðilum sem falla undir lögin með ákveðnum takmörkunum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þeirri aðstöðu, sem lýst er í umsögn sveitarfélagsins og varðar stöðu þess gagnvart deilu húseigendanna, verður ekki jafnað til þess að engin gögn liggi fyrir um deiluna.</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist málsmeðferð sveitarfélagsins við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Beiðni A, dags. 9. febrúar 2017, er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

725/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Landspítali-Háskólasjúkrahús fór þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál sem lyktaði með úrskurði nr. 607/2016 frá 18. janúar 2016. Í úrskurði nefndarinnar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beiðni um endurupptöku ekki tekin til greina eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því aðila var tilkynnt um ákvörðun, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verði mál ekki tekið upp ef ár er liðið nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þar sem beiðnin barst tíu mánuðum eftir uppkvaðningu og samþykki gagnaðila fyrir endurupptöku lá ekki fyrr var henni hafnað.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 725/2018 í máli ÚNU 17110007.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 22. nóvember 2017, fór Landspítali-Háskólasjúkrahús (LSH) þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki að nýju upp mál nr. ÚNU 14100010 sem lyktaði með úrskurði nr. 607/2016 frá 18. janúar 2016. Þar var deilt um beiðni um aðgang að upplýsingum um starfsmenn LSH sem höfðu aðgang að og lásu sjúkraskýrslur látins eiginmanns kæranda í málinu á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að skýra bæri hugtakið sjúkraskrárupplýsingar, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009, rúmri skýringu þannig að umbeðin gögn teldust til sjúkraskrár mannsins. Um rétt kæranda færi því samkvæmt lögum um sjúkraskrár og var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>Í beiðni LSH um endurupptöku kemur fram að enn standi yfir deilur um það hvert ákvörðunin sé kæranleg. Embætti landlæknis, sem hafi yfirumsjón með rafrænni sjúkraskrá á landsvísu, sé ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Sérfræðiálit yfirmanns sjúkraskrármála hljóti að vega þungt við ákvörðun um það hvaða upplýsingar teljist sjúkraskrárupplýsingar og hverjar ekki. Af því tilefni freisti LSH þess að fá málið endurupptekið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.</p><p>LSH kveðst ekki hafa hagsmuni af því að halda upplýsingunum frá beiðanda. Hins vegar skipti miklu að rétt sé staðið að málum sem þessum í samræmi við lög. Hagsmunir spítalans felist í því að kæruleiðir séu skýrar og byggðar á réttum forsendum og spítalinn geti leiðbeint einstaklingum um kærur á ákvörðunum hans.</p><p>Í beiðni LSH er vikið að úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-155/2002, sem úrskurðarnefndin vísaði til í úrskurði nr. 607/2016 því til stuðnings að skýra beri hugtakið sjúkraskrárupplýsingar rúmri skýringu. Þar hafi ágreiningurinn snúið að sjúkraskýrslum, hjúkrunarskýrslum, dagálum og ef til vill fleiri gögnum. Í dag sé hins vegar ljóst að öll þessi gögn séu hluti sjúkraskrár en það eigi hins vegar ekki við um kerfisupplýsingar. LSH kveður fært að líta til greinargerðar er fylgdi frumvarpi til laga nr. 55/2009 þar sem fram kemur að skilgreiningunni sé ætlað að taka til allra gagna og upplýsinga sem aflað er við meðferð sjúklings og færð séu í sjúkraskrá. Skýrt komi því fram að hugtakið eigi við um upplýsingar sem sérstaklega séu færðar í sjúkraskrá. Kerfislegar upplýsingar sem „loggist“ sjálfkrafa falli því ekki þarna undir.</p><p>Beiðni LSH um endurupptöku fylgdi afrit af bréfaskiptum LSH og embættis landlæknis. Í bréfi embættisins, dags. 7. júlí 2016, kemur meðal annars fram sú afstaða að upplýsingar um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá, hvenær og í hvaða tilgangi geti með engu móti talist til sjúkraskrárupplýsinga. Sjúkraskrárupplýsingar séu upplýsingar sem varði heilsufar og meðferð sjúklings. Þegar óskað sé eftir lista yfir aðila sem skoða eða fletta upp í tiltekinni sjúkraskrá þurfi að gera úttekt á innskráningu („loggunum“) heilbrigðisstarfsmanna inn í sjúkraskrárkerfið og ákveðna hluta kerfisins. Um sé að ræða stjórnunarhluta kerfisins sem snúi að eftirliti með aðgangi heilbrigðisstarfsmanna að sjúkraskrá. Með úttektinni sjáist hvaða einstaklingar hafi „loggað“ sig inn í sjúkraskrár en sjúkraskrárupplýsingar sjáist ekki. Um sé að ræða nöfn viðkomandi heilbrigðisstarfsmanna, starfsstétt og tímasetningar.</p><p>Ef listi yfir uppflettingar teldist til sjúkraskrárupplýsinga, líkt og úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi komist að niðurstöðu um, telur embætti landlæknis nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsmenn hefðu almennan aðgang að slíkum lista en svo sé hins vegar ekki. Listinn geti ekki talist til upplýsinga um heilsufar sjúklings eða verið nýttur í þágu meðferðar. Embætti landlæknis áréttar að tilgangurinn með rétti sjúklings til aðgangs sé til þess fallinn að hafa eftirlit með því hvort óviðkomandi fletti upp í sjúkraskrá sjúklings. Jafnframt er að mati landlæknis ljóst að réttur sjúklings til aðgangs að listanum eigi einungis við um sjúkling sjálfan en ekki aðstandanda en fjallað er um rétt aðstandenda til aðgangs að sjúkraskrá látins einstaklings í 15. gr. laga um sjúkraskrár.</p><p>Kærandi í máli nr. ÚNU 14100010 hafði samband símleiðis við ritara úrskurðarnefndarinnar og óskaði upplýsinga um stöðu málsins. Jafnframt kom fram að kærandinn teldi það vera tilgang LSH og embættis landlæknis með málinu að koma í veg fyrir að hún fengi aðgang að þeim gögnum sem hún sæktist eftir.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:</p><blockquote><p>Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:</p><p><ol><li>ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br></li><li>íþyngjandi ákvörðun um boð og bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.<br></li></ol></p></blockquote><p>Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun skv. 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.</p><p>Beiðni LSH um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 607/2016 barst um tíu mánuðum eftir uppkvaðningu hans. Úrskurðurinn var tilkynntur með bréfi sem var póstlagt til beggja aðila samdægurs. Því verður lagt til grundvallar að beiðnin hafi borist að liðnum þeim þriggja mánaða fresti sem 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um. Jafnframt er ljóst að ekki liggur fyrir samþykki annarra aðila málsins, þ.e. kæranda máls nr. 14100010, fyrir því að málið verði tekið til meðferðar á ný. Brestur því skilyrði til að verða við beiðni LSH. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur einnig fram að ekki er hægt að líta svo á að beiðni LSH leiði í ljós að úrskurður nr. 607/2016 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvikum sem breyst hafi verulega frá uppkvaðningu, heldur snýr beiðnin að lögskýringum nefndarinnar.</p><p>Með vísan til þess sem að framan segir er hafnað beiðni LSH um endurupptöku máls ÚNU 14100010 sem lyktaði með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 607/2016.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Beiðni Landspítala-Háskólasjúkrahúss um endurupptöku máls nr. 14100010 og endurskoðun úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 607/2016 er hafnað.</p><p><br></p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p><br></p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

720/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Kærandi óskaði aðgangs að gögnum sakamáls hjá embætti héraðssaksóknara. Úrskurðarnefndin tók fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gildi lögin ekki um rannsókn sakamála eða saksókn. Þar sem beiðni kæranda lyti skýrlega að að slíkum gögnum var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 720/2018 í máli ÚNU 17110003.</p><h3><b>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</b></h3><p>Með erindi, dags. 2. nóvember 2017, kærði A synjun embættis héraðssaksóknara á beiðni hans um aðgang að tilteknum gögnum og upplýsingum varðandi rannsókn sakamáls gegn Thomas Frederik Møller Olsen.</p><p>Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita embætti héraðssaksóknara kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Beiðni kæranda lýtur að rannsókn sakamáls sem dæmt er í héraðsdómi. Þá liggur fyrir að dóminum hefur verið áfrýjað. Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamála eða saksókn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er síðan varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að rannsókn sakamála og saksókn séu undanskilin gildissviði upplýsingalaga og að um aðgang að slíkum gögnum fari eftir sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Samhljóða ákvæði var í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Að mati nefndarinnar lýtur beiðni kæranda í heild sinni skýrlega að gögnum og upplýsingum um rannsókn sakamáls og saksókn í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því samkvæmt framangreindu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Kæru A, dags. 2. nóvember 2017, vegna synjunar embættis héraðssaksóknara á beiðni um aðgang að gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

715/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um kröfur til öruggs undirskriftarbúnaðar fyrir rafrænar undirskriftir, sem eru í vörslum Neytendastofu á grundvelli eftirlitshlutverks hennar. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar féllu undir sérstakt þagnarskylduákvæði 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001 og staðfesti hina kærðu ákvörðun.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 715/2018 í máli ÚNU 16070001.&nbsp;&nbsp;</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 4. júlí 2016, kærði A synjun Neytendastofu á beiðni um afhendingu gagna um staðfestingar frá þar til bærum aðilum um að kröfum til öruggs undirskriftarbúnaðar teljist fullnægt, einkum:</p><p><ol><li>Nafn þess sem veitti Auðkenni ehf. staðfestingu.<br></li><li>Hvenær staðfestingin var gerð.<br></li><li>Hvenær staðfestingin barst Neytendastofu.<br></li><li>Hvaða búnaður hafi hlotið staðfestingu.<br></li></ol></p><p>Kærandi óskaði eftir gögnunum með bréfi, dags. 1. júní 2016. Með bréfi, dags. 8. júní 2016, synjaði Neytendastofa beiðninni með vísan til þess að um væri að ræða viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem væru atvinnuleyndarmál. Þá kom fram að í úttektunum væri jafnframt að finna upplýsingar sem varði öryggi og uppfærslur undirskriftabúnaðar sem Auðkenni ehf. noti. Því krefðust mikilvægir almanna- og einkahagsmunir þess að aðgangur að gögnunum í heild eða að hluta væri takmarkaður, sem og tilgreining þeirra. Vísað var til 9. og 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í þessu sambandi.</p><p>Í kæru kemur fram að Neytendastofa hafi ekki tiltekið þær lágmarksupplýsingar sem kærandi hafi farið fram á að gerðar yrðu opinberar, þ.e. hvaða „þar til bærir aðilar“ hafi gefið út slíkar staðfestingar, hvenær slíkar staðfestingar voru gerðar, hvenær þær bárust Neytendastofu og til hvaða búnaðar staðfestingarnar nái. Þá hafi ekki verið rökstutt frekar hvers vegna jafnvel tilgreining gagnanna eða aðgangur að hluta þeirra stefni mikilvægum almanna- og einkahagsmunum í hættu. Kærandi segist hafna þeirri túlkun Neytendastofu að gögnin falli undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga en ólíklegt sé að þau varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Kærandi tekur fram að innihaldi hluti gagnanna slíkt efni eigi að veita aðgang að öðrum hlutum gagnanna og að lágmarki að upplýsa um þau fjögur atriði sem kærandi hafi farið fram á að upplýst yrði um. Þá hafnar kærandi því að gögnin geti fallið undir 3.tl. 10. gr. upplýsingalaga en Neytendastofa hafi ekki rökstutt hvernig efnahagslega mikilvægum hagsmunum ríkisins yrði stefnt í hættu ef gögnin væru opinber.</p><p>Kærandi telur þá afstöðu Neytendastofu að neita að upplýsa um hver hafi vottað að lausnir uppfylli skilyrði laga nr. 28/2001 um rafrænar undirskriftir ekki standast í ljósi þeirrar stöðu sem „fullgildar“ rafrænar undirskriftir njóti skv. lögunum. Tekið er fram að slíkar rafrænar undirskriftir hafi sömu réttaráhrif og undirskriftir á pappír og geti þær skuldbundið aðila á sama hátt. Öryggisveikleikar tengdir slíkum undirskriftum geti því skuldbundið aðila án samþykkis þeirra. Því hafi neytendur ríka hagsmuni af því að upplýst verði um hver hafi staðfest að slíkar lausnir uppfylli skilyrði laga nr. 28/2001. Þá kemur fram að lausnirnar séu ætlaðar almenningi sem þurfi að treysta á að bærir aðilar votti að þær samrýmist lögunum. Því telur kærandi að upplýsingar um það hverjir séu bærir til að staðfesta að kröfum sé fullnægt, hvenær staðfesting var gerð og hvenær Neytendastofu barst slík staðfesting sem og um hvaða búnað sé að ræða, séu grundvallarupplýsingar sem Neytendastofu beri að upplýsa.</p><p>Kærandi telur Neytendastofu vera í lófa lagið að upplýsa um þessi fjögur atriði án þess að mikilvægum hagsmunum sé stefnt í hættu. Að lokum tekur kærandi fram að þeir „þar til bæru aðilar“ sem vísað sé til í 9. gr. laga nr. 28/2001 eigi að koma fram í reglugerð sem ráðherrra setji um framkvæmd laganna. Því sé ekki unnt að líta svo á að nafn slíks aðila sé atvinnuleyndarmál. Þvert á móti sé nauðsynlegt að upplýsa um nafn þessa aðila svo hægt sé að átta sig á hvort viðkomandi lausn uppfylli skilyrði laganna. Hið sama eigi við um önnur atriði sem kærandi óski eftir upplýsingum um.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Kæran var kynnt Neytendastofu með bréfi, dags. 8. júlí 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.</p><p>Í umsögn Neytendastofu, dags. 19. ágúst 2016, segir að kæranda hafi tvívegis verið synjað um aðgang að umbeðnum gögnum, fyrst með bréfi, dags. 31. maí 2016, og síðar með bréfi, dags. 8 júní 2016. Í fyrrnefnda bréfinu hafi komið fram að Neytendastofa teldi að gögnin geymdu viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu Auðkennis ehf. og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Þá yrði að takmarka aðgang almennings að gögnunum með vísan til 3. tl. 10. gr. upplýsingalaga þar sem mikilvægir almannahagsmunir krefðust þess að aðgangur yrði takmarkaður, enda geymi gögnin upplýsingar um öryggi þeirra rafrænu skilríkjalausna sem neytendur nýti sér við rafrænar undirskriftir. Neytendastofa telur að afhending þeirra geti m.a. skaðað öryggi þeirra rafrænu skilríkjalausna sem íslenskir neytendur noti. Um sé að ræða gögn sem Neytendastofa hafi einungis aðgang að sem eftirlitsaðili og þá á starfstöð Auðkennis ehf. Þá vísar Neytendastofa til þess að í bréfi til kæranda, dags. 8. júní 2016, hafi komið fram að í úttektunum séu að finna upplýsingar um hugbúnað, örgjörva og samsetningu undirskriftarbúnaðar, auk upplýsinga sem varði öryggi og uppfærslur undirskriftarbúnaðar sem Auðkenni ehf. noti. Því krefðust mikilvægir almanna- og einkahagsmunir þess að bæði tilgreining gagnanna sem og aðgangur að þeim yrði takmarkaður, bæði í heild og að hluta, sbr. 9. gr. og 3. tl. 10. gr. upplýsingalaga.</p><p>Neytendastofa tekur fram að það sé mat stofnunarinnar að gögnin hafi að geyma upplýsingar um það hvort og hvernig búnaður Auðkennis ehf. uppfylli grunnkröfur laga nr. 28/2001 og reglugerðar um rafræn skilríki nr. 780/2011. Gögnin hafi að geyma ítarlegar kerfis- og búnaðarlýsingar á undirskriftarbúnaði Auðkennis ehf., tegund örgjörva, samsetningu og virkni og upplýsingar um hugbúnað. Þá hafi þau að geyma upplýsingar um uppfærslur í undirskriftarbúnaðinum, frávik og niðurstöður öryggisprófana sem framkvæmdar hafi verið af hinum þar til bærs aðila sem sé erlendur. Tekið er fram að fyrirtæki, sem gefi út fullgild rafræn skilríki, notist við mismunandi tegundir búnaðar og hugbúnaðar, auk þess sem uppfærslur og samsetning þeirra sé mismunandi eftir því við hvaða birgja þau eiga viðskipti. Neytendastofa telur þær upplýsingar vera atvinnuleyndarmál þeirra fyrirtækja sem gefa út rafræn skilríki og birgja þeirra.</p><p>Neytendastofa telur upplýsingarnar einnig falla undir ákvæði 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001 sem sé sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 613/2016. Um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um viðskipti og rekstur Auðkennis ehf. Í gögnunum komi fram ítarlegar upplýsingar um undirskriftarbúnað fyrirtækisins og hverjir séu birgjar fyrirtækisins. Þá telur Neytendastofa opinberun upplýsinganna geta haft slæm áhrif á samkeppnisstöðu Auðkennis ehf., jafnvel þótt það sé eina fyrirtækið sem tilkynnt hafi um starfsemi af þessu tagi hér á landi. Tekið er fram að Neytendastofa hafi samþykkt að gögnin væru geymd á starfsstöð Auðkennis ehf., sbr. 5. mgr. 22. gr. reglugerðar 780/2011, þar sem þau innihaldi trúnaðarupplýsingar og varði öryggi undirskriftabúnaðar Auðkennis ehf. Að þessu virtu telur Neytendastofa að óheimilt sé samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001 og 5. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 780/2011 að veita aðgang að þeim.</p><p>Allt að einu telur Neytendastofa að 2. málsliður 9. gr. upplýsingalaga eigi við um gögnin. Gögnin innihaldi ítarlegar upplýsingar um undirskriftarbúnað Auðkennis ehf. sem séu atvinnuleyndarmál fyrirtækisins og birgja þess. Opinberun þeirra væri til þess fallin að valda fyrirtækinu tjóni þar sem slíkar upplýsingar séu ótvírætt trúnaðarmál er varði rekstur og samkeppnishæfni Auðkennis ehf. Upplýsingarnar séu nýlegar og fjalli um undirskriftarbúnað sem sésé í notkun hjá fyrirtækinu og hafi grundvallarþýðingu fyrir allan rekstur og vöruframboð þess.</p><p>Neytendastofa bendir á að í kafla 5.7.2 í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 28/2001 komi fram að nauðsynlegt sé að samkeppnisstaða íslenskra vottunaraðila sé tryggð og starfsumhverfi þeirra hér á landi sé sem allra best. Neytendastofa telur að hagsmunir af leynd gagnanna vegi þyngra á metunum en þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum sé ætlað að tryggja. Telur Neytendastofa því að sanngjarnt og eðlilegt sé að þau fari leynt, sbr. 2. málslið 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Neytendastofa telur jafnframt að 3. töluliður 10. gr. laga nr. 28/2001 geti átt við gögnin. Neytendastofa bendir á að rafræn skilríki byggi á svokallaðri Íslandsrót sem sé í eigu og umsjá íslenska ríkisins. Íslenska ríkið hafi gert samning við fyrirtækið Auðkenni ehf. um að vera milliliður og gefa út skilríki til almennings. Auðkenni ehf. geti gert samninga við fleiri fyrirtæki um að verða milliliðir við útgáfu rafrænna skilríkja. Fullgild rafræn skilríki séu notuð til auðkenningar og fullgildrar undirritunar í fjölmörgum lögskiptum almennings við opinberar stofnanir, meðal annars til þess að auðkenna sig inn á opinbera vefi og þjónustusíður. Neytendastofa telur að það séu mikilvægir hagsmunir íslenska ríkisins að starfsumhverfi til útgáfu fullgildra rafrænna skilríkja sé sem allra best og að starfsemi þeirra aðila sem gefa út slík skilríki og starfrækja undirskriftabúnað sé traust og öryggi tryggt.</p><p>Neytendastofa telur að ekki sé unnt að veita aðgang að hluta gagnanna eða að tilgreina hver sé úttektaraðilinn. Ef veittar yrðu upplýsingar um hina „þar til bæru aðila“ eða nafn/gerð örgjörva þá væri óviðkomandi aðilum unnt að afla upplýsinga um gerð búnaðarins og/eða birgja Auðkennis ehf. sem væri atvinnuleyndarmál.</p><p>Neytendastofa tekur fram að óski úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir skoðun á gögnunum þá verði það aðeins gert á skrifstofu Neytendastofu.</p><p>Í umsögninni kemur einnig fram að Neytendastofa hafi leitað álits Auðkennis ehf.vegna kærunnar og er það meðfylgjandi umsögninni. Í áliti Auðkennis ehf., dags. 15. ágúst 2016, leggst fyrirtækið gegn því að aðgangur verði veittur að gögnunum. Kemur þar m.a. fram að staðfestingarnar sem óskað sé eftir aðgangi að innihaldi greinargóðar lýsingar á hluta þeirra vara sem notaðar séu í starfsemi Auðkennis ehf. og séu grundvöllur þess að fyrirtækið geti boðið fullgildar rafrænar undirskriftir sem þjónustu á íslenskum markaði. Auðkenni ehf. telur ekki unnt að afmá sérgreindar upplýsingar um vöru fyrirtækisins þar sem ljóst sé að á markaði séu ekki margar vörur sem fullnægi kröfum um öruggan undirskriftarbúnað og aðeins örfáar úttektir framkvæmdar á ári hverju. Því myndi alltaf vera auðvelt að fylla í eyðurnar með upplýsingum sem aðgengilegar eru á netinu.</p><p>Umsögn Neytendastofu var kynnt kæranda með bréfi, dags. 24. ágúst 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 7. september 2016, kemur fram að Neytendastofa kjósi að túlka upplýsingabeiðni kæranda með mun víðtækari hætti en hún gefi tilefni til. Kærandi telur að þessar staðfestingar, séu þær á annað borð til, innihaldi einhvers konar yfirlýsingu frá þar til bærum aðila um að tiltekinn búnaður uppfylli kröfur sem tilteknar eru í lögum. Svarbréf Neytendastofu bendi til þess að stofnunin túlki beiðni kæranda þannig að hún nái til mun víðtækari gagna en þeirra fjögurra atriða sem kærandi hafi tiltekið. Sé það raunin að þessar staðfestingar innihaldi hluta sem halda á leyndum beri skv. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga&nbsp; 140/2012 að veita aðgang að öðrum hlutum þeirra.</p><p>Kærandi telur útilokað að þau atriði sem hann óskaði sérstaklega eftir að upplýst yrði um flokkist á einhvern hátt undir viðkvæmar viðskiptaupplýsingar eða atvinnuleyndarmál. Þessu til stuðnings bendir kærandi á að í 9. gr. laga 28/2001 sé tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um slíka aðila. Þetta hafi ekki verið gert í reglugerð og því sé óljóst hvort einhver þar til bær aðili hafi yfirhöfuð staðfest að kröfum til búnaðarins sé fullnægt. Ljóst sé að nöfn þar til bærra aðila ættu að koma fram í reglugerð ráðherra og því engan veginn hægt að álykta að þau séu á einhvern hátt viðkvæmar viðskiptaupplýsingar eða atvinnuleyndarmál.</p><p>Þá bendir kærandi á að Auðkenni ehf. hafi áður gefið út opinberar yfirlýsingar um það hvaða aðilar hafi vottað öryggi lausna þeirra og er vísað til fréttar Auðkennis ehf. um að bandaríska netöryggisfyrirtækið NowSecure (áður viaForensics) hafi vottað öryggi rafrænna skilríkja Auðkennis ehf. í farsímum. Kærandi segir þessa yfirlýsingu sýna að Auðkenni ehf. líti ekki á upplýsingar um þá sem votta öryggi rafrænna skilríkja sem viðkvæmar viðskiptaupplýsingar eða atvinnuleyndarmál. Kærandi ítrekar að hann óski ekki eftir öllum þeim gögnum sem Neytendastofa hafi samþykkt að geymd séu á starfsstöð Auðkennis ehf. Kærandi hafi einungis óskað eftir afritum af staðfestingum þar til bærra aðila um að kröfum til öruggs undirskriftarbúnaðar teljist fullnægt.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ítrekaði beiðni sína um afrit af umbeðnum gögnum með bréfi, dags. 25. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 16. september 2016, ítrekaði Neytendastofa fyrri afstöðu sína um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skoðaði gögnin á starfsstöð Neytendastofu svo unnt væri að tryggja öryggi gagnanna. Tekið er fram að ef úrskurðarnefnd um upplýsingamál krefjist þess að fá aðgang að gögnunum utan starfstöðvar Neytendastofu sé stofnunin reiðubúin til að koma upp sérstöku gagnaherbergi með viðeigandi öryggisstillingum þar sem nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar einir hafi aðgang að gögnunum.</p><p>Með bréfi, dags. 20. september 2016, lýsti Auðkenni ehf. því yfir að fyrirtækið væri andvígt því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fengi afrit umbeðinna gagna. Í bréfinu kemur fram að Auðkenni ehf. &nbsp;telji ekki þörf á efnislegu mati á innihaldi einstakra skjala því samræmd beiting á sérstökum þagnarskylduákvæðum, þar á meðal 4. mgr. 20. gr. laga 28/2001, komi í veg fyrir þörf á efnislegri afstöðu.</p><p>Í bréfinu mótmælir Auðkenni ehf. þeirri túlkun úrskurðarnefndarinnar sem sett var fram í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 613/2016, að ákvæði 4. mgr. 20. gr. laga 28/2001 verði ekki túlkað svo rúmt að allar upplýsingar sem íslenskir vottunaraðilar láta stofnuninni í té teljist upplýsingar um viðskipti og rekstur viðkomandi aðila sem leynt skuli fara. Sú túlkun fari m.a. í bága við þá staðreynd að Auðkenni ehf. afhendi Neytendastofu engar aðrar upplýsingar en þær sem snúi beint að viðskiptum og rekstri þeirra þátta félagsins sem lúti eftirlitsskyldunni. Auðkenni ehf. telur að öll gögn sem sem það afhendi Neytendastofu séu þannig undanþegin upplýsingaskyldu upplýsingalaganna. Þá mótmælir Auðkenni ehf. &nbsp;þeirri ályktun sem dregin var í niðurstöðukafla úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 613/2016 um að skjal sem inniheldur staðfestingu þar til bærs aðila um að kröfum til öruggs undirskriftarbúnaðar teljist fullnægt, geymi einkum upplýsingar um það hvort Auðkenni ehf. hafi fengið slíka staðfestingu og þá frá hverjum. Tekið er fram að skjöl sem lögð séu fram til staðfestingar þess að Auðkenni ehf. uppfylli kröfur laga og reglna séu úttektarskjöl sem innihaldi lýsingar á því hvernig staðfestingu er náð fram. Skjölin séu rík af upplýsingum sem tengist beint viðskiptum og rekstri Auðkennis ehf. sem eftirlitsskylds vottunaraðila, tengdra aðila og eftir atvikum annarra. Auðkenni ehf. leggst harðlega gegn því að slík skjöl séu afhent þriðja aðila enda hvíli á Neytendastofu sú skylda að afhenda engum þau gögn sem Auðkenni ehf. &nbsp;hafi verið þvingað til að afhenda stofnuninni. Þá er því jafnframt andmælt að orðalagið „viðskipti og rekstur vottunaraðila, tengdra aðila eða annarra“, sem fram kemur í 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001, verði túlkað svo þröngt að einvörðungu upplýsingar um sambönd Auðkennis ehf. við viðskiptamenn þess, þau viðskiptakjör sem Auðkenni ehf. nýtur, álagning þess eða afkoma falli þar undir. Ljóst sé að ýmsar upplýsingar sem Auðkenni sé þvingað til þess að afhenda Neytendastofu vegna eftirlits stofnunarinnar með starfsemi Auðkennis ehf. varði rekstur félagsins án þess að í þeim skjölum séu viðskiptakjör eða aðrar fjárhagslegar upplýsingar. Lýsingar á kerfum eða rekstrareiningum einstakra kerfa varði t.d. augljóslega viðskipti og rekstur Auðkennis ehf., tengdra aðila eða annarra, án þess að nokkrar fjárhagstengdar upplýsingar komi þar fram.</p><p>Með tölvupósti, dags. 16. nóvember 2016, fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við Neytendastofu að upplýst yrði á hvaða sniði umbeðin gögn væru. Sú fyrirspurn var ítrekuð með tölvupósti dags. 12. desember 2016. Neytendastofa svaraði fyrirspurninni með tölvupósti, dags. 6. janúar 2017, og lagði jafnframt til að úrskurðarnefndin fengi aðgang að gögnunum í gegnum sérstakt vefviðmót (rafrænt gagnaherbergi) þar sem unnt væri að skoða gögnin. Úrskurðarnefndin samþykkti þá tillögu með tölvupósti, dags. 9. janúar 2017. Eftir frekari samskipti úrskurðarnefndarinnar og Neytendastofu tilkynnti stofnunin nefndinni þann 22. júní 2017 að unnt væri að nálgast gögnin í rafrænu gagnaherbergi. Gagnaherbergið reyndist hins vegar lokað þegar starfsmenn úrskurðarnefndarinnar gerðu tilraun til að nálgast gögnin og tókst það ekki fyrr en í lok ágúst 2017.</p><p>Með bréfi, dags. 17. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að Neytendastofa staðfesti að úrskurðarnefndin hefði fengið afrit af öllum gögnum sem kæra kæranda lýtur að. Þá var óskað eftir nánari skýringar um efni hluta gagnanna. Auðkenni ehf. var jafnframt gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi fyrirspurnarinnar.</p><p>Meðferð málsins hefur dregist óhæfilega hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Ástæðurnar er fyrst og fremst að rekja til þess dráttar sem varð á því að úrskurðarnefndin fengi aðgang að umbeðnum gögnum, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þannig leið meira en eitt ár frá því að úrskurðarnefndin óskaði eftir þeim og þar til Neytendastofa varð við óskinni með því að koma upp sérstöku rafrænu gagnaherbergi, sem stofnunin kvað nauðsynlegt til að tryggja öryggi umbeðinna gagna. Það athugast sérstaklega að engin þörf var á þeirri ráðstöfun. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál á skýlausan rétt til afrita af öllum gögnum sem kæru varðar á grundvelli 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Nefndin ber sjálf ábyrgð á því að tryggja öryggi gagna í vörslum hennar. Neytendastofu var því ekki stætt á því að láta hjá líða að verða við kröfu nefndarinnar um afrit umbeðinna gagna innan tiltekins frests á þeirri forsendu að þörf væri á sérstökum öryggisráðstöfunum. Verður ekki hjá því komist að átelja harðlega þá meðferð sem beiðni úrskurðarnefndarinnar um afrit umbeðinna gagna hlaut hjá Neytendastofu.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að staðfestingum sem Auðkenni ehf. hefur fengið á því að kröfum til öruggs undirskriftarbúnaðar fyrirtækisins teljist fullnægt og Neytendastofa hefur í vörslum sínum sem eftirlitsaðili á starfsemi Auðkennis ehf. sem vottunaraðila fyrir rafrænum undirskriftum á Íslandi, sbr. 18. gr. laga um rafrænar undirskriftir nr. 28/2001. Kærandi reisir rétt sinn til aðgangs að upplýsingunum á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings.</p><p>Í kæru afmarkar kærandi upplýsingabeiðni sína þannig að óskað sé upplýsinga um fjögur atriði sem komi fram í umbeðnum gögnum. Þau eru:</p><p><ol><li>Nafn þess sem veitti Auðkenni ehf. staðfestingu.<br></li><li>Hvenær staðfestingin var gerð.<br></li><li>Hvenær staðfestingin barst Neytendastofu.<br></li><li>Hvaða búnaður hafi hlotið staðfestingu.<br></li></ol></p><p>Neytendastofa hefur afmarkað beiðnina við tiltekin gögn í vörslum stofnunarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að ætla að önnur gögn í vörslum stofnunarinnar geymi upplýsingar um atriðin sem kærandi tiltekur í beiðni sinni.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Neytendastofa telur óheimilt að veita aðgang að umbeðnum gögnum þar sem þau hafi að geyma upplýsingar sem falli undir þagnarskylduákvæði 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001 og 9. gr. og 3. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001 segir orðrétt:&nbsp;</p><blockquote><p>Starfsmenn Neytendastofu eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur vottunaraðila, tengdra aðila eða annarra. Sama gildir um sérfræðinga sem starfa fyrir Neytendastofu að eftirlitsstarfi samkvæmt lögum þessum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.</p></blockquote><p>Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 613/2016 var komist komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið væri sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga og gildi um upplýsingar sem leynt eiga að fara um „viðskipti og rekstur“ þeirra aðila sem Neytendastofu er falið að hafa eftirlit með. Að því leyti sem ákvæðið tilgreinir ekki með nákvæmum hætti þær upplýsingar sem beri að gæta trúnaðar um felur það hins vegar í sér almenna reglu um þagnarskyldu sem takmarkar ekki rétt til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Að þessu leyti þarf einnig að hafa hliðsjón af 2. málslið 9. gr. upplýsingalaga við mat á efni umbeðinna gagna.&nbsp;</p><h3><b>3.</b></h3><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögnin sem Neytendastofa hefur afmarkað beiðni kæranda við. Þau eru einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi er um að ræða erindi frá Auðkenni ehf. til Neytendastofu þar sem gerð er grein fyrir búnaði sem fyrirtækið notar til að dreifa rafrænum skilríkjum til neytenda og ýmsum öðrum atriðum í rekstri félagsins. Í öðru lagi er meðal umbeðinna gagna nokkur fjöldi skýrslna og úttekta erlendra stofnana á búnaðinum sem Auðkenni ehf. hefur sent til Neytendastofu á grundvelli eftirlitshlutverks stofnunarinnar, sbr. VII. kafla laga nr. 28/2001. Það athugast að síðarnefndu skjölin eru flest eða öll aðgengileg almenningi á vefjum viðkomandi aðila. Hins vegar telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál unnt að fallast á það með Neytendastofu að tilgreining á þeim búnaði sem félagið notast við til að staðfesta rafrænar undirskriftir geti falið í sér upplýsingar um viðskipti og rekstur Auðkennis ehf. sem leynt eigi að fara í skilningi þagnarskylduákvæðis 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001. Skoðun úrskurðarnefndarinnar á hinum umbeðnu gögnum hefur ekki leitt í ljós að þau innihaldi aðrar upplýsingar en þær sem falla undir gildissvið ákvæðisins.</p><p>Í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að almenn ákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði verður hins vegar að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda, hvað sem líður öðrum lagaákvæðum um upplýsingaskyldu.&nbsp;Þar sem umbeðin gögn eru samkvæmt framangreindu undirorpin sérstakri þagnarskyldu verður staðfest ákvörðun Neytendastofu um að synja kæranda um aðgang að þeim.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Staðfest er ákvörðun Neytendastofu, dags. 8. júní 2016, um synjun á beiðni kæranda um aðgang að gögnum um staðfestingar um að kröfum til öruggs undirskriftarbúnaðar teljist fullnægt.</p><p><br></p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

717/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um það hversu mörgum grísum var slátrað á tilteknu svínabúi árið 2016 úr vörslum Matvælastofnunar, sem synjaði beiðni á þeim grundvelli að um væri að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að ákvæðið væri undantekning frá meginreglu um upplýsingarétt almennings. Með hliðsjón af því að ýmsar upplýsingar um stærð búsins eru aðgengilegar almenningi og þeirri staðreynd að fyrirtækið rekur önnur svínabú taldi nefndin umbeðnar upplýsingar ekki lúta að mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum þess í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 717/2018 í máli ÚNU 17070003.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 8. júlí 2017, kærði A synjun Matvælastofnunar, dags. 23. júní 2017, á beiðni hennar um aðgang að gögnum um svínabúið að Melum. Beiðni kæranda var í fjórum liðum en Matvælastofnun veitti kæranda aðgang að gögnum undir fyrstu þremur töluliðunum. Eftir stendur beiðni kæranda undir þeim fjórða:</p><p>4. Hversu mörgum grísum var slátrað frá búinu á Melum árið 2016?</p><p>Matvælastofnun synjaði kæranda um aðgang að gögnunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í kæru er farið fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hnekki ákvörðun Matvælastofnunar og veiti kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem fjórði liður beiðninnar snýr að. Í kærunni segir að samkeppnis- og fjárhagshagsmunir Stjörnugríss hf. geti ekki gengið framar hagsmunum almennings af því að fá aðgang að umbeðnum upplýsingum.&nbsp;</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 11. júlí 2017, var Matvælastofnun kynnt kæran og gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.</p><p>Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 24. júlí 2017, segir að í 9. gr. upplýsingalaga komi skýrt fram að stjórnvöldum sé óheimilt að veita aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Eina undantekningin frá þessu sé gerð ef hlutaðeigandi fyrirtæki heimilar aðganginn. Matvælastofnun hafi metið það svo að upplýsingar um fjölda sláturgrísa á svínabúi á nýliðnu ári varði mikilvæga viðskiptahagsmuni svínabúsins. Rétt sé að hafa í huga að um samkeppnisframleiðslu sé að ræða. Umsögn Matvælastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 7. ágúst 2017. Kærandi telur að almannahagsmunirnir sem 5. gr. upplýsingalaga tryggi gangi að öllu leyti framar þeim sjónarmiðum sem Matvælastofnun hafi teflt fram í málinu. Vísar kærandi til eldri úrskurða úrskurðarnefndarinnar máli sínu til stuðnings og ítrekar kröfu sína um aðgang að fyrirliggjandi gögnum í vörslum Matvælastofnunar.</p><p>Með bréfi, dags. 26. júlí 2017, leitaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þess aðila sem umbeðin gögn varða, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2017, tók lögmaður Stjörnugríss hf. undir niðurstöðu Matvælastofnunar. Gögnin varði mikilvæga fjárhags-, rekstrar- og viðskiptahagsmuni sem hvorki eigi erindi við samkeppnisaðila né almenning. Jafnframt segir að það samræmist hvorki markmiðum né gildissviði upplýsingalaga að veita aðgang að upplýsingum sem varði viðkvæma fjárhags- og viðskiptahagsmuni einkaaðila.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Mál þetta varðar varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum í vörslum Matvælastofnunar um fjölda grísa sem slátrað var á svínabúinu að Melum árið 2016. Synjun stofnunarinnar á beiðni kæranda byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.</p></blockquote><p>Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:</p><blockquote><p>Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.</p></blockquote><p>Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.</p></blockquote><p>Úrskurðarnefndin hefur skoðað þau gögn sem Matvælastofnaði synjaði kæranda um aðgang að með hliðsjón af þessum sjónarmiðum. Við matið þykir skipta máli að fyrirtækið Stjörnugrís hf. rekur að minnsta kosti fjögur svínabú til viðbótar búinu að Melum. Þá eru ýmsar upplýsingar um stærð búsins á almannavitorði, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011. Við þessar aðstæður telur nefndin að birting upplýsinga um fjölda grísa sem slátrað var á búinu árið 2016 geti ekki skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækisins þannig að þær teljist lúta að mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum þess í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi leggur úrskurðarnefndin áherslu á að ákvæðið er undantekningarregla frá meginreglunni í 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum. Ber því að skýra fyrrnefnda ákvæðið þröngri lögskýringu. Þá verður að líta til þess markmiðs upplýsingalaga er lýtur að því að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika þeirra til að miðla upplýsingum um opinber málefni, sbr. 3. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Með hliðsjón af framangreindu ber að veita kæranda aðgang að gögnum hjá Matvælastofnun er lýtur að fjölda grísa sem var slátrað á búinu á Melum árið 2016.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Matvælastofnun ber að veita A aðgang að upplýsingum um fjölda grísa sem slátrað var á búinu á Melum árið 2016.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

716/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Blaðamaður óskaði aðgangs að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála úr vörslum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar var ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðninnar felld úr gildi og lagt fyrir það að taka hana til nýrrar meðferðar. Ráðuneytið synjaði beiðninni að nýju á þeirri forsendu að fundargerðirnar teldust til vinnugagna. Úrskurðarnefndin fór efnislega yfir fundargerðirnar og komst að þeirri niðurstöðu að hluti þeirra gæti fallið undir vinnugagnahugtak upplýsingalaga. Hins vegar væri þar einnig að finna almennar umræður um stöðu ferðamála á Íslandi, endanlegar ákvarðanir um afgreiðslu mála hjá Stjórnstöðinni og upplýsingar um atvik mála sem ekki koma annars staðar fram. Þessar upplýsingar gætu ekki talist til vinnugagna. Úrskurðarnefndin lagði því fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að hluta fundargerðanna.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 716/2018 í máli nr. ÚNU 17010002.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 12. janúar 2017, kærði A synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á afhendingu fundargerða Stjórnstöðvar ferðamála.</p><p>Með tölvupósti, þann 21. mars 2016, óskaði kærandi eftir aðgangi að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála frá stofnun hennar. Með tölvupósti, þann 22. mars 2016, var kæranda tilkynnt um synjun beiðninnar. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 660/2016 frá 30. nóvember 2016 var synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar. Ráðuneytið tók beiðnina til meðferðar á ný og synjaði kæranda um aðgang með vísan til 5. tl. 6. gr., sbr. 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í ákvörðuninni kemur fram að hlutverk og tilgangur Stjórnstöðvar ferðamála sé að leggja traustan grunn að íslenskri ferðaþjónustu með því að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila. Stjórnstöðin geti gert tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna er varða ferðaþjónustu og heyri undir ábyrgðarsvið þeirra. Á fundum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála sé fyrst og fremst fjallað um mögulegar eða fyrirhugaðar aðgerðir er snerti ferðaþjónustuna í víðum skilningi. Slíkar aðgerðir séu á undirbúningsstigi þegar þær séu ræddar í stjórn og geti því verið að umræða á fundunum gefi ekki rétta mynd af endanlegum útfærslum einstakra aðgerða. Fundargerðirnar þjóni því samhæfingar- og undirbúningshlutverki fyrir tillögur sem Stjórnstöð ferðamála kunni síðan að senda einstökum ráðherrum. Þá sé einnig ljóst að fundargerðirnar séu unnar af stjórninni sjálfri og til nota við mögulega tillögugerð til einstakra ráðherra. Fundargerðirnar falli því undir skilyrði um vinnugögn sem fram komi í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Með vísan til þessa sé það einnig mat ráðuneytisins að 1. mgr. 11. gr. laganna eigi ekki við í þessu tilfelli.</p><p>Í ákvörðun ráðuneytisins er einnig tekið fram að iðnaðar- og viðskiptaráðherra sé formaður stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála. Ráðuneytið ljái stjórninni starfsmann sem sitji fundi hennar og riti fundargerðir. Fundargerðir stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála hafi borist ráðuneytinu á grundvelli þessa fyrirkomulags. Samkvæmt þessu verði að telja fundargerðirnar vinnugögn sem unnin hafi verið af nefnd sem sett var á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki, sem borist hafi ráðuneytinu á grundvelli þess að starfsmenn þess eigi sæti í stjórninni og sinni þar einnig ritarastörfum, sbr. 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.</p><p>Í ákvörðuninni kemur einnig fram að í fundargerðunum sé ekki að finna þau atriði sem tiltekin eru í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Vísað er til þess að staða og hlutverk stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála sé að gera tillögu til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna er varði ferðaþjónustu, en ekki að taka eiginlegar ákvarðanir í þeim efnum. Því sé ekki að finna í fundargerðunum upplýsingar í tengslum við töku ákvarðana og sem fallið geti undir 1.-3. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Þá kemur fram að þar sem stjórn Stjórnstöðvar ferðamála sé samhæfingarvettvangur og hafi ekki forystu eða ábyrgð á stjórnsýsluframkvæmd eða atvinnureglum geymi fundargerðirnar ekki upplýsingar sem heyra undir 4. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 19. janúar 2017, var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 2. febrúar 2017, er vísað til fyrri rökstuðnings frá 12. desember um að fundargerðir stjórnarinnar séu vinnugögn og undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. laganna. Þá kemur fram að Stjórnstöð ferðamála hafi verið komið á fót með formlegu samkomulagi ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar, frá 6. október 2015, og skipi forsætisráðherra 10 manna stjórn þar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, nú ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gegni formennsku. Í samkomulaginu komi fram að ferðaþjónustan sé margslungin og að verkefni sem henni tengjast séu á forræði margra ráðuneyta, stofnana og sveitarstjórna. Í stað þess að sameina verkefnin undir sama ráðuneyti væri eðlilegt að Stjórnstöð ferðamála yrði starfrækt þvert á ráðuneytin með aðkomu helstu hagsmunaaðila. Hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála samkvæmt samkomulaginu sé m.a. að gera tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna er varði ferðaþjónustu og heyri undir ábyrgðarsvið þeirra. Þannig hafi Stjórnstöðin ekki formlegt stjórnsýsluvald og beri ekki ábyrgð á verkefnum sem tengist ferðaþjónustunni heldur sé henni ætlað að gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum stjórnvöldum sem beri ábyrgð á framkvæmd verkefna og stefnumótun í málaflokknum. Af þessu hlutverki leiði að það sem rætt sé á fundum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála séu tillögur á vinnslustigi sem kunni ekki að gefa rétta mynd af þeim endanlegu tillögum sem Stjórnstöðin beini til þeirra stjórnvalda sem fari með stjórnsýsluhlutverk sem tengist málaflokknum.</p><p>Með umsögn ráðuneytisins fylgdu sex fundargerðir; dags. 3. nóvember 2015, 23. nóvember 2015, 3. mars 2016, 11. maí 2016, 21. júní 2016 og 21. júlí 2016.</p><p>Með bréfi, dags. 15. febrúar 2017, var kæranda sent afrit af umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og veittur kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Í málinu reynir á rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem koma fram í 6.-10. gr. laganna. Synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er byggð á því að fundargerðirnar séu vinnugögn og því undanskildar upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna.</p><p>Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 660/2016 var komist að þeirri niðurstöðu&nbsp; að Stjórnstöð ferðamála væri nefnd í skilningi 2. tl. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga með vísan til þess hvernig henni var komið á fót og efnis samkomulags um stofnun hennar, ekki síst þess hlutverks að gera „tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmdir verkefna er varða ferðaþjónustu og heyra undir ábyrgðarsvið þeirra“. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort fundargerðirnar hafi misst stöðu sína sem vinnugögn þegar af þeirri ástæðu að þær bárust atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Skýringar ráðuneytisins á því hvernig fundargerðirnar komust í vörslur þess eru þær að starfsmaður ráðuneytisins hafi sinnt ritarastörfum fyrir nefndina auk þess sem ráðherra sé formaður nefndarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst á þessar skýringar ráðuneytisins og telur því undantekningar 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. frá því skilyrði að gagn megi ekki hafa borist öðrum, sbr. 2. ml. 1. mgr. 8. gr., eiga við. Verður því ekki talið að fundargerðirnar geti misst stöðu sína sem vinnugögn þegar af þeirri ástæðu að þær hafi borist frá Stjórnstöð ferðamála til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í fyrri úrskurðum lagt til grundvallar að fundargerðir stjórnsýslunefndar geti uppfyllt það skilyrði að teljast vinnugögn ef (1) þær eru ritaðar af nefndarmanni eða starfsmanni nefndar, (2) þær eru ekki afhentar öðrum heldur einvörðungu til eigin afnota fyrir nefndarmenn og aðra starfsmenn sem tilheyra sama stjórnvaldi, (3) þær eru notaðar með sama hætti og vinnuskjöl eru almennt notuð við meðferð mála. Vísast um þetta m.a. til úrskurðar nefndarinnar nr. 538/2014. Af 8. gr. upplýsingalaga leiðir að við mat á því hvort gagn teljist vinnugagn í skilningi 5. tl. 6. gr. laganna skal einkum litið til þess í hvaða skyni gagnið var útbúið og hvers efnis það er. Mat á því hvort efni skjals sé þess eðlis að skjalið teljist vera vinnugagn fer fram á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þarf að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.</p><p>Í athugasemdum um 16. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir um vinnuskjöl að þau séu liður í ákvarðanatöku um mál og hafi oft að geyma vangaveltur um mál, uppkast að svari eða útskýringar á staðreyndum og kunni síðar að breytast við nánari skoðun.</p><p>Þrátt fyrir að fundargerð teljist vinnuskjal í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga getur réttur almennings til aðgangs náð til hennar, að hluta eða öllu leyti, ef hún lýtur að upplýsingum um atriði sem talin eru upp í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Þar segir:</p><blockquote><p>Þrátt fyrir 5. tölul. 6. gr. ber að afhenda vinnugögn ef:</p><p></p><ol><li>&nbsp; &nbsp; þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls,<br></li><li>&nbsp; &nbsp; þar koma fram upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr.,<br></li><li>&nbsp; &nbsp; þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram,<br></li><li>&nbsp; &nbsp; þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.</li></ol><p></p></blockquote><p>Í athugasemdum um 3. mgr. 8. gr. segir eftirfarandi:</p><blockquote><p>Þrátt fyrir að stjórnvald, eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara, kunni að hafa útbúið tiltekið gagn í eigin þágu og til nota við meðferð máls getur efni þess engu að síður verið slíkt að rök standi til að veita almennan aðgang að því. Í ljósi þessa er í 3. mgr. 8. gr. lagt til að aðgang beri að veita að gögnum sem annars teldust innri vinnuskjöl stjórnvalds í fjórum tilvikum. Í fyrsta lagi þegar gögn hafa að geyma upplýsingar um endanlega afgreiðslu máls. Þetta getur til að mynda átt við þegar stjórnsýslunefnd afgreiðir mál með vísun til minnisblaðs sem lagt hefur verið fyrir fund. Í öðru lagi er tekið fram í 2. tl. 3. mgr. 8. gr. að undantekningin taki ekki til upplýsinga sem stjórnvaldi var skylt að skrá skv. 27. gr. laganna. Í 3. tl. málsgreinarinnar kemur fram að veita skuli aðgang að vinnuskjali ef í því koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma fram annars staðar. Með þessu orðalagi er einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Samsvarandi undanþágu frá upplýsingarétti aðila máls og fram kemur í 3. tl. 3. mgr. er að finna í stjórnsýslulögum. Að síðustu er svo lagt til í 4. tl. 3. mgr. 8. gr. að veita beri aðgang að vinnuskjölum ef þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Ef stjórnvald hefur tekið saman slíkar upplýsingar verður að telja mikilvægt að almenningur geti átt rétt á að kynna sér þær, enda skipta slíkar upplýsingar oft miklu um verklag stjórnvalds og grundvöll að töku einstakra ákvarðana.</p></blockquote><h3><b>3.</b></h3><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ekki sé fært að öllu leyti að fallast á skýringar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á hlutverki Stjórnstöðvar ferðamála og þær ályktanir sem ráðuneytið dregur af því að henni sé einungis falið að gera tillögur til stjórnvalda sem beri endanlega ábyrgð á töku ákvarðana í málaflokknum. Telja verður að ákvörðun Stjórnstöðvarinnar um að gera tillögu til annars stjórnvalds feli í sér endanlega afgreiðslu viðkomandi máls hjá Stjórnstöðinni í skilningi 1. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að væri fallist á það með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að Stjórnstöðin taki engar ákvarðanir um lyktir mála myndi það jafnframt leiða til þess að engin gögn sem verða til í starfsemi hennar geti talist til vinnugagna, þar sem það er skilyrði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga að vinnugögn séu útbúin við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.</p><p>Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort fundargerðir Stjórnstöðvar ferðamála uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugagn. Teljist þær til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin telur jafnframt mikilvægt að líta til þess að Stjórnstöð ferðamála var komið á fót með formlegri ákvörðun stjórnvalda og er rekin að umtalsverðu leyti fyrir opinbert fé. Hafa verður hliðsjón af markmiðum upplýsingalaga, til að mynda þeim að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni, við mat á því hvort meginregla 1. mgr. 5. gr. laganna um rétt til aðgangs skuli víkja fyrir takmörkunarákvæði 6. tl. 6., sbr. 8. gr. laganna, sem skýra ber þröngri lögskýringu.</p><p>Í fundargerð fyrsta fundar stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 3. nóvember 2015, er að finna lýsingu á almennum umræðum fundarmanna um stöðu ferðamála á Íslandi. Að mati úrskurðarnefndarinnar geta slíkar upplýsingar ekki talist til vinnugagna í skilningi 5. tl. 6. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem þær tilheyra ekki tilteknu máli sem verið er að undirbúa, sbr. 1. málslið ákvæðisins. Sömu sjónarmið eiga við um efni fundargerðar stjórnarinnar frá 21. júní 2016. Samkvæmt framangreindu verður lagt fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að veita kæranda aðgang að fundargerðum stjórnar Stjórnstöðvarinnar frá 3. nóvember 2015 og 21. júní 2016 í heild sinni.&nbsp;&nbsp;</p><p>Af orðalagi fundargerða af fundum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 23. nóvember 2015, 3. mars 2016, 11. maí 2016 og 21. júlí 2016, má hins vegar ráða að þar hafi stjórnin samþykkt að gera tilteknar tillögur að aðgerðum til annarra stjórnvalda. Í þeim tilvikum ber að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál að beita 1. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga og leggja fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að veita kæranda aðgang að upplýsingum um endanlegar ákvarðanir um lyktir mála hjá Stjórnstöðinni. Þá er í þessum fundargerðum einnig að finna almennar umræður um ástand ferðamála í landinu og vangaveltur sem ekki geta talist til vinnugagna í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Loks er að finna ýmsar upplýsingar um stöðu mála hjá Stjórnstöð ferðamála og verkefni hennar sem úrskurðarnefndin telur ljóst að ekki komi fram annars staðar í skilningi 3. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi rétt á aðgangi að þessum hlutum fundargerða stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 23. nóvember 2015, 3. mars 2016, 11. maí 2016 og 21. júlí 2016.</p><p>Eftir stendur umfjöllun á stöku stað í fundargerðunum sem úrskurðarnefndin telur unnt að fallast á með ráðuneytinu að geti talist lýsa undirbúningi lykta máls hjá Stjórnstöðinni og því fallið undir hugtakið vinnugögn í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Um þessa hluta þykir jafnframt unnt að slá því föstu að skilyrði 3. mgr. 8. gr. laganna séu ekki uppfyllt. Verður því staðfest ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að synja kæranda um aðgang að þessum hluta fundargerðanna en, eins og áður segir, lagt fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að því sem eftir stendur með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga eins og nánar greinir í úrskurðarorði.</p><p>Í tilefni af þeim ummælum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í hinni kærðu ákvörðun að 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um aukinn aðgang eigi ekki við um fundargerðirnar tekur úrskurðarnefndin fram að heimild ákvæðisins má almennt beita þegar gögn snerta opinbera hagsmuni. Þagnarskyldureglur sem geta komið í veg fyrir aukinn aðgang er að meginstefnu að finna í öðrum lögum en upplýsingalögum, en jafnframt er einnig almennt óheimilt að veita almenningi aukinn aðgang að upplýsingum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga og lögaðila án samþykkis þeirra, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Þannig getur það eitt og sér ekki komið í veg fyrir beitingu 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga að um sé að ræða vinnugögn í skilningi 6. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur hafið yfir allan vafa að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafi verið heimilt að beita ákvæðinu um rétt kæranda til aðgangs að hinum umbeðnu fundargerðum. Í ljósi niðurstöðu málsins að öðru leyti þykja ekki efni til að ógilda hina kærðu ákvörðun og vísa henni til nýrrar meðferðar hjá ráðuneytinu af þessum sökum. Því er hins vegar beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að hafa hliðsjón af þessum sjónarmiðum við ákvörðun um það hvort beita beri heimild 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga um aukinn aðgang í framtíðinni.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ber að veita A aðgang að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 3. nóvember 2015, 23. nóvember 2015, 3. mars 2016 11. maí 2016, 21. júní 2016 og 21. júlí 2016. Áður er ráðuneytinu heimilt að afmá:</p><p></p><ol><li>Umfjöllun undir 3. tl. í fundargerð, dags. 23. nóvember 2015.<br></li><li>Umfjöllun undir c)-lið 1. tl., 3. tl. og 5. tl. fundargerðar, dags. 3. mars 2016.<br></li><li>Umfjöllun undir 2. tl. í fundargerð, dags. 11. maí 2016.<br></li><li>Umfjöllun undir 3. tl. í fundargerð, dags. 21. júlí 2016.<br></li></ol><p></p><p>Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.</p><p><br></p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Friðgeir Björnsson&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; &nbsp; &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;Sigurveig Jónsdóttir</p><p>&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p>

719/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að starfslokasamningi Flóahrepps við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla. Úrskurðarnefndin tók fram að af gögnum málsins mætti ráða að skólastjórinn samþykkti birtingu samningsins fyrir sitt leyti. Ekki yrði því séð að nokkrar takmarkanir ættu við um rétt kæranda til aðgangs að honum.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 719/2018 í máli ÚNU 17100003.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 5. október 2017, kærði A afgreiðslu Flóahrepps á beiðni um aðgang að starfslokasamningi við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla sem kærandi lagði fram á sveitarstjórnarfundi hreppsins þann 11. september 2017. Í kæru segir að ekki hafi fengist fullnægjandi svar við fyrirspurninni þar sem tilteknar upplýsingar í samningnum hafi verið afmáðar. Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 14. september 2017, var honum synjað um aðgang að afmáða hlutanum þar sem óheimilt væri að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykkti sem í hlut ætti, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í ákvörðuninni segir enn fremur að ekki verði séð af fyrirspurn kæranda að fyrir liggi samþykki fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla fyrir afhendingunni. Því falli afmáði hluti samningsins undir ákvæðið.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 23. október 2017, var kæran send Flóahreppi og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Úrskurðarnefndin óskaði jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði. Í umsögn Flóahrepps, dags. 31. október 2017, kemur fram að fyrrverandi skólastjóri Flóaskóla hafi sett fram þá ósk með bréfi, dags. 24. september 2017, að öllum trúnaði um starfslokasamning hennar skyldi aflétt.</p><p>Ritari úrskurðarnefndarinnar hafði samband við sveitarstjóra Flóahrepps símleiðis þann 7. nóvember 2017 og spurði hvort skilja mætti umsögn sveitarfélagsins á þann veg að kærandi hefði þegar fengið aðgang að umbeðnum gögnum. Sveitarstjórinn staðfesti að svo væri ekki heldur væri óskað eftir úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málinu.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Mál þetta lýtur að synjun Flóahrepps á beiðni kæranda um aðgang að starfslokasamningi sveitarfélagsins við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla. Sveitarfélagið afhenti kæranda starfslokasamninginn en afmáði fyrst 3. gr. samningsins sem hafði að geyma upplýsingar um peningagreiðslu sem sveitarfélagið greiddi skólastjóranum vegna uppsagnar ráðningarsamnings. Synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda, dags. 14. september 2017, byggði á því að samþykki skólastjórans lægi ekki fyrir í málinu. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur hins vegar komið í ljós að skólastjórinn hefur óskað eftir því fyrir sitt leyti að öllum trúnaði um starfslokasamning hennar við sveitarfélagið skuli aflétt.</p><p>Í 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.</p></blockquote><p>Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:</p><blockquote><p>Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.</p></blockquote><p>Að framansögðu er ljóst að Flóahreppi bar að framkvæma efnislegt mat á því hvort að efni samningsins, þar á meðal þess hluta sem sveitarfélagið afmáði, eigi að fara leynt á grundvelli framangreindra sjónarmiða. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að sveitarfélagið byggði ákvörðun sína eingöngu á því að samþykki þess aðila sem þau vörðuðu lægi ekki fyrir. Ekki er hins vegar ljóst af gögnum málsins hvort Flóahreppur skoraði á viðkomandi að upplýsa hvort hann teldi að upplýsingarnar ættu að fara leynt, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir 3. gr. starfslokasamningsins, sem var afmáð áður en sveitarfélagið afhenti kæranda samninginn. Í ljósi þess að skólastjórinn hefur samþykkt að almenningi verði veittur aðgangur að upplýsingunum, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, verður ekki séð að nokkrar takmarkanir eigi við um rétt kæranda til aðgangs á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu ber að veita kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Flóahreppi ber að veita A aðgang að starfslokasamningi sveitarfélagsins við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla, dags. 7. júlí 2017, í heild sinni.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;<br></p>

718/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Kærandi kærði ákvörðun Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um synjun beiðni um gögn um fjárfestingarleið bankans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði kærunni frá gagnvart ráðuneytinu þar sem umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá því í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá var kærufrestur 1. mgr. 22. gr. laganna talinn vera liðinn gagnvart Seðlabanka Íslands en kæranda bent á að honum væri fært að leita til bankans að nýju.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 718/2018 í máli ÚNU 17100001.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 5. október 2017, kærði A afgreiðslu Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um gögn.</p><p>Í kæru kemur fram að Seðlabanki Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi synjað kæranda um gögn er snúa að upplýsingum um hvaða einstaklingar og lögaðilar nýttu sér hina svokölluðu fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem hún stóð til boða. Seðlabankinn synjaði beiðni kæranda með vísan til þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 með bréfi, dags. 13. janúar 2017.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Með bréfi, dags. 9. október 2017, var fjármála- og efnahagsráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Þess var jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 11. október 2017, kemur fram að erindi úrskurðarnefndarinnar virðist byggja á þeim skilningi að ráðuneytið hafi synjað kæranda um aðgang að gögnum. Hið rétta sé að í svari til kæranda komi fram að ráðuneytið búi ekki yfir umbeðnum upplýsingum. Þar sem ekki liggi fyrir synjun ráðuneytisins á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 telji ráðuneytið málið ekki heyra undir valdsvið nefndarinnar.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Mál þetta lýtur annars vegar að afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og hins vegar að afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni um aðgang að sömu upplýsingum.</p><h3><b>2.</b></h3><p>Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 11. október 2017, kemur fram að ráðuneytið hafi ekki undir höndum umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga þá staðhæfingu í efa. Þar sem þau gögn sem kærandi óskaði eftir eru ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þessum hluta kærunnar er því vísað frá úrskurðanefnd um upplýsingamál.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Seðlabanki Íslands synjaði beiðni kæranda með bréfi dags. 13. janúar 2017 en kæra er dagsett 5. október 2017. Kæran barst því tæplega níu mánuðum eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Seðlabanka Íslands til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. svo sem er áskilið er í 1. mgr. 19. gr. laganna.</p><p>Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr.&nbsp; 37/1993 skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á telur úrskurðarnefndin skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda þótt Seðlabanki Íslands hafi ekki leiðbeint kæranda um kærurétt og kærufrest. Í þessu sambandi athugast að almennur kærufrestur fyrir stjórnsýslukærur er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, en kæran barst tæplega hálfu ári eftir það tímamark. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því hvorki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, né að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar í skilningi 28. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að vísa þessum hluta kærunnar einnig frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðarnefndin tekur fram að kæranda er fært að leita aftur til bankans og leggja að nýju fram beiðni um umbeðin gögn.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Kæru A, dags. 5. október 2017, á hendur Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

714/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Óskað var eftir því að úrskurðarnefndin endurupptæki mál sem lyktaði með úrskurði nr. 696/2017. Í úrskurðinum komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að vísa bæri kæru kæranda frá á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá Ríkisútvarpinu ohf. Úrskurðarnefndin tók fram að með úrskurðinum hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort staðið hafi verið með réttum hætti að skráningu og varðveislu gagnanna hjá RÚV, heldur kæmi afhending þeirra ekki til greina á grundvelli upplýsingalaga. Beiðni um endurupptöku málsins var því hafnað.

<h3><b>Úrskurður</b></h3><p>Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 714/2017 í máli ÚNU 17090008.</p><h3><b>Krafa um endurupptöku, málsatvik og málsmeðferð</b></h3><p>Með erindi, dags. 22. september 2017, óskaði A eftir endurupptöku máls nr. 16120004, sem lyktaði með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 696/2017 frá 27. júlí 2017. Beiðnin er byggð á 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í úrskurðinum komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að vísa bæri kæru kæranda frá á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá Ríkisútvarpinu ohf. (hér eftir RÚV). Í beiðninni kemur fram að upplýsingalög nr. 140/2012 taki til RÚV. Á grundvelli laganna beri að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greini í 6.-10. gr. laganna. Í beiðninni segir einnig að ekki verði séð að neinar takmarkanir eigi við í málinu. Kærandi segir Ríkisútvarpið hafa hafnað beiðninni á þeirri forsendu að umbeðin gögn væru ekki til staðar, og jafnvel þó þau væru til staðar væri óheimilt að afhenda þau vegna samkomulags við Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna. Kærandi telur að aðili sem heyri undir upplýsingalög geti ekki komið sér undan lagaskyldu með samkomulagi við þriðja aðila. Ef fallist væri á slík rök séu þessi lagaákvæði marklaus, þar sem aðili gæti fengið aðgang að gögnum, fjallað um þau og skilað þeim svo til baka og komið sér þar með undan upplýsingalögum. Ákvörðun um að nýta gögn með þeim hætti sem RÚV gerði feli það í sér að þau eigi að vera fyrir hendi eftir umfjöllunina og aðgengileg aðilum máls.</p><p>Kærandi segir ljóst að RÚV hafi haft gögnin undir höndum þegar umfjöllunin fór fram. Þau hafi þá verið fyrirliggjandi og ekki hægt að bera fyrir sig að svo hafi ekki verið. Kærandi krefst þess því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fjalli um málið að nýju og krefji RÚV um gögnin á grundvelli skýrra lagafyrirmæla. Þar sem niðurstaðan kunni að verða borin undir dómstóla sé mikilvægt að fram komi skýr afstaða nefndarinnar til þess hvort RÚV geti skotið sér undan lagaskyldu með háttsemi á borð við þá sem stofnunin viðhafði í málinu.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:&nbsp;</p><blockquote><p>Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:&nbsp;</p><p><ol><li>ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br></li><li>íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.<br></li></ol></p></blockquote><p>Beiðni kæranda er fyrst og fremst byggð á því að RÚV hafi borið að varðveita gögnin sem hann beiddist aðgangs að og voru notuð til umfjöllunar í fréttaskýringaþætti sem félagið sýndi. RÚV geti ekki komið sér undan lagaskyldu með samkomulagi við þriðja aðila. &nbsp;Við rannsókn málsins, sem kærandi óskar eftir að verði endurupptekið, fór úrskurðarnefndin þess á leit við RÚV þann 13. desember 2016 að félagið sendi henni umsögn um kæru kæranda ásamt afritum af umbeðnum gögnum, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í umsögn RÚV, dags. 20. janúar 2017, kom fram að félagið hefði umbeðin gögn hvorki undir höndum né forræði yfir þeim. Því gæti RÚV ekki orðið við beiðni kæranda. Í tilefni af þessum skýringum ritaði úrskurðarnefndin annað bréf, dags. 14. júní 2017, þar sem óskað var eftir því að RÚV upplýsti um það hvers vegna umbeðin gögn væru ekki í vörslum félagsins eða veitti að öðru leyti nánari skýringar á umsögninni.</p><p>Í svari RÚV, dags. 16. júní 2017, kom fram að félagið hefði fengið aðgang að gögnum hjá þriðja aðila við vinnslu umfjöllunarinnar. Gögnin sem slík væru hins vegar ekki og hefðu ekki verið í vörslum RÚV, hvorki rafrænt né á pappírsformi umfram það sem birt var í þættinum. Loks hafði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar samband við RÚV símleiðis þann 4. júlí 2017 og ræddi við skrifstofustjóra félagsins. Af svörum RÚV varð ekki ráðið að félagið hefði í vörslum sínum nokkur önnur gögn um kæranda en þau sem birtust í útsendingu Kastljóss, dags. 25. apríl 2016. Kærandi hefur ekki óskað eftir aðgangi að þættinum sjálfum heldur þeim gögnum sem umfjöllunin byggðist á. Að svo komnu máli taldi úrskurðarnefndin nægar forsendur fyrir því að slá því föstu í úrskurði sínum nr. 696/2017 að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá RÚV.</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að niðurstaða nefndarinnar byggði á þeirri forsendu að RÚV kvað umbeðin gögn ekki vera í vörslum sínum. Líkt og kemur fram í úrskurðinum er úrskurðarvald nefndarinnar afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er, sbr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn séu ekki til staðar geta þau ekki talist fyrirliggjandi í þessum skilningi og ber að vísa kæru frá að því marki sem hún lýtur að slíkum gögnum. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort RÚV hafi sinnt skyldum sínum um skráningu mála og vistun gagna, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinna þessum skyldum með fullnægjandi hætti, einkum æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis.</p><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekkert fram komið um að úrskurður hennar nr. 696/2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að niðurstöður hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til framangreinds er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar nr. 696/2017 frá 27. júlí 2017.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Beiðni A um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 696/2017 er hafnað.</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

711/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Kærð var ákvörðun Háskóla Íslands um að synja beiðni um aðgang að úrskurðum siðanefndar skólans þar sem fjallað var um 4. gr. starfsreglna siðanefndarinnar. Ákvörðun skólans var byggð á því að ákvarðanirnar hefðu að geyma upplýsingar um málefni starfsmanna skólans í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og einkamálefni sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt skv. 9. gr. laganna. Úrskurðarnefndin taldi ekki  unnt að fallast á það með Háskóla Íslands að umfjöllun siðanefndar skólans í málunum teldist gögn um starfssambandið að öðru leyti í skilningi fyrrnefnda ákvæðisins. Nefndin fór hins vegar yfir ákvarðanirnar með hliðsjón af ákvæði 9. gr. upplýsingalaga og lagði fyrir skólann að veita kæranda aðgang að þeim að hluta.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 711/2017 í máli ÚNU 17050001.</p><h3><b>Kæra og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 9. maí 2017, kærði A hrl., fyrir hönd B, ákvörðun Háskóla Íslands, dags. 27. apríl 2017, um að synja beiðni kæranda um aðgang að tilteknum úrskurðum siðanefndar skólans þar sem fjallað er um 4. gr. starfsreglna siðanefndarinnar.</p><p>Í kæru kemur fram að í febrúar 2017 hafi [...] sent kæru til siðanefndar Háskóla Íslands vegna kæranda. Þar sem kæran varðaði siðareglur Háskóla Íslands og sætti málsmeðferð á grundvelli starfsreglna siðanefndar óskaði kærandi eftir afriti af úrskurðum siðanefndarinnar í málum þar sem nefndin hafi tekin ákvörðun á grundvelli 4. gr. starfsreglna nefndarinnar og þá einkum í frávísunarmálum. Hinn 27. apríl 2017 voru kæranda afhent afrit af tilteknum úrskurðum en synjað um aðgang að úrskurðum nr. 1/2009, 1/2012, 3/2012, 1/2013, 3/2013, 2/2014, 3/2014 og 2/2016.</p><p>Kærandi reisir rétt sinn til aðgangs að þessum úrskurðum á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Telur kærandi það sæta furðu að Háskóli Íslands skuli synja um aðgang að úrskurðum siðanefndar skólans og þá sérstaklega í máli þar sem þeir hafi verulega þýðingu. Siðanefndinni sé ætlað að taka til meðferðar kærur sem lúti að því hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Háskóla Íslands en slíkt geti haft áhrif á stöðu og orðspor starfsmanna skólans innan háskólasamfélagsins. Þeir sem kærðir séu hafi því mikla hagsmuni af því að fá aðgang að fyrri úrskurðum til að geta gert sér grein fyrir því hvernig starfsreglum nefndarinnar sé beitt í framkvæmd. Kærandi telur sig hafa mikla hagsmuni af því að fá aðgang að úrskurðunum enda hafi það mikla þýðingu fyrir mál hans hvernig siðanefndin beiti 4. gr. starfsreglna sinna í framkvæmd.</p><p>Kærandi bendir á að beiðni hans um aðgang hafi aðeins lotið að formkröfum siðanefndarinnar en ekki að efnisþáttum úrskurða nefndarinnar þar sem lýsing á einkahagsmunum aðila komi iðulega fram. Því ætti 9. gr. upplýsingalaga ekki að standa aðgangi kæranda í vegi. Vísað er til heimildar 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum nr. 489/2013 og 651/2016. Þá telur kærandi hagsmuni sína af því að fá aðgang að ákvörðunum siðanefndar vega þyngra en hagsmuni viðkomandi aðila af því að kæranda verði ekki veittur aðgangur að þeim.</p><h3><b>Málsmeðferð</b></h3><p>Kæran var send Háskóla Íslands til umsagnar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. maí 2017. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.</p><p>Í umsögn Háskóla Íslands, dags. 25. maí 2017, kemur fram að ítarlega hafi verið farið yfir allar ákvarðanirnar sem óskað var aðgangs að. Sömu sjónarmiðum og aðferðafræði hafi verið beitt við mat á öllum ákvörðunum sem beiðnin lúti að. Að loknu því mati hafi niðurstaðan verið sú að veita kæranda aðgang að einni ákvörðun í heild sinni, aðgang að hluta að þremur ákvörðunum en synja um aðgang að átta ákvörðunum.</p><p>Í umsögninni er farið yfir þau rök sem lágu að baki þeirri ákvörðun að synja um aðgang að hverri og einni ákvörðun. Hvað varðar synjun á beiðni um aðgang að ákvörðun siðanefndarinnar í máli nr. 1/2009 kemur fram að ákvörðunin hafi að geyma viðkvæmar persónupplýsingar skv. b.-lið 8. tl. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Með vísan til 9. gr. upplýsingalaga sé því óheimilt að veita almenningi aðgang að ákvörðuninni en sérstaklega sé tekið fram í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga að engum vafa sé undirorpið að viðkvæmar persónupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings.</p><p>Þá kemur fram að ákvarðanir siðanefndar í máli 3/2012 og 2/2014 geymi upplýsingar um trúar- og lífsskoðanir sem teljist til viðkvæmra persónupplýsinga skv. a-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000. Sé því óheimilt að veita aðgang að þeim, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Um ákvörðun siðanefndar í máli nr. 1/2013 segir að ákvörðunin hafi að geyma upplýsingar um heilsuhagi einstaklings sem teljist til viðkvæmra persónupplýsinga skv. c-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 og því sé óheimilt að veita aðgang að henni sbr. 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Hvað varðar ákvarðanir nefndarinnar í málum nr. 1/2012, 3/2013, 2/2014 og 2/2016 þá hafi það verið niðurstaða Háskóla Íslands, eftir heildarmat á þeim upplýsingum sem fram koma í ákvörðununum, að þær hafi að geyma upplýsingar um viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Sé því óheimilt að veita aðgang að þeim sbr. 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Í umsögninni er einnig tekið fram að ákvarðanirnar hafi í öllum tilvikum að geyma persónuupplýsingar um starfsmenn háskólans. Telur Háskóli Íslands því einsýnt að ákvarðanir siðanefndar, sem beiðnin taki til, séu gögn sem varði starfssamband viðkomandi starfsmanna við háskólann. Séu því ákvarðanirnar jafnframt undanþegnar upplýsingarétti almennings með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Tekið er fram að í þeim tilvikum þar sem fallist var á að veita aðgang að hluta hafi verið unnt að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar úr viðkomandi ákvörðunum svo ekki væri hægt að rekja þær til viðkomandi starfsmanna háskólans. Sé það í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 566/2015 þar sem fram komi að þau gögn um starfsmenn sem falli undir 7. gr. upplýsingalaga séu gögn sem hafi að geyma persónuupplýsingar um starfsmenn.</p><p>Þá er vísað til þess að tekin hafi verið afstaða til þess hvort veita ætti aðgang að hluta þeirra ákvarðana sem synjað var um með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Að virtu heildarmati á þeim ákvörðunum sem beiðnin tekur til hafi niðurstaðan verið sú að ekki sé unnt að veita aðgang að hluta enda markist umfjöllun og niðurstaða siðanefndar í málunum af þeim upplýsingum sem undanþegnar séu upplýsingarétti. Ekki sé fært að skilja þær upplýsingar sem skólanum sé óheimilt að veita aðgang að frá þeim upplýsingum sem veita megi aðgang að með einföldum hætti.</p><p>Umsögn Háskóla Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. maí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust þann 11. júní 2017. Þar kemur m.a. fram að ætla verði að þær upplýsingar sem að mati Háskóla Íslands falli undir a.-c. lið 8. gr. 2. gr. laga nr. 77/2000 séu þess eðlis að auðvelt sé að afmá þær með þeim hætti að viðkomandi ákvörðun beri ekki persónugreinanlegar upplýsingar með sér og að hið sama geti átt við um upplýsingar sem eftir atvikum kunni að falla undir 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ítrekað er að kærða beri skylda til þess að veita kæranda aðgang að þeim hluta gagns sem takmarkanir 6.-10. gr. upplýsingalaga eigi ekki við um, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna en vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 541/2014.</p><p>Kærandi telur það skipta máli í þessu samhengi að aðeins sé um að ræða beiðni um aðgang að takmörkuðum fjölda ákvarðana siðanefndarinnar. Þá lúti beiðni kæranda einvörðungu að afmarkaðri umfjöllun hverrar ákvörðunar, þ.e. umfjöllun nefndarinnar um beitingu formkrafna sem fram komi í 4. gr. starfsreglna siðanefndarinnar en í engu að efnisþáttum ákvarðananna. Tekið er fram að engar ákvarðanir siðanefndarinnar séu birtar opinberlega og af því leiði að kærandi hafi mikla hagsmuni af því að fá upplýsingar um beitingu 4. gr. starfsreglnanna í framkvæmd.</p><p>Kærandi telur að ekki séu færð sannfærandi rök fyrir því af hverju ekki sé unnt að veita honum aðgang að hluta þeirra einstöku ákvarðana sem málið varðar. Af málatilbúnaði kærða að dæma megi ráða að hann telji að ekki sé unnt að skilja upplýsingar sem undanskildar séu upplýsingarétti frá umbeðnum upplýsingum. Kærandi nefnir í dæmaskyni mál nr. 3/2012 og 3/2014 en skýring Háskólans fyrir ákvörðun sinni um synjun beiðninnar sé sú að ákvarðanirnar innihaldi upplýsingar um trúar- og lífsskoðanir sem falli undir a-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000. Kærandi telur að þessi tilvísun ein og sér geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki eigi að veita honum aðgang að hluta þesssara mála. Kærandi gerir ekki athugasemd við að hann fái ekki aðgang að nöfnum þeirra einstaklinga sem aðild hafi átt að málunum. Telur hann að öll þessi atriði geti verið svert úr ákvörðunum og aðrir hlutar afhentir.</p><p>Með bréfum, dags. 13. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þeirra aðila sem koma fyrir í þeim ákvörðunum sem kærandi óskar aðgangs að til afhendingar þeirra. Alls lögðust sjö gegn því að kæranda yrði veittur aðgangur, átta gerðu ekki athugasemdir við afhendinguna en ekki barst afstaða tveggja. Nánar verður gerð grein fyrir áhrifum afstöðu aðilanna í umfjöllun um hverja ákvörðun fyrir sig.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tilteknum ákvörðunum siðanefndar Háskóla Íslands. Synjun Háskóla Íslands á beiðni kæranda um aðgang að ákvörðunum var byggð á 7. gr. og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til skv. 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir m.a.:</p><blockquote><p>Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.</p></blockquote><p>Þegar tekin er afstaða til þess hvort ákvarðanir siðanefndar Háskóla Íslands varði&nbsp;„starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga verður að mati úrskurðarnefndar upplýsingamála að leggja heildstætt mat á atvik málsins. Eftir atvikum getur samþykki aðila málsins fyrir því að almenningi verði veittur aðgangur að ákvörðununum leitt til þeirrar niðurstöðu að engin þörf sé á að varðveita þann trúnað sem ákvæðinu er ætlað að tryggja.&nbsp;</p><p>Með vísan til atvika málsins er einnig nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort þær ákvarðanir sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að hafi að geyma upplýsingar sem falla undir fyrri málslið 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:</p><blockquote><p>Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.</p></blockquote><p>&nbsp;</p><h3><b>2.</b></h3><p>Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. a. laga nr. 63/2006, um háskóla, skulu háskólar setja sér siðareglur, m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna. Ljóst er hins vegar að þær siðareglur sem siðanefnd Háskóla Íslands starfar eftir voru samþykktar af háskólafundi Háskóla Íslands 7. nóvember 2003. Á sama fundi voru einnig samþykktar „starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands“, en samkvæmt 1. gr. starfsreglnanna skal starfa við skólann siðanefnd sem&nbsp;úrskurðar um&nbsp;það hvort siðareglur skólans hafi verið brotnar.</p><p>Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. greindra reglna tekur siðanefnd við skriflegum kærum um meint brot á siðareglum frá nafngreindum aðilum innan eða utan Háskólans. Ekki er gert ráð fyrir því í reglunum að nefndin taki mál til meðferðar að eigin frumkvæði.</p><p>Í 2. til 9. gr. reglnanna er nánar kveðið á um nefndarskipun, málsmeðferð og hvernig fara skuli með niðurstöður nefndarinnar. Þannig kemur fram í 2. gr. reglnanna að formaður nefndarinnar sé skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Þegar fram komi kæra um brot á siðareglum séu tveir menn skipaðir í siðanefnd til þess að fjalla um kæruna ásamt formanni. Í umboði háskólaráðs skipi rektor þessa tvo menn að fengnum tilnefningum formanns siðanefndar. Skipunartími formanns sé þrjú ár, en skipun annarra nefndarmanna taki einungis til fyrirliggjandi máls.</p><p>Samkvæmt 4. gr. reglnanna skal siðanefndin kanna hvort kæra snerti siðareglur Háskóla Íslands. Skal nefndin þá vísa frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá segir að siðanefndin geti vísað kærum frá, ef um sé að ræða meint brot á lagareglum sem hægt sé að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.</p><p>Í 7. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að siðanefnd mæli ekki fyrir um viðurlög við brotum sem hún kemst að niðurstöðu um, en skuli taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort telja megi að um endurtekið brot sé að ræða. Í 8. gr. kemur fram að siðanefnd skuli búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta eigi þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál.</p><p>Í 9. gr. starfsreglnanna segir að niðurstaða siðanefndar sé endanleg og verði henni ekki áfrýjað. Ef niðurstaða siðanefndar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli siðanefnd vekja athygli rektors á því. Siðanefnd sé enn fremur heimilt að benda rektor á annmarka á reglum sem gilda um Háskóla Íslands.</p><p>Þótt samkvæmt framangreindu sé kveðið á um það í lögum að háskólar setji sér siðareglur er ekkert fjallað um það í lögum að þar skuli starfa siðanefndir, skipun þeirra eða hlutverk. Siðanefndin starfar því á grundvelli samþykktar háskólafundar og verkefni hennar og hlutverk ákveðið með reglum, sem samþykktar voru á þeim vettvangi. Siðanefnd Háskóla Íslands er því ekki markað hlutverk með lögum.</p><p>Eins og rakið er hér að framan reynir við úrlausn þessa máls á það hvort úrskurðir siðanefndar Háskóla Íslands sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þeir varði að öðru leyti starfssamband þeirra starfsmanna háskólans sem þar er fjallað um. Þegar tekin er afstaða til þessa atriðis verður að hafa í huga að ákvæði 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra það þröngt.</p><p>Við mat á því hvort umrædd gögn teljist varða starfssamband þeirra sem þar er fjallað um að öðru leyti verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem lýst er í lögskýringargögnum með ákvæði 7. gr. og rakin eru hér að framan. Af þeim sjónarmiðum verður ráðið að ákvæðinu sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Telja verður ljóst að með þeirri skírskotun sé átt við ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.</p><p>Þegar litið er til þess að ekki er mælt fyrir um tilvist og hlutverk siðanefndar Háskóla Íslands í lögum nr. 23/2006, um háskóla, né öðrum settum lagareglum, verður að leggja til grundvallar að nefndin taki ekki ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði stjórnsýslulaga.</p><p>Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan um túlkun 7. gr. upplýsingalaga verður því ekki talið að umfjöllun siðanefndar Háskóla Íslands í þeim málum sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir gögn sem varða „starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi verður jafnframt að leggja áherslu á að málin sem um ræðir eiga það sammerkt að siðanefndin vísaði erindum kæranda frá og málefni sömu starfsmanna sættu ekki efnislegri umfjöllun af hálfu nefndarinnar. Þá verður heldur ekki séð af gögnum málsins að Háskóli Íslands hafi fjallað um sömu mál með tilliti til þess hvort teknar yrðu ákvarðanir í málefnum þeirra starfsmanna sem erindin beindust að á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur eins og fyrr segir að taka þurfi afstöðu til þess hvort þær ákvarðanir sem kæranda hefur verið synjað um aðgang að falli í heild eða að hluta undir takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í ákvörðun nr. 1/2009 er fjallað um meint brot starfsmanns HÍ á ákvæði 1.1.4. siðareglnanna um áreiðanleika. Um er að ræða úrlausn kæru er snýr að ályktunum sem komu fram í matsgerð prófessorsins og framburði hans fyrir dómi vegna sakamáls. Í ákvörðuninni er ekki að finna upplýsingar sem fallið geta undir b.-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 en þar kemur hvorki fram með beinum hætti nafn hins sakaða né upplýsingar um sakamálið sem slíkt, þ. á m. hvort einstaklingur hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði eftir afstöðu aðila málsins til afhendingar ákvörðunarinnar til kæranda og lýstu báðir því yfir að þeir væru því ekki mótfallnir. Með hliðsjón af umfjöllun siðanefndarinnar í ákvörðuninni, niðurstöðu hennar og samþykki aðila málsins þykir ekki ástæða til að takmarka aðgang kæranda að henni á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í ákvörðun nr. 1/2012 er fjallað um meint brot nefndarmanns í siðanefndinni, starfsmanns Háskóla Íslands, í tengslum við fyrra mál fyrir siðanefndinni. Kærandi í málinu taldi að viðkomandi nefndarmaður hefði brotið gegn ýmsum greinum siðareglnanna með því að dreifa óhróðri um sig. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál teljast upplýsingar um trúar- og lífsskoðanir aðila málsins í ákvörðuninni til upplýsinga um einkahagsmuni þeirra sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Sömu sjónarmið eiga við um efni og rökstuðning í ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 3/2012, þar sem fjallað var um meint brot starfsmanns skólans á siðareglum vegna framsetningar námsefnis sem notað var við kennslu. Þar sem ekki liggur fyrir samþykki aðila málanna tveggja þykir 9. gr. upplýsingalaga leiða til þess að Háskólanum hafi verið óheimilt að veita kæranda aðgang að ákvörðunum siðanefndar í þeim. Þessar upplýsingar er að finna svo víða í ákvörðununum að ekki verður talið fært að leggja fyrir Háskólann að veita kæranda aðgang að þeim að hluta með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ekki skiptir máli í þessu samhengi þótt ýmsar upplýsingar um málin hafi birst opinberlega, til að mynda í fjölmiðlum. Verður því staðfest ákvörðun Háskóla Íslands um að synja kæranda um aðgang að ákvörðunum nr.1/2012 og 3/2012.</p><p>Ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2013 hefur að geyma umfjöllun um meint brot starfsmanns Háskóla Íslands í tengslum við meðferð embættis landlæknis á kvörtunarmáli. Háskóli Íslands hefur fyrst og fremst vísað til þess að ákvörðunin hafi að geyma upplýsingar um heilsufar annars aðila málsins, sem séu viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd og persónuupplýsingar. Því falli þær undir 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur óskað eftir afstöðu beggja aðila til þess að kæranda verði veittur aðgangur að ákvörðuninni og hefur sá aðili sem heilsufarsupplýsingar varða samþykkt birtingu þeirra fyrir sitt leyti. Með hliðsjón af umfjöllun siðanefndarinnar í ákvörðuninni, niðurstöðu hennar og samþykki aðila málsins þykir ekki ástæða til að takmarka aðgang kæranda að henni á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 3/2013 var leyst úr kæru á hendur starfsmanni Háskóla Íslands sem tengist ágreiningi um val á leiðbeinendum nemenda við ritun námsritgerða við tiltekna deild skólans. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur ákvörðunin að ekki að geyma upplýsingar sem falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í því sambandi breytir engu þótt starfsmaðurinn sem um ræðir hafi lýst sig andvígan því að aðgangur verði veittur að ákvörðuninni.</p><p>Ákvörðun siðanefndarinnar nr. 2/2014 lýtur að kæru nemanda á hendur starfsmanni skólans vegna aðkomu hans að B.A.-verkefni nemandans. Úrskurðarnefndin hefur aflað afstöðu aðila málsins til þess að kæranda verði veittur aðgangur að ákvörðuninni og fyrir liggur samþykki nemandans en ekki starfsmannsins. Eins og atvikum er háttað þykir efni ákvörðunarinnar ekki lúta að upplýsingum sem falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í því sambandi breytir engu þótt starfsmaðurinn sem um ræðir hafi lýst sig andvígan því að aðgangur verði veittur að ákvörðuninni.</p><p>Í ákvörðun siðanefndarinnar nr. 3/2014 er fjallað um kæru starfsmanns Háskóla Íslands á hendur öðrum vegna ummæla í athugasemdakerfi fjölmiðils og á Facebook. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur óskað eftir afstöðu beggja til þess að kæranda verði veittur aðgangur að ákvörðuninni og hefur komið fram að þeir lýsa sig ekki andvíga því. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur því eins og hér stendur á að ákvörðunin hafi ekki að geyma upplýsingar sem Háskóla Íslands var heimilt eða skylt að takmarka aðgang kæranda að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Skoðun úrskurðarnefndarinnar hefur heldur ekki leitt í ljós aðrar röksemdir sem leiða til þeirrar niðurstöðu og verður því lagt fyrir skólann að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.</p><p>Ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 2/2016 lýtur að kæru einstaklings sem áður var nemandi við skólann á hendur tveimur starfsmönnum hans vegna framkvæmdar prófa og námsmats í tiltekinni námsgrein. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir efni ákvörðunarinnar með hliðsjón af afstöðu aðila málsins til þess að óviðkomandi verði veittur aðgangur að henni. Eins og atvikum er háttað fellst úrskurðarnefndin á það með Háskólanum að efni ákvörðunarinnar falli undir 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því ákvörðun Háskóla Íslands um synjun beiðni kæranda staðfest að þessu leyti.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Háskóla Íslands ber að veita kæranda, B, aðgang að ákvörðunum siðanefndar skólans nr. 1/2009, 1/2013, 3/2013, 2/2014 og 3/2014.</p><p>&nbsp;</p><p>Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

712/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Úrskurðarnefndin endurupptók mál sem varðaði rétt kæranda til aðgangs að samantekt um öryggi fjarskipta sem fyrrverandi forsætisráðherra lét taka saman fyrir ríkisstjórnina. Eftir að nefndinni bárust nánari skýringar og gögn frá forsætisráðuneytinu taldi hún fært að leggja til grundvallar að umbeðin gögn hefðu sérstaklega verið tekin saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Ákvörðun forsætisráðuneytis um synjun beiðni kæranda var því staðfest.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 712/2017 í máli ÚNU 17040004.</p><h3><b>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</b></h3><p>Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 670/2017 í máli nr. ÚNU 16090019, sem kveðinn var upp þann 30. janúar 2017, var staðfest synjun forsætisráðuneytis á beiðni A um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem fyrrverandi ráðherra lét taka saman fyrir ríkisstjórnina. Í kjölfarið leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu, dags. 11. ágúst 2017 (UA 9258/2017), að málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á fundi sínum þann 11. september 2017.</p><p>Úrskurður úrskurðarnefndarinnar byggðist á því að takmörkun 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ætti við um samantektina sem kærandi beiddist aðgangs að, enda þótt nefndin hefði afrit hennar ekki undir höndum. Í áliti umboðsmanns var komist að þeirri niðurstöðu að hvergi í þeim gögnum sem nefndin hafði undir höndum hafi komið skýrlega fram að samantektin hafi verið tekin saman fyrir fund ráðherra eða ríkisstjórnar. Í því ljósi hafi verið brýnt fyrir nefndina að fá nánari skýringar frá ráðuneytinu um þetta atriði. Þá hafi nefndinni verið fær sú leið til rannsóknar málsins að biðja um afrit hennar.</p><p>Í ljósi þessara sjónarmiða ritaði úrskurðarnefndin bréf til forsætisráðuneytis, dags. 26. september 2017, og tilkynnti um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum um eftirfarandi atriði:</p><p><ol><li>Hvort samantektin hafi verið gerð fyrir fund ráðherra.<br></li><li>Hvort samantektin hafi verið lögð fram á slíkum fundi og þá hvenær hann fór fram og hverjir voru viðstaddir. Jafnframt er óskað eftir afriti af dagskrá fundarins og fundargerð, liggi slík gögn fyrir.<br></li><li>Loks var óskað eftir afriti af hinu umbeðna gagni úr vörslum ráðuneytisins.</li></ol></p><p>Í svari forsætisráðuneytis, dags. 24. nóvember 2017, kom fram að samantekt um öryggi síma æðstu ráðamanna hafi verið lögð fram á fundi ríkisstjórnar þann 19. september 2014 í formi minnisblaðs. Fulltrúi ríkislögreglustjóra hafi síðan kynnt samantektina á ráðherrafundi sem haldinn hafi verið fyrir ríkisstjórnarfund þann 4. nóvember 2014. Svarinu fylgdi afrit af minnisblaðinu, fundargerð og dagskrá fundar ríkisstjórnar þann 19. september 2014, fundarboði sem sent var út í tilefni fundarins þann 4. nóvember 2014 og samantektinni sem kynnt var á fundinum. Loks var sú afstaða ráðuneytisins ítrekuð að um væri að ræða gögn sem tekin hefðu verið saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig 1. tölul. 10. gr. laganna.</p><h3><b>Niðurstaða</b></h3><p>Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að samantekt í vörslum forsætisráðuneytisins á grundvelli upplýsingaréttar almennings sem fjallað er um í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Aðgangur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga lýtur takmörkunum sem meðal annars er kveðið á um í 1. tölulið 6. gr. laganna, en forsætisráðuneytið synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli. Samkvæmt því ákvæði tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum eða gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.&nbsp;&nbsp;</p><p>Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. tölul. 6. gr. að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri, hvort heldur sem það sé á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. Í skýringum forsætisráðuneytisins kemur fram að hið umbeðna gagn hafi verið tekið saman fyrir slíkan fund.</p><p>Samkvæmt þeim gögnum sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur undir höndum var öryggi síma og talskipta æðstu ráðamanna rætt á fundi ríkisstjórnar þann 19. september 2014. Þá fengu ráðherrar í ríkisstjórninni nánari kynningu á þeim leiðum sem taldar voru færar til að tryggja öryggi síma á fundi sem fram fór að morgni 4. nóvember 2014, fyrir formlegan ríkisstjórnarfund. Eftir skoðun á fundargögnunum telur úrskurðarnefndin engan vafa leika á því að þau hafi sérstaklega verið tekin saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá telur úrskurðarnefnd efni gagnanna einnig falla undir ákvæði 1. tölul. 10. gr. laganna um öryggi ríkisins. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun forsætisráðuneytisins um synjun beiðni kæranda.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Staðfest er ákvörðun forsætisráðuneytisins, dags. 16. september 2016, um að synja beiðni A um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem fyrrverandi forsætsiráðherra lét gera.</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

713/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Isavia ohf. krafðist frestunar réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 709/2017 á meðan mál yrði borið undir dómstóla með vísan til 24. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fór yfir röksemdir Isavia fyrir kröfunni og komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt. Kröfunni var því hafnað.

<h2><b>Úrskurður</b></h2><p>Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 713/2017 í máli ÚNU 17020006.</p><h3><b>Beiðni um frestun réttaráhrifa og málsatvik</b></h3><p>Með erindi, dags. 13. nóvember 2017, gerði Isavia ohf. þá kröfu að úrskurðarnefnd um upplýsingamál frestaði réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar nr. 709/2017 í máli nr. ÚNU 17020006, sem kveðinn var upp 2. nóvember 2017, með vísan til 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að Isavia ohf. bæri að veita Kaffitári ehf. aðgang að hluta umbeðinna gagna sem vörðuðu samkeppni um leigurými á Keflavíkurflugvelli í mars 2014.</p><p>Í erindinu rekur Isavia ohf. þau atriði sem félagið telur að leiða eigi til þess að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað samkvæmt 24. gr. upplýsingalaga. Félagið vísar til stuðnings beiðninni til 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sinn til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómi. Þá er af hálfu félagsins byggt á því að engar málefnalegar ástæður séu til að hafna beiðninni þar sem gögnin séu þriggja ára gömul og skipti Kaffitár ehf. ekki máli að því marki að félagið tapi rétti. Aftur á móti séu samkeppnishagsmunir þeirra sem gögnin varða miklir. Félagið vísar enn fremur til þess að verði beiðni um frestun réttaráhrifa hafnað sé félaginu &nbsp;ekki önnur leið fær en að láta reyna á úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli samkvæmt 13. kafla aðfararlaga nr. 90/1989. Í slíku máli séu réttarfarsleg úrræði takmörkuð þar sem aðeins yrði tekist á um hvort úrskurðurinn teldist gild aðfararheimild.</p><p>Af hálfu Isavia ohf. er því enn fremur haldið fram að aldrei hafi reynt á það í dómsmáli hver staða opinbers hlutafélags sé nákvæmlega gagnvart upplýsingalögum og hvort hún sé önnur en hefðbundinna stjórnvalda. Félagið sé einn þeirra aðila sem felldur hafi verið undir lögin árið 2012. Um þessa breytingu segi m.a. í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 að gæta þurfi að því að í breytingunni felist ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar sem varða lögaðila, sem eru í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira, verði aðgengilegar almenningi. Af hálfu Isavia ohf. er einnig fullyrt að það sé álitaefni hvað í þessu felist og það kæmi sér vel fyrir aðila eins og félagið að fá afstöðu dómstóla til þess hver munurinn sé á opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu hins opinbera, ef hann sé einhver. Í þessu sambandi sé fjöldi lögaðila í eigu hins opinbera undanþeginn gildissviði upplýsingalaga.</p><p>Að mati félagsins hafi það einnig gríðarlega þýðingu að fá niðurstöðu dómstóla um það hver sé réttur skilningur á hugtakinu vinnuskjöl í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Orðalagið og það sem fram komi í athugasemdum með frumvarpi til laganna fari ekki saman. Í athugasemdum við 8. gr. laganna komi m.a. fram að stjórnvöld geti þurft að undirbúa ýmsar ákvarðanir á borð við samninga við einkaaðila. Lög geymi ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar. Stjórnvöld þurfi því að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Gögn sem verði til í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Eðlilegt sé því að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt einnig sé heimilt að afhenda þau á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi.</p><p>Í beiðni Isavia ohf. eru talin upp þau þrjú skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo gagn sé vinnugagn, þ.e. að það sé í reynd undirbúningsgagn, það skuli ritað eða útbúið af starfsmönnum aðila sjálfs og að gagn hafi ekki verið afhent öðrum. Í athugasemdum við ákvæðið segi að í þriðja skilyrðinu felist m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi, t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur vinnugagn. Undantekningar séu þó gerðar&nbsp; varðandi síðastgreinda atriðið. Frestbeiðandi segir ekki útskýrt nánar um hvers konar undantekningar geti verið að ræða.</p><p>Í beiðni um frestun réttaráhrifa er því haldið fram af hálfu Isavia ohf. að um sé að ræða tölvupósta sem gengu á milli frestbeiðanda og einkaaðila eftir að samkeppni lauk og eftir að tilkynnt hafi verið um töku tilboðs. Tölvupóstarnir uppfylli skilyrði um að vera vinnugögn samkvæmt almennum málskilningi, enda um að ræða gögn sem Isavia ohf. hafi útbúið til að leiða málið til endanlegra lykta með samningi við þá bjóðendur sem valdir hafi verið til samningsgerðar. Orðalag 1. mgr. 8. gr. um að gögn teljist ekki lengur vinnugögn ef þau hafi verið afhent öðrum fari ekki saman við orð athugasemda með frumvarpinu. Sérstakt verði að telja að eðli vinnuskjals breytist við það eitt að vera afhent þriðja aðila óháð efni þess. Í því að túlka 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga með hliðsjón af athugasemdunum við ákvæðið felist að finna út hverjar undantekningarnar séu.</p><p>Í beiðni Isavia ohf. er á því byggt að draga megi þá ályktun af athugasemdunum að félaginu sé heimilt að synja um aðgang að gögnum sem verða til eftir að samkeppnisferli lýkur og fram að þeim tíma er samningur liggur fyrir, enda sé um að ræða endanlega samningsgerð við einkaaðila. Félagið telur slíka lögskýringu samrýmast vel ákvæðum dönsku upplýsingalaganna, sem hafi verið fyrirmynd við gerð þeirra íslensku. Í beiðninni er því einnig haldið fram að skilgreining vinnugagna sé sambærileg í íslensku og dönsku lögunum og meginreglan samkvæmt þeim síðarnefndu sé að gögn missi „interne karakter“ við að vera afhent utanaðkomandi. Í 2. mgr. 23. gr. laganna sé þó eftirfarandi undantekningarákvæði:</p><blockquote><p>Stk. 2. Dokumenter omfattet af stk. 1, der afgives til udenforstående, mister deres interne karakter, medmindre afgivelsen sker af retlige grunde, til forskningsmæssig brug eller af andre lignende grunde.</p></blockquote><p>Samkvæmt þessu sé það ekki svo í öllum tilvikum að gögn sem afhent séu utanaðkomandi aðilum hætti að teljast innri gögn og hljóti að þurfa að meta hvert tilvik fyrir sig. Útfærsla dönsku laganna sé ítarlegri en þeirra íslensku varðandi gögn sem hafa verið afhent þriðja aðila.</p><p>Af hálfu Isavia ohf. er byggt á því að túlkun úrskurðarnefndarinnar á hugtakinu vinnugögn leiði til þess að honum sé skylt að afhenda öll gögn sem félagið sendir til einkaaðila, ráðgjafa og viðskiptavina nema ákvæði 9. gr. upplýsingalaga eigi við. Nefndin túlki ákvæðið óeðlilega þröngt. Þá hafi ekki verið gerð tilraun til að kalla eftir afstöðu þeirra aðila, sem gögnin varði, til þess hvort þeir telji sig verða fyrir tjóni ef þau yrðu afhent. Slík einföld fyrirspurn hefði samræmst rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hefði ekki tafið afgreiðslu málsins hjá nefndinni.</p><p>Í erindinu kemur fram að Isavia ohf. telji sig hafa verið í fullum rétti til að strika út viðkvæmar viðskipta- og samkeppnisupplýsingar, svo sem sölu-, markaðs- og fjárfestingaáætlanir. Þessir hagsmunir séu ekki bara bundnir við Ísland. Ekki hafi áður reynt á skilning úrskurðarnefndar um upplýsingamál á erindi Samkeppniseftirlitsins til Kaffitárs, dags. 8. júlí 2016. Nefndin afgreiði sjónarmið sem þar komi fram á snubbóttan hátt. Það sé algengt að úrskurðaraðilar líti svo á að almenn löggjöf, þ.e. samkeppnislög eða jafnvel stjórnarskráin komi þeim lítið eða ekkert við. Af hálfu Isavia ohf. er lýst þeirri skoðun að nefnd af þessu tagi sé skylt að gaumgæfa mat sitt á grundvelli ákvæða samkeppnislaganna rétt eins og upplýsingalaga. Nánast ekkert sé fjallað um það í úrskurðinum að upplýsingaskipti geti falið í sér brot á ákvæði 10. gr. samkeppnislaga. Það sé grundvallaratriði í samkeppnisrétti að talin sé hætta á því að samkeppni geti raskast hafi keppinautar of miklar upplýsingar hver um annan sem lúti að verði, kostnaði, viðskiptakjörum eða viðskiptaáætlunum. Fyrirtæki með slíkar upplýsingar í höndunum geti séð fyrir hegðun keppinauta á markaði.</p><p>Af hálfu Isavia ohf. er einnig vísað til leiðbeiningarreglna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en ákvæði 10. gr. samkeppnislaga sé að meginstofni í samræmi við 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og 101. gr. sáttmála um starfshætti Evrópusambandsins. Skýra skuli íslensk lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja að svo miklu leyti sem við eigi. Framangreindar leiðbeiningarreglur séu því hafðar til hliðsjónar við beitingu íslenskra samkeppnisyfirvalda og dómstóla á 10. gr. samkeppnislaga en úrskurðarnefndin hafi ekki gert tilraun til að túlka þessar mikilvægu reglur. Þá vísar Isavia ohf. til þess að félagið hafi skorað á nefndina að afla álits hjá Samkeppniseftirlitinu varðandi það hvort einstök gögn væru þess eðlis að samkeppnislög nr. 44/2005 setti afhendingu þeirra skorður. Telur félagið að slík álitsöflun hefði verið í anda 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt telur félagið að ríkari ástæða hefði verið til þess í ljósi þeirra ummæla nefndarinnar að hún hafi ekki forsendur til að meta þessi samkeppnissjónarmið eins og ítrekað komi fram í úrskurði nefndarinnar nr. 579/2015.</p><p>Isavia ohf. kveður úrskurðarnefndina hafa lagt mikið upp úr því að Kaffitár ehf. hafi ríka hagsmuni af því að fá aðgang að upplýsingum sem varði ráðstöfun opinberra gæða sem fyrirtækið sóttist sjálft eftir. Að mati félagsins virðist úrskurðarnefndin leggja að jöfnu hugtökin opinberir hagsmunir og opinber gæði en hvergi í upplýsingalögum eða athugasemdum sé fjallað um ráðstöfun opinberra gæða. Telur félagið mikilvægt að fá afstöðu dómstóla til þess hvort útleiga félagsins á húsnæði sínu í Leifsstöð feli í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna, sem víki til hliðar þeim hagsmunum sem 9. gr. upplýsingalaga eigi að verja. Þá telur félagið að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki tekið tillit til hagsmuna þeirra aðila sem gögnin stafi frá við mat sitt og umfjöllun um þá sé afar takmörkuð.</p><p>Í erindi Isavia ohf. er loks tekið fram að félagið telji fordæmisgildi málsins ótvírætt og gríðarlega viðskiptalega hagsmuni í húfi, bæði fyrir félagið sjálft sem og þá aðila sem tóku þátt í samkeppninni. Þótt frestur yrði veittur ætti það ekki að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni Kaffitárs ehf. Þá telur félagið að synjun beiðni um frestun réttaráhrifa feli það í sér að Isavia ohf. verði svipt þeim grundvallarréttindum að bera ágreininginn á réttmætan hátt undir dómstóla, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.</p><h3><b>Niðurstaða<br></b><b>1.</b></h3><p>Mál þetta varðar beiðni Isavia ohf. um að réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 709/2017 verði frestað á meðan málið verði borið undir dómstóla, með vísan til 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><p>Í ákvæðinu segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Skuli krafa þess efnis gerð eigi síðar en sjö dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests. Ákvæði um frestun réttaráhrifa var áður í 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í athugasemdum við þá grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996, svo og í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, segir: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“</p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og nú 24. gr. laga nr. 140/2012, eigi fyrst og fremst við um tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, annarra en þeirra sem falla undir gildissvið laganna, sem geta verið skertir með óbætanlegum hætti, verði aðgangur veittur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga, eins og þau kunni síðar að verða skýrð af dómstólum.&nbsp;</p><h3><b>2.</b></h3><p>Beiðni Isavia ohf. um frestun réttaráhrifa er í upphafi byggð á því að verði ekki á hana fallist neyðist frestbeiðandi til að láta reyna á úrskurðinn í máli samkvæmt 13. kafla aðfararlaga nr. 90/1989. Vísar félagið um það til þess að í slíku máli séu réttarfarsleg úrræði takmörkuð og því samræmist það betur 70. gr. stjórnarskrárinnar að heimila frestbeiðanda að reka almennt einkamál fyrir dómstólum.</p><p>Af þessu tilefni telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál rétt að taka fram að Isavia ohf. studdi kröfu sína um flýtimeðferð einkamáls, þar sem m.a. var ætlunin að krefjast ógildingar úrskurðar nefndarinnar nr. 579/2015, svipuðum rökum. Í dómi Hæstaréttar frá 16. september 2015 í máli nr. 576/2015 var kröfunni hafnað og í forsendum réttarins kemur m.a. fram að þótt meðferð mála samkvæmt lögum nr. 90/1989 sé um sumt einfaldari í sniðum en almennra einkamála geti aðili máls komið að öllum sömu málsástæðum um form- og efnisannmarka stjórnvaldsúrskurðar eins og í almennu einkamáli.</p><p>Með vísan til þess sem að framan er rakið getur úrskurðarnefnd upplýsingamála ekki fallist á þau sjónarmið sem lýst er í beiðni Isavia ohf. um frestun réttaráhrifa, að munur á málsmeðferð samkvæmt aðfararlögum nr. 90/1989 annars vegar og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 hins vegar, réttlæti með nokkrum hætti frestun réttaráhrifa úrskurðar nefndarinnar nr. 709/2017.</p><h3><b>3.</b></h3><p>Af hálfu Isavia ohf. er því enn fremur haldið fram að þörf sé á því að dómstólar taki afstöðu til þess „hver munurinn [sé] á opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu hins opinbera sem starfa á almennum markaði“ gagnvart upplýsingalögum, ef hann sé þá einhver. Í þessu sambandi leggur félagið áherslu á tilvísun í eftirfarandi ummæli í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012, þegar lögaðilar í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira voru felldir undir gildissvið laganna:</p><blockquote><p>Að því þarf þó að gæta að í þessu felst ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar sem þessa lögaðila varða verði aðgengilegar almenningi. Áfram er byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings.</p></blockquote><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að samkvæmt upplýsingalögum gildir sú skýra regla um stjórnvöld og einkaréttarlega aðila í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira að almenningur eigi rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum þeirra, með tilteknum takmörkunum. Þannig gildir um báðar tegundir aðila að allar upplýsingar sem þá varða eru ekki sjálfkrafa aðgengilegar almenningi á grundvelli upplýsingalaga. Þá bendir nefndin á að í athugasemdum við ákvæði 2. gr. í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga segir m.a. eftirfarandi um afmörkun gildissviðs laganna gagnvart síðarnefndu aðilunum:</p><blockquote><p>Í 2. mgr. 2. gr. er lagt til að upplýsingalög skuli taka til allrar starfsemi einkaréttarlegra lögaðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Ef þau skilyrði eru fyrir hendi leiðir af frumvarpsákvæðinu að upplýsingalög taka til allrar starfsemi slíkra lögaðila en ekki aðeins til þeirrar starfsemi þeirra sem talist getur til opinberrar stjórnsýslu í hefðbundinni merkingu. Í grundvallaratriðum má segja að þessi nálgun sé valin til einföldunar á afmörkun á gildissviði laganna. Einnig býr hér að baki sú röksemd að í slíkum lögaðilum eru almennt bundnir mikilvægir opinberir hagsmunir. Ekki er því ástæða í reynd til að afmarka gildissvið upplýsingalaga þröngt gagnvart þessum aðilum, og binda það einvörðungu við þau opinberu verkefni eða þjónustu, í þröngum skilningi, sem þeir sinna eða er falið að sinna.</p></blockquote><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur af hálfu Isavia ohf. ekki verið sýnt fram á það að staða félagsins í ljósi 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga feli í sér slíkt álitamál að nauðsynlegt sé að fresta réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar. Í því sambandi telur nefndin rétt að benda á að aðili dómsmáls, hvort heldur sem er í máli sem rekið er á grundvelli aðfararlaga eða samkvæmt almennum reglum um meðferð einkamála, hefur ávallt fullt tækifæri til að rengja túlkun nefndarinnar á einstökum ákvæðum upplýsingalaga fyrir dómstólum og freista þess að fá þeirri túlkun hnekkt á þeim vettvangi. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin umrædd sjónarmið Isavia ohf. ekki fela í sér sérstaka ástæðu fyrir frestun réttaráhrifa úrskurðar nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.</p><h3><b>4.</b></h3><p>Hvað varðar röksemdir Isavia ohf. um merkingu hugtaksins vinnuskjöl í skilningi upplýsingalaga leggur úrskurðarnefnd um upplýsingamál áherslu á það að takmarkanir frá meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs ber að skýra þröngri lögskýringu. Það á einnig við um ákvæði 5. tl. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. er það grundvallarskilyrði að vinnugögn þurfi að vera rituð „til eigin nota“. Þar segir jafnframt skýrum orðum í kjölfarið:</p><blockquote><p>Nú eru gögn afhent öðrum og teljast þau þá ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.</p></blockquote><p>Sá skilningur sem fram kemur í erindi Isavia ehf., að tölvupóstsamskipti aðila sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga annars vegar og einkaaðila hins vegar geti talist til vinnugagna, er því einfaldlega ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Raunar verður ekki séð að nokkurt ákvæði upplýsingalaga, annarra laga eða lögskýringargagna rennir stoðum undir þann skilning sem félagið byggir á að þessu leyti.</p><p>Um þau ummæli í athugasemdum við ákvæði 2. mgr. 8. gr. sem frestbeiðandi leggur áherslu á tekur úrskurðarnefndin fram að undantekningar á því skilyrði að gögn megi ekki hafa verið afhent utanaðkomandi aðila eru tæmandi taldar í 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna. Að þessu leyti er ekkert misræmi á milli athugasemda við ákvæðið í greinargerð er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem undantekningarnar sem rætt er um í athugasemdunum koma fram í lagatextanum sjálfum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur Isavia ehf. heldur ekki hafa sýnt fram á að ákvæði 2. mgr. 23. gr. dönsku upplýsingalaganna geti hér nokkru breytt.</p><p>Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki sérstaka ástæðu til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns nr. 709/2017 í skilningi 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga í ljósi þessara röksemda Isavia ohf.</p><h3><b>5.</b></h3><p>Í erindi Isavia ohf. er næst vikið að beitingu 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en félagið kveður úrskurðarnefnd um upplýsingamál túlka ákvæðið óeðlilega þröngt. Nefndin hafi lagt til grundvallar að meta skuli hvort um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja að ætla megi að afhending upplýsinga sé til þess fallin að valda hlutaðeigandi fyrirtæki tjóni. Í úrskurði nr. 709/2017 hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál hins vegar ekki gert tilraun til að kalla eftir afstöðu fyrirtækjanna til þess hvort félögin teldu sig verða fyrir tjóni ef orðið yrði við afhendingu umbeðinna gagna. Slík fyrirspurn hefði samræmst rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.</p><p>Í þessu sambandi er rétt að taka fram að Isavia ohf. óskaði sjálft eftir afstöðu viðkomandi fyrirtækja til afhendingarinnar við meðferð beiðni Kaffitárs ehf. með vísan til 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Svör þessara aðila voru því á meðal gagna málsins fyrir úrskurðarnefndinni og því ljóst að engin þörf var á því að óska afstöðu þeirra öðru sinni.</p><p>Varðandi þá röksemd Isavia ohf. að mikilvægt sé að fá afstöðu dómstóla til þess hvort útleiga félagsins á húsnæði sínu í Leifsstöð feli í sér „ráðstöfun opinberra hagsmuna“, sem víki til hliðar þeim hagsmunum sem 9. gr. á að verja telur úrskurðarnefndin ekki að öllu leyti ljóst hvað félagið á við með tilvitnuðum ummælum. Í tilefni af þeim telur nefndin hins vegar nauðsynlegt að árétta að í athugasemdum við ákvæði 2. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir meðal annars um þá breytingu að lögin taki til einkaréttarlega lögaðila í opinberri eigu að 51% hluta eða meira:</p><blockquote><p>Í frumvarpinu er lagt til að miða eignarhluta opinberra aðila við 51% eða meira til samræmis við sjónarmið meiri hluta allsherjarnefndar þegar hún fjallaði um frumvarp sama efnis á 139. löggjafarþingi. Rökin að baki því hlutfalli eru fyrst og fremst þau að þegar eignarhluti tiltekins aðila í fyrirtæki hefur náð þeim mörkum verði að líta svo á að ákvarðanir um meðferð og stjórnun slíks fyrirtækis séu í reynd að umtalsverðu leyti ákvarðanir um ráðstöfun opinberra hagsmuna.</p></blockquote><p>Ljóst er að Isavia ohf. er opinbert hlutafélag sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Tilgangur félagsins er samkvæmt lögum nr. 76/2008 að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur það hafið yfir allan vafa að ráðstöfun og meðferð félagsins á eignum sínum telst til meðferðar opinberra hagsmuna. Að mati nefndarinnar er því engin þörf á að fresta réttaráhrifum úrskurðar nr. 709/2017 samkvæmt 24. gr. upplýsingalaga vegna þessa þáttar málsins.</p><h3><b>6.</b></h3><p>Í erindi Isavia ohf. er loks á því byggt að þörf sé á frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. 709/2017 þar sem úrskurðarnefndin hafi ekki gætt nægilega að sjónarmiðum um samkeppnishagsmuni fyrirtækjanna sem umbeðin gögn varða með hliðsjón af ákvæði 10. gr. samkeppnislaga. Af erindi félagsins verður ráðið að það telji nefndina ekki hafa tekið nægilega skýra afstöðu til þess hvort ákvæði 10. gr. samkeppnislaga standi í vegi afhendingu þeirra gagna sem beiðnin lýtur að.</p><p>Af þessu tilefni telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál rétt að vekja athygli á því að í margnefndum úrskurði er sérstaklega tekið fram að við mat á því hvort umbeðnar upplýsingar skuli vera undanskildar upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga kunni að vera gagnlegt að líta til sjónarmiða um beitingu 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá eigi sömu sjónarmið við um beitingu 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Á þessum grundvelli leit úrskurðarnefndin til þess við mat sitt hvort birting umbeðinna gagna gæti raskað samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem þau varða, eða raskað eðlilegri samkeppni að öðru leyti. Nefndin féllst á það með Isavia ohf. í sumum tilvikum að afhending gagnanna gæti farið gegn mikilvægum samkeppnishagsmunum fyrirtækjanna og staðfesti niðurstöðu um synjun beiðni Kaffitárs ehf. um aðgang að þeim. Um önnur gögn leiddu sömu sjónarmið til þess að nefndin taldi ekki ástæðu til að ætla að samkeppnishagsmunum yrði raskað ef Kaffitári ehf. yrði heimilaður aðgangur að þeim.</p><p>Isavia ohf. leggur áherslu á að nefndin hafi ekki gert tilraun til að túlka leiðbeiningarreglur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem félagið kveður hafðar til hliðsjónar við beitingu íslenskra samkeppnisyfirvalda og dómstóla á 10. gr. samkeppnislaga. Félagið gerir hins vegar enga tilraun til að sýna fram á hvernig ákvæði þeirra geti leitt til annarrar niðurstöðu um einstök gögn eða umbeðin gögn í heild sinni en úrskurðarnefndin komst að í úrskurði sínum.</p><p>Í ljósi þessa skal þess getið að íslenskir dómstólar hafa hafnað kröfu Isavia ohf. um að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu leiðbeiningarreglnanna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 5. febrúar 2016 í máli nr. 62/2016 þar sem fram kom í staðfestum úrskurði héraðsdóms að reglurnar séu hvorki hluti meginmáls EES-samningsins, viðauka eða bókana við hann, né gerð sem getið sé um í viðaukum við samninginn. Leiðbeiningarreglurnar varði beitingu reglna sem innleiddar voru í íslenskan rétt, m.a. með 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Íslenskir dómstólar séu bærir til þess að túlka og beita samkeppnisreglum sem eiga uppruna í evrópskum samkeppnisrétti.</p><p>Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Isavia ohf. hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að tilvist leiðbeiningarreglna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um upplýsingaskipti geti haft þau áhrif að sérstök ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar nr. 709/2017 á meðan málið verði borið undir dómstóla.</p><h3><b>7.</b></h3><p>Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar nr. 709/2017, í máli ÚNU 17020006.&nbsp; Ber því að hafna kröfu Isavia ohf. þar að lútandi.</p><h3><b>Úrskurðarorð:</b></h3><p>Kröfu Isavia ohf. um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar nr. 709/2017 frá 2. nóvember 2017 er hafnað.</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

709/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Kaffitár ehf. kærði ákvörðun Isavia ohf. um synjun beiðni um aðgang að gögnum sem tengjast samkeppni um leigurými á Keflavíkurflugvelli í mars 2014 og ekki voru til umfjöllunar í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndarinnar nr. 579/2015 og 586/2015. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir rétt kæranda til aðgangs að gögnunum, lið fyrir lið, og taldi skylt á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga að veita fyrirtækinu aðgang að hluta umbeðinna gagna. Um önnur gögn ýmist staðfesti nefndin ákvörðun Isavia, vísaði kæru frá eða lagði fyrir Isavia að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2><p>Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 709/2017 í máli ÚNU 17020006. </p><h3>Kæra og málsatvik</h3><p>Með erindi, dags. 14. febrúar 2017, kærði Kaffitár ehf. ákvörðun Isavia ohf. um að synja kæranda um gögn er tengjast samkeppni um leigurými á Keflavíkurflugvelli í mars 2014. Úrskurðarnefndin hefur áður fjallað um ágreining sömu fyrirtækja um rétt kæranda til aðgangs að gögnum er varða umrædda samkeppni sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 579/2015 og 586/2015. Í fyrra málinu var deilt um aðgang að öðrum gögnum en mál þetta lýtur að, en í því síðara var hafnað beiðni Isavia ohf. um endurupptöku fyrra málsins.&nbsp;&nbsp;</p><p>Eins og rakið er í fyrri úrskurðum efndi Isavia ohf. þann 19. mars 2014 til samkeppni til að bjóða út leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í húsnæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og að fyrirtækið hafi komið fram sem væntanlegur leigusali. Skiptist samkeppnin í tvö stig. Á fyrra stiginu, sem nefndist „Request for Qualification“ var kannað hvort þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira sem Isavia ohf. setti til þátttöku í samkeppninni. Þeim sem uppfylltu kröfur fyrirtækisins var svo boðið að taka þátt á seinna stigi samkeppninnar, sem nefndist „Request for Proposal“, og skila inn annars vegar tæknilegri og hins vegar fjárhagslegri tillögu. Átti fjárhagslegi hlutinn einungis að koma til skoðunar ef tæknilegi hlutinn yrði metinn fullnægjandi. Kærandi mun hafa skilað inn tvíþættum tillögum og komst í gegnum fyrra stig samkeppninnar í tilteknum flokkum hennar. Tæknilegur hluti tillögu kæranda var metinn fullnægjandi og kom fjárhagslegur hluti hennar til skoðunar. Með bréfi 21. ágúst 2014 tilkynnti Isavia ohf. á hinn bóginn kæranda að tillaga hans væri ekki fyrsti valkostur í samkeppninni og þann 1. október 2014 að ekki hefði verið gengið að tillögu hans í samkeppninni. Af gögnum þess máls sem hér er til skoðunar má ráða að Isavia ohf. hafi í kjölfarið gengið til samninga við fyrirtækin <a name="_Hlk489702368">Lagardère travel retail ehf. </a>og <a name="_Hlk490399162">Joe Ísland ehf. </a>Af gögnum málsins verður ráðið að í ferlinu öllu hafi jöfnum höndum verið vísað til fyrrnefnda fyrirtækisins með því nafni, heitinu Lagardère<i><b> </b></i>Services eða einfaldlega Lagardère. </p><p>Mál það sem hér er til skoðunar er til komið vegna beiðni kæranda í sjö liðum, dags. 5. desember 2016, um gögn. Var þess krafist að fá afhent eftirtalin gögn: </p><ol><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við Joe Ísland ehf., Lagardère<i><b> </b></i>Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf., í sex mánuði fyrir upphaf forvals, á milli 19. október 2013 og 19. mars 2014. </p></li><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá upphafi forvals þann 19. mars 2014 til loka forvals þann 22. apríl 2014. </p></li><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokum forvals þann 22. apríl 2014 til lokunar tilboða í seinni hluta samkeppninnar þann 25. júní 2014. </p></li><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokun tilboða þann 25. júní 2014 til dagsetninga samninga í kjölfar samkeppninnar. </p><ol><li><p>Beiðnin tekur til allra afrita bréfa- og tölvupóstsamskipta ISAVIA ohf. við ofangreinda fjóra aðila vegna samkeppninnar, hverju nafni sem þau nefnast, á umræddu tímabili. </p></li><li><p>Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til Lagardère Services, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 1.</p></li><li><p>Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til SSP the Food Travel Experts, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 2. </p></li></ol></li><li><p>Samninga ISAVIA ohf. við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í, þ.e. Lagardère Services og Joe Ísland, ásamt fylgigögnum og viðaukum við þá samninga. </p></li><li><p>Allar fundargerðir stjórnar ISAVIA ohf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samkeppninnar. </p></li><li><p>Allar fundargerðir vegna funda ISAVIA ohf. með Lagardère, Joe Ísland ehf., SSP the Food Travel Experts og IGS ehf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samskiptanna.</p></li></ol><p>Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 16. janúar 2017, fékk kærandi afhent gögn sem Isavia ohf. taldi að félli undir beiðni kæranda. Tekið var fram að hluti umbeðinna gagna teldist til vinnugagna og væri undanþeginn upplýsingarétti á þeim grundvelli. Þá hefði Isavia ohf. í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012 og með hliðsjón af erindi Samkeppniseftirlitsins til Kaffitárs, dags. 8. júlí 2016, afmáð mikilvægar viðskiptaupplýsingar úr gögnunum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. </p><p>Í kæru eru málavextir raktir frá sjónarhóli kæranda.&nbsp; Rakið er að í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að 14. gr. upplýsingalaga ætti við um rétt kæranda til gagna frá öðrum þátttakendum í samkeppninni, þ.m.t. öllum fjárhagslegum upplýsingum sem kæmu fram í tilboðum þeirra. Í úrskurðinum hafi verið staðfest að kærandi ætti rétt á aðgangi að tillögum og fylgigögnum annarra þátttakenda í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í. Úrskurðarnefndin hafi einungis talið rétt að synja kæranda um aðgang að tæknilegum upplýsingum í glærusýningu eins bjóðanda. Kærandi hafi þurft að krefjast aðfarar til fullnustu úrskurðarins og hafi verið úrskurðað um aðfarahæfi hans í Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. júní 2015. </p><p>Við yfirferð á gögnum úr samkeppninni hafi vaknað spurningar hjá kæranda hvort framkvæmd samkeppninnar og val þátttakenda í kjölfar hennar stæðust grunnreglur íslensks útboðs- og stjórnsýsluréttar. Kærandi telji bréfaskipti Isavia ohf. við valda þátttakendur gefa til kynna að ekki hafi verið gætt jafnræðis á milli þátttakenda við málsmeðferð og val tilboða, m.a. vegna þess að völdum þátttakendum hafi verið veittur kostur á að leggja fram ný tilboð eftir að tilboðsfresti lauk. Með bréfi, dags. 5. desember 2016, hafi kærandi því óskað frekari gagna frá Isavia ohf., þ.m.t. samskipti fyrirtækisins við einstaka þátttakendur fyrir samkeppnina, meðan á henni stóð og fram að samningsgerð. </p><p>Í kæru kemur einnig fram að þann 17. janúar 2017 hafi Isavia ohf. afhent 458 bls. af gögnum úr samkeppninni. Af lestri þeirra gagna hafi kærandi orðið þess áskynja að Isavia ohf. hafi einungis orðið við gagnabeiðninni að hluta. Auk þess hafi Isavia ohf. synjað um aðgang að tilteknum upplýsingum úr gögnunum með því að afmá þær. Ekki hafi verið tilgreint með skýrum hætti hvaða gögnum væri haldið frá kæranda eða hvað réði því hvaða upplýsingar væru afmáðar í hverju og einu tilfelli.&nbsp;&nbsp;</p><p>Kærandi telur málsástæður Isavia ohf. fyrir synjun beiðninnar vera haldlausar. Í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 578/2015 og 586/2015 hafi verið staðfest að 14. gr. upplýsingalaga ætti við um gagnabeiðnir kæranda eftir samkeppnina en ekki 9. gr. laganna. Í úrskurðunum hafi heldur ekki verið fallist á að gögn tengd samkeppninni væru vinnugögn. Þá hafi málsástæðum um að í gagnaafhendingu fælist ólögmætt samráð skv. 10. gr. samkeppnislaga verið hafnað. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi komist að sömu niðurstöðu í endanlegum úrskurði nr. A-732/2015. Kærandi vísar einnig í úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 580/2015. </p><p>Kærandi segir það hafa sjálfstæða þýðingu fyrir þátttakanda í opinberri samkeppni að geta borið saman fjárhagslegar upplýsingar í tilboðum þátttakenda við fjárhagslegar upplýsingar sem komi fram í seinni tillögum, viljayfirlýsingum og samningum við sigurvegara samkeppninnar. Auk þess skipti máli að fá aðgang að samningsákvæðum sem gætu haft áhrif á verðmæti samninga. </p><p>Í kæru eru gerðar sérstakar athugasemdir við synjun Isavia ohf. á afhendingu upplýsinga fyrir hvern og einn lið í gagnabeiðninni. Um 1. tölulið gagnabeiðni segir kærandi að gögn málsins bendi til þess að Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. hafi átt í töluverðum samskiptum fyrir upphaf samkeppninnar, eða í mars 2014. Lagardère travel retail ehf. hafi með tölvubréfi, dags. 17. mars 2014, óskað eftir fundi með starfsmönnum Isavia ohf. og flugfélagsins Icelandair við upphaf forvalstímans en svar Isavia ohf. við póstinum hafi hins vegar ekki verið afhent kæranda. </p><p>Um 2. tölulið gagnabeiðni tekur kærandi fram að með tölvupósti, dags. 26. mars 2014, hafi Lagardère travel retail ehf. beint sex spurningum með undirliðum til Isavia skömmu eftir upphaf forvals. Svör Isavia við spurningunum hafi hins vegar ekki verið afhent. </p><p>Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 3. tölulið gagnabeiðni eru eftirfarandi: </p><ul><li><p>Isavia ohf. hafi þann 22. apríl 2014 tilkynnt tilteknum þátttakendum að þeir hefðu öðlast þátttökurétt í seinni hluta samkeppninnar. Tölvubréf Isavia ohf. til þátttakenda vísi til viðhengdra bréfa sem ekki hafi verið afhent. </p></li><li><p>Samkvæmt tölvubréfi frá maí 2014 virðist Lagardère travel retail ehf. hafa sent ýmsar frekari fyrirspurnir til Isavia um samkeppnina en Isavia hafi ekki afhent svör félagsins við spurningunum. </p></li><li><p>Isavia hafi framlengt tilboðsfrestinn í samkeppninni en vísað hafi verið til þess í tilkynningu að beiðnir hefðu komið fram um framlengingu frestsins. Kærandi hafi aðeins fengið beiðni Lagardère travel retail ehf., dags. 14. maí, um framlengingu tilboðsfrests en óski eftir því að fá afhentar aðrar slíkar beiðnir hafi þær borist. Auk þess telur kærandi líklegt að frekari samskipti hafi átt sér stað á milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. um framlengingu frests. Óskað er rannsóknar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á því hvort frekari samskipti hafi átt sér stað milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. á milli 14. maí 2014 og 13. júní sem ekki hafi verið afhent kæranda. </p></li></ul><p>Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 4. tölulið gagnabeiðni eru eftirfarandi: </p><ul><li><p>Í bréfi Isavia ohf. til kæranda, dags. 21. ágúst 2014, hafi verið tilkynnt um að kærandi væri ekki fyrsti valkostur í samkeppninni. Ætla megi að hin fjögur fyrirtækin sem tóku þátt í þessum hluta samkeppninnar hafi fengið sambærilegt bréf. Óskað sé afhendingar á þeim bréfum. </p></li><li><p>Í tölvubréfi, dags. 16. september 2014 komi Joe Ísland ehf. á framfæri „nýjum tölum“ fyrir „departure lounge staðinn“ við Isavia ohf. en svar Isavia ohf. hafi ekki verið afhent kæranda. Kærandi segist eiga rétt á tölulegum upplýsingum sem þessum. Einnig hafi verið afmáðar tölulegar upplýsingar í tilboði á fylgiskjölum nr. 118-119. &nbsp;</p></li><li><p>Joe Ísland ehf. hafi sent tölvubréf milli 16. og 8. október 2014 þar sem settar hafi verið fram ýmsar fyrirspurnir. Svör Isavia ohf. við þeim tölvubréfum hafi ekki verið afhent. </p></li><li><p>Afmáðar hafi verið upplýsingar í tölvubréfi Lagardère travel retail ehf. til Isavia ohf., dags. 15. september 2014 en krafist sé afhendingar án útstrikunar. Með póstinum hafi fylgt viðhengi með tölulegum upplýsingum sem hafi verið afmáðar og sé krafist afhendingar án útstrikunar.</p></li><li><p>Isavia ohf. hafi með tölvubréfi dags. 23. desember 2014 beðið Joe Ísland ehf. um ársreikning og ábyrgðaryfirlýsingu frá þriðja aðila. Nöfn viðkomandi aðila hafi verið afmáð úr tölvupóstinum en krafist sé afhendingar tölvupóstsins án útstrikunar auk svars Joe Íslands ehf. með fylgigögnum. Tekið er fram að ársreikningar séu opinber gögn sem trúnaður geti ekki gilt um. </p></li><li><p>Afmáður hafi verið texti frá Lagardère travel retail ehf. í tölvubréfi dags. 15. september 2014. Krafist sé afhendingar gagnsins án útstrikunar. </p></li><li><p>Lagardère travel retail ehf. hafi sent nýtt tilboð í viðhengi með tölvupósti, dags. 15. september 2015. Stærstur hluti tilboðsins hafi verið afmáður, þ.m.t. allar fjárhagslegar og tölulegar upplýsingar. </p></li><li><p>Gögn málsins bendi til þess að fulltrúi Lagardère travel retail ehf. hafi verið í samskiptum við þrjá tilgreinda valnefndarmenn. Afhent hafi verið samskipti Lagardère travel retail ehf. við tvo þeirra en ekki við valnefndarmanninn Frank Grey. Krafist er afhendingar á öllum samskiptum þess nefndarmanns við Lagardère travel retail ehf. &nbsp;vegna samkeppninnar, allt frá því sex mánuðum fyrir upphaf forvals þann 19. október 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland, dags 2. og 4. mars 2015, þ.m.t. tölvubréfum og fundargerðum. </p></li><li><p>Krafist er aðgangs að þeim upplýsingum sem afmáðar hafi verið í samningsdrögum Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf.</p></li></ul><p>Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 5. tölulið gagnabeiðni eru eftirfarandi: </p><ul><li><p>Krafist er afhendingar á sameiginlegri viljayfirlýsingu Isavia og Lagardère travel retail ehf., „Agreement of Intent“, dags. 9. september 2014, án útstrikunar. </p></li><li><p>Krafist er afhendingar á undirrituðum samningi Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 4. mars 2015, án útstrikunar. Þá sé krafist afhendingar á viðauka 2, 4 og 5 án útstrikunar. </p></li><li><p>Krafist er afhendingar viljayfirlýsingar Isavia ohf. og Joe Íslands ehf., dags 15. september 2014, án útstrikunar. </p></li><li><p>Krafist er afhendingar á undirrituðum samningi Isavia ohf. og Joe Íslands ohf., dags. 2. mars 2015, og viðauka við samninginn án útstrikunar.</p></li></ul><p>Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 6. tölulið. gagnabeiðni eru þær að krafist sé aðgangs að þeim upplýsingum sem afmáðar voru í stjórnarfundargerðum sem afhentar voru kæranda. </p><p>Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 5. tölulið. gagnabeiðni eru eftirfarandi: </p><ul><li><p>Krafist er aðgangs að fundargerð fundar milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 29. ágúst 2014 án útstrikunar. </p></li><li><p>Kærandi telur ótrúverðugt að aðeins ein fundargerð sé til af fundum Isavia ohf. með þátttakendum á tímabilinu og er varði samkeppnina. Í gögnum málsins sé t.d. víða vísað til funda með þátttakendum. </p></li></ul><p>Kærandi telur ljóst að Isavia ohf. hafi ekki afhent öll þau gögn sem tengjast samkeppninni og sem heyri undir gagnabeiðni kæranda. Því er óskað sjálfstæðrar rannsóknar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á því hvaða gögn sem falli undir beiðni kæranda hafi ekki verið afhent og að Isavia ohf. verði gert að afhenda öll þau gögn sem falla undir beiðnina. </p><h3>Málsmeðferð</h3><h3>1.</h3><p>Með bréfi, dags. 1. mars 2017, var kæran kynnt Isavia ohf. og fyrirtækinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæra lyti að. </p><p>Með bréfi, dags. 2. mars 2017, óskaði lögmaður Isavia ohf. eftir því að fá ljósrit af fylgigögnum með kæru. Í bréfinu kemur fram að kærði telji sig hafa orðið við afhendingu allra umbeðinna gagna þann 17. janúar 2017. Auk þess sé kröfugerð kæranda mjög óskýr og telji kærði hana ekki fullnægja almennum reglum stjórnsýsluréttar um skýrleika kröfugerðar. Væri þeim tilmælum beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að vísa kærunni frá eða skora á kæranda að senda nefndinni skýrari kröfugerð. Eins og kröfugerð kæranda væri háttað væri kærða vandi á höndum að svara kærunni. </p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi kæranda tölvubréf þann 3. mars 2017 og óskaði eftir afstöðu hans til þess sem þar kæmi fram. Kærandi sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál umsögn, dags. 8. mars 2017. Þar er því mótmælt að gagnabeiðnin sé ekki nógu skýr. Tekið er fram að Isavia ohf. hafi ekki tilgreint þau skjöl sem haldið var eftir og því væri nauðsynlegt að krefjast allra gagna sem málinu tengdust. </p><p>Umsögn Isavia ohf. er dagsett 6. apríl 2017. Þar kemur fram að þeim gögnum sem afhent hafi verið megi gróflega skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi séu tölvupóstsamskipti starfsmanna kærða í tengslum við samkeppnina, í öðru lagi séu gögn sem tengist samningsviðræðum kærða við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í veitingahluta samkeppninnar og í þriðja lagi sé um að ræða endanlega samninga við sömu aðila og fylgiskjöl. Hvað varði fyrsta flokkinn hafi gögn verið afhent að mestu án útstrikana. Nokkrar undantekningar hafi þó verið á þessu, einkum hvað varði viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, s.s. upplýsingar um veltu, fjárfestingar og boð í veltutengt gjald. Hvað varði gögn í flokki tvö hafi nokkuð verið strikað út í þeim enda um að ræða viðræður um einkaréttarlega samninga þar sem tillögur að orðalagi hafi gengið á milli aðila. Þessi gögn væru vinnugögn og undanþegin upplýsingarétti. Þrátt fyrir að það væri mat kærða að stór hluti umbeðinna og afhentra gagna væru vinnugögn hafi félagið nýtt heimild 11. gr. upplýsingalaga og veitt aukinn aðgang að gögnunum. </p><p>Isavia ohf. ítrekar að félagið hafi afhent kæranda öll þau gögn sem óskað hafi verið eftir en strikað hafi verið yfir þann hluta gagnanna sem óheimilt sé að afhenda lögum samkvæmt. Öll skjöl hafi hins vegar verið afhent. Fram kemur að samningaviðræður hafi að hluta farið þannig fram að drög að samningi og fylgiskjölum hafi verið send á milli aðila með tillögum að breytingum sem sumar hafi verið samþykktar en aðrar ekki. Isavia ohf. telji þessi gögn vera vinnuskjöl í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012 enda um að ræða tillögur og vangaveltur um endanlegan texta í einkaréttarlegum samningi aðila. Strikað hafi verið yfir þessar tillögur og vangaveltur að hluta. Mikilvægt sé að árétta að um sé að ræða samningaviðræður sem hafi farið fram eftir að samkeppninni var lokið. Kærandi hafi ekki verið aðili að samningaviðræðunum og geti því ekki byggt rétt sinn á 14. gr. laganna um aðgang að gögnunum. Tekið er fram að endanlegir samningar og fylgiskjöl hafi verið afhentir kæranda og að einungis hafi verið strikað yfir viðkvæmar viðskipta- og samkeppnisupplýsingar sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna, svo sem sölu-, markaðs- og fjárfestingaáætlanir. </p><p>Isavia ohf. tekur fram, hvað varðar kröfu um aðgang að fundargerðum stjórnar Isavia ohf., að félagið hafi komið því á framfæri við lögmann kæranda þann 19. desember 2016, að beiðnin væri of almenn og hafi verið óskað eftir því að hún yrði afmörkuð frekar. Þann 20. desember hafi lögmaður kæranda afmarkað beiðnina á þann hátt að beiðst væri allra hluta fundargerða, „hverju nafni sem þeir nefnast og hvort sem þeir viðkvæmar fjárhags-, viðskipta- og samkeppnisupplýsingar þar sem það ætti við, varða samkeppnina beint eða óbeint (tilhögun samkeppni, forval, efnisval, frestir, bréfaskipti við bjóðendur, tilboð, einkunnagjöf, samningar í kjölfar samkeppni o.s.frv.“ Isavia ohf. kveðst hafa afhent umbeðin gögn samkvæmt þessari afmörkun. Óskað hafi verið eftir afstöðu Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. til afhendingar gagnanna þar sem þau innihaldi viðkvæmar viðskiptaupplýsingar um þau fyrirtæki. Bæði fyrirtækin hafi fallist á afhendingu að því gefnu að strikað yrði yfir þær. </p><p>Isavia ohf. bendir á að þar sem ekki sé um að ræða gögn sem varði kæranda, tilboð hans eða samskipti við hann, þá eigi 14. gr. upplýsingalaga ekki við í málinu heldur 5. gr. laganna. Vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 580/2015 þar sem þátttakandi í tæknilegum hluta samkeppni hafi átt rétt til tillögum annars þátttakanda er lutu að þeim hluta á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en rétt til aðgangs að tillögum í fjárhagslegum hluta samkeppninnar á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga þar sem hann hafi ekki verið þátttakandi í þeim hluta. </p><p>Isavia ohf. telur þau gögn sem varði samningaviðræður fyrirtækisins við rekstraraðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vera vinnugögn. Fyrst og fremst sé um að ræða drög að samningum sem hafi gengið á milli aðila til athugasemda. Endanlegir samningar hafi hins vegar verið afhentir með viðeigandi yfirstrikunum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Aðeins hafi verið strikað yfir viðkvæmustu upplýsingarnar. </p><p>Fram kemur í umsögninni að Isavia ohf. hafi þann 13. mars 2017 afhent kæranda fimm svarbréf Isavia ohf. til allra þátttakenda í samkeppninni sem öll væru dagsett 21. ágúst. Úrskurðarnefnd hafi verið sent afrit bréfanna. </p><p>Kærði gerir athugasemdir við einstaka liði í kærunni. Hvað varði fullyrðingu kæranda um að gögn málsins bendi til þess að Isavia hafi gefið a.m.k. tveimur þátttakendum kost á að aðlaga fyrri tilboð þá segir kærði það ekki vera rétt heldur hafi Isavia beðið Lagardère travel retail ehf.og SSP um að aðskilja tilboð um rekstur verslana og veitinga í tilboðum sínum svo hægt væri að meta tilboð þeirra í samræmi við önnur tilboð í samkeppninni, fyrir verslanir annars vegar og veitingastaði hins vegar. </p><p>Hvað varði fundargerðir stjórnar Isavia ohf. þá hafi fyrir þann 29. september 2014 verið haldnir samningafundir við þá sem valdir voru til samningaviðræðna. Fundargerðir hafi ekki verið ritaðar á þessum fundum en afrakstur þeirra hafi verið viljayfirlýsingarnar dags. 9. og 14. september. </p><p>Hvað varði 1. tölulið gagnabeiðni kæranda segist kærði aldrei hafa svarað tölvubréfi Lagardère travel retail ehf. þar sem óskað var eftir fundi. Allir umbeðnir tölvupóstar hafi verið afhentir. </p><p>Hvað varði tölvubréf Lagardère travel retail ehf. dags. 26. mars 2014, sbr. 2. tölulið gagnabeiðni, hafi bréfinu aldrei verið svarað með beinum hætti. Um sé að ræða spurningar frá Lagardère travel retail ehf. sem tekið hafi verið við í fyrirspurnarferli fyrri hluta forvalsins en allir þátttakendur hafi&nbsp; átt þess kost &nbsp;að senda inn fyrirspurnir til kærða. Spurningum og svörum hafi verið safnað saman í eitt skjal sem sent var til allra þátttakenda í ferlinu þann 31. mars 2014, þ. á m. til kæranda. </p><p>Varðandi 3. tölulið gagnabeiðninnar kveðst Isavia ohf. þegar hafa sent kæranda þau bréf sem send voru til hans og annarra þátttakenda þann 22. apríl 2014. Hvað varði fyrirspurnir Lagardère travel retail ehf. sem fram komi í tölvubréfum frá maí 2014 og svör við þeim, eigi það sama við og fram hafi komið varðandi fyrri hluta forvalsferlisins. Í seinni hluta ferlisins hafi þátttakendum verið gefinn kostur á að senda inn fyrirspurnir. Öllum fyrirspurnum ásamt svörum við þeim hafi verið safnað saman í eitt skjal sem sent hafi verið til þátttakanda þann 30. maí. Kærandi hafi þegar fengið skjalið afhent. </p><p>Varðandi gögn er tengist framlengingu á skilafresti rekur Isavia ohf. að fyrirtækið hafi fengið nokkrar munnlegar beiðnir frá þátttakendum um framlengingu á skilafresti. Þar sem svigrúm hafi myndast í tímaáætlun verkefnisins um eina viku hafi verið tekin ákvörðun um að leyfa umsækjendum að njóta þess. Lagardère travel retail ehf. hafi skilað sínum gögnum innan upphaflega frestsins. Engin frekari samskipti hafi átt sér stað milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. um frestun skiladags eftir 14. maí 2014. Lagardère travel retail ehf. hafi ekki lagt fram aðra beiðni um frestun. </p><p>Hvað varði tölvubréf Joe Ísland ehf., dags. 7. maí 2014 og IGS, dags. 14. maí 2014, hafi Isavia ohf. talið rétt að afmá annars vegar nafn félags sem hafi ekki tekið þátt í samkeppninni og hins vegar ráðgjafarfyrirtækis sem IGS hafði ráðið. </p><p>Hvað varðar 4. tölulið í gagnabeiðni kæranda segist Isavia ohf. hafa, þann 13. mars 2017, sent kæranda bréf Isavia ohf. til hluta þátttakenda frá 21. ágúst 2014. Kærði hafi ekki svarað tölvubréfi Joe Ísland ehf. frá 16. september. Þann 15. september hafi samningaviðræður verið í gangi og þær hafi ekkert með mat á umsóknum að gera. Matsferli hafi lokið með bréfum sem send hafi verið út 21. ágúst 2014. Hvað varði aðgang að viðhengi sem fylgdi tölvubréfinu hafi verið afmáðar tölur sem sendar hafi verið í miðjum samningaviðræðum en Isavia ohf. hafi verið að reyna að semja um enn hagstæðari niðurstöðu fyrir félagið. Isavia ohf. segir sömu sjónarmið eiga við um beiðni um aðgang að ýmsum fjárhagslegum þáttum tilboðs Joe Íslands. </p><p>Hvað varði aðra þætti beiðni kæranda undir 4. tölulið telur Isavia ohf. öll umbeðin skjöl vera vinnuskjöl í skilningi 8. gr. upplýsingalaga auk þess sem afmáð hafi verið úr þeim fjárhagsupplýsingar sem sanngjarnt sé að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga auk þess sem upplýsingarnar séu viðkvæmar viðskiptaupplýsingar í skilningi samkeppnisréttar sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Um sé að ræða tölvubréf sem hafi gengið á milli Isavia ohf. og einkaaðila eftir að samkeppni lauk og eftir að tilkynnt hafi verið um töku tilboðs. M.ö.o. hafi endanleg niðurstaða verið komin í ferlinu og því aðeins um að ræða samskipti í aðdraganda samningsgerðarinnar. Í tölvubréfunum komi ekki fram endanleg ákvörðun um við hverja skyldi samið enda hafi hún þegar legið fyrir, þ.e. með töku tilboða. Telja verði að tölvubréfin uppfylli skilyrði um að teljast vinnugögn enda um að ræða tölvubréf til að leiða samkeppnisferli sem þá hafði í raun breyst í samningsferli til endanlegra lykta, með samningi við þá bjóðendur sem valdir voru til samningsgerðar. </p><p>Isavia ohf. segir orðalag 1. mgr. 8. gr. um að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, fari ekki saman við það sem komi fram í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsins. Undantekningar séu gerðar varðandi það skilyrði. Sérstakt verði að telja að eðli vinnuskjals breytist við það eitt að vera afhent þriðja aðila, algerlega óháð efni þess, en slík túlkun hafi ekki stoð í athugasemdunum með frumvarpinu. Nauðsynlegt sé að skoða nánar hverjar undantekningarnar séu. Í sérstökum athugasemdum með 8. gr. frumvarps til upplýsingalaga komi fram að eðlilegt sé að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að gögnum sem verði til í ferli þegar samningar séu gerðir við einkaaðila, enda þurfi þá að vega og meta ýmis sjónarmið og gögn í slíku ferli sem endurspegli ekki endilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Af þessari umfjöllun virðist helst koma til álita að Isavia ohf. sé heimilt að synja um aðgang að gögnum sem verði til eftir að samkeppnisferli lýkur og fram að þeim tíma er samningur liggur fyrir, enda um að ræða endanlega samningsgerð við einkaaðila. Þessi lögskýring samrýmist einnig vel ákvæðum dönsku upplýsingalaganna sem hafi verið höfð að fyrirmynd við samningu íslensku laganna, en í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 140/2012 komi fram að samkvæmt dönsku upplýsingalögunum sé ekki talað um vinnuskjöl heldur „innri vinnugögn“ og að reglurnar um þau séu sambærilegar við reglurnar í íslensku upplýsingalögunum. Í dönsku upplýsingalögunum sé notast við hugtakið „interne documenter“ um vinnuskjöl. Meginreglan samkvæmt dönsku lögunum sé að gögn missi „interne karakter“ við að vera afhent utanaðkomandi aðilum. Í 2. mgr. 23. laganna sé þó undantekningarákvæði sem nái til þess þegar afhendingin sé af lögfræðilegum toga (retlige grunde), vegna vísindarannsókna eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Það sé því ekki svo í öllum tilvikum að gögn sem afhent eru utanaðkomandi aðilum hætti að teljast „innri gögn“ heldur hljóti að þurfa að meta hvert tilvik fyrir sig. </p><p>Isavia ohf. fjallar sérstaklega um tölvubréf, dags. 7. október 2014, þar sem Lagardère travel retail ehf. þakkar tveimur íslenskum valnefndarmönnum sérstaklega fyrir traustið. Því sé alfarið vísað á bug að valnefndarmennirnir hafi verið í umfangsmiklum samskiptum við Lagardère travel retail ehf.. Á þessum tíma hafi verið búið að tilkynna niðurstöðu samkeppninnar og samningaviðræður hafnar við Lagardère travel retail ehf. Kærði tekur fram að hann hafi ekki undir höndum nein samskipti milli valnefndarmannsins Frank Gray og Lagardère travel retail ehf. enda hafi engin slík samskipti átt sér stað. Umræddur Frank Gray hafi komið að málinu sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi. </p><p>Isavia ohf. segir óheimilt að afhenda fjárhagsupplýsingar sem óskað var eftir í 4. og 5. tölulið. gagnabeiðni kæranda með vísan til fyrri röksemda. </p><p>Hvað varðar 6. tölulið gagnabeiðninnar kveðst Isavia ohf. hafa afhent kæranda allar stjórnarfundargerðir þar sem fjallað hafi verið um samkeppnina. Ekkert hafi verið fjallað um þetta mál í fundargerðum stjórnar Isavia ohf. frá nóvember 2014 til mars 2015. Sérstakur fundur sem vísað hafi verið til í fundargerð stjórnarfundar þann 4. september 2014 hafi ekki verið haldinn. Hvað varði afmáðar upplýsingar úr tilteknum stjórnarfundargerðum þá lúti þær að fyrirtæki sem sé í skuld við kærða og því um að ræða upplýsingar sem séu algerlega óviðkomandi samkeppni. Upplýsingarnar séu viðkvæmar fjárhagsupplýsingar viðkomandi fyrirtækis. </p><p>Um gagnabeiðni kæranda samkvæmt 7. tölulið segir kærði engar aðrar fundargerðir vera fyrirliggjandi. Á samningafundum með aðilum hafi „Agreement of Intent“ verið jafngildi fundargerðar en niðurstaða fundarins hafi verið tekin saman með þeim hætti. Hvað varði afmáðar upplýsingar þá vísi kærði til fyrri röksemda varðandi vinnuskjöl og fjárhagsupplýsingar. Kærði ítrekar að ekkert hafi verið fjallað um samkeppnina í stjórn á þessu tímabili. Varðandi samskipti Isavia ohf. við þátttakendur á tímabilinu 5.-13. mars 2014 hafi &nbsp;enginn fundur verið haldinn með þátttakendum í forvalsferlinu. Kærði hafi ekki haldið fund með Lagardère travel retail ehf. heldur hafi fulltrúi Lagardère travel retail ehf. mætt í höfuðstöðvar kærða til að afhenda umsókn félagsins. Hvað varði aðra tölvupósta sem kærandi telji upp þá segir kærði að á þessu tímamarki hafi verið búið að tilkynna niðurstöður forvalsferlisins og samningafundir hafnir. Það sé því alls ekki óeðlilegt að samskipti við þá aðila hafi aukist á þeim tímapunkti. </p><p>Isavia ohf. kveðst hafa reynt að fylgja þeim sjónarmiðum sem fram komi í erindi Samkeppniseftirlitsins til Kaffitárs, dags. 8. júlí 2016. Þar sé fjallað um þær skorður sem 10. gr. samkeppnislaga setji miðlun mikilvægra viðskiptaupplýsinga. Þar komi fram að almennt séu upplýsingar varðandi verð og magn viðkvæmustu viðskiptaupplýsingarnar en að viðkvæmar upplýsingar geti einnig verið upplýsingar um viðskiptamannaskrár, framleiðslukostnað, framleiðslutölur, veltu, sölutölur, afkastagetu, vöruvöndun, markaðsáætlanir, áhættuliði, fjárfestingar, tækniaðferðir svo og rannsókna- og þróunarstarf og afrakstur þess. Isavia ohf. telur það geta vandað meðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál á málinu ef nefndin leiti álits Samkeppniseftirlitsins á því hvort einstök gögn sem málið fjalli um séu þess eðlis að samkeppnislög nr. 44/2005 setji afhendingu þeirra skorður. Sé af þeirri ástæðu skorað á úrskurðarnefndina að afla slíks álits hjá Samkeppniseftirlitinu. Rík ástæða sé til þess í ljósi ummæla nefndarinnar um að hún hafi ekki forsendur til þess að meta þessi sjónarmið eins og ítrekað hafi komið fram í úrskurði nefndarinnar nr. 579/2016. </p><h3>2.</h3><p>Umsögn Isavia ohf. var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. apríl, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 23. maí 2017, ítrekar kærandi að hann eigi rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Því eigi ákvæði 9. gr. upplýsingalaga ekki við í málinu og ætti aðeins að koma til skoðunar hvort gögnin séu vinnugögn og þar með undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 5. töluliðar 6. gr. laganna. </p><p>Kærandi mótmælir því að kærða sé óheimilt að veita aðgang að þeim upplýsingum sem afmáðar voru. Í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 og 586/2015 hafi málsástæðum um að afhending fjárhagsupplýsinga úr tilboðum bjóðenda bryti gegn lögum, þ.m.t. samkeppnislögum nr. 44/2005, verið hafnað. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi einnig hafnað málsástæðunni með þeirri athugasemd að hún væri „langsótt“. Áréttað er að valnefnd kærða hafi gefið bjóðendum einkunnir í fjárhagslegum þætti samkeppninnar fyrir fjóra aðskilda þætti. Af því leiði að upplýsingagjöf um fjárhagslega þætti samninganna, þ.m.t. þá þætti sem taki til framtíðaráætlana á leigutímanum eða breytingar á tilboðum í endanlegum samningum, sé bein forsenda þess að hægt sé að leggja mat á lögmæti einkunnagjafarinnar og samkeppninnar í heild sinni. Þá bendir kærandi á að hagsmunir opinberra fyrirtækja af því að halda leynd yfir ráðstöfun opinberra hagsmuna eða fjármuna víki að meginreglu fyrir hagsmunum almennings skv. 9. gr. upplýsingalaga. Þeir hagsmunir víki því einnig fyrir upplýsingarétti aðila skv. 14. gr. laganna. Auk þess hafi aðili að upplýsingamáli ekki lögvarða hagsmuni af því að halda leyndum upplýsingum um ákvarðanir sem kunni að vera ámælisverðar eða ólögmætar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 676/2017. </p><p>Kærandi mótmælir því að 14. gr. upplýsingalaga gildi ekki um rétt hans til upplýsinga eftir að búið sé að samþykkja tilboð annarra þátttakenda í samkeppninni. Í fyrsta lagi hafi samkeppninni ekki lokið fyrr en í mars 2015 þegar endanlegir samningar voru undirritaðir við Joe Ísland ehf. og Lagardère travel retail ehf. Ljóst sé af kafla 7.3. í skilmálum að samningalotan var hluti samkeppninnar. Í öðru lagi hafi komið fram í bréfi kærða til kæranda þann 21. ágúst 2014 að leitað yrði til hans ef samningar næðust ekki við sigurvegara samkeppninnar. Í þriðja lagi hafi komið fram í fyrrnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að tryggja beri fullkomið gagnsæi um ákvarðanatöku í kjölfar samkeppninnar skv. 14. gr. upplýsingalaga. Þá undirstrikar kærandi að jafnvel þótt 14. gr. upplýsingalaga eigi ekki við þá beri að afhenda samninga sem gerðir voru í kjölfar samkeppninnar með trúnaðarupplýsingum ásamt viðaukum. Vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-233/2006 þar sem fram komi að almenningur eigi rétt á afhendingu samninga í kjölfar útboðs. </p><p>Kærandi mótmælir því að fjárhagslegir þættir tilboða séu viðkvæmar viðskipta- og samkeppnisupplýsingar fyrirtækja. Álit Samkeppniseftirlitsins, dags. 8. júlí 2016, hafi enga þýðingu hvað varði mat á þessu. </p><p>Ítrekað er að kærandi hafi sjálfstæða hagsmuni af því, sem þátttakandi í samkeppninni, að geta kannað hversu langt hafi verið gengið í því að veita Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. réttindi sem ekki hafi verið kveðið á um í skilmálum samkeppninnar og hafi ekki komið fram í tilboðum þeirra. Því sé kæranda nauðsynlegt að trúnaði sé aflétt af samningum kærða í heild sinni. Áréttað er að það sé sjálfstæð röksemd fyrir afléttingu trúnaðar af öllum fjárhagsupplýsingum að hægt sé að kynna sér hvernig opinberum gæðum sé úthlutað í samkeppnum af þessu tagi og hvernig farið sé með almannafé. Þannig geti það t.d. mögulega haft sjálfstæða þýðingu hvort samningaviðræður hafi raunverulega farið fram til hækkunar eða lækkunar þeirra tilboða sem skilað var eða hvort kærði hafi náð hagstæðum samningum eða ekki. Þá sé einnig mikilvægt að þátttakendur í samkeppnum hafi möguleika á að ganga úr skugga um að útboðsferli hafi verið eðlilegt. </p><p>Kærandi mótmælir því að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 580/2015 sé fordæmi fyrir því að hann eigi ekki rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga. Þá mótmælir kærandi því að tvíhliða skrifleg samskipti kærða við tvo sigurvegara samkeppninnar teljist „vinnuskjöl“ enda sé það í andstöðu við skýrt orðalag 8. gr. upplýsingalaga. Gögnin hafi ekki verið einungis til „eigin nota“ kærða heldur hafi þau verið afhent öðrum. Slík gögn teljist ekki vinnugögn en hugtakið sé túlkað þröngt sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015. </p><p>Kærandi telur þær fullyrðingar kærða að tiltekin gögn séu ekki fyrirliggjandi, vera ótrúverðugar, a.m.k. á köflum. Því er þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál óski a.m.k. formlegrar staðfestingar kærða á því að hann hafi leitað þeirra gagna sem hann er krafinn um. Kærandi telur nauðsynlegt að kærði staðfesti formlega að leitað hafi verið að samskiptum við einstaka bjóðendur í samkeppninni í tölvupósthólfi Frank Gray og/eða að Frank Gray sjálfur lýsi þessu yfir með formlegum hætti. </p><p>Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður aðila og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.</p><h3>Niðurstaða</h3><h3>1.</h3><p>Eins og að framan greinir var í beiðni kæranda frá 5. desember 2016 óskað eftir því að Isavia ohf. afhenti eftirfarandi gögn: </p><ol><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við Joe Ísland ehf., Lagardère<i><b> </b></i>Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf., í sex mánuði fyrir upphaf forvals, á milli 19. október 2013 og 19. mars 2014. </p></li><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá upphafi forvals þann 19. mars 2014 til loka forvals þann 22. apríl 2014. </p></li><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokum forvals þann 22. apríl 2014 til lokunar tilboða í seinni hluta samkeppninnar þann 25. júní 2014. </p></li><li><p>Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokun tilboða þann 25. júní 2014 til dagsetninga samninga í kjölfar samkeppninnar. </p><ol><li><p>Beiðnin tekur til allra afrita bréfa- og tölvupóstsamskipta ISAVIA ohf. við ofangreinda fjóra aðila vegna samkeppninnar, hverju nafni sem þau nefnast, á umræddu tímabili. </p></li><li><p>Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til Lagardère Services, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 1.</p></li><li><p>Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til SSP the Food Travel Experts, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 2. </p></li></ol></li><li><p>Samninga ISAVIA ohf. við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í, þ.e. Lagardère Services og Joe Ísland, ásamt fylgigögnum og viðaukum við þá samninga. </p></li><li><p>Allar fundargerðir stjórnar ISAVIA ohf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samkeppninnar. </p></li><li><p>Allar fundargerðir vegna funda ISAVIA ohf. með Lagardère, Joe Ísland ehf., SSP the Food Travel Experts og IGS ehf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samskiptanna.</p></li></ol><p>Eftir samskipti við lögmann Isavia ohf. afmarkaði kærandi beiðni sína frekar að því er varðar 4. tölulið. Mun kærandi hafa fallist á að Isavia ohf. væri heimilt að halda eftir gögnum sem vörðuðu samkeppnina hvorki beint né óbeint. </p><p>Hin kærða ákvörðun var síðan tekin með bréfi lögmanns Isavia ohf., dags. 16. janúar 2017. Þar kemur fram að Isavia ohf. hafi tekið saman og farið yfir hin umbeðnu gögn og leitað afstöðu Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. til afhendingar þeirra. Isavia ohf. telur að réttur kæranda til aðgangs að gögnunum sé reistur á 5. gr. upplýsingalaga, enda sé ekki um að ræða gögn sem varði gagnabeiðanda, tilboð hans eða samskipti við hann. Þá séu gögn sem varði samningaviðræður Isavia ohf. við rekstraraðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vinnugögn sem séu undanþegin upplýsingarétti, en almenningur eða aðilar geti eftir atvikum átt rétt á aðgangi að endanlegum samningum við slíka rekstraraðila. Þrátt fyrir þetta hafi Isavia ohf. ákveðið að veita kæranda aukinn aðgang að hinum umbeðnu gögnum á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga að því marki sem aðrar reglur standi því ekki í vegi. </p><p>Isavia ohf. hafi farið yfir hin umbeðnu gögn og strikað yfir þær upplýsingar sem óheimilt sé að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Af hálfu Isavia ohf. er vísað til þess að komist hafi verið að þessari niðurstöðu með hliðsjón af áliti Samkeppniseftirlitsins sem fram komi í bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 8. júlí 2016, þar sem fjallað sé almennt um 10. gr. samkeppnislaga og skorður á miðlun mikilvægra viðskiptaupplýsinga sem geti raskað samkeppni. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að fyrirtækið hafi leitað afstöðu Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. til afhendingar gagnanna. Bæði fyrirtækin hafi verið sátt við afhendingu gagnanna að því gefnu að strikað yrði yfir viðkvæmar fjárhags-, viðskipta- og samkeppnisupplýsingar þar sem það eigi við. </p><h3>2.</h3><p>Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. mars 2017, er þeim tilmælum beint til nefndarinnar að vísa kærunni frá eða skora á kæranda að senda nefndinni skýrari kröfugerð. Telur Isavia ohf. að fyrirtækið hafi orðið við gagnabeiðni kæranda og að það veki furðu að ákvörðun Isavia ohf. hafi verið kærð án þess að kærandi hafi fyrst beint erindi til Isavia ohf. með ósk um afhendingu þess sem ekki hafi verið afhent. Þá sé kröfugerð kæranda mjög óskýr og telji Isavia ohf. að hún fullnægi ekki „almennum reglum stjórnsýsluréttar um skýrleika kröfugerðar“. </p><p>Þegar hin kærða ákvörðun um synjun lá fyrir stóð kæranda til boða að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga eða að óska endurupptöku Isavia ohf. með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er heimild til kæru samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu ekki háð því að fyrst hafi verið leitað endurupptöku samkvæmt því síðarnefnda. Í ljósi þessa verða ekki gerðar athugasemdir við að kærandi hafi kært ákvörðun Isavia ohf. um synjun um aðgang að gögnum til úrskurðarnefndarinnar.&nbsp;&nbsp; </p><p>Af kæru er ljóst að kærandi gerir tvenns konar athugasemdir við afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Annars vegar telur kærandi að Isavia ohf. hafi verið óheimilt að synja honum um aðgang að þeim hlutum hinna umbeðnu gagna sem Isavia ohf. ákvað að strika yfir. Hins vegar að Isavia ohf. hafi í vörslum sínum gögn sem falli undir beiðni kæranda en fyrirtækið hafi hvorki kosið að afhenda kæranda né synja honum formlega um aðgang að. Er unnt að fjalla um kæruna í þeim búningi sem hún er og ekki tilefni til að úrskurðarnefndin leiðbeini kæranda um nákvæmari framsetningu kærunnar. Enn síður leiðir framsetning kærunnar til frávísunar hennar og er kröfu Isavia ohf. þar að lútandi því hafnað. </p><p>Á hinn bóginn athugast að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er aðeins heimilt að bera synjun um aðgang að gögnum sem eru fyrirliggjandi hjá Isavia ohf. undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Að því marki sem í ljós er leitt að beiðni kæranda um gögn beinist að gögnum sem ekki eru fyrirliggjandi verður kæru vísað frá.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><h3>3.</h3><p>Úrskurðarnefndinni hefur hvoru tveggja verið látin í té þau gögn sem Isavia ohf. afhenti kæranda, þar sem kæranda var synjað um aðgang að hluta umbeðinna gagna með því að strika yfir upplýsingar sem þar koma fram, og sömu gögn án útstrikana. </p><p>Isavia ohf. útbjó sérstök hefti með hinum umbeðnu gögnum sem eru blaðsíðumerkt og hafa hvoru tveggja kærandi og Isavia ohf. vísað til þessara blaðsíðutala í málatilbúnaði sínum. Verður hér á sama hátt vísað til tiltekinna blaðsíðna eftir því sem tilefni er til og til umræddra hefta sem málsgagna. </p><h3>4.</h3><p>Svo sem að framan greinir telur Isavia ohf. að réttur kæranda til afhendingar gagnanna verði ekki reistur á 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er lýtur að rétti aðila að upplýsingum um hann sjálfan, heldur 5. gr. sömu laga um rétt almennings. Beiðni kæranda er reist á fyrrnefnda ákvæðinu.&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><p>Sambærilegur ágreiningur var uppi milli kæranda og Isavia ohf. í máli því er nefndin fjallaði um í úrskurði nr. 579/2015. Eins og þar er rakið er samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Er þessi skýring meðal annars reist á ummælum í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga þar sem fram kemur að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-307/2009, A-377/2011, A-407/2012, A-409/2012, A-472/2013, 532/2014, 541/2014 og 570/2015. Eins og rakið er í úrskurði nefndarinnar nr. 579/2015 fer um upplýsingarétt bjóðanda samkvæmt 5. gr. eftir það tímamark. Í úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sömu sjónarmið ættu við um samkeppni þá er mál þetta lýtur að. </p><p>Fyrir liggur að þann 21. ágúst 2014 var kæranda tilkynnt að niðurstaða samkeppni um útleigu á leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar væri sú að hann væri ekki fyrsti valkostur Isavia ohf. og að aðeins yrði gengið til viðræðna við kæranda ef viðræður við þriðja aðila færu út um þúfur. Þann 1. október 2014 var kæranda tilkynnt að ekki hefði verið gengið að tillögu hans í samkeppninni heldur væri samningaviðræðum lokið við annað fyrirtæki. Af gögnum málsins verður ráðið að með bréfi, dags. 21. ágúst 2014, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöðu samkeppninnar. Í samræmi við fyrri úrskurði nefndarinnar verður því að miða við að kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnum er varða samkeppnina samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og urðu til fyrir það tímamark. Á hinn bóginn eigi kærandi rétt til aðgangs að gögnum er urðu til eftir það tímamark samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna.&nbsp;&nbsp; </p><h3>5.</h3><p>Ágreiningur kæranda og Isavia ohf. um hina kærðu ákvörðun er margþættur. Kærandi telur hvoru tveggja að Isavia ohf. hafi haldið eftir gögnum sem falli undir beiðni sína og gerir athugasemdir við að upplýsingar í hinum afhentu gögnum hafi í fjölda tilvika verið afmáðar. Að því er hið síðarnefnda varðar hefur Isavia ohf. vísað í hinni kærðu ákvörðun með almennum hætti til þess að hin umbeðnu gögn séu vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga og að veittur hafi verið aukinn aðgangur að þeim á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga. Þær upplýsingar sem hafi verið afmáðar falli á hinn bóginn undir 9. gr. laganna. Verður síðan ekki annað ráðið af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, en að fyrirtækið byggi synjanir sínar um aðgang að umræddum upplýsingum jöfnum höndum á 5. tölulið 6. gr. sbr. 8. gr. og einnig 9. gr. upplýsingalaga. </p><p>Þar sem afgreiðsla kærunnar varðar fjölmörg tilvik þar sem reynir á tiltölulega sambærileg álitaefni telur úrskurðarnefndin rétt að gera grein fyrir nokkrum almennum sjónarmiðum sem hún leggur til grundvallar niðurstöðu sinni í málinu. </p><p>Í fyrsta lagi hefur kærandi í mörgum tilvikum fært fyrir því rök að Isavia ohf. búi yfir gögnum sem falli undir gagnabeiðni kæranda en Isavia ohf. hafi kosið að afhenda ekki. Neitar Isavia ohf. því ítrekað gagnvart úrskurðarnefndinni í bréfi sínu til nefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, að slík gögn sé að finna í gagnasafni fyrirtækisins. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi og er réttur samkvæmt hvoru tveggja 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. afmarkaður við gögn sem eru fyrirliggjandi hjá þeim aðilum sem falla undir gildissvið laganna. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds að ræða í skilningi upplýsingalaga. Af þessum sökum er kærum er beinast að slíkum afgreiðslum almennt vísað frá úrskurðarnefndinni. Á hið sama við þegar fyrir liggur, á þeim tímapunkti er nefndin fellir úrskurð sinn, að kærandi hefur fengið aðgang að umbeðnu gagni sem kæra lýtur að. </p><p>Í öðru lagi virðist það vera afstaða Isavia ohf. að hin umbeðnu gögn séu að mestu leyti vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. og 8. gr. upplýsingalaga. Er þetta afstaða fyrirtækisins þrátt fyrir að stærstur hluti gagnanna hafi sýnilega verið afhentur öðrum hvorum viðsemjenda þess, Lagardère travel retail ehf. eða Joe Ísland ehf., enda í flestum tilvikum um að ræða samskipti Isavia ohf. við þá. </p><p>Hefur Isavia ohf. í þessu samhengi bent úrskurðarnefndinni á að um sé að ræða samskipti milli Isavia ohf. og einkaaðila eftir að samkeppni lauk og eftir að tilkynnt hafði verði um töku tilboðs. Ráða megi af sérstökum athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum að ákveðnar undantekningar séu á 1. mgr. 8. gr. laganna er varði slík samskipti. Athugasemdirnar geri ráð fyrir að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að gögnum sem verði til í því ferli þegar samningar séu gerðir við einkaaðila, enda þurfi þá að vega og meta ýmis sjónarmið og gögn í slíku ferli sem endurspegli ekki endilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Heimilt sé að synja um aðgang að gögnum sem verði til eftir að samkeppnisferli ljúki og fram að þeim tíma er samningur liggi fyrir, enda um að ræða endanlega samningsgerð við einkaaðila. Þessi lögskýring sé í samræmi við ákvæði danskra upplýsingalaga sem hafi verið höfð að fyrirmynd við samningu íslensku laganna. Bendir Isavia ohf. í þessu samhengi á 2. mgr. 23. gr. dönsku upplýsingalaganna þar sem kveðið sé á að um að gögn sem afhent séu utanaðkomandi teljist ekki lengur vinnugögn nema „afhendingin sé af lögfræðilegum toga (retlige grunde), vegna vísindarannsókna eða af öðrum sambærilegum ástæðum“ svo sem fram kemur í bréfi Isavia til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017. Það sé því ekki svo í öllum tilvikum að gögn sem afhent séu utanaðkomandi aðilum hætti að teljast vinnugögn og meta þurfi hvert tilvik fyrir sig. </p><p>Vegna þessa skal tekið fram að samkvæmt 5. tölulið 6. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnugagna, svo sem nánar er afmarkað í 8. gr. laganna. Í 1. mgr. 8. gr. segir eftirfarandi: „Vinnugögn teljast þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Nú eru gögn afhent öðrum og teljast þau þá ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.“ Skýrt er af sérstökum athugasemdum við ákvæðið að um er að ræða undantekningu frá meginreglu laganna um upplýsingarétt almennings. </p><p>Í athugasemdunum segir síðan eftirfarandi: </p><blockquote><p>Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Fyrsta skilyrðið þarfnast ekki sérstakra skýringa en er þó mjög þýðingarmikið við afmörkun hugtaksins. Í öðru skilyrðinu felst það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljast ekki til vinnugagna í skilningi 8. gr. frumvarpsins. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, telst það almennt ekki lengur vinnugagn. Undantekningar eru þó gerðar varðandi síðastgreinda atriðið.</p></blockquote><p>Að því er varðar síðastgreinda skilyrðið virðist ljóst af skýringunum að vísað sé til þess að í lokamálslið 1. mgr. og í 2. mgr. 8. gr. eru ákvæði sem fela í sér útvíkkun í afmörkuðum tilvikum á gildissviði undantekningarinnar í 1. mgr. Eiga umrædd ákvæði um útvíkkun hugtaksins vinnugagn ekki við um þau gögn sem kærandi óskaði aðgangs að og er ekki vísað til þeirra af hálfu Isavia ohf. </p><p>Að mati úrskurðarnefndarinnar er orðalag 1. mgr. 8. gr. skýrt að því leyti að gagn getur aðeins talist vinnugagn ef það er útbúið af þeim aðila sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga og það hefur ekki verið afhent öðrum, nema að umrætt gagn falli undir þær útvíkkanir sem fram koma í lokamálslið 1. mgr. eða í 2. mgr. 8. gr. Gögn útbúin af starfsmönnum Isavia ohf. sem síðan hafa verið send til lögaðila eða einstaklinga sem ekki starfa fyrir Isavia ohf. teljast því „afhent öðrum“ og gögn sem fyrirtækinu berast frá öðrum geta ekki talist útbúin af því sjálfu sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Almenn ummæli í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga um 8. gr. sem vísað er til af hálfu Isavia ohf. lúta sýnilega að þeim undirstöðurökum sem búa að baki takmörkun á aðgangi að vinnugögnum, svo sem hugtakið verður skýrt sbr. framangreint, og þá bæði þegar um sé að ræða meðferð stjórnsýslumála og við gerð samninga við einkaaðila. Túlkun Isavia ohf. á umræddum skýringum haggar ekki skýru orðalagi ákvæðisins sjálfs. Annað orðalag ákvæða danskra upplýsingalaga um vinnugögn breytir heldur engu þar um. </p><p>Í þriðja lagi telur úrskurðarnefndin rétt að gera stuttlega grein fyrir almennum sjónarmiðum sem nefndin leggur til grundvallar við mat á því hvort heimilt sé að synja kæranda um aðgang að upplýsingum í gögnum með vísan til fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja sem fjallað er um í gögnunum. Eins og að framan greinir verður réttur kæranda til aðgangs að hinum umbeðnu gögnum ýmist reistur á 1. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 14. gr. eftir því hvort hin umbeðnu gögn urðu til áður en kæranda var tilkynnt að hann væri ekki fyrsti kostur Isavia ohf. sem viðsemjandi um leigu á verslunarrými í fríhöfn Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Svo sem rakið er í fyrri úrskurðum nefndarinnar vegna ágreinings kæranda og Isavia ohf. er réttur samkvæmt 1. mgr. 14. gr. ríkari en réttur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.&nbsp; </p><p>Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. er heimilt að takmarka rétt aðila samkvæmt 1. mgr. 14. gr. til aðgangs að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Á hinn bóginn er heimilt að takmarka aðgang almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. á grundvelli mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna lögaðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Er óheimilt samkvæmt ákvæðinu að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Báðar umræddar lagagreinar fela í sér undantekningar frá þeim meginreglum sem felast í 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsinglaga.&nbsp; </p><p>Fram kemur í athugasemdum um 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga að óheimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita upplýsingar um „atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni“. Þá hefur verið við það miðað að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga skuli metið hvort um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna í fyrirliggjandi máli, að það sé til þess fallið að valda hlutaðeigandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að upplýsingunum. Við matið verði að líta til þess hverju sinni hversu mikið tjónið geti orðið og hvaða líkur séu á því að það muni hljótast, verði upplýsingarnar veittar.&nbsp;&nbsp;</p><p>Á hinn bóginn segir í athugasemdum í frumvarpi til upplýsinglaga um 9. gr. að við mat á því hvort beita skuli heimildinni þurfi almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuni séu opinberar almenningi. Er sérstaklega tekið fram að þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, sem ráðstafi opinberum hagsmunum í þeim samningum, geti þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum. </p><p>Í samkeppni þeirri er mál þetta varðar þurftu þátttakendur að skila hvoru tveggja tæknilegri og fjárhagslegri tillögu til Isavia ohf. Í hinni fjárhagslegu tillögu þurfti meðal annars að koma fram fjárhagsáætlun til sjö ára um ætlaðar tekjur af sölu og rekstrarkostnað. Þá var ætlast til þess að þátttakendur tilgreindu tillögu sína þannig að greidd leiga væri sölutengd en með ákveðinni hlutfallslegri lágmarkstryggingu fyrir leigusala. Af þessum sökum innihéldu tillögur þátttakenda í hinum fjárhagslega hluta samkeppninnar hvoru tveggja upplýsingar um rekstraráætlanir þeirra til framtíðar og tilboð þeirra um leigugreiðslur til Isavia ohf. Eins og ráða má af framangreindu voru þessar upplýsingar nátengdar. Eftir að samningaviðræður hófust síðan milli Isavia ohf. og Lagardère Services og Joe Ísland ehf. urðu upplýsingar af þessum toga áfram grundvöllur viðræðnanna.</p><p>Í úrskurði nefndarinnar í máli 579/2015 var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti &nbsp;rétt á aðgangi að þeim upplýsingum sem fram komu í fjárhagslegum hluta tillögu annarra þátttakenda í þeim flokki samkeppninnar sem kærandi tók þátt í. Byggði nefndin á því að kærandi hefði ríka hagsmuni af því að fá aðgang að upplýsingunum sem vörðuðu á verulegan hátt ráðstöfun opinberra gæða sem hann sjálfur sóttist eftir. Á hinn bóginn var talið í úrskurði í máli 580/2015 að heimilt hafi verið að synja kæranda þess máls, sem ekki var þátttakandi í fjárhagslegum hluta samkeppninnar, um sambærileg gögn þess hluta, enda yrði réttur hans til aðgangs að gögnum reistur á 1. mgr. 5. gr. en ekki 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Var þá einkum miðað við að umræddar upplýsingar vörðuðu fyrirhugaðan rekstur annars þátttakanda og lytu að áætlunum til fjögurra ára svo sem áætlaðar tekjur og kostnað. Í umræddum gögnum urðu tillögur um leigugreiðslur ekki aðskildar frá fjárhagslegum áætlunum umrædds þátttakanda. </p><p>Þær fjárhagslegu upplýsingar sem einkum er fjallað um í máli þessu eru af sama toga og í framangreindum málum. Með vísan til alls framangreinds leggur úrskurðarnefndin til grundvallar úrlausn sinni að kærandi eigi sem fyrr, á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, rétt til aðgangs að fjárhagslegum tillögum er varða leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að því leyti sem þær urðu til meðan á samkeppninni stóð. Að því marki sem réttur kæranda verði reistur á 1. mgr. 5. gr. verði kæranda á hinn bóginn synjað um aðgang að upplýsingum er varða fjárhagslegar áætlanir annarra lögaðila um rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga verður kæranda á hinn bóginn veittur aðgangur að upplýsingum um leigugjald til Isavia ohf., enda um að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><p>Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar er til stuðnings þeirri niðurstöðu Isavia ohf. að afmá upplýsingar í afhentum gögnum á grundvelli 9. gr. tekið fram að Isavia ohf. hafi haft „hliðsjón“ af bréfi Samkeppniseftirlitsins til kæranda, dags. 8. júlí 2016. Umrætt bréf hefur verið látið úrskurðarnefndinni í té. Fjallaði Samkeppniseftirlitið þar almennt um þær hömlur sem kunna að vera á upplýsingaskiptum milli keppinauta á grundvelli 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 um bann við ólögmætu samráði og komst að þeirri niðurstöðu að hluti þeirra gagna, sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 579/2015, gæti talist til mikilvægra og viðkvæmra viðskiptaupplýsinga í skilningi samkeppnisréttar. Verður ekki annað ráðið en að Isavia ohf. hafi haft hliðsjón af þessum sjónarmiðum þegar komist var að þeirri niðurstöðu að sumar þær upplýsingar sem komu fram í hinum umbeðnu gögnum vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að þótt vissulega kunni að vera gagnlegt við skýringu 9. gr. upplýsingalaga að líta til sjónarmiða um beitingu 10. gr. samkeppnislaga þá eru lagaákvæðin um margt ólík, svo sem ráða má af framangreindri umfjöllun um skýringu fyrrnefnda ákvæðisins, og verndarandlag ákvæðanna er ólíkt. Verður af þessum sökum ekki fullyrt að í öllum tilvikum yrði talið heimilt að takmarka aðgang að gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að þau væru „mikilvæg og viðkvæm“ þegar 10. gr. samkeppnislaga er beitt.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><p>Í ljósi alls framangreinds verður í eftirfarandi umfjöllun tekin afstaða til kæru að því er varðar einstaka töluliði gagnabeiðni kæranda, dags. 5. desember 2016. </p><h3>6.</h3><p>Í 1. tölulið beiðni kæranda var af hans hálfu óskað eftir að fá afhent „[ö]ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við Joe Ísland ehf., Lagardère<i><b> </b></i>Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf., í sex mánuði fyrir upphaf forvals, á milli 19. október 2013 og 19. mars 2014“.&nbsp;&nbsp;</p><p>Kærandi bendir á að þau gögn sem hann hafi fengið afhent bendi til þess að fyrirtækið Lagardère travel retail ehf. hafi í upphafi samkeppninnar með tölvubréfi, dags. 17. mars 2014, óskað eftir kvöldverðarfundi með starfsmönnum Isavia ohf. og flugfélagsins Icelandair. Svar Isavia ohf. hafi ekki verið afhent kæranda og ítreki kærandi því beiðni sína. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að ósk Lagardère travel retail ehf. hafi aldrei verið svarað og að öll umbeðin tölvubréf hafi verið afhent. </p><p>Réttur kæranda verður reistur á 1. mgr. 14. gr., sbr. umfjöllun í 4. kafla hér að framan. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ekki efni til að vefengja þá fullyrðingu Isavia ohf. að ósk Lagardère travel retail ehf. um kvöldverðarfund hafi ekki verið svarað. Eins og hér háttar til verður að leggja til grundvallar að umrætt gagn sé ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Svo sem að framan greinir í 5. kafla er úrskurðarvald nefndarinnar afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi sbr. 20. gr. upplýsingalaga og er kærunni af þessum sökum vísað frá nefndinni að því er varðar 1. tölulið beiðni kæranda.&nbsp;&nbsp;</p><h3>7.</h3><p>Í 2. tölulið beiðni kæranda var af hans hálfu óskað eftir fá afhent „[ö]ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við [Joe Ísland ehf., Lagardère<i><b> </b></i>Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf.], frá upphafi forvals þann 19. mars 2014 til loka forvals þann 22. apríl 2014“. </p><p>Kærandi bendir á að samkvæmt tölvubréfi, dags. 26. mars 2014, virðist Lagardère travel retail ehf. hafa beint sex spurningum með undirliðum til Isavia ohf. skömmu eftir upphaf samkeppninnar. Isavia ohf. hafi á hinn bóginn ekki látið kæranda í té svör sín við umræddri fyrirspurn. </p><p>Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að öllum þátttakendum í samkeppninni hafi verið heimilt að senda inn fyrirspurnir vegna hennar. Hafi fyrirspurnum þátttakenda síðan verið svarað í heild sinni og svörin send til allra þátttakenda. Isavia ohf. bendir á að tiltekinn nafngreindur starfsmaður kæranda hafi fengið umrædd svör afhent. Þá verður bréf Isavia ohf. skilið á þann hátt að samhliða því að úrskurðarnefndinni voru send umrædd svör hafi kæranda verið látin þau í té á ný. Verður því að líta svo á að Isavia ohf. hafi afhent kæranda þau gögn er beiðni hans laut að þessu leyti að. Að því er varðar 2. tölulið gagnabeiðni kæranda er kæru hans af þessum sökum vísað frá nefndinni. </p><h3>8.</h3><p>Í 3. tölulið beiðni kæranda var af hans hálfu óskað eftir að fá afhent „[ö]ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við [Joe Ísland ehf., Lagardère<i><b> </b></i>Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf.], frá lokum forvals þann 22. apríl 2014 til lokunar tilboða í seinni hluta samkeppninnar þann 25. júní 2014“. </p><p>Undir þessum tölulið bendir kærandi í fyrsta lagi á að hann hafi ekki fengið afhent bréf Isavia ohf. til umræddra aðila þar sem þeim var tilkynnt um að þeir hefðu öðlast þátttökurétt í síðari hluta samkeppni fyrirtækisins. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, má ráða að kæranda hafi nú verið látin í té umrædd bréf. Er kærunni því vísað frá nefndinni að þessu leyti. </p><p>Í öðru lagi bendir kærandi á að samkvæmt tölvubréfum frá maí 2014 virðist Lagardère travel retail ehf. hafa sent ýmsar frekari fyrirspurnir til Isavia ohf. um samkeppnina. Svör við þessum fyrirspurnum hafi ekki verið afhent kæranda. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, má ráða að kæranda hafi nú verið látin í té umrædd svör. Er kærunni því vísað frá nefndinni að þessu leyti.</p><p>Í þriðja lagi rekur kærandi hvað afhent gögn beri með sér um samskipti þátttakenda við Isavia ohf. um veitingu frests til skila á tillögum í samkeppninni. Kærandi óskar eftir afhendingu annarra beiðna um fresti en frá Lagardère travel retail ehf. ef slíkar beiðnir hafi komið fram. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að nokkrar munnlegar beiðnir hafi komið frá þátttakendum um framlengingu á skilafresti. Um hafi verið að ræða óformlegar beiðnir frá fulltrúum mismunandi fyrirtækja. Af svörum Isavia ohf. má ráða að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá Isavia ohf. og hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að vefengja þau svör fyrirtækisins. Með vísan til 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og umfjöllunar í 5. kafla verður kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni. </p><p>Í fjórða lagi krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin rannsaki hvort frekari samskipti hafi átt sér stað á milli Isavia ohf. og Lagardère á tímabilinu frá 14. maí til 13. júní 2014 sem ekki hafi verið afhent kæranda um framlengingu skilafrests. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er áréttað að engin slík samskipti hafi átt sér stað. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögn málsins og hefur ekki forsendur til að vefengja svör Isavia ohf. að þessu leyti um að slík gögn sé ekki að finna í vörslum fyrirtækisins. Með vísan til þess sem að framan greinir um úrskurðarvald nefndarinnar verður kærunni því vísað frá henni.</p><p>Í fimmta lagi krefst kærandi þess að sér verði afhent tiltekin tölvubréf milli Isavia ohf. og Joe Ísland ehf., dags. 7. maí 2014, á bls. 56 í málsgögnum, og milli Isavia ohf. og IGS, dags. 14. maí 2014, á bls. 59 í málsgögnum, án yfirstrikana. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017 kemur fram að í tilviki fyrri tölvubréfanna hafi verið strikað yfir nafn félags sem að lokum tók ekki þátt í samkeppninni. Í síðara tilvikinu hafi verið afmáð nöfn ráðgjafafyrirtækis sem IGS hafi ráðið. </p><p>Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla byggir réttur kæranda til aðgangs að gögnunum á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Umrædd tölvubréf voru ekki gerð af hálfu Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og teljast þau því ekki vinnugögn í skilningi 5. tölulið 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um einkamálaefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Að mati úrskurðarnefndarinnar er vandséð hvaða hagsmunir umrædd fyrirtæki hafa að því að nöfnum þeirra sé haldið leyndum gagnvart kæranda. Verður því felld úr gildi synjun Isavia ohf. um afhendingu á hluta tölvubréfa á blaðsíðum 56 og 59 í hefti sem félagið tók saman og því gert að afhenda umrædd tölvubréf í heild sinni.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><h3>9.</h3><p>Í 4. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var af hans hálfu óskað eftir að afhent yrðu „[ö] ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við [Joe Ísland ehf., Lagardère<i><b> </b></i>Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf.], frá lokun tilboða þann 25. júní 2014 til dagsetninga samninga í kjölfar samkeppninnar“. Kærandi áréttaði í beiðni sinni að hún tæki til „allra afrita bréfa- og tölvupóstsamskipta ISAVIA ohf. við ofangreinda fjóra aðila vegna samkeppninnar, hverju nafni sem þau nefnast, á umræddu tímabili“ og að sérstaklega væri óskað eftir afriti af bréfi Isavia ohf. til Lagardère travel retail ehf., dags. 4. júlí 2014, sem vitnað væri til í tilteknu bréfi og afriti af bréfi Isavia ohf. til SSP the Food Travel Experts, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað væri til í tilteknu bréfi. </p><p>Vegna þessa töluliðar beiðni sinnar gerir kærandi athugasemd við að sér hafi ekki verið afhent ýmis tölvubréf sem hin afhentu gögn beri með sér að farið hafi á milli annars vegar Isavia ohf. og hins vegar viðsemjenda þess, Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. </p><p>Á þetta við um eftirfarandi athugasemdir kæranda á bls. 9 í kæru: </p><blockquote><p>Í tölvupóstum á milli 16. september 2014 og 8. október 2014 má sjá ýmsar fyrirspurnir Joe Ísland til ISAVIA (bls. 100-102 í ágripi). Svör ISAVIA við þeim tölvupóstum eru ekki afhent. Krafist er afrita svara ISAVIA við umræddum [fyrirspurnum].</p></blockquote><p>Þetta á einnig við um eftirfarandi athugasemd kæranda á sömu blaðsíðu kærunnar: </p><blockquote><p>Í tölvupósti, dags 7. október 2014, þakkar fulltrúi Lagardère tveimur íslenskum valnefndarmönnum, Hlyni Sigurðssyni og Hrönn Ingólfsdóttur, sérstaklega fyrir traustið sem þau hafa sýnt Lagardère (bls. 156 í ágripi). Samskipti Hlyns og Hrannar við Lagardère virðast enda hafa verið umfangsmikil, skv. þeim gögnum sem afhend hafa verið á fskj. 1. Þá þakkar fulltrúi Lagardère einum valnefndarmanni fyrir traustið, Frank Gray. Öðrum valnefndarmönnum, Stefáni Jónssyni og Sveinbirni Indriðasyni, er ekki þakkað sérstaklega. Samkvæmt þessu má ætla að Hlynur Sigurðsson, Hrönn Ingólfsdóttir og Frank Gray hafi verið í beinum samskiptum við Lagardère vegna samkeppninnar, en ISAVIA hafi þrátt fyrir þetta ekki afhent samskipti Frank Gray við Lagardère. Krafist er afhendingar á öllum samskiptum Frank Gray við Lagardère vegna samkeppninnar, allt frá því sex mánuðum fyrir upphaf forvals, þann 19. október 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland, dags. 2. og 4. mars 2015, þ.m.t. tölvupósta og fundargerða.</p></blockquote><p>Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er þessum athugasemdum svarað í einu lagi undir fyrirsögn sem vísar til blaðsíðutala í kæru, þ.e.a.s. „Bls. 9 (og efst á bls. 10)“. Færir Isavia ohf. þar rök fyrir því að umrædd tölvubréf, sem kærandi óski aðgangs að, séu vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Eins og rakið er í 5. kafla er þessi afstaða fyrirtækisins ekki í samræmi við lög og verður því að fella úr gildi synjun Isavia ohf. um aðgang að gögnum er varðar 4. tölulið beiðni kæranda, enda ljóst að fyrirtækið lagði ranglega til grundvallar að umbeðin gögn væru vinnugögn. Gögnin hafa ekki verið látin úrskurðarnefndinni í té. Verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Isavia ohf. að taka 4. tölulið beiðni kæranda til nýrrar efnismeðferðar að öðru leyti en því sem hér greinir á eftir. </p><h3>10.</h3><p>Að því er varðar 4. tölulið beiðni kæranda að öðru leyti er úrskurðarnefndinni unnt að taka afstöðu til kærunnar að því leyti sem hin umbeðnu gögn er falla undir þennan hluta beiðni kæranda hafa verið afhent nefndinni og fyrir liggur að Isavia ohf. hefur tekið afstöðu til afhendingar þeirra.&nbsp;&nbsp;</p><p>Kærandi hefur í niðurlagi umfjöllunar sinnar um afgreiðslu Isavia ohf. á 4. tölulið beiðni sinnar ítrekað kröfu sínar um afhendingu allra tölvupósta og bréfaskipta þátttakenda við Isavia ohf. á tilteknu tímabili, þ.e.a.s. frá 25. júní 2014 til 4. mars 2015. Í kærunni er síðan vikið að nánar tilteknum blaðsíðum í málsgögnum sem kærandi gerir sérstakar athugasemdir við að hafi verið afhentar með útstrikunum. Málsgögn bera hins vegar með sér að afmáðar hafi verið upplýsingar úr gögnum er falli undir 4. tölulið gagnabeiðni kæranda þrátt fyrir að kærandi hafi ekki gert sérstakar athugasemdir við það í kæru. Í ljósi þess að kærandi hefur í kæru ítrekað gagnabeiðnina að því er varðar þennan tölulið verður að líta svo á að kæra hans taki einnig til synjunar um aðgang að þessum upplýsingum. </p><p>Þannig er að finna á blaðsíðum 81 og 86-87 í málsgögnum tölvubréf milli Isavia ohf. og eins þátttakandans í samkeppninni sem ráða má af efni bréfanna að sé fyrirtækið NQ ehf. sem sér um veitingarekstur undir merkjum NORD í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kæranda var synjað um aðgang að upplýsingum um söluaukningu veitingastaðarins á tilteknum árabilum og veltu. Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla verður við það miðað að réttur kæranda til aðgangs að umræddu gagni verði reistur á 5. gr. upplýsingalaga. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingar um veltu og sölu umrædds veitingastaðar geti talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu NQ ehf. sem heimilt sé að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest ákvörðun Isavia ohf. um synjun hluta upplýsinga á blaðsíðum 81 og 86-87 í málsgögnum. </p><p>Þá er á blaðsíðum 106 og 107 að finna samskipti Isavia ohf. og Joe Ísland ehf. er varða verð á kaffi. Virðist síðarnefnda fyrirtækið hafa óskað þess að sala þess á kaffi yrði undanþegin stefnu Isavia ohf. um verðlagningu en því hafi verið tekið fálega af hálfu Isavia ohf. Var kæranda synjað um upplýsingar um verðlagningu Joe Ísland ehf. á kaffi. Umrædd tölvubréf voru ekki útbúin af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla geta þau ekki talist vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 5. gr. upplýsingalaga. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingar um verðlagningu Joe Ísland ehf. á kaffi eða samskipti um lán á stólum og notkunar á matarsölubíl séu ekki það viðkvæmar upplýsingar að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að þeim. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda kæranda umræddar upplýsingar. </p><p>Kærandi hefur tekið fram að hann geri ekki athugasemd við að sér hafi verið synjað um aðgang að þeim upplýsingum sem afmáðar hafa verið á blaðsíðu 123 í málsgögnum og mun úrskurðarnefndin því ekki taka afstöðu til þess hvort Isavia ohf. hafi verið heimilt að synja um aðgang að umræddu gagni í heild sinni.&nbsp;&nbsp;</p><p>Að öðru leyti og eins og að framan greinir gerir kærandi sérstakar athugasemdir við að afmáðar hafi verið upplýsingar úr tilteknum blaðsíðum í málsgögnum eða að tiltekin gögn hafi ekki verið afhent. Eru þær eftirfarandi: </p><p>Í fyrsta lagi bendir kærandi á að honum hafi ekki verið afhent bréf sem Isavia ohf. hafi sent þátttakendum í samkeppninni um að þeir væru ekki fyrsti kostur fyrirtækisins í samkeppninni en kærandi hafi fengið slíkt bréf sent til sín 21. ágúst 2014. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að kæranda hafi verið afhent umrædd bréf 13. mars 2017. Má ráða að kæranda hafi nú verið látin í té umrædd svör. Af málsgögnum verður ráðið að eitt þessara bréfa sé að finna á blaðsíðum 93 og 94 í málsgögnum og að kæranda hafi ekki verið veittur aðgangur að einkunnum þess þátttakanda sem fram komu í bréfinu. Úrskurðarnefndin hefur þegar tekið afstöðu til þess að kærandi eigi á grundvelli 1. mgr. 14. gr. rétt á aðgangi að einkunnum annarra þátttakenda í samkeppninni, sbr. úrskurð nefndarinnar 15. maí 2015 í máli nr. 579/2015. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda blaðsíður 93 og 94 í heild sinni. </p><p>Í öðru lagi bendir kærandi á að með tölvubréfi, dags. 16. september 2014, frá Joe Ísland ehf. til Isavia ohf. hafi fyrrnefnda fyrirtækið komið á framfæri „nýjum tölum“. Kærandi hafi á hinn bóginn ekki fengið afhent svar Isavia ohf. við umræddu tölvubréfi. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að Isavia ohf. hafi ekki svarað umræddum tölvubréfi. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögn málsins og hefur ekki forsendur til að vefengja svör Isavia ohf. að þessu leyti um að slíkt svar sé ekki að finna í vörslum fyrirtækisins. Með vísan til þess sem greinir í 5. kafla um úrskurðarvald nefndarinnar verður kærunni vísað frá nefndinni að þessu leyti.</p><p>Í þriðja lagi telur kærandi að Isavia ohf. hafi verið óheimilt að synja kæranda um aðgang að þeim tölum sem fram komu í umræddu tölvubréfi Joe Ísland, dags. 16. september 2014 og finna má á blaðsíðu 99 í málsgögnum. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er aðeins bent á að umræddar tölur hafi komið fram meðan á samningaviðræðum stóð milli fyrirtækisins og Joe Ísland ehf. </p><p>Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla verður við það miðað að réttur kæranda til aðgangs að umræddu gagni verði reistur á 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Heimilt er að takmarka aðgang almennings samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga að gögnum á grundvelli mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna lögaðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Ráða má að í töflu þeirri er kæranda var synjað um aðgang að, og fylgdi tölvubréfi Joe Ísland til Isavia ohf., megi sjá áætlanir fyrirtækisins um tekjur og ýmsa kostnaðarliði vegna reksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í samræmi við umfjöllun í 5. kafla er það mat úrskurðarnefndarinnar að slíkar áætlanir geta talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu Joe Ísland sem heimilt sé að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu töflunnar, sem finna má á bls. 99 í málsgögnum. </p><p>Í fjórða lagi bendir kærandi á að sér hafi ekki verið veittur aðgangur að upplýsingum um fjárhagslega þætti tilboðs Joe Ísland ehf. sem fram komi á blaðsíðum 118 og 119 í málsgögnum. Er um að ræða upplýsingar af sama toga og fram koma á blaðsíðu 99 og fjallað er um hér að framan. Með vísan til þessa verður staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu þeirra taflna sem fram koma á blaðsíðu 118 og 119 í málsgögnum. </p><p>&nbsp;</p><p>Í fimmta lagi bendir kærandi á að í tölvubréfi Lagardère travel retail ehf. til Isavia ohf., dags. 15. september 2014, séu afmáðar upplýsingar á blaðsíðu 143 í málsgögnum. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. </p><p>Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla verður við það miðað að réttur kæranda til aðgangs að umræddu gagni verði reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið umrætt tölvubréf og fellst ekki á að þar komi fram nokkrar upplýsingar sem ástæða sé til að afmá á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda bls. 143. í málsgögnum í heild sinni.&nbsp; </p><p>Í sjötta lagi bendir kærandi á að umrætt tölvubréf hafi haft viðhengi þar sem finna megi breyttar fjárhagslegar forsendur tilboðs Lagardère travel retail ehf. og að þær hafi verið afmáðar. Um er að ræða gögn á bls. 144-148 í málsgögnum. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <a name="_Hlk489704731">Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. </a>Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið umrædd viðhengi. Á bls. 144 er að finna gagn með yfirskriftinni „Final Offer F&amp;B + Delicatessen – Operational Plan“ og inniheldur töflu þar sem ráða má að sé að finna áætlanir fyrirtækisins um tekjur og ýmsa kostnaðarliði vegna reksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með vísan til umfjöllunar í 5. kafla geta slíkar áætlanir að mati úrskurðarnefndarinnar talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu Lagardère travel retail ehf. sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu töflunnar, sem finna má á bls. 144 í málsgögnum. Á hinn bóginn er ekki að finna slíkar upplýsingar í skjali sem hefur titilinn „Addendum to LS-NQ Proposal – Key characteristics of concession agreement“ á bls. 145-148 í málsgögnum. Verður því felld úr gildi synjun Isavia ohf. að því leyti og fyrirtækinu gert að afhenda kæranda umræddar blaðsíður. </p><p>Í sjöunda lagi bendir kærandi á að með tölvubréfi, dags. 23. desember 2014, bað Isavia ohf. Joe Ísland um ársreikning þriðja aðila og ábyrgðaryfirlýsingu frá aðila hvers nafn hefur verið afmáð úr hinu afhenta tölvubréfi. Um er að ræða gögn á blaðsíðum 108-109 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að tölvubréfið verði afhent í heild og viðhengi einnig auk svars Joe Ísland ehf. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar er engar þær upplýsingar að finna í tölvubréfum á bls. 108-109 í málsgögnum sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. gert að afhenda kæranda umrædd tölvubréf í heild sinni. Isavia ohf. hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort svar Joe Ísland sé að finna í vörslum fyrirtækisins og hefur ekki látið úrskurðarnefndinni þau í té. Verður því að vísa beiðni kæranda að þessu leyti til nýrrar efnismeðferðar hjá Isavia ohf. </p><p>Í áttunda lagi bendir kærandi á að Isavia ohf. hafi afmáð hluta tölvubréfs frá Lagardère travel retail ehf. sem finna má á bls. 155-156 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að tölvubréfið verði afhent í heild og viðhengi einnig. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. </p><p>Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar er engar þær upplýsingar að finna í tölvubréfinu á bls. 155 í málsgögnum sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. gert að afhenda kæranda umrædd tölvubréf í heild sinni.</p><p>Í níunda lagi bendir kærandi á að afmáðar hafi verið upplýsingar í nýju tilboði Lagardère travel retail ehf. sem finna megi á bls. 165-170 í ágripi. Af viðbrögðum Isavia ohf. verður ráðið að um sé að ræða sama gagn og finna má á bls. 144-148 í málsgögnum. Úrskurðarnefndin hefur þegar fjallað um aðgang kæranda að þeim gögnum og vísast til þeirrar umfjöllunar. Staðfest er því synjun á afhendingu blaðsíðu 166 en Isavia ohf. gert að afhenda blaðsíður 167-170 í heild sinni. </p><p>Í tíunda lagi bendir kærandi á að afmáðar hafi verið upplýsingar í samningsdrögum Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. sem finna megi á blaðsíðum 202, 206-207, 211-244 og 271-350 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að gögnin verði afhent í heild. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. </p><p>Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í framangreindu bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að þau samningsdrög er málið varði hafi verið send milli Isavia ohf. og viðsemjenda þess. Voru samningsdrögin því ekki útbúin af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla geta þau ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. </p><p>Á blaðsíðum 188-206 er að finna drög að samningi milli Isavia ohf. og Lagardère Services ehf. Á bls. 202 hafa upplýsingar um veltutengda leigu verið afmáðar í hinum afhentu gögnum sem tilgreindar eru í hlutfallstölum. Með vísan til umfjöllunar í 5. kafla felur slík útleiga í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna og var af þessum sökum ekki heimilt að synja kæranda um aðgang að umræddum upplýsingum. Á hinn bóginn var í viðauka á bls. 206 að finna áætlanir fyrirtækisins um sölutekjur og ýmsa kostnaðarliði vegna reksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að mati úrskurðarnefndarinnar og í samræmi við umfjöllun í 5. kafla geta slíkar áætlanir talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu Lagardère travel retail ehf. sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Með vísan til alls framangreinds skal Isavia ohf. afhenda kæranda bls. 202 í málsgögnum án yfirstrikana en staðfest er synjun fyrirtækisins að því er varðar bls. 206. </p><p>Á bls. 211-238 í málsgögnum er að fínna önnur drög að sama samningi. Með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan skal Isavia ohf. afhenda kæranda þessar blaðsíður í heild sinni og án yfirstrikana. Þó er staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu á blaðsíðum 237 og 238 í málsgögnum, enda um að ræða sambærilegar upplýsingar og áður hefur verið vikið að sbr. bls. 206 í málsgögnum. </p><p>Á bls. 239-244 í málsgögnum er að finna svokallað „Side Letter“ við samning Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. og „Addendum to LS-NQ Proposal.“ Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin að framan eru ekki efni til að synja kæranda um aðgang að hluta umræddra skjala á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og skal Isavia ohf. afhenda kæranda þau án yfirstrikana.</p><p>Á bls. 256-258 í málsgögnum er að finna „Bókun sem GEV tók í OneNote“. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin að framan eru ekki efni til að synja kæranda um aðgang að hluta umrædds skjals á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og skal Isavia ohf. afhenda kæranda það án yfirstrikanaað því undanskildu að yfirstrikanir á nöfnum mannauðsstjóra og fjármálastjóra á blaðsíðu 257 skulu standa, enda gerir kærandi ekki athugasemd við synjanir Isavia ohf. þar að lútandi.</p><p>Á bls. 267-295 í málsgögnum er að finna önnur drög að sama samningi milli Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. Með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan skal Isavia ohf. afhenda kæranda þessar blaðsíður í heild sinni og án yfirstrikana. Þó er staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu á blaðsíðum 293 og 294 í málsgögnum, enda um að ræða sambærilegar upplýsingar og áður hefur verið vikið að, sbr. blaðsíður 206, 237 og 238 í málsgögnum. Af sömu ástæðum skal Isavia ohf. afhenda kæranda í heild og án yfirstrikana gögn á blaðsíðum 298-320 en staðfest er synjun á blaðsíðum 321 og 323. Einnig skal Isavia ohf. afhenda kæranda í heild og án yfirstrikana gögn á blaðsíðum 325-348 en staðfest er synjun Isavia ohf. á afhendingu á blaðsíðu 349.</p><h3>11.</h3><p>Í 5. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var af hans hálfu óskað eftir að afhentir yrðu samningar Isavia ohf. „við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í, þ.e. Lagardère Services og Joe Ísland, ásamt fylgigögnum og viðaukum við þá samninga“. </p><p>Í kæru bendir kærandi í fyrsta lagi á að Isavia ohf. hafi afhent sameiginlega viljayfirlýsingu Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. sem beri heitið „Agreement of Intent“, dags. 9. september 2014 sem finna megi á bls. 353-359 í málsgögnum. Í fundargerð stjórnar Isavia ohf., dags. 29. september 2014, hafi stjórn samþykkt að ganga til samninga við bjóðendur „í samræmi við fyrirliggjandi viljayfirlýsingar“. Fjárhagslegar upplýsingar, þ.m.t. um upphæðir leigugreiðslna, hafi þó verið afmáðar úr sameiginlegu viljayfirlýsingunni. Krafist sé afhendingar umrædds gagns í heild. Í bréfi Isavia ohf. er vísað til þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið lét í ljós varðandi 4. tölulið beiðni kæranda. </p><p>Réttur kæranda verður reistur á 1. mgr. 5. mgr. upplýsingalaga. Umrædd viljayfirlýsing er gerð á milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. og getur því ekki talist vinnuskjal í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, enda skjalið ekki gert af Isavia ohf. til eigin nota sbr. umfjöllun í 5. kafla hér að framan. Þær fjárhagslegu upplýsingar sem fram koma í skjalinu og kæranda hefur verið synjað um aðgang að varða leiguverð. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið í 5. kafla telur úrskurðarnefndin ekki að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Með vísan til þessa verður synjun Isavia ohf. þar að lútandi felld úr gildi og lagt fyrir fyrirtækið að afhenda kæranda viljayfirlýsingu þá er finna má á blaðsíðum 353-359 í málsgögnum. </p><p>Í öðru lagi bendir kærandi á að á blaðsíðum 362-388 í málsgögnum megi finna undirritaðan samning Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 4. mars 2015. Kæranda virðist sem fjárhagslegar upplýsingar um leiguverð í tiltekinni samningsgrein hafi verið afmáðar. Þá hafi allar fjárhagslegar upplýsingar í viðauka 1 verið afmáðar og viðauki 2 hafi verið afmáður í heild sinni. Þá séu allar fjárhagslegar upplýsingar í viðauka 4 afmáðar og viðauki 5 í heild sinni. Þess er krafist að umrædd gögn séu afhent í heild sinni. Í bréfi Isavia ohf. er vísað til þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið lét í ljós varðandi 4. tölulið beiðni kæranda. </p><p>Réttur kæranda verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umræddur samningur er gerður á milli Isavia ohf. og Lagardère Services og getur því ekki talist vinnuskjal í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, enda skjalið ekki gert af Isavia ohf. til eigin nota sbr. umfjöllun í 5. kafla hér að framan. Þær fjárhagslegu upplýsingar sem fram koma í samningnum og viðaukum á blaðsíðum 360-384 og 386-388 í málsgögnum og kæranda hefur verið synjað um aðgang að varða leiguverð. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið í 5. kafla telur úrskurðarnefndin ekki að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn verður staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu viðauka 4 sem finna má á bls. 385 sbr. fyrri afstöðu nefndarinnar er varðar blaðsíður 206, 237 og 238. </p><p>Í þriðja lagi bendir kærandi á að hann hafi fengið afhenta viljayfirlýsingu Isavia ohf. og Joe Ísland, dags. 15. september 2014, sem finna má á blaðsíðum 389-391 í málsgögnum og samning milli fyrir sömu fyrirtækja, dags. 2. mars 2015, á blaðsíðum 392-410 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að fá umrædd gögn afhent í heild og án yfirstrikana. Í bréfi Isavia ohf. er vísað til þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið lét í ljós varðandi 4. tölulið í beiðni kæranda.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><p>Réttur kæranda til aðgangs að umræddum samningi og viðaukum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Viljayfirlýsingin og samningurinn eru gerð á milli Isavia ohf. og Joe Ísland ehf. og geta því ekki talist vinnuskjöl í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, enda ekki gerð af Isavia ohf. til eigin nota sbr. umfjöllun í 5. kafla hér að framan. Umrædd gögn eru af sama toga og sambærilegur samningur milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf.og fjallað hefur verið um hér að framan. Þær fjárhagslegu upplýsingar sem fram koma í viljayfirlýsingunni, samningnum og viðaukum á blaðsíðum 389-391 og 392-409 varða leiguverð. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið telur úrskurðarnefndin ekki að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn verður staðfest synjun Isavia ohf. varðandi afhendingu viðauka 4 sem finna má á blaðsíðu 410 í málsgögnum, sbr. fyrri afstöðu nefndarinnar er varðar blaðsíður 206, 237 og 238 og 385.</p><h3>12.</h3><p>Í 6. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var af hálfu kæranda óskað eftir að afhentar yrðu „[a]llar fundargerðir stjórnar ISAVIA ohf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samkeppninnar“. &nbsp;</p><p>Í fyrsta lagi bendir kærandi á að samkvæmt þessu taki beiðni kæranda til allra fundargerða Isavia ohf. á tímabilinu frá 19. mars 2013 til 4. mars 2015. Þrátt fyrir þetta hafi engar stjórnarfundargerðir verið afhentar fyrir tímabilið frá nóvember 2014 til mars 2015. Vakin er athygli á að á stjórnarfundi Isavia ohf. þann 4. september 2014 hafi verið sagt berum orðum að samningar við sigurvegara samkeppninnar yrðu teknir til „umfjöllunar á sérstökum fundi áður en gengið verður endanlega frá þeim til undirritunar“. Því sé ljóst að stjórnarfundargerðir séu í vörslum Isavia ohf. sem varði samningsgerð við Joe Ísland og Lagardère travel retail ehf. í mars 2015 með beinum hætti og sem ekki hafi verið afhentar kæranda. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að allar fundargerðir stjórnar Isavia ohf. þar sem fjallað sé um samkeppnina hafi verið afhentar kæranda. Ekkert sé fjallað um málið í fundargerðum stjórnar Isavia ohf. frá nóvember 2014 til mars 2015. </p><p>Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi í upphaflegri gagnabeiðni sinni, dags. 5. desember 2016, orðað beiðni sína um afhendingu fundargerða stjórna á þann hátt sem hér greinir að framan. Á hinn bóginn hafi Isavia ohf., með tölvubréfi dags. 19. desember 2016, lýst þeirri afstöðu sinni að sá hluti beiðninnar sem lyti að öllum fundargerðum stjórnar á tveggja ára tímabili væri of almennur með vísan til 15. gr. upplýsingalaga og nauðsynlegt væri að kærandi afmarkaði betur þann hluta beiðninnar, „t.d. við tiltekið mál“. Í kjölfar þess hafi kærandi fallist á, með tölvubréfi dags. 20. desember 2016, &nbsp;að afmarka beiðni sína þannig að afmá mætti þá hluta fundargerða stjórnar sem varðaði ekki umrædda samkeppni með neinum hætti. Á hinn bóginn áréttaði kærandi að hann óskaði allra hluta fundargerða, hverju nafni sem þeir nefnast og hvort sem þeir varða samkeppnina beint eða óbeint og nefndi í dæmaskyni tilhögun samkeppni, forval, efnisval, fresti, bréfaskipti við bjóðendur, tilboð, einkunnagjöf og samninga í kjölfar samkeppni. </p><p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að vefengja þá staðhæfingu Isavia ohf. að þær fundargerðir stjórnar félagsins sem kærandi hafi fengið afhentar séu þær einu sem falli undir beiðni kæranda í þeim búningi sem hún var í eftir tölvubréf hans, dags. 20. desember 2016. Að því leyti verður að telja að kæran falli utan kæruheimildar 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og er henni af þessum sökum vísað frá. </p><p>Í kæru kemur á hinn bóginn fram sú krafa kæranda að allar fundargerðir stjórnar á umræddu tímabili séu afhentar svo sem fram kom í upphaflegri gagnabeiðni hans. Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. mars 2017, áréttar kærandi að honum sé nauðugur sá kostur að halda sig við upphaflegt orðalag gagnbeiðni sinnar. Hvað sem þessari afstöðu kæranda líður liggur fyrir að hin kærða ákvörðun laut í raun ekki að 6. tölulið upphaflegrar gagnabeiðni kæranda heldur að beiðninni í þeim búningi sem hún var í af hálfu kæranda í tölvubréfi hans til Isavia ohf, dags. 20. desember 2016. Getur kærandi ekki leitað afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess hvort Isavia ohf. hafi brugðist við beiðni sem hann sjálfur féll frá við afgreiðslu málsins hjá fyrirtækinu, enda fólst í hinni kærðu ákvörðun ekki að þessu leyti synjun í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. </p><p>Úrskurðarnefndin hefur á þessu stigi ekki forsendur til að leggja mat á þá afstöðu Isavia ohf., sem fram kom í tölvubréfi af hálfu fyrirtækisins til kæranda, dags. 19. desember 2016, að upphaflegur 6. töluliður gagnabeiðni kæranda, um beiðni um aðgang að öllum fundargerðum stjórnar á tilteknu tímabili, væri „of almennur með vísan til 15. gr. upplýsingalaga“. Á hinn bóginn vill nefndin árétta að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. nægir að sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreini þau „með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál“. Eins og greinir í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga fólu núgildandi lög í sér þá breytingu frá eldri upplýsingalögum nr. 50/1996 að ekki yrði lengur gerð krafa um að sá sem óskaði aðgangs að gögnum tilgreindi mál sem gögn tilheyrðu, heldur nægði að hann tilgreindi þau gögn sem hann óskaði að kynna sér eða efni þess máls sem gögnin tilheyrðu, með nægjanlega skýrum hætti til að unnt væri, án verulegrar fyrirhafnar að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Almennt verður t.a.m. að ætla að ef unnt er að afmarka leit í málaskrá við tiltekna gerð gagna, s.s. fundargerðir stjórnar, sé yfirleitt ekki þörf á því á grundvelli 1. mgr. 15. gr. að sá sem óski aðgangs að gögnum að öllum fundargerðum á tilteknu tímabili tilgreini frekar hvaða efnisatriði eigi að koma fram í umbeðnum fundargerðum. Þá er það aðeins í ýtrustu undantekningartilvikum sem heimilt er að hafna beiðni um gögn af því að meðferð beiðni tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni sbr. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><p>Í öðru lagi bendir kærandi á að á blaðsíðum 413, 421 og 425 hafi Isavia ohf. afmáð tilteknar upplýsingar úr stjórnarfundargerðum og geti kærandi ekki gengið úr skugga um að afmáðir kaflar varði ekki samkeppnina beint eða óbeint. Er þess krafist að umrædd gögn verði afhent í heild og án yfirstrikana. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að þær upplýsingar sem hafi verið afmáðar séu um fyrirtæki sem Isavia ohf. eigi kröfu á og séu upplýsingarnar því alls óviðkomandi samkeppni þeirri er málið varði. Um sé að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar fyrir viðkomandi fyrirtæki. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þær upplýsingar sem Isavia ohf. synjaði kæranda um aðgang að með afhendingu umræddra fundargerða og eru þær í samræmi við lýsingu Isavia ohf. og féllu ekki undir gagnabeiðni kæranda í þeim búningi sem hún var í eftir tölvubréf hans, dags. 20. desember 2016. Er kærunni því vísað frá að þessu leyti, enda fól umrædd afgreiðsla Isavia ohf. ekki í sér synjun á gagnabeiðni kæranda. </p><h3>13.</h3><p>Í 7. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var óskað eftir að afhentar yrðu „[a]llar fundargerðir vegna funda ISAVIA ohf. með Lagardère, Joe Ísland ehf., SSP the Food Travel Experts og IGS ehf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samskiptanna“. </p><p>Kærandi bendir í fyrsta lagi á að Isavia ohf. hafi vegna þessa liðar beiðni kæranda aðeins afhent eina fundargerð. Um sé að ræða fundargerð vegna fundar Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 29. ágúst 2014. Fundargerðin sé að mestu afmáð vegna trúnaðar og sé kæranda ómögulegt að átta sig á efni hennar. Verður ekki annað ráðið en að kærandi krefjist þess að sér verði veittur aðgangur að fundargerðinni í heild sinni. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar er vísað til þess að um sé að ræða vinnuskjal og viðkvæmar fjárhagsupplýsingar. </p><p>Réttur kæranda til aðgangs að fundargerðinni verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.&nbsp; Fram kemur í fundargerðinni, sem að mestu er rituð á ensku, að hún sé vegna fundar þar sem fulltrúar Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. áttu, hún hafi verið rituð af starfsmanni Isavia ohf. og að afrit hafi verið látið í té „participants“. Verður því að gera ráð fyrir að þótt fundargerðin hafi verið útbúin af Isavia ohf. þá hafi hún verið látin fulltrúm Lagardère í té. Telst hún því hafa verið „afhent öðrum“, sbr. orðalag 1. mgr. 8. gr. og uppfyllir því ekki lagaskilyrði til að teljast vinnugagn sem heimilt er að synja aðgangs að sbr. 5. tölulið 6. gr. upplýsingalaga svo sem nánar er fjallað um í 5. kafla. Að því er varðar 9. gr. upplýsingalaga hefur Isavia ohf. ekki útskýrt hvers vegna þær upplýsingar sem synjað er aðgangs að teljast viðkvæmar fjárhagsupplýsingar og getur úrskurðarnefndin ekki séð að svo sé. Verður af þessum sökum að fella úr gildi synjun Isavia ohf. um aðgang að hlutum fundargerðar þeirrar er finna má á blaðsíðum 457-458 í málsgögnum og skal Isavia ohf. afhenda kæranda gagnið í heild sinni.</p><p>Í öðru lagi telur kærandi það ótrúverðugt að umrædd fundargerð sé sú eina sem falli undir 7. tölulið gagnabeiðni kæranda og bendir á að í ýmsum tölvubréfum sem kærandi hafi fengið aðgang að sé vísað til funda Isavia ohf. með Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er á hinn bóginn áréttað að svo sé. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að vefengja staðhæfingu Isavia ohf. og verður því að vísa kærunni frá að þessu leyti sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. </p><p>Með vísan til alls framangreinds verður niðurstaða málsins svo sem segir í úrskurðarorði.&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;</p><h3>Úrskurðarorð:</h3><p>Isavia ohf. ber að veita kæranda, Kaffitári ehf., aðgang að eftirfarandi blaðsíðum, í heild sinni, í málsgögnum sem tekin hafa verið saman af Isavia ohf. vegna beiðni Kaffitárs ehf., dags. 5. desember 2016, um aðgang að gögnum: Blaðsíður 56, 59, 94, 106-107, 108-109, 143, 145-148, 155-156, 167-170, 202, 211-236, 239-244, 267-292, 298-320, 325-348, 353-359, 360-384, 386-388, 389-391, 392-409 og 457-458. Veita skal aðgang að blaðsíðum 256-258 í heild sinni að undanskildum nöfnum mannauðsstjóra og fjármálastjóra á blaðsíðu 257. </p><p>Staðfest er synjun Isavia ohf., dags. 16. janúar 2017, að því er varðar hluta þeirra upplýsinga sem fram koma á eftirfarandi blaðsíðum í málsgögnum sem tekin hafa verið saman vegna beiðni fyrirtækisins, dags. 5. desember 2016, um aðgang að gögnum: Blaðsíður 81, 86 og 87, 99, 118-119, 144, 166, 206, 237-238, 293-294, 321, 323, 349, 385 og 410.</p><p>Að því er varðar 4. tölulið beiðni kæranda, dags. 5. desember 2016, að öðru leyti er synjun Isavia ohf., dags. 16. janúar 2017, felld úr gildi og lagt fyrir fyrirtækið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar. </p><p>Að öðru leyti er kæru Kaffitárs ehf. vísað frá nefndinni. </p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p><p>&nbsp;</p>

707/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Kærandi kærði afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um aðgang að ráðningarsamningi bæjarins við meindýraeyði. Í skýringum bæjarins kom fram að bærinn hefði ekki gert slíkan samning, heldur væri til kallaður sjálfstætt starfandi meindýraeyðir eftir þörfum. Þar sem beiðnin laut að gögnum sem ekki eru fyrirliggjandi hjá Vestmannaeyjabæ var kærunni vísað frá.

<h2>Úrskurður</h2><p>Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 707/2017 í máli ÚNU 17030003. </p><h3>Kæra og málsatvik</h3><p>Með erindi, dags. 2. mars 2017, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um gögn. Með bréfi, dags. 24. janúar 2017, óskaði kærandi eftir ráðningarsamningi sveitarfélagsins við meindýraeyði. Laut kæran til úrskurðarnefndarinnar að því að beiðninni hefði ekki verið sinnt.</p><h3>Málsmeðferð</h3><p>Með bréfi, dags. 10. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ um meðferð beiðni kæranda hjá sveitarfélaginu. Í bréfi sveitarfélagsins til nefndarinnar, dags. 14. mars 2017, kom fram að erindi kæranda hefði þegar verið svarað með bréfi, dags. 2. febrúar, þess efnis að engin gögn lægju fyrir hjá sveitarfélaginu er vörðuðu beiðnina. Segir í bréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar að það sé enginn starfandi meindýraeyðir hjá sveitarfélaginu heldur sé kallaður til sjálfstætt starfandi meindýraeyðir eftir þörfum. Því sé enginn ráðningarsamningur fyrir hendi.</p><h3>Niðurstaða</h3><p>Mál þetta lýtur að afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að ráðningarsamningi sveitarfélagsins við meindýraeyði. </p><p>Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.&nbsp;Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í svari Vestmannaeyjabæjar til kæranda með bréfi dags. 2. febrúar 2017 kemur fram að þau gögn sem kærandi óskaði eftir séu ekki til. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga í efa þá staðhæfingu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><h3>Úrskurðarorð:</h3><p>Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 2. mars 2017, á hendur Vestmannaeyjabæ.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p>

708/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um gögn varðandi samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis. Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram að kærandi hefði þegar fengið aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum sem tengdust málinu. Kærunni var því vísað frá.

<h2>Úrskurður</h2><p>Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 708/2017 í máli ÚNU 17060006.</p><h3>Kæra og málsatvik</h3><p>Með erindi, dags. 23. júní 2017, kærði A afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni hennar um gögn sem talin voru upp í bréfi kæranda til borgarinnar þann 22. maí sl. Kærandi segist vera í forsvari fyrir íbúa í Rauðagerði sem hafi sérstaka hagsmuni af aðgangi að gögnum vegna framkvæmda við götuna. Í kærunni leggur kærandi áherslu á að fá upplýsingar um nefnd sem skipuð hafi verið af fyrrum samgöngustjóra Reykjavíkurborgar. </p><h3>Málsmeðferð</h3><p>Þann 3. júlí 2017 var kæran send Reykjavíkurborg og borginni veittur kostur á að koma framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði afhent afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að í trúnaði. Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 10. júlí 2017, kemur fram að borgin hafi þegar afhent kæranda öll gögn sem lögð voru fram og byggt á við samþykkt og útgáfu framkvæmdarleyfis við Rauðagerði. Gögnin hafi bæði verið send rafrænt til kæranda þann 11. maí 2017 og þá hafi gögnin legið frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, þann 17. maí 2017. Ennfremur hafi Reykjavíkurborg sent tölvupóst til lögmanns íbúanna við Rauðagerði sama dag með gögnum sem kærandi hafi getað nálgast hjá lögmanninum. Þá segir í umsögninni að önnur gögn sem kærandi hafi óskað eftir séu annað hvort vinnuskjöl sem séu ekki sérstaklega skráð undir málinu og ekki aðgengileg eða séu ekki til. Þá kemur fram í umsögninni að engin formleg nefnd hafi verið skipuð af borginni um lagningu stíga eða um gerð manar við Rauðagerði. Íbúar við Rauðagerði hafi aftur á móti haft frumkvæði að þessum hópi og hafi hann alfarið verið á þeirra vegum. Segir í umsögninni að engar upplýsingar liggi fyrir hjá borginni um hópinn. Þá segir í umsögninni að með ákveðnum kröfum kæranda sé verið að krefja borgina um að búa til ný gögn sem borginni sé ekki skylt að gera samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. </p><p>Með umsögn Reykjavíkurborgar fylgdu eftirfarandi gögn, en í umsögninni er tekið fram að gögnin hafi þegar verið afhent kæranda:</p><p>[...]</p><p>Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.</p><p>Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.</p><h3>Niðurstaða</h3><p>Mál þetta lýtur að afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum er varða framkvæmdarleyfi við Rauðagerði. Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að borgin hafi þegar afhent kæranda öll þau gögn sem byggt var á við samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis við Rauðagerði en önnur gögn sem kærandi biðji um hafi ekki verið sérstaklega skráð undir málinu og séu ekki fyrirliggjandi hjá borginni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leggur til grundvallar að með framansögðu eigi Reykjavíkurborg við að við vinnslu málsins hjá borginni hafi orðið til vinnugögn sem ekki hafi verið skráð eða haldið til haga og séu því ekki fyrirliggjandi hjá borginni. </p><p>Í 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga segir að við meðferð mála þar sem taka eigi ákvörðun um rétt eða skyldu manna beri stjórnvöldum að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn mála og séu ekki að finna í öðrum gögnum þess. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. á það sama við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum máls. Í 2. mgr. 27. gr. segir að stjórnvöld skuli gæta þess &nbsp;að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða. Í skýringum við 2. mgr. 27. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að ákvæðið feli aðeins í sér áréttingu á ólögfestri skyldu stjórnvalda til að tryggja eðlilega meðferð opinberra hagsmuna.</p><p>Það er óumdeilt að ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu framkvæmdaleyfis er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi Reykjavíkurborg ekki haldið skráningu um öll gögn málsins í samræmi við skráningarskyldu 27. gr. upplýsingalaga er það ámælisvert. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eða upplýsingar eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds að ræða í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að Reykjavíkurborg hafi þegar veitt kæranda aðgang að þeim gögnum sem falla undir beiðnina sem eru fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><h3>Úrskurðarorð:</h3><p>Kæru A, dags. 23. júní 2017, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; </p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

706/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að vikulegum fréttapistlum forstjóra Lyfjastofnunar á tilteknu tímabili. Stofnunin synjaði kæranda m.a. um aðgang á þeirri forsendu að um væri að ræða gagnagrunn, en upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum næði almennt ekki til slíkra gagna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að þetta hafi gilt í tíð eldri upplýsingalaga en samkvæmt núgildandi lögum nr. 140/2012 þurfi upplýsingar einungis að vera fyrirliggjandi, hvort sem þær tilheyri tilteknu máli eða ekki. Úrskurðarnefndin taldi fréttapistlana fyrirliggjandi hjá stofnuninni í skilningi laganna. Þá taldi úrskurðarnefndin Lyfjastofnun ekki hafa gert nægjanlega grein fyrir því hvernig aðrar takmarkanir á upplýsingarétti almennings gætu átt við um fréttapistlana. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

<h2>Úrskurður</h2><p>Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 706/2017 í máli ÚNU 17060008. </p><h3>Kæra og málsatvik</h3><p>Með erindi, dags. 6. júlí 2017, kærði A ákvörðun Lyfjastofnunar um synjun beiðni um aðgang að vikulegum fréttapistlum forstjóra stofnunarinnar á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2016. </p><p>Í kæru kemur fram að beiðnin hafi verið lögð fram þann 8. febrúar 2017 og henni ekki svarað þrátt fyrir ítrekanir. Við fjórðu ítrekun hafi Lyfjastofnun svarað því að beiðnin yrði afgreidd í ágúst vegna anna og sumarleyfa. Kærandi segir hins vegar að ekki taki langan tíma að safna pistlunum saman og senda með tölvupósti. Kærandi telur sig eiga rétt á þeim samkvæmt upplýsingalögum.</p><h3>Málsmeðferð</h3><p>Kæran var kynnt Lyfjastofnun með bréfi, dags. 11. júlí 2017, og vakin athygli á ákvæði 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því var beint til stofnunarinnar að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og unnt væri og eigi síðar en þann 26. júlí 2017. Sá frestur var framlengdur til 21. ágúst 2017. Með bréfi, dags. sama dag, hafnaði Lyfjastofnun beiðni kæranda. </p><p>Lyfjastofnun kveður fréttapistlana birtast á innri vef stofnunarinnar. Innri vefurinn sé gagnagrunnur eða skrá sem stofnunin haldi til upplýsinga fyrir starfsmenn. Vefurinn sé ekki málaskrá og innihaldi ekki upplýsingar um erindi sem stofnuninni berist eða afgreiðslu þeirra. Samkvæmt almennum athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga nái réttur almennings til aðgangs að gögnum almennt ekki til gagnagrunna eða skráa sem liggi fyrir hjá stjórnvöldum. </p><p>Lyfjastofnun bendir á að samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 7. gr., upplýsingalaga nr. 140/2012 taki réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til gagna sem tengist málefnum starfsmanna. Kærandi óski eftir upplýsingum frá forstjóra til starfsmanna þar sem fjallað sé um innri málefni sem varði þá með einum eða öðrum hætti. Upplýsingarnar varði því starfssamband starfsmanna stofnunarinnar. Upplýsingagjöf til starfsmanna verði að vera óheft til að tryggja nálægð við forstjóra. Upplýsingarnar í fréttapistlunum séu skrifaðar fyrir starfsmenn stofnunarinnar en ekki aðra og komi í raun í staðinn fyrir lokaða starfsmannafundi. Að mati Lyfjastofnunar sé ekki að finna upplýsingar í umbeðnum gögnum sem falli undir 2.-4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þá séu í pistlunum upplýsingar um einkamálefni einstaklinga og um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.</p><p>Með bréfi, dags. 30. ágúst 2017, var umsögnin kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Þær bárust þann 4. september 2017. Kærandi mótmælir túlkun Lyfjastofnunar og telur að flest í fréttapistlunum skuli afhenda þeim sem þess óska. Kærandi minnir á 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem fram komi að eigi takmarkanir á upplýsingarétti við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.</p><p>Eftir nokkur samskipti ritara úrskurðarnefndarinnar við Lyfjastofnun komu fulltrúar hennar til fundar þann 31. október 2017 til að sýna afrit af umbeðnum gögnum og hvernig þau eru vistuð á innri vef stofnunarinnar.</p><h3>Niðurstaða</h3><h3>1.</h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang að vikulegum fréttapistlum forstjóra Lyfjastofnunar sem vistaðir eru á innri vef stofnunarinnar. </p><p>Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal ákvörðun um að synja skriflegri beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða hluta, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í ákvörðun skal koma fram afstaða stjórnvalds til aukins aðgangs, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, og leiðbeiningar um rétt til kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá segir í 3. mgr. 19. gr. að um málsmeðferð fari að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.&nbsp;&nbsp;</p><p>Ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu stjórnsýsluréttar um stjórnsýslukæru en þar segir í 1. mgr. að aðila máls sé „heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju“. Þá er í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sérregla um kærur vegna synjunar upplýsingabeiðna en þar kemur fram að heimilt sé að bera þær synjanir „undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn“.&nbsp;&nbsp;</p><p>Af framangreindum ákvæðum laga leiðir að stjórnvöldum sem hafa til meðferðar beiðni um aðgang að upplýsingum ber að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.&nbsp;&nbsp;</p><p>Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.&nbsp;</p><h3>2.</h3><p>Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að skylt sé ef þess er óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna en það á við þegar gögn eru afhent að hluta ef takmarkanir eiga við um aðra hluta þeirra. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja þannig að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga. Þá kemur einnig fram að hafi sá, sem beiðni um upplýsingar er beint til, ekki fengið viðkomandi gagn afhent við meðferð máls en einvörðungu haft aðgang að upplýsingum úr því í gagnagrunni sem ekki tilheyrir honum sjálfum þá teljist gagn að jafnaði ekki fyrirliggjandi í þessu sambandi.&nbsp;</p><p>Úrskurðarnefndinni þykir rétt að taka fram að í gildistíð eldri upplýsingalaga var fjallað um afhendingu upplýsinga úr gagnagrunnum og skrám m.a. í máli nr. A-447/2012. Í því máli var ekki talið skylt að afhenda gögn úr gagnagrunni, m.a. þar sem umbeðnar upplýsingar tilheyrðu ekki tilteknu máli í skilningi þágildandi 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í eldri upplýsingalögum var ekki að finna þá reglu sem 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hefur að geyma. Svo stjórnvaldi verði gert skylt að afhenda upplýsingar úr gagnagrunnum eða skrám þurfa þær upplýsingar nú aðeins að vera fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, hvort sem þær tilheyra tilteknu máli eða ekki.&nbsp;</p><p>Úrskurðarnefndin bendir á að Lyfjastofnun hefur fullt forræði á því efni sem hýst er á innri vef stofnunarinnar. Starfsmenn hennar geta nálgast fréttapistlana á vefnum hvenær sem er. Þannig er ekki um það að ræða að umbeðin gögn séu geymd í gagnagrunni sem utanaðkomandi aðili hefur forræði yfir eða stýrir aðgangi að, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar nr. 668/2017 frá 30. janúar 2017. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður því að leggja til grundvallar að fréttapistlarnir teljist til fyrirliggjandi gagna í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt framangreindu var óheimilt að synja kæranda um aðgang að fréttapistlunum á þeirri forsendu að þeir teldust hluti af gagnagrunni sem upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum nái ekki til. </p><p>Lyfjastofnun bar því að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt kæranda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.&nbsp;&nbsp;</p><p>Lyfjastofnun hefur borið fyrir sig að fréttapistlarnir teljist í heild sinni til upplýsinga um málefni starfsmanna í skilningi 4. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 7. gr., upplýsingalaga nr. 140/2012. Í rökstuðningi stofnunarinnar er hins vegar ekki gerð nægjanlega grein fyrir því hvernig þessi takmörkun getur átt við um pistlana. Í þessu samhengi er áréttað að um er að ræða undantekningu frá meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings sem skýra ber þröngri lögskýringu. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps er varð að upplýsingalögum er tekið fram að með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., sé átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Til mála er varða starfssambandið teljist t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.&nbsp;Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að jafnvel þó einhverjar upplýsingar af þessum toga sé að finna í vikulegum fréttapistlum forstjóra Lyfjastofnunar getur 4. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga, ekki átt við um þá alla. Skoðun úrskurðarnefndarinnar á fundi með starfsmönnum stofnunarinnar staðfesti þennan skilning. </p><p>Svipuð sjónarmið gilda um þær röksemdir Lyfjastofnunar sem lúta að því að fréttapistlarnir hafi að geyma upplýsingar um einkahagsmuni einstaklinga og fyrirtækja sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Í hinni kærðu ákvörðun er enginn reki gerður að því að lýsa því um hvaða hagsmuni er að tefla og hvaða aðilar geta átt hlut að máli. Þá er jafnframt ljóst að Lyfjastofnun hefur ekki skorað á þá að upplýsa hvort þeir telji að upplýsingarnar eigi að fara leynt, sbr. fyrirmæli 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.</p><h3>3.</h3><p>Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist málsmeðferð Lyfjastofnunar við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæði 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Lyfjastofnun að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.&nbsp;&nbsp;</p><h3>Úrskurðarorð:</h3><p>Ákvörðun Lyfjastofnunar, dags. 21. ágúst 2017, um að synja A um aðgang að vikulegum fréttapistlum forstjóra stofnunarinnar á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2016, er felld úr gildi og lagt fyrir Lyfjastofnun að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.</p><p>&nbsp;</p><p>Hafsteinn Þór Hauksson</p><p>formaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

710/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Kærð var ákvörðun Háskóla Íslands um synjun beiðni um aðgang að eldri prófum í námskeiði við skólann. Úrskurðarnefndin taldi ekki fært að fallast á með skólanum að prófið teldist fyrirhugað í skilningi 5. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því var kærandi talinn eiga rétt á aðgangi samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna.

<h2>Úrskurður</h2><p>Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 710/2017 í máli ÚNU 17050006. </p><h3>Kæra og málsatvik</h3><p>Með erindi, dags. 16. maí 2017, kærði A þá ákvörðun Háskóla Íslands að synja honum um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði (LÍF201G). Kærandi fór fram á aðgang að gögnunum með bréfum, dags. 10. janúar 2017 og 30. janúar 2017. Háskóli Íslands tók afstöðu til beiðninnar með bréfi, dags. 19. apríl 2017, þar sem kæranda var synjað um aðgang að eldri prófum með vísan til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar kemur fram að fyrirkomulag prófsins sé með þeim hætti að stór hluti spurninganna á hverju prófi hafi verið lagður fyrir áður, sumar oft áður og mörgum sé aðeins breytt lítillega milli ára. Sé það því allt eins mögulegt að um sama prófið sé að ræða á milli ára, þ.e. að próf sem lagt verði fyrir í framtíðinni verði eins og próf sem lagt hefur verið fyrir áður eða lítillega breytt. Því myndi aðgangur að eldri prófum í námskeiðinu hafa það í för með sér að próf í námskeiðinu yrði þýðingarlaust eða næði ekki tilætluðum árangri þar sem það væri á almannavitorði, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. </p><h3>Málsmeðferð</h3><p>Með bréfi, dags. 18. maí 2017, var Háskóla Íslands kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Jafnframt var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn Háskóla Íslands barst með bréfi, dags. 9. júní 2017, ásamt afritum af eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði, dags. 2. maí 2012, 3. maí 2013, 29. apríl 2015, 2. mars 2016 og 28. apríl 2016.</p><p>Í umsögninni kemur fram að skólinn byggi á því að umrætt próf sé undanþegið upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Sérstaklega er áréttað að fyrirkomulag prófsins sé með þeim hætti að spurningar þess hafi verið notaðar áður og Háskólinn hafi í hyggju að nota þær aftur í framtíðinni. Þá segir að yrði það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að veita aðgang að prófunum hefði það í för með sér að fyrirhuguð próf í námskeiðinu yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri þar sem þau væru á almannavitorði, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Aðgangur að prófspurningum myndi því skerða árangur af síðari próftöku í námskeiðinu. Þá kemur fram að Háskóli Íslands telji skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga ekki uppfyllt, enda sé enn um fyrirhugaðar ráðstafanir að ræða og prófum því ekki að fullu lokið. Jafnframt segir að Háskólinn veiti stúdentum í langflestum námskeiðum skólans aðgang að eldri prófum, jafnvel þegar það sé kostnaðarsamt fyrir skólann að hanna og þróa sambærileg próf á hverju ári. Það sé aðeins í tilvikum eins og hér um ræði, þar sem afhending krossaprófa myndi skerða árangur af síðari próftöku, að Háskólinn takmarki aðgang að prófum. Það sé gert á faglegum grundvelli til að tryggja gæði námsmats fyrir nemendur framtíðar.</p><p>Umsögn Háskóla Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 14. júní 2017, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 20. júní 2017. Þar kemur fram að kærandi telji umrædd próf ekki fyrirhuguð og með vísan til meginreglu 5. gr. sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga beri að veita aðgang að þeim. </p><h3>Niðurstaða</h3><p>Mál þetta varðar beiðni um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði sem kennt er í Háskóla Íslands. </p><p>Samkvæmt 1.mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar vísar Háskóli Íslands til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en þar er fjallað um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, væru þau á almannavitorði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 40/2012 segir að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en próf er þreytt. Takmörkunin er undantekning frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá er tekið fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að veita skuli aðgang að gögnum þegar ráðstöfunum og prófum sé að fullu lokið nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við. </p><p>Í umsögn Háskóla Íslands er því ekki haldið fram að nákvæmlega sama prófið sé lagt fyrir ár hvert í námskeiðinu heldur hafi hluti spurninganna verið notaður áður og verði notaður aftur í framtíðinni. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á það með skólanum að með því að veita aðgang að eldri prófum í námskeiðinu verði síðari próf þýðingarlaus eða skili ekki tilætluðum árangri í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið er sem fyrr segir undantekning frá þeirri meginreglu að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál eða tiltekin fyrirliggjandi gögn, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Aukin vinna við gerð nýrra prófa getur ekki vikið þeirri meginreglu sem birtist í 5. gr. upplýsingalaga. Af framangreindu leiðir að prófin sem kærandi krefst aðgangs að geta ekki talist fyrirhuguð í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Því ber með vísan til meginreglu 5. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr., laganna að veita kæranda aðgang að þeim.</p><h3>Úrskurðarorð:</h3><p>Háskóla Íslands ber að veita kæranda, A, aðgang að eldri fyrirliggjandi prófum í námskeiðinu Örverufræði (LÍF201G).</p><p>&nbsp;</p><p>Kjartan Bjarni Björgvinsson</p><p>varaformaður</p><p>&nbsp;</p><p>Sigurveig Jónsdóttir &nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp;&nbsp; Friðgeir Björnsson</p><p>&nbsp;</p>

704/2017. Úrskurður frá 11. september 2017

Deilt var um aðgang að umsóknargögnum umsækjanda um uppreist æru. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að umsókn viðkomandi umsækjanda félli í heild sinni undir undanþáguákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Yrði því að taka afstöðu til þess hvort einstök gögn málsins kynnu að geyma upplýsingar um einkahagi sem óheimilt væri að afhenda samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Var það mat nefndarinnar að upplýsingar um símanúmer og netföng umsækjanda og votta auk heilsufarsupplýsinga sem fram kæmu í vottorðum, væru upplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Að öðru leyti var fallist á rétt kæranda til aðgangs að þeim upplýsingum er fram komu í gögnunum. 

<h2>Úrskurður</h2> <p>Hinn 11. september 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 704/2017 í máli ÚNU 17060007.</p> <h3>Kæra og málsatvik</h3> <p>Með erindi, dags. 26. júní 2017, kærði A, fréttamaður Ríkisútvarpsins, ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Með beiðni kæranda, dags. 16. júní 2016, var farið fram á aðgang að afritum af gögnum sem B, áður […], lagði fram með beiðni um uppreist æru. Ráðuneytið synjaði beiðninni með tölvupósti og í meðfylgjandi rökstuðningi var meðal annars vísað til þess að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 væru allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ráðuneytið afhendi því ekki gögn er varði einstakar umsóknir um uppreist æru. Þá sé það mat ráðuneytisins að því sé ekki heimilt að birta nöfn þeirra einstaklinga sem hafa vottað góða hegðun einstakra umsækjenda um uppreist æru á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.</p> <h3>Málsmeðferð</h3> <p>Kæran var kynnt dómsmálaráðuneyti með bréfi, dags. 3. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem hún lýtur að. Umsögnin barst þann 13. júlí 2017. Þar kemur meðal annars fram að skilyrði fyrir að veita uppreist æru sé að finna í 85. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ráðuneytið hafi birt fréttatilkynningu um málið á vef sínum þann 22. júní 2017. Að mati dómsmálaráðuneytisins hafa öll gögnin að geyma viðkvæmar persónulegar upplýsingar, sbr. 8. tl. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Þessar upplýsingar falli jafnframt undir 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með vísan til athugasemda við síðarnefnda ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga séu umbeðin gögn upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að trúnaður ríki um. Jafnframt vísar ráðuneytið til þess að samþykki B liggi ekki fyrir vegna afhendingar gagnanna.</p> <p>Umsögn dómsmálaráðuneytis var kynnt kæranda með bréfi, dags. 14. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 22. ágúst 2017. Í athugasemdunum er m.a. tekið fram að samkvæmt 85. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé umsækjanda um uppreist æru skylt að færa sönnur á góða hegðun frá því að refsing fyrir brot var að fullu úttekin. Til staðfestingar á því skilyrði hafi ráðuneytið í fyrsta lagi byggt á upplýsingum úr sakaskrá, í öðru lagi upplýsingum úr málaskrá lögreglu og í þriðja lagi umsögnum a.m.k. tveggja umsagnaraðila til frekari staðfestingar á því að hegðun einstaklingsins hafi verið góð á tímabilinu. Þær upplýsingar sem kærandi óski eftir varði eingöngu þriðja atriðið, þ.e. aðgang að umsögnum sem afhentar voru ráðuneytinu til frekari staðfestingar á hegðun einstaklingsins ásamt þeim skjölum sem ráðuneytið hefur sjálft útbúið við afgreiðslu umsóknarinnar.</p> <p>Kærandi gerir athugasemdir við rökstuðning dómsmálaráðuneytisins fyrir því að óheimilt sé að afhenda upplýsingarnar með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Ekki komi skýrt fram í málatilbúnaði ráðuneytisins einkahagsmuni hverra sé verið að vernda, þ.e. hvort átt sé við einstaklinginn sem fékk uppreist æru eða umsagnaraðilana sjálfa. Þá mótmælir kærandi því að upplýsingarnar teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Kærandi segist eiga erfitt með að henda reiður á því hvernig umsagnir umsagnaraðila um góða hegðun einstaklings, sem fengið hefur uppreist æru, geti talist einkamálefni þeirra sem hlut eiga að máli þegar slík umsögn sé þáttur í að uppfylla lagaáskilnað 85. gr. almennra hegningarlaga. Sama eigi raunar við um önnur skjöl sem ráðuneytið hafi sjálft útbúið við afgreiðslu umsóknarinnar. Kærandi telur að í þessu samhengi, þ.m.t. við framkvæmd hvers konar hagsmunamats, verði ekki horft fram hjá markmiðum upplýsingalaga, svo sem að auka möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, möguleika fjölmiðla til miðlunar upplýsinga um opinber málefni og traust almennings á stjórnsýslunni, sbr. 1. gr. laganna. Þessi atriði eigi sér beina skírskotun í því máli sem hér um ræði, líkt og opinber umræða hafi borið glöggt með sér.</p> <p>Auk þess gerir kærandi athugasemd við tilvísun dómsmálaráðuneytisins til úrskurðar Persónuverndar í máli nr. 2014/911. Þar hafi það verið mat Persónuverndar að yfirlýsing um stuðning við tiltekinn framboðslista til kosninga til sveitarstjórna fæli í sér upplýsingar um stjórnmálaskoðanir og innihaldi þar af leiðandi viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi a-liðar 8. tl. 2. gr. laga um persónuvernd. Þær upplýsingar sem hér um ræði heyri ekki undir neinn stafliða 8. tl. 2. gr. laganna og fordæmisgildi úrskurðarins sé því ekkert.</p> <p>Þá gerir kærandi athugasemdir við tilvísun ráðuneytisins til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 16/1997. Þar hafi það verið niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þrátt fyrir að upplýsingar um sakaferil og heilsuhagi væru upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt, sbr. 5. gr. þágildandi upplýsingalaga nr. 50/1996, félli umfjöllun um náðunarbeiðni og afgreiðsla á henni að öðru leyti ekki undir undantekningarreglu laganna. Hafi dómsmálaráðuneytinu verið gert skylt að veita kæranda aðgang að gögnum sem vörðuðu náðunarbeiðnina og afgreiðslu hennar.</p> <p>Með bréfum, dags. 19. júlí 2017, var óskað eftir því að einstaklingar sem koma fyrir í umbeðnum gögnum létu í ljós afstöðu sína til þess að gögnin verði gerð opinber. Með erindum, dags. 21. og 24. júlí 2017, lögðust þeir allir gegn því að aðgangur verði veittur að gögnunum.</p> <h3>Niðurstaða</h3> <h3>1.</h3> <p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að gögnum í vörslum dómsmálaráðuneytis um ákvörðun þess um að veita einstaklingi uppreist æru. Nánar tiltekið laut beiðni kæranda að gögnum sem einstaklingurinn lagði fram með umsókn sinni.</p> <p>Í athugasemdum kæranda við umsögn dómsmálaráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi fari einnig fram á aðgang að þeim skjölum sem ráðuneytið útbjó sjálft við afgreiðslu umsóknarinnar. Þar sem ekki má ráða af beiðni kæranda að óskað hafi verið annarra gagna en þeirra sem einstaklingurinn lagði fram með umsókn sinni, verður í máli þessu aðeins leyst úr rétti kæranda til aðgangs að þeim gögnum, enda tekur synjun ráðuneytisins einungis til þeirra, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsing