Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er starfrækt á grundvelli V. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012 til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem skipað er til hliðar við hið almenna stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Valdsvið nefndarinnar nær til allrar stjórnsýslu hins opinbera án tillits til á hvaða stjórnsýslustigi ákvörðun er tekin. Aðili þarf því ekki að tæma aðrar kæruleiðir innan stjórnsýslunnar áður en til hennar er leitað. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir og verður ekki skotið annað innan stjórnsýslunnar. Þeir hafa því jafnframt fordæmisgildi fyrir önnur stjórnvöld og stuðla þannig að auknu samræmi í framkvæmd upplýsingalaganna. 

Sjá nánar um kæruheimild og verklagsreglur nefndarinnar

Skipan úrskurðarnefndar

Samkvæmt 21. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skipar forsætisráðherra þrjá menn í úrskurðarnefnd um upplýsingamál til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Tveir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar en hinn varaformaður. Nefndarmenn mega ekki vera fastráðnir starfsmenn í Stjórnarráði Íslands. Sjá skipan úrskurðarnefndar.

Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og óháð öðrum stjórnvöldum. Nefndin nýtur þó ritara og skrifstofuþjónustu úr forsætisráðuneytinu og má beina kærum til nefndarinnar þangað á netfangið [email protected]. Einnig er unnt að senda kæru til nefndarinnar með því að fylla út rafrænt eyðublað á vef Stjórnarráðsins, mínar síður (sjá leiðbeiningar um notkun á mínum síðum).

Ritari nefndarinnar er Egill Pétursson.

Hér fyrir neðan eru allir úrskurðir nefndarinnar. Á annarri síðu er hægt að nota fullkomnari leit sem tekur t.d. tillit til beygingar orða og þar er einnig hægt að leita innan ákveðins árs.


NúmerSummaryContent
1055/2021. Úrskurður frá 2021.

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi yfirskipstjóra Herjólfs ohf. Úrskurðarnefndin tók fram að þegar kemur að málefnum starfsmanna lögaðila sem falla undir gildissvið upplýsingalaga skv. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nær upplýsingaréttur almennings eingöngu þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 4. mgr. 7. gr. sömu laga. Var synjun Herjólfs ohf. því staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. desember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1055/2021 í máli ÚNU 21100006. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 14. október 2021, kærði A synjun Herjólfs ohf. á beiðni hans um gögn. <br /> <br /> Með erindi, dags. 24. september 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að ráðningarsamningi yfirskipstjóra Herjólfs ohf. Í svarbréfi félagsins, dags. 7. október, segir að allar upplýsingar um starfsfólk séu meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við ákvæði laga og reglna á sviði persónuverndar. Félagið leggi áherslu á að tryggja að meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Félagið verði því ekki við beiðnum um upplýsingar um starfsfólk.<br /> <br /> Í kæru segir kærandi að líta verða á yfirskipstjóra sem einn af æðstu embættismönnum Herjólfs ohf. og á þeim grundvelli skuli félagið úrskurðað til þess að afhenda ráðningarsamninginn.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Herjólfi ohf. með bréfi, dags. 26. nóvember, og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Í umsögn Herjólfs ohf., dags. 1. desember 2021, er vísað í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 860/2019 frá 13. desember 2019 þar sem reyndi m.a. á rétt til aðgangs að ráðningarsamningi framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. Í því máli staðfesti úrskurðarnefndin synjun félagsins.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi yfirskipstjóra Herjólfs ohf. Upplýsingalög nr. 140/2012 taka samkvæmt 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. - 10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.<br /> <br /> Í 7. gr. upplýsingalaga er fjallað um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna aðila sem lögin taka til. Er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. 7 gr. er að finna undantekningar frá þessari meginreglu hvað varðar opinbera starfsmenn og í 4. mgr. 7. gr. er að finna undantekningar varðandi starfsmenn lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. Þar kemur fram að skylt er að veita upplýsingar um nöfn og starfssvið starfsmanna, sbr. 1. tölul., og um launakjör og menntun æðstu stjórnenda, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. Rétturinn til upplýsinga um málefni starfsmanna lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. er þannig þrengri en rétturinn til upplýsinga um opinbera starfsmenn. Af þessu leiðir að Herjólfi ohf. er ekki skylt að veita kæranda aðgang að ráðningarsamningi yfirskipstjóra. Þá er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 860/2019 frá 13. desember 2019 þar sem nefndin komst að því að ráðningarsamningur framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. væri undanþeginn upplýsingarétti samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er synjun Herjólfs ohf., dags. 7. október 2021, á beiðni A um aðgang að ráðningarsamningi yfirskipstjóra félagsins.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir

1054/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.

Kærð var synjun Barnaverndarstofu á beiðni A um gögn varðandi vistun hennar sjálfrar á meðferðarheimilinu Laugalandi. Synjunin byggðist á því að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að upplýsingum um einkamálefni annarra einstaklinga sem einnig var fjallað um í gögnunum, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin féllst ekki á það með Barnaverndarstofu að eðli gagnanna væri slíkt að ekki væri hægt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga. Ákvörðun stofnunarinnar var því felld úr gildi og lagt fyrir hana að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar þar sem farið yrði efnislega yfir gögnin og afmáðar upplýsingar um einkamálefni annarra.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. desember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1054/2021 í máli ÚNU 21050016. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 20. maí 2021, kærði A ákvörðun Barnaverndarstofu um synjun á beiðni um aðgang að gögnum varðandi vistun hennar á meðferðarheimilinu Laugalandi.<br /> <br /> Með gagnabeiðni kæranda, dags. 6. apríl 2021, var óskað eftir öllum þeim gögnum sem Barnaverndarstofa kynni að búa yfir um mál kæranda á árabilinu 2000-2004. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 23. apríl 2021, tók Barnaverndarstofa ákvörðun um afhendingu hluta umbeðinna gagna. Í bréfinu kom m.a. fram að í tilteknum gögnum hefðu viðkvæmar persónuupplýsingar sem vörðuðu aðra verið afmáðar á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 enda væri um að ræða einkamálefni annarra. Í bréfinu var kærandi jafnframt upplýst um að Barnaverndarstofa teldi rétt að synja í heild aðgangi að tilteknum gögnum er vörðuðu kæranda og veru hennar á meðferðarheimilinu á árabilinu 2000-2004. Á meðal þeirra gagna sem Barnaverndarstofa synjaði kæranda um aðgang að eru handritaðar vaktaskýrslur rekstraraðila meðferðarheimilisins og handritaðar fundargerðir starfsmannafunda á árunum 2001-2003. Ákvörðunin var byggð á 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem skýrslurnar og fundargerðirnar hefðu að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra skjólstæðinga heimilisins á tímabilinu. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé synjun á afhendingu eftirfarandi gagna:<br /> <br /> 1. Handritaðra vaktskráninga/dagbókaskráninga starfsmanna á Laugalandi, dags. 4. september 2001 – 11. maí 2002.<br /> 2. Handritaðra vaktskráninga/dagbókaskráninga starfsmanna á Laugalandi, dags. 13. maí 2002 – 17. október 2002.<br /> 3. Handritaðra fundargerða starfsmannafunda, dags. 4. september 2001 – 2. maí 2002.<br /> 4. Handritaðra fundargerða starfsmanna, dags. 16. maí 2002 – 19. maí 2003. <br /> <br /> Kærandi gerir athugasemdir við þau rök Barnaverndarstofu fyrir synjun á aðgangi að umræddum gögnum að í þeim sé að finna upplýsingar um einkamálefni annarra þeirra sem vistaðir voru á Laugalandi á tímabilinu. Í því sambandi bendir kærandi á að á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga hafi viðkvæmar persónuupplýsingar sem varða aðra en kæranda verið afmáðar úr þeim skjölum sem henni voru afhent. Kærandi sættist ekki á þá túlkun Barnaverndarstofu að ekki sé hægt að gera slíkt hið sama við þau gögn sem kæranda var synjað um afhendingu á. Þá telur kærandi röksemdir stofunnar um að hagsmunir annarra mæli með því að upplýsingum um kæranda sé haldið frá henni fráleitar og bendir á að um þessar mundir sé hafin rannsókn á því hvort kærandi og aðrar stúlkur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu hafi verið beittar ofbeldi og harðræði. Slík rannsókn sé trauðla sett af stað af léttúð eða án þess að ástæða liggi fyrir því. Kærandi geti enda vitnað um það og hafi gert svo opinberlega í viðtali við Stundina, að hún hafi sannarlega verið beitt ofbeldi og harðræði á meðan vistun stóð á Laugalandi. Minnir kærandi á að sú vistun hafi verið á ábyrgð Barnaverndarstofu. Hagsmunir kæranda séu því gríðarlega miklir af því að fá í hendur gögn um eigið líf, sem hugsanlega varpi ljósi á það ofbeldi sem kærandi hafi orðið fyrir af hálfu fólks sem Barnaverndarstofa bar ábyrgð á. Telur kærandi að synjun Barnaverndarstofu standist ekki lög og fer fram á að stofunni verði gert að afhenda umbeðnar upplýsingar. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 20. maí 2021, var Barnaverndarstofu kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Barnaverndarstofu, dags. 3. júní 2021, kemur fram að umbeðin gögn innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar sem teljist til einkamálefnis þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, þ.e. fyrrum skjólstæðinga meðferðarheimilisins Laugalands, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Sé það jafnframt mat Barnaverndarstofu að hagsmunir annarra einstaklinga, sem upplýsingarnar varða, vegi þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi að gögnunum. Þá varði gögnin mestmegnis aðra skjólstæðinga meðferðarheimilisins en aðeins lítill hluti þeirra varði kæranda. Sé það jafnframt mat stofunnar að eðli og framsetning umbeðinna upplýsinga sé slíkt að ekki sé unnt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga. Um sé að ræða handrituð gögn þar sem upplýsingum um skjólstæðinga meðferðarheimilisins séu í mörgum tilvikum settar fram án skýrrar aðgreiningar milli einstaklinga auk þess sem handritun þeirra geri það að verkum að upplýsingarnar séu oft á tíðum torlæsilegar og erfitt að greina merkingu þeirra. Það sé því afstaða Barnaverndarstofu að kærandi eigi ekki rétt á að fá aðgang að vaktskráningum/dagbókarskráningum og fundargerðum starfsmanna á því tímabili sem kærandi var vistuð á meðferðarheimilinu Laugalandi, með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Með erindi, dags. 3. júní 2021, var umsögn Barnaverndarstofu kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að vaktskráningum/dagbókarskráningum og fundargerðum starfsmanna á því tímabili sem hún var vistuð á meðferðarheimilinu Laugalandi. Ákvörðun Barnaverndarstofu um að synja beiðni kæranda byggir á því að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Auk þess sé eðli og framsetning umbeðinna upplýsinga slíkt að ekki sé unnt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga.<br /> <br /> Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan Réttur samkvæmt 1. mgr. 14. gr. takmarkast hins vegar af 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.<br /> <br /> Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að í aðstæðum líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. upplýsingalaga. Þá segir orðrétt í athugasemdum:<br /> <br /> „Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig. Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.“<br /> <br /> Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd margsinnis kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fékk afhent gögn málsins og hefur kynnt sér efni þeirra. Nefndin fellst á það með Barnaverndarstofu að í gögnunum er að finna margvíslegar upplýsingar um einkamálefni annarra en kæranda, í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 9. gr. laganna, sem stofnuninni er óheimilt að afhenda kæranda. Að mati nefndarinnar hefur kærandi hins vegar sérstaklega ríka hagsmuni af því að fá aðgang að gögnunum að því leyti sem þau fjalla um hana sjálfa og aðstæður hennar á meðferðarheimilinu. Þannig gilda önnur sjónarmið um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum heldur en rétt almennings til aðgangs að sömu gögnum. <br /> <br /> Í úrskurði nefndarinnar nr. 1039/2021 frá 18. október 2021 staðfesti úrskurðarnefndin synjun Barnaverndarstofu á beiðni blaðamanns um dagbókarskráningar/vaktskráningar frá sama meðferðarheimili frá tímabilinu 1997-2007 með vísan til undantekningarreglu 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu má í undantekningartilfellum hafna beiðni ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Í því máli var um að ræða 1.800 blaðsíður sem Barnaverndarstofa hefði þurft að fara yfir í því skyni að afmá upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Í því máli sem nú er til meðferðar er um mun styttra tímabil að ræða eða rúmlega eitt og hálft ár í stað tíu ára og er blaðsíðufjöldinn sem er undir í þessu máli því töluvert minni eða 359 síður. Í því máli sem lauk með úrskurði nr. 1039/2021 hefði þar að auki lítið staðið eftir, hefðu allar upplýsingar um einkamálefni verið afmáðar, en í því máli sem nú er til meðferðar er eins og áður segir hluti af umbeðnum gögnum umfjöllun um málefni kæranda sjálfs.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin fellst ekki á það með Barnaverndarstofu að eðli og framsetning umræddra gagna sé slíkt að það sé ekki hægt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga. Að mati nefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið efnisleg afstaða til beiðni kæranda í samræmi við upplýsingalög. Verður ekki hjá því komist að fella ákvörðun Barnaverndarstofu úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar afgreiðslu þar sem farið verður efnislega yfir gögnin og afmáðar upplýsingar um einkamálefni annarra, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Barnaverndarstofu, dags. 23. apríl 2021, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir

1053/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.

Deilt var um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni A um gögn sem vörðuðu hann sjálfan og fjölskyldu hans. Sveitarfélagið afhenti honum gögnin að hluta en synjaði honum um aðgang að tölvupóstssamskiptum sem talin voru vinnugögn, sbr. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. sömu laga, og þannig undanþegin aðgangi kæranda. Úrskurðarnefndin féllst á það með sveitarfélaginu að meirihluti gagnanna teldist til vinnugagna. Hins vegar lagði nefndin fyrir Garðabæ að afhenda kæranda tvö skjöl sem uppfylltu ekki skilyrði til að teljast vinnugögn því þau höfðu verið afhent öðrum eða stöfuðu frá öðrum en starfsmönnum sveitarfélagsins.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. desember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1053/2021 í málum ÚNU 21020015. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi dags. 5. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu Garðabæjar á beiðni hans, dags. 20. desember 2020, um „afrit af öllum gögnum frá byrjun árs 2017 til dagsins í dag frá [bæjarstjóra] sem varða sjálfan mig, konu mína og dætur skv. reglugerð GDPR.“ <br /> <br /> Í svari Garðabæjar, dags. 20. janúar 2021, segir að í kerfum sveitarfélagsins sem svari til beiðni kæranda sé að finna tölvupósta sem stafi frá bæjarstjóra, nánar tiltekið í Outlook póstkerfi og þegar við eigi, í tilfelli frekari vinnslu vegna tiltekinna mála, séu þeir vistaðir í ONE-skjalakerfi bæjarins. Farið hafi verið yfir þau gögn sem liggi fyrir í málinu og séu þau afhent kæranda í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga. nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Meðfylgjandi var listi yfir 13 skjöl sem kæranda voru afhent.<br /> <br /> Í svarinu vakti sveitarfélagið athygli á því að samkvæmt 6. mgr. 17. gr. persónuverndarlaga megi undanþiggja upplýsingar í málum sem séu til meðferðar hjá stjórnvöldum réttinum til aðgangs samkvæmt 1. mgr. 15. gr. GDPR að sama marki og gildi um undantekningar á upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Af því leiði að aðili geti ekki á grundvelli persónuverndarlaga krafist aðgangs að skjölum eða öðrum gögnum sem undanþegin séu aðgangi samkvæmt stjórnsýslu- eða upplýsingalögum. Við afgreiðslu beiðninnar verði því ekki afhentir tölvupóstar eða gögn sem teljist til vinnugagna, sbr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Að lokum vakti sveitarfélagið athygli á rétti skráðs einstaklings til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd væri vinnsla persónuupplýsinga um hann talin brjóta í bága við ákvæði persónuverndarlaga eða GDPR, sbr. 2. mgr. 39. gr. persónuverndarlaga.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi telji að gögn vanti en þar sem hann hafi átt tvo fundi með bæjarstjóra og fengið frá honum símtöl telji hann ótrúverðugt að ekki séu til fundarboð né fundargerðir frá þeim fundum. Þá telji kærandi ótrúverðugt að fundur bæjarstjóra við fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins varðandi mál kæranda hafi ekki verið skráður, né samskipti varðandi þann fund. Þá telji kærandi það umhugsunarvert að sveitarfélagið sýni engan samstarfsvilja og svari ekki spurningum hans.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Garðabæ með bréfi, dags. 21. mars 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn sveitarfélagsins, dags. 16. apríl 2021, segir að sveitarfélaginu hafi borist fjöldi gagnabeiðna frá kæranda. Í mörgum þeirra mála sé að finna fleiri en eina beiðni um upplýsingar eða framhaldsbeiðnir sem komi í kjölfar annarra beiðna og sé því oft erfitt að átta sig á afmörkun upplýsingabeiðnanna og í hvaða samhengi þær séu settar fram. Einnig sé oft óljóst á hvaða lagagrundvelli sé verið að óska eftir gögnum. Í mörgum beiðnanna sé ítrekað verið að biðja um sömu gögnin. Garðabær hafi vakið athygli kæranda á þeirri grundvallarreglu að beiðni um afhendingu gagna skuli beinast að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál eða að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þrátt fyrir oft á tíðum óljósar beiðnir hafi Garðabær lagt sig fram við að afgreiða þær og í mörgum tilvikum afhent gögn umfram afhendingarskyldu. Kærandi og kona hans hafi fengið afhent á þriðja þúsund blaðsíðna af gögnum og sé í mörgum tilvikum um að ræða gögn sem þau hafi þegar sjálf undir höndum.<br /> <br /> Í umsögn sveitarfélagsins segir að töluverðs ósamræmis gæti milli kæru, rökstuðnings kæranda og fylgiskjala. Hvað varði kröfur kæranda sem fram komi í kærunni, þ.e. beiðni um öll gögn er varði kæranda, konu og dætur frá bæjarstjóra og ritara bæjarstjóra, segir að kæranda hafi verið afhent gögn frá bæjarstjóra í samræmi við beiðnina, að undanskildum gögnum sem teljist til vinnugagna. Gagnabeiðni kæranda hafi verið sett fram á grundvelli persónuverndar-löggjafarinnar, sbr. lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og hafi verið afgreidd á þeim lagagrundvelli, þá hafi sveitarfélagið veitt kæranda leiðbeiningar um rétt hans til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd á grundvelli 2. mgr. 39. gr. persónuverndarlaga. Kvörtun vegna beiðninnar eigi því ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál heldur Persónuvernd. Með umsögninni til úrskurðarnefndarinnar fylgdi svarbréf sveitarfélagsins til kæranda ásamt lista yfir þau gögn sem kærandi fékk afhent.<br /> <br /> Varðandi rökstuðning í kæru, sem snýr að fundum kæranda með bæjarstjóra, er tekið fram að sveitarfélagið fari að lögboðnum skyldum sínum um fundarboð og ritun fundargerða. Hins vegar sé það svo að bæjarstjóri taki oft á tíðum á móti bæjarbúum og öðrum með hin ýmsu erindi og eigi með þeim óformlega fundi eða samtöl í síma. Í rökstuðningi kæranda sé ekki tilgreint hvenær hann hafi átt fund með bæjarstjóra. Í rafrænni dagbók bæjarstjóra finnist einn bókaður fundur með kæranda og einum öðrum, þann 10. mars 2020. Það sé ekki venja að rita fundargerðir slíkra funda eða samtala sem bæjarstjóri eigi við íbúa bæjarins eða aðra þá sem óski eftir óformlegu samtali við hann, nema slík samtöl hafi þýðingu fyrir úrlausn tiltekins máls sem sé til meðferðar hjá Garðabæ og sé ekki að finna í öðrum gögnum málsins. Hvað varði mál kæranda sem rekið sé í mennta- og menningarmálaráðuneytinu gagnvart sveitarfélaginu þá sé haldið utan um það mál í skjalakerfi bæjarins. Boð um fund sveitarfélagsins með ráðuneytinu sé skráð í dagbók bæjarstjórans 17. nóvember 2020. Sá fundur hafi verið haldinn í ráðuneytinu og það hafi fallið í skaut ráðuneytisins að rita fundargerð. Sú fundargerð sé vistuð í viðeigandi máli í skjalakerfi Garðabæjar. <br /> <br /> Umsögn Garðabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 27. apríl 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Þá var kærandi beðinn um að staðfesta eða lýsa nánar afmörkun á kæruefninu, þ.e. að hvaða afgreiðslu sveitarfélagsins kæran beindist en nokkurt ósamræmi var á milli kæru, dagsetninga í kæru og svo fylgiskjala með kæru. Kærandi staðfesti þá að kæran beindist að afgreiðslu sveitarfélagsins, dags. 20. janúar 2021, við beiðni sinni, dags. 20. desember 2020, en gerði ekki frekari athugasemdir.<br /> <br /> Með erindum, dags. 6. og 12. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir að fá afhent öll gögn málsins, þ.e. bæði þau sem kæranda voru afhent og þau sem honum var synjað um þann 20. janúar 2021. Garðabær afhenti úrskurðarnefndinni gögnin þann 21. október en í meðfylgjandi erindi benti sveitarfélagið á að svar Garðabæjar, dags. 20. janúar 2021, hefði ekki verið á meðal fylgigagna með kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar, heldur hefði þar fylgt annað svarbréf Garðabæjar, dags. 27. janúar 2021, sem varði annað mál. Hljóti það að teljast til vanreifunar af hálfu kæranda gagnvart úrskurðarnefndinni. <br /> <br /> Umbeðin gögn hafi fundist við leit í Outlook og skjalakerfi Garðabæjar, um sé að ræða tölvupósta sem séu viðbrögð starfsmanna Garðabæjar við tölvupóstum sem stafi frá kæranda og konu hans. Tölvupóstarnir innihaldi oft á tíðum langa þræði flókinna samskipta. Til að einfalda hlutina hafi Garðabær því tekið saman þann hluta samskiptanna sem fari á milli starfsmanna bæjarins en þráðum sem séu tölvupóstar milli kæranda, konu hans og Garðabæjar sé sleppt þar sem kærandi sé að sjálfsögðu með þau samskipti í sínum fórum. <br /> <br /> Garðabær ítrekar umsögn sína frá 16. apríl s.l. Garðabær ítrekar sérstaklega hversu mikið ósamræmi og skortur sé á samhengi milli kröfu, rökstuðnings með kærunni og tengslum við fylgiskjöl sem kærandi lét fylgja með. Kærandi blandi saman upplýsingabeiðnum sínum til Garðabæjar þannig að úr verði slík óreiða að ekki verði séð að málið sé tækt til úrskurðar af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál og nefndinni beri því að vísa því frá. Upplýsingabeiðni kæranda frá 20. desember 2020 sé reist á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Garðbær hafi afgreitt beiðnina á grundvelli þeirra laga og því sé Persónuvernd rétta stjórnvaldið til að beina kæru til.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni kæranda um afrit af öllum gögnum um sig, konu sína og dætur frá bæjarstjóra og ritara bæjarstjóra. Beiðnin var sett fram með vísun í „reglugerð GDPR“, þ.e. almennu persónuverndarreglugerð ESB sem var innleidd með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur undir ábendingar Garðabæjar um að framsetning á upplýsingabeiðnum kæranda mætti vera gleggri og skýrari. Nefndin bendir á að þegar beiðni um gögn er ekki nægilega vel afmörkuð veldur það töfum við afgreiðslu hennar bæði hjá því stjórnvaldi sem beiðninni er beint að og hjá úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> Í afgreiðslu Garðabæjar á beiðni kæranda og í umsögn sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að þar sem beiðnin hafi verið sett fram á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga ætti kvörtun vegna afgreiðslunnar ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál heldur Persónuvernd. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin áréttar að kvörtun kæranda snýr ekki að því að vinnsla Garðabæjar með persónuupplýsingar hans brjóti í bága við ákvæði persónuverndarlaga, sbr. 2. mgr. 39. gr., heldur snýr kvörtun kæranda eingöngu að aðgangi kæranda að upplýsingum. Fyrir liggur að kæranda var synjað um hluta umbeðinna gagna og heyrir málið því undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Synjun Garðabæjar byggðist á því að gögnin, sem vörðuðu kæranda sjálfan og fjölskyldu hans, teldust til vinnugagna í skilningi upplýsingalaga. <br /> <br /> Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan en samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. sömu greinar nær sú meginregla ekki til gagna sem talin eru upp í 6. gr. laganna.<br /> <br /> Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nær réttur til aðgangs að gögnum ekki til vinnugagna. Hugtakið vinnugagn er svo skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Þá er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna, felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að gögnum sem skýra ber þröngri lögskýringu.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd, það skuli útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það megi ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin séu af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur til vinnugagna. Af 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga leiði að meta þurfi heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist þau til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þurfi síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin fékk afhent þau gögn frá sveitarfélaginu sem heyrðu undir upplýsingabeiðni kæranda. Fyrst og fremst er þar um að ræða tölvupóstsamskipti á milli starfsmanna sveitarfélagsins. Samskiptin eiga það sameiginlegt að fela ekki í sér endanlega afgreiðslu mála heldur frekar tillögur starfsmanna að viðbrögðum við erindum kæranda og annað sem felur í sér undirbúning mála innan sveitarfélagsins. Gögnin bera almennt með sér að hafa ekki verið send öðrum eða stafa frá öðrum en kæranda, eiginkonu hans og starfsmönnum sveitarfélagsins og falla því undir skilgreiningu upplýsingalaga á vinnugögnum. <br /> <br /> Meðal þeirra gagna sem nefndin fékk afhent voru hins vegar tvenn tölvupóstsamskipti sem greinilega höfðu verið send öðrum aðilum eða stöfuðu frá öðrum aðilum. Annars vegar tölvupóstur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til Garðabæjar, dags. 5. nóvember 2020, með efnið „Rafrænt eintak af bréfi ráðuneytisins sem sent var í dag“ sem var svo áframsendur til annarra starfsmanna Garðabæjar. Hins vegar tölvupóstsamskipti, dags. 7. og 8. desember 2020, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu með efnið „Fundargerð til athugasemda“ en tölvupósturinn frá ráðuneytinu var svo áframsendur á milli starfsmanna Garðabæjar og lögmanns á lögmannsstofu. Þessi samskipti geta ekki talist til vinnugagna þar sem þau eru ekki eingöngu á milli starfsmanna sveitarfélagsins. Báðir tölvupóstþræðirnir sem um ræðir stafa upphaflega frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og í öðru tilvikinu fylgdu í kjölfarið samskipti við utanaðkomandi lögmann. Verður sveitarfélaginu gert að veita kæranda aðgang að tölvupóstunum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og fylgiskjölum þeirra, og samskiptum sveitarfélagsins við lögmanninn, hafi það ekki þegar verið gert. Að mati nefndarinnar falla öll önnur gögn sem heyrðu undir upplýsingabeiðni kæranda þó undir skilgreiningu vinnugagna samkvæmt upplýsingalögum og verður ákvörðun Garðabæjar um að synja kæranda um aðgang að þeim því staðfest.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p>Garðabæ er skylt að veita kæranda, A, aðgang að eftirfarandi gögnum: <br /> <br /> </p> <ul> <li>Tölvupósti, dags. 5. nóvember 2020, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til Garðabæjar með efnið „Rafrænt eintak af bréfi ráðuneytisins sem sent var í dag“, ásamt fylgiskjali. Þó má afmá samskipti á milli starfsmanna Garðabæjar sem komu í kjölfarið.</li> </ul> <ul> <li>Tölvupósti, dags. 7. desember 2020, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til Garðabæjar með efnið „Fundargerð til athugasemda“ ásamt fylgiskjali. Einnig er skylt að afhenda tölvupóstsamskipti, dags. 7. og 8. desember, á milli starfsmanna Garðabæjar og lögmanns á lögmannsstofu sem komu í kjölfarið.</li> </ul> <p>&nbsp;</p> <p>Ákvörðun Garðabæjar, dags. 20. janúar 2021, er að öðru leyti staðfest.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir</p>

1052/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.

Kærð var synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum sem varða refsiaðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússlandi. Fyrst og fremst taldi ráðuneytið mikilvæga almannahagsmuni krefjast þess að aðgangur að gögnunum yrði takmarkaður þar sem þau hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, eða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál, sbr. 1. tölul. 10. gr. Þá taldi ráðuneytið hluta skjalanna undanþeginn upplýsingarétti á grundvelli 1. tölul. 6. gr. enda hefðu þau verið tekin saman fyrir ráðherrafundi. Að lokum var kæranda synjað um aðgang að hluta skjalanna með vísan til þess að um vinnugögn væri að ræða í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók undir mat ráðuneytisins á gögnunum og staðfesti synjunina.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. desember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1052/2021 í máli ÚNU 21010001. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 4. janúar 2021, kærði A synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum er varða refsiaðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússlandi.<br /> <br /> Þann 28. mars 2018 óskaði kærandi eftir aðgangi að a) öllum gögnum og fundargerðum frá utanríkisráðuneytinu varðandi ákvörðun utanríkisráðherra um refsiaðgerðir gegn Rússlandi, eftir 26. mars 2018, b) sönnun og/eða vottorðum frá breskum yfirvöldum um að „Novichok“ eiturgas hafi verið notað í eiturefnaárásinni í Sailsbury og c) sérstaklega var óskað eftir öllum þeim gögnum eða sönnunargögnum frá breskum yfirvöldum er urðu til þess að þessi ákvörðun var tekin með því að vera með öðrum þjóðum í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Kærandi ítrekaði beiðnina þann 18. júní 2019.<br /> <br /> Í svari utanríkisráðuneytisins, dags. 21. desember 2020, er beðist velvirðingar á þeim mikla svardrætti sem varð á málinu. Þá segir að við athugun á málaskrá ráðuneytisins hafi fundist um 30 skjöl sem ætla megi að fallið geti undir beiðnina. Eftir yfirferð skjalanna væri það mat ráðuneytisins að efni flestra þeirra væri þess eðlis að þau féllu ýmist undir ákvæði 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 varðandi gögn sem lögð eru fyrir ríkisstjórn, 8. gr. laganna sem undanskilur vinnuskjöl upplýsingarétti almennings og ákvæði 1. eða 2. töluliðar 1. mgr. 10. gr. laganna sem heimilar takmörkun á upplýsingarétti varðandi gögn sem lúta að samskiptum við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Með svari ráðuneytisins fylgdi yfirlit yfir öll 30 skjölin ásamt skýringum, þ.e. á hvaða grunni synjun byggðist í hverju tilviki. Loks taldi ráðuneytið sér skylt að afhenda kæranda sjö skjöl.<br /> <br /> Í kæru segir að kærandi telji ráðuneytið ekki hafa neinar haldbærar sannanir fyrir viðskiptaþvingununum og að refsiaðgerðirnar séu settar til að fylgja öðrum þjóðum að málum í fjandsamlegri stefnu bandarískra stjórnvalda og annarra gagnvart Rússlandi. Það hafi vantað allar sannanir fyrir öllum þessum ásökunum íslenskra stjórnvalda og annarra. Því óski kærandi eftir úrskurði til að fá gögnin sem ráðuneytið hafi synjað honum um afhent. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt utanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 7. janúar 2021, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Beiðni úrskurðarnefndarinnar var ítrekuð 19. mars, 12. apríl, 5. maí, 4. október, 11. október og 13. október 2021.<br /> <br /> Í umsögn utanríkisráðuneytisins, dags. 13. október, segir að ráðuneytið hafi veitt kæranda aðgang að nánar tilgreindum skjölum en aðgangi að nokkrum hluta gagnanna hafi þó verið synjað. Þá áréttar ráðuneytið þær málsástæður og lagarök sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun en til viðbótar kemur ráðuneytið því á framfæri að tvö skjöl stafi frá Alþjóða efnavopnastofnuninni (OPCW). Skjölin séu sérmerkt og innihaldi efsta stig trúnaðarflokkunar hjá stofnuninni (e. OPCW Highly Protected). Enn fremur sé sérstaklega tiltekinn á báðum skjölunum áskilnaður um handvirka afhendingu eingöngu og þá einungis til viðtakenda sem hafi til þess sérstaka heimild. Með hliðsjón af framangreindu sé það mat ráðuneytisins að um sé að ræða skjöl sem falli undir trúnaðarskyldu Íslands að þjóðarétti gagnvart Alþjóða efnavopnastofnuninni samkvæmt ákvæði 6. mgr. 7. gr. laga samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, sbr. auglýsingu nr. 12/1997 í C-deild Stjórnartíðinda frá 5. maí 1997, og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 98/1992 um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana. Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, svo og fordæmis úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 619/2016 frá 4. maí 2016, sé það afstaða ráðuneytisins að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni að því er varði þessi tvö skjöl. Auk framangreinds verði ekki séð að málstæðurnar sem teflt sé fram í kærunni séu þess eðlis að þær haggi afstöðu ráðuneytisins í málinu. Kröfum kæranda sé því öllum hafnað. Að lokum er beðist velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafi á svörum ráðuneytisins.<br /> <br /> Umsögn utanríkisráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 14. október 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.<br /> <br /> Þann 22. nóvember 2021 kynnti nefndin sér þann hluta umbeðinna skjala sem ráðuneytið taldi sér óheimilt að senda frá sér með rafrænum hætti.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda um gögn er varða þvingunaraðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússlandi. Utanríkisráðuneytið tók saman yfirlit yfir þau 30 skjöl sem talin voru falla undir gagnabeiðni kæranda og taldi ráðuneytið unnt að afhenda kæranda sjö þeirra en önnur væru undanþegin upplýsingarétti almennings. <br /> <br /> Á yfirliti ráðuneytisins má sjá að við alls 21 skjal er vísað til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þ.e. við skjöl númer 3, 4, 5, 6, 8, 9, 10, 11, 15, 16, 17, 19, 20, 21, 22, 24, 26, 27, 28, 29 og 30. Við fimm af þessum skjölum er jafnframt vísað til 1. tölul. sömu greinar, þ.e. skjöl númer 5, 15, 16, 24, 26 og 27.<br /> <br /> Í 1. tölul. 10. gr. er að finna heimild til að takmarka aðgang að viðkvæmum upplýsingum um öryggi ríkisins eða varnarmál. Í athugasemdum við ákvæðið segir m.a. eftirfarandi:<br /> <br /> „Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upplýsingar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir. Í þessu sambandi skal og áréttað að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lögin gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli.<br /> <br /> Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingarmikla hagsmuni. Ef upplýsingar þeim tengdar berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt. Með upplýsingum um varnarmál er þannig m.a. átt við upplýsingar um áætlanir og samninga um varnir landsins, svo og við framkvæmdir á varnarsvæðum. Það er þó skilyrði fyrir því að takmarka megi aðgang að gögnum, með vísan til þessa ákvæðis, að sýnt sé fram á hættu gagnvart íslenskum hagsmunum.“<br /> <br /> Samkvæmt 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Í athugasemdum við ákvæði 2. tölul. 10. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Ákvæðið á við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Þeir hagsmunir sem hér er verið að vernda eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.“<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögnin með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Skjöl númer 3, 4, 5, 6, 8, 9, 10, 11, 15, 16, 17, 19, 20, 21, 22, 24, 26, 27, 28, 29 og 30 geyma sannarlega upplýsingar um samskipti við erlend ríki og alþjóðlegar stofnanir. Málið sem þar er til umfjöllunar er í eðli sínu viðkvæmt og því má ætla að nauðsynlegt sé að samskipti af þessu tagi fari leynt til þess að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust viðkomandi aðila. Hugsanlegt er að birting gagnanna hefði skaðleg áhrif á tengsl Íslands við önnur ríki eða stofnanir og myndi þannig stofna hagsmunum íslenska ríkisins í hættu. Verður utanríkisráðuneytinu því talið heimilt að synja beiðni um aðgang að þeim á grundvelli 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Auk þess er ekki hægt að útiloka að birting skjala númer 5, 15, 16, 24, 26 og 27 gæti haft afleiðingar sem varða öryggi ríkisins og þar með mikilvæga almannahagsmuni. Eins og segir í lögskýringargögnum verður að gæta varfærni og skýra ákvæði 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga tiltölulega rúmt. Úrskurðarnefndin tekur fram að þó einhver þessara gagna, s.s. fylgiskjöl með þeim tölvupóstum sem um ræðir, kunni þegar að hafa verið birt opinberlega á öðrum vettvangi, breyti það því ekki að gögnin komu í vörslur utanríkisráðuneytisins í tengslum við framangreind samskipti þess við erlend ríki og alþjóðlegar stofnanir sem háð voru trúnaði og verður ráðuneytinu því ekki gert að afhenda þau.<br /> <br /> Varðandi skjöl númer 5 og 27 vísaði ráðuneytið einnig til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Úrskurðarnefndin hefur skoðað gögnin en þau bera það greinilega með sér að hafa verið tekin saman fyrir ríkisstjórnarfundi og lögð fram og rædd á slíkum fundum. Verður ákvörðun ráðuneytisins að því er þetta varðar staðfest.<br /> <br /> Að lokum var kæranda synjað um aðgang að skjölum númer 12, 18 og 22 með vísan til 8. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. laganna tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnugagna. Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga sem þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Þá er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Skjal númer 12 er merkt „Spurningar og svör – drög“ og inniheldur tillögur að svörum við spurningum í tengslum við refsiaðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússlandi. Skjalið ber með sér að hafa verið útbúið af starfsmanni ráðuneytisins og notað við undirbúning máls. Skjal númer 18 inniheldur tölvupóstsamskipti á milli starfsmanna utanríkisráðuneytisins en efni samskiptanna var fundur í breska sendiráðinu í Moskvu. Skjal númer 22 er minnisblað með frásögn sendiherra frá fundi framkvæmdaráðs Efnavopnastofnunarinnar. Að mati úrskurðarnefndarinnar samræmast þessi skjöl vinnugagnahugtaki upplýsingalaga og var utanríkisráðuneytinu heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim á grundvelli 5. tölul. 6. gr. laganna.<br /> <br /> Í umsögn sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál bætti ráðuneytið því við að tvö af umbeðnum gögnum féllu undir trúnaðarskyldu Íslands að þjóðarétti gagnvart Alþjóða efnavopnastofnuninni, samkvæmt ákvæði 6. mgr. 7. gr. laga samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 98/1992 um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana. Þar sem þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að utanríkisráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að viðkomandi gögnum, á grundvelli upplýsingalaga, er ekki tekin sérstök afstaða til þessa.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur tilefni til þess að gera athugasemdir við afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda sem tafðist verulega. Auk þess urðu miklar tafir á viðbrögðum ráðuneytisins við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni. Kæran var fyrst kynnt ráðuneytinu þann 7. janúar 2021 en umbeðin umsögn og málsgögn fékk úrskurðarnefndin ekki afhent fyrr en 13. október 2021. Eins og fram kemur í 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum tekin svo fljótt sem verða má. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að neitt geti skýrt þann mikla drátt sem varð á afgreiðslu málsins og tafirnar verða ekki réttlættar með vísan til umfangs umbeðinna gagna eða sérstaks eðlis upplýsinganna. Nefndin beinir því til utanríkisráðuneytisins að gæta framvegis að reglum um málshraða, sbr. 17. gr. upplýsingalaga og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er ákvörðun utanríkisráðuneytisins, dags. 21. desember 2020, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að gögnum er varða refsiaðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússlandi.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir

1051/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Deilt var um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðnum kæranda um upplýsingar um greiðslur sveitarfélagsins vegna fjárhagsaðstoðar í hverjum mánuði. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu og þyrfti sveitarfélagið að leggja í sérstaka vinnu í hverjum mánuði til þess að verða við upplýsingabeiðnunum. Úrskurðarnefndin taldi ekki ástæðu til að draga þær skýringar Vestmannaeyjabæjar í efa. Að mati úrskurðarnefndarinnar var ekki um að ræða synjun beiðna um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og var kærunum því vísað frá nefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1051/2021 í málum ÚNU 21060017, 21070016, 21080011, 21090009 og 21100008. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindum, sem bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál á tímabilinu júní 2021 til október 2021, og dagsettar eru 25. júní, 30. júlí, 18. ágúst, 14. september og 14. október 2021 kærði A afgreiðslur Vestmannaeyjabæjar á beiðnum hans um upplýsingar sem varða fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Fyrir liggur að kærandi sendi sveitarfélaginu fyrirspurnir í hverjum mánuði um það hvað sveitarfélagið hefði greitt út í fjárhagsaðstoð mánuðinn á undan og til hve margra einstaklinga. Í hvert skipti svaraði sveitarfélagið honum því að fyrirspurnirnar féllu ekki undir upplýsingalög.<br /> <br /> Í kærum kæranda er þess krafist að félagsþjónusta Vestmannaeyja verði úrskurðuð til að afhenda umbeðnar upplýsingar. Það sé hafið yfir vafa að útgjöld Vestmannaeyjabæjar heyri undir upplýsingalög. Kærandi sé ekki að biðja um persónulegar upplýsingar heldur biðji hann um heildartölu vegna þessara útgjalda. Alls ekki sé óskað eftir upplýsingum um það hvernig sú upphæð deilist niður á einstaklinga.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi, dags. 21. október 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 21. október 2021, segir að umbeðnar upplýsingar myndu kalla á sérstaka vinnu starfsmanna sveitarfélagsins í hverjum mánuði, sem sé almennt ekki unnin. Vestmannaeyjabær taki árlega saman skýrslu um fjölda einstaklinga sem þiggi fjárhagsaðstoð og heildarupphæð hennar. Fyrir geti komið að slík vinna sé unnin oftar en þá sé það að beiðni fagráðs sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki. Að mati Vestmannaeyjabæjar samræmist það ekki hlutverki upplýsingalaga að opna fyrir verkbeiðnir almennings um tiltekna mánaðarlega vinnu sem almennt sé ekki unnin hjá sveitarfélaginu. Aftur á móti liggi þessar upplýsingar fyrir á ársgrundvelli og jafnvel oftar og séu þær vel sýnilegar almenningi og hægt að kalla eftir þeim. Þannig sé gegnsæ stjórnsýsla vel tryggð sem og opinberir hagsmunir.<br /> <br /> Í athugasemdum, dags. 4. nóvember 2021, ítrekaði kærandi að útgjöld Vestmannaeyjabæjar féllu undir upplýsingalög. Beðið væri um heildartölu umræddra útgjalda og til hve margra, alls ekki um upphæð til hvers og eins. Persónuupplýsingar kæmu því ekki til álita.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðnum kæranda um upplýsingar um greiðslur sveitarfélagsins vegna fjárhagsaðstoðar í hverjum mánuði og til hversu margra einstaklinga.<br /> <br /> Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 á almenningur rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Upplýsingar um útgjöld stjórnvalda, þ.á m. kostnað við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, heyra vissulega undir gildissvið upplýsingalaga. Stjórnvöldum er hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli upplýsingalaga en í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. segir orðrétt: „Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn […].“ <br /> <br /> Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja hjá stjórnvöldum á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.<br /> <br /> Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur komið fram að til þess að verða við beiðnum kæranda þyrfti að leggja í sérstaka vinnu í hverjum mánuði. Sveitarfélagið taki þessar upplýsingar ekki saman mánaðarlega heldur sé það að jafnaði gert árlega fyrir skýrslu sem sé svo birt opinberlega. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sér ekki ástæðu til að draga þær skýringar Vestmannaeyjabæjar í efa. Þannig var ekki búið að taka saman upplýsingarnar sem kærandi óskaði eftir þegar beiðnir hans komu fram heldur hefði þurft að vinna þær sérstaklega upp úr bókhaldi sveitarfélagsins svo unnt hefði verið að afgreiða beiðnirnar. <br /> <br /> Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vísa kæru þar að lútandi frá.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kærum A, dags. 25. júní, 30. júlí, 18. ágúst, 14. september og 14. október 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1050/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Kærð var synjun Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að skjali með reikningsjöfnuði félagsins yfir sex mánaða tímabil. Úrskurðarnefndin staðfesti synjun félagsins með vísan til þess að skjalið væri vinnugagn sem heimilt væri að undanþiggja upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1050/2021 í máli ÚNU 21100003. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 4. október 2021, kærði A synjun Herjólfs ohf. á beiðni hans um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Þann 15. september 2021 óskaði kærandi eftir sex mánaða uppgjöri félagsins. Í svari Herjólfs, dags. 29. september 2021, segir að félagið haldi aðalfund einu sinni á ári og eftir hann sé hægt að nálgast fjárhagsupplýsingar ársins á undan. Á milli aðalfunda sé stuðst við drög að uppgjörum sem séu aðeins notuð sem vinnuskjöl til að átta sig á stöðu félagsins. Ársreikningar séu aðgengilegir á heimasíðu félagsins. <br /> <br /> Í kæru segir að krafa kæranda sé að Herjólfur verði úrskurðaður til að afhenda sex mánaða uppgjör félagsins. Milliuppgjör sé annað og meira en drög sem nota megi sem vinnuskjal. Þau segi til um stöðu félagsins á þeim tíma. Það geti ekki verið eigendum félagsins óviðkomandi. Þá er þess getið að heimasíða félagsins sé uppfærð seint og illa og glöggt komi fram í svarinu að milliuppgjör sé þar ekki að finna.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Herjólfi með bréfi, dags. 21. október, og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Herjólfs, dags. 1. nóvember, segir að gögnin sem um ræði séu reikningsjöfnuður, þ.e. nákvæmt yfirlit yfir tekjur og útgjöld tiltekins tímabils sem framkallað sé úr bókhaldskerfi félagsins. Sambærileg yfirlit séu kölluð fram fyrir stjórnarfundi í þeim tilgangi að vinna út frá þeim ákvarðanir sem tengist rekstrinum. Ekki sé um að ræða eiginleg árshlutauppgjör heldur undirbúningsgögn. Gögnin séu frá félaginu sjálfu og séu ekki afhent út fyrir félagið. Gögnin séu því ekkert annað en vinnuskjöl. Þau muni svo verða nýtt til þess að vinna endanlegt uppgjör og ársreikning félagsins, sem verði birtur þegar hann liggi fyrir. Þessu til rökstuðnings bendir Herjólfur á 5. tölul. 6. gr. og 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá bendir Herjólfur á að kærandi hafi áður kært sambærilega afgreiðslu félagsins í máli ÚNU 19110010. Í því máli staðfesti úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun Herjólfs.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að uppgjöri Herjólfs en beiðni kæranda var synjað á þeim grundvelli að um vinnugögn væri að ræða.<br /> <br /> Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eru vinnugögn undanþegin upplýsingarétti. Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í 2. málslið málsgreinarinnar er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.<br /> <br /> Í athugasemdunum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn í reynd, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, telst það almennt ekki lengur til vinnugagna.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér umbeðin gögn en um er að ræða reikningsjöfnuð, þ.e. nákvæmt yfirlit yfir tekjur og útgjöld, tímabilsins 1. janúar 2021 - 30. júní 2021. Skjalið sem úrskurðarnefndin fékk afhent ber yfirskriftina „Vinnusaldólisti“ er bersýnilega framkallað úr bókhaldskerfi félagsins. Það inniheldur ófullgerðar bókhaldsupplýsingar og ljóst er að þær munu verða nýttar til þess að vinna endanlegt uppgjör og ársreikninga félagsins, sem verða birtir. Þá bera gögnin með sér að stafa frá félaginu sjálfu og hafa ekki verið afhent út fyrir félagið. Samkvæmt skýringum Herjólfs var yfirlitið nýtt til undirbúnings við ákvarðanir sem tengjast rekstri Herjólfs og hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til þess að rengja þær fullyrðingar félagsins. Í gögnunum koma ekki fram endanlegar ákvarðanir um afgreiðslu mála, upplýsingar sem er skylt að skrá eða annað slíkt, sbr. 3. mgr. 8. gr. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er því um vinnugögn að ræða, sbr. 8. gr. upplýsingalaga, sem heimilt er að undanþiggja upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. laganna og verður synjun Herjólfs ohf. staðfest.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Herjólfs ohf., dags. 29. september 2021, um að synja beiðni kæranda um aðgang að skjali með reikningsjöfnuði félagsins frá 1. janúar 2021 til 30. júní 2021 er staðfest.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1049/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar nr. 1019/2021 var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku ekki uppfyllt og að ekki væru rökstuddar vísbendingar um að á úrskurðinum væru verulegir annmarkar að lögum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1049/2021 í máli ÚNU 21080012.<br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með erindi, dags. 17. ágúst 2021, fór B, f.h. A, fram á endurupptöku máls ÚNU 21020012 sem lauk þann 14. júní 2021 með úrskurði nr. 1019/2021. Í málinu var deilt um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni kæranda um afhendingu afrits allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir máli nr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varðaði umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að stofnuninni hefði verið rétt að líta svo á að ákvörðun um hvort orðið yrði við umsókn um slíka skráningu fæli í sér ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sem umsækjandi um að hljóta skráningu á listann væri kærandi því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og nyti því réttar til aðgangs að gögnum þess máls samkvæmt ákvæðum IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hún féll utan gildissviðs upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.<br /> <br /> Í endurupptökubeiðni kæranda, dags. 17. ágúst 2021, kemur fram að fyrir nefndinni hafi ákvörðun um synjun kæranda að hljóta skráningu á umræddan lista ekki verið til efnislegrar umfjöllunar, heldur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum. Skipulagsstofnun hafi af einhverjum ástæðum farið með málið í þann farveg að fjalla efnislega um umþrætta ákvörðun stofnunarinnar er varðaði synjun um veru á fyrrgreindum lista í stað þess að fjalla um ástæður þess að synjað hafði verið um aðgang að upplýsingum. Vandséð sé hvernig stofnunin geti misskilið starfssvið og vettvang nefndarinnar með framangreindum hætti. Skipulagsstofnun hafi því ekki fært fram viðhlítandi skýringar fyrir kærðri ákvörðun og ekki verði horft fram hjá því að málatilbúnaður stofnunarinnar sé órökstuddur. Að auki hafi stofnunin farið fram á að leynd myndi hvíla yfir tilteknum gögnum gagnvart kæranda sem afhent voru nefndinni. Verði það að teljast með nokkrum ólíkindum enda snúi umrætt mál í eðli sínu að einkahagsmunum kæranda og geti ekki með nokkru móti talist varða það ríka almannahagsmuni að beita skuli svo íþyngjandi úrræði gagnvart kæranda sem krefjist aðgangs að upplýsingum er varða kæranda eina. <br /> <br /> Í beiðni kemur einnig fram að kærandi sé að afla upplýsinga í því skyni að varpa ljósi á órökstudda ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja um veru á listanum. Kærandi treysti á nefndina sem öryggisventil, í samræmi við grundvallarhugsun löggjafans sem liggi að baki tilvist nefndarinnar og snúi m.a. að meginhlutverki nefndar í umræddu tilliti. Kærandi segir úrskurð nefndarinnar vekja spurningar fremur en svör og telur að líta beri svo á að úrskurðarnefndinni hafi bersýnilega orðið á mistök við meðferð málsins. Af þeim sökum sé þess krafist að úrskurðarnefndin taki málið upp og meðhöndli til samræmis við efni og ástæður máls. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 1019/2021 að vísa frá kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar þar sem kæran félli utan gildissviðs upplýsingalaga samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna.<br /> <br /> Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:<br /> <br /> „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:<br /> <br /> 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br /> 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málinu sem breytt geta þeirri niðurstöðu að réttur kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum ráðist af stjórnsýslulögum, en ekki upplýsingalögum, en fyrir liggur að umbeðin gögn tilheyra stjórnsýslumáli sem kærandi var aðili að. Upplýsingalög gilda ekki um slíkan aðgang samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 21020012 sem lauk þann 14. júní 2021 með úrskurði nr. 1019/2021.<br /> <br /> Í tilefni af þeim sjónarmiðum sem fram koma í erindi kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að árétta að þegar aðili stjórnsýslumáls óskar eftir gögnum er tengjast málinu gilda ákvæði stjórnsýslulaga um aðgang að gögnunum, ekki ákvæði upplýsingalaga. Synjum á afhendingu gagnanna verður í slíkum tilfellum ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, heldur eftir atvikum til þess stjórnvalds sem fer með æðstu stjórn viðkomandi málefnasviðs, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gildandi forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands hverju sinni. <h2>Úrskurðarorð:</h2> Beiðni B f.h. A, dags. 17. ágúst 2021, um endurupptöku máls ÚNU 21020012 sem lauk þann 14. júní 2021 með úrskurði nr. 1019/2021 er hafnað.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1048/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

A fréttamaður, kærði synjun embættis landlæknis á beiðni hans um aðgang að afriti af samningi íslenska ríkisins við lyfjafyrirtækið Moderna um kaup á bóluefni gegn COVID-19. Synjun landlæknis byggðist annars vegar á því að samningurinn hefði að geyma upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni framleiðenda bóluefnanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar á því að mikilvægir almannahagsmunir krefðust þess að aðgangur kæranda yrði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst á það með embætti landlæknis að umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir stæðu til að færu leynt. Að fenginni þeirri niðurstöðu var að mati nefndarinnar óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga væru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs. Var synjun embættis landlæknis því staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1048/2021 í máli ÚNU 21080009. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 16. ágúst 2021, kærði A, fréttamaður Ríkisútvarpsins, ákvörðun embættis landlæknis um synjun beiðni um aðgang að afriti af samningi íslenska ríkisins við lyfjafyrirtækið Moderna um kaup á bóluefni gegn COVID-19.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi vísað þessu atriði til nýrrar meðferðar hjá embætti landlæknis með úrskurði nr. 1017/2021 frá 14. júní 2021. Í kjölfarið hafi embættið neitað kæranda um aðgang að samningnum. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt embætti landlæknis með erindi, dags. 17. ágúst 2021, og veittur frestur til að skila umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Umsögnin barst þann 6. september 2021. Þar kemur fram að heilbrigðisráðuneytið hafi sent sóttvarnalækni hinn umbeðna samning til upplýsinga. Sóttvarnalæknir hafi ekki fengið afrit af öðrum samningum sem varða kaup Íslands á bóluefnum vegna COVID-19. Samningurinn innihaldi upplýsingar um virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni og falli því undir takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hagsmunirnir séu enn fyrir hendi í ljósi þess að heimsfaraldur ríki enn og þörf á að bólusetja gegn sjúkdómnum sé enn til staðar. Nauðsynlegt verði að ganga til samninga við framleiðendur bóluefna um kaup á fleiri skömmtum. Í samningnum sé gert ráð fyrir að hann skuli fara leynt og mikilvægt að viðhalda trúnaðartrausti sem ríki á milli samningsaðilanna.<br /> <br /> Að mati embættis landlæknis á synjunin einnig stoð í 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem umbeðin gögn hafi að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir standi til að fari leynt. Samskipti samningsaðila standi enn yfir og tryggja þurfi að þau geti farið fram frjálst og óhindrað. Loks er bent á úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1037/2021, þar sem deilt var um rétt til aðgangs að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19. M.a. hafi verið um að ræða hinn umbeðna samning.<br /> <br /> Umsögn embættis landlæknis var kynnt kæranda með erindi, dags. 7. september 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samningi, sem er í vörslum embættis landlæknis, og er milli íslenska ríkisins, sænska ríkisins og Moderna Switzerland GmbH um kaup á bóluefnum gegn COVID-19. Af hálfu embættisins hefur komið fram að heilbrigðisráðuneytið hafi sent sóttvarnalækni afrit af samningnum til upplýsinga.<br /> <br /> Ákvörðun embættis landlæknis um synjun beiðni kæranda byggist annars vegar á því að samningurinn hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni framleiðenda bóluefnanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsinglaga, en hins vegar á því að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að aðgangur kæranda verði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Í athugasemdum við síðarnefnda ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Ákvæðið á við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Þeir hagsmunir sem hér er verið að vernda eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.“<br /> <br /> Auk þess segir orðrétt:<br /> <br /> „Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða er ljóst að varfærni er eðlileg við skýringu á ákvæðinu.“<br /> <br /> Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Í úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur verið fallist á það sjónarmið að til að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi kunni að vera rétt að samskipti, sem fari fram á þeim vettvangi, séu undanþegin upplýsingarétti á meðan samskiptin standa yfir. Þannig megi meðal annars tryggja að samskipti geti farið fram frjálst og óhindrað. Við matið er litið til eðlis þessara samskipta og hvort líta megi á þau sem ófullgerð vinnugögn eða endanlega afgreiðslu mála. Þá er að mati úrskurðarnefndarinnar jafnframt rétt að líta til þess hvort samskiptin snúi að viðkvæmum málefnum, samskiptaleiðum sem hætta er á að lokist ef upplýsingar sem þaðan berast yrðu á almannavitorði, eða öðrum atriðum sem þykja raunverulega geta leitt til þess að traust erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana á íslenskum stjórnvöldum glatist. Ákvæðið verður hins vegar ekki túlkað svo rúmt að stjórnvöld geti, með vísan til mikilvægis trúnaðar, takmarkað aðgang að öllum gögnum er varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir án atviksbundins mats, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. A-326/2009, 770/2018 og 898/2020. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að skilyrðið um almannahagsmuni væri þá í reynd þýðingarlaust.<br /> <br /> Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1037/2021 frá 27. ágúst 2021 var fjallað um rétt til aðgangs að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum í vörslum heilbrigðisráðuneytisins. Samningurinn sem kærandi krefst aðgangs að var á meðal umbeðinna gagna í málinu. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að líta beri á samningana sem samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Enn fremur taldi úrskurðarnefndin einsýnt að birting samninganna í heild eða að hluta væri til þess fallin að skerða það trúnaðartraust sem ríkir á milli samningsaðilanna, þ.e. íslenska ríkisins, sænska ríkisins, sem kemur fram fyrir hönd Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi, og lyfjaframleiðendanna. Afhending samninganna gæti leitt til þess afhending bóluefna raskaðist og að samningsstaða ríkisins vegna frekari kaupa á bóluefnum breyttist til hins verra.<br /> <br /> Í máli þessu hafa ekki komið fram röksemdir sem breyta þessu mati úrskurðarnefndarinnar. Verður því að líta svo á að hin kærða ákvörðun fái stoð í 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, þar sem umbeðinn samningur hefur að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir standa til að fari leynt. Það fær ekki breytt þessari niðurstöðu að almenningur eigi almennt ríkan rétt á að kynna sér samninga hins opinbera við einkaaðila sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjármagns. Verður í því sambandi að leggja áherslu á að birting samningsins án samþykkis samningsaðila og staðfesting íslenskra stjórnvalda á efni hans getur haft í för með sér sömu afleiðingar og áður er lýst, þ.e. að samningsaðilar íslenska ríkisins neyti vanefndaúrræða gagnvart ríkinu með hugsanlegri röskun á afhendingu bóluefna sem og skerðingu á samningsstöðu íslenska ríkisins við frekari kaup á bóluefnum.<br /> <br /> Að fenginni þessari niðurstöðu er að mati úrskurðarnefndarinnar óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga eru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs að samningnum.<br /> <br /> Kæranda var ekki leiðbeint um rétt til kæru til úrskurðarnefndarinnar skv. 20. gr. laganna, svo sem skylt er samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Því er beint til embættis landlæknis að gæta að þessu framvegis.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er ákvörðun embættis landlæknis, dags. 13. ágúst 2021, um synjun beiðni kæranda um aðgang að afriti af samningi íslenska ríkisins við lyfjafyrirtækið Moderna um kaup á bóluefni gegn COVID-19.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br />

1047/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni um aðgang að minnisblöðum og skyldum gögnum sem lögð voru í trúnaði fyrir fundi borgarráðs. Af hálfu Reykjavíkurborgar var vísað til þess hluti gagnanna varðaði almannahagsmuni, sbr. 10. gr. upplýsingalaga, þá væri um að ræða virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni lögaðila sem og fjármál og tekjuöflun sveitarfélagsins, sbr. 9. gr. upplýsingalaga og 122. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Loks taldi sveitarfélagið öll umbeðin gögn vinnugögn í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fór yfir gögnin og lagði fyrir Reykjavíkurborg að veita kæranda aðgang að tilteknum hlutum þeirra.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1047/2021 í máli ÚNU 21060018. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 28. júní 2021, kærði A ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að Reykjavíkurborg hafi á undanförnum árum stigið þó nokkur jákvæð skref í að efla gagnsæi og hafi m.a. sett sér metnaðarfulla upplýsingastefnu í þessum tilgangi. Þannig hafi borgin áður birt öll gögn sem lögð voru fram í borgarráði á vefsíðu sinni með fundargerðum ráðsins. Á síðastliðnum árum hafi borgin hins vegar sleppt því að birta sum af þeim gögnum sem lögð eru fram í ráðinu og tiltekið að með einhverjum dagskrárliðum ráðsins séu lögð fram trúnaðarmerkt fylgiskjöl. Þessum trúnaðarmerktu fylgiskjölum sé dreift til meðlima ráðsins sem reikna megi með að deili þeim með aðstoðarfólki sínu og öðrum sem þeir leita ráðgjafar hjá enda komi fram í þeim mikilvægar forsendur þeirra ákvarðana sem borgarráð tekur.<br /> <br /> Á fundi borgarráðs þann 20. maí 2021 hafi verið lögð fram slík trúnaðarmerkt fylgiskjöl undir<br /> dagskrárliðum 13-22 þar sem fjallað hafi verið um forsendur milljarða útgjalda Reykjavíkurborgar samkvæmt fréttum fjölmiðla. Kærandi hafi því óskað með tölvupósti þann 25. maí 2021 eftir upplýsingum um þessi fylgiskjöl sem og afritum af þeim. Kærandi ítrekaði erindið þann 4. júní 2021 og óskaði einnig eftir sambærilegum upplýsingum og afritum skjala sem lögð voru fram á fundi borgarráðs þann 3. júní 2021. <br /> <br /> Með erindi, dags. 9. júní 2021, afgreiddi Reykjavíkurborg beiðnir kæranda. Borgin veitti kæranda aðgang að nokkrum skjölum að hluta en synjun beiðni um aðgang að því sem eftir stóð var studd við 5. tölul. 10. gr. og 5. tölul 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með erindi borgarinnar, dags. 14. júní, var ákvörðunin rökstudd frekar og vísað til 2. og 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga varðandi minnisblað vegna viðræðna við Neyðarlínuna. Um greinargerð fjárstýringarhóps um skuldabréfaútboð Reykjavíkur var vísað til 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga, auk reglna um innherjaupplýsingar, einkum 4. mgr. 122. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.<br /> <br /> Kærandi segir að umbeðin gögn hafi óumdeilanlega verið lögð fram á fundum borgarráðs og í samræmi við lýðræðishefðir séu slík gögn opinber gögn. Hafi þau verið bundin trúnaði sé ljóst að með framlagningu í borgarráði sé sá trúnaður ekki lengur fyrir hendi. Skjölin skýri frá mikilvægum forsendum ákvarðana sem borgarráð taki þar sem um verulega fjármuni almennings sé að ræða. Með því að neita að afhenda almenningi framlögð skjöl í borgarráði sé unnið gegn tilgangi upplýsingalaga og möguleikar almennings til aðhalds takmarkaðir. Slíkt sé enda ólýðræðislegt, almenningur geti þá hvorki veitt stjórnsýslunni aðhald né þeim kjörnu fulltrúum sem stjórnsýsla borgarinnar hafi gert að halda trúnað um það sem óneitanlega séu hagsmunir almennings. Það fordæmi sem sett sé með neitun á afhendingu þessara trúnaðarmerktu fylgiskjala sé afar slæmt. Vel kunni að vera að sveitarfélög þurfi í undantekningartilfellum að upplýsa kjörna fulltrúa um einhver atriði sem bundin séu trúnaði. Gögn um slíkt séu þá ekki lögð fram á vettvang hinna lýðræðislega kjörnu ráða. Kærandi kveðst þekkja vel a.m.k. eitt dæmi um það sem átt hafi sér stað á fundi borgarráðs 17. febrúar 2020 undir lið 29. Þar hafi fulltrúi í ráðinu beðið borgarlögmann um að lagt yrði fram tiltekið skjal. Borgarlögmaður hafi ritað borgarráði bréf þar sem því hafi verið hafnað á þeim forsendum að þetta væri vinnuskjal en borgarráðsfulltrúum leyft að kynna sér efni þess á skrifstofu borgarstjórnar. Borgarlögmaður hafi áréttað að minnisblaðið væri ekki til afritunar, birtingar, deilingar eða dreifingar. <br /> <br /> Kærandi telur tilvísanir borgarinnar til rafrænna öryggishagsmuna til réttlætingar synjuninni afar ótrúverðugar. Það sé nær útilokað að þeir sem ábyrgð bera á rafrænum öryggishagsmunum<br /> Reykjavíkurborgar hafi stefnt þeim hagsmunum í hættu með því að upplýsa kjörna fulltrúa og<br /> aðstoðarmenn þeirra um atriði sem leynt eiga að fara. Að mati kæranda er líklegra að Reykjavíkurborg noti þetta sem tylliástæðu til þess að halda gögnum leyndum sem snerti ríka<br /> fjárhagslega hagsmuni almennings. Kærandi fer því fram á að nefndin endurskoði þetta mat í ljósi þess hvaða rafrænu öryggishagsmuni sé verið að vernda og hvort þeir séu meiri en hagsmunir almennings af birtingu. Hafi nefndin ekki forsendur til þess að endurskoða mat Reykjavíkurborgar í þessu efni fer kærandi fram á að nefndin kalli sér til ráðgjafar og aðstoðar<br /> sérfróðan aðila eins og nefndinni er heimilt sbr. 2. mgr. 21. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með erindi, dags. 29. júní 2021, og veittur frestur til að skila umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Umsögnin barst þann 20. júlí 2021. Þar kemur í upphafi fram að hin kærða ákvörðun hafi varðað synjun beiðni kæranda um aðgang að eftirfarandi gögnum í heild sinni:<br /> <br /> • Minnisblaði: „Heimild til að hefja innkaup vegna endurnýjunar á netskápum og netskiptum“, dags. 13. maí 2021.<br /> • Minnisblaði: „Heimild til að hefja útboðsferli á úthýsingu tölvuvélasala í gagnaver“, dags. 13. maí 2021.<br /> • Minnisblaði: „Heimild til að hefja undirbúning, innkaup og innleiðingu á öryggis- og aðgangskerfi stjórnsýsluhúsa“, dags. 12. maí 2021.<br /> • Drögum að minnisblaði: „Tilboð um kaup á hlutum Reykjavíkurborgar í Neyðarlínunni ohf.“, dags. 7. apríl 2021.<br /> • Greinargerð fjárstýringarhóps, dags. 2. júní 2021.<br /> <br /> Þá sé um að ræða synjun beiðni kæranda um aðgang að eftirfarandi minnisblöðum að hluta:<br /> <br /> • „Heimild til að fara í útboð og innleiðingu á nýju síma- og samskiptakerfi Reykjavíkurborgar“, dags. 12. maí 2021.<br /> • „Heimild til að framhalda allsherjar innleiðingu á fjarfundarbúnaði“, dags. 17. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja innkaupaferli vegna innleiðingar á Microsoft Office 365 á alla starfstaði borgarinnar“, dags. 13. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja kaup og innleiðingu á kerfi til að halda utan um hugbúnaðarleyfi og búnað“, dags. 13. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja útboð og innleiðingu á alþjónustu á prentumhverfi fyrir alla starfstaði Reykjavíkurborgar“, dags. 12. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja útboðsferli á rafrænu fræðslukerfi fyrir Reykjavíkurborg“, dags. 14. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja útboðsferli á rafrænu starfsumsóknarkerfi fyrir Reykjavíkurborg“, dags. 24. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja kaup, innleiðingu og þróun á gagnavinnslustöð“, dags. 21. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja umbætur á veflægu viðburðadagatali Reykjavíkurborgar“, dags. 27. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja kaup á kerfi og uppsetningu á veflægu skipuriti fyrir vef Reykjavíkurborgar“, dags. 27. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja innkaup á gæða- og öryggiskerfi til að halda utan um og hafa eftirlit með heilsu vefsvæða borgarinnar“, dags. 27. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja kaup á og uppsetningu á kerfiseiningum fyrir vélþýðingar og kaup á vinnu við yfirlestur“, dags. 27. maí 2021.<br /> • „Heimild til að hefja undirbúning, innkaup og innleiðingu á innanhúsleiðsögukorti fyrir stjórnsýsluhús“, dags. 26. maí 2021.<br /> <br /> Af hálfu Reykjavíkurborgar kemur fram að umbeðin gögn varði m.a. fyrirhuguð innkaupaferli og afmáðar hafi verið upplýsingar um áætlaðan kostnað verkefnanna. Jafnframt hafi kæranda verið synjað um aðgang að gögnum sem hafi að geyma upplýsingar um öryggismál og tillögu borgarstjóra um viðræður um sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Neyðarlínunni ohf. og fyrirhugað skuldabréfaútboð borgarinnar. Þá eru í umsögninni rakin ákvæði 5. tölul. 10. gr., 5. tölul. 6. gr. og 8. gr. upplýsingalaga auk athugasemda við ákvæðin í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum.<br /> <br /> Reykjavíkurborg segir að þau gögn sem kærandi hafi fengið aðgang að að hluta varði tillögur þjónustu- og nýsköpunarsviðs undir liðum 13 og 15-19 á fundi borgarráðs 20. maí 2021 og 14-20 á fundi ráðsins 3. júní 2021. Einungis hafi verið afmáðar upplýsingar um áætlaðan kostnað verkefna. Fyrirhugað sé að bjóða út verkefnin með innkaupaferlum á grundvelli laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og innkaupareglna Reykjavíkurborgar. Með því að upplýsa um áætlaðan kostnað verkefna fengju bjóðendur fyrir fram upplýsingar um kostnaðaráætlun borgarinnar. Við framkvæmd útboða og innkaupaferla sé venjan sú að kostnaðaráætlun sé haldið leyndri fyrir bjóðendum fram yfir opnun tilboða. Það sé gert til að tryggja samkeppni og jafnræði milli bjóðenda í samræmi við meginreglu opinberra innkaupa sem birtist í 15. gr. laga um opinber innkaup sem og að afla kaupanda hagstæðustu tilboðunum frá bjóðendum. Verði umbeðnar upplýsingar gerðar opinberar geti það leitt til þess að bjóðendur bjóði hærri verð sem hafi í för með sér meiri kostnað fyrir borgina. Af þessu sé ljóst að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að takmarka aðgang kæranda að umbeðnum gögnum þar sem þau geymi upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir sem myndu ekki skila tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í umsögninni segir loks að öll þau gögn sem kæranda hafi verið synjað um, bæði að hluta og öllu leyti, teljist einnig til vinnugagna í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Gögnin hafi verið trúnaðarmerkt á fundum borgarráðs og séu öll undirbúningsgögn. Þá sé ekki að sjá að eitthvert þeirra atriða sem nefnd eru í 1.-4. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna eigi við um gögnin.<br /> <br /> Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með erindi, dags. 22. júlí 2021 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.<br /> <br /> Athugasemdir kæranda bárust þann 3. ágúst 2021. Þar ítrekar kærandi sjónarmið um að umbeðin gögn hafi öll verið lögð fram í borgarráði fyrir kjörna fulltrúa. Reykjavíkurborg hafi haft annan hátt á þegar upplýsa hafi þurft kjörna fulltrúa um atriði bundin trúnaði. Þá vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 734/2018 frá 6. apríl 2018 en í því máli hafi Reykjavíkurborg haldið því fram að minnisblað hafi ekki verið afhent öðrum og vísað sérstaklega til þess að það hafi ekki verið lagt fyrir fund umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. Sú afstaða verði ekki skilin öðruvísi en að ef minnisblaðið hefði verið lagt fram í umhverfis- og skipulagsráði þá hefði borginni borið að afhenda það, enda hafi hefðin verið sú að gögn sem lögð eru fram í ráðum á vegum borgarinnar séu opinber gögn.<br /> <br /> Af hálfu kæranda kemur loks fram að borgarráð sé lýðræðislega kjörið ráð sem kjörnir fulltrúar skipi. Gögn sem lögð eru fram í ráðinu séu mikilvægar forsendur ákvarðana sem þar eru teknar. Til þess að kjósendur geti sinnt lýðræðislegu aðhaldshlutverki sínu sé afar nauðsynlegt að gagnsæi ríki um þessi störf eins og hefðin hafi verið fyrir utan síðustu ár. Almenningur verði að geta lagt mat á störf kjörinna fulltrúa miðað við þær forsendur sem þeir hafi. Sú leyndarhyggja sem felist í því að leggja fram leyniskjöl í borgarráði grafi undan möguleikum almennings á slíku aðhaldi.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum Reykjavíkurborgar, þ.e. minnisblöðum og skyldum gögnum sem lögð voru í trúnaði fyrir fundi borgarráðs. Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess varðandi hluta umbeðinna gagna að afmáðar hafi verið upplýsingar um kostnaðaráætlanir borgarinnar vegna fyrirhugaðra útboða þar sem um væri að ræða upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Þá byggist synjun á beiðni kæranda um aðgang að tilteknum gögnum í heild sinni á því að um sé að ræða upplýsingar um ráðstafanir sem ætlað er að tryggja öryggi rafrænna gagna, virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni lögaðila og fyrirhugaðar ráðstafanir er varði fjármál og tekjuöflun sveitarfélagsins. Í þessu sambandi vísar borgin einnig til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en jafnframt til 9. gr. laganna, auk 122. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Loks byggir Reykjavíkurborg á því að öll umbeðin gögn teljist til vinnugagna í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. <br /> <br /> 2.<br /> Um orðasambandið „fyrirhugaðar ráðstafanir“ í 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga segir eftirfarandi í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögunum:<br /> <br /> „Markmið þessa ákvæðis er að hindra að nokkur geti aflað sér á ótilhlýðilegan hátt vitneskju um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera. Með ráðstöfunum á vegum ríkis og sveitarfélaga er m.a. átt við fyrirhugaðar ráðstafanir í fjármálum, svo sem aðgerðir í gjaldeyrismálum, skattamálum, tollamálum og öðrum málum er varða tekjuöflun hins opinbera. Ákvæði þetta getur þannig í sumum tilvikum verndað sömu hagsmuni og ákvæði 3. tölul. Hér undir falla einnig ráðstafanir sem ætlað er að tryggja öryggi, svo sem fyrirhugaðar eftirlitsaðgerðir lögreglu og annarra yfirvalda í þágu umferðaröryggis. Enn fremur er heimilt samkvæmt þessum tölulið að takmarka aðgang almennings að gögnum sem lúta að fyrirhuguðum ráðstöfunum í kjaramálum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja jafnræði í kjarasamningum hins opinbera og viðsemjenda þess. Undanþágunni verður einnig beitt í tengslum við hagræðingu og breytingu í rekstri opinberra stofnana og fyrirtækja.“<br /> <br /> Þá segir enn fremur:<br /> <br /> „Ákvæðið gerir ráð fyrir því að stjórnvald meti sjálfstætt í hverju tilviki hverjar afleiðingar það hefði ef ljóstrað yrði upp um fyrirhugaðar ráðstafanir. Séu líkur á því að árangur skerðist, þótt ekki sé nema að litlu leyti, mundi stjórnvaldi að öllu jöfnu vera heimilt að synja um að veita umbeðnar upplýsingar á grundvelli þessa ákvæðis. Þegar þær ráðstafanir eru afstaðnar sem 5. tölul. tekur til er almenningi heimill aðgangur að gögnunum nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Með vísun til annarra takmarkana samkvæmt lögunum er vísað til þess að þau kunni að innihalda upplýsingar um einkamálefni manna eða önnur atriði sem leynt eiga að fara af öðrum ástæðum en 10. gr. frumvarpsins tekur til.“<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur áður fjallað um rétt almennings og þátttakenda í opinberum útboðum til aðgangs að kostnaðaráætlunum opinberra aðila í tengslum við útboðin. Þannig hefur jafnan verið komist að þeirri niðurstöðu að skylt sé að veita aðgang að slíkum gögnum eftir að tilboð hafa verið opnuð, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 646/2016, 647/2016 og 848/2019. Öðru máli gegnir um kostnaðaráætlanir vegna verkefna sem ekki hafa enn verið boðin út. Þannig var t.d. fallist á það með Landsneti hf. í úrskurði nr. 638/2016 að kostnaðaráætlanir vegna framkvæmda sem ekki höfðu verið boðnar út teldust til gagna um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsins sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. þágildandi laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Þá var það niðurstaða nefndarinnar í úrskurði nr. 993/2021 að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefði verið heimilt að synja beiðni um aðgang að kostnaðaráætlunum varðandi framkvæmdakostnað verkefna við gerð nýs Landspítala, sem ekki höfðu enn verið boðin út, á grundvelli 3. og 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá má geta þess að í úrskurði nr. A-522/2014 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að kostnaðaráætlanir gætu að öðrum skilyrðum uppfylltum talist til vinnugagna í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga.<br /> <br /> Eins og hér stendur á liggur fyrir að í þeim gögnum sem kærandi fékk afhent að hluta voru einungis afmáðar upplýsingar um kostnaðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna verkefna sem til stóð að bjóða út í samræmi við lög um opinber innkaup. Af hálfu Reyjavíkurborgar hefur komið fram að upplýsingarnar verði gerðar opinberar eftir að tilboð verða opnuð, svo sem venja er í opinberum útboðum. Við þessar aðstæður má fallast á það með Reykjavíkurborg að slíkar upplýsingar geti haft verðmyndandi áhrif, verði þær gerðar opinberar og var borginni því heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim þegar beiðni hans kom fram á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. <br /> <br /> 3.<br /> Hvað varðar þau gögn sem kæranda var synjað um aðgang að í heild sinni hefur Reykjavíkurborg eins og áður greinir vísað til þess að um vinnugögn sé að ræða. Til þess að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt 1. mgr. 8. gr. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Skoðun úrskurðarnefndarinnar á gögnunum hefur leitt í ljós að þau bera með sér að hafa verið unnin af starfsmönnum Reykjavíkurborgar til undirbúnings ákvarðana um tiltekin mál þar sem bakgrunni er lýst, helstu staðreyndum sem máli skipta og velt upp mögulegum valkostum. Gögnin uppfylla þannig fyrstu tvö skilyrði þess að teljast vinnugögn og ekki er ástæða til að vefengja fullyrðingar Reykjavíkurborgar um að þau hafi ekki verið afhent utanaðkomandi aðilum.<br /> <br /> Enda þótt fallist sé á með borginni að skjölin uppfylli efnisleg skilyrði þess að teljast vinnugögn þarf að kanna hvort önnur rök standi til að veita almennan aðgang að þeim. Samkvæmt ákvæði 1.-4. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga ber stjórnvöldum að veita aðgang að vinnugögnum í vissum tilvikum, þ.e. þegar þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls, upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr. laganna, upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram eða lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Með orðalaginu „upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram“, sbr. 3. tölul. málsgreinarinnar, er einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa haft áhrif á ákvarðanatöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Samsvarandi undanþágu frá upplýsingarétti aðila máls og fram kemur í 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. er að finna í stjórnsýslulögum.<br /> <br /> Í þessu sambandi horfir úrskurðarnefndin til þess að öll gögnin lýsa umfangsmiklum fyrirhuguðum verkefnum af hálfu Reykjavíkurborgar sem krefjast ráðstöfunar umtalsverðs opinbers fjármagns. Að mati úrskurðarnefndarinnar innihalda minnisblöðin að miklu leyti upplýsingar sem eru ómissandi til skýringar á þessum ákvörðunum og því standa viss rök til að almenningi verði veittur aðgangur að þeim. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur aftur á móti komið fram að skjölin innihaldi viðkvæmar upplýsingar um öryggi rafrænna gagna, virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni lögaðila og fyrirhugaðar ráðstafanir er varði fjármál og tekjuöflun sveitarfélagsins. Hér á eftir verður farið yfir hvert skjal með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum.<br /> <br /> Minnisblaðið „Heimild til að hefja innkaup vegna endurnýjunar á netskápum og netskiptum“ er dags. 13. maí 2021 og er tvær blaðsíður. Að mati úrskurðarnefndarinnar inniheldur minnisblaðið að nær öllu leyti upplýsingar sem eru ómissandi til skýringar á ákvarðanatöku Reykjavíkurborgar og ekki er að finna annars staðar, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Hins vegar er fallist á það með Reykjavíkurborg að minnisblaðið hafi að litlu leyti að geyma upplýsingar um öryggismál sem utanaðkomandi gæti nýtt sér til að valda borginni skaða. Þá er jafnframt að finna upplýsingar um áætlaðan kostnað verkefnisins, sem ekki hefur enn verið boðið út, sbr. niðurstöðu að framan. Verður því Reykjavíkurborg gert að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu en heimilt er þó að afmá hluta þess á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga eins og nánar greinir í úrskurðarorði.<br /> <br /> Minnisblaðið: „Heimild til að hefja útboðsferli á úthýsingu tölvuvélasala í gagnaver“ er dags. 13. maí 2021 og er þrjár blaðsíður. Um er að ræða áform um umfangsmiklar framkvæmdir sem kostaðar yrðu með opinberu fé og eru upplýsingarnar sem skjalið hefur að geyma að mati úrskurðarnefndarinnar ómissandi til skýringar á ákvarðanatöku Reykjavíkurborgar. Þær takmörkuðu upplýsingar sem varða öryggismál eru að mati nefndarinnar of almennar til að Reykjavíkurborg eða öðrum sé nokkur hætta búin þótt þær verði aðgengilegar almenningi. Verður því Reykjavíkurborg gert að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu en heimilt er þó að afmá hluta þess sem varðar heildarkostnað á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Minnisblaðið: „Heimild til að hefja undirbúning, innkaup og innleiðingu á öryggis- og aðgangskerfi stjórnsýsluhúsa“ er dags. 12. maí 2021 og þrjár blaðsíður. Skjalið hefur að geyma upplýsingar sem eru að mati úrskurðarnefndarinnar ómissandi til skýringar á ákvarðanatöku Reykjavíkurborgar varðandi málið en þó er að finna takmarkaðar upplýsingar um öryggismál og heildarkostnað sem verður að játa borginni heimild til að afmá áður en skjalið er afhent kæranda. Verður því Reykjavíkurborg gert að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.<br /> <br /> Skjalið „Skuldabréfaútboð - Greinargerð“ er dags. 2. júní 2021 og er sjö blaðsíður. Í skjalinu er bakgrunni og valkostum vegna áætlaðs skuldabréfaútboðs lýst en það hefur nú farið fram. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru allar upplýsingar sem ómissandi eru til skýringar á ákvarðanatöku Reykjavíkurborgar að finna annars staðar í skilningi 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, en allar helstu upplýsingar um útboðið hafa birst opinberlega af hálfu borgarinnar. Verður því fallist á það með Reykjavíkurborg að um vinnugagn sé að ræða og ákvörðun um synjun beiðni kæranda staðfest að þessu leyti.<br /> <br /> Loks eru á meðal umbeðinna gagna drög að minnisblaðinu „Tilboð um kaup á hlutum Reykjavíkurborgar í Neyðarlínunni ohf.“ Drögin eru dags. 7. apríl 2021 og eru sex blaðsíður. Í skjalinu er farið yfir sögu eignarhlutar Reykjavíkurborgar í Neyðarlínunni ohf. og velt upp hugsanlegum valkostum. Endanleg niðurstaða málsins birtist í samningi um sölu á hlutafé Reykjavíkurborgar í Neyðarlínunni ohf., sem var samþykktur á fundi borgarráðs þann 1. júlí 2021. Við þessar aðstæður er fallist á það með Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að synja beiðni kæranda á grundvelli þess að um vinnugagn hafi verið að ræða í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga og ákvörðun borgarinnar staðfest að þessu leyti.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Reykjavíkurborg er skylt að veita kæranda, A, aðgang að eftirfarandi gögnum:<br /> <br /> • Minnisblaðinu „Heimild til að hefja innkaup vegna endurnýjunar á netskápum og netskiptum“, dags. 13. maí 2021. Þó er heimilt að afmá efnisgreinina sem hefst á orðunum: „Netlagnaskáparnir“ og endar á „búnaði“ á fyrri blaðsíðu skjalsins auk upplýsinga um áætlaðan heildarkostnað á síðari blaðsíðu skjalsins.<br /> • Minnisblaðinu „Heimild til að hefja útboðsferli á úthýsingu tölvuvélasala í gagnaver“, dags. 13. maí 2021. Þó er heimilt að afmá upplýsingar um áætlaðan heildarkostnað á þriðju blaðsíðu skjalsins.<br /> • Minnisblaðinu „Heimild til að hefja undirbúning, innkaup og innleiðingu á öryggis- og aðgangskerfi stjórnsýsluhúsa“, dags. 12. maí 2021. Þó er heimilt að afmá efnisgreinina sem hefst á orðunum; „Þá eru“ og endar á „starfsfólks“ á fyrstu blaðsíðu, efnisgreinina sem hefst á: „Sama gildir“ og endar á „bregðast“ á annarri blaðsíðu auk upplýsinga um áætlaðan heildarkostnað á þriðju blaðsíðu skjalsins.<br /> <br /> Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br />

1046/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Óskað var eftir því að úrskurðarnefndin endurupptæki mál sem lyktaði með úrskurði nr. 779/2019. Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021 í máli nr. 10055/2019 taldi úrskurðarnefndin rétt að verða við endurupptökubeiðni kæranda og taka málið til nýrrar meðferðar. Við hina endurteknu málsmeðferð kom í ljós að Vegagerðin hafði afhent kæranda þau gögn sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 779/2019 og fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis. Var því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1046/2021 í máli ÚNU 21030005. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 5. mars 2021, fór A, f.h. Stapa ehf., fram á endurupptöku máls ÚNU 18050022 sem lauk þann 5. apríl 2019 með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 779/2019. Í málinu vísaði úrskurðarnefndin frá kæru vegna afgreiðslu Vegagerðarinnar á beiðni kæranda um aðgang að glærum sem starfsmaður Vegagerðarinnar sýndi á erlendri ráðstefnu á þeim grundvelli að umbeðin gögn teldust ekki stafa frá stofnuninni. Er það krafa kæranda að úrskurðarnefndin úrskurði um skyldu Vegagerðarinnar til þess að afhenda honum umrædd gögn.<br /> <br /> Beiðni sinni til stuðnings vísar kærandi í álit umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021, í máli nr. 10055/2019, en þar komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hefði ekki leyst úr máli kæranda í samræmi við lög. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá kæranda, og leysti úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem lýst var í álitinu. Í beiðni kæranda, dags. 5. mars 2021, segir jafnframt að honum finnist úrskurðarnefndin ekki hafa staðið rétt að fyrri úrskurðum og ekki fært fyrir því nægilega sterk rök að synja honum um aðgang að umbeðnum gögnum.<br /> <br /> Með erindi, dags. 22. mars 2021, upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að í kjölfar álits umboðsmanns hefði kærandi verið í samskiptum við Vegagerðina. Þann 5. mars 2021 sendi kærandi Vegagerðinni bréf þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um viðbrögð Vegagerðarinnar við áliti umboðsmanns og fór fram á að fá glærurnar afhentar. Þann 7. mars 2021 óskaði kærandi eftir frekari upplýsingum og gögnum. Vegagerðin svaraði kæranda þann 15. mars 2021 og afhenti honum jafnframt glærurnar. Í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar segir kærandi að þrátt fyrir þetta telji hann óhjákvæmilegt að nefndin afgreiði beiðni um endurupptöku í samræmi við tilmæli umboðsmanns. Annað væri ekki ásættanlegt þar sem kærandi hafi í framhaldinu óskað eftir því að Vegagerðin afhenti honum fleiri glærur sem viðkomandi starfsmaður hefði sýnt á öðrum ráðstefnum sem stofnunin hefði kostað hann á. Tæki úrskurðarnefndin málið ekki til málefnalegrar afgreiðslu myndi hann kæra slíkan gjörning til umboðsmanns Alþingis og fylgja þeirri kæru til fullnustu.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021, í máli nr. 10055/2019, taldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál rétt að fallast á endurupptökubeiðni kæranda.<br /> <br /> Í framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis kom m.a. fram að úrskurðarnefndinni hefði borið að leggja mat á efnisleg tengsl innihalds glæranna við viðfangsefni starfsmannsins hjá Vegagerðinni og þar með hvort og hvernig hann greindi þar frá verkefnum stofnunarinnar og hvort slík upplýsingagjöf teldist þáttur í starfi hennar. Með erindi, dags. 29. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin því eftir því að Vegagerðin upplýsti nefndina um hvort og þá hvaða efnislegu tengsl innihald glæranna hefði við störf og verkefni umrædds starfsmanns hjá Vegagerðinni.<br /> <br /> Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 12. maí 2021, segir að stofnunin hafi synjað beiðni kæranda um að afhenda glærurnar á þeim grundvelli að þær væru eign viðkomandi starfsmanns. Vegagerðin vísar til þess að í leiðbeiningum Þjóðskjalasafns komi fram að ekki eigi að vista í skjalasafni ráðstefnugögn vegna ráðstefna sem ekki séu haldnar af viðkomandi stofnun eða varði ekki beint starfsemi hennar. Skylda til afhendingar viðkomandi gagna sé því ekki fyrir hendi. Tekið er fram að stofnunin leggist ekki gegn afhendingu ráðstefnuglæra almennt, heimili viðkomandi starfsmaður afhendinguna. Í ljósi framangreinds sé það afstaða Vegagerðarinnar, þrátt fyrir álit umboðsmanns Alþingis, að fyrri afgreiðsla á málinu hafi verið lögum samkvæm. <br /> <br /> Þá fjallaði Vegagerðin um tengsl glæranna við störf starfsmannsins hjá stofnuninni og rakti umfjöllunarefni fyrirlestrarins í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar. Þar sagði m.a. að það hefði þýðingu fyrir starf starfsmannsins hjá Vegagerðinni að hann tæki virkan þátt í ráðstefnum á sínu fagsviði í því skyni að afla sér nýrrar þekkingar og tengsla í fræðaheiminum. Þekking sem þannig væri aflað gæti haft þýðingu við úrlausn vandamála í verkefnum hans hjá Vegagerðinni. Í fyrirlestrinum hefði þó ekki verið vikið sérstaklega að tilgreindum verkefnum starfsmannsins hjá Vegagerðinni. Fyrirlesturinn hefði ekki haft beina tengingu við starfsemi Vegagerðarinnar heldur alfarið verið hugverk viðkomandi starfsmanns og meðfyrirlesara hans. Í umsögninni segir jafnframt að Vegagerðin hafi, að fengnu samþykki starfsmannsins, veitt kæranda aðgang að ráðstefnuglærunum. Því sé það afstaða Vegagerðarinnar að kærandi hafi enga hagsmuni af því að fá málið endurupptekið.<br /> <br /> Umsögn Vegagerðarinnar var kynnt kæranda með erindi, dags. 19. maí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 31. maí 2021, lýsir kærandi því að talsvert af því efni sem sýnt hafi verið í ráðstefnuerindi starfsmanns Vegagerðarinnar og meðfyrirlesara hans sé ekki þeirra hugverk heldur kæranda, þrátt fyrir staðhæfingar í umsögn Vegagerðarinnar. Þá fjallar kærandi um verkefni sín og reynslu af grjótnámurannsóknum og segir að hann en ekki viðkomandi starfsmaður Vegagerðarinnar hafi borið hitann og þungann af grjótnámurannsóknum fyrir þróun íslenska Bermugarðsins sem fjallað var um í fyrirlestrinum.<br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu óskaði kærandi eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál endurupptæki mál ÚNU 18050022 sem lauk þann 5. apríl 2019 með úrskurði nr. 779/2019 og gerði Vegagerðinni skylt að afhenda þær glærur sem fjallað er um í umræddum úrskurði<br /> <br /> Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021 í máli nr. 10055/2019 taldi úrskurðarnefndin rétt að verða við endurupptökubeiðni kæranda og taka málið til nýrrar meðferðar. Í umræddu áliti umboðsmanns Alþingis var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hefði ekki rannsakað málið nægilega vel og leitaði því nefndin að nýju til Vegagerðarinnar um frekari upplýsingar líkt og rakið er í málsmeðferðarkafla hér að framan.<br /> <br /> Við hina endurteknu málsmeðferð kom í ljós að Vegagerðin hefur nú afhent kæranda þær glærur sem fjallað var um í máli ÚNU 18050022 sem lauk þann 5. apríl 2019 með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 779/2019 og fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis.<br /> <br /> Kærandi telur engu að síður tilefni til þess að úrskurðarnefndin úrskurði í málinu þar sem slíkur úrskurður kunni að hafa þýðingu fyrir afgreiðslu Vegagerðarinnar á frekari beiðnum um gögn sem hann hefur nú lagt fram eða hyggst leggja fram hjá stofnuninni.<br /> <br /> Samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 er heimilt að bera „synjun beiðni um aðgang að gögnum“ samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þegar svo háttar til að stjórnvald afhendir umbeðin gögn til kæranda er ekki litið svo á að honum hafi verið synjað um gögnin og leiðir það til þess að kæru er vísað frá úrskurðarnefndinni. Gildir þetta hvort sem stjórnvald fellst á afhendingu fyrir eða eftir kæru til úrskurðarnefndarinnar.<br /> <br /> Að því er varðar aðrar beiðnir kæranda um gögn hjá Vegagerðinni, eða þær beiðnir sem hann kann að leggja fram í framtíðinni, er það að segja að honum er eftir atvikum heimilt að kæra synjanir á þeim til úrskurðarnefndar um upplýsingamál séu kæruskilyrði samkvæmt lögum að öðru leyti uppfyllt.<br /> <br /> Í ljósi framangreinds verður ekki hjá því komist að vísa erindi kæranda frá kærunefndinni.<br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Beiðni A, dags. 5. mars 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingmál. <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1045/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

A kærði afgreiðslu Alþingis á beiðni um að gögn um tiltekin fund undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa yrðu gerð aðgengileg á vefnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að ákvörðun um aðgang að gögnum í vörslum Alþingis væri ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga. Sama gilti um ákvörðun Alþingis um synjun beiðni kæranda um að tiltekin gögn verði birt á vefnum en slíkar ákvarðanir heyra almennt ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Varð því að vísa kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1045/2021 í máli ÚNU 21110005. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 5. nóvember 2021, kærði A afgreiðslu Alþingis á beiðni um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Kæru fylgdi afrit af bréfi skrifstofustjóra Alþingis til kæranda, dags. 4. nóvember 2021, en þar kemur fram að beiðnin varði aðgang að gögnum undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Kærandi hafi óskað aðgangs að öllum gögnum nefndarinnar með vísan til þess að þau væru ekki öll aðgengileg á þeirri gagnagátt sem nefndin hafi komið sér upp á vef Alþingis. Þá hafi kærandi óskað eftir því að upptaka af fundi kæranda og annarra með nefndinni yrði gerð opinber á vefsvæði nefndarinnar auk upptaka af öðrum fundum nefndarinnar. Í bréfinu kemur fram að öll gögn nefndarinnar séu birt á vef Alþingis utan tiltekinna gagna sem gerð er nánari grein fyrir. Ekki verði veittur aðgangur að gögnum sem vísað sé til í bréfum lögreglustjórans á Vesturlandi þar sem þau séu merkt trúnaðarmál af hálfu lögreglu og hafi verið afhent nefndinni í trúnaði. Hvað varði upptökur eða uppritun á fundum nefndarinnar er vísað til þess að fundirnir hafi verið lokaðir og uppritun þeirra gerð í þeim tilgangi að þingmenn geti kynnt sér gögn málsins og tekið ákvörðun þegar Alþingi fjallar um gildi kosninganna, sbr. 5. gr. verklagsreglna nefndarinnar. Í þessu ljósi hyggist nefndin ekki veita aðgang að uppritunum eða upptökum frá fundum með gestum. Þá verði einnig að líta til þess að efni uppritananna geti skipt máli fyrir sakamál, sbr. til hliðsjónar 17. gr. stjórnsýslulaga. Loks var kæranda veittur aðgangur að tilteknum skjölum.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að ákvörðun Alþingis samrýmist augljóslega ekki sjónarmiðum um meðalhófsreglu þar sem um sé að ræða höfnun á að birta upptöku af fundi sem kærandi hafi setið með nefndinni og allir sem mættu til fundarins séu einhuga um að rétt sé að birta. Þar hafi komið fram nýjar upplýsingar sem ekki sé að finna í skriflegum kærum, m.a. vegna þess að brugðist hafi verið við svörum kjörstjórna við kærunum. Almenningur hljóti að eiga ríka hagsmuni af því að geta fylgst með störfum nefndarinnar sem hafi áður lýst því yfir að störf hennar skuli vera gegnsæ. Kærandi fái ekki séð að synjunin samræmist meginreglu um gegnsæja og málefnalega stjórnsýslu eða ákvæðum upplýsingalaga. <br /> <br /> Kærandi segir hina kærðu afstöðu hafa veruleg áhrif á andmælarétt sinn. Hún sé sérstaklega alvarleg í ljósi þess að efni nefndarinnar varði ljóslega alla kjósendur á Íslandi. Gagnsæi í störfum nefndarinnar sé mikilvægt til að hægt sé að fylgja kærum eftir efnislega en einnig til að skapa þá ásýnd sem nauðsynleg sé fyrir traust almennings á störfum Alþingis að þessu mikilvæga verkefni.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt skrifstofu Alþingis með erindi, dags. 5. nóvember 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. <br /> <br /> Í umsögn Alþingis, dags. 9. nóvember 2021, kemur í upphafi fram að undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa sé sérstök nefnd skipuð þingmönnum sem starfi á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Um störf hennar gildi ákvæði þingskapa og starfsreglur fastanefnda Alþingis, eftir því sem við geti átt og lög heimili, sbr. ákvörðun nefndarinnar frá 6. október 2021, sem og verklagsreglur nefndarinnar sem hún hafi samþykkt þann 8. október 2021. Viðfangsefni nefndarinnar sé að undirbúa þá rannsókn kjörbréfa sem fram fari á þingsetningarfundi og sé því liður í störfum þingsins. Um aðgang að gögnum nefndarinnar fari eftir því sem nánar sé ákveðið í þingsköpum og verklagsreglum nefndarinnar.<br /> <br /> Í umsögninni kemur enn fremur fram að Alþingi sé einn þriggja arma ríkisvaldsins í skilningi 2. mgr. stjórnarskrárinnar. Að því marki sem hlutverk eða störf Alþingis séu ekki útfærð í stjórnarskrá útfæri Alþingi sjálft störf sín með þingsköpum, sbr. 58. gr. stjórnarskrár. Með breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með lögum nr. 72/2019 hafi Alþingi markað sér þá stefnu að um stjórnsýslu Alþingis fari eftir upplýsingalögum. Í lögum um þingsköp Alþingis sé jafnframt kveðið á um að um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis fari samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 1. mgr. 93. gr. laganna. Í 2. mgr. greinarinnar séu ákvæði um nánari útfærslu þeirrar reglu og sé m.a. vísað til reglna sem forsætisnefnd setji. Í 2. gr. upplýsingalaga komi fram að ákvæði V.-VII. kaflar laganna taki ekki til Alþingis. Með vísan til þessa þyki ljóst að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki það hlutverk að lögum að taka til meðferðar kærur er lúta að synjun Alþingis um afhendingu gagna eða upplýsinga. Til þess beri einnig að líta að Alþingi skipuleggi störf sín sjálft og það sé ekki meðal hlutverka framkvæmdarvaldsins að hafa með beinum hætti eftirlit með störfum þess. Því sé í raun öfugt farið. <br /> <br /> Umsögn Alþingis var kynnt kæranda með erindi, dags. 10. nóvember 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, sem bárust þann 11. nóvember 2021, kemur fram að kærandi óski eftir því að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort rétt sé að mál þetta heyri ekki undir nefndina. Kærandi sé ósammála þeirri lagatúlkun sem fram komi í umsögn Alþingis og telji einstaklega mikilvægt í ljósi sérstöðu þessa máls að fá úr því skorið hver afstaða úrskurðarnefndarinnar sé til þess hvort kæruheimild sé til staðra. Þá telur kærandi sjónarmið í umsögn Alþingis að vissu leyti gagnstæð þeim sem fram komu í hinni kærðu ákvörðun.<br /> <br /> Kærandi bendir jafnframt á að beiðnin hafi lotið að því að nefndin geri opinbera á vefsvæði sínu upptöku af fundi með nefndinni sem fram fór að morgni 25. október 2021. Þar hafi mætt fjórir kærendur kosninganna og óumdeilt sé að allir hafi óskað eftir því að upptaka af þessum tiltekna fundi yrði gerð opinber. Það sé því um að ræða gífurlega litla hagsmuni sem ljóst sé að ekki gildi nokkurs konar trúnaður um enda sé ætlunin að nota upptökuna til að sýna öllum þingmönnum hana. Þá hafi nefndarformaður undirbúningskjörbréfanefndar sagt í viðtali að starf nefndarinnar yrði gagnsætt og fundir skyldu vera opnir þegar þess gæfist kostur. Frá þeirri afstöðu hafi ekki verið horfið opinberlega að því er virðist.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Alþingis á beiðni kæranda um að gögn um tiltekinn fund undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa verði gerð aðgengileg á vefnum.<br /> <br /> Með lögum nr. 72/2019 sem tóku gildi þann 11. júní 2019 var gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 víkkað út á þann hátt að lögin tækju einnig til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. Ákvæði V.–VII. kafla upplýsingalaga taka þó ekki til Alþingis eða stofnana þess skv. lokamálslið 4. mgr. 2. gr. laganna. Í þessu felst að ákvörðun um aðgang að gögnum í vörslum Alþingis er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga. Sama gildir um ákvörðun Alþingis um synjun beiðni kæranda um að tiltekin gögn verði birt á vefnum en rétt er að taka fram að slíkar ákvarðanir heyra almennt ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar, sbr. til hliðsjónar úrskurð nr. 612/2016 frá 7. mars 2016. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 5. nóvember 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson <br /> varaformaður<br /> <br /> <br /> Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason <br /> <br /> <br /> <br />

1044/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Deilt var um afgreiðslu Borgarholtsskóla á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða launamál starfsmanna skólans. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu í málinu að Borgarholtsskóla væri skylt að veita kæranda upplýsingar um launakjör æðsta stjórnanda, skjal fjármálastjóra um heildarlaun starfsmanna skólans og gögn sem sýna sundurliðun launakostnaðar. Ákvörðun skólans um að synja beiðni kæranda um skjal vegna undirbúnings greiðslu viðbótarlauna var hins vegar staðfest enda féllst nefndin á að um væri að ræða vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1044/2021 í máli ÚNU 21020030. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 25. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu Borgarholtsskóla á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Kærandi óskaði eftir upplýsingum um launamál starfsmanna með erindi, dags. 5. október 2020, en kærandi var fulltrúi kennara í samstarfsnefnd um endurskoðun stofnanasamnings Borgarholtsskóla og Kennarasambands Íslands. Hann átti í nokkrum samskiptum við stjórnendur skólans þar sem hann ítrekaði beiðni sína en þann 17. nóvember 2020 sendi kærandi skólameistara Borgarholtsskóla uppfærða upplýsingabeiðni í fimm liðum þar sem óskað var eftir eftirfarandi:<br /> <br /> 1. Upplýsingum um föst launakjör og fastar greiðslur allra sem þiggja laun samkvæmt samningum Kennarasambands Íslands og eiga undir stofnanasamning Borgarholtsskóla.<br /> 2. Upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda.<br /> 3. Gögnum sem lágu að baki yfirlýsingu fjármálastjóra um yfirvinnu á einstaka sviðum. <br /> 4. Gögnum úr ársskýrslu um laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað í Borgarholtsskóla vegna áranna 2015 og 2016.<br /> 5. Gögnum um skipun, störf og niðurstöðu sanngirnisnefndar.<br /> <br /> Þann 22. desember 2020 ítrekaði kærandi beiðnina og tók fram að tafla með föstum launakjörum, sbr. 1. lið, væri komin fram en að önnur gögn hefðu enn ekki verið afhent. Þá bætti kærandi við beiðni sína samkvæmt 5. lið og óskaði að auki gagna vegna viðbótarlauna sem komu til eftir að beiðnin var lögð fram. Sama dag svaraði Borgarholtsskóli því að öllum spurningum hefði verið svarað og að um laun embættismanna væri fjallað á vef Stjórnarráðsins og Félags forstöðumanna ríkisstofnana en það væru allt opinberar tölur. Sanngirnisnefndin væri hópur starfsfólks sem fenginn hefði verið til ráðgjafar fyrir ákvarðanatöku skólameistara, væri ekki formlegri nefnd en það. Varðandi upplýsingar um rekstrarkostnað skólans var vísað í ársreikninga. Viðbótarlaun hefðu verið ákvörðuð af skólameistara vegna annarlegs ástands í samfélaginu sökum farsóttar sem torveldað hefði eðlileg störf kennara.<br /> <br /> Í kæru segir að kærandi hafi einungis fengið gögn sem heyri undir fyrri helminginn af 1. lið í beiðni hans, þ.e. upplýsingar um „föst launakjör“ starfsmanna, en önnur umbeðin gögn hafi ekki verið gerð aðgengileg. Þá kemur fram að í aðdraganda jafnlaunavottunar Borgarholtsskóla í júní 2020 hafi verið haldnir kynningafundir og námskeið fyrir starfsmenn og þá hafi vaknað margar spurningar um laun sem ekki hafi náðst að spyrja eða fá svör við. Síðasta vetur hafi svo komið í ljós af samanburðagögnum frá Kennarasambandi Íslands að laun í Borgarholtsskóla væru að lækka, bæði grunn- og heildarlaun, miðað við aðra skóla, sem vakið hafi enn fleiri spurningar. Kærandi hafi verið kosinn sem fulltrúi Kennarafélags Borgarholtsskóla í samstarfsnefnd og skoðun á stofnanasamningi sem kallað hafi á enn fleiri gögn. Að lokum hafi skólameistari sett á fót „sanngirnisnefnd“ vegna Covid-19 sem hafi úthlutað skattfrjálsum heilsustyrk. Kennurum hefði verið mismunað við úthlutunina og styrkurinn numið allt frá 10.000 til 60.000 kr. án þess að nokkrar skýringar kæmu fram. Greiðslurnar hafi verið utan kjarasamnings en skólameistari neiti bæði aðgengi að gögnum um á hvaða forsendum ákvörðun hafi verið tekin og að gefa skýringu á mismunandi greiðslum. Því hafi kærandi óskað allra gagna málsins en kærandi vísar í 7. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um rétt almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna og 8. gr. þar sem fjallað er um vinnugögn sem beri að afhenda.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var send Borgarholtsskóla með bréfi, dags. 9. mars 2021, þar sem því var beint til kærða að afgreiða beiðni kæranda, sbr. 17. og 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þann 23. mars 2021 barst úrskurðarnefndinni afrit af erindi skólans til kæranda þar sem fjallað var um beiðnina og farið yfir það hvaða upplýsingar kæranda hefðu þegar verið veittar. Í fyrsta lagi hefðu nú upplýsingar um föst launakjör til allra starfsmanna verið veittar. Fastar greiðslur væru engar til starfsfólks sem þiggi laun samkvæmt kjarasamningi KÍ fyrir utan að stjórnendur fengju greiddan farsímakostnað. Í öðru lagi væri skólameistari einn æðsti stjórnandi og var vísað á vef Stjórnarráðsins um upplýsingar um starfskjör embættismanna. Skólameistari teldi óheimilt að veita upplýsingar um laun fjármálastjóra. Í þriðja lagi væru gögn sem lægju að baki yfirlýsingu um yfirvinnu vinnugögn og ekki skylt að útbúa ný skjöl vegna beiðni þar um. Í fjórða lagi varðandi laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað vegna áranna 2015 og 2016 var vísað á vef skólans þar sem ársreikningar væru birtir. Í fimmta lagi varðandi gögn um skipun, störf og niðurstöðu sanngirnisnefndar sagði að yfirstjórn hefði leitað til nokkurra kennara frá ólíkum deildum skólans um ráðgjöf. Ekki hefði verið um eiginlega nefnd að ræða heldur hefði nafnið sanngirnisnefnd verið vinnuheiti fyrir ferlið við að ákveða viðbótarlaun. Greitt hefði verið samkvæmt starfshlutfalli kennara á vorönn 2020 og upphæðin hefði verið ákvörðuð af skólameistara með hliðsjón af fjárheimildum skólans.<br /> <br /> Kærandi gerði athugasemdir við þessa afgreiðslu skólans, þann 30. mars 2021. Þar segir að öllum beiðnum kæranda nema þeirri fyrstu sé enn ósvarað. Varðandi 2. liðinn telji kærandi að veita beri upplýsingar um greidd heildarlaun æðstu stjórnenda, sbr. ákvæði upplýsingalaga. Ekki sé fullnægjandi að skólinn vísi í launatöflu skólameistara hvað heildarlaun varði og ekki séu veittar upplýsingar um laun fjármálastjóra. Varðandi 3. liðinn er því mótmælt að um vinnugögn geti verið að ræða og vísað á umfjöllun um jafnlaunavottunarferlið á vef Stjórnarráðsins þar sem m.a. er rætt um gagnsæi og réttlæti. Varðandi 4. liðinn segir að í ársreikningum 2015 og 2016 komi ekki fram sundurliðun á kostnaði vegna launa, launatengdra gjalda og starfsmannakostnaðar, eins og fram komi 2017 og eftir það. Varðandi 5. liðinn segir að skólameistari vísi í nefnd kennara sem hafi lagt fram hugmyndir en kennarar í nefndinni segi allar ákvarðanir hafi verið skólameistara. Um sé að ræða opinbert fé sem sé greitt kennurum eftir ákvörðun skólameistara. Í ljós hafi komið að kennurum hafi verið mismunað með greiðslur og því sé óskað eftir öllum gögnum málsins með vísun í upplýsingalög.<br /> <br /> Athugasemdir kæranda voru kynntar skólanum þann 23. apríl 2021 en úrskurðarnefndin óskaði þá jafnframt eftir umsögn frá skólanum um kæruna og afritum af umbeðnum gögnum. Í umsögn Borgarholtsskóla, dags. 7. maí 2021, kemur fram að skólinn telji sig hafa eftir fremsta megni orðið við beiðnum kæranda og jafnframt lagt sig fram um að brjóta ekki persónuverndarlög eða önnur lagaákvæði. Í umsögninni segir að skólinn telji sig ekki hafa heimild til að veita upplýsingar um heildarlaun starfsmanna skólans, sbr. 2. lið beiðni kæranda. Þá segir varðandi 3. liðinn að gögn sem liggi að baki yfirlýsingu fjármálastjóra um yfirvinnu séu vinnugögn við undirbúning jafnlaunavottunar. Borgarholtsskóli standi í þeirri trú að ekki beri að veita aðgang að almennum vinnuskjölum. Hvað varði þau gögn sem óskað sé eftir undir 4. lið beiðninnar segir að skólinn hafi lítið að gera með birtingarform ársreikninga og ekkert sé því til fyrirstöðu að birta umbeðna sundurliðun. Varðandi 5. liðinn kemur fram að svokölluð sanngirnisnefnd hafi aldrei verið skipuð og hafi þar af leiðandi ekkert erindisbréf. Yfirstjórn skólans hafi ákveðið að einn fulltrúi í yfirstjórninni, þ.e. áfangastjóri, skyldi hóa saman fjórum kennurum úr ólíkum deildum til samráðs um hugmyndir. Málið hafi síðan verið rætt á fundi yfirstjórnar þar sem áfangastjóri hafi lagt fram minnisblað og skólameistari tekið ákvörðun út frá þeirri umræðu og upplýsingum um fyrirkomulag viðbótarlauna. Það fyrirkomulag hafi öllum verið gert ljóst á starfsmannafundi og ekkert undanskilið í þeim efnum. Greidd hafi verið viðbótarlaun að ákveðinni upphæð eftir starfshlutfalli starfandi kennara á viðkomandi önn og hafi það þótt sanngjarnt. <br /> <br /> Umsögn skólans var send kæranda með bréfi, dags. 10. maí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 25. maí 2021, er því mótmælt að skólameistara sé óheimilt að birta heildarlaun stjórnenda með vísan til 4. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Varðandi 3. liðinn segir kærandi að gögnin geti ekki talist vinnugögn þar sem þau hafi verið búin til vegna jafnlaunavottunar skólans og niðurstöður kynntar á fjölmennum fundi starfsmanna. Þar sem búið sé að „afhenda“ gagnið öðrum eða kynna niðurstöðurnar á fundi þá teljist gagn ekki lengur vinnugagn. Einnig bendir kærandi á að samkvæmt 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga skuli veita aðgang að skjali komi upplýsingar ekki fram annars staðar og almenningur eigi rétt á að kynna sér gögn þar sem fram komi lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Varðandi 4. liðinn bendir kærandi á að þó að skólameistari segist tilbúinn að birta umbeðna sundurliðun hafi hún enn ekki verið afhent. Þá komi heildarlaunakostnaður áranna 2015 og 2016 ekki fram á ársreikningi þeirra ára. Varðandi 5. liðinn hafi skólameistari rakið málið með sanngirnisnefnd og minnist á mörg gögn en neiti að afhenda gögnin. Yfirstjórn skólans hafi „ákveðið“ (væntanlega sé til fundargerð), áfangastjóri hafi lagt fram „minnisblað”, skólameistari hafi tekið „ákvörðun“ um fyrirkomulag viðbótarlauna. og greidd hafi verið viðbótarlaun að „ákveðinni upphæð“. Því óski kærandi eftir að fá í það minnsta eftirfarandi gögn: a) allar fundargerðir yfirstjórnar sem fjalli um málefni sanngirnisnefndar, b) minnisblað áfangastjóra, c) afrit af ákvörðun skólameistara, d) lista með upphæðum sem greiddar hafi verið og önnur gögn um sanngirnisnefndina, með vísun til 5. mgr. 7. gr. upplýsingalaganna.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem varða launamál starfsmanna Borgarholtsskóla. Kærandi setti beiðni sína, dags. 17. nóvember 2020, fram í fimm liðum og sneri sá fyrsti að föstum launum og föstum greiðslum til starfsmanna. Við meðferð málsins veitti skólinn kæranda upplýsingar þar að lútandi og kemur sá hluti kærunnar því ekki til frekari umfjöllunar. <br /> <br /> 2. <br /> Í beiðni kæranda var í öðru lagi óskað eftir gögnum með upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda, með vísan til 4. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Í svörum Borgarholtsskóla sagði að skólameistari teldist einn til æðstu stjórnenda og að upplýsingar varðandi launakjör hans væru aðgengilegar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins eins og allra annarra embættismanna ríkisins en skólinn lét fylgja tengla á reglur um starfskjör forstöðumanna, grunnmat launa og röðun starfa í launaflokka. Í öðru svari skólans kom fram að skólinn teldi sér ekki heimilt að veita upplýsingar um heildarlaun einstakra starfsmanna skólans. <br /> <br /> Réttur kæranda til aðgangs að gögnum er reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem kveðið er á um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga tekur sá réttur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Frá þeirri reglu eru undantekningar sem meðal annars koma fram í 2. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 3. tölul. ákvæðisins er skylt að veita almenningi upplýsingar um föst launakjör starfsmanna. Þá er skylt að veita almenningi upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda samkvæmt 4. tölul. <br /> <br /> Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 er tekið fram að með föstum launakjörum er m.a. átt við ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunna að liggja fyrir um föst laun starfsmanns. Rétturinn til aðgangs nær þannig til gagna sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn á rétt til. Jafnframt felst í þessu að óheimilt er að veita upplýsingar um greidd heildarlaun opinbers starfsmanns, hvort sem þau eru hærri en föst laun hans, t.d. sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri af einhverjum ástæðum, svo sem vegna launafrádráttar af sérstökum ástæðum. Hvað varðar upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda hjá stjórnvöldum segir hins vegar í athugasemdunum að veita skuli upplýsingar um greidd heildarlaun. Samkvæmt framangreindu á almenningur rýmri rétt til aðgangs að upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda heldur en annarra opinberra starfsmanna.<br /> <br /> Um afmörkun á því hvaða starfsmenn teljist til æðstu stjórnenda hjá ríkinu segir:<br /> <br /> „Við mat á því hvort um er að ræða æðstu stjórnendur hjá ríkinu má almennt ganga út frá því að um sé að ræða forstöðumenn ríkisstofnana. Er í því sambandi eðlilegt við nánari afmörkun að líta til fyrirmæla 2. tölul. og 5.–13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Utan þeirrar upptalningar falla þó almennir lögreglumenn og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni. Til æðstu stjórnenda ber hér einnig að telja skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, enda fara þeir alla jafna með stjórnunarheimildir gagnvart öðrum starfsmönnum í umboði ráðuneytisstjóra, sbr. 17. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum.“<br /> <br /> Í 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir, teljist starfsmenn ríkisins. Þá sker ráðherra úr því hvaða starfsmenn falla undir 13. tölul. 1. mgr. sbr. 2. mgr. 22. gr. laganna og skal hann fyrir 1. febrúar ár hvert birta lista í Lögbirtingarblaði yfir þá starfsmenn. Samkvæmt lista yfir forstöðumenn, dags. 1. febrúar 2021, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti, er skólameistari Borgarholtsskóla forstöðumaður skólans. <br /> <br /> Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla segir að ráðherra skipi skólameistara í framhaldsskólum til fimm ára í senn. Þá veitir skólameistari framhaldsskóla forstöðu sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Af athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 92/2008 er einnig ljóst að „forræði og ábyrgð skólameistara sem forstöðumanns ríkisstofnunar og almennt stjórnunarumboð hans er skýrt og telst áþekkt því sem almennt gerist um forstöðumenn ríkisstofnana.“<br /> <br /> Í ljósi þessa telst skólameistari Borgarholtsskóla einn til æðstu stjórnenda skólans og er skólanum skylt að veita upplýsingar um heildarlaun hans. Þannig nægir ekki að vísa á almennar upplýsingar um launakjör, svo sem launatöflur embættismanna. Verður afgreiðsla skólans að þessu leyti felld úr gildi og lagt fyrir skólann að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum. Þetta ber skólanum að gera jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli, sbr. 5. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, heldur ber að taka þær sérstaklega saman í tilefni af beiðni kæranda.<br /> <br /> Hvað varðar beiðni kæranda um upplýsingar um laun fjármálastjóra skólans er skylt að veita upplýsingar um föst launakjör hans eins og annarra opinberra starfsmanna, en ætla má að það hafi þegar verið gert, sbr. umfjöllun um 1. lið í beiðni kæranda.<br /> <br /> 3.<br /> Í þriðja lagi óskaði kærandi eftir gögnum sem lágu að baki yfirlýsingu fjármálastjóra um yfirvinnu á einstaka sviðum. Borgarholtsskóli synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að þau gögn sem legið hefðu að baki yfirlýsingu fjármálastjóra hefðu verið vinnugögn við undirbúning jafnlaunavottunar. <br /> <br /> Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga eru vinnugögn undanþegin upplýsingarétti. Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í 2. málslið málsgreinarinnar er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna, felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að gögnum sem skýra ber þröngri lögskýringu. <br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd, það skuli útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það megi ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin séu af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur til vinnugagna.<br /> <br /> Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist þau til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin fékk afhent afrit af minnisblaði fjármálastjóra sem ber yfirskriftina „Heildarlaun og það sem hefur áhrif á þau“ þar sem meðal annars er fjallað um yfirvinnu, sbr. beiðni kæranda. Í minnisblaðinu eru nokkrar staðreyndir um launamál starfsmanna skólans en engar tillögur, sjónarmið eða annað sem getur beinlínis talist hluti af undirbúningi ákvörðunar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Verður skjalið því ekki undanþegið upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að aðrar takmarkanir upplýsingalaga eigi við um það og er Borgarholtsskóla því gert að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna. <br /> <br /> 4.<br /> Í beiðni kæranda var óskað eftir gögnum úr ársskýrslu um laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað í Borgarholtsskóla vegna áranna 2015 og 2016. Í svari Borgarholtsskóla, dags. 23. mars 2021 var kæranda bent á ársreikninga á vef skólans en í skýringum Borgarholtsskóla til úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. maí 2021, kom m.a. fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að birta umbeðna sundurliðun launa- og starfsmannakostnaðar fyrir árin 2015 og 2016. Þá fékk úrskurðarnefndin afhent afrit af umbeðnum gögnum og beinir nefndin því til skólans að afhenda kæranda gögnin sömuleiðis, hafi það ekki þegar verið gert.<br /> <br /> 5.<br /> Loks óskaði kærandi jafnframt eftir öllum gögnum um skipun, störf og niðurstöðu sanngirnisnefndar, sem bregðast átti við auknu álagi og kostnaði kennara vegna Covid-19. Af hálfu skólans hefur komið fram að eitt skjal heyri undir þessa beiðni en að öðru leyti hafi undirbúningur málsins verið óformlegur. Ákvörðun skólans um að synja beiðni kæranda um aðgang að skjalinu byggist á því að það sé vinnugagn og þar með undanþegið upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Í skjalinu sé ekki að finna endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls.<br /> <br /> Borgarholtsskóli afhenti úrskurðarnefndinni skjalið sem áfangastjóri lagði fram en þar eru tillögur að greiðslum, forsendur og útreikningur vegna viðbótarlauna starfsmanna skólans. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber skjalið með sér að vera undirbúningsgagn vegna hugsanlegra ákvarðana eða lykta máls og er ekki að sjá að það hafi verið sent út fyrir skólann eða að það stafi frá utanaðkomandi aðilum. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til annars en að staðfesta ákvörðun skólans að þessu leyti.<br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Borgarholtsskóla er skylt að veita kæranda, A, aðgang að eftirfarandi gögnum:<br /> <br /> 1. Upplýsingum um launakjör æðsta stjórnanda.<br /> 2. Skjali fjármálastjóra sem ber yfirskriftina „Heildarlaun og það sem hefur áhrif á þau.“<br /> 3. Gögnum sem sýna sundurliðun launakostnaðar vegna áranna 2015 og 2016. <br /> <br /> Ákvörðun Borgarholtsskóla, dags. 22. desember 2020, um að synja beiðni kæranda um skjal vegna undirbúnings greiðslu viðbótarlauna er staðfest. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldson<br /> <br /> <br />

1043/2021. Úrskurður frá 19. október 2021.

Kærð var ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að gögnum er varða spilakassarekstur. Ráðuneytið taldi óheimilt að afhenda innsend erindi Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands enda hefðu þau að geyma upplýsingar um virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni aðilanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndarinnar vörðuðu gögnin ekki slíka hagsmuni. Var ákvörðunin því felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að afhenda kæranda gögnin.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 19. október 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1043/2021 í máli ÚNU 21040003. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 9. apríl 2021, kærði A, f.h. Samtaka áhugafólks um spilafíkn, afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi hafi þann 18. febrúar 2021 óskað eftir afritum af öllum innsendum erindum til dómsmálaráðuneytisins frá Íslandsspilum sf. eða Happdrætti Háskóla Íslands sem snúa að úrbótum eða tillögum að spilakortum á árunum 2010-2020. Einnig hafi verið óskað eftir afritum af öðrum erindum frá þessum leyfishöfum sem snúa að rekstri spilakassa. <br /> <br /> Þann 1. mars 2021 hafi kærandi sent aðra beiðni og óskað eftir upplýsingum og gögnum er varði fyrirspurnir, beiðni eða mál sem borist hefðu ráðuneytum varðandi spilakassarekstur, þ.e. hvort rekstraraðilar hafi sent erindi eða ósk um undanþágu frá sóttvarnaraðgerðum. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvort þeir hefðu óskað eftir eða krafist fjárstyrks vegna lokunar spilakassa. Loks var óskað eftir erindum er lytu að spilakortum eða úrbótum sem sneru að takmörkunum á fjárhæðum eða tímamörkum.<br /> <br /> Kærunni fylgdi afrit af bréfi dómsmálaráðuneytisins til kæranda, dags. 22. mars 2021. Þar kemur m.a. fram að ráðuneytinu hafi borist erindi á því tímabili sem fyrri beiðni kæranda lýtur að. Athugun ráðuneytisins á þeim erindum varði öll markaðsmál eða hugsanlegar lagabreytingar og tilraunir til úrbóta á rekstri fyrirtækjanna. Þeim sé beint til ráðuneytisins sem fagráðuneytis í happdrættismálum sem fari með stefnumótun í málaflokknum. Í gögnunum komi einkum fram upplýsingar um stöðu félaganna á happdrættismarkaði, markaðshlutdeild og samkeppni og varði þær mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni þessara aðila. Ráðuneytið hafi óskað eftir afstöðu Happdrættis Háskóla Íslands og Íslandsspila sf. til beiðni kæranda. Í svörum beggja aðila sé lagst gegn því að ráðuneytið verði við beiðninni. Ráðuneytið telji að umbeðin gögn séu upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt og heyri þar af leiðandi undir 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt dómsmálaráðuneyti með erindi, dags. 12. apríl 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Umsögn ráðuneytisins barst þann 3. maí 2021. Þar kemur m.a. fram að mat ráðuneytisins sé að beiðnir kæranda séu fremur óskýrar en það skilji þær sem svo að verið sé að spyrja um innsend erindi er varði spilakassa og lúti annars vegar að spilakortum og hins vegar að öðrum innsendum erindum er snúi að úrbótum á rekstri spilakassa. Í tilefni af beiðnunum hafi ráðuneytið farið yfir þau mál Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands á árunum 2010-2020 sem mögulega geti varðað atriði sem fyrirspurnir kæranda lúta að. Í samræmi við 17. gr. upplýsingalaga hafi verið talið rétt að leita álits þessara lögaðila áður en ákvörðun var tekin. Báðir aðilar hafi lýst sig mótfallna afhendingu gagnanna með hliðsjón af mikilvægum virkum fjárhags- og viðskiptahagsmunum fyrirtækjanna. Í kjölfarið hafi ráðuneytið lagt mat á hvert og eitt þeirra gagna sem tekin voru saman með tilliti til þess hvort rétt væri að undanþiggja þau aðgangi almennings. Það hafi verið mat ráðuneytisins að þau hefðu í öllum tilvikum að geyma það mikilvægar upplýsingar um virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi lögaðila, sem og samkeppnisstöðu þeirra, að þau heyrðu undir 2. málsl. 9. gr. laganna. Sú afstaða hafi ekki eingöngu byggst á afstöðu lögaðilanna.<br /> <br /> Dómsmálaráðuneytið tekur fram í umsögn sinni að þegar betur sé að gáð lúti mörg þeirra gagna sem tekin hafi verið saman ekki að efni fyrirspurnarinnar. Þá geti ráðuneytið ekki fallist á það sjónarmið kæranda að fjárhags- eða viðskiptahagsmunir eigi ekki við um starfsemi þá sem hér um ræðir á þeirri forsendu að með starfsemi sinni afli lögaðilarnir fjár til góðra málefna. Til að ná sem bestum ágóða af rekstri fyrirtækjanna hljóti almenn viðskiptaleg sjónarmið að eiga við eins og um annan rekstur, auk þess sem samkeppni ríki á þessum markaði. Loks tekur ráðuneytið fram að við nánari yfirferð umbeðinna gagna hafi ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að afhenda beri kæranda hluta nokkurra skjala.<br /> <br /> Umsögn dómsmálaráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 5. maí 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Af hálfu kæranda kemur m.a. fram að hann telji að þau skjöl sem ráðuneytið hafi veitt aðgang að séu ófullnægjandi. Þá eigi rök ráðuneytisins ekki við þar sem um sé að ræða fjáröflun góðgerðasamtaka og opinberrar stofnunar. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum dómsmálaráðuneytisins sem varða samskipti þess við tvo lögaðila, Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil sf., um rekstur spilakassa. Beiðni kæranda var upphaflega synjað í heild sinni með vísan til þess að gögnin innihéldu upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni ákvað ráðuneytið hins vegar að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum að hluta.<br /> <br /> Meginreglan um rétt almennings til aðgangs að gögnum kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 9. gr. upplýsingalaga er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna. Nánar tiltekið kemur fram í 1. málslið greinarinnar að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“<br /> <br /> Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:<br /> „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.“<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað þau gögn sem dómsmálaráðuneytið synjaði kæranda um aðgang að með hliðsjón af þessum sjónarmiðum. Um er að ræða erindi sem Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil sf. sendu dómsmálaráðuneytinu á tímabilinu 2010-2020 og varða úrbætur og rekstur spilakassa. Þá hefur ráðuneytið jafnframt tekið saman innsend erindi frá þessum aðilum sem varða önnur atriði en vegna afmörkunar kæranda á beiðnum sínum koma þau ekki til frekari skoðunar í máli þessu. Umbeðin gögn eiga það sameiginlegt að lúta að fjárhags- og viðskiptahagsmunum lögaðila í skilningi 9. gr. upplýsingalag. Til að ákvarða rétt kæranda til aðgangs að þeim kemur hins vegar til álita hvort þeir hagsmunir séu nægjanlega mikilvægir til að sanngjarnt teljist og eðlilegt að sá réttur verði takmarkaður, líkt og ákvæðið áskilur.<br /> <br /> Í fyrsta lagi kemur til skoðunar minnisblað sem barst dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu frá Happdrætti Háskóla Íslands, dags. 2. nóvember 2010. Í minnisblaðinu er óskað afstöðu ráðuneytisins vegna svokallaðs greiðslumiðakerfis og breytinga á vottunarfyrirkomulagi og er svar ráðuneytisins dags. þann 8. nóvember 2010. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geta minnisblaðið og svar ráðuneytisins ekki talist innihalda upplýsingar af því tagi sem fjallað er um í 9. gr. upplýsingalaga. Er þar litið til þess að þær takmörkuðu upplýsingar sem fram koma um starfsemi Happdrættis Háskóla Íslands eru um tíu ára gamlar og að upplýsingar um samstarf þess við erlendan aðila birtast á vef þess. Ekki verður þannig séð að upplýsingarnar geti valdið nokkru tjóni, komist þær á almannavitorð, og engar vísbendingar um slíkt verða ráðnar af umsögn ráðuneytisins eða afstöðu Happdrættis Háskóla Íslands til beiðni kæranda. Þessi gögn verða því ekki talin varða nægjanlega mikilvæga hagsmuni í skilningi 9. gr. upplýsingalaga til að réttur kæranda til aðgangs að þeim verði takmarkaður á grundvelli ákvæðisins.<br /> <br /> Í öðru lagi kemur til skoðunar bréf Happdrættis Háskóla Íslands til innanríkisráðuneytisins, dags. 20. mars 2012. Bréfið ber þess vitni að vera svar við bréfi ráðuneytisins, dags. 7. mars 2012. Kæranda hefur verið veittur aðgangur að bréfinu að hluta en afmáðar hafa verið upplýsingar á þremur stöðum, þ.e. beinar tilvitnanir í bréf ráðuneytisins og viðbrögð Happdrættis Háskóla Íslands. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geta slík viðbrögð og ábendingar fyrir um níu árum ekki talist til upplýsinga um mikilvæga og virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Happdrættis Háskóla Íslands í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, ekki síst þegar litið er til þess um hversu almenn atriði er að ræða. Ekki verður séð að afhending upplýsinganna til kæranda sé til þess fallinn að valda nokkru fjártjóni og lúta þær því ekki að mikilvægum hagsmunum í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í þriðja lagi verður tekin afstaða til aðgangs kæranda að bréfi Íslandsspila sf. til innanríkisráðuneytisins, dags. 12. júní 2012. Bréfið varðar heimild félagsins til samtengingar söfnunarkassa og tillögur að lagabreytingum í því skyni. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál getur umleitan af þessu tagi ekki talist til upplýsinga um mikilvæga og virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Íslandsspila sf. í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, einkum með hliðsjón af aldri upplýsinganna og þeirrar staðreyndar að ekki er að finna vísbendingar um viðskiptaleyndarmál eða önnur viðkvæm atriði í bréfinu. Sú staðreynd að félagið hafi talið sig standa höllum fæti gagnvart öðrum aðilum vegna samtengingar spilakassa getur ekki raskað samkeppnisstöðu þess og í bréfinu eru engar aðrar upplýsingar sem samkeppnisaðilar félagsins eða aðrir geta hagnýtt sér á kostnað þess.<br /> <br /> Í fjórða lagi kemur til skoðunar bréf Íslandsspila sf. til innanríkisráðuneytisins, dags. 14. mars 2013, þar sem óskað er eftir heimild til að hækka vinninga og hækka verð. Kæranda hefur verið veittur aðgangur að bréfinu að hluta en afmáðar hafa verið upplýsingar um tekjur Íslandsspila sf., mat félagsins á ólíkum heimildum til starfsemi spilakassa og ósk félagsins eftir heimild til að dreifa leikjum sínum á vefnum. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar er í öllum tilvikum um of almennar upplýsingar að ræða til að þær geti talist lúta að mikilvægum og virkum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum félagsins í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Er þar einnig litið til aldurs upplýsinganna og þeirrar staðreyndar að upplýsingar um tekjur Íslandsspila hafa birst opinberlega, t.d. í svörum ráðherra við fyrirspurnum þingmanna. Ekki verður séð að það geti valdið félaginu tjóni þótt kæranda verði veittur aðgangur að bréfinu í heild sinni.<br /> <br /> Í fimmta lagi kemur til skoðunar bréf Íslandsspila sf. til innanríkisráðherra, dags. 13. nóvember 2013, ásamt fylgiskjali. Bréfið varðar ósk félagsins um að staða þess á happdrættismarkaði verði tekin til endurskoðunar og því til stuðnings fylgir minnisblað frá JURIS lögmannsstofu, sem kæranda hefur verið veittur aðgangur að með útstrikunum. <br /> <br /> Með hliðsjón af þeim röksemdum sem raktar hafa verið um önnur gögn hér að framan er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hvorki bréfið né fylgiskjalið innihaldi upplýsingar sem falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Sem fyrr er fallist á það með dómsmálaráðuneytinu að upplýsingarnar varði fjárhags- og viðskiptahagsmuni Íslandsspila sf. að nokkru marki en að mati úrskurðarnefndarinnar hefur ekki verið lagt rétt mat á mikilvægi þeirra hagsmuna eins og ákvæðið gerir ráð fyrir. <br /> <br /> Í ljósi þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir dómsmálaráðuneytið að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum í heild sinni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Dómsmálaráðuneytinu er skylt að veita kæranda aðgang að eftirfarandi gögnum:<br /> <br /> 1. Minnisblaði frá Happdrætti Háskóla Íslands til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2010. <br /> 2. Bréfi Happdrættis Háskóla Íslands til innanríkisráðuneytisins, dags. 20. mars 2012.<br /> 3. Bréfi Íslandsspila sf. til innanríkisráðuneytisins, dags. 12. júní 2012.<br /> 4. Bréfi Íslandsspila sf. til innanríkisráðuneytisins, dags. 14. mars 2013.<br /> 5. Bréfi Íslandsspila sf. til innanríkisráðherra, dags. 13. nóvember 2013, ásamt fylgiskjali.<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> varaformaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir

1042/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.

Deilt var um synjun Seðlabanka Íslands á beiðni blaðamanns um aðgang að gögnum um úthlutun LBI hf. á hlutabréfum í Landsbankanum hf. til starfsmanna árið 2013. Ákvörðun Seðlabankans byggði einkum á því að gögnin væru háð þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019. Úrskurðarnefndin staðfesti synjunina og tók fram að þagnarskylduákvæðið gerði ekki ráð fyrir því að hagsmunamat færi fram við ákvörðun á því hvort almenningur ætti rétt til aðgangs að gögnunum heldur nægði að gögnin vörðuðu hagi viðskiptamanna bankans til að upplýsingaréttur almennings yrði takmarkaður á grundvelli ákvæðisins.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 18. október 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1042/2021 í máli ÚNU 21040018. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 28. apríl 2021, kærði A, blaðamaður Viðskiptablaðsins, ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að þann 28. apríl 2021 hafi Seðlabankinn synjað beiðni um aðgang að eftirfarandi gögnum:<br /> <br /> 1. Erindi Landsbankans hf. til FME á fyrri parti árs 2013 varðandi það hvort afhending á hlutum í bankanum til starfsmanna félli undir reglur um kaupauka.<br /> 2. Minnispunktum starfsmanna FME til afnota á fundum með fulltrúum Landsbankans hf., LBI hf. og Bankasýslu ríkisins á sama tímabili.<br /> 3. Tölvupóstsamskiptum starfsmanna FME og fulltrúa sömu aðila á sama tímabili.<br /> <br /> Kærandi óskar þess að nöfn einstaklinga verði afmáð úr skjölunum þar sem hann hafi eingöngu áhuga á rökstuðningi og samskiptum í aðdraganda ákvörðunarinnar. Ákvörðun bankans hafi verið studd tvenns konar rökum, annars vegar að gögnin falli undir sérstaka þagnarskyldureglu í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og hins vegar að ákvæði 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eigi við um þau. Kærandi telur að bankanum sé lítið hald í síðarnefnda ákvæðinu, enda meira en átta ár liðin frá tilurð hluta þeirra og því ætti 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að eiga við. Þá telur kærandi rök hníga til að 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. eigi við um þau að hluta. Kærandi fellst á það með bankanum að gögnin geti vissulega fallið undir 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands en telur rök hníga á móti til þess að aðgangur verði veittur. Það eigi sérstaklega við um gögn undir 1. og 2. tölul. í kæru.<br /> <br /> Í kæru er forsaga málsins rakin. Undir lok árs 2009 hafi náðst samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og kröfuhafa fallna Landsbankans um fjárhagsuppgjör milli nýja Landsbankans og slitabúsins. Í því hafi meðal annars falist að bankinn afhenti starfsmönnum, sem voru fastráðnir í lok mars 2013 eða höfðu starfað hjá bankanum áður, 500 milljón hluti í bankanum. Tæplega tveir þriðju þess hafi verið keyptir til baka af bankanum samkvæmt ársskýrslu 2014 til að standa skil á skatt- og lífeyrissjóðsgreiðslum sem af gjörningnum hlutust, og hafi um 1.400 starfsmenn samanlagt átt 0,78% hlut í bankanum. Bankinn hafi síðan sjálfur átt 1,3% af eigin bréfum. Starfsmenn hafi ekki mátt selja bréfin fyrr en þrjú ár hefðu liðið frá afhendingu þeirra. Áður en bréfin hafi verið afhent hafi komið til umræðu hvort í þeim fælist kaupauki og afhendingin félli þar með undir reglur nr. 700/2011. Samskipti hafi átt sér stað milli aðila vegna þessa og óskar kærandi eftir afriti af þeim.<br /> <br /> Kærandi vill láta á það reyna hvort ástæða sé til að nota 3. eða 5. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands í málinu og nefnir fimm röksemdir máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál reglulega lagt mat á það hvort hagsmunir almennings af því að skjöl skuli birt skuli vega þyngra en hagsmunir sem mæli með leynd. Það mat sé ekki svarthvítt en meðal þess sem hafi verið litið til sé hvort um sé að ræða ráðstöfun opinberra eigna, „sem almenningur á almennt ríkan rétt til að kynna sér hvernig staðið er að“ líkt og segi í athugasemdum við 5. mgr. 41. gr. laganna í frumvarpinu. Hér sé vissulega um ráðstöfun opinberrar eignar að ræða en 2% hlutur í bankanum hafi árið 2013, miðað við margfaldarann 0,8 á eigin fé bankans á þeim tíma, verið um fjögurra milljarða króna virði. <br /> <br /> Í annan stað þá eigi almenningur ríkan rétt á að kynna sér „stjórnsýsluframkvæmd á tilteknu sviði“. Þótt gjörningurinn hafi í raun verið ákveðinn 2009 þá hljóti rök að hníga til þess að almenningi verði gefinn kostur á að máta þetta við mál sem síðar hafi átt sér stað. Í kaupaukamálunum liggi fyrir dómur Landsréttar frá 4. desember 2020, í máli nr. 239/2019, Arctica Finance gegn FME og ríkinu, auk sáttar við Kviku og sektarákvörðunar til handa Fossa mörkuðum. Síðastnefnda málið sé til meðferðar fyrir dómi. Ákveðnir þættir rökstuðnings FME í þeim málum falli að atvikum í máli Landsbankans þótt önnur séu ólík. Kærandi telur að almenningur eigi að eiga kost á því að geta glöggvað sig á muninum. <br /> <br /> Í þriðja lagi hafi úrskurðarnefndin horft til þess hvort upplýsingar sem gögnin geyma hafi verið gerð opinber áður. Sé sú raunin þá hafi það verið mat nefndarinnar að ekki sé unnt að synja um afhendingu á þeim grunni. Nú liggi fyrir að sagðar hafi verið fréttir af málinu á þeim tíma sem það átti sér stað og bankinn hafi birt tilkynningu um að þetta hafi farið athugasemdalaust frá FME þótt sú tilkynning hafi verið fjarlægð. Því telur kærandi líklegt að þetta eigi við um einhvern hluta umræddra skjala. <br /> <br /> Í fjórða lagi sé langt liðið frá því að gögnin urðu til og erfitt að sjá að hagsmunir einhvers geti orðið fyrir barðinu á því ef gögnin yrðu afhent. Sé það svo að viðkvæmar persónu- eða viðskiptaupplýsingar komi þar fram eigi að vera vandalítið að afmá þær en veita aðgang að samskiptum, atvikum og rökstuðningi að öðru leyti. <br /> <br /> Í fimmta lagi vill kærandi kanna hvaða áhrif viðtal þáverandi forstjóra FME, núverandi varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, við RÚV frá júlí 2013 hafi á málið. Þar komi meðal annars fram að úthlutun bréfanna hefði ekki formlega fallið undir kaupaukareglurnar vegna þess að gildissvið reglnanna taki til kaupaukakerfa hjá fjármálafyrirtækjum. Hér sé um það að ræða að gamli bankinn, sem ekki sé lifandi fjármálafyrirtæki, greiði samkvæmt samningi við íslenska ríkið frá því löngu fyrir gildistöku reglnanna.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Seðlabanka Íslands með erindi, dags. 28. apríl 2021, og veittur frestur til að skila umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Umsögn Seðlabanka Íslands barst með bréfi, dags. 27. maí 2021. Þar kemur fram að það sé mat bankans að umbeðin gögn séu háð þagnarskyldu á grundvelli 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og einnig með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Rík þagnarskylda hvíli á starfsmönnum bankans um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fái vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Umbeðnar upplýsingar varði hagi viðskiptamanna bankans og einnig viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila og teljist því ekki til opinberra upplýsinga. Þá sé það jafnframt mat Seðlabankans að þær skuli fara leynt samkvæmt eðli máls. Slíkar upplýsingar séu háðar þagnarskyldu nema úrskurður dómara eða lagaboð geri bankanum skylt að láta þær af hendi. Vikið er að því að úrskurðarnefndin hafi byggt á því að í forvera ákvæðisins, þ.e. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, hafi falist regla um sérstaka þagnarskyldu. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum nr. 92/2019 segi að áhersla sé lögð á mikilvægi þess að sérstök þagnarskylda gildi að meginstefnu áfram um upplýsingar af því tagi sem ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 hafi tekið til. Þá byggir Seðlabanki Íslands á því að umbeðin gögn falli undir 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Seðlabankinn tekur röksemdir kæranda til sérstakrar skoðunar í umsögn sinni. Bankinn telur að 3. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 eigi ekki við í málinu þar sem ákvæðinu sé frekar ætlað að ná yfir birtingu tölfræðilegra upplýsinga sem bankinn safni. Ákvæðinu sé hins vegar ekki ætlað að liðka fyrir birtingu upplýsinga um einstök mál sem háð séu þagnarskyldu. Í þessu sambandi er tekið fram að Seðlabankinn hafi synjað beiðni kæranda vegna efnis umbeðinna gagna en ekki þeirrar staðreyndar að þar komi fyrir nöfn starfsmanna bankans og annarra aðila. Það er jafnframt mat Seðlabankans að 6. mgr. 41. gr. laganna eigi heldur ekki við í málinu. Seðlabankinn hafi ekki ráðstafað þeirri eign sem um ræðir, hvorki beint né óbeint. Þá beri að líta til þess hvort um sé að ræða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila en það sé mat Seðlabankans að umbeðin gögn séu einmitt þess eðlis.<br /> <br /> Í umsögn Seðlabankans er vikið að umfjöllun um umbeðin gögn í fjölmiðlum og tekið fram að slík umfjöllun geti ekki jafngilt birtingu gagna. Sjónarmið Fjármálaeftirlitsins hafi komið fram í viðtali við þáverandi forstjóra stofnunarinnar en umbeðin gögn ekki gerð opinber eða um þau fjallað sérstaklega. Viðtalið geti engin áhrif haft á beiðni kæranda. Loks tekur Seðlabanki Íslands fram að þagnarskylda á grundvelli 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 sé ótímabundin. Horfa þurfi til bæði efnis og eðlis umbeðinna gagna en ekki aldurs. Þó telur bankinn rétt að nefna að þau teljist tæplega gömul enda rétt um átta ár frá þeim gjörningi sem þau fjalla um.<br /> <br /> Með erindi, dags. 1. júní 2021, var kæranda kynnt umsögn Seðlabanka Íslands og veittur kostur á að koma á frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að gögnum í vörslum Seðlabanka Íslands. Ákvörðun Seðlabankans um synjun beiðni kæranda byggðist einkum á 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 92/2019 en jafnframt byggði bankinn á því að umbeðin gögn væru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.<br /> <br /> Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu með dómi frá 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 að 1. mgr. 35. gr. þágildandi laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 hafi falið í sér sérstaka þagnarskyldureglu en ekki almenna. Í núgildandi 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, sem er efnislega sambærileg 1. mgr. 35. gr. eldri laganna, segir:<br /> <br /> „Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar, nefndarmenn í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um sérfræðinga, verktaka og aðra sem starfa fyrir eða á vegum bankans. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að þagnarskylda samkvæmt 41. gr. laga nr. 92/2019 sé sérgreind með þeim hætti að hún nái til upplýsinga sem varða hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 774/2019, 792/2019, 904/2020, 954/2020 og 966/2021. Sbr. einnig úrskurði nr. 614/2016, 665/2016 og 682/2017 frá gildistíð eldri laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001.<br /> <br /> Seðlabanki Íslands hefur látið úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af umbeðnum gögnum, en beiðni kæranda var afmörkuð við eftirfarandi gögn:<br /> <br /> 1. Erindi Landsbankans hf. til FME á fyrri hluta árs 2013.<br /> 2. Minnispunktar starfsmanna FME til eigin afnota á fundum þeirra með fulltrúum Landsbakans hf., LBI hf. og Bankasýslu ríkisins á sama tímabili.<br /> 3. Tölvupóstsamskipti starfsmanna FME og fulltrúa þessara sömu aðila á sama tímabili.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni umbeðinna gagna. Um er að ræða samskipti sem varða úthlutun LBI hf. á hlutabréfum í Landsbankanum hf. til starfsmanna bankans sem átti sér stað um mitt ár 2013. Úthlutunin byggði á samkomulagi milli íslenska ríkisins og kröfuhafa LBI hf. sem gert var í lok árs 2009 og vörðuðu samskiptin m.a. það álitaefni hvort úthlutunin teldist falla undir gildissvið þágildandi laga og reglna um kaupaukakerfi. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ljóst af framangreindu, sem og skoðun umbeðinna gagna, að þau varða hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur LBI hf. og Landsbankans hf. sem eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, í skilningi 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019. Þegar tekið er tillit til þess hvernig umbeðin gögn komust í vörslur Fjármálaeftirlitsins er það enn fremur mat nefndarinnar að þau séu undirorpin sérstakri þagnarskyldu sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Þannig verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Seðlabankans um synjun beiðni kæranda.<br /> <br /> Í tilefni af röksemdum kæranda er lúta að því að umbeðin gögn eigi erindi við almenning tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að þagnarskylduákvæði 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 gerir ekki ráð fyrir því að slíkt mat fari fram við ákvörðun á því hvort almenningur eigi rétt til aðgangs að gögnum sem falla að öðru leyti undir ákvæðin. Nægjanlegt er að upplýsingar varði hagi viðskiptamanna, sbr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands til að upplýsingaréttur almennings verði takmarkaður á grundvelli ákvæðisins umfram fyrirmæli upplýsingalaga, sjá t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 792/2019, 904/2020 og 966/2021. Sama á við að breyttu breytanda um röksemdir kæranda er lúta að því að umfjöllun í fjölmiðlum, aldur gagnanna og önnur atriði geri það að verkum að mati kæranda að rök standi ekki lengur til þess að þau fari leynt. Loks er rétt að taka fram í tilefni af kæru kæranda að úrskurðarnefnd um upplýsingamál brestur heimild að lögum til að gera Seðlabanka Íslands skylt að veita aðgang að upplýsingum eða gögnum samkvæmt 3. og 6. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019. Með þessum ákvæðum er bankanum veitt heimild að lögum til birtingar upplýsinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þrátt fyrir þagnarskyldu 1. mgr. ákvæðisins, að eigin frumkvæði en ekki er um að ræða skyldu til slíkrar birtingar.<br /> <br /> Að fenginni þessari niðurstöðu er óþarft að fjalla sérstaklega um það hvort umbeðin gögn falli undir takmörkun 9. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er ákvörðun Seðlabanka Íslands, dags. 28. apríl 2021, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að eftirfarandi gögnum:<br /> <br /> 1. Erindi Landsbankans hf. til FME á fyrri hluta árs 2013.<br /> 2. Minnispunktum starfsmanna FME til eigin afnota á fundum þeirra með fulltrúum Landsbankans hf., LBI hf. og Bankasýslu ríkisins á sama tímabili.<br /> 3. Tölvupóstsamskiptum starfsmanna FME og fulltrúa þessara sömu aðila á sama tímabili.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir<br />

1041/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.

Kærð var ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Ákvörðun ráðuneytisins byggði á því að umbeðin gögn væru háð sérstakri þagnarskyldu skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, sbr. fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Kærandi taldi þagnarskylduákvæðið ekki eiga við í þessu tilviki enda hefði greinargerðin ekki verið send ráðuneytinu sem drög, á grundvelli lagaskyldu, heldur hefði verið um lokaskil hennar að ræða. Úrskurðarnefndin taldi ljóst af greinargerðinni að ekki væri um endanlega útgáfu að ræða. Greinargerðin væri þar með undirorpin sérstakri þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, sem gengi framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 18. október 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1041/2021 í máli ÚNU 21030021. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 25. mars 2021, kærði A, lögmaður, ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að beiðninni hafi verið hafnað með tölvupósti, dags. 12. mars 2021, á þeim grundvelli að óheimilt væri að veita aðgang að greinargerðinni með vísan til 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016. Kæranda hafi jafnframt verið bent á úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 967/2021 og 826/2019 en í þeim málum hafi verið staðfest synjun um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda þar sem hún hafi verið send á grundvelli lagaskyldu. Kærandi telur að misskilnings gæti hjá ráðuneytinu. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í þessum málum hafi byggt á því að greinargerð hafi verið afhent til umsagnar af hálfu ríkisendurskoðanda þann 10. ágúst 2018. Öll röksemdafærsla og niðurstaða úrskurðanna grundvallist á þeirri forsendu. Beiðni kæranda í því máli sem hér er til umfjöllunar lúti hins vegar að því að fá aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda sem send var til margra aðila þann 27. júlí 2018, nánar tiltekið forseta Alþingis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Lindarhvols ehf., Seðlabanka Íslands og umboðsmanns Alþingis. Ekki hafi verið um að ræða sendingu á grundvelli lagaskyldu heldur hafi það verið ætlun setts ríkisendurskoðanda að greinargerðin yrði í kjölfarið gerð aðgengileg almenningi. Sendingin hafi augljóslega ekki verið hluti af málsmeðferð samkvæmt 14. gr. laga um ríkisendurskoðanda heldur hafi verið um lokaskil að ræða. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt fjármála- og efnahagsráðuneyti með erindi, dags. 25. mars 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Umsögn ráðuneytisins barst þann 15. apríl 2021. Þar kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi verið falið að hafa eftirlit með framkvæmd samnings ráðherra við Lindarhvol ehf. og annast endurskoðun á ársreikningum félagsins samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III við þágildandi lög um Seðlabanka Íslands. Ríkisendurskoðun sé sjálfstæð eftirlitsstofnun sem starfi á vegum Alþingis í samræmi við ákvæði 43. gr. stjórnarskrárinnar. Áréttað er að um störf setts ríkisendurskoðanda ad hoc hafi gilt ákvæði laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Í lögunum séu ákvæði um þagnarskyldu, hæfi, umsagnarrétt og aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. <br /> <br /> Hvað aðgang að gögnum frá Ríkisendurskoðun varði komi fram í 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent enda hamli því ekki takmarkanir samkvæmt upplýsingalögum. Í 2. málsl. sömu málsgreinar komi fram að drög að slíkum gögnum sem send hafa verið aðilum til kynningar og umsagnar séu og verði ekki aðgengileg. Þá hafi ríkisendurskoðandi á grundvelli 3. málsl. málsgreinarinnar heimildir til að ákveða að önnur gögn, þ.e. önnur gögn en drög að fyrrnefndum gögnum, sem hafa verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur, verði heldur ekki aðgengileg. Um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun, þ.m.t. gögnum sem settur ríkisendurskoðandi hafi útbúið, fari samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga nr. 46/2016.<br /> <br /> Fjármála- og efnahagsráðuneytið víkur að því í umsögn sinni að samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 séu umsagnardrög að skýrslum, greinargerðum og öðrum gögnum sem send hafa verið aðilum til kynningar undanþegin aðgangi. Drög að greinargerðum eða skýrslum komi því aldrei til afhendingar eða birtingar eftir að athugun hafi verið lokið með endanlegri skýrslu til Alþingis. Sama niðurstaða leiði af ummælum í greinargerð með frumvarpi til laganna. <br /> <br /> Þá vísar ráðuneytið einnig til þess að fram komi í 3. málsl. 3. mgr. 15. gr. að ríkisendurskoðandi geti ákveðið að gögn sem send hafa verið stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og á meðan á þeim stendur verði ekki aðgengileg. Ákvæðið beri með sér að um sé að ræða önnur gögn en skýrslur og greinargerðir sem kynna á Alþingi eða drög að slíkum skýrslum og greinargerðum enda fjalli 1. og 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. um m.a. skýrslur og greinargerðir og drög að slíkum gögnum. Í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 46/2016 komi fram að ákvæðið sé einkum sett til að tryggja vinnufrið og að opinberum hagsmunum verði ekki raskað á rannsóknarstigi. Tekið sé fram að þegar athugun er lokið reyni á aðgangsrétt að þessum tilteknu gögnum, þ.e.a.s. öðrum gögnum en drögum að skýrslum og greinargerðum sbr. 2. málsl. 3. mgr. 15. gr., skv. 2. mgr. 15. gr. laganna. Umbeðin greinargerð sé því vinnugagn Ríkisendurskoðunar og samkvæmt ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 séu slík gögn alfarið undanþegin upplýsingarétti, sbr. og 5. tölul. 6. gr. og 8. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Til frekari rökstuðnings vísar ráðuneytið til úrskurða úrskurðarnefndarinnar nr. 826/2019, 967/2021 og 978/2021. Í öllum úrskurðunum sé skýrlega kveðið á um að 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 taki til þeirra gagna sem þar falla undir en ekki þess aðila sem hefur þau í fórum sínum. Fullyrðing kæranda um lokaskil standist ekki skoðun og vísar ráðuneytið til gagna máls sem lyktaði með úrskurði nr. 826/2019. <br /> <br /> Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 16. apríl 2021 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust þann 30. apríl 2021. Kærandi áréttar þá afstöðu að 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 eigi ekki við í málinu. Óumdeilt sé að greinargerðin hafi verið send til fjölmargra aðila þann 27. júlí 2018 og ekki um að ræða útsendingu á grundvelli lagaskyldu líkt og gert hafi verið þann 10. ágúst 2018. Mikilvægt sé að halda því til haga að það sé talsverður munur á því hvort gögn séu send samkvæmt lagaskyldu eða án þess að slíkri skyldu sé til að dreifa. Gera verði þá kröfu til stjórnvalda að vanda til verka og ótækt að þau geti eftir á dregið til baka fyrri útsendingu gagna og sent þau aftur samkvæmt lagaskyldu og þannig gert skjöl undirorpin trúnaði. Þá telur kærandi að skjalið geti ekki notið trúnaðar á grundvelli 14. gr. laganna. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geti það einungis átt við ef verið sé að senda drög til umsagnar til þess aðila sem sætir athugun eða eftirliti. Þeir aðilar sem fengið hafi afrit af umbeðnu gagni þann 27. júlí 2018 falli ekki þar undir.<br /> <br /> Kærandi segist ekki fá skilið röksemdafærslu ráðuneytisins varðandi 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 auk 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar sé ráðuneytið í raun að staðfesta röksemdafærslu kæranda. Gögn missi stöðu sína sem vinnugögn ef þau séu afhent öðrum og geti undir slíkum kringumstæðum ekki verið undanþegin upplýsingarétti. Loks er röksemdafærsla kæranda ítrekuð varðandi úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 826/2019 og 967/2021. Þrátt fyrir að vísað sé til umbeðins skjals sem vinnuskjals í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá vormánuðum 2020 breyti það ekki þeirri atburðarás sem átti sér stað. Gagnið hafi hvergi verið merkt sem vinnuskjal þann 27. júlí 2018. Þvert á móti hafi ætlunin verið að birta skjalið.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. en gagnið er í vörslum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Um er að ræða sama skjal og lá til grundvallar í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndarinnar nr. 826/2019, 827/2019, 967/2021 og 978/2021, en þar komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að skjalið væri undirorpið sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.<br /> <br /> Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.<br /> <br /> Ríkisendurskoðandi er sjálfstæð eftirlitsstofnun sem starfar á vegum Alþingis í samræmi við ákvæði 43. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Það er hlutverk ríkisendurskoðanda að hafa í umboði Alþingis eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Í IV. kafla laganna eru málsmeðferðarreglur þar sem fram koma ákvæði um þagnarskyldu, hæfi, umsagnarrétt og aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Í 14. gr. laganna er lögð sú skylda á ríkisendurskoðanda að senda þeim sem sætir athugun eða eftirliti drög að skýrslum eða greinargerðum til umsagnar. <br /> <br /> Hvað aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun varðar kemur fram í 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent. Frá þessari reglu er undantekning í 2. málsl. sömu málsgreinar þar sem fram kemur að drög að slíkum gögnum sem send hafi verið aðilum til kynningar eða umsagnar séu ekki aðgengileg. Þá hefur ríkisendurskoðandi á grundvelli 3. málsl. málsgreinarinnar heimildir til að ákveða að gögn sem hafi verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur verði ekki aðgengileg.<br /> <br /> Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess, sem síðar varð að lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, kemur m.a. fram að ófullgerð gögn sem send hafi verið aðila til umsagnar séu í raun vinnugögn sem glati þeirri stöðu þegar þau hafi verið send öðrum, en geti mögulega leitt til þess að röng eða beinlínis villandi umræða fari af stað áður en ríkisendurskoðandi hafi lokið athugun sinni. Slíkt geti valdið óþarfa fyrirhöfn og kostnaði. Mikilvægt sé að ríkisendurskoðandi fái nauðsynlegt ráðrúm til þess að vinna að athugunum sínum og að opinberum hagsmunum verði ekki raskað ef upplýsingar verði t.d. gerðar aðgengilegar á rannsóknarstigi. Að lokinni athugun ríkisendurskoðanda reyni á aðgangsrétt samkvæmt 2. mgr. en þar komi fram að sé óskað aðgangs að gögnum sem hafi orðið til í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsskylds aðila fari um aðgang að þeim hjá Ríkisendurskoðun eftir ákvæðum upplýsingalaga eða ákvæðum laga um upplýsingarétt um umhverfismál eftir atvikum.<br /> <br /> Ákvæði 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga ber heitið: Aðgangur að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Þegar 3. mgr. ákvæðisins er skoðuð verður að draga þá ályktun að málsgreinin taki fremur til þeirra gagna sem þar falla undir en þess aðila sem hefur þau gögn í fórum sínum, þ.e. ákvæðið taki til gagnsins sjálfs án tillits til þess hvar gagnið er að finna, svo fremi að ríkisendurskoðandi hafi afhent gagnið öðrum til kynningar eða umsagnar á grundvelli lagaskyldu. Önnur túlkun á ákvæðinu yrði til þess að um leið og ríkisendurskoðandi sendi skjöl á grundvelli lagaskyldu til aðila myndu þau missa stöðu sína sem vinnuskjöl. Með því næðist ekki markmið ákvæðisins sem áður hefur verið lýst. Þá verður einnig dregin sú ályktun af orðalagi ákvæðisins að það nái til slíkra gagna jafnvel þótt lokaeintak greinargerðar í tilefni af athugun ríkisendurskoðanda hafi verið afhent Alþingi og birt opinberlega. Í því sambandi skal tekið fram að slík drög þurfa eðli málsins samkvæmt ekki að fela í sér endanlega útgáfu greinargerðarinnar.<br /> <br /> Röksemdir kæranda í máli þessu lúta að því að þann 27. júlí 2018 hafi settur ríkisendurskoðandi skilað niðurstöðum sínum um starfsemi Lindarhvols ehf. til fjölmargra aðila. Um lokaskil hafi verið að ræða sem settur ríkisendurskoðandi hafi ætlast til að birt yrðu opinberlega. Ekki hafi verið óskað eftir andmælum eða athugasemdum og skjalið hvergi merkt sem vinnuskjal. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað hið umbeðna gagn með hliðsjón af framangreindu. Skemmst er frá því að segja að skoðun úrskurðarnefndarinnar rennir ekki stoðum undir þennan skilning kæranda. Þvert á móti er skýrlega tilgreint í skjalinu, sem er dagsett sama dag og röksemdir kæranda byggja á, að um sé að ræða stöðu verkefnisins á tilteknum tímapunkti, verkefninu sé ólokið og að skortur á upplýsingum setji mark sitt á framsetningu niðurstaðna. Sú staðreynd að settur ríkisendurskoðandi óskaði ekki sérstaklega eftir andmælum eða athugasemdum í fylgibréfi með skjalinu getur ekki breytt þessari niðurstöðu, enda var um að ræða verklok af hans hálfu og ósk um lausn frá setningu sinni. Það kom í hlut nýs ríkisendurskoðanda að afla athugasemda frá aðilum við frekari meðferð málsins.<br /> <br /> Af framangreindu leiðir að kærandi hefur ekki hnekkt fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um hið umbeðna skjal að það hafi verið sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu í drögum þegar athugun málsins var ólokið. Það er því undirorpið sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins að synja beiðni kæranda um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um starfsemi Lindarhvols ehf.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir<br />

1040/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.

Blaðamaður kærði afgreiðslu Barnaverndarstofu á beiðni hans um gögn sem varða meðferðarheimilið Laugaland. Kærandi fékk afhentan hluta umbeðinna gagna en var synjað um tvö skjöl á þeim grundvelli að þau vörðuðu einkamálefni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, og að þau væru vinnugögn í skilningi 8. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skoðaði gögnin og taldi engum vafa undirorpið að gögnin lytu að einkamálefnum einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt væri að leynt færu. Nefndin taldi Barnaverndarstofu ekki unnt að fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar úr gögnunum og afhenda þau svo kæranda þar sem gögnin innihéldu nær eingöngu slíkar upplýsingar. Var ákvörðun Barnaverndarstofu því staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 18.október 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1040/2021 í máli ÚNU 21030022. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 10. mars 2021, kærði A, blaðamaður á Stundinni, ákvörðun Barnaverndarstofu um að synja beiðni hans um aðgang að gögnum varðandi meðferðarheimilið Laugaland, áður Varpholt.<br /> <br /> Með beiðni kæranda, dags. 1. febrúar 2021, var óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem Barnaverndarstofa kynni að búa yfir vegna meðferðarheimilisins á árabilinu 1997-2007. Með bréfi Barnaverndarstofu, dags. 4. febrúar 2021, var kærandi upplýstur um að í ljósi umfangs beiðninnar kynni afgreiðsla hennar að taka nokkurn tíma. Með bréfi Barnaverndarstofu, dags. 26. febrúar 2021, fékk kærandi afhent gögn um meðferðarheimilið á árabilinu 1997-2003. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 5. mars 2021, tók Barnaverndarstofa ákvörðun um afhendingu hluta umbeðinna gagna, þ.e. gögn er vörðuðu meðferðarheimilið fyrir árin 2004-2007, auk ársreikninga fyrir árin 1997-2007. Í bréfinu kom m.a. fram að gögnin hefðu verið yfirfarin með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Bréfinu fylgdi yfirlit yfir gögn sem kærandi fékk afhent og yfirlit yfir gögn í 12 liðum sem kæranda var synjað um afhendingu á. Á meðal þeirra gagna sem Barnaverndarstofa synjaði kæranda um aðgang að eru skattframtöl, minnisblöð og bréf varðandi rekstraraðila meðferðarheimilisins. <br /> <br /> Ákvörðunin var reist á því að annars vegar væri um að ræða gögn sem í heild sinni yrðu felld undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga sem einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, og hins vegar að um væri að ræða skjöl sem felld yrðu undir ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga sem vinnugögn. Þá teldi Barnaverndarstofa ekki tilefni til að veita aukinn aðgang að umræddum gögnum með vísan til 11. gr. upplýsinglaga. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé synjun um afhendingu eftirfarandi gagna:<br /> <br /> • Bréf frá B til þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, dags. 23. ágúst 2007. <br /> • Minnisblað til félagsmálaráðherra frá forstjóra Barnaverndarstofu, dags. 23. ágúst 2007, vegna bréfs B varðandi rekstraraðila meðferðarheimilisins Laugalandi. <br /> <br /> Kærandi mótmælir röksemdum Barnaverndarstofu og tekur fram að í gögnum sem stofan afhenti kæranda sé fjallað að nokkru leyti um umrætt minnisblað. Barnaverndarstofa hafi afhent kæranda tölvupóstsamskipti þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu og þáverandi aðstoðarmanns félagsmálaráðherra um umrætt bréf, dags. 24. ágúst 2007. Í því sambandi bendir kærandi á að þann 24. ágúst 2007 hafi DV fjallað um málefni Laugalands og byggt annað hvort á umræddu bréfi eða samtali við hann um þau málefni sem fjallað var um í bréfinu. Í þeirri umfjöllun sé bæði vikið að persónulegum málefnum þáverandi forstöðumanns meðferðarheimilisins og málefnum meðferðarheimilisins Laugalands. Því geti kærandi ekki séð að röksemdir standi til þess að synja kæranda um afhendingu bréfs þessa og minnisblaðs þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, með þeim fyrirvara að persónuauðkenni verði afmáð úr þeim. Ljóst megi vera að í umræddum gögnum kunni að vera upplýsingar sem kærandi hafi ekki aðgang að en geti skipt verulegu máli þegar komi að umfjöllun um málefni meðferðarheimilisins Laugalands. <br /> <br /> Kærandi tekur fram að hann hafi á undanförnum vikum unnið og birt fréttir af meintu ofbeldi í garð kvenna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu. Fréttirnar hafi vakið mikla athygli og fullyrða megi að umfjöllunin hafi orðið til þess að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt að fram færi rannsókn á starfsemi meðferðarheimilisins. Leiða megi líkur að því að í umbeðnum gögnum komi fram mikilvægar upplýsingar um ofbeldið. Kærandi telur að hin kærða synjun Barnaverndarstofu standist ekki lög og fer fram á að stofunni verði gert að afhenda umbeðnar upplýsingar. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 30. mars 2021, var Barnaverndarstofu kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Barnaverndarstofu, dags. 13. apríl 2021, kemur fram að við yfirferð á umbeðnum gögnum sem kæra lýtur að, hafi Barnaverndarstofa talið ljóst að gögnin innihéldu viðkvæmar persónuupplýsingar sem teljist til einkamálefnis þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, þ.e. fyrrverandi rekstraraðila meðferðarheimilisins Varpholts, síðar Laugalands, sem og annarra aðila, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Er það jafnframt mat Barnaverndarstofu að vegna eðlis þeirra upplýsinga sem fram komi í gögnunum hafi ekki verið tilefni til að veita aðgang að hluta þeirra, þ.e. með því að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr þeim. Í því sambandi er tekið fram að við matið hafi Barnaverndarstofa m.a. litið til þess að 24. ágúst 2007 hafi DV fjallað um málefni fyrrum rekstraraðila Varpholts, síðar Laugalands. Umfjöllun DV, sem innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar, hafi verið birt opinberlega og sé aðgengileg öllum sem eftir henni leita. Því telji Barnaverndarstofa ljóst að þrátt fyrir að persónugreinanlegar upplýsingar yrðu afmáðar úr gögnunum sé unnt að bera kennsl á þá einstaklinga sem fjallað er um í þeim, þ.e. fyrrum rekstraraðila áðurnefnds meðferðarheimilis, sem og aðra einstaklinga sem ekki tengjast rekstri heimilisins. Þá ítrekar Barnaverndarstofa að bréfið sem um ræðir hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar auk óáreiðanlegra upplýsinga í formi staðhæfinga og vangaveltna bréfritara. Þá byggi umfjöllun í minnisblaði þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu á bréfinu og feli í sér endurtekningu á þeim viðkvæmu persónuupplýsingum sem þar komi fram. Séu því sömu sjónarmið höfð uppi við mat á því hvort afhenda beri minnisblaðið. Loks segir að með vísan til ofangreinds sé það mat Barnaverndarstofu að umbeðin gögn falli í heild sinni undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Barnaverndarstofa telur að lokum vert að taka fram að stofan telji rétt að afhenda gögn sem kærandi tilgreini, þ.e. tölvupóstsamskipti þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu og þáverandi aðstoðarmanns félagsmálaráðherra, þrátt fyrir að þar sé að nokkru leyti fjallað um innihald þeirra gagna sem kæranda hafi verið synjað um afhendingu á. Líkt og með öll gögn sem kæranda hafi verið afhent hafi Barnaverndarstofa farið gaumgæfilega yfir tölvupóstsamskiptin og sé það mat stofunnar að þar sé ekki að finna viðkvæmar persónuupplýsingar sem eiga undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Með erindi, dags. 14. apríl 2021, var umsögn Barnaverndarstofu kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 14. apríl 2021, kemur fram að ekki sé fallist á þær röksemdir sem fram komi í umsögn Barnaverndarstofu og kærandi haldi fast við kröfu sína um að fá umbeðin gögn afhent. Kærandi telji sig hafa vitneskju um að í bréfinu komi fram vitnisburður um að þáverandi forstöðumaður meðferðarheimilisins að Laugalandi hafi lýst því að hann hafi beitt stúlkur sem vistaðar voru í hans umsjá líkamlegum tökum sem jafna megi við ofbeldi. Í samhengi við fyrri umfjöllun kæranda um málefni meðferðarheimilisins og vitnisburð kvenna sem þar voru vistaðar á opinberum vettvangi, sem nú séu orðnar níu talsins, um að þær hafi verið beittar ofbeldi af þáverandi forstöðumanni meðferðarheimilisins, sé afar mikilvægt að kærandi fái bréfið í hendur og geti því sannreynt hvort rétt sé að þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu hafi verið upplýstur um mögulegt ofbeldi á meðferðarheimilinu. <br /> <br /> Þá krefst kærandi þess einnig að fá afhent minnisblað þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu til þáverandi félagsmálaráðherra með sömu rökum. Auk þess telur kærandi rétt að vekja athygli á að í gögnum sem kæranda voru afhent frá Barnaverndarstofu, og lúti að tölvupóstsamskiptum þáverandi forstjóra stofunnar við þáverandi aðstoðarmann ráðherra, komi m.a. fram hvatning forstjórans um að ráðherra tjái sig ekki um málið og að ráðuneytið afli ekki frekari upplýsinga um það. Velta megi vöngum um það hvort forstjórinn hafi með þessu farið út fyrir faglegt svið sitt og í því ljósi telur kærandi mikilvægt að sjá minnisblaðið. Þá er vísað til þess að Barnaverndarstofa hafi sjálf viðurkennt að eftirlit hennar með rekstri heimilisins hafi brugðist og beðið konurnar afsökunar. Ljóst sé því að efni þeirra gagna sem kærandi fari fram á að fá afhent eigi erindi við þorra almennings, í það minnsta að hluta.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að gögnum sem listuð voru í bréfi Barnaverndarstofu, dags. 5. mars 2021, undir töluliðum 10 og 11. Ákvörðun Barnaverndarstofu um að synja beiðni kæranda byggir á því að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Meginreglan um rétt almennings til aðgangs að gögnum kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 9. gr. upplýsingalaga er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna. Nánar tiltekið kemur fram í 1. málslið greinarinnar að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“<br /> <br /> Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:<br /> <br /> „Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“<br /> <br /> Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að ef ákvæði 6.-10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd margsinnis kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Úrskurðarnefndin telur engum vafa undirorpið að gögnin lúti að einkamálefnum þeirra einstaklinga sem um ræðir og að um sé að ræða einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Barnaverndarstofu væri því, án samþykkis þessara sömu einstaklinga, óheimilt að afhenda gögnin um þá án þess að fella úr þeim atriði er varða einkamálefni þau sem lýst er að framan. <br /> <br /> Það álitaefni sem liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðar því það hvort Barnaverndarstofu sé skylt að fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar úr gögnunum og afhenda þau svo kæranda. Það athugast í þessu sambandi að auk upplýsinga sem gera gögnin beinlínis persónugreinanleg, svo sem nöfn einstaklinga, geta ýmsar aðrar upplýsingar, séu þær settar í samhengi, gert óviðkomandi með beinum hætti kleift að tengja gögnin við tiltekna einstaklinga.<br /> <br /> Í þessu tilviki innihalda umbeðin gögn að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál nær eingöngu upplýsingar sem falla undir 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Ef slíkar upplýsingar yrðu afmáðar er það mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda yrði ekki hald í því sem eftir stæði. Sökum eðlis þeirra upplýsinga sem fram koma í gögnunum er því ekki tilefni til leggja fyrir Barnaverndarstofu að veita aðgang að hluta þeirra, þ.e. með því að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr umræddum gögnum. Með vísan til framangreinds er synjun Barnaverndarstofu á beiðni kæranda því staðfest. <br /> <br /> Loks tekur úrskurðarnefndin fram að jafnvel þótt almenningur hafi hagsmuni af því að geta nálgast upplýsingar um það hvernig barnavernd í landinu fer fram, og kærandi gegni því hlutverki sem starfsmaður fjölmiðils að miðla upplýsingum um opinber málefni, hefur löggjafinn við setningu upplýsingalaga tekið skýra afstöðu til þess að hagsmunir einstaklinga, sem slíkar upplýsingar varða, af því að þær fari leynt með hliðsjón af friðhelgi einkalífs þeirra, sem varið er með 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, vegi þyngra en hagsmunir þriðju aðila af því að kynna sér upplýsingarnar.<br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Barnaverndarstofu, dags. 5. mars 2021, um synjun beiðni kæranda um aðgang að eftirfarandi gögnum er staðfest: <br /> <br /> • Bréf frá B til þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, dags. 23. ágúst 2007. <br /> • Minnisblað til félagsmálaráðherra frá forstjóra Barnaverndarstofu, dags. 23. ágúst 2007, vegna bréfs B varðandi rekstraraðila meðferðarheimilisins Laugalandi.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir<br />

1039/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.

Blaðamaður kærði synjun Barnaverndarstofu á beiðni hans um gögn sem varða meðferðarheimilið Laugaland. Synjunin byggði á því að afgreiðsla beiðninnar tæki svo mikinn tíma og krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri af þeim sökum fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, enda þyrfti að yfirfara gögnin og afmá viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að í ljósi umfangs beiðninnar og viðkvæms eðlis gagnanna ætti undantekning 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga við í málinu og staðfesti ákvörðun Barnaverndarstofu.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 18. október 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1039/2021 í máli ÚNU 21030003. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 4. mars 2021, kærði A, blaðamaður á Stundinni, ákvörðun Barnaverndarstofu um synjun beiðni um aðgang að gögnum varðandi meðferðarheimilið Laugaland. <br /> <br /> Með gagnabeiðni kæranda, dags. 1. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir öllum þeim gögnum sem Barnaverndarstofa kynni að búa yfir varðandi meðferðarheimilið Varpholt, síðar Laugaland, árin 1997 til 2007. Með bréfi Barnaverndarstofu, dags. 4. febrúar 2021, var kærandi upplýstur um að í ljósi umfangs beiðninnar kynni afgreiðsla hennar að taka nokkurn tíma.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, tók Barnaverndarstofa ákvörðun um afhendingu hluta umbeðinna gagna. Í bréfinu kom m.a. fram að gögnin hefðu verið yfirfarin með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Bréfinu fylgdi annars vegar yfirlit yfir þau gögn sem kærandi fékk afhent, sbr. fylgiskjal 1 og hins vegar yfirlit yfir gögn í 27 liðum sem kæranda var synjað um afhendingu á, sbr. fylgiskjal 2. Á meðal þeirra gagna sem Barnaverndarstofa synjaði kæranda um aðgang að eru vaktskráningar/dagbókarskráningar á Varpholti, síðar Laugalandi, vegna áranna 1997 til 2007. Ákvörðunin var reist á því að umfang gagnanna væri töluvert auk þess sem eðli þeirra gæfi til kynna að mikið af upplýsingum sem fram kæmu í gögnunum teldust til einkahagsmuna viðkomandi. Þá bæri að geta þess að um væri að ræða handrituð gögn. Athugun Barnaverndarstofu hefði leitt í ljós að heildarblaðsíðufjöldi umræddra vaktskráninga/dagbókarskráninga væri um 1800 blaðsíður. Með vísan til þessa væri það mat stofnunarinnar að það tæki einn lögfræðing um 30 daga að yfirfara gögnin, með hliðsjón af afmáningu viðkvæmra persónuupplýsinga og því að umrædd gögn væru torlæsileg. Af þeim sökum teldi Barnaverndarstofa að vinna við að afgreiða beiðnina að þessu leyti fæli í sér svo umtalsverða skerðingu á möguleikum stofnunarinnar til að sinna öðrum hlutverkum sínum að heimilt væri að beita undanþáguheimild 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Í því sambandi þyrfti að hafa í huga að þegar væri töluverður málahali hjá stofunni.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé synjun á afhendingu gagna sem tiltekin eru í töluliðum 26-35 í fylgiskjali 2. Nánar tiltekið er um að ræða handritaðar vaktaskráningar/dagbókarfærslur á nánar tilgreindum tímabilum árin 1997 til 2007. Kærandi mótmælir röksemdum Barnaverndarstofu og tekur fram að kærandi hafi á undanförnum vikum unnið og birt fréttir af meintu ofbeldi sem konur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, beri við að hafa verið beittar á árabilinu 1997 til 2007. Umræddar fréttir og viðtöl hafi vakið mikla athygli og fullyrða megi að umfjöllunin hafi orðið til þess að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt að fram færi rannsókn á starfsemi meðferðarheimilisins. Leiða megi líkur að því að í umræddum dagbókarfærslum og fundargerðum komi fram mikilvægar upplýsingar um meint ofbeldi sem konur sem vistaðar voru á Laugalandi beri við að þær hafi orðið fyrir. <br /> <br /> Þá hafnar kærandi fullyrðingu Barnaverndarstofu um þann tíma sem það muni taka að fara yfir umrædd gögn. Óhugsandi sé að 30 daga taki að fara yfir 1.800 blaðsíður. Undirritaður geri sér grein fyrir að Barnaverndarstofa hafi ýmsum störfum að sinna en eitt hlutverk stofnunarinnar sé að sinna upplýsingagjöf. Færa megi rök fyrir því að vinna kæranda við að miðla fréttum af málefnum meðferðarheimilisins og að veita fyrrverandi skjólstæðingum Barnaverndarstofu rödd, sé bein afleiðing af aðgerðarleysi stofnunarinnar í málefnum meðferðarheimilisins hingað til. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 9. mars 2021, var Barnaverndarstofu kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. <br /> <br /> Í umsögn Barnaverndarstofu, dags. 23. mars 2021, er fjallað um grundvöll synjunar Barnaverndarstofu á beiðni kæranda og málavöxtum lýst. Þar segir að við afgreiðslu beiðna um upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga sé lögð áhersla á það sjónarmið að virða skuli rétt þeirra einstaklinga sem um er fjallað til einkalífs. Í því sambandi er vísað til þeirrar skyldu sem hvílir á starfsfólki barnaverndaryfirvalda að gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna, foreldra og annarra sem þeir hafa afskipti af, sbr. 8. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Barnaverndarstofa hafi þó einnig haft til hliðsjónar það sjónarmið að almenningur hafi hagsmuni af því að nálgast upplýsingar um það hvernig barnavernd í landinu fari fram. Þá er vísað til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og áréttuð sú afstaða stofnunarinnar sem fram komi í bréfi hennar til kæranda, dags. 26. febrúar 2021, að umfang umræddra gagna hafi verið töluvert. Um sé að ræða handrituð gögn og hafi skoðun Barnaverndarstofu leitt í ljós að heildarblaðsíðufjöldi þeirra væri um 1.800 blaðsíður. Þá sé eðli gagnanna slíkt að þau innihaldi mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum sem teljist til einkamálefna þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, þ.e. skjólstæðinga meðferðarheimilisins Varpholts, síðar Laugalands. Því telji stofan hugsanlegt að gögnin í heild sinni falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Að auki sé það mat stofunnar að það tæki einn lögfræðing Barnaverndarstofu 30 daga að yfirfara umrædd gögn, einkum með hliðsjón af afmáningu viðkvæmra upplýsinga og því hve gögnin eru torlæsileg. Barnaverndarstofa telji að vinna við að afgreiða þennan hluta beiðninnar feli í sér svo umtalsverða skerðingu á möguleikum hennar til að sinna öðrum hlutverkum sínum að heimilt sé að beita undanþáguheimild 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Í því sambandi sé bent á að mikill málahali sé hjá stofnuninni, einkum í tengslum við meðferð kvörtunarmála sem lögfræðingar stofnunarinnar sinni. Þá er tekið fram að kvörtunum hafi verið beint til umboðsmanns Alþingis vegna þess hversu langan tíma hafi tekið að afgreiða slík mál sem einkum hafi verið rakið til fjölda slíkra mála hjá stofnuninni og þess að slík mál séu iðulega umfangsmikil og úrlausn þeirra flókin. <br /> <br /> Það sé því afstaða Barnaverndarstofu að kærandi eigi ekki rétt til að fá aðgang að vaktaskráningum/dagbókaskráningum á Varpholti, síðar Laugalandi, vegna áranna 1997 til 2007, með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Stofan hafi lagt raunverulegt mat á umfang þeirrar vinnu sem yfirferð gagnanna kalli á og telji að heimild standi til þess að synja beiðninni á þeim grunni.<br /> <br /> Í umsögninni er því vísað á bug sem fram kemur í kærunni þess efnis að stofan hafi sýnt af sér aðgerðarleysi við afgreiðslu beiðninnar og afhendingu umbeðinna gagna. Í því sambandi er tekið fram að stofan hafi í hvívetna lagt sig fram við að fara yfir öll fyrirliggjandi gögn og afhent alls 482 skjöl þar sem hvert og eitt skjal hafi verið metið m.t.t. upplýsingalaga. Loks segir að ef eftir því verði óskað muni Barnaverndarstofa fúslega afhenda úrskurðarnefndinni umrædd gögn sem óskað hafi verið aðgangs að, ellegar útbúa afrit af hluta þeirra til að nefndin geti áttað sig á umfangi og innihaldi þeirra. <br /> <br /> Með erindi, dags. 24. mars 2021, var umsögn Barnaverndarstofu kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. <br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 25. mars. 2021, kemur fram að ekki sé fallist á þær röksemdir sem fram komi í umsögn Barnaverndarstofu. Í því sambandi er bent á að röksemdir stofunnar hafi tekið breytingum en í upphaflegri ákvörðun Barnaverndarstofu hafi komið fram að beiðni um umrædd gögn hafi verið synjað með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Í umsögn stofnunarinnar sé nú einnig vísað til 9. gr. upplýsingalaga. Þá mótmæli kærandi þeirri fullyrðingu að það muni taka lögfræðing stofnunarinnar svo langan tíma að afgreiða beiðnina. Þá er vísað til þess að gögnin lúti að rekstri meðferðarheimilis þar sem tugir kvenna hafi borið við að hafa sætt ofbeldi. Færa megi fyrir því rök að í umræddum gögnum sé að finna mikilsverðar upplýsingar þar um. Barnaverndarstofa hafi sjálf viðurkennt að eftirlit hennar með rekstri heimilisins hafi brugðist og hefur beðið konurnar afsökunar. Ljóst sé að þeirri stofnun sem gert hafi verið að rannsaka málið hafi ekki sett það í forgang og því sé bið eftir niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Það auki enn frekar á mikilvægi þess að fjallað verði um málið. <br /> <br /> Með tölvubréfi til Barnaverndarstofu, dags. 14. júlí 2021, var þess óskað að stofnunin afhenti úrskurðarnefndinni í trúnaði sýnishorn af handahófi af þeim gögnum sem kæran laut að svo nefndinni yrði unnt að leggja mat á gögnin. Í kjölfarið boðsendi Barnaverndarstofa nefndinni 42 blaðsíður valdar af handahófi úr umræddum gögnum, bárust gögnin nefndinni 27. júlí 2021. Að lokinni yfirferð þessara gagna taldi úrskurðarnefndin tilefni til að óska eftir öllum gögnum sem kæran tók til og fór nefndin þess á leit með tölvubréfi til Barnaverndarstofu, dags. 3. september 2021. Vegna umfangs gagnanna og þess forms sem þau eru á, þ.e. handskrifaðar blaðsíður í dagbókum, bauð Barnaverndarstofa úrskurðarnefndinni að fá bækurnar að láni í stað þess að tekin yrðu ljósrit af hverri blaðsíðu. Úrskurðarnefndin féllst á það og fékk bækurnar afhentar þann 6. október 2021.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að vaktskráningum/dagbókarskráningum á Varpholti, síðar Laugalandi, vegna áranna 1997 til 2007. Beiðni kæranda var synjað með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Þá hefur Barnaverndarstofa jafnframt vísað til þess að hugsanlegt sé að umrædd gögn falli í heild sinni undir 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Beiðni kæranda er reist á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem segir m.a. að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greini í 6.–10. gr. Sama gildi þegar óskað sé aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.<br /> <br /> Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir m.a. að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.<br /> <br /> Umræddar dagbókarskráningar/vaktskráningar hafa að geyma dagsettar handskrifaðar færslur starfsmanna meðferðarheimilisins þar sem skráðar eru ýmsar upplýsingar úr daglegri starfsemi heimilisins. Í færslunum er fjallað um hagi nafngreindra skjólstæðinga meðferðarheimilisins, þ. á m. upplýsingar um heilsufar þeirra, hegðun og líðan og þá meðferð sem þeir nutu á meðan á vistinni stóð. Úrskurðarnefndin telur engum vafa undirorpið að gögnin lúti að einkamálefnum þeirra einstaklinga sem um ræðir og að um sé að ræða einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Barnaverndarstofu væri því, án samþykkis þessa sömu einstaklinga, óheimilt að afhenda gögnin um þá án þess að fella úr þeim atriði er varða einkamálefni þau sem lýst er að framan.<br /> <br /> Það álitaefni sem liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðar því það hvort Barnaverndarstofu sé skylt að fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar úr gögnunum og afhenda þau svo kæranda. Það athugast í þessu sambandi að auk upplýsinga sem gera gögnin beinlínis persónugreinanleg, svo sem nöfn einstaklinga, geta ýmsar aðrar upplýsingar, séu þær settar í samhengi, gert óviðkomandi með óbeinum hætti kleift að tengja gögnin við einstaklinga.<br /> <br /> Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd margsinnis kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig.<br /> <br /> Í þessu máli reynir hins vegar sem fyrr segir jafnframt á ákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. þar sem segir að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Eins og áður segir telur Barnaverndarstofa skilyrði þessa undantekningarákvæðis uppfyllt. <br /> <br /> Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að til þess að skilyrðum ákvæðisins í 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. sé fullnægt þurfi umfang upplýsingabeiðni eða fjöldi þeirra frá einum og sama aðilanum að vera slíkur að vinna stjórnvalds eða annarra lögaðila sem lögin taka til við afgreiðslu hennar mundi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.<br /> <br /> Fyrir liggur að í þeim gögnum sem kærandi fer fram á er að finna margvíslegar upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Til þess að unnt yrði að verða við beiðni kæranda yrði því að yfirfara öll gögnin gaumgæfilega og fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar. Úrskurðarnefndin áréttar í því sambandi að ekki væri nægjanlegt að fjarlægja aðeins þær upplýsingar sem með beinum hætti gæfu til kynna um hvaða einstaklinga er að ræða heldur þyrfti að leggja í umtalsverða vinnu til að afmarka nákvæmlega hvaða upplýsingar gætu varpað ljósi á það um hvaða einstaklinga ræðir og hverjar ekki. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér gögnin, sem eru handrituð, og er heildarblaðsíðufjöldi þeirra um 1.800 blaðsíður. Með vísan til þess hversu umfangsmikil beiðni kæranda er og þeirrar vinnu sem ráðast yrði í áður en slík gögn yrðu afhent almenningi, sem ræðst ekki síst af eðli málaflokksins, telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fallast verði á það með Barnaverndarstofu að beiðni kæranda um afhendingu umræddra vaktskráninga/dagbókarskráninga á árunum 1997 til 2007 sé svo umfangsmikil að beita megi undantekningarreglu 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og að ekki sé hægt að krefjast þess af Barnaverndarstofu að orðið verði við henni, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 745/2018 frá 27. júní 2018. Í þessu sambandi telur úrskurðarnefndin að jafnframt verði að horfa til þess að gögnin eru handskrifuð og miðað við þau sýnishorn sem Barnaverndarstofa afhenti nefndinni eru sumar færslurnar nokkuð torlæsilegar. Með vísan til framangreinds er synjun Barnaverndarstofu á beiðni kæranda því staðfest.<br /> <br /> Loks tekur úrskurðarnefndin fram að jafnvel þótt almenningur hafi hagsmuni af því að geta nálgast upplýsingar um það hvernig barnavernd í landinu fer fram, og kærandi gegni því hlutverki sem starfsmaður fjölmiðils að miðla upplýsingum um opinber málefni, hefur löggjafinn við setningu upplýsingalaga tekið skýra afstöðu til þess að hagsmunir einstaklinga, sem slíkar upplýsingar varða af því að þær fari leynt með hliðsjón af friðhelgi einkalífs þeirra, sem varið er með 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, vegi þyngra en hagsmunir þriðju aðila af því að kynna sér upplýsingarnar. Þá hefur nefndin enga afstöðu tekið til þess hvort Barnaverndarstofu kunni eftir atvikum að vera skylt að afhenda hluta þeirra gagna sem um ræðir, ef kærandi kýs að afmarka beiðni sína við færri gögn og þá þannig að ekki reyni á þau sérstöku sjónarmið sem greinir í undantekningarreglu 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Barnaverndarstofu, dags. 26. febrúar 2021, um synjun beiðni kæranda um aðgang að vaktskráningum/dagbókarskráningum á Varpholti, síðar Laugalandi, vegna áranna 1997 til 2007 er staðfest.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> <br /> Sigríður Árnadóttir<br />

1038/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

A kærði afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni um aðgang að gögnum hjá sveitarfélaginu sem tengjast breytingu á deiliskipulagi. Beiðni kæranda hafði ekki verið afgreidd af sveitarfélaginu um tíu mánuðum eftir að hún var lögð fram. Úrskurðarnefndin taldi hafið yfir allan vafa að tafir á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda teldust óréttlætanlegar og úrskurðaði því um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1038/2021 í máli ÚNU 21060015. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 22. júní 2021, kærði A afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi hafi gert athugasemdir við umhverfisskýrslu sveitarfélagsins vegna breytinga á deiliskipulagi vegna Haukasvæðis. Kærandi [...] hafi því verulega hagsmuni af breytingunum. Þá hafi kærandi óskað eftir gögnum þann 26. október 2020 en við ritun kæru, um átta mánuðum síðar, hafi kærandi ekki fengið nein gögn þrátt fyrir margar ítrekanir. Þann 15. apríl 2021 hafi Hafnarfjarðarbær synjað kæranda um aðgang að gögnum en þrátt fyrir ítrekunarbeiðni þann 25. apríl 2021 hafi sveitarfélagið ekki útskýrt á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin byggist. Nokkrum dögum eftir ítrekunina hafi sveitarfélagið aftur tilkynnt um breytt deiliskipulag og gert aðgengilega svokallaða umhverfisskýrslu vegna Ásvalla. Hvorki þá né síðar hafi kærandi fengið gögn frá sveitarfélaginu. <br /> <br /> Að mati kæranda sé sveitarfélagið ljóslega vísvitandi að halda hagaðilum frá gögnum málsins. Kærandi krefst þess að fá aðgang að öllum gögnum sem tengjast breytingu á deiliskipulagi á Haukasvæðinu, hvenær sem upplýsingarnar hafi legið fyrir. Undir kröfuna falli m.a. eftirfarandi gögn og upplýsingar:<br /> <br /> 1. Yfirlit/skrá yfir öll gögn málsins.<br /> 2. Aðgangur að öllum athugasemdum við breytingu á deiliskipulagi vegna Haukasvæðisins.<br /> 3. Samningur sveitarfélagsins við VSÓ og yfirlit um greiðslur.<br /> 4. Erindi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins þar sem farið sé fram á gerð nýrrar umhverfisskýrslu.<br /> 5. Ódagsett skýrsla sem sveitarfélagið hafi sent Skipulagsstofnun, sbr. umfjöllun um þá skýrslu í tölvubréfi sveitarfélagsins til kæranda dags. 15.04.2021.<br /> 6. Svör Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins.<br /> 7. Allar umsagnir, athugasemdir, minnisblöð o.fl. sem liggi fyrir í málinu. Hér falli í dæmaskyni undir hvers konar gögn sem stafa frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Hér falli undir hvers konar formleg og óformleg gögn. Taka skuli saman upplýsingar ef um sé að ræða veittar munnlegar upplýsingar.<br /> 8. Öll drög og útgáfur af umhverfisskýrslu/greinargerð VSÓ. Drög skuli innihalda „comments“ og breytingartillögur. Hér sé átt við uppköst eða minnisblöð sama hvort VSÓ sendi sveitarfélaginu slíkt eða sveitarfélagið sendi slíkt til VSÓ.<br /> 9. Samskipti (munnleg og skrifleg) sveitarfélagsins við þriðja aðila, ásamt tengdum gögnum (t.d. viðhengi). Undir þetta falli hvers konar samskiptagögn, formleg eða óformleg, þ.á m. tölvupóstar, aðrir rafrænir samskiptamátar t.d. TEAMS, símtöl, fundargerðir o.s.frv., t.d. eftirfarandi: Samskipti við stjórnvöld, t.d. Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, ráðuneyti o.s.frv. Samskiptagögn við formlegan eða óformlegan álitsgjafa, þ. á m. tölvupóstar, yfirlit yfir fundi með ráðgjöfum og e.a. fundargerðir og minnisblöð, formleg og óformleg samskipti við Hauka og/eða fyrirsvarsmenn Hauka, samskipti við fjölmiðla, öll samskipti sveitarfélagsins við VSÓ, yfirlit yfir fundi með VSÓ og e.a. fundargerðir/punktar.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Hafnarfjarðarbæ með erindi, dags. 22. júní 2021, og vakin athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 beri stjórnvaldi að taka ákvörðun um það hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða megi. Enn fremur skuli skýra þeim sem fer fram á aðgang að gögnum frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá beri að tilkynna skriflega synjun beiðni, sbr. 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Því var beint til Hafnarfjarðarbæjar að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda svo fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 6. júlí 2021.<br /> <br /> Erindi úrskurðarnefndarinnar var ítrekað þann 9. júlí 2021. Samdægurs bárust þau svör að erindið hefði verið áframsent til sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og bæjarlögmanns Hafnarfjarðar. Erindi nefndarinnar var ítrekað þann 9. ágúst 2021 og í svari bæjarlögmanns, dags. 10. ágúst 2021, kemur fram að Hafnarfjarðarbær hafi ekki synjað um afhendingu umbeðinna gagna. Hluti umbeðinna gagna hafi ekki legið fyrir þegar beiðni kæranda kom fram en ætlunin sé að afhenda öll gögn sem beiðni kæranda tekur til. Ekki séu því gerðar „efnislegar athugasemdir við erindi kæranda“. <br /> <br /> Af þessu tilefni áréttaði ritari úrskurðarnefndar um upplýsingamál með erindi, dags. 11. ágúst 2021, að málið snerist um það hvort og þá hverju sveitarfélagið hefði svarað kæranda. Óskað var upplýsinga um það hvort kærandi hefði verið upplýstur um afstöðu sveitarfélagsins. Ekki barst svar við erindinu og frekari tilraunir til að ná sambandi við bæjarlögmann, m.a. símleiðis, báru ekki árangur.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum hjá Hafnarfjarðarbæ. Af gögnum málsins er ljóst að beiðni kæranda hefur ekki verið afgreidd, þ.e. um tíu mánuðum eftir að hún var lögð fram.<br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Ef beiðni hefur ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar er beiðanda heimilt samkvæmt 3. mgr. 17. gr. að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs.<br /> <br /> Ákvæði 3. mgr. 17. gr. var bætt við upplýsingalög með lögum nr. 72/2019 sem samþykkt voru á Alþingi þann 24. júní 2019. Í frumvarpi sem varð að síðarnefndu lögunum var gert ráð fyrir því að 40 virkir dagar þyrftu að líða til að úrskurðarnefnd um upplýsingamál gæti tekið mál til meðferðar á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga en þessi tími var styttur í meðförum þingsins í 30 virka daga. Í almennum athugasemdum frumvarps sem varð að lögum nr. 72/2019 kemur fram að málshraði við afgreiðslu beiðna um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum geti haft verulega þýðingu. Óhóflegar tafir á töku ákvörðunar, endurskoðun hennar eða afhendingu umbeðinna gagna feli í sér óréttlætanlegar takmarkanir á upplýsingarétti almennings. Lagt sé til að sett verði regla um hámarksafgreiðslutíma beiðna um aðgang að gögnum sem sæki m.a. fyrirmynd í norsku upplýsingalögin. Í sérstökum skýringum við 13. gr. frumvarpsins, sem bætti 3. mgr. 17. gr. við upplýsingalög nr. 140/2012, segir m.a. að það feli í sér umtalsverða réttarbót að í tilvikum þar sem kærði hafi ekki sinnt beiðni fái beiðandi úrræði til að knýja fram efnislega niðurstöðu um upplýsingarétt sinn, jafnvel þótt sú niðurstaða verði ekki endurskoðuð með öðrum hætti en að bera hana undir almenna dómstóla. Þá kemur fram að hin nýja regla muni fyrst og fremst eiga við þegar afgreiðsla beiðni tefst úr hófi og ástæður þess sé að rekja til athafnaleysis eða annarra óréttlætanlegra tafa á málsmeðferð þess aðila sem hefur beiðni til meðferðar.<br /> <br /> Af gögnum málsins telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafið yfir allan vafa að tafir á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda teljast óréttlætanlegar í framangreindum skilningi. Af hálfu bæjarins hefur komið fram að hluti umbeðinna gagna hafi ekki legið fyrir þegar beiðni kæranda kom fram en engar skýringar hafa verið veittar á þeirri háttsemi sveitarfélagsins að láta hjá líða að afgreiða beiðni kæranda varðandi þann hluta umbeðinna gagna sem sannarlega liggur fyrir í vörslum sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin áréttar að þegar gögn eru ekki fyrirliggjandi getur réttur til aðgangs að þeim ekki byggst á upplýsingalögum, sbr. orðalag 1. mgr. 5. gr. laganna og ítrekaða úrskurðarframkvæmd nefndarinnar. Ef gögn sem beiðni tekur til liggja á annað borð fyrir eru hins vegar ekki að lögum forsendur til að láta hjá líða að afgreiða þann hluta beiðni af þeirri ástæðu að í beiðninni sé einnig óskað eftir aðgangi að gögnum sem ekki liggja fyrir. Af þeirri ástæðu verða þær óhóflegu tafir sem orðið hafa á því að Hafnarfjarðarbær afgreiddi beiðni kæranda ekki réttlætar með því einu að hluti gagnanna hafi ekki legið fyrir á þeim tímapunkti sem beiðnin barst. <br /> <br /> Í málinu er til þess að líta að af hálfu bæjarlögmanns Hafnarfjarðarbæjar hefur komið fram að ekki séu gerðar „efnislegar athugasemdir“ við beiðni kæranda og að ætlunin sé að afhenda öll gögn sem hún tekur til. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem bærinn hefur sjálfur veitt um efni umbeðinna gagna að þessu leyti og rétt kæranda til aðgangs að þeim er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi rétt til aðgangs að öllum fyrirliggjandi gögnum í vörslum sveitarfélagsins sem beiðnin tekur til. Enn fremur beinir úrskurðarnefndin því til Hafnarfjarðarbæjar að gæta framvegis að reglum um málshraða, sbr. 17. gr. upplýsingalaga og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Hafnarfjarðarbæ ber að veita kæranda, A, aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum hjá sveitarfélaginu sem tengjast breytingu á deiliskipulagi á Haukasvæðinu.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1037/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

Kærð var synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni um aðgang að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19. Synjun ráðuneytisins byggðist annars vegar á því að samningarnir hefðu að geyma upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni framleiðenda bóluefnanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar á því að mikilvægir almannahagsmunir krefðust þess að aðgangur kæranda yrði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst á það með ráðuneytinu að umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir stæðu til að fari leynt. Að fenginni þeirri niðurstöðu var að mati nefndarinnar óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga væru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1037/2021 í máli ÚNU 21050002. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 2. maí 2021, kærði A afgreiðslu heilbrigðisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi telji sig þurfa að fá upplýsingar um hvað standi í samningum íslenska ríkisins við framleiðendur bóluefna gegn COVID-19 vegna áætlana stjórnvalda um að bólusetja ungt og heilbrigt fólk vegna sjúkdóms sem því stafi lítil sem engin hætta af. Til dæmis megi spyrja hvort búið sé að skuldbinda ákveðinn fjölda Íslendinga til að taka þátt í bólusetningum en slíkt myndi fela í sér alvarleg mannréttindabrot. <br /> <br /> Með kæru fylgdi afrit af samskiptum kæranda við heilbrigðisráðuneytið en af þeim má ráða að ráðuneytið synjaði beiðninni með tölvupósti, dags. 4. mars 2021, með vísan til þess að samningarnir féllu undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er jafnframt vísað til þess að samningarnir séu undanþegnir upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, sbr. 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Loks liggur fyrir að kærandi ítrekaði beiðni sína þann 19. apríl 2021 en ekki verður séð að ráðuneytið hafi svarað erindinu.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt heilbrigðisráðuneyti með erindi, dags. 3. maí 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Umsögn heilbrigðisráðuneytisins barst þann 28. júní 2021. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi undirritað tíu samninga á grundvelli samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Annars vegar sé um að ræða þríhliða samninga við sænska ríkið og viðkomandi lyfjaframleiðanda um afhendingu bóluefnis, ábyrgð o.fl. og hins vegar samninga við sænska ríkið um greiðslur vegna kaupa á bóluefni. Ákveðið hafi verið að gera samninga við marga mögulega framleiðendur til að hámarka möguleika á því að koma bóluefni á markað sem fyrst. Í öllum samningum ESB sé gert ráð fyrir því að EFTA-ríkin geti fengið hlutdeild af umsömdum bóluefnaskömmtum gegn því að axla ábyrgð samkvæmt samningi. Þátttökuríki Evrópusambandsins og EFTA-ríkin séu því jafnsett um öll atriði samninganna, þ.m.t. ákvæði um trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart lyfjaframleiðendum.<br /> <br /> Í umsögninni er vikið að ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Undir það falli viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu, svo og aðra viðkvæma viðskiptahagsmuni. Að mati heilbrigðisráðuneytisins innihalda umbeðnir samningar upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem séu enn virkir þar sem faraldur ríki enn. Þetta hagsmunamat geti breyst að faraldri loknum og samningarnir gerðir opinberir. Nú geti afhending samninganna hins vegar skaðað hagsmuni íslenska ríkisins í baráttu við COVID-19, t.d. þar sem afhending bóluefnis sem samið hefur verið um fari ekki fram. Jafnframt megi leiða að því líkur að þörf verði fyrir áframhaldandi bólusetningar og nauðsynlegt að ganga til frekari samninga um kaup á bóluefnum. Afhending samninganna geti spillt fyrir slíkum samningaviðræðum og möguleikum ríkisins til áframhaldandi kaupa á bóluefnum.<br /> <br /> Heilbrigðisráðuneytið vísar til þess að ef veita skuli aðgang að upplýsingum sem falli undir 9. gr. laganna þurfi að afla skriflegs samþykkis þess sem í hlut á. Hins vegar liggi fyrir sú viljaafstaða lyfjaframleiðenda að efni samninganna fari leynt. Verði farið gegn vilja þeirra geti skapast sú hætta að bóluefnasamningar falli niður vegna trúnaðarbrests og samningaviðræðum næstu ára stefnt í hættu. Ráðuneytið hafi aflað þeirra upplýsinga að hvorki aðildarríki ESB né Noregur hafi afhent sambærilega samninga sem ríkin hafa gert við lyfjaframleiðendur.<br /> <br /> Varðandi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga kemur m.a. fram af hálfu heilbrigðisráðuneytisins að afhending umbeðinna gagna væri til þess fallin að spilla samskiptum við lyfjaframleiðendur og aðra viðsemjendur íslenska ríkisins, einkum þar sem afhending á bóluefnum hafi ekki farið fram. Slíkt geti haft verulega neikvæð áhrif á þá almannahagsmuni sem felist í því að fá bóluefni við COVID-19 til Íslands sem fyrst og fyrir sem flesta. Vísað er til fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar um skýringu ákvæðisins varðandi samninga við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir.<br /> <br /> Umsögn heilbrigðisráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 1. júlí 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 12. júlí 2021, segir m.a. að kærandi geti ekki séð af upplýsingalögum að samningar séu undanskildir aðgangi. Ekki skipti máli hvort heilbrigðisráðuneytið telji málið viðkvæmt eða ekki. Upplýsingalög taki til allrar starfsemi stjórnvalda og til hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar, setningar stjórnvaldsfyrirmæla og annarrar starfsemi. Kærandi vísar til þess að lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna hafi varað við notkun bóluefna frá Pfizer og Moderna vegna hættu á hjartavöðvabólgu í ungu fólki. Stjórnvöld haldi hins vegar áfram að gefa ungu fólki lyfin sem séu á neyðarleyfi. Yfirvöld setji boð upp sem nokkurs konar kvaðningu, höfði til samvisku fólks og geri það ábyrgt fyrir heilsu annarra.<br /> <br /> Kærandi telur að Lyfjastofnun reyni að fela upplýsingar um aukaverkanir bóluefnanna. Yfirvöld láti Íslendinga taka þátt í lyfjarannsókn án þess að fólk geri sér grein fyrir því, sérstaklega ungt fólk. Yfirmaður Lyfjastofnunar fái álagsgreiðslur fyrir þetta. Fram hafi komið að fjöldi kvenna hafi kvartað undan breytingum á tíðahring, konur hafi misst fóstur og eins hafi aldrei verið rannsakað hvað það þýði að blanda saman tveimur ólíkum bóluefnum. Þess vegna sé mjög mikilvægt að vita hvað ríkið sé búið að semja um varðandi þátttöku Íslendinga í þessari rannsókn.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19. Um er að ræða eftirfarandi samninga:<br /> <br /> 1. Samningar íslenska ríkisins, sænska ríkisins og AstraZeneca AB um kaup á bóluefni.<br /> 2. Samningar íslenska ríkisins, sænska ríkisins og CureVac AG um kaup á bóluefni.<br /> 3. Samningar íslenska ríkisins, sænska ríkisins, Pfizer Inc. og BioNTech Manufacturing GmbH um kaup á bóluefni.<br /> 4. Samningar íslenska ríkisins, sænska ríkisins og Janssen Pharmaceutica NV um kaup á bóluefni.<br /> 5. Samningar íslenska ríkisins, sænska ríkisins og Moderna Switzerland GmbH um kaup á bóluefni.<br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga skal mál borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Heilbrigðisráðuneytið synjaði beiðni kæranda með tölvupósti, dags. 4. mars 2021, en kæra barst úrskurðarnefndinni þann 3. maí 2021. Hún barst því um það bil mánuði eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um að synja kæranda um aðgang var þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr., svo sem áskilið er í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á er einnig til þess að líta að kærandi ítrekaði beiðni sína þann 19. apríl 2021 og óskaði „formlega“ eftir afriti af umbeðnum gögnum. Tekið var fram að ef beiðninni yrði hafnað myndi kærandi afla aðstoðar lögmanns til að fá gögnin afhent. Ekki fæst séð að heilbrigðisráðuneytið hafi svarað erindinu en eins og hér stendur á má jafna þeirri aðstöðu við að ráðuneytið hafi synjað beiðninni að nýju, sbr. einnig ákvæði 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Í ljósi þessara atvika verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist innan kærufrests og er hún því tekin til efnislegrar meðferðar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. <br /> <br /> 2.<br /> Ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um synjun beiðni kæranda byggist annars vegar á því að þeir hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni framleiðenda bóluefnanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsinglaga, en hins vegar á því að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að aðgangur kæranda verði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna.<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæði 2. tölul. 10. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Ákvæðið á við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Þeir hagsmunir sem hér er verið að vernda eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.“<br /> <br /> Auk þess segir orðrétt:<br /> <br /> „Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða er ljóst að varfærni er eðlileg við skýringu á ákvæðinu.“<br /> <br /> Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Í úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur verið fallist á það sjónarmið að til að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi kunni að vera rétt að samskipti, sem fari fram á þeim vettvangi, séu undanþegin upplýsingarétti á meðan samskiptin standa yfir. Þannig megi meðal annars tryggja að samskipti geti farið fram frjálst og óhindrað. Við matið er litið til eðlis þessara samskipta og hvort líta megi á þau sem ófullgerð vinnugögn eða endanlega afgreiðslu mála. Þá er að mati úrskurðarnefndarinnar jafnframt rétt að líta til þess hvort samskiptin snúi að viðkvæmum málefnum, samskiptaleiðum sem hætta er á að lokist ef upplýsingar sem þaðan berast yrðu á almannavitorði, eða öðrum atriðum sem þykja raunverulega geta leitt til þess að traust erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana á íslenskum stjórnvöldum glatist. Ákvæðið verður hins vegar ekki túlkað svo rúmt að stjórnvöld geti, með vísan til mikilvægis trúnaðar, takmarkað aðgang að öllum gögnum er varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir án atviksbundins mats, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. A-326/2009, 770/2018 og 898/2020. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að skilyrðið um almannahagsmuni væri þá í reynd þýðingarlaust.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umbeðin gögn með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Af gögnunum og skýringum heilbrigðisráðuneytisins leikur ekki vafi á því að líta ber á samningana sem samskipti við önnur ríki í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá varða samningarnir að hluta samskipti við fjölþjóðastofnarnir, þ.e. stofnanir Evrópusambandsins vegna þátttöku íslenska ríkisins í samningi um Evrópska efnahagssvæðið, en fyrir liggur að íslenska ríkinu var gert kleift að taka þátt í kaupum á bóluefni gegn COVID-19 á grundvelli samstarfsins. Í málinu reynir því á það hvort þeir mikilvægu almannahagsmunir sem felast í því að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi standi því í vegi að kæranda verði veittur aðgangur að samningunum.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að það er skilyrði takmörkunar upplýsingaréttar á grundvelli 10. gr. upplýsingalaga að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess. Beiðni um upplýsingar verður ekki synjað með stoð í ákvæðinu nema aðgangur leiði af sér hættu á tjóni á einhverjum þeim hagsmunum sem njóta verndar samkvæmt ákvæðinu. Í þessu sambandi lítur úrskurðarnefnd um upplýsingamál m.a. til þess að í samningunum er gert ráð fyrir því að þeir skuli fara leynt. <br /> <br /> Við þessar aðstæður telur úrskurðarnefndin einsýnt að birting samninganna í heild eða að hluta af hálfu íslenskra stjórnvalda væri til þess fallin að skerða það trúnaðartraust sem ríkir á milli samningsaðilanna, þ.e. íslenska ríkisins, sænska ríkisins, sem kemur fram fyrir hönd Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi, og lyfjaframleiðendanna. Þrátt fyrir að samningarnir varði atriði sem geta ekki talist standa yfir í þeim skilningi sem áður er vikið að, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 701/2017 frá 11. september 2017, verður ekki fram hjá því litið að íslenska ríkinu mun líklega reynast nauðsynlegt að festa kaup á fleiri bóluefnaskömmtum gegn COVID-19. Samkvæmt framangreindu gæti afhending samninganna af hálfu íslenskra stjórnvalda leitt til þess að samningsaðilar íslenska ríkisins beri fyrir sig vanefndir á samningunum og að afhending bóluefna samkvæmt samningunum raskist og enn fremur að samningsstaða ríkisins vegna frekari kaupa á bóluefnum breytist til hins verra vegna þeirrar áherslu sem samningsaðilar íslenska ríkisins hafa lagt á trúnað. <br /> <br /> Með hliðsjón af framangreindu lítur úrskurðarnefnd um upplýsingamál svo á að hin kærða ákvörðun fái stoð í 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, þar sem umbeðin gögn hafa að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir standa til að fari leynt. Það fær ekki breytt þessari niðurstöðu að almenningur eigi almennt ríkan rétt á að kynna sér samninga hins opinbera við einkaaðila sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjármagns. Verður í því sambandi að leggja áherslu á að birting samninginna án samþykkis samningsaðila og staðfesting íslenskra stjórnvalda á efni samninganna getur haft í för með sér sömu afleiðingar og áður er lýst, þ.e. að samningsaðilar íslenska ríkisins neyti vanefndaúrræða gagnvart ríkinu með hugsanlegri röskun á afhendingu bóluefna sem og skerðingu á samningsstöðu íslenska ríkisins við frekari kaup á bóluefnum. <br /> <br /> 3.<br /> Að fenginni þeirri niðurstöðu sem að framan greinir er að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga eru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins, dags. 4. mars 2021, um synjun beiðni kæranda, A, um aðgang að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1036/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

A kærði synjun Garðabæjar á beiðni um aðgang að gögnum er vörðuðu störf starfsmanns sveitarfélagsins. Af hálfu sveitarfélagsins kom fram að erindi kæranda hefði ekki leitt til gagnagerðar eða söfnunar gagna af hálfu bæjarins. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja staðhæfingu sveitarfélagsins og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1036/2021 í máli ÚNU 21040002.<br /> <h2>Kæra og málsatvik </h2> Með erindi, dags. 8. apríl 2021, kærði A synjun Garðabæjar á beiðni um aðgang að upplýsingum er varða störf starfsmanns sveitarfélagsins í tengslum við málefni dóttur hans þegar hún var nemandi eins af skólum bæjarins.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi hafi kvartað undan störfum tiltekins starfsmanns sveitarfélagsins með erindi dags. 20. október 2020. Í framhaldinu hafi kærandi óskað eftir upplýsingum frá bæjarstjóra Garðabæjar um hvernig tekið hefði verið á kvörtuninni þar sem kærandi taldi ósennilegt að ítarleg könnun á störfum viðkomandi starfsmanns hefði farið fram. <br /> <br /> Með bréfi Garðabæjar, dags. 27. janúar 2021, svaraði bæjarstjóri erindinu og ítrekaði að hann bæri fullt traust til viðkomandi starfsmanns, annarra starfsmanna bæjarins og utanaðkomandi aðila sem að málinu hefðu komið. Kvörtunum kæranda í garð starfsmanna bæjarins sem komið hefðu að úrvinnslu máls dóttur kæranda hefði áður verið svarað, m.a. með tölvupóstum dags. 12. nóvember 2020 og 3. desember 2020. Segir enn fremur að bæjarstjóri hafi fylgst með því að starfsmennirnir sinntu störfum sínum af fagmennsku, kostgæfni og heilindum. Ekkert í starfi viðkomandi starfsmanns eða annarra starfsmanna Garðabæjar hefði gefið nokkra ástæðu til áminninga eða beitingu viðurlaga. Þá vakti bæjarstjóri athygli kæranda á því að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna Garðabæjar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 tæki ekki til gagna er vörðuðu framgang í starfi eða starfssamband þeirra að öðru leyti við bæjarfélagið. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kvartað sé undan sinnuleysi bæjarstjóra Garðabæjar er varðar kvörtun kæranda. Upphaflega hafi kærandi leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem vísað hafi til þess að ráðuneytið hafi ekki eftirlit með starfsmannamálum sveitarfélaga, sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um að hægt væri að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis teldi aðili sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalda eða sveitarfélaga. Þá væri jafnframt hægt að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar á beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Kærandi telur að þau lög sem bæjarstjóri Garðabæjar vísi til eigi ekki við í málinu og það sé réttur hans að fá upplýsingar frá bæjarfélaginu um það hvernig brugðist hafi verið við kvörtuninni.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Garðabæ með bréfi, dags. 8. júní 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Garðabæjar, dags. 29. júní 2021, kemur fram að bæjarstjóri Garðabæjar hafi svarað erindi kæranda vegna viðkomandi starfsmanns með bréfi, dags. 27. janúar 2021. Í bréfinu hafi verið vakin athygli á því að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna Garðabæjar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 tæki ekki til gagna sem vörðuðu framgang í starfi eða starfssamband þeirra að öðru leyti við bæjarfélagið. Eins og fram kæmi í bréfinu nyti viðkomandi starfsmaður fyllsta trausts og benti ekkert annað til þess en að hann sinni starfi sínu af fagmennsku, kostgæfni og heilindum. Því væri engum gögnum til að dreifa um starfsmannamál sem kæra sneri að. Meðfylgjandi umsögninni var bréf bæjarstjóra til kæranda dags. 27. janúar 2021. <br /> <br /> Umsögn Garðabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. júlí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu óskaði kærandi eftir gögnum sem orðið hefðu til í tilefni af kvörtun hans til bæjarstjóra Garðabæjar vegna framgöngu tiltekins starfsmanns sveitarfélagsins. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að umrætt erindi kæranda til bæjarins hafi ekki leitt til neinnar gagnagerðar eða söfnunar gagna af hálfu bæjarins og því sé engum gögnum til að dreifa sem falli undir kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. <br /> <br /> Í ljósi framangreindra skýringa sveitarfélagsins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn sem tengjast kvörtun kæranda vegna framgöngu viðkomandi starfsmanns Garðabæjar séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. <br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 8. apríl 2021, um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni um aðgang að gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br />

1035/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

Ritstjóri fréttaskýringarþáttar á RÚV kærði afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á beiðni um aðgang að upplýsingum um nöfn lækna sem afmáð voru úr töflureikningskjali. Synjun stofnunarinnar var byggð á því að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, þar sem hætta gæti skapast á því að unnt væri að persónugreina sjúklinga. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og lagði því fyrir Sjúkratryggingar Íslands að veita kæranda aðgang að þeim.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1035/2021 í máli ÚNU 21030001. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 2. mars 2021, kærði A, ritstjóri fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV, afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á beiðni um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvupósti til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. maí 2019, óskaði kærandi eftir öllum reikningum bæklunarlækna, hjartalækna, háls-, nef- og eyrnalækna og röntgenlækna (myndgreiningar), sem stofnuninni hafa borist á árunum 2016-2018. <br /> <br /> Kærandi fór fram á að umbeðnar upplýsingar yrðu afhentar með sem gleggstum hætti þannig að hægt væri að greina reikninga niður á einstaka lækna, en þó ekki á nafn hvers og eins læknis, heldur mætti til að mynda merkja þá með númerum, ásamt þeim verkum/aðgerðum sem rukkað væri fyrir, þ.e. hvað liggi að baki þeim einingum sem greitt er fyrir. <br /> <br /> Með svari Sjúkratrygginga Íslands, dags. 2. júlí 2019, voru umrædd gögn afhent þar sem nöfn lækna voru fjarlægð þannig að hver læknir fékk sérstakt númer og sérgrein læknisins var tengd við númerið. Læknanúmerin voru síðan tengd við upplýsingar um einstaka aðgerðir/meðferðir, hvaða ár þær fóru fram, kostnað (sjúklingshluta og greiðsluþátttöku SÍ) og notkun gjaldliða. <br /> <br /> Kærandi sendi Sjúkratryggingum Íslands nýja beiðni, dags. 14. ágúst 2020, þar sem óskað var eftir sömu gögnum fyrir árið 2019. Líkt og í fyrri beiðninni var þess óskað að gögnin væru ópersónugreinanleg, þ.e. ekki var óskað eftir nöfnum lækna heldur dulkóðuðum upplýsingum. Sjúkratryggingar Íslands afhentu kæranda umbeðin gögn þann 27. ágúst 2020. <br /> <br /> Með erindi til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. janúar 2021, óskaði kærandi eftir frekari upplýsingum um yfirlit hjartalækna fyrir árið 2019 með afslætti ásamt gögnum um hlut sjúklinga og greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Umræddar upplýsingar voru afhentar kæranda 13. janúar 2021. Þann 6. janúar 2021 óskaði kærandi eftir samningum stofnunarinnar við þau myndgreiningarfyrirtæki sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Þau gögn voru afhent kæranda þann 15. janúar 2021.<br /> <br /> Með erindi til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir að fá uppgefin nöfn tiltekinna lækna úr þeim gögnum sem afhent voru, sem áður var óskað eftir að væru ópersónugreinanleg. Síðar sama dag sendi kærandi uppfærða beiðni þar sem óskað var eftir að fá uppgefin nöfn allra þeirra lækna sem samantekt Sjúkratrygginga Íslands um greiðslur til hjartalækna, bæklunarlækna og háls-, nef- og eyrnalækna á árunum 2016-2019 nær yfir. Jafnframt óskaði kærandi eftir afriti af samskiptum Sjúkratrygginga Íslands við þá lækna sem stofnunin hefur gert endurkröfu á vegna ofinnheimtu á árunum 2010-2020.<br /> <br /> Með svari Sjúkratrygginga Íslands, dags. 24. febrúar 2021, var kæranda tjáð að stofnunin teldi ómögulegt að verða við gagnabeiðninni. Undir venjulegum kringumstæðum væri ekkert því til fyrirstöðu að nöfn umræddra lækna væru tilgreind en sökum þess hvernig samantekt stofnunarinnar sem kærandi hafði fengið afhent var skilgreind niður á stakar aðgerðir, gæti skapast sú hætta að unnt yrði að persónugreina einstaka sjúklinga út frá nafni læknis. Með vísan til þeirrar hættu og skyldu stofnunarinnar til að vernda friðhelgi sjúklinga var beiðninni synjað. Síðar sama dag tjáði kærandi stofnuninni að þessum hluta beiðninnar yrði skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til úrlausnar.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi telji almenning hafa rétt á aðgangi að upplýsingum um nöfn læknanna á bakvið tölurnar, þar sem um sé að ræða greiðslur úr opinberum sjóðum. Sjúkratryggingar Íslands hafi hafnað beiðni um afhendingu þeirra og sé sú ákvörðun stofnunarinnar því kærð. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Sjúkratryggingum Íslands með bréfi, dags. 2. mars 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar.<br /> <br /> Í umsögn Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. mars 2021, segir að forsendan fyrir því að stofnunin taldi sig geta orðið við upphaflegri beiðni kæranda og veitt svo nákvæma sundurliðun, án þess að stofna öryggi upplýsinga um einstaklingana í hættu, hafi falist í því að í beiðninni var sérstaklega óskað eftir að nöfn lækna væru ekki birt. Með því móti taldi stofnunin að búið væri að gera nægilegar ráðstafanir til að vernda upplýsingar um sjúklingana og friðhelgi þeirra. Öryggi upplýsinganna yrði stefnt í hættu ef afhenda ætti nöfn lækna og því hafi beiðninni verið synjað. Afhending umbeðinna upplýsinga myndi leiða til þess að upplýsingasafnið yrði það afmarkað að hætta myndi skapast á því, að unnt yrði að persónugreina einstaka sjúklinga sem nutu aðstoðar læknanna. Af þeim sökum hafi stofnunin hafnað framkominni beiðni kæranda. <br /> <br /> Að mati Sjúkratrygginga Íslands er möguleiki fyrir hendi á því að unnt sé að greina nöfn einstakra sjúklinga yrðu upplýsingar um nafn læknis sem veitti meðferðina bætt við upplýsingasafnið. Í því sambandi er vísað til umfjöllunar úrskurðarnefndar um upplýsingamál um 9. gr. upplýsingalaga í úrskurði nr. 933/2020 frá 20. október 2020. Ljóst sé að upplýsingar í fyrrnefndu skjali falli undir viðkvæmar persónuupplýsingar, þar sem þær snúi að heilsufari og læknismeðferð einstaklinga. Það geti verið viðkvæmt mál fyrir einstakling að almenningur fái upplýsingar um meðferð hans og kostnað við hana og því hafi stofnunin talið að notendur heilbrigðisþjónustu ættu rétt á að upplýsingunum væri ekki miðlað til almennings. Ríkir hagsmunir búi því að baki að sjúkratryggðir og notendur heilbrigðisþjónustu geti verið vissir um að staðinn sé vörður um upplýsingar þeirra sem varðveittar séu hjá stofnuninni, sem oft eru afar viðkvæmar, og að þeir geti verið öruggir um að þeim sé ekki miðlað til almennings. <br /> <br /> Umsögn Sjúkratrygginga Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. mars 2021, og henni veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 29. mars 2021, er bent á að í ljósi þess að um greiðslur úr opinberum sjóðum sé að ræða, þurfi ríkar ástæður að vera fyrir því að halda nöfnunum leyndum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, einkum með vísan til þess orðalags ákvæðisins að „sanngjarnt“ sé og „eðlilegt“ að upplýsingar fari leynt. Í því sambandi vísar kærandi til þeirra fjölmörgu úrskurða úrskurðarnefndarinnar er varða ráðstöfun opinbers fjár. Kærandi telji þetta skilyrði með engu móti geta verið uppfyllt um umbeðnar upplýsingar. Þá sé lögð áhersla á að án nafna læknanna sé ekki með góðu móti unnt að fá innsýn í greiðslur hins opinbera til þeirra og veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald að þessu leyti, í samræmi við markmið upplýsingalaga. Það hafi verið mat Sjúkratrygginga Íslands að afgreiðsla upplýsinganna myndi ganga mun hraðar ef þeirra væri óskað á því formi sem upphaflega var gert. Eftir að gögnin voru afhent hafi komið í ljós að mikil þörf væri á því að geta tengt lækna við númer, svo hægt væri að kafa dýpra í þau út frá starfsvettvangi og umfangi starfseminnar. Þannig geti fjölmiðillinn sinnt sínu aðhaldshlutverki. <br /> <br /> Kærandi fellst ekki á að þau sjónarmið að með því að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum um nöfn lækna skapist hætta á því að unnt verði að persónugreina einstaka sjúklinga sem standi í vegi fyrir aðgangi að umbeðnum gögnum. Kærandi er ósammála því að yfirhöfuð sé hægt að tengja sjúklinga við einstaka lækna með aðgangi að umbeðnum upplýsingum. Afstaða stofnunarinnar virðist eingöngu byggð á því að slíka tengingu megi gera ef til staðar eru ótilteknar viðbótarupplýsingar, að upplýsingasafnið væri orðið það afmarkað að unnt yrði að persónugreina einstaka sjúklinga. Þá segir einnig að gera verði þá kröfu að stofnunin sýni fram á það nákvæmlega hvaða hætta sé til staðar, þ.e. með hvaða hætti og undir hvaða kringumstæðum umbeðnar upplýsingar geti raunverulega varpað ljósi á einhverjar aðrar upplýsingar sem fjalli um nafngreinda sjúklinga. Það hafi stofnunin ekki gert heldur byggi synjunin á hugleiðingum um hugsanlega ótilgreinda hættu. Þá ítrekar kærandi að öll umfjöllun fjölmiðilsins taki mið af því að nafngreina ekki sjúklinga eða veita of miklar upplýsingar um einstaka persónur. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> <p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um nöfn þeirra lækna sem afmáð voru úr töflureikningskjali sem kæranda var að öðru leyti veittur aðgangur að. Ákvörðun Sjúkratrygginga um að synja beiðni kæranda, dags. 24. febrúar 2021 byggir á því að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem hætta gæti skapast á því að unnt væri að persónugreina einstaka sjúklinga sem nutu aðstoðar læknanna.</p> <p>Meginreglan um rétt almennings til aðgangs að gögnum kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 9. gr. upplýsingalaga er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna. Nánar tiltekið kemur fram í 1. málslið greinarinnar að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:</p> <p>„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“</p> <p>Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:</p> <p>„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“</p> <p>Samkvæmt framangreindu er ljóst að upplýsingar um heilsuhagi manna falla undir takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga, og er í því sambandi bent á að slíkar upplýsingar teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga skv. lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, sbr. 3. tölul. 3. gr. laganna.</p> <p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Um er að ræða töflureiknisskjal þar sem m.a. er að finna lista yfir aðgerðir og meðferðir sem einstaka læknar hafa framkvæmt flokkaðar eftir sérgrein þeirra auk upplýsinga um hvaða ár þær fóru fram og kostnað við framkvæmd þeirra, bæði hlut sjúklings og greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Í þeim gögnum sem kæranda voru afhent höfðu nöfn einstakra lækna verið fjarlægð þannig að hver læknir fékk sérstakt númer. Þrátt fyrir að í skjalinu sé fjallað um einstaka læknismeðferðir sem umræddir læknar hafa innt af hendi er þar hvergi að finna upplýsingar um heilsuhagi nafngreindra einstaklinga í skjalinu eða aðrar upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Í því sambandi tekur úrskurðarnefndin fram að í gögnunum er hvorki að finna persónugreinanlegar upplýsingar um þá sjúklinga sem um ræðir hverju sinni né aðrar upplýsingar sem eru til þess fallnar að varpa ljósi á það.</p> <p>Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun beiðni kæranda byggir á því að hægt sé að rekja upplýsingarnar til einstakra sjúklinga verði upplýsingar um nafn læknis sem veitti meðferðina bætt við upplýsingasafnið.</p> <p>Um þetta tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að undir 9. gr. falla ekki einungis upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, heldur einnig upplýsingar sem varpað geta ljósi á eða staðfest slíkar upplýsingar. Þannig kunna upplýsingar, sem að öllu jöfnu er ekki hægt að rekja til nafngreindra einstaklinga, að falla undir ákvæðið ef um er að ræða upplýsingar sem allur almenningur gæti með fyrirhafnarlitlum hætti rakið til nafngreindra einstaklinga, eftir atvikum út frá viðbótarupplýsingum sem almennt eru aðgengilegar.</p> <p>Eins og áður segir hafa umrædd gögn eingöngu að geyma yfirlit yfir einstaka aðgerðir eða læknismeðferðir sem umræddir læknar hafa innt af hendi og hvaða ár þær voru framkvæmdar auk upplýsinga um kostnað. Í ljósi þess hversu almennar upplýsingarnar eru verður að telja afar langsótt að utanaðkomandi aðili geti rakið upplýsingarnar til nafngreindra sjúklinga jafnvel þótt upplýst yrði um nöfn læknanna. Að mati nefndarinnar þyrfti viðkomandi að búa yfir umfangsmiklum og nákvæmum upplýsingum um hagi nafngreindra sjúklinga sem einstaka læknir hefur sinnt og þar með upplýsingum sem leynt eiga að fara samkvæmt ákvæði 9. gr. upplýsingalaga til þess að slíkt væri mögulegt.</p> <p>Líkt og fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 20. október 2020 í máli nr. 933/2020 verður að réttu lagi ekki byggt á slíkum viðmiðum þegar tekin er afstaða til þess hvort ópersónutengdar upplýsingar falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Telur nefndin að slík túlkun myndi í reynd girða að verulegu leyti fyrir aðgang að upplýsingum sem almennt eru ekki rekjanlegar til ákveðinna einstaklinga og vinna gegn markmiðum laganna. Er því ekki unnt að fallast á það með Sjúkratryggingum Íslands að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.</p> <p>Með vísan til framangreinds er fallist á rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Sjúkratryggingum Íslands ber að veita kæranda, A ritstjóra fréttaskýringarþáttarins Kveiks, aðgang að upplýsingum um nöfn allra þeirra lækna sem samantekt stofnunarinnar um greiðslur til hjartalækna, bæklunarlækna og háls-, nef- og eyrnalækna á tímabilinu 2016-2019 nær yfir. <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1034/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

Deilt var um afgreiðslu sýslumannsins í Vestmannaeyjum á beiðni kæranda um aðgang að öllum fundagerðum, bréfasamskiptum og símtölum sýslumannsins við Vestmannaeyjabæ á grundvelli 7. gr. laga nr. 50/2014 um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins á ótilgreindu tímabili. Embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum taldi ómögulegt án verulegrar fyrirhafnar að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi beiðni kæranda ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1034/2021 í máli ÚNU 21020031. <br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með erindi, dags. 23. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu sýslumannsins í Vestmannaeyjum á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með bréfi til sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dags. 4. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir upplýsingum um það hvernig samráð samkvæmt 7. gr. laga nr. 50/2014, um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, við Vestmannaeyjabæ fari fram. <br /> <br /> Í svari embættisins, dags. 8. febrúar 2021, kom fram að fyrirspurn kæranda væri svarað sem almennri fyrirspurn og ekki vísað til einstaks máls. Samkvæmt 7. gr. laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði skyldi sýslumaður hafa forgöngu um reglulegt samráð við sveitarfélög og önnur stjórnvöld ríkisins um fyrirkomulag og samræmingu opinberrar þjónustu í umdæminu eftir því sem við gæti átt. Gert væri ráð fyrir því að starf þetta mótaðist eftir þörfum í hverju umdæmi fyrir sig. Form samráðs færi því eftir eðli máls og umfangi þess, yfirleitt símleiðis, bréfleiðis eða á fundum. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir bréfum, fundargerðum og samantekt símtala vegna svars embættisins þann 8. febrúar 2021. <br /> <br /> Í svari sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dags. 15. febrúar 2021, kom fram að beiðni kæranda tæki til allra fundargerða, bréfasamskipta og símtala sýslumannsins í Vestmannaeyjum við Vestmannaeyjabæ á grundvelli 7. gr. laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins á ótilgreindu tímabili. Þá var vísað til þess að sá sem færi fram á aðgang að gögnum skyldi tilgreina þær eða efni þess máls sem þær tilheyrðu með nægilega skýrum hætti, sbr. 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Jafnframt var vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 væri heimilt að vísa beiðni frá ef ekki væri talið mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Kæranda var veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar, þar sem ómögulegt væri án verulegrar fyrirhafnar að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál, eins og hún var framsett. <br /> <br /> Með svari til embættisins, dags. 17. febrúar 2021, lýsti kærandi því yfir að ekki væri mögulegt að afmarka beiðnina nánar, til þess þyrfti kærandi dagsetningar fundargerða, bréf og símtala en eftir þeim upplýsingum væri nú óskað. Með svari sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dags. 19. febrúar 2021, var kæranda leiðbeint á ný um að afmarka beiðni sína nánar með vísan til 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í kæru, dags. 23. febrúar 2021, kemur fram að kærandi óski þess að embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum verði gert að afhenda umbeðnar upplýsingar. Kærandi telji augljóst að embætti sýslumanns misnoti heimild upplýsingalaga varðandi fjölda gagna og fyrirhöfn. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 10. maí 2021, var embætti sýslumanns veitt færi á að koma á framfæri umsögn. Úrskurðarnefndin ítrekaði framangreint erindi, með bréfi, dags. 14. júní 2021. Þar sem engin viðbrögð bárust frá sýslumanni óskaði úrskurðarnefndin símleiðis eftir upplýsingum um hvort embættið hygðist bregðast við umsagnarbeiðninni. Í símtalinu kom fram að embættið teldi ekki þörf á að koma að frekari sjónarmiðum í tilefni af kærunni. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu sýslumannsins í Vestmannaeyjum á beiðni kæranda um aðgangs að öllum fundargerðum, bréfasamskiptum og símtölum sýslumannsins við Vestmannaeyjabæ á grundvelli 7. gr. laga nr. 50/2014 um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins á ótilgreindu tímabili. <br /> <br /> Afgreiðsla sýslumannsins í Vestmannaeyjum er reist á því að sökum framsetningar á beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, sé ómögulegt án verulegrar fyrirhafnar að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Þá er vísað til þess að sýslumaður hafi leiðbeint kæranda um að afmarka beiðni sína nánar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við þeim leiðbeiningum. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. <br /> <br /> Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014, úrskurð nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 og úrskurð nr. 809/2019 frá 3. júlí 2019.<br /> <br /> Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.“ Jafnframt kemur þar fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings og auðvelda borgurum að leggja fram beiðnir um upplýsingar.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að skyldan til að finna þau mál eða þau gögn sem falla efnislega undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum hvíli á stjórnvöldum er sú skylda ekki án takmarkana. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem tengist því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að finna heimild til frávísunar á beiðni ef ómögulegt er talið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, enda séu málsaðila veittar leiðbeiningar og honum gefið færi á að afmarka beiðni sína betur. Með ákvæðinu er m.a. áréttuð sú leiðbeiningarskylda sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.<br /> <br /> Kærandi setur í máli þessu fram afar víðtæka beiðni um aðgang að öllum fundargerðum, bréfasamskiptum og símtölum sýslumannsins í Vestmannaeyjum við Vestmannaeyjabæ á grundvelli 7. gr. laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði á ótilgreindu tímabili. Við meðferð beiðninnar hjá embættinu var kæranda tvívegis í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar til að þess að unnt væri að verða við beiðni hans um upplýsingar. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kæranda um afrit allra fundargerða, bréfasamskipta og símtala sýslumannsins í Vestmannaeyjum við Vestmannaeyjabæ á ótilgreindu tímabili ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að embættinu sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 23. febrúar 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

1033/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að viðaukum við skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg. Synjun stofnunarinnar um hluta umbeðinna gagna var byggð á því að um vinnugögn væri að ræða samkvæmt. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Úrskurðarnefndin fór yfir gögnin og staðfesti synjun stofnunarinnar að þessu leyti. Þá lagði úrskurðarnefndin fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að taka beiðni kæranda um upplýsingar um nöfn þess starfsfólks sem kom að ritun skýrslunnar til efnislegrar meðferðar. Kærunni var að öðru leyti vísað frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1033/2021 í máli ÚNU 21010008. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 13. janúar 2021, kærði A lögmaður, f.h. félagsins HD verk ehf., synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (hér eftir HMS) á beiðni um aðgang að viðaukum við skýrslu stofnunarinnar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg í Reykjavík hinn 25. júní 2020. Umbjóðandi kæranda var eigandi að öllum fasteignum í húsinu þegar það brann.<br /> <br /> Kærandi óskaði eftir því að fá afhenta alla viðauka við skýrslu HMS með erindi, dags. 12. janúar 2021. Viðaukarnir eru:<br /> <br /> 1) Teikningar af teikningavef byggingarfulltrúans í Reykjavík.<br /> 2) Myndasafn HMS af vettvangi.<br /> 3) Myndasafn lögreglu.<br /> 4) Skýrsla um eldsupptök frá lögreglu.<br /> 5) Byggingarreglugerð 441/1998.<br /> 6) Gögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.<br /> 7) Gögn frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík.<br /> <br /> Ósk kæranda um aðgang að gögnunum var ítrekuð með erindi sama dag. Þá óskaði kærandi jafnframt eftir upplýsingum um það hverjir hefðu ritað skýrslu HMS. Stofnunin svaraði því ekki en tók fram í tilefni af gagnabeiðni kæranda að stofnunin hefði ekki rétt á að afhenda gögn sem aðrir ættu.<br /> <br /> Í kæru kom fram að réttur kæranda til aðgangs væri byggður bæði á II. og III. kafla upplýsingalaga, nr. 140/2012. Kærandi teldi að þótt hluti af þeim viðaukum sem óskað væri eftir væri opinberlega aðgengilegur ætti hann samt rétt til aðgangs að þeim frá HMS. Kærandi teldi heldur ekki ljóst við hvaða teikningar í viðauka 1 HMS hefði miðað við gerð skýrslunnar. Loks væri ekki ljóst við hvaða útgáfu byggingarreglugerðar hefði verið stuðst, sbr. viðauka 5.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt HMS með erindi, dags. 13. janúar 2021, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.<br /> <br /> HMS sendi kæranda erindi að nýju, dags. 25. janúar 2021. Kom þar fram að stofnunin myndi afhenda kæranda gögn sem féllu undir viðauka 1, 5 og 7. Gögn sem heyrðu undir aðra viðauka yrðu hins vegar ekki afhent.<br /> <br /> Með gögnum sem heyrðu undir viðauka 2, myndasafn HMS af vettvangi, væri átt við að starfsfólk HMS hefði skoðað aðstæður á vettvangi og í einhverjum tilvikum tekið myndir með símum sínum. Til skoðunar væri hvort framangreint myndasafn væri undanþegið á grundvelli 6.–10. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Svipuð sjónarmið ættu við um hluta af þeim gögnum sem heyrðu undir viðauka 6, gögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Starfsfólk HMS hefði haft tímabundinn aðgang að tilteknum gögnum frá slökkviliðinu með rafrænum hætti. Það hefði það hins vegar ekki lengur og teldust gögnin því ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Til skoðunar væri hvort þau gögn slökkviliðsins sem eftir stæðu teldust undanþegin upplýsingarétti.<br /> <br /> Hvað varðaði gögn sem heyrðu undir viðauka 3 og 4, þ.e. myndasafn lögreglu og skýrslu um eldsupptök frá lögreglu, þá tilheyrðu þau rannsókn sakamáls og væru þannig undanþegin aðgangi almennings á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Beiðni kæranda um aðgang að nöfnum starfsfólks HMS sem kom að gerð skýrslunnar var hafnað, því ekkert fyrirliggjandi gagn hjá stofnuninni innihéldi umbeðnar upplýsingar. Ekki stæði skylda til að taka upplýsingarnar saman samkvæmt upplýsingalögum.<br /> <br /> Í umsögn HMS til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2021, kemur fram að viðauki skýrslunnar sem kærandi óski eftir sé í reynd ekki viðauki heldur listi yfir gögn sem stofnunin hafi notast við þegar skýrslan var gerð. Betur hefði farið á því að tilgreina gögnin sem hluta af heimildaskrá.<br /> <br /> Hvað varðar gögn sem heyri undir viðauka 2, myndasafn HMS af vettvangi, sé ekkert fyrirliggjandi gagn í vörslum stofnunarinnar sem svari til þeirrar lýsingar. Því sé ekki unnt að veita aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga. Sama eigi við um hluta þeirra gagna sem heyri undir 6. tölulið viðaukans, gögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, þar sem starfsfólk HMS hafi aðeins haft tímabundinn aðgang að þeim.<br /> <br /> HMS bar afhendingu annarra gagna sem heyra undir viðauka 6 undir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Í svari slökkviliðsins kom fram að gögnin væru að stærstum hluta vinnugögn. Þau hefðu einungis verið afhent HMS á grundvelli lagaskyldu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012. Auk þess að vera vinnugögn hefðu gögnin að geyma upplýsingar sem heyrðu undir 9. gr. sömu laga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Um væri að ræða gögn sem vörpuðu ljósi á þátttöku starfsfólks í aðgerðum á vettvangi þar sem mannskaði varð og upplifun þeirra af þátttökunni. <br /> <br /> Gögn sem heyri undir viðauka 3 og 4 séu gögn sem tilheyri rannsókn sakamáls og séu því undanþegin aðgangi á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Umsögn HMS var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. febrúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tilteknum viðaukum við skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg 1 sem varð hinn 25. júní 2020. Fyrir liggur að kærandi var eigandi að öllum fasteignum í húsinu þann dag sem það brann. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd afhenti HMS kæranda gögn í viðaukum sem heyra undir töluliði 1, 5 og 7 viðaukans. Eftir standa gögn sem heyra undir töluliði 2, 3, 4 og 6: <br /> <br /> 2) Myndasafn HMS af vettvangi.<br /> 3) Myndasafn lögreglu.<br /> 4) Skýrsla um eldsupptök frá lögreglu.<br /> 6) Gögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.<br /> <br /> Kærandi hefur m.a. byggt á því að um rétt til aðgangs í málinu fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. Í 1. mgr. segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að þar undir falli ekki aðeins þau tilvik þegar aðili óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki það einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.<br /> <br /> Í málinu liggur fyrir að kærandi var eigandi að öllum fasteignum að Bræðraborgarstíg 1 þegar húsið brann. Því til stuðnings hefur kærandi lagt fram yfirlit yfir þinglýsta eigendur hinn 25. júní, daginn sem bruninn varð. Að auki hefur kærandi greint frá því að niðurstöður í skýrslu HMS um brunann séu grundvöllur að málsástæðum í bótamáli á hendur honum. Í ljósi framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi sérstaka hagsmuni, umfram aðra, af því að fá aðgang að gögnunum. Verður því leyst úr málinu á grundvelli 14. gr. laganna.<br /> <br /> 2.<br /> HMS synjaði beiðni kæranda um aðgang að viðauka 2, myndasafni HMS af vettvangi. Í erindi HMS til kæranda, dags. 25. janúar 2021, kom fram að starfsfólk stofnunarinnar hefði skoðað aðstæður á vettvangi og í einhverjum tilvikum tekið myndir á síma sína. Til skoðunar væri hvort myndasafnið væri undanþegið aðgangi kæranda á grundvelli 6.–10. gr. upplýsingalaga. Í umsögn HMS til úrskurðarnefndarinnar, dagsettri tveimur dögum síðar, segir að „ekkert fyrirliggjandi gagn í vörslum stofnunarinnar svari til þeirrar lýsingar“ sem sé að finna í viðauka 2, og því sé ekki unnt að veita kæranda aðgang.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd óskaði eftir nánari skýringum frá HMS um hvort gögnin væru til hjá stofnuninni og þá hvernig vörslum þeirra væri háttað. Í svari HMS, dags. 9. júní 2021, kom fram að ekki lægju fyrir myndir í málaskrá stofnunarinnar sem starfsfólk hefði tekið á vettvangi. Myndir sem notaðar hefðu verið í skýrsluna sjálfa hefðu komið frá lögreglu í tengslum við rannsókn hennar á málinu.<br /> <br /> Samkvæmt upplýsingum HMS má ætla að stofnunin hafi hvorki haldið sérstaklega utan um það hvaða starfsfólk tók myndir á vettvangi né hlutast til um að staðið yrði að kerfisbundinni skráningu á myndunum. Ekki er hægt að líta svo á að upplýsingalög leggi þá skyldu á HMS að athuga síma starfsfólks til að komast að raun um hvort þar sé að finna myndir sem teknar voru á vettvangi brunans, enda er í reynd þá ekki um að ræða að gögnin séu í vörslum stofnunarinnar heldur starfsfólksins sjálfs. Þá fellur það ekki undir verksvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skera úr um það hvort starfsfólkinu hafi verið heimilt að taka myndir á síma sína og ef svo er hvort stofnunin hafi gætt þess með fullnægjandi hætti að halda þeim til haga, sbr. eftir atvikum 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga,<br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er meðal annars tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Upplýsingalög leggja því ekki skyldu á þá aðila sem falla undir lögin að útbúa ný gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Eins og atvikum máls þessa er háttað fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á þá staðhæfingu HMS að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi. Verður því að vísa þessum hluta kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 3.<br /> HMS synjaði kæranda um aðgang að viðaukum 3 og 4, þ.e. myndasafni lögreglu og skýrslu um eldsupptök frá lögreglu, þar sem gögnin vörðuðu yfirstandandi rannsókn sakamáls. Í samskiptum úrskurðarnefndarinnar við héraðssaksóknara, dags. 7. júní 2021, kom fram að bæði myndsafnið og skýrslan væru hluti af gögnum í saksókn í sakamáli í tengslum við brunann á Bræðraborgarstíg. Héraðsdómur í málinu hefði verið kveðinn upp 3. júní 2021 og ekki lægi fyrir hvort málinu yrði áfrýjað.<br /> <br /> Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að viðaukar 3 og 4 séu gögn í sakamáli og því sé ekki unnt að krefjast aðgangs að þeim á grundvelli upplýsingalaga. Synjun um aðgang að slíkum gögnum verður heldur ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Er því óhjákvæmilegt að vísa þessum hluta kærunnar frá nefndinni.<br /> <br /> 4.<br /> Kæranda var synjað um aðgang að viðauka 6, gögnum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, á þeim grundvelli að hluti gagnanna teldist ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, þar sem HMS hefði einungis haft tímabundinn aðgang að þeim rafrænt. Þau gögn viðaukans sem eftir stæðu væru vinnugögn, sbr. 5. tölul. 6. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, og hefðu aðeins verið afhent á grundvelli lagaskyldu. Jafnframt innihéldu gögnin upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt, sbr. 9. gr. sömu laga. Litið væri til þess að gögnin vörpuðu ljósi á þátttöku og upplifun starfsmanna af aðgerðum á vettvangi þar sem mannskaði hefði orðið.<br /> <br /> Í 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga kemur fram að meginregla 1. mgr. sömu greinar um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan taki ekki til gagna sem talin eru í 6. gr. sömu laga. Í 5. tölul. 6. gr. kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 8. gr. eru vinnugögn skilgreind sem þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar samkvæmt I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. <br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að af orðalagi 1. mgr. leiði að til að skjal teljist vinnugagn þurfi almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Séu gögn afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.<br /> <br /> Samkvæmt 4. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000, fer félags- og barnamálaráðherra með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Samkvæmt sömu grein er HMS ráðherra til aðstoðar um málefni sem falla undir lögin. Skýrsla HMS um brunann á Bræðraborgarstíg er unnin á grundvelli 28. gr. laganna. Í 1. mgr. kemur fram að verði manntjón eða mikið eignatjón í eldsvoða skuli HMS, óháð lögreglurannsókn, rannsaka eldsvoðann, kröfur eldvarnaeftirlits og hvernig að slökkvistarfi hafi verið staðið. Í 3. mgr. sömu greinar segir að HMS geti krafið sveitarfélög nauðsynlegra upplýsinga um stöðu brunavarna og um búnað og starfsemi slökkviliða í sveitarfélaginu. Í 11. gr. laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019, er almenn heimild til handa HMS til að afla og vinna með upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna stofnunarinnar.<br /> <br /> HMS afhenti úrskurðarnefndinni þau gögn sem heyra undir 6. viðauka skýrslunnar, að undanskildum þeim gögnum sem stofnunin hafði tímabundinn aðgang að og lágu ekki fyrir hjá stofnuninni þegar nefndin óskaði eftir þeim. Það er mat nefndarinnar að gagnanna hafi verið aflað frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í krafti eftirlitshlutverks HMS með brunavörnum, sem m.a. birtist í framangreindri 28. gr. laga nr. 75/2000. Þótt í 3. mgr. 28. gr. komi fram að upplýsinga verði aflað frá sveitarfélögum en ekki viðkomandi slökkviliði telur úrskurðarnefndin allt að einu, sbr. einnig almenna heimild HMS til öflunar og vinnslu upplýsinga í 11. gr. laga nr. 137/2019, að það breyti því ekki að gagnanna hafi verið aflað í þeim tilgangi að HMS gæti rækt eftirlitshlutverk sitt samkvæmt lögunum.<br /> <br /> Þegar litið er til efnis gagnanna er það mat úrskurðarnefndarinnar að HMS hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnum sem heyra undir viðauka 6 í skýrslunni, á þeim grundvelli að um vinnugögn sé að ræða, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. og 5. tölul. 6. gr. sömu laga, sbr. og 8. gr. sömu laga. Hefur nefndin þá horft til þess að hvorki er í gögnunum að finna upplýsingar um endanlega afgreiðslu máls né upplýsingar um atvik máls sem ekki verður aflað annars staðar frá. <br /> <br /> Að því er varðar gögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem HMS hafði tímabundinn rafrænan aðgang að hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að draga í efa að stofnunin hafi ekki lengur þann aðgang. Af því leiðir að viðkomandi gögn teljast ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, og verður þeim hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 5.<br /> HMS synjaði kæranda um aðgang að nöfnum starfsfólks stofnunarinnar sem komið hefði að gerð skýrslunnar á þeim grundvelli að þær upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi og að stofnuninni væri óskylt að taka slíkar upplýsingar saman. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í afgreiðslu stofnunarinnar á þessum lið upplýsingabeiðninnar að hún hafi ekki undir höndum sérstakt skjal þar sem fram komi með samandregnum hætti hvaða starfsfólk hafi komið að ritun skýrslunnar. Ef upplýsingarnar koma hins vegar fram með einhverjum öðrum hætti, t.d. í tölvupóstum eða á fleiri en einu gagni sem fyrir liggur, reynir á rétt kæranda til aðgangs að þeim. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja og þess sem ráðið verður af þeim um gögnum um málaskrá HMS verði að leggja til grundvallar að HMS geti fundið nöfn þess starfsfólks sem kom að ritun skýrslunnar án verulegrar fyrirhafnar, t.d. með einfaldri efnis- eða orðaleit í málaskrá. Leggur nefndin það því fyrir stofnunina að taka þennan þátt kærunnar til meðferðar á nýjan leik. Ber stofnuninni þá að taka afstöðu til þess hvort og þá að hvaða leyti kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim upplýsingum á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að synja beiðni A lögmanns, f.h. félagsins HD verk ehf., um aðgang að gögnum sem heyra undir viðauka 6 í skýrslu stofnunarinnar er staðfest.<br /> <br /> Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er falið að taka beiðni kæranda um upplýsingar um nöfn þess starfsfólks sem kom að ritun skýrslu stofnunarinnar um eldsvoðann að Bræðraborgarstíg í Reykjavík hinn 25. júní 202 til efnislegrar meðferðar. <br /> <br /> Kæru A lögmanns, f.h. félagsins HD verk ehf., er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1032/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.

A blaðamaður, kærði synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 7. júlí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1032/2021 í máli ÚNU 21030020. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 23. mars 2021, kærði A, blaðamaður á Fréttablaðinu <br /> synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi til forsætisráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir afriti allra gagna varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hefðu á vegum ráðuneytisins eða ráðherra frá 30. nóvember 2017 til þess dags er erindinu yrði svarað. Í beiðninni kom fram að m.a. væri átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Í svari forsætisráðuneytisins, dags. 10. mars 2021, afhenti ráðuneytið töflu yfir kostnað vegna viðburða á vegum ráðuneytisins, að frátöldum starfsmannaviðburðum, sem forsætisráðherra sótti á tímabilinu. Sjaldan væri gefin út sérstök dagskrá þegar um slíka viðburði væri að ræða. Hið sama gilti um matseðla og gestalista og væri það helst þegar um opinberar heimsóknir erlendra gesta væri að ræða. Vakin var athygli á því að dagskrá forsætisráðherra væri birt á vefsíðu ráðuneytisins þar sem nálgast mætti frekari upplýsingar um einstaka viðburði á tímabilinu. Að öðru leyti var kæranda vísað á vefsvæðið opna reikninga um einstök útgjöld ráðuneytisins sem aðgengileg væru á netinu. Þá var kæranda bent á að hefði hann í huga einstaka reikninga eða viðburði væri unnt að senda aðra fyrirspurn þar sem upplýsingabeiðnin væri afmörkuð við þann viðburð. Jafnframt var vakin athygli á því að kostnaður við fullveldishátíðina 1. desember 2018 sem Alþingi samþykkti í tilefni þess að öld var liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki, frjálst og fullvalda væri ekki inni í þeirri heildartölu sem fram kæmi í framangreindri töflu yfir kostnað. Kæranda var í því skyni vísað á vefsíðu þar sem finna mætti sérstaka skýrslu afmælisnefndar sem gefin var út í mars 2019, en þar væri gerð grein fyrir fjárhag og viðburðum sem voru á aldarafmælinu. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 25. mars 2021, var kæran kynnt forsætisráðuneytinu og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 6. apríl 2021, kemur fram að réttur til aðgangs að gögnum hjá ráðuneytinu nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Ráðuneytinu sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þetta eigi m.a. við um dagskrá, gestalista og matseðla samkvæmt beiðni kæranda eða samantekt um mögulega viðburði umrædd ár. Umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi og því ekki hægt að verða við beiðninni hvað þessi gögn varði. Ráðuneytið hafi í samræmi við leiðbeiningaskyldu sína vísað kæranda á vefsvæði þar sem umbeðnar upplýsingar um útgjöld og dagskrá ráðherra séu þegar aðgengilegar almenningi, a.m.k. að hluta, sbr. 18. og 19. gr. laganna.<br /> <br /> Þá er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skuli sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyri með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ljóst sé að beiðni kæranda um afrit af „öllum gögnum“ sem tengist hvers konar viðburðum á vegum ráðuneytisins á um þriggja ára tímabili sé of víðtæk til að hægt sé að afmarka hana við tiltekin gögn. Viðburðir sem þessir séu ekki sérstaklega flokkaðir í skrám ráðuneytisins heldur séu þeir hluti af öðrum málum og því skráðir undir hlutaðeigandi mál án sérstakrar aðgreiningar þar um. Ekki hafi því verið unnt að verða við beiðni kæranda eins og hún hafi verið fram sett með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá ráðuneytisins. Til að taka afstöðu til beiðninnar þyrfti að fara yfir alla málaskrá ráðuneytisins á tímabilinu og önnur gögn og taka afstöðu til þess hvort þau tengist „viðburði“ og hvort viðburðurinn teljist hafa farið fram á vegum ráðuneytisins o.s.frv. Í þessu sambandi er vísað til málsatvika í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016. Ráðuneytið hafi vísað kæranda á vefsvæði þar sem umbeðin gögn séu aðgengileg að hluta og honum boðið að afmarka beiðni sína frekar. Það sé afstaða ráðuneytisins að beiðnin tilgreini ekki þau gögn eða efni þess máls sem þau tilheyri með nægilega skýrum hætti til að unnt sé án verulegrar fyrirhafnar að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, sbr. 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Auk þess sem hluti upplýsinganna sé ekki fyrirliggjandi í þeirri mynd sem óskað hafi verið eftir. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar ráðuneytisins. Í athugasemdum kæranda, dags. 2. júlí 2021, kemur fram að þær séu settar fram með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1026/2021 sem varði sambærileg málsatvik. Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé haldið utan um þátttakendalista á málþingum eða ráðstefnum sé því ósvarað hver kostnaðurinn sé við samkomuna. Ráðuneytið virðist hafa skotið sér undan svari við þeim atriðum á grundvelli þess að þátttakendalistar séu ekki til. Þá er því mótmælt að unnt sé með einföldum hætti að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana ríkisins. Sé svo væri ráðuneytinu í lófa lagið að draga saman upplýsingarnar og veita aðgang að þeim. Bent er á að vefsvæðið opnirreikningar.is beri yfirbragð gagnagnægðar þar sem einungis kunnáttumenn á borð við starfsmenn ráðuneyta geti leitað sér til gagns. Útgjaldaliðir séu þar í belg og biðu og tilefni útgjaldanna ekki tilgreint. Kærandi telji það vart í samræmi við tilgang upplýsingalaga að skýla sér á bakvið þennan aðgang. Sé lyklun í bókhaldi ráðuneytisins með þeim hætti að starfsmenn ráðuneytisins geti ekki dregið saman upplýsingar sem kæran varði geti kærandi ekki borið hallann af því. Loks er því mótmælt að beiðni kæranda sé víðtæk. <br /> <br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu forsætisráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkvæmi, móttökur, veislur og alla aðra slíka viðburði á vegum ráðuneytisins frá 30. nóvember 2017. Í beiðninni er í dæmaskyni tekið fram að m.a. sé átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Afgreiðsla ráðuneytisins er í fyrsta lagi reist á því að hluti þeirra gagna sem kærandi nefnir í dæmaskyni séu ýmist ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengileg á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Á vegum ráðuneytisins sé einkum um að ræða móttökur í tengslum við viðburði á vegum ráðuneytisins eða opinberar heimsóknir erlendra gesta en ekki sé venja að gefa út sérstaka dagskrá, gestalista eða matseðla vegna slíkra viðburða hjá ráðuneytinu og slík gögn því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Í ljósi framangreindra skýringa ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn á borð við gestalista, matseðla og dagskrár sem tengjast þessum tilteknu viðburðum séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu sem falli undir þennan hluta upplýsingabeiðni kæranda. Verður þeim þætti kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 2.<br /> Í svari ráðuneytisins við beiðni kæranda var einnig vísað til þess að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins séu aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að dagskrá ráðherra væru aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.<br /> <br /> Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er stjórnvaldi almennt heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að upplýsingum með því að vísa á vefslóð þar sem þær er að finna. <br /> <br /> Eins og fyrr segir mun kæranda hafa verið leiðbeint um að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins séu aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Á vefsvæðinu er með einföldum hætti unnt að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins, m.a. eftir einstaka stofnunum, tímabilum og tegund kostnaðar. Auk þess var kæranda bent á sérstaka síðu afmælisnefndar um fullveldi Íslands vegna kostnaðar við fullveldishátíð 1. desember 2018. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um um aðgang að upplýsingum um útgjöld vegna viðburða á vegum ráðuneytisins og verður því kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni að þessu leyti.<br /> <br /> 3.<br /> Af hálfu ráðuneytisins er að öðru leyti byggt á því að beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði sé afmörkuð með of víðtækum hætti til að unnt sé að afmarka hana við umbeðin gögn. Þá er vísað til þess að ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um um að afmarka beiðni sína nánar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við þeim leiðbeiningum. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014, úrskurð nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 og úrskurð nr. 809/2019 frá 3. júlí 2019.<br /> <br /> Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.“ Jafnframt kemur þar fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings og auðvelda borgurum að leggja fram beiðnir um upplýsingar. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að skyldan, til að finna þau mál eða þau gögn sem falla efnislega undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum, hvíli á stjórnvöldum er sú skylda ekki án takmarkana. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem tengist því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að finna heimild til frávísunar á beiðni ef ómögulegt er talið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, enda séu málsaðila veittar leiðbeiningar og honum gefið færi á að afmarka beiðni sína betur. Með ákvæðinu er m.a. áréttuð sú leiðbeiningarskylda sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. <br /> <br /> Kærandi setur í máli þessu fram afar víðtæka beiðni um aðgang að „öllum gögnum“ sem varðað geta samkomur, viðburði o.s.frv. á vegum forsætisráðuneytisins á rúmlega þriggja ára tímabili. Með beiðninni er hvorki óskað eftir gögnum um nánar tiltekna viðburði eða samkomur né lýtur beiðnin að samkomum eða viðburðum af nánar tilgreindum toga. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að ekki sé til að dreifa sérstakri samantekt eða skrá yfir viðburði eða samkomur á vegum ráðuneytisins. Við meðferð beiðninnar hjá ráðuneytinu var kæranda hins vegar í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar við einstaka viðburði til þess að unnt væri að verða við beiðni hans um upplýsingar og var honum m.a. leiðbeint um að á vefsvæðinu opnirreikningar.is væri unnt að afla upplýsinga um útgjöld ráðuneytisins auk þess sem dagskrá ráðherra væri aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kæranda um afrit allra gagna varðandi samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að ráðuneytinu sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 23. mars 2021, um synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang á gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br />

1031/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.

A blaðamaður, kærði synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 7. júlí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1031/2021 í máli ÚNU 21030016. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 15. mars 2021, kærði A, blaðamaður á Fréttablaðinu <br /> synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir afriti allra gagna varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hefðu á vegum ráðuneytisins eða ráðherra frá 30. nóvember 2017 til þess dags er erindinu yrði svarað. Í beiðninni kom fram að m.a. væri átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Í svari dómsmálaráðuneytisins, dags. 19. febrúar 2021, kom fram að veislur og viðburðir á vegum ráðuneytisins væru afar fátíðir og þá helst móttökur í tengslum við alþjóðlega fundi eða ráðstefnur. Ekki væri haldin sérstök dagskrá eða gestalistar á slíkum viðburðum. Að öðru leyti var kæranda vísað á vefsvæðið „opnir reikningar“ um einstök útgjöld ráðuneytisins sem aðgengilegt væri á netinu. Þá var kæranda bent á að hefði hann í huga einstaka viðburði væri unnt að senda aðra fyrirspurn þar sem upplýsingabeiðnin væri afmörkuð við þá viðburði.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 15. mars 2021, var kæran kynnt dómsmálaráðuneytinu og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 6. apríl 2021, kemur fram að réttur til aðgangs að gögnum hjá ráðuneytinu nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Ráðuneytinu sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þetta eigi m.a. við um dagskrá, gestalista og matseðla samkvæmt beiðni. Umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi og því ekki hægt að verða við beiðninni hvað þessi gögn varði. Ráðuneytið telji sig einnig hafa fullnægt skyldu sinni samkvæmt upplýsingalögum með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins séu þegar aðgengilegar almenningi, sbr. 18. og 19. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu sé það afstaða ráðuneytisins að því sé ekki skylt á grundvelli upplýsingalaga að taka saman yfirlit um umbeðnar upplýsingar úr málaskrám sínum, tölvupósthólfum starfsmanna eða öðrum heimildum, þar sem þær séu ýmist ekki fyrirliggjandi eða kæranda hafi verið bent á vefslóð þar sem þær sé að finna. <br /> <br /> Í umsögninni segir einnig að ráðuneytið telji beiðni kæranda, að því leyti sem hún varði „öll gögn“ sem tengist hvers konar viðburðum á vegum ráðuneytisins á um þriggja ára tímabili of víðtæka til að hægt sé að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar, sbr. 1. mgr. 15. gr. Í svari ráðuneytisins hafi kæranda verið bent á þann möguleika að afmarka beiðni sína. Ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um það hversu margir „viðburðir“ teljist hafa farið fram á vegum þess á umræddu tímabili og þá liggi heldur ekki fyrir haldbær skýring á orðinu viðburður til að styðjast við. Til að taka afstöðu til beiðni kæranda þyrfti að fara yfir málaskrá ráðuneytisins, tölvupósthólf starfsmanna og önnur gögn í vörslum ráðuneytisins og taka afstöðu til þess hvort þau tengist viðburði og hvort viðburðurinn teljist hafa farið fram á vegum ráðuneytisins. Í þessu sambandi er vísað til málsatvika í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 þar sem m.a. var deilt um rétt kæranda til aðgangs að „öllum gögnum varðandi rannsóknir FME“. Að mati ráðuneytisins séu sömu aðstæður uppi varðandi beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varði „samkvæmi, móttökur, veislur og alla slíka viðburði“ á vegum þess á umræddu tímabili.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 2. júlí 2021, kemur fram að þær séu settar fram með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1026/2021 sem varði sambærileg málsatvik. Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé haldið utan um þátttakendalista á málþingum eða ráðstefnum sé því ósvarað hver kostnaðurinn sé við samkomuna. Ráðuneytið virðist hafa skotið sér undan svari við þeim atriðum á grundvelli þess að þátttakendalistar séu ekki til. Þá er því mótmælt að unnt sé með einföldum hætti að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana ríkisins. Sé svo væri ráðuneytinu í lófa lagið að draga saman upplýsingarnar og veita aðgang að þeim. Bent er á að vefsvæðið opnirreikningar.is beri yfirbragð gagnagnægðar þar sem einungis kunnáttumenn á borð við starfsmenn ráðuneyta geti leitað sér til gagns. Útgjaldaliðir séu þar í belg og biðu og tilefni útgjaldanna ekki tilgreint. Kærandi telji það vart í samræmi við tilgang upplýsingalaga að skýla sér á bakvið þennan aðgang. Sé lyklun í bókhaldi ráðuneytisins með þeim hætti að starfsmenn ráðuneytisins geti ekki dregið saman upplýsingar sem kæran varði geti kærandi ekki borið hallann af því. Loks er því mótmælt að beiðni kæranda sé víðtæk. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkvæmi, móttökur, veislur og alla aðra slíka viðburði á vegum ráðuneytisins frá 30. nóvember 2017. Í beiðninni er í dæmaskyni tekið fram að m.a. sé átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Afgreiðsla ráðuneytisins er í fyrsta lagi reist á því að hluti þeirra gagna sem kærandi nefnir í dæmaskyni sé ýmist ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegur á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Á vegum ráðuneytisins sé einkum um að ræða móttökur í tengslum við alþjóðlega fundi eða ráðstefnur en ekki sé venja að halda sérstaka dagskrá eða gestalista vegna slíkra viðburða hjá ráðuneytinu. Slík gögn séu því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Í ljósi framangreindra skýringa ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn á borð við gestalista og dagskrá varðandi þessa tilteknu viðburði, sem falla undir þennan hluta upplýsingabeiðni kæranda, séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Verður þeim þætti kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 2.<br /> Í svari ráðuneytisins við beiðni kæranda er einnig vísað til þess að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins séu aðgengilegar á netinu. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í svör ráðuneytisins að með því sé vísað til vefsvæðisins opnirreikningar.is.<br /> <br /> Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er stjórnvaldi almennt heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að upplýsingum með því að vísa á vefslóð þar sem þær er að finna. <br /> <br /> Eins og fyrr segir mun kæranda hafa verið leiðbeint um að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins væru aðgengilegar á netinu og má ráða af svörunum að átt sé við vefsvæðið opnirreikningar.is þótt rétt hefði verið af ráðuneytinu að vera skýrara í leiðbeiningum sínum að þessu leyti. Á vefsvæðinu er með einföldum hætti unnt að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins, m.a. eftir einstaka stofnunum, tímabilum og tegund kostnaðar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um útgjöld vegna viðburða á vegum ráðuneytisins og verður því kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni að þessu leyti.<br /> <br /> 3.<br /> Af hálfu ráðuneytisins er að öðru leyti byggt á því að beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði sé afmörkuð með of víðtækum hætti til að unnt sé að afmarka hana við umbeðin gögn. Þá er vísað til þess að ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um að afmarka beiðni sína nánar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við þeim leiðbeiningum. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014, úrskurð nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 og úrskurð nr. 809/2019 frá 3. júlí 2019.<br /> <br /> Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.“ Jafnframt kemur þar fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings og auðvelda borgurum að leggja fram beiðnir um upplýsingar. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að skyldan til að finna þau mál eða þau gögn sem falla efnislega undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum hvíli á stjórnvöldum er sú skylda ekki án takmarkana. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem tengist því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að finna heimild til frávísunar á beiðni ef ómögulegt er talið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, enda séu málsaðila veittar leiðbeiningar og honum gefið færi á að afmarka beiðni sína betur. Með ákvæðinu er m.a. áréttuð sú leiðbeiningarskylda sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.<br /> <br /> Kærandi setur í máli þessu fram afar víðtæka beiðni um aðgang að „öllum gögnum“ sem varðað geta samkomur, viðburði o.s.frv. á vegum dómsmálaráðuneytisins á rúmlega þriggja ára tímabili. Með beiðninni er hvorki óskað eftir gögnum um nánar tiltekna viðburði eða samkomur né lýtur beiðnin að samkomum eða viðburðum af nánar tilgreindum toga. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að ekki sé til að dreifa sérstakri samantekt eða skrá yfir viðburði eða samkomur á vegum ráðuneytisins. Við meðferð beiðninnar hjá ráðuneytinu var kæranda hins vegar í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar við einstaka viðburði til þess að unnt væri að verða við beiðni hans um upplýsingar og var honum m.a. leiðbeint um að unnt væri að afla upplýsinga um útgjöld ráðuneytisins á vefsvæði. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kæranda um afrit allra gagna varðandi samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að ráðuneytinu sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 15. mars 2021, um synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang á gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br />

1030/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.

A blaðamaður, kærði synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 7. júlí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1030/2021 í máli ÚNU 21030015. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 15. mars 2021, A, blaðamaður á Fréttablaðinu <br /> synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir afriti allra gagna varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hefðu á vegum ráðuneytisins eða ráðherra frá 30. nóvember 2017 til þess dags er erindinu yrði svarað. Í beiðninni kom fram að m.a. væri átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 16. febrúar 2021, kom fram að sjaldgæft væri að ráðuneytið héldi veislur og viðburði en slíkt tengdist einna helst alþjóðlegu samstarfi eða ráðstefnum. Ekki væri venja að halda sérstaka dagskrá eða gestalista vegna viðburða af þessu tagi og slík gögn því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Að öðru leyti var kæranda vísað á vefsvæðið opnirreikningar.is varðandi einstök útgjöld ráðuneytisins og bent á að dagskrá ráðherra væri aðgengileg á vef Stjórnarráðsins. Þá var kæranda bent á að hefði hann í huga einstaka viðburði væri unnt að senda aðra fyrirspurn þar sem upplýsingabeiðnin væri afmörkuð við þá viðburði.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 15. mars 2021, var kæran kynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 8. apríl 2021, kemur fram að réttur til aðgangs að gögnum hjá ráðuneytinu nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Ráðuneytinu sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þetta eigi m.a. við um dagskrá, gestalista og matseðla samkvæmt beiðni kæranda eða samantekt um mögulega viðburði umrædd ár. Umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi og því ekki hægt að verða við beiðninni hvað þessi gögn varði. Ráðuneytið telji sig einnig hafa fullnægt skyldu sinni samkvæmt upplýsingalögum með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar um útgjöld og dagskrá ráðherra séu þegar aðgengilegar almenningi, sbr. 18. og 19. gr. laganna. Þá sé það mat ráðuneytisins að því sé ekki skylt á grundvelli upplýsingalaga að taka saman yfirlit yfir umbeðnar upplýsingar úr málaskrám sínum, tölvupósthólfum starfsmanna eða öðrum heimildum, þar sem þær séu ýmist ekki fyrirliggjandi eða kæranda verið bent á vefslóð þar sem þær séu þegar aðgengilegar.<br /> <br /> Þá er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skuli sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyri með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ljóst sé að beiðni kæranda um afrit af „öllum gögnum“ sem tengist hvers konar viðburðum á vegum ráðuneytisins á um þriggja ára tímabili sé of víðtæk til að hægt sé að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um það hversu margir „viðburðir“ teljist hafa farið fram á vegum þess á umræddu tímabili og þá liggi heldur ekki fyrir haldbær skýring á orðinu viðburður til að styðjast við. Til að taka afstöðu til beiðni kæranda þyrfti að fara yfir málaskrá ráðuneytisins, tölvupósthólf starfsmanna og önnur gögn í vörslum ráðuneytisins og taka afstöðu til þess hvort þau tengist viðburði og hvort viðburðurinn teljist hafa farið fram á vegum ráðuneytisins. Í þessu sambandi er vísað til málsatvika í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 þar sem m.a. hafi verið deilt um rétt kæranda til aðgangs að „öllum gögnum varðandi rannsóknir FME“. Að mati ráðuneytisins séu sömu aðstæður uppi varðandi beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varði „samkvæmi, móttökur, veislur og alla slíka viðburði“ á vegum þess á umræddu tímabili.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar ráðuneytisins. Í athugasemdum kæranda, dags. 2. júlí 2021, kemur fram að þær séu settar fram með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1026/2021 sem varði sambærileg málsatvik. Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé haldið utan um þátttakendalista á málþingum eða ráðstefnum sé því ósvarað hver kostnaðurinn sé við samkomuna. Ráðuneytið virðist hafa skotið sér undan svari við þeim atriðum á grundvelli þess að þátttakendalistar séu ekki til. Þá er því mótmælt að unnt sé með einföldum hætti að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana ríkisins. Sé svo væri ráðuneytinu í lófa lagið að draga saman upplýsingarnar og veita aðgang að þeim. Bent er á að vefsvæðið opnirreikningar.is beri yfirbragð gagnagnægðar þar sem einungis kunnáttumenn á borð við starfsmenn ráðuneyta geti leitað sér til gagns. Útgjaldaliðir séu þar í belg og biðu og tilefni útgjaldanna ekki tilgreint. Kærandi telji það vart í samræmi við tilgang upplýsingalaga að skýla sér á bakvið þennan aðgang. Sé lyklun í bókhaldi ráðuneytisins með þeim hætti að starfsmenn ráðuneytisins geti ekki dregið saman upplýsingar sem kæran varði geti kærandi ekki borið hallann af því. Loks er því mótmælt að beiðni kæranda sé víðtæk. <br /> <br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkvæmi, móttökur, veislur og alla aðra slíka viðburði á vegum ráðuneytisins frá 30. nóvember 2017. Í beiðninni er í dæmaskyni tekið fram að m.a. sé átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Afgreiðsla ráðuneytisins er í fyrsta lagi reist á því að hluti þeirra gagna sem kærandi nefnir í dæmaskyni sé ýmist ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegur á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Sjaldgæft sé að ráðuneytið haldi veislur eða viðburðir en slíkt tengist þá einna helst alþjóðlegu samstarfi eða ráðstefnum. Ekki sé venja að halda sérstaka dagskrá eða gestalista vegna slíkra viðburða hjá ráðuneytinu. Slík gögn séu því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Í ljósi framangreindra skýringa ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn á borð við gestalista og dagskrá varðandi þessa tilteknu viðburði, sem falla undir þennan hluta upplýsingabeiðni kæranda, séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Verður þeim þætti kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 2.<br /> Í svari ráðuneytisins við beiðni kæranda er einnig vísað til þess að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins séu aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að dagskrá ráðherra sé aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.<br /> <br /> Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er stjórnvaldi almennt heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að upplýsingum með því að vísa á vefslóð þar sem þær er að finna. <br /> <br /> Eins og fyrr segir mun kæranda hafa verið leiðbeint um að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins væru aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Á vefsvæðinu er með einföldum hætti unnt að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins, m.a. eftir einstaka stofnunum, tímabilum og tegund kostnaðar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um útgjöld vegna viðburða á vegum ráðuneytisins og verður því kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni að þessu leyti.<br /> <br /> 3.<br /> Af hálfu ráðuneytisins er að öðru leyti byggt á því að beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði sé afmörkuð með of víðtækum hætti til að unnt sé að afmarka hana við umbeðin gögn. Þá er vísað til þess að ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um að afmarka beiðni sína nánar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við þeim leiðbeiningum. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014, úrskurð nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 og úrskurð nr. 809/2019 frá 3. júlí 2019.<br /> <br /> Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.“ Jafnframt kemur þar fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings og auðvelda borgurum að leggja fram beiðnir um upplýsingar. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að skyldan, til að finna þau mál eða þau gögn sem falla efnislega undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum, hvíli á stjórnvöldum er sú skylda ekki án takmarkana. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem tengist því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að finna heimild til frávísunar á beiðni ef ómögulegt er talið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, enda séu málsaðila veittar leiðbeiningar og honum gefið færi á að afmarka beiðni sína betur. Með ákvæðinu er m.a. áréttuð sú leiðbeiningarskylda sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. <br /> <br /> Kærandi setur í máli þessu fram afar víðtæka beiðni um aðgang að „öllum gögnum“ sem varðað geta samkomur, viðburði o.s.frv. á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins á rúmlega þriggja ára tímabili. Með beiðninni er hvorki óskað eftir gögnum um nánar tiltekna viðburði eða samkomur né lýtur beiðnin að samkomum eða viðburðum af nánar tilgreindum toga. Af umsögn ráðuneytisins verður ráðið að ekki sé til að dreifa sérstakri samantekt eða skrá yfir viðburði eða samkomur á vegum ráðuneytisins. Við meðferð beiðninnar hjá ráðuneytinu var kæranda hins vegar í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar við einstaka viðburði til þess að unnt væri að verða við beiðni hans um upplýsingar og var honum m.a. leiðbeint um að á vefsvæðinu opnirreikningar.is væri unnt að afla upplýsinga um útgjöld ráðuneytisins auk þess sem dagskrá ráðherra væri aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kæranda um afrit allra gagna varðandi samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að ráðuneytinu sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 15. mars 2021, um synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang á gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1029/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.

A blaðamaður, kærði synjun félagsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 7. júlí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1029/2021 í máli ÚNU 21030014. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 15. mars 2021, kærði A, blaðamaður á Fréttablaðinu <br /> synjun félagsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir afriti allra gagna varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hefðu á vegum ráðuneytisins eða ráðherra frá 30. nóvember 2017 til þess dags er erindinu yrði svarað. Í beiðninni kom fram að meðal annars væri átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Í svari félagsmálaráðuneytisins, dags. 15. febrúar 2021, kom fram að afar fátítt væri að boðað væri til viðburða eða veislna í ráðuneytinu og af ráðherra. Mjög sjaldgæft væri að dagskrá eða matseðlar væru gefnir út á slíkum viðburðum. Þá væri misjafnt hvernig haldið væri utan um gestalista og færi eftir eðli viðburðarins. Að öðru leyti var kæranda vísað á vefsvæðið opnirreikningar.is þar sem unnt væri að skoða upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins. Þá var einnig bent á dagbók ráðherra sem aðgengileg væri á vef Stjórnarráðsins. Þá var kæranda bent á að hefði hann í huga einstaka viðburði væri unnt að senda aðra fyrirspurn þar sem upplýsingabeiðnin væri afmörkuð við þá viðburði.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 15. mars 2021, var kæran kynnt félagsmálaráðuneytinu og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 29. mars 2021, kemur fram að réttur til aðgangs að gögnum hjá ráðuneytinu nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Ráðuneytinu sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þetta eigi m.a. við um dagskrá, gestalista og matseðla samkvæmt beiðni kæranda eða samantekt um mögulega viðburði umrædd ár. Umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi og því ekki hægt að verða við beiðninni hvað þessi gögn varði. Ráðuneytið telji sig einnig hafa fullnægt skyldu sinni samkvæmt upplýsingalögum með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar um útgjöld og dagskrá ráðherra séu þegar aðgengilegar almenningi, sbr. 18. og 19. gr. laganna<br /> <br /> Þá er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skuli sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyri með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ljóst sé að beiðni kæranda um afrit af „öllum gögnum“ sem tengist hvers konar viðburðum á vegum ráðuneytisins á um þriggja ára tímabili sé of víðtæk til að hægt sé að afmarka hana við tiltekin gögn. Ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um það hversu margir „viðburðir“ teljist hafa farið fram á vegum þess á umræddu tímabili og þá liggi heldur ekki fyrir haldbær skýring á orðinu viðburður til að styðjast við. Til að taka afstöðu til beiðni kæranda þyrfti að fara yfir málaskrá ráðuneytisins, tölvupósthólf starfsmanna og önnur gögn í vörslum ráðuneytisins og taka afstöðu til þess hvort þau tengist viðburði og hvort viðburðurinn teljist hafa farið fram á vegum ráðuneytisins. Í þessu sambandi er vísað til málsatvika í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 þar sem m.a. var deilt um rétt kæranda til aðgangs að „öllum gögnum varðandi rannsóknir FME“. Að mati ráðuneytisins séu sömu aðstæður uppi varðandi beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varði „samkvæmi, móttökur, veislur og alla slíka viðburði“ á vegum þess á umræddu tímabili.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar ráðuneytisins. Í athugasemdum kæranda, dags. 2. júlí 2021, kemur fram að þær séu settar fram með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1026/2021 sem varði sambærileg málsatvik. Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé haldið utan um þátttakendalista á málþingum eða ráðstefnum sé því ósvarað hver kostnaðurinn sé við samkomuna. Ráðuneytið virðist hafa skotið sér undan svari við þeim atriðum á grundvelli þess að þátttakendalistar séu ekki til. Þá er því mótmælt að unnt sé með einföldum hætti að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana ríkisins. Sé svo væri ráðuneytinu í lófa lagið að draga saman upplýsingarnar og veita aðgang að þeim. Bent er á að vefsvæðið opnirreikningar.is beri yfirbragð gagnagnægðar þar sem einungis kunnáttumenn á borð við starfsmenn ráðuneyta geti leitað sér til gagns. Útgjaldaliðir séu þar í belg og biðu og tilefni útgjaldanna ekki tilgreint. Kærandi telji það vart í samræmi við tilgang upplýsingalaga að skýla sér á bakvið þennan aðgang. Sé lyklun í bókhaldi ráðuneytisins með þeim hætti að starfsmenn ráðuneytisins geti ekki dregið saman upplýsingar sem kæran varði geti kærandi ekki borið hallann af því. Loks er því mótmælt að beiðni kæranda sé víðtæk. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu félagsmálaráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkvæmi, móttökur, veislur og alla aðra slíka viðburði á vegum ráðuneytisins frá 30. nóvember 2017. Í beiðninni er í dæmaskyni tekið fram að m.a. sé átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar, sundurliðaða, og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Afgreiðsla ráðuneytisins er í fyrsta lagi reist á því að hluti þeirra gagna sem kærandi nefnir í dæmaskyni sé ýmist ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegur á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Afar fátítt sé að boðað sé til veislna eða viðburða í ráðuneytinu. Þá sé sjaldgæft að haldin sé sérstök dagskrá eða matseðlar vegna slíkra viðburða hjá ráðuneytinu. Gögn um dagskrá, gestalista og matseðla séu því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Í ljósi framangreindra skýringa ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn á borð við gestalista, matseðla og dagskrá varðandi þessa tilteknu viðburði, sem falla undir þennan hluta upplýsingabeiðni kæranda, séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Verður þeim þætti kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 2.<br /> Í svari ráðuneytisins við beiðni kæranda er einnig vísað til þess að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins séu aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að dagskrá ráðherra sé aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.<br /> <br /> Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er stjórnvaldi almennt heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að upplýsingum með því að vísa á vefslóð þar sem þær er að finna. <br /> <br /> Eins og fyrr segir mun kæranda hafa verið leiðbeint um að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins væru aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Á vefsvæðinu er með einföldum hætti unnt að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins, m.a. eftir einstaka stofnunum, tímabilum og tegund kostnaðar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um útgjöld vegna viðburða á vegum ráðuneytisins og verður því kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni að þessu leyti.<br /> <br /> 3.<br /> Af hálfu ráðuneytisins er að öðru leyti byggt á því að beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði sé afmörkuð með of víðtækum hætti til að unnt sé að afmarka hana við umbeðin gögn. Þá er vísað til þess að ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um að afmarka beiðni sína nánar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við þeim leiðbeiningum. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014, úrskurð nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 og úrskurð 809/2019 frá 3. júlí 2019.<br /> <br /> Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.“ Jafnframt kemur þar fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings og auðvelda borgurum að leggja fram beiðnir um upplýsingar. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að skyldan, til að finna þau mál eða þau gögn sem falla efnislega undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum, hvíli á stjórnvöldum er sú skylda ekki án takmarkana. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem tengist því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að finna heimild til frávísunar á beiðni ef ómögulegt er talið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, enda séu málsaðila veittar leiðbeiningar og honum gefið færi á að afmarka beiðni sína betur. Með ákvæðinu er m.a. áréttuð sú leiðbeiningarskylda sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.<br /> <br /> Kærandi setur í máli þessu fram afar víðtæka beiðni um aðgang að „öllum gögnum“ sem varðað geta samkomur, viðburði o.s.frv. á vegum félagsmálaráðuneytisins á rúmlega þriggja ára tímabili. Með beiðninni er hvorki óskað eftir gögnum um nánar tiltekna viðburði eða samkomur né lýtur beiðnin að samkomum eða viðburðum af nánar tilgreindum toga. Af umsögn ráðuneytisins verður ráðið að ekki sé til að dreifa sérstakri samantekt eða skrá yfir viðburði eða samkomur á vegum ráðuneytisins. Við meðferð beiðninnar hjá ráðuneytinu var kæranda hins vegar í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar við einstaka viðburði til þess að unnt væri að verða við beiðni hans um upplýsingar og var honum m.a. leiðbeint um að á vefsvæðinu opnirreikningar.is væri unnt að afla upplýsinga um útgjöld ráðuneytisins auk þess sem dagskrá ráðherra væri aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kæranda um afrit allra gagna varðandi samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að ráðuneytinu sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 15. mars 2021, um synjun félagsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang á gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

1028/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu KPMG ehf. til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi. Synjun sveitarfélagsins var byggð á því að skýrslan teldist vinnuskjal í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi skjalið ekki uppfylla skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugagn enda unnið af utanaðkomandi fyrirtæki og lagði fyrir sveitarfélagið að veita kæranda aðgang að gögnunum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 7. júlí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1028/2021 í máli ÚNU 21030008. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með tölvupósti, dags. 9. mars 2021, kærði A, synjun Borgarbyggðar á beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Með, tölvupósti, dags. 22. janúar 2021, óskaði kærandi eftir skýrslu KPMG til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi ársins 2020 sem fjallað var um á fundi byggðarráðs sveitarfélagsins þann 7. janúar 2021. <br /> <br /> Í svari sveitarfélagsins, dags. 9. mars 2021, var vísað til þess að á 550. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins sem fram fór 21. janúar 2021, hefði verið bókað að sveitarstjóri hefði lagt fram minnisblað um ástæður þess að fara bæri með skýrslu KPMG sem vinnuskjal og því trúnaðarmál. Einn meðlimur byggðarráðs lagði fram bókun þess efnis að hún teldi óásættanlegt að ekki væri hægt að greina frá helstu veikleikum og ábendingum sem sveitarfélaginu hefðu borist og tillögur að úrbótum. Eðlilegast væri að byggðarráð myndi greina íbúum í meginatriðum frá hverjar athugasemdirnar væru. Meirihlutinn ítrekaði að um vinnuskjal væri að ræða. Aflað hefði verið upplýsinga hjá KPMG um hvers vegna umrætt gagn innihéldi trúnaðarupplýsingar. Þau svör hefðu fengist að skjal af þessum toga gæti innihaldið upplýsingar um einstaka starfsmenn og annað sem féllu undir persónuvernd. Alvarlegustu athugasemdum yrðu gerð skil í skýrslu endurskoðenda sem lögð yrði fram opinberlega með endurskoðuðum ársreikningi. <br /> <br /> Í svarinu kom loks fram að litið væri á gagnið sem vinnuskjal í skilningi 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem verið væri að vinna að undirbúningi lokaskýrslu með ársreikningi sem birt yrði opinberlega að lokinni samþykkt hans. Af þeim sökum væri beiðni kæranda hafnað.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að talsverð óreiða hafi verið á framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins sem lýsi sér m.a. í því að framkvæmdir hafi farið langt fram úr áætlunum. Ákvörðun um þær séu á ábyrgð stjórnenda sveitarfélagsins og því eðlilegt að upplýst sé hver beri ábyrgð á þeim. Þá dragi kærandi í efa að í skýrslunni sé að finna persónugreinanlegar upplýsingar. Því sé farið fram á að úrskurðarnefndin hlutist til um að kærandi fái umrædda skýrslu afhenta. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 15. mars 2021, var Borgarbyggð kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum. <br /> <br /> Í umsögn Borgarbyggðar, dags. 23. mars 2021, kemur fram að á 550. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins sem fram fór 21. janúar 2021, hafi sveitarstjóri lagt fram minnisblað um ástæður þess að fara bæri með skýrslu KPMG til stjórnenda sveitarfélagsins um innra eftirlit og fjárhagskerfi ársins 2020 sem vinnuskjal og því trúnaðarmál. Einn meðlimur byggðarráðs hafi lagt fram bókun þess efnis að hún teldi óásættanlegt að ekki væri hægt að greina frá helstu veikleikum og ábendingum sem sveitarfélaginu hefði borist og tillögur að úrbótum. Eðlilegast væri að byggðarráð myndi greina íbúum í meginatriðum hverjar athugasemdirnar væru. Meirihlutinn ítrekaði að um vinnuskjal væri að ræða. Þá er vísað til þess að aflað hafi verið upplýsinga hjá KPMG hvers vegna umrætt gagn innihaldi trúnaðarupplýsingar og að þau svör hafi fengist að skjal af þessum toga geti innihaldið upplýsingar um einstaka starfsmenn og annað sem falli undir persónuvernd. Alvarlegustu athugasemdunum muni verða gerð skil í skýrslu endurskoðenda sem lögð verði fram opinberlega með endurskoðuðum ársreikningi. <br /> <br /> Þá sagði í umsögninni að afstaða sveitarfélagsins væri því að umrætt skjal teldist vinnuskjal í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Í skjalinu væri að finna ábendingar af ýmsu tagi sem verið væri að kalla eftir skýringum á af hálfu endurskoðenda. Í endurskoðunarskýrslu verði alvarlegustu athugasemdunum gerð skil og verði sú skýrsla gerð opinber. <br /> <br /> Umsögn Borgarbyggðar var kynnt kæranda með bréfi dags. 24. mars 2021 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 25. mars 2021, er dregið í efa að skýrsla KPMG hafi að geyma persónugreinanlegar upplýsingar. Auk þess sem vísað er til þess að það ætti að vera einfalt mál að afmá persónugreinanlegar upplýsingar sé þeim til að dreifa. Athugasemdir endurskoðenda sveitarfélagsins um innra eftirlit og fjárhagskerfi geti ekki verið einkamálefni meirihluta byggðarráðs heldur mál allra íbúa sveitarfélagsins, ekki síst fyrir þær sakir að framkvæmdir og fjárhagslegt eftirlit með þeim sé farið úr böndunum hjá núverandi meirihluta. Bent er á að innra eftirlit og skipulag fjárhagskerfis bæjarfélagsins sé á ábyrgð yfirstjórnar sveitarfélagsins, bæjarstjórnar og byggðarráðs og bæjarstjóra en ekki almennra starfsmanna. Með því að loka á að bæjarbúar fái upplýsingar úr skýrslum KPMG sé líklega verið að loka á gagnrýni endurskoðenda sveitarfélagsins á vinnu meirihluta byggðarráðs og bæjarstjóra. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu KPMG til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi. Synjun sveitarfélagsins er byggð á því að skýrslan teljist vinnugögn í skilningi upplýsingalaga.<br /> <br /> Í 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 8. gr. eru vinnugögn skilgreind sem þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar samkvæmt I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að af orðalagi 1. mgr. leiði að til að skjal teljist vinnugagn þurfi almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum.<br /> <br /> Séu gögn afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. teljast einnig til vinnugagna gögn sem berast milli aðila sem falla undir gildissvið laganna samkvæmt I. kafla þegar einn sinnir ritarastörfum eða sambærilegum störfum fyrir annan, enda fullnægi þau að öðru leyti skilyrðum þeim sem fram koma í 1. mgr. 8. gr. Í athugasemdum við töluliðinn í frumvarpi því sem varð að lögunum kemur það eitt fram að raunhæft dæmi um tilvik sem falli undir þessa reglu sé þegar starfsmaður ráðuneytis sinnir ritarastörfum fyrir sjálfstæða úrskurðarnefnd.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér umrædda skýrslu KPMG. Í skýrslunni er að finna athugasemdir og ábendingar sem upp hafa komið við endurskoðun reikningskila sveitarfélagsins. Í henni er jafnframt að finna tillögur að úrbótum og viðbrögðum við þeim en í skýrslunni kemur m.a. fram að tilgangur hennar sé að meta þörf á frekari endurskoðunaraðgerðum við endurskoðun ársreikninga félagsins. Úrskurðarnefndin telur að þrátt fyrir að skjalið beri að vissu leyti með sér að geta verið undirbúningsgagn vegna hugsanlegra ákvarðana eða lykta máls hjá sveitarfélagsinu uppfylli það ekki skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugagn. Stafar það fyrst og fremst af því að gagnið uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið útbúið af stjórnvaldinu sjálfu en fyrir liggur að skýrslan var unnin af endurskoðunarsviði fyrirtækisins KPMG ehf. <br /> <br /> Í ákvörðun Borgarbyggðar var vísað til þess aflað hafi verið afstöðu KPMG ehf. til þess hvers vegna umrætt gagn ætti að lúta leynd en gagnið er merkt sem „trúnaðarmál“. Úrskurðarnefndin telur af þessu tilefni rétt að taka fram að af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða laganna. Stjórnvaldi er því ekki fær sú leið að víkja frá ákvæðum þeirra með því að flokka tiltekin gögn sem trúnaðarmál eða vísa til þess að gagn sem stafar frá utanaðkomandi aðila sé merkt sem slíkt. Slíkt verður ekki gert nema upplýsingarnar falli ótvírætt undir eitthvert af undanþáguákvæðum laganna. Það hefur því ekki þýðingu við úrlausn þessa máls þótt KPMG ehf. hafi í fyrsta lagi merkt upplýsingarnar sem trúnaðarmál og í öðru lagi lýst þeirri almennu afstöðu að skýrslur um innri endurskoðun kunni að hafa að geyma upplýsingar sem leynt eigi að fara. Almenn sjónarmið af þessum toga hafa ekki þýðingu við mat á því hvort gagn teljist uppfylla skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugögn, heldur verður að skoða hvert gagn fyrir sig með tilliti til þess hvort upplýsingar í því falli undir einhver af þeim ákvæðum upplýsingalaga sem takmarka upplýsingarétt eða eftir atvikum sérlagaákvæði sem mæla fyrir um slíka takmörkun.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi engu að síður rétt í ljósi þess sem fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins að gögnin kunni að hafa að geyma trúnaðarupplýsingar að yfirfara gagnið með hliðsjón af því hvort takmarka ætti aðgang að því á grundvelli annarra undanþáguákvæða laganna, einkum 7. gr. og 9. gr. upplýsingalaga. Eins og áður segir er í skýrslunni að finna almennar athugasemdir og ábendingar um atriði sem fram hafa komið við endurskoðun á reikningsskilum sveitarfélagsins. Þar er einnig að finna tillögur að lausnum og viðbrögðum við þeim. Í skýrslunni er ekki sérstaklega fjallað um aðkomu nafngreindra einstaklinga, starfsmanna eða stjórnenda. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru upplýsingarnar sem þar koma fram því ekki þess eðlis að efni skýrslunnar teljist vera viðkvæmar upplýsingar sem lúta skuli trúnaði með vísan til þeirra hagsmuna sem framangreindum undanþáguákvæðum er ætlað að vernda. Þvert á móti hefur skýrslan að geyma upplýsingar um rekstur sveitarfélagsins og þar með ráðstöfun opinbers fjár og hagsmuna sem telja verður að almenningur hafi almennt ríka hagsmuni af því að kynna sér. Getur úrskurðarnefndin því ekki fallist á framangreinda afstöðu Borgarbyggðar um synjun á afhendingu skýrslunnar.<br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Borgarbyggð ber að veita kæranda aðgang að skýrslu KPMG til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi ársins 2020.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br />

1027/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.

Deilt var um afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins á beiðni um aðgang að gögnum. Kærandi sem hafði fengið afhent ýmis gögn taldi enn vanta tiltekið minnisblað. Framkvæmdasýsla ríkisins tók fram að umrætt minnisblað væri ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni og leiðbeindi jafnframt kæranda um hvar það ætti að liggja fyrir. Að mati nefndarinnar var þannig ekki um að ræða synjun um aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og var málinu vísað frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 7. júlí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1027/2021 í máli ÚNU 21020020. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 11. febrúar 2021, kærði A, lögmaður, f.h. K16 ehf. afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins á beiðni hans um aðgang að gögnum sem tengjast tilboði Regins ehf. í leiguhúsnæði sem auglýst var til útleigu af hálfu Ríkiskaupa.<br /> <br /> Forsaga málsins er sú að upphaflega beindi kærandi erindi til Ríkiskaupa, dags. 13. maí 2020, þar sem hann óskaði eftir afhendingu umræddra gagna. Með bréfi Ríkiskaupa, dags. 29. september 2020, var beiðni kæranda vísað frá með vísan til þess að stofnunin hefði ekki umbeðin gögn undir höndum. Kærandi kærði afgreiðslu Ríkiskaupa til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 29. september 2020. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni áframsendi Ríkiskaup beiðni kæranda til Framkvæmdasýslu ríkisins sem hefði umrædd gögn í sínum fórum. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2020, var úrskurðarnefndin upplýst um að Framkvæmdasýsla ríkisins hefði afgreitt beiðni kæranda. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir staðfestingu kæranda á því að umbeðin gögn hefðu verið afhent en að óbreyttu yrði málið fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> Svar kæranda barst með tölvupósti, dags. 11. febrúar 2021, þar sem fram kom að hann hefði fengið afhent brotakennd gögn frá Framkvæmdasýslu ríkisins og mörg hver óundirrituð. Af þeim sökum gæti kærandi ekki verið viss um að hafa fengið öll gögn afhent. Þá væri ljóst að vinnuskjöl um samanburð tilboða hefðu ekki borist. Með vísan til þessa fór kærandi fram á að úrskurðarnefndin úrskurðaði efnislega um málið þannig að öruggt væri að öll gögn hefðu borist. Eins og áður segir laut upphafleg kæra að afgreiðslu Ríkiskaupa á beiðni kæranda um gögn en við meðferð málsins voru kæranda afhent gögn frá Framkvæmdasýslu ríkisins. Í ljósi athugasemda kæranda við afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins á beiðni hans var málið er laut að afgreiðslu Ríkiskaupa á beiðni kæranda fellt niður á fundi úrskurðarnefndarinnar og nýtt mál stofnað í málaskrá nefndarinnar vegna afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Framkvæmdasýslu ríkisins með tölvubréfi, dags. 23. febrúar 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Í tölvubréfinu var sérstaklega tekið fram að í kærunni kæmi fram að kærandi teldi ekki víst að öll gögn hefðu verið afhent. Í svari Framkvæmdasýslu ríkisins, dags. 3. mars 2021, kom fram að búið væri að afhenda þau gögn sem óskað var eftir í október 2020. Vilji stæði til þess að afhenda þau gögn sem kærandi óskaði eftir og væru fyrirliggjandi hjá stofnuninni en nauðsynlegt væri að kærandi afmarkaði beiðnina nánar. Í svari úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. mars 2021, var á ný vísað til þess sem fram kom í kærunni þess efnis að kærandi teldi sig ekki hafa fengið afhent öll skjöl sem tengdust málinu, þ. á m. vinnuskjöl um samanburð tilboða. Í því ljósi óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum stofnunarinnar um hvort öll gögn hefðu verið afhent.<br /> <br /> Í svari Framkvæmdasýslu ríkisins, dags. 4. mars 2021, kom fram að vinnuskjalið sem kærandi óskaði eftir hefði fundist hjá stofnuninni. Með tölvubréfi, dags. 9. mars 2021, barst úrskurðarnefndinni afrit af svari Framkvæmdasýslunnar til kæranda, dags. sama dag, þar sem tilkynnt var um afhendingu framangreinds vinnuskjals ásamt afriti af vinnuskjalinu. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 21. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann teldi afgreiðslu Framkvæmdasýslunnar fullnægjandi. Í svari kæranda, dags. 22. mars 2021, kom fram að kærandi teldi enn vanta minnisblað Vegagerðarinnar í málinu sem vísað var til í minnisblaði, dags. 20. febrúar 2019, sem var á meðal þeirra gagna sem kærandi hafði þegar fengið afhent. Að öðru leyti teldi kærandi öll gögn komin fram.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 25. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort umrætt minnisblað sem vísað var til af hálfu kæranda væri fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Í svari Framkvæmdasýslunnar, dags. 25. júní 2021, kom fram að kæranda hefði verið tilkynnt, með tölvupósti, dags. 17. mars 2021, að umrætt minnisblað væri ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Umrætt minnisblað ætti hins vegar að liggja fyrir hjá Vegagerðinni og var kæranda leiðbeint um að leita til Vegagerðarinnar. Þá hafi Vegagerðinni verið ritað bréf vegna minnisblaðsins en engin svör hefðu enn borist við því. Í svarinu kom enn fremur fram að stofnunin liti svo á að öll fyrirliggjandi gögn sem féllu undir upplýsingabeiðni kæranda hefðu verið afhent. Auk þess sem reynt hefði verið að afla umrædds minnisblaðs og aðstoða við afhendingu þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins um aðgang að gögnum sem tengjast tilboði Regins ehf. í leiguhúsnæði sem auglýst var til útleigu af hálfu Ríkiskaupa. Eins og að framan greinir hefur kærandi fengið afhent ýmis gögn. Í athugasemdum kæranda kemur hins vegar fram að hann telji enn vanta tiltekið minnisblað Vegagerðarinnar sem vísað er til í öðru minnisblaði, dags. 20. febrúar 2019, sem var á meðal þeirra gagna sem kærandi fékk afhent. Í svari Framkvæmdasýslu ríkisins kemur fram að umrætt minnisblað Vegagerðarinnar sé ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Eins og áður segir hefur Framkvæmdasýslan haldið því fram að öll umbeðin gögn hafi verið afhent kæranda og að umrætt minnisblað Vegagerðarinnar sé ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Í ljósi skýringa stofnunarinnar hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu.<br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A lögmanns, f.h. K16 ehf., dags. 11. febrúar 2021, um afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins á beiðni um aðgang að gögnum sem tengjast tilboði Regins ehf. í leiguhúsnæði sem auglýst var til útleigu af hálfu Ríkiskaupa er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1026/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

A blaðamaður, kærði synjun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1026/2021 í máli ÚNU 21030019. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 23. mars 2021, kærði A, blaðamaður á Fréttablaðinu <br /> synjun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir afriti allra gagna varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra frá 30. nóvember 2017 til þess dags er erindinu yrði svarað. Í beiðninni kom fram að m.a. væri átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar sundurliðaða og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 22. febrúar 2021, kom fram að veislur og viðburðir á vegum ráðuneytisins væru afar fátíðar. Ráðuneytið hefði haldið móttöku í tengslum við 30 ára afmæli ráðuneytisins í febrúar á síðasta ári. Í móttökunni voru starfsmenn ráðuneytisins, nokkrir fyrrverandi starfsmenn, fyrrverandi umhverfisráðherrar og forstöðumenn stofnana ráðuneytisins. Í móttökunni hefði verið boðið upp á léttar veitingar frá Veislumiðstöðinni, Borgartúni 6, léttvín, bjór og óáfengt. Aðrir viðburðir hjá ráðuneytinu væru helst móttökur í tengslum við málþing eða ráðstefnur. Ekki væri haldin sérstök dagskrá eða gestalistar á slíkum viðburðum. Að öðru leyti var kæranda vísað á vefsvæðið „opnir reikningar“ um einstök útgjöld ráðuneytisins sem aðgengilegt væri á netinu. Þá var kæranda bent á að hefði hann í huga einstaka viðburði væri unnt að senda aðra fyrirspurn þar sem upplýsingabeiðnin væri afmörkuð við þann viðburð.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 25. mars 2021, var kæran kynnt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 8. apríl 2021, kemur fram að réttur til aðgangs að gögnum hjá ráðuneytinu nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Ráðuneytinu sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þetta eigi m.a. við um dagskrá, gestalista og matseðla samkvæmt beiðni kæranda eða samantekt um mögulega viðburði umrædd ár. Umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi og því ekki hægt að verða við beiðninni hvað þessi gögn varði. Ráðuneytið telji sig einnig hafa fullnægt skyldu sinni samkvæmt upplýsingalögum með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar um útgjöld og dagskrá ráðherra séu þegar aðgengilegar almenningi, sbr. 18. og 19. gr. laganna<br /> <br /> Þá er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skuli sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ljóst sé að beiðni kæranda um afrit af „öllum gögnum“ sem tengjast hvers konar viðburðum á vegum ráðuneytisins á um þriggja ára tímabili sé of víðtæk til að hægt sé að afmarka hana við tiltekin gögn. Ráðuneytið hafi ekki undir höndum samantekt eða upplýsingar um það hversu margir „viðburðir“ teljist hafa farið fram á vegum þess á umræddu tímabili eins og áður sagði og þá liggi heldur ekki fyrir haldbær skýring á orðinu viðburður til að styðjast við. Í ljósi framangreinds hafi ráðuneytið leiðbeint kæranda um að afmarka beiðni sína við einstaka viðburði og óskað eftir upplýsingum um þá til að unnt væri að verða við beiðni um frekari upplýsingar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við leiðbeiningum ráðuneytisins um að afmarka beiðnina nánar. Þá er vísað til málsatvika í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 636/2016 þar sem m.a. var deilt um rétt kæranda til aðgangs að „öllum gögnum varðandi rannsóknir FME“. Að mati ráðuneytisins séu sömu aðstæður uppi varðandi beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varði „samkvæmi, móttökur, veislur og alla slíka viðburði“ á vegum þess á umræddu tímabili.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 23. apríl 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar ráðuneytisins. Engar frekari athugasemdir bárust.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkvæmi, móttökur, veislur og alla aðra slíka viðburði á vegum ráðuneytisins frá 30. nóvember 2017. Í beiðninni er í dæmaskyni tekið fram að m.a. væri átt við dagskrá, gesta/þátttakendalista, matseðla og alla reikninga vegna kostnaðar sundurliðaða og reiknaðan kostnað við umrædda viðburði.<br /> <br /> Afgreiðsla ráðuneytisins er í fyrsta lagi reist á því að hluti þeirra gagna sem kærandi nefnir í dæmaskyni sé ýmist ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegur á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Á vegum ráðuneytisins væri einkum um að ræða móttökur í tengslum við málþing eða ráðstefnur en ekki væri venja að halda sérstaka dagskrá eða gestalista vegna slíkra viðburða hjá ráðuneytinu. Slík gögn væru því ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Í ljósi framangreindra skýringa ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn á borð við gestalista og dagskrár varðandi þessa tilteknu viðburði, sem falla undir þennan hluta upplýsingabeiðni kæranda, séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Verður þeim þætti kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 2.<br /> Í svari ráðuneytisins við beiðni kæranda var einnig vísað til þess að upplýsingar um einstök útgjöld ráðuneytisins væru aðgengilegar á netinu. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í svör ráðuneytisins að með því sé vísað til vefsvæðisins opnirreikningar.is.<br /> <br /> Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er stjórnvaldi almennt heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að upplýsingum með því að vísa á vefslóð þar sem þær er að finna. <br /> <br /> Eins og fyrr segir mun kæranda hafa verið leiðbeint um að upplýsingar um um einstök útgjöld ráðuneytisins væru aðgengilegar á netinu og má ráða af svörunum að átt sé við vefsvæðið opnirreikningar.is þótt rétt hefði verið af ráðuneytinu að vera skýrara í leiðbeiningum sínum að þessu leyti. Á vefsvæðinu er með einföldum hætti unnt að nálgast upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins, m.a. eftir einstaka stofnunum, tímabilum og tegund kostnaðar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um útgjöld vegna viðburða á vegum ráðuneytisins og verður því kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni að þessu leyti.<br /> <br /> 3.<br /> Af hálfu ráðuneytisins er að öðru leyti byggt á því að beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum sem varða samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði sé afmörkuð með of víðtækum hætti til að unnt sé að afmarka hana við umbeðin gögn. Þá er vísað til þess að ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um að afmarka beiðni sína nánar. Kærandi hafi hins vegar ekki brugðist við þeim leiðbeiningum. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 varð sá, sem fór fram á aðgang að gögnum, að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu, en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-531/2014, úrskurð nr. 636/2016 frá 12. ágúst 2016 og úrskurð 809/2019 frá 3. júlí 2019.<br /> <br /> Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.“ Jafnframt kemur þar fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings og auðvelda borgurum að leggja fram beiðnir um upplýsingar. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að skyldan til að finna þau mál eða þau gögn sem falla efnislega undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum hvíli á stjórnvöldum er sú skylda ekki án takmarkana. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem tengist því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að finna heimild til frávísunar á beiðni ef ómögulegt er talið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál, enda séu málsaðila veittar leiðbeiningar og honum gefið færi á að afmarka beiðni sína betur. Með ákvæðinu er m.a. áréttuð sú leiðbeiningarskylda sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. <br /> <br /> Kærandi setur í máli þessu fram afar víðtæka beiðni um aðgang að „öllum gögnum“ sem varðað geta samkomur, viðburði o.s.frv. á vegum ráðuneytisins á rúmlega þriggja ára tímabili. Með beiðninni er hvorki óskað eftir gögnum um nánar tiltekna viðburði eða samkomur né lýtur beiðnin að samkomum eða viðburðum af nánar tilgreindum toga. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að ekki sé til að dreifa sérstakri samantekt eða skrá yfir viðburði eða samkomur á vegum ráðuneytisins. Við meðferð beiðninnar hjá ráðuneytinu var kæranda hins vegar í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar við einstaka viðburði til þess að unnt væri að verða við beiðni hans um upplýsingar og var honum m.a. leiðbeint um að unnt væri að afla upplýsinga um útgjöld ráðuneytisins á vefsvæði auk þess sem dagskrá ráðherra væri aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál uppfyllir beiðni kæranda um afrit allra gagna varðandi samkomur, móttökur, veislur og aðra viðburði ekki skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efni máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að ráðuneytinu sé mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekin mál án verulegrar fyrirhafnar. Er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 23. mars 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1025/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

Kærð var afgreiðsla embættis ríkislögmanns á beiðni kæranda um aðgang að samningum sem embættið hefur gert vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta á nánar tilgreindum tímabilum.. Embætti ríkislögmanns taldi beiðni kæranda útheimta svo umfangsmikla vinnu að heimilt væri að synja beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi embættið ekki hafa rökstutt nægilega að undantekningarregla 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga ætti við í málinu. Ákvörðunin var því felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1025/2021 í máli ÚNU 21020011. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 5. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu embættis ríkislögmanns á beiðni kæranda um aðgang að samningum sem embættið hefur gert vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta á nánar tilgreindum tímabilum.<br /> <br /> Beiðni kæranda var upphaflega borin upp þann 3. júlí 2020 og beindist þá að öllum slíkum samningum sem embættið gerði á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 15. júní 2020. Eftir að embætti ríkislögmanns synjaði beiðninni óskaði kærandi eftir sömu gögnum á styttra tímabili, þ.e. frá 16. desember 2019 til og með 15. júní 2020. Til vara óskaði kærandi eftir samningum sem dagsettir væru frá 16. mars 2020 til og með 15. júní 2020 og til þrautavara frá 1. maí 2020 til og með 15. júní 2020. <br /> <br /> Beiðninni var synjað með ákvörðun embættisins, dags. 7. júlí 2020, með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi ákvörðun embættisins úr gildi þann 17. desember 2020 með úrskurði nr. 952/2020 og vísaði málinu til embættisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.<br /> <br /> Með nýrri ákvörðun embættis ríkislögmanns, dags. 11. janúar 2021, sem hér er deilt um, var kæranda veittur aðgangur að umbeðnum samningum á tímabilinu 16. mars 2020 til og með 15. júní 2020. Strikað var yfir persónugreinanlegar upplýsingar í samningunum. Í kjölfarið ritaði kærandi embætti ríkislögmanns tölvupóst, dags. 11. janúar 2021, þar sem óskað var eftir staðfestingu embættisins á því að með ákvörðun sinni hefði embættið synjað beiðni hans um afrit samninga annars vegar á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og hins vegar á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. <br /> <br /> Í svari ríkislögmanns, dags. 12. janúar 2021, kom m.a. fram að vinnsla beiðni kæranda hefði þegar útheimt töluverða vinnu. Upphaflega hefði verið lagt upp með að finna samninga sem gerðir voru á stysta tímabilinu samkvæmt beiðni hans, þ.e. frá 1. maí 2020 til 15. júní 2020, en ákveðið að taka fyrir lengra tímabil, þ.e. frá 16. mars 2020 og þar með sýna fleiri tegundir af samningum. Þá er tekið fram að þeir samningar sem afhentir voru gæfu mjög raunhæfa mynd af þeim samningum sem gerðir væru hjá embættinu. Með þessari afhendingu ætti kærandi að geta myndað sér skoðun á samningum vegna bótakrafna á hendur ríkinu á sama hátt og ef veitt væru gögn yfir lengra tímabil. Ef finna ætti til gögn yfir lengra tímabil myndi það útheimta gríðarlega vinnu en embættið hefði ekki mannafla í það. Loks var óskað eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann héldi kröfu um afhendingu samninga á nánar tilgreindum lengri tímabilum til streitu.<br /> <br /> Í svari kæranda, dags. 12. janúar 2021, tók kærandi fram að í svari ríkislögmanns hefði ekki komið fram hvernig brugðist hefði verið við beiðni kæranda um afrit af samningum á öðrum tímabilum. Þá kom fram að kærandi væri ekki sannfærður um að afrit af samningum á því tímabili sem hann fékk afhent gæfu rétta mynd af þeim samningum sem gerðir væru hjá embættinu. Það væri hins vegar ekki ætlun kæranda að valda embættinu óþarflega mikilli vinnu og því lagði hann til hvort heppilegra væri ef beiðni hans yrði afmörkuð við þá samninga á tímabilinu sem eftir stæði þar sem ekki væri um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara vegna líkamstjóns. <br /> <br /> Í svari ríkislögmanns, dags. 15. janúar 2021, kom fram að afgreiðsla embættisins á beiðni kæranda vegna lengri tímabila myndi að lágmarki taka jafnlangan tíma og fyrri afgreiðsla, þ.e. 4,5 vinnudaga. Embættið mætti ekki verða við því að missa starfsmann frá öðrum verkefnum í svo langan tíma. Þá var þess farið á leit við kæranda að hann útskýrði nánar eftir hverju hann væri að leita en þá væri mögulega unnt að afgreiða beiðnina með öðrum hætti. Að öðrum kosti yrði að hafna beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í svari kæranda, dags. 18. janúar 2021, kom fram að kærandi hefði þegar afmarkað beiðni sína nánar með því að óska eingöngu eftir þeim samningum þar sem ekki væri um að ræða líkamstjón vegna aðgerða lögreglu/saksóknara. Ekki væri unnt að útskýra nánar beiðnina. Þá ítrekaði hann fyrri beiðni sína um afrit af samningum sem gerðir voru á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 en til vara samningum sem gerðir voru á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. Í svarinu kom einnig fram að kærandi teldi yfirstrikanir ríkislögmanns á upplýsingum í þeim samningum sem afhentir voru óhóflegar. <br /> <br /> Í kæru er málavöxtum lýst allt frá því úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 952/2020 var kveðinn upp. Þá segir að farið sé fram á að úrskurðarnefndin úrskurði um aðgang kæranda að þeim hluta þeirra upplýsinga sem var yfirstrikaður í þeim gögnum sem embætti ríkislögmanns afhenti kæranda. Með tölvubréfi, dags. 8. febrúar 2021, upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að ríkislögmaður hefði endurskoðað fyrri afstöðu sína varðandi yfirstrikanir á upplýsingum í þeim gögnum sem þegar hefðu verið afhent. Af þeim sökum féll kærandi frá þeim þætti kærunnar er sneri að yfirstrikunum embættis ríkislögmanns.<br /> <br /> Í kæru segir að einnig sé farið fram á að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun embættisins um að neita að afhenda afrit samninga frá 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020, þar sem ekki er um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns. Loks er til vara, ef ekki verður fallist á framangreinda kröfu, farið fram á að ákvörðun ríkislögmanns um að neita að afhenda afrit samninga um sama efni frá 16. desember 2019 til 16. júní 2020 verði felld úr gildi. Í því sambandi er tekið fram að embætti ríkislögmanns hafi sjálfstæðar skyldur til að haga skjalastjórn sinni á þann hátt að mögulegt sé að fara að upplýsingalögum nr. 140/2012. Skjalastjórnun eins og embættið lýsi henni beri vott um að það vanræki skyldur sína að skrá ákvarðanir sínar á þann hátt að embættið geti sinnt skyldum sínum samkvæmt upplýsingalögum. Þá eru gerðar athugasemdir við þá afstöðu ríkislögmanns að embættið megi ekki við því að missa starfsmann frá öðrum verkefnum.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, var kæran kynnt embætti ríkislögmanns og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn embættisins, dags. 24. mars 2021, kemur fram að embætti ríkislögmanns hafi endurskoðað fyrri afstöðu sína er snýr að þeim þætti kærunnar er lýtur að yfirstrikunum embættisins á upplýsingum. Þar sem kærandi hafi í kjölfarið fallið frá þeim þætti kærunnar standi eftir tveir liðir hennar, þar sem krafist er afhendingar á afritum af samningum, þar sem ekki er um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns, annars vegar sem gerðir voru á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og hins vegar sem gerðir voru á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020.<br /> <br /> Embætti ríkislögmanns telur sér ekki fært að verða við beiðni kæranda að því er varðar tímabilin sem eftir standa, það er frá 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. Frekari afmörkun<br /> kæranda, þar sem undanskildir eru samningar vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns, breyti ekki þeirri niðurstöðu. Því sé kröfu kæranda hafnað með vísan til 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í því sambandi er bent á að í lögunum sé gert ráð fyrir að stjórnvald geti hafnað beiðni ef ljóst þyki að meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Embættið bendir á að beiðni kæranda, jafnvel eftir frekari afmörkun, útheimti afar umfangsmikla vinnu fyrir embættið. Tekið er fram að starfsmaður embættisins hafi eytt rúmum fjórum vinnudögum í að taka saman samninga sem afhentir voru kæranda þann 11. janúar 2021.<br /> <br /> Þá er vísað til þess að kærandi telji það ekki trúverðugt að svo mikill tími hafi farið í að taka saman umbeðin gögn þar sem ekki hafi verið afhent tímaskráning vegna þessarar vinnu. Þá hafi hann deilt þeim stundafjölda niður á samninga. Af því tilefni er tekið fram að starfsmenn embættisins haldi ekki formlega tímaskráningu fyrir þann tíma sem fari í hvert og eitt mál, enda þótt viðkomandi starfsmaður hafi skráð óformlega hjá sér þann tíma sem fór í að finna til umbeðin gögn. Afar rangt sé að deila þeim tíma niður á samninga og endurspeglist þar mikil vanþekking kæranda á því hvað felist í að afgreiða beiðni hans. Vinnan felist í því að finna til viðkomandi gögn og er fjöldi samninga, eða afrakstur þeirrar vinnu, engan veginn mælikvarði á þann tíma sem afgreiðsla beiðninnar taki.<br /> <br /> Þá hafnar embætti ríkislögmanns þeirri staðhæfingu að skjalastjórn embættisins sé ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Embættið noti málaskrárkerfið GoPro, rétt eins og ráðuneyti og flestar ríkisstofnanir. Í því kerfi séu mál flokkuð í fjóra meginflokka: dómsmál, bótamál, erindi og önnur mál. Hvert mál sé skráð eftir nafni og kennitölu og fái sitt númer. Hægt sé að leita í kerfinu með einföldum hætti eftir þessari flokkun. Kerfið bjóði aftur á móti ekki upp á leit eftir frekari undirflokkum, svo sem efni mála, það er hvort um sé að ræða mál vegna þvingunarráðstafana, læknamistaka, starfsmannamál o.s.frv. Þegar málum ljúki sé þeim lokað í GoPro, en hins vegar komi ekki fram við einfalda leit hverjar séu lyktir hvers máls, þ.e. hvort þeim ljúki með samkomulag, dómi o.s.frv. Slíkt komi hins vegar fram í gögnum hvers máls. Til þess að nálgast þessar upplýsingar þurfi hins vegar að opna hvert mál í málaskránni handvirkt. Þess beri þó að geta að frá og með síðustu áramótum hafi starfsmaður skráð handvirkt í excel frekari flokkun í því skyni að geta brugðist við og dregið úr vinnu við að afgreiða beiðnir á grundvelli upplýsingalaga og fyrirspurnir frá Alþingi svo fátt eitt sé nefnt. Verði hins vegar ekki annað séð en að slíkt sé umfram skyldu, enda noti embættið GoPro-málaskrárkerfið og uppfylli skráning í það kerfi þær skyldur sem á embættinu hvíla um skjalastjórnun. Tekið er fram að um mikinn fjölda mála sé að ræða og forsendur að baki slíkum samkomulögum afar misjafnar og torvelt að afgreiða slíka beiðni með einföldum hætti.<br /> <br /> Embætti ríkislögmanns bendir einnig á að í athugasemdum í greinargerð með upplýsingalögum segi jafnframt að til að hægt sé að afgreiða beiðni verði hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, til dæmis með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem lýtur að því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um.<br /> Til þess að afgreiða beiðni kæranda í janúar síðastliðnum fletti starfsmaður embættisins upp á öllum greiðslubeiðnum embættisins á því tímabili sem um ræddi. Að því loknu þurfti að opna<br /> öll mál á tímabilinu og bera saman við greiðslubeiðnir. Þá hafi verð hægt að finna tilheyrandi samninga, prenta út og afmá persónuupplýsingar. Á árinu 2020 hafi nýskráð mál hjá embættinu verið 727. Þessum málum hafi 8-9 lögmenn (8,33) sinnt og starfsmenn í einu og hálfu stöðugildi skrifstofumanns. Nú um áramót hafi verið bætt við einum skrifstofumanni. Ljóst sé að afgreiðsla á beiðni kæranda, það er þau tímabil sem eftir standa, sbr. upphaflega aðal- og varakröfu kæranda, muni taka umtalsverðan tíma. Fara þurfi í gegnum sama ferli og lýst hafi verið. Þar sem mál séu ekki skráð í GoPro-kerfinu eftir því um hvers konar bótakröfur og/eða dómsmál er að ræða myndi nánari aðgreining kæranda frekar auka fyrirhöfn og vinnu ef eitthvað er. Telur embættið sér því ekki fært að verða við beiðni kæranda.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 26. mars 2021, var umsögn embættis ríkislögmanns kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 29. mars 2021, er bent á að í umsögn embættis ríkislögmanns sé hvergi lagt mat á það hversu langan tíma það taki starfsmann að afgreiða beiðni kæranda sem nú er til umfjöllunar. Þá sé ekki heldur rökstutt hvernig afgreiðsla á beiðni kæranda komi til með að valda umtalsverðri skerðingu á starfsemi embættisins. Þá kemur fram að kærandi telji embættið í umsögn sinni þar sem fram komi að frá áramótum hafi embættið skráð mál handvirkt í excel viðurkenna í verki að skráning þess á ákvörðunum hafi verið haldið ágöllum. Tekið er fram að umræddir samningar feli í sér ákvarðanir stjórnvalds sem ekki séu aðgengilegar annars staðar og því mikilvæg skjöl. Í þeim komi fram ráðstöfun fjármuna sem ekki fari hefðbundna leið fjárlaga. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um samninga („samkomulög“) sem embætti ríkislögmanns hefur gert um greiðslu skaða- og/eða miskabóta úr ríkissjóði sem ekki varða bótagreiðslur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns. Nánar tiltekið lýtur beiðni kæranda að öllum slíkum samningum sem embættið gerði á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020. Til vara óskaði kærandi eftir samningum um sama efni sem dagsettir væru frá 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. Áður hafði ríkislögmaður afhent kæranda samninga sem dagsettir voru frá 16. mars 2020 til 19. júní 2020. Beiðni kæranda var synjað með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Samkvæmt ákvæðinu má í undantekningartilfellum hafna beiðni ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur skýrt fram að ákvæðið geti aðeins átt við í ýtrustu undantekningartilvikum. Þá segir að til þess að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt þurfi umfang upplýsingabeiðni, eða fjöldi þeirra frá einum og sama aðilanum, að vera slíkt að vinna stjórnvalds við afgreiðslu hennar mundi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt á það áherslu að fara verði fram raunverulegt mat á þeirri vinnu sem nauðsynleg sé til að afgreiða beiðni og gera verði strangar kröfur til þess að stjórnvald rökstyðji vandlega hvaða ástæður liggi til þess að ákvæðinu verði beitt, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 663/2016 og 551/2014. Í síðara málinu var ekki fallist á að stjórnvaldi væri heimilt að beita ákvæðinu en rökstuðningur stjórnvaldsins laut að því að leit í málaskrárkerfi stofnunar hefði skilað 1.800 niðurstöðum. Í úrskurði nefndarinnar nr. 745/2018 var fallist á að beita heimildinni varðandi aðgang að öllum úrskurðum í umgengnismálum í vörslum dómsmálaráðuneytisins. Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars að áætlaður heildarblaðsíðufjöldi úrskurðanna væri á annað þúsund. Með vísan til eðlis málaflokksins féllst nefndin á að vinnan við að afmá viðkvæmar upplýsingar úr úrskurðunum væri slík að dómsmálaráðuneytinu væri heimilt að beita undanþáguákvæðinu.<br /> <br /> Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lýst er í athugasemdum við ákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 verður að leggja til grundvallar að ákvæðinu verði einungis beitt þegar sýnt þykir að vinnsla beiðni um upplýsingar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum. <br /> <br /> 2.<br /> Í máli þessu er um það að ræða að kærandi óskar eftir því að fá afhent afrit af öllum samningum sem embætti ríkislögmanns hefur gert á tilteknu tímabili vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta sem ekki varða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns. <br /> <br /> Embætti ríkislögmanns hefur í fyrsta lagi haldið því fram að sú vinna sem embættið þyrfti að inna af hendi í því skyni að verða við beiðni kæranda sé umtalsverð. Í því sambandi er bent á að það hafi tekið starfsmann embættisins rúmlega fjóra vinnudaga að afgreiða beiðni kæranda varðandi tímabilið 16. mars 2020 til 15. júní 2020 og ljóst sé að beiðni kæranda sem hér er til umfjöllunar myndi útheimta sambærilega vinnu. <br /> <br /> Að öðru leyti er ekki gerð nánari grein fyrir þeirri vinnu sem embættið sér fram á að beiðni kæranda sem hér er til umfjöllunar komi til með að útheimta. Þá er þar ekki rökstutt með hvaða hætti afgreiðsla beiðninnar komi til með að valda umtalsverðri skerðingu á starfsemi þess. Af umsögn embættisins verður ráðið að ástæða þess hversu tímafrek afgreiðsla á beiðni kæranda sé stafi fyrst og fremst af því hvernig skráningu mála sé háttað hjá embættinu og flokkun þeirra í málaskrá og skortur á starfsfólki til að afgreiða upplýsingabeiðni. Samkvæmt því sem fram kemur í umsögninni eru mál flokkuð í fjóra meginflokka í málaskrá embættisins og virðist því ekki unnt að kalla fram með einfaldri orðaleit mál sem varða beiðni kæranda. Af þeim sökum útheimti beiðni kæranda svo umfangsmikla vinnu að heimilt sé að synja beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fær ekki betur séð en að umræddri beiðni kæranda hafi fyrst og fremst verið hafnað á þeirri almennu forsendu að sá háttur sem hafður er á skráningu mála hjá embættinu bjóði ekki upp á að gögn séu tekin saman án umtalsverðrar fyrirhafnar. Þá hefur embættið jafnframt lýst þeirri afstöðu sinni að frekari afmörkun kæranda á beiðninni við samninga af tilteknum toga myndi ekki breyta niðurstöðunni. Tekið skal fram að ekki er útilokað að heimilt sé að synja beiðni um upplýsingar á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga með vísan til sjónarmiða þess efnis að torvelt sé að kalla fram með einfaldri orðaleit þau mál eða gögn sem óskað er eftir. Á það ber hins vegar að líta að ákvæðið felur í sér þrönga undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi upplýsingum, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að í beiðni kæranda er tilgreint skýrlega efni þeirra mála sem umbeðin gögn tilheyra auk þess sem hún er afmörkuð við tiltekin tímabil. Í því sambandi skal minnt á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 952/2020 þar sem fjallað var um beiðni kæranda um sömu upplýsingar sem að mestu leyti sneri að sama tímabili kom fram að ekki væri unnt að fallast á það með embætti ríkislögmanns að kærandi hefði ekki uppfyllt kröfu 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að gerð samninga í tengslum við uppgjör bótakrafna á hendur íslenska ríkinu er á meðal þeirra verkefna sem ríkislögmanni eru falin með lögum, sbr. 2. gr. laga nr. 51/1985. Þannig snýr beiðni kæranda að málum sem falla undir málaflokk sem telja verður veigamikið viðfangsefni embættisins. Telja verður að almenningur hafi almennt ríka hagsmuni af því að kynna sér slíkar upplýsingar. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að unnt sé að synja beiðni kæranda á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga á þeirri almennu forsendu að það sé vandkvæðum bundið að kalla fram þau mál sem beiðnin lýtur að. Í því sambandi skal tekið fram að þrátt fyrir að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um hvernig stjórnvöld haga skráningu og vistun gagna í málaskrá þá samrýmist það ekki markmiðum upplýsingalaga að láta þann er fer fram á upplýsingar og setur beiðni sína fram í samræmi við þær kröfur sem leiða af 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga bera hallann af því ef slíkri skráningu er abótavant. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin fellst á að það kunni vissulega að útheimta allnokkra vinnu af hálfu embættisins að skoða þau mál sem skráð eru í málaskrá embættisins á umræddu tímabili með það fyrir augum að finna út hverjum þeirra hafi lokið með gerð samnings um greiðslu skaða- eða miskabóta. Úrskurðarnefndin telur hins vegar að embættið hafi ekki rökstutt nægilega að umfangi þeirrar vinnu sé þannig háttað að undantekningarregla 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga eigi við í málinu.<br /> <br /> Það hvort embættinu beri skylda til þess að hreinsa þessa tilteknu samninga af persónugreinanlegum upplýsingum og afhenda kæranda hlýtur að ráðast af fjölda þeirra, þ.e. umfangi þeirrar vinnu sem embættið þyrfti að ráðast í við afhendingu þeirra. Fjöldi samninganna liggur hins vegar ekki fyrir eins og áður segir. Það er því niðurstaða nefndarinnar að embættinu beri að taka þennan þátt í beiðni kæranda til nýrrar meðferðar, þ.e. kalla fram mál í málaskrá embættisins þar sem um er að ræða samninga vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta þar sem ekki er um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns og taka í kjölfarið afstöðu til þess hvort embættinu sé fært að fjarlægja persónugreinanlegar upplýsingar úr þeim og afhenda eða hvort fjöldi þeirra sé slíkur að beiðnin falli eftir sem áður undir undantekningarákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Er kærunni því vísað til nýrrar afgreiðslu embættis ríkislögmanns. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé fallist á að heimilt sé að synja beiðni kæranda á þessum grundvelli kann umfang beiðninnar þó að verða til þess að vinnsla hennar taki nokkurn tíma umfram þá sjö daga sem almennt er miðað við, sbr. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Mikilvægt er hins vegar að kærandi sé upplýstur um gang mála og honum greint frá ástæðum þess ef verulegar tafir verða á afgreiðslu beiðninnar.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun embættis ríkislögmanns um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að afritum af öllum samningum sem embætti ríkislögmanns hefur gert vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta og dagsettir eru á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020, er felld úr gildi og lagt fyrir embætti ríkislögmanns að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1024/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að rótargreiningu vegna atviks sem átti sér stað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í ágúst 2018. Synjun sjúkrahússins var reist á því að um vinnugögn væri að ræða. Á það féllst úrskurðarnefndin ekki enda lá fyrir að rótargreiningin hafði verið kynnt utanaðkomandi sérfræðingi. Úrskurðarnefndin taldi því sjúkrahúsinu skylt að verða við beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1024/2021 í máli ÚNU 21020005. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 2. febrúar 2021, kærði A, lögfræðingur Læknafélags Íslands, f.h. B, ákvörðun Sjúkrahússins á Akureyri um að synja beiðni hans um aðgang að rótargreiningu sem Sjúkrahúsið á Akureyri lét framkvæma vegna óvænts atviks á sjúkrahúsinu í ágúst 2018 sem kærandi tengdist.<br /> <br /> Forsaga málsins er sú að með tölvubréfi, dags. 9. júní 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að rótargreiningu sem sjúkrahúsið lét framkvæma vegna óvænts atviks á sjúkrahúsinu í ágúst 2018 sem kærandi tengdist. Með tölvubréfi, dags. 10. júní 2020, synjaði sjúkrahúsið beiðninni með vísan til þess að um vinnugögn væri að ræða sem unnið væri úr með tilheyrandi umbótum. Þá sagði jafnframt að gögnin innihéldu trúnaðarupplýsingar og væru hvorki til dreifingar né birtingar. Með tölvubréfi lögfræðings kæranda, dags. 12. júní 2020, var beiðni um afhendingu gagnsins ítrekuð. Í bréfinu var bent á að læknir í stöðu kæranda ætti almennt rétt til aðgangs að rótargreiningunni. Þá væri vandséð hvaða trúnaðarupplýsingar gætu verið í rótargreiningunni sem gerðu það ómögulegt að afhenda kæranda afrit af henni. Í því sambandi var minnt á að kærandi hefði þegar fengið afrit af skýrslu embættis landlæknis um viðtöl við starfsmenn um þetta atvik. <br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 16. júní 2020, var fyrri synjun sjúkrahússins á beiðni kæranda ítrekuð. Í svari sjúkrahússins var áréttuð sú afstaða að um vinnugögn væri að ræða sem væru almennt undanþegin upplýsingarétti, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins og 6. gr. laganna. Gögnin féllu undir skilgreiningu vinnugagna samkvæmt 8. gr. upplýsingalaga og yrði ekki séð að undantekning 3. mgr. ákvæðisins ætti við. Þá var tekið fram að ekki væri ljóst hvort kærandi gæti byggt rétt á 14. gr. upplýsingalaga enda fjölluðu gögnin fyrst og fremst um ákveðið atvik og kærandi sjálfur ekki nefndur á nafn í þeim. Þá var tekið fram að ef byggt væri á upplýsingarétti almennings samkvæmt [5. gr. ] upplýsingalaga mætti að auki nefna að gögnin fjölluðu um málefni starfsmanna sjúkrahússins sem væru undanskilin upplýsingarétti almennings, sbr, 4. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. 7. gr. laganna.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 23. desember 2020, ritaði lögfræðingur kæranda sjúkrahúsinu á nýjan leik þar sem ítrekuð var fyrri beiðni um afhendingu umræddrar rótargreiningar. Í bréfinu er bent á að umrætt atvik sem fjallað er um í rótargreiningunni hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir kæranda þar sem samstarfsmaður hans hafi tilkynnt hann til embættis landlæknis sem svipti hann lækningaleyfi tímabundið og í kjölfarið lagði hann leyfið inn. Þá er því mótmælt að um vinnuskjal sé að ræða þegar það varði rótargreiningu sem tengist beint atviki sem hafði alvarleg og mikil áhrif á starf og starfsleyfi kæranda. Telja verði að 14. gr. upplýsingalaga veiti kæranda skýlausan rétt til aðgangs að umræddu gagni. Í svari sjúkrahússins, dags. 7. janúar 2021, kom fram að sjúkrahúsið væri ekki sammála túlkun kæranda á ákvæðum upplýsingalaga, undantekningin væri skýr og næði til viðkomandi vinnugagna. Sjúkrahúsið yrði því að vísa til fyrri synjunar þess, dags. 16. júní 2020, þess rökstuðnings sem þar kæmi fram. <br /> <br /> Í kæru er atvikum lýst sem urðu tilefni umræddrar rótargreiningar. Þar segir að kærandi hafi verið ábyrgur sérfræðingur á vakt 21. ágúst 2018. Að kvöldi þess dags hafi komið upp atvik sem m.a. leiddi til þess að samstarfsmaður kæranda tilkynnti framgöngu kæranda það kvöld til embættis landlæknis. Í kjölfarið var hann tímabundið sviptur starfsleyfi og honum gert að undirgangast sérhæft mat á starfshæfni. Niðurstaða þess mats hafi verið að viðbrögð kæranda hafi stefnt heilsu sjúklings í voða. Þar hafi hins vegar jafnframt komið fram að í þessu máli hafi önnur varnarkerfi jafnframt brugðist. <br /> <br /> Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verulega hagsmuni af því að fá að vita niðurstöðu rótargreiningarinnar á þessu atviki sem hafi haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir kæranda. Til viðbótar komi að eftir að atvikið átti sér stað hafi framkvæmdarstjóri lækninga á sjúkrahúsinu skýrt kæranda frá því að rótargreining yrði gerð á atvikinu. Kærandi hafi skilið ummælin svo að rótargreiningin væri m.a. í þágu kæranda til að virka sem mótvægi við álit embættis landlæknis. Kærandi segir að honum og framkvæmdarstjóra lækninga hafi verið ljóst frá upphafi að álit embættisins yrði honum andsnúið. Kærandi telji að rótargreiningin snúi að starfi hans sjálfs og greiningu á því atviki sem varð til þess að hann var tilkynntur til embættis landlæknis. Hann telji að ákvæði III. kafla upplýsingalaga veiti honum aðgang að henni. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 3. febrúar 2021 var kæran kynnt Sjúkrahúsinu á Akureyri og veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. <br /> <br /> Svar sjúkrahússins barst með tölvubréfi, dags. 11. febrúar 2021, þar sem bent er á að kæranda hafi verið synjað um aðgang að umræddu gagni með ákvörðun sjúkrahússins, dags. 10. júní 2020 sem ítrekuð var 16. júní 2020. Þá er bent á að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé einungis veittur 30 daga frestur til að bera synjun um aðgang undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þessi skammi kærufrestur sé augljóslega löngu liðinn og því verði að hafna því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti tekið kæruna til umfjöllunar. Engu breyti þó kærandi hafi ítrekað ósk um afhendingu sama skjals í desember sama ár enda sé í svari sjúkrahússins, dags. 7. janúar 2021, einungis vísað til fyrri synjunar frá 16. júní 2020.<br /> <br /> Þá segir að í megindráttum hafi synjunin byggst á þeim rökum að kærandi sé ekki aðili máls auk þess sem um vinnuskjal sé að ræða. Þá sé skjalið alls ekki fullbúið og enn sé unnið að því. Þar fyrir utan sé óumdeilt að umrætt skjal hafi að geyma viðkvæmar upplýsingar, sem sjúkrahúsið vilji varðveita með öllum ráðum. Alltaf fylgi því áhætta að senda slík skjöl og varðveisla á afriti þeirra yrði aldrei alveg örugg. Af þeim sökum væri þess óskað að úrskurðarnefndin tæki fyrst afstöðu til þess hvort kæran sé innan kærufrests, sem hún virðist augljóslega ekki vera. Fallist nefndin ekki á það sé óskað eftir viðbótarfresti til að skila rökstuðningi og senda afrit af umbeðnu skjali.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 16. febrúar 2021, ítrekaði úrskurðarnefndin fyrra erindi frá 3. febrúar sl., þar sem óskað var eftir umsögn sjúkrahússins auk afrits af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Sjúkrahúsinu var jafnframt veittur viðbótarfrestur til 23. febrúar 2021. Umsögn Sjúkrahússins á Akureyri barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2021. Í umsögninni var fyrri afstaða sjúkrahússins ítrekuð þess efnis að vísa beri kærunni frá þar sem hún hafi borist utan þess 30 daga kærufrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Í því sambandi er tekið fram að engu breyti þar um þótt kærandi hafi ítrekað beiðni um umrædd gögn síðar. <br /> <br /> Það sé afstaða sjúkrahússins að álitamál sé uppi um hvort úrskurðarnefndin geti tekið kæruna til efnislegrar umfjöllunar og rannsóknar og krafist afhendingar gagna frá sjúkrahúsinu á grundvelli hennar. Rétt sé að skýra 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga með þeim hætti að hún geti einungis tekið til þeirra mála sem nefndin geti tekið til efnislegrar umfjöllunar. Í ljósi þess að nefndin hafi hafnað því að taka fyrst til umfjöllunar hvort kæra sé tæk til efnislegrar meðferðar sé sjúkrahúsið tilneytt til þess að verða við ítrekuðum tilmælum nefndarinnar og afhenda skjalið, í trúnaði. Allur réttur sé áskilinn vegna afhendingar skjalsins ef efni þess komist í hendur utanaðkomandi aðila vegna mistaka við varðveislu þess, eða ef trúnaður um það verði rofinn af einhverjum ástæðum, enda gæti slíkt haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar og valdið tjóni.<br /> <br /> Þá er bent á að umbeðið gagn sé vinnugagn og því undanskilið upplýsingarétti samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins og 8. gr. laganna. Tildrög þess að skjalið var tekið saman megi rekja til alvarlegs atviks á sjúkrahúsinu og markmið þess sé að leita svara við því hvað gerðist, hvernig það gerðist og af hverju, í þeim tilgangi að draga lærdóm af atvikinu og leita leiða til þess að koma í veg fyrir að sambærilegt atvik eigi sér stað aftur. Markmið þess sé að leita leiða til úrbóta í verkferlum, samskiptum og kerfum sem sjúkrahúsið hefur unnið eftir. Skjalið hafi einvörðungu verið tekið saman fyrir sjúkrahúsið og hugsað sem undirbúningur fyrir ákvörðunartöku innan sjúkrahússins í því skyni að bregðast við atvikinu. Skjalið sé útbúið af starfsmönnum sjúkrahússins og eingöngu ætlað til notkunar innan þess. Þær undantekningar sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga eigi ekki við. Í því sambandi er bent á að embætti landlæknis hafi verið sendar allar upplýsingar um atvikið og engar frekari upplýsingar að finna í skjalinu. <br /> <br /> Lýsing á atvikum í skjalinu sé unnin upp úr öðrum gögnum sem kærandi hafi þegar fengið aðgang að. Þá byggi synjunin einnig á því að kærandi geti ekki talist aðili máls í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Jafnvel þó hann hafi komið að umræddu atviki þá sé hann ekki nafngreindur í skjalinu og skjalið hafi því ekki að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Skjalið lýsi atburðum sem þar sem margir komi við sögu og til þess að geta aðgreint háttsemi kæranda þurfi lesandi skjalsins að þekkja til atviksins. Ef talið verður að skjalið hafi að geyma upplýsingar um kæranda hljóti skjalið með sama hætti að geyma viðkvæmar upplýsingar um marga aðra aðila sem komu að atvikinu. Skjalið hafi að geyma upplýsingar um sjúkdómsástand og viðbrögð aðila í starfsemi sem sum verði að telja gagnrýniverði. Hagsmunir þeirra hljóti að vega þyngra en hagsmunir kæranda enda hafi hann ekki rökstutt hvaða hagsmuni hann hafi af því að fá skjalið afhent. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, var kæranda gefið færi á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar sjúkrahússins. Í bréfi frá kæranda, dags. 12. mars 2021, eru ítrekuð sjónarmið kæranda þess efnis að hann telji sig hafa ríkra hagsmuna að gæta. Umrætt atvik sem rótargreiningin varðar hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir kæranda og því skipti það hann miklu að fá að kynna sér niðurstöðu greiningarinnar.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 16. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari upplýsingum frá sjúkrahúsinu í því skyni að varpa skýrara ljósi á atvik málsins. Umbeðin gögn bárust með tölvubréfi, dags. 18. júní 2021. Þá bárust viðbótarathugasemdir sjúkrahússins með tölvubréfi lögmanns þess, dags. 22. júní 2021.<br /> <br /> Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> <p>1.<br /> Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur lögmaður Sjúkrahússins á Akureyri ítrekað borið því við að kæran hafi borist utan kærufrests og því ekki tæk til efnismeðferðar enda hafi upphafleg beiðni kæranda um umræddar upplýsingar verið afgreidd með ákvörðun, dags. 10. júní 2020. <br /> <br /> Af því tilefni telur úrskurðarnefndin rétt að taka fram að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Í máli þessu er deilt um ákvörðun sjúkrahússins á Akureyri, dags. 7. janúar 2021, í tilefni af beiðni kæranda, dags. 23. desember 2020, en kæra barst 2. febrúar 2021 og því innan framagreinds kærufrests. Úrskurðarnefndin áréttar að í upplýsingalögum er ekki að finna ákvæði sem takmarka rétt einstaklinga til að óska á nýjan leik eftir gögnum sem áður hefur verið synjað um. Kæranda var því heimilt að leita til sjúkrahússins á ný með beiðni um gögn. Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að í synjunum sjúkrahússins á beiðnum kæranda var honum ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Skortur á slíkum leiðbeiningum leiðir iðulega til þess að úrskurðarnefndin tekur til umfjöllunar kærur sem berast henni utan kærufrests.<br /> <br /> 2.<br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að rótargreiningu vegna atviks sem átti sér stað á skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri í ágúst 2018. Ákvörðun sjúkrahússins er fyrst og fremst byggð á því að um vinnugögn sé að ræða í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Gögnin séu af þeim sökum undanþegin upplýsingarétti. Í hinni kærðu ákvörðun er enn fremur tekið fram að beiðni kæranda hafi verið afgreidd á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnugagna. Hugtakið vinnugagn er svo skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Þá er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna, felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að gögnum sem skýra ber þröngri lögskýringu.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd, það skuli útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það megi ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin séu af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur til vinnugagna.<br /> <br /> Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist þau til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni var sjúkrahúsinu ritað erindi, dags. 16. júní 2021, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort öðrum en starfsmönnum sjúkrahússins hefði verið kynnt rótargreiningin. Í svari sjúkrahússins, dags. 18. júní 2021, kom fram að einungis starfsfólk sjúkrahússins og einn sérfræðingur hjá Landspítala, sem aðstoðaði við vinnslu hennar, hefði fengið rótargreininguna senda. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjal með rótargreiningunni. Af gögnum málsins er ljóst að tilgangur þess að ráðist var í umrædda rótargreiningu hafi verið að greina umrætt atvik og draga af því lærdóm, bæta verkferla og þar með koma í veg fyrir að sambærilegt atvik ætti sér stað aftur. Þrátt fyrir að efni skjalsins hafi að geyma lýsingu á atvikum máls er ljóst að sú lýsing er gerð í tengslum við vangaveltur og tillögur að hugsanlegum viðbrögðum og lausnum í því skyni að bæta almennt verkferla á sjúkrahúsinu. Úrskurðarnefndin telur að skjalið beri með sér að vera undirbúningsgagn vegna hugsanlegra ákvarðana eða lykta máls. Hins vegar er það mat úrskurðarnefndarinnar að skjalið uppfylli hvorki það skilyrði að hafa verið útbúið af stjórnvaldinu sjálfu né að hafa ekki verið afhent öðrum en í málinu liggur fyrir að utanaðkomandi sérfræðingur sem starfar hjá annarri heilbrigðisstofnun, Landspítala, hafi aðstoðað starfsmenn sjúkrahússins við vinnslu rótargreiningarinnar og fengið skjalið sent. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur því ekki fallist á að umrædd rótargreining teljist til vinnugagna í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga og þar með undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. laganna.</p> <p >3.<br /> Eftir stendur því að leggja mat á hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnunum í heild eða að hluta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Þrátt fyrir að í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þess að um rétt kæranda til aðgangs að gögnum fari eftir 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga verður ráðið af umsögn sjúkrahússins að það dragi í efa að kærandi geti talist aðili máls í skilningi 1. mgr. 14. gr. <br /> <br /> Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 3. mgr. sömu greinar kemur þó fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.<br /> <br /> Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki aðeins þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varði hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000, A-182/2004, A-283/2008, A-294/2009 og A-466/2012.<br /> <br /> Þrátt fyrir að rótargreiningin hafi fyrst og fremst haft það að markmiði að draga almennan lærdóm af því sem úrskeiðis fór verður að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fram hjá því litið að þar er fjallað nokkuð ítarlega um þátt kæranda í því atviki sem rótargreiningin snýr að. Þá liggur fyrir að kærandi hefur þurft að sæta viðurlögum af hálfu embættis landlæknis í tengslum við framgöngu hans umrætt sinn. Rótargreiningin var hins vegar ekki hluti af gögnum stjórnsýslumálsins hjá landlækni og því fer um aðgang að henni eftir ákvæðum upplýsingalaga en ekki stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir að nafn kæranda komi þar hvergi fram telur úrskurðarnefndin að ekki leiki vafi á því að rótargreiningin geymi upplýsingar um kæranda í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fer því um rétt hans til aðgangs að þeim eftir ákvæðum III. kafla laganna. <br /> <br /> 4.<br /> Sjúkrahúsið á Akureyri styður synjun á beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum einnig við 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. <br /> <br /> Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að í aðstæðum líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. upplýsingalaga. Síðan segir orðrétt:<br /> <br /> „Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig. Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.<br /> <br /> Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kærandi hafi ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér efni rótargreiningarinnar en hennar var aflað í tengslum við atvik sem kærandi átti þátt í og mun meint framganga hans í tengslum við það hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsframa hans. Aðgangur kæranda að rótargreiningunni verður því aðeins takmarkaður ef hagsmunir annarra sem um er fjallað í henni eða tjáðu sig við gerð hennar, af því að frásagnir þeirra fari leynt, vega þyngra en hagsmunir kæranda af því að geta kynnt sér þær, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni rótargreiningarinnar með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Í henni er í fyrsta lagi að finna almenna lýsingu á málavöxtum, greiningu frávika auk tillagna að viðbrögðum vegna þeirra. Í rótargreiningunni er að finna nákvæma lýsingu á sjúkdómsástandi og meðhöndlun ónafngreinds sjúklings á sjúkrahúsinu. Í gögnum máls kemur fram að atvikalýsingin sé unnin upp úr öðrum gögnum málsins sem kærandi hafi þegar fengið aðgang að. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að um er að ræða lýsingu á atviki sem kærandi átti sjálfur þátt í er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé ástæða til að takmarka aðgang kæranda að þeim. Við það mat horfir úrskurðarnefndin jafnframt til þess að í rótargreiningunni koma ekki fram nöfn einstakra starfsmanna eða sjúklinga. <br /> <br /> 5.<br /> Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni naut Sjúkrahúsið á Akureyri liðsinnis lögmanns sem sinnt hefur öllum samskiptum við nefndina í tilefni af kærunni. Í málatilbúnaði lögmannsins f.h. sjúkrahússins var m.a. krafist frávísunar kærunnar og heimildir úrskurðarnefndarinnar til að annars vegar fjalla efnislega um kæruna og hins vegar krefjast afhendingar þeirra gagna sem kæran lýtur að dregnar í efa. Þá varð lögmaðurinn ekki við kröfu nefndarinnar um afhendingu umbeðinna gagna fyrr en eftir ítrekun þar um. Loks hefur lögmaðurinn borið því að við að andmælaréttar sjúkrahússins hafi ekki verið gætt við meðferð málsins.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin telur að framsetning lögmannsins á málatilbúnaði sjúkrahússins og framganga hans að öðru leyti í samskiptum við nefndina sé ekki í samræmi við þær kröfur sem gera verður til aðkomu lægra settra stjórnvalda að kærumálum vegna ákvarðana þeirra. Um þetta hefur umboðsmaður Alþingis margsinnis fjallað m.a. í álitum frá 17. janúar 2020 í máli nr. 10008/2019 og 19. desember 2018 í máli nr. 9513/2017 og í skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2012, bls. 17-19. Í þessu sambandi hefur umboðsmaður bent á að markmið stjórnvalda í kærumálum sé fyrst og fremst að leiða þau til lykta í samræmi við lög og réttar upplýsingar en ekki koma í veg fyrir að þau hljóti efnislega umfjöllun. <br /> <br /> Í því sambandi skal bent á að það er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að ganga úr skugga um að eigin frumkvæði hvort kæruskilyrðum sé fullnægt og hvort að þau gögn sem óskað er eftir falli undir ákvæði upplýsingalaga. Þá athugast enn fremur að það stjórnvald sem ákvörðun tók um rétt til aðgangs að upplýsingum telst ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda nýtur kærandi einn slíkrar stöðu. Aðkoma stjórnvaldsins að kærumálinu er þannig fyrst og fremst bundin við að veita hlutlæga umsögn eða skýringar í þágu rannsóknar málsins til að efnisleg niðurstaða fáist og hægt sé að leiða málið til lykta á réttum grundvelli og er því ekki litið svo á að lægra setta stjórnvaldið njóti andmælaréttar í skilningi stjórnsýsluréttar. </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Sjúkrahúsinu á Akureyri er skylt að veita kæranda, B, aðgang að rótargreiningu vegna atviks sem átti sér stað á skurðlækningardeild ágúst 2018.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1023/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

Deilt var um afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni um aðgang að gögnum í tengslum við skipulagsvinnu. Í málinu lá fyrir að Kópavogsbær hafði leiðbeint kæranda um það hvar gögnin væri að finna auk þess sem sveitarfélagið tók sömu gögn saman fyrir kæranda og afhenti honum. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafði kæranda ekki verið synjað um aðgang að gögnum frá sveitarfélaginu í skilningi upplýsingalaga og var kærunni því vísað frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1023/2021 í máli ÚNU 21010009. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 30. nóvember 2020, kærði A til úrskurðarnefndar um upplýsingamál töf á afgreiðslu gagnabeiðni sinnar til Kópavogsbæjar frá júní sama ár. Í erindi kæranda, dags. 4. júní 2020, hafði hann óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem vörðuðu skipulagsvinnu á Hamraborgarsvæði og Traðarreit í Kópavogi, þ.m.t. bréfum, fundargerðum, samningum, og umfjöllunum nefnda og ráða sveitarfélagsins um framangreind svæði, frá árinu 2012 fram til þess dags.<br /> <br /> Kópavogsbær svaraði kæranda með erindi, dags. 11. nóvember 2020. Í erindinu var fjallað um skipulagsbreytingar sem gerðar hefðu verið á Hamraborgarsvæði og Traðarreit frá upphafi. Kom þar fram að fyrirhugað skipulag væri fyrsta heildarskipulag svæðisins. Kæranda var bent á tilteknar vefsíður, þ.m.t. vefgátt bæjarins, þar sem hægt væri að finna nánari upplýsingar um málið.<br /> <br /> Í kjölfar erindis úrskurðarnefndarinnar til Kópavogsbæjar, þar sem skorað var á sveitarfélagið að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda, áttu kærandi og Kópavogsbær frekari samskipti. Fram kom í erindi Kópavogsbæjar, dags. 10. desember 2020, að gögn um skipulag á umræddu svæði væri að finna á vefsíðu sem kæranda hefði verið bent á. Ef það væru ekki þau gögn sem hann leitaðist eftir þyrfti hann að skilgreina beiðni sína ítarlegar. Gögnin sem bent hefði verið á væru þau gögn sem til væru um skipulag á svæðinu frá upphafi.<br /> <br /> Í svari kæranda, dags. 11. desember 2020, gagnrýndi hann vefinn sem Kópavogsbær hafði bent honum á; hann væri takmarkað tól sem réði ekki við að finna öll þau gögn sem beðið væri um þar sem hann væri vefgátt en ekki skjalakerfi. Kópavogsbær svaraði kæranda hinn 21. desember 2020. Svarinu fylgdu þau gögn sem sveitarfélagið taldi að heyrðu undir gagnabeiðni kæranda og vörðuðu aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulag á miðbæjarsvæði Kópavogsbæjar. Gögnin væru jafnframt aðgengileg gegnum vefgátt bæjarins sem kæranda hefði verið bent á. Loks voru kæranda afhentar allar þær afgreiðslur sem málið varða fram til 21. desember 2020.<br /> <br /> Í erindum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. og 29. desember 2020, kom fram að kærandi teldi afhendingu Kópavogsbæjar vera ófullnægjandi. Engu væri svarað varðandi bréf, samninga, eða umfjöllun nefnda og ráða bæjarins. Aðeins ein fundargerð bæjarstjórnar sem varðaði framangreind skipulagssvæði hefði verið afhent, en á vefsíðu Kópavogsbæjar hefði kærandi hins vegar fundið 19 fundargerðir sem vörðuðu svæðin. Það sýndi að ekki hefði verið lögð nægjanleg vinna í að afgreiða beiðni kæranda. Þar að auki óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum sem hann virtist ekki hafa aðgang að gegnum vefsvæði bæjarins. Með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. janúar 2021, kom fram að kærandi teldi ljóst að ekki fengjust frekari svör frá Kópavogsbæ og því þyrfti að úrskurða í málinu.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Kópavogsbæ með bréfi, dags. 15. janúar 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Kópavogsbæjar, dags. 27. janúar 2021, kom fram að kærandi hefði þegar fengið aðgang að umbeðnum gögnum sem vörðuðu skipulagsvinnu á viðkomandi skipulagssvæði. Kærandi hefði fengið ítarlegan upplýsingapóst um hvaða skipulagsbreytingar hefðu verið gerðar á svæðinu. Þá hefði kærandi fengið afrit af skipulagsgögnum sem til meðferðar væru hjá skipulagsyfirvöldum Kópavogsbæjar en þau gögn væru jafnframt aðgengileg á heimasíðu bæjarins vegna lögbundinnar kynningar á skipulagi.<br /> <br /> Þá kom fram að Kópavogsbær myndi veita kæranda aðgang að þeim gögnum sem ekki hefðu þegar verið afhent, að því gefnu að þau væru ekki undanþegin aðgangi á grundvelli 6. til 10. gr. laga nr. 140/2012. Kærandi þyrfti einnig að afmarka beiðni sína með ítarlegri hætti. Honum hefði verið leiðbeint um það.<br /> <br /> Umsögn Kópavogsbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust 3. febrúar sama ár. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um hvort afgreiðsla Kópavogsbæjar á gagnabeiðni kæranda hafi verið fullnægjandi. Fyrir liggur að Kópavogsbær hefur afhent kæranda þau gögn sem sveitarfélagið telur að falli undir gagnabeiðni hans. Komið hefur fram að um sé að ræða öll þau gögn sem til séu um skipulagsvinnu á umræddu svæði frá upphafi.<br /> <br /> Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 140/2012 er gert ráð fyrir því að þegar umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar sé hægt að afgreiða gagnabeiðni með því að tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingar eru aðgengilegar. Í málinu liggur fyrir að Kópavogsbær hefur leiðbeint kæranda um það hvar þau gögn sem hann óskaði eftir sé að finna. Þá tók sveitarfélagið einnig sömu gögn saman fyrir kæranda og afhenti honum. Loks leiðbeindi sveitarfélagið kæranda um að ef hann teldi afhendinguna ófullnægjandi hefði hann kost á að afmarka beiðni sína nánar, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 140/2012.<br /> <br /> Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi sjálfur fundið fleiri gögn á umræddu vefsvæði en honum hafi verið afhent og hann telur falla undir beiðni sína. Í ljósi þess að kæranda hefur verið leiðbeint um það hvar hann geti nálgast umrædd gögn telur nefndin ekki tilefni til þess að fjalla nánar um þennan þátt í erindi kæranda. Það er þannig mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum frá sveitarfélaginu í skilningi upplýsingalaga. Úrskurðarvald nefndarinnar er samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna bundið við þau tilvik þegar synjað er um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Verður því að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 15. janúar 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1022/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

A fréttamaður, kærði synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum. Ráðuneytið tók fram að öll fyrirliggjandi gögn hefðu verið afhent að undanskildu minnisblaði, sem ekki hefði fallið undir gagnabeiðni kæranda auk þess sem það væri undanþegið upplýsingarétti almennings sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi að ekki væru forsendur til að rengja framangreinda staðhæfingu ráðuneytisins og vísaði kærunni frá.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1022/2021 í máli ÚNU 21040004. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 9. apríl 2021, kærði A, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 6. apríl 2021, óskaði kærandi eftir afriti af minnisblaði sóttvarnalæknis, auk þeirra minnisblaða í ráðuneytinu, greinargerða og eftir atvikum lögfræðilegu álita, sem heilbrigðisráðherra byggði ákvörðun sína um setningu reglugerðar um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli á (reglugerð nr. 355/2021, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID‑19.). Með tölvubréfi, dags. 7. apríl 2021, ítrekaði kærandi beiðni sína. <br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 7. apríl 2021, var kæranda afhentur hluti umbeðinna gagna en beiðninni að öðru leyti hafnað með vísan til þess að umrædd gögn hefðu verið lögð fram í ríkisstjórn og því undanþegin upplýsingarétti, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í kæru, dags. 8. apríl 2021, er framangreindri afstöðu ráðuneytisins mótmælt og tekið fram að það að gögn hafi verið lögð fram í ríkisstjórn geti ekki orðið til þess að undanþiggja þau upplýsingarétti eftir á enda væri þá ráðherra í lófa lagið að sniðganga lögin að vild með því einu að merkja þau gögn, sem þeir vilji síður að komi fyrir almenningssjónir sem aðgengileg fylgiskjöl á ríkisstjórnarfundi. Í kæru kemur einnig fram að eftir að ráðuneytið synjaði beiðni kæranda hafi ráðherra afhent velferðarnefnd Alþingis umrædd gögn „án trúnaðar“ og virðist hann því líta svo á að þau séu þar með opinber. Farið er fram á að kæran verði eftir sem áður afgreidd og úrskurðað um hana.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, var kæranda tilkynnt um móttöku kærunnar af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfarið barst svar kæranda, dags. sama dag, þar sem fram kom að ráðuneytið hefði, með bréfi, dags. 9. apríl 2021, ákveðið að endurskoða afstöðu sína til beiðninnar og sent öllum fjölmiðlum gögn varðandi aðdraganda þess að umrædd reglugerð nr. 355/2021 var sett þann 1. apríl 2021, gögnin sem unnin voru eftir að lögmæti hennar var dregið í efa sem og gögn sem lúta að þeirri reglugerð sem við tók. Kærandi vísaði til þess að formaður velferðarnefndar Alþingis hefði kvartað undan því að hafa ekki fengið öll gögn málsins. Bent er á að hvorki úrskurðarnefndin né Morgunblaðið hafi fengið skrá yfir öll gögn málsins heldur eingöngu þau gögn sem ráðuneytið afhenti. Þar á meðal séu nokkrir tölvupóstar sem beri það með sér að hafa verið sérvaldir. Það bendi til þess að fleiri póstar liggi fyrir óbirtir. Í bréfinu kemur fram að kærandi telji meðferð ráðuneytisins á gagnabeiðninni bera með sér að ráðherra hafi með henni leitast við að hafa áhrif á umræðuna. Þá er tekið fram að upplýsingalög séu til einskis ef ráðherra megi velja hvaða gögn sé þóknanlegt að birta og hver ekki. Mikilvægt sé að úrskurðarnefndin fjalli um þá aðferð sem ráðherra reyndi að beita í þessu tilviki, þ.e.a.s. að vísa til þess að öll gögn til grundvallar reglugerðinni hafi verið lögð fyrir ríkisstjórnarfund og þau því undanþegin upplýsingarétti, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í því sambandi er m.a. bent á að umrætt undanþáguákvæði 1. tölul. 6. gr. eigi ekki við um gögn sem tekin hafa verið saman fyrir aðra fundi en fundi ríkisstjórnar. Mikilvægt sé að úrskurðarnefndin úrskurði um þetta efni sem orðið geti til leiðbeiningar um verklagsreglur Stjórnarráðsins. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, var kæran kynnt heilbrigðisráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Jafnframt var óskað eftir þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 26. apríl 2021, kemur fram að ráðuneytið hafi, með bréfi, dags 7. apríl 2021, afhent hluta umbeðinna gagna en synjað að öðru leyti beiðni kæranda með vísan til þess að önnur gögn féllu undir 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Með bréfi, dags. 9. apríl 2021, hafi ráðuneytið upplýst kæranda um að það hefði endurskoðað almenna afstöðu sína til upplýsingabeiðni fjölmiðla um gögn tengd setningu reglugerðar nr. 355/2021 sem þá hafði verið felld úr gildi. Með tölvupóstinum hafi fylgt gögn sem vörðuðu setningu umræddrar reglugerðar til viðbótar fyrrnefndum tveimur minnisblöðum sóttvarnalæknis, dags. 13. mars og 22. mars 2021, sem áður höfðu verið afhent kæranda. Jafnframt voru afhent gögn sem vörðuðu setningu núgildandi reglugerðar nr. 375/2021. <br /> <br /> Í umsögninni eru talin upp þau gögn sem afhent voru kæranda og vörðuðu setningu reglugerðar nr. 355/2021. Um var að ræða tvö minnisblöð heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnar Íslands sem bæði eru dagsett 23. mars 2021. Tvö minnisblöð sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra annars vegar dags. 13. mars 2021 og hins vegar dags. 22. mars 2021 sem bæði varða tillögur að opinberum sóttvarnaaðgerðum, minnisblað um heimildir á landamærum frá Páli Þórhallssyni til forsætisráðherra, dags. 29. mars 2021, tölvupóstsamskipti tengd setningu reglugerðar nr. 375/2021 milli starfsmanna forsætisráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins og starfsmanna heilbrigðisráðuneytisins og tölvupóstsamskipti milli forsætisráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins.<br /> <br /> Í umsögn ráðuneytisins kom jafnframt fram að minnisblað, dags. 30. mars 2021, sem forsætisráðuneytið, ásamt heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, lögðu fyrir ríkisstjórn hafi ekki verið afhent með þeim gögnum sem send voru kæranda varðandi setningu reglugerðar nr. 375/2021 og ekki getið um það sérstaklega. Efni minnisblaðsins hafi ekki varðað beint setningu reglugerðarinnar heldur fjallað einkum um undirbúning að framkvæmd sóttvarnaráðstafana á landamærum við gildistöku hennar. Ráðuneytið tók í kjölfarið fram að umrætt minnisblað félli undir 1. tölul. 6. gr. þar sem það hefði verið tekið saman fyrir ríkisstjórn. Vilji kærandi óska eftir að fá umrætt minnisblað afhent telji ráðuneytið rétt að slíkri ósk verði beint að forsætisráðuneytinu. <br /> <br /> Loks er tekið fram að hinn 30. mars 2021 hafi forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra lagt fram minnisblað fyrir ríkisstjórn með yfirskriftinni „Staða og framkvæmd á landamærum“. Umrætt minnisblað hafi hins vegar ekki verið afhent þar sem það varðaði ekki beint setningu reglugerðarinnar heldur fjalli það einkum um undirbúning og framkvæmd sóttvarnaráðstafana á landamærum við gildistöku hennar. Þá var þeirri afstöðu lýst að umrætt minnisblað félli undir 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga enda tekið saman fyrir ríkisstjórn. Umrætt minnisblað var afhent úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 26. apríl 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar ráðuneytisins. Engar frekari athugasemdir bárust.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu heilbrigðisráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Eftir að kæra kæranda barst úrskurðarnefndinni endurskoðaði ráðuneytið fyrri afstöðu sína og afhenti kæranda umbeðin gögn. Ljóst er af athugasemdum kæranda að hann dregur í efa að öll fyrirliggjandi gögn sem falla undir beiðni hans hafi verið afhent. Þá er þess farið á leit við nefndina að hún fjalli almennt um meðferð heilbrigðisráðherra á beiðni kæranda þar sem slík umfjöllun geti orðið til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld. <br /> <br /> Í umsögn ráðuneytisins kemur fram að öll fyrirliggjandi gögn er varða setningu umræddrar reglugerðar nr. 355/2021 hafi verið afhent. Þó er tekið fram að kæranda hafi ekki verið veittur aðgangur að minnisblaði forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra til ríkisstjórnar Íslands, dags. 30. mars 2021. Í því sambandi er bent á að umrætt gagn hafi ekki fallið undir gagnabeiðni kæranda auk þess sem það sé undanþegið upplýsingarétti almennings, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér umrætt minnisblað og telur unnt að fallast á með heilbrigðisráðuneytinu að það falli ekki undir upplýsingabeiðni kæranda. Í því sambandi skal tekið fram að minnisblaðið ber það með sér að hafa verið tekið saman eftir samningu reglugerðar nr. 355/2021 sem staðfest var sama dag og tók gildi degi síðar. Ekki verður því séð að tekin hafi verið ákvörðun um að synja kæranda um aðgang að þessu minnisblaði sem kæranleg er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Eins og áður segir kemur fram í umsögn ráðuneytisins að öll fyrirliggjandi gögn sem varða setningu reglugerðar nr. 355/2021 hafi verið afhent. Í ljósi skýringa ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að engin frekari gögn séu fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu sem falla undir upplýsingabeiðni kæranda.<br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Eins og úrskurðarnefndin hefur tilgreint í fyrri úrskurðum sínum hefur hún almennt ekki forsendur til annars en að fallast á skýringar þeirra sem heyra undir I. kafla upplýsingalaga um hvort gögn og upplýsingar séu fyrirliggjandi eða ekki, sjá t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 918/2020, og nr. 1002/2021. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er því ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. <br /> <br /> Í ljósi þess að úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna er bundið við synjun á aðgangi að gögnum sætir ákvörðun stjórnvalds um að fallast á beiðni um aðgang að upplýsingum ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Það fellur því utan við úrskurðarvald nefndarinnar að fjalla almennt um málsmeðferð heilbrigðisráðuneytisins í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um að fallast á beiðni kæranda um aðgang að gögnum, dags. 9. apríl 2021. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> Í kæru kemur einnig fram að kærandi hafi ekki fengið afhenta skrá yfir öll gögn málsins heldur eingöngu þau gögn sem ráðuneytið afhenti. Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nær réttur til aðgangs að gögnum til dagbókarfærslna sem lúta að gögnum máls og lista yfir málsgögn. Ekki verður hins vegar ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi óskað eftir lista yfir gögn málsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því ekki fyrir synjun um beiðni um gögn sem kæranleg er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, að þessu leyti. Verður því að vísa frá þeim þætti í kærunni sem lýtur að skrá eða lista yfir málsgögn. Kæranda er þó bent á að honum er fær sú leið að óska eftir umræddum lista yfir málsgögn.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 9. apríl 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1021/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

Deilt var um synjun skattrannsóknarstjóra á beiðni A, fréttamanns, um aðgang að öllum ársreikningum erlendra félaga sem embættið hefði undir höndum og tengdust S ehf. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að umbeðin gögn lytu að rannsókn sakamáls í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að teknu tilliti til hlutverks skattrannsóknarstjóra samkvæmt lögum. Kæru var því vísað frá úrskurðarnefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1021/2021 í máli ÚNU 20120025. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi dags. 21. desember 2021 kærði A, fréttamaður á RÚV, synjun skattrannsóknarstjóra á beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Með bréfi, tölvupósti, dags. 16. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir afriti af öllum ársreikningum erlendra félaga sem skattrannsóknarstjóri hefði undir höndum og tengjast Samherja ehf. í gegnum eignarhald eða viðskipti beint eða óbeint. Í svari skattrannsóknarstjóra, dags. 23. nóvember 2020, kom fram að embættið teldi að beiðni kæranda félli utan gildissviðs upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. þar kæmi fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamála eða saksókn. Um aðgang að slíkum gögnum færi samkvæmt ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þá var vísað til þess að skattrannsóknarstjóri hefði með höndum rannsóknir samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum um aðra skatta og gjöld sem lögð væru á af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á. Þá var í svarinu vísað til ýmissa heimilda skattrannsóknarstjóra við rannsókn mála á grundvelli sakamálalaga. Umrædd gögn sem beiðnin laut að væru hluti af rannsókn sakamáls og þeirra aflað í þágu rannsóknar. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé framangreind ákvörðun skattrannsóknarstjóra um að afhenda ekki afrit af umbeðnum gögnum.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi dags. 22. desember 2020, var skattrannsóknarstjóra kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum. <br /> <br /> Í umsögn skattrannsóknarstjóra, dags. 8. janúar 2021, er málavöxtum lýst. Í umsögninni ítrekar skattrannsóknarstjóri þá afstöðu sem fram kom í svari embættisins til kæranda, dags. 23. nóvember 2020, að umbeðin gögn falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga þar sem þau séu hluti af rannsókn sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Skattrannsóknarstjóri hafi með höndum rannsóknir samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003. Í 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 komi fram að við rannsóknaraðgerðir skuli skattrannsóknarstjóri gæta ákvæða laga um meðferð sakamála eftir því sem við geti átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi. Það leiði af þessari tilvísun til ákvæða laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 að skattrannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins skuli vera á stigi lögreglurannsóknar, svo sem ítrekað hafi komið fram í úrskurðum yfirskattanefndar, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 92/2017. Markmið rannsókna skattrannsóknarstjóra sé að upplýsa mál til að leggja grunn að annars vegar endurákvörðun skatta og hins vegar refsimeðferð ef tilefni reynist til, sbr. ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Tilefni skattrannsóknar sé jafnan grunur um að skattskil hafi verið rangfærð með saknæmum hætti þannig að refsingu geti varðað. Þá er í umsögninni bent á að við rannsókn mála séu m.a. teknar skýrslur af aðilum í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008. Heimilt sé að bera ágreining um lögmæti rannsóknarathafna skattrannsóknarstjóra undir héraðsdóm á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, en í ákvæðinu segi að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu og ákæranda. Þá er vísað til þess að ýmis önnur ákvæði í lögum nr. 88/2008 eigi við um rannsókn skattrannsóknarstjóra, t.d. meðalhófsregla 3. mgr. 53. gr. laganna og önnur ákvæði laganna um afhendingu gagna til verjenda, sbr. 37. gr. laganna. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra sé því gætt að ákvæðum sakamálalaga og eru rannsóknirnar ígildi lögreglurannsóknar.<br /> <br /> Í umsögninni er einnig tekið fram að mál sem sæti rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sæti nánast öll refsimeðferð en í einstaka undantekningar tilvikum komi ekki til refsimeðferðar í samræmi við niðurstöðu rannsóknar. Ákvörðun um refsimeðferð sé tekin eftir að rannsókn máls er lokið hjá embættinu og tekin hefur verið saman lokaskýrsla um rannsóknina. Þá eru nefnd dæmi um hvernig refsimeðferð geti lokið, t.d. með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra, sektargerð hjá yfirskattanefnd eða refsimeðferð hjá dómstólum eftir sakamálarannsókn lögreglu, nú embætti héraðssaksóknara. Skattrannsóknarstjóri bendir einnig á að fésektir á grundvelli 109. og 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafi verið taldar til refsinga í skilningi refsiréttar.<br /> <br /> Skattrannsóknarstjóri telji samkvæmt þessu ljóst að skattrannsókn feli í sér rannsókn máls sem sakamáls og að beiðni um aðgang að gögnum í málum sem sæti rannsókn embættisins fari eftir ákvæðum laga nr. 88/2008. Þau gögn sem beiðni kæranda lúti að séu öll hluti af rannsókn sakamáls og þeirra hafi verið aflað í þágu rannsóknarinnar. <br /> <br /> Umsögn skattrannsóknarstjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. janúar 2021 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 13. febrúar 2021, kemur fram að kærandi telji túlkun skattrannsóknarstjóra á ákvæði 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga ranga enda fari embættið hvorki með lögregluvald né sinni það rannsóknum meiriháttar skattalagabrota sem sakamála. Í því sambandi er bent á að embættið sé bundið af stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í 7. mgr. 103. gr. þar sem vísað er til sakamálalaga felist ekki að rannsókn skattrannsóknarstjóra sé í eðli sínu sakamálarannsókn heldur sé rannsókn embættisins þvert á móti stjórnsýslurannsókn. Rannsókn skattrannsóknarstjóra sem slík sé ekki rannsókna sakamáls heldur sé með þeirri tilhögun að embættinu beri að gæta að ákvæði sakamálalaga tryggð ákveðin formfesta sem tryggi hagsmuni þeirra sem sæti rannsókn. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fari héraðssaksóknari með rannsókn alvarlegra brota gegn skattalögum. Auk þessi kveði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 88/2008 á um að hjá embætti héraðssaksóknara skuli vera sérstök deild skatta- og efnahagsbrota og skuli sá eða þeir saksóknarar sem þar starfi bera starfheiti sem kennt sé við málaflokkinn. Það sé því skýrt að sakamálarannsókn í meiriháttar málum, sem mál Samherja hljóti að teljast vera, sé ekki á hendi skattrannsóknarstjóra heldur héraðssaksóknara. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ársreikningum erlendra félaga sem tengjast Samherja ehf. og skattrannsóknarstjóri hefur undir höndum í tengslum við rannsókn á málefnum félagsins. Synjun skattrannsóknarstjóra er reist á því að umrædd gögn tengist rannsókn máls sem sakamáls og þau séu því undanskilin gildissviði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. <br /> <br /> Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum er tekið fram að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála. <br /> <br /> Með lögum nr. 29/2021, um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota (tvöföld refsing, málsmeðferð) sem tóku gildi 1. maí 2021, var embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins og verkefni þess flutt til sérstakrar einingar hjá embætti ríkisskattstjóra. Þar sem umrædd gagnabeiðni barst skattrannsóknarstjóra fyrir gildistöku laganna mun úrskurðarnefndin fjalla um kæruna á grundvelli þeirra laga sem giltu um starfsemi skattrannsóknarstjóra ríkisins áður en embættið var lagt niður og í gildi voru á þeim tíma er beiðni kæranda um upplýsingar var afgreidd.<br /> <br /> Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fór skattrannsóknarstjóri ríkisins með höndum rannsóknir samkvæmt þeim lögum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á voru lögð af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á. Í 2. til 7. mgr. greinarinnar var að finna frekari reglur um hlutverk embættisins. Þá sagði í 7. mgr. 103. gr. að við rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra ríkisins skyldi gætt ákvæða laga um meðferð sakamála eftir því sem við gæti átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra á rannsóknarstigi. Þá var í 1. til 4. mgr. 110. gr. laganna kveðið á um málsmeðferð sem viðhafa bar vegna ætlaðra brota samkvæmt 109. gr. þar sem mælt var fyrir um refsingar og önnur viðurlög fyrir brot á ákvæðum laganna. Ljóst er að samkvæmt þágildandi lagaumhverfi um starfsemi skattrannsókna ríkisins var honum m.a. falið að rannsaka sakamál vegna gruns um skattsvik eða önnur refsiverð brot á skattalögum í því skyni að leggja grunn að áframhaldandi refsimeðferð reynist tilefni til eftir því sem fyrir er mælt í 1. til 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003. <br /> <br /> Í gögnum málsins kemur fram að umræddra gagna hafi verið aflað í þágu rannsóknar skattrannsóknarstjóra á málefnum Samherja hf. sem sakamáls. Úrskurðarnefndin telur í ljósi framangreinds og skýringa skattrannsóknarstjóra hafið yfir vafa að umbeðin gögn lúti að rannsóknum sakamála í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til hlutverks embættis skattrannsóknarstjóra samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Því verður réttur til aðgangs að þeim ekki reistur á ákvæðum upplýsingalaga og ber því að vísa kæru vegna synjunar skattrannsóknarstjóra ríkisins frá nefndinni. <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A fréttamanns, vegna synjunar embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins á beiðni um aðgang að af öllum ársreikningum erlendra félaga sem skattrannsóknarstjóri hefði undir höndum og tengjast Samherja ehf., dags. 21. desember 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1020/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

A fréttamaður, kærði afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni hans um aðgang að gögnum um skráningu raunverulegra eigenda. Úrskurðarnefndin taldi ríkisskattstjóra skylt að verða við beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau væru varðveitt hjá embættinu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga og lagði fyrir embættið að afhenda umbeðin gögn á rafrænu formi. Þá felldi nefndin ákvörðun ríkisskattstjóra um að strika yfir upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu lögaðila úr gildi og vísaði til nýrrar meðferðar. Að öðru leyti var ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1020/2021 í máli ÚNU 20120026.<br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Þann 21. desember 2020, kærði A, fréttamaður RÚV, afgreiðslu ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2020, á beiðni hans frá 12. nóvember 2020 um gögn um skráningu raunverulegra eigenda.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 12. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum gögnum sem tengjast skráningu raunverulegra eigenda félaganna Samherja ehf., Samherja Holding ehf. og K&amp;B ehf. Í beiðninni kom fram að óskað væri eftir öllum gögnum sem staðfesti raunverulegt eignarhald félaganna og borist hafi ríkisskattstjóra á grundvelli f-liðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda. <br /> <br /> Ríkisskattstjóri afhenti kæranda umbeðin gögn með tölvubréfi, dags. 20. nóvember 2020. Þar kom fram að til þess að tryggja að þagnarskyldar upplýsingar yrðu afmáðar með fullnægjandi hætti hefðu gögnin verið prentuð út og þagnarskyldar upplýsingar verið afmáðar handvirkt. Því næst hefðu gögnin verið skönnuð yfir á pdf. form.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 23. nóvember 2020, fór kærandi í fyrsta lagi fram á að gögnin yrðu afhent á upprunalegu formi. Í öðru lagi kom fram að kærandi teldi sig eiga rétt á upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins hluthafa sem strikaðar höfðu verið út í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 935/2020. Í svari ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2020, kom fram að ríkisskattstjóri hefði afgreitt beiðni kæranda með þeim takmörkunum sem kveðið var á um í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 935/2020. Var það mat ríkisskattstjóra að nafnverð, er fram kom í fylgigögnum tilkynninga, yrðu afmáð í ljósi niðurstöðu úrskurðarins. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé annars vegar ákvörðun ríkisskattstjóra að afhenda ekki umbeðin gögn nema með tilteknum upplýsingum afmáðum. Í öðru lagi snýr kæran að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að afhenda umbeðin gögn ekki á upprunalegu, rafrænu formi. <br /> <h2> Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 22. desember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar.<br /> <br /> Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 14. janúar 2021, eru málavextir raktir. Í umsögninnier vísað til þess að í kæru sé því haldið fram að sambærilegar upplýsingar og þær sem afmáðar voru séu opinberar upplýsingar og því skjóti skökku við að strika út upplýsingarnar. Í því sambandi bendir ríkisskattstjóri á úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 935/2020 þar sem fram komi að embættinu sé skylt að strika út fjárhæðir sem fram komi í hlutafjármiðum einstaklinga. Ein þessara fjárhæða sé nafnverð hlutafjárins og því sé útstrikun ríkisskattstjóra í fullu samræmi við þær skyldur sem lagðar hafi verið á ríkisskattstjóra með úrskurðinum. <br /> <br /> Hvað varðar þann þátt kærunnar er snýr að afhendingarformi er í umsögninni vísað til 18. gr. upplýsingalaga og tekið fram að ákvæðið taki ekki á því þegar um sé að ræða afhendingu gagna sem bundin séu trúnaði og geymi upplýsingar sem beri að afmá. Um afhendingu slíkra gagna sé fjallað í 14. gr. laganna og veiti ákvæðið ákveðið svigrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til að tryggja öryggi afmáðra upplýsinga. <br /> <br /> Þá vísar ríkisskattstjóri til þess að með úrskurði í máli nr. 935/2020 hafi ríkisskattstjóra verið gert að afmá hluta af þeim upplýsingum sem óskað hafi verið eftir með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Þar sem um sé að ræða sömu upplýsingar, þ.e. nafnverð hlutafjár, beri embættinu að fara að niðurstöðu úrskurðarins og afmá umræddar upplýsingar. <br /> <br /> Hlutaskrárnar hafi orðið að færa á pappírsform í þeim tilgangi að afmá úr þeim með öruggum hætti þær upplýsingar sem ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að veita aðgang að. Ríkisskattstjóri hafi metið það svo að þessi aðferð við útstrikun viðkvæmra upplýsinga væri öruggust þar sem það væri tryggt að ekki væri hægt að afmá útstrikunina. Þá er vísað til þess að gögnin hafi hvorki verið í miklu magni né hafi þau haft að geyma mikinn texta. Öll önnur gögn sem afhent hafi verið hafi verið véllæsileg. Við mat á því hvaða aðferð beri að notast við hvað varðaði útstrikun upplýsinga hafi embættið m.a. farið eftir þeim verklagsreglum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi sett í kjölfar úrskurðar persónuverndar í máli 2014/1470. Þó er tekið fram að ríkisskattstjóri hafi ekki haft aðgang að umræddum verklagsreglum en vísað er til fréttar Ríkisútvarpsins frá 10. janúar 2016 varðandi nánara efni þeirra. Loks er tekið fram að á ríkisskattstjóra hvíli rík skylda til að tryggja öryggi þessara gagna og það sé því mat embættisins að það sé best gert með þeim hætti sem lýst er í umsögninni. Með vísan til þessa verði umrædd gögn því ekki afhent með öðrum hætti en þegar hafi verið gert.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 13. febrúar 2021, við umsögn ríkisskattstjóra er í fyrsta lagi vísað til rökstuðnings kæranda sem fylgdi beiðni hans um endurupptöku úrskurðar nr. 935/2020. Þar kom fram að upphæðir þær sem koma fram á hlutafjármiðum sýni hlutafjáreign hvers og eins aðila í tilteknu félagi. Þótt ýmsar fjárhagslegar upplýsingar um einstaklinga séu almennt taldar geta verið viðkvæmar, þar á meðal upplýsingar um launakjör, bankaviðskipti og skuldastöðu, hafi slíkt ekki verið talið gilda um hlutabréfaeign. Þvert á móti hafi sjónarmið um gagnsæi í viðskiptum verið talin vega það þungt að upplýsingar um hlutafjáreign eigi að vera aðgengilegar í opinberum gögnum. Fyrirtækjum sé skylt að skila árlega ársreikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra haldi utan um ársreikningaskrána, og ársreikningar séu aðgengilegir á vefsvæði embættisins án endurgjalds. Samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skuli fyrirtæki láta fylgja með ársreikningi skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa félagsins í stafrófsröð, ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Upplýsingar um hlutafjáreign hvers einasta hluthafa í tilteknu félagi séu þannig aðgengilegar öllum á vefsíðu fyrirtækjaskrár. Þá var bent á að þar sem umræddar upplýsingar séu nú þegar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði geti upphæðir á hlutafjármiðum einfaldlega ekki talist viðkvæmar upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Hvað varðar þann þátt kærunnar er snýr að afhendingarformi ríkisskattstjóra vísar kærandi til umsagnar hans, dags. 13. febrúar 2021, í tilefni af kæru hans í máli nr. ÚNU20120008 þar sem reyndi á sambærileg atriði. Í þeirri umsögn er áréttuð sú afstaða að afgreiðsla ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um gögn samræmist ekki 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga, m.a. eins og henni hafi verið beitt í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kærandi telji aðferð ríkisskattstjóra við að afmá umræddar upplýsingar gamaldags og vísar til þess að embættinu hefði verið fært að óska eftir ráðgjöf t.d. frá ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, tölvusérfræðingum eða sérfræðingum um gagnaöryggi. Kærandi vísar einnig til þess að þegar viðkvæmar upplýsingar séu afmáðar úr gögnum sé mikilvægt að eins lítið sé hróflað við þeim og mögulegt sé til að þau haldist sem næst upprunalegu formi. Þá telji kærandi nauðsynlegt að árétta að þótt umfang gagna sé takmarkað hafi úrskurður um efnið fordæmisgildi. Í því sambandi bendir kærandi á að hann hafi þegar farið fram á afhendingu og fengið frekari sambærileg gögn frá ríkisskattstjóra en ekki á upprunalegu formi.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er í fyrsta lagi deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins hluthafa sem afmáðar voru úr gögnum varðandi raunverulegt eignarhald félaganna Samherja ehf., Samherja Holding ehf. og K&amp;B ehf. Synjun ríkisskattstjóra er reist á því að samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamál í máli nr. 935/2020 sé embættinu skylt að afmá upplýsingar um fjárhæðir sem fram koma á hlutafjármiðum einstaklinga, þ. á m. nafnverð hlutafjárins. <br /> <br /> Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 935/2020 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri óheimilt að veita kæranda aðgang að upphæðum á hlutafjármiðum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Nánar tiltekið var það afstaða úrskurðarnefndarinnar að í þeim fælust upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 977/2021 frá 22. febrúar 2021 synjaði úrskurðarnefndin beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðarins. <br /> <br /> Ljóst er að upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu einstaklinga sem afmáðar voru úr þeim upplýsingum, sem kærandi fékk afhentar, eru hluti af þeim fjárhæðum sem fram koma á hlutafjármiðum. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ótvírætt að um sé að ræða upplýsingar sem óheimilt er að veita aðgang að með vísan til 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. m.a. framangreindan úrskurð úrskurðarnefndarin í máli nr. 935/2020. Með hliðsjón af framangreindu verður hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest að þessu leyti.<br /> <br /> Fyrir liggur að ríkisskattstjóri hefur einnig strikað yfir upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu lögaðila. Af þessu tilefni tekur nefndin fram að við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, er tekur til lögaðila, gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.<br /> <br /> Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Af gögnum málsins og umsögn ríkisskattstjóra verður ekki séð að lagt hafi verið mat á upplýsingar um einstaka lögaðila í samræmi við ákvæði 2. málsl. áður en strikað var yfir þær upplýsingar og beiðni kæranda þar með synjað. Af þeim sökum er óhjákvæmlegt að vísa þessum þætti málsins til nýrrar meðferðar hjá ríkisskattstjóra.<br /> <br /> 2.<br /> Í öðru lagi er deilt um hvort ríkisskattstjóra hafi við afhendingu umbeðinna gagna verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta þeirra á rafrænu formi, nánar tiltekið á því formi sem þau voru upprunalega vistuð á, með það að markmiði að tryggja öryggi gagnanna sem best. <br /> <br /> Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Samkvæmt seinni málslið 1. mgr. 20. gr. laganna gildir hið sama um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. <br /> <br /> Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga segir að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau séu varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn séu eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2020 segir eftirfarandi: <br /> <br /> „Ákvæði 1. mgr. 18. gr. byggist á því að veita beri aðgang að upplýsingum á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Af 2. mgr. 19. gr. leiðir síðan að sé beiðni afgreidd með vísan til þess að upplýsingar séu þegar aðgengilegar, þá skal í slíkri afgreiðslu tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti þær eru það. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír. Almennt ætti það að vera til hagræðis fyrir þann sem hefur beiðni til afgreiðslu að geta afhent upplýsingar á rafrænu formi, en sé um upplýsingar að ræða sem falla undir 14. gr. frumvarpsins og eru viðkvæmar á einhvern hátt, ber eðli máls samkvæmt að tryggja viðeigandi öryggi þeirra gagnvart óviðkomandi. Þá er tiltekið í ákvæðinu að eftir því sem fært er skuli viðkomandi heimilað að kynna sér gögn á starfsstöð viðkomandi. Ræðst það auðvitað af aðstæðum að hvað marki þessi leið á við.“<br /> <br /> Af framangreindu leiðir að ríkisskattstjóra ber að afhenda gögn á rafrænu formi sem varðveitt eru með þeim hætti ef þess er óskað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi afhent kæranda umbeðin gögn hefur hluti þeirra ekki verið afhentur á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 18. gr. svo sem kærandi fór fram á. Þau gögn sem um ræðir tengjast skráningu raunverulegra eigenda og munu almennt vera varðveitt með rafrænum hætti hjá ríkisskattstjóra, sbr. t.d. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, þar sem segir að málsmeðferð við skráningu upplýsinga um raunverulega eigendur skuli vera rafræn sé þess kostur. <br /> <br /> Af hálfu ríkisskattstjóra hefur því verið borið við að ekki sé unnt að tryggja nægjanlega öryggi þeirra upplýsinga í gögnunum sem undirorpnar eru 9. gr. upplýsingalaga með öðrum hætti en gert var við afgreiðslu á beiðni kæranda, þ.e. með því að prenta gögnin út og afmá handvirkt umræddar upplýsingar og loks skanna þau inn í tölvu áður en þau voru send kæranda. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að vissulega megi fallast á með ríkisskattstjóra að rík skylda hvíli á embættinu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinga sem leynt skulu fara t.d. á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar fær úrskurðarnefndin ekki séð að ríkisskattstjóra hafi verið ómögulegt grípa til slíkra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinganna en verða jafnframt við beiðni kæranda um afhendingu umræddra gagna á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í samræmi við skýr fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin horfir í því sambandi til þess að algengt er að stjórnvöld afhendi borgurunum gögn á rafrænu formi þar sem afmáðar eru viðkvæmar upplýsingar sem leynt eiga að fara. <br /> <br /> Þá virðist ríkisskattstjóri enn fremur reisa afstöðu sína á verklagsreglum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu setti starfsemi sinni í kjölfar úrskurðar persónuverndar sem upp var kveðinn árið 2015. Þrátt fyrir að efni verklagsreglnanna kunni að hafa almennt leiðsagnargildi við meðferð persónuupplýsinga áréttar úrskurðarnefndin að slíkar verklagsreglur eru ekki bindandi fyrir ríkisskattstjóra og getur efni þeirra þaðan af síður þokað ákvæðum upplýsingalaga varðandi afhendingu gagna.<br /> <br /> Með vísan til þess sem að ofan greinir fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki á að ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta af umbeðnum gögnum á því formi sem þau voru varðveitt á. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ríkisskattstjóra beri að afhenda kæranda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi. Þessi niðurstaða er í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 994/2021 frá 30. mars 2021 þar sem reyndi á sambærileg málsatvik.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2020, um að synja beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau eru varðveitt á er felld úr gildi. Ríkisskattstjóra ber að afhenda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að strika yfir upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu lögaðila er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar. Að öðru leyti er ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1019/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.

Deilt var um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni kæranda um afhendingu allra gagna í máli er varðaði umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Úrskurðarnefndin taldi kæranda sem umsækjanda um að hljóta skráningu á umræddan lista aðila stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga og átti því rétt til aðgangs að gögnum í málinu á grundvelli ákvæða IV. kafla stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum og var kæru af þeim sökum vísað frá nefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 14. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1019/2021 í máli ÚNU 21020012. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 1. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni hennar um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með erindi, dags. 17. apríl 2019, óskaði kærandi eftir skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana sem skipulagsráðgjafi. Beiðni kæranda var svarað með bréfi, dags. 27. febrúar 2020, þar sem fram kom að umsókn kæranda uppfyllti ekki skilyrði 2. tölul. 5. mgr. 7. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í bréfinu var kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari upplýsingum um sérhæfingu á sviði skipulagsmála. Að fengnum frekari upplýsingum yrði tekin afstaða til umsóknar kæranda um skráningu á listann. Af gögnum málsins er ljóst að töluverð samskipti fóru fram á milli kæranda og stofnunarinnar í tengslum við umsókn kæranda í kjölfarið. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 11. desember 2020, óskaði kærandi eftir afhendingu afrits allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir málsnr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varðaði umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Kærandi reisti beiðni sína á ákvæðum 16. – 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í bréfinu kom fram að beiðnin tæki til allra tölvupósta innan embættisins og tölvupóstsamskipta embættisins við þriðja aðila á tímabilinu 2019 til 2020 er vörðuðu málefni undir fyrrgreindu málsnúmeri, þar með talið þegar í hlut ættu nánar tilgreindir sex starfsmenn stofnunarinnar. <br /> <br /> Í kæru kemur m.a. fram að dregið sé í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Tekið er fram að takmarkaður aðgangur kæranda að upplýsingum hjá stofnuninni geri það að verkum að ekki sé með góðu móti hægt að glöggva sig á því hvaða meðferð mál kæranda hafi fengið hjá stofnuninni í því skyni að varpa ljósi á hvað raunverulega býr að baki þeirri afstöðu stofnunarinnar að synja kæranda um skráningu á umræddan lista. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, var kæran kynnt Skipulagsstofnun og frestur veittur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.<br /> <br /> Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 25. febrúar 2021, kom fram að stofnunin hefði tekið afstöðu til beiðni kæranda með bréfi, dags. 5. janúar 2021. Í tölvupóstinum hefðu verið talin upp þau gögn sem skráð væru á mál nr. 201901056 í málaskrá stofnunarinnar og vörðuðu erindi kæranda sem lytu ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 um afhendingu gagna. Síðan hefði verið tekið fram að þar sem öll erindi hefðu farið á milli Skipulagsstofnunar og kæranda hefði kærandi væntanlega öll gögn undir höndum og því óþarft að taka þau sérstaklega saman og senda kæranda. Samkvæmt þessu hefði ekki verið um eiginlega synjun á gagnabeiðni kæranda að ræða. Í þessu sambandi var minnt á 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga þess efnis að heimilt væri að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefndina. Þá sagði að í tölvupósti stofnunarinnar, dags. 18. janúar 2012, til kæranda hefði verið tekið fram að bréf og tölvupóstar, sem hefðu farið á milli stofnunarinnar og kæranda yrðu prentuð úr málaskrá og send kæranda kæmi fram ósk um slíkt frá kæranda. Slík ósk hefði ekki komið fram.<br /> <br /> Þá var ítrekað af hálfu stofnunarinnar að þau gögn sem skráð væru á umrætt mál nr. 201901056 og vörðuðu erindi kæranda væru þau gögn sem nefnd væru í tölvupósti stofnunarinnar frá 5. janúar 2021.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar Skipulagsstofnunar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 4. mars 2021. Í athugasemdum kæranda er dregið í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Í því sambandi er bent á að í umsögn stofnunarinnar vegna kærunnar komi fram að í svari stofnunarinnar til kæranda séu talin upp öll gögn sem varði erindi kæranda og „lúta ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 um afhendingu gagna“. Það sé mat kæranda að ummælin bendi til þess að tiltekin gögn og upplýsingar séu að mati stofnunarinnar ekki talin varða erindi kæranda og lúti ekki ákvæðum laganna.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin ritaði Skipulagsstofnun tölvupóst, dags. 27. apríl 2021, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort undir umrætt mál í málaskrá stofnunarinnar væru skráð önnur gögn sem ekki lytu ákvæðum upplýsingalaga og eftir atvikum hvaða laga. Þá var óskað eftir upplýsingum um hvort Skipulagsstofnun liti á ákvörðun um skráningu á lista Skipulagsstofnunar, samkvæmt 8. mgr. 7. gr. skipulagslaga sem stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. <br /> <br /> Í svari Skipulagsstofnunar, dags. 30. apríl 2021, kom fram að á hverju ári væri stofnað safnmál í málaskrá stofnunarinnar fyrir öll erindi sem bærust um skráningu á lista yfir skipulagsráðgjafa. Á umræddu málsnúmeri væri því fjöldi skjala sem ekki varðaði erindi kæranda en sérstök mappa væri útbúin utan um erindi hvers og eins umsækjanda. Í möppu kæranda, fyrir utan þau gögn sem nefndin hefði nú þegar fengið aðgang að og vikið væri að í tölvupósti stofnunarinnar til kæranda, væri að finna vinnugögn sem undanþegin væru upplýsingarétti, sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Hvað varðar síðari spurningu úrskurðarnefndarinnar kom fram að synjun erindis um skráningu á listann fæli í sér að viðkomandi einstaklingur gæti ekki verið í forsvari fyrir gerð skipulagsáætlana, heldur eingöngu sinnt afmörkuðum verkþáttum skipulagsgerðar eða unnið að skipulagsgerð á ábyrgð aðila sem uppfyllti hæfisskilyrði 5. mgr. 7. gr., sbr. 8. mgr. sömu greinar skipulagslaga. Að sama skapi þyrfti einstaklingur að uppfylla umrædd skilyrði til að geta sinnt starfi skipulagsfulltrúa sveitarfélaga.<br /> <br /> Í kjölfarið var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umræddum vinnugögnum sem vikið var að í svari stofnunarinnar, dags. 30. apríl 2021. Umbeðin gögn bárust úrskurðarnefndinni með tölvubréfi, dags. 3. maí 2021. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni kæranda um afhendingu allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir málsnr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varða umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana.<br /> <br /> Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að kærandi hafi þegar undir höndum þau gögn sem beiðnin lýtur að og því sé ekki um synjun á beiðni um upplýsingar að ræða sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Eins og að framan greinir lagði kærandi fram umsókn um að vera skráður á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Um slíkan lista er kveðið í skipulagslögum nr. 123/2010 en þar segir í 8. mgr. 7. gr. að auk skipulagsfulltrúa sé heimilt að fela öðrum þeim sem uppfylla sömu hæfisskilyrði og skipulagsfulltrúi gerð skipulagsáætlana séu þeir á lista Skipulagsstofnunar, sbr. 9. mgr. 45. gr. laganna. Í 2. málsl. 9. mgr. 45. gr. laganna segir að í skipulagsreglugerð skuli kveðið á um útgáfu og skráningar á lista Skipulagsstofnunar yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla skilyrði 5. mgr. 7. gr. til gerðar skipulagsáætlana. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 59/2014, sem færðu ákvæði 9. mgr. 45. gr. í núgildandi horf segir m.a. eftirfarandi<br /> <br /> „Er gerð tillaga um að heimilt verði að fela öðrum þeim sem uppfylla sömu hæfisskilyrði og skipulagsfulltrúar gerð skipulagsáætlana séu þeir á lista sem Skipulagsstofnun gefur út og kveðið er á um í ákvæði 9. mgr. 45. gr. laganna. Í b-lið 18. gr. frumvarps þessa er lögð til sú breyting á 9. mgr. 45. gr. að þar verði að finna heimild fyrir ráðherra til kveða á um útgáfu og skráningu á lista Skipulagsstofnunar yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla hæfisskilyrði 5. mgr. 7. gr. til gerðar skipulagsáætlana í skipulagsreglugerð. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var gerð krafa til þeirra sem falin er gerð skipulagsáætlana að uppfylla viss hæfisskilyrði, þau sömu og skipulagsfulltrúar þurfa að uppfylla. Sams konar ákvæði er að finna í núgildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Talin er þörf á að tryggja lagastoð fyrir framangreindu ákvæði skipulagsreglugerðar. Nauðsynlegt er talið að í skipulagslögum sé að finna ákvæði um að sömu hæfisskilyrði gildi fyrir skipulagsfulltrúa og aðra þá sem koma að gerð skipulagsáætlana til að tryggja fagmennsku í gerð skipulagsáætlana. Benda má á að ítarlegri kröfur eru gerðar um hæfi mannvirkjahönnuða en skipulagsráðgjafa þótt mikilvægi menntunar og reynslu sé ekki minna fyrir gerð skipulagsáætlana.“<br /> <br /> Eins og að framan greinir var við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort ákvörðun um hvort orðið yrði við umsókn um skráningu á lista yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla skilyrði 5. mgr. 7. gr. skipulagslaga til gerðar skipulagsáætlana teldist ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svari stofnunarinnar kom fram að synjun erindis um skráningu á listann fæli í sér að viðkomandi einstaklingur gæti ekki verið í forsvari fyrir gerð skipulagsáætlana, heldur gæti viðkomandi eingöngu sinnt afmörkuðum verkþáttum skipulagsgerðar eða unnið að skipulagsgerð á ábyrgð aðila sem uppfylli hæfisskilyrði 5. mgr. 7. gr., sbr. 8. mgr., sömu greinar skipulagslaga.<br /> <br /> Í ljósi þess lagagrundvallar sem ákvörðun Skipulagsstofnunar um skráningu byggist á svo og þeirrar afstöðu sem stofnunin hefur lýst til réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar verður að líta svo á að stofnuninni hafi verið rétt að líta svo á að ákvörðun um hvort orðið yrði við umsókn um slíka skráningu fæli í sér ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sem umsækjandi um að hljóta skráningu á umræddan lista er kærandi því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og nýtur því réttar til aðgangs að gögnum þess máls samkvæmt ákvæðum IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. <br /> <br /> Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir að ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi því utan gildissviðs upplýsingalaga og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, dags. 1. febrúar 2021, vegna afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni hennar um afhendingu allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir málsnr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varða umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br />

1018/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.

Kærðar voru tafir á afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni um gögn varðandi ráðningu í starf. Kærandi var meðal umsækjanda um starfið og átti því rétt til aðgangs að gögnum í málinu á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum og var kæru af þeim sökum vísað frá nefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 14. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1018/2021 í máli ÚNU 21050012. <br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með erindi, dags. 14. maí 2021, kærði A, lögmaður, f.h. B, tafir á afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með erindi, dags. 31. mars 2021, óskaði lögmaður kæranda eftir upplýsingum og gögnum í tengslum við ráðningu Kópavogsbæjar í starf deildarstjóra launadeildar og mannauðsstjóra Kópavogsbæjar. Kærandi ítrekaði beiðnina 6., 16. og 20. apríl 2021. Kópavogsbær svaraði beiðninni 20. apríl 2021 og upplýsti að verið væri að taka saman umbeðin gögn og þess væri að vænta að þeirri vinnu myndi ljúka í lok vikunnar. Umbeðin gögn höfðu hins vegar ekki borist þegar málið var kært.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 18. maí 2021, var kæran kynnt Kópavogsbæ. Í svari sveitarfélagsins, dags. 26. maí 2021, var upplýst um að beiðni kæranda um gögn tengdist ráðningu í tvö störf hjá sveitarfélaginu en kærandi var á meðal umsækjenda um störfin. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu eru kærðar þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða ráðningu í stöðu deildarstjóra launadeildar og mannauðsstjóra hjá Kópavogsbæ en kærandi var meðal umsækjenda um starfið. Ráðning í opinbert starf er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslu¬laga, sbr. athugasemdir við greinina í frumvarpi því sem varð að lögunum. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls um ráðninguna í skilningi stjórnsýslulaga. <br /> <br /> Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upp¬lýsinga¬réttur aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga. <br /> <br /> Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum sam-kvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum til¬vikum falla þannig utan gildissviðs upplýsingalaga og á því hin sérstaka heimild 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga til að vísa máli til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þegar beiðni hefur ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga ekki við. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðar¬nefnd um upp¬lýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Kæru A, f.h. B, dags. 14. maí 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1017/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.

Deilt var um afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni kæranda, A fréttamanns, um aðgang að samningum um bóluefni vegna Covid-19 og fundargerðum. Synjun landlæknis var reist á því að umrædd gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá embættinu. Úrskurðarnefndin taldi að ekki væru forsendur til að rengja framangreinda staðhæfingu embættisins. Ákvörðun embættis landlæknis, um að synja beiðni kæranda um aðgang að samningi um Moderna bóluefnið var hins vegar felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar þar sem fyrir lá að sóttvarnarlæknir hafði fengið samninginn sendan. Kærunni var vísað frá að öðru leyti.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 14. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1017/2021 í máli ÚNU 21030004. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 4. mars 2021, kærði A fréttamaður á RÚV afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni hans um upplýsingar. <br /> <br /> Með erindi, dags. 30. desember 2020, óskaði kærandi eftir að fá afrit af samskipum embættis landlæknis, þ. á m. sóttvarnalæknis, annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar sem tengjast bólusetningum við COVID-19 frá 1. nóvember 2020. Í beiðninni kom fram að óskað væri eftir bréfum og tölvuskeytum, minnisblöðum, skýrslum og öðrum gögnum sem kynnu að hafa farið á milli og tengjast kaupum og afhendingu á bóluefni, þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um bóluefnakaup, skipulagi bólusetningar, áætlunum um hvenær markmið bólusetningar gæti náðst o.s.frv. Auk þessa var óskað eftir gögnum þar sem kynni að vera fjallað um munnleg samskipti stofnananna sama efnis, t.d. fundargerðum eða minnisblöðum um símtöl. Kærandi ítrekaði beiðnina í nokkur skipti. Svar embættis landlæknis barst með tölvubréfi, dags. 4. febrúar 2021, ásamt þeim gögnum sem óskað var eftir. Í svarinu kom fram að önnur gögn sem kærandi fór fram á væru ekki fyrirliggjandi hjá embættinu.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að umbeðin gögn hafi verið afhent að mestu en kærð sé ákvörðun embættis landlæknis að afhenta ekki afrit af samningum við lyfjaframleiðendur og fundargerðum starfshóps um bóluefni. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 9. mars 2021, var kæran kynnt embætti landlæknis og veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn embættis landlæknis, dags. 29. mars 2021, kom fram að við frekari skoðun kærunnar og erindis RÚV liggi fyrir að málið varði samninga við lyfjaframleiðendur vegna bóluefna við COVID-19 og fundargerðir starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni við COVID-19. Þá sagði að umrædd gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá embætti landlæknis og því væri kæranda leiðbeint um að leita til heilbrigðisráðuneytisins varðandi beiðni um aðgang að framangreindum gögnum. Loks var beðist velvirðingar á því ef svar landlæknis til kæranda hefði ekki verið nægilega skýrt að þessu leyti. <br /> <br /> Í kjölfarið óskaði úrskurðarnefndin með tölvupósti, dags. 31. mars 2021, eftir afriti af svari embættisins við beiðni kæranda. Með tölvupósti, dags. 6. apríl 2021, barst úrskurðarnefndinni afrit af svarbréfi embættisins til kæranda þar sem gerð var grein fyrir því að umrædd gögn, þ.e. samningar við lyfjaframleiðendur vegna bóluefna við COVID-19 annars vegar og fundargerðir starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni væru ekki fyrirliggjandi hjá embættinu. Var kæranda jafnframt leiðbeint um að leita til heilbrigðisráðuneytisins með beiðni um aðgang að umræddum gögnum.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 6. apríl 2021, var óskað eftir afstöðu kæranda til svars landlæknis. Í svari kæranda, dags. 6. apríl 2021, er m.a. bent á að í þeim tölvupóstsamskiptum sem kærandi fékk afhent kæmi fram að sóttvarnalæknir hefði með tölvupósti, dags. 3. janúar 2021, til ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins, óskað eftir afriti af samningi um Moderna bóluefnið. Ekki yrði séð af þeim tölvupóstsamskiptum sem kæranda voru afhent hvort samningurinn hefði verið sendur sóttvarnalækni. <br /> <br /> Í ljósi framangreinds ritaði úrskurðarnefndin embætti landlæknis tölvubréf, dags. 20. maí 2021, þar sem þess var óskað að embættið gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því hvort samningurinn vegna Moderna bóluefnisins hefði verið sendur sóttvarnalækni í kjölfar beiðni hans þar að lútandi sem vitnað er til í umræddum tölvupóstsamskiptum. Í svari embættis landlæknis, dags. 26. maí 2021, kemur fram að sóttvarnalæknir hafi fengið samninginn sendan til kynningar frá heilbrigðisráðuneytinu. Samninginn sé hins vegar hvorki að finna í skjalasafni né málaskrá embættisins. Það sé því ekki á forræði sóttvarnalæknis að svara beiðni um aðgang að samningnum sem ráðuneytið ber ábyrgð á og hafi í sínum vörslum. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni kæranda um aðgang að samningum um bóluefni vegna Covid-19 og fundargerðum starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni. Synjun embættis landlæknis er reist á því að umrædd gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu. <br /> <br /> Í umsögn embættis landlæknis kemur fram að kæranda hafi verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem liggi fyrir hjá embættinu. Önnur gögn sem falli undir beiðnina, þ.e. samningar um bóluefni vegna Covid-19 og fundargerðir starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um bóluefni séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu. Eins og að framan greinir upplýsti embætti landlæknis úrskurðarnefndina við meðferð málsins um að sóttvarnalæknir hefði fengið samninginn vegna Moderna bóluefnisins sendan frá heilbrigðisráðuneytinu til kynningar. Samninginn væri hins vegar hvorki að finna í skjalasafni né málskrá embættisins. <br /> <br /> Af framangreindu verður ráðið að embætti landlæknis líti svo á að umræddur samningur hafi ekki talist fyrirliggjandi hjá embættinu þar sem hann hafi borist sóttvarnalækni til kynningar en ekki skráður í málaskrá embættisins. Umræddur samningur sé á forræði heilbrigðisráðuneytisins og því ekki sóttvarnalæknis að svara beiðni um aðgang að samningnum. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda. Fyrir liggur að umræddur samningur barst sóttvarnalækni í tengslum við lögbundið hlutverk hans og verður af þeim sökum að líta svo á að hann hafi talist fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga eftir að hann barst burtséð frá því hvort samningurinn var formlega skráður í málaskrá embættisins. <br /> <br /> Afstaða embættis landlæknis virðist öðrum þræði reist á því að umræddur samningur sé á forræði heilbrigðisráðuneytisins en ekki sóttvarnalæknis og því ekki hans að taka afstöðu til beiðni um afhendingu samningsins. Af því tilefni skal tekið fram að í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga er fjallað um það hvert beiðni um upplýsingar skuli beint. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar farið er fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skuli beiðni beint til þess sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skuli beiðni beint til þess aðila sem hefur gögnin í vörslu sinni. Af framangreindu leiðir að þegar fleiri en eitt stjórnvald hefur tiltekin gögn undir höndum, sem ekki tengjast töku stjórnvaldsákvörðunar, líkt og háttar til í þessu tilviki, getur borgarinn almennt valið til hvaða stjórnvalds hann leitar með gagnabeiðni. Embætti landlæknis getur þannig ekki komið sér hjá því að taka ákvörðun um afhendingu gagna með vísan til þess að umrætt gagn sé í fórum annars stjórnvalds eða á forræði þess.<br /> <br /> Í ljósi þess sem að framan er rakið verður hvorki ráðið af ákvörðun embættis landlæknis né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á efni samningsins í samræmi við ákvæði upplýsingalaga og hvort rétt væri að takmarka aðgang að samningnum á grundvelli undanþáguákvæða laganna. <br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að embætti landlæknis hafi tekið rökstudda afstöðu til gagnabeiðni kæranda að þessu leyti, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir embætti landlæknis að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <br /> Hvað önnur gögn snertir sem kunna að falla undir beiðni kæranda telur úrskurðarnefndin í ljósi skýringa embættis landlæknis að ekki séu forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umrædd gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu að undanskildum samningi um Moderna bóluefnið sem fjallað er um hér að framan.<br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.<br /> <br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 4. febrúar 2021, um að synja beiðni kæranda, A fréttamanns á RÚV um aðgang að samningi um Moderna bóluefnið er felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar. Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br />

1016/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

Deilt var um afgreiðslu kærunefndar útlendingamála á beiðni kæranda um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar í málum er varða flóttabörn. Kærunefndin taldi ljóst að beiðni kæranda hafi verið reist á 33. gr. upplýsingalaga og að samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laganna sæti slíkar ákvarðanir ekki endurskoðunar úrskurðarnefndarinnar um upplýsingamál og því bæri að vísa kærunni frá. Úrskurðarnefndin taldi ljóst að stjórnvaldi sé almennt ekki heimilt að synja beiðni um upplýsingar eingöngu á grundvelli 33. gr. upplýsingalaga án þess að taka fyrst afstöðu til beiðninnar á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna nema fyrir liggi með skýrum hætti að þær upplýsingar sem farið er fram á séu undirorpnar takmörkunum samkvæmt upplýsingalögum. Þar sem slíkt mat hafði ekki farið fram skorti að mati nefndarinnar á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda. Ákvörðun kærunefndar útlendingamála var því felld úr gildi og lagt fyrir kærunefndina að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1016/2021 í máli ÚNU 21020021. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 16. febrúar 2021, kærði A synjun kærunefndar útlendingamála á beiðni hennar um gögn. <br /> <br /> Með erindi, dags. 21. janúar 2021, óskaði kærandi eftir að fá afrit af öllum úrskurðum kærunefndarinnar er vörðuðu flóttabörn hvort sem þau væru fylgdarlaus eða ekki þar sem úrskurðir kærunefndarinnar væru ekki birtir á vef nefndarinnar. Í beiðninni kom fram að kærandi hefði nýlega hafið vinnu við ritun meistararitgerðar í lögfræði á sviði flóttamannaréttar og tekið fram að ekki yrðu birtar persónugreinanlegar upplýsingar. Kærunefnd útlendingamála synjaði beiðni kæranda með tölvupósti, dags. 22. janúar 2021, og tók fram að kærunefndin hefði tekið þá ákvörðun að synja slíkum beiðnum um aðgang að gögnum. Þá var í svarinu vísað til þess að úrskurðir nefndarinnar væru í langflestum tilvikum birtir á vefnum. <br /> <br /> Í kæru er vísað til þess að í flestum ef ekki öllum úrskurðum sem birtir eru á vefsvæði kærunefndarinnar séu persónuupplýsingar afmáðar, þannig að ekki sé unnt að ráða um hvern er fjallað, því ætti ekki að vera mikið mál fyrir kærunefndina að afmá slíkar upplýsingar sem er að finna í óbirtum úrskurðum. Þá er vísað til þess að í 7. mgr. 6. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 komi fram að allir úrskurði kærunefndar skuli birtir á þann hátt að ekki sé um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða. Enn fremur veiti kærunefndin engan frekari rökstuðning fyrir synjuninni. Loks er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að kærandi fái aðgang að umræddum úrskurðum svo að sem réttust niðurstaða fáist í rannsókn kæranda. Í því sambandi er vísað til 33. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fjallað er um heimildir stjórnvalda til að veita aðgang að gögnum sem eru undanþegin upplýsingarétti í rannsóknarskyni.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, var kæran kynnt kærunefnd útlendingamála og veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. <br /> <br /> Umsögn kærunefndar barst með bréfi, dags. 9. mars 2021. Í umsögninni kemur fram að kærunefndin telji ljóst af erindi kæranda til nefndarinnar og kæru til úrskurðarnefndarinnar að um sé að ræða beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli 33. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í svari kærunefndarinnar til kæranda hafi henni verið leiðbeint um að úrskurðir kærunefndarinnar væru birtir á netinu. Þá er vísað til þess að kærandi hefði ekki lagt fram frekari beiðnir um gögn eða að öðru leyti gefið til kynna að tilvísun til úrskurða á netinu hefði verið ófullnægjandi. Loks segir að ágreiningur um hvort stofnun nýti sér heimild til að veita aðgang að gögnum á grundvelli 33. gr. upplýsingalaga sæti ekki endurskoðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 2. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Af þeim sökum beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál enda heyri ágreiningsefnið ekki undir valdsvið hennar.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 9. mars 2021, var kæranda sent afrit af umsögn kærunefndar útlendingamála og veittur kostur á því að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu kærunefndar útlendingamála, dags. 21. janúar 2021, á beiðni kæranda um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar í málum er varða flóttabörn.<br /> <br /> 2.<br /> Í umsögn kærunefndarinnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að kærunefndin telji ljóst að beiðni kæranda hafi verið reist á 33. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað sé um heimild stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum sem undanþegin eru upplýsingarétti skv. II. og III. kafla, vegna rannsókna eða sambærilegrar starfsemi enda megi ætla að hægt sé að verða við umsókn án þess að skerða þá almanna- og einkahagsmuni sem ákvæðum kaflanna er ætlað að vernda. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. upplýsingalaga sæti slíkar ákvarðanir ekki endurskoðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál og því beri að vísa kærunni frá.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 20. gr. upplýsingalaga sætir ákvörðun stjórnvalda samkvæmt 33. gr. upplýsingalaga ekki endurskoðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þannig fellur það utan við valdssvið úrskurðarnefndarinnar að fjalla um ákvörðun kærunefndarinnar um aðgang að gögnum samkvæmt 33. gr. upplýsingalaga. Hvað sem því líður fellur það ótvírætt undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess hvort kærunefndin hafi lagt beiðni kæranda um aðgang að gögnum í réttan farveg og jafnframt hvort ákvörðun kærunefndarinnar hafi verið reist á réttum lagagrundvelli. Í því sambandi bendir úrskurðarnefndin á að ákvæði 2. mgr. 20. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá þeirri almennu kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Slíkar undanþágur frá meginreglu ber að skýra þröngt enda meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. <br /> <br /> Í upphaflegri beiðni kæranda til kærunefndar útlendingamála kemur fram að óskað sé aðgangs að öllum úrskurðum kærunefndarinnar sem varði málefni flóttabarna og vísað til þess að ekki séu allir úrskurðir birtir á vef kærunefndarinnar. Í beiðninni er ekki sérstaklega vísað til lagaákvæða en tekið fram að öflun gagnanna tengist ritun meistararitgerðar kæranda. Synjun kærunefndar útlendingamála á beiðni kæranda var eingöngu reist á þeirri forsendu að almennt væri beiðnum af þessum toga synjað en úrskurðarnefndin leggur þann skilningi í framangreint að með því sé vísað til beiðna á grundvelli 33. gr. upplýsingalaga. Að öðru leyti verður ekki séð að tekin hafi verið afstaða til beiðni kæranda um umræddar upplýsingar á grundvelli annarra ákvæða í upplýsingalögum. <br /> <br /> Meginregluna um upplýsingarétt almennings er að finna í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þar er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Í 33. gr. upplýsingalaga er hins vegar mælt fyrir um sérstaka heimild stjórnvalda til að verða við beiðnum um upplýsingar vegna rannsókna eða sambærilegrar starfsemi sem annars myndu lúta leynd samkvæmt ákvæðum II. og III. kafla laganna. Í ákvæðinu er jafnframt fjallað um nánari skilyrði fyrir veitingu leyfis samkvæmt ákvæðinu og þá málsmeðferð sem stjórnvaldi ber að viðhafa.<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir m.a. eftirfarandi:<br /> <br /> „Ákvæði kaflans fela í sér undantekningarákvæði frá bannreglum II. og III. kafla sem heimilt er að beita ef hægt er að veita aðgang að skjölum án þess að raska þeim hagsmunum sem ákvæðum fyrrnefndra kafla er ætlað að vernda. Í reynd má líta á þessa heimild sem ákveðna útfærslu reglunnar um aukinn aðgang að gögnum, en hún gengur þó lengra að því leyti að samkvæmt henni er hægt að veita aðgang að gögnum sem háð eru þagnarskyldu, en þá að því tilskildu að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Það mundi stjórnvald eftir atvikum gera með því að setja skilyrði um notkun þeirra. Gera má ráð fyrir að heimildin nýtist fyrst og fremst við fræðirannsóknir.“<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu fela ákvæði 33. gr. upplýsingalaga í reynd í sér nánari útfærslu reglunnar um aukinn aðgang að gögnum og kemur þannig til viðbótar almennum ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 um rétt til aðgangs að gögnum. Úrskurðarnefndin telur ljóst að almennt komi ekki til þess að taka þurfi afstöðu til aðgangs samkvæmt 33. gr. upplýsingalaga nema fyrir liggi að einhverjar þær takmarkanir sem mælt er fyrir um í II. og III. kafla upplýsingalaga eigi við. Af þeim sökum telur úrskurðarnefndin að stjórnvaldi sé almennt ekki fær sú leið að synja beiðni um upplýsingar eingöngu á grundvelli 33. gr. upplýsingalaga án þess að taka fyrst afstöðu til beiðninnar á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nema fyrir liggi með skýrum hætti að þær upplýsingar sem farið er fram á séu undirorpnar takmörkunum samkvæmt upplýsingalögum. Á það við jafnvel þótt ráða megi af beiðninni að hún sé sett fram í tengslum við fyrirhuguð fræðaskrif eða í rannsóknarskyni, enda ræður almennt ekki úrslitum við afgreiðslu upplýsingabeiðna samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, í hvaða tilgangi hún er sett fram. Þá getur sú almenna afstaða kærunefndar útlendingamála að verða aldrei við beiðnum á grundvelli 33. gr. upplýsingalaga ekki orðið til þess að beiðnir um aðgang að gögnum í rannsóknarskyni sé í öllum tilvikum synjað og hljóti ekki þá meðferð sem upplýsingalög áskilja. Að öðrum kosti gæti það, svo sem í tilfelli kæranda, orðið til þess að þrengja upplýsingarétt kæranda ef viðkomandi styddi beiðni sína við 33. gr. upplýsingalaga. Slík niðurstaða yrði án vafa í andstöðu við markmið ákvæðisins.<br /> <br /> Með vísan til þess sem hér að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kærunefndinni hafi borið að taka rökstudda afstöðu til beiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012.<br /> <br /> 3.<br /> Eins og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1012/2021 verður að telja líklegt að úrskurðir kærunefndarinnar hafi flestir að geyma margvíslegar upplýsingar um einkahagi einstaklinga, t.d. um heilsufar, sem falla undir 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum er tekið fram að það sé engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt ákvæðinu, þar á meðal upplýsingar um heilsuhagi. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er hins vegar ekki unnt að útiloka fyrir fram að unnt sé að afhenda kæranda úrskurði kærunefndarinnar eftir atvikum með því að afmá upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem falla undir 1. málsl. 9. gr. Bendir nefndin í þessu sambandi á að ef þær takmarkanir sem fram koma í 9. gr. laganna eiga aðeins við um hluta skjals ber að veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. <br /> Af framangreindu er ljóst að við meðferð beiðni kæranda um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar bar kærunefndinni að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun á grundvelli upplýsingalaga. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna, þ.m.t. 9. gr. Það var ekki gert heldur látið duga að vísa kæranda á vefslóð þar sem úrskurðir nefndarinnar eru birtir og vísa til framangreindra verklagsreglna.<br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir kærunefnd útlendingamála að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun kærunefndar útlendingamála, dags. 16. febrúar 2021, um að synja beiðni kæranda um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar í málum er varða flóttabörn er felld úr gildi og lagt fyrir kærunefndina að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1015/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

A fréttamaður, kærði synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum sem tengdust samskiptum ráðuneytisins og ríkisskattstjóra varðandi rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um raunverulegt eignarhald. Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfylltu gögnin ekki skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugögn, sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti rétt til aðgangs að gögnunum enda fengi nefndin ekki séð að aðrar takmarkanir upplýsingalaga ættu við um gögnin. Lagt var fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að tölvupóstssamskiptum ráðuneytisins við ríkisskattstjóra, dags. 6. nóvember til 10. nóvember 2020.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1015/2021 í máli ÚNU 21010018. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með tölvupósti, dags. 21. janúar 2021, kærði A, fréttamaður á RÚV, synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Með, tölvupósti, dags. 8. desember 2020, óskaði kærandi eftir afriti af öllum gögnum sem vörpuðu ljósi á samskipti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ríkisskattstjóra í tengslum við aðgang almennings að upplýsingum um skráningu raunverulegra eigenda fyrirtækja. Í erindinu kom fram að óskað væri eftir öllum gögnum sem orðið hefðu til frá og með 21. maí 2020. Þar með talin samskipti sem tengdust beint eða óbeint úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 935/2020, svo og hverjum þeim gögnum sem tengdust beint eða óbeint efni fyrirspurnar fréttastofu RÚV sem fjallað var um í úrskurðinum. Jafnframt var óskað eftir öllum gögnum sem kynnu að hafa orðið til í tengslum við áðurnefnd samskipti og tengdust aðgangi almennings að upplýsingum um skráningu raunverulegra eigenda.<br /> <br /> Í svari ráðuneytisins, dags. 22. desember 2020, kom fram að einu samskipti ráðuneytisins við ríkisskattstjóra sem lytu að því sem fyrirspurnin sneri að kæmu fram í tveimur tölvupóstum. Tölvupóstarnir væru dagsettir eftir að niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál lá fyrir og fjölluðu um að fulltrúar ráðuneytisins og ríkisskattstjóra hefðu hist á fundi til að ræða úrskurðinn og hugsanleg áhrif hans. Þeir fjölluðu efnislega um tilhögun fundarhalda. Ráðuneytið liti svo á að um væri að ræða gögn sem almennt féllu undir 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, þ.e. væru vinnugögn sem undanþegin væru upplýsingarétti almennings. Auk þess væri ekki um að ræða gögn sem lytu að afgreiðslu tiltekins máls. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þess efnis að afhenda ekki afrit af samskiptum ráðuneytisins við embætti ríkisskattstjóra vegna úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 935/2020. Í kærunni er einnig bent á að ekki verði séð að ráðuneytið hafi tekið afstöðu til aukins aðgangs, eins og kveðið sé á um í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Ekki hafi heldur verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum. <br /> <br /> Í umsögn ráðuneytisins, dags. 21. apríl 2021, er málavöxtum lýst. Í umsögninni kemur fram að ráðuneytið líti svo á að tölvupóstar þeir sem um ræði séu vinnugögn í skilningi 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Í umsögninni er ákvæði 8. gr. upplýsingalaga rakið og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum þar sem fram komi að til þess að gagn geti talist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Ráðuneytið telji ljóst að skilyrði þess að gagn teljist vinnugang séu öll uppfyllt. Í því sambandi er tekið fram að tölvupóstsamskiptin séu undirbúningsgögn, þ.e. þeim sé ætlað að upplýsa um ákveðna stöðu sem er uppi og koma af stað skoðun á því hvort bregðast þurfi við þeirri stöðu. Þá hafi gögnin ekki að geyma ákvörðun í tilteknu máli. Hvað varðar skilyrði um að skjal sé útbúið eða ritað af starfsmanni stjórnvaldsins sjálfs og megi ekki hafa verið afhent öðrum þá sé um að ræða tölvupóstsamskipti á milli starfsmanna ráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Ráðuneytið telji að þrátt fyrir að hér sé um að ræða tölvupósta sem útbúnir séu af sitthvoru stjórnvaldinu og farið hafi á milli þeirra þá sé um að ræða gögn sem séu þess eðlis að eðlilegt sé að hafna aðgangi að þeim, sbr. umfjöllun um ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga í athugasemdum með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum. <br /> <br /> Umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 28. apríl 2021 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem tengjast samskiptum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ríkisskattstjóra varðandi rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um raunverulegt eignarhald. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að um sé að ræða tvo tölvupósta sem falli undir gagnabeiðni kæranda. Synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er byggð á því að tölvupóstsamskiptin teljist vinnugögn í skilningi upplýsingalaga.<br /> <br /> Í 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 8. gr. eru vinnugögn skilgreind sem þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar samkvæmt I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að af orðalagi 1. mgr. leiði að til að skjal teljist vinnugagn þurfi almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum.<br /> <br /> Séu gögn afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. teljast einnig til vinnugagna gögn sem berast milli aðila sem falla undir gildissvið laganna skv. I. kafla þegar einn sinnir ritarastörfum eða sambærilegum störfum fyrir annan, enda fullnægi þau að öðru leyti skilyrðum þeim sem fram koma í 1. mgr. 8. gr. Í athugasemdum við töluliðinn í frumvarpi því sem varð að lögunum kemur það eitt fram að raunhæft dæmi um tilvik sem falli undir þessa reglu sé þegar starfsmaður ráðuneytis sinnir ritarastörfum fyrir sjálfstæða úrskurðarnefnd.<br /> <br /> Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið afhenti úrskurðarnefndinni tölvupóstssamskipti ráðuneytisins við ríkisskattstjóra sem dagsett eru 6. til 10. nóvember 2020. Það er mat nefndarinnar að gögnin uppfylli ekki skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugögn. Stafar það fyrst og fremst af því að gögnin uppfylla ekki það skilyrði að hafa ekki verið afhent öðrum enda um að ræða samskipti tveggja stjórnvalda. Það er því niðurstaða nefndarinnar að kærandi eigi rétt til aðgangs að tölvupóstssamskiptunum, enda fær nefndin ekki séð að aðrar takmarkanir upplýsingalaga eigi við um gögnin.<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að tölvupóstssamskiptum ráðuneytisins við ríkisskattstjóra, dags. 6. nóvember til 10. nóvember 2020.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1014/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

Deilt var um afgreiðslu Dalvíkurbyggðar á beiðni kærenda um aðgang að útgefnu byggingarleyfi og mæliblaði vegna hæðakvóta tveggja lóða. Að mati úrskurðarnefndarinnar skorti að tekin hefði verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kærenda á grundvelli upplýsingalaga og beiðnin því ekki hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða. Ákvörðunin var því felld úr gildi og lagt fyrir Dalvíkurbyggð að taka málið til nýrrar meðferðar en kærunni vísað frá að öðru leyti.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1014/2021 í máli ÚNU 21010010.<br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 12. janúar 2021, kærðu A og B afgreiðslu Dalvíkurbyggðar á beiðni þeirra um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 25. nóvember 2020, óskuðu kærendur eftir útgefnu graftrar/byggingarleyfi vegna Hringtúns 17 og 19. Sveitarfélagið svaraði erindi kærenda með tölvupósti, dags. sama dag, þar sem fram kom að þar sem kærendur teldust ekki aðilar að umræddu máli bæri þeim að óska eftir upplýsingunum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 og þeim leiðbeint um að senda inn beiðni um upplýsingarnar með því að fylla út eyðublað á vefsíðu sveitarfélagsins. <br /> <br /> Kærendur ítrekuðu framangreinda beiðni sína með tölvupósti, dags. 14. desember 2020, og vísuðu til þess að þeir teldu sig aðila málsins samkvæmt nágranna/eignarétti. Því óskuðu þau eftir aðgangi að byggingarleyfi og upplýsingum um útgáfudag þess auk upplýsinga um hvenær byggingarleyfið hafi verið sent til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá var einnig óskað eftir mæliblaði sem unnið væri eftir í Hóla- og Túnahverfi. Í svari sveitarfélagsins, dags. 11. janúar 2021, var kærendum synjað um aðgang að umbeðnum upplýsingum. Í svarinu kom fram að ekki væri unnt að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í kæru kemur fram byggingarleyfi sé opinbert gagn sem nauðsynlegt sé fyrir kærendur að kynna sér áður en ákvörðun verður tekin um hvort lögð verði fram kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitingarinnar. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Dalvíkurbyggð með bréfi, dags. 25. janúar 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Umsögn sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 15. febrúar 2021. Í umsögninni kom fram að byggingarleyfi hefði enn ekki verið gefið út vegna umræddra lóða. Þegar af þeirri ástæðu teldi sveitarfélagið kæruna ekki tæka til efnismeðferðar af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hvað sem því liði teldi Dalvíkurbyggð rétt að fjalla um málið út frá þeim sjónarmiðum sem væru undirliggjandi. Þá var tekið fram að í svari sveitarfélagsins til kærenda hefði mátt koma fram með skýrari hætti að leyfið hefði ekki verið gefið út en það hefði væntanlega verið til þess fallið að skýra málið nánar. <br /> <br /> Í umsögninni eru raktir málavextir í tengslum við meðferð sveitarfélagsins á máli sem tengist fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðum nr. 17 og 19 við Hringtún á Dalvík. Þar er áréttað að upplýsingar þær sem beiðni kærenda lúti að séu því marki brenndar að vera ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Þannig hafi engum teikningum verið skilað inn, enda ekkert byggingarleyfi verið gefið út. Kærendur bendi á í kæru til úrskurðarnefndarinnar að framkvæmdir séu þegar hafnar á umræddum lóðum. Tekið er fram að það sé ekki rétt enda þær framkvæmdir einungis á grundvelli greinar 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í nefndri grein sé sveitarfélagi veitt heimild til þess að gefa framkvæmdaraðila leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdarsvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Það leyfi hafi verið gefið út 16. nóvember 2020 en þar komi skýrt fram að eingöngu sé um að ræða „greftrarleyfi“ og að frekari framkvæmdir séu háðar útgáfu byggingarleyfis að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í áðurnefndri grein 2.4.4 í byggingarreglugerð. Að öllu virtu byggi Dalvíkurbyggð á því að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Komi fram ósk frá kærendum um aðgang að þeim gögnum sem til eru vegna þeirra framkvæmda sem átt hafi sér stað á lóðunum við Hringtún 17 og 19 fái slík beiðni hefðbundinn framgang innan sveitarfélagsins.<br /> <br /> Umsögn sveitarfélagsins var send kærendum, með bréfi, dags. 15. mars 2021, og þeim veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kærenda, dags. 15. mars 2021, eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi fyrr komið fram að byggingarleyfi hafi ekki enn verið gefið út. Sveitarfélagið hafi fyrst viðurkennt það í tengslum við kærur kærenda til annars vegar úrskurðarnefndar um upplýsingamál og hins vegar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá eru gerðar athugasemdir við að kærendum hafi ekki verið leyft að kynna sér gögn sem lágu til grundvallar leyfi til könnunar á jarðvegi og mæliblað vegna hæðakvóta en því hafi verið hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Kærendur telja lög hafa verið brotin við meðferð málsins í tengslum við umræddar framkvæmdir á lóðunum og telja sveitarfélagið alls ekki hafa reynt að upplýsa um neitt eins og haldið sé fram í umsögn sveitarfélagsins. Jafnframt kemur fram að kærendur hafi kært útgáfu byggingarleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í málinu er deilt um afgreiðslu Dalvíkurbyggðar á beiðni kærenda um aðgang að útgefnu byggingarleyfi vegna Hringtúns 17 og 19 og mæliblaði vegna hæðakvóta sömu lóða. Dalvíkurbyggð heldur því fram að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu enda hafi ekkert byggingarleyfi verið gefið út.<br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Eins og áður segir kemur fram í umsögn sveitarfélagsins að byggingarleyfi sé ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu enda hafi það enn ekki verið gefið út. Í ljósi skýringa sveitarfélagsins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umrætt gagn séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu.<br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti. <br /> <br /> <br /> <br /> 2.<br /> <br /> Í málinu er einnig deilt um rétt kærenda til aðgangs að mæliblaði fyrir hæðakvóta í Hóla- og Túnahverfi á Dalvík. Hvorki verður ráðið af synjun sveitarfélagsins né umsögn þess til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að tekin hafi verið afstaða til réttar kæranda til aðgangs að gagninu. <br /> <br /> Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði nefndin, með tölvupósti, dags. 17. maí 2021, eftir upplýsingum frá lögmanni sveitarfélagsins um hvort tekin hefði verið afstaða til réttar kæranda til aðgangs að mæliblaðinu og sveitarfélaginu jafnframt veitt færi á að koma á framfæri frekari röksemdum teldi það tilefni til. Í svari frá lögmanni sveitarfélagsins, dags. sama dag, kom fram að hann vissi ekki betur en að gagnið hefði legið fyrir þegar beiðni kæranda barst. Hins vegar yrði ekki séð að það félli undir beiðni kæranda. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér samskipti kærenda við sveitarfélagið. Í tölvupósti kærenda, dags. 14. desember 2020, þar sem kærendur ítreka upphaflega beiðni sína frá 25. nóvember 2020 um aðgang að upplýsingum, kemur m.a. fram að þeir óski eftir afriti af mæliblaði sem unnið sé eftir í Hóla- og Túnahverfi. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að beiðni kærenda hafi m.a. lotið að umræddu mæliblaði. <br /> <br /> 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.<br /> <br /> Þá leiðir af ákvæðum upplýsingalaga að stjórnvöldum beri að afmarka beiðni um upplýsingar við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.<br /> <br /> Eins og fyrr segir verður ekki séð að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gangabeiðninnar, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun Dalvíkurbyggðar né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda að þessu leyti, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Dalvíkurbyggð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Dalvíkurbyggðar, dags. 11. janúar 2021 um að synja kærendum, A og B, um aðgang að mæliblaði fyrir hæðakvóta í Hóla- og Túnahverfi á Dalvík, er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar meðferðar. Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br />

1013/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

A blaðamaður, kærði ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni hans um aðgang að stefnu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það með ríkislögmanni að ákvæði laga um meðferð einkamála giltu um stefnur í dómsmálum í vörslu embættisins. Var komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingalög giltu um afgreiðslu embættisins á beiðninni. Synjun ríkislögmanns byggðist fyrst og fremst á því að upplýsingar í stefnunum væru undanþegnar upplýsingarétti þar sem þær vörðuðu mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stefnanda, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi að gögnin geymdu ekki slíkar upplýsingar og var því lagt fyrir ríkislögmann að veita aðgang að stefnunum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1013/2021 í máli ÚNU 20120022. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 16. desember 2020, kærði A, blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu, synjun embættis ríkislögmanns á beiðni um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með erindi til ríkislögmanns, dags. 8. desember 2020, óskaði kærandi eftir afriti af stefnu í málum sem fyrirtækið Nitro Sport ehf. höfðaði á hendur íslenska ríkinu. Í svari ríkislögmanns, dags. 15. desember 2020, kemur fram að ríkislögmaður hafi óskað eftir afstöðu stefnanda til afhendingar stefnunnar og að stefnandi sé mótfallinn því að afrit hennar verði afhent. Ríkislögmaður tekur fram að í stefnunni sé gerð krafa um ógildingu á úrskurði yfirskattanefndar um ákvörðun aðflutningsgjalda á ökutæki sem stefndandi hafi flutt inn. Úrskurðurinn hafi verið birtur á heimasíðu nefndarinnar en nafn félagsins verið afmáð.<br /> <br /> Þær upplýsingar sem fram komi í stefnu í máli E-3021/2020 séu að miklu leyti þær sömu og þær upplýsingar sem fram komi í framangreindum úrskurði yfirskattanefndar. Um sé að ræða upplýsingar um innflutning stefnanda á ökutækjum sem séu til þess fallnar að gefa mynd af rekstrar- og samkeppnisstöðu félagsins. Með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga sé það afstaða embættis ríkislögmanns að óheimilt sé að veita aðgang að slíkum upplýsingum. Það er einnig afstaða embættisins að ekki sé unnt að veita aðgang að hluta skjalsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga enda komi þær upplýsingar sem njóta verndar 9. gr. upplýsingalaga svo víða fram í skjalinu. Þá kemur einnig fram að það sé afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um gögn sem lögð séu fram í dómi og séu í vörslu dómstóla, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Þá er tekið fram að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 928/2020 sem varði aðgang að stefnum í málum þriggja félaga varði ekki sambærilegar aðstæður og í þessu máli. Úrskurðir yfirskattanefndar í þeim málum hafi verið birtir en nöfn félaganna afmáð. Hins vegar hafi nöfn félaganna verið gerð opinber með úrskurðum Landsréttar og upplýsingarnar því í reynd gerðar opinberar með lögmætum hætti. Að því leytinu sé mál þetta ólíkt. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi vísi til sömu raka og teflt var fram af hans hálfu í tengslum við fyrri kærur hans vegna afgreiðslu ríkislögmanns, þ.e. í málum nr. 886/2020 og 928/2020. Af því má ráða að kærandi telji afstöðu ríkislögmanns ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Ríkislögmaður hafi látið nægja að leita afstöðu eigenda félagsins en ekki metið hvort tilefni væri til að afhenda hluta af stefnunum. Kæranda þyki ríkislögmaður því ekki hafa afgreitt erindið með fullnægjandi hætti og telji rétt að ríkislögmanni verði gert að afgreiða erindið aftur og taka efnislega afstöðu til þess.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> 1.<br /> Kæran var kynnt ríkislögmanni með bréfi, dags. 19. desember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn ríkislögmanns, dags. 13. janúar 2021, segir að ákvörðun um að synja beiðni kæranda byggi fyrst og fremst á 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga þar sem um sé að ræða upplýsingar um viðskipta- og fjárhagsmuni sem falli þar undir. Þá liggi fyrir að forsvarsmenn stefnda leggist gegn afhendingu stefnunnar. Þá er vísað til þess að úrskurður yfirskattanefndar sem stefndi krefst ógildingar á hafi verið birtur á vef yfirskattanefndar en nöfn félagsins verið afmáð úr úrskurðinum. Þær upplýsingar sem fram komi í stefnu séu að miklu leyti þær sömu og þær upplýsingar sem fram komi í úrskurði yfirskattanefndar. Um sé að ræða upplýsingar um innflutning Nitro Sport ehf. á ökutækjum sem séu til þess fallnar að gefa mynd af rekstrar og samkeppnisstöðu félagsins og njóti verndar 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Þá sé það afstaða ríkislögmanns að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 928/2020 sem varði aðgang að stefnum í málum þriggja félaga varði ekki sambærilegar aðstæður og í þessu máli. Úrskurðir yfirskattanefndar í þeim málum hafi verið birtir en nöfn félaganna afmáð. Hins vegar hafi nöfn félaganna verið gerð opinber með úrskurðum Landsréttar og upplýsingarnar því í reynd gerðar opinberar með lögmætum hætti. Þá hafi ríkislögmaður ekki talið unnt að veita aðgang að skjalinu að hluta enda komi upplýsingar sem njóti verndar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga fram svo víða í skjalinu. Loks er fyrri afstaða ríkislögmanns áréttuð þess efnis að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem séu hluti af málskjölum í dómsmáli og vísað um það til 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Umsögn ríkislögmanns var kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. <br /> <br /> Í athugasemdum, dags. 20. janúar 2021, bendir kærandi á að úrskurður í máli stefnanda hafi verið birtur á vef yfirskattanefndar. Af heimasíðu félagsins megi ráða að stefndi flytji inn og selji m.a. mótorhjól, fjórhjól og tengdan varning. Ekki þurfi annað en að slá inn orðið fjórhjól á vefsíðu yfirskattanefndar til að sjá að fjöldi mála sem varði tollflokkun slíkra gripa hafi ratað til yfirskattanefndar. Í því sambandi telur kærandi upp málsnúmer 11 slíkra úrskurða sem birtir eru á vef nefndarinnar. Bent er á að í úrskurðum yfirskattanefndar sé heiti umræddra tegunda getið og því þurfi ekki langan samanburð á úrskurðunum og vef stefnda til að finna út hvaða úrskurður eigi við um stefnda. Kærandi áréttar einnig að 9. gr. upplýsingalaga sé undantekning sem túlka beri þröngt. Með vísan til markmiða upplýsingalaga, og laga um fjölmiðla nr. 38/2011, og hlutverks fjölmiðla samkvæmt þeim lögum, telji kærandi að við mat á því hvort afhenda beri umrædda stefnu beri að veita þeim sjónarmiðum aukið vægi við mat á því hvort upplýsingar í stefnunni falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Þá dregur kærandi í efa að afmá þurfi svo stóran hluta hennar að unnt sé að synjað aðgang að skjalinu í heild sinni.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í málinu er deilt um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að stefnu í máli sem félagið Nitro Sport ehf. höfðaði á hendur íslenska ríkinu. Stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 12. maí 2020.<br /> <br /> Í umsögn ríkislögmanns vegna kærunnar er áréttuð fyrri afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem séu hluti af málsskjölum í dómsmáli, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Um aðgang að slíkum gögnum fari samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin taki til dómstóla og dómstólasýslunnar að frátöldum ákvæðum V.-VII. kafla. Lögin gildi þó ekki um gögn í vörslu þeirra um meðferð einstakra dómsmála og endurrit úr dómabók, gerðabók og þingbók.<br /> <br /> Þrátt fyrir að ekki verði séð að synjun ríkislögmanns í máli þessu sé beinlínis reist á þessari afstöðu telur úrskurðarnefndin engu að síður rétt að vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 885/2020, 886/2020, 928/2020 og 1007/2021 um að ekki standi rök til þess að telja skjöl í vörslum stjórnvalda eða aðila sem falla undir 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga undanþegin gildissviði laganna þegar af þeirri ástæðu að þau hafi verið lögð fram í dómsmáli. Í úrskurðunum er vakin athygli á því að ef fallist væri á gagnstæða túlkun myndi það hafa í för með sér að réttur almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum en dómstólum sem féllu undir upplýsingalög yrði í reynd óvirkur um leið og sömu gögn yrðu lögð fyrir dóm í einkamáli. Í dómi Hæstaréttar frá 15. apríl sl. í máli nr. 7/2021 er auk þess áréttað <br /> að upplýsingalög mæli um sjálfstæðan rétt almennings til aðgangs að gögnum sem liggja fyrir hjá stjórnvöldum eða öðrum sem lögin taka til og varða tiltekið mál og að reglur réttarfars, í því tilviki um öflun skjala undir rekstri dómsmáls, girði ekki fyrir að aðili geti nýtt sér rétt til öflunar gagna eða upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga. <br /> <br /> Með vísan til alls framangreinds verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum er greinir í 6.-10. gr. laganna. <br /> <br /> 2.<br /> Ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni kæranda er fyrst og fremst reist á því að stefnan innihaldi upplýsingar sem séu undanþegnar upplýsingarétti þar sem þær varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stefnanda, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Stefnandi í málinu sé auk þess mótfallinn afhendingu stefnunnar. <br /> <br /> Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og ber því að túlka það þröngri lögskýringu.<br /> <br /> Í athugasemdum greinargerðar er fylgdu frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:<br /> <br /> „Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæðið segir jafnframt:<br /> <br /> „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“<br /> <br /> Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.<br /> <br /> Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við það mat verður að hafa í huga það meginmarkmið laganna að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni. Þá er tiltekið í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að ef ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.<br /> <br /> Rétt er að taka fram að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál horft til þess að ekki sé almennt hægt að líta svo á að upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar með lögmætum hætti séu upplýsingar um einkamálefni sem óheimilt sé að greina frá, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 11. september 2017 í máli nr. 704/2017, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis frá 9. febrúar 2009 í máli nr. 5142/2007. Ljóst er að úrskurður yfirskattanefndar sem krafist er ógildingar á í umræddri stefnu hefur verið birtur á vef yfirskattanefndar. Í úrskurðinum er öllum málsatvikum lýst, ákvörðunum ríkisskattstjóra, sem og kröfum stefnanda og málsástæðum. Nafn stefnanda er hins vegar afmáð í hinum birta úrskurði. Eins og vísað er til í umsögn ríkislögmanns hefur nafn stefnanda ekki verið birt á vettvangi dómstóla enda liggur enn ekki fyrir dómur í málinu. Þannig hafa ekki allar upplýsingar í stefnunni verið birtar opinberlega líkt og háttaði til í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 928/2020 og vísað er til í umsögn ríkislögmanns. Gilda því ekki sömu sjónarmið varðandi stefnuna sem um er deilt í þessu máli. Verður því að leggja mat á efni stefnunnar með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Þegar tekin er afstaða til þess hvort hagsmunir einkaaðila sem stefnt hefur íslenska ríkinu af því að upplýsingum um málatilbúnað hanssé haldið leyndum vegi þyngra en sjónarmið um upplýsingarétt almennings verður að hafa í huga að stefnan sem kærandi hefur óskað eftir hefur að geyma kröfur og málatilbúnað sem varða lögmæti ákvarðana skattyfirvalda. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið stefnuna sem ríkislögmaður afhenti nefndinni. Í stefnunni er krafist ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 187/2018 þar sem staðfestur var úrskurður tollstjóra frá 7. desember 2017 um að hafna kröfum stefnanda um leiðréttingu á álagningu aðflutningsgjalda vegna innflutnings á 20 ökutækjum stefnanda. Þá er jafnframt krafist endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem stefnandi greiddi í aðflutningsgjöld vegna innflutnings ökutækjanna. Dómsmálið sem um ræðir varðar þannig ágreining um lögmæti ákvarðana skattyfirvalda sem snúa að tollflokkun innflutnings ökutækja stefnanda. Í stefnunni koma fram upplýsingar um dómkröfur, málsatvik, málsástæður og helstu rök fyrir dómkröfunum. Varðar málatilbúnaður stefnanda í grunninn það í hvaða vörulið tollskrár beri að flokka umrædd ökutæki sem álagning aðflutningsgjaldanna snýr að. Þar er hins vegar ekki að finna upplýsingar sem varða fjárhagsstöðu fyrirtækisins. <br /> <br /> Í umsögn ríkislögmanns er synjun embættisins fyrst og fremst rökstudd með vísan til þess að upplýsingar um innflutning stefnanda á ökutækjum séu til þess fallnar að gefa mynd af rekstrar og samkeppnisstöðu félagsins. Að öðru leyti er ekki rökstutt hvernig þær upplýsingar sem fram koma í stefnunni séu þess eðlis að þær geti valdið stefnanda tjóni í skilningi 9. gr. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að slíkar upplýsingar verði felldar undir 9. gr. upplýsingalaga einar og sér. Úrskurðarnefndin fær þannig ekki séð að í stefnunni sé að finna upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stefnanda sem til þess eru fallnar að valda stefnanda tjóni verði kæranda veittur aðgangur að þeim. Í öllu falli verður að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu í ljósi meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Með hliðsjón af framangreindu ber að veita kæranda aðgang að umræddri stefnu hjá ríkislögmanni.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hagsmunir almennings af aðgangi að upplýsingum um málatilbúnað einkaaðila á hendur íslenska ríkinu vegi í þessu tilviki þyngra en hagsmunir þeirra síðarnefndu af því að þær fari leynt. Verður því ríkislögmanni gert að veita kæranda aðgang að stefnunum.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Embætti ríkislögmanns er skylt að veita kæranda, A, blaðamanni hjá Viðskiptablaðinu aðgang að stefnu í máli Nitro Sport ehf. gegn íslenska ríkinu í máli E-3021/2020.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1012/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Deilt var um afgreiðslu kærunefndar útlendingamála á beiðni blaðamanns um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar á tilgreindu tímabili. Kærunefndin brást við beiðni kæranda með því að vísa á heimasíðu kærunefndarinnar þar sem eingungis hluti þeirra úrskurða sem óskað var eftir var birtur. Úrskurðarnefndin tók fram að við slíkar aðstæður bæri kærunefndinni að taka rökstudda afstöðu til þeirra gagna sem út af stæðu með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga. Þar sem slíkt mat hafði ekki farið fram skorti að mati úrskurðarnefndarinnar á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda. Ákvörðun kærunefndar útlendingamála var því felld úr gildi og lagt fyrir kærunefndina að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

<h1>Úrskurður</h1> <p style="text-align: justify;">Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1012/2021 í máli ÚNU 21020026. </p> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með kæru, dags. 22. febrúar 2021, kærði A, blaðamaður á Stundinni, ákvörðun kærunefndar útlendingamála um að synja beiðni hans um gögn. <br /> <br /> Með erindi, dags. 18. febrúar 2021, óskaði kærandi eftir að fá afrit af öllum úrskurðum kærunefndarinnar frá 1. júní 2020 til 31. desember 2020. Í því sambandi vísaði kærandi til 7. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærunefnd útlendingamála svaraði beiðni kæranda með tölvupósti, dags. 18. febrúar 2021, með því að vísa til þess að úrskurðir nefndarinnar væru birtir á vefsíðu Stjórnarráðsins. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærunefnd útlendingamála hafi aðeins birt einn úrskurð það sem af er árinu 2021. Þá er bent á að verulega hafi dregið úr tíðni birtra úrskurða eftir að vinnureglur kærunefndarinnar varðandi birtingu úrskurða tóku gildi 1. júní 2020. Þetta sé staðan þrátt fyrir að tölfræði sem birt er á vef nefndarinnar sýni að málum fari fjölgandi. Kærandi telji því yfirgnæfandi líkur á að vinnureglur kærunefndarinnar hafi leitt til þess að fjöldi úrskurða bíði birtingar eða verði hugsanlega ekki birtur. Kærandi tekur einnig fram að hann telji að vinnureglurnar dragi úr gegnsæi í stjórnsýslu og trausti almennings á henni vegna takmörkunar á upplýsingarétti og aðhaldi fjölmiðla og almennings.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, var kæran kynnt kærunefnd útlendingamála og veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. <br /> <br /> Umsögn kærunefndar barst með bréfi, dags. 9. mars 2021. Í umsögninni er málavöxtum lýst og rakið að kæranda hafi með bréfi, dags. 18. febrúar 2021, verið leiðbeint um að úrskurðir kærunefndarinnar séu birtir á vef Stjórnarráðsins. Þá kemur fram að kæranda hafi verið vísað á verklagsreglur um birtingu úrskurða kærunefndarinnar á netinu. Afgreiðsla kærunefndarinnar á beiðni kæranda hafi ekki falið í sér synjun beiðni hans í skilningi 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. Afgreiðslan hafi falið í sér ábendingu, í samræmi við 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga, um hvar umbeðnar upplýsingar sé að finna. Þá er í umsögninni gerð grein fyrir tilurð og innihaldi verklagsreglna kærunefndarinnar um birtingu úrskurða á netinu. Þær hafi að geyma stöðluð fyrirmæli til starfsfólks um framkvæmd birtingar úrskurða kærunefndarinnar. Úrskurðir kærunefndarinnar innihaldi nánast alltaf upplýsingar um einkamálefni sem nefndin fái frá kærendum í trausti þess að þessar upplýsingar berist ekki annað. Þarna séu upplýsingar um fjölskylduhagi, andlegt og líkamlegt heilsufar, erfiða atburði sem kærandi kveðist hafa upplifað í heimaríki, málefni barna o.fl. sem teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. 3. tölul. 1. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Af þeim sökum þurfi að gæta sérstakrar varúðar við birtingu þessara upplýsinga til að tryggja að þær séu ekki persónugreinanlegar. Í upphafi máls umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum sé þeim heitið trúnaði um það sem fram muni koma af þeirra hálfu. Umsækjendur hafi því réttmætar væntingar til þess að þessum upplýsingum verði ekki dreift. Þá er vísað til þess að löggjafinn hafi enn fremur gefið út þau fyrirmæli að nöfn, kennitölur, og önnur persónugreinanleg auðkenni skuli fjarlægð úr úrskurðum fyrir birtingu. Þá er því lýst að verklagsreglurnar hafi verið unnar í samráði við persónuvernd, lögmann sem sérhæfir sig í persónuvernd og formenn annarra nefnda.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 9. mars 2021, var kæranda sent afrit af umsögn kærunefndar útlendingamála og veittur kostur á því að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu kærunefndar útlendingamála, dags. 18. febrúar 2021, á beiðni kæranda um aðgang að öllum úrskurðum kærunefndar útlendingamála sem kveðnir voru upp frá 1. júní 2020 til 31. desember 2020 en í svari til kæranda var honum bent á vefsíðu nefndarinnar þar sem úrskurðir eru birtir auk þess sem vísað var til verklagsreglna nefndarinnar um birtingu úrskurða. Í umsögn kærunefndarinnar er því haldið fram að afgreiðsla nefndarinnar hafi ekki falið í sér synjun á beiðni kæranda í skilningi 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar enda hafi svar nefndarinnar falið í sér ábendingu um hvar umbeðnar upplýsingar sé að finna. <br /> <br /> Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Í 3. mgr. 5. gr. segir hins vegar að ef ákvæði 6.–10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.<br /> <br /> Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.<br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er stjórnvaldi almennt heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að upplýsingum með því að vísa á vefslóð þar sem þær er að finna. Þegar hins vegar þannig háttar til að einungis hluti þeirra gagna sem óskað er aðgangs að hafa verið birt með þessum hætti ber stjórnvaldinu að leggja mat á þau gögn sem út af standa með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga eða eftir atvikum annarra laga.<br /> <br /> Eins og fyrr segir liggur fyrir að einungis hluti þeirra úrskurða sem óskað var eftir hafa verið birtir á vef kærunefndarinnar. Þá verður ekki séð að tekin hafi verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda um aðgang að þeim úrskurðum sem ekki eru birtir, sbr. 15. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Fallast má á það með kærunefnd útlendingamála að úrskurðir kærunefndarinnar hafi að öllum líkindum margir að geyma margvíslegar upplýsingar um einkahagi einstaklinga, t.d. um heilsufar, sem falla undir 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum er tekið fram að það sé engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt ákvæðinu, þar á meðal upplýsingar um heilsuhagi. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er hins vegar ekki unnt að útiloka fyrir fram að unnt sé að afhenda kæranda úrskurði kærunefndarinnar eftir atvikum með því að afmá upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem falla undir 1. málsl. 9. gr. Bendir nefndin í þessu sambandi á að ef þær takmarkanir sem fram koma í 9. gr. laganna eiga aðeins við um hluta skjals ber að veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. <br /> <br /> Afstaða kærunefndarinnar til upplýsingabeiðninnar virðist jafnframt vera reist á ákvæðum verklagsreglna sem kærunefndin hefur sett sér varðandi birtingu úrskurða. Verklagsreglurnar fela í sér nánari útfærslu á 7. mgr. 6. laga nr. 80/2016, um útlendinga, þar sem fjallað er um skyldu kærunefndarinnar til að birta úrskurði sína opinberlega. Þannig fjalla ákvæði 7. mgr. 6. gr. lagannaog þær verklagsreglur sem kærunefndin hefur sett starfsemi sinni, um tilhögun birtingar kærunefndarinnar á úrskurðum sínum að eigin frumkvæði en ekki einstaklingsbundinn rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum hjá nefndinni. Um slíkar beiðnir fer sem fyrr segir samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga nema annað leiði af ákvæðum sérlaga. Þrátt fyrir að í vinnureglunum kunni að endurspeglast tiltekið almennt mat á þeim andstæðu hagsmunum sem vegast á við mat á því hvort og þá í hvaða mæli birta beri úrskurði kærunefndarinnar getur slíkt ekki komið í stað þess atviksbundna mats sem upplýsingalög áskilja að fram fari í tilefni af upplýsingabeiðni. Rétt er að taka fram að það fellur utan við úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál að fjalla um hvernig kærunefndin framfylgir þeirri skyldu að birta úrskurði að eigin frumkvæði sem fram kemur í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, og þar með hvort umræddar verklagsreglur samrýmist ákvæðum laga.<br /> <br /> Af framangreindu er ljóst að við meðferð beiðni kæranda um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar bar kærunefndinni að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun á grundvelli upplýsingalaga. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna, þ.m.t. 9. gr. Það var ekki gert heldur látið duga að vísa kæranda á vefslóð þar sem úrskurðir nefndarinnar eru birtir og vísa til framangreindra verklagsreglna.<br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir kærunefndar útlendingamála að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <br /> </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Ákvörðun kærunefndar útlendingamála, dags. 18. febrúar 2021, um að synja beiðni kæranda, um aðgang að úrskurðum kærunefndarinnar frá 1. júní 2020 til 31. desember 2020 er felld úr gildi og lagt fyrir kærunefndina að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> </p>

1011/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

A kærði synjun Herjólfs ohf. á beiðni um nöfn umsækjenda um sumar- og framtíðarstörf háseta og þerna á Herjólfi. Úrskurðarnefndin staðfesti synjun félagsins með vísan til þess að ekki væri skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um starf hjá lögaðilum sem falla undir upplýsingalög, ólíkt því sem gildir um umsækjendur um starf hjá hinu opinbera.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1011/2021 í máli ÚNU 21050007. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi til Herjólfs ohf., dags. 1. apríl 2021 óskaði A eftir nöfnum þeirra sem sóttu um sumar- og framtíðarstörf háseta og þerna á Herjólfi. Þann 26. apríl 2021, synjaði Herjólfur ohf. beiðninni á þeim grundvelli að opinberum hlutafélögum sé ekki skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um auglýst störf. <br /> <br /> Í kæru, dags. 28. apríl 2021, kemur fram að kærandi óski þess að Herjólfi iohf. verði gert að afhenda umbeðnar upplýsingar. Með kærunni fylgdi svar forsætisráðuneytisins við erindi kæranda, dags. 29. janúar 2021, þar sem fram kemur að upplýsingalög gildi um Herjólf ohf. og að félagið sé ekki að finna á lista yfir lögaðila sem eru undanþegnir ákvæðum upplýsingalaga. Jafnframt er í kærunni gerð sú krafa að þau erindi sem úrskurðarnefndin hefur vísað frá á hendur Herjólfi ohf. verði tekin til úrskurðar á ný.<br /> <br /> Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að nöfnum umsækjenda um sumar- og framtíðarstörf þerna og háseta á Herjólfi. Þrátt fyrir að ekki sé vísað til lagaákvæða verður ráðið af svari Herjólfs ohf. til kæranda að synjunin félagsins byggi á 7. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Upplýsingalög nr. 140/2012 taka skv. 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. - 10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.<br /> <br /> Í 7. gr. upplýsingalaga er fjallað um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. laganna. Er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2.- 4. mgr. 7. gr. koma fram undantekningar frá þessari reglu. <br /> <br /> Í 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga koma fram fimm undantekningar frá meginreglunni þegar um er að ræða opinbera starfsmenn. Kemur þar fram í 2. tölul. að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn. Í 4. mgr. 7. gr. er að finna tvær undantekningar frá meginreglunni í tilviki starfsmanna lögaðila sem falla undir upplýsingalög. Segir þar að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul. og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. <br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er gerður greinarmunur á þeim upplýsingum sem skylt er að veita aðgang að eftir því hvort um sé að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn lögaðila. Ekki er skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda í starf hjá lögaðilum sem falla undir upplýsingalög, ólíkt því sem gildir um umsækjendur um starf hjá hinu opinbera. Af þessu leiðir að þrátt fyrir að starfsemi Herjólfs ohf. falli vissulega undir gildissvið upplýsingalaga líkt og kærandi vísar til þá hefur löggjafinn ákveðið að undanskilja sérstaklega tilteknar upplýsingar upplýsingarétti almennings í tilviki slíkra lögaðila, þ. á m. upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um störf. Því er staðfest ákvörðun Herjólfs ohf. um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra sem sóttu um starf hjá Herjólfi ohf.<br /> <br /> Í kærunni er þess jafnframt krafist að úrskurðarnefndin endurskoði fyrri úrskurði nefndarinnar þar sem kærum kæranda á hendur Herjólfi ohf. hefur verið vísað frá. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 1000/2021 sem kveðinn var upp þann 28. apríl 2021 synjaði úrskurðarnefndin beiðni kæranda um endurupptöku allra úrskurða sem varða Herjólf ohf. og úrskurðarnefndin hefur vísað frá eða staðfest ákvörðun félagsins. Úrskurðarnefndin lítur svo að beiðni kæranda hafi þegar verið afgreidd með fyrrgreindum úrskurði. Af þeim sökum er beiðni kæranda um endurupptöku úrskurða í málum Herjólfs ohf. vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er synjun Herjólfs ohf., dags. 26. apríl 2021, á beiðni A um nöfn umsækjenda um störf þerna og háseta á Herjólfi.<br /> <br /> Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurða í málum Herjólfs ohf. er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

1010/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar nr. 979/2021 var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku ekki uppfyllt og að ekki væru rökstuddar vísbendingar um að á úrskurðinum væru verulegir annmarkar að lögum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1010/2021 í máli ÚNU 21030017.<br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með erindi, dags. 4. mars 2021, fór A fram á endurupptöku máls ÚNU 21010020 sem lauk þann 22. febrúar 2021 með úrskurði nr. 979/2021. Í málinu var deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um afhendingu gjaldskrár Herjólfs ohf. Í málinu lá fyrir að Herjólfur ohf. hefði svarað kæranda og vísað til þess hvar umbeðnar upplýsingar væri að finna. Þar sem ekki lá fyrir synjun beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg var til úrskurðarnefndarinnar var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> Í erindi kæranda, dags. 4. mars 2021, kemur fram að gjaldskrá fyrir gámaflutninga sé ekki opinber á vefsvæði félagsins. Það séu hagsmunir íbúa sveitarfélagsins að geta kynnt sér slíkar upplýsingar. Þá sé það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu gegn þeim sem leita réttar síns til upplýsingaöflunar hjá opinberum aðilum. Af þeim sökum sé þess krafist að úrskurðarnefndin taki málið upp og úrskurði kæranda í vil. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 979/2021 að vísa frá kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar þar sem ekki lá fyrir kæranleg ákvörðun.<br /> <br /> Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:<br /> <br /> „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:<br /> <br /> 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br /> 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“<br /> <br /> Ekki verður annað séð en að krafa kæranda um endurupptöku málsins sé á því byggð að niðurstaða þess hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málinu sem breytt geta niðurstöðu nefndarinnar. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 21010020 sem lauk þann 22. febrúar 2021 með úrskurði nr. 979/2021.<br /> <br /> <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Beiðni A, dags. 4. mars 2021, um endurupptöku máls ÚNU 21010020 sem lauk þann 22. febrúar 2021 með úrskurði nr. 979/2021er hafnað.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1009/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

A fréttamaður, kærði afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni hans um aðgang að gögnum um skráningu raunverulegra eigenda tveggja lögaðila. Úrskurðarnefndin staðfesti þá niðurstöðu ríkisskattstjóra að afmá tilteknar upplýsingar varðandi annað félaganna. Nefndin vísaði öðrum þætti kærunnar frá með vísan til þess að ekki hafi legið fyrir synjun um beiðni gagnanna. Þá vísaði nefndin frá þeim þætti kærunnar er sneri að upplýsingum í tengslum við gjaldþrot annars félaganna þar sem upplýsingarnar féllu undir sérstakt þagnarskylduákvæði laga nr. 150/2019. Loks taldi úrskurðarnefndin ríkisskattstjóra skylt að verða við beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau væru varðveitt hjá embættinu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin lagði fyrir fyrir ríkisskattstjóra að afhenda umbeðin gögn á rafrænu formi.

<h1>Úrskurður</h1> <p style="text-align: justify;">Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1009/2021 í máli ÚNU 20120029.</p> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Þann 29. desember 2020, kærði A, fréttamaður RÚV, afgreiðslu ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2020, á beiðni hans frá 23. nóvember 2020 um gögn um skráningu raunverulegra eigenda félaganna B ehf. og C ehf.<br /> <br /> Með tölvubréfi, dags. 23. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum gögnum varðandi raunverulegt eignarhald félaganna B ehf. og C ehf. frá upphafi skráningar. Óskað var eftir öllum gögnum sem tengdust skráningu raunverulegra eigenda félaganna og borist hefðu ríkisskattstjóra á grundvelli f-liðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda. Jafnframt var óskað eftir gögnum sem ríkisskattstjóri kynni að hafa aflað að eigin frumkvæði og upplýsinga sem félögin kynnu að hafa veitt. Þá óskaði kærandi eftir öllum gögnum sem tengdust því að C ehf. var skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá síðla árs 2019, og því að sú skráning var síðar dregin til baka, að því er virðist í október 2020. Óskað var eftir bréfaskiptum við skiptastjóra, forsvarsmenn félagsins og aðra. Einnig fylgigögnum á borð við beiðni um gjaldþrotaskipti og gjaldþrotaúrskurðinum sjálfum og frekari gögnum sem kynnu að eiga við.<br /> <br /> Ríkisskattstjóri afhenti kæranda umbeðin gögn varðandi skráningu raunverulegs eignarhalds B ehf. með, tölvubréfi, dags. 2. desember 2020. Þar kom fram að til þess að tryggja að þagnarskyldar upplýsingar yrðu afmáðar með fullnægjandi hætti hefðu gögnin verið prentuð út og þagnarskyldar upplýsingar verið afmáðar handvirkt. Því næst hefðu gögnin verið skönnuð yfir á pdf. form. Í svari ríkisskattstjóra varðandi félagið C ehf. kom fram að sá einstaklingur sem væri skráður raunverulegur eigandi félagsins hefði verið skiptastjóri þess og farið á þeim tíma með forræði búsins. Ríkisskattstjóri hefði skráð hann sem raunverulegan eiganda á grundvelli hlutverks hans sem skiptastjóra. Samkvæmt upplýsingum úr Lögbirtingarblaði lauk skiptum á félaginu 24. september 2020 með því að allar lýstar kröfur voru afturkallaðar og félaginu skilað á ný til eigenda þess. Engin ný tilkynning hefði borist ríkisskattstjóra um breytingu á skráningu raunverulegs eignarhalds. Fyrirtækjaskrá hefði óskað eftir því við félagið að það leiðrétti skráninguna. Hvað varðar umbeðin gögn er snúa að gjaldþrotaskráningu C ehf. kom fram í svari ríkisskattstjóra að þau féllu undir sérstaka þagnarskyldureglu 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Af þeim sökum var beiðni kæranda varðandi þau gögn synjað.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun ríkisskattstjóra að afhenda hluta gagna varðandi félagið B ehf. með því að afmá tilteknar fjárhæðir. Auk þess var kærð sú ákvörðun ríkisskattstjóra að afhenda þau gögn sem hafa að geyma útstrikanir ekki á upprunalegu, rafrænu formi. Þá laut kæran að synjun ríkisskattstjóra á að afhenda gögn sem vörpuðu ljósi á raunverulegt eignarhald C ehf., þar með talið beiðni ríkisskattstjóra um leiðréttingu á skráningu, sem minnst var á í svari ríkisskattstjóra til kæranda. Loks var kærð synjun ríkisskattstjóra á afhendingu gagna sem tengjast því að C ehf. var skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá síðla árs 2019, og því að sú skráning var síðar dregin til baka. </p> <h2> Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 4. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar auk þeirra gagna sem kæran laut að.<br /> <br /> Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 27. janúar 2021, eru málavextir raktir og afstaða tekin til röksemda kæranda. Þar kemur m.a. fram varðandi raunverulegt eignarhald C ehf. að engin fylgigögn liggi fyrir að baki skráningu C ehf. Hvað varðar þann þátt kærunnar er snýr að afhendingarformi er í umsögninni vísað til 18. gr. upplýsingalaga og tekið fram að ákvæðið taki ekki á því þegar um sé að ræða afhendingu gagna sem bundin séu trúnaði og geymi upplýsingar sem beri að afmá. Um afhendingu slíkra gagna sé fjallað í 14. gr. laganna og veiti ákvæðið ákveðið svigrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til að tryggja öryggi afmáðra upplýsinga. <br /> <br /> Þá vísar ríkisskattstjóri til þess að með úrskurði í máli nr. 935/2020 hafi ríkisskattstjóra verið gert að afmá hluta af þeim upplýsingum sem óskað var eftir með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Gögnin sem um ræði séu hlutafjármiðar og vottorð úr fyrirtækjaskrá Möltu þar sem tilgreind eru númer vegabréfa og nafnvirði hlutafjár. Í framangreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar segi að skylda til að afhenda gögn varðandi raunverulegt eignarhald eigi ekki við um afrit af vegabréfum eða fjárhæð hlutafjármiða.<br /> <br /> Ríkisskattstjóri hafi orðið að færa gögnin á pappírsform í þeim tilgangi að afmá úr þeim með öruggum hætti þær upplýsingar sem ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að veita aðgang að. Ríkisskattstjóri hafi metið það svo að þessi aðferð við útstrikun viðkvæmra upplýsinga væri öruggust þar sem það væri tryggt að ekki væri hægt að afmá útstrikunina. Þá er vísað til þess að gögnin hafi hvorki verið í miklu magni né hafi þau haft að geyma mikinn texta. Öll önnur gögn sem afhent voru hafi verið véllæsileg. Við mat á því hvaða aðferð bæri að notast við hvað varðaði útstrikun upplýsinga hafi embættið m.a. farið eftir þeim verklagsreglum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi sett í kjölfar úrskurðar persónuverndar í máli 2014/1470. Þó er tekið fram að ríkisskattstjóri hafi ekki haft aðgang að umræddum verklagsreglum en vísað er til fréttar ríkisútvarpsins frá 10. janúar 2016 varðandi nánara efni þeirra. Loks er tekið fram að á ríkisskattstjóra hvíli rík skylda til að tryggja öryggi þessara gagna og það sé því mat embættisins að það sé best gert með þeim hætti sem lýst er í umsögninni. Með vísan til þessa verði umrædd gögn því ekki afhent með öðrum hætti en þegar hafi verið gert.<br /> <br /> Varðandi þann þátt kærunnar er snýr að því að C ehf. hafi verið skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá er áréttað að umrædd gögn falli undir sérstaka þagnarskyldu 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Gögnin sem óskað er eftir falli undir sérstaka þagnarskyldu og séu gögn sem leynt skuli fara og varði m.a. efnahag gjaldenda. Fallist nefndin hins vegar ekki á að gögnin falli undir framangreind ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 er byggt á því að gögnin séu gögn sem eðlilegt og sanngjarnt sé að leynt fari. Þá er upplýst að gjaldþrotaúrskurðurinn sé ekki varðveittur hjá embættinu og því ekki unnt að afhenda hann.<br /> <br /> Umsögnin var kynnt kæranda, með bréfi, dags. 27. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 19. febrúar 2021, við umsögn ríkisskattstjóra er í fyrsta lagi vísað til rökstuðnings kæranda sem fylgdi beiðni hans um endurupptöku úrskurðar nr. 935/2020. Þar kemur fram að upphæðir þær sem koma fram á hlutafjármiðum sýni hlutafjáreign hvers og eins aðila í tilteknu félagi. Þótt ýmsar fjárhagslegar upplýsingar um einstaklinga séu almennt taldar geta verið viðkvæmar, þar á meðal upplýsingar um launakjör, bankaviðskipti og skuldastöðu, hafi slíkt ekki verið talið gilda um hlutabréfaeign. Þvert á móti hafi sjónarmið um gagnsæi í viðskiptum verið talin vega það þungt að upplýsingar um hlutafjáreign eigi að vera aðgengilegar í opinberum gögnum. Fyrirtækjum sé skylt að skila árlega ársreikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra haldi utan um ársreikningaskrána, og ársreikningar séu aðgengilegir á vefsvæði embættisins án endurgjalds. Samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skuli fyrirtæki láta fylgja með ársreikningi skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa félagsins í stafrófsröð, ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Upplýsingar um hlutafjáreign hvers einasta hluthafa í tilteknu félagi séu þannig aðgengilegar öllum á vefsíðu fyrirtækjaskrár. Þá er bent á að þar sem umræddar upplýsingar séu nú þegar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði geti upphæðir á hlutafjármiðum einfaldlega ekki talist viðkvæmar upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Þá gerir kærandi athugasemdir við að engin gögn liggi að baki skráningu félagsins C ehf. og telur að ætla megi að skráningin hafi verið byggð á einhverjum gögnum. Þá er ítrekuð ósk hans um aðgang að bréfi því sem ríkisskattstjóri sendi félaginu þar sem farið er fram á að skráning raunverulegs eignarhalds þess verði leiðrétt. Þá lýsir kærandi þeirri afstöðu sinni að hann telji sérstakt þagnarskylduákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 ekki eiga við um starfsemi fyrirtækjaskrár. Kærandi bendir einnig á að ríkisskattstjóri hafi ekki sýnt fram á hvernig birting umbeðinna upplýsinga myndi valda félaginu tjóni, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Jafnvel þótt talið yrði skipta máli að skráningin hafi verið afturkölluð beri að mati kæranda að líta til þess að líkur á því að afhending gagnanna valdi félaginu tjóni hljóti að teljast takmarkaðar enda félagið eignarhaldsfélag sem virðist ekki hafa neina starfsemi. Eini tilgangurinn virðist vera að vera milliliður í ógagnsæju eignarhaldi á jörðinni […]. Í því sambandi er bent á að almennt gildi sú regla að upplýsingar um eignarhald jarða og annarra fasteigna séu opinberar. Hér sé um það að ræða að eigandi jarðar hefur komið eignarhaldi fyrir í gegnum röð félaga og endi slóð eignarhaldsins í Lúxemborg. Synjun ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um aðgang að þeim gögnum sem gjaldþrotaskráning C ehf. hafi verið byggð á sé að mati kæranda til þess fallin að auka leynd um eðli eignarhalds jarðarinnar […]. Því getur að mati kæranda ekki talist sanngjarnt og eðlilegt, í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, að þau gögn sem óskað var eftir fari leynt.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">1.<br /> Í máli þessu er í fyrsta lagi deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem afmáðar voru úr gögnum varðandi raunverulegt eignarhald félagsins B ehf. Nánar tiltekið er um að ræða nafnverð hlutafjár á hlutafjármiðum og númer vegabréfa sem fram koma á vottorði úr fyrirtækjaskrá Möltu. Synjun ríkisskattstjóra er reist á því að samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamál í máli nr. 935/2020 sé embættinu skylt að afmá upplýsingar um fjárhæðir sem fram koma á hlutafjármiðum einstaklinga sem og númer vegabréfa. <br /> <br /> Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 935/2020 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri óheimilt að veita kæranda aðgang að upphæðum á hlutafjármiðum og upplýsingum um vegabréfsnúmer með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Nánar tiltekið var það afstaða úrskurðarnefndarinnar að í þeim fælust upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 977/2021 frá 22. febrúar 2021 synjaði úrskurðarnefndin beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðarins. <br /> <br /> Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ótvírætt að um sé að ræða upplýsingar sem óheimilt er að veita aðgang að með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, sbr. m.a. framangreindan úrskurð úrskurðarnefndarinnnar í máli nr. 935/2020. Með hliðsjón af framangreindu verður hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest að þessu leyti.<br /> <br /> 2.<br /> Í öðru lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum er varða skráningu raunverulegs eignarhalds C ehf. Hvað varðar gögn er snúa að skráningu raunverulegra eigenda kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að engum fylgigögnum sé til að dreifa sem varpi ljósi á raunverulegt eignarhald þess. Skráður raunverulegur eigandi sé fyrrum skiptastjóri félagsins. Eftir að allar kröfur voru afturkallaðar og félaginu skilað á ný til eigenda þess hafi engin leiðrétting borist ríkisskattstjóra á raunverulegu eignarhaldi þess. <br /> <br /> Úrskurðarnefndin telur að ekki séu forsendur til að rengja þær staðhæfingar ríkisskattstjóra að engin fyrirliggjandi gögn hafi legið fyrir varðandi raunverulegt eignarhald félagsins þegar beiðni kæranda var lögð fram. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa þessum þætti kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir gögn að þessu leyti liggur fyrir að ríkisskattstjóri átti í bréfaskiptum við fyrirsvarsmann C ehf. þar sem farið var fram á að félagið skilaði inn upplýsingum um raunverulega eigendur félagsins. Um er að ræða tölvupóst, dags. 25. nóvember 2020, þar sem farið er fram á að félagið leiðrétti skráningu raunverulegs eignarhalds félagsins. Með bréfi, dags. 21. janúar 2021, var beiðnin ítrekuð og því beint til félagsins að leiðrétta umrædda skráningu. <br /> <br /> Ljóst er að umrædd gögn urðu til eftir að beiðni kæranda um upplýsingar var lögð fram og ekki fyllilega ljóst hvort ríkisskattstjóri hafi litið svo á að þau féllu undir upplýsingabeiðni kæranda. Þannig verður ekki séð að ríkisskattstjóri hafi lagt mat á gögnin og tekið afstöðu til þess hvort rétt væri að veita kæranda aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því ekki fyrir synjun um beiðni um gögn sem kæranleg er til úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa frá þeim þætti í kærunni sem lýtur að umræddum gögnum. Kæranda er þó bent á að honum er fær sú leið að óska á ný eftir umræddum gögnum er varða skráningu raunverulegs eignarhalds félagsins. <br /> <br /> 3.<br /> Í þriðja lagi er deilt um ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja afhendingu gagna sem tengjast því að félagið C ehf. var skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá árið 2019 og því að sú skráning var síðar dregin til baka. Um er að ræða kröfulýsingu ríkisskattstjóra, dags 13. janúar 2020, vegna opinberra gjalda í þrotabú félagsins, þar sem er að finna yfirlit yfir þing- og sveitarsjóðsgjöld, og tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 27. apríl 2020, um afturköllun kröfulýsingar og samskipti ríkisskattstjóra og fyrirsvarsmann félagsins í tengslum við kröfulýsingu ríkisskattstjóra.<br /> <br /> Ríkisskattstjóri byggir á því að 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, leiði til þess að ekki sé heimilt að afhenda gögnin.<br /> <br /> Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2019 segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Á innheimtumanni ríkissjóðs hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Innheimtumanni er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.“<br /> <br /> Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í framangreindum skilningi, að því er varðar þær upplýsingar sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa undir höndum um tekjur og efnahag gjaldenda. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá ríkisskattstjóra stafa umrædd gögn frá lögfræðiinnheimtu ríkisskattstjóra en tengjast ekki fyrirtækjaskrá og hafa ekki verið send þangað. Af þeim sökum telur úrskurðarnefndin ekki hægt að leggja annað til grundvallar en að um sé að ræða gögn sem ríkisskattstjóra hafa borist í hlutverki ríkisskattstjóra sem innheimtumanns ríkisjóðs. <br /> <br /> Nefndin telur engan vafa leika á því að upplýsingar um kröfulýsingu ríkisskattstjóra í þrotabú vegna innheimtu opinberra gjalda sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta á grundvelli laga nr. 150/2019 falli undir umrætt ákvæði. Verður réttur til aðgangs að þeim því ekki byggður á ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Þar sem gögn málsins lúta öll trúnaðarskyldu skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda sem er sérstakt þagnarskylduákvæði, taka upplýsingalög ekki til þeirra. Ber af þeirri ástæðu að vísa kærunni að þessu leyti frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> 4.<br /> Loks er deilt um hvort ríkisskattstjóra hafi við afhendingu umbeðinna gagna varðandi raunverulegt eignarhald B ehf. verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta þeirra á rafrænu formi, nánar tiltekið á því formi sem þau voru upprunalega vistuð á, með það að markmiði að tryggja öryggi gagnanna sem best. <br /> <br /> Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Samkvæmt seinni málslið 1. mgr. 20. gr. laganna gildir hið sama um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. <br /> <br /> Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga segir að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau séu varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn séu eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2020 segir eftirfarandi: <br /> <br /> „Ákvæði 1. mgr. 18. gr. byggist á því að veita beri aðgang að upplýsingum á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Af 2. mgr. 19. gr. leiðir síðan að sé beiðni afgreidd með vísan til þess að upplýsingar séu þegar aðgengilegar, þá skal í slíkri afgreiðslu tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti þær eru það. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír. Almennt ætti það að vera til hagræðis fyrir þann sem hefur beiðni til afgreiðslu að geta afhent upplýsingar á rafrænu formi, en sé um upplýsingar að ræða sem falla undir 14. gr. frumvarpsins og eru viðkvæmar á einhvern hátt, ber eðli máls samkvæmt að tryggja viðeigandi öryggi þeirra gagnvart óviðkomandi. Þá er tiltekið í ákvæðinu að eftir því sem fært er skuli viðkomandi heimilað að kynna sér gögn á starfsstöð viðkomandi. Ræðst það auðvitað af aðstæðum að hvað marki þessi leið á við.“<br /> <br /> Af framangreindu leiðir að ríkisskattstjóra ber að afhenda gögn á rafrænu formi sem varðveitt eru með þeim hætti ef þess er óskað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi afhent kæranda umbeðin gögn hefur hluti þeirra ekki verið afhentur á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 18. gr. svo sem kærandi fór fram á. Þau gögn sem um ræðir tengjast skráningu raunverulegra eigenda og munu almennt vera varðveitt með rafrænum hætti hjá ríkisskattstjóra, sbr. t.d. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, þar sem segir að málsmeðferð við skráningu upplýsinga um raunverulega eigendur skuli vera rafræn sé þess kostur. <br /> <br /> Af hálfu ríkisskattstjóra hefur því verið borið við að ekki sé unnt að tryggja nægjanlega öryggi þeirra upplýsinga í gögnunum sem undirorpnar eru 9. gr. upplýsingalaga með öðrum hætti en gert var við afgreiðslu á beiðni kæranda, þ.e. með því að prenta gögnin út og afmá handvirkt umræddar upplýsingar og loks skanna þau inn í tölvu áður en þau voru send kæranda. Úrskurðarnefndin tekur fram að vissulega megi fallast á með ríkisskattstjóra að rík skylda hvíli á embættinu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinga sem leynt skulu fara t.d. á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar fær úrskurðarnefndin ekki séð að ríkisskattstjóra hafi verið ómögulegt að grípa til slíkra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinganna en verða jafnframt við beiðni kæranda um afhendingu umræddra gagna á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í samræmi við skýr fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin horfir í því sambandi til þess að algengt er að stjórnvöld afhendi borgurunum gögn á rafrænu formi þar sem afmáðar eru viðkvæmar upplýsingar sem leynt eiga að fara. <br /> <br /> Þá virðist ríkisskattstjóri enn fremur reisa afstöðu sína á verklagsreglum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu setti starfsemi sinni í kjölfar úrskurðar persónuverndar sem upp var kveðinn árið 2015. Þrátt fyrir að efni verklagsreglnanna kunni að hafa almennt leiðsagnargildi við meðferð persónuupplýsinga áréttar úrskurðarnefndin að slíkar verklagsreglur eru ekki bindandi fyrir ríkisskattstjóra og getur efni þeirra þaðan af síður þokað ákvæðum upplýsingalaga varðandi afhendingu gagna.<br /> <br /> Með vísan til þess sem að ofan greinir fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki á að ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta af umbeðnum gögnum á því formi sem þau voru varðveitt á. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ríkisskattstjóra beri að afhenda kæranda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi. Þessi niðurstaða er í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 994/2021 frá 30. mars 2021 þar sem reyndi á sambærileg málsatvik.</p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2020, um að synja beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau eru varðveitt á er felld úr gildi. Ríkisskattstjóra ber að afhenda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi. <br /> <br /> Kæru kæranda varðandi aðgang að gögnum í tengslum við skráningu C ehf. sem gjaldþrota er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Ákvörðun ríkisskattstjóra er að öðru leyti staðfest.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br />

1008/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Deilt var um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um upplýsingar. Kæran laut að því að sveitarfélagið hafi ekki brugðist við erindi kæranda. Af kæru kæranda sem var afar óljós, mátti hvorki ráða að hvaða beiðni kæranda til sveitarfélagsins hún laut né hvenær hún var lögð fram. Með hliðsjón af fjölda beiðna kæranda til sveitarfélagsins og þess að kærandi brást ekki við beiðni úrskurðarnefndarinnar um frekari upplýsingar að hvaða ákvörðun stjórnsýslukæra kæranda beindist í þessu máli, taldi úrskurðarnefndin sér ekki fært að úrskurða hvort um óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðninnar hafi verið að ræða. Var kærunni því vísað frá nefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1008/2021 í máli ÚNU 20110030.<br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, beindi A erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og fór þess á leit við nefndina að félagsþjónustan í Vestmannaeyjum yrði úrskurðuð til að veita umbeðnar upplýsingar. Engin frekari gögn eða upplýsingar fylgdu kærunni. Í því skyni að öðlast gleggri mynd af efni kærunnar ritaði úrskurðarnefndin kæranda bréf, dags. 19. mars 2021, þar sem þess var farið á leit við kæranda að hann skýrði frekar að hverju hún lyti, þ.e. hvort og þá að hvaða ákvörðun sveitarfélagsins hún sneri. Þá var þess óskað að kærandi sendi nefndinni afrit af upplýsingabeiðni sinni til sveitarfélagsins og eftir atvikum svar þess ef það lægi fyrir.<br /> <br /> Þann 12. apríl 2021 barst úrskurðarnefndinni svar kæranda. Í svarinu kom fram að kærandi sendi úrskurðarnefndinni undantekningarlaust afrit af erindum til viðkomandi stjórnvalds. Það væri hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í samræmi við lög. Engar frekari upplýsingar eða gögn fylgdu svarbréfi kæranda.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 5. maí 2021, til Vestmannaeyjabæjar var óskað upplýsinga um hvort sveitarfélaginu hefði borist erindi varðandi félagsþjónustuna í nóvember 2020 og eftir atvikum hvort því hefði verið svarað. Í svari Vestmannaeyjabæjar, dags. sama dag, kom fram að sveitarfélaginu bærust að meðaltali 30 bréf á mánuði frá kæranda. Einhver erindanna vörðuðu félagsþjónustu sveitarfélagsins og því væri nauðsynlegt að vita að hvaða erindi kæran beindist í því skyni að ganga úr skugga um hvort og þá með hvaða hætti honum kynni að hafa verið svarað.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um upplýsingar. Af kæru verður ráðið að hún beinist að því að sveitarfélagið hafi ekki brugðist við erindi kæranda.<br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um það hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða megi. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga leiðir að heimilt er að kæra óhæfilegan drátt á meðferð beiðni um aðgang að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Til þess að úrskurðarnefndinni sé fært að úrskurða um hvort um óhæfilegan drátt á afgreiðslu upplýsingabeiðni sé að ræða þurfa ákveðnar lágmarksupplýsingar að liggja fyrir. Þannig er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar annars vegar um hvenær beiðni kæranda var lögð fram og hins vegar hvort hugsanlega hafi verið brugðist við henni af hálfu sveitarfélagsins. Það leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaga að úrskurðarnefndinni er almennt ekki fært að vísa kæru rakleiðis frá á þeim grundvelli að efni hennar sé ábótavant eða ekki sé ljóst hvað í henni felst. Við þær aðstæður ber nefndinni með vísan til leiðbeiningarreglu 7. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að veita kæranda færi á að bæta úr annmarkanum. Sinni kærandi ekki tilmælum kærustjórnvalds um að bæta úr eða leggja fram nauðsynlegar upplýsingar þrátt fyrir slíkar leiðbeiningar kann nefndinni hins vegar að vera nauðugur sá kostur að vísa málinu frá. <br /> <br /> Eins og fyrr segir er kæra kæranda afar óljós og verður hvorki af henni ráðið að hvaða beiðni kæranda til sveitarfélagsins hún lýtur né hvenær hún var lögð fram. Við meðferð málsins leitaði úrskurðarnefndin eftir frekari upplýsingum hjá kæranda þar sem þess var m.a. óskað að hann legði fram afrit af umræddri beiðni til sveitarfélagsins. Kærandi hefur hins vegar ekki orðið við þeirri beiðni. <br /> <br /> Í svari sveitarfélagsins við beiðni úrskurðarnefndarinnar um frekari upplýsingar kom fram að ekki væri unnt að ganga úr skugga um hvort erindi kæranda hefði verið svarað án þess að vita hvenær það hefði verið lagt fram. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að rengja fullyrðingu sveitarfélagsins um fjölda erinda sem berast frá kæranda í hverjum mánuði. Í ljósi framangreinds liggur ekki fyrir hvenær beiðni kæranda var lögð fram. Af þeim sökum er ekki ljóst hvort henni hafi verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. <br /> <br /> Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki ráðið af gögnum málsins að hvaða ákvörðun stjórnsýslukæra kæranda beinist í þessu máli. Þar sem kærandi hefur ekki upplýst úrskurðarnefndina um þetta atriði, þrátt fyrir beiðni þar um, er henni ekki fært að úrskurða um hvort um óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðninnar sé að ræða. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin tekur fram að kæranda er að sjálfsögðu fært að leita til nefndarinnar á ný með kæru, ásamt nauðsynlegum gögnum, vegna afgreiðslutafa Vestmannaeyja á beiðni kæranda sé þeim til að dreifa. </p> <h2>Úrskurðarorð</h2> <p style="text-align: justify;">Kæru kæranda, dags. 25. nóvember 2020, sem lýtur að afgreiðslutöfum Vestmannaeyjabæjar er vísað frá úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> </p>

1007/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

A, fréttamaður kærði ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni hans um aðgang að stefnu. Úrskurðarnfendin taldi að þar sem stefnan var ekki hluti af gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðun um skipun í embætti yrði synjun um aðgang að henni ekki með beinum hætti reist á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þá taldi nefndin þær upplýsingar sem fram komu í stefnunni og þegar höfðu verið birtar opinberlega í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 10/2008, ekki verða felldar undir 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin lagði fyrir ríkislögmann að veita kæranda aðgang að umræddri stefnu, en þó skyldi afmá ákveðnar upplýsingar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1007/2021 í máli ÚNU 20120018. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 16. desember 2020, kærði A, fréttamaður RÚV, ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni hans um aðgang að stefnu í máli E-5061/2020, íslenska ríkið gegn&nbsp; B. <br /> <br /> Kærandi beindi beiðni um afhendingu stefnunnar upphaflega til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, með bréfi, dags. 16. nóvember 2020. Ráðuneytið fól embætti ríkislögmanns að svara erindinu. Með bréfi, dags. 16. desember 2020, synjaði ríkislögmaður beiðni kæranda m.a. á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir samþykki stefndu í málinu fyrir því að stefnan yrði afhent. Ríkislögmaður teldi ljóst að málið varðaði einkamálefni einstaklings sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Það væri einnig afstaða embættisins að ekki væri hægt að veita aðgang að hluta skjalsins þar sem viðkvæmar upplýsingar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga kæmu fram svo víða í skjalinu. Jafnframt er vísað til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Ríkislögmaður lýsti jafnframt þeirri afstöðu sinni að upplýsingalög giltu ekki um gögn sem lögð væru fram í dómi og væru í vörslu dómstóla, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingaga. Um afhendingu upplýsinganna færi eftir 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og reglum dómstólasýslunnar nr. 9/2018, um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá héraðsdómstólum. Þá var vísað til þess að héraðsdómari hefði þegar synjað beiðni um afhendingu stefnunnar.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi sé ósáttur við svar ríkislögmanns við beiðninni og óski eftir að kæra niðurstöðu embættisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt ríkislögmanni með bréfi, dags. 21. desember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn ríkislögmanns, dags. 13. janúar 2021, kemur fram að mál þetta komi til vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020 frá 27. maí 2020. Þar taldi kærunefndin að mennta- og menningarmálaráðherra hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun í embætti ráðuneytisstjóra. Fyrir liggi að sambærilegri beiðni hafi verið synjað af Héraðsdómi Reykjavíkur en dómarinn hafði áður borið beiðnina undir lögmann stefndu sem lagðist gegn afhendingu. Synjun embættis ríkislögmanns sé í fyrsta lagi byggð á 9. gr. upplýsingalaga. Embættið telji ljóst að málið varði einkamálefni einstaklings sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Þá liggi fyrir að stefnda leggist gegn afhendingu stefnunnar en embættið bar framkomna beiðni undir lögmann stefndu á nýjan leik. Málið varði umsókn um opinbert embætti. Í umsóknarferlinu var fjallað með ítarlegum hætti um starfsferil stefndu, menntun o.fl. Enda þótt úrskurður kærunefndar hafi verið birtur sé á það að líta að nöfn hafi þar verið afmáð. Sé því ekki hægt að líta svo á að upplýsingar um stefndu hafi verið gerðar opinberar. Í ljósi eðlis upplýsinganna sé það afstaða ríkislögmanns að óheimilt sé að veita aðgang að stefnunni. Þá vísar embættið einnig til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf. Ljóst sé að þær upplýsingar sem fram komi í stefnu séu langt umfram slíkar upplýsingar.<br /> <br /> Þá segir að ríkislögmaður hafi tekið afstöðu til þess hvort unnt væri að veita aðgang að hluta skjalsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Það er hins vegar afstaða ríkislögmanns að upplýsingar sem njóti verndar samkvæmt 7. og 9. gr. upplýsingalaga komi fram svo víða í skjalinu að ekki sé unnt að veita aðgang að því. <br /> <br /> Loks er áréttuð fyrri afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem eru hluti af málsskjölum í dómsmáli, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Ríkislögmaður telur að ákvæði réttarfarslaga gildi um aðgang aðila og annarra að slíkum gögnum. Af ákvæði 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiði m.a. að óheimilt sé að afhenda öðrum en þeim sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta eftirrit málsskjala á meðan mál er rekið fyrir dómi. Embættið telur einsýnt að sá sem ekki eigi rétt á að dómstólar veiti honum aðgang að málsgagni í máli sem rekið er fyrir dómi geti ekki öðlast rétt til aðgangs að málsgagninu eftir krókaleiðum. Að öðru leyti er vísað til fyrri afstöðu embættisins í umsögnum þess í eldri málum sem lokið hefur með úrskurðum í málum nr. 885/2020, 886/2020 og 928/2020.<br /> <br /> Umsögn ríkislögmanns var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að stefnu íslenska ríkisins á hendur stefndu, B, í máli E-5061/2020. <br /> <br /> Í umsögn ríkislögmanns vegna kærunnar er áréttuð fyrri afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem eru hluti af málsskjölum í dómsmáli, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Um aðgang að slíkum gögnum fari samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin taki til dómstóla og dómstólasýslunnar að frátöldum ákvæðum V.-VII. kafla. Lögin gildi þó ekki um gögn í vörslu þeirra um meðferð einstakra dómsmála og endurrit úr dómabók, gerðabók og þingbók.<br /> <br /> Þrátt fyrir að ekki verði séð að synjun ríkislögmanns í máli þessu sé beinlínis reist á þessari afstöðu telur úrskurðarnefndin engu að síður rétt að vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 885/2020, 886/2020 og 928/2020 um að ekki standi rök til þess að telja skjöl í vörslum stjórnvalda eða aðila sem falla undir 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga undanþegin gildissviði laganna þegar af þeirri ástæðu að þau hafi verið lögð fram í dómsmáli. Í úrskurðunum er vakin athygli á því að ef fallist væri á gagnstæða túlkun myndi það hafa í för með sér að réttur almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum en dómstólum sem féllu undir upplýsingalög yrði í reynd óvirkur um leið og sömu gögn yrðu lögð fyrir dóm í einkamáli.<br /> <br /> Með vísan til þessa er leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum er greinir í 6.-10. gr. laganna. <br /> <br /> 2.<br /> Ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni kæranda er fyrst og fremst reist á 9. gr. upplýsingalaga. Þá er vísað til þess að stefnda í málinu sé auk þess mótfallin afhendingu stefnunnar. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki þess sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“<br /> <br /> Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari segir í athugasemdunum:<br /> <br /> „Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“<br /> <br /> Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir þeirra sem um er fjallað í stefnunni af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við það mat verður að hafa í huga það meginmarkmið laganna að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni. Þá er tiltekið í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að ef ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið stefnuna sem beiðni kæranda lýtur að. Í stefnunni er þess krafist að úrskurður kærunefndar jafnréttismála frá 27. maí 2020 í máli nr. 6/2020 verði felldur úr gildi. Með úrskurðinum komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að mennta- og menningarmálaráherra hefði við skipun í embætti ráðuneytisstjóra brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 en stefnda var á meðal umsækjenda um embættið. Nánar tiltekið var það niðurstaða kærunefndarinnar að stefnda, sem kærði skipunina til kærunefndarinnar, hefði leitt nægar líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns við skipunina þannig að beita bæri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt því kom það í hlut ráðherra að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Að mati kærunefndarinnar tókst sú sönnun ekki af hálfu ráðherra.<br /> <br /> Úrskurðurinn var birtur opinberlega á vef Stjórnarráðsins í samræmi við 8. mgr. 5. gr. þágildandi laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í úrskurðinum er öllum málsatvikum lýst og málsástæður og röksemdir stefndu raktar. Nöfn einstaklinga eru afmáð í hinum birta úrskurði en í ljósi ítarlegrar lýsingar í úrskurðinum á starfsferli kæranda og þess umsækjanda sem skipaður var í embættið er auðvelt að bera kennsl á hver kærandi og sá sem skipaður var eru. Að öðru leyti þá var kveðið á um það í lokamálslið 4. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 10/2008 að fara skyldi með gögn sem vörðuðu laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga fyrir nefndinni sem trúnaðarmál. Rétt er að taka fram að eftir að ríkislögmaður synjaði beiðni kæranda kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í málinu þann 5. mars 2021, sbr. mál nr. E-5061/2020. Í dóminum er málsatvikum lýst sem og dómkröfum íslenska ríkisins sem snúa m.a. að ógildingu umrædds úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Þannig hafa nöfn stefndu sem og þess einstaklings sem skipaður var í embætti ráðuneytisstjóra og fjallað var um í úrskurði kærunefndarinnar og stefnu íslenska ríkisins nú verið birt opinberlega, með lögmætum hætti, samhliða kröfum íslenska ríkisins um ógildingu umrædds úrskurðar kærunefndarinnar.<br /> <br /> Eins og að framan er rakið lýtur mál þetta að því hvort almenningur eigi rétt á að kynna sér efni stefnu í dómsmáli sem varðar lögmæti úrskurðar kærunefndar jafnréttismála þar sem fjallað er um ákvörðun ráðherra um skipun í opinbert embætti og þar með ráðstöfun mikilvægra opinberra hagsmuna. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga hefur nefndin horft til þess að almennt sé ekki hægt að líta svo á að upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar með lögmætum hætti séu upplýsingar um einkamálefni sem óheimilt sé að greina frá, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 11. september 2017 í máli nr. 704/2017, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis frá 9. febrúar 2009 í máli nr. 5142/2007. Þar af leiðandi getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að þær upplýsingar sem fram koma í stefnunni og þegar höfðu verið birtar opinberlega í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 10/2008 þegar ríkislögmaður synjaði beiðni kæranda um aðgang séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Það er því niðurstaða nefndarinnar að þær upplýsingar sem þegar hafa verið birtar með slíkum hætti verði ekki felldar undir 9. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í stefnunni er hins vegar einnig að finna upplýsingar sem ekki eru reifaðar í úrskurði kærunefndarinnar og bera það með sér að vera unnar upp úr gögnum og upplýsingum sem aflað var í tengslum við skipunarferlið og lágu til grundvallar ákvörðun ráðherra um skipun í embætti ráðuneytisstjóra. Eins og áður segir byggir ríkislögmaður synjun sína m.a. á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem segir að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf. Úrskurðarnefndin tekur fram að stefnan er ekki hluti af gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðun um skipun í embættið og verður synjun um aðgang að henni því ekki með beinum hætti reist á 1. mgr. 7. gr. laganna. <br /> <br /> Hvað sem því líður verður við mat á því hvort rétt sé að halda upplýsingum leyndum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga að meta hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt gagnvart þeim einstaklingum sem upplýsingarnar varða, að þær lúti leynd. Við það mat telur úrskurðarnefndin að horfa verði til þess að með áðurnefndu ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga hefur Alþingi ákveðið að upplýsingar og gögn sem lúta að umsóknum um starf skuli undanþegnar upplýsingarétti almennings. Af þeim sökum telur úrskurðarnefndin að umsækjendur um opinber störf og embætti eigi almennt að geta vænst þess að upplýsingar sem til verða við undirbúning ákvarðana um veitingu starfa og embætta verði ekki gerðar opinberar. <br /> <br /> Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefndin á að sanngjarnt sé og eðlilegt að afmá upplýsingar sem fram koma í málsgreinum 55 og 56 á blaðsíðu 14 í stefnunni og upplýsingar sem fram koma í línu 14 og áfram í málsgrein 59 á blaðsíðu 15 í stefnunni en þar er að finna beinar tilvitnanir í umsögn hæfnisnefndar þar sem frammistöðu umsækjenda í viðtölum var lýst. Með sömu rökum telur úrskurðarnefndin rétt að afmá úr stefnunni nöfn og umfjöllun um aðra umsækjendur en stefndu og þann umsækjanda sem skipaður var í embættið. Þó ber ekki að afmá upptalningu á umsækjendum sem fram kemur í málsgrein 6 í stefnunni á blaðsíðu 3 en samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er skylt að veita upplýsingar um umsækjendur um opinbert starf.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Embætti ríkislögmanns er skylt að veita kæranda, A, fréttamanni RÚV aðgang að stefnu í máli íslenska ríkisins gegn B í máli E-5061/2020. Þó er skylt að afmá eftirfarandi upplýsingar: <br /> <br /> 1. Upplýsingar sem fram koma í málsgreinum 54 og 55 á blaðsíðu 14 í stefnunni.<br /> 2. Upplýsingar sem fram koma í línu 14 og áfram í málsgrein 59 á blaðsíðu 15 í stefnunni.<br /> 3. Nöfn og umfjöllun um aðra umsækjendur en stefndu og þann umsækjanda sem skipaður var í embættið<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br />

1006/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

A, fréttamaður, kærði synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012, á þeim grundvelli að takmarkanir á aðgangi gagnsins skv. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga hefðu fallið niður að átta árum liðnum frá því að það varð til, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Forsætisráðuneytið synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að skv. lokamálsl. 3. mgr. 36. gr. laganna taki umrætt ákvæði aðeins til gagna sem verða til eftir gildistöku upplýsingalaga, þ.e. frá og með 1. janúar 2013. Úrskurðarnefndin taldi ljóst að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga tæki ekki til umbeðins gagns og staðfesti synjun forsætisráðuneytisins á beiðni kæranda.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1006/2021 í máli ÚNU 21020006. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p>Með erindi, dags. 1. febrúar 2021, kærði A á fréttastofu RÚV synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012.</p> <p >Með erindi, dags. 4. janúar 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012 á þeim grundvelli að takmarkanir á aðgangi gagnsins samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hefðu fallið niður að átta árum liðnum frá því það varð til, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Forsætisráðuneytið synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 20. janúar 2021, með vísan til þess að samkvæmt lokamálsl. 3. mgr. 36. gr. laganna taki umrætt ákvæði aðeins til gagna sem verða til eftir gildisstöku upplýsingalaga, þ.e. frá og með 1. janúar 2013. Þar sem fundargerð ríkisráðs hafi verið rituð 31. desember 2012 og gagnið þar með orðið til á þeim degi falli umbeðið gagn ekki undir 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga og fari því um aðgang að því á grundvelli 1. tölul. 6. gr. sömu laga. <br /> <br /> Með erindi, dags. 20. janúar 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins um þetta tiltekna mál. Með bréfi, dags. 29. janúar 2021, synjaði ráðuneytið beiðni kæranda með vísan til þess að yfirlit yfir gögn máls væru jafnframt undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi telji synjun ráðuneytisins stangast á við 12. gr. upplýsingalaga um brottfall takmarkana á upplýsingarétti. Í synjun ráðuneytisins sé vísað til þess að ákvæðið hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2013. Kærandi bendi á að hvergi komi fram að ákvæðið gildi einungis um gögn sem orðið hafi til eftir gildistöku laganna. Þá gerir kærandi athugasemdir við að ráðuneytið hafi synjað beiðni hans um aðgang að yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins varðandi umrætt mál. Kærandi fái þannig engar sönnur fyrir því að fundargerðin hafi raunverulega verið skráð í málaskrá ráðuneytisins 31. desember 2012.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt forsætisráðuneytinu með bréfi, dags. 15. febrúar 2021, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn ráðuneytisins, dags. 3. febrúar 2021, kemur fram að samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga taki réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafi verið saman fyrir slíka fundi. Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna komi fram að veita skuli aðgang að gögnum sem m.a. falli undir framangreinda undanþáguheimild þegar átta ár eru liðin frá því þau urðu til. Samkvæmt gildistökuákvæði upplýsingalaga, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 36. gr. laganna, eigi ákvæðið hins vegar aðeins við um þau gögn sem verði til eftir gildistöku laganna. Um eldri gögn gildi því almenna reglan um að aðgangstakmarkanir falli niður að 30 árum liðnum, sbr. 2. mgr. 12. gr., sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. laganna. Umrædd fundargerð hafi verið rituð á fundi ríkisráðs hinn 31. desember 2012 og sé jafnframt dagsett þann dag. Þá liggi fyrir að upplýsingalög tóku gildi 1. janúar 2013. Loks kemur fram að eftir að kæran barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi forsætisráðuneytið veitt kæranda aðgang að yfirliti yfir gögn málsins úr málaskrá ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Umsögn forsætisráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. febrúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">1.<br /> Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012. Forsætisráðuneytið byggir á því að ekki sé skylt að verða við beiðni kæranda á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um brottfall takmarkana þar sem ákvæðið taki ekki til gagna sem urðu til fyrir gildistöku upplýsingalaga 1. janúar 2013. Þá lýtur kæran að synjun ráðuneytisins á beiðni hans um afhendingu yfirlits yfir gögn málsins í málaskrá ráðuneytisins. <br /> <br /> Í umsögn forsætisráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að kæranda hafi við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni verið veittur aðgangur að umbeðnu yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins. Nefndin fær ekki séð að ágreiningur sé uppi um þennan þátt málsins. <br /> <br /> Meginreglan um upplýsingarétt almennings kemur fram í ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem segir að þeim sem falla undir gildissvið upplýsingalaganna sé, ef þess er óskað, skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr.<br /> <br /> Í 6. gr. upplýsingalaga er fjallað um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti. Í 1. tölul. ákvæðisins segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum nái ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga segir að ef aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi ekki við skuli veita aðgang að gögnum sem 1.-3. tölul. og 5. tölul. 6. gr. taka til þegar liðin eru átta ár frá því þau urðu til. Í ákvæðinu er þannig sérstaklega kveðið á um að tilteknar takmarkanir á aðgangsrétti almennings samkvæmt upplýsingalögum skuli tímabundnar, m.a. takmarkanir á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í 3. málsl. 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um gildistöku upplýsingalaga segir hins vegar að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna eigi aðeins við um þau gögn sem orðið hafa til eftir gildistöku upplýsingalaga þ.e. 1. janúar 2013. Af ákvæðinu leiðir að um brottfall takmarkana á aðgangsrétti að gögnum sem urðu til fyrir gildistöku upplýsingalaga fer samkvæmt 2. mgr. 12. gr. upplýsinglaga en þar segir að um brottfall annarra takmarkana fari eftir ákvæðum laga um opinber skjalasöfn eftir að liðin eru 30 ár frá því gögnin urðu til, sbr. 4. mgr. 4. gr. Að þeim tíma liðnum fer þannig um upplýsingarétt almennings hjá opinberu skjalasafni samkvæmt V. kafla laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér umrædda fundargerð sem dagsett er með skýrum hætti 31. desember 2012. Með hliðsjón af því og umsögn ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að umrætt gagn hafi orðið til þann dag og þar með degi áður en upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi þann 1. janúar 2013. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga taki ekki til umbeðins gagns. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að staðfesta synjun forsætisráðuneytisins á beiðni kæranda. </p> <h2>Úrskurðarorð</h2> Ákvörðun forsætisráðuneytisins, dags. 20. janúar 2021, um að synja kæranda um aðgang að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012 er staðfest.<br /> <br /> <br /> <br /> Kjartan Bjarni Björgvinsson<br /> varaformaður<br /> <br /> <br /> Elín Ósk Helgadóttir Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br />

1005/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar nr. 973/2021 var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku ekki uppfyllt og að ekki væru rökstuddar vísbendingar um að á úrskurðinum væru verulegir annmarkar að lögum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1005/2021 í máli ÚNU 21040005.<br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með erindi, dags. 9. apríl 2021, fór A fram á endurupptöku máls ÚNU 20110015 sem lauk þann 5. febrúar 2021 með úrskurði nr. 973/2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun prófnefndar um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður um að synja beiðni kæranda um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum sem lögð voru fyrir árin 2014 – 2020. Í úrskurðinum var á því byggt að þrátt fyrir að ekki væri víst að öll prófin yrðu notuð á öllum námskeiðum framvegis teldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál ljóst að þau yrðu lögð fyrir með svo reglubundnum hætti að hætta væri á að þau yrðu þýðingarlaus ef þau yrðu afhent, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Í erindi kæranda, dags. 9. apríl 2021, er athygli úrskurðarnefndarinnar vakin á því að í úrskurði nefndarinnar nr. 973/2021 komi ranglega fram að athugasemdir kæranda við umsögn prófnefndarinnar hafi ekki borist á meðan málið var til meðferðar hjá nefndinni. Þvert á móti hafi kærandi sent athugasemdir með tölvupósti, dags. 17. desember 2020, í tilefni af umsögn prófnefndar. Kærandi telur ljóst að mistök hafi átt sér stað við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni sem hafi leitt til þess að andmælaréttur kæranda hafi verið að engu hafður. Af þeim sökum telur kærandi úrskurðinn ógildanlegan og fer þess á leit við úrskurðarnefndina að hún taki málið til meðferðar að nýju með hliðsjón af framangreindum athugasemdum kæranda. <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 973/2021 að staðfesta ákvörðun prófnefndar um að synja kæranda um aðgang að munnlegum prófum sem lögð voru fyrir á námskeiði til öflunar réttinda til að flytja mál fyrir héraðsdómi árin 2014-2020.<br /> <br /> Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að úrskurðurinn sé ógildanlegur þar sem andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur en í úrskurðinum komi ranglega fram að athugasemdir kæranda hafi ekki borist vegna umsagnar prófnefndarinnar. Hið rétta sé að kærandi hafi sent úrskurðarnefndinni athugasemdir með tölvupósti, dags. 17. desember 2020. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að nefndinni bárust athugasemdir kæranda við umsögn prófnefndarinnar með tölvupósti, dags. 17. desember 2020, svo sem fram kemur í erindi kæranda og var höfð hliðsjón af þeim við meðferð málsins. Mistök ollu því hins vegar að þess var ekki getið í úrskurðinum.<br /> <br /> Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:<br /> <br /> „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:<br /> <br /> 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br /> 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“<br /> <br /> Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál komst nefndin sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri ákvörðun prófnefndar um að synja beiðni kæranda um aðgang að prófverkefnum, að undanskildum eldri verkefnum sem ekki væri fyrirhugað að leggja fyrir á nýjan leik og prófnefnd hafði í umsögn sinni fallist á að veita bæri aðgang að. Niðurstaðan byggði á því að þrátt fyrir að ekki væri víst að öll prófin yrðu notuð á öllum námskeiðum framvegis teldi úrskurðarnefndin ljóst að þau væru lögð fyrir með svo reglubundnum hætti að hætta væri á að þau yrðu þýðingarlaus yrðu þau afhent, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Sem fyrr segir er beiðni kæranda um endurupptöku málsins reist á því að andmælaréttur hafi ekki verið virtur gagnvart kæranda við meðferð málsins. Eins og fram hefur komið bárust úrskurðarnefndinni umræddar athugasemdir kæranda og var höfð hliðsjón af þeim við úrlausn málsins. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að þessi mistök leiði ekki til þess að andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin enda var höfð hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem kærandi annars vegar færði fram í kæru og hins vegar í athugasemdum við umsögn prófnefndar sem bárust úrskurðarnefndinni á meðan á meðferð málsins stóð. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiða framangreind mistök því ekki til þess að úrskurður nr. 973/2021 sé byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Í ljósi atvika málsins taldi úrskurðarnefndin engu að síður rétt að fara á ný yfir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum kæranda, dags. 17. desember 2020, í því skyni að taka afstöðu til þess hvort þar kæmu fram sjónarmið sem leiddu til þess að skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi. Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að svo væri ekki. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar er úrskurður nr. 973/2021 ekki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 973/2021 frá 5. febrúar 2021.<br /> <br /> <br /> Úrskurðarorð:<br /> Beiðni A dags. 9. apríl 2021, um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 973/2021 frá 5. febrúar 2021, er hafnað.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br />

1004/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Deilt var um þá ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins að synja beiðni kæranda um aðgang að bréfi sem settur ríkisendurskoðandi sendi ráðuneytinu í tengslum við athugun á starfsemi Lindarhvols ehf. Ákvörðun ráðuneytisins var byggð á ákvæði 3. mgr. 15. gr., sbr. 14. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Úrskurðarnefnd taldi ákvæðið fela í sér sérstaka þagnarskyldureglu sem takmarkaði upplýsingarétt almennings, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Nefndin taldi óumdeilt að bréfið hefði verið sent í tengslum við athugun ríkisendurskoðanda á starfsemi félagsins og það merkt sem trúnaðarmál. Bréfið væri því undirorpið sérstakri þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Var synjun ráðuneytisins því staðfest að þessu leyti. Hins vegar féllst úrskurðarnefndin ekki á að svarbréf Lindarhvols ehf. til ríkisendurskoðanda félli undir ákvæðið og var lagt fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar varðandi svarbréfið.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1004/2021 í máli ÚNU 20120021.<br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 17. desember 2020, kærði A afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni félagsins um aðgang að gögnum. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 8. október 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að bréfi setts ríkisendurskoðanda og öðrum erindum og bréfum sem kynnu að hafa verið send til ráðuneytisins í tengslum við sama mál. Nánar tiltekið laut beiðnin að bréfi frá settum ríkisendurskoðanda til Lindarhvols ehf., dags. 4. janúar 2018, sem jafnframt var sent ráðuneytinu. Jafnframt var óskað eftir afriti af svörum stjórnar Lindarhvols ehf. við bréfi setts ríkisendurskoðanda, sem og öðrum erindum sem kynnu að hafa verið send til ráðuneytisins í tengslum við sama mál. <br /> <br /> Beiðni kæranda var svarað með bréfi, dags. 18. nóvember 2020, þar sem fram kom að ráðuneytið hefði kannað hvaða gögn væru fyrirliggjandi sem féllu undir beiðni kæranda og þau væru annars vegar bréf setts ríkisendurskoðanda, dags. 4. janúar 2018, undir yfirskriftinni „Vinnuskjal ekki til dreifingar“ og hins vegar svarbréf stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 17. janúar 2018. Í svari ráðuneytisins kom fram að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga væru drög að skýrslum og gögnum sem væru hluti af máli sem ríkisendurskoðandi hygðist kynna Alþingi, sem send hefðu verið aðilum til kynningar eða umsagnar, undanþegin aðgangi almennings. Í sömu málsgrein segði að ríkisendurskoðandi gæti ákveðið að gögn sem hefðu verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stæði yrðu ekki aðgengileg. Erindi setts ríkisendurskoðanda félli undir framangreind ákvæði og því væri ráðuneytinu ekki heimilt að veita aðgang að því. Að sama skapi væru efnisatriði erindisins tekin upp í svari Lindarhvols og því teldi ráðuneytið ekki heimilt að veita aðgang að því. <br /> <br /> Í kæru er vísað til athugasemda við 3. mgr. 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 46/2016 þar sem vísað er til þess að þegar athugun ríkisendurskoðanda sé lokið reyni á aðgangsrétt samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins en þar segir að um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun sem orðið hafa til í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsaðila fari eftir ákvæðum upplýsingalaga. Að mati kæranda taki þessi lögskýringargögn af allan vafa um þann skilning löggjafans að þær takmarkanir sem tilgreindar séu í 3. mgr. 15. gr. laganna falli úr gildi þegar athugun ríkisendurskoðanda sé lokið og eftir það byggist upplýsingarétturinn á ákvæðum upplýsingalaga. Með vísan til þessa telji kærandi að um rétt hans til aðgangs að umbeðnum gögnum fari eftir ákvæðum upplýsingalaga. Í kæru kemur fram sú afstaða að umbeðin gögn geti ekki talist vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga enda um að ræða gagn sem sent hafi verið öðrum aðila. Þá sé óumdeilt að ráðuneytið hafi fengið umrædd gögn send án þess að vera eftirlitsaðili Lindarhvols ehf. Af því leiði að ráðuneytið geti ekki byggt synjun sína á þeirri röksemd.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu, með bréfi, dags. 21. desember 2020, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Umsögn ráðuneytisins barst með bréfi, dags. 4. janúar 2021, þar sem fram kemur að ráðuneytið telji ótvírætt að um undirbúningsgögn sé að ræða, þ.e. annars vegar gögn sem hafi verið send stjórnvöldum meðan á athugun Ríkisendurskoðunar á tilteknu máli stóð, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, og hins vegar gögn sem rituð hafi verið til undirbúnings máls af hálfu Lindarhvols ehf. í þágu setts ríkisendurskoðanda, og afhent á grundvelli lagaskyldu. Sú lagaskylda komi fram í III. kafla laga nr. 46/2016 hvað ríkisendurskoðanda varðar og hvað ráðuneytið varðar í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í þágildandi lögum um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001, sbr. breytingarlög nr. 24/2016. Þá er í umsögninni vísað til þess að í svari ráðuneytisins til kæranda hafi ráðuneytið bent á að 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 taki til gagna sem ríkisendurskoðandi hafi ákvarðað sérstaklega að „verði ekki aðgengileg“ líkt og segi í ákvæðinu, sem og gagna sem hafi að geyma sömu upplýsingar. Þær upplýsingar sem ráðuneytinu sé óheimilt að veita aðgang að samkvæmt ákvæðinu komi fram svo víða í svari Lindarhvols ehf. að ekki séu forsendur eða ástæða til að veita aðgang að svarinu að hluta. Þá segir í umsögninni að við túlkun á 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 verði að líta til sjónarmiða að baki lögunum um mikilvægi þess að Ríkisendurskoðun hafi aðgang að upplýsingum og geti átt samráð og samstarf við stjórnvöld til þess að mál séu tilhlýðilega upplýst. Jafnframt til þess að afrakstur þeirra athugana sem stofnunin ræðst í sé birtur almenningi, bæði forsendur og niðurstaða sem og ágrip af þeim upplýsingum sem byggt er á. Niðurstaða athugunarinnar sem hin umbeðnu gögn varði hafi verið birt á vef Ríkisendurskoðunar í apríl 2020. <br /> <br /> Í umsögn ráðuneytisins er vikið að því að í kæru sé vísað til athugasemda við 3. mgr. 15. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 46/2016 þar sem fram komi að eftir að athugun ríkisendurskoðanda sé lokið reyni á aðgangsrétt samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Í umsögninni kemur fram að ummælin í athugasemdunum samræmist ekki fortakslausu orðalagi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016. Ráðuneytið vísar til þess að með 1. og 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. sé kveðið á um að almennt séu engin gögn aðgengileg fyrr en eftir að Alþingi hefur fengið gögnin afhent og að drög sem send hafi verið til kynningar og umsagnar séu alfarið undanþegin aðgangi almennings. Þessu til viðbótar sé heimild fyrir ríkisendurskoðanda til að ákvarða að tiltekin gögn sem send hafa verið stjórnvöldum við meðferð máls verði ekki aðgengileg. Það sé mat ráðuneytisins að sú túlkun sem fram komi í framangreindum athugasemdum við 3. mgr. 15. gr. um að ákvörðun ríkisendurskoðanda um að gögn sem hafi verið send stjórnvöldum verði ekki aðgengileg falli úr gildi að lokinni athugun rúmist ekki innan texta ákvæðisins. Nær sé að telja að tilvísun til þess að þegar athugun sé lokið reyni á aðgangsrétt samkvæmt 2. mgr. 15. gr. eigi við um gögn samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. þ.e. skýrslur, greinargerðir og önnur gögn, t.d. minnisblöð eða ábendingar sem ríkisendurskoðandi hyggist kynna Alþingi.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 11. janúar 2021, var kæranda veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum í ljósi umsagnar fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í athugasemdum kæranda, dags. 22. janúar 2021, er áréttuð sú afstaða kæranda að þær takmarkanir sem tilgreindar eru í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 falli úr gildi þegar athugun ríkisendurskoðanda sé lokið og að þeim tíma liðnum fari um upplýsingarétt samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Komi úrskurðarnefndin hins vegar til með að fallast á sjónarmið ráðuneytisins um að heimilt sé að undanskilja bréfin frá upplýsingaskyldu gagnvart almenningi með sérstakri auðkenningu telji kærandi að slík auðkenning þurfi að vera skýr og hafinn yfir allan vafa. Þá er vísað til þess að hvergi komi fram að svarbréf Lindarhvols, dags. 4. janúar 2018, hafi verið sérstaklega merkt sem vinnuskjal. Af þeim sökum eigi kærandi rétt til aðgangs að bréfinu.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að annars vegar bréfi setts ríkisendurskoðanda til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 4. janúar 2018, og hins vegar svarbréfi Lindarhvols ehf. til setts ríkisendurskoðanda, dags. 17. janúar 2018.<br /> <h3>2.</h3> Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um synjun beiðni kæranda um að afhenda bréf setts ríkisendurskoðanda til Lindarhvols ehf. er einkum reist á því að umrætt gagn falli undir 3. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. <br /> <br /> Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012. Kemur því til athugunar úrskurðarnefndarinnar hvort þau lagaákvæði feli í sér sérstaka þagnarskyldureglu sem takmarkar upplýsingarétt almennings.<br /> <br /> Ríkisendurskoðandi er sjálfstæð eftirlitsstofnun sem starfar á vegum Alþingis í samræmi við ákvæði 43. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Það er hlutverk ríkisendurskoðanda að hafa í umboði Alþingis eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Í IV. kafla laganna eru málsmeðferðar¬reglur þar sem fram koma ákvæði um þagnarskyldu, hæfi, umsagnarrétt og aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun er fjallað í 15. gr. laganna. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef óskað er aðgangs að gögnum sem hafa orðið til í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsskylds aðila fari um aðgang að þeim hjá Ríkisendurskoðun eftir ákvæðum upplýsingalaga. <br /> <br /> Í 3. mgr. er að finna takmarkanir á framangreindum upplýsingarétti almennings. Þar segir í 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hafi útbúið og séu hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent. Frá þessari reglu eru tvær undantekningar sem annars vegar er að finna í 2. málsl. sömu málsgreinar þar sem segir að drög að slíkum gögnum sem send hafi verið aðilum til kynningar eða umsagnar séu ekki aðgengileg. Hins vegar segir í 3. málsl. að ríkisendurskoðandi geti ákveðið að gögn sem hafa verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur verði ekki aðgengileg. <br /> <br /> Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess sem síðar varð að lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, segir m.a. eftirfarandi um 3. málsl. 3. mgr. 15. gr.:<br /> <br /> „Loks er í þriðja lagi lagt til að ríkisendurskoðandi geti ákveðið að önnur gögn, sem til hafa orðið við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur, verði ekki aðgengileg. Hér getur verið um að ræða ýmis gögn, m.a. vinnugögn sem send hafa verið aðila um fyrirhugaða athugun á starfsemi hans og bréfaskipti þar að lútandi, óháð því hvort um er að ræða skýrslu til Alþingis eða undirbúning hennar. Í framkvæmd er rétt að gera ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi auðkenni sérstaklega þau gögn sem eru undanþegin samkvæmt greininni þannig að þau haldi stöðu sinni við afhendingu þeirra til annarra aðila. Mikilvægt er að ríkisendurskoðandi fái nauðsynlegt ráðrúm til þess að vinna að athugunum sínum og að opinberum hagsmunum verði ekki raskað ef upplýsingar verða t.d. gerðar aðgengilegar á rannsóknarstigi. Þegar athugun ríkisendurskoðanda er lokið reynir á aðgangsréttinn skv. 2. mgr.“<br /> <br /> Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 827/2020 var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 væri sérstakt þagnarskylduákvæði. Í því máli reyndi á rétt kæranda til aðgangs að drögum að greinargerð sem hafði verið afhent stjórnvöldum á grundvelli lagaskyldu þar að lútandi samkvæmt þeirri undanþágu frá aðgangsrétti almennings sem kveðið er á um í 2. málsl. ákvæðisins. Ákvæði 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga ber heitið: Aðgangur að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Eins og fjallað var um í framangreindum úrskurði verður dregin sú ályktun af 3. mgr. ákvæðisins að hún taki fremur til þeirra gagna sem þar falla undir en þess aðila sem hefur þau gögn í fórum sínum, þ.e. ákvæðið taki til gagnsins sjálfs án tillits til þess hvar gagnið er að finna. Á það eðli málsins samkvæmt jafnframt við um þau gögn sem ríkisendurskoðandi hefur ákveðið að undanskilja aðgangsrétti, skv. 3. málsl. 3. mgr. ákvæðisins. Þannig er því stjórnvaldi sem veitir gögnum viðtöku frá ríkisendurskoðanda sem auðkennd hafa verið með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu óheimilt að verða við beiðni um aðgang að þeim. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að líta beri á 3. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 sem sérstakt þagnarskylduákvæði.<br /> <br /> Óumdeilt er að bréf setts ríkisendurskoðanda til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 4. janúar 2018, var sent ráðuneytinu í tengslum við athugun setts ríkisendurskoðanda á starfsemi Lindarhvols ehf. sem til stóð að kynna Alþingi. Með bréfinu fór settur ríkisendurskoðandi þess á leit við ráðuneytið að það hlutaðist til um að Lindarhvoll ehf. svaraði efnislega fyrirspurnum setts ríkisendurskoðanda. Skjalið er merkt af settum ríkisendurskoðanda sem „vinnuskjal ekki til dreifingar“. Samkvæmt framangreindu er bréfið undirorpið sérstakri þagnarskyldu 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.<br /> <br /> Í kæru er því haldið fram að umrædd undanþága frá upplýsingarétti almennings sem kveðið er á um í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 falli niður þegar ríkisendurskoðandi hefur lokið athugun sinni og fari þá um upplýsingarétt eftir ákvæðum upplýsingalaga. Í því sambandi er vísað til 2. mgr. 15. gr. laganna og þess sem fram kemur í framangreindum athugasemdum við 3. mgr. 15. gr.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin telur rétt að árétta að með 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. er kveðið á um þá meginreglu að skýrslur, greingargerðir og önnur gögn ríkisendurskoðanda verði fyrst aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent. Eftir það verður að líta svo á að um aðgang að upplýsingum samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. fari eftir ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Á það við hvort sem slíkri beiðni er beint að ríkisendurskoðanda eða öðru stjórnvaldi sem kann að hafa gögnin í sínum fórum. Í 2. og 3. málsl. 3. mgr. er hins vegar sérstaklega mælt fyrir um að þau gögn sem þar eru tilgreind séu undanþegin framangreindum aðgangsrétti. Úrskurðarnefndin telur að orðalag ákvæðisins verði ekki skilið með öðrum hætti en að þær sérstöku takmarkanir sem þar er kveðið á um haldist þrátt fyrir að þau gögn sem mælt er fyrir um í 1. málsl. hafi verið afhent Alþingi. <br /> <br /> Þá skal tekið fram að með 2. mgr. 15. gr. laganna er fjallað um aðgang að upplýsingum hjá Ríkisendurskoðun en ekki öðrum stjórnvöldum sem hafa í sínum fórum gögn sem stafa frá ríkisendurskoðanda líkt og hér háttar til. Eins og fjallað er um í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 46/2016 kom ákvæðið inn sem nýmæli en fram að því hafði verið litið svo á að starfsemi Ríkisendurskoðunar væri undanþegin ákvæðum upplýsingalaga. Með ákvæðinu er þannig tekið af skarið um að ákvæði upplýsingalaga gildi almennt um aðgang almennings að upplýsingum hjá Ríkisendurskoðun. Sá aðgangsréttur kann hins vegar að sæta þeim sérstöku takmörkunum sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 15. gr. laganna.<br /> <h3>3.</h3> Synjun ráðuneytisins á beiðni kæranda um að afhenda svarbréf Lindarhvols ehf. til setts ríkisendurskoðanda, dags. 17. janúar 2018, er einnig reist á 3. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016. Í því sambandi er vísað til þess að þær upplýsingar sem ráðuneytinu sé óheimilt að afhenda komi fram svo víða í svarbréfi Lindarhvols ehf. að ekki séu forsendur til að veita aðgang að því að hluta. <br /> <br /> Eins og rakið er hér að framan tekur undanþága frá aðgangsrétti samkvæmt 3. máls. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016 til gagna sem send hafa verið stjórnvöldum í tengslum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur og ríkisendurskoðandi hefur sérstaklega ákveðið að undanskilja aðgangsrétti. Þegar af þeirri ástæðu getur svarbréf sem stafar frá Lindarhvoli ehf. og sent var settum ríkisendurskoðanda ekki fallið undir framangreint ákvæði enda stafar gagnið hvorki frá ríkisendurskoðanda né liggur fyrir ákvörðun hans um að það skuli undanþegið aðgangsrétti. Verður synjun ráðuneytisins því ekki reist á 3. máls. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016.<br /> <br /> Fer því um rétt kæranda til aðgangs að umræddu skjali eftir ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, og bar ráðuneytinu við meðferð beiðni kæranda að taka afstöðu til réttar hans til aðgangs að skjalinu með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Það var ekki gert heldur látið duga að synja beiðninni á þeirri röngu forsendu að gagnið væri undanþegið upplýsingarétti á grundvelli 3. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016. Í ljósi framangreinds verður hvorki ráðið af ákvörðun ráðuneytisins né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn á grundvelli upplýsingalaga og jafnframt hvort þau séu þess eðlis að heimilt sé að takmarka aðgang að þeim að meira eða minna leyti á grundvelli undanþáguákvæða laganna. <br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 18. nóvember 2020, um að synja beiðni kæranda um aðgang að bréfi setts ríkisendurskoðanda, dags. 4. janúar 2018, er staðfest.<br /> <br /> Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 18. nóvember 2020, um að synja beiðni kæranda um aðgang að svarbréfi Lindarhvols ehf., dags. 17. janúar 2018, er felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar. <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1003/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Deilt var um afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um aðgang að verklagsreglum. Úrskurðarnefndin féllst ekki á með ríkisskattstjóra að í þeim öllum væri greint frá fyrirhuguðum ráðstöfunum, t.d. rannsóknarathöfnum eða öðrum eftirlitsráðstöfunum í tengslum við almennt skatteftirlit ríkisskattstjóra sem yrðu þýðingarlausar ef þær yrðu opinberaðar í skilningi 5. tölul. 10. gr. Ríkisskattstjóra var gert að afhenda verklagsreglurnar að undanskildum hluta þeirra.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1003/2021 í máli ÚNU 20120017.<br /> <h2>Kæra og málsatvik </h2> Með erindi, dags. 16. desember 2020, kærði A afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni hans um aðgang að upplýsingum. <br /> <br /> Með erindi, dags. 19. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir verklagsreglum og leiðbeiningum ríkisskattstjóra í heimilisfestismálum. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni hans með tölvubréfi, dags. 27. nóvember 2020, með vísan til þess að vegna eftirlitshagsmuna yrðu verkferlar fyrir vinnslu einstakra málaflokka ekki afhentir. Kærandi ítrekaði beiðni sína sama dag og vísaði til 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2542/1998. Ríkisskattstjóri svaraði kæranda á ný með tölvubréfi, dags. 8. desember 2020, þar sem fyrri synjun embættisins var ítrekuð og tekið fram að vegna sameiningar embætta ríkisskattstjóra og sjálfstæðra skattstjóra árið 2010 ætti tilvitnað álit umboðsmanns ekki við í þessu tilviki.<br /> <br /> Í kæru greinir að kærandi hafi óskað eftir umræddum verkferlum og leiðbeiningum sem ríkisskattstjóri notist við í tengslum við uppkvaðningu úrskurða um skattalega heimilisfesti einstaklinga. Í kæru kemur fram að hann undirbúi kæru til yfirskattanefndar vegna slíks úrskurðar ríkisskattstjóra. Hann telji synjun ríkisskattstjóra brjóta gegn réttmætisreglunni og það sé ekki ásættanlegt að verklagsreglur embættisins þoli ekki dagsins ljós. Hann telji hugsanlegt að jafnræðis hafi ekki verið gætt við meðferð ríkisskattstjóra á máli hans varðandi skattalega heimilisfesti og því vilji hann afrit af umræddum verkferlum. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 19. desember 2020, og ríkisskattstjóra veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn ríkisskattstjóra ásamt gögnum málsins barst með tölvubréfi, dags. 8. janúar 2021. Í umsögninni kemur fram að ríkisskattstjóri telji upplýsingabeiðnina ná til þriggja gagna, þ.e. verkferils, verklagsreglu og vinnulýsingar vegna eftirlitsmála sem snerti skattalega heimilisfesti aðila. Gögnin séu vistuð á innri vef ríkisskattstjóra þar sem þau séu aðgengileg starfsmönnum embættisins til hliðsjónar og eftirbreytni við afgreiðslu mála. Þá segir að tilgangur með samantekt þessara gagna sé sá að fyrir hendi séu almennar málsmeðferðarreglur til stuðnings við skoðun á skattalegri heimilisfesti sem þætti í eftirlitsaðgerðum ríkisskattstjóra. Verklagsreglurnar séu settar í því skyni að tryggja vandaða stjórnsýslu við úrlausn verkefna. Þannig sé um að ræða upplýsingar sem ríkisskattstjóri hafi útbúið í eigin þágu og til eigin nota við meðferð máls, líkt og áskilið sé um vinnugögn stjórnvalda, sbr. athugasemdir við 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í umsögninni er nánar greint frá inntaki gagnanna en þar segir að efni þeirra sé í raun tvíþætt. Annars vegar sé þar að finna leiðbeiningar varðandi þá málsmeðferð sem viðhafa beri við skatteftirlit. Hins vegar sé þar að finna upplýsingar um hvernig efnislega skuli staðið að eftirlitsmálum sem snerti skattalegt heimilisfesti. <br /> <br /> Í umsögninni er þeirri afstöðu lýst að opinberun upplýsinganna myndi raska almannahagsmunum með þeim hætti að skattaðilum yrði unnt að sníða hegðun sína, gjörðir og svör til ríkisskattstjóra að fyrirhuguðum eftirlitsaðgerðum. Ríkisskattstjóri telji að þau atriði sem fram koma í umræddum gögnum falli undir 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem fram komi að heimilt sé að takmarka aðgang að upplýsingum ef um sé að ræða fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera ef að þær yrðu þýðingarlausar eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þær á almanna vitorði. Loks kemur fram í umsögninni að framangreint ætti einungis við um hluta þeirra gagna sem um er deilt. <br /> <br /> Við meðferð málsins afhenti ríkisskattstjóri kæranda verkferil, verklagsreglu og vinnulýsingu þar sem búið var að afmá tilteknar upplýsingar.<br /> <br /> Umsögn ríkisskattstjóra var send kæranda með bréfi, dags. 8. janúar 2021. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 13. janúar 2021. Í umsögninni áréttar kærandi mikilvægi þess að honum verði afhentar upplýsingar um þá verkferla og leiðbeiningar sem notaðar voru af hálfu ríkisskattstjóra til að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði heimilisfesti hér á landi. Þá er kærandi ósammála þeirri afstöðu ríkisskattstjóra að afhending umræddra gagna muni leiða til aukinna undanskota og veltir því upp hvort ríkisskattstjóri vilji ekki að skattaðilar geti farið eftir reglum sem í gildi eru. <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> Í máli þessu er deilt um upplýsingar sem afmáðar voru úr verkferli, verklagsreglu og vinnulýsingu sem kæranda var að öðru leyti veittur aðgangur að undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni. <br /> <br /> Synjun ríkisskattstjóra var í fyrsta lagi rökstudd með vísan til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en þar er fjallað um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera, ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði. Athugasemdir ríkisskattstjóra verða skildar á þann veg að embættið líti svo á að skatteftirlit samkvæmt umræddum verklagsreglum yrði verulega torveldað yrðu þær aðgengilegar almenningi.<br /> <br /> Um orðasambandið „fyrirhugaðar ráðstafanir“ í 5. tölul. greinarinnar segir eftirfarandi í athugasemdum með frumvarpi til núgildandi upplýsingalaga:<br /> <br /> „Markmið þessa ákvæðis er að hindra að nokkur geti aflað sér á ótilhlýðilegan hátt vitneskju um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera. Með ráðstöfunum á vegum ríkis og sveitarfélaga er m.a. átt við fyrirhugaðar ráðstafanir í fjármálum, svo sem aðgerðir í gjaldeyrismálum, skattamálum, tollamálum og öðrum málum er varða tekjuöflun hins opinbera. Ákvæði þetta getur þannig í sumum tilvikum verndað sömu hagsmuni og ákvæði 3. tölul. Hér undir falla einnig ráðstafanir sem ætlað er að tryggja öryggi, svo sem fyrirhugaðar eftirlitsaðgerðir lögreglu og annarra yfirvalda í þágu umferðaröryggis. Enn fremur er heimilt samkvæmt þessum tölulið að takmarka aðgang almennings að gögnum sem lúta að fyrirhuguðum ráðstöfunum í kjaramálum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja jafnræði í kjarasamningum hins opinbera og viðsemjenda þess. Undanþágunni verður einnig beitt í tengslum við hagræðingu og breytingu í rekstri opinberra stofnana og fyrirtækja.“<br /> <br /> Þá segir enn fremur:<br /> <br /> „Ákvæðið gerir ráð fyrir því að stjórnvald meti sjálfstætt í hverju tilviki hverjar afleiðingar það hefði ef ljóstrað yrði upp um fyrirhugaðar ráðstafanir. Séu líkur á því að árangur skerðist, þótt ekki sé nema að litlu leyti, mundi stjórnvaldi að öllu jöfnu vera heimilt að synja um að veita umbeðnar upplýsingar á grundvelli þessa ákvæðis. Þegar þær ráðstafanir eru afstaðnar sem 5. tölul. tekur til er almenningi heimill aðgangur að gögnunum nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Með vísun til annarra takmarkana samkvæmt lögunum er vísað til þess að þau kunni að innihalda upplýsingar um einkamálefni manna eða önnur atriði sem leynt eiga að fara af öðrum ástæðum en 10. gr. frumvarpsins tekur til.“<br /> <br /> Sem fyrr segir er í umræddum gögnum að finna almenna lýsingu á því verklagi sem starfsmönnum ríkisskattstjóra ber að viðhafa við framkvæmd skatteftirlits, skv. 102. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í þeim tilvikum þegar upp kemur vafi um hvort einstaklingur eigi að vera skráður heimilisfastur á Íslandi. Í gögnunum er t.d. að finna upptalningu á upplýsingum sem talið er nauðsynlegt að afla við meðferð einstakra mála og hvar sé unnt að afla þeirra. Úrskurðarnefndin fær þannig ekki betur séð en að í verklagsreglunum felist nánari útfærsla og túlkun ríkisskattstjóra á viðeigandi ákvæðum skattalaga sem fylgja ber við meðferð eftirlitsmála af framangreindum toga í því skyni að rannsaka og upplýsa mál með fullnægjandi hætti og tryggja samræmi við úrlausn mála. Í því sambandi skal bent á að með 94. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisskattstjóra fengin víðtæk heimild til upplýsingaöflunar ýmist hjá aðila máls sjálfum eða þriðja aðila. Þrátt fyrir að í gögnunum sé að finna lýsingu á þeim viðbrögðum sem gripið er til þegar eftirlitsmál hefst verður ekki séð að í þeim öllum sé greint frá fyrirhuguðum ráðstöfunum, t.d. rannsóknarathöfnum eða öðrum eftirlitsráðstöfunum í tengslum við almennt skatteftirlit ríkisskattstjóra sem yrðu þýðingarlausar ef þær yrðu opinberaðar í skilningi 5. tölul. 10. gr. Þvert á móti hafa þær að miklu leyti að geyma upplýsingar um verklag og grundvöll einstakra mála sem kann að ljúka með töku stjórnvaldsákvarðana sem telja verður mikilvægt að almenningur og ekki síst þeir sem aðild eiga að málum hjá ríkisskattstjóra geti kynnt sér eins og háttar til í tilviki kæranda. Með vísan til framangreinds og þess lögskýringarsjónarmiðs að almennt beri að túlka takmarkanir á upplýsingarétti þröngt verður ekki fallist á það með ríkisskattstjóra að unnt sé að synja beiðni kæranda með vísan til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að öllu leyti. Hins vegar fellst úrskurðarnefndin á að hinn yfirstrikaði texti í fylgiskjali 1 sem og yfirstrikaður texti í köflum 1.3 og 2.1 í fylgiskjali 3 sé þess efnis að rétt sé að fallast á niðurstöðu ríkisskattstjóra um að undanskilja hann aðgangi kæranda. <br /> <br /> 2.<br /> Í synjun ríkisskattstjóra er einnig vísað til þess að umrædd gögn teljist vinnugögn í skilningi upplýsingalaga, sbr. 5. tölul. 6. gr., sbr. og 8. gr., og þannig undanþegin aðgangi kæranda. <br /> <br /> Í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga eru vinnugögn skilgreind sem þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar, sem falla undir lögin skv. 2. og 3. gr., hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í 2. málslið málsgreinarinnar er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna ef þau hafi verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.<br /> <br /> Í athugasemdum um 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir orðrétt:<br /> <br /> „Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Fyrsta skilyrðið þarfnast ekki sérstakra skýringa en er þó mjög þýðingarmikið við afmörkun hugtaksins. Í öðru skilyrðinu felst það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljast ekki til vinnugagna í skilningi 8. gr. frumvarpsins. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, telst það almennt ekki lengur vinnugagn. Undantekningar eru þó gerðar varðandi síðastgreinda atriðið.“<br /> <br /> Úrskurðarnefndin tekur fram að í skilyrðinu um að gagn sé undirbúningsgagn í reynd felst að það hafi orðið til við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta tiltekins máls, enda er takmörkun 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings studd þeim rökum að gögn sem verða til við slíkt ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Ákvæðið getur hins vegar ekki takmarkað rétt almennings til aðgangs að skjölum sem eru útbúin almennt til notkunar við meðferð ótiltekinna mála af ákveðnum toga, enda er ekki um sömu hagsmuni að tefla í þeim tilvikum. Þetta sést til að mynda á því að sérstaklega er mælt fyrir um skyldu til að veita aðgang að vinnugögnum sem hafa að geyma lýsingu á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds og þess lögskýringarsjónarmiðs að skýra beri takmarkanir á upplýsingarétti almennings þröngt, með hliðsjón af meginreglu laganna um rétt til aðgangs, er ekki fallist á það með ríkisskattstjóra að umræddar upplýsingar teljist vinnugögn í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga.<br /> <br /> Úrskurðarorð:<br /> Staðfest er synjun ríkisskattstjóra á að veita aðgang að hinum yfirstrikaða texta í fylgiskjali 1, Verkferill, sem og yfirstrikuðum texta í köflum 1.3 og 2.1 í fylgiskjali 3, Vinnulýsing.<br /> <br /> Ríkisskattstjóra er að öðru leyti skylt að veita kæranda aðgang að verkferli, verklagsreglu og vinnulýsingu ríkisskattstjóra án útstrikana. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1002/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Deilt var um afgreiðslu Hafnarfjarðar á beiðni kæranda um gögn i tengslum við byggingu fasteignar. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja fullyrðingu sveitarfélagsins að kæranda hefðu verið afhent öll fyrirliggjandi gögn hjá sveitarfélaginu varðandi umrædda fasteign. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1002/2021 í máli ÚNU 20120016. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 13. desember 2020, kærði A afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni hans um aðgang að gögnum í tengslum við byggingu Eskivalla 11.<br /> <br /> Kærandi sendi Hafnafjarðarbæ erindi, dags. 14. október 2020, þar sem hann óskaði eftir afhendingu samskiptagagna, skjala, tölvupósta, tilkynninga og bréfa er vörðuðu byggingu Eskivalla 11. Með bréfi, dags. 16. október 2020, voru kæranda afhent umbeðin gögn. Í bréfinu var kæranda leiðbeint um að ef hann teldi afhent gögn ekki fullnægjandi gæti hann bókað fund með starfsmönnum sveitarfélagsins, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í því skyni að fara yfir málavexti og/eða gögnin. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi telji að í þeim gögnum sem hann fékk afhent með bréfi, dags. 16. október 2020, sé ekki að finna þær upplýsingar sem leitað var eftir samkvæmt fyrirspurnum hans. Kærandi telji mikla leynd hvíla yfir málinu. Í kærunni er einnig að finna lista yfir 10 nánar tilgreind gögn sem kærandi telji að séu fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu og óskað var eftir en ekki voru afhent. Um er að ræða eftirfarandi gögn eða upplýsingar:<br /> <br /> 1) Skýrsla frá VSI Öryggishönnun og ráðgjöf sem uppfærð var í júlí og getið er í byggingarlýsingu og teikningum 30. september 2020.<br /> 2) Minnisblað frá fundi sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdarsviðs Hafnarfjarðar með forsvarsmönnum byggingaraðila fjölbýlishússins við Eskivelli 11 sem haldinn var í ágúst 2020.<br /> 3) Flóttaleiðir: Minnisblað sem getið er í byggingarlýsingu og teikningum 30. september 2020.<br /> 4) Greinargerð á sundurliðuðum útreikningum á bílastæðabókhaldi hönnuðar.<br /> 5) Skýringarblað verkfræðings sem getið er á teikningu frá 30. september 2020.<br /> 6) Gögn um gæðavottunarkerfi byggingarstjóra Eskivalla 11.<br /> 7) Skýrsla um öryggi eldvarna og fylgiskjali frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins frá júní 2020.<br /> 8) Skýrsla og fylgiskjal frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um öryggisúttekt um jákvæða „afstöðu slökkviliðs vegna öryggisúttektar“ um að Eskivellir 11 stæðust öryggiskröfur.<br /> 9) Staðfesting frá sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs vegna öryggisatriða á Eskivöllum 11. Óskað var eftir heildarskjali í stað skjáskots sem kærandi hafði fengið afhent.<br /> 10) Tölvupóstsamskipti byggingarfulltrúans í Hafnarfirði við byggingaraðila Eskivalla 11 sem fram fóru á meðan á byggingartímanum stóð.<br /> <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Hafnarfjarðarbæ með bréfi, dags. 21. desember 2020, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 12. janúar 2021. Í umsögninni er málavöxtum lýst og greint frá því að kæranda hafi verið afhent gögn í samræmi við beiðni hans með bréfi, dags. 16. október 2020. Þar segir jafnframt að kæranda hafi ekki verið synjað sérstaklega um nein gögn. Þvert á móti hafi honum verið boðið að funda með starfsmönnum sveitarfélagsins í því skyni að fara yfir málið með frekari hætti teldi hann gögnin ekki nægjanlega upplýsandi. Engin viðbrögð hafi borist frá kæranda. Þá er vísað til þess að í kæru setji kærandi fram með sundurliðuðum hætti þau gögn sem hann telji sig ekki hafa fengið afhent og telji fyrirliggjandi í málinu. Í umsögninni er að finna umfjöllun um hvern og einn lið í kærunni og tiltekið að kærandi hafi ýmist fengið gögnin afhent eftir að kæra til úrskurðarnefndarinnar var lögð fram eða þau séu ekki fyrirliggjandi. Nánar tiltekið kemur fram að gögn sem tilgreind eru í liðum 1, 2, 4, 6 og 9 í beiðni kæranda séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. <br /> <br /> Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að skýrsla sem óskað er eftir undir lið 1 í kærunni frá VSI Öryggishönnun uppfærð í júlí 2020 og getið sé í byggingarlýsingu og teikningum sé ekki til og því ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Fram komi á teikningu sem vísað er til að verkinu fylgi ekki skýrsla heldur sé einungis um að ræða texta sem sé á teikningu. Hvað varðar þá fundargerð sem óskað er eftir undir lið 2 í kærunni segir í umsögn sveitarfélagsins að slík fundargerð hafi ekki verið tekin saman. Ekki sé venja að taka saman fundargerðir eða minnisblöð vegna funda sem þessa. Í umsögninni kemur fram varðandi lið 4 í kærunni að ekki liggi frekari gögn fyrir varðandi bílastæðabókhald en það sem tilgreint sé á tilvitnaðri teikningu. Í lið 6 í kærunni kemur fram að kærandi hafi óskað eftir gögnum um gæðavottunarkerfi byggingarstjóra. Í umsögn sveitarfélagsins kemur fram að byggingarfulltrúaembætti hafi ekki yfir að ráða gögnum um gæðavottunarkerfi byggingarstjóra og sé því ekki unnt að veita umbeðin gögn. Byggingarstjórar hafi samþykkt gæðakerfi en skoðunarstofa fari yfir gæðakerfið og votti að það sé fullnægjandi, það sé svo skráð hjá Mannvirkjastofnun. Loks er undir lið 9 í kærunni óskað eftir staðfestingu frá sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs vegna öryggisatriða á Eskivöllum. Í kæru eru gerðar athugasemdir við að sveitarfélagið hafi einungis afhent skjáskot af texta sem sagður sé stafa frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu en ekki skjalið í heild sinni. Í umsögn sveitarfélagsins kemur fram að samantekt slökkviliðsins vegna yfirferðar á teikningum berist ávallt með þeim hætti sem liggi fyrir hjá kæranda. Frekari gögn liggi ekki fyrir að þessu leyti.<br /> <br /> Þau gögn sem tilgreind eru undir liðum 3, 5, 7, 8 og 10 hafi aftur á móti verið afhent kæranda eftir að kæra var lög fram til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.<br /> <br /> Umsögn sveitarfélagsins var send kæranda, með bréfi, dags. 12. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 18. janúar 2021, kemur fram að hann telji í ljósi þess hversu erfiðlega hafi gengið að afla gagna hjá sveitarfélaginu að óhjákvæmilega leiki vafi á því hvort öll gögn hafi verið afhent. Til þess að varpa ljósi á málið svo það megi teljast fullrannsakað væri rétt að nefndin krefði sveitarfélagið um tæmandi lista yfir öll gögn sem málinu tengjast. Í því fælist að lagðar yrðu fram upplýsingar um öll mál sem tengjast umræddri húsbyggingu. Þá yrðu lagðar fram útskriftir úr málaskrá sem sýndu yfirlit yfir öll gögn sem tilheyra hverju máli. Jafnframt yrði upplýst hvort Hafnarfjarðarbær sinnti þeirri skyldu að færa samskipti undir viðkomandi mál. Í þessu sambandi vísaði kærandi til 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, laga um opinber skjalasöfn og reglur Þjóðskjalasafns Íslands um vistun skjala.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda um aðgang að ýmsum gögnum sem tengjast byggingu Eskivalla 11. Hafnarfjarðarbær heldur því fram að öll fyrirliggjandi gögn hafi verið afhent og önnur gögn sem kærandi óski eftir séu ekki til hjá embættinu. <br /> <br /> Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að kæranda hafi við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni verið afhentur hluti þeirra gagna sem kæran snýr að, nánar tiltekið þau gögn sem talin eru upp og lýst undir liðum 3, 5, 7, 8 og 10 í kæru og tilgreind eru hér að framan. Nefndin fær ekki séð að ágreiningur sé uppi um þennan þátt málsins. <br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Hvað varðar önnur gögn sem kærandi vísar til í kærunni, þ.e. undir liðum 1, 2, 4, 6 og 9 kemur fram í umsögn sveitarfélagsins, eins og rakið er hér að framan, varðandi hvert og eitt gagn að þau séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Í ljósi skýringa sveitarfélagsins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umrædd gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu.<br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. <br /> <br /> Í athugasemdum kæranda er þess farið á leit við úrskurðarnefndina að hún grípi til tiltekinna úrræða í því skyni að upplýsa málið og jafnframt leiða í ljós hvernig almennt er staðið að skráningu mála og gagna hjá sveitarfélaginu. Af því tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að ekki er hægt að óska eftir því að nefndin ráðist í almenna úttekt á því hvernig stjórnvöld haga starfsemi sinni, t.d. hvernig þau standa að skráningu og vistun gagna. Slíkt almennt eftirlit kemur í hlut annarra eftirlitsaðila, t.d. umboðsmanns Alþingis og Þjóðskjalasafns Íslands. Úrskurðarnefndin getur hins vegar við meðferð einstakra mála gripið til þeirra úrræða sem hún telur nauðsynleg í því skyni að upplýsa mál nægilega vel í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, t.d. ef hún telur skýringar stjórnvalds ekki fullnægjandi. Úrskurðarnefndin telur hins vegar atvik þessa máls ekki gefa tilefni til slíkra ráðstafana.<br /> <h2>Úrskurðarorð</h2> Kæru A, dags. 13. desember 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

1001/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Deilt var um afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni A um upplýsingar um forsendur ráðningar tiltekins starfsmanns stofnunarinnar. Að mati úrskurðarnefndarinnar sneri beiðni kæranda að upplýsingum sem undanþegnar eru aðgangi á grundvelli 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi því heimilt að synja beiðni kæranda um umbeðnar upplýsingar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1001/2021 í máli ÚNU 20120015.<br /> <h2>Kæra og málsatvik </h2> Með erindi, dags. 12. desember 2020, kærði A afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni hans um aðgang að upplýsingum.<br /> <br /> Með erindi, dags. 10. desember 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum um forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns Menntamálastofnunar. Menntamálastofnun svaraði erindinu með tölvupósti, dags. 11. desember 2020, þar sem fram kom að umræddur starfsmaður hefði verið ráðinn á grundvelli auglýsingar um laust starf sviðsstjóra miðlunarsviðs. Með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga tæki upplýsingaréttur almennings ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kvartað sé yfir því að ekki sé unnt að fá svör frá Menntamálastofnun varðandi ráðningu starfsmanns. Upphaflega hafi kærandi leitað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem hafi vísað til þess að ráðuneytið fari ekki með starfsmannamál Menntamálastofnunar heldur beri forstjóri stofnunarinnar ábyrgð á þeim. Af þeim sökum fór kærandi fram á umræddar upplýsingar hjá Menntamálastofnun. Í kæru kemur fram að kærandi hafi áður leitað til umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni kæranda um upplýsingar. Í bréfi umboðsmanns hafi komið fram að ef kærandi teldi að Menntamálastofnun hefði synjað beiðni hans um upplýsingar gæti hann freistað þess að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. upplýsingalaga.<br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Menntamálastofnun með bréfi, dags. 19. desember 2020, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Umsögn Menntamálastofnunar barst með tölvubréfi, dags. 3. febrúar 2021. Í umsögninni kemur fram að beiðni kæranda um upplýsingar varðandi forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns hafi verið svarað með tölvupósti dags. 11. desember 2020 þar sem fram kom að umræddur starfsmaður hafi verið ráðinn á grundvelli auglýsingar um laust starf. Það sé afstaða Menntamálastofnunar að þar með sé búið að veita þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir af hálfu kæranda. Þá segir í umsögninni að starf miðlunarstjóra miðlunarsviðs stofnunarinnar hafi verið auglýst laust til umsóknar í samræmi við 7. gr. laga nr. 70/1996 og reglur nr. 1000/2019, um auglýsingar á lausum störfum. Umræddur starfsmaður hafi verið metinn hæfastur umsækjenda úr hópi 15 umsækjenda. Í umsögninni er einnig vísað til þess sem fram kom í svari Menntamálastofnunar um að upplýsingaréttur almennings nái ekki til gagna í málum sem varði umsóknir, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Meðfylgjandi umsögninni voru hlekkir annars vegar á frétt á vefsíðu Menntamálastofnunar þar sem tilkynnt var um ráðningu í starfið og hins vegar á auglýsingu um umrætt starf sem birt var m.a. á vef Fréttablaðsins. <br /> <br /> Umsögn Menntamálastofnunar var send kæranda með bréfi, dags. 16. apríl 2021, og honum veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 19. apríl 2021. Í athugasemdum kæranda kemur fram að með umsögninni sé einungis vísað til auglýsingar um starfið þar sem fram komi verkefni og ábyrgð ásamt menntunar- og hæfniskröfum er varða starfið og fréttatilkynningar um þann sem ráðinn var. Beiðnin kæranda hafi hins vegar byggst á því að fá upplýsingar um forsendur ráðningar viðkomandi einstaklings en ekki verði séð að þeirri spurningu hafi verið svarað. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> 1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni kæranda um forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns Menntamálastofnunar. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er þeim sem falla undir lögin skylt að veita almenningi, sé þess óskað, aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr laganna.<br /> <br /> Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:<br /> <br /> „Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.“<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur meðal annars fram eftirfarandi:<br /> <br /> „Ákvæði 7. gr. frumvarpsins er þannig upp byggt að í 1. mgr. er lögð til sú meginregla að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til upplýsinga um þau málefni starfsmanna þeirra aðila sem falla undir ákvæði frumvarpsins, sbr. 2. gr., sem lúta að umsóknum um störf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. eru síðan ákveðnar og skýrt afmarkaðar undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna stjórnvalda, í 3. mgr. er heimild vegna upplýsinga um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt, en í 4. mgr. eru undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna einkaréttarlegra lögaðila í opinberri eigu, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Með þessu móti er fært að taka skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um málefni starfsmanna lúti ákvæðum upplýsingalaga um aðgangsrétt og hverjar ekki.“<br /> <br /> Þá segir enn fremur:<br /> <br /> „Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með 4. tölul. 4. gr. gildandi laga að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar er rakið í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum sem nú eru í gildi. Hér búa einkum að baki þeir hagsmunir hins opinbera að geta átt kost á hæfum umsækjendum um opinbert starf. Óheftur aðgangur almennings að gögnum um umsækjendur geti hamlað því að hæfir einstaklingar sæki um opinber störf ef hætta væri á að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra yrðu gerð opinber. Til þess að mæta sjónarmiðum um opna stjórnsýslu og stuðla að opinni umræðu um stöðuveitingar hjá opinberum aðilum er hins vegar lagt til að áfram verði skylt að veita upplýsingar um umsækjendur eftir að umsóknarfrestur er liðinn, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins.“<br /> <br /> Af framangreindu er ljóst að upplýsingar í tengslum við ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verða felldar undir ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Hér undir falla þannig allar upplýsingar og gögn sem verða til í ráðningarferlinu m.a. um hvernig samanburði á umsóknum og mati á umsækjendum var háttað. Beiðni kæranda til Menntamálastofnunar snýr að því að fá upplýsingar um forsendur ráðningar tiltekins starfsmanns til viðbótar við þær upplýsingar sem hann hefur þegar fengið, þ.e. um auglýsingu starfsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður beiðnin ekki skilin öðruvísi en að hún lúti að upplýsingum um ákvörðun Menntamálastofnun um ráðningu starfsmanns og undanþegnar eru aðgangi á grundvelli 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Menntamálastofnun var því heimilt að synja beiðni kæranda um upplýsingar um forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns Menntamálastofnunar. <br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Staðfest er ákvörðun Menntamálastofnunar, dags. 11. desember 2020, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um á hvaða forsendum nafngreindur starfsmaður Menntamálastofnunar var ráðinn.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br />

1000/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku allra úrskurða í málum sem varða Herjólf ohf. var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku ekki uppfyllt.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 1000/2021 í máli ÚNU 20120009.<br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með erindi, dags. 7. desember 2020, fór A fram á endurupptöku allra mála er varða Herjólf ohf. og nefndin hefur ýmist vísað frá eða úrskurðað Herjólfi ohf. í vil. Meðfylgjandi erindinu var viðtal við formann bæjarráðs Vestmannaeyja sem birtist á vefmiðlinum eyjar.is sem kærandi telur upplýsa svo ekki verði um villst hver beri ábyrgð og áhættu af rekstri Herjólfs ohf. <br /> <br /> Í tilefni af erindinu var kæranda ritað bréf, dags. 19. mars 2021, þar sem fram kom að ekki yrði fyllilega ráðið af erindinu að hvaða máli eða málum beiðni hans um endurupptöku sneri og eftir atvikum hvernig þær upplýsingar sem fram komu í umræddu viðtali sem fylgdi erindinu leiddu til þess að skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til þess að úrskurðarnefndin gæti fengið gleggri mynd af því að hvaða málum beiðnin sneri og tekið afstöðu til þess hvort skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi var þess óskað að kærandi veitti nefndinni frekari upplýsingar um þau mál, með tilvísun til málsnúmera, sem hann óskaði að yrðu endurupptekin. <br /> <br /> Í svari kæranda, dags. 8. apríl 2021, kom fram að það kæmi glöggt fram í umræddu viðtali að útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum borgi brúsann af Herjólfi ohf. Þeim sem greiði komi málið einfaldlega við. Af erindinu verður ráðið að kærandi telji úrskurðarnefndina almennt taka afstöðu með Herjólfi ohf. í þeim málum sem henni berast en gegn almenningi sem sæki sinn rétt.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að hann óski endurupptöku þeirra mála sem úrskurðarnefndin hefur ýmist vísað frá eða úrskurðað Herjólfi ohf. í vil. Eins og fram hefur komið fór úrskurðarnefndin þess á leit við kæranda að hann skýrði nánar að hvaða málum beiðni hans um endurupptöku sneri. Í svari kæranda til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna slíka afmörkun. Úrskurðarnefndin leggur því þann skilning í erindi kæranda að hann telji að þær upplýsingar sem fram komi í umræddu viðtali við formann bæjarráðs leiði almennt til þess að úrskurðarnefndinni beri að endurupptaka öll mál þar sem kæru kæranda hefur verið vísað frá eða ákvörðun Herjólfs ohf. staðfest. <br /> <br /> Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:<br /> <br /> „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:<br /> <br /> 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða<br /> 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“<br /> <br /> Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. <br /> <br /> Kærandi hefur á liðnum árum beint fjölmörgum kærum til úrskurðarnefndarinnar vegna afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðnum hans um upplýsingar eða gögn. Þannig kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í níu slíkum málum á einu ári fram að því að kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku, dags. 7. desember 2020. Í beiðni kæranda er hvorki að finna nánari upplýsingar um þau mál sem hann óskar að verði endurupptekin né er þar að finna skýringar á því hvernig þær upplýsingar sem fram koma í umræddu viðtali leiði til þess að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi. Slík afmörkun getur m.a. haft þýðingu vegna þess skilyrðis sem fram kemur í 2. mgr. 24. gr. um að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um málið nema veigamiklar ástæður mæli með því. Úrskurðarnefndin leggur því þann skilning í beiðni kæranda að hann telji umrætt viðtali varpa nýju ljósi á tengsl Vestamannaeyja og Herjólfs ohf. sem leiði til þess að fyrri úrlausnir úrskurðarnefndarinnar hafi almennt byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Af því tilefni skal tekið fram að úrskurðarnefndinni er kunnugt um tengsl Herjólfs ohf. og Vestmannaeyja en félagið er í eigu Vestmanneyjabæjar og fellur þar af leiðandi undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, þar sem fram kemur að lögin taki til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar leiða umræddar upplýsingar í framangreindu viðtali ekki til þess að þeir úrskurðir sem úrskurðarnefndin hefur kveðið upp í málum er snúa að afgreiðslu Herjólfs ohf. séu byggðir á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku þeirra samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum sem snúa að Herjólfi ohf.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Beiðni A, dags. 7. desember 2020, um endurupptöku úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem varða Herjólf ohf. og úrskurðarnefndin hefur vísað frá eða staðfest ákvörðun félagsins, er hafnað.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br />

999/2021. Úrskurður frá 13. apríl 2021.

Deilt var um synjun Náttúrufræðistofnunar Íslands á beiðni kæranda um aðgang að greinargerð sem tekin var saman af starfsmanni stofnunarinnar. Synjun stofnunarinnar var byggð á því að um vinnugögn væri að ræða sem heimilt væri að undanþiggja með vísan til 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin og staðfesti synjun stofnunarinnar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 13. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 999/2021 í máli ÚNU 20120024. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með erindi, dags. 18. desember 2020, kærði A afgreiðslu Náttúrufræðistofnunar Íslands á beiðni félagsins um aðgang að gögnum.<br /> <br /> Með erindi, dags. 14. apríl 2020, fór kærandi fram á margvísleg gögn er vörðuðu vöktun gæsastofna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í júní sama ár voru kæranda afhent umbeðin gögn. Í kjölfarið óskaði starfsmaður Verkís ehf., með tölvupósti, dags. 12. júní 2020, eftir aðgangi að greinargerð sem tekin var saman af starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Íslands um svokallaða gæsaáætlun og vísað hafði verið til í tölvupóstsamskiptum sem voru á meðal þeirra gagna sem kæranda hafði verið veittur aðgangur að. <br /> <br /> Náttúrufræðistofnun Íslands svaraði kæranda með tölvupósti, dags. 12. júní 2020, þar sem fram kom að beiðni kæranda yrði skoðuð en sá fyrirvari hafður á að greinargerðin kynni að vera enn í vinnslu og því innanhússvinnugagn sem ekki væri skylt að afhenda, sbr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með tölvupósti, dags. 30. júní 2020, var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að greinargerðin teldist ófullgert vinnuskjal sem ekki hefði verið sent út úr húsi. Náttúrufræðistofnun líti á greinargerðina sem vinnuskjal sem ekki sé til afhendingar.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Náttúrufræðistofnunar Íslands að hafna beiðni kæranda um aðgang að greinargerð sem skrifuð var af starfsmanni stofnunarinnar og fjallar um gang mála i tengslum við tillögur Umhverfisstofnunar um fjármögnun sérstakra áhersluverkefna í þágu veiðistjórnunar. Kærandi telji að stofnuninni sé skylt á grundvelli upplýsingalaga að veita aðgang að greinargerðinni.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Með bréfi, dags. 21. desember 2020, var Náttúrufræðistofnun Íslands kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af því gagni sem kæran lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 25. janúar 2021, eru málavextir raktir. Þá er þeirri afstöðu stofnunarinnar lýst að umrædd greinargerð starfsmanns stofnunarinnar uppfylli skilyrði um vinnugögn, sbr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og því eigi kærandi ekki rétt á aðgangi, sbr. 5. tölul. 6. gr. laganna. Í umsögninni er vísað til þess að greinargerðin hafi verið tekin saman af starfsmanni stofnunarinnar til eigin nota í lok janúar 2019 og hafði ekki komið fyrir augu annarra en viðkomandi starfsmanns þegar beiðni kæranda um aðgang að gögnum barst stofnuninni 14. apríl 2020. Eins og fram komi í svari stofnunarinnar, dags. 30. júní 2020, hafi greinargerðin heldur aldrei verið afhent öðrum utan stofnunarinnar. Það sé álit Náttúrufræðistofnunar Íslands að í greinargerðinni komi ekki fram upplýsingar, hvað þá mikilvægar staðreyndir, um atvik sem ekki hafi þegar komið fram í þeim umfangsmiklu gögnum sem kæranda hafi verið afhent. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, var kæranda kynnt umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og veittur frestur til að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 29. janúar 2021, er aðdragandi þess að hann fór fram á afhendingu ýmissa gagna hjá stofnuninni rakinn og málsatvikum þess máls, sem umrædd gögn tengjast, lýst. Þá segir að kærandi telji að umrædd greinargerð geti varpað ljósi á meðferð málsins og ástæður þess að dráttur hafi orðið á afgreiðslu þess og af hverju tillögur samráðsnefndar og Umhverfisstofnunar hafi verið haldnar formgalla sem leitt hafi til þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi hafnað þeim. Þá telur kærandi líkur á því að umrædd greinargerð hafi að geyma upplýsingar sem ekki komi fram annars staðar. Sé það mat Náttúrufræðistofnunar Íslands að umrædd greinargerð teljist vinnugagn á grundvelli 8. gr. upplýsingalaga þá sé ljóst að mati kæranda að 3 tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna eigi við.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">1.<br /> Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Náttúrufræðistofnunar Íslands á beiðni kæranda um aðgang að greinargerð til samráðsnefndar um sjálfbæra veiðistjórnun sem tekin var saman af starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Íslands um svokallaða gæsaáætlun. Ákvörðun stofnunarinnar um að synja beiðni kæranda um aðgang að greinargerðinni er byggð á því að bréfið sé vinnugagn og þar með undanþegið upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 8. gr. laganna. Um sé að ræða drög að greinargerð sem aldrei hafi verið send frá stofnuninni. Í bréfinu sé ekki að finna endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar um atvik máls sem ekki komi annars staðar fram. <br /> <br /> Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna ekki til vinnugagna. Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga sem þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Þá er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna, felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að gögnum sem skýra ber þröngri lögskýringu.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli skuli leyst úr máli. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. <br /> <br /> Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.<br /> <br /> Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd, það skuli útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það megi ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin séu af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur til vinnugagna.<br /> <br /> Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist þau til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umrædda greinargerð. Umrætt gagn ber það skýrlega með sér að vera drög að greinargerð sem fyrirhugað var að senda samráðsnefnd um sjálfbæra veiðistjórnun. Greinargerðin mun hins vegar aldrei hafa verið send út fyrir stofnunina. Í gögnum málsins kemur ennfremur fram að sá starfsmaður sem tók greinargerðina saman hafi tekið ákvörðun um að senda greinargerðina ekki í þessari mynd. Er það því niðurstaða nefndarinnar að stofnuninni hafi verið heimilt að undanþiggja drögin upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þá hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu stofnunarinnar að í greinargerðinni sé ekki að finna upplýsingar sem ekki komi fram annars staðar. </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Ákvörðun Náttúrufræðistofnunar Íslands um að synja kæranda um aðgang að greinargerð til samráðsnefndar um sjálfbæra veiðistjórnun, dags. 30. júní 2020, er staðfest. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir</p>

998/2021. Úrskurður frá 13. apríl 2021.

Deilt var um afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni A um upplýsingar um á hvaða grundvelli 14 nafngreindir einstaklingar hefðu verið ráðnir hjá embættinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar sneri beiðni kæranda að upplýsingum sem undanþegnar eru aðgangi á grundvelli 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi lögreglustjóra því heimilt að synja beiðni kæranda um upplýsingar að undanskildum upplýsingum um starfstitla.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 13. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 998/2021 í máli ÚNU 20110026.<br /> <h2>Kæra og málsatvik </h2> <p style="text-align: justify;">Með erindi, dags. 20. nóvember 2020, kærði A afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni hans um aðgang að upplýsingum. <br /> <br /> Með erindi, dags. 27. júlí 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli 14 nafngreindir einstaklingar voru ráðnir til starfa hjá ákærusviði lögreglustjóra. Nánar tiltekið laut beiðni kæranda að upplýsingum um hverjir þeirra væru fastráðnir, starfstitil þeirra, upphafsdag ráðningar og eftir atvikum lokadag ráðningar og jafnframt hvort ráðningin byggði á flutningi milli embætta, auglýsingu eða hvort hún hefði farið fram án undangenginnar auglýsingar. Ef ráðning byggðist á flutningi á milli embætta fór kærandi fram á upplýsingar um frá hvaða embætti viðkomandi starfsmaður var fluttur og staðfestingu á því að umræddur starfsmaður hefði verið ráðinn löglega hjá því tiltekna embætti. Ef ráðning byggðist á opinberri auglýsingu óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvenær staðan var auglýst. Ef ráðning fór fram án undangenginnar auglýsingar, óskaði kærandi eftir upplýsingum um ástæður þess.<br /> <br /> Í svari lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 19. nóvember 2020, var vísað til þess að í 7. gr. upplýsingalaga segi að upplýsingaréttur almennings nái ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Þá fengi lögreglustjóri ekki séð að fyrirspurn kæranda félli undir 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Var kæranda því synjað um umbeðnar upplýsingar. Í svarinu var einnig tekið fram að við ráðningar hjá ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu væri farið eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í því sambandi var vísað til 2. mgr. 7. gr. þar sem kveðið er á um heimild til að flytja starfsmann á milli stjórnvalda án undangenginnar auglýsingar. Þá var vísað til reglna nr. 464/1996, um auglýsingu lausra starfa, þar sem fram komi í hvaða tilvikum ekki væri skylt að auglýsa störf.<br /> <br /> Kærandi svaraði lögreglustjóra með tölvupósti, dags. sama dag, þar sem hann óskaði þess að leyst yrði úr beiðni hans á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga. Í erindinu kom fram að beiðni hans hefði aldrei grundvallast á 7. gr. upplýsingalaga og því fæli svar lögreglustjóra í sér útúrsnúninga. Kærandi tók einnig fram að lögreglustjóri hefði áður veitt kæranda sambærilegar upplýsingar án vandkvæða. Í svari lögreglustjóra, dags. sama dag, kom fram að lögreglustjóri teldi erindinu svarað og tekið fram að því yrði ekki svarað aftur. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi telji ákvörðun lögreglustjóra ekki í samræmi við 19. gr. upplýsingalaga enda sé þar ekki tekin afstaða til aukins aðgangs samkvæmt 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Upplýsingar þær sem kærandi fari fram á varði það hvort stöðuveitingar hins opinbera séu löglegar og því varði upplýsingarnar ekki einkamál opinberra starfsmanna.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Kæran var kynnt lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, og lögreglustjóra veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn lögreglustjóra ásamt gögnum málsins barst með tölvubréfi, dags. 18. desember 2020. Í umsögninni kemur fram að upplýsingaréttur almennings taki ekki til gagna sem tengist málefnum starfsmanna nema að takmörkuðu leyti. Þá er vísað til þess að samkvæmt 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nái upplýsingaréttur almennings ekki til umsókna um störf hjá ríki og sveitarfélögum. Ekki verði séð að skylda eða heimild sé til afhendingar frekari gagna, á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga, sem starfsmenn megi ætla að verði ekki gerð opinber af vinnuveitanda enda sé starfssamband byggt á trausti og trúnaði milli aðila. Umsögn lögreglustjórans var send kæranda með bréfi, dags. 12. janúar 2021, og honum veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 25. janúar 2021. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann telji ekkert koma fram í umsögn lögreglustjóra sem breyti þeirri afstöðu hans að hann eigi rétt til umbeðinna gagna á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdunum kemur fram að tilgangur þess að hann óskar eftir umræddum gögnum sé sá að kanna lögmæti ráðninga þeirra fimmtán saksóknarafulltrúa sem sviðstjóri ákærusviðs embættisins hafi ráðið. Í því sambandi eru rakin fyrri samskipti kæranda og lögreglustjóra vegna sambærilegra beiðna um upplýsingar í tengslum við ráðningar í störf. </p> <h2>Niðurstaða</h2> <h2>1.</h2> <p style="text-align: justify;">Í máli þessu er deilt um afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni kæranda um margvíslegar upplýsingar í tengslum við ráðningu 14 nafngreindra einstaklinga á ákærusviði embættisins. <br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er þeim sem falla undir lögin skylt að veita almenningi, sé þess óskað, aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr laganna.<br /> <br /> Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:<br /> <br /> „Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.“<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur meðal annars fram eftirfarandi:<br /> <br /> „Ákvæði 7. gr. frumvarpsins er þannig upp byggt að í 1. mgr. er lögð til sú meginregla að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til upplýsinga um þau málefni starfsmanna þeirra aðila sem falla undir ákvæði frumvarpsins, sbr. 2. gr., sem lúta að umsóknum um störf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. eru síðan ákveðnar og skýrt afmarkaðar undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna stjórnvalda, í 3. mgr. er heimild vegna upplýsinga um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt, en í 4. mgr. eru undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna einkaréttarlegra lögaðila í opinberri eigu, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Með þessu móti er fært að taka skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um málefni starfsmanna lúti ákvæðum upplýsingalaga um aðgangsrétt og hverjar ekki.“<br /> <br /> Þá segir enn fremur:<br /> <br /> „Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með 4. tölul. 4. gr. gildandi laga að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar er rakið í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum sem nú eru í gildi. Hér búa einkum að baki þeir hagsmunir hins opinbera að geta átt kost á hæfum umsækjendum um opinbert starf. Óheftur aðgangur almennings að gögnum um umsækjendur geti hamlað því að hæfir einstaklingar sæki um opinber störf ef hætta væri á að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra yrðu gerð opinber. Til þess að mæta sjónarmiðum um opna stjórnsýslu og stuðla að opinni umræðu um stöðuveitingar hjá opinberum aðilum er hins vegar lagt til að áfram verði skylt að veita upplýsingar um umsækjendur eftir að umsóknarfrestur er liðinn, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins.<br /> <br /> Í 1. mgr. eru einnig lögð til þau nýmæli að auk gagna í málum er varða umsóknir um opinbert starf skulu gögn í málum er snerta framgang í starfi og um starfssambandið vera undanþegin aðgangi. Að svo miklu leyti sem ákvörðun um framgang í opinberu starfi varðar réttindi og skyldur starfsmanns, sbr. t.d. flutning starfsmanna ráðuneyta úr einu ráðuneyti í annað, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og enn fremur flutning milli starfsstiga innan lögreglunnar, sbr. 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og 14. gr. reglugerðar, nr. 1056/2006, um starfsstig innan lögreglunnar, gilda sömu sjónarmið og áður greinir um aðgang að gögnum í málum er varða umsóknir um opinber störf.“<br /> <br /> Af framangreindu er ljóst að upplýsingar í tengslum við ákvarðanir stjórnvalda um flutning starfsmanns á milli stjórnvalda, t.d. á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, verða felldar undir ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Sama á við um upplýsingar sem tengjast tímabundnum ráðningum opinberra starfsmanna án undangenginnar auglýsingar. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að upplýsingar og gögn sem varða grundvöll og aðdraganda slíkra ákvarðana séu þar með undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. <br /> <br /> Eins og fyrr segir hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu upplýst að þær ráðningar sem fyrirspurn kæranda lýtur að hafi ýmist byggt á framangreindri heimild 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 eða án auglýsingar á grundvelli sérstakrar heimildar þar að lútandi. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu lögreglustjóra. Að mati úrskurðarnefndarinnar lýtur beiðni kæranda þannig að upplýsingum sem að mestu leyti snerta með beinum hætti ákvörðun lögreglustjóra um ráðningu starfsmanna og undanþegnar eru aðgangi á grundvelli 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu var því heimilt að synja beiðni kæranda um upplýsingar er varða aðdraganda og grundvöll þess að 14 einstaklingar voru ráðnir til starfa hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar á meðal upplýsingar um tímalengd ráðningar og á hvaða lagagrundvelli umrædd ráðning var reist. </p> <h2>2.</h2> <p style="text-align: justify;">Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er skylt að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, þrátt fyrir að 1. mgr. sama ákvæðis mæli fyrir um að réttur almennings nái ekki til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til. Á meðal þess sem beiðni kæranda lýtur að eru upplýsingar um starfstitla þeirra starfsmanna sem nafngreindir eru í beiðninni. Eins og áður segir var beiðni kæranda um upplýsingar synjað með vísan til þess að þær vörðuðu upplýsingar um málefni starfsmanna sem ekki sé skylt að veita aðgang að, sbr. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þrátt fyrir téða undanþágu hvílir sú skylda á stjórnvöldum að veita upplýsingar um nöfn og starfssvið starfsmanna sé eftir því leitað. Samkvæmt framangreindu á kærandi rétt á upplýsingum um nöfn starfsmanna og starfssvið þeirra. Verður synjun lögreglustjóra því felld úr gildi að þessu leyti og lagt fyrir embættið að veita kæranda upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið þeirra.<br /> <br /> 3.<br /> Í kæru eru gerðar athugasemdir við að lögreglustjóri hafi ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort tilefni væri til að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt lögum þessum enda standi aðrar lagareglur því ekki í vegi, þar á meðal ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd. Í 2. mgr. 11. gr. segir að þegar stjórnvöld synji beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli 2.–5. tölul. 6. gr. og 10. gr. skuli taka afstöðu til þess hvort veita eigi aðgang í ríkari mæli en skylt er, sbr. 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæði 2. mgr. 11. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Í gildandi upplýsingalögum er ekki kveðið á um skyldu stjórnvalda til að rökstyðja það sérstaklega af hverju ekki var talin ástæða til að beita reglunni um aukinn aðgang að gögnum þegar beiðnum er synjað. Í 2. mgr. 11. gr. er hins vegar lagt til að slík skylda verði lögbundin gagnvart stjórnvöldum, sbr. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Í því felst að þegar stjórnvald afgreiðir beiðni um aðgang að gögnum og synjar um aðgang, þá skal í rökstuðningi jafnframt taka afstöðu til þess af hverju ekki var talið tilefni til að beita heimildinni um aukinn aðgang í því tilviki. Í því felst í reynd að viðkomandi stjórnvaldi ber, áður en synjað er um aðgang að gögnum sem ekki er með beinum hætti skylt að synja um aðgang að, ávallt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort eitthvað standi því í vegi að upplýsingarnar séu veittar, þ.m.t. að hluta, og láta aðila máls í té útskýringu á því hver afstaðan er.“<br /> <br /> Af svari lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til kæranda, dags. 19. nóvember 2020, verður ekki ráðið að lagt hafi verið mat á hvort veita beri kæranda aðgang að gögnum í ríkara mæli, sbr. 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaganna. Í umsögn lögreglustjóra til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. desember 2020, kemur hins vegar fram að ekki verði séð að heimild standi til þess að afhenda frekari gögn á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga sem starfsmenn megi ætla að verði ekki gerð opinber af vinnuveitanda enda sé starfssamband byggt á trausti og trúnaði á milli aðila. Þannig er ljóst að mati úrskurðarnefndarinnar að lögreglustjóri hefur tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum á þessum grundvelli. Hins vegar er það mat úrskurðarnefndarinnar að rökstuðningi lögreglustjóra hafi verið ábótavant og ekki í samræmi við þær kröfur sem leiða af 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál rétt að beina því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að rökstyðja framvegis afstöðu sína til þess hvort rétt sé að veita aukinn aðgang við meðferð sambærilegra beiðna um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögunum. </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 19. nóvember 2020, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um á hvaða grundvelli 14 nafngreindir einstaklingar voru ráðnir til starfa hjá ákærusviði lögreglustjóra.<br /> <br /> Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er skylt að veita kæranda, upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið. <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> </p>

997/2021. Úrskurður frá 13. apríl 2021.

A kærði synjun Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar varðandi gámaflutninga á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefndin taldi Herjólf ohf. ekki hafa lagt sjálfstætt mat á umbeðin gögn með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga. Beiðni kæranda hefði því ekki hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða og lagði úrskurðarnefndin því fyrir félagið að taka málið til nýrrar meðferðar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 13. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 997/2021 í máli ÚNU 20080021. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með erindi, dags. 25. ágúst 2020, kærði A synjun Herjólfs ohf. á beiðni hans um upplýsingar um gámaflutninga með Herjólfi ohf. tímabilið 1. janúar 2020 til 31. júlí 2020 auk upplýsinga um fyrir hverja var flutt. Nánar tiltekið fór kærandi fram á upplýsingar um hvernig flutningum var skipt niður á flutningsaðilana Kubb, Samskip, Eimskip og Fiskfrakt. <br /> <br /> Kærandi óskaði eftir umræddum upplýsingum með bréfi, dags. 14. ágúst 2020. Í svari Herjólfs ohf. til kæranda, dags. 19. ágúst 2020, kemur fram að með vísan til viðskiptahagsmuna muni félagið ekki upplýsa um einstök efnisatriði er varði viðskipti félagsins við þriðja aðila, hvorki verð, magn né annað er varði viðskiptasamband milli aðila. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að kærandi hafi upplýsingar um þau verð sem tiltekin fyrirtæki greiði fyrir gámaflutninga með Herjólfi ohf. Þá er vísað til þess að farmskrá félagsins sé opinbert gagn. Í kæru er þess farið á leit við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að nefndin úrskurði um skyldu Herjólfs ohf. til að afhenda upplýsingar um fjölda fluttra gáma auk upplýsinga um hvernig flutningum var skipt niður á fyrrnefnda flutningsaðila.<br /> <br /> Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">Í málinu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar um gámaflutninga á tímabilinu 1. janúar 2020 til 31. júlí 2020 auk upplýsinga um fyrir hverja var flutt. Nánar tiltekið fór kærandi fram á upplýsingar um hvernig flutningum var skipt niður á flutningsaðilana Kubb, Samskip, Eimskip og Fiskfrakt. <br /> <br /> Upplýsingalög taka samkvæmt 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Herjólfur ohf. er í eigu Vestmanneyjabæjar og fellur þar af leiðandi undir gildissvið laganna.<br /> <br /> Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.<br /> <br /> Þá leiðir af ákvæðum upplýsingalaga að stjórnvöldum ber að afmarka beiðni um upplýsingar við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.<br /> <br /> Synjun Herjólfs ohf. er reist á því að viðskiptahagsmunir standi því í vegi að heimilt sé að afhenda umbeðnar upplýsingar. Ákvörðunin er að öðru leyti ekki rökstudd með vísan til ákvæða upplýsingalaga og verður ekki séð að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga, eftir atvikum 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.<br /> <br /> Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:<br /> <br /> „Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“<br /> <br /> Í athugasemdum við ákvæðið segir jafnframt:<br /> <br /> „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“<br /> <br /> Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. <br /> <br /> Eins og fyrr segir verður ekki séð að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gangabeiðninnar, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun Herjólfs ohf. né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga eða eftir atvikum annarra ákvæða í upplýsingalögum.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Herjólf ohf. að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <br /> Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Herjólf ohf. að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.</p> <h2>Úrskurðarorð</h2> <p style="text-align: justify;">Ákvörðun Herjólfs ohf., dags. 19. ágúst 2020, um að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, er felld úr gildi og lagt fyrir Herjólf ohf. að taka málið til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir</p>

996/2021. Úrskurður frá 13. apríl 2021.

A, blaðamaður, kærði synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um upplýsingar um bætur vegna ólögmætra ráðninga. Ráðuneytið reisti synjunina aðallega á því að um væri að ræða upplýsingar sem væru undanþegnar upplýsingarétti, sbr. 7. gr. upplýsingalaga, þar sem þær vörðuðu „umsókn um starf“. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að gögnin hefðu að geyma slíkar upplýsingar. Þá taldi úrskurðarnefndin gögnin ekki heldur hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar sem leynt skuli fara skv. 9. gr. upplýsingalaga. Lagði úrskurðarnefndin því fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 13. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 996/2021 í máli ÚNU 20120003.<br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með erindi, dags. 3. desember 2020, kærði A blaðamaður synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 30. nóvember 2020, á beiðni um upplýsingar.<br /> <br /> Með erindi, dags. 12. október 2020, óskaði kærandi eftir sundurliðuðum upplýsingum um hversu mikið íslenska ríkið hefur greitt í bætur vegna ólögmætra ráðninga í störf á undanförnum áratug. Með tölvupósti, dags. 17. nóvember 2020, var beiðni kæranda svarað og honum veittar umbeðnar upplýsingar. Nánar tiltekið voru honum veittar upplýsingar um fjölda mála og fjárhæðir bótagreiðslna í hverju máli. Í kjölfarið óskaði kærandi með erindi, dags. sama dag., eftir upplýsingum um hvaða mál þetta væru nákvæmlega sem um ræddi. Með tölvubréfi, dags. 30. nóvember 2020, var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að umræddar upplýsingar féllu undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og væru því ekki undirorpnar upplýsingarétti almennings. Þá væru ekki forsendur til að veita ríkari aðgang að slíkum gögnum en lög áskildu, sbr. 11. gr. upplýsingalaga. Auk þess þætti ráðuneytinu óheimilt að veita aðgang að gögnum sem hefðu að geyma upplýsingar um einkahagi einstaklinga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að ekki sé hægt að fallast á að um sé að ræða ósk um upplýsingar um einkahagi einstaklinga enda sé um að ræða opinbera stjórnsýslu og fjármuni almennings. Ekki sé verið að fara fram á upplýsingar um gögn sem umsækjendur leggja fram heldur aðeins hverjir eigi í hlut, þ.e. mál hverra gegn ríkinu sé að ræða og í tengslum við hvaða stöður. </p> <h2>Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Með bréfi, dags. 3. desember 2020, var kæran kynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 17. desember 2020, kemur fram að synjun ráðuneytisins hafi verið byggð á 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Einnig hafi við meðferð málsins verið litið til þeirra sjónarmiða sem rakin séu annars vegar í 9. gr. upplýsingalaga er varðar takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna og hins vegar 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna þar sem fram kemur að stjórnvaldi sé ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. ákvæðisins. Að mati ráðuneytisins sé óumdeilt að umræddar upplýsingar séu gögn sem varði umsóknir um starf hjá opinberum aðilum. Þá segir í umsögninni að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið litið til skýringa í athugasemdum við frumvarp það er varð að upplýsingalögum. Þar sé rakið að með 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga hafi verið lagt upp með að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð var með 4. tölul. 4. gr. þágildandi upplýsingalaga um að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Þá er þeirri afstöðu lýst að beiðni kæranda rúmist ekki innan undanþágu 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, heldur varði hún upplýsingar um persónuleg málefni sem undanþegin eru upplýsingarétti skv. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og varða einkahagsmuni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.<br /> <br /> Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust, með tölvupósti, dags. 8. febrúar 2021, þar sem þeirri afstöðu ráðuneytisins er mótmælt að bótagreiðslur ríkisins eigi að fara leynt samkvæmt upplýsingalögum. Í því sambandi er bent á að krafa almennings um gagnsæi í opinberum rekstri hljóti að vera þeim mun ríkari þegar um sé að ræða fjárútgjöld af skattfé sem tengjast órétti sem hið opinbera hafi beitt einstaklinga. Loks áréttar kærandi að tilgangur þess að óska eftir umræddum upplýsingum sé að varpa skýrara ljósi á hvers eðlis umrædd mál séu sem tengjast bótagreiðslum.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> <p style="text-align: justify;">Í málinu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að sundurliðuðum upplýsingum þau mál þar sem íslenska ríkið hefur greitt bætur vegna ólögmætra ráðninga, skipana eða setninga í opinber störf og embætti á síðastliðnum áratug. Synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins er aðallega reist á því að umræddar upplýsingar séu undanþegnar upplýsingarétti á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem þær varði umsókn um starf.<br /> <br /> Meginreglan um upplýsingarétt almennings kemur fram í ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem segir að þeim sem falla undir gildissvið upplýsingalaganna sé, ef þess er óskað, skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er eftir aðgangi að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings sem lýtur að gögnum sem varða opinbera starfsmenn. Segir í ákvæðinu að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna sem lúta að umsóknum um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Við úrlausn málsins reynir á það hvort þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þær varði „umsókn um starf.“<br /> <br /> Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi til laga nr. 140/2012 kemur fram að upplýsingar um það hvaða starfsmenn starfi við opinbera þjónustu, hvernig slík störf séu launuð og hvernig þeim sé sinnt séu almennt ekki talin að öllu leyti til einkamálefna viðkomandi starfsmanns eða vinnuveitanda hans. Að hluta til kunni að vera um að ræða mikilvægar upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Því gildi að nokkru marki önnur sjónarmið en almennt eigi við í vinnuréttarsambandi á almennum vinnumarkaði. Af þessari ástæðu sé ekki óeðlilegt að almenningur eigi rétt á aðgangi að ákveðnum upplýsingum um það hvernig störfum sem stofnað er til í þágu opinbers verkefnis sé sinnt, þar á meðal um menntun æðstu stjórnenda og starfsheiti hlutaðeigandi starfsmanna. Á hinn bóginn sé viðurkennt að tilteknir hagsmunir stjórnvalda og starfsmanna sem lúti m.a. að því að varðveita traust og trúnað í starfssambandinu geti leitt til þess að réttmætt sé að takmarka þann upplýsingarétt.<br /> <br /> Við afmörkun á því hvort upplýsingarnar varði „umsókn um starf“ verður að líta til þess að 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra hana þröngt. Þá verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem fram koma í lögskýringargögnum með 7. gr. en þar segir: <br /> <br /> „Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með 4. tölul. 4. gr. gildandi laga að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar er rakið í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum sem nú eru í gildi. Hér búa einkum að baki þeir hagsmunir hins opinbera að geta átt kost á hæfum umsækjendum um opinbert starf. Óheftur aðgangur almennings að gögnum um umsækjendur geti hamlað því að hæfir einstaklingar sæki um opinber störf ef hætta væri á að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra yrðu gerð opinber. Til þess að mæta sjónarmiðum um opna stjórnsýslu og stuðla að opinni umræðu um stöðuveitingar hjá opinberum aðilum er hins vegar lagt til að áfram verði skylt að veita upplýsingar um umsækjendur eftir að umsóknarfrestur er liðinn, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins.“<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umbeðin gögn. Um er að ræða yfirlit yfir uppgjör 15 bótakrafna nafngreindra einstaklinga sem beint hefur verið að íslenska ríkinu í tengslum við mál þar sem deilt hefur verið um lögmæti ráðninga eða skipana í opinber störf eða embætti ýmist fyrir dómi eða á öðrum vettvangi. Af yfirlitinu verður þannig ráðið að hluti málanna hafi hafist með því að málsaðili hafi beint kröfu að íslenska ríkinu og því lokið með samkomulagi um bótagreiðslur en öðrum hafi lokið með dómi.<br /> <br /> Af framangreindum athugasemdum verður dregin sú ályktun að ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum sem tengjast undirbúningi ákvörðunar um veitingu starfs eða embættis. Í því sambandi er þannig átt við þau gögn sem ótvírætt liggja til grundvallar og tengjast beint slíkri ákvörðun svo sem nánar greinir í athugasemdunum við ákvæðið. Að mati úrskurðarnefndarinnar falla upplýsingar um bótakröfur sem beint er að íslenska ríkinu í tengslum við lögmæti slíkra ákvarðana, og eftir atvikum uppgjör þeirra, ekki undir 1. mgr. 7. gr. Sama á við um upplýsingar um þá einstaklinga sem að þeim standa og getið er í yfirlitinu. Í því sambandi bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er beinlínis tekið fram að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf. <br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur umrætt yfirlit þannig hvorki að geyma upplýsingar um þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðunum um ráðningu eða skipun né upplýsingar sem varpa að öðru leyti ljósi á hvernig staðið var að undirbúningi þessara ákvarðana. Með vísan til athugasemda við 7. gr. upplýsingalaga, sem eins og áður sagði felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. mgr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings, verður því að álykta sem svo að upplýsingarnar sem fram koma í skjalinu varði ekki „umsókn um starf“ í skilningi ákvæðisins. Því verður takmörkun á aðgangi ekki byggð á ákvæðinu. </p> <h3>2.</h3> <p style="text-align: justify;">Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins er einnig vísað til þess að við meðferð málsins hafi verið litið til 9. gr. upplýsingalaga er varði takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki þess sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“<br /> <br /> Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari segir í athugasemdunum:<br /> <br /> „Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“<br /> <br /> Eðli málsins samkvæmt teljast upplýsingar um uppgjör bótagreiðslna til umsækjenda um opinber störf eða embætti til upplýsinga um fjárhagsmálefni þeirra. Í því felst þó ekki sjálfkrafa að rétt sé á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga að halda þeim leyndum heldur þarf að meta hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt gagnvart þeim einstaklingi sem upplýsingarnar varða, að þær lúti leynd. Við matið þarf að vega saman hagsmuni viðkomandi einstaklings af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Einnig þarf að horfa til markmiða upplýsingalaga um aðhald að opinberum aðilum og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna, sbr. 1. gr. laganna. Þá felur ákvæði 9. gr. í sér undantekningarreglu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings og ber því að túlka hana þröngt. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni umrædds skjals. Sem fyrr segir er um að ræða yfirlit yfir uppgjör 15 bótakrafna nafngreindra einstaklinga og eftir atvikum fjárhæð bóta sem greiddar hafa verið úr opinberum sjóðum í kjölfar þess að íslenska ríkið hefur ýmist verið dæmt bótaskylt eða það fallist á bótaskyldu utan réttar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þrátt fyrir að upplýsingarnar varði greiðslur til einstaklinga og þar með fjárhagsmálefni þeirra verði ekki talið að upplýsingarnar gefi slíka innsýn í fjármál þeirra eða einkahagi að rétt sé að takmarka aðgang að upplýsingum um þær og víkja þannig til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna. Í því sambandi er horft til þess að í skjalinu er ekki að finna upplýsingar um tekjur eða efnahag einstaklinga að öðru leyti sem kunna að liggja til grundvallar útreikningi bótanna. Loks hefur þýðingu að hluti upplýsinganna tengist niðurstöðum dómstóla sem þegar eru aðgengilegar á vefsvæði dómstóla. Þegar vegnir eru saman hagsmunir viðkomandi einstaklinga af því að efni skjalsins fari leynt og hagsmunir almennings af því að kynna sér efni þess er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að almenningur hafi ríkari hagsmuni af því að skjalið sé gert opinbert en viðkomandi einstaklinga af því að skjalið lúti leynd. Er því ekki fallist á að fjármála- og efnahagsráðuneytinu sé óheimilt að veita almenningi aðgang að skjalinu vegna 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.<br /> <br /> Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða nefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er skylt að veita A blaðamanni aðgang að yfirliti yfir uppgjör 15 bótakrafna nafngreindra einstaklinga sem beint hefur verið að íslenska ríkinu í tengslum við mál þar sem deilt hefur verið um lögmæti ráðninga eða skipana í opinber störf eða embætti undanfarin áratug.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> </p>

995/2021. Úrskurðrur frá 30. mars 2021.

A kærði synjun Herjólfs ohf. á beiðni um nöfn umsækjenda um starf á skrifstofu félagsins. Úrskurðarnefndin staðfesti synjun félagsins með vísan til þess að ekki sé skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um starf hjá lögaðilum sem falla undir upplýsingalög, ólíkt því sem gildir um umsækjendur um starf hjá hinu opinbera.

<h1>Úrskurður</h1> <p style="text-align: justify;">Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 995/2021 í máli ÚNU 21030018. </p> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með erindi til Herjólfs ohf., dags. 6. mars 2021 óskaði A eftir nöfnum þeirra sem sóttu um starf á skrifstofu félagsins. Þann 10. mars 2021, synjaði Herjólfur ohf. beiðninni á þeim grundvelli að opinberum hlutafélögum sé ekki skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um auglýst störf. Það sé mat stjórnar Herjólfs ohf. að óskir umsækjenda um nafnleynd og persónuverndarsjónarmið vegi þyngra en upplýsingagjöf til almennings um hverjir voru meðal umsækjenda. </p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að nöfnum umsækjenda um starf á skrifstofu Herjólfs ohf. Þrátt fyrir að ekki sé vísað til lagaákvæða verður ráðið af svari Herjólfs ehf. til kæranda að synjunin félagsins byggi á 7. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Upplýsingalög nr. 140/2012 taka skv. 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. - 10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.<br /> <br /> Í 7. gr. upplýsingalaga er fjallað um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. laganna. Er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2.- 4. mgr. 7. gr. koma fram undantekningar frá þessari reglu. <br /> <br /> Í 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga koma fram fimm undantekningar frá meginreglunni þegar um er að ræða opinbera starfsmenn. Kemur þar fram í 2. tölul. að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn. Í 4. mgr. 7. gr. er að finna tvær undantekningar frá meginreglunni í tilviki starfsmanna lögaðila sem falla undir upplýsingalög. Segir þar að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul. og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. <br /> <br /> Samkvæmt framangreindu er gerður greinarmunur á þeim upplýsingum sem skylt er að veita aðgang að eftir því hvort um sé að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn lögaðila. Ekki er skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda í starf hjá lögaðilum sem falla undir upplýsingalög, ólíkt því sem gildir um umsækjendur um starf hjá hinu opinbera. Því er staðfest ákvörðun Herjólfs ohf. um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra sem sóttu um starf á skrifstofu Herjólfs ohf.</p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Staðfest er synjun Herjólfs ohf. á beiðni A um nöfn umsækjenda um stöðu á skrifstofu Herjólfs ohf.</p> <p style="text-align: justify;"><br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> </p>

994/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

A, fréttamaður, kærði synjun ríkisskattstjóra á beiðni hans um afhendingu tiltekinna gagna varðandi skráningu raunverulegra eigenda á véllæsilegu formi. Úrskurðarnefndin taldi ríkisskattstjóra skylt að verða við beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau væru varðveitt hjá embættinu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin lagði fyrir ríkisskattstjóra að afhenda kæranda umbeðin gögn á rafrænu formi.

<h1>Úrskurður</h1> <p style="text-align: justify;">Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 994/2021 í máli ÚNU 20120008.</p> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Þann 8. desember 2020, kærði A, fréttamaður RÚV, afgreiðslu ríkisskattstjóra, dags. 3. nóvember 2020, á beiðni hans frá 30. október 2020 um gögn um skráningu raunverulegra eigenda. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. október 2020 í máli nr. 935/2020 var lagt fyrir ríkisskattstjóra að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum varðandi skráningu raunverulegra eigenda að undanskildum nánar tilgreindum upplýsingum.<br /> <br /> Í kjölfar þessa sendi ríkisskattstjóri kæranda umrædd gögn með bréfpósti. Í kjölfarið fór kærandi með tölvubréfi, dags. 30. október 2020, fram á að fá gögnin jafnframt afhent með rafrænum hætti. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni hans með tölvubréfi, dags. 3. nóvember 2020, með vísan til þess að ekki væri unnt að verða við beiðninni vegna fjarvinnu starfsfólks. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvubréfi, dags. 3. nóvember 2020, og tók fram að það gæti ekki talist eðlilegt að synja um afhendingu gagnanna með rafrænum hætti. Í því sambandi vísaði kærandi til þess að hann gerði ekki ráð fyrir öðru en að gögnin hefðu verið afhent ríkisskattstjóra rafrænt og því væru þau til á rafrænu formi en samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 bæri að veita aðgang að gögnum á því sniði sem þau eru varðveitt á. Ríkisskattstjóri svaraði kæranda á nýjan leik með tölvubréfi, dags. 5. nóvember 2020, þar sem fram kom að unnt væri að afhenda þau gögn rafrænt sem kærandi hefði þegar fengið afrit af, þ.e. skönnuð afrit af þeim. Gögnin yrði að færa á pappírsform sem þátt í því ferli að afmá úr þeim með öruggum hætti þær upplýsingar sem ekki væri heimilt að veita aðgang að. Með tölvubréfi, dags. 6. nóvember 2020, ítrekaði kærandi beiðni sína á nýjan leik og ítrekaði mikilvægi þess að gögnin yrðu afhent rafrænt. Slíkt væri mikilvægt því blaðamenn þyrftu að geta leitað í gögnunum og unnið með þau á upprunalegu formi. Kærandi vísaði á ný til 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Í kjölfarið svaraði ríkisskattstjóri kæranda á nýjan leik með tölvubréfi, dags. 11. nóvember 2020, þar sem fram kom að ríkisskattstjóra bæri að tryggja að sá hluti gagnanna sem bundinn væri þagnarskyldu væri afmáður með þeim hætti að ekki væri mögulegt að greina inntak þeirra. Ábyrgðin á þeirri ráðstöfun hvíldi á ríkisskattstjóra sem mæti hvað teldist fullnægjandi aðferð í því skyni að afmá þær trúnaðarupplýsingar sem embættinu bæri að gæta. Við þróun á því verklagi hefði m.a. verið horft til verklagsreglna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti sér í kjölfar úrskurðar persónuverndar frá árinu 2015. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að ríkisskattstjóri hafi að endingu fallist á að afhenda hluta gagnanna á véllæsilegu rafrænu sniði en afgangurinn hafi verið afhentur á þann hátt að útprentuð eintök hafi verið skönnuð inn í tölvu og send kæranda í kjölfarið. Þar með voru þau ekki véllæsileg og ekki hægt að leita í þeim. Kærandi telur afgreiðslu ríkisskattstjóra að þessu leyti ekki í samræmi við 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga.</p> <h2> Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 10. desember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar.<br /> <br /> Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 8. janúar 2021, er rakið að kæranda hafi 9. nóvember 2020 verið send öll umbeðin gögn í tölvupósti og þau gögn sem ekki hafi verið hægt að afhenda á rafrænu véllæsilegu formi þar sem þau hafi innihaldið trúnaðarupplýsingar hafi verið skönnuð inn og send kæranda. Þá er vísað til 18. gr. upplýsingalaga og tekið fram að ákvæðið taki ekki á því þegar um sé að ræða afhendingu gagna sem bundin séu trúnaði og geymi upplýsingar sem beri að afmá. Um afhendingu slíkra gagna sé fjallað í 14. gr. laganna og veiti ákvæðið ákveðið svigrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til að tryggja öryggi afmáðra upplýsinga. Þá vísar ríkisskattstjóri til þess að með úrskurði í máli nr. 935/2020 hafi ríkisskattstjóra verið gert að afmá hluta af þeim upplýsingum sem óskað var eftir með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Það væru upplýsingar um fjárhæðir hlutafjármiða og ljósrit af vegabréfum. Hlutafjármiðana hafi orðið að færa á pappírsform í þeim tilgangi að afmá úr þeim með öruggum hætti þær upplýsingar sem ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að veita aðgang að. Ríkisskattstjóri hafi metið það svo að þessi aðferð við útstrikun viðkvæmra upplýsinga væri öruggust þar sem það væri tryggt að ekki væri hægt að afmá útstrikunina. Þá er vísað til þess að hlutafjármiðarnir hafi hvorki verið í miklu magni né hafi þeir haft að geyma mikinn texta. Öll önnur gögn sem afhent voru hafi verið véllæsileg. Við mat á því hvaða aðferð bæri að notast við hvað varðaði útstrikun upplýsinga hafi embættið m.a. farið eftir þeim verklagsreglum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi sett í kjölfar úrskurðar persónuverndar í máli 2014/1470. Þó er tekið fram að ríkisskattstjóri hafi ekki haft aðgang að umræddum verklagsreglum en vísað er til fréttar ríkisútvarpsins frá 10. janúar 2016 varðandi nánara efni þeirra. Loks er tekið fram að á ríkisskattstjóra hvíli rík skylda til að tryggja öryggi þessara gagna og það sé því mat embættisins að það sé best gert með þeim hætti sem lýst er í umsögninni. Með vísan til þessa verði umrædd gögn því ekki afhent með öðrum hætti en þegar hafi verið gert.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda við umsögn ríkisskattstjóra, dags. 13. febrúar 2021, er áréttuð sú afstaða að afgreiðsla ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um gögn samræmist ekki 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga, m.a. eins og henni hefur verið beitt í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kærandi telji aðferð ríkisskattstjóra við að afmá umræddar upplýsingar gamaldags og vísar til þess að embættinu hefði verið fært að óska eftir ráðgjöf t.d. frá ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, tölvusérfræðingum eða sérfræðingum um gagnaöryggi. Kærandi vísar einnig til þess að þegar viðkvæmar upplýsingar séu afmáðar úr gögnum sé mikilvægt að eins lítið sé hróflað við þeim og mögulegt sé til að þau haldist sem næst upprunalegu formi. Þá telji kærandi nauðsynlegt að árétta að þótt umfang gagna sé takmarkað hafi úrskurður um efnið fordæmisgildi. Í því sambandi bendir kærandi á að hann hafi þegar farið fram á afhendingu og fengið frekari sambærileg gögn frá ríkisskattstjóra en ekki á upprunalegu formi.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <p style="text-align: justify;">Í máli þessu liggur fyrir að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 935/2020 afhenti ríkisskattstjóri kæranda umbeðin gögn í samræmi við efni úrskurðarins og er því ekki deilt um skyldu embættisins til að afhenda gögn. Mál þetta lýtur hins vegar að því hvort embættinu hafi við afhendingu þeirra verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta gagnanna á rafrænu formi, nánar tiltekið á því formi sem þau voru upprunalega vistuð á, með það að markmiði að tryggja öryggi gagnanna sem best. <br /> <br /> Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Samkvæmt seinni málslið 1. mgr. 20. gr. laganna gildir hið sama um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. <br /> <br /> Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga segir að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau séu varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn séu eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2020 segir eftirfarandi: <br /> <br /> „Ákvæði 1. mgr. 18. gr. byggist á því að veita beri aðgang að upplýsingum á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Af 2. mgr. 19. gr. leiðir síðan að sé beiðni afgreidd með vísan til þess að upplýsingar séu þegar aðgengilegar, þá skal í slíkri afgreiðslu tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti þær eru það. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír. Almennt ætti það að vera til hagræðis fyrir þann sem hefur beiðni til afgreiðslu að geta afhent upplýsingar á rafrænu formi, en sé um upplýsingar að ræða sem falla undir 14. gr. frumvarpsins og eru viðkvæmar á einhvern hátt, ber eðli máls samkvæmt að tryggja viðeigandi öryggi þeirra gagnvart óviðkomandi. Þá er tiltekið í ákvæðinu að eftir því sem fært er skuli viðkomandi heimilað að kynna sér gögn á starfsstöð viðkomandi. Ræðst það auðvitað af aðstæðum að hvað marki þessi leið á við.“<br /> <br /> Af framangreindu leiðir að ríkisskattstjóra ber að afhenda gögn á rafrænu formi sem varðveitt eru með þeim hætti ef þess er óskað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þrátt fyrir ríkisskattstjóri hafi afhent kæranda umbeðin gögn hefur hluti þeirra ekki verið afhentur á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 18. gr. svo sem kærandi fór fram á. Þau gögn sem um ræðir tengjast skráningu raunverulegra eigenda og munu almennt vera varðveitt með rafrænum hætti hjá ríkisskattstjóra, sbr. t.d. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, þar sem segir að málsmeðferð við skráningu upplýsinga um raunverulega eigendur skuli vera rafræn sé þess kostur. <br /> <br /> Af hálfu ríkisskattstjóra hefur því verið borið við að ekki sé unnt að tryggja nægjanlega öryggi þeirra upplýsinga í gögnunum sem undirorpnar eru 9. gr. upplýsingalaga með öðrum hætti en gert var við afgreiðslu á beiðni kæranda, þ.e. með því að prenta gögnin út og afmá handvirkt umræddar upplýsingar og loks skanna þau inn í tölvu áður en þau voru send kæranda. Úrskurðarnefndin tekur fram að vissulega megi fallast á með ríkisskattstjóra að rík skylda hvíli á embættinu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinga sem leynt skulu fara t.d. á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar fær úrskurðarnefndin ekki séð að ríkisskattstjóra hafi verið ómögulegt grípa til slíkra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinganna en verða jafnframt við beiðni kæranda um afhendingu umræddra gagna á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í samræmi við skýr fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin horfir í því sambandi til þess að algengt er að stjórnvöld afhendi borgurunum gögn á rafrænu formi þar sem afmáðar eru viðkvæmar upplýsingar sem leynt eiga að fara. <br /> <br /> Þá virðist ríkisskattstjóri enn fremur reisa afstöðu sína á verklagsreglum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu setti starfsemi sinni í kjölfar úrskurðar persónuverndar sem upp var kveðinn árið 2015. Þrátt fyrir að efni verklagsreglnanna kunni að hafa almennt leiðsagnargildi við meðferð persónuupplýsinga áréttar úrskurðarnefndin að slíkar verklagsreglur eru ekki bindandi fyrir ríkisskattstjóra og getur efni þeirra þaðan af síður þokað ákvæðum upplýsingalaga varðandi afhendingu gagna.<br /> <br /> Með vísan til þess sem að ofan greinir fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki á að ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta af umbeðnum gögnum á því formi sem þau voru varðveitt á. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ríkisskattstjóra beri að afhenda kæranda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi. </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 3. nóvember 2020, um að synja beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau eru varðveitt á er felld úr gildi. Ríkisskattstjóra ber að afhenda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir</p>

993/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

A, fréttamaður, kærði ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis að synja honum um aðgang að samantektum um byggingu nýs Landspítala og öðrum skyldum gögnum, aðallega því um vinnugögn væri að ræða í skilningi 8. gr. upplýsingalaga, sbr. 5. tölul. 6. gr. laganna. Úrskurðarnefndin taldi skilyrði 8. gr. ekki uppfyllt, því gögnin höfðu verið unnin í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins. Önnur ákvæði upplýsingalaga voru ekki talin standa því í vegi að kæranda yrðu afhent umbeðin gögn. Lagði úrskurðarnefndin því fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim.

<h1>Úrskurður</h1> <p style="text-align: justify;">Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 993/2021 í máli ÚNU 20100015. </p> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með kæru, dags. 13. október 2020, fór A, fréttamaður, þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði um rétt hans til aðgangs að tilteknum gögnum sem hann óskaði eftir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og tengjast byggingu nýs Landspítala, þar sem ráðuneytið hefði ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda innan 30 virkra daga frá móttöku hennar, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.<br /> <br /> Með tölvupósti til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 28. maí 2020, óskaði kærandi eftir af¬riti af greiningarskýrslu ráðuneytisins og Framkvæmdasýslu ríkisins (hér eftir FSR) um mál¬efni nýs Landspítala auk allra eldri útgáfa hennar. Þá óskaði kærandi með tölvupósti, dags. 2. júlí 2020, eftir öðrum gögn¬um sem lægju fyrir hjá ráðuneytinu og varpað gætu ljósi á efnisatriði skýrslunnar, svo sem minnis¬blöðum, tölvupóstum, samantektarskjölum eða öðrum gögnum sem hefðu að geyma slík¬ar upplýsingar. Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 12. ágúst 2020, kom fram að gert væri ráð fyrir að samantektin sem kærandi óskaði eftir yrði tilbúin á næstu vikum og að kærandi yrði látinn vita þegar hún lægi fyrir.<br /> <br /> Kærandi óskaði upphaflega eftir greiningarskýrslu um málefni nýs Landspítala sumarið 2019. Var þá jafnframt óskað eftir upplýsingum m.a. um auðkenni viðeigandi máls í málaskrá ráðuneytisins auk lista yfir öll gögn málsins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið synjaði beiðni kæranda um aðgang að skýrslunni með tölvupósti, dags. 30. ágúst 2019. Kom þar fram að skýrslan væri í vinnslu af sérfræðingi innan ráðuneytisins með aðstoð sérfræðinga FSR og upplýsingum frá fjölmörgum aðilum sem ynnu að undirbúningi þeirra þátta sem fjallað væri um í skýrslunni. Ekki færi á milli mála að skýrslan teldist vinnugagn, sbr. 5. tölul. 6. gr. laga nr. 140/2012, sbr. og 8. gr. sömu laga, þótt tvenn stjórnvöld hefðu komið að ritun hennar. Stefnt væri að því að fullvinna skýrsluna á næstu vikum og yrði þá unnt að veita aðgang að henni. Eins og skjalið stæði kæmu ekki fram nýjar upplýsingar um atvik máls í því, sem gæti gert að verkum að skylt væri að afhenda skjalið þótt um vinnugagn væri að ræða, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012. Kæranda voru hins vegar afhentar upplýsingar um auðkenni málsins í málaskrá ráðuneytisins auk lista yfir gögn málsins.<br /> <br /> Í kjölfar samskipta kæranda við ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, sbr. 13. gr. a laga nr. 140/2012, og fundar ráðgjafans með fulltrúum ráðuneytisins og FSR, sendi ráðuneytið kæranda nánari útskýringar á afstöðu sinni, dags. 12. september 2019. Kom þar fram að málið hefði frá upphafi verið unnið í ráðuneytinu, með aðstoð og samvinnu við sérfræðinga FSR og upplýsingum frá aðilum sem ynnu að undirbúningi þeirra þátta sem fjallað væri um í skýrslunni. Hlutverk sérfræðinga FSR hefði verið að safna tölfræðilegum upplýsingum úr gagnagrunnum stofnunarinnar, aðstoða við greiningar og bæta í skýrsluna eftir því sem vinnslu hennar yndi fram í ráðuneytinu. Það hefði ekki verið verkefni FSR að leggja efnislegt mat á upplýsingarnar. Aðkoma FSR hefði því falist í störfum sem 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012 tæki til. Samstarf ráðuneytisins við FSR leiddi af fastmótuðu hlutverki sem stofnunin gegndi í tengslum við opinberar framkvæmdir, sbr. VI. kafla laga um opinberar framkvæmdir, nr. 84/2001. <br /> <br /> Í erindinu kom og fram að ráðuneytið teldi ekki tilefni til að veita ríkari aðgang að skýrslunni en skylt væri, sbr. 11. gr. laga nr. 140/2012. Til þess væri að líta að almannahagsmunir stæðu til þess að opinber umræða um mikilvæg opinber málefni byggði ekki á ófullkomnum upplýsingum eða vinnuskjölum sem kynnu að gefa villandi mynd af því sem ætlunin væri að varpa ljósi á. Sjónarmið um mikilvæga almannahagsmuni, sbr. 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012, stæðu gegn því að veittur yrði aðgangur að samantektinni meðan hún væri enn í vinnslu.<br /> <br /> Með svari kæranda, dags. 12. september 2019, var því mótmælt að skýrslan gæti talist vinnu-gagn. Þá óskaði kærandi í sama erindi eftir öllum gögnum sem tilgreind væru á lista yfir gögn málsins sem afhentur var kæranda 31. ágúst 2019 auk nýrra gagna sem kynnu að hafa orðið til eftir að listinn var útbúinn.<br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 25. október 2019, voru kæranda afhent tiltekin gögn sem heyrðu undir málið í málaskrá ráðuneytisins. Tiltekin skjöl voru ekki afhent, með vísan til þess að þau tengdust undir¬búningi að útboði meðferðarkjarna nýs Landspítala. Upplýsingar í gögnunum vörðuðu efna¬hagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins og gæti það haft áhrif á niðurstöðu útboðsins ef aðgangur yrði veittur, sbr. 3. og 5. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012. Þá kom fram að ekki væri unnt að veita aukinn aðgang, sbr. 11. gr. sömu laga.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki afgreitt beiðni kæranda eins og hún var sett fram í tölvupóstum hans frá 28. maí og 2. júlí 2020 og sé því ekki um að ræða að synjað hafi verið um afhendingu gagnanna. Hins vegar hafi sambærilegri beiðni kæranda sum¬arið 2019 verið synjað á þeim grundvelli að um vinnugögn væri að ræða. Þótt gögnin hefðu farið á milli ráðuneytisins og FSR teldust þau áfram vinnugögn þar sem 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012 ætti við. Þá væri ekki tilefni til að veita aukinn aðgang að gögnunum í sam¬ræmi við 11. gr. laga nr. 140/2012 með vísan til 3. og 5. tölul. 10. gr. sömu laga.<br /> <br /> Kærandi telur skilyrði fyrir að gögn teljist vinnugögn sem fram koma í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012 ekki vera uppfyllt, þ.e. að 1) stjórnvaldið sjálft hafi ritað eða útbúið þau til eigin nota, 2) við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls, og að 3) þau hafi ekki verið afhent öðrum. Í fyrsta lagi hafi umbeðin gögn ekki verið rituð af fjármála- og efnahagsráðuneytinu heldur FSR, að beiðni ráðuneytisins. Ljóst sé að FSR sé ekki hluti af ráðuneytinu. Í öðru lagi fær kærandi ekki séð að gögnin hafi verið unnin til að undirbúa ákvarðanatöku eða aðrar lyktir máls, þar sem skýrslan hafi að sögn ráðuneytisins verið unnin til að skerpa sýn þess og varpa ljósi á stöðu fast¬eignamála Landspítalans og fyrirhugaðar breytingar samhliða uppbyggingu á sjúkrahóteli, með¬ferðarkjarna, rannsóknarhúsi og bílastæðahúsi.<br /> <br /> Í þriðja lagi telur kærandi ljóst að gögnin hafi verið afhent öðrum og geti af þeirri ástæðu ekki talist vinnugögn. Ekki sé hægt að halda því fram að 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012 eigi við í þessu tilviki og að FSR hafi við gerð skjalsins verið í hlutverki einhvers konar ritara fyrir ráðuneytið, sem leiða eigi til þess að skjalið missi ekki stöðu sína sem vinnugagn. FSR sé sjálf¬¬stæð stofnun með lögbundið hlutverk, sbr. 19. og 20. gr. laga um skipan opinberra fram¬kvæmda, nr. 84/2001.<br /> <br /> Kærandi telur loks afar langsótt að fella þær upplýsingar sem óskað er eftir undir undan¬þágu-ákvæði 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012, enda sé rammi þess ákvæðis þröngur og taki aðeins til upplýsinga sem talist geta varðað mikilvæga hagsmuni ríkisins. Ekki sé að sjá að afhending og birting upplýsinganna í máli þessu geti ógnað fjármálastöðugleika eða skaðað fjárhag eða efnahag ríkisins að nokkru leyti eða valdið neinum sambærilegum skaða.<br /> <br /> Loks vísar kærandi til þess sem fram kom í svari ráðuneytisins 30. ágúst 2019 um að eins og skýrslan stæði nú kæmu þar ekki fram nýjar upplýsingar um atvik máls. Að mati kæranda getur það vart staðist skoðun að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að gögnin séu ekki afhent en um leið innihaldi þau engar upplýsingar sem ekki sé að finna annars staðar.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Kæran var kynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu með bréfi, dags. 14. október 2020, og ráðuneytinu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar og afritum af gögnum sem hún lýtur að.<br /> <br /> Í umsögn ráðuneytisins, dags. 30. október 2020, er rakið að þegar kæranda var svarað sumarið 2019 hafi hann verið upplýstur um að ekki lægi fyrir samantekt eða skýrsla sem hefði fengið tilhlýðilega rýni innan ráðuneytisins heldur aðeins vinnugagn, sem á þeim tíma sem beiðni kæranda barst hafi verið mjög skammt á veg komið. Vegna starfsmannabreytinga og annarra verkefna hafi ekki enn reynst unnt að koma drögunum í það horf að unnt sé að gefa þau út af hálfu ráðuneytisins.<br /> <br /> Ráðuneytið telji ljóst að beiðni kæranda frá 28. maí 2020 hafi verið synjað, sbr. skýringar sem sendar voru kæranda 12. september 2019. Ekki sé þörf á að bæta við þær skýringar þótt kærandi hafi að nýju óskað eftir skýrslunni 28. maí 2020. Það hafi verið mistök af hálfu ráðuneytisins að fylgja því ekki eftir gagnvart kæranda að afstaða ráðuneytisins til þeirrar beiðni væri hin sama og áður. Að því er varði beiðni kæranda frá 2. júlí 2020 um önnur gögn sem liggi fyrir hjá ráðuneytinu og varpað gætu ljósi á efnisatriði skýrslunnar, svo sem minnisblöð, tölvupóstar, samantektarskjöl eða önnur gögn sem hefðu að geyma slíkar upplýsingar, sé ljóst að sú beiðni taki til sömu gagna og kæranda voru afhent 25. október 2019. Voru kæranda þá afhent þau gögn sem heyrðu undir málið í málaskrá ráðuneytisins, að undanskildum nokkrum skjölum. Ekki liggi fyrir önnur gögn sem falli undir beiðni kæranda.<br /> <br /> Umsögn ráðuneytisins fylgdu tvær útgáfur af skýrslunni auk þeirra skjala annarra sem kæranda var synjað um aðgang að.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda við umsögn ráðuneytisins, dags. 14. desember 2020, kemur fram að hann sé ekki í aðstöðu til að sannreyna hvernig samvinnu ráðuneytisins og FSR hafi verið háttað við gerð skýrslunnar sem óskað er eftir. Hins vegar telji kærandi ljóst að FSR geti ekki talist hafa sinnt ritarastörfum eða sambærilegum störfum, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012, fyrir ráðuneytið. Kærandi bendir jafnframt á að í frumvarpi til laga um breytingu á upp¬lýsingalögum, sem lagt hafi verið fram á síðasta löggjafarþingi en hafi ekki náð fram að ganga, hafi verið lagt til að gögn FSR yrðu áfram skilgreind sem vinnugögn þótt þau færu á milli stofnana. Ekki sé hægt að skilja frumvarpið öðruvísi en svo að með því séu rök kær¬anda í máli þessu viðurkennd, enda væri annars tilgangslaust að leggja breytinguna til.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> <p style="text-align: justify;">Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samantekt/skýrsludrögum um húsnæðismál Landspítala og öðrum nánar tilgreindum skjölum í tengslum við málið. Synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins er byggð á því að samantektin teljist vinnugagn í skilningi upplýsingalaga, en einnig að hún innihaldi upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins í skilningi 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012, sem réttlæti takmörkun á aðgangi. Hvað varðar hin skjölin byggist synjun ráðuneytisins á 3. og 5. tölul. 10. gr. sömu laga.</p> <p style="text-align: justify;">Í 5. tölul. 6. gr. laga nr. 140/2012 kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 8. gr. eru vinnugögn skilgreind sem þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar skv. I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að af orðalagi 1. mgr. leiði að til að skjal teljist vinnugagn þurfi almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfs¬mönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. <br /> <br /> Séu gögn afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Skv. 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. teljast einnig til vinnugagna gögn sem berast milli aðila sem falla undir gildissvið laganna skv. I. kafla þegar einn sinnir ritarastörfum eða sambærilegum störfum fyrir annan, enda fullnægi þau að öðru leyti skil¬yrðum þeim sem fram koma í 1. mgr. 8. gr. Í athugasemdum við töluliðinn í frumvarpi því sem varð að lögunum kemur það eitt fram að raun¬hæft dæmi um tilvik sem falli undir þessa reglu sé þegar starfsmaður ráðuneytis sinnir ritarastörfum fyrir sjálfstæða úrskurðarnefnd.<br /> <br /> Framkvæmdasýsla ríkisins varð til sem sjálfstæð stofnun samkvæmt lögum um skipan opin-berra framkvæmda, nr. 84/2001. Í 19. gr. laganna kemur m.a. fram að stofnunin veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingartæknileg málefni og undirbúning fram-kvæmda. Hún heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Skv. 20. gr. sömu laga skal FSR beita sér fyrir því að hagkvæmni sé gætt í skipan opinberra framkvæmda, m.a. með því að veita ráðgjöf og vinna að samræmingu við undirbúning og áætlunargerð við opinberar verkframkvæmdir. Samkvæmt 22. gr. sömu laga selur FSR ráðu¬neytum og ríkisstofnunum þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir.<br /> <br /> Fjármála- og efnahagsráðuneytið afmarkaði gagnabeiðni kæranda að því er varðar saman-tekt/skýrsludrög um húsnæðismál Landspítala við tvö skjöl, annað frá 20. maí 2019 og hitt frá 1. september sama ár. Fyrra skjalið ber heitið Hringbrautarverkefnið. Greiningar- og stöðuskýrsla í maí 2019 og telur 112 blaðsíður. Fram kemur í inngangi að skýrslan sé unnin af sérfræðingum hjá FSR og fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir ráðuneytið. Upphaflegt mark¬mið hafi verið að fá góða heildarsýn yfir kostnað vegna nýrra bygginga og hvaða annar kostnaður fylgdi þeim, þ.m.t. vegna margvíslegs búnaðar, flutninga o.fl.<br /> <br /> Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur komið fram að hlutverk FSR við gerð samantektarinnar hafi falist í að safna tölfræðilegum upplýsingum úr gagnagrunnum stofnun-arinnar, aðstoða við greiningar og bæta í skýrsluna eftir því sem vinnslu hennar yndi fram í ráðuneytinu. Það hafi ekki verið verkefni FSR að leggja efnislegt mat á upplýsingarnar.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin telur að skjalið uppfylli þau skilyrði að vera undirbúningsgagn og að hafa verið útbúið af stjórnvaldinu sjálfu, þ.e. fjármála- og efnahagsráðuneytinu, til eigin nota. Hins vegar er það mat nefndarinnar, m.a. með hliðsjón af framangreindum upplýsingum frá ráðuneytinu um hlutverk FSR við gerð samantektarinnar/skýrsludraganna auk hlutverks stofnunarinnar sam¬kvæmt lögum nr. 84/2001, að þáttur FSR í gerð skjalsins geti ekki talist til ritarastarfa eða sambærilegra starfa í skilningi 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012. Þrátt fyrir að FSR hafi ekki lagt efnislegt mat á þær upplýsingar og gögn sem lögð voru til telur nefndin ekki unnt að líta öðruvísi á en að framlag stofnunarinnar til samantektarinnar hafi farið út fyrir það sem talið verður til ritarastarfa eða sambærilegra starfa í skilningi upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin telur því að vinnugagnaskilyrði laga nr. 140/2012 um að gagn megi ekki hafa verið afhent öðrum, sé ekki uppfyllt í þessu tilviki, og ráðuneytinu hafi þar af leiðandi ekki verið heimilt að byggja synjun sína um aðgang að skjalinu á því að um vinnugagn sé að ræða.<br /> <br /> Síðari útgáfa samantektarinnar/skýrsludraganna frá 1. september 2019 skiptist í samantekt um húsnæðismál Landspítala, fyrirhugaðar breytingar, tækjakaup o.fl. og hins vegar leigulíkan fyrir spítalann. Hún telur 69 blaðsíður og inniheldur að meginstefnu til sambærilegar upplýsingar og fram koma í fyrri útgáfu hennar. Fram kemur í inngangi að upplýsingaöflun hafi þannig verið háttað að leitað hafi verið fanga hjá starfsfólki FSR, í gagnasafni FSR, hjá ráðuneytinu og í fyrri skýrslum, greinargerðum og lagafrumvörpum um Landspítalaverkefnið. Auk þess hafi verið haldnir fjölmargir fundir með Landspítala og Nýjum Landspítala ohf. (NLSH).<br /> <br /> Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var skjalið ekki afhent FSR. Með hliðsjón af því telur nefndin að skilyrði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012 séu uppfyllt og að skjalið teljist vinnugagn í skilningi laganna. Á það er hins vegar að líta að í 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. sömu laga kemur fram að þrátt fyrir að réttur almennings taki ekki til vinnugagna beri að afhenda slík gögn ef þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram. Í skjalinu er að finna ýmsar upplýsingar sem úrskurðarnefndin telur að komi ekki annars staðar fram, eða a.m.k. séu upplýsingarnar geymdar með þeim hætti að almenningur og fjölmiðlar eigi óhægt um vik að nálgast þær. Fram kemur enda í inngangi skjals¬ins að upplýsinga hafi m.a. verið aflað frá starfsfólki FSR og á fundum með fulltrúum Land¬spítala og Nýs Landspítala ohf. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að synjun ráðu¬neytisins á beiðni kæranda um aðgang að skjalinu verði ekki byggð á 5. tölul. 6. gr. laga nr. 140/2012, sbr. 8. gr. sömu laga.</p> <h3>2.</h3> <p style="text-align: justify;">Synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins er einnig byggð á því að ekki unnt að veita kæranda aðgang að samantektum um húsnæðismál Landspítala með vísan til 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012. Í greininni kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Þá segir að undir undanþágu 3. tölul. falli upplýsingar um fjármál ríkisins og efnahagsmál. Þetta séu þó ekki hvaða upplýsingar sem er heldur einvörðungu þær sem talist geta varðað mikilvæga hagsmuni ríkisins, eins og t.d. fjármálastöðugleika eða upplýsingar sem eru þess eðlis að afhending þeirra og birting gæti skaðað fjárhag eða efnahag ríkisins.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þær tvær samantektir sem kæranda var synjað um aðgang að. Báðar útgáfur eru byggðar upp með svipuðum hætti: 1) stefnumörkun ráðuneytisins varðandi eignaumsýslu, 2) tímalína verkefnisins, söguleg þróun frá aldamótum o.fl., 3) samantekt um húsnæði LSH, 4) áætlaður stofnkostnaður, 5) staða hönnunar, 6) mat á virði eldri fasteigna, 7) möguleg hagræðing í rekstri, 8) mögulegt leiguverð, 9) BIM, BREEAM, áhættugreiningar o.fl.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki unnt að fallast á það með fjármála- og efnahags¬ráðu¬neytinu að aðgangur kæranda að samantektum/skýrsludrögum um húsnæðismál Landspítala verði takmarkaður í heild með vísan til 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012. Ráðuneytið hefur ekki rökstutt hvernig afhending og birting þeirra upplýsinga sem fram koma í gögnunum kynni að skaða fjárhag eða efna¬hag ríkisins. Úrskurðarnefndin telur þó að á nokkrum stöðum í samantektunum sé að finna sundurliðaðar kostnaðaráætlanir, þar sem fjallað sé um framkvæmdir þar sem ekki hefur enn farið fram útboð. Í þeim tilvikum kynni afhending þeirra upplýsinga að hafa verðmyndandi áhrif sem gæti valdið ríkinu tjóni. Úrskurðarnefndin telur því að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim upplýsingum á grundvelli 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012, sjá nánar í úrskurðarorði.<br /> <br /> Að öðru leyti telur úrskurðarnefndin að rök standi ekki til að synja kæranda um aðgang að samantektunum. Nefndin telur mikilvægt að líta til þess að bygging nýs Landspítala er mjög stór framkvæmd með tilheyrandi ráðstöfun opinberra fjármuna. Hafa verður hliðsjón af markmiðum upplýsingalaga, til að mynda því að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni, við mat á því hvort meginregla 1. mgr. 5. gr. laganna um rétt til aðgangs að upplýsingum skuli víkja fyrir takmörkunarákvæði 3. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012, sem skýra ber þröngri lögskýringu.</p> <h3>3.</h3> <p style="text-align: justify;">Kæranda var synjað um aðgang að eftirfarandi skjölum sem tilheyra máli um byggingu Landspítala í málaskrá ráðuneytisins:<br /> <br /> 1) Erindi framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ohf. til framkvæmdastjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, dags. 6. mars 2019, um útboðsfyrirkomulag meðferðarkjarna.<br /> 2) Rýni VSÓ Ráðgjafar og NIRAS í kostnaðaráætlun Nýs Landspítala ohf. að því er varðar framkvæmdakostnað gatna, lóða og veitna ásamt minnisblaði, dags. 7. nóv¬ember 2012.<br /> 3) Fundargögn vegna fundar 3. maí 2019 um útboðstilhögun meðferðarkjarna:<br /> a) Minnisblað Corpus3 ehf. um tilhögun framkvæmda og útboðsleiðir vegna meðferðar-kjarna, dags. 29. mars 2019.<br /> b) Vinnuskjal Nýs Landspítala ohf. um tilhögun hönnunar og verkframkvæmdar vegna með¬ferðarkjarna, dags. 17. apríl 2019.<br /> c) Nyr Landspitali. Architecture and Engineering. Greinargerð frá apríl 2019, útbúin af Matthew Harrison CEng Ph.D. MIMechE MIOA fyrir Corpus3 ehf.<br /> 4) Erindi frá Kristjáni B. Ólafssyni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 17. apríl 2019, varðandi rekstrarhagræðingu og fjármagnskostnað.<br /> <br /> Synjunin var byggð á 3. og 5. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012. Í 5. tölul. kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði. Í athugasemdum við 5. tölul. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 segir eftirfarandi:<br /> <br /> „Markmið þessa ákvæðis er að hindra að nokkur geti aflað sér á ótilhlýðilegan hátt vitneskju um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera. Með ráðstöfunum á vegum ríkis og sveitar¬félaga er m.a. átt við fyrirhugaðar ráðstafanir í fjármálum, svo sem aðgerðir í gjaldeyrismálum, skatta¬málum, tollamálum og öðrum málum er varða tekjuöflun hins opinbera. Ákvæði þetta getur þannig í sumum tilvikum verndað sömu hagsmuni og ákvæði 3. tölul. Hér undir falla einnig ráðstafanir sem ætlað er að tryggja öryggi, svo sem fyrirhugaðar eftirlitsaðgerðir lögreglu og annarra yfirvalda í þágu umferðaröryggis. Enn fremur er heimilt samkvæmt þessum tölulið að takmarka aðgang almennings að gögnum sem lúta að fyrirhuguðum ráðstöfunum í kjaramálum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja jafnræði í kjarasamningum hins opinbera og viðsemjenda þess. Undanþágunni verður einnig beitt í tengslum við hagræðingu og breytingu í rekstri opinberra stofnana og fyrirtækja.“<br /> <br /> Þá segir einnig að ákvæðið geri ráð fyrir því að stjórnvald meti sjálfstætt í hverju tilviki hverjar afleiðingar það hefði ef ljóstrað yrði upp um fyrirhugaðar ráðstafanir. Séu líkur á því að árangur skerðist, þótt ekki sé nema að litlu leyti, mundi stjórnvaldi að öllu jöfnu vera heimilt að synja um að veita umbeðnar upplýsingar á grundvelli þessa ákvæðis.<br /> <br /> Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki rökstutt hvernig afhending og birting viðkomandi gagna gæti orðið þess valdandi að þær ráðstafanir sem fjallað er um í gögnunum yrðu þýðingarlausar eða skiluðu ekki tilætluðum árangri. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögnin og telur vandséð hvernig afhending gagnanna gæti haft þau áhrif. Hins vegar innihalda gögnin að hluta til upplýsingar sem eru sama marki brenndar og þær sem nefndar voru í niðurstöðukafla 2, þ.e. tengjast framkvæmdum þar sem ekki hefur enn farið fram útboð. Í þeim tilvikum kynni afhending þeirra upplýsinga að hafa verðmyndandi áhrif sem gæti valdið ríkinu tjóni. Á það við um rýni VSÓ Ráðgjafar og NIRAS í kostnaðaráætlun Nýs Landspítala ohf. að því er varðar framkvæmdakostnað gatna, lóða og veitna ásamt minnisblaði, dags. 7. nóvember 2012, í heild sinni. Úrskurðarnefndin telur því að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim upplýsingum á grundvelli 3. og 5. tölul. 10. gr. laga nr. 140/2012, sjá nánar í úrskurðarorði.</p> <h2>Úrskurðarorð</h2> <p style="text-align: justify;">Fjármála- og efnahagsráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að eftirfarandi gögnum:<br /> <br /> 1) Hringbrautarverkefnið. Greiningar- og stöðu¬skýrsla í maí 2019, að undanskildum bls. 49, 53, 64–67 og 71–74.<br /> 2) Samantekt um húsnæðismál Landspítala, fyrirhugaðar breytingar, tækjakaup o.fl. og leigu¬líkan fyrir spítalann, dags. 1. september 2019, að undanskildum bls. 32, 35–37 og 39–41.<br /> 3) Erindi framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ohf. til framkvæmdastjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, dags. 6. mars 2019, um útboðsfyrirkomulag meðferðarkjarna.<br /> 4) Fundargögn vegna fundar 3. maí 2019 um útboðstilhögun meðferðarkjarna:<br /> a) Minnisblað Corpus3 ehf. um tilhögun framkvæmda og útboðsleiðir vegna meðferðar-kjarna, dags. 29. mars 2019.<br /> b) Vinnuskjal Nýs Landspítala ohf. um tilhögun hönnunar og verkframkvæmdar vegna með¬ferðarkjarna, dags. 17. apríl 2019.<br /> c) Nyr Landspitali. Architecture and Engineering. Greinargerð frá apríl 2019, útbúin af Matthew Harrison CEng Ph.D. MIMechE MIOA fyrir Corpus3 ehf.<br /> 5) Erindi frá Kristjáni B. Ólafssyni til fjármála- og efnahagsráðuneytis, dags. 17. apríl 2019, varðandi rekstrarhagræðingu og fjármagnskostnað.<br /> <br /> Afgreiðsla fjármála- og efnahagsráðuneytis á beiðni kæranda um gögn sem tengjast byggingu nýs Landspítala er að öðru leyti staðfest.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir</p>

992/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

Deilt var um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni kæranda um aðgang að tilteknum gögnum er vörðuðu hann sjálfan, eiginkonu hans og dóttur. Var kæranda m.a. synjað um aðgang að ákveðnum gögnum á þeim grundvelli að um vinnugögn væri að ræða. Úrskurðarnefndin taldi að gögnin uppfylltu ekki þau skilyrði að teljast vinnugögn, sbr. 8. gr. upplýsingalaga, og lagði fyrir Garðabæ að veita kæranda aðgang að þeim. Úrskurðarnefndin taldi að tilteknir hlutar beiðni kæranda hefðu ekki hlotið þá meðferð sem nefndinni væri fært að endurskoða og var þeim vísað til Garðabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Loks var hluta beiðni kæranda vísað frá nefndinni, þar sem viðkomandi gögn lægju ekki fyrir í skilningi upplýsingalaga.

<h1 style="text-align: justify;">Úrskurður</h1> <p style="text-align: justify;">Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 992/2021 í máli ÚNU 20090026. </p> <h2 style="text-align: justify;">Kæra og málsatvik</h2> <p style="text-align: justify;">Með erindi, dags. 26. september 2020, kærði A afgreiðslu sveitarfélagsins Garðabæjar á beiðni hans um gögn. Með erindi, dags. 22. ágúst 2020, óskaði kærandi eftir afritum af öllum gögnum frá B sem vörðuðu kæranda, eiginkonu hans og dóttur, bæði handskrifuð og úr kerfum Garðabæjar (bæjarskrifstofu og Garðaskóla).<br /> <br /> Í svari Garðabæjar, dags. 21. september 2020, kom fram að gögn sem kærandi hefði óskað eftir væru tilbúin til afhendingar. Í erindi kæranda til Garðabæjar sama dag kom fram að ýmis gögn vantaði, svo sem fundargerðir, punkta sem B hefði tekið niður á foreldrafundi, samskipti við fyrirtækið KVAN, samskipti við C, fundi sem B hefði átt við stúlkurnar o.fl.<br /> <br /> Í svari Garðabæjar, dags. 29. september 2020, kom fram að sjálfsagt væri að skoða það teldi kærandi að tilteknar fundargerðir vantaði. Hvað varðaði samskipti B við fyrirtækið KVAN og C yrðu þau ekki afhent þar sem um vinnugögn væri að ræða. Samtöl B við önnur börn en dóttur kæranda yrðu sömuleiðis ekki afhent þar sem sveitarfélaginu væri það ekki heimilt.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að einungis hluti gagna er varði B hafi verið afhent. Áður hafi kærandi beðið um gögn frá öðrum starfsmönnum og í þeim gögnum hafi verið gögn frá B sem nú hafi ekki verið afhent. Þá hafi Garðabær haldið fram að fundargerðir hafi verið útbúnar af B en þau gögn hafi ekki verið afhent nú.</p> <h2 style="text-align: justify;">Málsmeðferð</h2> <p style="text-align: justify;">Kæran var kynnt Garðabæ með bréfi, dags. 28. september 2020, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Garðabæjar, dags. 14. október 2020, kemur fram að kærandi og eiginkona hans hafi lagt fram fjölmargar beiðnir um afhendingu gagna til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi ávallt leitast við að afhenda meira en minna af gögnum. Engum gögnum hafi verið haldið eftir sem þau eigi rétt á að fá afhend. Raunar hafi þeim einnig verið afhent vinnugögn, umfram skyldu. Hins vegar hafi beiðnir kæranda verið margar og sumar þeirra umfangsmiklar. Þá hafi endurtekið verið óskað eftir gögnum sem kæranda hafi þegar verið afhent og gögnum sem kærandi telur að til séu en séu í reynd ekki til. Með hliðsjón af umfangi fyrirliggjandi gagna í málinu hafi vinnsla síðari gagnabeiðna takmarkast við gögn sem kærandi og eiginkona hans eigi sannanlega rétt á að fá afhent, en hafi ekki fengið afhent áður. <br /> <br /> Umsögn Garðabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 14. október 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.<br /> <br /> Í athugasemdum kæranda, dags. 17. október 2020, er að finna nánari skýringar á þeim gögnum sem kærandi telur að vanti:<br /> 1) Fundargerðir sem varði samtöl B við dóttur kæranda í október og nóvember 2019 auk fundargerða af fundum hennar með öðrum börnum. <br /> 2) Samskipti B við Domus Mentis, en hún hafi verið viðstödd samtöl sem Domus Mentis átti við dóttur kæranda og því telji kærandi sig eiga rétt til aðgangs að gögnunum. <br /> 3) Samskipti B við núverandi aðstoðarskólastjóra Garðaskóla, en báðir aðilar hafi verið í eineltisteymi sem hafi komið að máli dóttur kæranda. Einnig vanti samskipti B við D, sem tók viðtöl við börnin. <br /> 4) Handskrifuð gögn af tilteknum foreldrafundi.<br /> <br /> Með erindum, dags. 29. janúar, 1. febrúar og 5. mars 2021, afhenti Garðabær úrskurðarnefndinni hluta af umbeðnum gögnum í málinu.</p> <h2 style="text-align: justify;">Niðurstaða</h2> <h3 style="text-align: justify;">1.</h3> <p style="text-align: justify;">Í málinu er deilt um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum frá B sem varða kæranda, eiginkonu hans og dóttur. Kæranda voru afhent þau gögn sem sveitarfélagið taldi heyra undir gagnabeiðni hans og hann ætti rétt á. Honum var synjað um aðgang að fundargerðum af fundum B með öðrum börnum en dóttur hans, þar sem sveitarfélagið taldi sér ekki heimilt að afhenda þær. Kæranda var einnig synjað um aðgang að samskiptum B annars vegar við fyrirtækið KVAN og hins vegar við C, þar sem um vinnugögn væri að ræða.</p> <h3 style="text-align: justify;">2.</h3> <p style="text-align: justify;">Kæranda var synjað um aðgang að samskiptum B við fyrirtækið KVAN, þar sem um vinnugögn væri að ræða. Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir aðgangi að gögnum um hann sjálfan, eiginkonu og dóttur. Fer því um upplýsingarétt hans samkvæmt III. kafla upp-lýsingalaga, nr. 140/2012, um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Í 1. mgr. 14. gr. segir að skylt sé, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 1. tölul. 2. mgr. sömu greinar kemur fram að ákvæði 1. mgr. gildi ekki um gögn sem talin eru í 6. gr. laganna. Í 5. tölul. 6. gr. kemur fram að réttur almennings taki ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. Í 1. mgr. 8. gr. kemur fram að til vinnugagna teljist þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar skv. I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Séu gögn afhent öðrum teljast þau þá ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.<br /> <br /> Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum.<br /> <br /> Garðabær afhenti úrskurðarnefndinni tölvupóstssamskipti B og C við fyrirtækið KVAN, dags. 10. september 2019 til 7. október 2019. Það er mat nefndarinnar að gögnin uppfylli ekki skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugögn. Stafar það fyrst og fremst af því að gögnin uppfylla ekki það skilyrði að hafa ekki verið afhent öðrum. Ljóst er að samskiptin hafa verið afhent fyrirtækinu KVAN. Það er því niðurstaða nefndarinnar að kærandi eigi rétt til aðgangs að tölvupóstssamskiptunum, enda fær nefndin ekki séð að aðrar takmarkanir upplýsingalaga eigi við um skjalið.</p> <h3 style="text-align: justify;">3.</h3> <p style="text-align: justify;">Kæranda var synjað um aðgang að fundargerðum af fundum B með öðrum börnum en dóttur kæranda. Garðabær afmarkaði þann hluta beiðninnar við minnispunkta af fundum við tvö börn sem tengjast dóttur kæranda, dags. 22. október til 2. desember 2019, og afhenti úrskurðarnefndinni. Synjun Garðabæjar á afhendingu gagnanna var á því byggð að sveitarfélaginu væri ekki heimilt að afhenda þau, en ákvörðunin var ekki rökstudd frekar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þessi hluti beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin svo verulegum efnislegum annmörkum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Garðabæ að taka þennan hluta beiðni kæranda til nýrrar og lögmætrar meðferðar, sem felur m.a. í sér að tekin sé afstaða til þess og það rökstutt á hvaða lagagrundvelli ekki sé unnt að afhenda kæranda gögnin.</p> <h3 style="text-align: justify;">4.</h3> <p style="text-align: justify;">Kærandi telur að ekki hafi verið afhentar fundargerðir B af fundum með dóttur hans frá því í október og nóvember 2019, samskipti B við Domus Mentis, samskipti B við D og samskipti B við C. Af gögnum málsins fæst ekki séð að Garðabær hafi tekið afstöðu til þessara atriða við afgreiðslu gagnabeiðni kæranda. Er því ekki um að ræða ákvörðun sem úrskurðarnefndinni er fært að endurskoða og verður því að vísa þessum hlutum beiðni kær-anda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu hjá Garðabæ. Við afgreiðslu beiðninnar skuli tekin afstaða til þess hvort gögnin liggi fyrir í skilningi upplýsingalaga og ef svo er, hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim, eftir atvikum á grundvelli III. kafla upplýsingalaga.<br /> <br /> 5.<br /> Hvað varðar handskrifuð gögn af foreldrafundi sem kærandi telur að honum hafi ekki verið afhent var það niðurstaða í máli ÚNU 20090015, sem kærandi var einnig aðili að og lyktaði með úrskurði nr. 970/2021, að slík gögn af viðkomandi fundi lægju ekki fyrir í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012. Studdist sú niðurstaða við upplýsingar frá Garðabæ. Ekkert hefur komið fram við meðferð þessa máls sem gefur til kynna að úrskurðarnefndin hafi byggt á röngum upplýsingum um málsatvik í framangreindum úrskurði. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> </p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> <p style="text-align: justify;">Sveitarfélaginu Garðabæ ber að veita kæranda aðgang að tölvupóstssamskiptum B og C við fyrirtækið KVAN, dags. 10. september 2019 til 7. október 2019, sem varða dóttur hans.<br /> <br /> Beiðni kæranda um eftirfarandi gögn sem varða hann sjálfan, eiginkonu hans og dóttur, er vísað til nýrrar meðferðar og afgreiðslu hjá Garðabæ: <br /> 1) Fundargerðir af fundum B við dóttur kæranda frá því í október og nóvember 2019.<br /> 2) Fundargerðir af fundum B með öðrum börnum, dags. 22. október til 2. desember 2019.<br /> 3) Samskipti B við Domus Mentis.<br /> 4) Samskipti B við D.<br /> 5) Samskipti B við C.<br /> <br /> Kæru A, dags. 26. september 2020, er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir</p>

991/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021

A, fréttamaður, kærði synjun Biskupsstofu á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um kaupanda og kaupverð fasteignar við Laugaveg 31. Synjun Biskupsstofu var reist á því að þjóðkirkjan félli utan við gildissvið upplýsingalaga og vísaði m.a. til nýlegra lagabreytinga. Úrskurðarnefndin fékk ekki séð að þær breytingar sem gerðar hefðu verið nýlega á ákvæðum laga nr. 78/1997 leiddu til þess að formleg staða þjóðkirkjunnar sem handhafa framkvæmdarvalds hafi breyst og þar með staða hennar m.t.t. gildissviðs upplýsingalaga. Það var því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Biskupsstofu hafi borið að leysa úr beiðni kæranda um aðagang að gögnum á grundvelli ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012. Beiðni kæranda hefði því ekki hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða og lagði úrskurðarnefndin fyrir Biskupsstofu að taka málið til nýrrar meðferðar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 991/2021 í máli ÚNU 20110023. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með erindi, dags. 19. nóvember 2020, kærði A, fréttamaður, synjun Biskupsstofu á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um kaupanda og kaupverð fasteignar við Laugaveg 31.<br /> <br /> Með tölvupósti til Biskupsstofu, dags. 22. október 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hver hefði keypt Kirkjuhúsið við Laugaveg 31 og hvert kaupverðið hefði verið. <br /> <br /> Í svari Biskupsstofu, dags. 19. nóvember 2020, kom fram að kirkjuráð hefði skrifað undir kaupsamning sem áskildi að trúnaður ætti að ríkja um efni samningsins. Af þeim sökum væri ekki unnt að gefa upplýsingar um söluna. Kaupandi ákvæði hvort hann þinglýsti samningnum en Biskupsstofa hefði virt þann trúnað sem óskað hefði verið eftir og samþykkt hefði verið í samningnum. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Kæran var kynnt Biskupsstofu, með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, og henni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar og afritum af gögnum sem hún lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Biskupsstofu, dags. 3. desember 2020, eru atvik málsins rakin. Þá er þeirri afstöðu lýst að vísa beri kærunni frá þar sem þjóðkirkjan, þ.m.t. sjóðir hennar, sé sjálfstætt trúfélag og falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012. Þjóðkirkjan sé ekki stjórnvald, hún sé ekki í eigu stjórnvalda né henni falið að taka stjórnvaldsákvarðanir eða sinna lögbundinni þjónustu stjórnvalds.<br /> <br /> Þá er vísað til þess að í upphafsákvæðum laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sé sjálfstæði hennar undirstrikað og komi fram í 1. mgr. 2. gr. að þjóðkirkjan njóti sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka. Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar, sem kveði á um að ríkisvaldinu beri að styðja og styrkja þjóðkirkjuna, sé það svo að ríki og þjóðkirkjan séu ekki eitt eins og skýrt komi fram í lögunum en í þeim sé þjóðkirkjan skilgreind sem trúfélag en ekki sem stofnun sem eðlilegt hefði annars talist fyrir þann tíma. Þjóðkirkjan skuli samkvæmt ákvæði stjórnarskrárinnar njóta stuðnings ríkisvaldsins en það breyti því ekki að hún fari hvorki með ríkisvald né sé í eigu ríkisins. Þjóðkirkjan hafi ekki vald til þess að setja þegnum landsins reglur til að koma á skipulagi né heimild til að beita menn þvingunum til að þeim reglum sé fylgt. Staða þjóðkirkjunnar gagnvart upplýsingalögum sé því ekki önnur en annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem einnig njóti lögbundinna sóknargjalda frá félagsmönnum sínum. <br /> <br /> Þá er í umsögninni bent á að töluverðar breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 78/1997 frá gildistöku þeirra þann 1. janúar 1998 og annarri löggjöf sem hana varði. Breytingarnar hafi miðað að því að einfalda löggjöfina og staðfesta enn frekar sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Formbundinn grundvöllur þjóðkirkjunnar sé, auk framangreindra laga, hið svonefnda kirkjujarðasamkomulag þjóðkirkjunnar og ríkisins frá 1998. Þann 6. september 2019 hafi verið undirritaður viðbótarsamningur kirkjunnar og ríkisins um breytingar á samningnum. Forsendur viðbótarsamningsins sé hin sjálfstæða staða þjóðkirkjunnar sem að framan greini og tilgangur hans einkum aðlögun kirkjujarðasamkomulagsins að þeirri stöðu. Samningurinn staðfesti sameiginlegan skilning ríkisins og kirkjunnar á sjálfstæðri stöðu þjóðkirkjunnar sem trúfélags. <br /> <br /> Þannig byggi rekstur þjóðkirkjunnar í dag annars vegar á þeim einkaréttarlegu samningum um framsal fasteigna sem áður tilheyrðu kirkjunni og endurgjaldi fyrir þær og hins vegar á sóknargjöldum sem séu félagsgjöld sem ríkið innheimti af félagsmönnum og úthluti til þess trúfélags eða lífsskoðunarfélags sem viðkomandi sé skráður í. Þá er vísað til þess að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi ekki lengur um málsmeðferð innan þjóðkirkjunnar eins og áður hafi verið, sbr. lög nr. 95/2020 og starfsmenn þjóðkirkjunnar, þ.m.t. prestar, teljist ekki lengur vera opinberir starfsmenn, sbr. lög nr. 153/2019. Í umsögninni segir jafnframt að upplýsingar þær sem beðið sé um í þessu máli varði hvorki meðferð á opinberu valdi né meðferð á opinberum fjármunum og hafi kaupandi eignarinnar því getað vænst þess að seljandi gæti staðið við umsaminn trúnað sem áskilnaður hafi verið gerður um í kaupsamningi um eignina. <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um kaupanda og kaupverð fasteignar við Laugaveg 31. Biskupsstofa byggir á því að þjóðkirkjan falli utan við gildissvið upplýsingalaga.<br /> <br /> Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga taka lög þessi til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum sem fylgdu umræddu ákvæði í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum segir m.a. um þetta orðalag:<br /> <br /> „Með 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þeirri meginstefnu verði haldið um afmörkun á gildissviði upplýsingalaga að þau taki til allrar starfsemi opinberra stjórnvalda, hvort sem er stjórnvalda ríkisins eða sveitarfélaganna. Það leiðir af orðalagi ákvæðisins að það sem ræður því hvort tiltekinn aðili fellur undir ákvæðið er formleg staða hans í stjórnkerfinu. Undir ákvæðið falla þannig einvörðungu þeir aðilar sem falið er að fara með stjórnsýslu og teljast til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins.“<br /> <br /> Af 1. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, leiðir að þjóðkirkjan telst sjálfstætt trúfélag, sem nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Það leiðir engu að síður af tengslum ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar, sbr. ekki síst 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að stofnanir og embætti þjóðkirkjunnar teljast til handhafa framkvæmdarvalds a.m.k. að því leyti sem þeim er falið opinbert vald. Með vísan til þessa taka ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 til starfsemi þjóðkirkjunnar, a.m.k. að því leyti sem henni er falið opinbert vald. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur áður fjallað um og staðfest þennan skilning á gildissviði upplýsingalaga gagnvart Biskupsstofu og biskupi Íslands, sjá t.d. úrskurð nefndarinnar frá 19. desember 2008, í máli nr. 291/2009. Þessu til viðbótar er bent á að umboðsmaður Alþingis hefur gengið út frá því að starfssvið umboðsmanns taki til þjóðkirkjunnar að því marki sem henni er falin stjórnsýsla, t.d. ákvörðun biskups Íslands um skipun í embætti prests fyrir gildisstöku laga nr. 153/2019 þar sem gerð var sú breyting að starfsfólk þjóðkirkjunnar teldist ekki lengur embættismenn eða opinberir starfsmenn í skilningi laga nr. 70/1996. Hins vegar falli ákvarðanir og athafnir kirkjunnar sem snerta kenningar hennar og trúariðkun utan starfssviðs umboðsmanns, sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5757/2009 frá 31. mars 2011.<br /> <br /> Í umsögn Biskupsstofu er m.a. vísað til þess að hinn 6. september 2019 hafi verið undirritaður viðbótarsamningur um endurskoðun á samkomulagi milli ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta frá árinu 4. september 1998. Í umsögninni kemur fram sú afstaða að samningurinn staðfesti sameiginlegan skilning ríkis og þjóðkirkjunnar á sjálfstæðri stöðu þjóðkirkjunnar sem trúfélags. Með viðbótarsamningnum hafi verið stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Úrskurðarnefndin áréttar að efni slíks samkomulags þokar ekki ákvæðum settra laga. Þannig verður starfsemi þjóðkirkjunnar ekki undanþegin ákvæðum upplýsingalaga nema með settum lögum. Ljóst er að á grunni samkomulagsins og viljayfirlýsingar sem undirrituð var samhliða honum sé stefnt að ákveðnum lagabreytingum m.a. í þeim tilgangi að einfalda lagaumhverfi þjóðkirkjunnar m.a. um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju. Eins og fram kemur í umsögn Biskupsstofu hafa þegar verið gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum laga nr. 78/1997 í því skyni, annars vegar með lögum nr. 95/2020 þar sem ákvarðanir kirkjuráðs, sem fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar, sbr. 24. gr. laganna, voru undanþegnar gildissviði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með lögum nr. 153/2019 þar sem m.a. var gerð sú breyting að starfsmenn þjóðkirkjunnar teljast ekki lengur opinberir starfsmenn. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að þessar breytingar leiði til þess að formleg staða þjóðkirkjunnar sem handhafi framkvæmdarvalds hafi breyst og þar með staða hennar m.t.t. gildissviðs upplýsingalaga. Í því sambandi áréttar úrskurðarnefndin að gildissvið upplýsingalaga ræðst ekki af eðli þeirrar starfsemi sem fram fer af hálfu stjórnvalds ólíkt því sem t.d. á við um gildissvið stjórnsýslulaga en gildissvið þeirra laga er afmarkað við það þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.<br /> <br /> Samkvæmt 6. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, fer biskup Íslands með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögunum. Í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur enn fremur fram að biskup fylgi eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hafi ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögunum. Í lögunum er ekki sérstaklega mælt fyrir um tilvist eða starfsemi Biskupsstofu. Slík fyrirmæli var hins vegar að finna í eldri lögum, sbr. 37. gr. laga nr. 62/1990, um skipan prestakalla o.fl., en þar kom fram að embættisskrifstofa biskups, Biskupsstofa, skyldi vera í Reykjavík og annast vörslu og reikningshald sjóða og annarra eigna þjóðkirkjunnar. Byggja verður á því að stofnunin hafi, að því leyti sem hér skiptir máli, enn sambærilega stöðu innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar, en skv. upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar er hún embættisskrifstofa biskups, auk þess að sinna skrifstofustörfum fyrir Kirkjuráð og kirkjuþing.<br /> <br /> Með vísan til þess sem hér að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Biskupsstofu hafi borið að leysa úr beiðni kæranda um aðagang að gögnum á grundvelli ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012. <br /> <h3>2.</h3> Í ákvörðun Biskupsstofu er vísað til þess að trúnaður eigi að ríkja um efni kaupsamnings um sölu Biskupsstofu á fasteigninni við Laugaveg 31. Að öðru leyti verður ekki séð að tekin hafi verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda um aðgang að gögnum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Biskupsstofa hefur þvert á móti í umsögn sinni lýst þeirri afstöðu sinni að ekki beri að fjalla um gagnabeiðnina á grundvelli upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun hennar né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga, eftir atvikum ákvæða 9. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna eða annarra ákvæða í upplýsingalögum. <br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni er fært að endurskoða. <br /> <br /> Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem að mati nefndarinnar eru svo verulegir að hana ber að fella úr gildi og leggja fyrir Biskupsstofu að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Biskupsstofu, dags. 19. nóvember 2020, um synjun beiðni kæranda um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir Biskupsstofu að taka málið til nýrrar meðferðar. <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

990/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

A, blaðamaður kærði synjun Ferðamálastofu á beiðni um upplýsingar um fjölda komu- og brottfararfarþega. Synjun Ferðamálastofu var reist á því að umbeðin gögn væru eign Isavia ohf. og merkt sem trúnaðargögn. Úrskurðarnefndin tók fram að af upplýsingalögum leiddi að réttur til aðgangs að upplýsingum væri lögbundinn og yrði ekki takmarkaður nema á grundvelli laganna. Ekki væri heimilt að víkja frá ákvæðum laganna með því að heita trúnaði um gögn eða með vísan til þess að þau teldust eign annars aðila. Úrskurðarnefndin taldi Ferðamálastofu ekki hafa lagt sjálfstætt mat á umbeðin gögn með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga. Beiðni kæranda hefði því ekki hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða og lagði úrskurðarnefndin því fyrir stjórnvaldið að taka málið til nýrrar meðferðar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 990/2021 í máli ÚNU 20120028. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p>Með kæru, dags. 28. desember 2020, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Ferðamálastofu um að synja beiðni hans um upplýsingar um fjölda komu- og brottfararfarþega.<br /> <br /> Með erindi, dags. 23. desember 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hversu margir hefðu komið til landsins síðustu sjö daga. Í erindinu er vísað til þess að hann hefði fyrr þennan dag óskað eftir umræddum upplýsingum í síma en fengið neitun. Með erindinu fór hann fram á að beiðni hans yrði afgreidd formlega.</p> <p>Ferðamálastofa synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 28. desember 2020, á þeim grundvelli að tölur um fjölda komu- og brottfararfarþega sem stofnunin fengi frá Isavia ohf. væru þeirra eign og því mætti stofnunin ekki láta þær af hendi. </p> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 29. desember 2020, var kæran kynnt Ferðamálastofu og henni veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. <br /> <br /> Í umsögn Ferðamálastofu, dags. 18. janúar 2021, kemur fram að upplýsingar um fjölda komu- og brottfararfarþega fái Ferðamálastofa frá Isavia og þær séu merktar sem trúnaðarmál. Af þeirri ástæðu geti Ferðamálastofa ekki veitt slíkar upplýsingar og beri stofnuninni að halda trúnað sé eftir því leitað. Það sé því Isavia sem sé réttur aðili til að snúa sér til með beiðni um upplýsingar. Eftir að Ferðamálastofa hafnaði beiðni kæranda hefði hann átt að beina kröfu sinni að eiganda gagnanna um aðgang að ofangreindum upplýsingum. Ferðamálastofa sjái í raun ekki ástæðu þess að umbeðnar upplýsingar séu ekki veittar en þar sem það sé ákvörðun eiganda gagnanna, Isavia, að upplýsa ekki um þær þá geti Ferðamálastofa ekkert aðhafst frekar. Það sé mat Ferðamálastofu að almennar upplýsingar varðandi ferðamenn og ferðaþjónustuna sem atvinnugrein séu opinberar upplýsingar og eigi að vera öllum aðgengilegar ekki bara stjórnvöldum. Upplýsingar sem þessar geti nýst öðrum, t.d. ferðaþjónustunni við nýsköpun, vöruþróun og markaðssetningu. Loks er vísað til þess að eitt af lögbundnum hlutverkum Ferðamálastofu sé að afla, miðla og vinna úr upplýsingum, þar á meðal tölfræðilegum gögnum um ferðamál og ferðaþjónustu. Í því sambandi er vísað á vefsíðu stofnunarinnar þar sem finna megi ítarlegar tölfræðiupplýsingar um ferðaþjónustuna. <br /> <br /> Með bréfi, 20. janúar 2021, var kæranda sent afrit af umsögn Ferðamálastofu og veittur kostur á því að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, 21. janúar 2021, þar sem m.a. kemur fram að kærandi telji svör Ferðamálastofu stappa nærri tæknilegri hindrun þess að upplýsingarnar verði látnar af hendi. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um hversu margir hefðu komið til landsins sjö daga fyrir 23. desember 2020.<br /> Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Ákvörðun Ferðamálastofu er reist á því að umbeðnar upplýsingar séu eign Isavia ohf. og séu merktar sem trúnaðarmál. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða laganna. Stjórnvaldi er því ekki fær sú leið að víkja frá ákvæðum þeirra með því að heita trúnaði eða flokka tiltekin gögn sem trúnaðarmál eða með vísan til þess að þau séu eign annars aðila. Slíkt verður ekki gert nema upplýsingarnar falli ótvírætt undir eitthvert af undanþáguákvæðum laganna. Það hefur því ekki þýðingu við úrlausn þessa máls þótt Isavia hafi við afhendingu umræddra upplýsinga merkt þær sem trúnaðarmál eða að öðru leyti gert áskilnað um trúnað. Hið sama gildir um þá afstöðu Ferðamálastofu að umbeðnar upplýsingar séu eign Isavia ohf. Þegar stofnuninni berast upplýsingar eða gögn frá utanaðkomandi aðila ber henni að skrá þau og vista í skjalasafni hennar í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2014. Við það verða gögnin hluti af málaskrá Ferðamálastofu og teljast af þeim sökum fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.<br /> <br /> Í ljósi framangreinds verður ekki séð að Ferðamálastofa hafi tekið rökstudda afstöðu til beiðni kæranda um aðgang að gögnum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun Ferðamálastofu né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðnar upplýsingar gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga, eftir atvikum ákvæða 9. gr. upplýsingalaga, að öðru leyti en því að Ferðamálastofa lýsti í umsögn þeirri afstöðu sinni að hún sæi því ekkert til fyrirstöðu að umræddar upplýsingar yrðu afhentar. <br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Ferðamálastofu að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Ferðamálastofu, dags. 28. desember 2021, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um fjölda þeirra sem komu til landsins sjö daga fyrir 23. desember 2020 er felld úr gildi og lagt fyrir Ferðamálastofu að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

989/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

Deilt var um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að athugasemdum sem borist höfðu Reykjavíkurborg við tillögur aðalskipulags. Úrskurðarnefndin féllst ekki á þá afstöðu Reykjavíkurborgar að umbeðin gögn teldust ekki afhent sveitarfélaginu og því ekki fyrirliggjandi fyrr en að liðnum umsagnarfresti og þau hefðu hlotið formlega umfjöllun kjörinna fulltrúa á fundi. Úrskurðarnefndin taldi Reykjavíkurborg ekki hafa lagt sjálfstætt mat á umbeðin gögn með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga. Beiðni kæranda hefði því ekki hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða og lagði úrskurðarnefndin því fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til nýrrar meðferðar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 989/2021 í máli ÚNU 20110027. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 30. nóvember 2020, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni hans um afhendingu á öllum umsögnum sem borist hafa við tillögur aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010 til 2040.<br /> <br /> Með erindi, dags. 24. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir að fá afhentar allar umsagnir sem hefðu borist við tillögur aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010 til 2040. Með erindi Reykjavíkurborgar, dags. sama dag, var beiðni kæranda synjað. Í svari sveitarfélagsins sagði að gögnin væru ekki opinber að svo stöddu. Þau yrðu gerð opinber um leið og þau hefðu verið lögð fram á fundi. Kærandi ítrekaði beiðni sína, með bréfi dags. sama dag, og óskaði eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli synjunin væri reist. Í því sambandi vísaði hann til 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. <br /> <br /> Reykjavíkurborg svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, þar sem fram kom að umsagnarferli væri enn í gangi og hefði í einhverjum tilvikum verið veittir frestir fram í desember. Það hefði ekki tíðkast að afhenda gögnin á meðan umsagnarferli og úrvinnsla væri í gangi. Kærandi svaraði með tölvupósti, dags. 26. nóvember 2020, þar sem fram kom að hann teldi synjunina ekki reista á haldbærum rökum. Í því sambandi áréttaði hann 5. gr. upplýsingalaga og ítrekaði beiðnina á ný. Með tölvupósti Reykjavíkurborgar, dags. 30. nóvember 2021, var kæranda svarað á ný þar sem fram kom að sú vinnuregla hefði verið hjá sveitarfélögum að á meðan tímafrestir væru ekki runnir út og þar til gögn væru birt kjörnum fulltrúum teldust þau til vinnugagna í skilningi upplýsingalaga. Stefnt væri að því að umrætt mál yrði tekið fyrir um miðjan desember og þá væri ekkert því til fyrirstöðu að afhenda gögnin í samræmi við gildandi lög og reglur. Talið væri eðlilegt að kjörnir fulltrúar fengju aðgang að gögnum áður en þau væru send til fjölmiðla og teldust gögnin formlega hafa borist sveitarfélaginu þegar þau hefðu verið afhent kjörnum fulltrúum. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 2. desember 2020, var kæran kynnt Reykjavíkurborg og sveitarfélaginu veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. <br /> <br /> Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 17. desember 2020, kemur fram að rökstuðningur fyrir synjun á afhendingu gagnanna hafi verið fólginn í því að umsagnarfrestur vegna umræddra breytinga á aðalskipulagi hafi ekki verið liðinn. Í því sambandi er áréttað að kæranda hafi einvörðungu verið synjað um afhendingu gagnanna í þann tíma þar til kjörnir fulltrúar hefðu fengið færi á að kynna sér gögn málsins. Í umsögninni er verklag borgarinnar við móttöku skriflegra athugasemda vegna skipulagsbreytinga í borginni rakið. Þar segir að þegar umsagnarfrestur er liðinn séu umsagnir teknar saman og að svo búnu geri verkefnastjórnin gögnin tilbúin til afhendingar til kjörinna fulltrúa. Málið sé svo tekið fyrir á næsta fundi samgöngu- og skipulagsráðs, sem í þessu tilviki hafi verið 16. desember 2020. Þá sé það afstaða Reykjavíkurborgar að gögnin teljist ekki afhent sveitarfélaginu fyrr en að liðnum umsagnarfresti og kjörnir fulltrúar hafi fengið tækifæri til að kynna sér þau. Að þeim tíma liðnum sé hafist handa við að taka á móti umsögnum og skjala þær í samræmi við lög nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn. Í umsögninni er áréttað að kæranda hafi verið leiðbeint um möguleikann á að óska eftir aðgangi að gögnunum eftir að þau hefðu verið tekin fyrir á umræddum fundi skipulags- og samgönguráðs. Í umsögninni er vísað til 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem segir að sérhver sveitarstjórnarmaður eigi rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem liggi fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins og varði málefni sem komið geta til umfjöllunar sveitarstjórnar. Þá segir í umsögninni að hlutverk kjörinna fulltrúa sé að hafa frumkvæði og taka endanlegar ákvarðanir í sveitarstjórn út frá mati á heildarhagsmunum og forgangsröðun möguleika og gilda. Þá eru rakin ákvæði sveitarstjórnarlaga um skyldur sveitarstjórnarmanna og ákvæði 15. gr. um boðun og auglýsingu funda þar sem segir að fundarboð og gögn skuli berast ekki seinna en tveimur sólarhringum fyrir fund. Því hafi ekki tíðkast að afhenda umbeðin gögn fyrr en kjörnir fulltrúar hafi átt kost á að kynna sér þau. Loks fer sveitarfélagið fram á að úrskurðarnefndin hafni öllum kröfum kæranda í málinu og staðfesti hina kærðu ákvörðun, enda hafi ekkert komið fram í málinu sem geti leitt til ógildingar hennar. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 15. janúar 2021, var kæranda sent afrit af umsögn Reykjavíkurborgar og veittur kostur á því að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. sama dag, þar sem hann ítrekaði þá afstöðu sína að umrædd gögn ættu að teljast afhent sveitarfélaginu og vera þar með opinber um leið og þau bærust á það netfang sem sveitarfélagið óskaði eftir gögnum á. <br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs öllum umsögnum sem höfðu borist við tillögur aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010 til 2040. Beiðni kæranda var upphaflega synjað með vísan til þess að gögnin teldust ekki opinber á þeim tíma sem óskað var eftir þeim. Reykjavíkurborg hefur bæði í upphaflegri synjun og umsögn til úrskurðarnefndarinnar lýst þeirri afstöðu sinni að ekki sé heimilt að afhenda gögnin áður en umsagnarfrestur er liðinn. Af umsögninni verður enn fremur ráðið að Reykjavíkurborg líti svo á að gögnin teljist ekki afhent sveitarfélaginu í skilningi laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn, fyrr en kjörnir fulltrúar hafi átt kost á að kynna sér þau en fyrst þá séu þau „skjöluð“ í samræmi við ákvæði laganna. <br /> <br /> Af framangreindu verður ráðið að Reykjavíkurborg líti svo á að umbeðin gögn hafi ekki talist fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu þegar beiðni kæranda var lögð fram. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.<br /> <br /> Um gerð aðalskipulags og breytingar á því er fjallað í VII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er kveðið á um þá málsmeðferð sem sveitarfélögum ber að viðhafa við gerð eða breytingu á aðalskipulagi. Í 31. gr. laganna er t.d. að finna ákvæði um skyldu sveitarfélaga til að auglýsa skipulagstillögu og athugasemdafresti. Úrskurðarnefndin telur þannig ljóst að þegar slíkar athugasemdir berast sveitarfélagi í tengslum við auglýst drög að skipulagsbreytingum beri því að skrá þær og vista í skjalasafni þess í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2014, sbr. t.d. ákvæði 2. mgr. 23. gr. laganna þar sem segir að afhendingarskyldum aðila, skv. 14. gr. sé skylt að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn. Það fellur hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með framkvæmd afhendingarskyldra aðila á lögum um opinber skjalasöfn og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra en það er hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands, sbr. 4. tölul. 13. gr. laganna. Hvað sem þessu líður telur úrskurðarnefndin engum vafa undirorpið að athugasemdir við drög að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar teljist fyrirliggjandi þegar þær hafa borist sveitarfélaginu burtséð frá því hvort þær hafi hlotið formlega umfjöllun kjörinna fulltrúa á fundi eða þeir haft tækifæri til að kynna sér þau. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á þá afstöðu Reykjavíkurborgar að gögnin hafi ekki talist fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga.<br /> <br /> Eins og fyrr segir var synjun Reykjavíkurborgar reist á því að umrædd gögn teldust ekki afhent sveitarfélaginu fyrr en að umsagnarfresti liðnum. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun sveitarfélagsins né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn á grundvelli upplýsingalaga og jafnframt hvort þau séu þess eðlis að heimilt sé að takmarka aðgang að þeim að meira eða minna leyti á grundvelli undanþáguákvæða laganna. <br /> <br /> Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.<br /> <br /> Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.<br /> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2020, um að synja beiðni kæranda, A, blaðamanns, um aðgang að athugasemdum sem bárust Reykjavíkurborg í tengslum við drög að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 til 2040 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.<br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason<br /> <br /> <br />

988/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

A beindi kæru til úrskurðarnefndarinnar sem laut að því hvort Vestmannaeyjabæ væri almennt heimilt að afgreiða beiðnir um upplýsingar með því að vísa á vefslóð þar sem þær væri að finna. Í því sambandi vísaði kærandi til þess að hann ætti hvorki prentara né tölvu. Úrskurðarnefndin vísaði kærunni frá þar sem ágreiningsefnið félli utan við úrskurðarvald nefndarinnar.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 988/2021 í máli ÚNU 20100023. <br /> <h2>Kæra, málsatvik og málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 21. október 2020, beindi A erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og fór þess á leit að nefndin úrskurðaði um að það teldist synjun á að afhenda upplýsingar þegar Vestmannaeyjabær afgreiddi slíkar beiðnir með því að vísa til þess að upplýsingar væri að finna á vefslóð. Í því sambandi vísaði kærandi til þess að hann ætti hvorki prentara né tölvu. Þá væri ráðhús Vestmannaeyja í ólöglegu húsnæði sem ekki væri aðgengilegt fötluðu fólki.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin er upplýst um að kærandi hefur í gegnum tíðina lagt fram fjölda beiðna um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá Vestmannaeyjabæ. Nefndinni er líka kunnugt um að sveitarfélagið hafi í sumum tilvikum brugðist við beiðni kæranda með því að vísa til þess að umbeðnar upplýsingar séu aðgengilegar á vefsvæði sveitarfélagsins. Ljóst er af samskiptum kæranda við sveitarfélagið um langa hríð að hann telji þá afgreiðslu sveitarfélagsins ekki fullnægjandi þar sem hann eigi ekki tölvu og eigi þess því ekki kost að nálgast gögn og upplýsingar á vefsvæði sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í erindi kæranda sem hér er til meðferðar að hann óski þess að nefndin úrskurði um hvort sveitarfélaginu sé almennt heimilt að afgreiða beiðnir um upplýsingar með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar sé að finna. <br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Valdsvið nefndarinnar nær því ekki til þess að fjalla með almennum hætti um afgreiðslu sveitarfélagsins á beiðnum um aðgang að gögnum eða eftir atvikum hvernig aðgengismálum er háttað af hálfu sveitarfélagsins. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Úrskurðarnefndin telur þó rétt að benda á að í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar.<br /> <br /> Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar. <br /> <h2>Úrskurðarorð</h2> Kæru A dags. 21. október 2020, um hvort Vestmannaeyjabæ sé almennt heimilt að afgreiða beiðnir um upplýsingar með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar sé að finna er vísað frá úrskurðarnefndinni.<br /> <br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

987/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að fylgiskjölum húsaleigusamnings Vegagerðarinnar við einkaaðila sem gerður var í kjölfar auglýsingar og útboðs Ríkiskaupa. Þar sem kærandi var þátttakandi í útboðinu var leyst úr kærunni á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga. Talið var að hagsmunir kæranda til aðgangs að gögnunum vægju þyngra en hagsmunir þess einkaaðila sem Vegagerðin gekk til samninga við í kjölfar útboðsins af því að upplýsingarnar í gögnunum færu leynt, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Var synjun Vegagerðarinnar því felld úr gildi það lagt fyrir stofnunina að veita kæranda aðgang að gögnunum.

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 987/2021 í máli ÚNU 20090021. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> <p>Með erindi, dags. 17. september 2020, kærði A, lögmaður, f.h. K16 ehf., ákvörðun Vegagerðarinnar um synjun beiðni um aðgang að gögnum er tengjast leigusamningi stofnunarinnar við einkaaðila. Áður hafði kærandi vísað ágreiningi um aðgang að gögnum sem tengjast samningsgerðinni í vörslum Ríkiskaupa til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 929/2020 frá 25. september 2020 var því máli vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni.<br /> <br /> Í kæru kemur fram að í húsaleigusamningi, sem lagður hafi verið inn til þinglýsingar þann 4. júní 2020, hafi verið vísað til fylgiskjala merkt I-IX. Þau hafi hins vegar ekki fylgt með í þinglýsingu. Kærandi hafi því óskað eftir gögnunum og með tölvupósti Vegagerðarinnar, dags. 15. september 2020, hafi gögn merkt I, II, IV og VII verið afhent en synjað um aðgang að öðrum fylgiskjölum:<br /> <br /> III. Skilalýsing, dags. 26. febrúar 2020.<br /> V. Viðhaldsáætlun hússins.<br /> VIII. Hönnunarforsendur frá leigutaka.<br /> IX. Samkomulag um fullnaðaruppgjör á viðbótarkostnaði, dags. 2. febrúar 2020.<br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 17. september 2020, var kæranda tilkynnt um að úrskurðarnefndin myndi taka kæruna til meðferðar sem nýtt kærumál og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari röksemdum vegna málsins. Þær bárust samdægurs með tölvupósti. <br /> <br /> Af hálfu kæranda kemur fram að kærandi hafi gert tilboð samkvæmt auglýsingu Ríkiskaupa nr. 20796 um leiguhúsnæði fyrir Vegagerðina. Tilboð Regins hafi orðið fyrir valinu og kærandi óskað eftir gögnum vegna þess með tölvupósti, dags. 13. maí 2020. Kærandi kveðst hafa boðið lægsta leiguverðið og hafi því umtalsverða hagsmuni af því að gera sér grein fyrir því hvers vegna tilboði Regins hafi verið tekið og hvernig endanlegir samningar félagsins voru við Vegagerðina.<br /> <br /> Í kæru segir að í tilefni af síðari gagnabeiðni kæranda til Vegagerðarinnar hafi stofnunin veitt leigusalanum kost á að veita umsögn um afhendingu gagnanna. Umsögnin hafi verið neikvæð og í hinni kærðu ákvörðun hafi verið vísað til þess að félagið teldi að hluti umbeðinna gagna fæli í sér viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem gætu skaðað samkeppnishæfni félagsins. Kærandi bendir hins vegar á að um hafi verið að ræða útboð á vegum ríkisins þar sem allir gátu gert tilboð. Jafnræðis verði að gæta með aðilum og kærandi eigi rétt á að fá umbeðnar upplýsingar til að sjá hvort farið hafi verið út fyrir lýsingu í útboði í lokasamningi um leiguna. Það geti ekki talist viðkvæmar viðskiptaupplýsingar að ríkisstofnun taki húsnæði á leigu. Kærandi telur ástæður synjunarinnar vera fyrirslátt. Auk þess megi með hliðsjón af meðalhófsreglu strika út viðkvæmar viðskiptaupplýsingar ef þeim er til að dreifa.<br /> <br /> Kærandi vekur athygli á því að af hálfu Ríkiskaupa hafi komið fram að þinglýstur leigusamningur eigi að innihalda allar þær upplýsingar sem kærandi telji sig eiga rétt til aðgangs að. Hins vegar hafi komið í ljós að mikilvæg atriði sé að finna í fylgiskjölum með honum sem ekki hafi fylgt við þinglýsingu. Kærandi vísar kæru sinni til stuðnings til úrskurða úrskurðarnefndarinnar nr. 647/2016, 646/2016, A-414/2012 og 570/2015, sem og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 472/2015.</p> <h2>Málsmeðferð</h2> <p>Með bréfi, dags. 18. september 2020, var Vegagerðinni kynnt kæran og veittur frestur til að senda úrskurðarnefnd um upplýsingamál umsögn um hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt var óskað eftir því að Vegagerðin léti úrskurðarnefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. <br /> <br /> Umsögn Vegagerðarinnar barst með tölvupósti, dags. 8. október 2020. Þar kemur fram að þann 13. mars 2020 hafi stofnunin og RA 5 ehf. undirritað húsaleigusamning um fasteignina að Suðurhrauni 3 í Garðabæ. Samningurinn hafi ekki verið gerður á grundvelli útboðs samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016, heldur í kjölfar auglýsingar Ríkiskaupa. Húsaleigusamningurinn hafi verið móttekinn til þinglýsingar þann 4. júní 2020 ásamt fylgiskjali VII, yfirlýsingu um umráðarétt lóðarinnar við Suðurhraun 33 á 3.279 fermetra hlut af lóðinni við Suðurhraun 3. <br /> <br /> Kærandi hafi óskað eftir fylgiskjölum samningsins með tölvupósti, dags. 11. ágúst 2020. Í kjölfarið hafi Vegagerðin skorað á RA 5 ehf. að upplýsa um það innan sjö daga hvort félagið teldi að umbeðnar upplýsingar ættu að fara leynt, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, þann 31. ágúst 2020. Þann 7. september 2020 hafi borist svar þar sem RA 5 ehf. hafi lagst gegn afhendingunni þar sem gögnin fælu m.a. í sér viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem gætu skaðað samkeppnishæfni félagsins. Ekki yrði séð að hagsmunir kæranda stæðu til þess að fá afhent frekari gögn en þegar hefðu verið afhent eða gerð opinber. Þann 14. september 2020 hafi Vegagerðin innt félagið eftir skýringum á því hvort það legðist gegn afhendingu allra fylgiskjalanna en samdægurs hafi lögmaður félagsins upplýst að það legðist ekki gegn því að afhent yrðu fylgiskjöl nr. I, II, IV, VI og VII. Þá er jafnframt meðal gagna málsins erindi LEX lögmannsstofu, f.h. RA 5 ehf., til Vegagerðarinnar, dags. 29. september 2020, með rökstuðningi félagsins vegna kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar.<br /> <br /> Vegagerðin byggir á því að með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hafi stofnuninni verið óheimilt að afhenda kæranda öll umbeðin gögn þar sem fyrir liggi að þau snerti fjárhags- og viðskiptahagsmuni RA 5 ehf. Afhending þeirra geti einnig skaðað samkeppnishæfni félagsins en bent er á að meginstarfsemi félagsins felist í útleigu atvinnuhúsnæðis. Samkvæmt athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að leggja verði mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess sem upplýsingarnar varða. Við þetta mat verði almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim hagsmunum að upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna séu aðgengilegir almenningi. Fram komi að ekki megi ganga gegn réttmætum hagsmunum fyrirtækja og annarra lögaðila af því að geta lagt grundvöll að viðskiptalegum ákvörðunum og gerningum. <br /> <br /> Við þetta mat beri að mati Vegagerðarinnar að líta til þess að fyrir liggi að RA 5 ehf., sem upplýsingarnar varða einnig, hafi lagst gegn afhendingu gagnanna með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða sem Vegagerðin telji sér ekki fært að véfengja. Þá hafi kærandi nú þegar undir höndum húsaleigusamning þann sem um ræði í málinu og helstu fylgiskjöl hans sem að mati Vegagerðarinnar eigi að vera fullnægjandi fyrir kæranda til þess að átta sig á efni samningsins. Vegagerðin fái ekki séð hvaða hagsmuni kærandi kunni að hafa af því að fá afhent önnur fylgiskjöl húsaleigusamningsins en hann hafi hvorki gert nægilega grein fyrir því hvaða þýðingu umbeðin gögn hafi fyrir kæranda né sýnt fram á nauðsyn þess að fá þau afhent, eða að hvaða leyti þau gögn sem hafi verið afhent séu ófullnægjandi. <br /> <br /> Varðandi umfjöllun kæranda í kæru, um að hann telji sig ekki geta borið saman tilboð sitt miðað við húsnæðið sem kærandi hugðist leigja og tilboð RA 5 ehf., er bent á að aðalteikningar, sem sýni nákvæmlega hverjar breytingar á byggingunni verði, hafi verið lagðar inn til byggingarfulltrúans í Garðabæ og séu þar aðgengilegar á kortavef sveitarfélagsins. Grófrými sem telji um 50% af hinu leigða húsnæði standi nær óbreytt frá því sem áður var. Steypt miðbygging sem áður hafi verið á tveimur hæðum verði aðlöguð samkvæmt húslýsingu og byggð verði ofan á hana ein hæð að hluta til. Kærandi eigi því að hafa öll gögn til þess að geta metið hvort þarfakröfur hafi verið uppfylltar.<br /> <br /> Með tölvupósti, dags. 8. október 2020, var kæranda kynnt umsögn Vegagerðarinnar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.</p> <h2>Niðurstaða</h2> <h3>1.</h3> <p>Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að fylgiskjölum húsaleigusamnings Vegagerðarinnar og RA 5 ehf., sem gerður var í kjölfar auglýsingar Ríkiskaupa nr. 20796. Kæranda hefur verið veittur aðgangur að umbeðnum gögnum að hluta en ákvörðun Vegagerðarinnar um synjun beiðni þeirra gagna sem eftir standa byggir á því að þau varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni RA 5 ehf. í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, þar sem afhending þeirra geti skaðað viðskipta-, fjárhags- og samkeppnisstöðu félagsins sem hafi þá aðalstarfsemi að leigja út atvinnuhúsnæði. <br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að kærandi var meðal þeirra aðila sem óskuðu eftir því að gera leigusamning við Vegagerðina samkvæmt auglýsingu Ríkiskaupa. Verður því að líta svo á að upplýsingar í umbeðnum gögnum varði hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 836/2019 frá 28. október 2019.<br /> <br /> Réttur kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga lýtur m.a. takmörkunum á grundvelli 3. mgr. greinarinnar. Í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.<br /> <br /> Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd við það miðað að almennt eigi þátttakendur í útboðum rétt til aðgangs að útboðsgögnum. Hefur nefndin lagt áherslu á hagsmuni þeirra sem taka þátt í slíkum útboðum er lúta að því að rétt sé staðið að framkvæmd útboðanna. Þá verði fyrirtæki og aðrir lögaðilar að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og sæta því að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Sama gildir að breyttu breytanda um aðra samninga hins opinbera við einkaaðila sem fela í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna. Upplýsingaréttur almennings er ríkur þegar kemur að fjárútlátum hins opinbera og af því leiðir að fyrirtæki og aðrir lögaðilar, sem taka þátt í útboðum stjórnvalda eða gera samninga við stjórnvöld er falla undir ákvæði upplýsingalaga, verða hverju sinni að vera undir það búin að borgararnir láti reyna á rétt sinn til aðgangs að upplýsingum sem varða útboð eða gerð samninga sem fela í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna.<br /> <br /> Þrátt fyrir þessi almennu sjónarmið verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort takmarka beri aðgang að slíkum upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga. Í upplýsingalögum er gert ráð fyrir að metið sé atviksbundið hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda viðkomandi fyrirtæki tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við þetta mat verður að líta til þess hversu mikið tjónið getur orðið og hversu líklegt er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram. Að svo búnu verður að leggja mat á hvort hagsmunir kæranda af aðgangi að gögnunum vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem upplýsingarnar varða af því að gögnin lúti leynd, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.</p> <h3>2.</h3> <p>Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað gögnin sem Vegagerðin synjaði kæranda um aðgang að með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Við matið verður að líta til þess að þau fjalla um samningssamband opinberrar stofnunar við einkaaðila sem felur í sér að stofnunin tekur á leigu húsnæði gegn leigugreiðslum. Úrskurðarnefndin tekur fram að almennar upplýsingar um viðskiptasamband opinbers aðila og einkaaðila geta ekki falið í sér upplýsingar um einkamálefni hins síðarnefnda. Hefur kærandi, sem og allur almenningur, almennt af því ríka hagsmuni að fá upplýsingar um endurgjald sem opinberar stofnanir áskilja sér gegn ráðstöfun opinberra hagsmuna, þ. á m. um ástand hins leigða, viðhald sem innt skal af hendi og önnur sambærileg atriði. Þá hefur kærandi af því verulega hagsmuni umfram aðra að geta sannreynt að tekið hafi verið hagstæðara tilboði í kjölfar opinberrar auglýsingar en því sem hann lagði sjálfur fram. Það getur kærandi ekki gert án þess að eiga möguleika á að kynna sér frávik frá kröfum sem upphaflega voru gerðar, viðbætur og greiðslur vegna þeirra. <br /> <br /> Ljóst má því vera að mikið þarf til að koma svo að upplýsingar í umbeðnum gögnum verði taldar þess eðlis að hagsmunir RA 5 ehf. af því að þær fari leynt vegi þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi. Í því sambandi athugast að hvorki Vegagerðin né RA 5 ehf. hafa gert nákvæmlega grein fyrir því hvort og þá hvernig aðgangur kæranda geti valdið félaginu tjóni eða hversu mikið tjónið geti orðið. Ákvörðun Vegagerðarinnar virðist fyrst og fremst reist á því að RA 5 ehf. hafi lagst gegn því að kæranda verði veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Getur sú afstaða ekki ein og sér komið í veg fyrir að stofnunin framkvæmi sjálf hagsmunamat af því tagi sem áður hefur verið lýst. <br /> <br /> Fylgiskjal III með samningi Vegagerðarinnar og RA 5 ehf., dags. 26. febrúar 2020, er 19 blaðsíður og ber yfirskriftina: „Nýjar höfuðstöðvar Vegagerðarinnar. Skilalýsing með leigusamningi vegna Suðurhrauns 3, 210 Garðabæ.“ Skjalið er merkt báðum samningsaðilum og nær til viðbóta eða frávika frá húslýsingu Framkvæmdasýslu ríkisins, dags. í október 2018. Skjalið hefur að geyma tiltölulega almenna lýsingu á ástandi og gæðum hins leigða og fyrirhuguðum frágangi innan- og utanhúss með breytingum sem ýmist eru sagðar að ósk Vegagerðarinnar eða vegna annarra ástæðna. Einnig er að finna í skjalinu yfirlit um magntölur samkvæmt húslýsingu sem bornar eru saman við teikningu, rými sem felld verði út eða bætt við, búnað sem Vegagerðin skuli útvega og önnur frávik. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna nokkrar þær upplýsingar í skjalinu sem veitt geta innsýn í viðskiptaleyndarmál, fjárhagsstöðu eða önnur atriði sem geta valdið RA 5 ehf. tjóni, yrðu upplýsingarnar á almannavitorði. Hagsmunir kæranda af aðgangi að skjalinu vega því augljóslega mun þyngra en þeir takmörkuðu hagsmunir annarra af því að það fari leynt. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að fylgiskjali III.<br /> <br /> Fylgiskjal V með leigusamningnum er tvær blaðsíður og felur í sér viðhaldsáætlun hússins að Suðurhrauni 3. Skjalið hefur að geyma yfirlit um þætti er krefjast viðhalds, hver beri ábyrgð á því, hversu reglulega það skuli eiga sér stað og hver standi straum af kostnaði. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum getur skjalið ekki falið í sér upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni RA 5 ehf. sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og því ljóst að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að því vega mun þyngra en hagsmunir félagsins af því að það fari leynt. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að fylgiskjali V.<br /> <br /> Fylgiskjal VIII við leigusamninginn er 16 blaðsíður og ber yfirskriftina: „Hönnunarforsendur leigutaka, umfram skilgreiningar í húslýsingu og skilalýsingu.“ Í skjalinu eru settar fram nánari kröfur Vegagerðarinnar sem RA 5 ehf. skuli uppfylla. Úrskurðarnefndin tekur fram að um er að ræða skjal sem alfarið er unnið af Vegagerðinni þar sem gerðar eru kröfur til einkaaðila. Engar upplýsingar er hins vegar að finna í skjalinu um það hvort eða hvernig hafi verið orðið við þessum kröfum. Því er með engu móti hægt að álykta að skjalið hafi að geyma upplýsingar sem varði viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem gætu skaðað samkeppnishæfni RA 5 ehf. eða valdið því annars konar tjóni með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að fylgiskjali VIII.<br /> <br /> Fylgiskjal IX við leigusamninginn er ein blaðsíða og felur í sér samkomulag um fullnaðaruppgjör Vegagerðarinnar gagnvart RA 5 ehf. á viðbótarkostnaði vegna breytinga og viðbóta sem gerðar hafi verið á samningstíma frá húslýsingu og húsrýmisáætlun vegna Suðurhrauns 3. Samkomulagið felur í sér breytingu á leiguverði. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem áður hafa verið rakin um upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna er með engu móti hægt að líta svo á að hagsmunir RA 5 ehf. af því að skjalið fari leynt geti vegið þyngra en hagsmunir kæranda, og raunar alls almennings, af því aðgangur verði veittur. Ekki er að finna upplýsingar í skjalinu sem valdið geta félaginu tjóni, yrðu þær á almannavitorði. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að fylgiskjali IX.</p> <p >Af framangreindu er ljóst að verulega skorti á að Vegagerðin legði fullnægjandi grunn að ákvörðun sinni um að synja kæranda um afhendingu umbeðinna gagna. Þannig verður ekki séð að Vegagerðin hafi lagt mat á þá hagsmuni svo sem áskilið er í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, eins og rakið er hér að framan. Þrátt fyrir að ákvörðun Vegagerðarinnar sé haldin slíkum annmörkum telur úrskurðarnefndin, eftir að hafa kynnt sér umrædd gögn, engu að síður fært að endurskoða sjálfstætt umrædda ákvörðun og fella hana úr gildi og leggja fyrir Vegagerðina að afhenda umrædd gögn, í stað þess að vísa málinu til nýrrar meðferðar. Í því sambandi er horft til þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um rétt kæranda til umbeðinna gagna.<br /> <br /> Loks telur úrskurðarnefndin rétt að árétta að upplýsingalög gera ekki ráð fyrir að sá sem fer fram á upplýsingar þurfi að rökstyðja sérstaklega beiðni sína. Þá getur skortur á slíkum rökstuðningi ekki leitt til þess að kæranda verði synjað um aðgang að gögnum á þeim grunni einum.<br /> <br /> Samkvæmt öllu framangreindu verður að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum í heild sinni.</p> <h2>Úrskurðarorð:</h2> Vegagerðinni er skylt að veita kæranda, K16 ehf., aðgang að fylgiskjölum við húsaleigusamning fyrir stofnunina við Suðurhraun 3, 210 Garðabæ, dags. í mars 2020, nr. III, V, VIII og IX.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br /> <br />

986/2021. Úrskurður frá 17. mars 2021.

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna meints hraðaksturs á tiltekinni lögreglubifreið. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu lögreglustjóra að kæranda hefði verið afhent öll fyrirliggjandi gögn sem tengdust málinu. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þá taldi úrskurðarnefndarin að meðferð lögreglustjóra á beiðni kæranda hafi ekki verið í samræmi við málshraðareglu 17. gr. upplýsingalaga

<h1>Úrskurður</h1> Hinn 17. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð <br /> nr. 986/2021 í máli ÚNU 20100005. <br /> <h2>Kæra og málsatvik</h2> Með kæru, dags. 2. október 2020, kærði A afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni hans um aðgang að gögnum vegna meints hraðaksturs á tiltekinni lögreglubifreið sem hann ók árið 2017.<br /> <br /> Kærandi sendi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu erindi, dags. 20. ágúst 2019, þar sem fram kom að honum hefði borist til eyrna að lögð hefði verið fram kvörtun vegna aksturslags hans í gegnum samfélagsmiðilinn facebook. Með erindinu óskaði kærandi eftir öllum gögnum málsins, þ.e. kvörtuninni sem barst gegnum facebook, skjáskoti sem tekið var úr ferilvöktun lögreglu, öllum þeim tölvubréfum sem urðu til vegna málsins og bréfi sem sýni lokaafgreiðslu málsins. Kærandi ítrekaði beiðni sína með bréfi, dags. 22 október 2019. <br /> <br /> Í kæru kemur fram að enn hafi engin svör borist og kærandi telji afgreiðslu lögreglustjóra brjóta gegn 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 með því að upplýsa ekki innan ákveðins frests um hvort orðið yrði við beiðninni. Þar sem erindinu hafi ekki verið svarað þá sé það mat kæranda að orðið hafi óhæfilegur dráttur á afgreiðslu beiðni hans um aðgang að þeim gögnum sem hann óskaði eftir hjá lögreglunni. <br /> <h2>Málsmeðferð</h2> Með bréfi, dags. 6. október 2020, sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæruna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og veitti embættinu frest til 14. október 2020 til að afgreiða beiðnina. Úrskurðarnefndin ítrekaði framangreint erindi þrívegis með erindum, dags. 12. nóvember 2020, 10. desember 2020 og 21. janúar 2021.<br /> <br /> Með bréfi, dags. 26. janúar 2021, barst svar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að erindi kæranda hefði verið afgreitt með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem var meðfylgjandi bréfi lögreglustjórans til úrskurðarnefndarinnar. Með framangreindu bréfi, dags. 22. janúar 2021, var kæranda veittur aðgangur að fyrirliggjandi gögnum í málinu. <br /> <br /> Með bréfi, dags. 4. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir staðfestingu kæranda á því að honum hefðu verið afhent þau gögn sem beiðni hans laut að og honum tilkynnt um að fyrirhugað væri að fella mál hans niður að fenginni staðfestingu hans. Í svari kæranda, dags 7. mars 2021, kom fram að kærandi gæti staðfest að hluti þeirra gagna sem óskað var eftir hefði borist honum en ekki öll gögn málsins líkt og fram hefði komið í bréfi lögreglustjóra. Af þeim sökum fór kærandi fram á að mál hans yrði tekið til úrskurðar um hvort lögreglustjóra væri skylt að afhenda öll gögn sem óskað var eftir.<br /> <br /> Í ljósi framangreindrar afstöðu kæranda ritaði úrskurðarnefndin lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu bréf, dags 15. mars 2021, þar sem þess var óskað að nefndin yrði upplýst um hvort öll fyrirliggjandi gögn sem féllu undir beiðni kæranda um upplýsingar hefðu verið afhent. Svar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu barst með bréfi, dags. 16. mars 2021, þar sem fram kom að embættið hefði afhent kæranda þau gögn sem lægju fyrir. Málið varðandi meintan hraðakstur hafi verið afgreitt af yfirmanni kæranda sem tók ákvörðun um að aðhafast ekkert vegna tilkynningarinnar. Tilkynningin hefði ekki verið skráð í skjalastjórnunarkerfi eða önnur kerfi sem hefðbundið starfsmannamál. Það hafi ekki verið fyrr en kærandi sjálfur sendi inn erindi til Persónuverndar að málið hefði verið skráð og afgreitt á þeim grundvelli. Ekki væri um að ræða að embættið hafnaði að afhenda frekari gögn í málinu eins og kærandi héldi fram. Gögn þau sem kærandi óskaði eftir að fá afhent væru ekki til.<br /> <h2>Niðurstaða</h2> Í málinu er deilt um afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um aðgang að öllum gögnum vegna meints hraðaksturs á tiltekinni lögreglubifreið árið 2017. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu heldur því fram að öll fyrirliggjandi gögn hafi verið afhent og þau gögn sem kærandi óski eftir séu ekki til hjá embættinu.<br /> <br /> Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.<br /> <br /> Í viðbótarumsögn lögreglustjóra, dags. 16. mars 2021, segir að öll gögn sem tengjast málinu hafi verið afhent kæranda og þau gögn sem hann óski eftir séu ekki til hjá embættinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til þess að rengja þær staðhæfingar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.<br /> <br /> Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> Loks er það afstaða úrskurðarnefndarinnar að meðferð lögreglustjóra á beiðni kæranda hafi ekki verið í samræmi við málshraðareglu 17. gr. upplýsingalaga. Þannig liðu alls fimm mánuðir frá því að beiðni barst embættinu og þar til henni var svarað án þess að kæranda hefði verið skýrt frá ástæðum tafa eða hvenær ákvörðunar væri að vænta eins og áskilið er í 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin beinir því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að afgreiða framvegis beiðnir um upplýsingar í samræmi við þær kröfur sem leiða af 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.<br /> <h2>Úrskurðarorð</h2> Kæru A, dags. 2. október 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.<br /> <br /> <br /> Hafsteinn Þór Hauksson<br /> formaður<br /> <br /> <br /> Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir<br /> <br /> <br />

985/2021. Úrskurður frá 17. mars 2021.

Kærð var synjun Hafrannsóknarstofnunar á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um aflatölur yfir stangveiði síðustu tíu ára fyrir jarðir við Hvítá og Ölfusá. Kæran barst því tæpum mánuði eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Úrskurðarnefndin taldi skilyrði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt og var k