Hoppa yfir valmynd

981/2021. Úrskurður frá 22. febrúar 2021.

Úrskurður

Hinn 22. febrúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 981/2021 í máli 21010023.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 29. janúar 2021 kærði A ákvörðun Kennarasambands Íslands og Skólastjórafélags Íslands um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum um hann sjálfan og eiginkonu hans og gögn er varða samskipti kennara Garðaskóla og fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar við félögin í tengslum við eineltismál dóttur hans.

Með tveimur erindum til Kennarasambands Íslands, dags. 25. janúar 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að upplýsingum varðandi hann sjálfan og eiginkonu sína. Nánar tiltekið óskaði hann eftir upplýsingum um samskipti tiltekinna aðila við Kennarasambands Íslands, Skólastjórafélags Íslands og Félags grunnskólakennara í tengslum við eineltismál dóttur hans. Beiðnirnar voru settar fram með vísan til laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Kennarasamband Íslands svaraði kæranda með tveimur bréfum, dags. 26. janúar 2021, þar sem fram kemur að upplýsingar um aðild að stéttarfélagi flokkist sem viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018. Stéttarfélög sinni almennt hagsmunagæslu í tengslum við réttindi og skyldur starfsmanna sem eru félagsmenn í viðkomandi stéttarfélögum. Þá beri stéttarfélög almennt þagnarskyldu gagnvart félagsmönnum að því er varði þau mál sem félagsmenn leiti til stéttarfélags síns með. Af þeim sökum sé ekki hægt að upplýsa kæranda um hverjir séu félagsmenn Kennarasambands Íslands, hvort einstaklingar sem mögulega kunna að vera félagsmenn hafi leitað til Kennarasambands Íslands eða aðildarfélaga þess t.d. í tengslum við mál sín og þá hvort nafn kæranda, eiginkonu eða fjölskyldumeðlims hafi borið á góma í slíku máli hafi þeir gert það. Í svörunum kemur einnig fram að engar upplýsingar hafi fundist sem heimilt sé að veita aðgang að. Loks er kæranda leiðbeint um heimild til að senda kvörtun til Persónuverndar vegna svara eða vinnubragða Kennarasambands Íslands og aðildarfélaga þess í tengslum við persónuvernd.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, til aðgangs að upplýsingum um kæranda og eiginkonu hans og gögn er varða samskipti kennara Garðaskóla og fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar við félögin í tengslum við eineltismáli dóttur hans í fórum Kennarasambands Íslands og Skólastjórafélags Íslands.

Samkvæmt 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Samkvæmt 3. gr. laganna taka þau einnig til einkaaðila, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hefur með lögum eða með ákvörðun eða samningi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds.

Kennarasamband Íslands og Skólastjórafélag Íslands eru stéttarfélög sem starfa m.a. á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Stéttarfélög eru frjáls félagsamtök launþega sem rekin eru á einkaréttarlegum grundvelli og gegna því hlutverki að vinna sameiginlega að hagsmunamálum félagsmanna sinna, m.a. gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra. Þau eru því hvorki stjórnvöld né lögaðilar í 51% eigu ríkisins eða meira, sbr. 2. gr. upplýsingalaga. Þá hefur þessum aðilum ekki verið falið hlutverk sem fellur undir 3. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til framangreinds fellur kæran utan gildissviðs upplýsingalaga og er henni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A dags. 29. janúar 2021, vegna synjunar Kennarasambands Íslands og Skólastjórafélags Íslands á beiðni um upplýsingar varðandi hann sjálfan og eiginkonu hans og gögn er varða samskipti kennara Garðaskóla og fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar við félögin í tengslum við eineltismáli dóttur hans, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira