Hoppa yfir valmynd

752/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Óskað var eftir aðgangi að upplýsingum í vörslum forsætisráðuneytisins er varða gerð gjaldeyrisskiptasamnings milli Kína og Íslands í júní 2010. Af hálfu forsætisráðuneytisins kom fram að kærandi hefði fengið aðgang að gögnum samkvæmt beiðninni en önnur væru ekki í vörslum ráðuneytisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu forsætisráðuneytisins og var kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurður

Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 752/2018 í máli ÚNU 18010007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, mótteknu 25. janúar 2018, kærði A synjun forsætisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum. Þann 22. júní 2017 óskaði kærandi eftir aðgangi að eftirfarandi gögnum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993:
  1. Öllum bréfum og tölvupóstum sem varða gjaldeyrisskiptasamning milli Kína og Íslands sem gerður var í júní árið 2010, og gengu milli forsætisráðuneytisins, annarra íslenskra stjórnvalda og kínverska stjórnvalda, áður en gjaldeyrisskiptasamningurinn var gerður.
  2. Öllum gögnum sem varða beiðnir um lán frá Kína eða gjaldeyrisskiptasamninga við sama ríki á árunum 2008-2010, þar á meðal beiðnir sem svarað var neitandi. Fram kemur í beiðninni að nafngreindur aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi upphaflega haft þessi mál á sínu borði og verið í samskiptum við kæranda vegna lánabeiðna til Kína. Meðal umbeðinna gagna séu gögn sem tengjast för aðstoðarmannsins til Kína árið 2008.
  3. Öllum gögnum þar sem getið sé um kæranda.
Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ítrekað erindið þann 5. júlí 2017. Þann 6. júlí 2017 svaraði forsætisráðuneytið kæranda með tölvupósti þar sem fram kom að gerð gjaldeyrisskiptasamningsins hafi verið á hendi Seðlabanka Íslands og ábyrgð á gagnavörslu vegna málsins þar með. Tekið er fram að ef kærandi óski upplýsinga frá Seðlabankanum verði hann að beina sérstakri upplýsingabeiðni til bankans. Sama gildi ef kærandi vilji óska gagna frá öðrum stjórnvöldum vegna málsins. Hvað forsætisráðuneytið varði hafi ráðuneytið látið framkvæma leit í málaskrá ráðuneytisins og engin gögn hafi fundist sem varða málið. Boðist var til að endurtaka leit í ágúst að loknum sumarleyfum ef óskað væri.

Kærandi svaraði því með tölvupósti samdægurs að hann viti af hlutverki Seðlabankans við gerð samningsins en hann hafi áhuga á aðkomu forsætisráðuneytisins, sérstaklega aðstoðarmanns ráðherra, að málinu. Erfitt sé að trúa því að ekki sé til afrit gjaldeyrisskiptasamningsins í ráðuneytinu sem hafði efnahagsmál á sinni könnu á þessum tíma. Þá hljóti að vera til ýmis gögn um för aðstoðarmannsins til Kína í ágúst 2008 í ráðuneytinu. Þá liggi fyrir að Kínverjar hafi áður neitað umleitunum um gjaldeyrisskipti eða lán og ættu gögn um það jafnframt að finnast í ráðuneytinu. Ef gögnin séu ekki í málaskrá hljóti þau að vera í tölvupósti forsætisráðherra og aðstoðarmanns hans.

Með tölvupósti, dags. 26. september 2017, fór kærandi þess á leit að hann yrði látinn vita af því hvort frekari leit leiði umbeðin gögn í ljós. Þann 4. janúar 2018 tjáði ráðuneytið kæranda að ný leit hefði verið framkvæmd en niðurstaðan væri sú sama, þ.e. engin gögn er varði málið sem upplýsingabeiðnin beinist að finnist í málaskrá forsætisráðuneytisins. Í tölvupóstinum kemur fram að afhentir séu tveir tölvupóstar frá kæranda en ráðuneytið geti látið taka saman tölvupósta um málið sem borist hafi ráðuneytinu frá kæranda ef þess væri óskað.

Í kæru kemur fram að þótt ráðuneytið fullyrði að umbeðin gögn finnist ekki í málaskrá verði að telja að ríkari skyldur hvíli á stjórnvöldum til að framkvæma leit að upplýsingum í kjölfar upplýsingabeiðni á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Sú skylda feli m.a. í sér að leitað skuli í tölvupóstum starfsmanna þegar líkur séu á að upplýsingar séu þar að finna. Forsætisráðuneytið hafi farið með yfirstjórn efnahagsmála langt fram á árið 2009 og verði því að telja með nokkrum ólíkindum ef þar væru hvorki að finna gögn um einn mikilvægasta gjaldeyrisskiptasamning sem gerður hafi verið í kjölfar bankahrunsins né nokkur samskipti við kínversk stjórnvöld og Seðlabanka Íslands. Þess sé því krafist að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fari fram á það, með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, að ráðuneytið upplýsi um hvort leitað hafi verið í tölvupóstum starfsmanna og þáverandi ráðherra.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 30. janúar 2018, var kæran kynnt forsætisráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna.

Í umsögn forsætisráðuneytisins, dags. 16. febrúar 2018, segir m.a. að í tilefni af kærunni hafi ráðuneytið enn á ný látið framkvæma leit í málaskrá sinni. Niðurstaðan sé sú sama og áður, engin gögn er varði gerð gjaldeyrisskiptasamningsins hafi fundist.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, var umsögn ráðuneytisins kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 12. mars 2018, kemur m.a. fram að ráðuneytið hafi ekki svarað því hvort framkvæmd hafi verið leit í tölvupóstum tilgreindra embættismanna, en kærandi hafi haldið því fram að þar kunni gögnin að vera að finna. Auk þess hafi ráðuneytið ekki neitað því að nafngreindur aðstoðarmaður ráðherra hafi farið til Kína til slíkra þreifinga á árinu 2008. Er þess krafist að úrskurðarnefndin beini því til ráðuneytisins að framkvæma ítarlegri leit áður en tekin er afstaða til krafna kæranda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu forsætisráðuneytisins á beiðni kæranda um öll gögn er varða gjaldeyrisskiptasamning Íslands og Kína sem gerður var í júní árið 2010, sbr. fyrsta lið gagnabeiðninnar, öll gögn sem varða beiðnir um lán frá Kína eða gjaldeyrisskiptasamninga við sama ríki á árunum 2008-2010, þ. á m. þau sem varða ferð tiltekins aðstoðarmanns ráðherra til Kína árið 2009, sbr. annan lið beiðninnar og öll gögn þar sem getið er um kæranda, sbr. þriðja lið beiðninnar.

Í tölvupósti forsætisráðuneytisins til kæranda, dags. 4. janúar 2018, kemur fram að ráðuneytið hafi afhent kæranda afrit af tveimur tölvupóstum sem kærandi hafi sent ráðuneytinu og var kærandi upplýstur um að fleiri slíkir tölvupóstar væru fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Var boðist til þess að taka saman alla tölvupósta sem farið höfðu á milli kæranda og ráðuneytisins ef kærandi óskaði þess. Í ljósi þessa verður að líta svo á að forsætisráðuneytið hafi svarað beiðni kæranda að þessu leyti og að ekki liggi fyrir synjun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012. Verður því að vísa kæru frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðandi þriðja lið beiðni kæranda.

Hvað varðar fyrstu tvo liði gagnabeiðni kæranda fullyrðir forsætisráðuneytið að engin skjöl hafi fundist við leit í málaskrá þess en í gögnum málsins kemur fram að leitin hafi verið framkvæmd alls þrisvar sinnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að álykta öðruvísi en svo að ráðuneytið hafi látið framkvæma fullnægjandi leit að gögnum sem fallið geta undir beiðni kæranda. Þá hefur nefndin ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu forsætisráðuneytisins að ekki séu gögn í vörslum þess sem heyra undir gagnabeiðni kæranda samkvæmt fyrstu tveimur liðum hennar.

Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort forsætisráðuneytið eða einstakir starfsmenn þess hafi sinnt skyldum sínum um skráningu mála og varðveislu gagna, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og 40. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinna þessum skyldum með fullnægjandi hætti, einkum Þjóðskjalasafns Íslands, dómstóla og umboðsmanns Alþingis.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 25. janúar 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir    Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira