Hoppa yfir valmynd

70/1998 Úrskurður frá 29. desember1998 í málinu nr. A-70/1998

Hinn 29. desember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-70/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 9. desember sl., kærði [...] læknir synjun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dagsetta 11. nóvember sl., um að veita honum aðgang að umsögn stöðunefndar um umsækjendur um embætti landlæknis.

Með bréfi, dagsettu 11. desember sl., var kæran kynnt heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 18. desember sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, er kæran laut að, innan sama frests. Að ósk ráðuneytisins var frestur þessi framlengdur til 22. desember sl. og barst umsögn þess þann dag. Henni fylgdi afrit af umsögn stöðunefndar um umsækjendur um embætti landlæknis, dagsett 14. október 1998.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að með bréfi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dagsettu 4. nóvember sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að umsögn stöðunefndar um umsækjendur um embætti landlæknis. Í beiðni kæranda kom fram að hann teldi slíka umsögn vera samanburð milli einstaklinga "og ekki aðeins milli þeirra sem sækja um viðkomandi embætti, heldur einnig við þá sem áður hafa sótt um stöður og stöðunefnd hefur fjallað um". Af þeim sökum taldi hann sig eiga beinna hagsmuna að gæta.

Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til kæranda, dagsettu 11. nóvember sl., var beiðni hans hafnað á þeim grundvelli að um aðgang annarra en aðila máls að gögnum færi samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. þeirra laga tæki réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til umsókna um störf hjá ríkinu og allra gagna sem þær varða.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi hafi áður sótt um starf, er stöðunefnd hafi metið hæfni umsækjenda til að gegna. Vísaði kærandi m.a. til þess að umsagnir stöðunefnda væru "ekki eingöngu samanburður á umsækjendum um hverja einstaka stöðu heldur einnig óbeint á þeim sem fyrr eða síðar sækja um stöður þar sem umsagnar stöðunefndar er krafist og einstaklingar verða að leggja fram gögn yfir náms- og starfsferil og vísindavinnu". Af þeim sökum taldi hann slíka umsækjendur eiga mikilla hagsmuna að gæta og þeim yrði því ekki jafnað til almennings í skilningi upplýsingalaga.

Í umsögn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar er tekið fram að kærandi hafi ekki verið meðal umsækjenda um embætti landlæknis.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Eins og að framan greinir var kærandi ekki meðal umsækjenda um embætti landlæknis. Þar af leiðandi gilda upplýsingalög um aðgang hans að umsögn nefndar sem mat hæfni umsækjenda um embættið á grundvelli 31. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.". Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laganna tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til "umsókna um stöður hjá ríki eða sveitarfélögum" né "allra gagna sem þær varða", að undanskildum upplýsingum um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda.
Af orðalagi 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga og athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til laganna á sínum tíma, verður dregin sú ályktun að undantekningarákvæði þetta taki ekki aðeins til gagna, sem fylgja umsókn, heldur og til gagna, sem aflað er áður en ráðið er í störf hjá ríki eða sveitarfélögum, til þess að það stjórnvald, sem ræður í starfið, geti lagt mat á hæfni umsækjenda til að gegna því. Skiptir í því sambandi ekki máli hver gögn þessi eru ef þeim er ætlað að veita upplýsingar til að auðvelda hlutaðeigandi stjórnvaldi val á milli umsækjenda.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér fyrrgreinda umsögn og telur að hún falli augljóslega undir 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga enda var hún gefin á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu. Með skírskotun til þess verður staðfest sú ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að umsögninni.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að synja kæranda, [...], um aðgang að umsögn nefndar sem mat hæfni umsækjenda um embætti landlæknis.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum