Hoppa yfir valmynd

A-306/2009 úrskurður frá 25. júní 2009

A-306/2009. Úrskurður frá 25. júní 2009.

ÚRSKURÐUR

Hinn 25. júní 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-306/2009.

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi, dags. 6. maí 2009, kærði [...] þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að synja sama dag um afrit af umsögn stofnunarinnar til Borgarbyggðar, dags. 10. mars 2009, við beiðni Borgarbyggðar um heimild til að auglýsa deiliskipulagsbreytingu Stuttárbotnasvæðisins í Húsafelli í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi óskaði eftir afriti af umsögn Skipulagsstofnunar til Borgarbyggðar, dags. 10. mars 2009, við beiðni Borgarbyggðar um heimild til að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Stuttárbotnasvæðisins í Húsafelli í B-deild Stjórnartíðinda. Kærandi óskaði eftir því í tölvubréfi 6. maí að Skipulagsstofnun léti sér í té afrit af umsögn stofnunarinnar til Borgarbyggðar, dags. 10. mars 2009. Skipulagsstofnun svaraði beiðni kæranda í tölvupósti sama dag þar sem fram kemur það álit stofnunarinnar að beiðninni sé ekki beint til rétts stjórnvalds, sveitarfélagsins Borgarbyggðar. Kærandi kærði þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í tölvubréfi dags. 6. maí.

Með bréfi, dags. 7. maí, var Skipulagsstofnun kynnt kæran og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir að fá afhent í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 11. maí. Í athugasemdunum er upplýst að umrætt erindi stofnunarinnar hafi verið sent til Borgarbyggðar á grundvelli 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í bréfinu segir m.a. að með vísan til 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hafi Skipulagsstofnun ekki talið heimilt að verða við beiðni kæranda þar sem upplýsingalögin kveði á um að þegar farið sé fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna, skuli beiðni um aðgang beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Jafnframt er rakin nánar sú afstaða stofnunarinnar að umrætt skjal teljist til gagna stjórnsýslumáls. Í bréfinu segir m.a.: „Með erindi sínu til Borgarbyggðar þann 10. mars sl. var Skipulagsstofnun að uppfylla þessa lagaskyldu, þ.e. að koma á framfæri athugasemdum sínum til sveitarstjórnar. Rétt er að taka fram að slík umsögn Skipulagsstofnunar er ekki bindandi fyrir sveitarstjórn, þ.e. henni er ekki skylt að taka tillit til athugasemda stofnunarinnar. Kemur það heim og saman við fundargerð skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar frá 6. maí sl., þar sem kemur fram að nefndin beini þeim tilmælum til sveitarstjórnar að birta auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsbreytingar þrátt fyrir athugasemdir Skipulagsstofnunar. Að öllu framangreindu er ljóst að erindi Skipulagsstofnunar til Borgarbyggðar þann 10. mars sl. er hluti af máli sem taka á stjórnvaldsákvörðun í.“

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 22. maí, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Skipulagsstofnunar. Umsögn kæranda barst úrskurðarnefndinni með tölvubréfi dags. 26. maí.

Aðilar málsins hafa fært frekari rök fyrir afstöðu sinni en með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim í úrskurði þessum. Úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

 Skipulagsstofnun hafnaði í máli þessu að afgreiða beiðni kæranda um aðgang að gögnum með vísan til 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga 50/1996. Í svari stofnunarinnar til kæranda kemur fram sú afstaða að stofnuninni sé, á grundvelli þess ákvæðis, óheimilt að afgreiða erindi kæranda þar sem það gagn sem hann hafi óskað aðgangs að teljist til gagna í máli þar sem taka eigi stjórnvaldsákvörðun og er kæranda bent á að beina beiðni sinni um aðgang að umræddu skjali til sveitarfélagsins Borgarbyggðar. Með framangreindri afgreiðslu vísaði Skipulagsstofnun í reynd frá sér því erindi sem kærandi hafði lagt fram, þó ekki komi það með skýrum hætti fram í afgreiðslu stofnunarinnar á beiðninni.

Umrætt gagn, sem kærandi hefur óskað aðgangs að, er umsögn Skipulagsstofnunar sem hún lét Borgarbyggð í té, dags. 10. mars 2009, vegna beiðni Borgarbyggðar um heimild til að auglýsa í B-deild Stjórnartíðinda deiliskipulagsbreytingu Stuttárbotnasvæðisins í Húsafelli. Umrætt gagn tengist því undirbúningi og ákvörðun sveitarfélagsins Borgarbyggðar um breytingu á deiliskipulagi samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, kemur fram að stjórnvöldum þeim sem falla undir 2. gr. laganna, en bæði Skipulagsstofnun og sveitarfélagið Borgarbyggð teljast til stjórnvalda samkvæmt þeirri grein, er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. laganna.

Í 3. gr. sömu laga er nánar tilgreint hvaða upplýsingar teljast til upplýsinga um umhverfismál samkvæmt lögunum. Segir þar m.a. í 3. tölul. 1. mgr. að til slíkra upplýsinga teljist „ráðstafanir í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga, á sviði umhverfismála sem hafa eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í 1. og 2. tölul., auk kostnaðar- og ábatagreiningar eða annars konar hagkvæmnigreiningar sem notuð er í tengslum við ákvarðanir um slíkar ráðstafanir.“ Í 1. tölul. ákvæðisins er nánar tilgreint að til upplýsinga um umhverfismál teljist m.a. upplýsingar um ástand afmarkaðra þátta umhverfisins, svo sem andrúmslofts og lofthjúps, vatns, jarðvegs, lands, landslags og náttúruminja.

Eins og fram kemur í 1. gr. laga nr. 23/2006 er það markmið laganna að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál. Með hliðsjón af því verða tilvitnaðir tölul. 3. gr. laganna almennt ekki túlkaðir þröngt.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að sú umsögn Skipulagsstofnunar, sem beiðni kæranda beinist að, tengist ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi sveitarfélagsins Borgarbyggðar, og jafnframt að líta verði svo á að sú ákvörðun sem í þeirri deiliskipulagsbreytingu felst sé þess eðlis að hún hafi, eða sé líkleg til að hafa, áhrif á ýmsa þætti umhverfisins, m.a. jarðveg, land og landslag. Af því leiðir að Skipulagsstofnun bar að leysa úr erindi kæranda á grundvelli laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, en ekki á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996, eins og stofnunin gerði.

Engu að síður liggur í máli þessu fyrir sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að vísa beiðni kæranda um aðgang að gögnum frá. Byggði stofnunin þá niðurstöðu á ákvæði 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga eins og áður hefur verið rakið. Í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2006 er að finna ákvæði sem er sambærilegt nefndri 3. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1996. Þar kemur fram að þegar farið er fram á aðgang að upplýsingum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skuli beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur upplýsingarnar í vörslum sínum.

Ákvörðun um þá deiliskipulagsbreytingu sem um er að ræða í þessu máli er samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 í höndum sveitarfélagsins Borgarbyggðar. Skipulagsstofnun telst ekki hafa tekið stjórnvaldsákvörðun með útgáfu þeirrar umsagnar sem beiðni kæranda beinist að. Með hliðsjón af þeirri tilteknu deiliskipulagsbreytingu sem um ræðir í þessu máli fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á þá afstöðu Skipulagsstofnunar að hún teljist stjórnvaldsákvörðun sem tekin er, eða mun verða tekin, af sveitarfélaginu Borgarbyggð. Umrædd umsögn Skipulagsstofnunar telst því innihalda upplýsingar í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun af hálfu Borgarbyggðar. Með hliðsjón af 4. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2006 var kröfu um aðgang að umræddu gagni því ranglega beint að Skipulagsstofnun. Bar stofnuninni að framsenda erindið til sveitarfélagsins Borgarbyggðar skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er sú skylda ennþá virk.

Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun bærs stjórnvalds ber að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] vegna synjunar Skipulagsstofnunar um afhendingu á gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Friðgeir Björnsson

formaður

 

           Sigurveig Jónsdóttir                                                                                            Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum