Hoppa yfir valmynd

48/1998 Úrskurður frá 22. júní 1998 í málinu nr. A-48/1998

Hinn 22. júní 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-48/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 22. maí sl., kærði [...], til heimilis að [...], synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dagsetta 19. maí sl., um að veita honum upplýsingar um greiðslur stofnunarinnar til einstakra lyfjabúða á fyrstu ársfjórðungum áranna 1996 og 1998 og jafnframt upplýsingar "um innbyrðis stærðarhlutföll einstakra lyfjabúða, reiknuð út frá þessum fjárhæðum".

Með bréfi, dagsettu 10. júní sl., var kæran kynnt Tryggingastofnun og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 12.00 hinn 16. júní sl. Jafnframt var þess óskað að upplýst yrði með hvaða hætti umbeðnar upplýsingar væru varðveittar hjá stofnuninni.

Svar Tryggingastofnunar, dagsett 16. júní sl., barst með símbréfi innan tilskilins frests.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með símbréfi til forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, dagsettu 8. maí sl., fór kærandi fram á, með vísun til upplýsingalaga nr. 50/1996, að fá eftirgreindar upplýsingar: "Greiðslur til einstakra apóteka fyrstu þrjá mánuði ársins 1998 og sömu upplýsingar fyrstu þrjá mánuði ársins 1996 til samanburðar. Ef ekki er unnt að veita upplýsingar um fjárhæðir, óska ég eftir upplýsingum um innbyrðis stærðarhlutföll einstakra lyfjabúða, reiknuð út frá þessum fjárhæðum, á umræddu tímabili."

Tryggingastofnun synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 19. maí sl. Í bréfinu kemur fram að um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu apóteka, sem væru til þess fallnar að valda apótekunum tjóni, ef aðgangur yrði veittur að þeim. Að áliti stofnunarinnar eiga því hinar umbeðnu upplýsingar að vera undanþegnar upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.

Í umsögn Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 16. júní sl., segir að upplýsingarnar séu "varðveittar í Excel-skrá hjá lyfjamálasviði sjúkratryggingadeildar og í BÁR-kerfi í bókhaldsdeild stofnunarinnar."
Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru sinni. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
1.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 2. mgr. 3. gr. er ennfremur svo fyrir mælt að réttur til aðgangs að gögnum nái til allra skjala og annarra gagna, sem mál varða, þ. á m. til gagna, sem vistuð eru í tölvu, sbr. niðurlag 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna.
Fyrir liggur að hinar umbeðnu upplýsingar eru varðveittar í einu lagi í tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins. Samkvæmt framansögðu er stofnuninni þar með skylt að veita kæranda aðgang að þeim nema einhver af undantekningunum í 4.-6. gr. upplýsingalaga eigi við.

2.
Í 1. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, þar sem kveðið er á um markmið laganna, segir að meginmarkmið þeirra sé "að tryggja landsmönnum nægilegt framboð á nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni". Í samræmi við þetta ákvæði ríkir nú frjáls samkeppni milli lyfjabúða, innan þeirra marka sem mælt er fyrir um í lyfjalögum og samkeppnislögum nr. 8/1993.

Samkvæmt IV. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar tekur ríkið þátt í nauðsynlegum lyfjakostnaði þeirra sem sjúkratryggðir eru. Þar eð hlutdeild ríkisins í lyfjakostnaði er veruleg innir Tryggingastofnun ríkisins af hendi háar fjárhæðir til lyfjabúða á ári hverju. Af þeim greiðslum má ráða hver sé markaðshlutdeild hverrar lyfjabúðar í sölu lyfja á þeim tíma sem þær taka til.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga er niðurlag þessa ákvæðis skýrt svo að með því sé m.a. átt við "viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu" fyrirtækja og annarra lögaðila.

Með skírskotun til þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að það kynni að skaða mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra, sem eiga og reka lyfjabúðir, ef upplýsingar um greiðslur Tryggingastofnunar til þeirra væru á hverjum tíma á almanna vitorði. Af þeim sökum ber að staðfesta þá ákvörðun stofnunarinnar að synja kæranda um aðgang að þessum upplýsingum.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja kæranda [...], um aðgang að gögnum, sem hafa að geyma upplýsingar um greiðslur stofnunarinnar til einstakra lyfjabúða á fyrstu ársfjórðungum áranna 1996 og 1998, þ.m.t. upplýsingar "um innbyrðis stærðarhlutföll einstakra lyfjabúða, reiknuð út frá þessum fjárhæðum".

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum