Hoppa yfir valmynd

52/1998 Úrskurður frá 16. júlí 1998 í málinu nr. A-52/1998

Hinn 16. júlí 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-52/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 10. júní sl., kærði [...] synjun Fangelsismálastofnunar ríkisins, dagsetta 4. júní sl., um að veita honum aðgang að gögnum er varða meðferð á umsókn hans um að fá að afplána hluta af fangelsisrefsingu með vistun hjá félagasamtökunum Vernd.

Eins og mál þetta er vaxið taldi nefndin ekki ástæðu til þess að leita umsagnar Fangelsismálastofnunar, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru þau að kærandi fór fram á, með bréfi til Fangelsismálastofnunar ríkisins, dagsettu 26. maí sl., að fá afrit af þeim hluta fundargerðar af fundi fulltrúa stofnunarinnar og félagasamtakanna Verndar þar sem fjallað er um umsókn hans um að fá að afplána hluta af fangelsisrefsingu með vistun hjá Vernd. Fangelsismálastofnun synjaði beiðni hans með bréfi, dagsettu 4. júní sl.

Sú synjun var kærð til úrskurðarnefndar með bréfi kæranda, dagsettu 10. júní sl. Með bréfi, dagsettu 26. júní sl., tilkynnti nefndin honum að ekki yrði í fljótu bragði séð að synjunin yrði kærð til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Með vísun til þess var kærandi beðinn um að staðfesta fyrir 7. júlí sl. ef hann kysi að halda máli þessu áfram. Það gerði hann með bréfi, dagsettu 3. júlí sl.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru sinni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Mál það, sem hér er til úrlausnar, lýtur að beiðni kæranda um aðgang að skjali þar sem fjallað er um umsókn hans um að fá að afplána hluta af fangelsisrefsingu með vistun utan fangelsis. Synjun Fangelsismálastofnunar ríkisins á þeirri umsókn felur í sér ákvörðun um réttindi kæranda og skyldur og telst því ótvírætt stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þar eð kærandi er aðili að því stjórnsýslumáli á hann rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn, er málið varða, á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nema undantekningarákvæðin í 16. og 17. gr. laganna eigi við.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Þar af leiðandi verður synjun Fangelsismálastofnunar um að veita kæranda aðgang að hluta fundargerðar af fundi fulltrúa stofnunarinnar og félagasamtakanna Verndar, þar sem fjallað er um fyrrgreinda umsókn hans, ekki kærð til úrskurðarnefndar skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kæru [...] á hendur Fangelsismálastofnun ríkisins er vísað frá úrskurðarnefnd.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum