Hoppa yfir valmynd

A 287/2008 Úrskurður frá 19. ágúst 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 19. ágúst 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-287/2008.

 

Kæruefni og málsatvik
Með tölvubréfi, dags. 4. júní 2008, kærði [...], synjun Reykjavíkurborgar, dags. 21. maí sl., á aðgangi að upplýsingum um laun starfsmanna Reykjavíkurborgar, fjölda þeirra í hverjum launaflokki fyrir sig, flokkað eftir kyni.

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að kærandi óskaði eftir framangreindum upplýsingum með tölvubréfi til mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar 15. maí 2008. Þeirri beiðni synjaði Reykjavíkurborg með vísan til upplýsingalaga og reglna um upplýsingarétt almennings. Í gögnum málsins kemur ekki fram hvenær erindi kæranda var svarað. Á hinn bóginn liggur fyrir að í svarinu vísaði Reykjavíkurborg til þess að hjá borginni störfuðu um 8000 manns sem tilheyrðu á þriðja tug stéttarfélaga sem gerðir hefðu verið kjarasamningar við. Launatöflur kjarasamninga væru ekki samræmdar milli þessara félaga.

 

Málsmeðferð
 Með bréfi, dags. 18. júní, var kæran kynnt Reykjavíkurborg og henni gefinn frestur til 3. júlí  til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að Reykjavíkurborg léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. 

Þann 20. júní bárust nefndinni athugasemdir Reykjavíkurborgar og í þeim segir m.a. svo:

„...hjá Reykjavíkurborg starfa um 8000 manns sem tilheyra á þriðja tug stéttarfélaga sem Reykjavíkurborg hefur gert kjarasamninga við. Launatöflur kjarasamninga eru ekki samræmdar milli allra þessara félaga og ekki eru heldur fyrirliggjandi gögn sem tilgreina fjölda hvors kyns í ákveðnum launaflokkum. Af þeirri ástæðu einni er ekki mögulegt að veita þær upplýsingar sem beðið er um nema leggja í það umtalsverða og kostnaðarsama vinnu.

Réttarreglur um upplýsingarétt almennings / fjölmiðla í II. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996 ná að mati Reykjavíkurborgar ekki heldur til þeirra upplýsinga sem beðið er um. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. upplýsingalaga. Ákvæði laganna gilda um öll gögn án tillits til þess hvenær þau urðu til eða hvenær þau bárust, sbr. 2. mgr. 24. gr. fyrrnefndra laga. Þegar beðið er um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga er því nauðsynlegt að tilgreina sérstakt mál, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna og er þá hægt að fara fram á aðgang að gögnum í því máli með þeim takmörkunum sem af lögunum leiða. Upplýsingar um laun og launaflokka allra starfsmanna Reykjavíkurborgar falla ekki undir ákvæði um upplýsingar tiltekins máls.“

Með bréfi, dags. 26. júní, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við tilvitnaða umsögn Reykjavíkurborgar. Var erindið ítrekað með bréfi, dags. 11. júlí. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi hans, dags. 17. júlí. Segir þar m.a. svo:

„Aðalatriði meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er að einstaklingar og lögaðilar, þ.m.t. fjölmiðlar, eigi lögum samkvæmt rétt til aðgangs að gögnum mála innan stjórnsýslunnar án þess að þurfa að sýna fram á tengsl við málið eða aðila þess og án þess að þurfa að sýna fram á hagsmuni af því að fá eða nota umbeðnar upplýsingar. Áskilnaður 1. mgr. 10. gr. laganna er á þann hátt að beiðni skuli annaðhvort tiltaka það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir, en það kemur um leið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund. Beiðni [...] er skýr þar sem beðið er um afmarkaðan fjölda gagna, sem eru launaupplýsingar allra starfsmanna Reykjavíkurborgar, fjölda þeirra sem eru í hverjum launaflokki fyrir sig og skipt eftir kyni. Beiðnin er því nægjanlega afmörkuð til að lúta kröfu laganna um að beiðni skuli taka til þeirra gagna sem leitað er eftir. Því er hafnað sem haldið er fram í bréfi mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar, dags. 20. júní 2008, þar sem segir að upplýsingar um laun og launaflokka allra starfsmanna Reykjavíkurborgar falli ekki undir upplýsingar um tiltekið mál.

[...]

Það á heldur ekki að vera tækt að vísa frá fyrirspurn, sem byggð er á rétti almennings til upplýsinga, eingöngu vegna þess að spurningin sé viðamikil og kosti einhverja vinnu. Skýringar mannauðsstjóra um marga mismunandi kjarasamninga og að það sé erfitt að nálgast upplýsingarnar er eingöngu skipulagsatriði hjá Reykjavíkurborg og ætti ekki að skoðast sem röksemdarfærsla þess að beiðni um upplýsingar sem almenningur hefur rétt á er hafnað.“

Í bréfi sínu vísar kærandi jafnframt til stuðnings beiðni sinni til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-267/2007.

 


Niðurstaða
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er áskilið að beiðni um aðgang að upplýsingum varði tiltekið mál. Þessi áskilnaður er nánar útfærður í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga á þann hátt að í beiðni skuli annaðhvort tiltaka það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir, en það kemur um leið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund.

Beiðni kæranda um aðgang að gögnum er skýr að því leyti að ekki veldur vafa hvaða upplýsingar það eru sem beðið er um aðgang að. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að hér er um að ræða beiðni um aðgang að gögnum í ótilteknum fjölda mála í skilningi upplýsingalaga. Þá hefur fram komið af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki séu fyrirliggjandi gögn þar sem tilgreindur sé fjöldi hvors kyns í ákveðnum launaflokkum. Í niðurlagi áður tilvitnaðrar 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er sérstaklega áréttað að stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að lögum nr. 161/2006 er nánar tilgreint að í þessu felist að réttur til upplýsinga á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar eftir þeim sé leitað.

Samkvæmt framangreindu lýtur beiðni kæranda að upplýsingum sem ekki varða tiltekið mál og a.m.k. að hluta að upplýsingum sem ekki koma fram í gögnum sem fyrirliggjandi eru í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Með því að beiðni kæranda er ekki afmörkuð á þann hátt sem gerð er krafa um í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga ber að staðfesta ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á beiðni hans með vísan til framangreindra ákvæða upplýsingalaga. Tekið skal fram að það fellur ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til heimilda Reykjavíkurborgar til að safna umræddum upplýsingum, í eigin þágu eða eftir atvikum í því skyni að láta þær af hendi til annarra.  

 
 

Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni kæranda, [...], um aðgang að upplýsingum um laun starfsmanna Reykjavíkurborgar, fjölda þeirra í hverjum launaflokki fyrir sig, flokkað eftir kyni

 

 
Friðgeir Björnsson
formaður

 

 


                                            Sigurveig Jónsdóttir                                              Trausti Fannar Valsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum