Hoppa yfir valmynd

A-107/2000 Úrskurður frá 7. nóvember 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 7. nóvember 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-107/2000:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 17. október sl., kærði […], til heimilis að […], synjun Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsetta 22. október 1998, um að veita honum upplýsingar um hverjum hafi verið veittur aðgangur að sjúkraskrám hans.

Eins og mál þetta er vaxið, taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að nýta sér heimild í 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og leita eftir umsögn hlutaðeigandi stjórnvalds um málið.

Niðurstaða

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál starfar á grundvelli V. kafla upplýsingalaga. Sam-kvæmt 1. mgr. 14. gr. þeirra laga er heimild til þess að kæra ákvörðun stjórnvalds til nefndarinnar bundin því skilyrði að um sé að ræða synjun um að veita aðgang að gögnum eða veita ljósrit eða afrit af gögnum á grundvelli upplýsingalaga. Af því leiðir að nefndin er ekki bær til að fjalla um aðgang að gögnum samkvæmt öðrum lögum.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál, sbr. og 4. mgr. 15. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, mynda færslur um það, hverjum hafi verið veittur aðgangur að sjúkraskrá, hluta af þeim upplýsingum sem færðar eru í hana. Að teknu tilliti til þess, sem að framan greinir, getur úrskurðarnefnd því aðeins leyst úr kærumáli þessu að í upplýsingalögum sé kveðið á um aðgang að sjúkraskrám.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum, sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 1. mgr. 10. gr. þeirra segir að sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, skuli tilgreina þau gögn eða það mál sem hann óskar að kynna sér. Þessi afmörkun hefur það í för með sér að lögin veita ekki rétt til aðgangs að skrám, sem stjórnvöld halda, ef frá eru taldar dagbókarfærslur um gögn máls og listar yfir slík gögn, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. þeirra.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga segir m.a. að lögin taki til hvers konar kerfisbundinnar skráningar á persónuupplýsingum. "Með kerfisbundinni skráningu upplýsinga er átt við söfnun og skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplýsinga í skipulagsbundna heild", eins og orðrétt segir í 2. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 10. gr. sömu laga og 4. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. lög nr. 76/1997, fer um aðgang sjúklings að sjúkraskrá eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga, sbr. 14. og 15. gr. laga nr. 74/1997.

Með vísun til þess, sem að framan greinir, er kveðið á um aðgang að sjúkraskrám í lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og lögum um réttindi sjúklinga. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga gilda þau lög því ekki um aðgang að þeim skrám. Þar með brestur úrskurðarnefnd vald til þess að leysa úr kærumáli þessu og ber af þeim sökum að vísa því frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru […] er vísað frá úrskurðarnefnd.



Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum