Hoppa yfir valmynd

A-117/2001B Úrskurður frá 17. maí 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 17. maí 2001 var tekin fyrir í úrskurðarnefnd um upplýsingamál krafa Byggðastofnunar um að réttaráhrifum úrskurðar, sem kveðinn var upp hinn 7. maí sl. í kærumálinu […] gegn Byggðastofnun, auðkennt nr. A-117/2001, verði frestað á grundvelli 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að því er varðar þau gögn, er stofnuninni var gert skylt að veita kæranda aðgang að.

Samkvæmt nefndum úrskurði var staðfest synjun Byggðastofnunar um aðgang að gögnum stofnunarinnar varðandi lánveitingar hennar til [B] ehf., að öðru leyti en því að stofnuninni var gert skylt að veita kæranda aðgang að eftirtöldum gögnum:
· Skjali auðkenndu nr. 6: Útdráttur úr fundargerð 244. fundar stjórnar Byggðastofnunar sem haldinn var 3. desember 1999.
· Skjali auðkenndu nr. 7 í úrskurðinum: Bréf Byggðastofnunar til [B] ehf., dagsett 17. desember 1999.
· Skjali auðkenndu nr. 9: Bréf Ríkisendurskoðunar til Byggðastofnunar, dagsett 8. febrúar 2000.
· Skjali auðkenndu nr. 11: Bókun forstjóra Byggðastofnunar, dagsett 29. febrúar 2000.
· Skjali auðkenndu nr. 13: Minnisblað forstjóra Byggðastofnunar til stjórnar stofnunarinnar, dagsett 17. mars 2000.
· Skjali auðkenndu nr. 14: Bréf formanns stjórnar Byggðastofnunar til forstjóra stofnunarinnar, dagsett 28. mars 2000.
· Skjali auðkenndu nr. 15: Minnisblað forstjóra Byggðastofnunar til formanns stjórnar stofnunarinnar, dagsett 3. apríl 2000.

Af 18. gr. upplýsingalaga, kröfugerð Byggðastofnunar og eðli máls leiðir að úrlausnarefnið er bundið við þau gögn sem úrskurðað hefur verið að veita skuli aðgang að.

Nefndur úrskurður var sendur kæranda og Byggðastofnun með bréfi, dagsettu hinn 7. maí sl., er póstlagt var þann dag. Með bréfi […] hrl. f.h. Byggðastofnunar, dagsettu 11. maí sl., er barst nefndinni sama dag, var þess krafist að réttaráhrifum hans yrði frestað. Í bréfi hans kom fram að úrskurðurinn hefði borist Byggðastofnun hinn 9. maí sl. Með hliðsjón af birtingarháttu nefndarinnar og 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst úrskurðurinn því birtur stofnuninni þann dag. Með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, ber að telja kröfu Byggðastofnunar fram komna innan þess frests, sem settur er í 18. gr. upplýsingalaga.

Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti hans við meðferð kröfu þessarar.

Kæranda var með símbréfi, dagsettu hinn 14. maí sl., gefinn kostur á að lýsa viðhorfum sínum kröfu Byggðastofnunar. Í bréfi til nefndarinnar, dagsettu sama dag, vísar kærandi til áður fram kominna raka fyrir beiðni sinni í kæru til nefndarinnar, dagsettri 28. mars sl., og krefst þess á þeim grundvelli að kröfu Byggðastofnunar verði hafnað.

Krafa Byggðastofnunar frá 11. maí sl. var ekki rökstudd sérstaklega. Sama á við um ákvörðun hennar um að synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu gögnum, sbr. málsatvikalýsingu í úrskurði nefndarinnar frá 7. maí sl. Með bréfi, dagsettu í dag, hefur […] hrl. f.h. Byggðastofnunar fært fram þau rök fyrir kröfu stofnunarinnar að starfsemi hennar sé í raun tvískipt, þ.e. stjórnvald annars vegar og lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993 hins vegar. Þó stofnunin falli óumdeilanlega undir 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga hvað varðar fyrri þáttinn þá sé það ekki sjálfgefið varðandi síðari þáttinn, þ.e. lánveitingar stofnunarinnar, sem séu á samkeppnisgrunni og ekki af almannafé.
Forsendur og niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga." Ákvæði þetta er m.a. skýrt svo í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga: "Öfugt við stjórnsýslulög er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvers eðlis sú starfsemi er sem stjórnvöld hafa með höndum. Lögin taka því ekki einvörðungu til þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga, heldur og til hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar og annarrar starfsemi." Í samræmi við hið víðtæka gildissvið upplýsingalaga er gert ráð fyrir því í 3. tölul. 6. gr. laganna að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum, þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um "viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra". Í ljósi þessara athugasemda leikur enginn vafi á því að Byggðastofnun fellur undir gildissvið upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd hefur staðfest ákvörðun Byggðastofnunar um að synja kæranda um aðgang að þeim gögnum um lánveitingar til [B] ehf., er teljast varða mikilvæga fjárhagslega hagsmuni fyrirtækisins á grundvelli 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og 5. gr. upplýsingalaga. Jafnframt hefur nefndin staðfest synjun stofnunarinnar um aðgang að tveimur vinnuskjölum, sem rituð hafa verið til eigin nota fyrir stofnunina, á grundvelli 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Hins vegar hefur nefndin talið að veita beri aðgang að þeim gögnum málsins, sem hvorki hafa að geyma upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni eða annars konar viðskiptahagsmuni þess fyrirtækis, er í hlut á.

Að því er varðar síðastgreind gögn segir í úrskurði nefndarinnar að þar sé ekki að finna upplýsingar um mikilvæga fjárhagsmuni einkaaðila, nema að óverulegu leyti. Þar komi á hinn bóginn fram upplýsingar um almannahagsmuni, þ.e. um ráðstöfun á fé Byggðastofnunar í formi lána til [B] ehf. og almenna skilmála fyrir þeim lánum. Með skírskotun til 43. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 123/1993, var ekki talið heimilt að takmarka aðgang að slíkum gögnum, nema 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga ætti við. Það ákvæði er hins vegar einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eiga í samkeppni við aðra aðila. Í ljósi 1. og 2. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, var ekki talið að stofnunin ætti í samkeppni við aðrar lánastofnanir á lánamarkaði.

Í 18. gr. upplýsingalaga segir: "Að kröfu stjórnvalds getur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess." Í athugasemdum við þetta ákvæði frumvarps þess, er varð að upplýsingalögum, segir svo: "Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á."

Úrskurðarnefnd telur að með þessu ákvæði hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik, þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.

Í ljósi þess sem að framan er rakið er það álit úrskurðarnefndar að í máli þessu eigi undantekningar- eða takmörkunarákvæði upplýsingalaga ekki við um þau gögn, sem úrskurðað hefur verið að veita beri aðgang að. Sama á við um þagnarskylduákvæði laga nr. 113/1996, sbr. lög nr. 123/1993, eins og hér háttar til. Að þessu virtu telur nefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns frá 7. maí sl. Ber því að hafna kröfu […] hrl. f.h. Byggðastofnunar.

Úrskurðarorð:

Kröfu […] hrl. f.h. Byggðastofnunar um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar frá 7. maí 2001 þess efnis að skylt sé að veita aðgang að nánar tilteknum gögnum, er varða lánveitingar Byggðstofnunar til [B] ehf., er hafnað.


Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum