Hoppa yfir valmynd

A 279/2008 Úrskurður frá 14. maí 2008

ÚRSKURÐUR

 Hinn 14. maí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-279/2008.

 

Kæruefni

Með erindi sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál 7. nóvember 2007 kærði [...] blaðamaður synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni hans um afhendingu gagna sem útbúin hefðu verið vegna samskipta ráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar varðandi athugun Ríkisendurskoðunar á vatnsleka á varnarsvæðinu í Keflavík.

 

Málsatvik

Atvik málsins eru í stuttu máli eftirfarandi. Kærandi ritaði tölvupóst til utanríkisráðuneytisins 24. október 2007. Þar vísaði hann til þess að í nóvember 2006 hefði ráðuneytið falið Ríkisendurskoðun að gera úttekt á umsýslu ráðuneytisins og stofnana þess og annarra aðila sem komið hefðu að umsjón með byggingum á varnarsvæðinu. Tilefnið hafi verið mikill vatnsleki í íbúðabyggingum þar. Fór kærandi fram á að fá afrit allra gagna sem útbúin hefðu verið vegna þessarar úttektar og farið hefðu á milli ráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar.

 

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kæru málsins sendi kærandi sama dag samskonar beiðni til Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun hafnaði beiðninni með vísan til þess að stofnunin félli ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996, enda teldist hún stofnun Alþingis og því ekki hluti af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga skv. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í ítrekun frá 26. október 2007 á fyrra svari sínu rökstyður Ríkisendurskoðun synjunina nánar með þeim hætti að þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun líti svo á að henni beri að starfa í anda bæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga, eftir því sem atvik leyfi hverju sinni, hafi stofnunin almennt litið svo á að þeir sem vilji fá aðgang að gögnum  hjá stjórnsýslunni, sem hún kunni einnig að hafa undir höndum vegna eftirlitshlutverks síns, eigi að bera slík erindi upp við viðkomandi stjórnsýsluaðila. Auk þess bendir stofnunin á að hún hafi jafnframt talið að vafasamt sé í sjálfu sér að heimila aðgang að gögnum sem aflað hafi verið vegna tiltekinnar athugunar eða rannsóknar sem enn sé ekki lokið. Í svari Ríkisendurskoðunar til kæranda kemur fram að fallist utanríkis­ráðuneytið á afhendingu umbeðinna gagna geri Ríkisendur­skoðun enga athugasemd við það enda líti hún svo á að gögnin séu á forræði ráðuneytisins.

 

Í tilefni af beiðni kæranda óskaði utanríkisráðuneytið eftir því með bréfi, dags. 31. október 2007, að Ríkisendurskoðun veitti umsögn um framkomna upplýsingabeiðni. Í bréfi ráðuneytisins sagði m.a. svo: „Þar sem um er að ræða vinnuskjöl ráðuneytisins sem einvörðungu Ríkisendurskoðun hefur verið veittur aðgangur að í tengslum við framangreinda úttekt, sem er ólokið, óskar ráðuneytið eftir umsögn Ríkisendurskoðunar...“.

 

Svar Ríkisendurskoðunar barst ráðuneytinu samdægurs. Þar vísar stofnunin til þess að um sé að ræða innri endurskoðun á stjórnsýsluathöfnum. Verði ekki séð að það að stofnuninni sé veittur aðgangur að tilteknum vinnuskjölum ráðuneytisins geti leitt til þess að þau teljist við þá athöfn ekki lengur vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Ríkisendurskoðun bendir á að sé mál til meðferðar hjá henni geti afhending vinnuskjala sem snerta það mál haft áhrif á málsmeðferðina, enda geti verið að þau endurspegli ekki lokaályktun stofnunarinnar um viðkomandi mál. Það sé afstaða stofnunarinnar að yrðu upplýsingalög skýrð svo að upplýsingaréttur almennings teldist ná til atvika sem þessara myndu stjórnvöld veigra sér við að biðja Ríkisendurskoðun um úttektir og veita henni aðgang að vinnuskjölum sínum eða undirstofnana sinna. Slíkt væri óæskileg þróun.

 

Utanríkisráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 31. október. Ráðuneytið lét kæranda í té afrit af beiðni ráðuneytisins um stjórnsýsluúttekt, fyrirmælabréf til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, bréf Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, umsagnarbeiðni til Ríkisendurskoðunar og umsögn Ríkisendurskoðanda. Önnur gögn málsins taldi utanríkis­ráðuneytið vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga og því undanþegin upplýsingarétti almennings. Aðgangi að þeim var því hafnað. Í tölvupósti sem ráðuneytið sendi kæranda samdægurs segir ennfremur að þegar niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggi fyrir sé ráðuneytið tilbúið til viðræðna við kæranda um það hvort tilefni sé til að veita honum aðgang að einhverjum nánar tilteknum vinnuskjölum, þrátt fyrir að þau séu sem slík undanþegin upplýsingarétti.

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2007, var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og því gefinn frestur til 16. sama mánaðar til að koma á framfæri frekari rökum fyrir ákvörðun sinni og til að láta nefndinni í té afrit af öllum gögnum málsins. Erindi þetta  var ítrekað með bréfi nefndarinnar, dags. 21. nóvember. Í svari  utanríkisráðuneytisins, dags. 28. sama mánaðar, áréttar ráðuneytið þá afstöðu sína að þau gögn málsins sem ekki hafi verið afhent kæranda séu vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsinglaga. Yfirstandandi athugun Ríkisendurskoðunar á málinu sé innri endurskoðun á stjórnsýsluathöfnum og fái ráðuneytið ekki séð að það eitt, að veita Ríkisendurskoðun aðgang að tilteknum vinnuskjölum ráðuneytisins af því tilefni, leiði til þess að þau teljist ekki lengur vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

 

Með bréfi, dags. 4. desember, barst úrskurðarnefndinni viðbótarathugasemd utanríkisráðuneytisins þar sem ráðuneytið tók fram að það teldi jafnframt að gögn málsins væru  undanþegin aðgangi almennings á grundvelli 1. og 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þar sem þau varði öryggis- og varnarmál og samskipti utanríkisráðuneytisins við  varnarlið Bandaríkjanna.

 

Úrskurðarnefndin veitti kæranda kost á að tjá sig um framangreinda afstöðu ráðuneytisins með bréfum, dags. 3. desember 2007 og 22. janúar 2008. Með tölvubréfum, dags. 24. og 29. janúar, ítrekaði kærandi fyrri kröfur sínar í málinu.

 

Með bréfi, dags. 14. mars 2008, tilkynnti úrskurðarnefndin kæranda að vegna umfangs málsins væri ljóst að meðferð þess gæti dregist enn frekar en orðið væri.

 

Niðurstaða

1.

Kærandi hefur afmarkað beiðni sína um aðgang að gögnum með þeim hætti að hann hefur óskað afrits af öllum þeim gögnum sem útbúin voru vegna samskipta utanríkisráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar varðandi athugun þeirrar stofnunará vatnsleka á varnarsvæðinu í Keflavík. Nánar tiltekið er um að ræða úttekt sem utanríkisráðuneytið óskaði í nóvember 2006 eftir að Ríkisendurskoðun annaðist og varðar vatnsleka í íbúðabyggingum á varnarsvæðinu.

 

Þau gögn sem beiðni kæranda lýtur að eru allmikil að vöxtum. Í fyrsta lagi er um að ræða greinargerð starfshóps sem starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins, sem ber yfirskriftina „Um framkvæmd verkefnis vegna færslu reksturs Keflavíkurflugvallar yfir til íslenskra stjórnvalda samfara brotthvarfi varnarliðs Bandaríkjanna“, dags. 4. desember 2006. Greinargerðinni, sem er sjö blaðsíður fylgja tveir viðaukar og fylgiskjöl í fjórum möppum. Fylgiskjölin eru samtals um 184 talsins; misjafnlega efnismikil. Í öðru lagi er um að ræða þau skjöl sem kæranda hafa þegar verið afhent, sbr. bréf utanríkisráðuneytisins til hans dags. 31. október 2007 og í þriðja lagi fylgdi gögnum þeim er ráðuneytið lét úrskurðarnefndinni í té fimm blaðsíðna samantekt, „Minnisatriði utanríkisráðuneytisins um vatnstjón á Keflavíkurflugvelli í nóvember 2006“, dags. 23. október 2007.

 

Í máli þessu hefur utanríkisráðuneytið byggt á því að þau gögn málsins, sem kærandi hefur ekki þegar fengið aðgang að, skuli undanþegin rétti hans til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga með vísan til 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga annars vegar og 1. og 2. tölul. 6. gr. laganna hins vegar. Ráðuneytið hefur ekki vísað til annarra lagaákvæða eða röksemda til stuðnings þeirrar synjunar á beiðni um aðgang að gögnum sem hér er til umfjöllunar. Með vísan til þessa, sem og með vísan til efnis þeirra gagna sem málið lýtur að, verður hér í fyrsta lagi leyst úr því hvort umrædd gögn teljist vinnuskjöl ráðuneytisins, og þess vegna undanþegin aðgangsrétti almennings á þeim grundvelli. Að því leyti sem þau skjöl sem beiðni kæranda beinist að teljast ekki vinnuskjöl verður jafnframt að leysa úr því hvort þau séu undanþegin rétti almennings til aðgangs að gögnum vegna mikilvægra almannahagsmuna, enda geymi þau upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál, sbr. 1. tölul. 6. gr. laganna, eða um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 6. gr.

 

2.

Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Á þessu er þó sú takmörkun að veita skal aðgang að vinnuskjölum hafi þau að geyma endanlega ákvörðun um afgeiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá. Það leiðir af orðalagi umrædds ákvæðis að til að skjal teljist vinnuskjal verður það að hafa verið ritað af stjórnvaldi til eigin afnota. Með öðrum orðum þarf viðkomandi gagn að hafa verið útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins til eigin afnota þess.

 

Í kjölfar upplýsinga um að varnarlið Bandaríkjahers myndi hverfa úr landi kom utanríkisráðuneytið í byrjun apríl 2006 á fót sérstökum vinnuhópi. Hlutverk hans var að tryggja snurðulausa yfirfærslu á rekstri alþjóðaflugvallarins á Keflavíkurflugvelli samfara brotthvarfi varnarliðsins. Hópurinn var skipaður [A], [B] og [C].

 

Í greinargerð starfshópsins, frá 4. desember 2006, segir að meðlimir vinnuhópsins hafi verið lánaðir til verksins af vinnuveitendum sínum sem séu undirstofnanir ráðuneytisins, en hafi þó áfram verið á launaskrá og í fullu starfi hjá þeim samhliða verkefninu. Boðvald yfir starfshópnum, varðandi yfirfærsluverkefnið, hafi þó einvörðungu verið hjá utanríkisráðuneytinu.

 

Af framangreindu má ráða að utanríkisráðuneytið hefur skipað í umræddan starfshóp einstaklinga sem ekki töldust á þeim tíma starfsmenn ráðuneytisins. Þrátt fyrir að í störfum þeirra hafi falist umsjón ákveðinna verkefna í umboði ráðuneytisins og jafnframt tillögugerð til þess leiðir þetta atriði engu að síður til þess að umrædd greinargerð og gögn sem henni fylgja, þ.m.t. fylgiskjöl greinargerðarinnar, geta ekki talist hafa verið útbúin af viðkomandi stjórnvaldi til eigin afnota. Aðgangi að umræddri greinargerð starfshópsins, dags. 4. desember 2006, tveimur viðaukum sem henni fylgdu og fylgiskjölum í fjórum möppum verður því ekki hafnað með vísan til 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga á þeim grundvelli að um vinnuskjöl sé að ræða.

 

Hvað varðar fimm blaðsíðna samantekt, dags. 23. október 2007, sem ber yfirskriftina „Minnisatriði utanríkisráðuneytisins um vatnstjón á Keflavíkurflugvelli í nóvember 2006“, verður ekki annað séð en að það skjal sé unnið af starfsmönnum ráðuneytisins til eigin afnota. Ekki verður til að mynda séð að  það hafi borist umræddum starfshópi eða stafi frá honum. Í skjalinu eru dregin saman nokkur atriði málsins, fyrst og fremst varðandi meðferð ráðuneytisins á málum sem snerta brotthvarf hersins frá Keflavík á árinu 2006. Við lestur þess verður ekki séð að það geymi upplýsingar um málsatvik sem ráðið hafa niðurstöðu tiltekins máls og ekki koma fyrir í öðrum gögnum sem eru aðgengileg. Ekkert er fram komið um að skjal þetta hafi verið sent út úr ráðuneytinu til annarra aðila en Ríkisendurskoðunar eða nýtt í öðrum tilgangi en að framan greinir.

 

Ríkisendurskoðun starfar á grundvelli laga nr. 86/1997. Hlutverk hennar er að endurskoða  ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa  með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum  ríkisins, sbr. 43. gr. stjórnarskrárinnar. Þá getur hún, sbr. 1. og 9. gr. laganna, annast stjórnsýsluendurskoðun og hefur að auki eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Samkvæmt 10. gr. laganna hefur stofnunin í störfum sínum ríkan rétt til aðgangs að öllum gögnum sem máli skipta, þar á meðal fylgiskjölum, skýrslum, bókum og bréfum. Í máli þessu reynir ekki á rétt til aðgangs að gögnum hjá Ríkisendurskoðun, en synjun hennar á að afhenda umbeðin gögn var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. Í lögum um þá stofnun er heldur ekki að finna sérstök lagaákvæði sem mæla fyrir um áhrif þess gagnvart upplýsingalögum ef gögn hafa verið afhent úr gagnasöfnum stjórnvalda til þeirrar stofnunar. Eins og áður hefur verið bent á felst í orðalagi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga skilyrði um að til að skjal teljist vinnuskjal skuli það hafa verið ritað til eigin afnota stjórnvalds. Sé gagn, eða afrit þess, sent öðru stjórnvaldi eða einkaaðila getur það almennt ekki lengur fallið undir þetta skilyrði, og skiptir þá ekki máli þótt skjal hafi í upphafi talist vinnuskjal. Úrskurðarnefndin telur þó að hér undir falli ekki þau tilvik þegar gögn eru afhent Ríkisendurskoðun á grundvelli eftirlitshlutverks hennar samkvæmt lögum nr. 86/1997. Verður ekki séð, þótt skjal sé afhent aðila eins og Ríkisendurskoðun á grundvelli eftirlitshlutverks hennar og lögbundins réttar til að krefjast aðgangs að gögnum í því sambandi, að það breyti því eðli skjalsins að það teljist ritað til eigin afnota stjórnvaldsins. Umrædd samantekt, dags. 23. október 2007, telst því vinnuskjal utanríkisráðuneytisins í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga og bar ráðuneytinu ekki skylda til að veita aðgang að því á grundvelli upplýsingalaga.

 

3.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu verður í máli þessu að taka afstöðu til þess hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að áður nefndri greinargerð starfshóps, dags. 4. desember 2006, viðaukum sem henni fylgdu og fylgiskjölum í fjórum möppum, á grundvelli 1. eða 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Ekki þarf á hinn bóginn að taka á sama hátt afstöðu til synjunar utanríkisráðuneytisins á aðgangi að áður nefndri fimm blaðsíðna samantekt, dags. 23. október 2007, með yfirskriftinni „Minnisatriði utanríkisráðuneytisins um vatnstjón á Keflavíkurflugvelli í nóvember 2006“, enda var þegar á grundvelli 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga heimilt að hafna aðgangi að henni.

 

Af 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga leiðir að heimilt er að „takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um: ... öryggi ríkisins eða varnarmál“. Í athugasemdum með þessu ákvæði í frumvarpi sem síðan var samþykkt sem upplýsingalög segir að við túlkun á ákvæðinu „verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingarmikla hagsmuni. Ef upplýsingar, þeim tengdar, berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt.“ Af 2. tölul. 6. gr. leiðir að heimilt er að „takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um: ...samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir“. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir að ákvæðið eigi við um samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða annars konar toga. Hagsmunir þeir sem ákvæðinu er ætlað að tryggja eru tvenns konar. Annars vegar að koma í veg fyrir að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu Íslendinga. Hins vegar að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.

 

Þau gögn sem hér þarf að taka afstöðu til eru eftirtalin, sbr. það sem áður hefur fram komið: (1) Greinargerð starfshóps um framkvæmd verkefnis vegna færslu reksturs Keflavíkurflugvallar yfir til íslenskra stjórnvalda samfara brotthvarfi varnarliðs Bandaríkjanna, dags. 4. desember 2006, (2) tveir viðaukar greinargerðarinnar; Viðauki I og Viðauki II, og (3) fylgiskjöl greinargerðarinnar í fjórum möppum, auðkenndum A, B, C og D.

 

Hvað greinargerðina sjálfa varðar þá felur hún í sér fremur almenna lýsingu á verkefnum vinnuhópsins og framgangi á verkefnum hans. Ekki verður séð að í henni sé neinar þær upplýsingar að finna sem áhrif hafi á öryggi ríkisins eða varnarmál þess, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Hið sama er að segja um þá tvo viðauka sem henni fylgja. Aðgangi að greinargerðinni og viðaukum með henni verður því ekki synjað á grundvelli þess lagaákvæðis.

 

Í greinargerðinni er vikið að samskiptum starfshópsins og varnarliðsins og samningaviðræðum þessara aðila um viðskilnað varnarsvæðisins og um þann búnað sem skilinn verður eftir á svæðinu. Þær upplýsingar varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Íslenska ríkið hefur af því mikla hagsmuni að tryggð séu samskipti af þessu tagi og því verður almennt að veita stjórnvöldum allrúmar heimildir til að undanskilja aðgangsrétti gögn sem geyma upplýsingar um slík samskipti. Verður engu að síður að hafa í huga að umrætt ákvæði gerir samkvæmt orðlagi sínu ráð fyrir að hverju sinni skuli metið hvort takmörkun á upplýsingarétti skv. 2. tölul. 6. gr. verði réttlætt með vísan til mikilvægra almannahagsmuna. Verður ekki séð að upplýsingar sem fram koma í umræddri greinargerð um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir séu til þess fallnar að skerða hagsmuni íslenska ríkisins. Styður það þessa niðurstöðu að nú er allnokkuð um liðið síðan umrædd greinargerð var samin. Aðgangi kæranda að greinargerðinni verður því ekki synjað á grundvelli 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaganna.

 

Í viðauka II með greinargerðinni, er að finna yfirlit yfir atburði í tímaröð. Þar á meðal eru tilgreindir fundir starfshópsins með fulltrúum varnarliðsins. Upplýsingar um þá fundi lúta eðli máls samkvæmt að samskiptum við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Með hliðsjón af því hversu knappar umræddar upplýsingar eru verður á hinn bóginn ekki séð að takmörkun á aðgangi að yfirlitinu verði réttlætt með vísan til mikilvægra almannahagsmuna, sbr. orðalag 6. gr. upplýsingalaga. Ekkert kemur heldur fram í viðauka I sem fallið getur undir ákvæði 2. tölul. 6. gr. Verður því ekki heldur séð að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að umræddum tveimur viðaukum á grundvelli 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

 

Fylgiskjöl umræddrar greinargerðar eru um það bil 184 talsins, eins og áður hefur fram komið. Hafa þau verið flokkuð í fjórar möppur, með eftirfarandi hætti:

 

Mappa A: Skjöl frá 15. mars til 30. september 2006, auðkennd A001 til A051.

Mappa B: Skjöl frá 1. október 2006, auðkennd frá B001 til B047.

Mappa C: Fundargerðir og skýrslur, auðkennd frá C001 til C037.

Mappa C: Ýmis skjöl er málið varðar, auðkennd frá D001 til D049.

 

Öllum möppunum fylgir yfirlit yfir viðkomandi skjöl. Með vísan til 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að réttur til aðgangs að gögnum nái til: „dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn“ verður að telja að kærandi eigi rétt til aðgangs að umræddum yfirlitum. Verður enda ekki séð að í þeim komi fram upplýsingar sem heimilt er að synja um aðgang að á grundvelli 1. eða 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaganna.

 

Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið ítarlega þau fylgiskjöl sem er að finna í umræddum möppum. Í fyrsta lagi yfirfór nefndin gögnin m.t.t. þess hvort í þeim kæmu fram upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál þannig að heimilt væri að takmarka aðgang að þeim á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Meðal annars skoðaði nefndin vel ýmsa lista sem er að finna í gögnunum yfir búnað og byggingar á varnarsvæðinu. Niðurstaða þessarar skoðunar er sú að ekkert þeirra fylgiskjala sem um er að ræða geymi upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál sem felldar verða undir 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í öðru lagi yfirfór nefndin gögnin m.t.t. þess hvort í þeim kæmu fram upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir í skilningi 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Eins og áður sagði má almennt telja að íslenska ríkið hafi af því mikla hagsmuni að tryggð séu samskipti af þessu tagi. Verða stjórnvöld því að hafa allrúmar heimildir til að takmarka aðgang almennings að þeim. Á hinn bóginn verður ekki séð að þær upplýsingar sem fram  koma  í umræddum fylgiskjölum séu þess eðlis að aðgangur að þeim verði takmarkaður á þessum grundvelli. 

 

4.

Utanríkisráðuneytinu var skv. framangreindu ekki heimilt að synja beiðni kæranda um aðgang að umræddum gögnum, þ.e. (1) greinargerð starfshóps um framkvæmd verkefnis vegna færslu reksturs Keflavíkurflugvallar yfir til íslenskra stjórnvalda samfara brotthvarfi varnarliðs Bandaríkjanna, dags. 4. desember 2006, (2) tveimur viðaukum greinargerðarinnar; Viðauka I og Viðauka II, og (3) fylgiskjölum greinargerðarinnar í fjórum möppum, auðkenndum A, B, C og D. Ráðuneytinu var á hinn bóginn heimilt að synja kæranda um aðgang að fimm blaðsíðna samantekt, dags. 23. október 2007, með yfirskriftina „Minnisatriði utanríkisráðuneytisins um vatnstjón á Keflavíkurflugvelli í nóvember 2006“.

 

Úrskurðarorð

Utanríkisráðuneytinu ber að veita kæranda, [...], aðgang að eftirtöldum gögnum: (1) Greinargerð starfshóps um framkvæmd verkefnis vegna færslu reksturs Keflavíkurflugvallar yfir til íslenskra stjórnvalda samfara brotthvarfi varnarliðs Bandaríkjanna, dags. 4. desember 2006. (2) Tveimur viðaukum greinargerðarinnar, þ.e. viðauka I og viðauka II. (3) Fylgiskjölum greinargerðarinnar í fjórum möppum, auðkenndum A, B, C og D. (4) Yfirlitum yfir fylgiskjölin sem er að finna fremst í hverri af nefndum möppum, A, B, C og D.

 

Staðfest er synjun utanríkisráðuneytisins á afhendingu á fimm blaðsíðna samantekt, dags. 23. október 2007, með yfirskriftina „Minnisatriði utanríkisráðuneytisins um vatnstjón á Keflavíkurflugvelli í nóvember 2006“.

 

Friðgeir Björnsson

formaður

  

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                        Trausti Fannar Valsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum