Hoppa yfir valmynd

A 281/2008 Úrskurður frá 29. júlí 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 29. júlí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-281/2008.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 17. október 2007, kærði [...], synjun Vinnueftirlits ríkisins á beiðni hans um afhendingu gagna varðandi stórslysavarnir og umfjöllun um bruna í ammoníakskúlu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi á páskadag 1990 og gagna sem tengjast sprengingu árið 2001 í ammoníakshúsi verksmiðjunnar.

 

Af erindi kæranda til Vinnueftirlits ríkisins, dags. 15. mars 2007, þar sem óskað var aðgangs að umræddum gögnum, sem og synjun stofnunarinnar á beiðni hans, verður ráðið að kæran beinist að synjun Vinnueftirlits ríkisins á að láta kæranda í té eftirtalin gögn:

 

(1)   Hættugreiningar á Áburðarverksmiðju ríkisins með HAZOP aðferð, unnar á árunum 1989 og 1990. Nánar tiltekið mun hér vera um að ræða „HAZOP STUDY of the Á.R. nitric Acid, ammonia, hydrogen and nitrogen production facilities“, skýrsla gerð af fyrirtækinu [A], dags. 4. júní 1990.

(2)   Áhættugreining á Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi unnin 1990. Nánar tiltekið mun hér vera um að ræða „Risk analysis of the state fertilizer plant in Iceland, skýrsla gerð af [A], dags. 5. okt. 1990.

(3)   Skýrsla [B] áhættufræðings / efnaverkfræðings um rannsókn á bruna í verksmiðjunni á páskadag 1990 unnin á Vinnueftirliti ríkisins á vordögum 1991.

(4)   Hættumat vegna Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi frá árinu 2000. Nánar tiltekið mun hér vera um að ræða „Áburðarverksmiðjan hf., hættumat vegna ammoníaks“, skýrsla gerð af [C] í júní 2000.

 

Með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 14. júlí 2008, afmarkaði kærandi kæruefni sitt nánar með þeim hætti að hann færi fram á aðgang að hættugreiningum á Áburðarverksmiðju ríkisins, unnum á árunum 1989 og 1990, áhættugreiningu á verksmiðjunni frá 1990 og hættumati frá árinu 2000 (Sjá liði 1, 2 og 4 að framan). Af erindinu leiðir jafnframt að kærandi telur sig ekki þurfa aðgang að teikningum sem fylgi hættugreiningum sem unnar voru á árunum 1989 og 1990.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 15. mars 2007, fór kærandi fram á það við Vinnueftirlit ríkisins að fá afhent tímabundið afrit af þeim gögnum sem greind eru í liðum (1), (2), (3) og (4) hér að framan. Svar Vinnueftirlitsins, þar sem beiðni kæranda var synjað, barst kæranda með bréfi, dags. 21. september 2007. Segir þar m.a. svo:

 

„Stofnunin hefur skoða þau gögn sem þér óskið eftir og er í þeim gögnum að finna framleiðsluleyndarmál og viðskiptaleyndarmál. Einnig er að finna nákvæma lýsingu á framleiðsluferli áburðar, en eins og vitað er þá er hægt að nota slíkar upplýsingar við sprengjugerð. Með vísan til þeirrar meginreglu að eftirlitsstofnun lætur aldrei í té þriðja manni gögn sem stofnunin hefur aflað sér við lögbundið eftirlit með eftirlitsskyldum aðila og með vísan til þess að í þeim gögnum sem þér óskið eftir, er að finna viðkvæm framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál auk þess sem opinber birting á nákvæmu framleiðsluferli áburðar er til þess fallið að ógna öryggi almennings og ríkisins þá er ósk þinni hafnað með vísan til 5. og 6. gr. upplýsingalaga.“

 

Framangreinda synjun kærði kærandi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 17. október 2007.

 

Með bréfi, dags. 5. nóvember, var kæran kynnt Vinnueftirliti ríkisins, og stofnuninni gefinn frestur til 14. sama mánaðar til að koma á framfæri frekari rökum fyrir ákvörðun sinni og láta úrskurðarnefndinni í té afrit af gögnum málsins.  Svar Vinnueftirlitsins barst nefndinni með bréfi, dags. 16. nóvember. Kemur þar fram að stofnunin telji sig hafa afmarkað beiðni kæranda um upplýsingar við eftirfarandi gögn:

 

„1. Hazop Study of the Á.R. nitric Acid, ammonia, hydrogen and nitrogen production facilities. Skýrsla gerð af [A] þann 4. júní 1990.

2. Risk analysis of the state fertilizer plant in Iceland, skýrsla gerð af [A] þann 5. okt. 1990.

4. Áburðarverksmiðjan hf., hættumat vegna ammoníaks, skýrsla gerð af [C] í júní 2000.“

 

Í bréfinu er síðan vísað til liðar nr. 3 í upplýsingabeiðni kæranda til Vinnueftirlitsins, þ.e. til beiðnar hans um aðgang að „Skýrslu [B] áhættufræðings/ efnaverkfræðings um rannsókn á bruna í verksmiðjunni á páskadag 1990 unnin á Vinnueftirlitinu á vordögum 1991“ og rakin sú niðurstaða Vinnueftirlits ríkisins að stofnunin hafi umrædda skýrslu ekki undir höndum. Að öðru leyti lýsir Vinnueftirlit ríkisins þeirri afstöðu að framangreind gögn, sem hafi fundist í skjalasafni stofnunarinnar, beri að undanþiggja upplýsingarétti á grundvelli 5. og 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í bréfinu segir m.a. svo:

 

„Þau gögn sem Vinnueftirlitið hefur undir höndum eru það nákvæm að líkja mætti hluta þeirra við forskrift fyrir gerð Áburðarverksmiðju líkt og þeirri sem þá var á Gufunesi. Þau gögn sem upplýsingarbeiðandi fer fram á að fá í hendurnar eru því að mati Vinnueftirlitsins viðkvæm viðskipta- og iðnaðarleyndarmál sem komu í vörslur stofnunarinnar í kjölfar lögbundins eftirlits. Þó að verksmiðjan sé hætt störfum þá er það meginregla í störfum eftirlitsstofnana að láta ekki af hendi slík gögn til þess að almennt traust ríki í milli eftirlitsaðila og þess sem eftirlitið beinist að, sbr. t.d. 83. gr. laga nr. 46/1980. Þó hinn eftirlitsskyldi aðili hætti störfum þá geta þær upplýsingar sem aflað hefur verið, ennþá verið viðkvæm viðskipta- og iðnaðarleyndarmál fyrir þann sem upplýsingarnar tilheyra og ættu því að falla utan upplýsingaréttar.“ Í bréfinu segir enn fremur svo: „Verksmiðjan framleiddi m.a. ammoníumnítrat og koma fram í þeim gögnum sem óskað er aðgangs að ýtarlegar leiðbeiningar um notkun, gerð og meðhöndlun slíks efnis. Ammoníumnítrat er hættulegt sprengiefni líkt og útlistað er með fylgigögnum með þessu erindi. Þar sem Áburðarverksmiðjan framleiddi sprengiefni verður að álykta sem svo að hún sé í eðli sínu sprengiefnaverksmiðja þó að framleiðsluvaran hafi verið áburður. Af því leiðir að öll þau gögn sem að ofan greinir ættu að vera utan upplýsingaréttar, sbr. 2. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.“

 

Með bréfi Vinnueftirlitsins fylgdi afrit af minnisblaði efnaverkfræðings stofnunarinnar þar sem segir svo: „Gögn í vörslu Vinnueftirlitsins um ÁR innihalda smáatriðaríkar iðnaðarupplýsingar og leiðbeiningar, samansafnaðar á einn stað á bæði íslensku og ensku, um ammóníumnítrat: - Framleiðslutengdar upplýsingar, ferlalýsingar og tækjaskilgreiningar. – Upplýsingar um hegðun, eiginleika og meðhöndlun: Meðal annars við hvaða aðstæður verða sprengingar af völdum efnisins.“

 

Gögn málsins fylgdu ekki bréfi Vinnueftirlits ríkisins. Þau bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál 8. febrúar 2008.

 

Úrskurðarnefndin veitti kæranda kost á að tjá sig um svar stofnunarinnar með bréfi, dags. 20. nóvember 2007. Svar kæranda barst nefndinni með bréfi, dags. 30. sama mánaðar. Er þar m.a. lýst ítarlega efni þeirrar skýrslu [B] sem fram kemur í bréfi Vinnueftirlitsins að ekki hafi fundist í skjalasafni stofnunarinnar. Eins og fram er komið hefur kærandi afmarkað kæru sína með þeim hætti að í máli þessu reynir ekki á aðgang hans að umræddri skýrslu. Kærandi hefur lagt fram önnur gögn og skýringar með bréfum og tölvupóstum til úrskurðarnefndarinnar á síðari stigum málsins, síðast með erindi 14. júlí 2008 eins og áður er rakið.

 

Í bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 25. maí 2008, frá [D], sem er núverandi eigandi Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, kemur fram að af hálfu þess fyrirtækis sé ekkert því til fyrirstöðu að kæranda verði afhent eintak af gögnum sem hann hafi óskað aðgangs að og varða starfsemi verksmiðjunnar.

 

Með bréfi, dags. 17. júlí 2008, leitaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir áliti [E], prófessors í efnafræði við Háskóla Íslands, á því hvort tilteknir þættir úr skýrslu frá árinu 2000 um hættumat vegna ammoníaks í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi geymdu „upplýsingar sem hægt væri að nýta við framleiðslu sprengiefnis“. Óskaði nefndin þess að prófessorinn léti í ljós álit sitt á því hvort upplýsingar sem fram komu í köflum III.3 og VII úr skýrslunni einar og sér dygðu til slíkrar framleiðslu, og ef svo væri hvort sambærilegar upplýsingar væru hugsanlega þegar aðgengilegar, s.s. í kennslubókum eða á Internetinu. Í áliti prófessorsins, dags. 21. júlí 2008, kemur fram að í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi hafi verið framleitt ammoníumnítrat og almenn lýsing er gefin á framleiðsluaðferðinni. Hvað varði möguleg einkaleyfi eða því um líkar upplýsingar verði ekki „séð að umrædd gögn í skýrslu VGK innihaldi neinar þær upplýsingar sem, vegna einkaleyfa eða með öðrum vernduðum hætti, mættu ekki vera gerðar aðgengilegar þeim, sem telja þær þjóna hagsmunum sínum.“ Í álitinu kemur einnig fram að ammoníumnítrat, sem sé ákjósanlegt efni sem köfnunarefnisáburður fyrir plöntur, geti verið sprengifimt sé það blandað ýmsum aðgengilegum efnum. Það er hins vegar mat prófessorsins að engar líkur séu á að aðilar, sem hefðu hryðjuverk eða aðra ólögmæta starfsemi í huga, gætu komið upp búnaði til framleiðslu ammoníumnítrats á þann hátt sem gert er í áburðariðnaðinum eða starfrækt hann án þess að eftir yrði tekið. Upplýsingar í umræddri skýrslu myndu heldur ekki koma að neinum notum í því sambandi. Í álitinu dregur prófessorinn einnig fram þá staðreynd að hreint ammoníumnítrat innihaldi 35% köfnunarefni, en hér á landi séu seldar áburðartegundir sem innihaldi 27% köfnunarefni.

 

Niðurstaða

1.

Eins og kærandi hefur afmarkað kæruefni sitt fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál ber í úrskurði þessum  að taka afstöðu til synjunar Vinnueftirlits ríkisins á að veita honum aðgang að eftirtöldum gögnum:

 

(1)   „HAZOP STUDY of the Á.R. nitric Acid, ammonia, hydrogen and nitrogen production facilities“, skýrsla gerð af fyrirtækinu [A], dags. 4. júní 1990, þó að undanskildum teikningum sem hættugreiningunni fylgja.

(2)   „Risk analysis of the state fertilizer plant in Iceland, skýrsla gerð af [A], dags. 5. okt. 1990.

(3)   „Áburðarverksmiðjan hf., hættumat vegna ammoníaks“, skýrsla gerð af [C]. í júní 2000.

 

Í fyrstnefnda gagninu, þ.e. skýrslu dags. 4. júní 1990, er á átta handskrifuðum síðum að finna almenna umfjöllun á ensku um Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi fyrst og fremst með hliðsjón af þeim áhættuþáttum sem skýrsluhöfundar telja fyrir hendi. Tveir viðaukar fylgja skýrslunni. Í fyrri viðaukanum er að finna töflur sem innihalda tillögur skýrsluhöfunda um tilteknar aðgerðir. Í síðari viðaukanum er að finna teikningar af ýmsum hlutum verksmiðjunnar. Með hliðsjón af því hvernig kærandi hefur afmarkað kæru sína fyrir úrskurðarnefndinni liggur fyrir að umræddur viðauki fellur utan þeirra gagna sem kærandi hefur óskað aðgangs að.

 

Gagn númer tvö, þ.e. skýrsla dags. 5. október 1990, er í 12 köflum og níu viðaukum. Í henni er að finna almenna lýsingu á Áburðarverksmiðjunni, umhverfi hennar, veðurfari og fleiri þáttum. Þá er þar lýst þeirri aðferðafræði og forsendum sem byggt er á við mat á hættum sem stafað geta af framleiðslu í verksmiðjunni. Í skýrslunni koma ekki fram ítarlegar lýsingar á framleiðslu sem fram fór í verksmiðjunni.

 

Gagn númer þrjú, skýrsla frá júní 2000, samanstendur af 12 köflum, sem hver um sig skiptist í undirkafla. Í I. kafla koma fram almennar upplýsingar um hættumat og mat á áhættu af slysum við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Ekkert í þeim kafla felur þó í sér sérgreinda lýsingu á verksmiðjunni í Gufunesi eða þeirri framleiðslu er þar fór fram. Hið sama er að segja um kafla II, þar sem fyrst og fremst er að finna upplýsingar um ammoníak og hegðun þess. Í kafla IV er lýsing á stefnu Áburðarverksmiðjunnar í stórslysavörnum. Aðrir kaflar sem þar koma á eftir hafa að geyma lýsingu á svæðinu sjálfu, neyðaráætlunum, öryggisreglum, öryggisleiðbeiningum, gátlistum fyrir löndun ammoníaks og verklagsreglur og vinnulýsingar. Ekkert í þessum köflum felur í sér ítarlega lýsingu á þeirri framleiðslu sem fram fór í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.

 

Í kafla III og kafla VII í umræddri skýrslu er að finna „Upplýsingar um starfsstöðina“ annars vegar, sbr. kafli III, og flæðirit fyrir framleiðslu og aðra ferla í verksmiðjunni, sbr. kafli VII. Í þessum köflum kemur fram lýsing á framleiðsluferlum innan Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Með vísan til þeirrar áður greindu afstöðu Vinnueftirlits Ríkisins, að þau gögn sem kærandi hafi óskað aðgangs að séu það viðkvæm að líkja megi hluta þeirra við forskrift fyrir gerð áburðarverksmiðju, líkt og þeirri sem starfrækt var á Gufunesi, og að í umræddum gögnum sé að finna ýtarlegar leiðbeiningar um notkun, gerð og meðhöndlun ammoníumnítrats, sem sé hættulegt sprengiefni, leitaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir áliti [E], prófessors í efnafræði við Háskóla Íslands, á því hvort þær upplýsingar sem þar koma fram væru þess eðlis að sem hægt væri að nýta við framleiðslu sprengiefnis. Nánar tiltekið óskaði nefndin eftir því að prófessorinn léti í ljós álit sitt á því hvort þær upplýsingar sem um ræðir dygðu einar og sér til slíkrar framleiðslu, og ef svo væri hvort sambærilegar upplýsingar væru hugsanlega þegar aðgengilegar, s.s. í kennslubókum eða á Internetinu. Rökstudd niðurstaða prófessorsins er sú að upplýsingar úr köflum III.3 og VII úr umræddri skýrslu myndu ekki koma að notum við framleiðslu á ammoníumnítrati.

 

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir orðrétt svo: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“

 

Synjunin í hinni kærðu ákvörðun er byggð á 5. og 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá hefur Vinnueftirlit ríkisins einnig vísað til 83. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í fyrstnefnda ákvæðinu, þ.e. 5. gr. upplýsinglaga, segir svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

 

Í máli þessu reynir ekki á aðgang að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Verður því að leggja á það mat hvort í gögnum málsins komi fram upplýsingar sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila. Í athugasemdum sem fylgdu tilvitnuðu ákvæði í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum segir meðal annars að óheimilt sé að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.

 

Að áliti úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekkert í gögnum málsins þess eðlis að það sé til þess fallið að skaða viðskiptahagsmuni Áburðarverksmiðju ríkisins, fyrrverandi eigenda fyrirtækisins eða eftir atvikum núverandi eigendur þess. Þá eru þær upplýsingar sem í gögnunum koma fram of almennar til þess að þær geti talist fela í sér atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál. Aðgangi að þeim gögnum sem um ræðir verður því ekki hafnað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga.

 

Í 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 18. gr. laga nr. 23/2006, segir að heimilt sé að takmakar aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um:

 

  1. öryggi ríkisins eða varnarmál;
  2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir;
  3. viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra;
  4. fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangi væru þau á almannavitorði;
  5. umhverfismál, enda geti birting þeirra haft alvarleg áhrif á vernd þess hluta umhverfisins sem slíkar upplýsingar varða, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera, steinda, steingervinga og bergmyndana.

 

Með vísan til eðlis þeirra gagna sem óskað hefur verið aðgangs að í máli þessu verður aðgangur að þeim vart takmarkaður með vísan til annars en 1. tölul. tilvitnaðs ákvæðis. Ber í því sambandi einnig að hafa í huga að af hálfu Vinnueftirlits ríkisins hefur verið vísað til þess að umrædd gögn ættu að vera utan upplýsingaréttar þar sem í þeim sé að finna ýtarlegar leiðbeiningar um notkun, gerð og meðhöndlum ammoníumnítrats, sem sé hættulegt sprengiefni.

 

Eins og lýst hefur verið hér að framan bera gögn málsins ekki með sér upplýsingar eða leiðbeiningar um notkun og gerð þeirra efna sem framleidd voru í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, að undanskildum köflum III.3 og VII í skýrslunni: „Áburðarverksmiðjan hf., hættumat vegna ammoníaks“, gerð af [C] í júní 2000. Samkvæmt rökstuddu áliti prófessors í efnafræði sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál leitaði til er ekki grundvöllur fyrir því að halda köflum III.3 og VII úr umræddri skýrslu utan upplýsingaréttar með vísan til þess að þar komi fram upplýsingar sem einar og sér verði notaðar við sprengiefnaframleiðslu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið álit prófessorsins með ítarlegum hætti. Er það afstaða hennar að ekki sé ástæða til að takmarka aðgang kæranda að umræddum upplýsingum á grundvelli almannahagsmuna, sbr. ákvæði 6. gr. upplýsingalaga. Verður að telja nær útilokað að þær upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins verði nýttar við framleiðslu sprengiefna. Þá verður einnig að hafa í huga að ammoníumnítrat, eða efnablöndur sem innihalda ammoníumnítrat í allverulegum mæli, eru aðgengilegar á íslenskum markaði með tiltölulega einföldum hætti.

 

Með hliðsjón af þessu verður aðgangi að gögnum málsins ekki synjað á grundvelli 6. gr. upplýsingalaga, með síðari breytingum.

 

Í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 segir svo: „Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins mega ekki nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga um starfsemina en þeirra, sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Eigi mega þeir heldur láta öðrum í té upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila, ef þeir hafa fengið vitneskjuna vegna eftirlits síns og ástæða er til að ætla, að henni skuli haldið leyndri.

 

Umrætt ákvæði felur í sér þagnarskyldureglu vegna vitneskju um starfsemi fyrirtækis, starfsmenn eða aðra aðila sem starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins hafa fengið vegna eftirlits síns og ástæða er til að ætla að haldið skuli leyndri. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 takmarka almenn ákvæði laga um þagnarskyldu ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt þeim lögum. Með vísan til þess að í tilvitnuðu ákvæði laga nr. 46/1980 eru ekki tilgreindar sérstaklega þær upplýsingar sem gæta ber þagnarskyldu um samkvæmt ákvæðinu verður að telja að það feli í sér almenna þagnarskyldureglu í skilningi 2. gr. upplýsingalaga. Aðgangi að þeim gögnum sem um ræðir í máli þessu verður því ekki hafnað á grundvelli 83. gr. laga nr. 46/1980.

 

Vegna þeirra sérfræðilegu upplýsinga og samantekta sem fram koma í þeim skýrslum sem beiðni kæranda lýtur að, og varða m.a. lýsingu á ýmsum aðstæðum við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi og slysum í efnaverksmiðjum víða um heiminn skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. a í höfundalögum nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, telst heimilt að veita aðgang að skjölum eða öðrum gögnum mála samkvæmt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum með því að afhenda ljósrit eða afrit af þeim þótt þau hafi að geyma verk er njóta verndar samkvæmt höfundalögunum. Af 2. mgr. sama ákvæðis leiðir hins vegar að upplýsingaréttur skv. 1. mgr. er þó háður því skilyrði að verkin verði ekki birt, eintök af þeim gerð, eintökum af þeim dreift eða þau nýtt með öðrum hætti nema með samþykki höfundar.

 

Úrskurðarorð

Vinnueftirliti ríkisins ber að láta kæranda, [B], í té eftirtalin gögn: (1) „Hazop Study of the Á.R. nitric Acid, ammonia, hydrogen and nitrogen production facilities.“ Skýrsla gerð af [A], dags. 4. júní 1990, að undanskildum teikningum sem er að finna í viðauka II („Appendix II“). (2) „Risk analysis of the state fertilizer plant in Iceland.“ Skýrsla gerð af [A], dags. 5. okt. 1990. (3) „Áburðarverksmiðjan hf., hættumat vegna ammoníaks.“ Skýrsla gerð af [C] frá júní 2000.“

 

 

Friðgeir Björnsson

formaður

 

  

 

                         Sigurveig Jónsdóttir                                                                             Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum