Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2023 Brussel-vaktin

Endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka

Að þessu sinni er fjallað um:

  • endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka
  • samþykkt Evrópuþingsins á breytingum á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug
  • löggjafartillögur um hálfleiðara
  • breytingar á tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa
  • uppbyggingu innviða fyrir endurnýjanlega orkugjafa
  • aðgerðir til að draga úr kolefnislosun í sjóflutningum
  • aukið gagnsæi og minni reglubyrði með aukinni notkun rafrænna lausna í stjórnsýslu á sviði félagaréttar
  • samræmdar kröfur um akstur vinnuvéla á vegum
  • tilmæli um eflingu menntunar og þjálfunar á sviði stafrænnar færni
  • býflugnavænan landbúnað
  • nýja stefnumörkun um dróna
  • útboð á uppbyggingu öryggisfjarskipta um gervihnetti

 

Lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka endurskoðað

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram nýjar tillögur að lagabreytingum sem ætlað er að styrkja lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka með áherslu á meðalstórar og minni bankastofnanir. Um er að ræða breytingar á tveimur tilskipunum og einni reglugerð, sem varða banka í greiðsluvanda (e. Crisis Management) og innstæðutryggingakerfi þeirra (e. Deposit Guarantee Schemes - DGS). Enda þótt fjármálakerfi ESB sé talið hafi styrkst verulega á síðustu árum, meðal annars með auknu eftirliti, bættri eiginfjárstöðu og greiðsluhæfi viðskiptabanka almennt, eru framangreindar breytingar taldar nauðsynlegar til að styðja við sameiginlegan bankamarkað innan ESB (e. Banking Union). Reynslan hefur sýnt að það eru ekki hvað síst meðalstórir og minni bankar, sem hafa verið að lenda í vandræðum (þó frá því séu undantekningar eins og tilvik Credit Suisse sýnir)

Með þeim tillögum sem nú hafa verið kynntar er lagt til að yfirvöldum á sviði fjármála verði veittar valdheimildir til að skipuleggja brotthvarf fallandi fjármálafyrirtækja af markaði eftir ýmsum leiðum óháð stærð þeirra og viðskiptamódeli, ef nauðsyn krefur. Sérstaklega er horft til þess að til staðar sé fjármagnað öryggisnet til að vernda innstæðueigendur þegar fjármálastofnun lendir í vandræðum eða eftir atvikum örugg leið til að flytja innstæður frá löskuðum banka yfir í “heilbrigða” bankastofnun. Þessar öryggisaðgerðir koma þó eingöngu til þegar ljóst er að innri fjárhagsgeta hins laskaða banka reynist ekki næg til að mæta fjárhagslegu tapi og eða ef banki hefur verið lýstur ógjaldfær.

Hámarksfjárhæð innstæðutryggingaverndar er haldið óbreyttri, eða 100.000 evrur á hvern innstæðueiganda og banka. Tillögurnar gera hins vegar ráð fyrir aukinni  samræmingu á tryggingaverndinni innan ESB frá því sem verið hefur, m.a. með því að fleiri aðilar eru felldir undir tryggingaverndina. Opinberir aðilar, eins og sjúkrahús, skólar og sveitarfélög, munu njóta verndar verði tillögurnar lögfestar óbreyttar, og sömuleiðis fjárfestingafyrirtæki, ýmsar greiðslustofnanir og rafmyntasjóðir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Jafnframt er lagt til að um geti verið að ræða vernd sem nemi hærri fjárhæð en 100.000 evrum að hámarki í tilviki skyndilegrar eða óvæntrar hækkunar á innstæðu eins og þegar greiddur er út arfur eða tryggingabætur.

Í stuttu máli er ofangreindum tillögum ætlað að viðhalda jafnvægi á fjármálamarkaði, vernda skattgreiðendur og innstæðueigendur, auk þess að styðja við hagkerfi ESB ríkjanna og samkeppnistöðu þeirra. Tillagan fer nú í umræðu hjá ráðherraráði ESB og Evrópuþinginu og á seinni stigum til vinnuhóps EFTA um fjármálaþjónustu (e. WG on Financial Services).

Lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum, byggir í grunninn á tilskipun ESB um innstæðutryggingar. Á árinu 2009 voru samþykktar breytingar á þeirri tilskipun (e. DSG II, 2009/14) sem enn hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn vegna athugasemda bæði frá Íslandi og Noregi. Athugasemd Noregs snýr að tryggingafjárhæðinni sem Norðmenn telja að eigi að vera tvöfalt hærri eða 200.000 evrur. Ísland hefur aftur á móti gert fyrirvara við mögulega ríkisábyrgð á innstæðutryggingaverndinni, sbr. meðal annars umfjöllun á Alþingi eftir að „DSG II“ kom fram á árunum eftir bankahrunið 2008. Var niðurstaðan á sínum tíma sú að fresta málinu þar sem þá var í farvatninu ný tilskipun ESB um tryggingaverndina, DGS III. Sú tilskipun var innleidd í evrópskan rétt árið 2014. Þó ýmislegt hafi verið rætt síðan DGS III tilskipunin kom fram og mikill þrýstingur hafi verið á upptöku hennar af hálfu ESB er afstaðan óbreytt.

Fyrir hefur legið um hríð að DSG III þarfnist breytinga vegna fyrirhugaðrar upptöku á samevrópskum innstæðutryggingasjóði, eða svokölluðu EDIS kerfi, (e. European Deposit Insurance Schemes) sem talinn er nauðsynlegur liður í uppbyggingu á sameiginlegum viðskiptabankamarkaði innan ESB. Hugmyndin hefur verið sú að EDIS kerfið verði byggt á tveimur stoðum. Önnur stoðin yrði innstæðutryggingakerfi aðildarríkjanna, en hin stoðin nýr sameiginlegur evrópskur innstæðutryggingasjóður sem yrði byggður upp í þremur áföngum á átta árum. Þessi breyting hefur kallað á nýja tilskipun, þ.e. DSG IV. Þegar vinnan hófst árið 2016 var gert ráð fyrir að fyrsti áfangi EDIS kæmi til framkvæmda á árinu 2020. Þessi áform mættu hins vegar andstöðu hjá ýmsum aðildarríkjum, ekki síst frá Þýskalandi, en áformin voru eftir sem áður sett ofarlega á forgangslista núverandi framkvæmdastjórnar undir forystu Ursulu von der Leyen. Haldnir hafa verið ótal fundir um málið, sem framkvæmdastjórn ESB og Evrópski seðlabankinn styðja eindregið, en án árangurs.

Segja má að framangreindar tillögur um styrkingu á viðskiptabankakerfinu feli í sér eins konar málamiðlun enda stutt í að skipunartíma núverandi framkvæmdastjórnar ljúki. Samninganefnd Evrópuþingsins í málinu hefur lýst yfir vonbrigðum með stöðu þessa máls með eftirfarandi orðum „… the opportunity to “fix the roof while the sun is shining” may have passed“. 

Að lokum má geta þess að EES/EFTA ríkin lýstu öll yfir efasemdum við hugmyndina um samevrópska innstæðutryggingakerfið þegar málið var tekið fyrir í vinnuhópi EFTA um fjármálaþjónustu. Nú er að bíða og sjá hvernig málinu vindur fram á næstu mánuðum. Viðbúið er að ESB byrji nú á ný að þrýsta á EES/EFTA ríkin að innleiða DGS III og í framhaldinu þær breytingar á viðskiptabankakerfinu sem nú eru lagðar til og lýst er að framan, þ.e. DGS IV, nái þær breytingar fram að ganga.

Evrópuþingið samþykkir breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug

Evrópuþingið samþykkti í vikunni breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug. Eins og rakið var í Vaktinni 16. desember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni breytinganna fyrr í desembermánuði sl. Síðan þá hefur efnisleg niðurstaða málsins legið fyrir og var formleg lokaafgreiðsla þingsins í samræmi við efni fyrirliggjandi samkomulags svo sem við var búist. Er nú einungis beðið formlegrar afgreiðslu ráðherraráðs ESB á gerðinni, en hennar er að vænta á næstunni, og telst hún þá endanlega staðfest sem lög í ESB.

Frá því að niðurstaða í þríhliða viðræðum lá fyrir hefur hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda í málinu beinst að því undirbúa málatilbúnað og jarðveginn innan stofnana ESB og innan aðildarríkjanna til að ná fram aðlögun fyrir Ísland er kemur að upptöku umræddrar gerðar í EES-samninginn en formlegar viðræður um slíkar aðlaganir hefjast ekki fyrr en ESB-löggjöf hefur verið endanlega afgreidd í stofnunum ESB. Sjá nánari umfjöllun um undirbúning stjórnvalda í Vaktinni 24. febrúar sl.

Brussel-vaktin mun greina frá framgangi framangreindra viðræðna um aðlögun fyrir Ísland eftir því sem fram vindur og tilefni er til á komandi misserum.

Samkomulag um löggjafartillögur um hálfleiðara

Í febrúar á síðasta ári lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögur (e. The European Chips Act) sem ætlað er að styðja við öruggt framboð og aðgengi að hálfleiðurum (e. Semiconductor) innan ESB. Markmið tillagnanna er jafnframt að styðja við tæknilega forystu ESB á sviði slíkrar tækni og tryggja samkeppnisfærni sambandsins er kemur að stafrænum og grænum umskiptum en hálfleiðarar eru nauðsynlegir íhlutir í hverskyns tæknivörum allt frá farsímum til bifreiða og svo mætti lengi telja. Tillögupakkinn samanstendur af löggjafartillögum, tilmælum og orðsendingu um þessi efni. Framlagning tillagnanna kom í kjölfar framboðsskorts á hálfleiðurum sem upp kom á heimsvísu árið 2021 og olli því að víða þurfi að skera niður framleiðslu á tæknivörum. Þá hefur þróun í alþjóðamálum að undanförnu einnig undirstrikað þörfina á því að ESB hugi að sjálfstæði sínu og sjálfræði á þessu sviði sem öðrum (e. Strategic autonomy)   

Þann 18. apríl sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar um efni framangreindra tillagna.

Tillögurnar byggja að meginstefnu á þremur eftirfarandi aðgerðum:

  • að byggja upp tækni- og framleiðslugetu,
  • að laða að fjárfestingar,
  • að byggja upp viðbragðskerfi sem unnt er að virkja ef framboðskortur er talinn yfirvofandi.

Gert er ráð fyrir að samanlagt verði 43 milljörðum evra varið til uppbyggingarstarfsins í gegnum sérstök samstarfsverkefni (e. Chips Joint Undertaking) með þátttöku ESB, aðildarríkja og einkaaðila.

Löggjafartillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um breytingar tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa

Þann 30. mars sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni fyrirliggjandi tillagna um breytingar á tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa. Samkvæmt samkomulaginu skal stefnt að því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun ESB úr 32% í 42,5% að lágmarki fyrir árið 2030. Málið er mikilvægur hluti af „Fit for 55“ aðgerðarpakka ESB í loftslagsmálum sem og „REPowerEU“ áætlun ESB sem hefur það að meginmarkmiði að gera ESB óháð jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi eins fljótt og auðið er. Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB um samkomulagið.

Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Samkomulag um hraðari uppbyggingu innviða, einkum rafhleðslustöðva og vetnisstöðva, fyrir endurnýjanlega orkugjafa

Þann 28. mars sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni fyrirliggjandi tillagna sem miða að því að hraða uppbyggingu á aðgengilegum rafhleðslu- og vetnisstöðvum fyrir almenning.

Um er að ræða tillögu að nýrri reglugerð um uppbyggingu á innviðum fyrir endurnýjanlega orkugjafa (e. Alternative Fuels Infrastructure Regulation - AFIR) fyrir samgöngur í lofti, á láði og legi þar sem sett eru lögbundin töluleg markmið. Málið er hluti af „Fit for 55“ aðgerðarpakka ESB í loftslagsmálum. Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB um samkomulagið.

Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Samkomulag um aðgerðir til að draga úr kolefnislosun í sjóflutningum með aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa

Þann 23. mars sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillagna sem ætlað er að draga úr kolefnislosun frá skipum með aukinni notkun á endurnýjanlegum og kolefnislitlum orkugjöfum. Samkomulagið er viðbót við samkomulag frá 18. desember 2022 um að fella losun skipa inn í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (EU ETS) en hvort tveggja er hluti af „Fit for 55“ aðgerðarpakka ESB í loftlagsmálum. Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB um samkomulagið.

Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Tillögur um aukið gagnsæi og minni reglubyrði með aukinni notkun rafrænna lausna í stjórnsýslu á sviði félagaréttar á innri markaðinum

Framkvæmdastjórn ESB kynnti nýverið tillögu að breytingum á tilskipun um aukna notkun rafrænna lausna við framkvæmd fyrirtækjalöggjafar á innri markaðinum. Markmið tilskipunarinnar er að auka gagnsæi og minnka reglubyrði, einkum hjá fyrirtækjum sem starfa þvert á landamæri aðildarríkja á innri markaðinum. Til að ná fram auknu gagnsæi er gert ráð fyrir aukinni opinberri miðlun upplýsinga um fyrirtæki miðlægt á vettvangi ESB. Til að draga úr reglubyrði og skriffinnsku er kynnt til sögunnar meginregla um altæka skráningu (e. Once-only principle) sem miðar að því að koma í veg fyrir að fyrirtæki þurfi að leggja fram upplýsingar í hverju aðildarríki fyrir sig vilji þau stofna þar útibú. Þess í stað verði viðeigandi upplýsingum miðlað í gegnum samtengingarkerfi Evrópskra fyrirtækjaskráa (e. Business Registers Interconnection System – BRIS). Tekið verði upp samræmd ESB fyrirtækjaskírteini sem innihaldi staðlaðar grunnupplýsingar um fyrirtæki sem og stöðluð stafræn umboðsskírteini sem veitir einstaklingum rétt að koma fram fyrir hönd fyrirtækis í öðru aðildarríki.

Tillaga gengur nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB.

Samræmdar kröfur um akstur vinnuvéla á vegum

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt tillögu að reglugerð sem ætlað er að samræma löggjöf innan aðildarríkjanna um akstur vinnuvéla, s.s. krana, lyftara og snjóruðningstækja, á almennum umferðargötum. Mismunandi reglur eru í gildi í einstökum aðildarríkjum og er tillögunni ætlað að samræma reglur, einfalda stjórnsýslu og hrinda úr vegi hindrunum við tilfærslu slíkra tækja á milli staða um leið og umferðaröryggis er gætt. Verði tillagan samþykkt er reiknað með að samræmdar reglur leiði til umtalsverðar hagræðingar hjá verktökum, leigjendum vinnuvéla og greiði fyrir markaðssetningu véla er uppfylli samræmd skilyrði fyrir akstur á almennum umferðargötum á innri markaðinum.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Tilmæli um eflingu menntunar og þjálfunar á sviði stafrænnar færni

Í vikunni lagði framkvæmdastjórn ESB fram tvær nýjar tillögur til ráðherraráðs ESB um tilmæli sem ætlað er að stuðla að eflingu menntunar og þjálfunar á sviði stafrænnar færi á meðal borgara ESB. Eru tillögurnar settar fram sem liður í því færnisátaki sem boðað hefur verið, sbr. ákvörðun um Evrópska færniárið (European Year of Skills), sbr. umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl. Tillögurnar eru jafnframt liður í aðgerðaráætlun ESB um stafræna menntun 2021-2027 og er ætlað að styðja aðildarríkin í því að ná markmiðum Evrópusambandsins um aukna almenna stafræna færni íbúa ESB.

Þrátt fyrir að nokkrum árangri hafi verið náð á umliðnum árum með margvíslegum aðgerðum og stuðningi við nýsköpun á þessu sviði þykir ljóst að enn vantar talsvert upp á að markmiðum varðandi almenna stafræna færni íbúa ESB sé náð. Þannig má nefna að einungis rúmlega helmingur Evrópubúa á aldrinum 16-74 ára hefur grunnfærni á stafrænu sviði auk þess sem verulegur munur er á þessu hlutfalli eftir löndum og þjóðfélagshópum. Ekki hefur heldur tekist að ná markmiðum um næga fjölgun sérfræðinga á sviði upplýsingatækni til þess að mæta þörfum atvinnulífsins á því sviði. Skort hefur á fjárfestingu í stafrænni menntun og þjálfun, tækjabúnaði, og námsefni, auk þess sem ekki hefur farið fram markvisst mat á gagnsemi þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til.

Framangreindum tveimur tillögum er ætlað að mæta þessu.

Annars vegar er um að ræða tillögu að tilmælum um lykilþætti til að tryggja farsæla stafræna menntun og þjálfun en með tillögunni er lagður til rammi að tilhögun fjárfestinga, stjórnarhátta og uppbyggingu innviða stafrænnar menntunar og þjálfunar. Gert er ráð fyrir samstarfi allra hagaðila þar með talið einkageirans, til að ná fram sem bestum árangri.

Hins vegar er um að ræða tillögu að tilmælum um bætt framboð á stafrænni menntun og þjálfun og eru í tillögunni settar fram leiðbeiningar um hvernig bæta megi stafræna færni og kennslu fyrir alla. Settar eru fram tillögur að aðgerðum til þess að bæta framboð á stafrænni menntun og þjálfun fyrir öll skólastig sem og fyrir fullorðna. Mælt er með markvissum aðgerðum til að ná til tiltekinna hópa sem standa höllum fæti á þessu sviði en verulegur munur er á stafrænni færni eftir kyni, félagslegum og efnahagslegum bakgrunni fólks og búsetu. Leitast verður við að styðja við bestu framkvæmd á þessu sviði innan ESB-ríkja og breiða hana út, m.a. með styrkjum úr sjóðum Evrópusambandsins. 

Þessar tillögur og fjölmargar aðrar sem settar hafa verið fram og tengjast Evrópska færniárinu, snúa allar að því að auka samkeppnishæfni og viðnámsþrótt Evrópu, með því að bæta menntun íbúanna þannig að nægileg stafræn þekking og færni sé til staðar til að mæta þörfum atvinnulífsins samfara grænu stafrænu umskiptunum.

Umfangsmikið og fjölbreytt styrkjakerfi hefur verið sett upp til að styðja við þessi markmið, sjá nánar hér.

Býflugnavænn landbúnaður

Frumkvæðisréttur borgara ESB-ríkja (e. The European Citizen‘s initiative) til að hafa bein áhrif á stefnu og löggjöf sambandsins er tryggður í stofnsáttmálum ESB, annars vegar í 4. mgr. 11. gr. sáttmálans um Evrópusambandið og hins vegar 1. m 24. gr. mgr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Bæði þessi ákvæði komu ný inn í sáttmálana við gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2007. Til að fá frumkvæðismál skráð og hefja söfnun undirskrifta þarf að uppfylla ýmis skilyrði. Til að frumkvæðisrétturinn verði virkur þarf síðan að minnsta kosti eina milljón undirskrifta frá íbúum a.m.k. 7 aðildarríkja. Takist að safna slíkum fjölda gildra undirskrifta hefur framkvæmdastjórn ESB tiltekinn tíma til ákveða hvort og þá hvernig brugðist skuli við. Viðbrögð geta falist í því að leggja fram tillögur að nýrri löggjöf, gefa út orðsendingu eða grípa til annarra viðeigandi viðbragða og aðgerða svo sem að hefja athugun eða rannsókn eða skipuleggja opinbert samráð.

Í byrjun mánaðarins brást framkvæmdastjórn ESB við einu slíku frumkvæðismáli sem fékk skráningu árið 2019 undir yfirskriftinni „Save bees and farmers! Towards a Bee-friendly agriculture for a healthy environment“ og var tilskildum fjölda undirskrifta til stuðnings málinu náð í september 2021. Með málinu er skorað á sambandið að sýna metnað í umhverfismálum og hefja virkar aðgerðir til að bjarga býflugum og tryggja býflugnavænan landbúnað. Býflugur og aðrir fræberar hafa átt undir högg að sækja víða um heim, m.a. vegna mikillar notkunar á skordýraeitri. Undirskriftarsöfnunin endurspeglar áhyggjur og skýran vilja hjá borgurum sambandsins til að bregðast við þeirri ógn sem steðjar að fræberum. Ein af hverjum þremur tegundum býflugna, fiðrilda og svifflugna eiga undir högg að sækja í ESB. Aðgerðirnar, sem borgararnir leggja til, felast einkum í því að:

  • minnka verulega notkun skordýraeiturs í landbúnaði
  • endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika í landbúnaði
  • styðja bændur í umskiptum yfir í sjálfbæran búskap

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú brugðist við framangreindu frumkvæði borgaranna með útgáfu sérstakrar orðsendingar þar sem stefna ESB og fyrirhugaðar aðgerðir á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu undir merkjum Græna sáttmála ESB (e. European Green Deal) eru raktar s.s. stefnan Frá haga til maga (e. Farm to Fork strategies), stefnan um líffræðilegan fjölbreytileika (e. Biodiversity strategy), náttúruverndarlögin (e. Nature Restoration Law), tillögur um breytingar á reglugerð um sjálfbæra notkun skordýraeiturs (e. Sustainable Use of Pesticides Regulation), nýjar aðgerðir til varnar fræberum (e. Revised EU Pollinators ‘initiative), nýtt samkomulag um fræbera (e. New deal for Poolinators) auk almennu landbúnaðarstefnunnar (e. EU common agricultural policy) fyrir tímabilið 2023-2027.

Í tillögum um breytingar á reglugerð um sjálfbæra notkun skordýraeiturs eru sett fram metnaðarfull markmið um að draga úr notkun kemískra varnarefna í ESB, þar á meðal í landbúnaði. Í reglugerðinni er kveðið á um að dregið verði út notkun skordýraeiturs í landbúnaði um 50% fyrir árið 2030 miðað við meðaltal áranna 2015, 2016 og 2017.

Er það niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar, með hliðsjón af framangreindu, að leggja beri áherslu á framgang framangreindra stefnumála og aðgerða fremur en að leggja til nýjar lagabreytingar. Litið er á frumkvæðismálið og þær áherslur sem þar birtast sem skýra hvatningu til stofnanna ESB um ná árangri í þeim efnum.

Ný stefnumörkun um dróna

Í nóvember sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um stefnumörkun stjórnarinnar um frekari þróun markaða með dróna. Um er að ræða 2. útgáfu stefnumörkunar á þessu sviði (e. A Drone Strategy 2.0 for a Smart and Sustainable Unmanned Aircraft Eco-System in Europe) og byggir hún á núgildandi regluverki sem stutt hefur við framþróun tækninnar og markaða með dróna. Eru drónar nú m.a. notaðir við eftirlit með innviðum, til að fylgjast með olíumengun o.s.frv. Einnig er nú t.d. unnið að því nýta dróna til að senda lyf og lækningavörur á milli heilbrigðisstofnana.

Markaður með dróna hefur vaxið hröðum skrefum og er í stefnumörkun framkvæmdastjórnarinnar lögð áhersla á að notkun dróna sé í sátt við samfélagið t.d. hvað varðar hávaða, öryggi og vernd einkalífsins. Framtíðarsýn fyrir notkun dróna horfir til nýrra notkunarsviða, s.s. í þágu neyðarþjónustu, eftirlits og fyrir mikilvæga sendingarþjónustu. Einnig er í stefnumörkuninni litið til þess að drónar geti mögulega verið nýttir til þess að flytja fólk á milli staða í framtíðinni.

Stefnumörkuninni er ætlað að varða leiðina að kröftugum neytendamarkaði með dróna. Hún leggur grunninn að öryggisreglum um rekstur dróna og setur fram ramma um öryggiskröfur sem þeir þurfa að uppfylla.

19 aðgerðir eru boðaðar og snúa þær að eftirfarandi atriðum:

  • Að settar verði nánari reglur fyrir lofthæfi dróna.
  • Að settar verði reglur um menntun og þjálfun þeirra sem stjórna svokölluðum eVOLT drónum þ.e. mönnuðum drónum, rafmagnsdrifum drónum og drónum sem gerðir eru fyrir lóðrétt flugtak og lendingu.
  • Að settur verði á fót nýr stafrænn vettvangur er hafi það hlutverk að styðja við þróun sjálfbærrar drónatækni.
  • Að unnið verði að vegvísi fyrir tækniþróun dróna þar sem rannsóknar- og nýsköpunarvinnu er forgangsraðað.
  • Að skilgreindar verði forsendur fyrir netöryggisvottun dróna.

Útboð á uppbyggingu öryggisfjarskipta um gervihnetti

Eins og greint var frá í Vaktinni 10. mars sl. var reglugerð um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti nýlega samþykkt í ráðherraráði ESB (e. Infrastructure for Resilience, Interconnectivity and Security by Satellite - IRIS²). Á grundvelli þeirrar reglugerðar hefur framkvæmdastjórnin nú auglýst útboð á fyrsta áfanga kerfisins, sem metinn er á 2,4 milljarða evra.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum