Hoppa yfir valmynd
16. desember 2022 Brussel-vaktin

Formennskuáætlun Svía og viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi

Að þessu sinni er fjallað um:

  • formennskuáætlun Svía
  • fund leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB)
  • breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi
  • nýjar reglur um kolefnisjöfnunargjald við landamæri
  • orkumál – framhald umræðna um markaðsleiðréttingakerfi fyrir gas og verðþak
  • fund Schengen-ráðsins
  • tillögur að nýjum reglum um notkun upplýsinga við landamæraeftirlit og löggæslu
  • gervihnattakerfi fyrir örugg fjarskipti
  • kvótasetningu ESB fyrir fiskveiðiárið 2023
  • nýja landbúnaðarstefnu ESB
  • afnám hindrana við útflutning á íslensku skyri
  • samkomulag ráðherraráðs ESB og Ungverjalands í kjölfar deilna um réttarríkið
  • heimsókn ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til Brussel

Formennskuáætlun Svía

Svíar taka við formennsku í ráðherraráði ESB um næstu áramót en þá lýkur formennskutíð Tékka í ráðinu. Formennska í ráðinu gengur á milli aðildarríkja samkvæmt fyrirfram ákveðinni röð og er formennskutímabilið sex mánuðir og stendur formennskutímabil Svía samkvæmt því frá 1. janúar – 30. júní 2023 en þá munu Spánverjar taka við formennskukeflinu.

Hlutverk formennskuríkis á hverjum tíma er að leiða starf og stjórna fundum í öllum deildum ráðherraráðs ESB. Þá stýrir formennskuríkið einnig samningaviðræðum við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB þegar ná þarf sameiginlegri niðurstöðu um löggjafarmálefni og önnur málefni. Umtalsvert áhrifavald fylgir formennskunni á hverjum tíma enda geta áherslur formennskuríkis haft úrslitaáhrif um það hvort tiltekin mál nái fram að ganga eða ekki.

Þann 14. desember birtu sænsk stjórnvöld formennskuáætlun sína. Ólögmætt árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og viðbrögð við margbrotnum og alvarlegum afleiðingum þess gengur eins og rauður þráður í gegn um áætlunina á nánast öllum málefnasviðum. Er það ásetningur sænsku formennskunnar að standa vörð um grundvallargildi ESB á þeim umbrotatímum sem stríðið hefur valdið og lagalegt og efnahagslegt samstarf aðildarríkja ESB byggist á.

Áherslur sænsku formennskunnar á helstu málefnasviðum eru eftirfarandi:

Utanríkismál

  • Starfsemi ráðherraráðsins á sviði utanríkismála mun óhjákvæmilega og fyrst og fremst litast af stríðinu og verður sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna ofarlega á baugi.
  • Áframhaldandi stuðningur við Úkraínu verður mikilvægt leiðarstef á tímabilinu – pólitískur, efnahagslegur, hernaðarlegur, félagslegur og lagalegur stuðningur.
  • Yfirstandandi stækkunarferli verður framhaldið.
  • Samstarf við helstu samstarfsaðila eins og Bandaríkin og Bretland o.fl. verði eflt.
  • Geta ESB til að bregðast við hvers kyns hættuástandi verði efld.
  • Unnið verði að því að halda uppi alþjóðalögum, lýðræði, mannréttindinum og réttarríkinu, innan ESB sem utan.

Efnahagsmál

  • Stríðið hefur leitt til mikillar efnahagslegrar óvissu með aukinni verðbólgu, alvarlegri orkukreppu og ört hækkandi vöxtum sem hamla hagvexti í aðildarríkjum ESB. Meginverkefni sænsku formennskunnar á sviði efnahagsmála verður að leitast við að samræma viðbrögð við kreppunni og virkja sameiginleg úrræði þar sem við á.

Dóms- og innanríkismál

  • Áhersla verður á innra öryggiskerfi ESB sem styrkja þarf m.a. vegna stríðsins.
  • Baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hryðjuverkum og ofbeldisfullri öfgahyggju verður meðal forgangsverkefna.
  • Endurskoðun á regluverki vegna flótta- og farandsfólks m.a. til að tryggja skilvirka Schengen-samvinnu verður í forgangi.

Atvinnu- og félagsmál, heilbrigðismál og neytendamál

  • COVID-19 heimsfaraldurinn og stríðið hafa reynt á samfélagsinnviði ESB Sænska formennskan hyggst beita sér fyrir uppbyggingu á þessum sviðum.

Samkeppnishæfni

  • Sænska formennskan hyggst setja samkeppnishæfni Evrópu í öndvegi. Nauðsynlegt sé að gera skammtímaráðstafanir til að bregðast við aðstæðum sem stríðið, orkukreppan og vaxandi verðbólga hafa haft í för með sér. Hins vegar þurfi að gæta þess að tímabundnar kreppuráðstafanir festist ekki í sessi enda geti það skaðað samkeppnishæfni ESB til lengri tíma.
  • Aðeins í gegnum samkeppnishæf fyrirtæki sé hægt að skapa sjálfbæran vöxt, flýta fyrir grænum og stafrænum umskiptum. Aðgerðir á vettvangi ESB þurfa að byggjast á virkri samkeppni og samræmdu og vaxtarhvetjandi regluverki og nýsköpun.
  • Formennskan mun minnast þess að 30 ár eru liðin frá því að innri markaður ESB var settur á fót.

Samgöngur, fjarskipti og orkumál

  • Græn umskipti í orkumálum verða í öndvegi með það að markmiði m.a. að gera ESB óháð jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi
  • Á sama tíma þurfa innviðir og samgöngur að vera samkeppnishæf og skilvirk.
  • Stafræn umbreyting verður jafnframt í öndvegi.

Landbúnaður og sjávarútvegur

  • Öflug matvælaframleiðsla með grænum og sjálfbærum áherslum og fæðuöryggismál verða áfram meðal helstu forgangsmála og birtist þar enn ein afleiðing stríðsins.

Umhverfismál

  • Markviss viðbrögð við loftslagsvánni, vernd líffræðilegs fjölbreytileika og hringrásarhagkerfið eru og verða megin forgangsmál. Markmiðið er eins og áður að draga úr nettólosun kolefnis um að minnsta kosti 55 prósent fyrir 2030 og ná fullri kolefnisjöfnun fyrir 2050.

Mennta- og æskulýðsmál, menning og íþróttir

  • Listrænt og menningarlegt frelsi verður sett á oddinn.
  • Menntun, endurmenntun og framhaldsmenntun sem hjálpað geta einstaklingum og fyrirtækjum að búa sig undir stafræn og græn umskipti verða einnig sett á oddinn.

Samhliða formennskuáætlun Svía var uppfærð þriggja ríkja áætlun birt (e. The Trio Programme) en auk Svía standa Frakkar sem fóru með formennskuna fyrri hluta árs 2022 og Tékkland sem lætur af formennsku nú um áramótin að núverandi áætlun. Tilgangur þessarar áætlunar er að skapa samfellu í áætlanagerð ráðherraráðsins.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogar aðildaríkja ESB komu saman til fundar 15. desember. Fjölmörg mál voru á dagskrá fundarins.

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu var megin umræðuefnið eins og vænta mátti. Leiðtogaráðið ítrekaði fullan stuðning sinn við Úkraínu um leið og framferði Rússlands var ítrekað fordæmt. Áframhaldandi stuðningi bæði efnahagslegum, sbr. 18 milljarða evra fjárframlag til Úkraínu sem nýlega var samþykkt, sem og hernaðarlegum stuðningi var heitið sem og stuðningi til að halda nauðsynlegum innviðum svo sem vatns- og raforkukerfum gangandi í Úkraínu yfir vetrartímann en Rússar hafa með kerfisbundnum hætti gert árásir á slíka innviði í landinu að undanförnu.

Leiðtogaráðið áréttaði stuðning sinn við rannsókn og saksókn vegna stríðsglæpa færi fram af hálfu saksóknara Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins (ICC). Þá beindi ráðið því til framkvæmdastjórnar ESB og utanríkismálastjóra framkvæmdastjórnarinnar að skoðaðir yrðu möguleikar á því að nýta frystar eignir rússneskra aðila til þess að styðja við enduruppbyggingu í Úkraínu.

Þá fagnaði leiðtogaráðið 9. umferð þvingunaraðgerða sem formlega var samþykkt í dag, 16. desember, í ráðherraráði ESB. Með þeim aðgerðum er um 200 einstaklingum, fyrirtækjum og rússneskum stofnunum bætt við á lista yfir þá sem falla undir aðgerðirnar og bann lagt við fjárfestingum í ýmsum rússneskum framleiðslugreinum sem nýst geta í hernaði að jafnvirði um 3 milljarða evra.

Leiðtogarnir kölluðu eftir því að orkumálaráðherrar sambandsins myndu á fundi sínum á vettvangi ráðherraráðsins nk. mánudag, 19. desember, tryggja samheldni í sameiginlegum kaupum á gasi, hraða innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa og koma á fót úrræðum sem nýtast til verðleiðréttar á orkumarkaði þegar þess væri þörf til að vernda neytendur og hagkerfin fyrir miklum verðsveiflum og  verðtoppum í orkuverði, sbr. nánari umfjöllun um orkumálin hér síðar í Vaktinni. Þá kölluðu leiðtogarnir eftir því að hafist yrði handa við að undirbúa áætlanir fyrir veturinn 2023-24.

Efnahagsmál og samkeppnisstaða fyrirtækja í ESB voru til umræðu m.a. í samhengi við stuðningsaðgerðir sem bandarísk stjórnvöld hafa boðað til handa fyrirtækjum þar í landi. Var því beint til stofnana ESB að horfa til þess að styrkja regluverk um fjárfestingar og grípa til sameiginlegra aðgerða þar sem þörf væri.

Sameiginleg varnar- og öryggismál ESB ríkja komu til umræðu og var kallað eftir því að vinnu við innleiðingu á ýmsum vegvísum ESB í málaflokknum yrði hraðað. Þar á meðal vinnu við að auka fjárfestingar í hergagnaframleiðslu og sameiginlegum innkaupum, að styrkja netöryggissamstarf sambandsins og vinnu þess gegn fjölþátta ógnum og að lokum að styðja við og styrkja öryggisinnviði aðildarríkjanna

Staða mála í Schengen-samstarfinu kom til umræðu og var nýsamþykktri inngöngu Króatíu fagnað um leið og staða mála varðandi aðild Búlgaríu og Rúmeníu var rædd, sbr. umfjöllun um fund Schengen-ráðsins hér að neðan.

Bosnía Hersegóvína fékk formlega stöðu umsóknarríkis á fundinum en við því var búist eftir að framkvæmdastjórnin mælti með því fyrr í vetur, sbr. umfjöllun í Vaktinni 21. október 2022.

Breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi

Samkomulag hefur náðst í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um breytingar á núgildandi löggjöf um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug, svonefnda ETS gerð. ítrekað hefur verið fjallað um málið í Vaktinni á undanförnum misserum, sbr. umfjöllun 24. júní, 8. júlí, 22. júlí og 7. október sem skýrist af þeim miklu hagsmunum sem eru undirliggjandi fyrir Ísland.

Viðurkennt er að umrædd gerð sem gert er ráð fyrir að taki gildi í ESB 1. janúar 2024 muni leiða til kostnaðarauka fyrir flugrekendur almennt innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Vegna landfræðilegrar legu Íslands mun hún hins vegar hafa umtalsvert meiri áhrif á samkeppnistöðu Keflavíkurflugvallar en annars staðar og á leiðakerfi flugfélaga sem nota þann flugvöll sem tengiflugvöll en annars staðar. Hið breytta kerfi er nánar tiltekið þannig uppbyggt að kostnaður vegna kaupa á losunarheimildum eykst í hlutfalli við flogna vegalengd. Meðalfjarlægð til flugvalla í Evrópu frá Íslandi er um 2.200 km, en stystu flugleiðirnar frá Íslandi eru um 1.500 km. Meðalfluglengd í Evrópu er hins vegar á bilinu 850–1.000 km. Af þessu leiðir að kostnaðaráhrifin af tilskipuninni fyrir Ísland eru margfalt meiri en meðaláhrif annars staðar í Evrópu og ljóst að þau munu hafa neikvæð áhrif á samkeppnishæfni tengiflugs um Norður-Atlantshafið og þar með tíðni flugsamganga við Ísland. Áhrifamat sem unnið var af framkvæmdastjórn ESB og fylgdi tillögu að gerðinni þegar hún var kynnt upphaflega var þeim annmörkum háð að það byggðist eingöngu á meðaltalsútreikningum. Áhrifamatið lýsir því ekki áhrifum á jaðarsvæðum eins og á við um íslenskar aðstæður.

Unnið hefur verið markvisst að því á undanförnum misserum að gera stofnunum ESB á öllum stigum stjórnkerfis þess grein fyrir framangreindu og lýsa hagsmunum og sérstöðu Íslands í þessu samhengi. Markmiðið hefur verið annars vegar að ná fram breytingu á gerðinni er komið gæti til móts við og jafnað aðstöðumun byggða á jaðarsvæðum (e. outermost regions) almennt og hins vegar að leggja grunn að því að ná fram efnislegri aðlögun fyrir Ísland sérstaklega við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

Í ljósi niðurstöðu í þríhliða viðræðum stofnana ESB  verður áfram unnið að því að ná fram viðeigandi aðlögun við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn með það fyrir augum að milda áhrif hennar á samkeppnisskilyrði flugsamgangna við Íslands.

Nýjar reglur um kolefnisjöfnunargjald við landamæri

Fyrr í þessari viku náðist bráðabirgðasamkomulag í þríhliða viðræðum fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um að svokölluðu kerfi um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism – CBAM) verði ýtt úr vör á næsta ári. Samningurinn gengur nú til ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins til formlegs samþykkis. CBAM fellur undir græna sáttmála ESB og er hluti af löggjafarpakkanum Fit for 55, sem ætlað er að drífa áfram breytingar svo loftslagsmarkmið sambandsins um 55% samdrátt kolefnislosunar náist fyrir árið 2030 (sé miðað við tölur frá árinu 1990).

CBAM-kerfið verður tengt viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) fyrst um sinn og er því ætlað að koma í veg fyrir kolefnisleka yfir landamæri. Í því skyni felur CBAM í sér að kolefnisgjald verður lagt á innflutning tiltekinna vara sem eru kolefnisfrekar við framleiðslu og eru framleiddar í þriðju ríkjum – þ.e.a.s. utan ESB og evrópska efnahagssvæðisins (EES). Til að byrja með nær CBAM utan um fimm tegundir vara; járn og stál, sement, áburð, ál og rafmagn. Til umræðu er að víkka út gildissvið löggjafafarinnar þannig að hún nái utan um fleiri tegundir vara. Jafnframt kveður löggjöfin á um að framleiðendur fái svigrúm til að aðlagast breyttum aðstæðum sem gefur ESB jafnframt tækifæri til að greina nánar innflutning á framangreindum vörum. Gerð verður krafa um að fyrirtæki upplýsi ESB reglulega um innflutningstölur og umfang kolefnislosunar við framleiðslu á þessum vörum, bæði beina losun og óbeina.

Fyrirhugað er að aðlögunartímabilinu ljúki í árslok 2026 og í ársbyrjun 2027 hefjist gjaldtakan. Til að greiða kolefnisgjald undir regluverki CBAM verða fyrirtæki í innflutningi að kaupa þar til gerð vottorð sem ná yfir losun sem verður við framleiðslu þeirra vörutegunda sem falla undir CBAM og fluttar eru inn frá löndum sem kerfið nær til. Til að geta keypt CBAM-vottorð þurfa innflutningsfyrirtæki að leita sérstakrar heimildar lögbærra yfirvalda í því aðildarríki sem varan er flutt til. Að endingu er gert ráð fyrir að endurgjaldslausar losunarheimildir undir ETS-kerfinu verði afnumdar á árunum 2026-2035.

Eftirfylgni með þróun CBAM regluverki ESB er á forgangslista ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2023. Hlutaðeigandi ráðuneyti munu þannig vakta hana og meta þýðingu fyrir íslenska hagsmunaaðila.

Orkumál – framhald umræðna um markaðsleiðréttingakerfi fyrir gas og verðþök

Orkumálaráðherrar ESB áttu langan fund þann 13. desember sl. þar sem reynt var að ná samkomulagi um efni reglugerðar um markaðsleiðréttingakerfi fyrir gas og hugsanlegt verðþak eða verðbil á gasi. Til umfjöllunar er verðþak eða verðbil á bilinu 160 til 220 evrur fyrir megawattstund. Niðurstaða náðist þó ekki og virðist nokkuð mikið skilja á milli einstakra aðildarríkja í málinu. Í takt við tilmæli leiðtogaráðsins er nú stefnt að því freista þess að ná fram niðurstöðu á næsta fundi ráðherranna á fundi ráðsins sem boðaður hefur verið 19. desember.

Hugsanlegt verðþak á gasi væri í línu við ákvörðun ráðherraráðsins frá 3. desember sl. um verðþak (60 USD á tunnu) á tiltekna olíu (hráolíu, jarðolíu og olíu unna úr biki) sem upprunnin er í Rússlandi eða flutt þaðan. Kom sú ákvörðun í framhaldi af ákvörðun ráðsins frá 6. október 2022 þar sem samþykkt var að banna sjóflutninga á rússneskri hráolíu til þriðju ríkja, sbr. umfjöllun í Vaktinni 7. október, sbr. einnig yfirlitsumfjöllun um orkumálin í Vaktinni 2. desember.

Eftirfarandi mál verða jafnframt til umfjöllunar og afgreiðslu á ráðsfundinum þann 19. desember en niðurstaða þeirra mála mun væntanlega litast af ályktunum leiðtogaráðsins sem fjallað er um hér að framan:

  • Stefnt er að formlegri samþykkt reglugerðar ráðsins um að efla samstöðu með betri samræmingu á gaskaupum, gasskiptum yfir landamæri og áreiðanlegum verðviðmiðum og reglugerð ráðsins sem setur tímabundinn ramma til að flýta fyrir uppbyggingu orkuvera þar sem framleidd er endurnýjanleg orka. Ráðherrarnir samþykktu efni þessarar reglugerðar á fundi sínum þann 24. nóvember, sbr. umfjöllun í Vaktinni 2. desember sl.

  • Ráðið mun ræða reglugerðartillögur um samdrátt í losun metans í orkugeiranum. Um er að ræða nýjar tillögur sem kynntar voru þann 15. desember sl. þar sem m.a. er lagt til að þess verði krafist að olíu-, gas- og kolafyrirtæki mæli, tilkynni og sannreyni (MRV- Measurement, Reporting, and Verification) metanlosun. Þessi tillaga er hluti af annarri lotu tillagna sem falla undir löggjafarpakkann fit for 55 sem miðar að því að samræma loftslags- og orkulöggjöf ESB að markmiðum um samdrátt í losun.

  • Ráðið mun reyna að ná samstöðu um sameiginlega nálgun aðildarríkjanna gagnvart tillögu framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á regluverki á sviði endurnýjanlega orku, orkunýtingu og orkunýtni bygginga. Tillagan sem lögð var fram í maí sl. og er hluti af REPowerEU áætlun ESB.

  • Loks er gert ráð fyrir að tékkneska formennskan muni leggja fram áfangaskýrslu um stöðu umræðna um svonefndan gaspakka (e. gas package) sem áður hefur verið vikið að í Vaktinni í nokkrum tilvikum og felur í sér tillögur að sameiginlegum reglum innri markaðarins fyrir endurnýjanlega orku, jarðgas og vetni og miða að því að gera ESB kleift að ná markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2050.

Fundur Schengen-ráðsins

Ráðherrar dóms- og innanríkismála funduðu innan hins hefðbundna Schengen-ráðs fimmtudaginn 8. desember sl. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á fundinum fóru ráðherrar yfir heildarstöðuna á Schengen-svæðinu, þ.e. innra öryggi svæðisins og stöðuna á ytri landamærum. Ráðherrar ræddu einnig brottvísunarmálin almennt og mikilvægi góðrar samvinnu við þriðju ríki í þeim efnum. Ráðherrar ræddu einnig mikilvægi lögreglusamvinnu og skilvirkar leiðir til að vinna gegn smygli á farandfólki.

Á fundinum var jafnframt tekin formleg afstaða til þess hvort veita ætti Króatíu, Rúmeníu og Búlgaríu fulla aðild að Schengen-svæðinu en fjallað var um mögulega aðild þessara ríkja í Vaktinni 18. nóvember og 2. desember sl. Ísland auk annarra samstarfsríkja Schengen, Noregs, Sviss og Liechtenstein, hefur ekki kosningarétt innan ráðsins og tók því ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Aðildarríkin voru öll sammála um að veita Króatíu fulla aðild að Schengen-svæðinu og verður eftirliti á innri landamærum Króatíu því aflétt frá og með 1. janúar 2023 á landi og sjó og í lofti þann 23. mars 2023. Króatía mun einnig hefja áritanaútgáfu inná Schengen-svæðið frá og með 1. janúar 2023 auk þess sem full aðild að SIS upplýsingakerfinu verður veitt.

Líkt og fjallað hefur verið um í Vaktinni þarf einróma samþykki allra aðildarríkja eigi nýtt ríki að fá fulla aðild að Schengen-svæðinu. Slíkt einróma samþykki náðist ekki um aðild Rúmeníu og Búlgaríu vegna andstöðu Austurríkis og áður Hollands, en það hafði þó gefið til kynna að það myndi láta af andstöðu sinni ef full samstaða væri að öðru leyti fyrir hendi. Neikvæð afstaða þeirra var m.a. byggð á áhyggjum þeirra af beitingu grundvallarreglna réttarríkisins innan umsóknarríkjanna tveggja. Höfnun á aðild ríkjanna gengur þvert á álit bæði framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins sem hafa ítrekað lýst yfir stuðningi við aðild beggja ríkjanna enda hafi þau uppfyllt öll sett skilyrði fyrir inngöngu. Óljóst er hvenær aðild Rúmeníu og Búlgaríu fer aftur á dagskrá en Tékkland hefur í formennskutíð sinni innan ráðherraráðsins sett málið í forgang. Ekki er vitað hvert framhaldið verður, hvað varðar inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu enda liggur ekki fyrir hvort Svíþjóð, sem tekur við formennsku innan ráðherraráðsins þann 1. janúar 2023, muni setja málið á dagskrá en ekki er minnst á málið í forgangslista sænsku formennskunnar, sbr. umfjöllun um væntanlega formennsku Svía hér að framan.

Tilögur að nýjum reglum um notkun upplýsinga við landamæraeftirlit og löggæslu

Þann 13. desember sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að tveimur nýjum reglugerðum sem eiga að styrkja notkun á fyrirframupplýsingum um farþega (e. Advance Passenger Information data - API). Annars vegar er um að ræða tillögu um öflun og flutning API gagna til að efla og styrkja eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og hins vegar í löggæslutilgangi, þ.e. til að koma í veg fyrir, greina og rannsaka og við saksókn hryðjuverkabrota og alvarlegra glæpa. Tillaga framkvæmdarstjórnarinnar er ein af þeim lykilaðgerðum sem nefndar eru í stefnu framkvæmdastjórnarinnar um öryggismál frá 24. júlí 2020 (e. EU Security Union Strategy). Fyrrnefnda tillagan, sú er varðar öflun API gagna í þágu landamæraeftirlits, telst til þróunar á Schengen-regluverkinu og er því skuldbindandi fyrir Ísland.

Með svokölluðum API upplýsingum er átt við upplýsingar fengnar úr ferðaskilríki viðkomandi að viðbættum upplýsingum um ferðaleið. Á hverju ári fara yfir milljarðurfarþega um ytri landamæri Schengen-svæðisins  og eru þessar upplýsingar m.a. gagnlegar til að tryggja öflugt landamæraeftirlit, til að koma í veg fyrir ólögmæta fólksflutninga og síðast en ekki síst eru þær mikilvægar til þess geta auðkennt farþega sem teljast möguleg ógn gegn þjóðaröryggi.

Breyttum reglum er m.a. ætlað að bæta notkun á API upplýsingum áður en farþegar koma að ytri landamærum Schengen-svæðisins. Nýju reglurnar munu einnig gagnast í baráttunni gegn alvarlegum glæpum og hryðjuverkum innan Evrópu. Reglunum er ætlað að loka glufum, sem einkennir núverandi löggjöf að nokkru leyti, og á sama tíma vernda evrópska staðla þegar kemur að vinnslu persónupplýsinga og miðlun þeirra.

Lykilatriði nýrrar reglugerðar um API upplýsingar um farþega:

  • Samræmdar reglur um söfnun API gagna.
  • Skyldubundin söfnun API gagna, annars vegar við landamæraeftirlit og hins vegar í löggæslutilgangi.
  • Bætt gæði upplýsinganna þar sem flugrekendum ber skylda til að afla þessara gagna með sjálfvirkum hætti
  • Staumlínulagað ferli við flutning API gagna frá flugrekendum til landsyfirvalda í gegnum nýjan beini sem verður stjórnað af tæknistofnun Evrópu eu-Lisa.

Líkt og fyrr segir telst aðeins önnur tillagan, sú er varðar öflun API gagna í þágu eftirlits á ytri landamærum Schengen-svæðisins, til þróunar á Schengen regluverkinu. Ísland er hinn bóginn ekki aðili regluverkinu sem varðar söfnun API gagna í löggæslutilgangi. Þrátt fyrir að núverandi tilskipun, sem Ísland er aðili að, varði að meginstefnu til söfnun API ganga við landamæraeftirlit, þ.e. til að koma í veg fyrir ólögmæta fólksflutninga, veitir núverandi gerð Íslandi og öðrum samstarfsríkjum Schengen, Noregi, Sviss og Liecthenstein, svigrúm til slíkrar söfnunar í löggæslutilgangi einnig. Tillögur framkvæmdastjórnarinnar nú kunna því óbreyttu að takmarka heimildir Íslands og annarra samstarfsríkja Schengen til öflunar API ganga í löggæslutilgangi.

Tillaga framkvæmdarstjórnarinnar fer nú til skoðunar innan ráðsins og þingsins og er gert ráð fyrir því að nýjar reglur taki gildi 2028. Ísland mun á grundvelli Schengen-samningsins taka þátt í mótun fyrri reglugerðarinnar innan ráðsins um söfnun API gagna í þágu eftirlits á ytri landamærum. Einnig er mikilvægt út frá hagsmunum Íslands að fylgjast með framgöngu seinni reglugerðarinnar um söfnun API gagna í löggæslutilgangi.

Gervihnattakerfi fyrir örugg fjarskipti

Samkomulag náðist milli ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins þann 17. nóvember sl. um tillögu framkvæmdastjórnarinnar að reglugerð sem setur af stað áætlun um uppbyggingu öruggs fjarskiptakerfis (e. EU‘s secure connectivity programme) sem áætlað er að verði tilbúið til notkunar árið 2027.

Tilgangurinn með kerfinu er tvíþættur:

  • Að tryggja til frambúðar aðgengi að hraðvirkum, öruggum, hagkvæmum fjarskiptum um gervihnetti á heimsvísu. Er kerfinu þannig ætlað að skjóta styrkari stoðum undir mikilvæga fjarskiptainnviði innan ESB og tryggja aðgengi löggæslu og viðbragðsaðila að öruggum fjarskiptum við aðgerðarstjórnun á neyðarstundum
  • Að byggja upp kerfi sem einkaaðilar geta nýtt til þess að bjóða hraðvirka netþjónustu um alla Evrópu þar með talið á dreifbýlum svæðum þar sem slík þjónusta er ekki í boði í dag.

Unnið verður að áætluninni í samvinnu við evrópsku geimvísindastofnunina (European Space Agency) og fyrirtækja á svið geimvísinda. Kerfið nýtir núverandi Govsat gervihnattakerfi sem grunn, sem verður byggt upp til þess að veita aukna þjónustu. Einstakir hlutar nýja kerfisins verða boðnir út sem samvinnuverkefni opinberra aðila og einkaaðila. Ísland hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í þessari áætlun en töluverða undirbúningsvinnu þarf áður en hægt er að hefja viðræður um þátttöku.

Ákvörðun fiskveiðiheimilda fyrir árið 2023

Ráðherraráð ESB samþykkti í vikunni, að undangegnum tveggja daga samningaviðræðum, úthlutun fiskveiðiheimilda fyrir árið 2023. Ákvörðun ráðsins er tekin á grundvelli sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu (CFP) ESB og byggir á vísindalegum ráðleggingum.

Með ákvörðuninni eru settar aflatakmarkanir fyrir yfir 200 nytjastofna í Atlantshafi, Norðursjó, Miðjarðarhafi og Svartahafi. Ákvörðunin felur einnig í sér bráðabirgðaúthlutun heimilda til veiða úr fiskistofnum sem ESB deilir með Bretlandi og Noregi en ekki hefur enn náðst niðurstaða í tvíhliða viðræðum ESB og Bretlands annars vegar og ESB og Noregs hins vegar um skiptingu veiðiheimilda úr hlutaðeigandi stofnum. Umræddar bráðabirgðheimildir fela í sér tímabundna yfirfærslu núverandi veiðiheimilda til fyrstu þriggja mánuða næsta árs með 25% hlutfalli af aflamarki eins og það var umsamið fyrir árið 2022. Er einhliða ákvörðun ESB um þessar heimildir talin nauðsynleg m.a. til tryggja samfellu fyrir sjómenn og sjálfbærar fiskveiðar á viðkomandi svæðum, þar til samningar nást við Bretland og Noreg.

Ísland á í viðræðum við ESB, Bretland, Noreg, Færeyjar og Grænland um kvótasetningu í makríl úr sameiginlegum stofni í Norður Atlandshafi. Samningar um skiptingu kvóta fyrir árið 2023 hafa enn ekki tekist en reynt verður til þrautar að ná samningi á fyrsta ársfjórðungi komandi árs.

Ný landbúnaðarstefna ESB

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti nýverið nýjar stefnumótandi áætlanir fyrir öll aðildarríki ESB, eina fyrir hvert ríki og tvær fyrir Belgíu, fyrir Vallóníu annars vegar og Flæmingjaland hins vegar og markar samþykktin nýtt upphaf sameiginlegrar landbúnaðarstefnu ESB (e. Common Agricultural Policy – (CAP)) sem gilda mun frá 1. janúar 2023.

Samkvæmt hinum nýju áætlunum munu styrkir til bænda nema 264 milljörðum evra á næstu 5 árum. Styrkjunum er ætlað að styðja við umskipti í átt að sjálfbærum og viðnámsþolnum landbúnaði og varðveita fjölbreytileika dreifbýlisins. Að auki munu einstök ríki veita viðbótarfjármagni upp á 43 milljarða evra og munu landbúnaðarstyrkir á tímabilinu því nema samtals 307 milljörðum evra á árunum 2023 til 2027. Verkefni sem ætlað er að styðja sérstaklega við jaðarbyggðir (e. outermost regions) falla utan framangreindra áætlana, svo sem styrkir við að koma framleiðslu bænda á markað og verkefni sem ætlað er að skapa atvinnutækifæri og hagvöxt á slíkum svæðum. Eru 6 milljarðar evra áætlaðir í slík verkefni á tímabilinu.

Nýjar áætlanir byggja á eftirfarandi gildum:

  • Sanngirni: Að upphæð beingreiðsla til bænda byggi að hluta á mati á þörf þeirra fyrir stuðning og að stutt sé við umhverfisvænan búskap með aukagreiðslum. Lendi bændur áföllum geta þeir sótt um aðstoð úr sérstökum bjargráðasjóði.
  • Grænnar áherslur: Þriðjungur af heildarfjármögnun landbúnaðarstefnunnar er eyrnamerktur verkefnum sem miða að því að bæta loftslag, vatnsgæði, jarðveg, líffræðilegan fjölbreytileika og dýravelferð. Markmiðið er að hvetja til nýrra og sjálfbærra búskaparhátta umfram það sem lögboðið er. Stuðningur við lífræna ræktun verður tvöfalt meiri á árinu 2027 en hann var árið 2018. Auk þess er áætlað að fjárfest verði í endurnýjanlegum orkugjöfum á bóndabýlum er skilað geti yfir 1.500 megawattstundum.
  • Félagslegur stuðningur: Ungir bændur verða studdir sérstaklega auk þess sem aukið fjármagn verður sett í ráðgjöf, þjálfun og miðlun þekkingar á meðal bænda og til að bæta vinnuskilyrði á býlum.

Afnám hindrana við útflutning á íslensku skyri

Ísland er með tvíhliða samning við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Samningurinn kveður annars vegar á um viðskiptafrelsi með tilteknar landbúnaðarvörur milli Íslands og ESB og hins vegar tollkvóta fyrir vörur sem teljast viðkvæmar fyrir framleiðendur á Íslandi eða í ESB eftir atvikum. Tollkvótar eru á innflutningi nautakjöts, svínakjöts, alifuglakjöts, osta og pylsa frá ESB til Íslands og eru þeir kvótar full nýttir á hverju ári. Á móti eru tollkvótar á innflutningi fyrir lambakjöt, svínakjöt, alifuglakjöt, pylsur, skyr, smjör og osta frá Íslandi til ESB. Þeir kvótar hafa ekki verið fullnýttir undanfarin ár m.a. vegna útgöngu Breta úr ESB en þangað hefur mikið verið flutt út m.a. af lambakjöti og skyri.

Tollkvóti með skyr frá Íslandi til ESB hefur hækkað undanfarin ár úr því að vera 308 tonn árið 2016 í 4.000 tonn árið 2021. Það hefur á hinn bóginn hamlað útflutningi að ESB hefur gert kröfu um að útflytjandi hafi tiltekna sögu um viðskipti með mjólkurafurðir innan sambandsins til að nýta tollkvótann, ella leggist tollur á vöruna frá viðkomandi aðila.  Hefur þetta hamlað nýjum útflytjendum enda leggjast 185,2 evru tollur á hver 100 kg sem flutt eru út eða um 280 kr. á kg.

Sendiráðið í Brussel, í samvinnu við utanríkisráðuneytið og matvælaráðuneytið, hefur að undanförnu tekið málið upp við landbúnaðarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB og hefur framkvæmdastjórnin nú ákveðið að falla frá framangreindum kröfum um viðskiptasögu og hafa áform um breytingar á reglum þar að lútandi nú verið birtar í samráðsgátt ESB. Gert er ráð fyrir að breyttar reglur taki gildi um miðjan febrúar nk. 

Samkomulag ráðherraráðs ESB og Ungverjalands í kjölfar deilna um réttarríkið

Ráðherraráð ESB ákvað í vikunni að skera, a.m.k. tímabundið, niður framlög til Ungverjalands úr bjargráðasjóðum ESB, sem nemur um 6,3 milljörðum evra. Ákvörðunin er tekin er tekin á grundvelli tillögu og umsagnar framkvæmdastjórnar ESB þar sem fram kemur að stjórnvöld í Ungverjalandi hafi ekki staðið við loforð um innleiðingu á nauðsynlegum umbótum tengdum réttarríkinu.

Upphafleg tillaga framkvæmdastjórnarinnar fól í sér að haldið yrði aftur af greiðslum upp á 13,3 milljarða evra – annars vegar 7,5 milljarða af fjárlögum ESB og hins vegar 5,8 milljarða úr bjargráðasjóðum sambandsins í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Fjallað var um aðdraganda þessa og umsögn framkvæmdastjórnarinnar í Vaktinni 2. desember sl. en stjórnvöld í Ungverjalandi ákváðu í mótmælaskyni að beita neitunarvaldi gegn áformum ESB í hinum ýmsu málum, t.a.m. 18 milljarða evra fjárhagsaðstoð til Úkraínu sem ætluð er í mannúðarmál, uppbyggingu og rekstur á sjúkrahúsum, neyðarskýli, innviði og grunnþjónustu í skugga stríðsins.

Ákvörðun ráðherraráðsins um að frysta greiðslu 6,3 milljarða til Ungverjalands tímabundið er þannig niðurstaða viðræðna við stjórnvöld í Ungverjalandi sem hafa nú heitið að draga til baka ákvörðun sína um að beita neitunarvaldi í lykilmálum sambandsins. Framangreind fjárhæð varðar einungis fjárlagahlutann en ráðherraráðið samþykkti að greiðsla fjármuna til Ungverja úr bjargráðasjóðnum yrði ekki fryst með því skilyrði að stjórnvöld þar í landi myndu ganga frá lykilumbótum sem snúa að vörnum gegnum spillingu og sjálfstæði dómstóla.

Í samræmi við samkomulagið samþykkt ráðherraráð ESB síðan í dag, 16. desember, nokkrar löggjafartillögur, að undangenginni skriflegri málsmeðferð, sem tengjast málinu.

Heimsókn ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til Brussel

Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu heimsótti Brussel 7. desember sl. Erindi hans var að funda með fulltrúum ESB á málefnasviðum ráðuneytisins og með Eftirlitsstofnun EFTA auk þess fundaði hann með starfsmönnum sendiráðsins.

Hann átti fund með tveimur ráðuneytisstjórum hjá framkvæmdastjórn ESB, annars vegar með Carlina Vitcheva sem stýrir DG MARE (Maritime Affairs and Fisheries) og hins vegar með Wolfgang Burtscher sem stýrir DG AGRI (Agriculture and Rural development). Að auki fundaði hann með Árna Páli Árnasyni, stjórnarmanni hjá Eftirlitsstofnun EFTA og fleiri starfsmönnum stofnunarinnar.

Á fundinum með Carlina Vitcheva ræddi Benedikt um stöðuna í strandríkjaviðræðum um skiptingu veiðiheimilda í makríl en ESB er aðili að þeim viðræðum fyrir hönd aðildarríkja ESB, markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir í ESB en þar sækist  Ísland eftir fullu viðskiptafrelsi auk þess sem rætt var almennt um samráð milli Íslands og ESB á sviði sjávarútvegs.

Á fundinum með Wolfgang Burtscher var megin umfjöllunarefnið tvíhliða samningur Íslands og ESB með landbúnaðarvörur en viðræður um endurskoðun þeirra samninga standa nú yfir. Þar hefur Ísland lagt áherslu á að ná fram betra jafnvægi í samninginn. Auk þess voru rædd tæknileg atriði m.a. um kröfu ESB um 25 tonna viðskiptasögu með mjólkurafurðir, sem forsendu innflutnings til ESB, sem hefur reynst íþyngjandi fyrir nýja útflytjendur íslenskra mjólkurvara en unnið hefur verið að því að leysa það mál á vettvangi sendiráðsins í Brussel. Á fundinum tilkynnti Burtscher að ESB myndi aflétta þessari kröfu, sbr. sérstaka umfjöllun í Vaktinni hér að framan.

Á fundinum með Árna Páli Árnasyni var fjallað um vandamál sem komið hafa upp í við framkvæmd EES-samningsins á Íslandi á sviði matvælaeftirlits og eftirliti með velferð dýra.

Loks kynnti ráðuneytisstjórinn skipulag, áherslur og helstu verkefni matvælaráðuneytisins fyrir starfsfólki sendiráðsins.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum