Hoppa yfir valmynd
24. júní 2022 Brussel-vaktin

Fyrirhugaðar reglur um flug og loftslagsmál: Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á sérstöðu landsins

Að þessu sinni er fjallað um:

  • markvissa hagsmunagæslu íslenskra stjórnvalda vegna tillagna um flug og loftslagsmál
  • leiðtogafund ESB þar sem Úkraína var efst á baugi
  • endurheimt vistkerfa og nýjar tillögur í því efni
  • stöðuna varðandi reglur um flokkun fjárfestinga út frá umhverfissjónarmiðum
  • júní-fund fjármála- og efnahagsráðherra ESB
  • áhyggjur EFTA-ríkjanna af því að fá ekki að vera með í geimfjarskiptakerfi ESB
  • forgangsmál Tékka sem taka við formennskukeflinu um mánaðamótin
  • ráðherrafund um félagsmál þar sem rætt var um réttindi launafólks í stafrænu umhverfi

Flug og loftslagsmál: Erindi forsætisráðherra til leiðtoga ESB

Fram hafa komið miklar áhyggjur flugrekenda og Isavia af áhrifum innleiðingar Fit for 55- pakka framkvæmdastjórnarinnar á verð flugmiða til Íslands og þ. a. l. samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar fyrir flug yfir Norður-Atlantshaf. Tillögur framkvæmdastjórnarinnar sem eru EES-tækar varðandi flug snúa m.a. að breytingum á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug (ETS losunarheimildir) og kröfu um íblöndun flugvélaeldsneytis með vistvænu eldsneyti.

Í tillögu um breytingu á tilskipun um losunarheimildir er m.a. lagt til að allar losunarheimildir verði boðnar upp ekki síðar en 2027, en í dag eru 30-35% losunarheimilda veittar án endurgjalds. Þá er lagt til að losunarheimildum á markaði verði fækkað um 4,2% í stað 2,2% í núgildandi tilskipun.

Í tillögu um íblöndun flugvélaeldsneytis er lagt til að íblöndun með vistvænu eldsneyti nemi um 2% fram til 2030, 6% til 2035, 20% 2035 o.s.frv. Þrátt fyrir að verð á vistvænu flugvélaeldsneyti sé 3-9 sinnum hærra en á hefðbundnu eldsneyti eru kostnaðaráhrifin í upphafi hlutfallslega lítil samanborið við kostnaðaráhrifin af kröfum um losunarheimildir.

Kostnaður flugrekenda sem hlýst af kröfum reglugerðanna vex í hlutfalli við verð á losunarheimildum, verð á íblöndunarefni og fjárhæð skatta. Hann vex sömuleiðis í hlutfalli við flogna vegalengd.  Gera má ráð fyrir að kostnaðnum verði velt yfir í verð flugmiða að því marki sem samkeppnisstaða flugrekenda á markaði leyfir. 

Lagt er til að breytingarnar taki gildi 2025 og samkvæmt mati flugrekenda eru kostnaðaráhrifin af verði ETS losunarheimilda á árunum eftir gildistöku margföld áhrifin af íblöndun eldsneytis og skattlagningu flugvélaeldsneytis. Árið 2035 þegar íblöndunarkrafan fer í 20% fara kostnaðaráhrif af íblöndunarkröfu að óbreyttu að vega þyngra í heildarkostnaði. Þegar þetta er skrifað er verðið af tonni losunarheimildar um 85 evrur, en var tæplega 25 Evrur árið 2019 þegar áhrifamat tillagnanna var unnið.

Meðalflugleið til Íslands frá áfangastöðum í Evrópu er um 2.200 km en meðalflugleið innan EES er áætluð um 800-850 km. Því eru kostnaðaráhrifin af tillögunum fyrir Ísland margfalt meiri en meðaláhrif annars staðar í Evrópu. Næstmestu kostnaðaráhrifin eru á flug til Kýpur og Möltu en áhrifamat framkvæmdastjórnarinnar fyrir tillögur að breytingu á viðskiptakerfinu gagnvart flugi byggist hins vegar allt á meðaltalsútreikningum.

Tillögurnar hafa einnig áhrif á samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar sem tengiflugvallar fyrir flug yfir Atlantshafið. Samkvæmt upplýsingum Isavia eru 40% farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll tengiflugsfarþegar. Flugfélög þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir flug frá Evrópu til Íslands. Lagt er til að fyrir flug út af EES gildi svokallað CORSIA-kerfi sem er alþjóðlegt og samþykkt af alþjóðaflugmálastofnuninni. CORSIA-kerfið gerir ráð fyrir að ríki geri mótvægisráðstafanir fyrir losun sem er umfram losun 2019, annaðhvort með kaupum á “offset-heimildum” eða umhverfisvænni tækni. Í dag hefur alþjóðlegt flug ekki náð því umfangi sem var 2019 svo ekki er enn þörf á mótvægisaðgerðum vegna CORSIA. Því þurfa flugrekendur að kaupa ETS losunarheimildir til Íslands og falla undir CORSIA frá Íslandi til N-Ameríku. Bandarískir flugrekendur með tengiflugvöll í Bandaríkjunum falla undir CORSIA alla leið frá EES til N-Ameríku og bera því engan kostnað vegna viðskiptakerfisins samanborið við kostnað vegna ETS-losunarheimilda við flug til Íslands, oft næstum hálfa leiðina.

Sendiráðið í Brussel hefur að undanförnu vakið athygli á þessum alvarlegu áhrifum tillagnanna meðal fastanefnda aðildarríkja ESB, framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins og kynnt þeim leiðir til að jafna samkeppnisstöðuna án þess að dregið verði úr áhrifum tillagnanna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig hafa sendiráð Íslands í höfuðborgum aðildarríkja ESB verið virkjuð í þessu skyni og utanríkisráðherra hefur tekið málið upp á öllum tvíhliða fundum utanríkisráðherrum ESB að undanförnu.

Þá hefur forsætisráðherra sent forseta framkvæmdastjórnarinnar, forseta leiðtogaráðs ESB og öllum leiðtogum aðildarríkjanna bréf þar sem hún lýsti þungum áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi tillagna á fjarlæg eyríki sem reiða sig algerlega flugsamgöngur við önnur ríki jafnframt því sem hún áréttaði metnað Íslands í loftslagsmálum. Forsætisráðherra benti á að flug og tengdar greinar leggja allt að 14% til þjóðarframleiðslu Íslands og að skert samkeppnisstaða Íslands í flugi myndi hafa alvarleg áhrif á hagkerfið og tíðni flugsamgangna við landið.

Í bréfinu benti forsætisráðherra á að tillögurnar, eins og þær væru settar fram gagnvart jaðarríkjum EES, fælu í sér verulega hættu á svokölluðum kolefnisleka. Hækkun verðs á flugmiðum innan EES myndi beina farþegum til ríkja og flugfélaga utan EES sem ekki lúta reglum sem hefðu sambærileg kostnaðaráhrif. 

Utanríkisráðherra, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og innviðaráðherra hafa einnig vakið athygli á erindi forsætisráðherra meðal sinna starfssystkina í aðildarríkjum ESB, bent á alvarleika málsins og lagt áherslu á mikilvægi þess að gerðar verði ráðstafanir til að mæta þessum sérstöku aðstæðum.

Leiðtogaráðið staðfestir að veita Úkraínu og Moldóvu stöðu umsóknarríkja

Á leiðtogafundi Evrópusambandsins 23. júní sl. var samþykkt yfirlýsing um Úkraínu og fleiri ríki sem hafa sóst eftir aðild. Fram kom að leiðtogaráðið teldi að framtíð Úkraínu, Moldóvu og Georgíu væri í Evrópusambandinu. Þá var samþykkt formlega að veita Úkraínu og Moldóvu stöðu umsóknarríkis.

Á fundinum var rætt um samstarf við önnur ríki í Evrópu. Í framhaldi af hugmyndum  Macrons Frakklandsforseta, sem áður hefur verið greint frá í Vaktinni, var rætt um að bjóða líktþenkjandi Evrópuríkjum sem ekki eru aðilar að ESB upp á nánara pólitískt samstarf en verið hefur. Tilgangurinn væri að efla pólitískt samtal og samstarf um sameiginlega hagsmuni til þess að styrkja öryggi, stöðugleika og velsæld í álfunni.

Viðamiklar tillögur um endurreisn vistkerfa

Framkvæmdastjórn ESB kynnti 22. júní sl. víðtækar tillögur sem miða að því að endurreisa löskuð vistkerfi. Samhliða verður dregið úr notkun ólífræns skordýraeiturs um helming fram til ársins 2030. Þessar tillögur eru tengdar áætlunum um lífræna fjölbreytni og frá býli til borðs. Ný löggjöf um endurheimt náttúrlegs umhverfis er sögð lykilþáttur í að afstýra hruni vistkerfa og stórfelldri hnignun lífrænnar fjölbreytni. Tillögurnar ná m.a. til votlendis, fljóta, skóga, graslendis, sjávarvistkerfa og þéttbýlis. Tilgangurinn er m.a. að skapa nýtt jafnvægi lífríkis og mannlegra athafna án þess að ganga ætíð svo langt að fella tiltekin svæði undir náttúruvernd.

Græna flokkunarkerfið – þungur róður í þinginu

Í febrúar sl. var um það fjallað í Vaktinni að mikil óánægja ríkti í Evrópuþinginu með þá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar að flokka kjarnorku og gas sem hreina orkugjafa við tiltekin skilyrði.  Vonir stóðu samt til að tillagan yrði samþykkt fyrir lok febrúar. Til að fella tillöguna þurfa a.m.k. 20 aðildarríki með 65% af heildaríbúafjölda ESB að vera á móti henni og auk þess þurfa 353 þingmenn af samtals 705 að hafna henni. Segja má að mótbyr gegn tillögunni hafi orðið enn meiri en búist var við og er hún enn til meðferðar í þinginu. Nú síðast felldi umhverfis- og efnahagsnefnd þingsins breytingatillöguna. Við afgreiðsluna heyrðust raddir um að tillagan væri einungis hrossakaup milli Frakka og Þjóðverja, þ.e. Frakkar vilja kjarnorkuna og Þjóðverjar gasið (e. natural gas), og væri einungis til þess fallin að minnka tiltrú á þessu mikilvæga verkefni. Þá eru þær raddir einnig farnar að heyrast að stríðið milli Úkraínu og Rússa setji tillöguna í nýtt samhengi, einkum hvað gasið varðar. Næsta skref er að þingið sjálft tekur málið til afgreiðslu snemma í júlí og telja margir að það standi afar tæpt.

Nýir tekjustofnar til umræðu hjá fjármála- og efnahagsráðherrum ESB

Á júnífundi fjármála- og efnahagsráðherra ESB var meðal annars rætt um stöðu efnahagsmála. Eins og við var að búast var einkum staldrað við verðbólguna og þróun hennar undanfarið. Farið var yfir helstu viðspyrnuaðgerðir aðildarríkjanna einkum varðandi stöðu fátækari heimila. Samstaða var um að grípa til frekari aðgerða ef nauðsyn krefði, jafnframt því að fylgjast grannt með þróuninni. 

Viðbótartekjur ESB (e. New own-resources). Eins og áður hefur verið fjallað um hér í Vaktinni þarf ESB viðbótartekjur til að fjármagna svokallaðan Bjargráðasjóð (e. Recover and Resilience Facility; RRF) sem á að styðja við efnahagslega uppbyggingu í aðildarríkjunum eftir Covid 19. Þrír flokkar tekna hafa einkum verið í umræðunni. Í fyrsta lagi sérstakur kolefnisskattur yfir landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism, CBAM), í öðru lagi nýtt ETS-kerfi varðandi losunarheimildir og í þriðja lagi skattur á alþjóðleg stórfyrirtæki á sviði stafrænnar þjónustu, þ.e. stafrænn skattur (e. Digital Tax), sem OECD hefur verið að útfæra. Á ráðherrafundinum var farið yfir stöðu mála í einstökum aðildarríkjum, en ofangreindar tillögur hafa hlotið mikinn mótbyr í evrópska þinginu. Stafræni skatturinn er enn til umræðu í ráðherraráði ESB en vonast er til að um hann náist samkomulag í byrjun júlí. CBAM hefur verið harðlega gagnrýndur af ýmsum hagsmunasamtökum, meðal annars af samtökum áliðnaðar í Evrópu. Þá mun nýtt ETS-kerfi að óbreyttu hafa mikil áhrif á íslenska flugmarkaðinn. Rétt er að taka fram að sendiráði Íslands í Brussel hafa ekki borist fyrirspurnir frá íslenskum álframleiðendum um CBAM enn sem komið er en öðru máli gegnir um flugrekendur á Íslandi, sbr. fyrri umfjöllun í Vaktinni.

Fjármálamarkaðurinn. Þá var rætt um stöðu mála á fjármálamarkaði eins og alltaf. Fyrst ber að nefna stöðuna hvað varðar breytta löggjöf gagnvart peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar virðast hlutirnir á réttu róli, en mikið var rætt um ALMA, nýja sameiginlega eftirlitsstofnun ESB, sem EES/EFTA ríkin hafa gert athugasemdir við. Sama er að segja um gerðina Solvency II sem snýr að tryggingastarfsemi, en ráðherrarnir samþykktu framkomnar breytingar á henni á fundinum. Meðfylgjandi er slóð á fréttatilkynningu um málið; https://www.consilium.europa.eu/en/press/press-releases/2022/06/17/solvency-ii-council-agrees-its-position-on-updated-rules-for-insurance-companies/ Næst voru samþykktar ýmsar breytingar sem varða reglugerðina um einn fjármálamarkað (e. Capital Markets Union), en afgreiðslan á móðurreglugerðinni sjálfri er í bið. Hér er um að ræða eitt af meginmálum frönsku formennskunnar og munu þeir berjast fyrir því að ná henni í gegn fyrir 1. júlí.

Stækkun evrusvæðisins. Á fundinum samþykkti ráðherraráðið að mæla með aðild Króata að evrusvæðinu og að þar yrði tekin upp evra í ársbyrjun 2023. Reiknað er með að evrópska ráðherraráðið (e. European Council) afgreiði málið endanlega á fundi sínum síðar í mánuðinum. Króatía er 20. aðildarríki ESB til að taka upp evru. Þau sem standa utan eru, auk Danmerkur og Svíþjóðar, Búlgaría, Pólland, Ungverjaland, Rúmenía og Tékkland.

Staða aðildarríkja ESB gagnvart Bjargráðasjóðnum. Á fundinum var farið yfir hvaða ríki hefðu þegar skilað áætlun um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir til að mæta skilyrðum um aðstoð frá RRF. Áætlun Póllands var samþykkt á fundinum en þeir voru síðastir til að skila. Á meðfylgjandi slóð er að finna frekari upplýsingar um aðgerðir einstakra ríkja. https://www.consilium.europa.eu/en/press/press-releases/2022/06/17/european-semester-2022-country-specific-recommendations-agreed/.

Samningur Noregs við ESB gegn svikum á vsk. Árið 2018 gekk í gildi samningur milli norskra stjórnvalda og ESB um gagnkvæma aðstoð varðandi „administrative cooperation, combatting fraud and recovery of VAT claims“.  Á umræddum fundi samþykktu ráðherrarnir beiðni framkvæmdastjórnarinnar um að hefja viðræður um endurnýjun samningsins í því skyni að styrkja enn frekar samninginn frá 2018. Hér er um mjög áhugavert mál að ræða og mun fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra í sendiráðinu eiga fund með sérfræðingi í norsku fastanefndinni um málið eins fljótt og kostur er. Með fylgir fréttatilkynning sem gefin var út í tilefni samþykktarinnar. https://www.consilium.europa.eu/en/press/press-releases/2022/06/17/fight-against-vat-fraud-council-authorises-deepening-cooperation-with-norway/

Önnur mál. Ýmis önnur mál voru rædd á fundinum, eins og fyrirtækjaskattlagning (e. Business Taxation – Code of Conduct Group), alþjóðlegar reglur um útboð (e. Procurement Instrument) og endurskoðun á tilskipuninni um orkuskattlagningu (e. Engergy Taxation). Ekki er talin þörf á að fara nánar yfir þau mál á þessum vettvangi.

Bráðabirgasamkomulag um aukið samstarf við lýðheilsuvarnir

Samningamenn ráðherraráðsins og þingsins náðu samkomulagi í vikunni um reglur er varða alvarlega ógn við lýðheilsu þvert á landamæri. Reglunum er ætlað að auka viðbúnað og efla viðbrögð við slíkar aðstæður, að sjálfsögu í ljósi reynslunnar af Covid 19. Gert er ráð fyrir að hægt verði að lýsa yfir lýðheilsvá á ESB-stigi sem muni hrinda af stað sameiginlegum aðgerðum er varða m.a. framboð á lyfjum.

Þessar reglur eru hluti af fjölþættum tillögum um aukið samstarf innan ESB á sviði heilbrigðis- og lýðheilsumála. Norsk og íslensk stjórnvöld hafa komið á framfæri áhuga á að vera með í þessu samstarfi.

EFTA-ríkin vilja aðild að fyrirhuguðu fjarskiptakerfi í geimnum

EFTA-ríkin þrjú, Ísland, Liechtenstein og Noregur skiluðu 17. júní sl. sameiginlegri EES EFTA-umsögn um  tillögu framkvæmdastjórnarinnar að reglugerð um áætlun um öruggt fjarskiptakerfi í geimnum.

Tilgangurinn með tillögu framkvæmdastjórnarinnar er að setja á laggirnar kerfi fjarskipta sem er öruggt og hagkvæmt til lengri tíma litið. Gert er ráð fyrir stuðningi við að koma þýðingarmiklum innviðum á laggirnar, eftirliti og að kerfið bjóði upp á notkunarmöguleika sem séu afgerandi fyrir efnahag, öryggi og varnir aðildarríkjanna. Einkaaðilum verður einnig veittur aðgangur að kerfinu til að bjóða upp á þjónustu í hagnaðarskyni.

Í umsögninni er því fagnað að EFTA-ríkjunum bjóðist þátttaka. Hins vegar sé sú leið sem fyrirséð er ekki sú besta og muni í raun útiloka þátttöku. Þess í stað eigi lagalegur grunnur samstarfs að vera í EES-samningnum. Þannig verði hægt að tryggja fulla og skilvirka þátttöku EFTA-ríkjanna.

Orkuöryggi og kjarnorka meðal forgangsmála Tékka

Tékkar taka við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins 1. júlí. Kynntu tékknesk stjórnvöld forgangsmál sín 15. júní sl. Þar kom fram að stríðið í Úkraínu myndi setja sitt mark á formennskuna, bæði að því er varðar mannúðaraðstoð, móttöku flóttamanna og stuðning við aðildarumsókn Úkraínu. Tékkar hafa ásamt Pólverjum og Eystrasaltsþjóðunum verið dyggustu stuðningsmenn aðildar Úkraínu að ESB. Áform eru um leiðtogafund þar sem Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu, yrði boðin þátttaka í október.

Annað forgangsmál er orkuöryggi. Sérstök áhersla verður lögð á að viðurkenna sess kjarnorkunnar við raforkuframleiðslu. Þetta er mjög umdeilt atriði, sbr. umræður í Evrópuþinginu um flokkun fjárfestinga sem greint er frá hér á undan. Tékkar eru þarna bandamenn Frakka sem stuðningsmenn kjarnorkunnar.

Af öðrum forgangsmálum má nefna netöryggi, efnahagslegt sjálfstæði Evrópu og lýðræðismál, sbr. nýafstaðna ráðstefnu um framtíð Evrópu.

Rætt um lágmarkslaun og vettvangsvinnu

Á fundi ráðherra félagsmála innan ESB 16. júní sl. var farið yfir stöðu helstu mála sem hafa verið í vinnslu á sviði vinnumarkaðs og félagsmála. Mest áhersla var lögð á tilskipun um lágmarkslaun en í síðustu viku náðist pólitísk sátt um efni tilskipunarinnar auk þess sem rætt var um vettvangsvinnu (e. platform work) sem verður æ fyrirferðarmeiri á evrópskum vinnumarkaði.

Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar á sviði atvinnu- og félagsmála kynnti efni tilskipunarinnar sem hann sagði  vera mikilvægt skref í þá átt að bæta stöðu launþega í Evrópu, ekki síst þeirra í lægstu tekjuhópunum, þar sem  konur, ungt fólk og ófaglært eru í meirihluta. Tilskipunin setji ramma fyrir regluverk um fullnægjandi lámarkslaun og styðji við gerð kjarasamninga um launasetningu og aðgang starfsmanna að  verkalýðsfélögum. Hann lagði áherslu á að tilskipunin tæki fullt tillit til sjálfstæðis ríkjanna en hvorki er gert ráð fyrir samræmingu lágmarkslauna né samræmingu regluverks í því skyni að tryggja lágmarkslaun. Tilskipunin væri auk þess nauðsynleg til að bæta kjör í Evrópu hvað varðaði að laun dygðu til framfærslu.

Gert er ráð fyrir að endanlegur texti tilskipunarinnar verði samþykktur af Evrópuþinginu í júlí.

Vinnumálaráðherrar Svíþjóðar og Danmerkur voru þeir einu sem lýstu ekki yfir stuðningi við tilskipun um lágmarkslaun.   Þeir tóku báðir fram að ekki myndi koma til þess að Svíþjóð og Danmörk myndu breyta sinni aðferðafræði við ákvörðun launa með almennum samningum á vinnumarkaði, enda væri þess ekki krafist í gerðinni að þau ríki sem hefðu virka þátttöku aðila vinnumarkaðarins, eins og háttar til í  Danmörku og Svíþjóð, breyttu aðferðum sínum eða verklagi.

Tilskipunin hefur verið til skoðunar hjá sérfræðingum EFTA-ríkjanna. Bráðabirgðamat er að hún falli ekki undir gildissvið EES-samningsins.

Þá hefur loks náðst samkomulag um efni tilskipunar um skyldu fyrirtækja til að jafna hlutfall kynjanna í stjórnum og e.a. framkvæmdastjórnum fyrirtækja en framkvæmdastjórnin setti fyrst fram tillögu þessa efnis á árinu 2012, en þess má geta að ákvæði þessa efnis hafa verið í íslenskum lögum frá því á árinu 2010.

Tilskipuninni er ætlað að tryggja aukið jafnvægi kynjanna í stjórnum fyrirtækja, en þrátt fyrir að yfir 60% þeirra sem útskrifast úr háskólum í Evrópu séu konur, eru þær enn í talsverðum minnihluta í stjórnum fyrirtækja. Í tilskipuninni er gerð krafa til þess að fyrir árið 2026 verði a.m.k. 40% stjórnarmanna félaga skráðra á markaði af því kyni sem hallar á í stjórninni. Ef löndin kjósa að láta þetta einnig ná til stjórnenda í fyrirtækjunum er viðmiðið 33% af því kyni sem hallar á fyrir árið 2026. Hafi fyrirtækin ekki náð þessu markmiði er gerð krafa til þess að þau setji fram áætlun um það hvernig þau hyggjast haga kjöri stjórnarmanna til þess að markmiðinu verði náð.

Vettvangsvinna hefur orðið æ meira áberandi á vinnumarkaði að undanförnu. Um 28 milljónir manna starfa nú við stafræna vinnuvettvanga á ýmsum sviðum, og áætlað er að 2025 verði sá fjöldi kominn upp í 40 milljónir. Meginmarkmið tillögunnar snúa að því að tryggja réttarstöðu starfsmanna og auka gagnsæi og sanngirni við stýringu vinnunnar og ákvörðun endurgjalds. Þá er talið nauðsynlegt að skýra réttarstöðuna hvað varðar það að þessir vettvangar starfa gjarnan yfir landamæri.

Framkvæmdastjórnin hefur lagt áherslu á þetta mál undir forystu Frakka og búist er við því að Tékkar muni halda áfram með það í sinni formennsku. 

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum