Hoppa yfir valmynd
08. júlí 2022 Brussel-vaktin

Áfram þarf að vakta áhrif tillagna í loftslagsmálum á flug til og frá Íslandi

Að þessu sinni er fjallað um:

  • afgreiðslu umhverfisráðherra ESB á tillögum um loftslagsmál
  • fund heilbrigðisráðherra ESB þar sem rætt var um gagnagrunn og stefnu á heimsvísu
  • nýja framtíðarskýrslu um grænu og stafrænu byltingarnar
  • samábyrgð vegna umsókna um alþjóðlega vernd
  • 1. umræðu í Evrópuþinginu um stafræna löggjöf

 

Umhverfisráðherrar ESB afgreiða loftslagstillögur

Eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi og öðrum lagði framkvæmdastjórnin fram í júlí 2021 viðamiklar tillögur um viðbrögð í loftslagsmálum undir heitinu Fit for 55. Markmið tillagnanna er að draga úr loftslagsmengun aðildarríkjanna um að a.m.k. 55% fyrir 2030 miðað við 1990 og ná kolefnishlutleysi árið 2050. Nú ári síðar er óhætt að segja að aðildarríkjunum og Evrópuþinginu hafi gengið ágætlega að ná fram sameiginlegum niðurstöðum þótt á stundum hafi verið tekist á og leita hafi þurft málamiðlana á ýmsum sviðum bæði innan Evrópuþingsins og meðal aðildarríkjanna.

Ísland hefur fylgst mjög grannt með þessum pakka bæði í meðferð aðildarríkjanna og í þinginu þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland, einkum og sér í lagi þegar kemur að löggjöf sem tekur til flugsamgangna. Hafa fulltrúar Íslands beitt sér sérstaklega með því að kynna sjónarmið Íslands fyrir fulltrúum þingnefnda og fyrir fulltrúum allra aðildarríkja ESB og tala fyrir tilteknum breytingatillögum.

Í lok júní var haldinn maraþonfundur umhverfisráðherra ESB þar sem málamiðlanir fundust um síðustu tillögur pakkans. Má þar helst nefna að samþykkt var að banna brunahreyfla í nýjum bifreiðum frá 2035 en á tímabilinu mun framkvæmdastjórnin skoða möguleikana á að nota annars konar eldsneyti (e-fuel) fyrir þessa hreyfla en það var gert að kröfu Þýskalands.

Hvað varðar flugstarfsemi þá var samþykkt að draga jafnt og þétt úr úthlutun gjaldfrjálsra losunarheimilda til 2027 og að aðlaga ETS kerfið í flugi að alþjóðlegu gjaldakerfi sem beitt er gagnvart flugferðum utan EES. Er gert ráð fyrir því að breyttar reglur fyrir flugið gildi eingöngu í flugi innan EES (og til Bretlands og Sviss) en utan þess svæðis gildi hið alþjóðlega kerfi. Á sama tíma tókst smærri ríkjum ESB ásamt Grikkjum að knýja fram sérstakar tímabundnar lausnir þegar kemur að þeim.

Samþykkt var að setja á fót sérstakt viðskiptakerfi með losunarheimildir sem nái til húsbygginga og samgangna á landi. Einnig var að ákveðið að taka sjóflutninga inn í viðskiptakerfið með losunarheimildir. Málamiðlun náðist um að setja á fót félagslegan loftslagssjóð (Social Climate Fund) til að styðja við aðlögun heimila, fyrirtækja og notkun samgöngutækja að breyttu kerfi losunarheimilda. Verða alls 59 milljarðar evra til ráðstöfunar úr þessum sjóði frá 2027-2032 þegar þessar nýju reglur hafa gengið í gildi. Að lokum náðist samstaða meðal aðildarríkjanna um uppfærð markmið þegar kemur að geirum sem ekki falla undir kerfi losunarheimilda (til dæmis landbúnaður, sorpvinnsla og innanlandssamgöngur á sjó) og að setja markmið um að draga úr losun um 40% miðað við 2005.

Það sem tekur nú við er að aðildarríkin og Evrópuþingið setjast á komandi hausti að samningaborðinu og leita að samkomulagi um endanlegar lagabreytingar. Er ljóst að áfram þarf að vakta áhrif þessara tillagna, m.a. á flug til og frá Íslandi, og koma röksemdum um sérstöðu Íslands skýrlega á framfæri.

Rætt um samevrópskan gagnagrunn fyrir heilbrigðisupplýsingar

Fundur heilbrigðisráðherra ESB nýlega var einkum haldinn til að ræða tvö mikilvæg og brýn málefni. Annars vegar tillögur sem nú liggja fyrir um samevrópskan gagnagrunn á heilbrigðissviði (European Health Data Space,  EHDS) og hins vegar endurskoðun á alþjóðlegri heilbrigðisstefnu Evrópusambandsins og hlutverki þess við að leggja heilbrigðismálum annarra ríkja heimsins lið (EU Global Health Strategy). 

Í opnunarræðu Stellu Kyriakides, framkvæmdastjóra heilbrigðismála og matvælaöryggis hjá Evrópusambandinu, vakti hún m.a. athygli á að búið væri að kaupa 110 þúsund bóluefnaskammta fyrir aðildarríkin gegn apabólu. Kaupin væru gott dæmi um skjót viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjanna og til marks um raunverulegra virkni Evrópustofnunar um neyðarviðbúnað og viðbrögð vegna heilsuvár (HERA) þegar ný ógn steðjar að. Í fyrsta skipti væru sameiginleg innkaup fjármögnuð með sjóðum Evrópusambandsins.  Þá sagði hún apabóluna nú minna enn einu sinni á að til staðar þurfi að vera kerfi um alþjóðlegt samstarf (global strategy) um lýðheilsuvarnir.

Samevrópskur gagnagrunnur heilbrigðisupplýsinga (EHDS)                                                                                     

Tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um samevrópskan gagnagrunn heilbrigðisupplýsinga var samþykkt 3. maí sl. Gerð var grein fyrir honum í stuttri umfjöllun í Vaktinni 13. maí sl. Grunninum er ætlað að vera ein af meginstoðunum við uppbyggingu á fjölþættu öflugra samstarfi Evrópusambandsríkja á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union). Markmiðin með grunninum eru að auðvelda einstaklingum aðgengi að eigin heilsufarsgögnum og heilbrigðisstarfsfólki að veita betri heilbrigðisþjónustu óháð staðsetningu. Þá er grunninum einnig ætlað að styrkja vísindastarf og nýsköpun auk þess að styðja við stefnumörkun stjórnmálamanna.

Ráherrar lýstu ánægju sinni með tillöguna og telja hana vera mikilvægan grunn til að skiptast á öruggum heilbrigðisupplýsingum yfir landamæri sem bæta muni heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Covid-19 faraldurinn hafi sýnt fram á mikilvægi gagna af þessu tagi. Þá muni grunnurinn styðja við aukna skilvirkni heilbrigðisgeirans og efla vísindarannsóknir og nýsköpun á sviðinu. Nokkur ríki bentu á að grunnurinn gæti orðið til þess að styrkja samstarf einkageirans og hins opinbera sem væri af hinu góða.  Ráðherrarnir telja verkefnið engu að síður vandmeðfarið og álitaefnin mörg. Hugtökin traust, öryggi og siðferði lýsa þeim ágætlega. Almenningur þarf að treysta grunninum fyrir eigin heilsufarsgögnum, í því skiptir meginmáli að öryggi gagnanna og siðferðið við meðferð þeirra sé tryggt. Þá vöktu ráðherrar athygli á að virða þyrfti fjölbreytileika ríkjanna og taka tillit til stöðu og sjálfræðis hvers og eins, en aðildarríkin eru misjafnlega á vegi stödd m.a. hvað varðar innviði, lagaumhverfi og stafræna þróun til að takast á við uppbyggingu af þessu tagi.  Þá eru einnig uppi áhyggjur af kostnaði við að koma grunninum í framkvæmd.

Endurskoðun á alþjóðlegri heilbrigðisstefnu Evrópusambandsins

COVID-19 heimsfaraldurinn og áhrif innrásarinnar í Úkraínu á heilsu og heilbrigðiskerfi sýnir nauðsyn alþjóðlegs samstarfs og samvinnu.  Í ljósi þess hefur framkvæmdastjórnin ákveðið að endurskoða alþjóðastefnu Evrópusambandsins í heilbrigðismálum, en núverandi stefna er frá árinu 2010. Stella Kyriakides sagði stefnuna þurfa að hafa skýrar áherslur, auk þess að vera hnitmiðuð og áhrifamikil.  Í kjölfar fundar heilbrigðisráðaherra G7 ríkja 19. maí sl. tilkynnti framkvæmdastjórnin formlega að hefja ætti vinnu við þróa nýja alþjóðlega heilbrigðisstefnu þar sem allir hagsmunaaðilar eru hvattir til að taka þátt. Undanfarið hefur Evrópusambandið unnið að slíkri stefnu.  Til marks um það var á fundi heilbrigðisráðherra sem haldinn var í Lyon í febrúar sl. rætt hvort og hvernig styrkja mætti hlutverk sambandsins til að leggja heilbrigðiskerfum annarra ríka heimsins lið. Þá veitti ráðherraráðið framkvæmdastjórninni heimild, 7. mars sl., til að hefja viðræður um aukið alþjóðlegt samstarf Evrópusambandsins og Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar til að undirbúa og bregðast við heilbrigðis- og lýðheilsuógnum með samræmdum hætti. Þessu til viðbótar var tilkynnt, 9. júní sl., að framkvæmdastjórnin og Bandaríkin hefðu undirritað samkomulag um samstarf á sama sviði.

Ráðherrarnir fögnuðu þessari ákvörðun. Þeir lögðu áherslu á mikilvægi þessarar stefnu við að endurskilgreina forgangsröðun í heilbrigðismálum á heimsvísu, svo sem að styrkja heilbrigðiskerfin, undirbúa og bregðast við heilbrigðiskreppum og um leið stuðla að One Health hugmyndafræðinni.  Þá kölluðu ráðherrar eftir því að stefnan yrði til þess að styrkja áhrif Evrópusambandsins á heilbrigðismál á alþjóðavettvangi, en sambandið hafi sýnt sig vera leiðandi afl í samhæfðu og árangursríku viðbragði gegn Covid-19 heimsfaraldrinum.

Framtíðarskýrsla framkvæmdastjórnarinnar um grænu og stafrænu byltingarnar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf nýverið út skýrslu um framtíðarsýn þess á grænu og stafrænu byltingarnar og hvernig þær geta styrkt hvor aðra og unnið að því að ná sama markmiði. Skýrslan lítur fram til ársins 2050.

Í stuttu máli mætti segja að eitt helsta verkefni næstu ára snúi að nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og hinu snjalla dreifikerfi, sem geti bæði náð umhverfismarkmiðum sambandsins og aukið sjálfstæði þess til aðgerða (e. strategic autonomy). Endurnýjunin á orkukerfum og áherslan á græna orku bætir síðan byggingar og umhverfi borga sem leiðir til aukinna lífsgæða. Almenningssamgöngur geta á sama hátt notið góðs af þessum aðgerðum og aukin gagnasöfnun um skilvirkni þeirra og gæði ætti að verða öllum notendum til góða. Þá getur aukin gagnasöfnun nýst til þess að betur skilja framboð og eftirspurn á nauðsynlegum hrávörum, og sjaldgæfum málmum, sem nýtast t.a.m. í framleiðslu á rafhlöðum, sem m.a. nýtast í samgöngur. Sjálfbærni og endurvinnsla eru lykilhugtök þegar kemur að sjaldgæfum málmum – þarna má minnast á væntanlega reglugerð ESB um framleiðslu á örgjörvum og hálfleiðurum en hún á að auka á getu sambandsins til þess að stjórna sinni eigin stafrænu framtíð. Landbúnaður gæti sérstaklega notið góðs af aukinni gagnasöfnun og betra umhverfi, auk þess sem dregið yrði úr notkun efna sem hafa slæm áhrif á umhverfið. Það á eftir að verða nauðsynlegt að sjá til þess að allir haghafar njóti góðs af þessum miklu breytingum og vitanlega mun kostnaðurinn móta þær að einhverju leyti. Samræmdar reglur og staðlar eru verkefninu svo nauðsynleg, sem og aukin geta í netöryggismálum til þess að tryggja öll þau stafrænu gögn sem verða til í svona verkefnum.

Yfirlýsing frönsku formennskunnar um samábyrgðarkerfi umsókna um alþjóðlega vernd 

Hinn 23. maí 2022 lagði franska formennskan fram tillögu að sameiginlegri yfirlýsingu sem aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) og samstarfsríki Schengen (SAC), Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein, voru beðin um að undirrita og varðar tímabundið og valkvætt samábyrgðarkerfi þegar kemur að umsóknum um alþjóðlega vernd. Yfirlýsingin er tilraun formennskunnar til að þoka áfram viðræðum um þær tillögur sem mynda heildarpakka ESB í útlendingamálum en lítið sem ekkert hefur þokast í þeim málum síðan 2016.

Ísland er einungis skuldbundið til að innleiða þær reglur innan heildarpakka ESB sem varða þróun á Schengen-regluverkinu og breytingar á málsmeðferðarreglum Dyflinnarmála og fingrafaragagnagrunni EURODAC sem rúmast innan þess samnings sem Ísland hefur gert við ESB. Ísland er því ekki skuldbundið af málsmeðferðarreglum ESB í málefnum umsækjenda um vernd og þar með reglum um samábyrgð ríkja innan ESB. Svonefnd samábyrgð (e. solidarity) í þessum skilningi kveður á um að jafna byrði innan Evrópu vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Sum framlínuríki, þá einkum svokölluð Med5 ríkin, (Grikkland, Ítalía, Spánn, Kýpur og Malta), sem liggja að Miðjarðarhafinu og hafa löngum verið fyrsti áfangastaður flestra umsækjanda um alþjóðlega vernd, hafa lengi kallað eftir skyldubundnu samábyrgðarkerfi sem fæli í sér að aðildarríki taki við umsækjendum um vernd frá þessum tilteknu framlínuríkjum til að létta þeim róðurinn og axli þannig ábyrgð á fjölda umsækjenda um vernd til jafns við framlínuríkin. Almennt hafa önnur ríki innan Evrópu ekki verið tilbúin til að taka upp slíkt kerfi af mismunandi ástæðum. Á það einkum við um ríki sem glíma við þunga í þessum málaflokki heima fyrir, m.a. vegna þess að umsækjendur um vernd í Med5 framlínuríkjun halda áfram för sinni og sækja jafnframt um alþjóðlega vernd annars staðar (e. secondary movement). Önnur ríki vísa til þess að Dyflinnarreglugerðin sé grunnur samábyrgðar meðal þátttökuríkja. Sum ríki hafa jafnvel ekki fallist á að ábyrgð á meðferð umsækjenda um vernd verði deilt niður á önnur ríki. Hvert ríki verði að bera ábyrgð á því fólki sem komi yfir landamæri þess. Eftir því sem lengra líður á umræðuna um þennan pakka hafa sum ríki heldur harðnað í afstöðu sinni og nú er svo komið að Med5 ríkin hafa hafnað því fyrir sitt leyti að neitt úr „pakkanum“ verði afgreitt, fyrr en áformin um samábyrgð verði samþykkt. Frá því heildarpakkinn var lagður fram 2016 hafa formennskuríkin lagt kapp á að leysa þennan hnút með alls kyns tillögum en án árangurs.

Líkt og að framan er rakið er Ísland ekki skuldbundið til að innleiða samábyrgðarreglur ESB og hefur ítrekað mikilvægi þeirrar skýru afmörkunar á fundum innan ráðsins, bæði á vettvangi ráðherra og sendiherra. Ísland hefur þó ávallt lýst sig reiðubúið að axla ábyrgð en þó eingöngu á valkvæðum grundvelli og á eigin forsendum.

Ísland hefur hagsmuna að gæta þegar kemur að þeim reglugerðum sem við erum annað hvort skuldbundin af í gegnum Schengen-samstarfið, s.s. reglugerðin um forskoðun umsókna á ytri landamærum (e. Screening) og þeim reglugerðum sem við erum þátttakendur í, þ.e. Dyflinnarreglugerðinni og EURODAC og því mikilvægt að hægt verði að þoka áfram mikilvægum breytingum á þessum reglugerðum. Í yfirlýsingunni eru jafnframt lagðar skyldur á herðar aðildarríkja að hraða flutningum á grundvelli Dyflinnarreglugerðinnar og koma í veg fyrir áframhaldandi för (e. Secondary movement), sem er mikilvægt fyrir Ísland.

Yfirlýsingin er bæði tímabundin og lagalega óbindandi en samkvæmt bráðabirgðaútreikningi frönsku formennskunnar, í samræmi við reiknireglu yfirlýsingarinnar, ætti Ísland að taka við 20 einstaklingum í flutningsaðstoð á þessu árs tímabili sem yfirlýsingin gildir. Í yfirlýsingunni má þó finna ákveðna fyrirvara sem aðildarríki geta nýtt sér vegna erfiðrar stöðu heimafyrir, s.s. vegna þrýstings á móttökukerfi. Hvert ríki getur í ljósi þessa ákveðið, tímabundið, að taka ekki við einstaklingum í gegnum flutningsaðstoð, en þó er gert ráð fyrir að staðið verði við fyrirheit um móttöku innan 12 mánaða. Mikilvægt er að horfa á yfirlýsinguna og stuðning við hana í samhengi við stöðu mála hér á landi, sem einkennist af miklum fjölda fólks í búsetuúrræðum, bæði umsækjendum um vernd, Úkraínumönnum með tímabundna vernd og einstaklingum sem hafa fengið endanlega synjun og vænta má að verði fluttir úr landi á næstunni. Verður því fremur horft til þess að óbreyttu að taka á móti umræddum 20 einstaklingum á síðari hluta þessa 12 mánaða tímabils.

Enn sem komið er hafa 18 aðildarríki ESB og öll samstarfsríki Schengen, þ. á m. Ísland, sbr. ákvörðun ríkisstjórnarinnar 1. júlí sl., undirritað yfirlýsinguna. Líkt og önnur samstarfsríki Schengen undirritaði Ísland yfirlýsinguna með orðunum „in the spirit of compromise“ og veitti þannig fulltingi sitt til að leysa þann hnút sem þessi mál hafa verið í innan ráðherraráðs ESB síðan 2016. Þá verður einnig gerður fyrirvari um að undirritunin og samþykki yfirlýsingarinnar teljist hvorki til þróunar á skuldbindingum okkar gagnvart Schengen og Dublin samstarfinu og hafi því engin áhrif á skuldbindingar Íslands, þegar kemur að framtíðarfyrirkomulagi, á reglum um samábyrgð innan Evrópu. Reiknað er með að Ísland taki á móti 20 manns en móttaka fari fram síðar á tímabilinu.

Grundvallarlöggjöf um stafræn málefni – fyrstu umræðu í Evrópuþinginu lokið

Evrópuþingið lauk fyrstu umræðu fyrr í vikunni um löggjöf um stafræn málefni sem talin er marka þáttaskil á því sviði. Er þar um að ræða annars vegar reglugerð um stafrænan markað og hins vegar um stafræna þjónustu. Reglurnar beinast ekki síst að stærstu netfyrirtækjunum og varða réttindi notenda og samkeppnisreglur.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum