Hoppa yfir valmynd
07. október 2022 Brussel-vaktin

Samstaða gegn Rússlandi

Að þessu sinni er fjallað um:

  • samkomu evrópskra þjóðarleiðtoga (EPC)
  • fund leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB)
  • áttunda pakka þvingunarráðstafana ESB gagnvart Rússlandi
  • neyðarráðstafanir til að sporna við háu orkuverði
  • reglur um ríkisaðstoð og aðgerðir aðildarríkja til bregðast við háu orkuverði
  • fundi fjármála- og efnahagsráðherra ESB
  • fund landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ESB
  • ráðherrafund ESB um samkeppnismál og málefni innri markaðarins
  • áhrif tillagna um breytingar á ETS viðskiptakerfinu á flug til Íslands
  • tillögur framkvæmdastjórnar ESB um aðlögun skaðsemisábyrgðarreglna að stafrænum veruleika og hringrásarhagkerfinu
  • skýrslu Endurskoðunarréttar ESB um aðgerðir gegn ólögmætum fiskveiðum

Samkoma evrópskra þjóðarleiðtoga í Prag

Evrópskir þjóðarleiðtogar komu saman í Prag í gær, 6. október, á nýjum vettvangi sem nefndur hefur verið European Political Community (EPC). Þjóðarleiðtogum svotil allra ríkja Evrópu, að frátöldu Rússlandi og Hvíta Rússlandi, var boðið til fundarins og sótti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd. Auk þjóðarleiðtoganna sóttu fundinn forseti framkvæmdastjórnar ESB, Urslua von der Leyen, og forseti leiðtogaráðs ESB, Charles Michel. Jafnvel þótt áhersla væri lögð á að samkoman væri samstarf ríkisstjórna (e. intergovernmental) höfðu forseti leiðtogaráðs ESB og tékkneska formennskan veg og vanda af undirbúningi fundarins.

Markmið hins nýja vettvangs er að skapa leiðtogum Evrópuríkja innan og utan ESB vettvang til skoðanaskipta og stuðla að samvinnu um viðbrögð við aðsteðjandi áskorunum á viðsjárverðum tímum þegar orkukreppa vofir yfir, verðbólga fer vaxandi, samdráttar gætir í efnahagslífinu, ójöfnuður fer vaxandi, straumur flóttafólks ríður yfir og loftslagsbreytingar láta að sér kveða.

Fundurinn hófst á opnunarathöfn þar sem gestgjafinn, Petr Fiala forsætisráðherra Tékklands, bauð leiðtogana 44 velkomna. Í ávarpi sínu minntist hann vorsins í Prag þegar sovéski herinn barði niður lýðræðisumbætur í Tékkland og bar saman við árás Rússlands á Úkraínu. Á eftir honum ávarpaði Selenskí Úkraínuforseti samkomuna og síðan leiðtogar þriggja ríkja utan ESB. Jonas Gahr Störe forsætisráðherra Noregs fjallaði um orkumál í sínu ávarpi og lýsti Noreg reiðubúinn til að leggja Evrópu lið í orkukreppunni, sbr. sameiginlega yfirlýsingu hans og forseta framkvæmdastjórnar ESB sem birt var í gær. Edi Rama forsætisráðherra Albaníu lagði áherslu á að umsóknarríkin á Vestur-Balkanskaga verði ekki útundan í Evrópu og Liz Truss forsætisráðherra Bretlands sagði árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu vera baráttu milli lýðræðis og alræðis og hvatti til áframhaldandi órofa samstöðu með Úkraínu.

Að opnunarathöfn lokinni tóku við umræður á fjórum hringborðum helguð öryggi og stöðugleika annars vegar og efnahags-, orku- og loftslagsmálum hins vegar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stýrði umræðum á öðru síðarnefnda hringborðinu ásamt forsætisráðherra Slóveníu.

Fundinum lauk með vinnukvöldverði og blaðamannafundi þar sem fram kom að almenn ánægja væri með framtakið og að stefnt væri að því að funda áfram með þessu sniði tvisvar á ári, til skiptis í aðildarríki ESB og ríki sem ekki ætti aðild að sambandinu. Í samræmi við það var boðað Moldavía myndi efna til næsta fundar EPC á vormisseri næsta árs, þá tæki við Spánn á haustmisseri sem jafnframt fer þá með formennsku í ESB og að því loknu Bretland á vormisseri 2024.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Óformlegur fundur leiðtoga ESB fór fram í dag, 7. október, í Prag í framhaldi af fundi EPC sem fjallað er um hér að framan.

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu, orkukreppan og staða efnahagsmála var megin umfjöllunarefni fundarins, sbr. fréttatilkynningu af fundinum sem birt var í kvöld.

Leiðtogar ESB munu hittast á ný 20. og 21. október nk. á og þá á formlegum leiðtogaráðsfundi og má þá fyrst vænta formlegra ályktana ráðsins um framangreind málefni.

Áttundi pakki þvingunarráðstafana ESB gagnvart Rússlandi

Ráðherraráð ESB samþykkti á fimmtudaginn hertar þvingunarráðstafanir gagnvart Rússlandi á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni. Aðgerðapakkinn er sá áttundi í röð þvingunarráðstafana gagnvart Rússlandi eftir innrásina í Úkraínu, en með þeim var fram haldið aðgerðum sem hófust árið 2014 í kjölfar hernáms Krímskaga. Megin atriði nýrra ráðstafana er að lagður er lagalegur grundvöllur fyrir innleiðingu verðþaks á olíu frá Rússlandi sem flutt er sjóleiðina frá Rússlandi. Þá verður skipum frá ESB óheimilt að sinna sjóflutningum á olíu, veita tækniaðstoð, miðlunarþjónustu o.fl. í tengslum við slíka flutninga frá Rússlandi til þriðju ríkja, þ.e. ríkja utan ESB, nema olían hafi verið keypt á eða undir verðþakinu sem ákveðið verður. Þessar aðgerðir munu gilda um útflutta hráolíu frá desember nk. og um aðrar olíuvörur frá febrúar 2023.

Tilefni hertra ráðstafana nú eru ákvarðanir rússneskra stjórnvalda um herkvaðningu óbreyttra borgara, að hluta, og yfirlýsingar um innlimun hernumdra héraða í Úkraínu.

Neyðarráðstafanir til að sporna við háu orkuverði

Orkumálaráðherrar ESB náðu á fundi sínum þann 30. september sl. pólitísku samkomulagi um aðgerðir til að sporna við háu orkuverði. Samkomulagið er í grunninn byggt á tillögum framkvæmdastjórnar ESB sem fjallað var um í Vaktinni 23. september sl. Samkomulagið var svo innsiglað í gær, 6. október, með samþykkt reglugerðar ráðsins um neyðarráðstafanir til að til að sporna við háu orkuverði, að undangenginni skriflegri málsmeðferð: Reglugerðin felur í sér

  • Að dregið verði úr eftirspurn: 1) Með því að draga úr notkun raforku á álagstímum á komandi vetri um a.m.k. 5%. 2) Með því að aðildarríkin stefni að því að draga úr heildareftirspurn eftir raforku um að minnsta kosti 10% til 31. mars 2023. Aðildarríkin ákveða hvert fyrir sig með hvaða aðferðum markmiðunum verði náð.
  • Að sett verði 180 evra verðþak á hverja MWst frá raforkuframleiðendum sem hafa skilað óvæntum hagnaði undanfarna mánuði án þess að rekstrarkostnaður þeirra hafi aukist. Við ákvörðun á þakinu er tekið tillit til þess að varðveita arðsemi rekstraraðila og forðast að hindra fjárfestingar í endurnýjanlegri orku.
  • Að kveðið verði á um tímabundið samstöðuframlag vegna umframhagnaðar sem myndast af starfsemi í olíu-, gas- og kolaiðnaði sem falla ekki undir tekjuhámarkið. Samstöðuframlagið verður reiknað af skattskyldum hagnaði fyrirtækjanna og geta aðildarríki nýtt ágóða af því til að veita heimilum og fyrirtækjum fjárhagslegan stuðning og þannig dregið úr áhrifum hás raforkuverðs í smásölu.
  • Að aðildarríkin geti tekið tímabundnar ákvarðanir um afhendingarverð raforku til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að slíkar ákvarðanir um verð geti í undantekningartilvikum verið undir kostnaðarverði.

Framangreindar aðgerðir eru tímabundnar og gilda frá 1. desember 2022 til 31. desember 2023. Lækkunarmarkmið orkunotkunar gilda til 31. mars 2023 og þak á markaðstekjum gildir til 30. júní 2023.

Ráðherrar ræddu jafnframt frekari möguleika á stefnumörkun til að draga úr háu gasverði, t.a.m. um mögulegt verðþak á innfluttri olíu frá Rússlandi. Eins og greint er frá hér að framan í umfjöllun um þvingunarráðstafanir gagnvart Rússlandi hefur nú náðst samkomulag meðal aðildarríkjanna um slíkt verðþak á olíu frá Rússlandi og hefur reglugerð ESB þar að lútandi þegar tekið gildi.

Eins og greint er frá hér að framan þá voru orkumálin og framangreindar aðgerðir til umræðu í dag á óformlegum leiðtogaráðsfundi ESB í Prag. Orkumálaráðherrar ESB hittast síðan á ný þann 12. október nk. þar sem þessi mál verða áfram til umræðu.

Reglur um ríkisaðstoð og aðgerðir aðildarríkja til bregðast við háu orkuverði

Aðildarríki ESB kynna nú eitt af öðru innanlands aðgerðir til að koma til móts við vanda fólks og fyrirtækja vegna hækkandi orkuverðs. Þar á meðal hefur ríkisstjórn Þýskalands tilkynnt að hún hyggist bregðast við orkukrísunni með því að leggja til 200 milljarða evra til stuðnings við neytendur og fyrirtæki í landinu. Innrás Rússa í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á orkuframboð í Þýskalandi, líkt og víðar um Evrópu. Í þessu sambandi má benda á að um 55 prósent gasinnflutnings til Þýskalands kom frá Rússlandi fyrir stríð.

Áform Þjóðverja hafa vakið viðbrögð meðal annarra aðildarríkja og hjá framkvæmdastjórn ESB m.a. af hálfu framkvæmdastjóra efnahagsmála ESB, Paolo Gentiloni, og framkvæmdastjóra innri markaðar ESB, Thierry Breton, sem hafa lýst yfir áhyggjum af umfangi efnahagsaðgerðanna og hvernig þær muni koma til með að hafa áhrif á orkuverð og samkeppni í álfunni, enda hafi ekki öll aðildarríkin svigrúm til að greiða niður orkuverð með þessu móti.

Viðbúið er að boðaðar efnahagsaðgerðir Þjóðverja og fleiri ríkja rati á borð Margrethe Vestager, framkvæmdastjóra samkeppnismála í framkvæmdastjórn ESB. Þar þarf að leggja mat á hvort aðgerðirnar séu í samræmi við almennt regluverk ESB um ríkisaðstoð eða þá bráðabirgðaregluverk, sem fjallað var um í Vaktinni á sínum tíma, og veitti aðildarríkjum skjól í rýmri reglum sem settar voru í kórónuveirufaraldrinum (e. temporary framework). Bráðabirgðaregluverkið var framlengt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og er viðbúið að frekari framlenging, með ákveðnum aðlögunum, muni eiga sér stað á næstunni.

Fundir fjármála- og efnahagsráðherra ESB

Fjármála- og efnahagsráðherrar ESB komu saman til funda 3. og 4. október annars vegar á vettvangi evruhóps ESB (e. Eurogroup) og hins vegar á vettvangi ráðherraráðs ESB

Fjármála- og efnahagsráðherrar evruríkja ESB komu að venju saman degi fyrir almenna ráðherraráðsfundinn. Staða efnahagsmála á evrusvæðinu og aðgerðir stjórnvalda til að sporna við háu orkuverði og  tilheyrandi verðbólguþrýstingi var eitt aðalumræðuefnið og tók framkvæmdastjóri OECD þátt í henni. Megináherslan var um nauðsyn þess að styðja við fátæk heimili og viðkvæm fyrirtæki með víðtækum bráðaaðgerðum. Þessar aðgerðir munu á hinn bóginn hafa vaxandi neikvæð áhrif á fjárlög evruríkjanna á kostnað frekari aðgerða ESB á orkusviðinu. Eins og forseti evruhópsins Pascal Donohoe orðaði það: „(Therefore,) we aim to focus our support increasingly on cost-efficient measures, in particular income measures that are exceptional, temporary, and targeted to the vulnerable”. Þá minnti hann á nauðsyn samstöðu evruríkjanna hvað varðaði aðgerðir, og að öll ríkin reru á sömu átt (e. level playing field). Jafnframt yrðu ríkin að forðast aðgerðir sem ýttu enn frekar undir verðbólguþrýstinginn. Að lokum minnti hann á Bjargráðasjóðinn (e. Recovery and Resilience Fund) sem gegnir lykilhlutverki í ráðagerð ESB, en tékkneska formennskan hefur náð samkomulagi um að bæta 20 milljörðum evra í sjóðinn gegnum REPowerEU verkefnið.

Sérstaklega var rætt um stöðu Bjargráðasjóðsins og efnahagsaðgerðir evruríkjanna (e. Euro area recommendations) í tengslum við hann. Ljóst er að ytri aðstæður hafa breyst verulega síðan sjóðurinn var settur á fót sem gæti kallað á breytingar á fyrri áformum, sbr. áðurnefnt viðbótarframlag. Brýnt er að stjórnvöld í evruríkjunum hugi að því við fjárlagagerð næsta árs hvort og þá hvernig breyta þurfi áherslum með hliðsjón af breyttum aðstæðum í góðu samráði hvert við annað. 

Loks ræddu evruráðherrarnir mögulega upptöku rafrænrar evru (e. digital euro) og stöðu þeirrar athugunar. Fyrir fundinum lá skýrsla frá Evrópska Seðlabankanum, sem meðal annars var unnin í samráði við seðlabanka evruríkjanna þar sem greint var frá stöðunni. Að mörgu þarf að hyggja varðandi verkefnið og hagsmunaaðilar eru margir. Fyrir liggur að rafræn evra verður eins og hver annar formlegur gjaldmiðill, gefin út af seðlabanka, sem notuð verður í smásöluviðskiptum innan evrusvæðisins. Hún kemur þó ekki í staðinn fyrir seðla og mynt í evru (e. cash). Framkvæmdastjórn ESB áformar að leggja fram tillögu að reglugerð um rafræna evru á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Ráðherraráðsfundur fjármála- og efnahagsráðherra ESB var haldinn 4. október. Eftirfarandi mál voru m.a. til umræðu á fundinum:

  • Orkuskipti ESB (e. REPowerEU). Fyrst á dagskrá ráðherranna var að móta og samþykkja afstöðu ráðsins til fjölþættra tillagna framkvæmdastjórnarinnar um orkuskipti innan ESB) og er ráðið nú reiðubúið til þríhliða viðræðna við Evrópuþingið og framkvæmdastjórnina um endanlega útfærslu áætlunarinnar. Verkefnið verður styrkt með viðbótarframlögum í Bjargráðasjóðinn upp á 20 milljarða evra eins og áður var nefnt. Auk umhverfismarkmiða er markmið þessara aðgerða að draga úr eftirspurn ESB eftir rússneskri orku og veita þeim meira sjálfræði um eigin orkuöflun og -notkun. Tékkneska formennskan hefur lagt þunga áherslu á afgreiðslu málsins og á fundinum hvatti tékkneski ráðherrann önnur aðildarríki til að tryggja hraðann framgang málsins.
  • Fjármálamarkaður og hátt orkuverð. Rætt var um möguleg áhrif hás orkuverðs á fjármálamarkaðinn og þá áhættu sem af því gæti hlotist. Vandamálið er fyrst og fremst tengt markaði með orkuafleiður þar sem skapast hefur óeðlilegt ástand vegna hárra orkuverða. Orkuseljendur hafa þannig lent í greiðsluerfiðleikum vegna mikilla innlausna/innkallana og í einhverjum tilvikum þurft að leita til stjórnvalda eftir stuðningi þar sem fjármálastofnanir hafa ekki verið tilbúnar að veita þessum fyrirtækjum viðbótarlán til að mæta lausafjárvandanum. Á fundinum var meðal annars rætt um hvort möguleiki væri á að nýta ríkjastyrkjareglurnar, sem enn eru í gildi til bráðabirgða, sbr. umfjöllun hér að framan, til lausnar málinu.
  • Fjármálaþjónusta. Á fundinum var farið yfir stöðu umfjöllunar um nýjar margþættar löggjafartillögur framkvæmdastjórnarinnar á sviði fjármálaþjónustu. Þar kennir ýmissa grasa. Má þar nefna löggjöf um peningaþvætti, reglugerð um markað með rafrænar eignir (e. Markets in Crypto Assets; MiCA) og reglugerð um græn skuldabréf. Til grundvallar umræðunni lá samantekt frá framkvæmdastjórn ESB. Um þessar tillögur var að hluta fjallað um í Vaktinni 10 júní sl.

Fundur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ESB

Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrar ESB hittust í Brussel þann 26. september á vettvangi ráðherraráðs ESB. Ráðherrarnir ræddu stöðu landbúnaðarframleiðslu innan sambandsins og í Úkraínu og hvernig tryggja mætti öruggar flutningsleiðir landbúnaðarafurða innan Úkraínu og til annarra landa. Ráðherra landbúnaðar og matvæla í Úkraínu, Mykola Solsky, var sérstakur gestur fundarins.

Ráðherrarnir fögnuðu nýjum tölum um góða uppskeru í Úkraínu, þar á meðal tiltölulega stöðugri kornframleiðslu. Einnig lýstu þeir ánægju með enduropnun hafna við Svartahaf. Tékkneski landbúnaðarráðherrann ítrekaði að Evrópusambandslöndin væru staðráðin í að styðja áfram við flutning á hveiti, maís og öðrum kornvörum frá Úkraínu til viðskiptavina í öðrum löndum.

Ráðherrarnir ræddu einnig merkingar matvæla og næringarmerkingar framan á pakkningum sem veita neytendum mikilvægar upplýsingar. Evrópusambandið er að undirbúa tillögur um breytingar á reglugerð um upplýsingar á matvælum til neytenda með það að markmiði að samræma og einfalda næringarupplýsingar þannig að þær verði meira leiðbeinandi fyrir neytendur með tilliti til hollustu þeirra. Einnig er fyrirhugað að endurskoða reglur um „best fyrir“ merkingar til að minnka matarsóun. Reglugerðin er hluti af Farm to Fork áætlun ESB. Þess má geta að eftirfylgni með framgangi þessara tillagna er á forgangslista ríkisstjórnarinnar um hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB vegna aðildar Íslands að EES-samningnum.

Ráðherrarnir ræddu auk þess úthlutun veiðiheimilda fyrir árið 2023 og stjórnun veiða úr stofnum sem sambandið deilir með Bretlandi. Lögð var áhersla á mikilvægi vísindalegrar ráðgjafar sem grunn fyrir komandi viðræður. Auk þess skiptust ráðherrar á skoðunum um fyrirkomulag samráðs við Noreg og önnur strandríki, sem tekið hefur breytingum í kjölfar Brexit.

Ráðherrafundur ESB um samkeppnismál og málefni innri markaðarins

Ráðherrar samkeppnismála og málefna innri markaðar ESB funduðu í Brussel á vettvangi ráðherraráðs ESB 29. september sl. Megin umfjöllunarefni fundarins voru nýjar löggjafartillögur um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum. Fjallað var um tillögurnar í Vaktinni 23. september sl. Tillögurnar verða til áframhaldandi umræðu í Evrópuþinginu og ráðinu á næstunni.

Ráðherrarnir fjölluðu einnig m.a. um tillögur framkvæmdastjórnarinnar um vistvæna vöruhönnun (e. Ecodesign for sustainable products) en þær eru hluti af tillögupakka framkvæmdastjórnarinnar um hringrásarhagkerfið sem birtur var síðastliðið vor og fjallað var um í Vaktinni 1. apríl sl.

Áhrif tillagna um breytingar á ETS viðskiptakerfinu á flug til Íslands

Þríhliða viðræður framkvæmdastjórnarinnar, Evrópuþingsins og ráðherraráðsins um tillögur að breytingum á ETS viðskiptakerfinu í flugi og nýja gerð um íblöndun flugvélaeldsneytis hófust núna í október. Fjallað var um afstöðu Evrópuþingsins og ráðherraráðsins til tillagnanna í Vaktinni 22. júlí sl.

Utanríkisráðuneytið hefur látið útbúa líkan sem sýnir áhrif gerðanna á flug og leiðir líkanið m.a. skýrlega í ljós að neikvæð áhrif á flug til Íslands eru umtalsverð. Þrátt fyrir þær breytingar sem kynntar hafa verið sýnir líkanið að áhrif viðskiptakerfisins á samkeppnisstöðu tengiflugs og kostnað flugfélaga eru margfalt á við áhrifin af kröfum um íblöndun flugvélaeldsneytis a.m.k. fram til 2035. Ástæðan er hátt verð á losunarheimildum (80-90 evrur) sem spáð er að muni fara hækkandi. Auk þess er lagt til að úthlutun losunarheimilda án endurgjalds verði hætt frá og með 2027. Þar sem flug er jafnan eini valkosturinn fyrir ferðalög frá Íslandi og fjarlægð til áfangastaða í Evrópu er löng (að meðaltali um 2.200 km), eru áhrifin meiri hér en víðast annars staðar. Þá eykur það vandann að framboð á íblöndunarefni er lítið enn sem komið er og það efni sem í boði er er dýrt. Má reikna með því kostnaðarauki flugfélaga sem af tillögunum leiðir muni leiða til hækkunar á flugmiðaverði. Líkanið leiðir í ljós að áhrifin af tillögunum á flugrekstur gætu að óbreyttu orðið mun meiri  á Íslandi en í öðrum EES-ríkjum, og þá sérstaklega á tengiflug og fjölda áfangastaða sem þjónað er frá Íslandi.

Þessa dagana er unnið að kynningu á áhrifum tillagnanna á samkeppnisstöðu flugfélaga á evrópska efnahagssvæðinu sem nota tengiflugvelli. Forsætisráðherra, utanríkisráðherra, innviðaráðherra og umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra hafa tekið málið upp á fundum með kollegum sínum. Meðal annars átti utanríkisráðherra fund um málið með utanríkisráðherra Þýskalands og innviðaráðherra með samgönguráðherra Hollands. Þá er áfram unnið þétt að hagsmunagæslu vegna málsins í sendiráðinu í Brussel og eru ráðgerðir fundir með fulltrúum fastanefnda aðildarríkja ESB og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar á næstunni sem og fulltrúum Evrópuþingsins, þ.á.m. umsjónarmanni málsins af hálfu þingsins sem fer með fyrirsvar í þríhliða viðræðunum sem hafnar eru.

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um aðlögun skaðsemisábyrgðarreglna að stafrænum veruleika og hringrásarhagkerfinu

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram nýjar löggjafartillögur er lúta að aðlögun skaðsemisábyrgðarreglna ESB að stafrænum veruleika og hringrásarhagkerfinu. Er gert ráð fyrir að endurskoðaðar reglur muni veita bæði framleiðendum vara og neytendum sem verða fyrir tjóni af völdum gallaðra vara aukið réttaröryggi auk þess sem þeim er ætlað að styðja við nýsköpun og framþróun. Þá er lögð til samræming reglna innan aðilarríkjanna um bótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst af gervigreindarvörum. Ertu tillögurnar í samræmi við markmið hvítbókar ESB um gervigreind og framkomnar löggjafartillögur framkvæmdastjórnar ESB um gervigreind sem lagðar voru fyrir Evrópuþingið og ráðið í apríl 2021.

Skýrsla Endurskoðunarréttar ESB um aðgerðir gegn ólögmætum fiskveiðum

Endurskoðunarréttur ESB (e. European Court of Auditors) hefur sent frá sér úttektarskýrslu um aðgerðir ESB gegn ólögmætum fiskveiðum. 

Í skýrslunni kemur fram að ólögmætar fiskveiðar séu meðal þeirra þátta sem helst ógna vistkerfi hafsins enda grafi þær undan viðleitni til að stýra fiskveiðum með sjálfbærum hætti.

Í skýrslunni eru aðgerðir einstakra aðildarríkja til að sporna við ólögmætum veiðum og til að koma í veg fyrir að afurðir slíkra veiða, hvort sem það eru afurðir ólögmætra fiskveiða á hafsvæðum ESB eða utan þeirra, komist á neytendamarkað skoðaðar og metnar.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að enda þótt eftirlitskerfin séu til staðar séu þau fremur óskilvirk meðal annars vegna þess hversu misjafn eftirlit og viðurlagaframkvæmd er á milli aðildarríkjanna.

Mælt er með því við framkvæmdastjórn ESB að hún hlutist til um að aðildarríkin styrki eftirlitskerfi sín og tryggi að þau beiti viðurlögum gegn ólöglegum veiðum þegar við á.

Bent er á að samkvæmt sjálfbærnismarkmiðum sambandsins, sbr. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, hafi verið stefnt að því binda enda á ólögmætar veiðar fyrir árið 2020.

Sjávarútvegur ESB er stór, bæði hvað varðar skipaflota, sem telur um 79.000 skip, og magn viðskipta með sjávarafurðir í heiminum, en innflutningur sambandsins nemur alls 34% af heimsviðskiptum.

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum