Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2022 Brussel-vaktin

Seðlabanki Evrópu hækkar stýrivexti í fyrsta sinn frá 2011

Að þessu sinni er fjallað um:

  • fyrstu stýrivaxtahækkun Seðlabanka Evrópu í yfir áratug
  • þríhliða viðræður vegna gerða á sviði flugsamgangna og loftslagsmála
  • óformlegan fund evrópskra umhverfisráðherra í Prag
  • 16 milljarða króna styrk Nýsköpunarsjóðs ESB til Carbfix
  • fyrirhugaða breytingu á reglugerð um afgreiðslutíma flugfélaga
  • nýútgefna skýrslu um stöðu réttarríkisins innan ESB
  • viðbragðsáætlanir í samgöngumálum í kjölfar heimsfaraldursins og innrásarinnar í Úkraínu

Vaktin fer nú í sumarfrí og kemur næst út í byrjun september 2022.

Vaxtahækkun til að stemma stigu við verðbólgu

Seðlabanki Evrópu hækkaði í vikunni stýrivexti sína um 0,5 prósentustig. Um er að ræða fyrstu stýrivaxtahækkun bankans frá 2011. Hækkuninni er ætlað að sporna við frekari verðhækkunum og verðbólgu á evrusvæðinu.

Vextir bankans eru 0,0 prósent eftir hækkunina en þeir voru fyrir neikvæðir um hálft prósentustig. Verðbólga á evrusvæðinu fór upp í 8,6 prósent í síðasta mánuði, sem er langt umfram verðbólgumarkmið bankans – 2 prósent. Evran hefur að undanförnu veikst gagnvart bandaríkjadal og var gengi beggja gjaldmiðla hið sama um stutta stund fyrr í mánuðinum. Var það í fyrsta sinn sem slíkt gerist í 20 ár.

Seðlabankinn kynnti jafnframt nýtt skuldabréfakaupkerfi sem ber heitið Transmission Protection Instrument en því er í stuttu máli ætlað að takmarka hækkun á lántökukostnaði aðildarríkja myntbandalagsins, sérstaklega þeirra sem eru með hátt skuldahlutfall, og takmarka fjárhagslega uppskiptingu á evrusvæðinu.

Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, sagði í kjölfar hækkunarinnar að viðbúið sé að verðbólga verði áfram óæskilega há á komandi mánuðum, m.a. sökum þrýstings af völdum verðhækkana orku og matvæla. Verðhækkanir þessar stafa meðal annars af innrás Rússa í Úkraínu en ríki á evrusvæðinu hafa í gegnum tíðina reitt sig á innflutning olíu og gass. Flutningur beggja hrávara hefur í kjölfar innrásarinnar verið mjög svo takmarkaður. Raforkuverð heimila í ríkjum ESB hefur þannig hækkað gífurlega eða um 44 prósent frá maí 2021 og til maí 2022. Mestu hækkanirnar áttu sér stað í Hollandi (167 prósent), Austurríki (122 prósent) og á Ítalíu (118 prósent).

Lagarde segir að stjórn bankans muni áfram fylgjast grannt með stöðu mála og leggja mat á hvort þörf sé á að ráðast í frekari stýrivaxtahækkanir.

 

Þríhliða viðræður um flugsamgöngur og loftslagsmál

Ráðherraráð ESB, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB munu senn ganga til þríhliða viðræðna sem miða að því að ná samstöðu um tvær fyrirhugaðar gerðir sambandsins sem kveða á um íblöndun flugvélaeldsneytis (RefuelEU Aviation) og breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir – ETS-kerfinu. Fjallað hefur verið um tillögurnar í fyrri útgáfum Brussel-vaktarinnar, nú síðast 24. júní sl. en þær eru hluti af svokölluðum Fit for 55-löggjafarpakka framkvæmdastjórnarinnar sem ætlað er að útfæra framkvæmd ESB við að draga úr losun kolefnis um 55 prósent fyrir árið 2030 og leggja grunn að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.

Flugrekendur hér á landi og Isavia hafa viðrað áhyggjur sínar af áhrifum innleiðingar umræddra gerða sem muni fela í sér verðhækkun á flugmiðum til Íslands og þ.a.l. hafa áhrif á samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar, einkum fyrir tengiflug yfir Atlantshafið. Nánar er fjallað um útfærslu beggja gerða, eins og þeim var stillt upp í tillögum framkvæmdastjórnarinnar, og ætluð áhrif þeirra á íslenska hagsmuni, í Vaktinni 24. júní sl.

Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu beitt sér mjög vegna málsins og staðið fyrir umfangsmiklu átaki við að kynna áhrif tillagnanna á Ísland sem fjarlægt eyríki og mikilvægi þess að Keflavíkurflugvöllur sé samkeppnishæfur sem tengiflugvöllur fyrir flugleiðina milli Evrópu og Norður-Ameríku. Sendiherra og aðrir fulltrúar sendiráðs Íslands í Brussel hafa í því skyni átt um 60-70 fundi með fastafulltrúum aðildarríkja ESB í Brussel, háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnarinnar og viðeigandi talsmönnum Evrópuþingsins. Á þessum fundum hafa hlutaðeigandi aðilum verið kynntar breytingartillögur sem ætlað er að draga úr áhrifum gerðanna á Ísland, án þess þó að dregið verði úr þætti og hlutverki Íslands við að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Þá hefur forsætisráðherra sent forseta framkvæmdastjórnarinnar, forseta leiðtogaráðs ESB og öllum leiðtogum aðildarríkjanna bréf þar sem hún lýsti yfir þungum áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi tillagna. Aðrir ráðherrar hlutaðeigandi ráðuneyta hafa sömuleiðis fylgt málinu eftir gagnvart sínum starfssystkinum í aðildarríkjunum og vakið athygli á hagsmunum Íslands í þessu samhengi.

Í kjölfarið hefur dregið til tíðinda og árangur náðst sem segja má að sé í samræmi við röksemdafærslu Íslands. Þær breytingartillögur sem fram hafa komið vegna gerðanna fela m.a. í sér: 1) Ákvæði um að framkvæmdastjórninni verði falið að taka út áhrif ETS-kerfisins á samkeppnisstöðu flugvalla og flugrekenda innan EES, flugtengingar (e. connectivity), íbúa fjarlægra svæða og kolefnisleka fyrir 2028. 2) Evrópuþingið samþykkti að í fororði (e. recital) RefuelEU-gerðarinnar væri texti þess efnis að nýta beri losunarheimildir til þess að jafna samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga. 3) Þá samþykkti ráðherraráðið í afstöðu sinni nýjan texta í fororð RefuelEU að framkvæmdastjórnin skuli gæta að mögulegum áhrifum tillögunnar til röskunar á samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga og kolefnisleika og huga að mótvægisaðgerðum gegn slíkum áhrifum.

Bæði ráðið og þingið samþykktu svo breytingartillögu að verja skyldi 20 milljónum losunarheimilda til þess að greiða 70 prósent af verðmun á íblöndunarefni og þotueldsneyti (er þrisvar til sexfaldur í dag) til ársins 2030. Hægt er að framlengja ákvæði til 2035. Fyrir fjarlæg svæði (þó ekki Ísland) væri heimilt að greiða allt að 100 prósent af þessum mun. Af framangreindum breytingartillögum má ráða að fyrirhuguð RefuelEU-gerð muni líklega ekki leiða til mikilla kostnaðarhækkana fyrir flugfélög til ársins 2030, hið minnsta, og þ.a.l. ekki hafa áhrif á samkeppnisstöðu, farmiðaverð eða fjarlæg svæði. Ákvæði hinnar fyrirhuguðu gerðar gera þó ráð fyrir, eins og áður hefur verið komið inn á, kröfu um vaxandi hlutfall íblöndunar á komandi árum. Áfram verður þó unnið að því að jafna samkeppnisstöðuna að því er varðar ETS-tilskipunina.

 

Óformlegur fundur umhverfisráðherra Evrópu í Prag

Þann 13. og 14. júlí fór fram óformlegur fundur umhverfisráðherra Evrópu í Prag í Tékklandi. Á dagskrá voru ýmis mál eins og líffræðileg fjölbreytni, umhverfisáhrif vegna innrásar Rússa í Úkraínu og áhrif breytinga loftslags á vatn, náttúru og jarðveg og hvernig ríki eru að vinna að auknu viðnámsþoli og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Fram kom í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á fundinum að Ísland taki að fullu undir það að brýnt sé að aðgerðum verði hrint í framkvæmd til að markmið Parísarsamkomulagsins um 1,5°C hlýnun nái fram að ganga en samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þarf metnaður og árangur aðgerða að margfaldast til að svo megi verða. Í nóvember næstkomandi verði loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna (COP27) haldinn í Egyptalandi. Gríðarlega mikilvægt sé að ríki heims standi öll við það samkomulag sem áður var gert til að koma megi í veg fyrir frekari óafturkræfar afleiðingar loftslagsbreytinga.

Jafnframt kom fram í máli ráðherra að náttúruöflin séu Íslendingum ekki ókunn og margs konar náttúruhamfarir hafi valdið slysum og tjóni. Íslendingar séu vel búnir til að takast á við slíkar áskoranir. Unnið sé að því að auka viðnámsþrótt samfélagsins og þar með milda afleiðingar loftslagsbreytinga með því að koma aðlögun að loftslagsbreytingum með skipulögðum hætti inn í áætlanir. „Þess vegna er það forgangsmál í aðlögunaráætlun Íslands að horfa til þess hvernig hægt er að varðveita umhverfið og lífríkið innan borgar- og dreifbýlisumhverfis til að auka viðnám okkar gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Áhrif innrásar Rússa í Úkraínu á umhverfismál voru einnig á dagskrá. Stríðið hefur þegar haft gríðarlega mikil áhrif á náttúru Úkraínu, jarðvegur og fersk vatn hefur mengast mikið, svo ekki sé talað um áhrif á skóglendi og lífríkið allt. Fulltrúar ríkjanna á fundinum lýstu öll yfir miklum stuðningi við Úkraínu og lögð var áhersla á að vinna nú þegar að aðgerðaáætlun sem gripið verður til þegar stríðinu lýkur. Guðlaugur Þór lýsti yfir fullum stuðningi Íslands við úkraínsku þjóðina, mikilvægt væri að byggja upp á sjálfbæran hátt og nýta allar leiðir til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og stuðla að notkun á grænum orkugjöfum. Jafnframt tók Guðlaugur Þór fram að þau Evrópuríki sem eru háð rússneskum stjórnvöldum um jarðefnaeldsneyti hafi gert mikil mistök.

Líffræðileg fjölbreytni var einnig á dagskrá ráðherrafundarins, en vinna við rammasamkomulag um hnattrænar aðgerðir á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika er nú á lokametrunum. Ráðherra hefur látið vinna grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa sem sett verður í samráðsgátt fljótlega. Fyrir árslok verður lokið við mótun nýrrar stefnu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir Ísland, sem byggir á stefnu samningsins.

Fulltrúar EFTA-ríkjanna nýttu tækifærið og funduðu sérstaklega meðan á fundinum stóð. Meðal þess sem var rætt var fyrirhugaður aðildarríkjafundur loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í nóvember (COP27) og tillögur ESB um hvernig ná eigi 55% markmiði um samdrátt í losun, en sumar tillögurnar munu óbreyttar hafa mikil áhrif á á flug og orkuskipti í flugi, sbr. umfjöllun hér fyrir ofan. Einnig var rætt um umhverfisákvæði fríverslunarsamninga EFTA.

 

Fyrsti stóri styrkurinn til Íslands úr Nýsköpunarsjóði ESB

Nýsköpunarsjóður ESB hefur veitt fyrirtækinu Carbfix styrk að upphæð sem nemur 16 milljörðum króna til uppbyggingar á móttöku og förgunarstöð fyrir koltvísýring sem reist verður í Straumsvík.

Nýsköpunarsjóður ESB fellur undir loftslags- og umhverfisstofnun ESB og byggir á gjöldum sem fyrirtæki innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir, ETS, greiða fyrir losunarheimildir. ETS-kerfið hefur verið innleitt á Íslandi í gegnum EES-samninginn og íslensk fyrirtæki sem falla undir gildissvið kerfisins hafa tekið þátt í því frá árinu 2013.

Þátttaka Íslands í ETS-kerfinu gerir það að verkum að Ísland getur verið aðili að sjóðnum og íslensk fyrirtæki geta sótt í sjóðinn. Rannís sér um að kynna sjóðinn fyrir íslenskum hagaðilum. Íslensk fyrirtæki hafa áður fengið smærri styrki til grænna nýsköpunarverkefna en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur aðili hlýtur stóran uppbyggingarstyrk – en í þessari lotu var úthlutað sem svarar samtals nærri 280 milljörðum króna.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Carbfix.

Sjá nánari upplýsingar um sjóðinn og úthlutunina á heimasíðu Nýsköpunarsjóðs ESB (Innovation Fund).

 

Birta tillögu um breytingu á reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum

Framkvæmdastjórn ESB birti á dögunum tillögu að breytingu á reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum. Er ætlunin með breytingunni að auka sveigjanleika í framkvæmd við úthlutun afgreiðslutíma til flugfélaga og auka viðnámsþrótt (e. resilience) svo hægt sé að bregðast snarlega við ófyrirsjáanlegum aðstæðum sem kunna að koma upp.

Flugumferð hefur aukist hratt að undanförnu vegna bættrar stöðu heimsfaraldursins en innrás Rússa í Úkraínu hefur að hluta til rofið flugsamgöngur innan álfunnar. Mikilvægt er að hægt sé að bregðast snarlega við tilteknum aðstæðum, s.s. þegar farsóttir geisa, náttúruhamfarir eiga sér stað eða óvæntir alþjóðlegir viðburðir setja flugsamgöngur í uppnám.

Tillagan gerir þannig ráð fyrir að krafa um nýtingarhlutfall verði færð til baka upp í 80 prósent en um leið að ákvæði um lægri nýtingu úthlutaðs afgreiðslutíma við ófyrirsjáanlegar og óviðráðanlegar aðstæður verði framlengt.

Tillagan fer nú til meðferðar hjá ráðherraráðinu og Evrópuþinginu en hægt er að lesa nánar um hana hér.

 

Þriðja skýrsla ESB um stöðu réttarríkisins lítur dagsins ljós

Framkvæmdastjórn ESB birti nýverið skýrslu um stöðu réttarríkisins (e. Rule of Law Report) fyrir árið 2022, en þetta er í þriðja skiptið sem slík skýrsla er gefin út. Skýrslan kemur út í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og undirstrikar mikilvægi þess að lýðræðislegum gildum og mannréttindum sé haldið á lofti og að ekki sé grafið undan réttarríkinu.

Skýrslan greinir frá stöðu réttarríkisins innan sambandsins í heild en einnig í sérstökum landsköflum um hvert og eitt aðildarríkjanna 27. Skýrslan útlistar fjögur mismunandi áherslusvið og greinir hvernig staða þeirra er í hverju ríki fyrir sig. Sviðin eru eftirfarandi: 1) umbætur á réttarkerfinu (e. justice reforms), 2) hvernig umgjörð gegn spillingu er háttað (e. anti-corruption framework), 3) fjölmiðlafrelsi og fjölhyggja (e. media freedom and pluralism) og 4) eftirlit með stofnunum og staða óháðra og borgaralegra samtaka (e. institutional checks and balances).

Framkvæmdastjórnin leggur jafnframt fram tillögur um hvernig megi gera betur á framangreindum sviðum og er hægt að kynna sér þær betur í skýrslunni sem nálgast má hér.

 

Framkvæmdastjórnin birtir viðbragðsáætlanir vegna samgöngumála

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt nýja skýrslu um þann lærdóm sem hægt sé að draga af áhrifum heimsfaraldursins af völdum COVID-19 og innrásar Rússa í Úkraínu á samgöngur. Hvort tveggja hefur haft afar mikil áhrif á fólks- og vöruflutninga í Evrópu sem núverandi regluverk var óviðbúið fyrir.

Í skýrslunni eru tilgreind tíu aðgerðasvið sem lagt er til að hafa til hliðsjónar fyrir sambandið og aðildarríki til undirbúnings þess að bregðast við alvarlegum áföllum af þessu tagi. Þ. á m. er að horfa til mögulegra ráðstafana í lagaumhverfinu, að nægilega sé stutt við flutningastarfsemi, að lágmarkssamgöngutengingar séu tryggðar o.fl.

Hér má nálgast fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar og skýrsluna.

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum