Umsögn um framkvæmd ETS-kerfisins, formennskuáætlun Íslands, órói á Evrópuþinginu o.fl.
Að þessu sinni er fjallað um:
- umsögn íslenskra stjórnvalda um framkvæmd ETS-kerfisins
- formennskuáætlun Íslands í fastanefnd EFTA
- ·vantrauststillögu á Evrópuþinginu
- tillögu um 90% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040
- samkomulag um umbætur á regluverki um áhættustjórnun banka
- ·nýjan ríkisaðstoðarramma til að styðja við hreinatvinnustefnu ESB
- samkomulag um skilvirkari framkvæmd persónuverndarreglna þvert á landamæri
- stefnumörkun um framtíð lífvísinda í ESB
- aðgerðir á sviði efnaiðnaðar
- ·vegvísi um náttúrueiningar
- einföldun regluverks á sviði varnarmála
- stöðu viðræðna milli ESB og Bandaríkjanna um tollamál
- EES/EFTA-álit um Omnibus
Umsögn íslenskra stjórnvalda um framkvæmd ETS-kerfisins
Í Vaktinni 2. maí sl. var greint frá því að framkvæmdastjórn ESB hefði efnt til opins samráðs um reynsluna af framkvæmd viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið).
Samráðferlinu lauk nú í vikunni og bárust hátt á fjórða hundrað umsagnir og athugasemdir.
Íslensk stjórnvöld voru á meðal þeirra sem komu á framfæri umsögn þar sem áhersla er lögð á eftirtalin atriði:
- að þau standi staðfastlega við skuldbindingar sínar í loftlagsmálum og styðji sanngjarna og skilvirka verðlagningu á kolefnislosun,
- að viðskiptakerfi með losunarheimildir verði þó að taka tillit til mismunandi landfræðilegra og markaðslegra aðstæðna og að tryggja verði að áherslur kerfisins séu sanngjarnar og skaði ekki samgöngutengingar og samþættingu á milli svæða,
- að ETS-kerfið, í núverandi mynd, hafi fyrirséð neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga almennt og sérstaklega á starfsemi tengiflugvalla innan EES-svæðisins sem þjóna áfangastöðum utan svæðisins,
- að það sé grundvallaratriði að tryggja að allar ráðstafanir sem gerðar eru innan kerfisins taki mið af núverandi aðstæðum og jafnframt að þær séu í reynd til þess fallnar að ná þeim umhverfismarkmiðum sem að er stefnt,
- að þess sé gætt við framkvæmd kerfisins að hún raski ekki samkeppnisskilyrðum fyrir tengiflugvelli og flugstarfsemi innan EES-svæðisins til hagsbóta fyrir flugvelli og flugstarfsemi utan þess,
- að núverandi framkvæmd ETS-kerfisins geti haft neikvæðar félagslegar og efnahagslegar afleiðingar, einkum fyrir tekjulægri einstaklinga sem búa á jaðarsvæðum sem þjónað er af minni flugvöllum og
- að þótt komið sé inn á allmörg álitaefni í umsögninni þá sé megintilgangur hennar að koma á framfæri skýrum röksemdum og viðbótargögnum er snúa að áhrifum á framkvæmd ETS-kerfisins á flugstarfsemi þannig að lagfæra megi ágalla á kerfinu með fullnægjandi og réttlátum hætti.
Í umsögninni er sjónum í ríkum mæli beint að áhrifum af framkvæmd ETS-kerfisins á flug en á því sviði er jafnframt álitið að sérstakir hagsmunir Íslands af framkvæmd kerfisins séu ríkastir. Einkum er horft á áhrif kerfisins á samkeppnishæfni flugs um tengiflugvelli innan evrópska efnahagsvæðisins bæði almennt en jafnframt sérstaklega um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík þar sem neikvæð jaðaráhrif kerfisins eru talin koma fram í sérstaklega miklum mæli. Ítarlega hefur verið fjallað um afstöðu Íslands til ETS-kerfisins í Vaktinni á undanförnum misserum, sbr. m.a. í Vaktinni 26. maí 2023, þar sem fjallað var aðlögun fyrir Ísland sem samþykkt var við upptöku tilskipunar um breytingar á ETS-viðskiptakerfinu með losunarheimildir fyrir flug í EES-samninginn en í þeirri aðlögun var m.a. kveðið sérstaklega á um að áhrif á íslenskar aðstæður yrðu skoðaðar sérstaklega við þá endurskoðun sem nú er hafin.
Í umsögninni eru dregnar fram sviðsmyndir sem ætlað er að sýna fram á fyrirséðar neikvæðar afleiðingar á samkeppnisstöðu tengiflugvallarins í Keflavík, sem orsakast fyrst og fremst af fjarlægð frá meginlandi Evrópu, þar sem meðalvegalend á flugleggnum til Íslands er 2.200 km, en meðalvegalengd á flugleggnum á meginlandinu er 1.000 km. Þá er vikið að augljósum vandamálum sem uppi eru vegna skorts á umhverfisvænu flugvélaeldsneyti og háu markaðsverði.
Í framangreindum sviðsmyndum er m.a. tekið dæmi af farþega sem hyggst ferðast frá Berlín til Seattle og tilbaka. Í dæminu getur hann valið að ferðast í gegnum þrjá tengiflugvelli, þ.e. í New York, Frankfurt og í Keflavík. Kostnaður af ETS-kerfinu nú væri enginn fyrir hlutaðeigandi flugfélag ef farþeginn tæki ákvörðun um að ferðast um flugvöllinn í New York, kostnaðurinn yrði 1,95 evrur ef farþeginn færi um flugvöllinn í Frankfurt en rúmar 11 evrur ef hann ákveður að fara um flugvöllinn í Keflavík. (Í framangreindu dæmi er tekið mið af núverandi markaðsverði á losunarheimildum og að helmingi losunarheimilda sé úthlutað án endurgjalds. Þá er í dæminu ekki tekið tillit til lækkunar á kostnaði vegna millilendinga í Keflavík í krafti þeirrar aðlögunar sem Ísland hefur til ársins 2027 og áður er vísað til.)
Almennt má gera ráð fyrir að kostnaði samkvæmt framangreindu sé velt út í farmiðaverð með þeim mögulegu afleiðingum að eftirspurn eftir ferðum þar sem kostnaður er mestur minnki með tíð og tíma.
Það sem er einna athyglisverðast við þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp er að losunin fyrir hvern farþega er metin mest á flugleiðinni í gegnum New York, eða 1,7 tonn, þar á eftir kemur flugleiðin í gegnum Frankfurt, eða 1,6 tonn, en losunin er umtalsvert lægri á flugleiðinni í gegnum Keflavík, eða 1,1 tonn. Framangreint gefur til kynna að kerfið, eins og það er uppbyggt, þjóni ekki grunnmarkmiðum sínum, þ.e. að draga úr losun samkvæmt loftslagsmarkmiðunum, í tilvikum sem þessum.
Jafnframt er í umsögninni fjallað um neikvæð áhrif kerfisins á flutninga með skipum til og frá Íslandi.
Auk íslenskra stjórnvalda komu eftirtaldir íslenskir hagsmunaaðilar á framfæri umsögnum sínum í samráðsgátt ESB:
- Carbfix: Feedback from: Carbfix
- HS Orka: Feedback from: HS Orka hf.
- Samtök atvinnulífsins: Feedback from: Confederation of Icelandic Enterprise
- Samtök iðnaðarins: Feedback from: The Federation of Icelandic Industries
Framkvæmdastjórnin mun hafa fram komnar umsagnir til hliðsjónar við skýrslugerð um framkvæmd kerfisins sem nú stendur yfir en ætlunin að umrædd skýrsla verði birt um mitt næsta ár ásamt mögulegum tillögum að breytingum á kerfinu. Íslensk stjórnvöld munu fylgjast náið með framvindu málsins og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri eftir því sem tilefni er til.
Formennskuáætlun Íslands í fastanefnd EFTA
Ísland tók við formennsku í fastanefnd EFTA (e. EFTA Standing Committee) 1. júlí sl.
Formennska í fastanefndinni er til skiptis í höndum EFTA-ríkjanna þriggja innan EES - Íslands, Noregs og Liechtenstein - og er formennskutímabilið sex mánuðir í senn. Fastanefndin er skipuð sendiherrum EES/EFTA-ríkjanna í Brussel og er meginhlutverk hennar að samræma afstöðu ríkjanna gagnvart framkvæmdastjórn ESB áður en gerðir eru teknar upp í EES-samninginn á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Formennskuáætlun Íslands og áherslur fyrir komandi tímabil voru kynntar á reglulegum fundi fastanefndarinnar í gær, 10. júní, og í framhaldi af því voru þær birtar á vefsíðu EFTA-skrifstofunnar.
Í áætluninni er sjónum sérstaklega beint að stóraukinni áherslu ESB á öryggismál í víðum skilningi. Það birtist m.a. í stefnu ESB á sviði hagvarna og efnahagsöryggis, öryggis fjarskipta, heilbrigðisöryggis og svo mætti áfram telja sem og í stefnu ESB á hefðbundnum sviðum innri öryggis- og varnarmála. Hyggst Ísland í formennskutíð sinni beita sér fyrir áframhaldandi opnum og uppbyggilegum umræðum um framgreind málefni og hvernig samstarfið á vettvangi EES-samningsins geti stuðlað að auknu gagnkvæmu öryggi í víðum skilningi á Evrópska efnahagssvæðinu í heild sinni. Í þessu sambandi mun Ísland m.a. beita sér fyrir að ná samningum um þátttöku í áætlun ESB um örugg fjarskipti um gervihnetti og um fjarskiptakerfi opinberra aðila, sbr. umfjöllun í Vaktinni 13. júní sl., auk þess sem fram verður haldið viðræðum um frekari þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í samstarfi aðildaríkja ESB á sviði heilbrigðismála vegna neyðarviðbúnaðar og viðbragðs vegna alvarlegrar heilsuvár (HERA), sbr. umfjöllun í Vaktinni 30. maí sl., um þær viðræður. Þá verður vinnu við eftirfylgni með ábendingum í skýrslu átakshóps EFTA um þverlægar gerðir fram haldið, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 11. október sl. um skýrslu átakshópsins.
Í áætluninni er jafnframt lögð áhersla á málefni er varða samkeppnishæfni atvinnulífs, einföldun regluverks og afkolun. Í tengslum við síðastnefnda atriðið hyggst Ísland skipuleggja stóran orkuviðburð í Brussel 14. október nk. undir forystu umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra þar sem sjónum verður beint að loftlagsmálum og möguleikum sem fyrir hendi eru á virkjun jarðvarmaorku í Evrópu.
Þátttaka EES/EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB er afar mikilvægur þáttur í EES-samstarfinu. Náið verður fylgst með umfangi þeirra í tillögum ESB að nýrri langtíma fjárhagsáætlun 2028-2034 en þær verða kynntar 16. júlí nk. Sérstaklega verður fylgst með hvaða breytingar kunni að hafa áhrif á aðild EES/EFTA-ríkjanna að þeim, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 31. janúar sl., um EES/EFTA-álit um þátttöku ríkjanna í samstarfsáætlunum á nýju fjárhagstímabili.
Þegar kemur að rekstri EES-samningsins er megináherslan nú sem fyrr lögð á skilvirka uppfærslu samningsins, enda skiptir það sköpum til að tryggja einsleitni á innri markaðnum og stöðu EES/EFTA-ríkjanna í því sambandi. Þá hyggst formennskan kanna möguleika á að auka notkun gervigreindar til að auka skilvirkni við rekstur samningsins.
Loks mun formennskan beita sér fyrir virkri aðkomu EES/EFTA-ríkjanna að mótun löggjafartillagna á vettvangi ESB með því að láta í té umsagnir um þær á mótunarstigi. Auk þess verður áhersla lögð á að auka vitund og þekkingu á EES-amningnum á vettvangi stofnana ESB.
Von der Leyen verst vantrausti á Evrópuþinginu
Umræða um vantrauststillögu 73 þingmanna Evrópuþingsins gegn Ursulu von der Leyen (VdL), forseta framkvæmdastjórnar ESB, fór fram á þingfundi Evrópuþingsins í Strassborg sl. mánudag. VdL mætti þá á þingfund til þess að taka þátt í umræðunum og sitja fyrir svörum og þóttu umræður skarpar sbr. m.a. ræðu VdL.
Vantrauststillaga gegn forseta framkvæmdastjórnarinnar er í raun vantrauststillaga gegn framkvæmdastjórninni allri og nái slík tillaga fram að ganga þyrfti öll framkvæmdastjórnin að fara frá. Aðeins þurfa 10% þingmanna, eða 72 þingmenn, að styðja slíka tillögu til þess að knýja fram atkvæðagreiðslu um vantraust á Evrópuþinginu en tveir þriðju hlutar þingmanna þurfa að greiða atkvæði með henni svo hún nái fram að ganga. Er þetta fyrsta vantrauststillaga gegn forseta framkvæmdastjórnar ESB síðan 2014.
Kosið var um tillöguna í gær, þann 10. júlí, og varðist Von der Leyen vantrauststillögunni með stuðningi mikils meirihluta þingmanna eða 360 sem greiddu atkvæði gegn tillögunni af 553 þingmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni. 175 þingmenn kusu með tillögunni og 18 þingmenn sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. Margir þingmenn mættu ekki til atkvæðagreiðslu en 720 þingmenn sitja á Evrópuþinginu.
Tillaga um 90% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040
Hinn 2. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að breytingu á loftslagslögum ESB (e. European Climate Law) þar sem lagt er til að markmiðið um 90% samdrátt í nettó losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040, miðað við losun árið 1990, verði lögfest. Tillagan er liður í að fylgja eftir markmiðum Parísarsamkomulagsins og stefnuáherslum framkvæmdastjórnarinnar fyrir tímabilið 2024–2029.
Tillagan byggist á núgildandi markmiði ESB um að draga úr nettó losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% fyrir árið 2030 sem lögfest var árið 2021. Á grundvelli samstarfs Íslands við ESB á sviði loftlagsmála hefur Ísland tekið upp stóran hluta af regluverki ESB á sviði loftlagsmála, sbr. „Fit for 55%“ löggjafarpakkann.
Með því að leggja til lögfestingu á markmiði fyrir árið 2040 leitast framkvæmdastjórnin við að skapa fyrirsjáanleika fyrir fjárfesta og fyrirtæki, stuðla að nýsköpun og styrkja samkeppnishæfni evrópskra iðnfyrirtækja og auka orkuöryggi. Við framlagningu tillögunnar lét Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hafa eftir sér að með tillögunni sendi ESB skýr skilaboð um áframhaldandi forystu sambandsins í loftslagsmálum.
Tillagan er byggð á ráðgjöf frá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. International Panel on Climate Change - IPCC) og Vísindaráði ESB um loftslagsmál (e. European Scientific Advisory Board on Climate Change), auk þess sem ítarlegt áhrifamat liggur til grundvallar. Tillagan byggist jafnframt á niðurstöðum nýrrar úttektarskýrslu framkvæmdastjórnarinnar um framgang aðildarríkjanna í átt að loftslags- og orkumarkmiðum ESB, sem sýndu að ríkin eru á góðri leið með að ná markmiðinu um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, sbr. umfjöllun um þá skýrslu í Vaktinni 27. júní sl.
Markmiðssetning í loftlagsmálum er mikilvægur þáttur í nýrri hreinatvinnustefnu ESB og var samhliða löggjafartillögunni lögð fram orðsending til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um framfylgd þeirrar stefnu (e. Communication on delivering on the Clean Industrial Deal I), sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 7. mars sl. um hreinatvinnustefnuna.
Eins og marka má af framangreindum ummælum forseta framkvæmdastjórnarinnar þá vill stjórnin með tillögunni senda skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins um að sambandið hyggist halda áfram á braut metnaðarfullra loftslagsaðgerða og er umræddri breytingu á loftslagslögunum ætlað að vera grunnur að uppfærðu landsákvörðuðu framlagi aðildarríkja ESB (e. Nationally Determined Contribution - NDC) til ársins 2035 sem ESB, líkt og Ísland, stefnir á að skila fyrir loftslagsráðstefnu SÞ, COP30, sem haldin verður í Belém í Brasilíu í nóvember nk.
Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Samkomulag um umbætur á regluverki um áhættustjórnun banka
Samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillaga um breytingar á regluverki um áhættustjórnun banka og innstæðutryggingar (e. crisis management and deposit insurance, CMDI) náðist 25. júní sl. Fjallað var um tillögurnar í Vaktinni 21. apríl 2023 en með þeim eru einkum lagðar til umbætur á reglum um skilameðferð lítilla og miðlungsstórra banka sem miða að því að draga enn frekar úr líkum á því að hið opinbera þurfi að koma bönkum í rekstrarerfiðleikum til aðstoðar. Breytingarnar eru liður í því að styðja við sameiginlegan bankamarkað innan ESB (e. Banking Union) en virkur sameiginlegur bankamarkaður er talinn einn af lykilþáttunum í því að styrkja samkeppnishæfni ESB.
Samkomulagið felur í sér að auðveldara verður að fá aðstoð úr sameiginlegum öryggissjóðum, þ.e. innistæðutryggingasjóði í ríkjunum eða slitasjóði evruríkjanna (e. single resolution fund, SRF), fyrir innlánsstofnanir í rekstrarerfiðleikum til þess að fjármagna skilameðferð að uppfylltum nánar tilgreindum ströngum skilyrðum.
Skilameðferð verður einungis beitt ef hún er talinn þjóna almannahagsmunum. Með breytingunni aukast líkur á að mat á almannahagsmunum leiði til þess að skilameðferð verði valin fyrir innlánsstofnun í rekstrarvanda í stað gjaldþrotameðferðar, sem verður áfram meginreglan, einkum fyrir litlar og meðalstórar innlánsstofnanir.
Samkvæmt samkomulaginu verða tryggðar innstæður í bönkum áfram fremstar í kröfuröðinni en á eftir þeim koma kröfur einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ekki eru tryggðar af innstæðutryggingasjóði. Kröfuröðinni er ætlað að styrkja vernd innstæðueigenda og viðhalda trausti til bankakerfisins.
Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Nýr ríkisaðstoðarrammi til að styðja við hreinatvinnustefnu ESB
Framkvæmdastjórnin birti þann 25. júní sl. orðsendingu um nýjan ramma fyrir ríkisaðstoð til að styðja við hreinatvinnustefnu ESB (e. The Clean Industrial Deal) en fjallað var um málið í Vaktinni 21. mars sl. þegar drög að orðsendingunni voru birt í samráðsgátt ESB, sbr. einnig umfjöllun Vaktarinnar 7. mars sl. um hreinatvinnustefnu ESB
Nýjum ríkisaðstoðarramma er ætlað að auðvelda aðildarríkjum ESB að styðja við og flýta fyrir uppbyggingu og þróun hreinorkutækni og afkolun í atvinnustarfsemi. Með rammanum eru sett skilyrði fyrir stuðningi aðildarríkja við tilteknar fjárfestingar á þessu sviði í samræmi við gildandi ríkisaðstoðarreglur og er markmiðið að framkvæmdastjórninni verði kleift að samþykkja ríkisaðstoðaráform fyrir hreinan iðnað bæði fljótt og örugglega.
Nýi ramminn mun gilda til ársins 2030 og er ætlað að auka fyrirsjáanleika fyrirtækja á þessum sviðum til lengri tíma.
Samkomulag um skilvirkari framkvæmd persónuverndarreglna þvert á landamæri
Hinn 16. júní sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu að nýrri reglugerð sem miðar að því að bæta samvinnu evrópskra persónuverndarstofnana (e. Data Protection Authorities – DPAs) innan ESB þegar kemur að framkvæmd persónuverndarreglna þvert á landamæri.
Markmið reglugerðarinnar er að straumlínulaga og skýra verklag milli eftirlitsstofnana aðildarríkja við meðferð mála sem hafa áhrif á einstaklinga í fleiri en einu aðildarríki. Reglugerðin á að tryggja skilvirkari málsmeðferð, gagnsæi gagnvart borgurum og aukna réttarvernd, meðal annars með því að skýra tímafresti, samskiptaferla og þátttöku hagsmunaaðila í slíkum málum. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 7. júlí 2023.
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Stefnumörkun um framtíð lífvísinda í ESB
Hinn 2. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um að ESB verði kynnt sem eftirsóknarverður vettvangur á heimsvísu fyrir lífvísindi. Yfirskrifin er: Veljum Evrópu sem vettvang fyrir lífvísindi (e. Choose Europe for lifesciences; A strategy to position the EU as the world’s most attractive place for life sciences by 2030).
Til að fylgja stefnumótuninni eftir hyggst framkvæmdastjórnin m.a. leggja fram tillögu að nýjum líftæknilögum (e. EU Biotech Act) en markmið þeirra verður að hraða markaðsaðgangi nýjunga í lífvísindum og skapa frjótt umhverfi fyrir nýsköpun í líftæknigeiranum.
Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.
Aðgerðapakki á sviði efnaiðnaðar
Hinn 8. júlí sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB nýjan aðgerðapakka á sviði efnaiðnaðar. Er annars vegar um að ræða aðgerðaráætlun sem lögð er fram í formi orðsendingar til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB og hins vegar löggjafartillögur um einföldun regluverks á málefnasviðinu (e. Chemicals Omnibus). Er það sjöundi löggjafarpakkinn sem lagður er fram um einföldun regluverks í tíð núverandi framkvæmdastjórnar en einföldun regluverks er á meðal helstu áherslumála framkvæmdastjórnarinnar um þessar mundir eins og kunnugt er.
Efnaframleiðsla er talinn einn af hornsteinum atvinnulífsins í ESB en að sama skapi er talið að geirinn eigi sífellt meira undir högg að sækja í alþjóðlegri samkeppni og er aðgerðapakkanum ætlað að styrkja rekstrargrundvöll, samkeppnishæfni og nýsköpun innan greinarinnar auk þess sem kynntar eru nýjar stuðningsaðgerðir. Framkvæmdastjórn ESB áætlar að aðgerðirnar, þ. á m. vegna minni stjórnsýslu- og reglubyrði, geti skilað sparnaði í greininni sem nemi yfir 360 milljónum evra árlega, án þess þó að öryggi neytenda sé skert.
Fyrir liggur að ekki eru allir sannfærðir um ágæti þeirra aðgerða sem hér eru kynntar og hafa þingmenn úr þingflokki græningja á Evrópuþinginu m.a. varað við því að einföldun á regluverki geti grafið undan framförum í heilbrigðis- og umhverfisvernd sem tekið hafi árafjöld að ná fram og saka þeir framkvæmdastjórnina um að taka afstöðu með stórfyrirtækjum á kostnað neytenda. Á móti bendir framkvæmdastjórnin á að heimsmarkaðshlutdeild efnageirans í ESB hafi dregist saman um helming á síðastliðnum 20 árum og að ESB eigi á hættu að missa framleiðslugrunn sinn ef ekki verði brugðist skjótt við. Markmiðið með aðgerðarpakkanum sé að halda efnaframleiðslu í ESB og nýta græn umskipti til að nútímavæða framleiðsluna og tryggja samkeppnishæfni hennar.
Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.
Vegvísir um náttúrueiningar
Hinn 7. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um vegvísi um náttúrueiningar (e. Natur Credits Roadmap) sem hefur það markmið að hvetja til fjárfestinga í aðgerðum sem eru til þess fallnar að vernda og varðveita náttúruna og umbuna þeim sem ráðast í slíkar fjárfestingar og taka þátt í þeim.
Með hugtakinu náttúrueiningar er vísað til þess að fyrirtæki, opinberir aðilar og almenningur geti fengið umhverfisvænar fjárfestingar sínar metnar til eininga og vottaðar af óháðri stofnun sem aftur veitir hlutaðeigandi aðilum trúverðugleika á sviði umhverfsmála.
Haft var eftir Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í tilefni af framlagningu orðsendingarinnar að það þyrfti að taka náttúruna með í efnahagsreikninginn en það er einmitt grunnhugmyndin að baki náttúrueiningum.
Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.
Vegvísirinn hefur jafnframt verið birtur í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 30. september nk.
Einföldun regluverks á sviði varnarmála
Hinn 17. júní sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu og löggjafartillögur þar sem sett er fram áætlun og gerðar tillögur um einföldun regluverks á sviði varnarmála, þ.e. á sviði hergagnaframleiðslu og -iðnaðar og tengdrar starfsemi (e. Defence Readiness Omnibus). Eru einföldunaráformin liður í umfangsmikilli áætlun framkvæmdastjórnarinnar um einföldun regluverks, sbr. t.d. umfjöllun um fjórða einföldunarpakkann í Vaktinni 13. júní sl.
Í orðsendingunni eru lagðar til margvíslegar breytingar á regluverki ESB og er meginmarkmið breytinganna að bæta skilvirkni, minnka stjórnsýslubyrði og styðja við uppbyggingu og þróun á framleiðslugetu varnariðnaðar innan ESB.
Einföldunaráformin eru sett fram í beinum tengslum við endurvopnunaráætlun ESB (e. Rearm Europe) sem kynnt var sem hluti af Hvítbók ESB um varnarmál, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 21. mars sl. um hvítbókina, sbr. og ákall ráðherraráðs ESB frá 6. mars sl., þar sem kallað var eftir því sérstaklega að ráðist yrði í einföldun regluverks á sviði varnarmála. Sjá einnig í þessu sambandi umfjöllun Vaktarinnar 30. maí sl. um samþykkt SAFE-reglugerðarinnar.
Tillögunum er ætlað að greiða fyrir þeirri gríðarmiklu fjárfestingu á sviði varnarmála sem ákveðið hefur verið að ráðast í á grundvelli framangreindrar endurvopnunaráætlunar á næstu árum á vettvangi aðildaríkja ESB. Þannig er m.a. lögð til að einföldun á sviði leyfisveitinga, innkaupa og fjárfestinga og ýmissa tengdra verkefna á málefnasviðinu.
Meðal annars er lögð til einföldun á ferli umsókna um styrki úr varnarmálasjóði ESB (e. European Defence Fund) allt frá hæfi umsækjenda til hraðari afgreiðslu styrkja og meiri fyrirsjáanleika. Þá er lögð til einföldun á reglum um varnartengd opinber innkaup, þ.m.t. með því að auðvelda þremur eða fleiri aðildarríkjum að efna til sameiginlegra innkaupa. Auk þess eru lagðar til breytingar sem ætlað er að hraða frjálsu flæði varnartengdra vara á milli aðildarríkjanna.
Staða viðræðna milli ESB og Bandaríkjanna um tollamál
Bandaríkjastjórn hefur boðið ESB svipuð kjör í tollamálum og Bretlandi fyrr á árinu sem nemur 10% almennri tollaálagningu, að ákveðnum innfluttum vörum undanskildum. Gagnkvæmistollar Bandaríkjanna (e. reciprocal tariffs) áttu að taka gildi hinn 9. júlí eftir frestun frá því í vor en á sunnudaginn var tilkynnti fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, að 10-50% gagnkvæmistollar Bandaríkjanna sem tilkynnt var um í vor gagnvart hinum ýmsu ríkjum og áttu upphaflega að taka gildi 2. apríl muni taka gildi þann 1. ágúst nk. gagnvart þeim ríkjum sem ekki hafa áður samið um annað. Þær tollahækkanir sem boðaðar voru í vor fólu í sér að lagðir yrðu 20% tollar á vörur frá ESB, að undanskildum hærri tollum á ákveðnar vörur, s.s. 25% tollar á innflutta bíla frá ESB og 50% tolla á stál og ál sem hafa verið í gildi frá því í vor. Framkvæmdastjórn ESB hefur frá upphafi leitast við að ná samningum við Bandaríkjastjórn, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 4. apríl sl. Í því skyni berast nú fregnir af því að framkvæmdastjórnin hafi farið frá því að krefjast afnáms umræddra gagnkvæmnistolla yfir í það að geta nú fallist á 10% tolla. Maroš Šefčovič, framkvæmdastjóri utanríkisviðskipta í framkvæmdastjórn ESB, hefur farið fyrir samninganefnd ESB gagnvart Bandaríkjunum. Hann staðfesti þessa afstöðu á fundi með fastafulltrúum aðildarríkja ESB (Coreper II) í síðustu viku en þetta er svipuð niðurstaða og Bretland hefur samið um. Verði sú niðurstaðan hefur a.m.k. tekist að forðast álagningu enn hærri gagnkvæmnistolla. Áfram er þó ósamið um tolla á bílaiðnaðinn og ál og stál.
EES/EFTA-álit um Omnibus-tillögurnar
EES/EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafa sent ESB álit (e. EEA EFTA Comment) um afstöðu ríkjanna til fyrirliggjandi og boðaðra löggjafartillagna um einföldun regluverks, svonefndra Omnibus-tillagna.
Í álitinu lýsa ríkin yfir stuðningi við einföldunaráformin og meginmarkmið þeirra heilt yfir um leið og áhersla er lögð á að þess sé gætt að einföldun regluverks raski ekki meginmarkmiðum og skuldbindingum er snúa að loftslags- og umhverfismálum og félagslegum réttindum. Í því samhengi er m.a. áréttað mikilvægi þess að fram fari ítarlegt mat á áhrifum einföldunartillagna.
Sjá álitið á vef EFTA-skrifstofunnar.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.
Ritstjóri: Ágúst Geir Ágústsson, sendiráðunautur.
Ábyrgðarmaður: Kristján Andri Stefánsson, sendiherra.
Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar á netfangið [email protected].
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].