Hoppa yfir valmynd

Þjónusta við Íslendinga

Kaupmannahöfn er enn tíðasti viðkomustaður Íslendinga erlendis og talið er að hátt í 12.000 Íslendingar séu nú búsettir í Danmörku, þ.á.m. um 4000 námsmenn. Þjónusta við íslenska borgara í Danmörku er því eitt mikilvægasta og umfangsmesta verkefni sendiráðsins. Auk þess leitar fjöldi Íslendinga sem búsettir eru á suður- og suðvestur hluta Svíþjóðar til sendiráðsins.

Aðstoð sendiráðsins við íslenska borgara getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leyti til sendiráðsins vegna útgáfu vegabréfa og samskipta við hin ýmsu stig danskrar og íslenskrar stjórnsýslu en einnig aðstoðar sendiráðið Íslendinga m.a. vegna veikinda eða slysa, sakamála og afplánunar refsidóma, skjalavottanir, leit að týndum einstaklingum og heimflutnings látinna, veikra eða vegalausra borgara. Þá býðst Íslendingum að taka próf hjá íslenskum menntastofnunum í sendiráðinu og greiða atkvæði utankjörfundar. 

Umsjónarmaður aðstoðar- og ræðismála er Sigurlína Andrésdóttir. Aðrir fulltrúar aðstoðar- og ræðismála eru Sigfús Kristjánsson, Ásdís Björg Ágústsdóttir, Halldóra Traustadóttir og Aldís Guðmundsdóttir.

www.denmark.dk- Opinber vefur Danmerkur með fréttir, veður, upplýsingar og krækjur.

Upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar (Info Norden) veitir upplýsingar um flutning milli Norðurlandanna t.d. í tengslum við atvinnuleit, skatta, sjúkratryggingar, lífeyri, barnabætur og tollamál.

Sendiráðið vekur athygli á að utan opnunartíma þess er í neyðartilfellum hægt að óska eftir borgaraþjónustu í neyðarvakt utanríkisráðuneytisins í síma +354 545-0112. 

Umsókn um íslenskt vegabréf

Umsóknarstaðir vegabréfa erlendis eru í flestum sendiskrifstofum Íslands sem og aðalræðisskrifstofum. Öll vegabréf eru gefin út af Þjóðskrá. Afgreiðslutími vegabréfa getur verið allt að 6 virkir dagar auk póstsendingartíma. Athugið að ef frídagar eru á tímabilinu lengist afgreiðslutíminn sem þeim nemur. Hægt er að sækja um hraðafgreiðslu gegn aukagreiðslu. Sjá gjaldskrá ÞÍ.

Umsækjandi þarf alltaf að mæta í eigin persónu á umsóknarstað og skal panta tíma fyrir fram gegnum bókunarkerfi á heimasíðu sendiráðsins. 

Eftirfarandi þarf að hafa með sér:

  • Eldra vegabréf
  • Umsóknargjald

ATH! Vegabréf eru aldrei endurútgefin né afgreidd í gegnum netið.

Vegabréf sem tilkynnt hafa verið glötuð eru skráð í Schengen og Interpol upplýsingakerfin og eru þar með ónothæf.

Afgreiðsla vegabréfa

Afgreiðslutími fyrir vegabréf er eftirfarandi:

Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá klukkan 13:00-15:00.

Panta ber tíma með góðum fyrirvara.

Bókið tíma hér

Þjónusta ræðismanna

Vakin er athygli á því að ræðismenn geta ekki lengur tekið við umsóknum um vegabréf.

Ræðismenn geta eftir sem áður haft milligöngu um útgáfu neyðarvegabréfa í sérstökum neyðartilfellum.

Ferlið

Umsækjendur verða að koma í eigin persónu til sendiráðsins þar sem lífkennamynd er tekin af viðkomandi á staðnum. 

Gjald er DKK 695 fyrir 18-66 ára en DKK 300 fyrir aðra.  

Hraðafgreiðsla vegabréfa kostar DKK 1 395 fyrir 18-66 ára en DKK 595 fyrir aðra.

Athugið að ekki er tekið við reiðufé í sendiráðinu en hægt er að greiða með flestum kortum.

Þegar sótt er um vegabréf þarf að sýna eftirfarandi gögn:

  • Eldra vegabréf

Vegabréfin eru útbúin á Íslandi  og eru þau send af stað með almennum, rekjanlegum pósti til Danmerkur 6 virkum dögum eftir umsókn. Gera má ráð fyrir að ferlið frá umsókn þar til vegabréf berst til einstaklings taki allt að 4 vikur. 

Vegabréf fyrir börn

Við vegabréfaumsóknir barna er þess krafist að báðir foreldrar eða forráðamenn komi í sendiráðið og veiti samþykki sitt fyrir umsókninni.

Ef annað forsjárforeldra barns getur ekki mætt skal hann/hún rita vottað samþykki sitt á þar til gert eyðublað og það skannað inn í kerfið. Ef minnsta óvissa er um forræði þess sem leggur fram umsókn um vegabréf barns skulu allar þar til greindar upplýsingar staðreyndar eftir fremsta megni.

Heimildin til að víkja frá því skilyrði að báðir forsjárforeldrar standi að umsókn um vegabréf hefur nú verið þrengd mjög. Eingöngu er heimilt að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldrið er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti. Fullyrðingar um að annað foreldrið sé erlendis þar sem ekki náist í það eru alls ekki fullnægjandi grundvöllur.
Sjá nánar á vefnum www.skra.is

Börn sem fædd eru erlendis þurfa að vera komin með kennitöluskráningu í íslensku þjóðskránni til þess að hægt sé að sækja um vegabréf fyrir þau. Hafi barnið ekki fengið útgefið vegabréf fyrr skal sýna fæðingarvottorð barnsins þegar sótt er um.

Nafnabreytingar

Ef umsækjendi hefur tekið upp nýtt eftirnafn eða breytt á einhvern hátt eftirnafni sínu þarf að vera búið að ganga frá tilkynningu um slíkt til þjóðskrár á Íslandi (www.skra.is). Slíkt gerist ekki sjálfkrafa þó makar taki upp nafn hvors annars við hjónavígslu í Danmörku.

Sendiráðið vekur athygli á því að árið 2015 tóku gildi dönsk lög sem fela í sér að tvöfaldur ríkisborgararéttur er viðurkenndur í Danmörku.

Því geta Íslendingar búsettir í Danmörku, sem og börn þeirra, sótt um og -  að ákveðnum skilyrðum uppfylltum - öðlast danskan ríkisborgararétt án þess að afsala sér íslenskum ríkisborgararétti. Hægt er að leggja inn slíka umsókn hjá Udlændinge- og Integrationsministeriet.

Jafnframt geta Íslendingar, sem hafa afsalað sér íslenskum ríkisborgararétti til að öðlast danskan, sótt um endurveitingu íslensks ríkisborgararéttar án þess að missa þann danska. Þetta er þó háð ákveðnum skilyrðum sem fá má upplýsingar um hjá Útlendingastofnun.

Hafa ber í huga að svokölluð 22-ára-regla mun gilda áfram. Í henni felst að íslenskir ríkisborgarar með fleiri en einn ríkisborgararétt, sem fæddir eru erlendis og hafa aldrei átt lögheimili á Íslandi, missa íslenskan ríkisborgararétt þegar þeir verða 22 ára gamlir. Þetta gildir þó ekki ef þeir senda Útlendingastofnun, áður en þeir ná 22 ára aldri, tilkynningu um að þeir óski eftir því að vera áfram íslenskir ríkisborgarar.

Upplýsingar um reglur um öðlun dansks ríkisborgararéttar, sem og umsóknareyðublað, má nálgast á heimasíðu dönsku Útlendingastofnunarinnar, Udlændinge- og Integrationsministeriet: Nordiske statsborgere og á upplýsingasíðu danskra stjórnvalda www.borger.dk. 

Einnig hefur Info Norden uppfært upplýsingar sínar um öðlun dansks ríkisborgarréttar og er sá texti aðgengilegur bæði á íslensku og dönsku á heimasíðu Info Norden.

Útlendingastofnun svarar fyrirspurnum um íslenskan ríkisborgararétt og má t.d. senda stofnuninni slíkar fyrirspurnir á netfangið [email protected]. Vefur stofnunarinnar er island.is/s/utlendingastofnunog síminn þar er 00354 444 0900.

Jónshús í Kaupmannahöfn hefur verið í eigu Alþingis frá árinu 1967 er Carl Sæmundsen stórkaupmaður gaf það í minningu Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur. Þau hjón bjuggu í húsinu frá árinu 1852 allt til dauðadags, 1879. Húsið er við Øster Voldgade 12.  

Árið 1970 hófst rekstur í húsinu. Þar er nú félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn, minningarsafn um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu og bókasafn í kjallara hússins.

Einnig hafa Íslendingafélagið, íslenski söfnuðurinn, íslenskuskólinn, kórar og margir fleiri aðstöðu í húsinu. Þá er íbúð umsjónarmanns í húsinu, en þar var áður íbúð sendiráðsprests sem gegndi þá jafnframt stöðu umsjónarmanns hússins.

Sendiráðsprestur og Íslenski söfnuðurinn í Kaupmannahöfn

Prestur - Sigfús Kristjánsson

Sigfús Kristjánsson er prestur Íslendinga í Danmörku. Hann starfar með íslenska söfnuðinum í Kaupmannahöfn og sinnir einnig borgaraþjónustu í sendiráðinu. Hægt er að mæla sér mót við Sigfús í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í síma: (00 45) 33 18 10 56, íslenskur sími 545 7726 og gegn um netfangið [email protected]

Staðsetning sendiráðs: Strandgade 89, 1401 København K

Íslenskar guðsþjónustur

Guðsþjónustur eru að jafnaði einu sinni í mánuði í Esajas kirkju. Kvennakórinn Eyja og Kammerkórinn Staka skiptast á að syngja í guðsþjónustum og prestur er Sigfús Kristjánsson.

Staðsetning kirkjunnar: Esajas kirke, Malmøgade 14, 2100 København 

Sunnudagaskólinn

Sunnudagaskólinn er tvisvar í mánuði í Jónshúsi á laugardögum kl. 11.  Umsjón: Bryndís, Sólveig, Kjartan og Sigfús. Sunnudagaskólinn er lífleg samvera með söng, frásögnum og brúðuleikhúsi og eru allir krakkar velkomnir ásamt foreldrum sínum.

Staðsetning Jónshúss: Øster Voldgade 12, 1350 København K

Fermingarfræðslan

Fer fram á fermingarmótum haust og vor, auk fræðslufunda í Jónshúsi.

Nánari upplýsingar um þessa starfsþætti og tímasetningar er að finna á heimasíðu kirkjustarfsins: www.kirkjan.dk

Verklagsreglur varðandi framkvæmd fjarprófa hjá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn

Umsjónarmaður fjarprófa hjá sendiráðinu í Kaupmannahöfn er Halldóra Traustadóttir ( [email protected] )

Íslenskir námsmenn, við íslenskar menntastofnanir, geta sótt um að fá að taka fjarpróf á virkum dögum hjá sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Próftími fyrir hádegi hefst kl. 9 og eftir hádegi kl. 12 á dönskum tíma. Ef sá próftími hentar ekki er hægt að skoða hagræðingu, í samráði við menntastofnun. Sendiráðið mun leitast við að verða við óskum námsmanna, en þó getur komið upp að hafna þurfi próftökubeiðnum sökum plássleysis, t.d. vegna anna tengdum reglubundinni starfsemi sendiráðsins eða danskra frídaga.

Bóka þarf próftöku gegnum bókunarforrit sendiráðsins á hnappi hér að neðan með 14 daga fyrirvara (að jafnaði). Í bókuninni þarf að tilgreina fullt nafn, íslenska kennitölu og símanúmer umsækjanda ásamt heiti menntastofnunar og heiti fags sem óskað er eftir að þreyta próf í.

Greiða þarf sendiráðinu 50 DKK í umsýslugjald og eru próftakar beðnir um að greiða gjaldið með korti í afgreiðslu áður en próf hefst.

Hætti námsmaður við próftöku eða forfallist, t.d. vegna veikinda, er hann beðinn vinsamlegast að afbóka próftökubeiðni rafrænt og tilkynna sendiráðinu það eins fljótt og kostur er á [email protected]

Sendiráðið leggur próftökum ekki til tölvur og þeir eiga sjálfir að koma með fartölvur, sem og önnur tól vegna próftöku.

Framvísa ber persónuskilríkjum áður en próf hefst.

Búast má við klið vegna almennrar starfsemi í sendiráðinu og þurfa próftakar því sjálfir að gera viðeigandi ráðstafanir (eyrnatappar) til að draga úr hljóðbærni við próftöku.

Ef próftaka hefst fyrr í sendiráðinu en á Íslandi má próftaki ekki yfirgefa sendiráðið fyrr en prófið er hafið á Íslandi. (Þetta gildir þó ekki við ef viðkomandi menntastofnun hefur heimilað frávik frá þessu sökum tímamismunar).

Vinsamlegast athugið að próftaki þarf að yfirgefa sendiráðið í síðasta lagi kl. 15:45.


Bókið próftöku hér

Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn berast reglulega frá dönsku lögreglunni óskilamunir íslenskra ríkisborgara, sem fundist hafa og skilað hefur verið til lögreglu. Oftast er um að ræða veski eða stök skilríki.

Sendiráðið reynir að ná sambandi við viðkomandi og geymir óskilamuni í einhvern tíma, en séu þeir ekki sóttir þá eru þeir á endanum sendir til óskilamunadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Prestur - Sigfús Kristjánsson

Sigfús Kristjánsson er prestur Íslendinga í Danmörku. Hann starfar með íslenska söfnuðinum í Kaupmannahöfn og sinnir einnig borgaraþjónustu í sendiráðinu. Hægt er að mæla sér mót við Sigfús í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í síma: (00 45) 33 18 10 56, íslenskur sími 545 7726 og gegn um netfangið [email protected]

Staðsetning sendiráðs: Strandgade 89, 1401 København K

Helstu gjöld fyrir embættisverk

Frá 01. janúar, 2024

1. Útgáfa vegabréfa fyrir 18-66 ára:

    a. Almennt gjald - DKK 695

    b. Hraðútgáfu - DKK 1 395

    c. Neyðarvegabréf - DKK 375

2. Útgáfa vegabréfa fyrir aðra (börn, öryrkjar og ellilífeyrisþegar)

    a. Almennt gjald - DKK 300

    b. Hraðútgáfu - DKK 595

    c. Neyðarvegabréf - DKK 150

4. Lögbókendagerðir, þ.e. staðfesting undirskriftar stjórnvalda og einstaklinga, svo og aðrar staðfestingar, hvert skjal - DKK 135

5. Fjarprófstaka – DKK 50 

6. Aðstoð við útvegun vottorða og yfirlýsinga frá opinberum stjórnvöldum eða öðrum á Íslandi eða erlendis - DKK 320

7. Millifærsla fjármuna til og frá útlöndum (neyðartilvik) 

· Millifærsla allt að 75.000 kr.- DKK 320

· Millifærsla á bilinu 75.000 kr. til 280.000 kr. - DKK 835

· Millifærsla yfir 280.000 kr. - 3,75% af millifærðri fjárhæð (þó ekki hærra en DKK 4 270)

8. Ljósritun/endurritun - DKK 15 fyrir hverja blaðsíðu

9. Auk þeirra gjalda sem tilgreind eru hér að framan skal greiða, eftir því sem við á, sendingarkostnað, birtingarkostnað og annan útlagðan kostnað samkvæmt reikningi.

Athugið: Greiða má með helstu banka- og kreditkortum í sendiráðinu. 

Gjaldskrá þessi er í samræmi við lög um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 og 2. gr. reglugerðar um gjöld fyrir embættisverk starfsmanna utanríkisþjónustunnar nr. 353/1999. 

Íslendingar í Danmörku

Námsmenn

Túlkar og þýðendur í Danmörku

  • Erla Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi túlkur, þýðandi og textasmiður. Erla þýðir og túlkar yfir á íslensku úr dönsku, sænsku og norsku og úr íslensku yfir á dönsku. Þá tekur hún að sér textasmíði á dönsku og íslensku hvort sem eru greinar, skýrslur, erindi eða ræður. Erla hefur viðamikla reynslu af norrænu samstarfi og þekkingu á samfélögum Norðurlanda. Hægt er að hafa samband við Erlu í síma 2993 5757 eða á netfanginu [email protected]
  • Björg Birkholm Magnúsdóttir Mobil: +45 22213113 [email protected]

Sálfræðingar í Danmörku

  • Sigurður Eyjólfsson. Einstaklingar, pör og hópar; ráðgjöf, meðferð, handleiðsla, fyrirlestrar, fyrirtækjaráðgjöf.  Tekur við þeim sem borga sjálfir en auk þess með samning við tryggingafélög, stéttarfélög og sveitafélög sem borga hluta eða alla meðferð. Er auk þess með samning við danska tryggingakerfið og getur því tekið við einstaklingum, pörum og hópum sem hafa tilvísun frá eigin lækni.
  • Ragnhildur Þórðardóttir, sálfræðingur er sjálfstætt starfandi sálfræðingur með stofu á Frederiksberg.
    Meðferðarform byggist mest á hugrænni atferlismeðferð og ACT (acceptance commitment therapy) fyrir kvíða, depurð, þunglyndi, streitu, lífsáföll og sorg. Ragnhildur er sérhæfð í heilsusálfræði með sérþekkingu á átröskunum og ofátstengdum vandamálum, sem og markmiðasetningu og heilsuhegðun. Hægt er að hafa samband í gegnum tölvupóst: [email protected]
  • Sigrún Erlingsdóttir- sjálfstætt starfandi sálfræðingur í Viborg á Jótlandi. Sigrún tekur að sér meðferð á ýmsum lífsáföllum ásamt meðferð á ýmsum klíniskum erfiðleikum t.d. þunglyndi, kvíða, streitu, PTSD og persónuleikaröskunum. Hún tekur einnig að sér greiningar t.d. á ADHD og á einhverfurofi. Sigrún er sérfræðingur í geðröskunum / specialpsykolog i psykiatri. Sigrún er með samning við danska tryggingakerfið og getur því tekið við tilvísun frá eigin lækni. Hægt er að hafa samband í síma 2713 1070 og í gegnum netfangið [email protected].
  • Psykologisk Studio/Sigridur  Guðmundsdóttir sálfræðingur. Sálfræðileg ráðgjöf og samtalsmeðferð á íslensku. Nørregade 2, 5800 Nyborg, sími: 5017 8710
  • Anna Margrét Skúladóttir er Cand.Psych í Sálfræði frá Árósar Háskóla, og löggildingu síðan 2011.  Hún hefur sérhæft sig í áfallafræðum og meðferðum á sviði klínískar sálfræði, auk leiðtoga þjálfun og lausnamiðaða nálgana í krísu ástandi.
  • Árni Þóroddur Guðmundsson starfar sem sálfræðingur á Frederiksberg. Vinnur með hugræna atferlismeðferð (HAM eða CBT) og Acceptance and Commitment Therapy (ACT).
     - streituviðbrögð- álagstengt; tengt atvinnuleysi; tengt áföllum; tengt vonleysi
     - kvíðaraskanir - felmtursröskun (panic attack); félagsfælni; áráttu-þráhyggjuröskun (OCD); veikinda og dauðkvíða (health anxiety); almennan kvíða (general anxiety); uppkastfælni
     - þunglyndi og leiði, tilgangsleysi og vonleysi
     - sorg og áföll - missir ástvina og fjölskyldumeðlima; atvinnumissir; skilnaður; framhjáhald; skaði
     - átraskanir - undirþyngd; yfirþyngd; áthegðun; líkamsímynd
  • Þórey Kristín Þórisdóttirsálfræðingur (cand. psych.) og heilsumarkþjálfi er sjálfstætt starfandi sálfræðingur og sérhæfir sig í streitu og kulnun, börnum og unglingum, einhverfu, athyglisbresti, félagsfærni, þunglyndi og kvíða. Í heilsumarkþjálfun sinni nýtir hún bakgrunn sinn í sálfræði til að stuðla að varanlegum framförum hjá skjólstæðingum sínum. Samhliða eigin rekstri starfar Þórey í hlutastarfi fyrir Tårnby-sveitarfélaginu og vinnur þar með ungt fólk með einhverfu, auk einstaklinga með Downs-heilkennið auk annarra genatískra sjúkdóma. Þar veitir hún samtalsmeðferð með það að markmiði að draga úr kvíða, þunglyndi og streitu auk þess að hafa augun opin fyrir öðrum hugsanlegum greiningum (eventuelle sekundære diagnoser). Þórey beitir blöndu af aðferðum sem miðast við þarfir hvers og eins. Sem dæmi má nefna ACT, núvitund, hugræna atferlismeðferð og markþjálfun. Þórey rekur eigin stofu en býður einnig upp á sálfræðimeðferðir í gegnum netið í gegnum Kara Connect, sem hið íslenska Landlæknisembætti hefur samþykkt fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Hugbúnaðurinn er einfaldur í notkun og hefur nýst vel fyrir þá sem kjósa ekki eða geta ekki komið á stofu. Þórey býður upp á samtalsmeðferðir fyrir alla aldurshópa.

Lögfræðingar í Danmörku

  • Gísli Tryggvason-Landsréttarlögmaður
    [email protected] -sími: +354 8973314/+354 4196969
    Advokat.is

Talmeinafræðingar í Danmörku

  • Addý Guðjóns Kristinsdóttir - Þjónustar bæði börn og fullorðna með tal- og málmein. Um getur verið að ræða staðbundna kennslu eða fjarkennslu. Staðsett í Óðinsvéum, en býður upp á þjónustu fyrir einstaklinga um allt land. [email protected] -Sími: 28 78 01 04.
  • Sesselja Björg Stefánsdóttir - Heyrnar- og talmeinafræðingur, cand. mag. audiologpædi.
    Fjarfundarþjónusta og þjálfun á stofu.
    [email protected] Sími: 26 51 04 00

Stofnanir á Íslandi

Stofnanir í Danmörku

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum