Um sendiskrifstofu
Hlutverk sendiráðsins er margþætt en snýr einkum að því að gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga í Noregi og umdæmislöndum og vinna að því að þróa og efla enn frekar samband ríkjanna. Sendiráðið stundar markvissa upplýsingamiðlun um Ísland og íslensk málefni, auk þess að svara fyrirspurnum og veita stjórnvöldum og einstaklingum fyrirgreiðslu.
Auk Noregs eru Grikkland og Pakistan í umdæmi sendiráðsins.
Sendiráð Íslands í Osló
HeimilisfangStortingsgata 30
Postboks 4004 AMB
0244 Oslo
Sími: +(47) 2323-7530
Netfang
Afgreiðsla virka daga frá kl. 10:00 - 15:00
Sendiráð Íslands í OslóFacebook hlekkurSendiráð Íslands í OslóTwitte hlekkurSendiherra
Högni S. Kristjánsson
Ferilskrá
Menntun:
1991 Embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands.
Starfsferill:
2022– Sendiherra Íslands í Noregi
2022 til ágúst Starfandi staðgengill sendiherra Íslands gagnvart ESB
2018-2021 Eftirlitsstofnun EFTA, Stjórnarmaður fyrir hönd Íslands.
2016-2017 Sendiherra gagnvart Liechtenstein.
2016-2017 Fastafulltrúi gagnvart alþjóðastofnunum í Genf.
2012-2016 Skrifstofustjóri Viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
2011 Skipaður sendiherra.
2008-2012 Deildarstjóri Evrópumála á Viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
2003-2008 Sendifulltrúi í sendiráði Íslands gagnvart ESB, staðgengill sendiherra frá 1. desember 2005.
2002 Utanríkisráðuneyti Danmerkur, útsendur starfsmaður.
2000-2002 Sendiráðunautur á Viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
1996-1999 Sendiráðunautur fyrir dóms- og innanríkismál í sendiráði Íslands gagnvart ESB.
1993-1996 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, deildarstjóri.
1991-1993 Sýslumannsembættið í Kópavogi, löglærður fulltrúi.
Sendiráð Íslands í Noregi var opnað 19. júní 1947 og var Gísli Sveinsson, áður sýslumaður og forseti Alþingis, fyrsti sendiherrann sem hafði aðsetur í Osló. Á tímabilinu 1947 – 2014 hafa fimmtán sendiherrar þjónað í Noregi.
Stofnun sendiráðsins átti sér nokkurn aðdraganda:
Í ársbyrjun 1934 var ákveðið að láta reyna á það ákvæði 7. greinar sambandslaga Íslands og Danmerkur að skipa mætti við danskt sendiráð „ráðunauta með þekkingu á íslenskum högum“, en þá hafði um skeið verið um það rætt að Ísland þyrfti að hafa fulltrúa í Osló. Fyrir valinu varð Vilhjálmur Finsen, áður ritstjóri og annar tveggja stofnenda Morgunblaðsins, en hann var þá búsettur í Osló og vann við blaðamennsku. Vilhjálmur fékk skipun sem starfsmaður við danska sendiráðið í Osló 30. janúar 1934 og tók þar við störfum í byrjun apríl með starfsheitinu aðstoðarmaður („attaché“). Meðal helstu starfa Vilhjálms var upplýsingaöflun á sviði viðskiptamála.
Vilhjálmur starfaði um sex ára skeið í sendiráði Danmerkur. Eftir að Þjóðverjar höfðu náð öllum Noregi á vald sitt í júní 1940, tóku þeir að þjarma að erlendum sendiráðsmönnum sem eftir voru í Osló, banna þeim skeytasendingar og ritskoða póst þeirra. Hinn 15. júlí 1940 fékk Vilhjálmur, ásamt fulltrúum ýmissa annarra ríkja fyrirskipun frá Þjóðverjum um að hverfa úr landi. Öllum sendiráðum í Osló var lokað að kröfu Þjóðverja, en hlutlaus eða vinveitt ríki gátu haft þar ræðisskrifstofu, þ.á m. Danmörk.
Eftir að Vilhjálmur fór frá Osló tók danska ræðisskrifstofan að sér að annast fyrirgreiðslu við Íslendinga í Noregi á meðan á styrjöldinni stóð, en Vilhjálmur gat haft símasamband við dönsku ræðismennina eftir að hann varð sendifulltrúi Íslands í Stokkhólmi.
Hinn 20. desember 1940 var Pétur Benediktsson skipaður sendifulltrúi hjá norsku útlagastjóninni í London og hafði hann þá stöðu jafnframt sendifulltrúastöðunni í Bretlandi. Hann var skipaður sendiherra í Bretlandi 13. desember 1941 og sendiherra hjá norsku stjórninni 4. maí 1942.
Stefán Þorvarðarson tók við af Pétri sem sendiherra hjá norsku stjórninni 31. janúar 1944. Hann heimsótti Noreg í maí 1945 og fór þess á leit við dönsku ræðismennina að þeir héldu áfram fyrirgreiðslu við Íslendinga uns íslenskt sendiráð yrði stofnað í Osló. Í annarri ferð til Osló í september 1946 kannaði Stefán húsnæðismarkaðinn, þar eð til athugunar var að stofna íslenskt sendiráð í Osló. Í þeirri ferð skýrði hann Halvard Lange utanríkisráðherra frá því að íslenskur sendiherra yrði fljótlega skipaður hjá norsku stjórninni með búsetu í Osló. Hinn 19. júní 1947 var Gísli Sveinsson skipaður sendiherra í Noregi, eins og áður greinir. (Framangreindar upplýsingar byggja að miklu leyti á þriggja binda verki Péturs J. Thorsteinssonar um sögu utanríkisþjónustunnar).
Sendiráð Íslands var opnað á Grand Hótel í miðborg Osló í júlí 1947, en afhending trúnaðarbréfsins fór fram í sama mánuði. Skrifstofur sendiráðsins voru á Grand Hótel fram í apríl 1948, en þá voru þær fluttar á Torstedshjørnet við Stortingsgata 30. Í því húsi, sem byggt var 1934, hafa skrifstofurnar verið fram á þennan dag. Staðsetning sendiráðsins er eins og best verður á kosið, andspænis norska utanríkisráðuneytinu og konungshöllinni. Sendiráðið hafði upphaflega þrjú herbergi á fimmtu hæð hússins, en flutti tímabundið á fjórðu hæð, áður en það flutti á áttundu og efstu hæð hússins 1991.
Húsnæði sendiráðsins er 158.5 fm að flatarmáli, forstofa, sameiginlegt rými, tvö stærri herbergi, eldhús, skápaherbergi og geymsla.
Fyrirsvar sendiráðsins
Sendiráðið hefur fyrirsvar gagnvart eftirfarandi ríkjum, auk Noregs: Grikklandi og Pakistan.
Sendiráð annarra ríkja gagnvart Íslandi í Osló
Árið 2024 hafa eftirtalin 40 ríki sendiráð gagnvart Íslandi í Osló: Afganistan, Argentína, Belgía, Bosnía og Hersegóvína, Brasilía, Búlgaría, Egyptaland, Eistland, Filippseyjar, Gana, Grikkland, Holland, Indónesía, Íran, Írland, Ísrael, Ítalía, Kórea, Kúveit, Lettland, Marokkó, Norður-Makedónía, Pakistan, Palestína, Perú, Portúgal, Serbía, Síle, Slóvakía, Spánn, Suður-Afríka, Suður-Súdan, Súdan, Sviss, Tékkland, Túnis, Tyrkland, Taíland, Ungverjaland og Venesúela.
Sendiherrar frá upphafi
Pétur Benediktsson (sendifulltrúi 20.12.40 - 04.05.42 og sendiherra 04.05.42 - 31.01.44 hjá ríkisstjórn Noregs í London), Stefán Þorvarðarson (31.01.44 - 30.06.47 hjá ríkisstjórn Noregs í London), Gísli Sveinsson (01.07.47 - 28.05.51), Bjarni Ásgeirsson (28.05.51 - 15.06.56), Haraldur Guðmundsson (05.04.57 - 01.07.63), Hans G. Andersen (01.07.63 - 31.08.69), Agnar Kl. Jónsson (01.09.69 - 02.03.76), Árni Tryggvason (02.03.76 - 15.05.79), Páll Ásgeir Tryggvason (15.05.79 - 17.01.85), Níels P. Sigurðsson (17.01.85 - 11.05.89), Haraldur Kröyer (11.05.89 - 07.03.91), Einar Benediktsson (07.03.91 - 16.09.93), Eiður Guðnason (16.09.93 - 26.01.99), Kristinn F. Árnason (26.01.99 - 24.09.03), Stefán Skjaldarson (24.09.03 - 21.08.08), Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (21.08.08 - 01.02.11), Dr. Gunnar Pálsson (01.05.11 - 19.06.15), Hermann Örn Ingólfsson (20.08.15 - 29.08.19), Ingibjörg Davíðsdóttir (29.08.19 - 01.08.22) og Högni S. Kristjánsson (25.08.22 - ).
Embættisbústaður Íslands
Langviksveien 6
Bygdøy
Á fyrstu árum sendiráðsins í Osló bjuggu sendiherrar ýmist á gistihúsi eða í leiguhúsnæði. Árið 1952 keypti íslenska ríkið embættisbústað á Bygdøy og hafa sendiherrar búið þar síðan og notað bústaðinn til móttökuhalds. Bygdøy er nes mikið sunnan við borgina og er mjór vogur, Frognerkilen, á milli. Bústaðurinn er austarlega á nesinu, skammt frá Víkingaskipshúsunum, byggðasafni Noregs og sumarbústað konungshjóna, Bygdøy kongsgård.
Bústaðurinn, Ekhaugen við Langviksveien 6, var keyptur í sendiherratíð Bjarna Ásgeirssonar (1951 – 1956), en þá gegndi Eysteinn Jónsson starfi fjármálaráðherra. Eysteinn þótti aðhaldsamur, en þar sem Noregur átti í hlut, gaf hann fyrirmæli um að vandað skyldi til kaupanna. Húsið hefur síðan verið mikilvæg umgjörð samskipta Íslands og Noregs. Þar hafa mikilvægir fundir farið fram og þar hefur verið tekið á móti mörgum gestum, m.a. úr stjórnmála- og viðskiptalífi. Húsið er eini upprunalegi bústaðurinn sem eftir er í utanríkisþjónustunni.
Húsið var líklega byggt á árunum 1907 – 1911 og samkvæmt því hundrað ára 2011. Iðjuhöldurinn Johan Throne Holst (1868 – 1946) byggði húsið og var það keypt af afkomendum hans og eftirlifandi eiginkonu, Hönnu, sem féll frá 1952. Í grein sem birtist í jólablaði Fálkans 1953, árið eftir að húsið var keypt kemur fram að synir Throne Holst, hafi heldur viljað selja húsið vægu verði en láta það ganga kaupum og sölum á markaði og eiga þannig á hættu að það lenti í braski eða yrði nítt niður. Megi því með fullum rétti segja, að íslenska ríkið „hafi fengið tækifæriskaup á þessu stórmyndarlega húsi“.
Eftir efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008, skýrði bandaríska stórblaðið Wall Street Journal frá því vorið eftir að íslenska ríkið hefði í hyggju að selja nokkra sendiherrabústaði, þ. á m. í Osló. Fréttin birtist í norska dagblaðinu Verdens Gang og þar haft eftir utanríkisráðuneytinu í Reykjavík að til stæði að selja bústaðinn svo lengi sem viðhlítandi verð fengist fyrir hann. Bústaðurinn fór ekki á markað og var horfið frá áformum um sölu hans.
Merkur frumkvöðull
Throne Holst, brautryðjandi í norsku atvinnulífi og samfélagshugsun, var stofnandi súkkulaðiverksmiðjunnar Freia árið 1889 og leiðtogi í norsku viðskiptalífi, m.a. stofnandi og síðar formaður Samtaka iðnaðarins. Hann sat um tíma á þingi fyrir frjálslynda hægrimenn, en tók síðar sæti í borgarstjórn, þar sem hann kunni betur við sig.
Throne Holst aðhylltist það sjónarmið að allir ættu að hafa jöfn tækifæri í atvinnulífinu og var hann fyrstur til að bjóða jafnt verkamönnum sem öðrum starfsmönnum hlutabréf í fyrirtæki sínu. Hann fékk Edvard Munch til að mála veggmyndir í borðsal starfsfólksins og þar stóð hann fyrir fyrirlestrum og tónleikum. Einnig beitti hann sér fyrir því að stofnað var sérstakt embætti í næringarfræði við Oslóarháskóla. Loks var hann mikill garðunnandi og lét búa til sérstakan garð fyrir starfsfólk við verksmiðju sína. Garðurinn, með fjölda höggmynda, er í ny-moderne stíl, líkt og Vigelandsparken, og hefur verið vel við haldið.
Í Ekhaugen tók Throne Holst um árabil á móti viðskiptamönnum sínum, stjórnmálamönnum og stórfjölskyldu, sem m.a. safnaðist þar saman hvern jóladag.
Bústaðurinn
Ekhaugen er reisulegt timburhús, tvílyft með þakhæð og steinsteyptum kjallara. Grunnflötur þess er um 250 fm., en húsið allt 650 fm. Þakhæð/háalofti er skipt niður í nokkur geymslurúm. Á efri hæð eru fimm herbergi, tvö stærri baðherbergi, eitt minna, og eitt fataherbergi, ásamt göngum og forsal, tengdum með stiga við forsal á neðri hæð. Þrennar svalir, tvennar stórar og ein minni, eru í sambandi við herbergi og ganga á efri hæð. Á neðri hæð er forstofa með marmaragólfi og marmaraklæddum veggjum að neðanverðu. Inn af forstofunni tekur við rúmgóður forsalur og er uppgegnt þaðan á efri hæðina. Úr forsalnum eru einnig dyr inn að eldhúsganginum og inn í bókasafn og enn aðrar inn í aðalstofuna. Í henni er opinn arinn úr marmara. Þetta er stærsta stofan í húsinu, um 50 fermetrar. Inn af henni er borðstofan, en veggir hennar eru þaktir ámáluðu silki með blómamunstri. Glerhurð veit að verönd úti fyrir borðstofu. Úr borðstofunni eru einnig dyr að eldhúsi. Undir húsinu er kjallari, hólfaður sundur í geymslur, búr, eldhús, lítið baðherbergi, þrjú önnur herbergi, tankklefa og kyndiklefa. Sjálfvirk olíukynding hitar miðstöðvarkerfið. Tveir bílskúrar eru við annað innkeyrsluhliðið á lóðinni.
Garðurinn
Throne Holst lét ekki undir höfuð leggjast að gera fallegan garð við heimili sitt, í ny-moderne stíl, líkt og garðinn við verksmiðju hans. Garðurinn liggur að tveimur götum, Langviksveien og Fredriksborgveien, en húsið stendur á hornlóð. Hún er um 3000 fermetrar, prýdd gróður- og aldintrjám, en sléttur grasflötur í miðju.
Í garðinum voru að sögn upphaflega um 70 tré af um 20 mismunandi tegundum. Af aldinum uxu þar epli, perur og plómur, en einnig kirsuber. Blómaskrúð er þar mikið og hefur klifurviði og rósabeði við vesturhlið hússins verið við haldið.
Upphaflegar gangstéttar og hellur í garðinum eru nú í slæmu ástandi og hluti grindverks þarfnast endurnýjunar.
Handbragð listamanns
Handverk hins fjölhæfa íslenska listamanns Guðmundur Einarssonar frá Miðdal (1895 – 1963) setur svip á bústaðinn, en Guðmundur var vinur Bjarna Ásgeirssonar sendiherra og dvaldi um lengri eða skemmri tíma hjá honum á tímabilinu 1952 – 1956.
Gosbrunnur, hannaður af Guðmundi, er andspænis veröndinni fyrir borðstofudyrum bústaðarins, krjúpandi hafmey með stórfisk í fanginu. Þessi fallega stytta Guðmundar frá árinu 1958 er um 150 cm á hæð, en gosbrunnurinn er ekki lengur tengdur.
Við aðalinnkeyrslu tróna málmsteypt líkneski af íslenskum torfbæ með handbragði Guðmundar sitt hvoru megin við hliðið og þjóna sem luktir. Í garðinum standa einnig þrír tvíhöfða ljósastaurar, tveir þeirra við innkeyrslu, og er hugsanlegt að þeir hafi einnig verið hannaðir af Guðmundi.
Hermt er að Guðmundur hafi komið við sögu við hönnun garðskála bústaðarins, þrjár burstir í torfbæjarstíl, sem þaktar eru klifurviði.
Nokkur listaverka Guðmundar setja svip á bústaðinn innanhúss; sex leirmunir listamannsins og tvö olíumálverk, hvort tveggja í eigu sendiráðsins.
Ósennilegt er að listfengi Guðmundar frá Miðdal sjáist víða merki í jafn stórum stíl og í bústað íslenska ríkisins í Osló, en á árinu 2013 voru liðin 50 ár frá því listamaðurinn féll frá. Árið 2011 færði forseti Alþingis sendiráðinu að gjöf bókina Listvinahús, með myndum af leirmunum Guðmundar frá tímabilinu 1930 – 1956, og er hún varðveitt í bústaðnum.