Hoppa yfir valmynd

Þjónusta við Íslendinga

Sendiráð Íslands leggur lið bæði þeim Íslendingum sem búsettir eru í Noregi, námsmönnum og ferðamönnum.

Verkefni sendiráðsins á sviði borgaraþjónustunnar eru margvísleg og aðstoð sendiráðsins getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leiti til sendiráðsins vegna samskipta við hin ýmsu stig norskrar stjórnsýslu, svo og vegna útgáfu vegabréfa, neyðarvegabréfa o.þ.h.

Þó verkefni borgaraþjónustunnar verði ekki talin hér upp með tæmandi hætti má segja að þeim séu sett ákveðin mörk. Hafa ber í huga að hér er um að ræða aðstoð til íslenskra ríkisborgara, sem að mörgu leyti felst í því að leiðbeina þeim svo þeir geti leyst mál sín sjálfir. 

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að sendiráðið veitir enga fjárhagsaðstoð af nokkru tagi.

Sjá frekari upplýsingar um borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hér.

Borgaraþjónusta fyrir íslenska ríkisborgara erlendis

Íslenskum námsmönnum er heimilt að taka próf frá íslenskum menntastofnunum í sendiráðinu á virkum dögum. Menntastofnun skal senda beiðni um próftöku á netfang sendiráðsins [email protected] og gera grein fyrir nemanda, námsgrein og dagsetningu prófs. Beiðnin skal vera send með ekki minna en tíu daga fyrirvara. Frekari upplýsingar og leiðbeiningar fást hjá sendiráðinu með því að senda póst á [email protected]

 

REGLUR UM PRÓFTÖKU

Verklagsreglur varðandi framkvæmd fjarprófa hjá sendiráði Íslands í Ósló

1. Íslenskum námsmönnum er heimilt að taka próf við íslenskar menntastofnanir í sendiráði Íslands í Ósló á virkum dögum enda liggi fyrir samþykki viðkomandi menntastofnunar, sbr. þó 11. lið.

2. Menntastofnun skal senda beiðni um próftöku í tölvupósti tímanlega fyrir prófdag á netfang sendiráðsins [email protected] með nemandaupplýsingum, hver námsgreinin sé, dagsetningu og tímasetningu prófsins. 

3. Próf geta hafist kl. 09.00 og þeim skal lokið eigi síðar en 15.00.

4. Komi til þess að námsmaður þreyti próf í sendiráðinu fyrr en á Íslandi skal hann ekki yfirgefa sendiráðið fyrr en það er hafið á Íslandi (skólinn getur gefið undanþágu á þessari reglu). 

5. Sendiráðið tekur ekki ábyrgð á hávaða og kliði sem getur stafað frá almennri starfsemi þess. Húsnæði sendiráðsins er hvorki hannað kennsluhúsnæði né gert ráð fyrir próftöku í því. 

6. Námsmönnum ber sjálfum að koma með tölvur og annars konar tæki sem þeir þurfa til að leysa prófin. 

7. Við upphaf próftöku skal námsmaður framvísa vegabréfi eða öðrum persónuskilríkjum. 

8. Námsmanni ber að tilkynna sendiráðinu ef honum er ómögulegt að mæta í prófi á þeim tíma sem tilkynntur hefur verið. 

9. Námsmanni ber að virða í hvívetna prófreglur viðkomandi menntastofnunar.

10. Námsmaður skal lúta þeim umgengnisreglum sem gilda í sendiráðinu.

11. Sendiráðið áskilur sér rétt til að hafna próftöku ef húsnæði þess sé í notkun af öðrum ástæðum.

12. Hægt er að fá aðganga að wifi sendiráðsins ef þörf krefur.

13. Ef nemandi ætlar ekki að taka prófið sem hann hefur skráð sig í hjá sendiráðinu, þarf hann að láta vita við fyrsta tækifæri. 

14. Prófstofur eru að jafnaði opnaðar 10 mínútum áður en próf hefst. Mæti nemandi meira en einni klukkustund eftir að próf hefst fær hann ekki að þreyta prófið

Sé barn sem fætt í Noregi og báðir foreldrar þess eru íslenskir ríkisborgarar, þá á barnið ekki kost á því að verða norskur ríkisborgari við fæðingu (hægt er að sækja um það síðar, sjá upplýsingar hér). Þá verður barnið íslenskt en foreldrar bera ábyrgð á því að tilkynna fæðingu barnsins til Þjóðskrár og fá úthlutaðri íslenskri kennitölu.

Skráning barns í Þjóðskrá

Allar almennar upplýsingar um íslenskan ríkisborgararétt

Almennt er tvöfaldur ríkisborgararéttur ekki leyfður af norskum yfirvöldum en þar eru þó nokkrar undantekingar á. Upplýsingar um tvöfaldan ríkisborgararétt frá norskum yfirvöldum 

Nafnbreytingar: Ef umsækjandi hefur tekið upp nýtt eftirnafn eða breytt á einhvern hátt nafni sínu þarf að vera búið að ganga frá tilkynningu um slíkt til Þjóðskrár. Slíkt gerist ekki sjálfkrafa þó makar taki upp nafn hvors annars til dæmis við hjónavígslu í Noregi.

Hafi nafnbreyting þegar gengið í gegn í norskri þjóðskrá (Folkeregistret), þá er best að hafa afrit af þeirri skráningu tiltæka fyrir íslenska þjóðskrá. 

Umsækjendum er bent á að sannreyna að nafn þeirra sé skráð í Þjóðskrá eins og óskað er að það komi fram í vegabréfi, sé ástæða til að ætla að um misræmi gæti verið að ræða.

Vakin er athygli á því að ræðismenn geta ekki lengur tekið við umsóknum um vegabréf.

Ræðismenn geta eftir sem áður haft milligöngu um útgáfu neyðarvegabréfa. 

Ræðismenn Íslands í Noregi og öðrum umdæmislöndum eru einkaaðilar sem hafa tekið að sér að gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga í sínu umdæmi. Ræðismenn eru ólaunaðir.

Á vefsetri utanríkisráðuneytisins er að finna upplýsingar um vegabréfsáritanir sem Íslendingar þurfa vegna ferðalaga til einstakra landa.

Útlendingastofnun veitir upplýsingar um vegabréfsáritanir sem erlendir ríkisborgarar þurfa vegna ferðalaga til Íslands

Sótt er um íslensk sakavottorð hjá sýslumönnum á Íslandi, sjá frekari upplýsingar hjá http://www.syslumenn.is/utanrvk/leyfi_skirteini/sakavottord/

Kosningaréttur Íslendinga í sveitarstjórnarkosningum í Noregi

Íslenskir ríkisborgarar hafa ekki kosningarétt í þingkosningum í Noregi, jafnvel þótt þeir hafi þar búsetu.

Íslenskir ríkisborgarar sem skráðir eru með búsetu í Noregi geta kosið í sveitarstjórnarkosningum skv. ákvæðum laga um sveitarstjórnarkosningar

Upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar Info Norden veitir upplýsingar m.a. um atriði er varða flutning á milli Norðurlanda, þ.m.t. skásetningu, ”kennitölur” o.fl.

Nordisk eTax - Nordisk eTax er upplýsinga síða um skatta fyrir þá, sem eru búsettir í einu norrænu ríkjanna, en hafa tekjur eða eiga eignir í einhverju öðru þeirra. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum