Hoppa yfir valmynd

Lífeyristryggingar og eftirlaun aldraðra

Lífeyristryggingar, sem falla undir lög um almannatryggingar, taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga, laga um félagslega aðstoð, greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og framkvæmd laga um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fjallar um ágreining sem rís um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra.

Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum sem þess þurfi skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar, vegna meðal annars örorku og elli. Ákveðnu kerfi hefur verið komið á hér á landi með lögum, í þeim tilgangi að tryggja öllum íbúum landsins rétt til aðstoðar í þessum tilvikum.

Lífeyristryggingakerfi íslenska ríkisins, almannatryggingakerfið, er skyldubundið og lögbundið. Það tekur til allra sem búsettir eru á Íslandi, óháð ríkisborgararétti. Lífeyrisréttindi ávinnast við búsetu og veitir 40 ára búseta fullan rétt en sé um skemmri tíma að ræða greiðist lífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Ekki er gerð krafa um atvinnuþátttöku og ekki er krafist sérstakrar skráningar, umsóknar eða greiðslu iðgjalds til að ávinna sér réttindi. Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði, meðal annars af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi.

Fjárhæð lífeyris almannatrygginga er föst fjárhæð, óháð fyrri tekjum lífeyrisþega sem ákveðin er með lögum og endurskoðuð árlega í tengslum við fjárlög. Lífeyrisgreiðslur hvers lífeyrisþega lækka eftir ákveðnum reglum hafi viðkomandi jafnframt samhliða aðrar tekjur, s.s. frá lífeyrissjóði, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Mánaðarleg lífeyrisgreiðsla til lífeyrisþega getur því verið mismunandi eftir einstaklingsbundnum aðstæðum.

Til viðbótar lífeyri almannatrygginga er heimilt samkvæmt lögum um félagslega aðstoð að greiða lífeyrisþegum uppbætur til viðbótar við lífeyrisgreiðslur vegna sérstakra aðstæðna eða kostnaðar. Hér er um að ræða heimild sem háð er mati hverju sinni.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 28.4.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum