Hoppa yfir valmynd

Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði getur eigandi íbúðarhúsnæðis, ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um einhvern tíma ófær um að standa í fullum skilum á greiðslu skulda sem tryggðar eru með veði í því húsnæði og að önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði séu eða hafi reynst ófullnægjandi, leitað eftir greiðsluaðlögun vegna þeirra og getur hún staðið í allt að fimm ár.

Með slíkri greiðsluaðlögun breytast skuldbindingar skuldarans á þann hátt að aðeins verða gjaldkræfar greiðslur sem honum telst fært að standa straum af en frestað er gjalddaga þess hluta skuldbindinganna sem eftir er svo lengi sem greiðsluaðlögun stendur.

Greiðsluaðlögun getur einungis fengið sá einstaklingur sem er þinglýstur eigandi viðkomandi fasteignar og hefur forræði á fé sínu. Eigi tveir eða fleiri einstaklingar fasteignina í óskiptri sameign verða þeir í sameiningu að ganga til greiðsluaðlögunar. Greiðsluaðlögun getur aðeins varðað fasteign þar sem skuldarinn heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða hóflegt húsnæði miðað við þarfir skuldara og fjölskyldu hans sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Greiðsluaðlögun getur þó tekið til slíkrar fasteignar þótt skuldarinn haldi þar hvorki heimili né hafi þar skráð lögheimili ef hann er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda. Beina skal umsóknum um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem fasteignin er staðsett. Umboðsmaður skuldara veitir aðstoð við gerð umsóknar um greiðsluaðlögun sé þess óskað og hægt er að nálgast umsóknareyðublöð undir umsókn um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á vef embættisins. Með umsókn þarf að fylgja fjárhagsyfirlit, sem finna má á sama stað.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 18.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum