Hoppa yfir valmynd

Stuðningur við íbúðakaup

Alþingi samþykkti í október 2016 lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, sem gilda frá 1. júlí 2017. Tilgangurinn með stuðningnum er að auka og hvetja til húsnæðissparnaðar og auðvelda fyrstu kaup. Jafnframt felur úrræðið í sér stuðning við þau sem vilja taka óverðtryggð lán þar sem samspil greiðslna inn á höfuðstól og afborganir gera greiðslubyrði þeirra á fyrstu árum sambærilega við löng verðtryggð lán hjá þorra einstaklinga.

Í lögunum stuðning til kaupa á fyrstu íbúð er kveðið á um þrjár leiðir til ráðstöfunar viðbótariðgjalds, sem eru eftirfarandi:

 • Heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð
 • Heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, yfir tíu ára samfellt tímabil
 • Heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess

Úrræði laganna eru varanleg en hámarkstími er samfellt tíu ára tímabil fyrir hvern einstakling. Greiðslur hvers einstaklings inn á séreignarsparnað geta numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili, samtals 10 milljónir fyrir par. Fyrir þá sem ekki eru þegar með séreignarsparnað getur sú ákvörðun að leggja fyrir og nýta sparnað til húsnæðiskaupa samsvarað um 3% launahækkun í 10 ár vegna skattalegs hagræðis og mótframlags launagreiðanda.

Úrræðin standa öllum til boða sem greiða eða munu greiða í séreignarsparnað og hafa ekki átt íbúð áður.

Helstu efnisþættir laganna um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð eru eftirfarandi:

 • Stuðningur fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.
 • Úrræðið gildir í tíu ár samfellt.
 • Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar sem safnast hefur upp á tilteknu tímabili til kaupa á fyrstu íbúð.
 • Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og sem tekið var vegna kaupanna.
 • Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar til afborgunar á óverðtryggðu láni og inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í húsnæðinu.
 • Séreignarsparnaður sem nýttur er til greiðslu inn á höfuðstól lána og eftir atvikum sem afborgun vegna kaupa á fyrstu íbúð er skattfrjáls.

Hámarksfjárhæðir og önnur viðmið:

 • Hámarksfjárhæð á ári (almanaksári), samtals 500 þús. kr. á einstakling.
 • Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.
 • Einstaklingur spari a.m.k. til jafns við framlag launagreiðanda.
 • Áskilið er að rétthafi eigi að minnsta kosti 30% hlut í íbúðarhúsnæðinu.

Höfuðstólslækkun verðtryggðra fasteignalána

Árið 2013 var tilkynnt um tvenns konar aðgerðir til að aðstoða heimili við að takast á við aðleiðingar fjármálahrunsins og þá efnahagskreppu sem fylgdi í kjölfarið. Þeir sem höfðu skuldað verðtryggð íbúðalán á þessum tíma gátu sótt um að höfuðstóll þeirra yrði lækkaður og var fjármagn til aðgerðarinnar sótt til fjármálafyrirtækjanna í landinu, einkum hinna föllnu banka. Hins vegar gátu heimili nýtt séreignarsparnað sinn til þess að lækka skuldir eða í útborgun vegna íbúðarkaupa, án þess að greiða skatt af úttektinni.

Lækkun höfuðstóls var almenn aðgerð þar sem einu áhrifaþættir upphæðar sem hver umsækjandi átti rétt á voru skuldir, hámarksupphæð lækkunar og umfang þeirra aðgerða sem umsækjandi hafði notið. Engu að síður er nokkur mismunur á milli þjóðfélagshópa.

Nýting séreignarsparnaðar var nýtt úrræði til að lækka skuldir. Í því felst heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar iðgjalda séreignasparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa.

Síðast uppfært: 2.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum