Hoppa yfir valmynd

Tölfræði og útgefið efni

Unnið er að uppfærslu á efni síðunnar

Lykiltölur um starfsmenn og stofnanir ríkisins

Alþingi samþykkir fjárlög til eins árs í senn og þau kveða meðal annars á um hvernig útgjöld ríkisins skiptast á milli verkefna. Útgjöldunum má skipta í þrjá meginflokka eftir eðli verkefnanna, það er framkvæmdir, tilfærslur í almannatryggingakerfinu eða viðvarandi þjónustu- og rekstrarverkefni. Undir síðastnefnda flokkinn falla verkefni ráðuneyta og stofnana svo sem löggæslu, heilsugæslu og sjúkrahús, menntastofnanir, eftirlitsstofnanir og fleira.

Upplýsingarnar eru unnar úr gögnum úr launavinnslukerfi fjársýslu ríkisins. Árið 2007 var launavinnsla stofnana ríkisins í fyrsta sinn sameinuð í eitt launavinnslukerfi, Oracle. Frá þeim tíma eru til samræmdar upplýsingar um heildarfjölda ríkisstarfsmanna, vinnumagn og fleira sem auðveldar samræmda upplýsingagjöf um starfsmannamál ríkisins.

Vinnumarkaður á Íslandi

Ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins þar sem fjölbreytt og krefjandi störf bjóðast um allt land. Starfsmenn ríkisins eru að jafnaði um 21 þúsund talsins en stöðugildi eru töluvert færri þar sem margir eru í hlutastörfum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar starfa tæplega  180 þúsund manns á ársgrundvelli á íslenskum vinnumarkaði og eru ríkisstarfsmenn því um 12% starfandi í landinu.

Hið opinbera – ríki og sveitarfélög

Vinnumarkaðinum er gjarnan skipt í tvennt, í almennan og opinberan vinnumarkað. Á almennum vinnumarkaði eru starfsmenn einkafyrirtækja en á opinberum vinnumarkaði sem eru starfsmenn ríkis, sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana ýmissa. Mismunandi lög og reglur gilda að mörgu leyti um almennan og opinberan vinnumarkað og að sama skapi eru kjarasamningar og launaákvarðanir ólíkar milli markaða og ríkis og sveitarfélaga einnig.

Í daglegu tali um vinnumarkaðsmál er ríkið oft lagt að jöfnu við opinberan vinnumarkað, en mikilvægt er að hafa í huga að opinber vinnumarkaður er tví- eða þrískiptur og ríkið aðeins hluti „hins opinbera“.

Stofnanir ríkisins

Stofnanir ríkisins eru rúmlega 160 talsins en þá eru ekki talin opinber hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða lögaðilar sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins.  Flestar ríkisstofnanir heyra undir mennta- og barnamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Stofnanir eru fjölbreyttar að stærð en hjá tæpum helmingi þeirra starfa færri en 20 starfsmenn. Langfjölmennasti vinnustaðurinn er Landspítalinn þar sem starfa um 5.500 manns.

Starfsmenn ríkisins

Töluverðar sveiflur eru í starfsmannafjölda hjá ríkinu yfir heilt ár. Þannig fjölgar starfsmönnum yfir sumarmánuðina vegna afleysinga en færri eru við störf yfir vetrarmánuðina. Að meðaltali voru 21.165 starfsmenn hjá ríkinu árið 2016. Fjöldi ársverka er nokkuð færri þar sem margir eru í hlutastörfum, en ársverkin árið 2016 voru 16.809. Konur eru 65% ríkisstarfsmanna eða næstum því tveir af hverjum þremur starfsmönnum. Vinnuframlag kvenna er hins vegar nokkru minna hlutfallslega þar sem þær eru líklegri til að vinna hlutastarf en karlar.

Kjarasamningsumhverfi ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðherra fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga við starfsmenn ríkisins. Hann skipar samninganefnd til að annast samningagerð fyrir sína hönd og starfar hún í nánum tengslum við Kjara- og mannauðssýsluna.

Í kjarasamningi er samið um launatöflur, vinnutíma, laun fyrir yfirvinnu, orlof, rétt til launa í veikindum og fleira. Kjarasamningar skulu vera skriflegir og í þeim skal kveðið á um lengd samningstímans. Kjarasamningur gildir frá undirskrift samningsins nema um annan gildistíma hafi verið samið og hann ekki verið felldur við atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Áður fyrr var samið um launasetningu starfa í kjarasamningum en í lok liðinnar aldar var horfið frá miðlægri ákvörðun launa og hún færð til stofnana með stofnanasamningum. Í stofnanasamningum, sem gerðir eru milli stofnunar og stéttarfélags, er fjallað um útfærslu tiltekinna þátta kjarasamningsins og taka þeir nánari mið af þörfum stofnunar og starfsmanna en miðlægur kjarasamningur bauð upp á.

Fjöldi kjarasamninga sem fjármálaráðherra gerir ræðst meðal annars af samstöðu stéttarfélaga innan bandalaga. Undanfarin samningatímabil hefur samninganefnd ríkisins gert um 30 kjarasamninga við 100 stéttarfélög. Ríkið gerir kjarasamninga við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem starfa á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Samkvæmt lögum hafa stéttarfélög umboð til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna, en félögin geta einnig framselt samningsumboð sitt til heildarsamtaka eða bandalags. Flest stéttarfélög tilheyra bandalögum en þau fjölmennustu eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Bandalag háskólamanna (BHM) og Kennarasamband Íslands (KÍ). Nokkur stéttarfélög standa utan bandalaga, til dæmis Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Íslands

BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna en aðildarfélög bandalagsins eru 26 og fjöldi félagsmanna um 21.000, þar af um 6.600 hjá ríkinu. Í BHM eru 26 stéttarfélög og eru flest þeirra svokölluð fagstéttarfélög. Um 5.900 starfsmenn ríkisins eru í BHM. Kjarasamningur ríkisins við Kennarasamband Íslands nær til tæplega 1.500 kennara og skólastjórnenda í framhaldsskólum.

 

Ríkið gerir einnig kjarasamninga við stéttarfélög sem starfa á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Flest þeirra eru í Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) sem eru stærstu heildarsamtök launafólks á Íslandi. Félagsmenn ASÍ eru um 100.000 í 5 landssamböndum og 49 aðildarfélögum en hjá ríkinu starfa um 1.000 félagsmenn aðildarfélaga ASÍ.

Vegna stöðu sinna og starfa eru laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, sendiherra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, forsetaritara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. einhliða ákveðin af Kjararáði, sem starfar skv. lögum nr 130/2016. Úrskurðir Kjararáðs jafngilda kjarasamningum og heyra starfskjör rúmlega 400  einstaklinga undir ráðið.

Meðallaun starfsmanna ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkisins, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Stéttarfélag verkfræðinga birtir á vef sínum upplýsingar um laun starfsmanna ríkisins eftir bandalögum og stéttarfélögum. Framsetning upplýsinganna verður í líkingu við þá framsetningu sem var í Fréttariti KOS (Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna) með ákveðnum breytingum sem samkomulag hefur orðið um.

Forsaga

Í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2005 var bein starfsemi á vegum KOS lögð af. Annars vegar með því að gerður var samstarfssamningur milli KOS og Hagstofu Íslands sem ætlað er að tryggja samræmi í launarannsóknum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Hins vegar gerðu fjármálaráðuneytið og bandalög ríkisstarfsmanna með sér „ Samkomulag um umgjörð upplýsingagjafar frá ríki til heildarsamtaka ríkisstarfsmanna“ . Tilgangurinn með því samkomulagi var að samræma upplýsingagjöf til heildarsamtaka ríkisstarfsmanna og að skapa samráðsvettvang um opinbera birtingu upplýsinga um laun ríkisstarfsmanna. Aðilar hafa komist að samkomulagi um aðferðafræði og reiknireglur vegna opinberrar birtingar og má sjá þær í skýringum hér að neðan. Félög utan bandalaga hafa gert hliðstæð samkomulög við fjármálaráðuneytið um umgjörð upplýsingargjafar.

Talnaefni

Skrár með upplýsingum um laun ríkisstarfsmanna eftir stéttarfélögum í heildarsamtökum og stéttarfélögum utan bandalaga eru aðgengilegar öllum. Einungis eru birtar upplýsingar um þá hópa sem hafa að lágmarki 20 stöðugildi í dagvinnu í viðkomandi launatímabili. Upplýsingarnar eru sérgreindar fyrir karla og konur ef sama lágmarksfjölda er náð.

Talnaefnið er birt á slóðinni: gogn.fjr.is.

Aðferðafræði og skýringar

Upplýsingarnar sýna meðaltöl launa. Gögnin eru ekki greind frekar og þar af leiðandi er takmarkað hve miklar ályktanir er hægt að draga af upplýsingunum. Meðaltal sýnir aðeins hvar þunginn í launasetningu hvers hóps liggur og launaþróun hans. Meðaltal tekur lítið tillit til einstaklingsbundinna þátta sem hafa áhrif á launamyndun, svo sem menntun, starfsreynslu, stjórnunarskyldur og innihald starfa. Því er hér um óleiðréttan launamun að ræða, það er að ekki er búið að taka tillit til skýribreyta.

Reikniaðferðir sem lagðar eru til grundvallar eru að mestu sambærilegar við þær sem notaðar voru í fréttariti KOS með tveimur mikilvægum undantekningum. Vaktaálag er hér flokkað sérstaklega en ekki með öðrum launum. Þá eru aðeins teknar með í útreikningana þær færslur úr gagnasafni þar sem stöðugildi í dagvinnu (greitt starfshlutfall) er á bilinu 25% til 100%. Tilgangur þess er að forðast óeðlileg áhrif frávika í minni hópum, enda geta óregluleg launauppgjör og frávik í skráningum haft umtalsverð áhrif á meðallaun.

Meðallaun eru fengin með því að deila með fjölda greiddra stöðugilda í samtölu viðkomandi launaflokkunar samanber meðfylgjandi skýringar á flokkun launategunda.

Skilgreiningar á launahugtökum

Stöðugildi

Samtala stöðugilda í dagvinnu þeirra sem eru skráðir í 25-100% starf í hverjum mánuði. Upplýsingar eru ekki birtar ef fjöldi stöðugilda í stéttarfélagi eru færri en 20. Það sama gildir um sundurliðun milli kynja.

Dagvinnulaun

Til dagvinnulauna teljast mánaðarlaun og tímakaup í dagvinnu.

Yfirvinnulaun

Yfirvinnulaun eru greidd fyrir vinnu sem er umfram vinnuskyldu samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi. Einnig önnur laun sem greidd eru með yfirvinnukaupi, með þeirri undantekningu að greiðslur vegna röskunar neysluhléa vaktavinnumanna falla undir önnur laun.

Vaktaálag

Vaktaálag fylgir vinnuskilum dagvinnu og er greitt þegar vinnuskyldu er sinnt utan dagvinnumarka eins og þau eru skilgreind í kjarasamningi. Vaktaálag greiðist til viðbótar mánaðarlaunum eða tímakaupi í dagvinnu. Hér undir falla ekki álagsgreiðslur vegna bakvakta.

Önnur laun

Til annarra launa teljast áður ótalin laun á launatímabili, meðal annars álagsgreiðslur fyrir bakvaktir, skráðar greiðslur vegna röskunar kaffitíma vaktavinnumanna og orlofs- og persónuuppbætur.

Heildarlaun

Samtala ofantalinna launaliða.

Upplýsingar um laun starfsmanna ríkisins taka mið af greiddum launum eins og þau eru skráð í launavinnslukerfi Fjársýslu ríkisins. Allar fjárhæðir eru án launatengdra gjalda.

Samanburður við launarannsókn Hagstofunnar

Hagstofan birtir upplýsingar um laun á almennum vinnumarkaði. Unnið er því á vettvangi Hagstofunnar að birta samræmdar upplýsingar fyrir opinberan markað (ríki og sveitarfélög).

Launahugtök Hagstofunnar eru frábrugðin þeim sem hér eru notaðar við samantekt á meðallaunum á stöðugildi. Einnig birtir Hagstofan upplýsingar um laun eftir störfum, samkvæmt ÍSTARF starfaflokkunarkerfinu, en hér eru þær birtar eftir bandalögum og stéttarfélögum. Upplýsingarnar eru því ekki samanburðarhæfar. Niðurstöður ættu þó í báðum tilvikum að gefa greinargóðar vísbendingar um almenna launasetningu og launaþróun.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Hagstofunnar

Forstöðumannalisti

Ríkisstarfsmenn teljast ýmist til embættismanna eða annarra starfsmanna (almennra starfsmanna). Embættismenn eru taldir upp í 13 töluliðum í 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 (stml.) með síðari breytingum. Í neðsta töluliðnum nr. 13 er getið með ótilgreindum hætti um forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem ekki eru sérstaklega taldir upp í 1. - 12. tölulið.

Fyrir 1. febrúar ár hvert sker fjármálaráðherra úr því hvaða starfsmenn teljast forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja skv. nefndum 13. tölulið og birtir lista yfir þá í Lögbirtingarblaði.

Tillkynna á breytingar á póstföngum ríkisstofnana til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, á netfangið [email protected].

Mannauðsmál ríkisins

Síðast uppfært: 3.6.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum