Hoppa yfir valmynd

Happdrætti og fjársafnanir

Happdrætti er einungis heimilt að starfrækja með leyfi sýslumanns og þarf tilgangur happdrættis að vera að afla fjár til almannaheilla hér á landi. Um peningahappdrætti gilda sérreglur og ekki er heimilt að starfrækja þau nema með sérstakri lagaheimild. Á það jafnframt við um happdrætti á netinu ef þau eru á annað borð peningahappdrætti og um fjárhættuspil. Sum minni háttar happdrætti eru þó undanþegin leyfisskyldu samkvæmt reglugerð, svo sem happdrætti á árshátíðum eða öðrum slíkum samkomum, sem ekki eru opnar almenningi. Er þá miðað við að vinningar séu dregnir út á samkomunni sjálfri og séu lágir að verðgildi og séu ekki peningavinningar.

Sýslumaðurinn á Suðurlandi annast veitingu leyfa fyrir skyndihappdrættum.

Happdrætti sem starfa samkvæmt lagaheimild

Sex happdrætti starfa samkvæmt sérstakri lagaheimild, sjá tengla hér að neðan ásamt upplýsingum um happdrættisráð þar sem það á við:

Einnig er starfandi fastanefnd á sviði happdrættismála. Meginverkefni hennar er að fylgjast með þróun í Evrópurétti á sviði happdrættismála og gera tillögur til ráðherra um framkvæmd vísindarannsókna um spilafíkn, ólögleg fjárhættuspil og réttarbætur á sviði happdrættismála.

Opinberar fjársafnanir

Sérstök lög gilda um opinberar fjársafnanir sem fram fara á vegum stofnana, félaga eða samtaka í löglegum tilgangi. Með opinberri fjársöfnun er átt við starfsemi þar sem almenningur er hvattur til að láta fé af hendi í þágu ákveðins málefnis án þess að endurgjald komi í staðinn. 

Opinber fjársöfnun á götum eða í húsum er háð leyfi sýslumannsins á Suðurlandi. Aðrar opinberar fjársafnanir ber að tilkynna sýslumanninum á Suðurlandi áður en þær hefjast, svo sem safnanir í útvarpi, sjónvarpi og á netmiðlum.

Sjá einnig:

Leyfi

Sýslumaðurinn á Suðurlandi, sýsluskrifstofan á Hvolsvelli, veitir leyfi fyrir minni háttar staðbundnum happdrættum og opinberum fjársöfnunum.

Síðast uppfært: 18.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum