Hoppa yfir valmynd

Áherslur um uppbyggingu innviða á friðlýstum náttúruverndarsvæðum

Friðlýst náttúruverndarsvæði eru oft á meðal helstu ferðamannastaða landsins og því mikilvægt að tryggja að verndargildi þeirra sé viðhaldið og uppbygging innviða fari ekki gegn markmiðum friðlýsingar. Umhverfis-, orku, og loftslagsráðuneytið leggur til að eftirfarandi áherslum sé fylgt við innviðauppbyggingu á friðlýstum náttúruverndarsvæðum.

 1. Uppbygging varanlegra innviða á friðlýstum svæðum einkennist af varfærni og er lokaúrræði við verndun svæða gegn álagi af völdum ferðamennsku.
 2. Unnið er út frá heildstæðu mati á því hvaða staði innan friðlýstra náttúruverndarsvæða eigi að byggja upp og hvaða stöðum innan þeirra eigi að hlífa við uppbyggingu eða breytingum til að halda þeim sem mest náttúrulegum.
 3. Í uppbyggingu er aðeins ráðist ef hún er metin nauðsynleg til að viðhalda verndargildi svæðisins.
  Afstaða um innviðauppbyggingu er byggð á grundvelli þolmarka náttúru svæðanna sem dregur úr líkum á að uppbygging sé viðbragð við aukinni ásókn og álagstoppum.
 1. Umfang, efnisval og yfirbragð innviða er ávallt ákveðin út frá verndarmarkmiðum friðlýstu svæðanna og verndargildis þeirra. 
 2. Við hönnun innviða er tekið mið af landslagi, staðaranda, verkþekkingu og menningu svæðisins og forðast yfirbragð borgarumhverfis.
 3. Uppbygging innan friðlýstra svæða er lágstemmd og innviðir falla vel að landslagi og umhverfi. Innviðir eru í nægilegri fjarlægð frá þungamiðju náttúruperlu þannig að tryggt sé að staðsetning þeirra dragi ekki úr verndargildi staðarins.
 4. Reynt eins og kostur er að nýta náttúruleg efni til uppbyggingar og horfið frá notkun byggingarefnis með hátt kolefnisspor, eins og t.d. malbiks ef aðrir raunhæfir kostir eru til staðar.  
 5. Við hönnun og uppbyggingu innviða eru sjónarmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni höfð að leiðarljósi, og ávallt tekið mið af staðargróðri.

Tryggja þarf að nærsamfélag hins friðlýsta svæðis sé upplýst um markmið innviðauppbyggingar og möguleg áhrif sem hún kann að hafa, s.s. breytingar hvað varðar aðstöðu, stýringu, aðgengi, framkvæmdir á svæðinu og ásýnd svæðis.  

 1. Útivista ber eins og kostur er allri þjónustu sem ekki eru kjarnaverkefni umsjónarstofnana og leita markaðslausna þar sem því verður við komið.
 2. Á friðlýstum náttúruverndarsvæðum þar sem veitt er þjónusta eins og t.d. afnot af salerni, er stefnt að því að þeir sem nýti þá þjónustu greiði fyrir hana í formi þjónustugjalda.
 1. Innviðauppbygging fer fram á grundvelli raunhæfra langtímaáætlana sem eru yfirfarnar og samþykktar af ráðuneyti.
 2. Öflug verkkaupaþekking er til staðar innan umsjónarstofnunar og haldið utan um alla þætti uppbyggingar.
 3. Lögð er áhersla á vandaðan undirbúning framkvæmda og innkaupa þar sem heildarkostnaður er ljós og fjárhagsleg ábyrgð stofnana er tengd ákvörðunum um uppbyggingu.
 4. Markvissar leiðir eru nýttar til að ná fram meiri hagkvæmni án þess að hallað sé á gæði. Í því skyni er alltaf metið hvort útboðsleið sé möguleg, og hvort leita skuli frekari tilboða í verk.

Vandað verklag, skýrir verkferlar og gæðaviðmið frá hugmynd til verkloka, einkenna innviðauppbyggingu á friðlýstum svæðum.

Til er stefnumörkun fyrir innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum í náttúru landsins í formi þingsályktunar, nr. 27/148, landsáætlun um innviði (stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum). 

Áherslur umhverfis-, orku og loftlagsráðuneytisins um hvernig staðið skuli að uppbyggingu innviða á friðlýstum náttúruverndarsvæðum hafa hins vegar ekki verið til.

Friðlýst náttúruverndarsvæði eru oft á meðal helstu ferðamannastaða landsins og því mikilvægt að tryggja að verndargildi þeirra sé viðhaldið og uppbygging innviða fari ekki gegn markmiðum friðlýsingar. 

Umsjónarstofnanir friðlýstra náttúruverndarsvæða: Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður, hafa hver um sig stefnu sem miðar að því að tryggja að svæðin séu vernduð á forsendum sjálfbærni. Mikilvægt er einnig að fyrir liggi heildstæð og samræmd viðmið um uppbyggingu sem tekur mið af öllum friðlýstum svæðum sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, ekki einungis um svæðin sjálf, heldur einnig um það hvort standa skuli að uppbyggingu, og ef svo er, hvernig standa skuli að uppbyggingu fjölsóttra áfangastaða ferðamanna innan friðlýstra svæða.

Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið hefur að beiðni ráðherra dregið fram áherslur sem lagt er til að hafa skuli að leiðarljósi við uppbyggingu innviða á friðlýstum náttúruverndarsvæðum.

Síðast uppfært: 3.6.2024 0
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum