Hoppa yfir valmynd

Þróunarverkefni

Hvaða lausnir eru til boða á íslenska markaðnum?

ICEPRO gerði lauslega athugun á því hvaða aðilar á íslenska markaðnum eru að bjóða lausnir er tengjast rafrænum reikningssamskiptum. Markmiðið með þessari könnun er að gefa notendum vísbendingu um hvar þeir geti leitað lausna, hyggist þeir innleiða rafræna reikninga inn í sitt viðskiptaumhverfi. Hér á eftir fylgir stutt umfjöllun um þá aðila sem staðfest hafa að þeir bjóði nú þegar eða hyggist bjóða lausnir á þessu sviði.

Advania

Advania býður fjölbreyttar lausnir og þjónustu, sem svara kröfum og þörfum liðlega sjö þúsund viðskiptavina í atvinnulífinu. Lausnaframboð Advania spannar upplýsingatækni frá A til Ö og viðskiptavinir geta sótt þangað samþætta heildarþjónustu, allt á einn stað. Og þá gildir einu hvort um er að ræða hugbúnað, vélbúnað, ráðgjöf eða rekstrarþjónustu.

Meðal viðskiptavina Advania eru mörg stærstu og öflugustu fyrirtæki og stofnanir landsins. Jafnframt hefur Advania sterka stöðu á neytendamarkaði með um þriðjungs markaðshlutdeild.

Advania er eitt þeirra fyrirtækja í þekkingariðnaði sem styður við tækniforskriftir Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni varðandi rafrænan reikning og pöntun. Skuffan.is er vefsíða sem leyfir einstaklingum og litlum fyrirtækjum að handskrá reikningsupplýsingar í gegnum form sem síðan kemur því rafrænt til móttakanda. Þar er hægt að t.d. að setja allt að 3 viðhengi á reikning.

Verðskráin: www.skuffan.is/heim/um-skuffan.is/gjaldskra/

Sjá nánar www.skuffan.is/heim/um-skuffan.is/skeytamidlun-advania/

Annata

Annata er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við Microsoft Dynamics AX viðskiptakerfið ásamt því að bjóða stjórnendalausnir á sviði viðskiptagreindar. Fyrirtækið hefur um árabil boðið upp ýmsar lausnir á sviði rafrænna viðskipta með stuðningi við öll helstu samskiptasnið (EDI, xCBL og NES/UBL) bæði fyrir innkaupa- og sölukerfi. Annata hefur unnið markvisst með aðilum á sviði skeytamiðlunar á Íslandi. Upplýsingar um fyrirtækið er að finna á http://www.annata.is/

DK hugbúnaður

Fyrirtækið DK hugbúnaður hefur á boðstólnum viðskiptahugbúnað sem þróaður og þjónustaður er af fyrirtækinu. DK hefur þegar hafist handa við þróun lausna á sviði útgáfu og móttöku rafrænna reikninga sem byggjast á NES/UBL og er markmiðið að þróa lausnir sem tengst geta þeim skeytamiðlunum sem starfræktar verða á markaðnum. Upplýsingar um fyrirtækið er að finna á www.dk.is

Fakta

Fyrirtækið Fakta á rætur að rekja til lausna á sviði skönnunar og rafrænni skjalstjórn. Fakta býður einnig upp á einfalt netbókhaldskerfi í samstarfi við dótturfyrirtæki sitt Regla. Kerfið er nútímanetkerfi sem hentar litlum og meðalstórum rekstrareiningum. Fyrirtækið hyggst bjóða viðskiptavinum sínum möguleika á að gefa út og taka á móti rafrænum reikningum sem byggjast á NES/UBL. Upplýsingar um fyrirtækið er að finna á www.regla.is

InExchange

Inexchange býður lausnir sem tryggja skilvirkan flutning og móttöku rafrænna reikninga fyrir útgefendur og móttakendur þeirra. Fyrirtækið styður skilvirk samskipti við öll megin bókhaldskerfi og getur lausnin tekið á móti reikningum á hvaða formi sem er, þó að áhersla fyrirtækisins sé á rafræna reikninga samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Kjarninn í lausn InExchange er „eReikningaprentarinn“ , sem tekur við reikningum sem gefnir eru út í bókhaldskerfum og breytir þeim í rafræna reikninga.

InExchange getur jafnframt tekið við rafrænum reikningaskrám frá aðilum sem nú þegar geta gefið út rafræna reikninga og sér lausnin um að koma reikningi til móttakenda á öruggan hátt. InExchange hefur einnig á boðstólnum viðbótarþjónustu fyrir móttakendur rafrænna reikninga, sem nýta má til skilvirkari reikningaumsýslu. Nánari upplýsingar má finna á www.inexchange.is

Íslandspóstur

Íslandspóstur byggir sína starfssemi á umsýslu og þjónustu við hefðbundnar póst og bögglasendingar. Fyrirtækið hefur nú ákveðið að hasla sér völl sem flutnings/dreifingaraðili fyrir rafrænar póstsendingar, auk þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum rafræn pósthólf til afnota. Fyrirtækið hyggst þannig sérhæfa sig í flutningi á rafrænum skjölum, óháð innihaldi póstsendinganna. Þannig hefur Íslandspóstur ekki í huga að veita sérstaka þjónustu er tengist skilgreindum sendingum og móttöku á rafrænum reikningum skv. NES/UBL, en mun bjóða þjónustu fyrir flutning þess konar skjala. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er stefnt að því að þessi þjónusta fari að líta dagsins ljós á haustdögum. Nánari upplýsingar um fyrirtækið er að finna á www.postur.is

Sendill.is Unimaze

Sendill.is Unimaze á Íslandi ehf. sérhæfir sig í rafrænni skeytamiðlun og úrvinnslu rafrænna viðskiptaskjala. Í dag býður Unimaze íslenskum fyrirtækjum lausnir og ráðgjöf á sviði rafrænna viðskipta og m.a. þá þjónustu að miðla rafrænum viðskiptaskjölum á milli fyrirtækja. Þjónustan styður við alla ráðandi formstaðla rafrænna skeyta, s.s. NES/UBL og CEN/BII, og grundvallast á ráðandi alþjóðlegum samskiptastöðlum, s.s. NemHandel og PEPPOL. Þá býður Unimaze einnig upp á samskipti samkvæmt ebMS ISO 15000-2 staðlinum. Í dag getur þjónustan miðlað reikningum milliliðalaust til allra opinberra aðila sem taka við reikningum. Þá er skeytamiðlun Unimaze tengd við yfir 70.000 fyrirtæki í Danmörku sem vinna með reikninga, kreditnótur, pantanir og vörulista. Þjónustan er aðgengileg undir nafninu http://www.sendill.is/

Vefsendill nýtist einstaklingum og litlum fyrirtækjum. VefSendill er ókeypis sem stendur.

Einstaklingur/fyrirtæki með 1–3 reikninga á mánuði mun geta keypta „örsmáan pakka“ 6x á ári. Verð er þá ca. 1.000 kr. á mánuði. Ef viðkomandi sendir óreglulega getur hann jafnvel komist af með að kaupa færri pakka á ári.
Stofnkostnaður er enginn.

Wise

Wise (áður Maritech) er þjónustuaðili fyrir Microsoft Dynamics Nav viðskiptakerfin. Fyrirtækið býður upp á lausnir á sviði rafrænna reikningssendinga í samstarfi við samstarfsaðila, sem eru samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu Sendill.is, InExchange, Reikningapottur Landsbankans, Skeytamiðlun Skýrr og SPAN. Lausnir fyrirtækisins gera viðskiptavinum þess kost á því að senda reikninga á rafrænu formi og einnig að taka á móti slíkum reikningum. Nánari upplýsingar um fyrirtækið og lausnir þess er að finna á

http://www.wise.is

Lokaorð

Eins og fram kemur í þessu yfirliti eru lausnaraðilar komnir vel á stað með þróun lausna til stuðnings rafrænum reikningssamskiptum. Efalaust eru fleiri lausnaraðilar á markaðnum farnir að hugsa sér til hreyfings og mun ICEPRO fylgjast náið með og koma upplýsingum um þróun mála á framfæri . Væntanlegum lausnaraðilum er velkomið að setja sig í samband við ICEPRO, sem mun birta þessar upplýsingar. 

Netfang ICEPRO er: [email protected].

Rafræn viðskipti

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum