Hoppa yfir valmynd

Rafræn viðskipti

Evrópuþjóðir stefna að því að koma á sameiginlegu rafrænu innkaupakerfi fyrir árið 2020. Því er ætlað að taka á flestum hlutum aðfangakeðjunnar, en einkum þó rafrænum reikningum, þar sem ávinningurinn er mestur.

Rafræn viðskipti hafa verið stunduð hér á landi í rúman aldarfjórðung. Frá stofnun ICEPRO og EDI félagsins árið 1989 hafa EDIFACT staðlar gert stofnunum og fyrirtækjum kleift að skiptast á rafrænum skjölum, svo sem vörulistum, pöntunum, reikningum, tollskýrslum og greiðslum. Notkun EDIFACT staðla hefur skapað þjóðarbúinu ómældan ávinning á þessu tímabili með hjálp pappírslausra viðskipta.

Hér verður einvörðungu fjallað um bein samskipti fyrirtækja og stofnana. Annars staðar má finna greinar um rafræn viðskipti einstaklinga á veraldarvefnum.

Laust fyrir aldamótin 2000 kom ívafsmálið XML fram á sjónarsviðið. Það reyndist öflugt tæki til að sinna rafrænum viðskiptum. XML hefur ýmsa kosti. Það er staðall sem kostar ekkert, það er sveigjanlegt og býður upp á einfalda samskiptaleið um Netið. XML skjöl má auðveldlega birta í vafra og menn sjá fram á lægri flutningskostnað fyrir gögn.

ebXML er leið til að virkja allt ferlið frá því að viðskipti hefjast og þar til þeim er lokið. Hugtakið nær yfir viðskiptaferla, notkun samræmdra viðmiða í ferlunum, skeytaskipti, tæknilýsingar o.fl. ebXML var þróað í samvinnu UN/CEFACT og OASIS. (Sjá skýringar neðar). OASIS gaf síðar út 31 XML staðal fyrir rafræn skjöl, þ.á.m. reikninga og pantanir. Staðlasafn þetta nefndist UBL (Universal Business Language).

Danir stigu stórt skref er þeir settu lög um skyldunotkun rafrænna reikninga árið 2005. Þeir tóku upp UBL og Svíar gerðu það sama litlu síðar. Stofnaður var vinnuhópurinn NES (Nordic European Subset) með þátttöku Dana, Svía, Norðmanna, Finna, Breta og Íslendinga. Lönd þessi unnu að sameiginlegum fjölþjóðlegum verklagi er hlaut nafnið NES. Það byggir á UBL staðlinum frá OASIS.

Íslendingar hófu innleiðingu þessa verklags árið 2007. Fjársýsla ríkisins innleiddi rafræna reikninga hjá sér og geta nú bæði sent og tekið við rafrænum reikningum í XML með NES verklaginu. Innleiðing þessi er í gangi víðar í þjóðfélaginu og verður ferli þessu lýst nánar hér á eftir.

Vinnan við þróun NES/UBL verklagsins jókst þegar Staðlastofnun Evrópu, CEN, tók við verkinu. Þátttökulöndum fjölgaði, skeytafjöldinn tvöfaldaðist og stofnuð var vinnunefndin CEN/BII (Business Interoperability Interfaces). Innan CEN er önnur vinnunefnd að fást við rafræna reikninga og pantanir. Sú nefnist CEN/eInv2 og byggir á vinnu UN/CEFACT.

Hér verður gerð stutt grein fyrir hverjum aðila fyrir sig. Til frekari upplýsinga er vísað í heimildir á vefsíðum. Listi yfir skammstafanir og skýringar er aftast.

Nýr evrópustaðall um rafrænan reikning var gefinn út árið 2017. Nánari upplýsingar eru á vef ICEPRO

Rafræn viðskipti

Síðast uppfært: 2.4.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum