Hoppa yfir valmynd
12. júní 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Miklir möguleikar á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og fréttamenn fylgjast með kynningu á skýrslu sérfræðinganefndar um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Í umhverfisráðuneytinu

Á vordögum 2007 skipaði umhverfisráðherra sérfræðinganefnd til að fjalla um tæknilega möguleika á að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda í mismunandi geirum samfélagsins: orkuframleiðslu; samgöngum og eldsneytisnotkun; iðnaðarferlum; sjávarútvegi; landbúnaði; og meðferð úrgangs. Einnig átti nefndin að kanna möguleika á að beita öðrum mótvægisaðgerðum, t.d. bindingu kolefnis. Nefndin hefur nú skilað Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum. Skýrslan er fyrsta sinnar tegundar sem leggur fram markvissar tillögur umhvernig vinna megi gegn losun gróðurhúsalofttegunda í mismunandi samfélagsgeirum fram til ársins 2020.

Á dögunum samþykkti ríkisstjórnin tillögu umhverfisráðherra um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 15% fram til ársins 2020. Um var að ræða tímamót af hálfu íslenskra stjórnvalda í þá veru að boðaður er samdráttur í losun. Mikilvægt er að markmið af þessu tagi sé metnaðarfullt en ekki síður raunhæft. Hugsanlegt er að talan hækki í samningaviðræðum fram að loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember. Skýrsla sú sem nú hefur verið lögð fram er því mikilvægt gagn til að framfylgja þessari áætlun og gefur Íslandi tækifæri til að vera í fremstu röð meðal þjóða í þessum efnum.

Grundvöllur aðgerða

Skýrslan markar tímamót í umræðunni um loftslagsmál á Íslandi þar sem hún dregur fram í fyrsta sinn heildstæða mynd af þeim möguleikum sem Íslendingar hafa til þess að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda, með ítarlegri greiningu á tæknilegum og hagrænum þáttum. Með slíka þekkingu í farteskinu hafa íslensk stjórnvöld loks öflugan grundvöll til að ákveða raunhæfar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, og taka þannig virkan þátt í stærsta viðfangsefni samtímans: Að sporna gegn hættulegum loftslagsbreytingum, sem ógna vistkerfinu og lífsskilyrðum mannkyns.

Aukin losun frá 1990

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2007 var um 32% meira en árið 1990. Útstreymi jókst í öllum atvinnugreinum nema í fiskveiðum, fiskimjölsvinnslu og landbúnaði. Mest jókst útstreymi frá járnblendiframleiðslu (91% hækkun) og álframleiðslu (72% hækkun). Dregið hefur þó úr útstreymi á hvert framleitt áltonn, en álframleiðsla jókst um nærri 420% á tímabilinu.

Sviðsmyndir

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda geti þróast á tvo vegu. Í svokölluðu tilviki 1 er gert ráð fyrir að framleiðsla í orkufrekum iðnaði haldist óbreytt frá því sem nú er en í tilviki 2 er gert ráð fyrir að framleiðsla í orkufrekum iðnaði aukist í samræmi við þau starfsleyfi sem höfðu verði gefin út í lok árs 2008. (Stækkun álvers í Straumsvík og bygging álsvers í Helguvík). Samkvæmt tilviki 1 gæti heildarútstreymi gæti heildarútstreymi orðið 37% meira árið 2020 en það var árið 1990 sem er viðmiðunarár Kýótó-bókunarinnar. Í tilviki tilvikinu yrði útstreymið 76% meira árið 2020 en 1990.

Miklir möguleikar

Niðurstöður nefndarinnar sýna að mögulegt er að draga umtalsvert úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ef miðað er við losunarspá tilviks 1og að allar mögulegar mótvægisaðgerðir verði nýttar, er talið mögulegt að draga úr útstreymi til ársins 2020 um 52%. Það hefði í för með sér að útstreymi yrði 34% lægra árið 2020 en árið 1990. Í tilviki 2 yrði útstreymið 3% hærra árið 2020 en árið 1990 þrátt fyrir að gripið yrði til allra möguleika til að draga úr útstreymi.

Möguleikar eftir geirum

Mótvægisaðgerðir sem tæknilega er unnt að ráðast í fyrir 2020 dreifast misjafnt milli geira. Mestir möguleikar virðast vera fyrir hendi í sjávarútvegi ef ekki er tekið tillit til kostnaðar, bæði í fiskimjölsframleiðslu og fiskveiðum, en talið er að tæknilega sé hægt að draga úr útstreymi vegna fiskimjölsframleiðslu um 100% með rafvæðingu og fiskveiðum um 75% með aukinni notkun lífeldsneytis og orkusparnaði. Tæknilega er talið unnt að draga úr losun í orkuframleiðslu um 50%, og landbúnaði um 12,4%. Margvíslegar mótvægisaðgerðir eru mögulegar í samgöngum, svo sem frá göngu og hjólreiðum, til bættra almenningssamgangna, sem og aukinnar notkunar lífeldsneytis og rafvæðingar. Ekki er talið líklegt að mótvægisaðgerðir í iðnaði hafi veruleg áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda fyrr en eftir árið 2020, en þó er talið að hægt sé að draga úr útstreymi vegna sementsframleiðslu um 25%, álframleiðslu um 6% og vegna járnblendiframleiðslu um 4,6% miðað við tilvik 1. Með aðgerðum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis umfram það sem þegar er áætlað, má draga verulega úr nettóútstreymi árið 2020, eða um 32% miðað við tilvik 1 en 25% miðað við tilvik 2.

Kostnaður

Kostnaður við mótvægisaðgerðir er mismikill en ljóst er að ódýrar aðgerðir geta skilað umtalsverðum árangri. Kostnaðurinn spannar allt frá aðgerðum sem gefa hreinan fjárhagslegan ávinning svo sem aukin áhersla á göngu og hjólreiðar, eða aukin notkun sparneytnari bifreiða, til mótvægisaðgerða sem eru fremur dýrar, t.d. raf- eða vetnisvæðing samgangna. Þó ber að hafa í huga að við tækniframfarir er líklegt að kostnaður dýrari aðgerða geti lækkað umtalsvert þegar til lengri tíma er litið.

Greiningin á kostnaði í skýrslunni er þröng í þeim skilningi að eingöngu er litið á kostnað og ábata þeirra fyrirtækja eða atvinnugreina sem um ræðir en ekki tekið tillit til þeirra margvíslegu þjóðhagfræðilegu áhrifa sem aðgerðir til að draga úr útstreymi geta haft í för með sér. Ekki eru heldur metin ýmis jákvæð ytri áhrif sem hljótast af mótvægisaðgerðum, svo sem bætt heilsa og minni loftmengun vegna aðgerða í samgöngum.

Glögglega má ráða af meðfylgjandi töflu að kostnaður við mótvægisaðgerðir er mismunandi. Á meðan aðgerðir á borð við sparneytnari bifreiðar hafa í för með sér hreinan ábata að fjárhæð 215 þúsund kr. á hvert tonn af CO2 ígildi er kostnaður við vetnisbíla áætlaður um 258 þúsund kr. á hvert tonn af CO2 ígildi. Kostnaður á tonn CO2

Mögulegar aðgerðir

Ljóst er að miklir möguleikar eru á að draga úr útstreymi og unnt að velja saman ýmsar aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja stefna að. Í 4. kafla skýrslunnar er nánar fjallað um eftirtaldar leiðir:

  • Orkuframleiðsla: Aukin skilvirkni virkjana og notkunar orku, söfnun CO2 og binding í basalt, söfnun CO2 og framleiðsla tilbúins eldsneytis, söfnun CO2 og framleiðsla á lífmassa.
  • Samgöngur: Ganga, hjólreiðar, styrking almenningssamgangna, sparneytnari bifreiðar, dísilbifreiðar, blöndun lífdísils í dísilolíu, blöndun etanóls í bensín, blöndun metanóls í bensín, ný bifreiðatækni svo sem E-85, metanbílar, tvinnbifreiðar, tengiltvinnbifreiðar, rafmagnsbifreiðar, vetnisbifreiðar.
  • Álframleiðsla: Bætt framleiðslustýring, rafvæðing ofna, söfnun CO2 og niðurdæling eða nýting í aðra framleiðslu, eðalrafskaut, klóríð ferli, súlfíð ferli, kolvarma ferli.
  • Sementsframleiðsla: Kolefnishlutlaust eldsneyti, aukið hlutfall óbrennanlegra efna.
  • Járnblendisframleiðsla: Raforka í stað olíu, timburkurl, söfnun CO2 og niðurdæling eða nýting í aðra framleiðslu.
  • Mannvirkjagerð: Íböndun lífdísils í gasolíu.
  • Sjávarútvegur: Bætt orkunýting búnaðar, léttari og endurhönnuð veiðarfæri, skilvirkari aflvél, einangrun vistarvera, nýting á kælivatni og afgasi, betri mótstöðueiginleikar skips, stærri skipsskrúfa, skilvirkari tækjabúnaður, notkun loftslagsvænni orkugjafa svo sem jurtaolíu, lífdísils, tilbúinnar gasolíu, DME, lífmetans og vetnis, aukin notkun landrafmagns, rafvæðing fiskmjölsverksmiðja.
  • Úrgangur: Draga úr myndun úrgangs, fanga hauggas, draga úr urðun lífræns úrgangs og beina honum í endurvinnslu, jarðgerð, gasgerð eða brennslu.
  • Landbúnaður: Breytt fóðrun, bætt meðferð búfjáráburðar, bætt nýting búfjáráburðar.
  • Landnotkun: Skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis.

Nefndin

Nefndina skipuðu þau dr. Brynhildur Davíðsdóttir umhverfis- og auðlindafræðingur sem jafnframt var formaður, Ágústa Loftsdóttir eðlisfræðingur, Birna Hallsdóttir verkfræðingur, Bryndís Skúladóttir verkfræðingur, dr. Daði Már Kristófersson hagfræðingur, Guðbergur Rúnarsson verkfræðingur, dr. Hreinn Haraldsson jarðfræðingur, dr. Pétur Reimarsson, efnaverkfræðingur og dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon eðlisfræðingur. Með nefndinni starfaði dr. Stefán Einarsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.

Skýrsla nefndarinnar í heild sinni (pdf-skjal).

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Síða 3.

Ágrip. Síður 8-11.

1. kafli. Inngangur. Síður 13-15.

2. kafli. Loftslagssamningurinn og Kyoto-bókunin. Síður 16-20.

3. kafli. Gróðurhúsalofttegundir og útstreymi þeirra. Síður 23-47.

4. kafli. Valkostir til að draga úr útstreymi. Síður 49-170.

5. kafli. Sveigjanleikaákvæði og viðskiptakerfi. Síður 171-177.

6. kafli. Tæknilausnir í sjónmáli. Síður 179-182.

7. kafli. Samantekt aðgerða og samlegðaráhrif. Síður 185-206.

8. kafli. Niðurstöður og samantekt. Síður 207-222.

Heimildir. Síður 223-228.

Viðaukar. Síður 229-230.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum