Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Mikil aðsókn í styrki til aukins samstarfs háskóla

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt fulltrúum háskólanna við undirritun samninga um samstarfsverkefni í júní 2023. - myndLjósmynd: Birgir Ísleifur

Allir íslensku háskólarnir hafa sýnt mikinn áhuga á Samstarfi háskóla frá kynningu þess í september á síðasta ári. Auglýst var eftir styrkjum í annað sinn í sumar og rann umsóknarfrestur út í lok október. Alls bárust 55 umsóknir um tæplega fjóra milljarða króna, en heildarkostnaður verkefna sem sótt er um er rúmlega fimm milljarðar króna. Stefnt er að því að úthluta að minnsta kosti einum milljarði króna til fjölbreyttra samstarfsverkefna háskólanna á næstu mánuðum.

Allir háskólarnir sjö eiga hlut í fjölbreyttum samstarfsverkefnum sem sótt er um styrki til. Sótt er um styrki til verkefna af ýmsum stærðargráðum og eru umsóknir á bilinu 3,8 m.kr. til 864 m.kr.

,,Við þurfum að auka gæði og samkeppnishæfni háskóla. Það er enn og aftur frábært að sjá alla íslensku háskólana sýna mikinn áhuga og sækja saman um styrki fyrir ýmis stefnumótandi verkefni sem við munum forgangsraða fjármunum í. Á Íslandi verða háskólarnir að vinna betur saman til að geta fjölgað tækifærum og aukið samkeppnishæfni okkar, Samstarf háskóla er mikilvægt tól til þess,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála.

Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á sameiningu háskóla, alþjóðlega sókn háskóla og alþjóðavæðingu, iðkun á þriðja hlutverki háskóla, lausnir við samfélagslegum áskorunum, nýsköpun í háskólastarfi, stjórnsýslu og stoðþjónustu og nýtingu innviða við mat á umsóknum. Flest samstarfsverkefni sem sótt er um styrki til í ár snúa að nýsköpun í háskólastarfi en þar að auki snerta umsóknirnar á öllum áhersluatriðum.

Matshópur, skipaður af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur þegar hafið vinnu við mat umsókna og stefnt er að því að tilkynna um úthlutanir um miðjan desember.

Sjá einnig:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum