Hoppa yfir valmynd

Bílastæði og bílskúrar

Bílastæði

Bílastæði á lóð fjöleignarhúss teljast sameiginleg og óskipt, nema ákveðið sé í þinglýstum heimildum, að tiltekin bílastæði fylgi ákveðnum séreignarhlutum. Verður óskiptum bílastæðum ekki skipt nema allir eigendur samþykki og skulu þá gerðar nauðsynlegar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og þeim þinglýst.

Séu bílastæði sameiginleg og óskipt er þannig öllum eigendum heimilt að leggja í stæðin.

Einkabílastæði fyrir framan bílskúr er séreign. 

Bílskúrar

Bílskúrar, hvort sem þeir eru innbyggðir í húsið, sambyggðir því eða standa sjálfstæðir á lóð þess, skulu jafnan fylgja ákveðnum séreignarhlutum í húsinu og er sérstök sala þeirra eða framsal bílskúrsréttinda til annarra en eigenda í húsinu óheimil. Frá þessari meginreglu er gerð sú undantekning ef bílskúrar eða bílskýli eru á lóð sem sameiginleg er fleiri húsum þá er heimilt að ráðstafa þeim á milli hlutaðeigandi húsa.

Eiganda er óheimilt að undanskilja bílskúr eða bílskúrsréttindi við sölu á eignarhlutanum nema hann eigi þar annan eignarhluta.

Bílskúr í eigu utanaðkomandi aðila

Sé bílskúr í eigu utanaðkomandi aðila og hann vill ráðstafa honum til eignar, til dæmis selja hann, skal hann skriflega gefa hlutaðeigandi eigendum og húsfélagi kost á að kaupa bílskúrinn. Þeir skulu svara kauptilboðinu innan 14 daga nema veigamiklar ástæður mæli með og réttlæti lengri frest. Berist svar ekki innan frestsins telst kauptilboðinu hafnað.

Ef hvorki einstakir eigendur né húsfélag kæra sig um að kaupa bílskúr af utanaðkomandi aðila er honum heimilt að ráðstafa honum til annarra. Áður en kaupsamningur er gerður skal hann leggja fram gögn um að eigendur og húsfélag vilji ekki kaupa og að honum sé því ráðstöfunin heimil. Kaupsamningur sem gerður er í bága við þessi fyrirmæli er ógildur. Þá verður skjölum um eigendaskipti ekki þinglýst nema óyggjandi sé að framangreindum skilyrðum sé fullnægt.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 12.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum