Hoppa yfir valmynd

Umburðarbréf ferðakostnaðarnefndar

Umburðarbréf ferðakostnaðarnefndar, 22. janúar 2021

 1. Um greiðslur ferðakostnaðar ríkisstarfsmanna vegna ferðalaga á vegum ríkisins fer samkvæmt gildandi reglum um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins sem samþykktar eru af fjármála og efnahagsráðherra og birtar á heimasíðu fjármála og efnahagsráðuneytisins.
 2. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga starfsmanna ríkisins skal ferðakostnaðarnefnd ákvarða fjárhæð dagpeninga vegna ferðakostnaðar innanlands og erlendis, vegna námskeiða- þjálfunar og eftirlitsstarfa auk þess skal nefndin endurskoða flokkun landa eftir dvalarkostnaði svo og greiðslu fyrir afnot eigin bifreiðar starfsmanna.
 3. Í umburðarbréfi ferðakostnaðarnefndar er að finna upplýsingar um forsendur dagpeninga og reglur um dagpeninga vegna námskeiða- þjálfunar og eftirlitsstarfa.

I. Almennir dagpeningar

 1. Í 7. og 8. grein reglna um ferðakostnað er skilgreint að dagpeningar vegna ferðalaga erlendis skiptast annars vegar í greiðslur vegna almenns kostnaðar sem fellur til á ferðalögum (daghluti) og hins vegar í greiðslu vegna gistingar (næturhluti).
 2. Dagpeningar vegna ferðalaga erlendis og greiddir eru á móti almennum kostnaði skiptast í fæði (70%) og annan kostnað (30%). Heimilt er að víkja frá þessari viðmiðun ef unnt er að sýna fram á að önnur hlutfallsleg skipting falli betur að aðstæðum í viðkomandi borg/landi.
 3. Ferðakostnaðarnefnd endurskoðar forsendur akstursgjalds og dagpeninga innanlands að jafnaði ársfjórðungslega eða oftar, ef þörf krefur.
 4. Megin reglan við greiðslu ferðakostnaðar innanlands er að hann skal greiddur samkvæmt reikningum vegna útlagðs kostnaðar.
 5. Fjárhæðir vegna erlendra dagpeninga er samkvæmt SDR gjaldmiðlakörfu sem ákvörðuð er af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ferðakostnaðarnefnd ákvarðar flokkun landa eftir dvalarkostnaði.
 6. Heimilt er að víkja frá venjulegum dagpeningagreiðslum þegar sérstaklega stendur á svo sem þegar óhjákvæmilegt er talið að gista á dýrari hótelum, til dæmis vegna ráðstefnuhalda. Í slíkum tilvikum greiðist kostnaður eftir reikningum sem hlutaðeigandi ráðuneyti úrskurðar enda fylgi reikningi greinargerð um nauðsyn þessa aukakostnaðar. Notkun þessa ákvæðis er háð sérstakri ákvörðun forstöðumanns/ráðuneytis hverju sinni. Í þessum tilfellum er ekki greiddur næturhluti dagpeninga.

II. Dagpeningar vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsstarfa

 1. Sé dvalist skemur en 14 daga vikur á sama stað skal greiða fulla dagpeninga.
 2. Sé dvalist í 14 daga eða lengur á sama stað, skal greiða almenna dagpeninga fyrstu vikuna, en síðan þjálfunar-, náms- eða eftirlitsdagpeninga, sbr. þó ákvæði 12.– 16. töluliðs hér á eftir.
 3. Fari dvöl erlendis vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsstarfa fram úr 90 dögum skulu þjálfunar-, náms- og eftirlitsdagpeningar lækka um fjórðung þann tíma sem dvalið er lengur en í 90 daga, enda hafi viðkomandi stofnun eða ráðuneyti samþykkt dvölina. Sérákvæði sem sett hafa verið um námsdvöl erlendis skulu haldast óbreytt.
 4. Hafi stofnun samið um fæði og/eða gistingu á kjörum sem eru jafnhagstæð gildandi dagpeningum vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsstarfa skal að hámarki greiða dagpeninga sem samsvara þeim kjörum.
 5. Verði breyting á ferðatilhögun samkvæmt ákvörðun viðkomandi stofnunar eftir að ferð er hafin skal það ekki hafa í för með sér skerðingu á dagpeningum fyrir þann tíma sem liðinn er frá því að ferð hófst þar til ákvörðun um breytinguna er tekin.
 6. Styrkir og hvers kyns hlunnindi varðandi gistingu og fæði sem starfsmenn njóta meðan á dvölinni stendur skulu skilyrðislaust koma til frádráttar dagpeningagreiðslum.
 7. Verði af einhverjum ástæðum hlé á dvöl erlendis áður en henni er lokið skal litið svo á að um samfelldan dvalartíma sé að ræða.

III. Almenn ákvæði

 1. Ferðakostnaðarnefnd getur ákveðið aðra tilhögun en segir hér að framan séu að hennar mati sérstakar ástæður fyrir hendi.
 2. Komi til ágreinings um túlkun þessara reglna er heimilt að vísa honum til ferðakostnaðarnefndar.
 3. Reglur þessar gilda frá og með 22. janúar 2021. Jafnframt fellur úr gildi fyrra umburðarbréf nefndarinnar, dagsett 26. maí 2004.

Nefndin fer þess á leit við viðkomandi ráðuneyti að þau kynni þessar reglur þeim stofnunum og fyrirtækjum, sem undir þau heyra.

 

Reykjavík, 22. janúar 2021

Ferðakostnaðarnefnd

 


Umburðarbréf 2/2000, ferðatryggingar starfsmanna ríkisins

Með umburðarbréfi dags. 1. júní 1999, staðfesti fjármálaráðuneytið samkomulag við Greiðslumiðlun hf. um ferðatryggingar fyrir starfsmenn ríkisins gegn því að ferðakostnaður yrði gjaldfærður á kortlausan reikning hjá banka eða sparisjóði.

Fjármálaráðuneytið hefur nú, fyrir hönd ríkissjóðs, staðfest samskonar samkomulag við EUROPAY Ísland um ferðatryggingar fyrir starfsmenn ríkisins gegn því að stofnaður verði kortlaus reikningur hjá banka eða sparisjóði og ferðir greiddar í gegnum hann. Er tilboðið unnið í samvinnu við Tryggingamiðstöðina hf. Samkomulagið er meðfylgjandi.

Í tilboðinu felst að:

Allir starfsmenn ríkisins verða tryggðir á ferðalögum á vegum ríkisins skv. tryggingaskilmálum sem fylgja almennum Gullkortum.

Þeir starfsmenn sem sjálfir kunna að að vera handhafar EUROCARD/MasterCard korta er veita meiri réttindi, njóta þeirra þótt farmiðinn sé greiddur af ríkissjóði.

Stofnanir fá betri upplýsingar um ferðatilhögun því reikningnum fylgir sundurliðað yfirlit yfir það sem keypt er.

Kortlaus reikningur innan hverrar ríkisstofnunar er henni að kostnaðarlausu.

Tilboðið gildir aðeins ef allur gjaldfallinn ferðakostnaður viðkomandi starfsmanns fyrir brottför hefur verið greiddur hjá íslenskum ferðasala með skuldfærslu á EUROPAY/MasterCard rekning fyrir brottför.

Varðandi aðrar ferðatryggingar sem starfsmenn ríkisins njóta er vísað til umburðarbréfs fjármálaráðuneytisins dags. 1.júni 1999.

Áréttað skal að þessi leið er kaupendum að kostnaðarlausu.

Ráðuneyti og stofnanir eru hvött til að kynna sér efni tilboðsins þannig að ávinningur af því verði sem mestur.

Fjármálaráðuneytinu, 25. janúar 2000

 


Umburðarbréf 1/1999 - samningur við VISA Ísland um ferðatryggingar fyrir starfsmenn ríkisins

Greiðslumiðlun hf. (VISA) hefur lagt fram tilboð um ferðatryggingar fyrir starfsmenn ríkisins gegn því að stofnaður verði kortlaus VISA-reikningur hjá banka eða sparisjóði og ferðir greiddar í gegnum hann. Er tilboðið unnið í samvinnu við Tryggingarmiðstöðina hf. sem annast kortatryggingar VISA. Fjármálaráðuneytið hefur fyrir hönd ríkissjóðs staðfest samkomulag við fyrirtækið dagsett í dag og er það meðfylgjandi. Í því felst að fjármálaráðuneytið heimilar ráðuneytum og stofnunum að nýta þennan möguleika fyrir starfsmenn sína.

Tilboðið inniheldur eftirfarandi:

Allir starfsmenn ríkisins verða tryggðir á ferðalögum á vegum ríkisins skv. tryggingaskilmálum sem fylgja Silfur-viðskiptakortum.
Þeir starfsmenn sem sjálfir eru handhafar VISA-kreditkorts er veita meiri réttindi, njóta þeirra réttinda þótt farmiðinn sé greiddur af ríkissjóði.
Enginn aukakostnaður fylgir því fyrir ríkissjóð að greiða í gegnum kortlausan reikning hjá VISA.
Tilboðið gildir aðeins ef allur gjaldfallinn ferðakostnaður viðkomandi starfsmanns fyrir brottför hefur verið greiddur hjá íslenskum ferðasala með skuldfærslu á VISA-kortareikning fyrir brottför. Ekki er um að ræða undanþágu frá þessum skilmálum.
Þær slysatryggingar sem starfsmenn ríkisins njóta skv. kjarasamningum, koma fram í reglum nr. 30/1990, um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna vegna slysa starfsmanna í starfi, og hins vegar í reglum nr. 31/1990, um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs. Tryggingarnar ná til dánarbóta og bóta vegna varanlegrar örorku, hvort tveggja af völdum slysa. Að auki eru í gildi reglur nr. 281/1988, um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins.

Ferðatryggingar þær sem felast í tilboði VISA eru umfangsmeiri en þær sem tilgreindar eru hér að framan. Með því að bjóða upp á þennan valkost fyrir ríkissjóð er verið að auka réttindi starfsmanna til bóta vegna slysa og óhappa sem verða í ferðalögum erlendis á vegum ríkisins, þó þannig að bætur skv. þessari nýju tryggingu koma til frádráttar slysabótum skv. reglum nr. 30-31/1990 eftir því sem við getur átt. Ekki er um að ræða að tvítryggja sama slysatilvik á kostnað ríkisins.

Áréttað skal að þessi leið er kaupendum að kostnaðarlausu.

Ráðuneyti og stofnanir eru hvött til að kynna sér efni tilboðsins þannig að ávinningur af því verði sem mestur.

Fjármálaráðuneytinu, 1. júní 1999

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum