Hoppa yfir valmynd

Umburðarbréf 1/1999 - samningur við VISA Ísland um ferðatryggingar fyrir starfsmenn ríkisins

Greiðslumiðlun hf. (VISA) hefur lagt fram tilboð um ferðatryggingar fyrir starfsmenn ríkisins gegn því að stofnaður verði kortlaus VISA-reikningur hjá banka eða sparisjóði og ferðir greiddar í gegnum hann. Er tilboðið unnið í samvinnu við Tryggingarmiðstöðina hf. sem annast kortatryggingar VISA. Fjármálaráðuneytið hefur fyrir hönd ríkissjóðs staðfest samkomulag við fyrirtækið dagsett í dag og er það meðfylgjandi. Í því felst að fjármálaráðuneytið heimilar ráðuneytum og stofnunum að nýta þennan möguleika fyrir starfsmenn sína.

Tilboðið inniheldur eftirfarandi:

Allir starfsmenn ríkisins verða tryggðir á ferðalögum á vegum ríkisins skv. tryggingaskilmálum sem fylgja Silfur-viðskiptakortum.
Þeir starfsmenn sem sjálfir eru handhafar VISA-kreditkorts er veita meiri réttindi, njóta þeirra réttinda þótt farmiðinn sé greiddur af ríkissjóði.
Enginn aukakostnaður fylgir því fyrir ríkissjóð að greiða í gegnum kortlausan reikning hjá VISA.
Tilboðið gildir aðeins ef allur gjaldfallinn ferðakostnaður viðkomandi starfsmanns fyrir brottför hefur verið greiddur hjá íslenskum ferðasala með skuldfærslu á VISA-kortareikning fyrir brottför. Ekki er um að ræða undanþágu frá þessum skilmálum.
Þær slysatryggingar sem starfsmenn ríkisins njóta skv. kjarasamningum, koma fram í reglum nr. 30/1990, um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna vegna slysa starfsmanna í starfi, og hins vegar í reglum nr. 31/1990, um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs. Tryggingarnar ná til dánarbóta og bóta vegna varanlegrar örorku, hvort tveggja af völdum slysa. Að auki eru í gildi reglur nr. 281/1988, um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins.

Ferðatryggingar þær sem felast í tilboði VISA eru umfangsmeiri en þær sem tilgreindar eru hér að framan. Með því að bjóða upp á þennan valkost fyrir ríkissjóð er verið að auka réttindi starfsmanna til bóta vegna slysa og óhappa sem verða í ferðalögum erlendis á vegum ríkisins, þó þannig að bætur skv. þessari nýju tryggingu koma til frádráttar slysabótum skv. reglum nr. 30-31/1990 eftir því sem við getur átt. Ekki er um að ræða að tvítryggja sama slysatilvik á kostnað ríkisins.

Áréttað skal að þessi leið er kaupendum að kostnaðarlausu.

Ráðuneyti og stofnanir eru hvött til að kynna sér efni tilboðsins þannig að ávinningur af því verði sem mestur.

Fjármálaráðuneytinu, 1. júní 1999

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira