Hoppa yfir valmynd

Flugvellir og skipulagsreglur

Á Íslandi eru reknir 54 flugvellir, þar af fjórir millilandaflugvellir og níu að auki fyrir áætlunarflug.

Keflavíkurflugvöllur er helsti millilandaflugvöllur landsins en Akureyrar-, Egilsstaða- og Reykjavíkurflugvöllur eru jafnframt opnir fyrir millilandaflugi. Auk þeirra hefur áætlunarflug verið á Bíldudal, Ísafjörð, Gjögur, Grímsey, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafjörð, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar. Þar eru starfsmenn sem veita reglubundna þjónustu. Ríkið á þar að auki 31 lendingarstað en 10 eru í eigu annarra.

Uppbygging og þjónusta innanlandsflugvalla miðast að því að uppfylla markmið samgönguáætlunar um greiðar, hagkvæmar og öruggar samgöngur. Áætlunarflugvellirnir eru nauðsynlegur hluti samgöngukerfisins og grundvöllur þess að íbúar landsins alls geti notið með jöfnum hætti þeirrar þjónustu sem íslenska ríkið tryggir borgurum. Isavia ohf. sér um rekstur flugvalla í innanlandskerfi fyrir hönd íslenska ríkisins á grundvelli þjónustusamnings. Flugvellir í innanlandskerfi eru ekki reknir á markaðsforsendum heldur sem samgönguinnviðir og því er rekstrarkostnaður þeirra að miklu leyti greiddur úr ríkissjóði.

Isavia ohf. á og rekur Keflavíkurflugvöll. Flugbrautir vallarins eru þó í eigu íslenska ríkisins og fer utanríkisráðherra með forræði á þeirri eign en Isavia ohf. leigir flugbrautirnar.

Skipulagsreglur

Ráðherra er heimilt samkvæmt lögum um loftferðir að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ætlaðir eru til almennrar notkunar. Segir meðal annars í lögunum að skipulagsreglur skuli hafa að geyma fyrirmæli um skipulag innan flugvallarsvæðis, starfsheimildir, starfsemi og umferð innan svæðisins. Einnig skulu vera þar fyrirmæli um það svæði utan flugvallar þar sem rétt er að setja takmörkun á hæð mannvirkja og annarra hluta, t.d. húsa, stanga og trjáa eða takmörkun á meðferð fasteigna eða hluta, t.d. að því er varðar leiðslur eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis. Kveða skal glöggt á um mörk þess svæðis sem skipulagið tekur yfir.

Efni skipulagsreglna snýr að umferð og skipulagi innan flugvallarsvæðis, meðferð sýnilegra lasergeisla og takmörkunum á hindrunum í nágrenni flugvalla til að tryggja að mannvirki eða aðrar hindranir s.s. trjágróður eða búnaður raski ekki flugleiðum eða ógni flugi með öðrum hætti.

Settar hafa verið skipulagsreglur fyrir eftirtalda flugvelli:

Akureyrarflugvöll

Egilsstaðaflugvöll

Keflavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöll

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum