Hoppa yfir valmynd
30. september 2014 Athugasemdir og umsagnir um frumvörp stjórnarskrárnefndar 2013-2017

Snæbjörn Björnsson Birnir - Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar

Gott fólk.

Lýðveldi, Ísland, er í vanda statt.
Yfir 27 þúsund kjósendur sem greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum eiga engan fulltrúa á þingi. Það er stærri hópur en allir kjósendur Norðvesturkjördæmis.
Innan við helmingur kjósenda innan við þrítugt greiddi atkvæði í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Hugmyndir eru uppi um að kasta fullveldinu og biðja nágranna okkar að taka yfir stjórn landsins og þeim fjölgar dag frá degi sem taka undir þá hugmynd.
Fyrir tveimur árum boðaði Alþingi til atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Niðurstaðan var afgerandi stuðningur við frumvarp Stjórnlagaráðs.
Evrópa hefur litið til gerðar þess frumvarps sem fordæmis sem vert væri að fylgja og sumir standa jafnvel í þeirri trú að ný stjórnarskrá hafi þegar tekið gildi á Íslandi.
Á meðan virðist Alþingi leggja sig fram við að gleyma atkvæðagreiðslunni sem það þó sjálft boðaði til.
Nú er ekki tíminn til að byrja upp á nýtt að skoða álitaefni stjórnarskrárinnar. Það ferli er búið og kjósendur hafa gefið jákvætt álit á niðurstöðunni.
Þegar Norðmenn kusu, í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, um aðild að Evrópusambandinu þá hefði engum norskum stjórnmálamanni dottið í hug að fara gegn ákvörðun þjóðarinnar og ef Alex Salmond hefði lýst yfir sjálfstæði Skota þrátt fyrir gagnstæða niðurstöðu skosku þjóðarinnar þá hefðu brotist út óeirðir.
Verði ný stjórnarskrá ekki grundvölluð á frumvarpi Stjórnlagaráðs í takt við atkvæðagreiðsluna 20. október 2012 mun það verða til þess að enn fleiri missi trúna á lýðræðinu. Kjósendur hætta að sjá tilgang með því að mæta á kjörstaði og auknar líkur eru á að óánægja í garð stjórnvalda leiði til óeirða í takt við það sem við höfum séð í Bretlandi og Frakklandi.
Sjálfsagt geta allir nefndarmenn fundið einhverja galla á frumvarpi Stjórnlagaráðs og auðvitað getur verið erfitt að láta það vera að breyta og bæta. En þegar kjósendur hafa verið spurðir að þá væri það andstætt lýðræðinu að hunsa vilja þeirra.
Næg tækifæri eru í framtíðinni til þess að breyta og bæta en verkefni dagsins í dag er að fullgilda þá nýju stjórnarskrá sem þjóðin átti þátt í að semja og samþykkja.Ekki seinna en í gær.
Með kveðju

Snæbjörn Björnsson Birnir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum