Hoppa yfir valmynd
10. mars 2016 Athugasemdir og umsagnir um frumvörp stjórnarskrárnefndar 2013-2017

Arnar Guðmundsson - Náttúruauðlindir

Til stjórnarskrárnefndar

Eigi að vera unnt að taka afstöðu til auðlindaákvæðisins eins og það stendur nú er nauðsynlegt að inntak þess og efnisleg þýðing verði skýrð með mun afdráttarlausari hætti.

Í ákvæðinu er talað um "eðlilegt gjald" og "að jafnaði". Í greinargerð er vísað til þess að orðalagið "að jafnaði" þýði að gjaldtaka sé meginregla svo rökstyðja þurfi sérstaklega öll frávik. Af umfjöllun um hugtakið "eðlilegt gjald" má helst ráða að verið sé að vísa í þær tvær grundvallarleiðir við gjaldtöku fyrir nýtingarrétt auðlinda sem lýst var í skýrslu Auðlindanefndar frá árinu 2000, þ.e. annars vegar markaðsverð þar sem hægt er að koma við virkum markaði með sérleyfi til nýtingar (sbr. t.d. fiskveiðiheimildir) og hins vegar ákvörðun um skiptingu á metinni auðlindarentu eða umframarði sem verða til í skjóli sérleyfa til nýtingar verðmætrar auðlindar.

Upp á skýrleika ákvæðisins, bæði hvað varðar endanlega merkingu hugtaksins "eðlilegt gjald" og eins þær aðstæður sem geta réttlætt áður nefnt frávik frá meginreglunni um gjaldtöku, er óhjákvæmilegt að skilgreina auðlindarentu og leiðir til mats á umfangi hennar í greinargerð. Auðlindarenta eða umframarður er algert lykilhugtakí þessu samhengi. Þegar markaðslausn (útboði og viðmiði við gangverð á markaði) er beitt er eðlilegt gjald í raun sama hugtak og "fullt gjald" og á ætíð við og án undantekninga. Enda er slík aðferð meginregla á öðrum sviðum útdeilingar opinberra gæða. Þar sem virkur markaður er erfiðari viðfangs (sbr. orkugeirinn) er mat á umfangi auðlindarentu hin eðlilega leið sbr. skattlagning á kolefnisvinnslu (olíu og gas) og við útgáfu stærri virkjanaleyfa svo sem í Noregi. Slíkt mat jafngildir í raun einnig "fullu gjaldi".

Umræða um heimildir til að nýta gæði í almannaeigu þar sem ekki hefur þurft að grípa til neinna aðgangstakmarkana (berjatínsla er oft nefnd) eða úthlutunar á sérleyfum til nýtingar, er í raun marklaus þegar þessi nálgun er notuð því hið eðlilega gjald eða fulla gjald er þá ekkert. Sé hugsunin með orðalaginu "að jafnaði" sú að í þeim tilfellum sé heimilt að taka rökstudda ákvörðun um að sleppa gjaldtöku þá er það orðalag óþarft út frá réttum skilningi á hugtökunum "fullt gjald" eða "eðlilegt gjald" út frá skilningi auðlindahagfræðinnar. Auðlindarenta verður fyrst og fremst til þegar um er að ræða sérleyfi til nýtingar í atvinnuskyni. Rétt eins og í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem kveður á um "fullt verð" fyrir uppteknar eignir, getur sú staða komið upp að tiltekin gæði eða nýtingarréttur sé nær eða alveg verðlaus. Sú upphæð er þá hið "fulla verð" eða "fulla gjald" hverju sinni.

Vandséð er að hægt sé að afgreiða stjórnarskrárákvæði um jafn mikilvægt mál og úthlutun sérleyfa til að nýta sameiginlegar auðlindir, án þess að fyrir liggi skilgreining á lykilhugtökum auðlindafræðanna og hvernig skilja beri hugtök í stjórnarskrárákvæðinu í ljósi þeirra.

 

Kveðja

Arnar Guðmundsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum