Hoppa yfir valmynd
05. apríl 2018 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

3. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál


3. fundur – haldinn fimmtudaginn 5. apríl 2018, kl. 13-14, í Ráðherrabústaðnum.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar

Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar. Eru þau samþykkt með einni breytingu.

2. Samantekt um stöðu þeirra málefna sem taka á fyrir á tímabilinu 2018-2021

Lögð eru fram frumdrög að samantekt um stöðu þeirra málefna sem taka á fyrir á tímabilinu 2018-2021 og atriði til umræðu. UBK fer yfir skjalið og hvernig það er hugsað. Ljóst er að vinna við málefnin er misjafnlega langt á veg komin. Varðandi þrjú málefni, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslur, auðlindir og umhverfisvernd, liggur fyrir málamiðlunartillaga frá árinu 2016 þótt ekki næðist full samstaða um endanlega útfærslu. Varðandi framsal ríkisvalds var sömuleiðis langt komin vinna varðandi málamiðlun árið 2016. Ákvæði um breytingar á stjórnarskránni hefur hins vegar ekki verið rætt efnislega milli flokkanna frá árinu 2013. Þá er II. kafli stjórnarskrárinnar sér á báti vegna þess hve margslungin álitamál eru þar uppi.

Fundarmenn eru almennt sáttir við uppbyggingu samantektarskjalsins og það fyrirkomulag að vera með spurningar í lok hvers kafla. Það muni auðvelda formönnunum að fara yfir málin á næstu mánuðum og taka af skarið um næstu skref varðandi hvert málefni.

Einn fundarmanna óskar eftir að halda því til haga að þótt ákveðið sé að taka tiltekin málefni fyrir á þessu kjörtímabili þá sé hér verið að hefja heildarendurskoðun. Annar tekur fram að hann hafi fyrirvara gagnvart því að ræða breytingarákvæði stjórnarskrár í þessari umferð.

Varðandi áskoranir fram undan vekur einn fundarmanna máls á því að það sé sláandi munur á því hvernig stjórnlagaráð annars vegar og svo sérfræðingar hins vegar, eins og í stjórnlaganefnd, hafi nálgast verkefnið. Í fyrra tilvikinu geymi tillögur ýmsar almennar stefnuyfirlýsingar og atriði sem séu á mörkum þess að eiga heima í stjórnarskrá. Í síðara tilvikinu hafi menn gætt þess að leggja til afmarkaðri lagatexta sem færi til dæmis borgurum tiltekin réttindi. Það muni verða áskorun að leysa úr því að sumir við borðið séu skuldbundnir tillögum stjórnlagaráðs en aðrir ekki. Því er svarað til að enginn líti svo á að tillögur stjórnlagaráðs séu heilagar og ef finna megi á þeim ágalla séu menn til viðræðu um betri leiðir. Andi tillagnanna þurfi þó að skila sér og hliðsjón þurfi að hafa af þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.

Efnislega er aðeins komið inn á framsalsákvæði en einn fundarmanna nefnir að frá því málið var síðast til umræðu á vettvangi flokkanna hafi komið fram sjónarmið um að skortur á slíku ákvæði í stjórnarskrá hafi hjálpað Íslendingum í samskiptum við ESB. Þá í þeim skilningi að auðveldara sé að standa gegn kröfum ESB um fyrirkomulag innan EES þar sem gert er ráð fyrir framsali ríkisvalds til Evrópustofnana. Annar fundarmanna kveðst þarna vera á öndverðum meiði og leggur áherslu á að hópurinn þurfi að takast á við verkefnin og sýna árangur.

Einn fundarmanna spyr hvort ekki verði örugglega rætt í vinnunni fram undan hvort skilja megi betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. KJ svarar því játandi að svo verði gert.

3. Önnur mál

KJ tekur til umræðu aðkomu sérfræðinga. Búið sé að ræða við þá sérfræðinga sem helst hafa þótt koma til greina. Fram hafi komið hjá þeim að þeir telji að varðandi sum efni sé ekki þörf á aðkomu sérfræðinga fyrr en flokkarnir hafi gert upp við sig hvort samkomulagsflötur sé fyrir hendi. Ljóst er þó að þörf er á aðkomu sérfræðinga að undirbúningi umræðna um II. kafla stjórnarskrárinnar. Eins kunni það að ráðast mjög af viðkomandi málefni hvaða sérfræðingar séu best til vinnunnar fallnir. Það sé því hennar tillaga að skipa ekki á þessu stigi sérstaka sérfræðinganefnd.

UBK spyr hvort fundarmenn óski eftir ljósriti af öllum helstu fyrirliggjandi gögnum úr fyrra starfi að stjórnarskrárendurskoðun. Í ljósi þess að allt það efni er aðgengilegt á stjornarskra.is er ákveðið að nægilegt sé að UBK útbúi yfirlit yfir skjölin með tenglum.

Lögð eru fram drög að fundaplani út þetta ár. Gert er ráð fyrir fundi í maí þar sem yrði farið yfir tilhögun almenningssamráðs. Á lengri fundi í júní yrði byrjað að ræða efnislega tiltekin málefni á grundvelli samantektarinnar, sem fyrr hefur verið nefnd, sem verður þá búið að vinna áfram með. Markmiðið sé að geta lokið umfjöllun um 3-5 efni á þessu ári og sett þau í sérfræði- og samráðsfarveg ef samkomulag næst (ritun frumvarps, almenningssamráð, samráð við Feneyjanefndina o.s.frv.).

Á árinu 2019 verði þá samkvæmt þessu meiri áhersla á málefni sem falla undir II. kafla stjórnarskrárinnar enda liggi þá fyrir umræðuskjal frá sérfræðingum varðandi málefnið.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 14.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum