Hoppa yfir valmynd
08. október 2018 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

7. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

7. fundur – haldinn mánudaginn 8. október 2018, kl. 17.00-19.30, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Forföll hafði boðað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar og er hún samþykkt án athugasemda.

2. II. kafli stjórnarskrárinnar, ákvæði sem snúa að framkvæmdavaldinu
Áfram er haldið umræðu um II. kafla stjórnarskrárinnar, á grundvelli yfirlits dags. 4. apríl 2018.

Ýmis atriði koma til umræðu eins og hvort árétta þurfi þingræði í stjórnarskrá, hvort æskilegt væri að breyta umgjörð ríkisstjórnar þannig að hún yrði fjölskipað stjórnvald, hvort gera eigi ráð fyrir svokölluðu uppbyggilegu vantrausti á forsætisráðherra að þýskri fyrirmynd, sbr. einnig tillögu stjórnlagaráðs, að ráðherrar geti ekki samhliða verið þingmenn og hvort festa eigi hæfniskröfur til embættismanna í stjórnarskrá. Mest samstaða er um að breyta fyrirkomulagi ráðherraábyrgðar og því að færa ákvæði um aðkomu forseta að ákæruvaldi til nútíðarhorfs. Einnig kemur fram það viðhorf að réttarstaðan varðandi þingrof mætti vera skýrari.

Niðurstaðan er sú að fá sérfræðinga til að stilla upp tillögu að breytingu á ákvæðum með það að markmiði að gera gildandi ákvæði skýrari. Mögulega þurfi í sumum tilvikum að setja fram mismunandi valkosti.

Formaður Sjálfstæðisflokksins vill láta færa til bókar í tilefni af öðrum bókunum sem fram hafi komið á undanförnum fundum að hann telji að ekki sé þörf fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar heldur sé ráð að vinna áfram með þessi helstu ákvæði, auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. Hann beri samt virðingu fyrir að menn sjái þetta með mismunandi hætti en hann telji að hópurinn sé kominn á kaf í umræðu um atriði sem séu fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða.

Fulltrúi Pírata tekur fram komi að forsenda fyrir þátttöku hans sé að um sé að ræða heildarendurskoðun grundvallaðri á fyrri vinnu, þ.á.m. frumvarpi stjórnlagaráðs.

3. Þjóðaratkvæðagreiðslur, næstu skref
Lögð eru fram drög að ákvæði um rétt kjósenda til að eiga frumkvæði að lagasetningu, að finnskri fyrirmynd. Málið rætt stuttlega.

4. Önnur mál
Ákveðið er að næsti fundur verði 9. nóvember.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 19.30


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum