Hoppa yfir valmynd
28. mars 2019 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

11. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

11. fundur – haldinn miðvikudaginn 28. mars 2019, kl. 12.00-13.30, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar
Drög að fundargerð síðasta fundar höfðu verið send út 8. mars sl. Engar athugasemdir eru gerðar og telst hún samþykkt.

2. Almenningssamráð
Forsætisráðherra rifjar upp stöðu málsins og kynnir minnisblað um tilhögun almenningssamráðs sem sent hafði verið á fundarmenn 8. mars sl. Ráðgert er að nýta ýmsar leiðir við almenningssamráð, m.a. samráðsgáttina, viðhorfskönnun og rökræðukönnun. Einnig verði gerðar tilraunir með svokallaða lýðvistun í samstarfi við Háskóla Íslands sem hefur fengið styrk til slíks verkefnis frá RANNÍS.

Rætt er um hvaða efni eigi taka fyrir í rökræðukönnun sem haldin yrði öðru hvoru megin við næstu áramót. Fram kemur að taka megi fyrir nokkur efni, t.d. 3-5. Nefndur er sá möguleiki að auk viðfangsefna sem eru á dagskrá á þessu kjörtímabili geti verið áhugavert að taka kosningakerfið og kjördæmaskipan fyrir.

Þá er rætt hvort halda eigi þeirri línu að setja einungis þau efni í rökræðukönnun sem eru lítt mótuð á vettvangi formanna flokkanna.

Nánar verður rætt um efni rökræðukönnunar á næsta fundi formanna.

3. Auðlindaákvæði
Forsætisráðherra kynnir tillögu að einfölduðu auðlindaákvæði ásamt greinargerð sem send hafði verið á fundarmenn 8. mars sl.

Tekið er undir að tillagan nái að einfalda ákvæðið án þess að fórna efnisatriðum og sé að því leyti í ágætu samræmi við hugmyndir um form stjórnarskrárákvæða. Helst er rætt um orðalag varðandi sjálfbæra nýtingu, gjaldtöku fyrir nýtingarheimildir og hvernig eigi að útfæra þá grundvallarhugsun að úthlutun sé ekki varanleg ráðstöfun.

Ákveðið að stefna að því að ljúka umfjöllun að sinni um þetta ákvæði á næsta fundi. Fundarmönnum er gefinn frestur til miðvikudagsins 3. apríl næstkomandi að gera skriflegar breytingartillögur við skjalið. Í kjölfarið verði auðlindaákvæðið og umhverfisverndarákvæðið sett samhliða í samráðsgáttina. Þeim muni fylgja texti sem lýsi stöðu málsins á vettvangi flokksformannanna.

4. Spurningalisti vegna forsetakafla
Fundarmenn höfðu fengið sendar spurningar um ákvæði stjórnarskrár er varða forsetaembættið í því augnamiði að draga betur fram hvar samhljómur kunni að vera um mögulegar breytingar. Ákveðið að framlengja svarfrest til næsta fundar.

5. Önnur mál
Ákveðið að næsti fundur verði í hádeginu 9. apríl.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 13.30


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira