Hoppa yfir valmynd
21. júní 2019 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

15. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

15. fundur – haldinn föstudaginn 21. júní 2019, kl. 12.00-15.00, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Inga Sæland (Flokki fólksins), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) er forfallaður.

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Gestir fundarins eru Björg Thorarensen prófessor (2. og 3. liður), Skúli Magnússon héraðsdómari (4. liður) og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Hafsteinn Birgir Einarsson verkefnisstjóri hjá sömu stofnun (5. liður).

1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar er samþykkt.

2. Ráðherraábyrgð/Landsdómur
Björg Thorarensen kynnir minnisblað dags. 6. apríl 2019 um ráðherraábyrgð og Landsdóm. Þar er fjallað um uppruna og inntak stjórnarskrárákvæða um ráðherraábyrgð og Landsdóm, fyrirkomulag ráðherraábyrgðar á öðrum Norðurlöndum, helstu álitaefni tengd núverandi fyrirkomulagi, ályktanir af dómi MDE í máli Geirs H. Haarde gegn Íslandi og valkosti um breytingar á reglum um ráðherraábyrgð með eða án stjórnarskrárbreytinga.

Það er mat Bjargar að rök séu fyrir því að undirstrika sérstaka lagalega ábyrgð ráðherra í stjórnarskrá. Hægt sé að koma til móts við gagnrýni sem uppi hefur verið með því að tempra pólitísk áhrif á ákvörðun um ákæru. Það sé hægt að gera með eða án stjórnarskrárbreytinga.

Í umræðum er komið inn á hvernig það geti farið saman að stjórnmálamenn fjalli um þessar reglur sem varða fyrst og fremst þá sjálfa, hvort hægt væri að skapa Alþingi möguleika til að ávíta ráðherra án höfðunar refsimáls, hvort skerpa þurfi á aðskilnaði valdþátta, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, og hvernig sé hægt að auka hlutlægni og jafnræði við meðferð ákæruvalds á þessu sviði og draga úr hættu á að pólitík ráði för.

3. Íslensk tunga
Björg Thorarensen rifjar upp vinnu stjórnlaganefndar þar sem lögð voru drög að stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu. Þegar skoðuð eru stjórnarskrárkvæði annars staðar um þetta efni kemur í ljós að þau gegna þrenns konar hlutverki. 1. Lýsa yfir tungumáli sem einhverju sem sameinar og þá gjarnan ásamt fleiri atriðum eins og þjóðfána. 2. Skilgreina opinbert tungumál og þá gjarnan fleiri en eitt. 3. Styrkja réttindi minnihlutahópa.

Að mati Bjargar er það helst fyrsta markmiðið hér að framan sem gæti átt við á Íslandi. Þegar stjórnlaganefnd mótaði tillögu sína var það hugsað í því samhengi að verið væri að leggja til nýja heildstæða stjórnarskrá. Það væri svolítið sérstakt að skjóta slíku ákvæði inn nú ef um afmarkaða breytingu væri að ræða.

Í umræðum er komið inn á líkindi við ákvæði stjórnarskrár um þjóðkirkjuna og réttaráhrif slíks ákvæðis um íslenska tungu.

4. Framkvæmdarvaldið
Skúli Magnússon kynnir minnisblað um breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um meðferð framkvæmdarvalds, dags. 18. júní 2016.

Við gerð minnisblaðsins hefur hann haft til hliðsjónar fundargerð af fundi formannahópsins 8. október 2018. Í minnisblaðinu eru lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum I. og II. kafla stjórnarskrárinnar sem hafa það að markmiði að skýra nánar og uppfæra gildandi reglur.

Fundarmenn eru almennt á því að þarna sé kominn góður grunnur til að byggja sameiginlegar tillögur á. Hvað mest umræða skapast um leiðir til að stuðla að því að ráðuneyti og stofnanir sem undir þau heyra vinni betur saman. Þar gengur Svíþjóð hvað lengst með því að ríkisstjórnin er fjölskipað stjórnvald. Ísland hefur verið á hinum enda skalans þar sem hver ráðherra er mjög sjálfstæður í sínum störfum. Að mati Skúla ætti að geta náðst samstaða um þá lágmarksbreytingu að styrkja samhæfingarhlutverk forsætisráðherra.

5. Rökræðukönnun/skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar
Unnur Brá Konráðsdóttir rifjar upp forsögu málsins. Drög að spurningum hafa verið í prófun og þá hefur verið leitað allra leiða til að fækka spurningum enda þótti mörgum listinn fulllangur í byrjun. Að því búnu kynnir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir fyrirhugaðar spurningar í skoðanakönnun. Eftir umræður er niðurstaðan sú að gerðar verði lítilsháttar breytingar á spurningum en síðan geti Félagsvísindastofnun farið af stað með könnunina á næstu dögum.
Guðbjörg kynnir því næst minnisblað um fyrirkomulag rökræðukönnunar, dags. 19. júní 2019. Fundarmenn samþykkja þær tillögur sem felast í minnisblaðinu og verður því stefnt að rökræðukönnun 8. og 9. nóvember um þau efni sem þar eru tilgreind.

6. Önnur mál
Ákveðið að stefna að næsta fundi föstudaginn 6. september 2019.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 14.30

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira