Hoppa yfir valmynd
04. október 2019 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

17. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

17. fundur – haldinn föstudaginn 4. október 2019, kl. 12.00-19.00, í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Inga Sæland (Flokki fólksins), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Gestur fundarins er Margrét Einarsdóttir dósent (2. liður) og Skúli Magnússon héraðsdómari í síma (5. liður).

1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar er samþykkt.

2. Framsal valds til alþjóðastofnana
Margrét Einarsdóttir dósent fer yfir tvær mismunandi tillögur um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Báðar leitast þær við að taka mið af þróun EES-samningsins og endurspegla þau viðmið sem þróast hafa í álitsgerðum sérfræðinga um framsal ríkisvalds. Samþykkt þeirra myndi því ekki breyta miklu um réttarstöðuna en þó yrði gert ráð fyrir auknum kröfum að því leyti að í sumum tilvikum þyrfti aukinn meirihluta á Alþingi. Önnur tillagan gerir berum orðum ráð fyrir því að framselja megi í undantekningartilvikum vald til stofnana sem Ísland á ekki aðild að, sbr. til dæmis persónuverndarreglugerð ESB. Bendir Margrét á að þótt framsal ríkisvalds innan vébanda EES hafi verið mjög umtalað á Íslandi hafi nánast aldrei reynt á þær valdheimildir sem þegar hafa verið framseldar.

Í umræðum um tillögurnar koma fjölmargar vangaveltur og athugasemdir fram. Rætt er um hvort það þurfi að vera til staðar ákvæði um að kjósendur geti komið að ákvarðanatöku um aðild að alþjóðasamningum af þessu tagi og hvort nokkurt annað ríki hafi ákvæði í stjórnarskrá um framsal ríkisvalds til stofnunar sem það eigi ekki aðild að. Rætt er um hvort ekki þurfi að fjalla um skilyrði þess að segja upp alþjóðasamningi og fram koma sjónarmið um að ákvæði af þessu tagi þurfi að horfa meira til framtíðar fremur en að freista þess að ramma inn núverandi stöðu. Þá er vísað til tillagna sem komu fram þegar Ísland gerðist aðili að EES og mætti skoða betur. Loks er stungið upp á að skoða hvort megi byggja meira á núgildandi 21. gr. stjórnarskrárinnar við tillögugerð á þessu sviði.

Segja má að uppi séu fjórir valkostir: 1. Engin breyting. 2. Byggja á 21. gr. stjórnarskrárinnar. 3. Setja fram ítarlegt ákvæði sem miðist við núverandi stöðu í EES-samstarfinu. 4. Opnara og almennara ákvæði.

Nokkur samhljómur er um að gera aðra atlögu að ákvæði sem væri almennara og einfaldara.

3. Ákvæði um íslenska tungu ásamt greinargerð
PÞ kynnir drög að frumvarpi um stöðu íslenskrar tungu. Sjálf tillagan er fengin úr breytingartillögu sem kom fram á Alþingi veturinn 2012-2013 við frumvarp stjórnlagaráðs.

Í umræðum koma fram hugleiðingar um hvort einnig eigi að geta um íslenska táknmálið, hvaða lagalegu þýðingu ákvæði af þessu tagi hafi, minnt er á nauðsyn þess að standa vörð um íslenskuna og þetta geti verið brýning fyrir löggjafann og stjórnvöld og loks að markmiðið sé ekki að jaðarsetja önnur tungumál sem töluð eru í landi, huga þurfi að stöðu nýbúa og þörf barna af erlendum uppruna til að læra einnig eigið móðurmál.

Ákveðið er að frumvarpið fari í opið samráð í samráðsgátt en áður sé rætt við fulltrúa þeirra sem nota táknmál.

4. Dómstólar í stjórnarskrá
Forsætisráðherra minnir á að samkvæmt áætlun eigi ekki að ræða ákvæði um dómstóla fyrr en á næsta kjörtímabili. Hún vilji samt heyra hvort áhugi sé að byrja fyrr á því efni. Fram hafi komið í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar að almenningur setji umbætur á þessu sviði í mikinn forgang.

Í umræðum er minnt á að skoðanakönnunin hafi leitt fleira í ljós sem þyrfti þá einnig að setja framar á forgangslista. Spurt er hvort ekki eigi þá líka að fjalla strax um jöfnun atkvæðisréttar. Nefnt er að í stjórnarskrá vanti ákvæði um sjálfstæði dómstóla. Komið er inn á eftirlaunakjör hæstaréttardómara í því sambandi. Þá þurfi að huga að því hvort fela eigi Hæstarétti aukin verkefni s.s. samræmi laga og alþjóðasamninga við stjórnarskrá.

Ákveðið að ræða aftur á næsta fundi og skoða hvort flýta eigi umfjöllun um fleiri atriði.

5. Drög að frumvarpi forseti/framkvæmdarvald
Til grundvallar umræðunni liggja drög að frumvarpi um breytingar á kafla stjórnarskrár um framkvæmdarvald. Höfundur frumvarpsins, Skúli Magnússon héraðsdómari, er gestur fundarins í gegnum síma.

Fram kemur andstaða við að fela stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis stjórnarskrárbundið hlutverk varðandi ráðherraábyrgð. Flestir hallast að því að breyta ákvæði stjórnarskár þannig að vald sé framselt til löggjafans um útfærslu ráðherraábyrgðar en ný löggjöf verði undirbúin samhliða.

Ýmis atriði eru rædd m.a. er lýst efasemdum um að fela forseta lýðveldisins aukið pólitískt hlutverk við stjórnarmyndanir. Skoða þurfi einnig afleiðingar af breytingum á reglum um þingrof, sbr. þróun mála til dæmis í Bretlandi. Einnig er rætt um ábyrgðarleysi forseta og hvers vegna sé ástæða til að breyta því.

Ýmsar skoðanir eru uppi um fjölda kjörtímabila forseta og lengd þeirra. Flestir virðast hlynntir einhverri takmörkun á fjölda kjörtímabila, annað hvort tvö eða þrjú, en lengd þeirra skiptir þá einnig máli.

Ákveðið er að unnið verði áfram með frumvarpsdrögin og að málið verði tekið til skoðunar að nýju eftir rökræðufund.

6. Umhverfisákvæði
Umræðu frestað.

7. Auðlindaákvæði
Umræðu frestað.

8. Önnur mál
Ákveðið að næsti fundur verði föstudaginn 1. nóvember 2019 í hádeginu.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 17.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira