Hoppa yfir valmynd
06. desember 2019 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

19. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál. 19 fundur – haldinn föstudaginn 6. desember 2019, kl. 12.00-14:00, í Ráðherrabústaðnum að Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Inga Sæland (Flokki fólksins), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Gestir fundarins er Aagot V. Óskarsdóttir lögfræðingur (2. og 3. liður) og Kristín Haraldsdóttur lektor (3. liður).

  1. Fundargerð síðasta fundar
    Fundargerð síðasta fundar er samþykkt með lítilsháttar breytingum. 
  2. Umhverfisákvæði 
    Dreift er endurskoðaðri útgáfu af frumvarpi þar sem breytingar hafa verið gerðar í kjölfar samráðs. Eina breytingin á texta ákvæðisins er sú að segja að allir skuli eiga rétt til heilnæms umhverfis í stað þess að allir skuli njóta.

    Fram kemur ósk um að betri grein sé gerð fyrir úrvinnslu umsagna og verður brugðist við þeirri ósk. Sérstöku samantektarskjali um sjónarmið umsagnaraðila og fyrirkomulag samráðsins hefur áður verið dreift á fundi formannanna.
  3. Auðlindaákvæði 
    Dreift er tveimur mismunandi útgáfum af endurskoðuðu frumvarpi þar sem breytingar hafa verið gerðar í kjölfar samráðs. Gestir fundarins Aagot V. Óskarsdóttir og Kristín Haraldsdóttur fara yfir ákvæðið og sitja fyrir svörum.

    Munurinn á þessum tveimur útgáfum er sá að annars vegar er gert fyrir að tilvísun til þess að nýting auðlinda skuli vera landsmönnum öllum til hagsbóta komi í 1. mgr. og eigi þannig við um allar auðlindir óháð eignarhaldi en hins vegar að hún komi í 3. mgr. og eigi þannig einungis við um auðlindir í þjóðareign eða ríkiseign. Í báðum tilvikum yrði um að ræða viðbót við ákvæðið miðað við þá útgáfu sem fór í samráð. Þá hefur hugtakinu sjálfbærri þróun verið skipt út fyrir á sjálfbæran hátt. Fram kemur hjá gestum að á þessu eigi ekki að vera allur munur en fundarmenn hafa af því áhyggjur að þá verði erfitt að rökstyðja nýtingu á afmörkuðum auðlindum sem ekki eru endurnýjanlegar.

    Þá er lagt til að við 1. mgr. verði bætt ákvæði um að ríkið hafi eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna. Spurt er hvort þetta sé ekki óþarfa tvítekning því hliðstætt orðalag komi fyrir í 2. mgr. Því er svarað að það sé ekki að öllu leyti svo því 2. mgr. hafi þrengra gildissvið en 1. mgr. Fram koma sjónarmið um að viðbótin sé samt óþörf vegna þess að það felist í fullveldisrétti ríkisins að setja lög um meðferð og nýtingu auðlinda. Með sömu rökum mætti þá setja víða í stjórnarskrá sambærilegt ákvæði um hlutverk ríkisins.

    Loks er lagt til að stytta 2. mgr. þannig að falli brott orðin „og ráðstöfunarrétt“. Ráðstöfunarréttur felist í hugtakinu forræði sem áfram verður óbreytt.

    Spurt er hvað felist í eftirfarandi málslið í 2. mgr: „Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota.” Vísað er í greinargerð með frumvarpinu þar sem kemur fram að þetta þýði að annað hvort séu afnot tímabundin eða uppsegjanleg. Í greinargerðinni sé einnig reifaður dómur Hæstaréttar frá 26. mars 2013 í máli nr. 652/2012 þar sem segir m.a.: “Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því ákveðið að úthlutaðar veiðiheimildir skuli innkallaðar á hæfilegum aðlögunartíma og eftir atvikum endurúthlutað, kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.” Með frumvarpinu sé í raun verið að færa þessa meginreglu í stjórnarskrá og koma í veg fyrir að löggjafinn geti breytt eðli afnotaréttinda þannig að þau verði varanleg.

    Fram kemur það mat gestanna að í sjálfu sér þurfi ekki að taka sérstaklega fram í ákvæðinu að afnotaréttur verði að vera tímabundinn eða uppsegjanlegur, það leiði af því orðalagi sem þar er að finna.

    Fram koma sjónarmið um að hægt ætti að vera að taka fram að úthlutun afnotaréttar verði alltaf að vera til tiltekins hóflegs tíma í senn. Þá komu fram sjónarmið um að láta það þá gilda framvegis þannig að ekki þurfi að tímabinda þegar úthlutaðar heimildir. Þær yrðu samt auðvitað áfram uppsegjanlegar.

    Spurt er út í þýðingu 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar og hvort útgerðarmenn geti byggt á henni til að verjast breytingum. Því er svarað að Hæstiréttur hafi þegar í fyrrnefndum dómi leyst úr því að þrátt fyrir 72. gr. og að atvinnuréttindi geti notað takmarkaðrar eignarréttarverndar þá sé löggjafanum heimilt að innkalla réttindin á tilteknum tíma.

    Fram koma sjónarmið um að ákvæðið sé ekki nógu skýrt og það hafi meðal annars komið fram í umsögnum. Þá koma einnig fram gagnstæð sjónarmið um að frumvarpið sé orðið mjög skýrt en ef menn vilji að undir það falli bann við ótímabundnum en uppsegjanlegum heimildum þá sé það önnur umræða. Þá lendi menn m.a. í vandræðum vegna þess að ákvæðið nær yfir allar auðlindir, ekki einungis auðlindir sjávar.

    Fleiri atriði eru nefnd eins og að viðmið um gjaldtöku þurfi að vera skýrara, til dæmis með vísun í eðlilegt gjald og tengingu milli gjaldtöku og varanleika heimilda. Þá er spurt hvort sú hætta felist í ákvæðinu að verið sé að slá opinberri eign á veiðirétt sem hafi frá örófi alda verið á hendi þeirra sem nýta auðlindir sjávar.

    Fram kemur ósk um að betri grein sé gerð fyrir úrvinnslu umsagna og verður brugðist við þeirri ósk. Sérstöku samantektarskjali um sjónarmið umsagnaraðila og fyrirkomulag samráðsins hefur áður verið dreift á fundi formannanna.

    Ákveðið er að fá fleiri sérfræðinga á næsta fund nefndarinnar um þetta efni. 
  4. Yfirlit yfir stöðu mála 
    Dreift er  minnisblaði með yfirliti yfir stöðu mála í vinnu formannahópsins.
  5. Rökræðukönnun 
    Dreift er glærum frá Félagsvísindastofnun HÍ með fyrstu drögum að niðurstöðum rökræðukönnunar. Félagsvísindastofnun mun fljótlega kynna niðurstöðurnar.

    Óskað er eftir nánari upplýsingum um rýnihóp sem Félagsvísindastofnun setti á laggirnar til að ráðgast við um framkvæmd könnunarinnar.
  6. Önnur mál 
    Ákveðið að næsti fundur verði haldinn kl. 13, 15. janúar 2020.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 13:45.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum