Hoppa yfir valmynd

Meðhöndlun úrgangs

Stór þáttur í neikvæðum áhrifum mannsins á umhverfi sitt er sá úrgangur sem verður til við athafnir hans, hvort heldur er í atvinnustarfsemi, við heimilisrekstur eða í frístundum. Skilvirk úrgangsstjórnun miðar að því að draga úr úrgangi en einnig að meðhöndlun hans sé með þeim hætti að ekki skapist hætta fyrir velferð manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða. Stuðla þarf að sjálfbærri auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu til að draga úr myndun úrgangs. Þá er mikilvægt að beita hagkvæmum og markvissum aðferðum við úrgangsstjórnun.

Sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu og setja svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs. Á landsvísu er það umhverfis- og auðlindaráðherra sem setur stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir en Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs.

Við meðhöndlun úrgangs er ákveðin forgangsröðun lögð til grundvallar en hún kveður á um að leitast skal við að koma í veg fyrir myndun úrgangs og nýta auðlindir okkar sem best með úrgangsforvörnum, endurnota það sem hægt er, þá endurvinna þann úrgang sem fellur til, nýta úrgang til orkuvinnslu og loks farga ef leiðirnar sem á undan eru taldar eru ekki færar.

Úrvinnslugjald og skilagjald

Úrvinnslugjaldi, sem lagt er á ýmsa vöruflokka er ætlað að tryggja að þeir sem skapi úrgang með neyslu sinni greiði kostnaðinn við meðhöndlun hans. Þannig eru sköpuð hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna. Úrvinnslusjóður annast umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds.

Ísland var fyrst í heiminum til að koma á skilagjaldskerfi á landsvísu fyrir allar einnota drykkjarvöruumbúðir. Skilagjald er lagt á einnota drykkjarvöruumbúðir í því skyni að hvetja til endurvinnslu þeirra með því að skilagjald er greitt til neytenda við skil á umbúðunum. Endurvinnslan hf. annast móttöku drykkjarvöruumbúða, greiðslu skilagjalds vegna þeirra, undirbýr þær til útflutnings og selur til endurvinnslu.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 7.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum