Hoppa yfir valmynd

Verðlaunagripur fjölmiðlaverðlaunanna kallast Jarðarberið og er hannaður af Finni Arnari Arnarssyni

Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins voru veitt á árunum 2011-2020 til að hvetja til hverskyns umfjöllunar um umhverfis, náttúru og loftslagsmál.

Verðlaunin voru veitt fjölmiðlafólki sem skara þótti fram úr með umfjöllun sinni um umhverfismál og/eða íslenska náttúru. Verðlaunagripurinn var hannaður af Finni Arnari Arnarsyni listamanni og nefnist Jarðarberið.

Verðlaunahafar

Arnhildur Hálfdánardóttir hlaut fjölmiðlaverðlaunin árið 2020 fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían sem var á dagskrá Rásar 1. Segir í rökstuðningi dómnefndar að með þáttunum hafi Arnhildur skoðað ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. Í þáttunum sé þó líka farið yfir sögu á mælingum á losun koltvísýrings frá því að hún var fyrst sett í samhengi við hlýnun jarðar og rifjaðar upp náttúruhamfarir síðustu ár og áratugi. „Fyrst og fremst rýnir Arnhildur þó í viðbrögð og líðan fólks. Hún skoðar pólitíkina í kringum loftslagsmálin og spyr hvort hún sé hluti af lausninni eða standi í vegi fyrir henni og hún reynir að kryfja vandann með hjálp siðfræðinnar og trúarbragða. Hún ræðir við fjölbreyttan hóp fólks, meðal annars fræðafólk og aðgerðasinna en líka nokkra ástvini sína auk þess að segja frá eigin líðan og hugsunum,“ segir í rökstuðningnum. Hljóðmynd þáttanna sé afar falleg og Arnhildi hafi tekist með bæði orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt.

Sagafilm hlaut fjölmiðlaverðlaunin árið 2019 fyrir sjónvarpsþáttaröðina „Hvað höfum við gert?“ sem sýnd var í RÚV Sjónvarpi. Segir í rökstuðningi dómnefndar að með þáttaröðinni hafi Sagafilm tekist að setja loftslagsmálin rækilega á dagskrá í íslensku samfélagi. „Í þáttaröðinni, sem er einstök í íslenskri fjölmiðlasögu, er fjallað með grípandi hætti um loftslagsbreytingar af manna völdum; hvernig þessar breytingar munu að líkindum hafa áhrif á samfélag mannanna hér á landi og víðar, en um leið var sjónum beint að því hvað þarf að gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og til að milda áhrif þeirra breytinga sem yfirvofandi eru á veðrakerfum og náttúru Jarðarinnar,“ segir í rökstuðningnum. Þannig hafi þáttunum tekist að virkja umhverfisvitund almennings með áberandi hætti.

Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson hlutu fjölmiðlaverðlaunin árið 2018 fyrir myndefni, upplýsingar og greinaskrif um íslenska náttúru. Segir í rökstuðningi dómnefndar að þeir félagar hafi heimsótt fjölmarga staði og sótt þangað nýtt efni, bæði ljósmyndir og myndskeið og nýtt sér samfélagsmiðla og aðra fjölmiðla til að koma þessu efni á framfæri. „Tómas og Ólafur Már hafa verið óþreytandi við að halda íslenskri náttúru á lofti í fjölmiðlum, hefðbundnum sem óhefðbundum, á síðastliðnu ári og er það samdóma álit dómnefndar að með því hafi þeir haft bein áhrif á að lítt þekktar náttúruperlur, svo sem fossaröð á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar, hafa komist í almenna umræðu. Umfjöllun þeirra er enn fremur lýsandi fyrir þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi fjölmiðla, þar sem efni kemur í auknum mæli frá almenningi fremur en sérhæfðu fréttafólki eða ljósmyndurum.“

Ævar Þór Benediktsson hlaut fjölmiðlaverðlaunin árið 2017 fyrir að hafa fjallað á fjölbreyttan, fræðandi og skemmtilegan hátt um umhverfið, náttúruna og náttúruvernd í sjónvarpsþáttum sínum Ævar vísindamaður og útvarpsþáttunum Vísindavarpið á Rás 1, veturinn 2016-2017. Segir í rökstuðningi dómnefndar að Ævar hafi með fjölbreyttum hætti vakið athygli ungra áhorfenda á umhverfismálum og náttúru á faglegan og vandaðan hátt. Þá hafi hann bent á ógnirnar sem steðja að umhverfi og náttúru en um leið fjallað um með hvaða hætti hægt sé að bæta ástand viðkvæmra vistkerfa og náttúrunnar. Honum hafi tekist að samtvinna umfjöllun um umhverfismál og skemmtilegt og lærdómsríkt afþreyingarefni fyrir börn og sé vel að þessari viðurkenningu kominn.

Samfélagið, á Rás 1 á RÚV hljóðvarpi hlaut fjölmiðlaverðlaunin árið 2016. Í rökstuðningi dómnefndar sagði að viðurkenningin væri veitt fyrir almenna umfjöllun Samfélagsins um mál sem snerta íslenska náttúru. „Samfélagið á Rás 1, RÚV hljóðvarpi, hlýtur fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2016 fyrir að gefa íslenskri náttúru rödd á öldum ljósvakans með því að gera umhverfismál að þungamiðju í ritstjórnarstefnu sinni. Umsjónarmenn þáttarins, þau Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson, hafa ásamt sérfræðingum, sem þau hafa fengið til liðs við sig unnið framúrskarandi starf við að fjalla um náttúruvernd í víðum skilningi og benda á ógnir sem steðja að náttúrunni, en einnig að tengja þá umfjöllun öðrum málefnum, sem eru efst á baugi, og vekja hlustendur til vitundar um hve mikilvæg umhverfismál eru í daglegu lífi þeirra.“

Þáttaröðin Lífríkið í sjónum við Ísland hlaut verðlaunin árið 2015. Um er að ræða röð stuttra þátta sem ætlaðir eru til vekja athygli á fjölbreyttu náttúrulífi neðansjávar og sýndir voru á sjónvarpsstöðinni N4. Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að þættirnir „Lífríkið í sjónum við Ísland“ séu dæmi um metnaðarfulla þáttagerð þar sem kastljósinu sé beint að heimi undir yfirborði sjávar sem flestum er hulinn. Myndefnið sé einstakt og handritið vel unnið og samvinna höfunda hafi skilað frábærum árangri sem eftir sé tekið og hafi borið hróður þeirra langt út fyrir landsteinana. Verkefnið sé „bæði skemmtilegt og fróðlegt og hefur meðal annars sérstöðu að því leyti að það er afrakstur framtaks sem var unnið umfram skyldu, af metnaði og áhuga og aðdáunarverðri seiglu.“

RÚV, hljóðvarp og sjónvarp hlaut verðlaunin árið 2014 fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum. Sagði í rökstuðningi dómnefndar að umræða og umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum hefði verið eins og rauður þráður í upplýsingamiðlun fjölmiðilsins [RÚV] tólf mánuðina á undan, hún hefði verið mikil að vöxtum, alhliða, upplýsandi og gagnrýnin þar sem öll mikilvægustu sjónarmið málanna hefðu komið fram. 

Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður, hlaut verðlaunin árið 2013 fyrir heimildamyndagerð sína þar sem megináhersla hans hefur verið á náttúrulífsmyndir. Heimildamyndir Páls Steingrímssonar skipta mörgum tugum frá Vestmannaeyjagosinu 1973 og fram á þennan dag. Megináhersla hans hefur verið á náttúrulífsmyndir, svo sem fuglasögurnar sem hann hefur fengist við hin síðustu ár, og áhrif manna á umhverfið. Starf Páls að fræðslu og vernd íslenskrar náttúru er langt og farsælt og hefur borið hróður hans og landsins um heimsbyggðina. Páll hefur enda hlotið viðurkenningar bæði hér á landi og erlendis fyrir störf sín, m.a. heiðursverðlaun Eddu.

Rúnar Pálmason, blaðamaður á Morgunblaðinu hlaut verðlaunin árið 2012, fyrir umfjöllun sína um utanvegaakstur. Í rökstuðningi dómnefndar sagði að með skrifum sínum hefði Rúnar „vakið athygli á skemmdum sem unnar hafa verið með utanvegaakstri víða um landið, bæði á hálendi Íslands og á láglendi. Má þar nefna ítrekaða umfjöllun um utanvegaakstur í Reykjanesfólkvangi og á hálendinu norðan Vatnajökuls; hann hefur fjallað um skemmdir sem unnar hafa verið með torfæruakstri á fjöllum og útivistarsvæðum í nágrenni Reykjavíkur, á láglendi sunnanlands og víðar. Rúnar hefur verið einkar fylginn sér í umfjöllun sinni en skrif hans má rekja a.m.k. aftur til ársins 2004.“

Ragnar Axelsson ljósmyndari á Morgunblaðinu hlaut verðlaunin í fyrsta sinn sem þau voru veitt árið 2011. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Ragnar Axelsson ljósmyndari hefur lagt ríka áherslu á samspil manns og náttúru á langri starfsævi og hafa myndir hans hafa vakið athygli víða um heim. Ragnar, eða Raxi eins og hann er oftast kallaður, hefur lagt áherslu á þá staðreynd að náttúran er voldug og viðkvæm, og hversu mikilvægt það er fyrir manninn að stíga varlega til jarðar. Maðurinn og náttúran eru óaðskiljanleg og hafa afgerandi áhrif á hvort annað. Þessi sjónarmið hans, nálgun hans við myndefnið og listræn framsetning hafa skipað honum í fremstu röð ljósmyndara á heimsvísu. Góð mynd segir meira en mörg orð eins og sannast í verkum Ragnars Axelssonar.“

 

Síðast uppfært: 16.8.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum