Varðliðar umhverfisins
Varðliðar umhverfisins er yfirskrift verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10. bekk sem var haldin í fyrsta skipti vorið 2007. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms standa að keppninni.
Skilafrestur
Skilafrestur verkefna er til 25. mars 2024 og þau skal senda umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Borgartúni 26, 105 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins” eða rafrænt á netfangið [email protected]. Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Landverndar og Miðstöðvar útivistar og útináms velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Allir þátttökuskólar fá viðurkenningarskjal og valin verkefni verða verðlaunuð af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í tengslum við Dag umhverfisins 25. apríl.
Markmið
Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.
Verkefnin
Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk og geta verið á hvaða formi sem er. Lögð er áhersla á að frumkvæði nemenda sé sýnilegt bæði við undirbúning og úrvinnslu verkefnanna og mikilvægt er að gögn séu unnin af nemendum sjálfum.
Óskað er eftir verkefnum sem fjalla um umhverfismál í víðum skilningi og hafa jákvæð áhrif á hegðun og viðhorf til umhverfisins, innan skólans og utan. Einnig styrkir verkefnin að þau feli í sér nýja sýn á umhverfismál og hafi sem besta tengingu við nám nemenda og þverfaglegt skólastarf.
Tengiliður
Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum um keppnina með tölvupósti til Önnu Sigríðar Einarsdóttur á netfangið [email protected]
Varðliðar umhverfisins 2023
Verkefni nemenda í á miðstingi og í 9. bekk Sjálandsskóla um umhverfisvernd, endurvinnslu og endurnýtingu. Verkefnið gerði nemendur meðvitaða um eigin þátttöku í neyslusamfélagi og veltu upp hvað við getum gert sem einstaklingar til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.
Gerðu nemendur 9. bekkjar m.a. úttekt á orkunotkun rafmagnstækja og matarsóun á eigin heimili og bentu á leiðir til úrbóta. Þá gáfu nemendurnir úrgangi nýtt líf með því að endurnýta með skapandi hætti efnivið sem fannst í endurvinnslutunnum heimilanna. Nemendur á miðstigi endurnýttu á sama tíma efnivið sem annars hefði endað í ruslinu á skapandi hátt og hvöttu með því samfélagið til hugsa margnota frekar en einnota, m.a. með sköpun tónverka sem leikin voru á heimatilbúin hljóðfæri sem búin voru til úr plastúrgangi.
Með verkefnunum gafst nemendum tækifæri til að öðlast djúpan skilning á þeirra eigin þátttöku í ósjálfbæru neyslusamfélagi með vísindalegum vinnubrögðum, gagnasöfnum og skapandi úrlausnum.
Varðliðar umhverfisins 2022
Verkefni nemenda í 7. bekk Sæmundarskóla, Hvað get ég gert? Við framkvæmd þess fundu nemendur fundu sjálfir hvað mætti bæta í nærumhverfi sínu og tóku skref í átt að því að bæta það. Verkefnin byggja á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og spretta út frá hugmyndum nemendanna sjálfra, og taka m.a. til flokkunar úrgangs, matarsóunar, endurnýtingar, skipulagsbreytinga á nærumhverfi og rannsóknir á ábyrgri neyslu og framleiðslu svo dæmi séu tekin.
Eiga verkefnin það öll sameiginlegt að vera innlegg nemenda að breytingum til batnaðar og frumraun þeirra sem þátttakendur í breytingum til sjálfbærari lifnaðarhátta.
Varðliðar umhverfisins 2021
Verkefni nemenda í 5., 6. og 7. bekk Foldaskóla, Sjálfbærni – náttúra – sköpun og voru verkin til sýnis á Barnamenningarhátíð nú í vor. Nemendurnir unnu með mismunandi hætti að því að auka skilning sinn á samhengi neyslu, samfélags og náttúru jarðar og hvernig þeir geti haft áhrif til góðs. Nemendur 5. bekkja unnu með plast og skaðleg áhrif þess á náttúruna og möguleika á að draga úr notkun þess og mikilvægi endurvinnslu. Bjuggu nemendur m.a. til plastskúlptúra og býsvaxdúka úr afgangsefnum frá heimilunum. Nemendur 6. bekkjanna tóku hins vegar fyrir veður og áhrif loftslagsbreytinga á náttúruna með því að búa til vindörvar úr afgangsspýtum og sýningarkassa af veðurfari og náttúru úr endurvinnanlegu efni. 7. bekkingar kynnti sér svo lífsferil bómullar, með áherslu á gallabuxur og mengunina sem fylgir textíliðnaðinum. Þá unnu nemendur listaverk og nýja muni úr ónothæfum gallafatnaði sem fékk við þetta nýtt líf.
Verkefni nemenda unglingadeildar í Öldutúnsskóla, Nýtt samfélag. Í verkefninu unnu nemendur saman í hópum að því að búa til nýjan samastað fyrir mannkyn, eftir að jarðarbúa höfðu þurft að flýja jörðina vegna loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins var að nemendur fyndu leiðir til þess að varðveita auðlindir hinnar nýju jarðar fyrir komandi kynslóðir. Við vinnuna tvinnuðu nemendur bókleg fög saman við umhverfissjónarmið og höfðu í huga hvernig fór fyrir jörðinni við leit að lausnum við sköpun þessa nýja dvalarstaðar mannkyns. Við uppbygginguna huguðu börnin m.a. að náttúrunni, árstíðabundnu veðurfari og loftslagsbreytingum, siðferðilegum þáttum í samfélaginu og sjálfbærni, með það fyrir augum að virkja sköpunarkraftinn við varðveislu auðlinda hinnar nýju jarðar fyrir komandi kynslóðir.
Útnefning Varðliða umhverfisins 2020 og 2021 fór fram með rafrænum hætti á umhverfisþingi í apríl 2021.
Varðliðar umhverfisins 2020
Verkefni nemenda í 6. og 7. bekk Húsaskóla Fólk á flótta. Með verkefninu skoðuðu nemendur aðstæður flóttabarna og vandann sem þau standa frammi og settu þau sig m.a. í spor barna á flótta með gerð borðspila þar sem þau þurftu að takast á við þær áskoranir og erfiðleika sem börnunum mæta. Verkefnið er að mati valnefndar vel til þess fallið að opnað augu nemenda og annarra fyrir þeim margvíslegu áskorunum sem þjóðir heims standa frammi fyrir, m.a. vegna áhrifa loftslagsbreytinga á fjölbýl svæði víða um heim, en búast má við að loftslagsflóttamönnum eigi eftir að fjölga verulega á komandi árum.
Varðliðar umhverfisins 2019
Verkefni nemenda í 5. – 7. bekk í Ártúnsskóla í Reykjavík fjallaði um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sett var upp dagskrá þar sem Heimsmarkmiðin voru kynnt með glærusýningum, leikþáttum, myndböndum og veggspjöldum þar sem aðrir nemendur voru hvattir til aðgerða. Var hluti verkefnanna einnig kynntur á Menningarvöku skólans fyrir vinum og fjölskyldum nemendanna auk þess sem umhverfisnefnd skólans kom af stað matjurtaræktunarátaki í gluggakistum víða um skólabygginguna. Þá unnu nemendur í samstarfi við RÚV og Skógræktina myndefni um skógrækt og voru útdrættir úr efninu sýndir í Krakkafréttum RÚV í mars.
Nemendur í 9. og 10. bekk Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi tóku einnig fyrir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en út frá lögmálum nýsköpunar. Krakkarnir fóru í hugmyndavinnu þar sem þeir fundu nýjar lausnir á ólíkum umhverfisvandamálum og bjuggu þannig til vöru, þjónustu eða verkferli sem stuðlar að sjálfbærri þróun. Meðal nýjunga nemendanna voru fernur fyrir gosdrykki í stað plastflaskna, sólhattur sem um leið umbreytir sólarorku í raforku, leikfangaáskrift og þjónustan „Hundhverfisvænt“, sem gengur út á að hreinsa upp úrgang eftir hunda og nota til þess færri plastpoka en ella.
Varðliðar umhverfisins 2018
Nemendur í 9. bekk Grundaskóla á Akranesi hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins 2018 fyrir verkefnið „Hafðu áhrif“ sem ætlað var að vekja aðra til umhugsunar um umhverfismál. M.a. endurnýttu nemendur gamalt efni og saumuðu innkaupapoka sem seldir voru á Malavímarkaði skólans, unnu myndband um plastnotkun, gróðursettu plöntur og sendu bæjarstjóranum á Akranesi áskorun um að koma upp flokkunaraðstöðu í skógræktinni, svo fátt eitt sé nefnt.
Nemendur í Brúarskóla í Reykjavík hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins 2018 fyrir verkefni þar sem þeir rannsökuðu mismunandi eiginleika og birtingarform vatns. Þeir bjuggu m.a. til samstarfsverkefnið „Fossa“ úr ljósmyndum, textíl og málverki – listaverk sem voru sýnd á Barnamenningarhátíð. Þá unnu þeir plaköt, glærusýningu, Kahoot spurningakeppni, púsluspil og fleira. Upplýsingum og skoðunum nemenda og kennara um vatn var svo miðlað á sérstakri vefsíðu sem sett var upp fyrir verkefnið.
Tíundubekkingurinn Selma Rebekka Kattoll auk þeirra Eirar Ólafsdóttur, Eyrúnar Úu Þorbjörnsdóttur, Nínu Solveigu Andersen og Pauline Krogbäumker voru útnefndar Varðliðar umhverfisins 2018 en þær settu upp pokastöð í Melabúðinni í Vesturbænum. Markmiðið var að draga úr plastpokanotkun með því að bjóða viðskiptavinum verslana til láns margnýtanlega innkaupapoka sem saumaðir eru úr endurvinnanlegum efnum. Til að drífa verkefnið áfram standa þær reglulega fyrir opnum saumahittingum sjálfboðaliða, sem boðaðir eru í gegn um Facebook-hóp verkefnisins. Verkefnið er skráð í gagnagrunn Roots & Shoots, sem er ungmennahreyfing um umhverfismál sem Dr. Jane Goodall kom á fót.
Varðliðar umhverfisins 2017
Nemendur í 6. bekk Ártúnsskóla hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins 2017 fyrir verkefnið „Minna plast!“ Fengu þeir Krónuna til liðs við sig til að hvetja neytendur til að velja fjölnota poka í stað plastpoka. Nemendur útbjuggu spjöld með hvatningu um að nota fjölnota poka sem hengd voru á innkaupakörfur verslunarinnar auk þess sem þeir unnu spurningalista í því skyni að spyrja viðskiptavini Krónunnar um plastpokanotkun þeirra og þannig fá betri upplýsingar um umfang vandans.
Nemendur í Lýsuhólsskóla, Grunnskóla Snæfellsbæjar, voru einnig útnefndir Varðliðar umhverfisins 2017 fyrir sýningu sem þeir settu upp í Salthúsinu á sjávarbakkanum á Malarrifi í samvinnu við þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Þeir fram upplýsingar um staðinn á fjölbreyttan hátt og nýttu til þess náttúruleg og endurnýtt efni eftir kostum. Í sérstöku framhaldsverkefni greindu nemendur gestabók sýningarinnar út frá heimalöndum gesta og settu fram niðurstöðurnar í súluriti og á heimskorti með ferðaleiðum gestanna auk þess sem unnin voru kynningarspjöld um lönd og menningu gestanna.
Varðliðar umhverfisins 2016
Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins 2016 fyrir ljósmyndaverkefni sem allir nemendur skólans, í 3. – 10. bekk unnu sameiginlega í tveggja daga gönguferð um Loðmundarfjörð. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga og átti hver hópur að finna myndefni í náttúrunni sem tengdist níu hugtökum sem nemendur og kennarar ákváðu í sameiningu. Sem dæmi um hugtök má nefna gleði, frelsi, orka, kyrrð, auðlind og samspil manns og náttúru. Nemendur unnu myndirnar síðan í tölvu og útbjuggu myndasýningu sem kynnt var fyrir öðrum nemendum skólans.
Þá hlutu fjórir nemendur í 9. bekk Dalvíkurskóla aukinheldur einstaklingsviðurkenningu, þeir Helgi Halldórsson, Ragnar Freyr Jónasson, Sveinn Margeir Hauksson og Viktor Hugi Júlíusson. Viðurkenninguna fá þeir fyrir rapplagið Ekki menga! sem þeir sömdu í náttúrufræði og gerðu myndband við. Rapplagið hefur jafnframt verið valið sem umhverfissáttmáli skólans. Skilaboðin í myndbandinu eru skýr, við þurfum að hætta að menga til að eyðileggja ekki vistkerfi og umhverfi.
Varðliðar umhverfisins 2015
Nemendur í 9. bekk í Lágafellsskóla hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins 2015 fyrir verkefni sem unnin voru sem hluti af umhverfisþema í skólanum. Verkefnin voru margþætt; til að byrja með tóku nemendurnir fyrir ákveðin umhverfismál og kynntu fyrir samnemendum sínum í formi t.d. myndbanda, fréttaþátta, heimildarmynda eða rapplags. Í kjölfarið þurftu nemendur að taka sig á í tíu atriðum er varða umhverfið í sinni hversdagslegu hegðun á heimili sínu, allt frá því að nota færri handklæði í hverri viku og til þess að gera ítarlega áætlun í samráði við foreldra sína um það hvernig heimilið allt geti bætt sig í sjálfbærum lífsstíl. Loks afhentu nemendur bæjarstjóra Mosfellsbæjar áskorun með sjö tillögum um úrbætur í umhverfismálum bæjarins sem síðan var tekin fyrir hjá umhverfisnefnd bæjarins. Þaðan skiluðu hugmyndir þeirra sér í vinnu bæjarins við Staðardagskrá 21, sem lýtur að stefnumótun sveitarfélaga í sjálfbærnimálum.
Varðliðar umhverfisins 2014
Nemendur í Hvolsskóla fengu útnefninguna Varðliðar umhverfisins árið 2014 fyrir mælingar sem sjöundu bekkingar hafa gert á jökulsporði Sólheimajökuls frá árinu 2010 með hjálp GPS punkta. Mælingarnar eru merktar inn á mynd svo hægt sé að sjá og sýna öðrum hvernig jökullinn hopar ár frá ári. Í umsögn dómnefndar segir að um sé að ræða metnaðarfullt verkefni sem geri nemendum kleyft að rannsaka og upplifa á eigin skinni hvað áhrif loftslagsbreytingar hafa á nærumhverfi þeirra. „Í verkefninu takast nemendur á við raunhæf viðfangsefni, læra vísindaleg vinnubrögð um leið og það sýnir að grunnskólanemendur geta auðveldlega stundað rannsóknir á umhverfinu á einfaldan hátt.“
Varðliðar umhverfisins 2013
Nemendur þriggja skóla voru útnefndir Varðliðar umhverfisins árið 2013. Nemendur í 5. og 6. bekk Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi hlutu viðurkenningu fyrir verkefnið Breytum rétt - mengum minna. Nemendur söfnuðu saman smáraftækjum á borð við farsíma og tónhlöður í sérstök safnílát sem þeir hafa komu fyrir á áberandi stöðum í sveitarfélaginu. Þeir kynntu verkefnið með ýmsum hætti fyrir sveitungum sínum, s.s með því að skrifa í fréttablöð, útbúa kynningu fyrir samnemendur og með dreifingu bæklings á netinu og í fréttablaði sveitarfélagsins.
Nemendur í 7. bekk Melaskóla í Reykjavík hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir leikrit um umhverfismál sem sett var upp á jólaskemmtun skólans. Leikritið, sem byggir á smásögu eftir Ivan Gantschev, er ádeiluverk þar sem sjónum er beint að lífsgæðakapphlaupi og neyslumynstri nútímafólks.
Loks var Narfi Hjartarson, nemandi í 10. bekk í Patrekskóla – Grunnskóla Vesturbyggðar, útnefndur Varðliði umhverfisins en hann stofnaði Facebooksíðuna Fegrunarátak Patreksfjarðar þar sem hann fjallar um ýmislegt tengt umhverfismálum og ræktun.
Varðliðar umhverfisins 2012
Nemendur tveggja skóla voru útnefndir Varðliðar umhverfisins árið 2012. Nemendur í 7. og 8. bekk Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði hlutu útnefninguna fyrir vinnu sína að umhverfisþingi skólans, sem nemendur og starfsfólk skólans hafa staðið fyrir þrjú ár í röð. Eru allir í skólasamfélagi skólans og nærsveitum boðnir þangað velkomnir. Á hverju þingi hafa brýn umhverfismál sveitarfélagsins verið tekin fyrir en á þinginu í fyrra kynntu nemendur í 7. og 8. bekk rannsóknarniðurstöður sínar á sorpflokkun á heimilum í skólasamfélaginu, undir yfirskriftinni Ert þú í rusli? Er rusl hráefni eða úrgangur?
Nemendur Foldaskóla í Grafarvogi hlutu útnefninguna fyrir þátttöku sína í Norræna loftslagsdeginum árið 2010. Í tilefni dagsins var nærsamfélagið virkjað til að búa til stórt tré í skólanum sem minnti á mikilvægi trjánna, m.a. í loftslagsmálum. Nemendur lituðu laufblöð úr pappír og báru í hús og viðtakendur gerðu sér ferð með þau í skólann til að laufga með þeim grein á trénu Virðingu. Heilu fjölskyldurnar komu í skólann til að finna laufblaðinu stað á trénu og laufgaðist Virðingin hægt og bítandi.
Varðliðar umhverfisins 2011
Á Degi umhverfisins 2011 voru nemendur í umhverfisnefnd Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi útnefndir Varðliðar umhverfisins fyrir útgáfu ruslabæklings fyrir börn á öllum aldri. Bæklingnum var dreift á öll heimili og sumarbústaði í hreppnum. Markmið nemendanna með verkefninu var að leggja sitt af mörkum til að auka og stuðla að skilningi á breyttu fyrirkomulagi sorphirðu í sveitarfélaginu sem ætlað er að auka endurvinnslu úrgangs. Þess má geta að sveitarstjórn falaðist sérstaklega eftir samvinnu við skólann vegna sérþekkingu hans á málinu.
Varðliðar umhverfisins 2010
Á Degi umhverfisins 2010 voru nemendur Hvolsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins fyrir faglega skýrslu um umhverfisáhrif vegna framkvæmda við Landeyjahöfn. Í skýrslunni leitast nemendur við að varpa ljósi á umfang framkvæmdanna og áhrif þeirra á umhverfið með því að flétta viðfangsefnið inn í stærðfræði, eðlisfræði og náttúrufræði. Reiknaður var út umhverfiskostnaður af framkvæmdum í Landeyjahöfn, m.a. fundin út koltvísýringsmengun af flutningum grjóts í brimvarnargarð. Einnig voru borin saman þau áhrif sem eru af siglingum til Þorlákshafnar annars vegar og til Landeyjahafnar hins vegar með því að reikna út kostnað vegna olíunotkunar og magn koltvísýrings sem losnar út í andrúmsloftið á þessum tveimur siglingaleiðum. Að lokum veltu nemendur fyrir sér ávinningi landgræðslu með tilliti til bindingar koltvísýrings til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna.
Varðliðar umhverfisins 2009
Á Degi umhverfisins 2009 voru nemendur í Grunnskóla Siglufjarðar og Snælandsskóla í Kópavogi útnefndir Varðliðar umhverfisins.
Nemendur í Grunnskóla Siglufjarðar fæddir árið 1997 hlutu útnefninguna fyrir verkefnið J aðrakan .Nemendurnir fylgdust m.a. með ferðum merktra jaðrakana frá Bretlandi til Íslands og tóku þátt í merkingum fugla. Einnig létu nemendurnir sig búsvæði fuglanna varða, s.s. með ályktun um verndun þess. Verkefnið er samstarfsverkefni Grunnskóla Siglufjarðar og grunnskólabarna í bænum Cobh í Cork á Írlandi og nemendurnir hafa því skrifast á við félaga sína á Írlandi, fengið gögn þaðan og miðlað upplýsingum um stöðu verkefnisins í þeirra eigin skóla.
Haustið 2006 var sett á laggirnar reiðhjólaverkstæði við Snælandsskóla sem kallast Hjólarí. Nemendur í Hjólaríinu læra viðgerðir á reiðhjólum, þar eru ónothæf hjól nýtt sem varahlutir í önnur og afrakstur þess er fjöldi fullbúinna hjóla sem skólinn hefur m.a. fært Rauða krossinum að gjöf. Skólinn hefur í gegnum Hjólaríið orðið sér úti um reiðhjól fyrir bekkjardeildir til að nýta í styttri vettvangs- og skemmtiferðir, nemendur sem ekki eiga reiðhjól geta eignast ódýr hjól auk þess sem kennurum stendur til boða að kaupa hjól. Markmið verkefnisins er m.a. að endurnýta það sem mögulegt er og að nemendur læri að meta reiðhjól sem farartæki.
Varðliðar umhverfisins 2008
Árið 2008 voru nemendur úr Lýsuhólsskóla og Fossvogsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins við athöfn í Perlunni á Degi umhverfisins.
Karen Hjartardóttir, nemandi í 10. bekk Lýsuhólsskóla á Snæfellsnesi, bjó til Grænfánaspilið. Spilið leiðir fólk í gegnum ýmis umhverfisverkefni á skemmtilegan hátt og markmiðið er að flagga Grænfánanum, alþjóðlegri umhverfisviðurkenningu skóla.
Verkefni Fossvogsskóla fjallaði um veggjakrot og umgengni í skólahverfinu og var unnið af nemendum í 5., 6. og 7. bekk Fossvogsskóla. Í verkefninu var tekið á umgengismálum í hverfinu með aðstoð nemenda. Nemendur kortlögðu veggjakrot í hverfinu, skemmdarverk alls konar og slæma umgengni. Reiknaður var út kostnaður við að mála yfir veggjakrot í hverfinu og það tjón sem hverfið verður fyrir sökum þessa. Unnin voru póstkort úr endurunnu efni og á þau skrifuð ýmis konar slagorð tengd góðri umgengni við náttúruna og nánasta umhverfi. Póstkortin voru svo borin út til íbúa í skólahverfinu.
Varðliðar umhverfisins 2007
Árið 2007 voru fjórir hópar útnefndir varðliðar umhverfisins.
Nemendur í bekk 53 í Hólabrekkuskóla söfnuðu ruslpósti heima hjá sér í fjórar vikur og komu með í skólann. Þeir margfölduðu svo meðaltal þess sem barst þeim með fjölda heimila á Íslandi. Nemendurnir komust m.a. að því að ruslpóstur sem berst inn á heimili Íslendinga á ári er nærri því jafn mikill að rúmmáli og blokk í nágrenni skólans og u.þ.b. jafn þungur og 14 strætisvagnar. Krakkarnir kynntu verkefnið á Umhverfisþingi 2007 fyrir framan 350 áhorfendur.
Nemendur í Grunnskóla Tálknafjarðar bjuggu til skilti sem voru sett upp við skólann og víða um bæinn. Nemendur sömdu í sameiningu hentug slagorð á spjöldin. Þá var gerður umhverfissáttmáli milli nemenda og starfsfólks skólans og íbúa Tálknafjarðar. Sáttmálinn var settur á tvö spjöld og íbúar rituðu nöfn sín á spjöldin sem síðan voru hengd upp á hreppsskrifstofunni og í skólanum.
Nemendur í Álftamýrarskóla gerðu viðhorfskönnun í Kringlunni. Í könnuninni var m.a. spurt hvort fólk flokki rusl, hvort það hendi rusli á víðavangi og hvort það væri nægilega mikið af ruslatunnum á götum borgarinnar. Síðara verkefnið hét Við eigum aðeins eina jörð. Í því var fjallað um hvað einstaklingurinn getur gert til að bæta umhverfið, m.a. með bættum innkaupum, endurvinnslu og endurnýtingu.
Nemendur í stafrænu ljósmyndavali 10. bekkjar í Foldaskóla hönnuðu veggspjöld til að vekja fólk til umhugsunar um umhverfið.
Nemendur Lýsuhólsskóla fengur viðurkenninguna fyrir vinnu að gerð göngustígs í Kambsskarði og fyrir gerð Stubbalækjarvirkjunar. Markmið þess verkefnis var nýting endurnýjanlegrar orku í umhverfi skólans og lífræn ræktun í gróðurhúsi og matjurtagarði.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.