Hoppa yfir valmynd

Samgönguáætlun 2024-2038 (þingsályktunartillaga)

Þingsályktunartillaga um nýja samgönguáætlun til fimmtán ára, 2024-2038, hefur verið kynnt og birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda umsögn eða ábendingar til og með 31. júlí 2023 eða í tæpar sjö vikur. Mælt verður fyrir samgönguáætlun á Alþingi haustið 2023.

Áhersla er lögð á að auka öryggi í samgöngum, stytta vegalengdir, tengja byggðir og umhverfis- og loftslagsmál. Margar mikilvægar vegaframkvæmdir eru fyrirhugaðar með áherslu á aðskilnað akstursstefna, fækkun einbreiðra brúa og lagningu bundins slitlags á tengivegi. Þá verða framlög stóraukin til viðhalds vega. Framlög til uppbyggingar á innanlandsflugvöllum aukast til muna með varaflugvallargjaldi og stefnt er að því að byggja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Samhliða er lögð fram sérstök jarðgangaáætlun til 30 ára með forgangsröðun á tíu jarðgangakostum en fjórir aðrir jarðgangakostir verða einnig skoðaðir. 

Kynningarfundur um samgönguáætlun (13. júní 2023)

 


909 milljarðar í samgöngur

Gert er ráð fyrir að á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar verði 909 milljörðum kr. varið samgangna þar af um 263 ma.kr. á fyrsta fimm ára tímabili áætlunarinnar. Til viðbótar bætast við verkefni sem kunna að verða fjármögnuð með samvinnuverkefnum, s.s. ný Sundabraut og brú yfir Ölfusá.

Stórar framkvæmdir, tengivegir og stígar

Meðal helstu vegaframkvæmda í tillögu að samgönguáætlun 2024-2038 eru lokaáfangar við tvöföldun Reykjanesbrautar, framkvæmdir við Suðurlandsveg og Kjalarnesveg þar sem akstursstefnur verða aðskildar. Alls verða um 80 km af stofnvegum breikkaðir og akstursstefnur aðskildar. Þá nefna stórfellda uppbyggingu á Skógarstrandavegi, Vestfjarðavegi, Vatnsnesvegi, Norðausturvegi um Brekknaheiði og Skjálfandafljót, Bárðardalsvegi og á Hringvegi um Suðurfirði og Lagarfljót, um Lón og við Skaftafell. Síðast en ekki síst er stefnt að fækkun einbreiðra brúa um land allt. Miðað við tillöguna verður engin brú einbreið á Hringveginum í lok 15 ára tímabils áætlunarinnar. Alls mun einbreiðum brúm á landinu fækka um 79 á þessu tímabili. 

Haldið verður áfram með átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi út gildistíma áætlunarinnar með 2,5 ma. kr. framlög á ári. Áætlað er að með því móti muni takast að leggja bundið slitlag á um 619 km af vegum sem í dag eru malarvegir fyrir árið 2038. Loks verður hugað að uppbyggingu á göngu-, hjólreiða- og reiðstígum. Framlög til þessara innviða hafa aukist á undanförnum árum og áfram verður haldið á sömu braut.

Aukin framlög til viðhalds vega

Vegakerfið er einhver stærsta eign íslenska ríkisins og virði þess og gæði er varið með nauðsynlegu viðhaldi. Í tillögunni er lagt til að framlög til viðhalds vega muni aukast talsvert. Samtals verður 68 ma. kr. varið til viðhalds á tímabilinu 2024-2028. 

Framlög til flugvalla aukast til muna

Samkvæmt tillögu að nýrri samgönguáætlun munu framlög til flugvalla aukast til muna með upptöku nýs varaflugvallagjalds. Með því móti verður mögulegt að ráðast í mikilvægar framkvæmdir á varaflugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík,. Á Egilsstöðum er stærsta framkvæmdin uppbygging á flughlaði og akbraut. Á Akureyri verður framkvæmdum lokið við stækkun flugstöðvar og í Reykjavík verður ráðist í endurbyggingu flugstöðvar. Framlög til viðhalds flugvalla um land allt aukast til muna. 

Framlög til hafna hærri en í síðustu áætlun

Framlög til hafna um land allt eru nokkuð hærri en í síðustu áætlun. Samtals verður 7,7 millörðum kr. varið til málaflokksins á fyrsta tímabili samgönguáætlunar 2024-2028. Meðal helstu hafnaframkvæmda verða í Njarðvík, á Sauðárkróki og í Þorlákshöfn. Framkvæmdum á Ísafirði lýkur á fyrsta ári áætlunar.

Sérstök jarðgangaáætlun – allt að 14 göng á 30 árum

Í tillögunni að samgönguáætlun er sett fram jarðgangaáætlun til 30 ára. Lögð er til forgangsröðun næstu 10 jarðganga á Íslandi ásamt fjórum öðrum jarðgangakostum til nánari skoðunar. Jarðgöngin eiga öll það sameiginleg að vera lykilþáttur í að treysta búsetuskilyrði um land allt og veita umferð fram hjá hættulegum og óáreiðanlegum fjallvegum. Um er að ræða flest jarðgöng sem komið hafa til umfjöllunar á síðustu árum. Stefnt er að því að allir jarðgangakostir komi til framkvæmda á næstu 30 árum. 

Í áætluninni eru sett fram áform um árlega fjárfestingu, utan fjárhagsramma, á bilinu 12-15 milljarða kr. í jarðgangagerð til ársins 2038. Fjármögnun þeirrar fjárfestingar er hluti af heildstæðri endurskoðun tekjuöflunar af farartækjum og umferð. 

Tíu jarðgöng forgangsraðað

  1. Fjarðarheiðargöng
  2. Siglufjarðarskarðsgöng
  3. Hvalfjarðargöng 2
  4. Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur
  5. Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
  6. Breiðadalsleggur, breikkun
  7. Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng
  8. Miklidalur og Hálfdán
  9. Klettsháls
  10. Öxnadalsheiði

Fjórir jarðgangakostir til nánari skoðunar

  • Reynisfjall
  • Lónsheiði
  • Hellisheiði eystri
  • Berufjarðargöng og Breiðdalsheiðargöng

Miklar fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu

Unnið er að uppfærslu á forsendum samgöngusáttmála og að gera viðauka við hann. Í tillögunni er því gerður fyrirvari á framkvæmdatöflu sáttmálans. Viðbúið er að niðurstöður   viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga um málið muni hafa áhrif á hana. Í tillögunni er fjármagn til undirbúnings Sundabrautar tryggt, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við brautina hefjist árið 2026 og að hún opni fyrir umferð 2031. Brautin verði framkvæmd og fjármögnuð sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila.

Skýr áhersla á umhverfis- og loftslagsmál

Í tillögunni segir að endurnýjun á ferjum ríkisins sé brýn og að á fyrri hluta tímabilsins þurfi að undirbúa og hanna það skip sem næst verður endurnýjað og huga þarf að útskiptum á orkugjöfum. Þá verður þjónusta almenningssamgangna efld, svo sem með aukinni samþættingu leiðakerfa á landi, lofti og sjó og innleiðingu sameiginlegrar upplýsingagáttar auk þess sem unnið skal að því að auka möguleika á virkum ferðamátum með framkvæmdum við göngu- og hjólastíga um land allt. Þróun hágæðaalmenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, Borgarlínu, ásamt nýju stofnleiðakerfi hjólreiða verður lykilþáttur í þróun svæðisins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi. Þá er hafin vinna við mótun vegvísis að vistvænum samgöngum á Íslandi til ársins 2030 með skilgreindum og tímasettum aðgerðum sem miði að því að markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við 2005 verði náð. 

Fjármögnun

Framkvæmdatöflur fyrstu fimm ára samgönguáætlunar mótast af því svigrúmi sem fjármálaáætlun hverju sinni veitir. Ljóst er að eitt meginverkefni fjármálaáætlunar 2024-2028 er að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og þar með að halda aftur af ríkisútgjöldum. Fjármálaáætlun er endurnýjuð árlega. Aukist svigrúm mun það hafa jákvæð áhrif á ramma samgönguáætlunar og forgangsröðun framkvæmda og/eða þjónustustig vetrarþjónustu, almennrar þjónustu og almenningssamgangna.

Verkefnastofa skoðar tekjuöflun af umferð

Einnig er unnið er að heildstæðri endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af farartækjum og umferð á vettvangi sameiginlegrar verkefnisstofu innviðaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Fjármögnun samgöngusáttmála, samvinnuverkefna og jarðgangaáætlunar mun taka mið af niðurstöðum verkefnisstofunnar. 

Mikið samráð 

Stefnumótunarferli nýrrar samgönguáætlunar hófst í árs byrjun 2021 með gerð grænbókar, stöðumats um málaflokkinn, ásamt tillögum að valkostum til framtíðar. Í kjölfarið var unnin hvítbók, en í henni voru birt drög að stefnu. Samhliða vinnu við bæði stefnuskjölin voru haldnir opnir fundir í hverjum landshluta, með umræðum um áherslumál hvers þeirra. Hvort tveggja grænbókin og hvítbókin fóru einnig í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Þá var tekið tillit til vinnu og niðurstaðna í fjölmörgum verkefnis- og starfshópum.

Lögð fram í einu lagi

Samgönguáætlun er nú lögð fram í einu lagi til 15 ára en var áður skipt í tvennt, annars vegar stefnumótandi áætlun til 15 ára og hins vegar aðgerðaáætlun fyrir fyrstu fimm árin. Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Umferðaröryggisáætlun er unnin af starfshópi um umferðaröryggi í samráði við umferðaröryggisráð, Framsetningin byggir á þremur víddum ( safe systems approach) en þær eru notendur, farartæki og innviðir. Sett eru yfirmarkmið  og fyrir hvert þeirra mælanleg frammistöðumarkmið. Settar eru fram áherslur fyrir hverja vídd og á grundvelli þeirra byggja aðgerðir sem miða að því að ná árangri í markmiðum. 

Öryggisáætlun sjófarenda er unnin af starfshópi um öryggi sjófarenda í samráði við fagráð um siglingamál, Framsetningin byggir á þremur víddum ( safe systems approach) en þær eru notendur, farartæki og innviðir. Sett eru yfirmarkmið  og fyrir hvert þeirra mælanleg frammistöðumarkmið. Settar eru fram áherslur fyrir hverja vídd og á grundvelli þeirra byggja aðgerðir sem miða að því að ná árangri í markmiðum.

Hvítbók um samgöngumál

Hvítbók um samgöngumál er hluti af stefnumótunarferli samgönguáætlunar. Samgönguáætlun er unnin á grunni laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Drög að stefnumörkun hvítbókarinnar byggir m.a. á stöðumati grænbókarinnar, sem kom út í september 2021 ásamt upplýsingum af opnum samráðsfundum sem haldnir voru fyrir alla landshluta í október 2022 undir heitinu Vörðum leiðina saman.

Grænbók um samgöngumál

Grænbók um samgöngumál er hluti af stefnumótunarferli samgönguáætlunar. Samgönguáætlun er unnin á grunni laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Viðfangsefni grænbókar er stöðumat samgangna sem myndar grunn fyrir vinnslu hvítbókar, stefnuskjals í samgöngum og nýrrar samgönguáætlunar.

Umhverfisskýrsla samgönguáætlunar 2024-2038

Umhverfisskýrslan tekur til stærri framkvæmda sem verða í undirbúningi og skoðun á tímabilinu. Gerður er fyrirvari um að það ræðst af fjármagni og framvindu undirbúnings í hvaða framkvæmdir hægt verður að ráðast á tímabilinu.

Samgönguáætlun

Sjá einnig:

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum