Hoppa yfir valmynd
05. apríl 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Verðmætur stöðugleiki - grein í Morgunblaðnu 5. apríl 2018

Við Íslendingar uppskerum nú eftir markvissa stefnu undanfarin ár í efnahags- og ríkisfjármálum. Umsvif í hagkerfinu hafa aukist verulega, skuldir ríkis, heimila og fyrirtækja lækkað mjög og fjölbreytni í atvinnulífi, og þar með starfa, vaxið.
Þessa góðu stöðu ætlum við að nýta til að fjárfesta meira í innviðum, bæði efnahagslegum og félagslegum. Áskoranir næstu ár felast í því að varðveita þann góða stöðugleika sem við höfum náð, treysta velferð og nýta tækniframfarir í þágu betri þjónustu við allan almenning. 

Gjörbreytt staða með lægri skuldum

Í ríkisfjármálunum hefur skipt sköpum að taka til á skuldahliðinni. Frá árinu 2013 hafa skuldir ríkisins lækkað um 600 ma.kr. Vaxtagjöld ársins 2017 af lánum voru rúmlega 30 ma.kr. lægri en árið 2009. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 sem lögð var fram í gær er gert ráð fyrir frekari lækkun skulda og vaxtagjalda. Í lok tímabilsins vex ávinningur þessarar stefnu þannig að árleg vaxtagjöld verða 45 milljörðum lægri en þegar verst lét. Með markvissri uppgreiðslu skulda höfum við því gjörbreytt stöðunni og getum nýtt þetta fé til þarfari og ánægjulegri verka.

Hluta þessarar þróunar má rekja til mun betri kjara ríkisins á mörkuðum. Þannig hefur lánshæfiseinkunn ríkisins ítrekað verið hækkuð á síðustu árum og lék farsæl losun hafta þar mikilvægt hlutverk auk góðrar afkomu ríkissjóðs og sterkrar stöðu íslensks efnahagslífs. Við létum reyna á traust markaðarins til íslenskrar skuldabréfaútgáfu erlendis í lok síðasta árs, og fengum í kjölfarið bestu kjör sem ríkið hefur nokkurn tímann hlotið í slíkri útgáfu.
Að öðru leyti njótum við nú góðs af auknum umsvifum, enda hefur kakan stækkað. Með fjölgun starfa og hærri launagreiðslum í landinu hafa tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga vaxið verulega á umliðnum árum, þrátt fyrir lækkun skattprósentunnar og afnám miðþrepsins. Frá árinu 2015 hafa tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga hækkað um 40%.
Allt þetta skapar svigrúm til þess að fylgja áherslum nýrrar ríkisstjórnar myndarlega eftir, um innviðauppbyggingu og lækkun skatta.

Mikilvægi stöðugleikans

Stöðugleiki í efnahagsmálum er mikils virði, ekki síst þegar hann helst í hendur við heilbrigðan hagvöxt og almennt gott ástand í hagkerfinu; mikla atvinnuþátttöku, lítið atvinnuleysi, stöðugt gengi, litla verðbólgu og kaupmáttaraukningu. Árið 2017 skilaði hinum almenna launþega 5% kaupmáttaraukningu, ofan á um 7% árið 2016 og 8% aukningu árið 2015. Skuggahlið þessarar sóknar í lífskjörum er að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs hefur dalað. Hærri laun og sterkara gengi krónunnar setur þrýsting á útflutningsgreinar okkar og augljóst að sameiginlegir hagsmunir okkar liggja í því að leggja nú áherslu á stöðugleika, efnahagslegan- og félagslegan, og fjárfestingu til framtíðar. Slíkar áherslur eru líklegastar til að skila okkur öllum betri niðurstöðu til lengri tíma.

Það svigrúm sem skapast hefur til aukinnar fjárfestingar og styrkingar á ýmsum sviðum ætlar ríkisstjórnin að nýta á ákveðinn en ábyrgan hátt.

Sterkir innviðir og betri þjónusta

Fjárfestingar ná hámarki á árinu 2021. Gert er ráð fyrir um 75 milljarða fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala. Framlög til byggðamála verða aukin og eru samgöngu- og fjarskiptamál fyrirferðarmikil í áætluninni. Alls verður 124 milljörðum varið til fjárfestingar á þessu sviði frá 2019-2023, en sérstakt átak verður gert í samgöngumálum á árunum 2019-2021. Ráðist verður í uppbyggingu á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og ýmis verkefni á öðrum ferðamannastöðum. Af öðrum stærri fjárfestingum má nefna kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, uppbyggingu hjúkrunarheimila og Hús íslenskunnar sem rís á tímabilinu.

Fyrir utan uppbyggingu Landspítala er í áætluninni lögð sérstök áhersla á geðheilbrigðismál, að efla heilsugæslu og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Eins er stefnt að kerfisbreytingu til að bæta kjör öryrkja og efla þá til samfélagsþátttöku. Áformað er að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og lengja orlofstímann. Framlög hækka á hvern nemanda á framhalds- og háskólastigi og innviðir íslenskrar máltækni verða byggðir upp. Unnið verður að stofnun miðhálendisþjóðgarðs og gripið til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Landamæravarsla verður bætt, löggæsla efld og rekstur Landhelgisgæslunnar styrktur. Loks má nefna að framlög til varnarsamstarfs og þróunarsamvinnu verða aukin.

Lægri skattar og sanngjarnari bótakerfi

Lækkun skatta sem og afnám tolla og gjalda hefur skilað almenningi verulegri kjarabót undanfarin ár. Áfram er stefnt að minni álögum og skilvirkara skattkerfi, ásamt öflugu eftirliti. Stjórnvöld munu eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um samspil tekjuskatts og bótakerfa, en í fjármálaáætluninni er gengið út frá lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepinu. Í brennidepli endurskoðunar bótakerfa verður markvissari stuðningur við efnaminni heimili. Tryggingagjald lækkar samkvæmt áætluninni árið 2019, sérstakur bankaskattur verður lækkaður og stutt við nýsköpun með því að hækka þak vegna endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar, en stefnt er að afnámi þess síðar á tímabilinu. Uppsöfnuð áhrif skattalækkana í nýrri ríkisfjármálaáætlun eru um 25 milljarðar á ári.

Við erum á réttri leið. Með samstöðu, ábyrgð og stefnufestu munum við gera lífið betra fyrir alla Íslendinga.

Höfundur er fjármála- og efnahagsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira